Hæstiréttur íslands
Mál nr. 80/2000
Lykilorð
- Bifreið
- Veð
|
|
Miðvikudaginn 31. maí. 2000. |
|
Nr. 80/2000. |
Sigtryggur Eyþórsson (Kjartan Reynir Ólafsson hrl.) gegn Glitni hf. og (Ásgeir Magnússon hrl.) íslenska ríkinu til réttargæslu |
Bifreiðakaup. Veð.
S keypti bifreið af félaginu GO hjá bílasölunni B í september 1997. Samkvæmt afsali skuldbatt GO sig til að aflétta áhvílandi veðböndum af bifreiðinni innan 10 daga, en á bifreiðinni hvíldi veð til tryggingar skuldar við félagið GL. Ekki varð af veðflutningnum af ástæðum, sem GL varð ekki kennt um. Í maí 1998 var skuldabréfið innleyst af S með fyrirvara og áskildum öllum rétti. Höfðaði S mál á hendur GL og krafðist þess að félagið bætti fjárhagslegt tjón sitt. Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um sýknu GL af kröfum S á grundvelli þess, að S hefði greitt verð bifreiðarinnar gegn síðar sviknu loforði seljanda um að aflétta áhvílandi veðskuld við GL og ekki væri upplýst um nokkur atvik sem gætu leitt til ábyrgðar GL á tjóni S.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Hjörtur Torfason og Pétur Kr. Hafstein.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 25. febrúar 2000. Hann krefst þess, að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 1.406.132 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 26. maí 1998 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Með skírskotun til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.
Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, eins og segir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Sigtryggur Eyþórsson, greiði stefnda, Glitni hf., 100.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 29. nóvember 1999.
I
Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 25. júní 1999 og dómtekið 23. þ.m.
Stefnandi er Sigtryggur Eyþórsson, kt. 080741-4569, Akraseli 9, Reykjavík.
Stefndi er Glitnir hf., kt. 511185-0159, Kirkjusandi, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að upphæð 1.406.132 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 26. maí 1998 til greiðsludags og til greiðslu málskostnaðar.
Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda en til vara að kröfur hans verði lækkaðar stórlega. Þá krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda.
Til réttargæslu er stefnt sýslumanninum í Reykjavík og viðskiptaráðherra og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs.
II
Föstudaginn 19. september 1997 keypti stefnandi bifreiðina YF-036, sem er Subaru Legacy GL árgerð 1996, af Gosum ehf. og undirritaði Ragnar Kornelíus Lövdal afsalið fyrir hönd fyrirtækisins. Kaupverðið nam 1.900.000 krónum og galt stefnandi það með bifreiðinni DS-596, Subaru 1800 árgerð 1991, að andvirði 500.000 krónur og í peningum 1.400.000 krónur. Bifreiðin var keypt hjá Bílatorgi ehf. sem hafði með höndum bílasölu að Funahöfða 1 í Reykjavík samkvæmt opinberu leyfi Ragnars Kornelíusar Lövdal til sölu notaðra ökutækja útgefnu 12. júlí 1995 af sýslumanninum í Reykjavík samkvæmt lögum nr. 69/1994.
Á afsali er skráð: „Seljandi afléttir áhvílandi veðböndum af bifreiðinni innan 10 daga.“ Stefnandi kveður sér hafa verið tjáð að áhvílandi veð á bifreiðinni, sem væri til tryggingar skuld við stefnda upphaflega að upphæð 1.776.508 krónur, yrði þegar eftir helgina, þ. e. hinn 22. september 1997, flutt yfir á bifreiðina TB-337. Sú bifreið hafi verið staðsett á athafnasvæði Bílatorgs ehf. þar sem viðskiptin fóru fram og hafi stefnanda sérstaklega verið sýnd hún sem nýtt andlag til tryggingar veðskuldinni. Til að gæta fyllsta öryggis kveðst stefnandi hafa haft samband við Indriða Jónsson, starfsmann stefnda sem var eigandi veðsins, og hafi hann staðfest að verið væri að flytja umrætt veð á milli nefndra bifreiða og taldi að ekkert ætti að vera því til fyrirstöðu að kaupin færu fram á þann hátt sem fyrirhugað var. Sérstaklega aðspurður hafi Indriði ekki kvaðst þekkja umræddan Ragnar Kornelíus Lövdal, sem væri löggiltur bílasali, að neinu misjöfnu.
Hinn 22. september 1997 var gengið frá skjali til veðsetningar á bifreiðinni TB-337 og veðbandslausnar af bifreiðinni YF-036 vegna flutnings á veðskuldinni. Auk þess hafði Arnþór Ólafur Grétarsson áritað skjalið sem sjálfskuldarábyrgðaraðili svo sem fyrr hafði verið.
Stefnandi kveðst hafa fylgst grannt með gangi mála og kvartað við Ragnar Kornelíus Lövdal og Indriða Jónsson þegar er honum hafi orðið ljóst að veðflutningur hefði ekki farið fram í samræmi við það sem um var samið og staðfest hefði verið af Indriða að yrði næstu daga. Hann kveður Indriða hafa tjáð sér að formgalli hafi verið á skjalinu vegna mistaka við gerð þess og því verið vísað frá þinglýsingu en verið væri að bæta úr því m.a. með því að fá að nýju uppáskrift sjálfskuldarábyrgðaraðilans Arnþórs Ólafs Grétarssonar. Þegar efndir hafi enn dregist hafi Ragnar Kornelíus Lövdal borið því einnig við að skjalagerð vegna veðflutningsins hafi verið ábótavant og væri verið að bæta úr því.
Hinn 14. nóvember 1997 áritar Margrét Sigurðardóttir veðskuldabréfið fyrir hönd stefnda þannig: “Samkvæmt yfirlýsingu dags. 02.10.1997 var skipt um veðandlag fyrir skuldinni og stendur nú bifreiðin Subaru Impresa árg. 1996, fast nr. MX-253 í stað hins fyrra.”
Lögmaður stefnanda ritaði Gosum ehf. bréf 14. janúar 1998 og boðaði að hin ætluðu fjársvik yrðu kærð til opinberrar rannsóknar jafnframt því að lýst var fullri ábyrgð á hendur Bílatorgi ehf., Ragnari Kornelíusi Lövdal og stefnda og voru þeim send afrit bréfsins. Með bréfi 23. janúar 1998 kærði lögmaðurinn síðan hin ætluðu svik til rannsóknardeildar fjársvika við embætti lögreglustjórans í Reykjavík. Var Ragnar Kornelíus Lövdal sakfelldur með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 26. janúar 1999 og dómi Hæstaréttar 20. maí 1999.
Umrætt veðskuldabréf var þann 26. maí 1998 innleyst af veðþolanum, stefnanda máls þessa, með fyrirvara og að áskildum öllum rétti. Innlausnarverð nam 1.406.132 krónum.
Lögmaður stefnanda ritaði stefnda bréf 29. apríl 1999 og var efni þess: “V/svika um að leysa bifreiðina YF-036, sem er Subaru Legacy árgerð 1996, úr veðböndum sem skyldu flutt yfir á bifreiðina VW Golf Grand Automatic árgerð 1997 fast númer TB-337 og endurkrafa á innleystu veðskuldabréfi.” Í bréfi þessu var stefnda gefinn kostur á að bæta hið fjárhagslega tjón stefnanda eða hafna því skriflega fyrir 8. maí 1999. Þar sem stefndi hafi í engu sinnt erindinu kveður stefnandi nauðsyn bera til málshöfðunar þessarar. Réttargæslustefndu sé stefnt vegna þáttar hins opinbera í að veita Ragnari Kornelíusi Lövdal leyfi til sölu notaðra ökutækja samkvæmt lögum nr. 69/1994 m.a. vegna mistaka starfsmanna stjórnsýslunnar hvað varðar móttöku, rannsóknarskyldu og mat starfsábyrgðatrygginga sem þeim sé skylt að hafa er fái leyfi til sölu notaðra ökutækja, sbr. 4. tl. 3. gr. nefndra laga. Starfsábyrgðatryggingarnar, sem hafi verið símsendar frá Bílatorgi ehf. til hins opinbera, hafi reynst vera falsaðar en eftirlitsskyldan sé í höndum hins opinbera.
Stefnandi byggir kröfur sínar m.a. á reglum skaðabótaréttarins um ábyrgð vinnuveitanda á skaðaverkum starfsmanna sinna. Einnig er vísað til II. kafla laga nr. 7 frá 1. febrúar 1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, einkum 1. mgr. 10. gr. og 1. mgr. 25. gr.
III
Af hálfu stefnda er þannig greint frá málsatvikum að hinn 19. september 1997 hafi Ragnar Kornelíus haft samband við Indriða Jónsson, starfsmann stefnda, og sagt Gosa ehf. vera að selja bifreiðina YF-036 en jafnframt að kaupa bifreiðina TB-337 af gerðinni VW Golf árgerð 1997. Hann hafi óskað eftir veðflutningi yfir á þá bifreið og hafi verið fallist á það. Á sama tíma hafi stefnandi hringt í Indriða og kvaðst vera að kaupa bifreiðina YF-036 og spurst fyrir um hvort verið væri að færa veð stefnda af bifreiðinni. Indriði hafi svarað því til að veðflutningur hefði verið samþykktur af stefnda og væri verið að vinna að skjölum í því sambandi. Þá hafi stefnandi innt Indriða eftir því hvort hann þekkti eitthvað misjafnt til Ragnars Kornelíusar Lövdal. Indriði hafi svarað því neitandi enda ekki verið kunnugt um annað á þessum tíma. Þegar til hafi átt að taka muni ekki hafa tekist að færa veð stefnda yfir á bifreiðina TB-337 þar sem hún hefði þá verið seld þriðja aðila auk þess að vera veðsett. Þegar ljóst hafi orðið að ekki tækist að flytja veð stefnda yfir á bifreiðina TB-337 hafi verið óskað eftir að veðið yrði flutt á bifreiðina MX-253 af gerðinni Subaru Impreza árgerð 1996. Stefndi hafi fallist á þá beiðni en ekki hafi getað orðið af veðflutningi vegna þess hvernig skráningu bifreiðarinnar var háttað. Þá hafi Ragnar Kornelíus boðið bifreiðina MZ-574 af gerðinni Subaru Impreza árgerð 1996 sem veðandlag en ekki hafi getað orðið af veðflutningi þar sem ekki hafi tekist að flytja áhvílandi veð af þeirri bifreið. Enn muni hafa verið reyndur veðflutningur af bifreiðinni YF-036 en án árangurs.
Á meðan á þessu hafi gengið hafi stefnandi alloft rætt í síma við starfsmenn stefnda, þau Indriða Jónsson og Margréti Sigurðardóttur. Honum hafi því verið fullkunnugt hvað var að gerast í málinu.
Stefndi mótmælir því harðlega að hann beri á nokkurn hátt ábyrgð á því fjárhagstjóni sem stefnandi hafi orðið fyrir vegna viðskipta við fyrirtækið Gosa ehf. Stefnandi hafi sýnt af sér gáleysi með því að greiða andvirði bifreiðarinnar YF-036 án þess að tryggt væri að veðskuld stefnanda yrði létt af bifreiðinni. Þá er því mótmælt að starfsmenn stefnda hafi lofað í samtölum þeirra við stefnanda að af veðflutningi yrði.
IV
Fyrir dómi gáfu skýrslur stefnandi og vitnin Indriði Jónsson og Margrét Sigurðardóttir starfsmenn stefnda, Indriði ráðgjafi í bílalánum og Margrét deildarstjóri bílalána.
Aðspurður bar stefnandi ekki að Indriði Jónsson hefði lofað að veðflutningur mundi ganga í gegn. Hins vegar hefði hann túlkað framangreint svar hans um að verið væri að flytja veðið á milli bifreiða þannig að því mætti treysta að allt væri klappað og klárt og mundi ganga fyrir sig þá eftir helgina.
Indriði Jónsson og Margrét Sigurðardóttir neituðu að hafa gefið stefnanda loforð um að veðflutningur mundi ganga í gegn.
Upplýst var að venja væri í slíkum tilvikum að gengið væri frá skjölum til þinglýsingar af hálfu stefnda. Indriði Jónsson kvaðst hafa sagt stefnanda að verið væri að ganga frá skjölum vegna veðflutnings af bifreiðinni YF-036 á bifreiðina TB-337 að ósk Ragnars Kornelíusar Lövdal. Ragnar Kornelíus hefði síðan fengið skjölin afhent en komið með þau aftur vegna villu sem hann hefði fundið. Skjölin hafi verið leiðrétt og Ragnar Kornelíus fengið þau afhent að nýju til undirskrifta en ekki komið með þau eftir það.
Indriði Jónsson og Margrét Sigurðardóttir báru að stefnandi hefði haft samband við þau og þau hafi viljað stuðla að lausn vanda hans með því að hafa skjöl tilbúin til þinglýsingar þegar er þeirri forsendu væri fullnægt að hæft veðandlag kæmi í stað bifreiðarinnar YF-036; af því hafi hins vegar aldrei orðið.
Við kaup bifreiðarinnar YF-036 greiddi stefnandi verð hennar að fullu gegn loforði seljandans um að aflétta áhvílandi veðskuld sem hann sveik. Ekki er upplýst um nein atvik sem geti leitt til ábyrgðar stefnda á tjóni stefnanda.
Niðurstaða málsins er sú að sýkna beri stefnda af kröfum stefnanda. Dæma ber stefnanda til að greiða stefnda málskostnað sem er ákveðinn 180.000 krónur.
Mál þetta dæmir Sigurður Hallur Stefánsson héraðsdómari.
D ó m s o r ð:
Stefndi, Glitnir hf., er sýknaður af kröfum stefnanda, Sigtryggs Eyþórssonar.
Stefnandi greiði stefnda 180.000 krónur í málskostnað.