Hæstiréttur íslands
Mál nr. 343/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Fjármálafyrirtæki
- Slit
- Skuldabréf
|
|
Föstudaginn 27. september 2013. |
|
Nr. 343/2013.
|
Deutsche Bank Trust Company Americas (Eyvindur Sólnes hrl.) gegn Kaupþingi hf. (Stefán A. Svensson hrl.) |
Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slit. Skuldabréf.
D lýsti kröfu við slit K hf. á grundvelli skuldabréfs. Deildu aðilar um það hvernig fara ætti með afslátt, sem veittur var af nafnverði við útgáfu skuldabréfsins, en slitastjórn K hf. taldi að lækka bæri fjárkröfu D vegna þessa afsláttar og samþykkti því aðeins kröfu D að hluta við slit K hf. Óumdeilt var að lög New York fylkis Bandaríkja Norður Ameríku giltu um túlkun skuldabréfsins og annarra samningsgagna aðila. Þá voru aðilar sammála um að samkvæmt lögum fylkisins gilti sú almenna regla um afsláttarbréf að færa skyldi höfuðstól skuldabréfs niður við gjaldfellingu þegar reiknaðir hefðu verið forvextir af skuldabréfinu við útgáfu þess þannig að einungis hluti af skráðum höfuðstól hefði í raun verið greiddur útgefanda. Deildu aðilar annars vegar um það hvort umrætt skuldabréf væri afsláttarbréf og í öðru lagi, ef svo væri, hvort samið hefði verið að víkja frá umræddri reglu New York fylkis. Í dómi Hæstaréttar kom fram að í umsýslusamningi aðila kæmi skýrt fram að þegar lýst væri yfir gjaldfellingu samkvæmt ákvæði samningsins, kæmi til greiðslu lægri fjárhæð en höfuðstólsfjárhæð skuldabréfsins. Að teknu tilliti til þess og stöðu samningsins, tilvísunar í skuldabréfi til hans og jafnframt þess að samkvæmt efni sínu væri skuldabréfið afsláttarbréf, var fallist á forsendur og niðurstöðu héraðsdóms um að fara bæri með skuldabréfið sem afsláttarbréf. Þá var talið að þegar litið væri til þess að skuldabréfið væri að efni sínu afsláttarbréf og þess að innbyrðis ósamræmi væri í ákvæðum umsýslusamnings um það hver væri réttur vörsluaðila til greiðslu við sjálfkrafa gjaldfellingu skuldabréfsins, hefði D ekki leitt nægjanlegar sönnur á að það hefði verið fyrirætlan beggja málsaðila að víkja með samningnum frá áðurgreindri almennri reglu New York fylkis. Var ákvörðun slitastjórnar því staðfest.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Benedikt Bogason, Eiríkur Tómasson og Greta Baldursdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. maí 2013, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. apríl 2013 þar sem krafa sóknaraðila, sem hann lýsti við slit varnaraðila, var viðurkennd í réttindaröð sem almenn krafa, sbr. 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., að fjárhæð 106.358.373.162 krónur. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. sömu laga. Sóknaraðili krefst þess að viðurkennt verði að fjárhæð kröfu hans sé 123.157.531.663 krónur og hún hafi sömu stöðu í réttindaröð. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Samkvæmt ákvörðun Hæstaréttar var málið munnlega flutt 20. september 2013.
I
Ágreiningur málsaðila lýtur að fjárhæð kröfu, sem sóknaraðili lýsti við slit varnaraðila. Eins og greinir í hinum kærða úrskurði er krafan reist á skuldabréfi að fjárhæð 897.240.000 bandaríkjadalir, sem varnaraðili gaf út 28. febrúar 2008 með lokagjalddaga 28. febrúar 2015, en jafnframt með tveimur valkvæðum gjalddögum 28. ágúst 2010 og 28. febrúar 2013, sem varnaraðili gat nýtt til greiðslu skuldabréfsins. Samtímis var gefið út skuldabréf að fjárhæð 2.760.000 bandaríkjadalir og eru skilmálar þess hinir sömu. Er rekið sérstakt mál fyrir Hæstarétti nr. 344/2013 vegna þess skuldabréfs. Samtals voru því gefin út skuldabréf að fjárhæð 900.000.000 bandaríkjadalir. Um var að ræða sjöttu útgáfu skuldabréfa, sem reist var á umsýslusamningi (rammasamningi) málsaðila 12. apríl 2006. Við flutning málsins fyrir Hæstarétti upplýstu málsaðilar að þau skuldabréf, sem gefin hefðu verið út áður á grundvelli umsýslusamningsins, væru frábrugðin þeim, sem hér um ræðir, að því leyti að þau hefðu hvorki verið afsláttarbréf samkvæmt efni sínu né uppfyllt skilyrði skilgreiningar um þau bréf.
Ágreiningslaust er að lög New York fylkis Bandaríkja Norður Ameríku gildi um sakarefni málsins. Málsaðilar hafa lagt fram sameiginlega bókun um efni þeirra laga að því er lýtur að túlkun samninga og vægi nokkurra skjala, sem liggja frammi í málinu. Í bókuninni segir einnig svo: ,,Samkvæmt New York lögum er farið með ,,upphaflegan afslátt“ ... (þ.e. mismunur þeirrar fjárhæðar sem er tilgreind sem höfuðstóll á forsíðu skuldabréfs og þeirrar fjárhæðar sem er í raun greidd útgefanda að láni) sem vexti sem falla til á upphafsfjárhæð yfir heildarlíftíma skuldabréfs. Það er til staðar almenn viðurkennd regla (,,the unearned interest rule“) að ekki sé unnt að gera kröfu um slíkan afslátt sem ekki er áfallinn á því tímamarki þegar gjaldfellingu er lýst yfir eða þegar greiðsla á sér stað fyrir gjalddaga (e. „early repayment“). Þrátt fyrir þessa reglu, heimila New York lög slíka kröfu geri samningur milli aðila ráð fyrir að slíkur ,,upphaflegur afsláttur“ komi til greiðslu í heild sinni við gjaldfellingu eða greiðslu fyrir gjalddaga.“
Samkvæmt þessu verður að leggja til grundvallar við úrlausn málsins að sóknaraðili, sem telur að vikið hafi verið frá hinni almennu reglu með samningi aðila, hafi sönnunarbyrði fyrir því að samið hafi verið um að upphaflegur afsláttur hafi átt að koma til greiðslu í heild sinni við gjaldfellingu eða greiðslu fyrir gjalddaga.
II
Í hinum kærða úrskurði er fyrst leyst úr þeim ágreiningi aðila, hvort skuldabréf það, sem sóknaraðili reisir kröfu sína á, sé afsláttarbréf eða ekki. Í umsýslusamningi er að finna svofellda skilgreiningu á því hvað sé afsláttarbréf: ,,,,Afsláttarbréf“ er sérhvert skuldabréf sem kveður á um að fjárhæð ... sem er lægri en höfuðstólsfjárhæð bréfsins, verði þegar í stað gjaldkræf þegar yfirlýsing um gjaldfellingu er gefin út samkvæmt gr. 5.2.“ Ágreiningslaust er að slíkt ákvæði er ekki að finna í skuldabréfinu. Þar segir á hinn bóginn svo: ,,HÉR MEÐ ER VÍSAÐ TIL FREKARI ÁKVÆÐA RAMMASAMNINGSINS OG ÞESSA SKULDABRÉFS SEM FRAM KOMA Á BAKHLIÐ ÞESSA SKJALS OG SKULU FREKARI ÁKVÆÐI HAFA SÖMU ÁHRIF AÐ ÖLLU LEYTI EINS OG SÉU ÞAU SETT FRAM Á ÞESSUM STAÐ.“ Í grein 3.10 staflið (i) í umsýslusamningi er svofellt ákvæði: ,,Ef yfirlýsing er gefin út um gjaldfellingu höfuðstóls einhvers afsláttarbréfs, þá skal fjárhæðin, sem er gjaldkræf samkvæmt því bréfi, vera afskrifað nafnverð bréfsins á dagsetningu slíkrar yfirlýsingar ásamt ógreiddum vöxtum sem fallið hafa þar á fram að dagsetningu slíkrar yfirlýsingar“.
Samkvæmt framansögðu kemur skýrt fram í umsýslusamningi að þegar lýst sé yfir gjaldfellingu samkvæmt grein 5.2 í samningnum komi til greiðslu lægri fjárhæð en höfuðstólsfjárhæð skuldabréfsins. Að teknu tilliti til stöðu þess samnings og framangreindrar tilvísunar skuldabréfsins til hans og jafnframt þess að samkvæmt efni sínu er skuldabréfið afsláttarbréf verður fallist á forsendur og niðurstöðu héraðsdóms um að fara beri með skuldabréf það, sem um ræðir, sem afsláttarbréf.
III
Í umsýslusamningnum eru ákvæði um gjaldfellingu á skuldabréfum, sem út eru gefin á grundvelli hans. Taka þau ákvæði því bæði til þeirra skuldabréfa, sem áður höfðu verið gefin út og teljast ekki afsláttarbréf, og þeirra sem út voru gefin á grundvelli sjötta viðauka við umsýslusamninginn, meðal annars þess skuldabréfs sem málið varðar. Ekki er ágreiningur um að skuldabréfið gjaldféll sjálfkrafa vegna ákvæða í (e), (f), (g) og (h) liðum í grein 5.1 umsýslusamningsins 9. október 2008 þegar Fjármálaeftirlitið tók yfir vald hluthafafundar varnaraðila, vék stjórn hans frá og setti yfir hann skilanefnd. Kom því ekki til þess að skuldabréfið yrði gjaldfellt með sérstakri yfirlýsingu. Í grein 5.2 í umsýslusamningnum, sem fjallar um gjaldfellingu, riftun og ógildingu, segir meðal annars svo: ,,Ef til vanefndatilviks kemur af því tagi sem lýst er í liðum (e), (f), (g) eða (h) að ofan skal tilgreindur gjalddagi allra skuldabréfa sjálfkrafa færast fram og höfuðstólsfjárhæð slíkra skuldabréfa, ásamt áföllnum vöxtum þar ofan á og öðrum fjárhæðum, ef um það er að ræða, verður þegar í stað gjaldkræf. Ef til annarra vanefndatilvika kemur í tengslum við einhvern skuldabréfaflokk sem eru viðvarandi, þá er vörsluaðila og eigendum ... heimilt að lýsa því yfir að höfuðstóll (að meðtöldu yfirverði, ef eitthvert er) eða (í tilviki afsláttarbréfa) sú lægri fjárhæð sem kann að vera kveðið á um í tengslum við slík bréf ... sé þegar í stað gjaldkræfur“.
Þá er í grein 5.4 í umsýslusamningnum að finna ákvæði um heimild vörsluaðila til að lýsa kröfum, sem hljóðar svo: ,,Ef yfirstandandi er slitameðferð, ógjaldfærni, skiptameðferð, gjaldþrot, endurskipulagning ... eða önnur málsmeðferð sem varðar félagið eða einhvern annan skuldara skv. skuldabréfum einhvers flokks eða eignir félagsins eða slíks annars skuldara eða kröfuhafa þeirra, þá skal vörsluaðila skuldabréfa í slíkum flokki (óháð því hvort höfuðstóll (eða lægri fjárhæð í tilviki afsláttarbréfa) einhvers skuldabréfs þess flokks verði þá gjaldkræfur eins og kveðið er á um í bréfinu eða skv. yfirlýsingu eða með öðrum hætti og óháð því hvort vörsluaðili hafi gert kröfu á hendur félaginu um greiðslu gjaldfallins höfuðstóls eða vaxta) vera heimilt og hafa vald, með íhlutun í slíka málsmeðferð eða öðrum hætti, til þess að: (a) leggja fram og lýsa kröfu um heildarfjárhæð höfuðstóls (eða lægri fjárhæðar í tilviki afsláttarbréfa) (og yfirverðs, ef eitthvert er) og vaxta, ef einhverjir eru, sem er útistandandi og ógreidd vegna skuldabréfa í þeim flokki“.
Þetta ákvæði felur í fyrsta lagi í sér þá reglu, að það sé vörsluaðili, sóknaraðili í þessu máli, sem einn sé bær til þess að lýsa kröfum við þær aðstæður, sem í ákvæðinu greinir. Var því enda slegið föstu í dómi Hæstaréttar 12. október 2011 í máli nr. 398/2011. Í öðru lagi verður ekki annað ráðið en að þær aðstæður, sem vísað er til í ákvæðinu, séu þær sömu og (e), (f), (g) og (h) liðir greinar 5.1 og þar með fyrri málsliður greinar 5.2 taka til. Í þriðja lagi er mælt fyrir um það í (a) lið greinar 5.4 að heimild vörsluaðila standi til ,,að lýsa kröfu um heildarfjárhæð höfuðstóls (eða lægri fjárhæðar í tilviki afsláttarbréfa)“. Orðalag ákvæðisins bendir ekki til að einungis sé um formreglu að ræða, heldur að þar sé einnig mælt fyrir um hvernig vörsluaðili eigi að lýsa þeim kröfum, sem hann hefur heimild til samkvæmt því sem áður segir, og í tilviki afsláttarbréfa eigi hann að lýsa lægri fjárhæð en upphaflegum höfuðstól.
Af því sem rakið hefur verið er ljóst að ekki er fullt samræmi milli greinar 5.4 í umsýslusamningnum annars vegar og greinar 5.2 í samningnum hins vegar. Þegar litið er til þess, sem áður segir, að skuldabréfið sem hér um ræðir er samkvæmt efni sínu afsláttarbréf og til þessa innbyrðis ósamræmis í ákvæðum umsýslusamningsins, verður fallist á það með héraðsdómi að sóknaraðili hafi ekki leitt nægjanlegar sönnur á að það hafi verið fyrirætlan beggja málsaðila að víkja frá áðurgreindri almennri reglu í lögum New York fylkis um niðurfærslu höfuðstóls skuldabréfs með forvöxtum við gjaldfellingu þess við þær aðstæður sem uppi eru í málinu.
Samkvæmt öllu framansögðu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðili greiði varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Deutsche Bank Trust Company Americas, greiði varnaraðila, Kaupþingi hf., 1.000.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. apríl 2013.
Máli þessu, sem er ágreiningsmál við slitameðferð varnaraðila, beindi slitastjórn varnaraðila, Kaupþings hf., Borgartúni 26, Reykjavík, til dómsins 1. september 2010 með vísan til 171. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 2. mgr. 120. gr. sömu laga. Sóknaraðili er Deutche Bank Trust Americas, Wall Street 60, New York, Bandaríkjum Norður Ameríku.
Upphaflega voru einnig aðilar að málinu 28 nafngreindir aðilar sem lýst höfðu kröfum við slitameðferð varnaraðila á þeim grundvelli að þeir væru hlutdeildarhafar (e. beneficial owners) í þeim heildarskuldabréfum sem mál þetta lýtur að og grein er gerð fyrir hér síðar. Við fyrirtöku málsins 22. nóvember 2011 féllu þessir aðilar endanlega frá aðild sinni að málinu. Ákvað dómari þá aðild málsins með þeim hætti sem áður greinir.
Sóknaraðili krefst þess að krafa hans nr. 20091228-0413 í kröfuskrá að fjárhæð 942.219.659.27 bandaríkjadalir eða 123.157.531.663,26 krónur sé viðurkennd sem almenn krafa í samræmi við ákvæði 113. gr. nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Hann krefst einnig málskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað, en staðfest verði sú afstaða varnaraðila að krafa sóknaraðila verði viðurkennd sem krafa með stöðu í réttindaröð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., að fjárhæð 106.358.373.162 kr., við slit varnaraðila. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.
Málsatvik
Málsatvik eru ágreiningslaus. Einnig er óumdeilt að sakarefnið lúti lögum New York fylkis Bandaríkja Norður Ameríku og aðilar eru einnig sammála um efnislegt inntak þeirra bandarísku lagareglna sem til greina koma við úrlausn málsins, eins og nánar er gerð grein fyrir síðar. Þá greinir hins vegar á um túlkun samnings og þar með hvernig fyrrgreind lög horfa við atvikum málsins.
A
Hinn 12. apríl 2006 gerði varnaraðili, sem þá starfaði sem fjármálafyrirtæki undir heitinu Kaupþing banki hf., umsýslusamning (e. senior indenture) við sóknaraðila þar sem gert var ráð fyrir því að varnaraðili gæti gefið út, á ýmsum tímum eftir því sem hann teldi henta, skuldabréf til meðallangs tíma (e. medium term notes) samkvæmt nánari ákvæðum samningsins. Samningurinn gerði ráð fyrir því að sóknaraðili yrði vörslumaður útgefinna skuldabréfa (e. global notes) sem yrðu skráð á markað í Lúxemborg og hlutdeild í þeim seld fjárfestum. Í samningnum er þessi ráðagerð um skuldabréfaútgáfu kennd við „áætlun um útgáfu á skuldabréfum til meðallangs lánstíma“ (e. medium term note program, skammstafað MTM Program).
Með útgáfulýsingu 19. júlí 2007 kynnti varnaraðili fyrirætlun sína um að gefa út á ýmsum tímum skuldabréf með meðallangan lánstíma að heildarhöfuðstól allt að jafnvirði 10 milljörðum bandaríkjadala til sölu á markaði til fagfjárfesta og stofnanafjárfesta fyrir tilstilli miðlara samkvæmt því sem nánar væri kveðið á um í útgáfulýsingunni. Á bls. 4 í útgáfulýsingunni kemur fram að varnaraðili hafi gert umsýslusamning við sóknaraðila. Er ágreiningslaust að sá umsýslusamningur sem þarna er vísað til sé sá sem að framan greinir.
Í upphafi útgáfulýsingarinnar kom fram að endanlegum skilmálum hvers hluta skuldabréfaútgáfunnar yrði lýst í sérstökum verðviðauka sem yrði afhentur verðbréfaþingi Lúxemborgar þegar um væri að ræða bréf sem skrá skyldi þar. Á forsíðu útgáfulýsingarinnar kom meðal annars fram að skuldabréf kynnu að vera gefin út sem afsláttarbréf (e. discount notes), verðtryggð bréf eða bréf með niðurfærslu (e. amortizing notes). Á bls. 136-138 í útgáfulýsingunni er fjallað um greiðslu höfuðstóls, kostnaðar og vaxta, ef þeim er að skipta. Á bls. 138 er fjallað um greiðslu höfuðstóls afsláttarbréfa eins og þau séu nánar skilgreind síðar í lýsingunni. Segir þar að ef höfðustóll slíks bréfs er gjaldfelldur, eins og lýst sé í kaflanum „Vanefndatilvik almenn bréf“ þá skuli greiða fjárhæð sem svari til niðurfærðs höfuðstóls (e. amortized face amount) á gjaldfellingardegi auk áfallina ógreiddra vaxta fram að gjaldfellingu. Þá er niðurfærslu höfuðstóls nánar lýst þegar um er að ræða afsláttarbréf sem ekki ber fasta vexti. Kemur þar efnislega fram að skipta beri afslætti niður á heildarlánstíma (samkvæmt almennt viðurkenndum fjármálavenjum) og færa skráðan höfðustól niður sem nemur því hlutfalli forvaxta sem telst samkvæmt þessu ógjaldfallinn við gjaldfellingu. Á bls. 150 er afsláttarbréfum lýst með því að sagt er að útgefandi kunni „á hverjum tíma að bjóða út skuldabréf („afsláttarbréf“) á útgáfuverði (sem tilgreint er í viðeigandi verðviðauka) sem er lægra en 100% höfuðstólsfjárhæðar viðkomandi bréfa (þ.e. nafnverð þeirra) um meira en prósentu sem jafngildir margfeldi 0,25% og fjölda heilla ára sem eftir eru af tilgreindum lánstíma“. Þá kemur fram að afsláttarbréf megi ekki bera markaðsvexti eða vexti sem séu lægri markaðsvöxtum. Þá segir að í útgáfulýsingunni sé vísað til mismunarins á útgáfuverði afsláttarbréfs og höfuðstóls (nafnverðs) sem „afsláttar“ (e. discount). Þá segir orðrétt: „Nú er afsláttarbréf innleyst, endurgreitt eða gjaldfellt fyrir gjalddaga og skal þá fjárhæðin sem greiða ber eiganda slíks afsláttarbréfs, jafngilda samtölu (i) [niðurfærða] nafnverðsins og (ii) ógreiddra vaxta sem fallið hafa þar á fram að degi slíkrar innlausnar, endurgreiðslu eða gjaldfellingar fyrir gjalddaga, eftir því sem við á. [/] Fjárhæð [niðurfærslu] sem [hefur] safnast upp á þeim degi sem afsláttarbréf er innleyst, endurgreitt eða gjaldfellt fyrir gjalddaga skal ákvörðuð með aðferð stöðugrar ávöxtunar [e. constant yield method] nema annað sé tekið fram í viðeigandi verðviðauka.“
B
Hinn 25. febrúar 2008 gaf varnaraðili út verðviðauka við útgáfulýsinguna 19. júlí 2007, þar sem hann lýsti fyrirætlun sinni að gefa út almenn skuldabréf (e. senior notes) í flokki G að heildarfjárhæð 900 milljónir bandaríkjadala með 7,625% vöxtum og gjalddaga 2015 (e. Series G 7.625% Note). Sagði í verðviðaukanum að ákvæði útgáfulýsingarinnar myndu eiga við bréfin nema annað væri tekið fram í viðaukanum. Í viðaukanum kom fram að andvirði sem rynni til útgefanda næmi 753.714.000 bandaríkjadalir en höfuðstóll væri, sem fyrr segir, 900 milljónir bandaríkjadala. Útgáfudagur skyldi vera 28. febrúar 2008. Valkvæðir gjalddagar, að kröfu handhafa, voru tilgreindir 28. ágúst 2010 og 28. febrúar 2013 en endanlegur gjalddagi 28. febrúar 2013. Í skjalinu er hakað við liðinn „upprunalegur útgáfuafsláttur“ (e. original issue discount). Er heildarútgáfuafsláttur tilgreindur 146.286.000 bandaríkjadalir og ávöxtun fram til gjalddaga sögð nema 10,283%. Kom fram að bréfin væru í upphafi boðin á 83,746% af skráðum höfuðstól.
Varnaraðili gaf út sérstaka viðauka (e. supplemental indenture) vegna útgáfu á tilteknum skuldabréfaröðum samkvæmt framangreindum umsýslusamningum, sbr. grein 8.1. Varnaraðili gaf út sjötta umsýslusamningsviðauka 28. febrúar 2008 út í þeim tilgangi að slá föstum skilmálum þeirrar skuldabréfaútgáfu sem boðuð var með áðurlýstum verðviðauka, dagsettum 25. sama mánaðar. Sama dag gaf varnaraðili út tvö skuldabréf (e. global notes), annað að fjárhæð 500 milljónir bandaríkjadala en hitt að fjárhæð 400 milljónir bandaríkjadala. Eru ákvæði bréfanna samhljóða því sem áður greinir um verðviðaukann, dagsettan 25. febrúar 2008, um þau atriði sem hafa þýðingu fyrir mál þetta. Í samræmi við grein 2.13(b) og (c) var höfuðstólsfjárhæðum bréfanna breytt þannig að annað bréfið, auðkennt 144A, nam 897.240.000 bandaríkjadölum, en hitt bréfið, auðkennt Reg S, 2.760.000 eða samanlagt 900 milljónum bandaríkjadala. Mál þetta lýtur að fyrrgreinda bréfinu en sambærilegt mál er rekið um síðargreinda bréfið samhliða máli þessu.
C
Samkvæmt heimild í 100. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, tók Fjármálaeftirlitið aðfaranótt 9. október 2008 yfir vald hluthafafundar í sóknaraðila, vék stjórn hans frá og setti yfir hann skilanefnd. Í málinu er ágreiningslaust að þessi aðstaða varnaraðila hafi falið í sér vanefnd samkvæmt e-, f-, g- og h-liðum greinar 5.2 í umsýslusamningi aðila. Þennan dag töldust því framangreind bréf sjálfkrafa gjaldfelld með vísan til ákvæða greinarinnar.
Með úrskurði héraðsdóms 22. apríl 2009, sem er upphafsdagur slitameðferðar varnaraðila, var varnaraðila skipuð slitastjórn sem gaf út innköllun til lánardrottna félagsins, en kröfulýsingarfresti lauk 30. desember 2009. Sóknaraðili lýsti kröfu 23. desember 2009, vegna heildarskuldar Kaupþings á grundvelli skuldabréfanna. Hefur varnaraðili bent á að í kröfulýsingunni sé umræddum bréfum lýst sem „afsláttarbréfi“ (e. dicount note). Með tilkynningu 1. maí 2010 var sóknaraðila tilkynnt að krafa hans hefði verið samþykkt en þó þannig að hún sætti lækkun með vísan til ákvæða útgáfulýsingar um niðurfærslu höfuðstóls.
Óumdeilt er að framangreind ákvörðun varnaraðila byggðist á því að bréfin væru afsláttarbréf í þeim skilningi sem áður ræðir. Snýr ágreiningur aðila í megindráttum að því hvort sú afstaða sé í samræmi við samning aðila þannig að varnaraðila sé niðurfærsla höfuðstóls heimil. Ekki er ágreiningur um tölulegan útreikning á niðurfærslu við þær aðstæður að fallist verði á meginmálsástæðu varnaraðila. Aðilar eru sammála um að lög New York fylkis Bandaríkja Norður Ameríku gildi um samningssamband þeirra, sbr. bls. 6 í útgáfulýsingu og grein 1.11 í umsýslusamningi.
Ekki er ástæða til að rekja sérstaklega bréfaskipti aðila eða önnur samskipti eftir að afstaða varnaraðila um lækkun kröfu sóknaraðila lá fyrir. Við aðalmeðferð málsins var ekki um að ræða munnlegar skýrslur. Hins vegar lögðu aðilar fram sameiginlega bókun um lögfræðileg atriði málsins sem gerð er grein fyrir og vísað er til í niðurstöðu dómsins.
Málsástæður og lagarök sóknaraðila
Sóknaraðili byggir málatilbúnað sinn á því að niðurfærsla höfuðstóls áðurlýstra skuldabréfa hafi verið óheimilt, hvort sem litið sé til umsýslusamnings aðila eða ákvæða skuldabréfanna sjálfra. Telur sóknaraðili að við þær aðstæður sem uppi séu í málinu leiði beinlínis af ákvæðum þessara skjala að niðurfærsla sé óheimil. Sóknaraðili vísar til þess að sú útgáfulýsing sem varnaraðili hafi útbúið og áður er lýst hafi þjónað þeim tilgangi að kynna bréfin fyrir fjárfestum og þar með afla fjár á mörkuðum. Útgáfulýsingin sé þannig upplýsingaskjal sem lýsi meðal annars starfsemi, stjórnun og regluverki varnaraðila, skuldabréfaútgáfunni almennt, hvernig nota eigi fjármagn sem tekst að afla í gegnum útgáfuna og áhættum sem felist í að fjárfesta í skuldabréfum. Lokaskilmála hafi hins vegar verið að finna í verðviðauka.
Með því að lesa útgáfulýsingu og verðviðauka hafi fjárfestar getað fengið grunnupplýsingar um varnaraðila og skuldabréf áður en tekin var ákvörðun um kaup þeirra. Sóknaraðili leggur hins vegar áherslu á að þau skjöl sem hafi haft að geyma bindandi skilmála fyrir aðila hafi verið skuldabréfin sjálf, umsýslusamningur og viðbótarumsýslusamningur. Sóknaraðili vísar í þessu sambandi til þess að skuldabréfin hafi haft að geyma skýra tilvísun til umsýslusamnings aðila og yfirlýsingu um að ákvæði þess samnings hafi átt að gilda um skuldabréfin. Sóknaraðili telur því að allt sem fram komi í útgáfulýsingu og verðviðauka takmarkist af ákvæðum umræddra skjala („hinna ráðandi skjala“). Útboðslýsing geti því ekki breytt réttindum hlutdeildareigenda skuldabréfs eða réttindum og skyldum varnaraðila. Um sé að ræða yfirlýsingu hans sjálfs sem bindi engan annan en hann sjálfan. Þá geri útgáfulýsingin ráð fyrir því að gefnar séu út ýmsar tegundir skuldabréfa og sé því ljóst að einungis sé um að ræða upplýsingaskjal.
Sóknaraðili áréttar einnig að samkvæmt lögum New York ríkis sé ljóst að ekki sé unnt að breyta skýrum ákvæðum hinna ráðandi skjala með vísan til texta útgáfulýsingar og vísar til fordæma þarlendra dómstóla því til stuðnings. Hann hefur einnig vísað, til hliðsjónar, til dóms Hæstaréttar Íslands 13. febrúar 2013 í máli nr. 11/2012, Burlington Loan Management Limited gegn Glitni Banka hf. Ef ákvæði skjalanna eru óskýr sé hins vegar hugsanlegt að varnaraðili geti vísað til útgáfulýsingar til fyllingar. Það eigi þó ekki við í málinu þar sem ákvæði hinna ráðandi skjala séu afdráttarlaus.
Sóknaraðili telur ljóst að umrædd skuldabréf séu ekki afsláttarbréf í skilningi samnings aðila. Sóknaraðili vísar í áðurlýsta grein 1.1 í umsýslusamningi um skilgreiningu á hugtakinu og telur ljóst að skuldabréfin fullnægi ekki þeim skilyrðum sem þar komi fram. Bréfin hafi þannig ekki að geyma yfirlýsingu um að lægri fjárhæð en höfuðstóll skuli greidd við gjaldfellingu.
Sóknaraðili vísar einnig til þess að gjaldfelling hafi farið fram með vísan til greinar 5.1 (e), (f), (g) og (h) í umsýslusamningi. Þá leggur sóknaraðili áherslu á að fyrri málsliður greinar 5.2 kveði skýrt á um að við sjálfkrafa gjaldfellingu, svo sem eigi við í málinu, beri að greiða höfuðstól bréfs án þess að þar sé gerður fyrirvari um afslátt eða niðurfærslu. Ákvæði bréfanna geri á sama hátt ráð fyrir þessu á bakhlið. Hvorki í umsýslusamningi né bréfunum sjálfum sé að finna tilvísun til niðurfærslu við þær aðstæður sem uppi séu í málinu.
Af hálfu sóknaraðila er því einnig haldið fram að í sjötta verðviðauka sé gert ráð fyrir því að höfuðstólsfjárhæð, þ.e. 900 milljónir bandaríkjadala, sé sú fjárhæð sem skráð sé í bókum sóknaraðila sem vörsluaðila. Í samræmi við ákvæði 2.13 (b) og (c) hafi einnig verið hægt að breyta höfuðstólsfjárhæðum með skráningu í bókum vörsluaðila og eftir útgáfuna hafi þessi heimild verið nýtt.
Sóknaraðili mótmælir þeim skilningi varnaraðila að umrædd bréf séu afsláttarbréf eða að útgáfulýsing geti gengið framar umsýslusamningi, viðbótarumsýslusamningi og skuldabréfi. Jafnvel þótt fallist yrði á að um væri að ræða afsláttarbréf telur sóknaraðili þó að varnaraðila sé óheimilt að færa niður höfuðstól bréfanna. Vísar sóknaraðili þessu til stuðnings til þess að fyrri málsliður greinar 5.2 í umsýslusamningi geri ráð fyrir greiðslu alls höfuðstóls þegar um sé að ræða sjálfkrafa gjaldfellingu, sbr. fyrrgreinda liði (e), (f), (g) eða (h) greinar 5.1. Niðurfærsla höfuðstóls afsláttarbréfs komi þannig einungis til greina við gjaldfellingu samkvæmt yfirlýsingu kröfuhafa, eins og fram komi í síðari málslið greinar 5.2. Sóknaraðili telur jafnframt að samkvæmt umsýslusamningi eigi reglan um niðurfærslu höfuðstóls einungis við um afsláttarbréf sem ekki beri fasta vexti.
Sóknaraðili bendir jafnframt á dóm Hæstaréttar í máli nr. 11/2012, Burlington Loan Management Limited gegn Glitni Banka hf. Í því máli komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að engar heimildir væri að finna í skilmálum skuldabréfa fyrir Glitni til að greiða bréfin þannig að nafnverðið væri fært niður vegna afsláttar við útgáfu. Í forsendum dómsins er jafnframt tekið fram að samningsvextir sem krafan bæri skyldu reiknaðir af fullu nafnverði skuldabréfanna en það sama á við um útreikning vaxta af heildarskuldabréfunum. Á þessum grunni staðfesti Hæstiréttur að krafa Burlington Loan Management skyldi samþykkt með fullum höfuðstól án afsláttar. Sóknaraðili telur að sama eigi við í þessu máli enda enga heimild að finna í skilmálum heildarskuldabréfanna fyrir niðurfærslu höfuðstóls við gjaldfellingu.
Sóknaraðili bendir einnig á að til þess að breyta samningi aðila eða skuldabréfinu þurfi að fylgja fyrirmælum 8. gr. umsýslusamnings, en það hafi ekki verið gert.
Í ljósi þess að ekki er fyrir hendi ágreiningur um fjárhæðir er ekki ástæða til að gera grein fyrir sundurliðun kröfu sóknaraðila. Um lagarök er af hálfu sóknaraðila vísað til laga nr. 19/1991 um gjaldþrotaskipti, sérstaklega til 117. gr. þeirra laga. Um lagaskilarétt er vísað til laga nr. 43/2000, sérstaklega 3. gr. þeirra laga.
Málsástæður og lagarök varnaraðila
Varnaraðili grundvallar málatilbúnað sinn á því að framangreind skuldabréf séu afsláttarbréf og beri að færa kröfu sóknaraðila niður í samræmi við það. Varnaraðili mótmælir einnig þeim skilningi sóknaraðila að heimildir skorti til að færa niður höfuðstól við þær aðstæður að umrædd bréf séu ekki talin afsláttarbréf í skilningi samnings aðila.
Varnaraðili tekur undir með sóknaraðila um að eðlilegt og rétt sé að líta til texta útgáfulýsingarinnar til fyllingar samningi. Vísar hann til fordæma bandarískra dómstóla þessu til stuðnings en telur áþekkar reglur gilda að íslenskum rétti. Varnaraðili ber ekki brigður á að umrædd skuldabréf hafi sjálfkrafa fallið í gjalddaga 9. október 2008 vegna þeirra vanefndatilvika sem áður er lýst, sbr. heimild í fyrri málslið greinar 5.2 í umsýslusamningi. Andstætt sóknaraðila telur varnaraðili hins vegar ljóst að umrædd bréf hafi verið afsláttarbréf þegar litið sé til samnings aðila í heild og samræmis gætt.
Varnaraðili vísar til þess að í grein 3.10(i) í umsýslusamningi sé tekið fram að færa skuli höfuðstól afsláttarbréfs niður við gjaldfellingu og einnig sé í grein 5.4(a), sem miðist við þau vanefndatilvik sem rakin séu í fyrri málslið greinar 5.2, gert ráð fyrir því að vörslumaður skuldabréfs geri kröfu um lægri fjárhæð þegar um sé að ræða afsláttarbréf. Samkvæmt þessu sé gert ráð fyrir niðurfærslu þeirra bréfa sem hér um ræði. Er túlkun sóknaraðila á umræddum greinum mótmælt og fullyrt að slík skýring sé einnig í andstöðu við almennar reglur New York fylkis.
Ef talið er að um sé að ræða innbyrðis ósamræmi í umsýslusamningi aðila telur sóknaraðili það skýrlega leiða af fordæmum dómstóla New York fylkis að leggja beri útgáfulýsingu til grundvallar við nánari skýringu og fyllingu. Að mati varnaraðila tekur útgáfulýsingin hins vegar af öll tvímæli um að færa skuli höfuðstól þeirra skuldabréf sem hér um ræðir niður.
Varnaraðili telur að fullyrðing sóknaraðila um að umrædd skuldabréf séu ekki afsláttarbréf sé í andstöðu við kröfulýsingu hans 23. desember 2009, en þar segi berum orðum á bls. 4 að bréfin hafi verið afsláttarbréf („the Series G Global Notes are Discount Notes“). Af þessari yfirlýsingu sé sóknaraðili bundinn, sbr. meðal annars 117. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti, o.fl. Samkvæmt lögum New York fylkis eigi einnig að skýra samning aðila til samræmis við sameiginlegan skilning þeirra. Varnaraðili leggur á það áherslu að í umræddu tilviki hafi raunverulega verið veittur afsláttur af nafnvirði skuldabréfs en lög New York fylkis séu skýr um að við þær aðstæður eigi reglan um niðurfærslu höfuðstóls við sé ekki kveðið á um annað í samningi. Vísar varnaraðili til framlagðra lögfræðiálita og fordæma dómstóla New York fylkis þessu til stuðnings.
Varnaraðili mótmælir einnig þeim skilningi sóknaraðila að reglan um niðurfærslu höfuðstóls eigi einungis við um skuldabréf sem ekki bera fasta vexti og telur að sú túlkun fái ekki stoð í gögnum málsins. Hann vísar þessu til stuðnings til greinar 3.10(i) og greinar 5.4(a) í rammasamningi þar sem gert sé ráð fyrir að afsláttarbréf séu færð niður án tillits til þess hvort „skuldabréfið“ beri vexti eða ekki. Þá vísar hann til þess að þótt reikniregla umsýslusamnings um niðurfærslu taki samkvæmt orðum sínum aðeins til skuldabréfa sem ekki bera fasta vexti standi engin rök til annarrar aðferðar þegar skuldabréf beri vexti. Í öllu falli geti það aldrei staðist að um enga niðurfærslu við gjaldfellingu sé að ræða, líkt og sóknaraðili haldi fram.
Varnaraðili bendir einnig á að samkvæmt lögum New York fylkis sé ótvírætt litið svo á að við gjaldfellingu teljist ákveðinn hluti forvaxta, þ.e. útgáfufalla, ekki gjaldfallinn. Þessi hluti forvaxta yrði því að teljast eftirstæð krafa, sbr. 114. gr. laga nr. 21/1991, en krafa og málatilbúnaður sóknaraðila tekur ekkert mið af þessu.
Varnaraðili telur að færa eigi höfuðstól umræddra skuldabréfa niður með þeim hætti að við þá fjárhæð sem varnaraðila var greidd sem andvirði bréfanna, þ.e. 751.402.610,40 bandaríkjadalir, bætist einungis 11.780.284,49 bandaríkjadalir. Sú fjárhæð sé það hlutfall útgáfuafsláttar, þ.e. 146.286.000 bandaríkjadala, sem teljist hafa verið gjaldfallið 9. október 2008 samkvæmt þeirri reiknireglu sem lýst sé í útgáfuskilmálum og einnig sé almennt viðurkennd samkvæmt lögum New York fylkis. Samkvæmt þessari reglu telur varnaraðili að í útgáfuafslætti (forvöxtum) hafi falist 2,55% árlegir vextir sem svari til framangreindrar fjárhæðar miðað við að vextir séu reiknaðir 194 daga. Í ljósi þess að ekki er ágreiningur um þennan útreikning varnaraðila er ekki ástæða til að gera nánari grein fyrir útreikningi varnaraðila. Sem fyrr segir er ekki heldur ágreiningur um áfallna samningsvexti til 9. október 2008 eða áfallna vexti fram að upphafi slitameðferðar 22. apríl 2009. Er því ekki ástæða til að rekja sérstaklega útreikning varnaraðila á þessum hluta kröfunnar. Samtals sundurliðar varnaraðili því samþykkta kröfu með eftirfarandi hætti:
|
Niðurfærður höfðustóll (e. amortized face amount) |
USD 763.182.894,89 |
|
Samningsvextir frá 28.08.2008 til 09.10.2008 |
USD 7.791.657,08 |
|
Gjaldfallin fjárhæð |
USD 770.974.551,97 |
|
|
|
|
Vextir frá 09/10/08 til 22/04/09 á gjaldfallna fjárhæð |
USD 42.722.740,99 |
|
Samtals |
USD 813.697.292,96 |
Gögn málsins og afstaða aðila til erlendra laga
Í tilefni af máli þessu hafa aðilar aflað álitsgerða utan réttar um þau lög New York fylkis sem þeir telja hafa þýðingu. Er þar annars vegar um að ræða álit Richard J. Holwell, lögmanns í New York og fyrrverandi héraðsdómara við alríkisdómstól Bandaríkjanna, frá 19. október 2012. Hins vegar er þar um að ræða álit Howard A. Levine lögmanns, 10. janúar 2013. Þá hafa aðilar lagt fram endurrit ýmissa þeirra dóma sem vísað er til í fyrrgreindum álitum.
Með vísan til fyrrgreindra álitsgerða og dómafordæma lögðu aðilar fram bókun við aðalmeðferð málsins þar sem þeir lýstu því yfir að ekki væri fyrir hendi ágreiningur um efnislegt inntak laga New York fylkis. Þá lýstu málsaðilar því sérstaklega yfir að þeir væru sammála um eftirfarandi atriði laga New York fylkis: 1) Að túlka eigi samninga í heild sinni þannig að ætlan samningsaðila með samningi komi fram og almennur tilgangur samnings eins og hann kemur fram í orðum samnings. Þar sem orðalag samnings sé skýrt og ótvírætt, sé slíku orðalagi framfylgt samkvæmt venjulegri merkingu þess. Túlka eigi samning þannig að gætt sé innbyrðis samræmis, þannig að hvert ákvæði hafi gildi og þannig að ákvæði verði ekki merkingarlaus eða þeim ofaukið; 2) Að útgáfulýsing sem notuð er við sölu á skuldabréfi geti ekki breytt eða þrengt merkingu á ótvíræðu ákvæði skuldabréfs eða umsýslusamnings (e. indenture) sem gerður er um útgáfu skuldabréfs; 3) Að við túlkun megi líta til annarra skjala ef skuldabréf, umsýslusamningur eða umsýslusamningsviðauki er óskýr; 4) Að samkvæmt nefndum lögum sé farið með „upphaflegan afslátt“ (e. „original issue discount“) sem vexti sem falli til yfir heildarlíftíma skuldabréfs. Fyrir hendi sé almenn viðurkennd regla (e. „the unearned interest rule“) á þá leið ekki sé unnt að gera kröfu um slíkan afslátt sem ekki er áfallinn á því tímamarki þegar gjaldfellingu er lýst yfir eða þegar greiðsla á sér stað fyrir gjalddaga (e. „early repayment“). Þrátt fyrir þessa reglu, heimili New York lög slíka kröfu, geri samningur milli aðila ráð fyrir að slíkur „upphaflegur afsláttur“ komi til greiðslu í heild sinni við gjaldfellingu eða greiðslu fyrir gjalddaga.
Niðurstaða
Í máli þessu liggur fyrir að 28. febrúar 2008 gaf varnaraðili, sem þá starfaði sem fjármálafyrirtæki undir heitinu Kaupþing banki hf., út tvö heildarskuldarbréf (e. global notes) að samanlagðri höfuðstólsfjárhæð 900 milljónir bandaríkjadala. Var þetta gert með útgáfu sjötta samningsviðauka (e. supplemental identure) við umsýslusamning aðila 12. apríl 2006, sbr. grein 8.1 í síðarnefnda samningnum (e. senior identure). Einnig liggur fyrir í málinu útgáfulýsing (e. offering circular) 19. júlí 2007 þar sem varnaraðili kynnti fyrirætlun um heildarskuldabréfaútgáfu að hámarki 10 milljörðum bandaríkjadala samkvæmt nefndum umsýslusamningi. Þá er fram komið að framangreind skuldabréfaútgáfa 28. febrúar 2008 var kynnt fjárfestum með sérstökum verðviðauka (e. pricing supplement) við útgáfulýsinguna 19. júlí 2007 og er verðviðaukinn dagsettur 25. febrúar 2008.
Í málinu er óumdeilt að lög New York fylkis Bandaríkja Norður Ameríku gildi um framangreinda skuldabréfaútgáfu og þar með tilurð og fjárhæð kröfu sóknaraðila, sbr. einnig grein 1.11 umsýslusamnings og bls. 6 í útgáfulýsingu. Leiðir af þessu að líta verður svo á að umrædd lög gildi um nánari túlkun á samningi aðila samkvæmt framangreindum skjölum að því marki sem efni hlutaðeigandi réttarreglna hefur verið leitt í ljós, sbr. 2. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, og aðilar hafa ekki ráðstafað sakarefninu með öðrum hætti. Verður í þessu tilliti að líta til þess að aðilar hafa lýst yfir sameiginlegum skilningi á þeim almennu atriðum laga New York fylkis sem geta átt við um sakarefni málsins.
A
Aðilar eru sammála um að samkvæmt lögum New York fylkis gildi sú almenna regla að færa skuli höfuðstól skuldabréfs niður við gjaldfellingu þegar reiknaðir hafa verið forvextir af skuldabréfinu við útgáfu þess þannig að einungis hluti af skráðum höfuðstól hefur í raun verið greiddur útgefanda. Samkvæmt þeim gögnum sem fyrir liggja um lög New York fylkis byggist nánari útreikningur niðurfærslu á venju og fer þannig fram að litið er á útgáfuafslátt (einnig nefndur „útgáfuafföll“) sem forvexti sem jafnað er á lánstímabilið í heild sinni. Er einungis þeim hluta forvaxta sem teljast áfallnir á gjaldfellingardegi bætt við þá fjárhæð sem útgefanda var í raun greidd og telst þannig raunhöfuðstóll bréfsins. Felur reglan þannig í sér að forvextir, sem taldir eru falla til eftir gjaldfellingu bréfs, falla niður með sambærilegum hætti og gildir um ógjaldfallna samningsvexti samkvæmt almennum reglum.
Í munnlegum málflutningi kom fram að aðilar teldu að umrædd regla New York laga um niðurfærðan höfuðstól væri sama efnis og sú regla sem rakin er á bls. 138 í fyrrgreindri útgáfulýsingu, en til þessarar reglu er einnig vísað í grein 3.10 (i) í áðurnefndum umsýslusamningi með því að kveðið er á um niðurfærslu höfuðstóls afsláttarbréfs (e. amortized face amount). Í útgáfulýsingu er umrædd regla einnig talin eiga við um „afsláttarbréf“, eins og þau séu nánar skilgreind í útgáfulýsingu, nema annað leiði af verðviðauka. Á bls. 150 í útgáfulýsingu er „afsláttarbréf“ efnislega skilgreint sem skuldabréf sem boðið er fram á útgáfuverði, eins og það er skilgreint í viðeigandi verðviðauka, sem er lægra en höfuðstólsfjárhæð bréfsins. Telur dómurinn þessa lýsingu útgáfulýsingar vera í samræmi við þá afmörkun á efnislegu gildissviði reglu New York laga um niðurfærslu höfuðstóls sem áður er rakin.
Í grein 1.1 umsýslusamnings er hugtakið „afsláttarbréf“ skilgreint sem „sérhvert skuldabréf sem kveður á um að fjárhæð (að undanskildum fjárhæðum sem er að rekja til áfallinna en ógreiddra vaxta af því) sem er lægri en höfuðstólsfjárhæð bréfsins, verði þegar í stað gjaldkræf þegar yfirlýsing um gjaldfellingu er gefin út samkvæmt grein 5.2. Samkvæmt málatilbúnaði sóknaraðila leiðir af þessari skilgreiningu umsýslusamningsins að bréf, sem ekki hefur að geyma orðaða yfirlýsingu um niðurfærslu höfuðstóls við gjaldfellingu, getur aldrei talist afsláttarbréf og sætt niðurfærslu samkvæmt umræddri reglu.
B
Á það verður að fallast með sóknaraðila að hvorki framangreind heildarskuldabréf, né verðviðaukar þeim tengdir, hafa að geyma orðaða yfirlýsingu á þá leið að gjaldfelling þeirra leiði til þess að fjárhæð sem er lægri höfuðstólsfjárhæð bréfsins verði gjaldkræf. Hins vegar eru skuldabréfin, svo og verðviðaukar, ótvíræð um að útgáfuverð þeirra sé 753.714.000 bandaríkjadalir eða 83,746% af höfuðstól og útgáfuafsláttur (e. original issue discount) sé 146.286.000 bandaríkjadalir. Er árleg ávöxtun bréfanna, sem bera 7,625% fasta vexti, þannig tilgreind 10,283%. Jafnframt er í þessum skjölum tiltekið að endurgreiðsla, miðað við fyrsta valkvæða tímamark uppgreiðslu, að kröfu handhafa bréfs, miðist við 28. ágúst 2010 og nemi þá 86.901% af höfuðstól.
Samkvæmt framangreindu er í umræddum heildarskuldabréfum og verðviðaukum ótvírætt mælt fyrir um útgáfuafslátt og gert ráð fyrir því að tekið sé tillit til þessa afsláttar sem forvaxta sem bætist við fasta samningsvexti þegar heildarávöxtun bréfanna er virt. Án tillits til þess hvort umrædd bréf falla fyllilega að fyrrgreindri skilgreiningu greinar 1.1 í umsýslusamningi þykir samkvæmt þessu ekki varhugavert að líta svo á að framangreind skuldabréf séu þess eðlis að þau falli undir þá réttarreglu New York laga um niðurfærslu höfuðstóls við gjaldfellingu sem áður er lýst.
Um það er samkomulag með aðilum að lög New York fylkis séu frávíkjanleg um niðurfærsluhöfuðstóls við þær aðstæður sem uppi eru í máli þessu. Lýtur meginágreiningur aðila þannig að því hvort túlka beri þau samningsgögn, sem áður hefur verið gerð grein fyrir, á þá leið að samið hafi verið svo um að umrædd réttarregla um niðurfærslu höfuðstóls afsláttarbréfs við gjaldfellingu gildi ekki um lögskipti aðila.
C
Við túlkun á samningi aðila verður að horfa til þeirrar almennu reglu laga New York fylkis, sem áður greinir, að höfuðstóll skuldabréfs sem gefið hefur verið út með forvöxtum, sé lækkaður að ákveðinni tiltölu við gjaldfellingu. Þá verður einnig að líta til þeirra sanngirnisraka (e. the equitable principle) sem reglan grundvallast á, sbr. einkum forsendur dóms Hæstaréttar New York sýslu 2. desember 1968 í máli Bermann gegn Schwartz sem birtur er í dómasafni réttarins 1968, 2. bindi, bls. 184.
Að þessu virtu, svo og með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem aðilar eru sammála um að gildi um túlkun samninga samkvæmt lögum New York fylkis, verður að gera þá kröfu að vilji aðila til þess að kveða á um óskerta endurgreiðslu nafnverðs höfuðstóls afsláttarbréfs við sjálfkrafa gjaldfellingu skuldabréfs komi með skýrum og afdráttarlausum hætti fram í ákvæðum samnings.
D
Samkvæmt grein 5.2 í umsýslusamningi skal höfuðstólsfjárhæð skuldabréfs, ásamt áföllnum vöxtum, þegar í stað verða gjaldkræf við ákveðin vanefndatilvik, þ. á m. þegar úrskurður er kveðinn upp af þar til bærum dómstólum um slit útgefanda eða þegar skiptastjóri, bústjóri eða sambærilegur aðili er skipaður til að fara með allan rekstur og eignir útgefanda og slíkum aðgerðum er ekki aflétt innan 30 daga. Er í málsliðnum ekki vikið sérstaklega að afsláttarbréfum og niðurfærslu höfuðstóls þeirra við þessar aðstæður. Í síðari málslið greinarinnar, þar sem fjallað er um heimild til þess að lýsa yfir gjaldfellingu vegna tiltekinna annarra vanefndatilvika, er hins vegar berum orðum gerður fyrirvari um að í tilviki afsláttarbréfs miðist krafa við þá lægri fjárhæð sem leiði af þeim nánari ákvæðum sem gildi um slík bréf. Byggir sóknaraðili málatilbúnað sinn efnislega á því að gagnálykta beri frá orðalagi fyrri málsliðar greinarinnar á þá leið að niðurfærsla höfuðstóls afsláttarbréfs komi einungis til greina þegar um gjaldfellingu höfuðstóls samkvæmt sérstakri yfirlýsingu kröfuhafa sé að ræða. Þegar um sé að ræða sjálfkrafa gjaldfellingu skuldabréfs gildi hins vegar sú sérregla að óskertur höfuðstóll verði gjaldkræfur, sbr. fyrri málslið greinarinnar.
Þar er fyrst til að taka að í fyrrgreindum fyrri málslið greinarinnar er ekki vikið sérstaklega að afsláttarskuldabréfum heldur er einungis fjallað um endurgreiðslu höfuðstóls skuldabréfs, ásamt áföllnum vöxtum, við sjálfkrafa gjaldfellingu. Verður þannig ekki á það fallist að orðalag ákvæðisins beri það skýrlega með sér að að hin almenna regla laga New York fylkis um niðurfærslu höfuðstóls gildi ekki við gjaldfellingu afsláttarbréfs. Gildir þá einu hvort litið er til hinnar sérstöku skilgreiningar á hugtakinu „afsláttarbréf“ í grein 1.1 í umsýslusamningi aðila eða horft til þeirrar almennu afmörkunar á hugtakinu sem birtist í dómaframkvæmd dómstóla New York fylkis.
Í annan stað verður að líta til þess að samkvæmt a-lið greinar 5.4 í umsýslusamningi er gerður sérstakur fyrirvari um að vörsluaðili lýsi lægri fjárhæð en höfuðstól við gjaldþrotaskipti eða sambærilega málsmeðferð. Dómurinn telur að við slíkar aðstæður væri um að ræða sjálfkrafa gjaldfellingu samkvæmt áðurnefndum fyrri málslið greinar 5.2. Er þar af leiðandi ljóst að umrætt ákvæði, sem fjallar um heimildir vörsluhafa skuldabréfs til þess að hafa uppi kröfu á grundvelli þess, gerir ekki ráð fyrir því að við þær aðstæður sem uppi eru í máli þessu gildi sérregla um óskertan höfuðstól afsláttarbréfs. Í þriðja lagi telur dómurinn að ekki hafi verið rökstutt að slíkur eðlismunur sé á sjálfkrafa gjaldfellingu samkvæmt fyrri málslið greinar 5.2 í umsýslusamningi og gjaldfellingu með sérstakri yfirlýsingu samkvæmt síðari málslið greinarinnar að efnisrök styðji sérreglu í þá veru sem sóknaraðili heldur fram.
Til þess er einnig að líta að sú útgáfulýsing, sem áður er rakin, gefur ekki tilefni til þess að ætla að víkja hafi átt frá hinni almennu reglu um niðurfærslu höfuðstóls við gjaldfellingu afsláttarbréfs. Öllu heldur verður sú ályktun dregin af útgáfulýsingunni að umrædd regla New York fylkis um niðurfærslu höfuðstóls eigi óskorað að gilda um lögskipti aðila. Þótt á það verði fallist að varnaraðili geti ekki með útgáfulýsingu einhliða þrengt réttindi sem vörslumaður skuldabréfs eða hlutdeildareigendur þess leiða af umsýslusamningi, styður skjalið þá niðurstöðu að hinni almennu reglu um niðurfærslu höfuðstóls hafi verið ætlað að gilda um skuldabréfaútgáfu varnaraðila.
Samkvæmt þessu verður ekki á það fallist að fyrrgreind samningsgögn verði túlkuð á þá leið að hin almenna regla New York fylkis, um niðurfærslu höfuðstóls skuldabréfs með forvöxtum við gjaldfellingu þess, hafi ekki átt að gilda við þær aðstæður sem uppi eru í máli þessu og áður er lýst. Að virtum þeim sjónarmiðum sem áður eru rakin fellst dómurinn ekki heldur á að sú ályktun verði dregin af grein 1.1 í umsýslusamningi aðila, þar sem hugtakið „afsláttarbréf“ er skilgreint, að vilji samningsaðila hafi staðið til þess að þrengja efnislegt gildissvið umræddrar reglu laga New York fylkis. Hefur það því ekki sjálfstæða þýðingu fyrir niðurstöðu málsins hvort umrædd bréf teljast fullnægja umræddri skilgreiningu greinar 1.1 eða ekki.
E
Samkvæmt öllu framangreindu verður kröfu sóknaraðila hafnað. Aðilar eru sammála um tölulegan útreikning niðurfærslu höfðustóls kröfu sóknaraðila samkvæmt umræddri reglu New York fylkis. Þá er ekki uppi ágreiningur um áfallna vexti sem falla undir 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Verður því að fullu fallist á kröfu varnaraðila, svo sem nánar greinir í úrskurðarorði.
Í ljósi úrslita málsins þykir rétt að sóknaraðili greiði varnaraðila málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn, í ljósi eðlis og umfangs málsins, þ. á m. gagnaöflunar um erlend lög, 2.500.000 króna. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Af hálfu sóknaraðila flutti málið Eyvindur Sólnes hrl.
Af hálfu varnaraðila flutti málið Stefán A. Svensson hrl.
Skúli Magnússon kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð
Kröfum sóknaraðila, Deutche Bank Trust Americas, er hafnað.
Viðurkennt er að sóknaraðili eigi kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. að fjárhæð 106.358.373.162 krónur við slit varnaraðila, Kaupþings hf.
Sóknaraðili greiði varnaraðila 2.500.000 króna í málskostnað.