Hæstiréttur íslands
Mál nr. 523/2002
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
- Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi
|
|
Þriðjudaginn 26. nóvember 2002. |
|
Nr. 523/2002. |
Ríkislögreglustjóri(Jón H. Snorrason saksóknari) gegn X (enginn) |
Kærumál. A liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var felldur úr gildi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. nóvember 2002. Kærumálsgögn bárust réttinum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. nóvember 2002, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 29. nóvember nk. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Verður að ætla að varnaraðili kæri til að fá úrskurð héraðsdómara felldan úr gildi.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.
Eins og greinir í hinum kærða úrskurði barst ríkislögreglustjóra um kl. 19.30 föstudaginn 22. nóvember sl. svohljóðandi orðsending í tölvupósti: „Við höfum rökstuddan grun um að ráðist verði gegn íslenskri flugvél með flugráni og eða sprengjutilræði. Við vitum ekki hvort þessi árás muni beinast gegn almennu flugi Icelandair eða Atlanta eða hvort bæði félögin verði skotmark. Tilræðið mun koma sem svar við þeim ráðagerðum ríkisstjórnarinnar að nota borgaralegar flugvélar íslenska flugflotans til flutninga á hergögnum eða hermönnum fyrir NATO í ólögmætu stríði gegn Írak. Rétt er að vara almenning til að ferðast með þessum flugfélögum á næstu dögum og vikum. Okkur finnst rétt að vekja athygli á þessu.“ Undir þessa orðsendingu var ritað „[...]“. Fram er komið í málinu að hún var send til 1.246 viðtakenda, þar á meðal til ráðherra, alþingismanna, ýmissa embættismanna og fjölmiðla. Varnaraðili, sem að eigin sögn er talsmaður fyrir [...] og var stofnandi þeirra, var handtekinn laust eftir miðnætti 23. nóvember sl. vegna gruns um að hafa látið þessa orðsendingu frá sér fara og með því brotið gegn ákvæðum 100. gr. a., 100. gr. c., 1. mgr. 168. gr. og 233. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum. Í skýrslu, sem lögreglan tók af varnaraðila síðdegis 23. nóvember sl., kvaðst hann hafa samið og sent þessa orðsendingu daginn áður. Þetta hafi hann gert vegna draumsýna sinna eða innsæis og í tilefni fréttaflutnings í erlendum fjölmiðlum um að hugsanlega yrði ráðist á þá, sem styðji „ólögmætt stríð gegn Írak eða Arabaþjóðum“, auk þess sem honum hafi borist frá nafngreindum manni tölvupóstur, þar sem rökstutt væri hvers vegna íslenskar flugvélar „yrðu núna skotmark“ vegna ákvarðana íslenskra stjórnvalda. Varnaraðili var leiddur fyrir héraðsdómara að kvöldi síðastgreinds dags. Í þinghaldinu var haft eftir honum í þingbók að „hann viðurkennir að hafa sent tölvupóstinn og kveðst hafa verið einn að verki og án samráðs við nokkurn. Hann kvaðst hafa byggt efni yfirlýsingarinnar á innsæi og upplýsingum víðs vegar að, svo sem fréttastofum og öðrum aðilum. Verið geti að upphaf textans hafi verið óheppilegt.“ Í sama þinghaldi var hinn kærði úrskurður upp kveðinn.
Eins og málið liggur fyrir Hæstarétti hefur lögreglan nú gert leit í húsakynnum og tölvubúnaði áðurnefndrar stofnunar eða samtaka og jafnframt tekið skýrslur af manni, sem samkvæmt opinberum skrám telst forsvarsmaður stofnunarinnar, einum starfsmanni hennar og fyrrnefndum manni, sem varnaraðili kvað hafa sent sér tölvupóst, svo og af varnaraðila. Í greinargerð sóknaraðila fyrir Hæstarétti segir að rannsókn málsins sé nú langt komin. Þótt fallast megi á að framangreind orðsending hafi efni sínu samkvæmt gefið tilefni til þess að varnaraðili yrði sviptur frelsi og leit gerð í húsakynnum samtaka, sem orðsending hans var sögð stafa frá, verður að líta til þess að sóknaraðili hefur í engu rökstutt fyrir Hæstarétti hvers vegna efni geti verið til að svipta varnaraðila frelsi lengur en nú er orðið á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. nóvember 2002.
Ríkislögreglustjóri hefur krafist þess að X, sem handtekinn var laugardaginn 23. nóvember 2002, um kl. 00.40, verði, með vísan til a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála með úrskurði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 4. desember 2002, kl. 16.00.
Í greinargerð Ríkislögreglustjóra kemur fram að embættið hafi nú til rannsóknar uppruna tölvupóstsendingar sem send hafi verið á netfang u.þ.b. 2000 opinberra starfsmanna, þar á meðal til allrar ríkisstjórnarinnar, allra alþingismanna, fjölda embættismanna og strarfsmanna ráðuneyta, til allra starfsmanna embættis Ríkislögreglustjórans, lögreglumanna og starfsmanna Flugmálastjórnar sem og til fjölmiðla. Kærði hafi játað að hafa sent umræddan tölvupóst. Tölvupóstsending þessi sem beri með sér að vera send úr netfanginu [...] og send hafi verið um kl. 19.20-19.30 föstudaginn 22. nóvember sl. innihaldi eftirfarandi texta;
“ Við höfum rökstuddan grun um að ráðist verði gegn Íslenskri flugvél með flugráni og eða sprengjutilræði. Við vitum ekki hvort þessi árás muni beinast gegn almennu flugi Icelandair eða Atlanta eða hvort bæði félögin verði skotmark. Tilræðið mun koma sem svar við þeim ráðagerðum ríkisstjórnarinnar að nota borgaralegar flugvélar íslenska flugflotans til flutninga á hergögnum eða hermönnum fyrir NATO í ólögmætu stríði gegn Írak.
Rétt er að vara almenning til að ferðast með þessum flugfélögum á næstu dögum og vikum.
Okkur finnst rétt að vekja athygli á þessu.
[...]”
Efni tölvupóstsins sé til þess fallið að valda ótta og óöryggi fyrir flugsamgöngur. Það hvernig póstinum hafi verið dreift bendi til þess að megin tilgangurinn sé að valda almennum ótta og óöryggi. Með dreifingu póstsins virðist tilgangurinn hafa verið að koma upplýsingum þessum sem víðast. Þrátt fyrir að lögreglu og flugmálayfirvöldum séu sendar þessar upplýsingar séu þær jafnframt sendar til fjölmiðla. Þannig virðist ekki tilgangurinn að aðvara lögreglu um yfirvofandi hættu á hryðjuverkum þrátt fyrir að pósturinn beri með sér að sendandi hans hafi upplýsingar um að ráðist verði gegn íslensku flugfélagi með einum eða öðrum hætti. Sé það rannsóknarefni hvort sendandinn hafi í raun röksemdir fyrir grun sínum eins og komi fram í póstinum og hvort hann kunni að geta bent á einhverja þá aðila sem hafi slíkt í hyggju. Þetta verði einnig að skoða í því ljósi að flugfélögunum sem um ræði í póstinum hafi ekki verið sendur hann.
Meint brot kunni að varða við 100. gr. a, 100. gr. c, 168. gr. og 233. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Kærði hefur borið að Y hafi sent tölvupóst um hættu á árás á íslensk flugfélög. Ekki hafi unnist tími til að yfirheyra Y um þessa fullyrðingu en í umræddum tölvupósti komi fram tillaga að aðvörun til forstjóra íslensku flugfélaganna um hættu á hryðjuverkum í þeirra garð taki þau þátt í herfluttningum fyrir NATO vegna árásar á Írak.
Héraðsdómur Reykjavíkur hafi í nótt úrskurðað um heimild lögreglu til leitar að [...] sem og um skyldu Íslandssíma hf. til að upplýsa lögreglu um hver sé eigandi póstfangsins [...]. Húsleit hafi farið fram að [...] í nótt og dag og hafi lögregla lagt hald á gögn úr tölvum sem þar hafi fundist og nokkuð af tölvubúnaði.
Rannsókn málsins sé enn á frumstigi og muni lögregla á næstu dögum rannsaka hverjir kunni að vera meðsekir kærða eða hvort slíkir kunni að finnast. Þegar þetta sé ritað hafi enn ekki náðst að yfirheyra vitni sem kunni að hafa upplýsingar um málið, ekki hafi gefist tími til að leita í tölvubúnaði kærða hvort þar kunni að finnast upplýsingar sem styðji fullyrðingar þær sem komi fram í tölvupóstinum.
Mál þetta sé tekið mjög alvarlega af lögreglu enda sé hér um að ræða fullyrðingar sem eðlilegt sé að taka sem hótun, eða fullyrðingu um að sá sem póstinn hafi sent muni framkvæma hryðjuverkaárás eða hafi vitneskju um að gerð verði hryðjuverkaárás gegn þeim íslensku flugfélögum sem um ræði. Ríkissaksóknara hafi verið gerð grein fyrir málinu og hafi hann lýst því yfir að hann telji málið grafalvarlegt og styðji þá ákvörðun Ríkislögreglustjórans að krefjast gæsluvarðhalds yfir kærða í þágu rannsóknar málsins.
Samkvæmt 100. gr. a. 2. mgr. almennra hegningarlaga varði það allt að ævilöngu fangelsi að hóta að fremja þau brot sem talin séu í 1. mgr. greinarinnar. Í 4. tölulið 1. mgr. 100. gr. a sé vísað til ákvæðis 1. mgr. 168. gr. almennra hegningarlaga. Póstsending sú sem um ræði í máli þessu megi skilja sem hótun um að fremja brot gegn 1. mgr. 168. gr. almennra hegningarlaga í því skyni sem upp sé talið í 1. mgr. 100. gr. a. Ákvæði 100. gr. a sé hluti af breytingum sem gerðar hafi verið á almennum hegningarlögum í tengslum við fullgildingu Íslands á þremur alþjóðasamningum um að koma í veg fyrir hryðjuverkastarfsemi. Ákvæðið sé í samræmi við alþjóðlega stefnumörkun um aðgerðir gegn hryðjuverkum í kjölfar atburðanna í Bandríkjunum 11. september 2001. Meint brot kærða verði að skoðast í samræmi við ástand heimsmála eftir 11. september þar sem hræðsla við árásir á flug og ótti við frekari hryðjuverk sé viðvarandi og öryggisreglur í samgöngum séu mjög hertar sem og í vestrænum þjóðfélögum almennt. Flugfélög geti ekki litið fram hjá hótunum eða vísbendingum um að árásir séu yfirvofandi. Skipti þá engu máli þótt í ljós komi að hættan/hótunin hafi verið tilbúningur enda tilganginum þá þegar náð.
Afleiðingar hryðjuverka og tilgangur hryðjuverkamanna sé að breiða út hræðslu og óöryggi og valda með því fjárhagstjóni og skaða lýðræðislega kjörin stjónvöld og lýðræðissamfélög. Eða eins og segi í 1. mgr. 100. gr. a “að valda almenningi verulegum ótta” eða “ þvinga með ólögmætum hætti íslensk eða erlend stjórnvöld eða alþjóðastofnun til að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert”. Þá sé með þessu verið að vinna gegn löglega teknum ákvörðunum íslenskra stjórnvalda með því að dreifa hótunum og sá sæði hræðslu meðal almennings í tengslum við þær ákvarðanir og framkvæmd þeirra.
Efni umrædds tölvupósts se auk þess til þess fallið að skaða þau flugfélög sem um ræði með því að hræða fólk frá því að eiga viðskipti við þau sem og að rýra traust þeirra erlendis.
Svo sem að framan greinir hefur kærði viðurkennt að hafa sent umræddan tölvupóst. Hann kvaðst hafa verið einn að verki og hafi tilgangurinn með henni verið að upplýsa um yfirvofandi hættu en ekki að setja fram hótun.
Kærði er grunaður um brot gegn 100. gr. a, 100. gr. c, 168. gr. og 233. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en viðurlög við brotum á þeim greinum getur varðað allt að ævilöngu fangelsi. Fyrir liggur að rannsókn máls þessa er á algjöru frumstigi. Hefur ekki unnist tími til að kanna hvort að kærði var einn að verki eða hvort fleiri aðilar hafi verið að verki. Með hliðsjón af orðalagi umræddrar tölvupóstsendingar og alvarleika hennar og með því að hætta þykir á að kærði kunni að torvelda rannsókn málsins ef hann verði látinn laus, ber samkvæmt a-lið 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 að taka til greina kröfu Ríkislögreglustjóra um að kærði sæti gæsluvarðhaldi en þó eigi lengur en til föstudagsins 29. nóvember nk. kl. 16.00.
Valtýr Sigurðsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð
Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 29. nóvember 2002, kl. 16.00.