Hæstiréttur íslands
Mál nr. 161/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Miðvikudaginn 26. mars 2008. |
|
Nr. 161/2008. |
Ákæruvaldið(Ragnheiður Harðardóttir vararíkissaksóknari) gegn X (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. sbr. 106. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 106. gr. sömu laga, var staðfestur, en gæsluvarðhaldinu var markaður skemmri tími.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. mars 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. mars 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi meðan mál hans er til meðferðar fyrir Hæstarétti, en þó eigi lengur en til mánudagsins 30. júní 2008 klukkan 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Í hinum kærða úrskurði felst að varnaraðila hafi verið gert að sæta gæsluvarðhaldi frá því hann lauk afplánun dóms 24. mars 2008 og allt að því til 30. júní 2008.
Sérstaklega ber að hraða meðferð opinbers máls, þegar ákærði sætir gæsluvarðhaldi meðan á henni stendur. Að þessu athuguðu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur, en þó þannig að gæsluvarðhaldi verður markaður sá tími sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Varnaraðili, X, sæti gæsluvarðhaldi meðan mál hans er til meðferðar fyrir Hæstarétti, þó eigi lengur en til föstudagsins 30. maí 2008 klukkan 16.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. mars 2008.
Ákæruvaldið hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, [kt. og heimilisfang], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi meðan mál hans er til meðferðar fyrir Hæstarétti, þó eigi lengur en til föstudagsins 17. október nk. klukkan 16.
Í greinargerð ákæruvaldsins kemur fram að með ákæru ríkissaksóknara 26. júlí 2007 hafi verið höfðað mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á hendur X fyrir kynferðisbrot með því að hafa:
- Í júlí 2005, á heimili sínu, í að minnsta kosti fimm skipti, tælt stúlkuna A sem þá var 14 ára, til samræðis, bæði í leggöng og endaþarm, með því að beita hana blekkingum og nýta sér yfirburði sína gagnvart henni vegna aldurs- og þroskamunar, en ákærði komst í samband við stúlkuna með því að segjast, í samskiptum við hana á veraldarvefnum, vera B 18 ára.
- Í nóvember og desember 2005, í mörg skipti í samskiptum við C á veraldarvefnum og í síma, sýnt stúlkunni, sem þá var 12 ára, lostugt og ósiðlegt athæfi, með klúru og klámfengnu tali og skrifum, s.s. nánar er rakið í ákæru.
- Aðfaranótt laugardagsins 22. júlí 2006, þröngvað D til samræðis með því að beita hana ofbeldi eða annars konar ólögmætri nauðung. Ákærði tældi stúlkuna, sem þá var 16 ára, til að gista á heimili sínu með því að nýta sér yfirburði sína gagnvart henni vegna aldurs- og þroskamunar og segjast, í samskiptum við hana á veraldarvefnum, vera E 19 ára.
- Þriðjudaginn 29. nóvember 2006, haft í vörslu sinni í farsíma sínum tvær ljósmyndir sem sýna stúlkubörn á kynferðislegan og klámfenginn hátt, en myndirnar fundust við skoðun lögreglu á símanum sem lagt var hald á sama dag.
Hafi háttsemi hans skv. 1. ákærulið verið talin varða við 3. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga, skv. 2. ákærulið aðallega við 209. gr. laganna, skv. 3. ákærulið aðallega við 1. mgr. 194. gr. laganna, og skv. 4. ákærulið við 4. mgr. 210. gr. laganna. Honum hafi jafnframt verið gefið að sök þjófnaðarbrot skv. 244. gr. sömu laga.
Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 5. febrúar 2008, í málinu nr. S-1016/2007, hafi hann verið sakfelldur skv. ákæru og dæmdur til þess að sæta fangelsi í 4 ár.
Með bréfi verjanda hans til ríkissaksóknara, dagsettu 7. þ.m., hafi verið lýst yfir áfrýjun til Hæstaréttar og áfrýjunarstefna gefin út 13. s.m.
Dómfelldi hafi sætt gæsluvarðahaldi vegna rannsóknar málsins skv. úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur frá 21. til 26. október 2007. Samkvæmt meðfylgjandi vottorði fangelsismálastofnunar hafi hann hafið afplánun fimm mánaða refsidóms, skv. dómi Hæstaréttar Íslands 15. febrúar 2007, hinn 26. október. Fyrirhugað sé að afplánun ljúki 24. mars nk.
Dómfelldi hafi verið sakfelldur fyrir alvarleg kynferðisbrot gagnvart barnungum stúlkum. Brot hans skv. 1. og 3. ákærulið hafi verið sérstaklega alvarleg. Svo sem rakið sé í héraðsdómi beindust brot hans gegn ungum stúlkum sem höfðu litla eða enga reynslu af kynlífi. Hafi hann á skipulegan og yfirvegaðan hátt beitt blekkingum til að komast í samband við stúlkurnar og síðan nauðga, misnota eða misbjóða þeim kynferðislega. Þótti hann hafa sýnt styrkan og einbeittan brotavilja.
Með hliðsjón af alvarleika sakarefnis þyki nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna að dómfellda verði gert að sæta gæsluvarðhaldi til þess tíma er endanlegur dómur gengur í máli hans.
Vísað er til dóms Hæstaréttar 21. mars 2007, í málinu nr. 164/2007, þar sem staðfestur hafi verið úrskurður héraðsdóms um að dómfelldi skyldi sæta gæsluvarðhaldi eftir lok afplánunar.
Eins og rakið hefur verið hóf dómfelldi hinn 26. október sl. afplánun fimm mánaða fangelsisdóms skv. dómi Hæstaréttar 15. febrúar 2007 og mun afplánun ljúka 24. mars nk. Meðan á afplánun stóð var hann dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur í 4 ára fangelsi fyrir alvarleg kynferðisbrot gegn ungum stúlkum. Getur refsing varðað allt að 16 ára fangelsi. Dómfelldi lýsti yfir áfrýjun dómsins og hefur áfrýjunarstefna verið gefin út. Verður dómfellda nú gert að sæta gæsluvarðhaldi með tilliti til almannahagsmuna, á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 106. gr. sömu laga, en rétt þykir að marka því skemmri tíma eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Úrskurð þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir, settur héraðsdómari.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
X, sæti gæsluvarðhaldi meðan mál hans er til meðferðar fyrir Hæstarétti, þó eigi lengur en til mánudagsins 30. júní 2008 klukkan 16.