Hæstiréttur íslands

Mál nr. 858/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Meðalganga
  • Lögvarðir hagsmunir
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


                                     

Miðvikudaginn 7. janúar 2015.

Nr. 858/2014.

A og

B

(Guðni Jósep Einarsson hdl.)

gegn

Barnaverndarnefnd Reykjavíkur og

(Kristbjörg Stephensen hrl.)

C

(enginn)

Kærumál. Meðalganga. Lögvarðir hagsmunir. Frávísunarúrskurður staðfestur.

Meðalgöngusök A og B í máli BR gegn C var vísað frá héraðsdómi á þeim grundvelli að ekki yrði litið svo á að A og B hefðu lögvarða hagsmuni af úrslitum málsins milli BR og C.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Markús Sigurbjörnsson hæstaréttardómari og Guðrún Erlendsdóttir og Karl Axelsson settir hæstaréttardómarar.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 17. desember 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. desember 2014, þar sem vísað var frá dómi meðalgöngusök sóknaraðila í máli varnaraðilans Barnaverndarnefndar Reykjavíkur á hendur varnaraðilanum C. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og þeim dæmdur kærumálskostnaður.

Varnaraðilinn Barnaverndarnefnd Reykjavíkur krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilinn C hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður ekki litið svo á að sóknaraðilar hafi lögvarða hagsmuni af úrslitum málsins milli varnaraðilanna og verður niðurstaða hans því staðfest á þann hátt, sem í dómsorði greinir.

Sóknaraðilum verður gert að greiða kærumálskostnað eins og segir í dómsorði.

Dómsorð:

Meðalgöngusök sóknaraðila, A og B, er vísað frá héraðsdómi.

Sóknaraðilar greiði óskipt varnaraðila Barnaverndarnefnd Reykjavíkur 300.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. desember 2014.

Mál þetta sem tekið var til úrskurðar 28. nóvember 2014 um frávísunarkröfu meðalgöngustefndu, Barnaverndarnefndar Reykjavíkur, var höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, 2. júlí 2014, af Barnaverndarnefnd Reykjavíkur, Ráðhúsi Reykjavíkur, Tjarnargötu 11, Reykjavík, á hendur C, [...].

I.

Í málinu gerir aðalstefnandi þær dómkröfur að aðalstefnda verði svipt forsjá dóttur sinnar, D, kt. [...], sem nú sé vistuð á heimili á vegum aðalstefnanda, sbr. a.- og d.- liði 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

Af hálfu aðalstefndu er þess krafist að framangreindri kröfu aðalstefnanda um forsjársviptingu verði hafnað og aðalstefndu ákvörðuð áframhaldandi forsjá dóttur sinnar, D.

II.

Í þinghaldi í máli þessu, 20. nóvember s.l., var þingfest meðalgöngustefna af hálfu A og B, [...], á hendur aðalstefnanda, Barnaverndarnefnd Reykjavíkur, og aðalstefndu, C, árituð um birtingu sama dag.

Af hálfu meðalgöngustefnenda eru gerðar þær dómkröfur að þeim verði leyfð meðalganga í málinu og að kröfu stefnanda í aðalsök verði hafnað sökum aðildarskorts en til vara að meðalgöngustefnendum verði  dæmd forsjá dóttur stefndu, D. Þá krefjast meðalgöngustefnendur málskostnaðar.

Af hálfu meðalgöngustefndu, Barnaverndarnefndar Reykjavíkur, var í þinghaldinu óskað eftir fresti til greinargerðar í meðalgöngusök. Ekki var óskað eftir fresti til greinargerðar af hálfu meðalgöngustefndu, C. Í þinghaldi í máli þessu, 25. nóvember, var lögð fram greinargerð af hálfu meðalgöngustefndu, Barnaverndarnefndar Reykjavíkur. Krefst meðalgöngustefnda, Barnaverndarnefnd Reykjavíkur, þess aðallega að kröfum meðalgöngustefnenda verði vísað frá dómi en til vara að meðalgöngustefnda verði sýknuð af öllum kröfum meðalgöngustefnenda.

Hinn 28. nóvember fór fram munnlegur málflutningur um frávísunarkröfu meðalagöngustefndu, Barnaverndarnefndar Reykjavíkur. Er sá þáttur málsins hér til úrskurðar. Meðalgöngustefnda, Barnaverndarnefnd Reykjavíkur, er sóknaraðili í þessum þætti málsins en meðalgöngustefnendur varnaraðli. Dómkröfur varnaraðila eru að frávísunarkröfu sóknaraðila verði hrundið. Af hálfu meðalgöngustefndu, C, eru ekki gerðar kröfur í þessum þætti málsins.

III.

Í aðalsök í máli þessu er til meðferðar ágreiningur aðalstefnanda og aðalstefndu um forræði yfir dóttur aðalstefndu, D, fæddri [...]. Fyrir liggur að aðalstefnandi kvað upp úrskurð á fundi sínum, 29. apríl 2014, þess efnis, að  dóttir aðalstefndu skyldi vistuð á heimili á vegum aðalstefnanda, í tvo mánuði, frá þeim degi að telja, á grundvelli b.- liðar 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Fól aðalstefnandi borgarlögmanni að annast fyrirsvar og gera kröfu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur um að aðalstefnda yrði svipt forsjá dóttur sinnar, sbr. a.- og d.- liði 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

IV.

Sóknaraðili styður kröfu sína um frávísun annars vegar á því að varnaraðili  hafi ekki lögvarða hagsmuni af því að fá dóm fyrir kröfum sínum og hins vegar að málatilbúnaður varnaraðila sé vanreifaður. Það sé meginregla í íslensku réttarfari að stefnandi máls verði að hafa lögvarða hagsmuni af því að fá dóm um kröfur sínar. Þessari meginreglu megi finna stoð í 1. mgr. 24. gr. og 25. gr. laga nr. 91/1991um meðferð einkamála. Hvað varði aðalkröfu varnaraðila um að kröfu sóknaraðila verði hafnað sökum aðildarskorts, þá liggi fyrir í göngum málsins bréf frá Sýslumanninum í Reykjavík um að beiðni um staðfestingu samnings um forsjá hafi verið vísað frá sýslumanni þar sem mál vegna forsjár telpunnar, D, sé þegar til meðferðar hjá dómstól. Í því samhengi sé jafnframt vísað til svarbréfs sýslumanns við fyrirspurn sóknaraðila um þýðingu áritunar sýslumanns á umræddan samning, sbr. dómskjal nr. 98. Í niðurlagi bréfs sýslumanns sé tilgreint að kæra megi niðurstöðuna til innanríkisráðherra innan tveggja mánaða frá dagsetningu bréfsins. Ekki sé vitað hvort varnaraðili hafi kært ákvörðun sýslumanns. Samkvæmt þessu telji sóknaraðili ljóst að varnaraðili hafi ekki lögvarða hagsmuni af því að fá dóm um kröfur sínar. Í öðru lagi byggi sóknaraðili á því að málatilbúnaður varnaraðila fullnægi ekki þeim lágmarkskröfum, sem gerðar séu í 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili byggi á því að dómkröfur varnaraðila fullnægi hvorki skilyrðum d.- liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um ákveðna og ljósa kröfugerð né e.- liðar sömu greinar, sem geri þá kröfu að samhengi málsástæðna í stefnu skuldi vera ljóst og lýsing málsástæðna svo skýr að ekki fari á milli mála hvert sakarefnið sé. Nær ógerlegt sé fyrir sóknaraðila að gera sér glögga grein fyrir sakarefninu á grundvelli þeirra málsgagna sem lögð hafi verið fram til stuðnings dómkröfum varnaraðila. Erfitt sé fyrir sóknaraðila að átta sig á samhengi krafna, atvikum máls, málsástæðum og rökstuðningi varnaraðila, þannig að sóknaraðli geti tekið markvisst til varna í málinu. Sóknaraðili telji vegna þessara annmarka á stefnu, sem feli í sér vanreifun, að rétt sé að vísa málinu í heild frá dómi. Hvað varði sérstaklega varakröfu varnaraðila, þ.e. að þeim verði dæmd forsjá telpunnar, þá bendi sóknaraðili á að krafa hans í aðalsök sé að aðalstefnda verði svipt forsjá dóttur sinnar, sem nú sé vistuð á heimili á vegnum sóknaraðila, sbr. a- og d.- liði 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga. nr. 80/2002. Málatilbúnaður varnaraðila virðist grundvallast á barnalögum nr. 76/2003 en kröfugerð sóknaraðila sé grundvölluð á barnaverndarlögum nr. 80/2002. Af því leiði að erfitt sé fyrir sóknaraðila að verjast kröfunni auk þess sem ekki sé unnt að taka dómkröfu varnaraðila óbreytta upp í dómsorð. Varakrafa varnaraðila um að þeim verði dæmd forsjá telpunnar sé því vanreifuð og beri að vísa henni frá dómi. 

V.

Varnaraðili byggir á því að hinn 22. september 2014 hafi varnaraðili, meðalgöngustefnda, C og faðir telpunnar D, E, gert með sér samning samkvæmt 3. mgr. 32. gr. barnalaga nr. 76/2003 um að forsjá og lögheimili D skyldi flytjast til varnaraðila og hafi sá samningur verið lagður fram hjá sýslumanni til staðfestingar. Telji varnaraðili að ekkert hafi fram komið sem valdið geti synjun á staðfestingu samningsins skv. 5. mgr. 32. gr. barnalaga nr. 76/2003. Fari varnaraðili því með forsjá telpunnar og hafi þar af leiðandi verulega lögvarða hagsmuni af úrslitum málsins.

VI.

Í aðalsök í máli þessu er eins og rakið hefur verið til meðferðar krafa sóknaraðila um að meðalgöngustefnda, C, verði svipt forsjá dóttur sinnar, D, fæddri [...]. Byggir krafan á  því að skilyrði a.- og d.- liða 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 séu uppfyllt í máli þessu, þar sem telja verði fullvíst að líkamlegri og andlegri heilsu dóttur meðalgöngustefndu, C, sé hætta búin fari hún áfram með forsjá hennar.

Aðalkrafa varnaraðila um sýknu er á því reist að í gildi sé samningur samkvæmt 3. mgr. 32. gr. barnalaga nr. 76/2003 um að forsjá og lögheimili dóttur meðalgöngustefndu, C, skulu flytjast til varnaraðila. Ekkert sé fram komið sem valdið geti synjun á staðfestingu samningsins skv. 5. mgr. 32. gr. barnalaga nr. 76/2003 og fari því varnaraðili með forsjá barnsins. Þá er hvað varakröfu varðar á því byggt að hagsmunum barnsins sé best borgið verði varnaraðila dæmd forsjá barnsins.

Samkvæmt 20. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er þriðja manni heimilt að ganga inn í mál annarra, ef úrslit þess skipta hann máli að lögum. Í málinu liggur fyrir samningur varnaraðila, meðalgöngustefndu, C, og föður telpunnar D, E, dagsettur 22. september s.l., um breytingu á forsjá skv. 3. mgr. 32. gr. barnalaga nr. 76/2003. Samningurinn kveður á um að heimili og forsjá telpunnar, D, flytjist til varnaraðila þar sem foreldrar barnsins geti ekki vegna félagslegra ástæðna og fjárhagslegra erfiðleika fullnægt forsjárskyldu sinni. Í samningnum er kveðið á um að hann öðlist gildi við staðfestingu sýslumanns, sbr. 5. mgr. 32. gr. barnalaga nr. 76/2003. Fyrir liggur í málinu að Sýslumaðurinn í Reykjavík vísaði beiðni um staðfestingu samningsins frá, með ákvörðun 29. september 2014, með þeim rökum að mál vegna forsjár barnsins væri þegar til meðferðar hjá dómstól.

Samkvæmt því sem að framan greinir hefur tilvitnaður samningur varnaraðila, meðalgöngustefndu, C og föður telpunnar, D, E, ekki öðlast gildi, sbr. 5. mgr. 32. gr. barnalaga nr. 76/2003. Þá hefur ekki verið sýnt fram á að telpan hafi verið í umsjá varnaraðila eða umgengni þeirra við telpuna, af öðrum ástæðum, verið í þeim mæli að máli geti skipt við mat á sjálfstæðum hagsmunum þeirra af niðurstöðu aðalsakar. Verða úrslit aðalsakar því ekki talin skipta varnaraðila máli að lögum í merkingu 20. gr. laga nr. 91/1991. Þá stendur það ennfremur í vegi yfir því að kröfugerð varnaraðila komist að í málinu að varnaraðili byggir kröfugerð sína á öðrum málsástæðum en sóknaraðili byggir á í aðalsök.

Með vísan til framangreinds verður meðalgöngusök í máli þessu vísað frá dómi.

Þórður S. Gunnarsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Kröfu varnaraðila, A og B, um meðalgöngu í málinu nr. E-[...]: Barnaverndarnefnd Reykjavíkur gegn C, er vísað frá dómi.