Hæstiréttur íslands

Mál nr. 480/2017

Lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum (Arndís Bára Ingimarsdóttir fulltrúi)
gegn
X (Jón Páll Hilmarsson hdl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Símahlerun
  • Fjarskipti

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu L um heimild til að hlusta á og taka upp símtöl og önnur fjarskipti við síma X, svo og heimild til að fá ýmsar aðrar upplýsingar frá fjarskiptafyrirtækjum um símtöl og önnur fjarskipti við símanúmerið á nánar tilgreindu tímabili, og eftir atvikum önnur símanúmer sem X kynni að hafa umráð yfir. Var m.a. skírskotað til þess að skilyrði 2. mgr. 83. gr. laga nr. 88/2008, um að ríkir almannahagsmunir krefðust þess að heimildin yrði veitt, væri ekki fyrir hendi í málinu.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. júlí 2017 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 21. júlí 2017 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að fjarskiptafyrirtækjum yrði gert skylt að leyfa honum „að hlusta á og hljóðrita símtöl úr og í símanúmerið [...]“ svo og önnur símanúmer og símtæki sem varnaraðili ætti eða hefði umráð yfir „frá og með úrskurðardegi til og með 7. ágúst 2017.“ Þess var einnig krafist að heimildin næði „til þess að skrá upplýsingar um úr og í hvaða símanúmer er hringt úr og í framangreint símanúmer sem og önnur símanúmer og símtæki“ sem varnaraðili ætti eða hefði umráð yfir á sama tímabili „og skrá IMEI númer sem framangreint símanúmer mun nota á sama tímabili, ásamt því að skrá samtöl við talhólf framangreinds númers og sendar og mótteknar SMS sendingar á tímabilinu, en jafnframt verði upplýst hverjir eru rétthafar allra þeirra númera sem þannig munu tengjast téðu númeri á sama tíma.“ Kæruheimild er í i. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að framangreind krafa verði tekin til greina þannig að honum verði veitt umbeðin heimild „frá því dómur gengur í málinu til og með 7. ágúst 2017.“

Af hálfu varnaraðila er krafist staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar er fallist á þá niðurstöðu héraðsdóms að varnaraðili sé grunaður um brot, sem varðað getur að lögum sex ára fangelsi, sbr. 2. mgr. 83. gr. laga nr. 88/2008, en samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni getur brot á þeim lögum varðað fangelsi allt að 6 árum. Í samræmi við það er jafnframt fullnægt skilyrði 1. mgr. 83. gr. laga nr. 88/2008 um að sóknaraðili hafi sýnt fram á að ætla megi að upplýsingar, sem skipt geta miklu fyrir rannsókn máls, fáist með því að hlusta á og taka upp símtöl eða önnur fjarskipti við síma varnaraðila, sbr. 81. gr. laganna.

Eins og málatilbúnaði sóknaraðila er háttað stendur eftir að taka afstöðu til þess hvort ríkir almannahagsmunir krefjist þess að fallist verði á beiðni hans um heimild til að hlusta á símtöl og fylgjast með öðrum fjarskiptum varnaraðila við aðra, svo sem áskilið er í 2. mgr. 83. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 1. gr. laga nr. 103/2016. Sóknaraðili hefur sem fyrr segir fært að því rök að varnaraðili stundi dreifingu á fíkniefnum, þar á meðal kókaíni, sem lýst er refsiverð í 1. mgr. 4. gr. a., sbr. 5. gr. laga nr. 65/1974. Hins vegar hefur sóknaraðili ekki sýnt fram á að sú dreifing sé svo stórfelld að hún falli undir 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þegar af þeirri ástæðu verður ekki talið að þau brot, sem varnaraðili er grunaður um, réttlæti á grundvelli almannahagsmuna svo tilfinnanlega skerðingu á friðhelgi einkalífs sem fólgin er í því að hlusta á símtöl hans og fylgjast með öðrum fjarskiptum hans við aðra án vitundar hans sjálfs.

Í beiðni sóknaraðila er ekki aðeins farið fram á heimild til að hlusta á símtöl og fylgjast með fjarskiptum varnaraðila við aðra, heldur er þar einnig leitað eftir því að lagt verði fyrir fjarskiptafyrirtæki að veita margvíslegar upplýsingar sem falla undir 80. gr. laga nr. 88/2008. Vegna þess að með aðgangi að slíkum upplýsingum eftir á er gengið mun skemur í þá átt að skerða friðhelgi einkalífs sakbornings en með aðgerðum samkvæmt 81. gr. laganna, er aðeins sett það efnisskilyrði fyrir þeim aðgangi að ástæða sé til að ætla að upplýsingar, sem skipt geta miklu fyrir rannsókn máls, fáist með þeim hætti, sbr. 1. mgr. 83. gr. þeirra. Hins vegar er enginn greinarmunur gerður á þessu tvennu í beiðni sóknaraðila og svo virðist sem þar sé gert ráð fyrir að þær upplýsingar, sem hér um ræðir, verði veittar jafn óðum og þær verða til. Að þessu virtu og með vísan til þess, sem að framan greinir, verður ekki hjá því komist að hafna beiðninni í heild sinni.

Samkvæmt öllu framansögðu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

Eins og fram kemur í úrskurðinum var varnaraðila samkvæmt 2. mgr. 84. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 2. gr. laga nr. 103/2016, skipaður lögmaður til að gæta hagsmuna hans og hefur lögmaðurinn gert áðurnefnda kröfu í þágu hans hér fyrir dómi á grundvelli 2. mgr. 194. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 4. gr. laga nr. 103/2016. Eftir 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008 og í samræmi við framangreinda niðurstöðu verður kostnaður af rekstri kærumáls þessa felldur á ríkissjóð, þar með talin þóknun lögmannsins hér fyrir dómi sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

 

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kostnaður við rekstur kærumáls þessa greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns varnaraðila, Jóns Páls Hilmarssonar héraðsdómslögmanns, 124.000 krónur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands föstudaginn 21. júlí 2017

      Lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum hefur gert þá kröfu með vísan til 80. gr. og 81. gr., sbr. a. lið 1. mgr. 82. gr., 83. gr. og 1. mgr. 84. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, að úrskurðað verði að fjarskiptafyrirtækjum verði gert skylt að leyfa lögreglunni í Vestmannaeyjum að hlusta á og hljóðrita símtöl úr og í símanúmerið [...] svo og önnur símanúmer og símtæki sem varnaraðili, X, kt. [...], [...] í [...], hefur í eigu sinni eða umráðum frá og með úrskurðardegi til og með 7. ágúst 2017. Þess er einnig krafist að heimildin nái til þess að skrá upplýsingar um úr og í hvaða símanúmer er hringt úr og í framangreint símanúmer sem og önnur símanúmer og símtæki sem ofangreindur aðili hefur í eigu sinni eða umráðum á sama tímabili og skrá IMEI númer sem framangreint símanúmer mun nota á tímabilinu, ásamt því að skrá samtöl við talhólf framangreinds númers og sendar og mótteknar SMS sendingar á tímabilinu, en jafnframt verði upplýst hverjir eru rétthafar allra þeirra númera sem þannig munu tengjast téðu númeri á sama tíma.

Í kröfu lögreglustjórans kemur fram að til rannsóknar sé hvort varnaraðili stundi umfangsmikla sölu og dreifingu fíkniefna í Vestmannaeyjum, en lögreglu hafi ítrekað borist ábendingar um að hann selji fíkniefni og hafi stundað það undanfarið. Samkvæmt upplýsingaskýrslu dags. 15. desember sl. hafi lögreglu borist ábending um að varnaraðili væri að selja fíkniefni og hafi gert það í nokkurn tíma. Hann væri aðallega að selja kókaín en einnig aðrar tegundir fíkniefna. Ábendingunni hafi fylgt upplýsingar um að sést hafi til varnaraðila afhenda öðrum aðila fíkniefni á skemmtistaðnum [...]. Samkvæmt upplýsingaskýrslu dags. 8. janúar sl. hafi lögreglu borist á ný ábending um að varnaraðili væri að selja og dreifa fíkniefnum í Vestmannaeyjum. Hann væri stærsti fíkniefnasalinn á eyjunni og væri mest að selja kókaín. Hafi fylgt ábendingunni að varnaraðili hafi stundað sölu fíkniefna í einhvern tíma. Enn á ný hafi lögreglu borist ábending um að varnaraðili væri að selja kókaín í Vestmannaeyjum, sbr. upplýsingaskýrslu dags. 21. mars sl. Hafi viðmælandi lögreglu talið sig vita þetta fyrir víst þar sem hann þekki vel til í fíkniefnaheiminum í Vestmannaeyjum. Þá hafi lögreglu borist ábending um að varnaraðili væri að selja fíkniefni í Vestmannaeyjum, aðallega kókaín, og hann væri stærsti kókaínsalinn í Vestmannaeyjum, sbr. upplýsingaskýrslu dags. 2. apríl sl. Samkvæmt upplýsingaskýrslu dags. 9. júní sl. hafi lögreglu borist ábending um að varnaraðili væri að selja fíkniefni í Vestmannaeyjum og væri búinn að stunda þá iðju lengi. Hafi fylgt ábendingunni að varnaraðili væri mest að selja kókaín en einnig önnur efni. Eftir goslokahátíðina í Vestmannaeyjum, eða þann 11. júlí sl., hafi lögreglu borist upplýsingar um að varnaraðili hafi verið stórtækur í sölu fíkniefna yfir hátíðina. Hafi sést til hans afhenda fíkniefni tvívegis bak við verslunina [...] en einnig hafi sést til hans fara inn á heimili [...] fjórum sinnum aðfaranótt sunnudagsins í mjög stuttan tíma í senn en varnaraðili hafi verið með fíkniefni á heimili [...] meðan hátíðin stóð yfir og hafi efnin komið til Vestmannaeyja á miðvikudeginum fyrir hátíðina. Að mati  lögreglu séu framangreindar ábendingar og upplýsingar áreiðanlegar.

                   Á því er byggt að lögreglan í Vestmannaeyjum hafi til rannsóknar hvort varnaraðili  stundi umfangsmikla sölu og dreifingu fíkniefna í Vestmannaeyjum þar sem lögreglu hafi ítrekað borist ábendingar og upplýsingar um að svo sé og telji lögreglan upplýsingarnar áreiðanlegar. Varnaraðili sé fíkniefnaneytandi og eigi að baki langan sakarferil eins og sakavottorð hans beri með sér.  Honum hafi m.a. þrisvar sinnum verið gerð refsing fyrir brot á fíkniefnalöggjöf en hann hafi skrifað undir sektargerð þann [...] fyrir vörslur fíkniefna. Þá hafi hann hlotið dóm fyrir sams konar brot þann [...] og [...] Þá hafi varnaraðili þrisvar hlotið dóm fyrir að aka bifreið undir áhrifum fíkniefna, fyrst þann [...], í annað sinn þann [...] og nú síðast þann [...]. Lögreglan Í Vestmannaeyjum hafi einnig til meðferðar tvö mál þar sem varnaraðili hafi réttarstöðu sakbornings. Annars vegar mál nr. [...] varðandi vörslur varnaraðila á 4,21 grammi af kókaíni, en efnið hafi fundist við húsleit á heimili hans þann [...]. Varnaraðili hafi viðurkennt að eiga efnin og væru þau ætluð til einkanota. Við húsleitina hafi lögreglan greinilega fundið ummerki um fíkniefnaneyslu og hafi fundist fleiri krukkur sem fíkniefnahundur hafi merkt og lyktað hafi af kannabis. Hins vegar hafi lögreglan til meðferðar mál nr. [...] varðandi ætlað vopnalagabrot varnaraðila þann 2. mars sl., en lögregla hafi verið kölluð að heimili varnaraðila vegna lyfjainntöku og meðvitundarleysis. Varnaraðili  hafi verið að „sniffa“ kókaín og stuttu síðar misst meðvitund. Þegar lögregla hafi komið á vettvang hafi hann verið kominn til meðvitundar en bróður hans hafi tekist að vekja hann með því að sprauta á hann köldu vatni. Leitað hafi verið í  íbúðinni en engin fíkniefni hafi fundist en í skáp hafi fundist heimatilbúin keðjukylfa. Samkvæmt þeim ábendingum og upplýsingum sem lögreglu hafi borist undanfarið varðandi sölu og dreifingu varnaraðila á fíkniefnum í Vestmannaeyjum, telji lögreglustjórinn nauðsynlegt að fá heimild til að hlusta á símtöl sem berast í og úr ofangreindu símanúmeri sem og öðrum símanúmerum sem varnaraðili kunni að vera með enda telji lögregla að þær upplýsingar og ábendingar sem lögreglu hafi borist séu áreiðanlegar.

                   Lögreglustjórinn byggir á því að samkvæmt 1. mgr. 83. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 séu skilyrði fyrir símahlustun skv. 80.- 82. gr. laganna að ástæða sé til að ætla að upplýsingar sem geti skipt miklu máli fyrir rannsókn málsins fáist með því að beita úrræðinu. Telur lögreglustjórinn að framangreint skilyrði sé uppfyllt þar sem almennt hvíli mikil leynd yfir fíkniefnaviðskiptum og erfitt sé að uppræta slíka starfsemi og því sé mikilvægt fyrir rannsókn slíkra mála að lögregla geti fengið heimild til að grípa til úrræða á borð við símahlustun til að fá upplýsingar um umfang fíkniefnaviðskipta og uppræta þau. Þá sé það einnig skilyrði að rannsókn beinist að broti sem geti að lögum varðað allt að sex ára fangelsi og að ríkir almannahagmunir eða einkahagsmunir krefjist þess að símahlerun sé beitt sbr. 2. mgr. 83. gr. laganna, sbr. 1. gr. laga nr. 103/2016 um breytingu á lögum um meðferð sakamála sem tóku gildi þann 1. janúar sl. Telur lögreglustjórinn að framangreind tvö skilyrði séu einnig uppfyllt. Sala og dreifing fíkniefna varði við 2., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 en brot gegn ákvæðum laganna geti varðað allt að sex ára fangelsi, sbr.  5. gr. laganna. Háttsemi varnaraðila myndi falla undir framangreind ákvæði laga um ávana- og fíkniefni en eins og fram hafi komið hafi lögreglu ítrekað borist upplýsingar og ábendingar um að varnaraðili stundi sölu og dreifingu fíkniefna, sbr. meðfylgjandi upplýsingaskýrslur og þá komi fram í skýrslum að sést hafi til varnaraðila afhenda fíkniefni. Þá komi fram í upplýsingaskýrslu dags. 21. mars sl. að viðmælandi lögreglu viti það fyrir víst að varnaraðili stundi sölu fíkniefna þar sem hann þekki vel til í þeim heimi. Þá séu almannahagsmunir fyrir því að lögregla grípi til rannsóknaraðgerða á borð við símahlustun til að upplýsa og uppræta sölu og dreifingu varnaraðila á fíkniefnum eins og frekast sé kostur svo vernda megi borgarana fyrir aðila sem sé virkur í fíkniefnaviðskiptum en slík brot leiði oft af sér önnur alvarleg brot eins og umferðarlagabrot og ofbeldisbrot eins og þekkt sé. Þá sé þjóðhátíð í Vestmannaeyjum á næsta leiti og sé það reynsla lögreglu að mikið magn af fíkniefnum sé í umferð yfir hátíðina og þeir sem stundi sölu fíkniefna jafnan stórtækir í sölu um og yfir hátíðina. Þá sé það einnig reynsla lögreglu að talsvert magn af fíkniefnum sé komið í umferð nokkru áður en hátíðin hefjist og því mikilvægt að fá heimild til að hlera síma og símanúmer aðila sem lögregla hafi áreiðanlegar upplýsingar um að stundi sölu fíkniefna í aðdraganda hátíðarinnar. Þúsundir gesta sæki hátíðina og því telji lögregla ríkari almannahagsmuni en ella að uppræta umfangsmikla sölu fíkniefna í Vestmannaeyjum fyrir og yfir verslunarmannahelgina.

                   Lögreglustjórinn fari því þess á leit við dóminn að ofangreindar rannsóknaraðgerðir verði heimilaðar með úrskurði. Rannsókn málsins sé á frumstigi og varði alvarlegt sakarefni sem erfitt sé að rannsaka þar sem lögreglu hafi eingöngu borist ábendingar um að varnaraðili stundi sölu og dreifingu fíkniefna frá aðilum sem vilji eðlilega ekki láta nafns síns getið og því verði að grípa til úrræða á borð við símahlustun við rannsókn málsins til að afla upplýsinga um umsvif fíkniefnaviðskiptanna og til að uppræta þau. Til þess sé nauðsynlegt að fá að hlera alla síma og símanúmer varnaraðila en þekkt sé að seljendur fíkniefna skipti ört um síma til að torvelda lögreglu rannsóknir mála. Með hliðsjón af öllu framangreindu telji lögreglustjórinn nauðsynlegt að fá nefndan úrskurð, sbr. tilvitnuð lagaákvæði enda séu öll skilyrði 83. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 uppfyllt.

Niðurstaða.

                   Í 81. gr. laga nr. 88/2008 segir að með þeim skilyrðum sem greind eru í 83. gr. og 1. mgr. 84. gr. sé heimilt í þágu rannsóknar að leggja fyrir fjarskiptafyrirtæki að leyfa að hlustað sé á eða tekin séu upp símtöl eða önnur fjarskipti við tiltekinn síma, tölvu eða annars konar fjarskiptatæki ellegar við síma, tölvu eða annars konar fjarskiptatæki í eigu eða umráðum tilgreinds manns. Með sömu skilyrðum er heimilt að leyfa lögreglu að fylgjast með eða taka upp fjarskipti með þar til gerðum búnaði.

                Í 1. mgr. 83. gr. laganna segir að skilyrði fyrir aðgerðum skv. 80.–82. gr. sé að ástæða sé til að ætla að upplýsingar, sem skipt geta miklu fyrir rannsókn máls, fáist með þeim hætti. Þá segir í 2. mgr. 83. gr. laganna, eins og henni var breytt með 1. gr. laga nr. 103/2016, að auk þess sem segi í 1. mgr. verði þau skilyrði að vera fyrir hendi, svo að gripið verði til aðgerða skv. 81. gr. og 1. mgr. 82. gr., að rannsókn beinist að broti sem varðað geti að lögum sex ára fangelsi og að ríkir almannahagsmunir eða einkahagsmunir krefjist þess.

                Það er þannig skilyrði þess að slíkar rannsóknaraðgerðir verði heimilaðar sem krafist er, að rannsókn beinist að broti sem varðað geti að lögum sex ára fangelsi og að ríkir almannahagsmunir eða einkahagsmunir krefjist þess.  Í athugasemdum við frumvarp það sem varð að lögum nr. 103/2016 kom fram að þessar aðgerðir skerði friðhelgi einkalífs á mjög tilfinnanlegan hátt þar sem þær eigi það allar sam­eigin­legt að til þeirra verði aðeins gripið að þeir, sem þær beinast að, viti ekki af þeim. Af þeim sökum þótti því ástæða til að setja þeim ströng skilyrði og yrði heimild í öllum tilvikum að réttlætast af því að ríkir almanna- eða einkahagsmunir krefðust þess.  

                Í greinargerð lögreglustjóra og rannsóknargögnum kemur fram að lögreglu hafi ítrekað borist upplýsingar og ábendingar um að varnaraðili stundi sölu og dreifingu fíkniefna og þá sé talið að varnaraðili muni stunda sölu fíkniefna á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum fyrir og yfir komandi verslunarmannahelgi.

                Uppfyllt er það skilyrði framangreindra laga að varnaraðili sé grunaður um brot sem varðað geti að lögum sex ára fangelsi og kemur þá til skoðunar hvort einnig sé uppfyllt það skilyrði að ríkir almanna- eða einkahagsmunir krefjist þess að þessar rannsóknaraðgerðir verði heimilaðar. Varnaraðili hefur vissulega hlotið dóma fyrir brot gegn fíkniefnalöggjöf og þá hafa lögreglu borist upplýsingar frá ónafngreindum aðilum um að grunur leiki á því að hann stundi sölu á fíkniefnum.  Lögreglustjóri byggir á því að það séu almannahagsmunir að lögregla grípi til rannsóknaraðgerða á borð við símahlustun til að upplýsa og uppræta sölu og dreifingu varnaraðila á fíkniefnum eins og frekast sé kostur svo vernda megi borgarana fyrir aðila sem sé virkur í fíkniefnaviðskiptum en slík brot leiði oft af sér önnur alvarleg brot eins og umferðarlagabrot og ofbeldisbrot eins og þekkt sé. Þá telji lögregla ríkari almannahagsmuni en ella að uppræta umfangsmikla sölu fíkniefna í Vestmannaeyjum fyrir og yfir verslunarmannahelgina þegar þjóðhátíð sé haldin.

                   Að virtri dómaframkvæmd og þegar litið er til þess að skilyrði þess að fallist verði á umræddar rannsóknaraðgerðir hafa verið þrengd, þykir lögreglustjóri ekki hafa sýnt fram á að skilyrðið um ríka almanna- eða einkahagsmuni sé uppfyllt. Verður því ekki hjá því komist að hafna kröfu lögreglustjóra í málinu.

                   Í samræmi við 2. mgr. 84. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 2. gr. laga nr. 103/2016 var Jón Páll Hilmarsson hdl. skipaður talsmaður varnaraðila og undirritaði hann drengskaparheit í samræmi við framangreind lagafyrirmæli. Ber að greiða þóknun hans úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 84. gr. og 3. mgr. 38. gr. sömu laga, en hún telst hæfilega ákveðin 110.670 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

      Hjörtur O. Aðalsteinsson dómstjóri kveður upp þennan úrskurð.

Úrskurðarorð:

Framangreindri kröfu lögreglustjórans í Vestmannaeyjum er hafnað.

Þóknun talsmanns varnaraðila, Jóns Páls Hilmarssonar hdl. 110.670 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði.