- Ráðningarsamningur
- Kjarasamningur
- Tómlæti
Fimmtudaginn 3. febrúar 2011. |
|
Nr. 304/2010. |
Hrafn Jóhannsson (Hulda Rós Rúriksdóttir hrl.) gegn Mannviti hf. (Árni Vilhjálmsson hrl.) |
Ráðningarsamningur. Kjarasamningur. Tómlæti.
H var ráðinn til starfa hjá forvera M hf. í ágústmánuði árið 2000, á skrifstofu hins síðarnefnda á Hvolsvelli. Með viðauka við ráðningarsamning H í september 2004 var samið um að hann myndi vinna á álverslóð Fjarðaáls á Reyðarfirði til maímánaðar 2007, en þar gegndi H jafnframt stöðu trúnaðarmanns starfsmanna. H höfðaði mál þetta gegn M hf. til heimtu vangoldinna launa einkum með vísan til greiðslu M hf. á launum fyrir dagvinnu og yfirvinnu, matartíma og ferðalög til og frá vinnu. Héraðsdómur taldi að tómlæti H, við að hafa uppi athugasemdir við M hf. um tilhögun og greiðslu launa og önnur kjaraatriði, hefði helgað framkvæmd M hf. á ákvæðum kjarasamnings og var félagið því sýknað af kröfum H. Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms með þeirri athugasemd að H hefði sem trúnaðarmaður starfsmanna haft uppi athugasemdir um hvað betur mætti fara á vinnustað við Reyðarfjörð og í aðbúnaði starfsmanna. Ekkert af framlögðum gögnum um slíkar athugasemdir varðaði hins vegar þau atriði sem kröfur hans í málinu væru reistar á. Þá lægi ekkert fyrir um að stéttarfélag hefði komið á framfæri mótmælum fyrir hönd H til M hf. um þessi atriði.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Páll Hreinsson og Viðar Már Matthíasson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 17. maí 2010. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 4.818.337 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 1. nóvember 2004 til 1. júní 2007, en af framangreindri fjárhæð frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi hefur ekki fyrir sitt leyti áfrýjað dómi héraðsdóms varðandi málskostnað og kemur þessi krafa hans því ekki til álita fyrir Hæstarétti.
Gætt var ákvæða 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála áður en hinn áfrýjaði dómur var upp kveðinn.
I
Áfrýjandi, sem er tæknifræðingur að mennt, var ráðinn til starfa hjá stefnda 28. ágúst 2000. Fram er komið að gerður var viðauki við ráðningarsamning áfrýjanda 1. september 2004 þar sem samið var svo um að hann myndi vinna á álverslóð Fjarðaáls á Reyðarfirði til 31. maí 2007. Á starfstíma sínum gegndi áfrýjandi starfi trúnaðarmanns starfsmanna við Reyðarfjörð í samræmi við ákvæði laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur.
Áfrýjandi krefst greiðslu vangoldinna launa og reisir kröfu sína á því að stefnda hafi verið óheimilt að taka heildarfjölda unninna stunda yfir hvern mánuð og greiða yfirvinnukaup fyrir þann fjölda vinnustunda sem var umfram þær stundir sem talinn er til fullrar dagvinnu á mánuði. Þá gerir áfrýjandi kröfu um greiðslu fyrir matartíma þegar yfirvinna hans hafi farið fram úr 10 klukkustundum á sólarhring, sbr. grein 2.2.3 kjarasamnings milli annars vegar Félags ráðgjafarverkfræðinga og hins vegar Stéttarfélags verkfræðinga og Kjarafélags Tæknifræðingafélags Íslands frá desember 2004. Áfrýjandi gerir ennfremur kröfu um greiðslu launa vegna ferðalaga hans á milli sumarhúss á Einarsnesi, sem hann bjó í, til Reyðarfjarðar, þar sem hann vann og vísar í því sambandi til greinar 3.4.5 fyrrnefnds kjarasamnings. Loks krefst hann 13,04% orlofs ofan á vangreidd laun með vísan til greinar 4.2.4 kjarasamningsins.
Stefndi krefst sýknu og vísar á bug túlkun áfrýjanda á tilvitnuðum ákvæðum kjarasamningsins auk þess sem hann ber fyrir sig að áfrýjandi hafi sýnt af sér slíkt tómlæti að hann eigi þegar af þeirri ástæðu engar kröfur á hendur stefnda.
II
Fyrir héraðsdómi bar áfrýjandi að hann minntist þess ekki að hafa gert athugasemdir við tímaskýrslur eða launaútreikninga þegar hann fékk laun greidd. Áfrýjandi var einnig spurður um það hvort hann hefði kvartað yfir uppgjöri vegna ferðalaga hans á milli dvalarstaðar og vinnustaðar og svaraði hann því neitandi þótt það hefði komið til tals. Um önnur atriði bar hann að hann hefði gert ótal skriflegar athugasemdir en yfirleitt beint þeim til stéttarfélags svo það gæti leyst málin.
Fyrir liggur að áfrýjandi hafði sem trúnaðarmaður starfsmanna uppi athugasemdir um hvað betur mætti fara á vinnustað við Reyðarfjörð og í aðbúnaði starfsmanna. Ekkert af framlögðum gögnum um slíkar athugasemdir varða hins vegar þau atriði sem kröfur hans í málinu eru reistar á. Þá liggur ekkert fyrir um að stéttarfélag hafi komið á framfæri mótmælum fyrir hönd áfrýjanda til stefnda um þessi atriði.
Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður niðurstaða hans staðfest.
Samkvæmt úrslitum málsins verður áfrýjandi með vísan til 1. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Hrafn Jóhannsson, greiði stefnda, Mannviti hf., 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. mars 2010.
Mál þetta, sem dómtekið var 24. febrúar sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Hrafni Jóhannssyni, Öldubakka 1, Hvolsvelli, á hendur Mannviti hf., Grensásvegi 1, Reykjavík, með stefnu þingfestri fyrir dómi 7. apríl 2009.
Dómkröfur stefnanda eru þær að hið stefnda hlutafélag verði dæmt til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð kr. 4.818.337,00, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 af kr. 89.559,00 frá 01.11.2004 til 01.12.2004, af kr. 163.160,00 frá 01.12.2004 til 01.01.2005, af kr. 226.625,00 frá 01.01.2005 til 01.02.2005, af kr. 316.081,00 frá 01.02.2005 til 01.03.2005, af kr. 406.315,00 frá 01.03.2005 til 01.04.2005, af kr. 521.769,00 frá 01.04.2005 til 01.05.2005, af kr. 616.489,00 frá 01.05.2005 til 01.06.2005, af kr. 732.469,00 frá 01.06.2005 til 01.07.2005, af kr. 816.474,00 frá 01.07.2005 til 01.08.2005, af kr. 915.863,00 frá 01.08.2005 til 01.09.2005, af kr. 1.003.296,00 frá 01.09.2005 til 01.10.2005, af kr. 1.136.830,00 frá 01.10.2005 til 01.11.2005, af kr. 1.250.327,00 frá 01.11.2005 til 01.12.2005, af kr. 1.369.131,00 frá 01.12.2005 til 01.01.2006, af kr. 1.480.170,00 frá 01.01.2006 til 01.02.2006, af kr. 1.610.228,00 frá 01.02.2006 til 01.03.2006, af kr. 1.708.639,00 frá 01.03.2006 til 01.04.2006, af kr. 1.879.321,00 frá 01.04.2006 til 01.05.2006, af kr. 1.963.101,00 frá 01.05.2006 til 01.06.2006, af kr. 2.054.157,00 frá 01.06.2006 til 01.07.2006, af kr. 2.247.671,00 frá 01.07.2006 til 01.08.2006, af kr. 2.463.162,00 frá 01.08.2006 til 01.09.2006, af kr. 2.553.025,00 frá 01.09.2006 til 01.10.2006, af kr. 2.661.368,00 frá 01.10.2006 til 01.11.2006, af kr. 2.819.582,00 frá 01.11.2006 til 01.12.2006, af kr. 2.921.654,00 frá 01.12.2006 til 01.01.2007, af kr. 3.008.527,00 frá 01.01.2007 til 01.02.2007, af kr. 3.118.434,00 frá 01.02.2007 til 01.03.2007, af kr. 3.390.438,00 frá 01.03.2007 til 01.04.2007, af kr. 3.718.950,00 frá 01.04.2007 til 01.05.2007, af kr. 3.979.126,00 frá 01.05.2007 til 01.06.2007, af kr. 4.818.337,00 frá 01.06.2007 til greiðsludags. Þá er krafist vaxtavaxta skv. 12. gr. s.l. er leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti.
Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt málskostnaðarreikningi. Auk þess er krafist virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.
Dómkröfur stefnda eru eftirfarandi:
Aðalkrafa
Aðallega krefst stefndi að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda.
Varakrafa
Til vara krefst stefndi lækkunar á kröfum stefnenda og að dráttarvaxtakröfu verði vísað frá dómi ex officio eða hún lækkuð.
Dráttarvaxtakrafa stefnenda sé í heild vanreifuð þar eð einungis sé vísað ósundurgreint til III. kafla laga nr. 38/2001, og ekki sé getið vaxtafótar eða vísað til 1. mgr. 6. gr. sömu laga, sbr. dómafordæmi Hæstaréttar þar um. Beri því að vísa henni ex officio frá dómi.
Í báðum tilvikum, aðal- og varakröfu, krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins.
Málsatvik
Með ráðningarsamningi, dags. 28. ágúst 2000, var stefnandi ráðinn frá og með 1. september 2000 til Hönnunar hf. Var stefnandi ráðinn sem byggingatæknifræðingur og forsvarsmaður skrifstofu Hönnunar hf. á Hvolsvelli. Þann 1. september 2004 var gerður viðauki við ráðningarsamning stefnanda þar sem kveðið var á um að stefnandi myndi láta af stöfum sem forsvarsmaður Hönnunar hf. á Hvolsvelli og myndi vinna á álverslóð Fjarðaráls á Reyðarfirði til maíloka 2007.
Í upphaflegum ráðningarsamningi stefnanda er vísað til kjarasamnings Félags Ráðgjafaverkfræðinga og Kjarafélags Tæknifræðingafélags Íslands eins og hann er hverju sinni.
Í byrjun þess tímabils sem mál þetta snýst um var vinnuveitandi stefnanda Hönnun hf. Fyrirtækið sameinaðist Verkfræðistofu Guðmundar og Kristjáns hf. í VGK-hönnun árið 2007 en það sameinaða fyrirtæki ásamt fyrirtækinu Rafhönnun hf. sameinuðust öll undir einu nafni, Mannviti verkfræðistofu á árinu 2008. Því er stefnda nú stefnt vegna stefnanda.
Frá 1. september 2004 allt til 31. maí 2007 starfaði stefnandi á álverslóð Fjarðaráls á Reyðarfirði. Vinnufyrirkomulag var með því móti að stefnandi starfaði í 10 daga á vinnusvæði en fékk svo 4 daga frí en þá fór hann til heimilis síns á Hvolsvelli. Í hverri vinnulotu stefnanda var hann því að jafnaði við vinnu sína í 100 klukkustundir. Laun vegna unninna stunda í hverjum mánuði voru greidd þannig að allar stundir sem unnar voru í upphafi mánaðar voru taldar til dagvinnuskyldu hvers mánaðar, sama hvort tímarnir væru unnir á dagvinnutímabili, yfirvinnutímabili, um helgar eða á öðrum frídögum. Unnar stundir umfram það voru taldar yfirvinnustundir og greitt fyrir þær samkvæmt því. Á stórhátíðum var bætt við aukatímum. Ekki var bætt við matartíma þótt unnar væru 10 stundir á dag.
Meðan á starfstíma stóð, gegndi stefnandi embætti trúnaðarmanns á vinnustöðinni við álverslóð við Reyðarfjörð. Var einkum, af hans hálfu og annarra starfsmanna, lögð áhersla á að ráðningarsamningur yrði gerður við alla starfsmenn og að sérstakur vinnustaðasamningur yrði gerður vegna starfa þeirra á hinum tímabundna vinnustað að álverslóðinni Reyðarfirði. Heldur stefnandi því fram að fljótlega eftir að hann hóf þar störf hafi hann gert athugasemd vegna launagreiðslna sinna og annarra starfsmanna einnig.
Stefnandi heldur því fram að auk þess sem hann hafi gert margítrekaðar athugasemdir við stefnda vegna greiðslu dagvinnu- og yfirvinnustunda, hafi hann gert athugasemdir vegna tímabilsins frá 1. janúar 30. apríl 2007 en á því tímabili bjó stefnandi í sumarhúsi á Einarsnesi og þurfti sjálfur að aka á milli sumarhússins og til Reyðarfjarðar í upphafi og lok hvers vinnudags. Á tímabilinu fékk stefnandi greidda dagpeninga enda var honum ekki séð fyrir mat í sumarhúsinu. Hins vegar fékk stefnandi ekki greitt sérstaklega fyrir þær stundir á degi hverjum sem það tók hann að aka á milli vinnustaðar og sumarhússins.
Með bréfi lögmanns stefnanda til stefnda, dags. 21. janúar 2009, var gerð fjárkrafa á hendur fyrirtækinu vegna vangreiddra launa stefnanda. Gerð var krafa um greiðslu á mismun á launum sem greidd voru á tímabilinu frá október 2004 til maí 2007 og þeim launum sem stefnandi telur að honum hafi borið samkvæmt ákvæðum kjarasamnings auk þess sem gerð var krafa um orlof á mismun launa á tímabilinu.
Með bréfi lögmanns stefnda til lögmanns stefnanda, dags. 13. febrúar 2009, var kröfum stefnanda hafnað.
Mál þetta hefur stefnandi höfðað til greiðslu launakröfu sinnar þar sem innheimtutilraunir hafa ekki borið árangur.
Krafan var sundurliðuð með eftirgreindum hætti:
1) Vegna ársins 2004:
Vegna októbermánaðar
132,5 dagvinnustundir kr. 314.312,-
94 yfirvinnustundir kr. 386.904,-
11 stundir vegna matartíma kr. 45.826,-
Samtals kr. 747.042,-
Að frádregnum greiddum launum skv. launaseðli kr. 657.483,-
Ógreitt kr 89.559,-
Vegna nóvembermánaðar
148 dagvinnustundir kr. 335.314,-
92 yfirvinnustundir kr. 383.272,-
9 stundir vegna matartíma kr. 37.494,-
Samtals k 756.080,-
Að frádregnum greiddum launum skv. launaseðli kr. 682.479,-
Ógreitt kr. 73.601,-
Vegna desembermánaðar
161,5 dagvinnustundir kr. 350.174,-
86,5 yfirvinnustundir kr. 360.359,-
9 stundir vegna matartíma kr. 37.494,-
Samtals kr. 748.027,-
Að frádregnum greiddum launum skv. launaseðli kr. 684.562,-
Ógreitt kr. 63.465,-
2) Vegna ársins 2005:
Vegna janúarmánaðar
137,5 dagvinnustundir kr. 326.173,-
97,5 yfirvinnustundir kr. 406.185,-
12 stundir vegna matartíma kr. 49.992,-
Samtals kr. 782.350,-
Að frádregnum greiddum launum skv. launaseðli kr. 692.894,-
Ógreitt kr. 89.456,-
Vegna febrúarmánaðar
128 dagvinnustundir kr. 318.619,-
95,5 yfirvinnustundir kr. 397.853,-
12 stundir vegna matartíma kr. 49.992,-
Samtals kr. 766.464,-
Að frádregnum greiddum launum skv. launaseðli kr. 676.230,-
Ógreitt kr. 90.234,-
Vegna marsmánaðar
160,5 dagvinnustundir kr. 348.005,-
106,5 yfirvinnustundir kr. 443.679,-
21 stundir vegna matartíma kr. 87.486,-
Samtals kr. 879.170,-
Að frádregnum greiddum launum skv. launaseðli kr. 763.716,-
Ógreitt kr. 115.454,-
Vegna aprílmánaðar
148,5 dagvinnustundir kr. 352.267,-
120,5 yfirvinnustundir kr. 502.003,-
18 stundir vegna matartíma kr. 74.988,-
Samtals kr. 929.258,-
Að frádregnum greiddum launum skv. launaseðli kr. 834.538,-
Ógreitt kr. 94.720,-
Vegna maímánaðar
155 dagvinnustundir kr. 351.173,-
114 yfirvinnustundir kr. 498.180,-
16 stundir vegna matartíma kr. 69.920,-
Samtals kr. 919.273,-
Að frádregnum greiddum launum skv. launaseðli kr. 803.293,-
Ógreitt kr. 115.980,-
Vegna júnímánaðar
152 dagvinnustundir kr. 344.376,-
81 yfirvinnustundir kr. 353.970,-
12 stundir vegna matartíma kr. 52.440,-
Samtals kr. 750.786,-
Að frádregnum greiddum launum skv. launaseðli kr. 666.781,-
Ógreitt kr. 84.005,-
Vegna júlímánaðar
136 dagvinnustundir kr. 322.615,-
106,5 yfirvinnustundir kr. 465.405,-
12 stundir vegna matartíma kr. 52.440,-
Samtals kr. 840.460,-
Að frádregnum greiddum launum skv. launaseðli kr. 741.071,-
Ógreitt kr. 99.389,-
Vegna ágústmánaðar
172,5 dagvinnustundir kr. 374.024,-
87,5 yfirvinnustundir kr. 382.375,-
16 stundir vegna matartíma kr. 69.920,-
Samtals kr. 826.319,-
Að frádregnum greiddum launum skv. launaseðli kr. 738.886,-
Ógreitt kr. 87.433,-
Vegna septembermánaðar
143 dagvinnustundir kr. 323.985,-
101 yfirvinnustundir kr. 441.370,-
19 stundir vegna matartíma kr. 83.030,-
Samtals kr. 848.385,-
Að frádregnum greiddum launum skv. launaseðli kr. 714.851,-
Ógreitt kr. 133.534,-
Vegna októbermánaðar
135,5 dagvinnustundir kr. 321.428,-
79 yfirvinnustundir kr. 345.230,-
15 stundir vegna matartíma kr. 65.550,-
Samtals kr. 732.208,-
Að frádregnum greiddum launum skv. launaseðli kr. 618.711,-
Ógreitt kr. 113.497,-
Vegna nóvembermánaðar
150 dagvinnustundir kr. 339.845,-
95 yfirvinnustundir kr. 415.150,-
19 stundir vegna matartíma kr. 83.030,-
Samtals kr. 838.025,-
Að frádregnum greiddum launum skv. launaseðli kr. 719.221,-
Ógreitt kr. 118.804,-
Vegna desembermánaðar
135 dagvinnustundir kr. 305.860,-
58 yfirvinnustundir kr. 253.460,-
10 stundir vegna matartíma kr. 43.700,-
Samtals kr. 603.020,-
Að frádregnum greiddum launum skv. launaseðli kr. 491.981,-
Ógreitt kr. 111.039,-
3) Vegna ársins 2006:
Vegna janúarmánaðar
143,5 dagvinnustundir kr. 341.699,-
112,5 yfirvinnustundir kr. 516.712,-
17 stundir vegna matartíma kr. 78.081,-
Samtals kr. 936.492,-
Að frádregnum greiddum launum skv. launaseðli kr. 806.434,-
Ógreitt kr. 130.058,-
Vegna febrúarmánaðar
116,5 dagvinnustundir kr. 304.783,-
95,5 yfirvinnustundir kr. 438.631,-
11 stundir vegna matartíma kr. 50.523,-
Samtals kr. 793.937,-
Að frádregnum greiddum launum skv. launaseðli kr. 695.526,-
Ógreitt kr. 98.411,-
Vegna marsmánaðar
132,5 dagvinnustundir kr. 301.945,-
98,5 yfirvinnustundir kr. 452.410,-
16 stundir vegna matartíma kr. 73.488,-
Samtals kr. 827.844,-
Að frádregnum greiddum launum skv. launaseðli kr. 657.161,-
Ógreitt kr. 170.682,-
Vegna aprílmánaðar
137,5 dagvinnustundir kr. 359.722,-
83,5 yfirvinnustundir kr. 383.515,-
12 stundir vegna matartíma kr. 55.116,-
Samtals kr. 798.354,-
Að frádregnum greiddum launum skv. launaseðli kr. 714.574,-
Ógreitt kr. 83.780,-
Vegna maímánaðar
155 dagvinnustundir kr. 353.219,-
100 yfirvinnustundir kr. 459.300,-
10 stundir vegna matartíma kr. 45.930,-
Samtals kr. 858.449,-
Að frádregnum greiddum launum skv. launaseðli kr. 767.393,-
Ógreitt kr. 91.056,-
Vegna júnímánaðar
133,5 dagvinnustundir kr. 317.887,-
133 yfirvinnustundir kr. 610.869,-
26 stundir vegna matartíma kr. 119.418,-
Samtals kr. 1.048.174,-
Að frádregnum greiddum launum skv. launaseðli kr. 854.660,-
Ógreitt kr. 193.514,-
Vegna júlímánaðar
87,5 dagvinnustundir kr. 218.150,-
81,5 yfirvinnustundir kr. 374.329,-
14 stundir vegna matartíma kr. 64.302,-
Samtals kr. 656.781,-
Að frádregnum greiddum launum skv. launaseðli kr. 441.290,-
Ógreitt kr. 215.491,-
Vegna ágústmánaðar
157,5 dagvinnustundir kr. 358.916,-
56 yfirvinnustundir kr. 257.208,-
11 stundir vegna matartíma kr. 50.523,-
Samtals kr. 666.647,-
Að frádregnum greiddum launum skv. launaseðli kr. 576.784,-
Ógreitt kr. 89.863,-
Vegna septembermánaðar
142,5 dagvinnustundir kr. 372.803,-
52,5 yfirvinnustundir kr. 241.132,-
19 stundir vegna matartíma kr. 55.116,-
Samtals kr. 669.051,-
Að frádregnum greiddum launum skv. launaseðli kr. 560.708,-
Ógreitt kr. 108.343,-
Vegna októbermánaðar
137 dagvinnustundir kr. 326.221,-
106 yfirvinnustundir kr. 486.858,-
20 stundir vegna matartíma kr. 91.860,-
Samtals kr. 904.939,-
Að frádregnum greiddum launum skv. launaseðli kr. 746.725,-
Ógreitt kr. 158.214,-
Vegna nóvembermánaðar
152 dagvinnustundir kr. 361.939,-
90,5 yfirvinnustundir kr. 415.666,-
15 stundir vegna matartíma kr. 68.895,-
Samtals kr. 846.500,-
Að frádregnum greiddum launum skv. launaseðli kr. 744.428,-
Ógreitt kr. 102.072,-
Vegna desembermánaðar
157,5 dagvinnustundir kr. 392.670,-
84 yfirvinnustundir kr. 385.812,-
18 stundir vegna matartíma kr. 82.674,-
Samtals kr. 861.156,-
Að frádregnum greiddum launum skv. launaseðli kr. 774.283,-
Ógreitt kr. 86.873,-
4) Vegna ársins 2007:
Vegna janúarmánaðar
155,5 dagvinnustundir kr. 386.104,-
117,5 yfirvinnustundir kr. 566.115,-
16 stundir vegna matartíma kr. 77.088,-
Samtals kr. 1.029.307,-
Að frádregnum greiddum launum skv. launaseðli kr. 919.400,-
Ógreitt kr. 109.907,-
Vegna febrúarmánaðar
137 dagvinnustundir kr. 375.976,-
140 yfirvinnustundir kr. 676.929,-
20 stundir vegna matartíma kr. 96.360,-
Samtals kr. 1.149.265,-
Að frádregnum greiddum launum skv. launaseðli kr. 877.261,-
Ógreitt kr. 272.004,-
Vegna marsmánaðar
105 dagvinnustundir kr. 263.854,-
195,5 yfirvinnustundir kr. 508.299,-
15 stundir vegna matartíma kr. 72.270,-
Samtals kr. 844.423,-
Að frádregnum greiddum launum skv. launaseðli kr. 515.911,-
Ógreitt kr. 328.512,-
Vegna aprílmánaðar
128,5 dagvinnustundir kr. 412.328,-
152 yfirvinnustundir kr. 732.336,-
22 stundir vegna matartíma kr. 105.660,-
Samtals kr. 1.250.660,-
Að frádregnum greiddum launum skv. launaseðli kr. 990.484,-
Ógreitt kr. 260.176,-
Vegna maímánaðar
135 dagvinnustundir kr. 370.488,-
117,5 yfirvinnustundir kr. 566.115,-
23 stundir vegna matartíma kr. 110.814,-
Samtals kr. 1.047.417,-
Að frádregnum greiddum launum skv. launaseðli kr. 764.038,-
Ógreitt kr. 283.379,-
Samtals kr. 4.262.519,-
Orlof, 13,04% kr. 555.832,-
Heildarkrafa kr. 4.818.351,-
Málsástæður og lagarök stefnanda
Í ráðningarsamningi stefnanda sé ekki fjallað um skipulag vinnutíma innan vinnulotu. Þá sé óskilgreint í ráðningarsamningi hvernig greiða skuli fyrir unna tíma í vinnulotu en heimild til að semja um slíkt sé að finna í kjarasamningi, sbr. 2. kafla, auk þess sem slíkt sé heimilt samkvæmt lögum nr. 88/1971 um 40 stunda vinnuviku. Í starfsmannahandbók stefnda sé kveðið á um að starfsmaður vinni a.m.k. 100 klst. í hverri lotu, þ.e. a.m.k 10 tíma að meðaltali á dag en ekkert segi í starfsmannahandbók hvernig laun séu greidd fyrir vinnustundir í vinnulotu. Eftir standi að horfa verði til ákvæða kjarasamnings enda sé vísað til kjarasamnings í ráðningarsamningi.
Í kafla 2.1.1 í kjarasamningi komi fram að vinnudagur merki sérhvern virkan dag annan en laugardag. Í kafla 2.1.2 segi að dagvinna sé 38 klst. á viku og samkvæmt kafla 2.1.3 í kjarasamningi skal dagvinna unnin á þeim tíma sem samkomulag sé um á hverjum vinnustað. Dagvinna skuli þó að jafnaði unnin á tímabilinu kl. 08.00 17.00. Í tilviki stefnanda hafi ekki verið samið sérstaklega um fyrirkomulag á launagreiðslu vegna þess sérstaka vinnutíma sem stefnandi vann hjá stefnda. Á grundvelli þess sé það mat stefnanda að stefnda hafi verið alls óheimilt að greiða laun hans með því móti sem gert var, þ.e. að taka heildarfjölda unninna stunda yfir hvern mánuði, og greiða yfirvinnukaup fyrir þann fjölda vinnustunda sem var umfram þær stundir sem telst vera full dagvinna á mánuði. Með vísan til framangreinds sé gerð krafa um að stefndi greiði stefnanda þau laun sem séu ógreidd á ofangreindu tímabili samkvæmt útreikningi launa hans í samræmi við ákvæði kjarasamnings.
Kröfu sína um greiðslu matartíma byggir stefnandi á því að samkvæmt grein 2.2.3 í kjarasamningi sé stefnda skylt að greiða 1 klukkustund aukalega sé unnin meiri yfirvinna hvern dag en 3 klst. Fari slík yfirvinna fram úr 10 klst. á sólarhring skal til viðbótar veita einnar klukkustundar matarhlé, sem teljast skal til vinnutíma sbr. ákvæði 2.2.3 í kjarasamningi. Stefnandi hafi aldrei fengið greitt fyrir matarhlé þrátt fyrir að yfirvinnustundir hans hafi margsinnis farið umfram þann tíma sem kveðið sé á um í kjarasamningi.
Á tímabilinu 1. janúar 30. apríl 2007 hafi stefndi dregið frá tímaskýrslu stefnanda 1,5 klst. vegna ferðalaga á milli sumarhúss á Einarsnesi og Reyðarfjarðar í upphafi vinnudags og frá Reyðarfirði til Einarsness í lok vinnudags. Stefnandi hafi fengið greidda “dagpeninga” kr. 7.000 á tímabilinu.
Samkvæmt grein 3.4.5 í kjarasamningi teljist ferðatími til vinnutíma. Ferðatími utan dagvinnutíma teljist yfirvinna nema um annað hafi verið samið fyrir fram. Ekki hafi verið gerður sérstakur samningur vegna þess fyrirkomulags að stefnandi bjó á tímabilinu í umræddu sumarhúsi og beri því að fara eftir ákvæðum kjarasamnings um þetta atriði. Stefnandi byggir kröfu sína á grein 3.4.6 í kjarasamningi og gerir kröfu um greiðslu á 1,5 klst. yfirvinnutíma vegna ferðatíma á tímabilinu auk matartíma, fari yfirvinnustundir dag hvern umfram tiltekinn fjölda stunda, sbr. ákvæði 2.2.3 í kjarasamningi.
Auk alls framangreinds gerir stefnandi kröfu um greiðslu orlofs, 13,04 %, sbr. ákvæði 4.2.4 í kjarasamningi á umkrafin laun.
Til viðbótar öllu framangreindu sé vísað til ákvæða laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks, laga nr. 88/1971 um 40 stunda vinnuviku, laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda nr. 129/1997 og laga um orlof nr. 30/1987.
Kröfur um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styður stefnandi við reglur III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001, með síðari breytingum. Krafan um málskostnað sé studd við 1. mgr. 130. gr. laga 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun sé reist á lögum númer 50/1988. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og beri honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefndu. Varðandi varnarþing er vísað til 33. gr. laga nr. 91/1991.
Málsástæður og lagarök stefnda
Í stefnu gerir stefnandi þær dómkröfur að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda kr. 4.818,351 auk dráttarvaxta og málskostnaðar.
Stefndi mótmælir alfarið öllum málsástæðum og lagarökum stefnanda. Hann mótmælir því að hann sjálfur eða menn sem hann beri ábyrgð á hafi á nokkurn hátt brotið gegn skyldum sínum sem vinnuveitandi samkvæmt ákvæðum kjarasamnings eða öðrum réttarreglum, eins og stefnandi heldur fram í stefnu.
Stefndi byggir á eftirfarandi málsástæðum og lagarökum.
Vinnufyrirkomulag stefnanda, vinnutími innan vinnulotu
Því sé mótmælt sem fram komi í stefnu að ekki hafi verið samið sérstaklega um fyrirkomulag á launagreiðslu stefnanda innan vinnulotu og óljóst hafi verið af ráðningarsamningi og samkomulagi aðila um skipulag vinnutíma innan vinnulotu. Því sé einnig sérstaklega mótmælt sem röngu að dagvinnutímar samkvæmt kjarasamningi teljist einungis virka daga frá kl. 8-17, en krafa stefnanda og útreikningar virðast á því byggð (yfirvinnutímar virðast reiknaðir sem allir tímar utan dagvinnutímabils sem stefnandi skilgreinir frá kl. 8-17 virka daga).
Í lögum nr. 71/1998 um 40 stunda vinnuviku komi fram í 2. mgr. 2. gr. að að jafnaði skuli unnar 8 klukkustundir í dagvinnu á degi hverjum, nema annar vinnutími henti betur af sérstökum ástæðum og um það sé samið af aðilum, og þá sé átt við aðila vinnumarkaðarins, sbr. og 2. mgr. 1. gr. laganna.
Í 2. kafla kjarasamnings, er gilt hafi á ofangreindu ráðningartímabili, hafi verið mælt fyrir um vinnutíma. Í grein 2.1.1 hafi verið mælt fyrir um að vinnudagur merki í samningnum sérhvern virkan dag annan en laugardag. Í grein 2.1.2 komi fram að dagvinna væri 38 klst. á viku. Þá kom eftirfarandi fram í grein 2.1.3:
„Dagvinna skal unnin á þeim tíma, sem samkomulag er um á hverjum vinnustað. Hún skal að jafnaði unnin á vinnudögum á tímabilinu kl. 8:00 17:00.“ (leturbr. stefnda)
Með orðalaginu „sem samkomulag er um á hverjum vinnustað“ verði ekki talið að einungis sé átt við vinnustaðasamning eða ráðningarsamning, heldur eigi það einnig við um hvers konar samkomulag á milli vinnuveitanda og starfsmanna. Jafnframt sé gerður fyrirvarinn „að jafnaði“ í seinni málslið greinarinnar og megi segja að tilgreint tímabil sé til leiðbeiningar, en ekki samkomulag um annan dagvinnutíma.
Í viðauka við ráðningarsamning stefnanda var mælt fyrir um að vinnufyrirkomulag yrði með þeim hætti að unnið væri að jafnaði í 10 daga samfelldu tímabili en að því loknu yrðu 4 frídagar. Óumdeilt sé að vinnufyrirkomulag stefnanda hafi verið á þann hátt í raun. Í viðauka við ráðningarsamning stefnanda hafi auk þess verið vísað til starfsmannahandbókar HRV. Þar sé nánar mælt fyrir um vinnufyrirkomulag þetta. Komi þar fram að í hverri lotu yrði vinna alla daga og vinnutími sá sami nema annað yrði ákveðið af yfirmanni. Í starfsmannahandbók HRV hafi enn fremur verið kveðið á um að starfsmenn ynnu a.m.k. í 100 tíma í hverri 10 daga lotu, þ.e. a.m.k. 10 tíma að meðaltali á dag. Í þessu 10/4 lotukerfi hafi fjöldi vinnudaga í mánuði verið að meðaltali 21,67 dagur og vinnutími hafi því verið að meðaltali 216,7 tímar á mánuði. Samkvæmt starfsmannahandbók HRV hafi vinnutími á álverslóðinni verið frá kl. 7.00 til 5.30, þ.e. 10 tíma vinnudagur.
Með vísan til framangreinds hafnar stefndi því alfarið að ekkert samkomulag hafi verið til staðar varðandi skipulag á vinnutíma stefnanda. Af ráðningarsamningi, gögnum sem sá samningur hafi vísað til og sameiginlegum skilningi samningsaðila, hafi stefnanda verið augljóst hvernig vinnufyrirkomulagi og vinnutíma á álverslóð við Reyðarfjörð hafi átt að vera og hafi verið háttað. Aðrir starfsmenn hafi einnig fylgt viðkomandi vinnutíma. Stefndi áréttar að „vinnutími“ í framangreindum skilningi starfsmannahandbókar HRV hafi bæði falið í sér dagvinnu og yfirvinnu eins og reifað verði hér á eftir.
Mánaðarlaun séu í 8.2.1 gr. kjarasamnings skilgreind sem jafnaðargreiðsla launa fyrir dagvinnu í einn mánuð. Í 8.2.3 gr. kjarasamningsins komi fram að um laun skuli semja í ráðningar- eða vinnustaðasamningi. Í grein 8.3.1 komi fram að yfirvinna skuli greidd með tímakaupi fyrir hverja vinnustund umfram dagvinnu. Ráðningarsamningur stefnanda kveði m.a. á um í 5. gr. að mánaðarlaun starfsmanns fyrir dagvinnu í fullu starfi skyldu vera samkvæmt flokki 533 í launataxta Hönnunar hf. Jafnframt sé þar mælt fyrir um endurskoðun launa stefnanda. Í viðauka við ráðningarsamning sé ákvæði um staðaruppbót bætt við 5. gr. ráðningarsamnings. Starfsmannahandbók HRV hafi vísað um launagreiðslur til ráðningarsamnings starfsmanns við sinn atvinnurekanda.
Fyrirkomulag launagreiðslna hjá stefnda hafi verið þannig háttað að miðað var við 7,6 dagvinnustundir á dag að meðaltali í hverri vinnulotu (38 stunda dagvinnuskyldu á viku að meðaltali), sbr. ákvæði kjarasamnings þar að lútandi. Samtala dagvinnustunda hafi verið reiknuð mánaðarlega (dagvinnuskyldan) og unnar stundir umfram það greiddar sem yfirvinnustundir. Hvað varðar störf stefnanda fyrir stefnda vegna Sorpstöðvar Rangárvallasýslu sérstaklega hafi sú vinna, sem stefnandi var sjálfráður um, ávallt verið virt sem yfirvinnustundir að því gefnu að þær væru umfram mánaðarlegan dagvinnutíma samkvæmt kjarasamningi.
Stefndi vekur athygli á að sama fyrirkomulag hafi verið á vinnulotum og greiðslum launa þau tæpu þrjú ár sem stefnandi starfaði á álverslóð á Reyðarfirði. Á þeim tíma hafi hann notið réttinda og borið skyldur samkvæmt ráðningarsamningnum og gögnum sem voru hluti hans. Hafi stefnanda verið fullljóst að um 10 daga dagvinnutímabil hafi verið að ræða, en allt umfram 7,6 tíma að meðaltali á dag yrði metið sem yfirvinna og samkomulag hafi verið með aðilum að hafa þann háttinn á. Stefndi mótmælir því að stefnandi hafi haft uppi athugasemdir við útreikning launa sinna og annarra starfsmanna sérstaklega hvað skilgreiningu á dagvinnutíma varðaði. Sé það ekki stutt neinum gögnum. Stefnandi hafi hvorki gert sérstakar athugasemdir við útreikning launa sinna né mótmælt en skilningi á dagvinnu- eða yfirvinnutíma fyrr en tæpum tveimur árum eftir starfslok hans hjá stefnda.
Samkvæmt ofangreindu telur stefndi sig hafa farið að öllu leyti eftir ráðningarsamningi við stefnanda og gildandi kjarasamningi sem hafi falið í sér lágmarkskjör, sbr. 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda. Mánaðarlaun hafi verið greidd fyrir 38 stunda dagvinnu á viku að meðaltali (7,6 tímar á dag í vinnulotu), og allir unnir tímar umfram það greiddir stefnanda sem yfirvinna.
Greiðsla fyrir viðbótarmatarhlé
Þá sé kröfu stefnanda, um greiðslu viðbótarmatarhlés samkvæmt 2.2.3 kjarasamningsins, mótmælt af hálfu stefnda.
Samkvæmt grein 2.1.5 skal matartími vera hvern vinnudag 30-60 mínútur á tímabilinu 11.30-13.30 og teljist hann ekki til vinnutíma. Samkvæmt grein 2.1.6 skal kaffitími vera 15 mínútur hvern vinnudag síðdegis og teljist hann til vinnutíma. Í starfsmannahandbók HRV komi fram að matarhlé sé 30 mínútur og sé venjulega tekið milli 12.00 og 13.00. Kaffihlé sé ekki skilgreint sérstaklega í handbókinni en tekið sé fram að starfsmönnum sé ávallt frjálst að fá sér hlé fyrir kaffi- eða tesopa.
Í grein 2.2.3 kjarasamningsins komi fram að mæli vinnuveitandi fyrir um yfirvinnu, sem nemi meiru en 3 klst. á sólarhring, skuli veita einnar klst. matarhlé. Fari slík yfirvinna fram úr 10 klst. á sólarhring skal til viðbótar veita einnar klukkustundar matarhlé. Slík matarhlé teljist til vinnutíma. Í síðustu málsgrein greinar 2.2.3 kjarasamningsins sé hins vegar mælt fyrir um að þetta gildi ekki ef ákvörðun um yfirvinnu sé einungis í höndum starfsmanns.
Stefnandi hafi almennt heyrt undir Svein Jónsson byggingarstjóra á meðan hann starfaði á álverslóð á Reyðarfirði. Stefnandi hafi þó búið við mikið sjálfstæði varðandi verkefni sín. Störf hans á álverslóðinni hafi að meginstefnu til verið eftirlitsstörf sem að jafnaði hafi ekki verið tengd öðrum starfsmönnum og hafi honum verið í sjálfsvald sett hvenær hann annaðist þau störf.
Samkvæmt framansögðu var miðað við 10 tíma vinnudag að jafnaði en þess hafi aldrei verið krafist af hálfu stefnda að stefnandi ynni meira en 10 tíma á sólarhring. Oftar en ekki hafi komið fyrir að vinnutímar stefnanda yrðu fleiri einhverja daga innan vinnulotu. Hafi slíkt alfarið verið í höndum stefnanda. Hafi það komið fyrir hjá starfsmönnum stefnda að þeir tækju þá ákvörðun að vinna færri vinnutíma einhverja daga innan vinnulotu, sem þeir bættu þá upp aðra daga lotunnar. Gat það komið til hjá starfsmönnum, t.d. til þess að fá lengra helgarfrí.
Hvað varðar störf stefnanda fyrir stefnda vegna Sorpstöðvar Rangárvalla, hafi stefnandi sjálfur óskað eftir þeirri vinnu og ráðið alfarið sjálfur hvenær sú vinna var unnin.
Greiðsla ferðatíma frá 1. janúar 30. apríl 2007
Stefndi mótmælir kröfu stefnanda um greiðslu vegna ferðatíma tímabilið 1. janúar 2007 til 31. maí 2009. Styður stefnandi kröfu sína við grein 3.4.5 í kjarasamningi.
Grein 3.4 kjarasamnings, og þar með grein 3.4.5, sem stefnandi vísar til, eigi við um vinnu starfsmanna á ferðalögum. Samkvæmt skilgreiningu kjarasamningsins teljist vinna starfsmanns, utan fasts eða tímabundins vinnustaðar, vinna á ferðalagi.
Í viðauka við ráðningarsamning sé mælt fyrir um að stefnandi láti tímabundið af störfum á Hvolsvelli og fari að vinna á álverslóð. Í grein 3.3.1 kjarasamningsins komi fram að sé starfsmaður settur til vinnu á öðrum vinnustað en föstum vinnustað um stundarsakir, þó ekki skemur en 1 mánuð, teljist slíkur vinnustaður tímabundinn vinnustaður samkvæmt kjarasamningnum. Stefndi mótmælir þeim skilningi stefnanda að starf hans á álverslóð, til nokkurra ára, verði talið falla undir starf á ferðalagi. Slík skilgreining á vinnu stefnanda myndi einnig vera í ósamræmi við kröfu stefnanda sem trúnaðarmanns, er hann var í starfi hjá stefnda, um vinnustaðasamning, sbr. umfjöllun þar um hér á eftir.
Í grein 3.3.2.1 kjarasamnings um tímabundinn vinnustað sé hins vegar að finna ákvæði um skyldur vinnuveitanda vegna starfs starfsmanns á tímabundnum vinnustað. Vinnuveitanda sé þannig t.d. skylt að greiða ákveðinn kostnað sem starfsmaður verði fyrir vegna vinnu á tímabundnum vinnustað. Í b-lið ákvæðisins sé nefnt að vinnuveitandi skuli leggja starfsmanni til endurgjaldslaust gistiaðstöðu að jafnaði í einstaklingsherbergi með aðgangi að viðunandi snyrtiaðstöðu, baði og sameiginlegri setustofu, greiði venjulegan fæðiskostnað starfsmannsins og sjái honum fyrir fríum ferðum í vinnutíma til og frá heimili minnst aðra hverja viku. Tekið var fram að ekki skyldi vera skemmra á milli ferða til og frá heimili en tveir (2) sólarhringar. Starfsmönnum (þ.á.m. stefnanda) sem bjuggu utan Fjarðarbyggðar og gátu ekki gist á heimili sínu í vinnulotu var séð fyrir fríum flutningi milli heimilis og álverslóð á fyrsta og síðasta degi vinnulotu á vinnutíma. Hvað varðar ferðir til og frá heimili stefnanda, hafi auk þess verið mælt fyrir um í ráðningarsamningi stefnanda að ferðatími til og frá vinnustað væri innan ofangreinds 10 daga vinnufyrirkomulags. Ferðast var heim á síðasta degi hverrar vinnulotu og til álverslóðar á fyrsta degi hverrar vinnulotu. Stefnandi hafi á ofangreindu tímabili fengið greiddan ferðatíma, allt að 4 tíma hvora leið, til og frá Reykjavík við lok hverrar vinnulotu, sbr. starfsmannahandbók HRV. Frá Reykjavíkurflugvelli hafði stefnandi einnig bifreið til umráða til þess að komast á heimili sitt á Hvolsvelli. Þannig hafði stefnandi fjóra heila daga í frí.
Boðið hafi verið upp á gistingu og fæði í vinnulotum fyrir starfsmenn í starfsmannaþorpi (vinnuskálum) og komi fram í starfsmannahandbók HRV að miðað væri við að starfsmenn sem ekki höfðu heimili í Fjarðabyggð gistu þar. Frá 1. september 2004 hafi stefnandi dvalið í vinnuskálum HRV við Reyðarfjörð í vinnulotum. Í þeim vinnulotum bauð HRV upp á ferðir í upphafi og lok dags til og frá vinnuskálum og til álverslóðar, líkt og mælt sé fyrir um í starfsmannahandbók. Af stefnu virðist ekki ágreiningur milli aðila um að stefndi hafi uppfyllt skyldur sínar samkvæmt kjarasamningi hvað ferðatíma á tímabilinu 1. september 2004 til 1. janúar 2007 varðar.
Þann 1. janúar 2007 hafi stefnandi hins vegar tekið þá ákvörðun að nýta sér þann möguleika, sem stefndi bauð upp á, að færa gististað sinn í vinnulotum frá vinnuskálum (starfsmannaþorpi) HRV við Reyðarfjörð og til sumarbústaðabyggðar í Einarsnesi við Egilsstaði. Á tímabilinu frá 1. janúar 2007 til 30. apríl 2007 hafi stefnanda þó einnig boðist að dveljast áfram í vinnuskálum HRV. Ákvörðun stefnanda um að flytja að Einarsnesi hafi alfarið verið í höndum stefnanda sjálfs. Stefndi hafi auk þess ákveðið að koma til móts við þá starfsmenn, er kusu að dveljast að Einarsnesi, og hafi stefndi greitt stefnanda dagpeninga og veitt stefnanda og öðrum starfsmönnum aðgang og afnot af bifreið í vinnulotum til þess að komast til og frá vinnu. Stefnandi hafi ekki fengið greitt fyrir ferðir til og frá vinnustað en fékk áfram greidda staðaruppbót sem greidd var til þeirra sem voru fjarri heimili sínu vegna verkefnisins. Ekki sé unnt að fallast á að hann falli í flokk með þeim starfsmönnum sem gistu á heimili sínu í vinnulotu.
Vakin sé athygli á að stefnandi hafi engar athugasemdir gert við ofangreint á starfstíma sínum, og ekki fyrr en tæpum tveimur árum eftir starfslok hans hjá stefnda.
Staðhæfing stefnanda varðandi grein 3.3.2.3 kjarasamnings
Í stefnu sé vísað til greinar 3.3.2.3 í kjarasamningi aðila og staðhæft að stefnandi hafi gert kröfu um að gerðir yrðu samningar við hvern og einn starfsmann eða vinnustaðasamningur samkvæmt framangreindri grein. Þá komi fram að þegar stefnandi lauk störfum fyrir fyrirtækið í maí 2007 hafði enginn samningur verið gerður við hann þrátt fyrri ítrekaðar kröfur þess efnis.
Stefndi telur rétt að fara nokkrum orðum um ofangreinda staðhæfingu. Grein 3.3.2.3 kjarasamningsins hljóði svo:
„Sé tímabundinn vinnustaður utan fastrar byggðar, s.s. við framkvæmdir á hálendi Íslands eða hliðstætt, ber vinnuveitanda og starfsmanni að gera skriflegan samning sín í milli um staðaruppbót o.fl. Í slíkum samningi skal að lágmarki kveðið á um eftirfarandi:
a) Tímalengd verkefnis
b) Vinnutilhögun starfsmanns
c) Launaauka til starfsmanns (staðaruppbót)
d) Tíðni ferða til og frá heimili starfsmanns.“
Í ofangreindu ákvæði sé ekki vísað til þess að gera beri vinnustaðasamning, heldur „[...] ber vinnuveitanda og starfsmanni að gera skriflegan samning sín í milli [...]“. Líkt og fram komi í stefnu, var þann 1. september 2004 gerður viðauki við ráðningarsamning stefnanda. Í viðaukasamningnum sé mælt fyrir um vinnutilhögun stefnanda og vísað í starfsmannahandbók HRV. Þá sé mælt fyrir um launaauka til stefnanda (staðaruppbót), sem fólst nánar tiltekið í 1% af launum hverja nótt sem stefnandi var fjarri heimili sínu. (Í starfsmannahandbók HRV hafi einnig verið mælt fyrir um rétt starfsmanna sem dvöldust fjarri heimili sínu í vinnulotum til 1% staðaruppbótar. Einnig sé mælt fyrir um að ferðatími til og frá vinnustað greiðist af hálfu vinnuveitanda og að stefnandi eigi rétt á bifreið til umráða við komu til Reykjavíkur og brottför. Sé þar átt við upphaf og lok fríhelgar. Loks sé kveðið á um tímalengd verkefnis, þ.e. að gert sé ráð fyrir viðveru stefnanda á Reyðarfirði til maíloka 2007.
Af þessu megi ráða að nefndur viðauki við ráðningarsamning taki á þeim atriðum sem vísað sé til í grein 3.3.2.3. Stefndi telur því að ofangreind staðhæfing, um að þegar stefnandi lauk störfum fyrir fyrirtækið í maí 2007 hefði enginn samningur verið gerður við hann þrátt fyrir ítrekaðar kröfur þess efnis, eigi ekki við rök að styðjast.
Af öllu ofangreindu sé því ljóst að hafna beri kröfu stefnanda. Að öðrum leyti sé málatilbúnaði stefnanda eins og hann komi fram í greinargerð stefnanda mótmælt í heild sinni.
Varakrafa
Stefndi krefst til vara lækkunar á kröfum stefnenda og að dráttarvaxtakröfu verði vísað frá dómi ex officio eða hún lækkuð.
Almennt
Stefnandi hafi sett fram einhliða túlkun á ákvæðum ráðningarsamnings og ráðningarsambands aðila sem sé mótmælt af hálfu stefnda.
Ekki verði byggt á skilgreiningu stefnanda á dag- og yfirvinnutíma. Þá verði ekki byggt á því að stefnandi hafi átt rétt á viðbótarmatartíma, enda sé hann sjálfráður um störf sín. Loks verði ekki byggt á því að stefnandi hafi átt rétt á að fá ferðatíma til og frá vinnu í vinnulotum greiddan, hvorki samkvæmt kjarasamningi né ráðningarsamningi. Um málsástæður og lagarök vísast til málsástæðna sem þegar hafa verið raktar hér að framan.
Að auki megi nefna að stefnandi haldi því fram að stefndi hafi dregið frá tímaskýrslu 1,5 klst. vegna ferðalaga á milli sumarhúss á Einarsnesi og til Reyðarfjarðar. Í þeim tímaskýrslum sem liggi fyrir í málinu sé ekkert tilgreint um ferðir til og frá vinnustað. Auk þess séu engin gögn lögð fram af hálfu stefnanda sem styðji að það hafi tekið hann 1,5 klst. að keyra til og frá vinnustað.
Að því leyti sem dómurinn taki stefnukröfuna ekki til greina beri að lækka hana sem því nemi.
Hluti kröfu stefnanda fyrndur
Ljóst sé að hluti kröfu stefnanda sé fyrndur. Fyrningarfestur krafna teljist frá þeim degi sem krafa varð gjaldkræf, sbr. 5. gr. þágildandi laga um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda nr. 14/1905.
Stefndi mótmælir meintri kröfu stefnanda að því leyti sem hún sé fyrnd að hluta þar til fyrningu var slitið með málssókn, þ.e. til og með mars 2005 samkvæmt 2. tölul. 3. gr. laga nr. 14/1905 um 4 ára fyrningarfrest launakrafna.
Dráttarvextir
Dráttarvaxtakrafa stefnenda sé í heild vanreifuð þar sem einungis sé vísað ósundurgreint til III. kafla laga nr. 38/2001, og ekki er getið vaxtafótar eða vísað til 1. mgr. 6. gr. sömu laga, sbr. dómafordæmi Hæstaréttar þar um. Beri því að vísa henni ex officio frá dómi.
Jafnframt sé ljóst að stefndi hafi ekki sett fram kröfu fyrr en með bréfi sínu til stefnda, dags. 21. janúar 2009. Því telur stefndi stefnanda ekki heimilt að krefjast dráttarvaxta af kröfu sinni fyrr en mánuði síðar, eða 21. febrúar 2009, sbr. 3. mgr. 5. gr. vaxtalaga nr. 38/2001.
Málskostnaður
Stefndi styður kröfu sína um málskostnað við 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Niðurstaða
Í viðauka við ráðningarsamning stefnanda, dags. 1. september 2004, vegna vinnu við Fjarðarál á Reyðarfirði, er tekið fram að stefnandi sé ráðinn á því vinnufyrirkomulagi að unnið sé að jafnaði í 10 daga samfellt en að því loknu yrðu 4 frídagar. Um vinnufyrirkomulag þetta var auk þess vísað til starfsmannahandbókar HRV verkfræðisamsteypunnar á svæðinu. Þar kemur fram að í hverri lotu sé vinna alla daga og vinnutími sá sami nema annað yrði ákveðið af yfirmanni. Þar er enn fremur kveðið á um að starfsmenn ynnu a.m.k. í 100 tíma í hverri 10 daga lotu, þ.e. a.m.k. 10 tíma að meðaltali á dag. Sé unnið 10/4 lotukerfi sé fjöldi vinnudaga í mánuði að meðaltali 21,67 dagur. Hefðbundinn vinnutími sé því að meðaltali 216,7 tímar á mánuði. Samkvæmt starfsmannahandbók HRV var vinnutími á álverslóðinni frá kl. 7.00 til 5.30 og skilgreindur sem 10 tíma vinnudagur. Er óumdeilt í málinu að vinnufyrirkomulag stefnanda hafi verið með framangreindum hætti, enda þótt greindur ráðningarsamningur hafi ekki verið undirritaður af hans hálfu.
Stefndi kveður fyrirkomulag launagreiðslna hafa verið þannig háttað að miðað var við 7,6 dagvinnustundir á dag að meðaltali í hverri vinnulotu (38 stunda dagvinnuskyldu á viku að meðaltali), sbr. ákvæði kjarasamnings þar að lútandi. Samtala dagvinnustunda hafi verið reiknuð mánaðarlega (dagvinnuskyldan) og unnar stundir umfram það greiddar sem yfirvinnustundir.
Fyrir liggur samkvæmt framburði stefnanda sjálfs fyrir dómi að hann gerði ekki athugasemdir við stefnda um launagreiðslur til sín meðan hann var í starfi hjá stefnda og formleg krafa um vangoldin laun var fyrst sett fram af hans hálfu með bréfi lögmanns hans, dags. 21. janúar 2009. Hins vegar mun stefnandi sem trúnaðarmaður starfsmanna á vinnusvæðinu hafa lagt á það áherslu að ráðningarsamningur yrði gerður við alla starfsmenn og að sérstakur vinnustaðasamningur yrði gerður við þá í samræmi við ákvæði 3.3.2.3 í kjarasamningi.
Vinnufyrirkomulag stefnanda var í samræmi við greindan ráðningarsamning og starfsmannahandbók, sem gilti um vinnu á svæðinu. Stefnandi hafði ekki uppi athugasemdir við stefnda um útreikning launa sinna á starfstímabili sínu við Fjarðarál á Reyðarfirði. Þótt sérstökum vinnustaðasamningi hafi ekki verið til að dreifa verður litið svo á að samkomulag hafi verið milli aðila um fyrirkomulag á launagreiðslum til stefnanda þar með talið hvernig háttað var skiptingu dagvinnu og yfirvinnu í hverri vinnulotu, sbr. ákvæði 2.1.3 í kjarasamningi. Ekki er talið að þetta fyrirkomulag launa hafi brotið gegn ákvæðum kjarasamnings um lágmarkskjör, sbr. 1. gr. laga nr. 55/1980. Verður stefndi því sýknaður af kröfu stefnanda um launamismun vegna dag- og yfirvinnustunda fyrir tímabilið frá október 2004 til maí 2007.
Kröfu sína um greiðslu matartíma byggir stefnandi á því að samkvæmt grein 2.2.3 í kjarasamningi sé stefnda skylt að greiða 1 klukkustund aukalega sé unnin meiri yfirvinna hvern dag en 3 klst. Fari slík yfirvinna fram úr 10 klst. á sólarhring skuli til viðbótar veita einnar klukkustundar matarhlé, sem teljast skal til vinnutíma. Stefnandi hafi aldrei fengið greitt fyrir matarhlé þrátt fyrir að yfirvinnustundir hans hafi margsinnis farið umfram þann tíma sem kveðið sé á um í kjarasamningi. Stefnandi hafði ekki uppi athugasemdir við stefnda um þetta kjaraatriði á starfstímabili sínu við Fjarðarál á Reyðarfirði. Eins og fyrr greinir er stefnandi talinn bundinn af því fyrirkomulagi sem haft var á um skiptingu dagvinnu og yfirvinnu á vinnusvæðinu. Verður stefndi því einnig sýknaður af þessari kröfu stefnanda.
Þá gerir stefnandi kröfu um greiðslu yfirvinnu, 1,5 klst. á dag, á tímabilinu 1. janúar til 30. apríl 2007 vegna ferðalaga á milli sumarhúss á Einarsnesi og Reyðarfjarðar í upphafi og lok vinnudags. Samkvæmt grein 3.4.5 í kjarasamningi teljist ferðatími til vinnutíma. Ferðatími utan dagvinnutíma teljist yfirvinna nema um annað hafi verið samið fyrir fram.
Stefndi mótmælir þessari kröfu stefnanda og bendir á að stefnandi hafi sjálfur tekið þá ákvörðun að nýta sér þann möguleika, sem stefndi bauð upp á, að færa gististað sinn í vinnulotum frá vinnuskálum (starfsmannaþorpi) HRV við Reyðarfjörð og til sumarbústaðabyggðar í Einarsnesi við Egilsstaði. Stefnandi og þeir starfsmenn stefnda sem kusu að dveljast að Einarsnesi fengu greidda umsamda dagpeninga og afnot af bifreið í vinnulotum til þess að komast til og frá vinnu. Ósannað er að stefnandi hafi gert athugasemdir við þetta fyrirkomulag á starfstíma sínum og verður stefndi einnig sýknaður af þessari kröfu stefnanda.
Samkvæmt framansögðu er stefndi sýknaður af kröfum stefnanda í málinu, þar með talinni kröfu um orlof.
Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.
Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð:
Stefndi, Mannvit hf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Hrafns Jóhannssonar, í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.
Eggert Óskarsson