Hæstiréttur íslands

Mál nr. 814/2017

Vátryggingafélag Íslands hf. (Ólafur Eiríksson lögmaður)
gegn
A (Grímur Sigurðsson lögmaður)

Lykilorð

  • Líkamstjón
  • Skaðabætur
  • Viðmiðunartekjur
  • Gengi

Reifun

A, norskur ríkisborgari, krafði V hf. um skaðabætur vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir í vélsleðaslysi. Fyrir lá að A hafði síðustu þrjú ár fyrir slysið haft tekjur í norskum krónum. Sneri deila aðila að því hvort umreikna ætti tekjur A yfir í íslenskar krónur miðað við uppgjörsdag bóta fyrir varanlega örorku eða hvort miða bæri við virði þeirra í íslenskum krónum fyrir hvert ár á síðustu þremur árum fyrir slysið að teknu tilliti til miðgengis norsku krónunnar. Talið var að ákvarða yrði tekjur A í íslenskum krónum þannig að sem næst yrði komist rauntekjum hans á þeim tíma sem þeirra var aflað eins og raunin yrði um tjónþola sem aflað hefði tekna í íslenskum krónum. Samkvæmt því var fallist á með A að miða bæri útreikning bótanna við miðgengi norsku krónunnar á þeim árum sem teknanna var aflað. Var V hf. því gert að greiða A umkrafða fjárhæð.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Karl Axelsson og Gunnlaugur Claessen fyrrverandi hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 21. desember 2017. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst þess aðallega að héraðsdómur verði staðfestur, en til vara að áfrýjanda verði gert að greiða sér 28.234.504 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 4. mars 2015 til 11. desember 2016 og dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun 11. janúar 2017 að fjárhæð 21.761.302 krónur. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í  dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Vátryggingafélag Íslands hf., greiði stefnda, A, 750.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 26. október 2017.

Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 19. júní sl. og dómtekið að lokinni aðalmeðferð 20. október sl. Stefnandi er A […], Noregi. Stefndi er Vátryggingafélag Íslands hf., Ármúla 3, Reykjavík.

                Stefnandi krefst þess aðallega að stefndi greiði 34.312.124 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 4. mars 2015 til 11. desember 2016, en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun að fjárhæð 21.761.302 krónur 11. janúar 2017. Til vara er krafist greiðslu 28.234.504 króna með sömu vöxtum og dráttarvöxtum og að frádreginni sömu innborgun. Stefnandi krefst einnig málskostnaðar.

                Stefndi krefst sýknu auk málskostnaðar.

Helstu ágreiningsefni og yfirlit málsatvika

                Stefnandi, sem er norskur ríkisborgari og búsettur í Noregi, varð fyrir slysi á vélsleða hér á landi 4. mars 2014, en sleðinn var tryggður lögboðinni ábyrgðartryggingu hjá stefnda. Atvik slyssins eru óumdeild, afleiðingar þess á heilsu stefnanda og einnig greiðsluskylda stefnda samkvæmt tryggingunni, sbr. einkum 91. og 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1984. Fékk stefnandi, sem metinn var til 30% miska og varanlegrar örorku, greiddar bætur frá stefnda 11. janúar 2017. Meðal annars námu bætur fyrir varanlega örorku 21.761.302 krónur samkvæmt tjónskvittun 9. janúar sl. Af hálfu stefnanda var tekið við greiðslunni með fyrirvara.

                Við útreikning stefnda á bótum fyrir varanlega örorku var miðað við launatekjur stefnanda síðustu þrjú ár fyrir slysið, leiðréttum samkvæmt íslenskri launavísitölu, samkvæmt 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Er ekki ágreiningur um fjárhæðir þessara tekna sem stefnandi aflaði í norskum krónum. Hins vegar deila aðilar um hvort umreikna hafi átt tekjur stefnanda yfir í íslenskar krónur miðað við uppgjörsdag bóta eða hvort miða beri við virði þeirra í íslenskum krónum fyrir hvert ár að teknu tilliti til miðgengis norsku krónunnar.

                Ekki var um að ræða munnlegar skýrslur við aðalmeðferð málsins.

Lagarök og málsástæður aðila

                Málsókn stefnanda er reist á ákvæðum umferðarlaga nr. 50/1987, einkum 91. og 92. gr. laganna, og meginreglu skaðabótaréttar um fullar bætur til tjónþola. Stefnandi vísar til þess að allar bætur samkvæmt skaðabótalögum séu greiddar í íslenskum krónum samkvæmt þeirri útreikningsaðferð sem lögin kveða á um fyrir einstaka bótaflokka. Skaðabætur fyrir varanlega örorku samkvæmt 5. gr. laganna miðist við meðaltal launatekna tjónþola síðustu þrjú almanaksár fyrir slysdag samanber 1. mgr. 7. gr. laganna. Eðli málsins samkvæmt sé með þessu átt við laun í íslenskum krónum ár hvert en ekki tekjur þessara ára sem stefnandi fékk greiddar í norskum krónum samkvæmt norskum lögum og kjarasamningi. Þessari rökréttu útreikningsaðferð hafi íslensk tryggingafélög að jafnaði beitt hvort sem hinn slasaði sé íslenskur eða erlendur.

                Stefnandi byggir á því að við útreikning árslaunaviðmiðs samkvæmt 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga beri að miða við meðalgildi norskra króna á þeim tíma sem stefnandi aflaði þeirra tekna sem leggja grunn að útreikningi skaðabóta fyrir varanlega örorku, þ.e. árin 2011, 2012 og 2013. Þessi aðferð sé í fullu samræmi við þá meginreglu skaðabótalaga að gera tjónþola eins settan fjárhagslega og hann var fyrir tjónsatburðinn og þá meginreglu laganna sem í því felst að horfa beri til fortíðar við ákvörðun viðmiðunarlauna en ekki atvika eða aðstæðna sem upp kunna að koma eftir tjónsatburð eða stöðugleikatímapunkt. Að mati stefnanda eru aðrar nálganir, t.d. að miða við þann dag sem kröfubréf var ritað eða móttekið, eins og stefndi telur rétt að gera, til þess fallnar að valda réttaróvissu enda gætu tjónþolar þá beðið með að setja fram kröfu þar til gengið yrði þeim hagfellt.

                Fari svo að ekki verði fallist á aðalkröfu stefnanda gerir hann til vara þá kröfu að útreikningur skaðabóta fyrir varanlega örorku taki mið af meðalgildi norskra króna á stöðugleikatímapunkti, þ.e. 4. mars 2015. Byggir þessi krafa á sömu málsástæðum og aðalkrafa en einnig á því að launatekjur skulu samkvæmt 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga reiknaðar upp með launavísitölu til þess tíma sem upphaf varanlegrar örorku miðast við, þ.e. stöðugleikatímapunkts. Sú útreikniaðferð að umreikna launatekjur stefnanda til stöðugleikatímapunkts samræmist þerri aðferð sem beitt er í 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga.

                Sýknukrafa stefnda byggir á því að með þegar greiddum skaðabótum hafi stefnandi fengið greiddar þær bætur sem hann eigi rétt til samkvæmt skaðabótalögum og þar með fengið tjón sitt vegna umstefnds slyss að fullu bætt. Stefndi telur að umreikningur viðmiðunarlauna vegna ákvörðunar bóta fyrir varanlega örorku komi fyrst til álita þegar skaðabæturnar eru greiddar. Tilgangur reglna skaðabótalaga um útreikning á skaðabótum fyrir varanlega örorku sé að bæta tjónþola framtíðartekjutap. Hann eigi hvorki að hagnast né tapa á því að hafa orðið fyrir tjóni. Skaðabæturnar séu bætur fyrir skerðingu á hæfi til að afla tekna. Í því tilviki að tjónþoli starfar erlendis og sé með atvinnutekjur í erlendri mynt sé því eðlilegt að bætur séu reiknaðar í þeim sama gjaldmiðli sem um ræðir.

                Í tilviki stefnanda sé tekjuöflun hans, bæði fyrir og eftir slysið, í Noregi. Tjón hans vegna varanlegrar örorku sé því skerðing á hæfi hans til að afla tekna í Noregi. Af þessu leiðir að hið eina rétta sé að bætur til stefnanda skuli reikna í norskum krónum. Eingöngu það geti gefið rétta mynd af tjóninu sem sé skerðing á hæfi til að afla tekna í þeirri sömu mynt. Umreikningur árslauna stefnanda yfir í íslenskar krónur, á mismunandi gengi, geri það hins vegar ekki, enda hafi laun hans aldrei verið reiknuð í íslenskar krónur þegar hann aflaði þeirra. Stefndi telur að það leiði beint af orðalagi 1. mgr. 7. gr. að uppreikna beri vinnutekjur tjónþola með þessum hætti, enda sé ekki gerður áskilnaður í greininni um að tekjur skuli vera í innlendri mynt.

                Stefndi hafnar því sem segir í stefnu að sú aðferð sem stefndi telur rétta við útreikning leiði til réttaróvissu. Þvert á móti sé sú aðferð í samræmi við 1. mgr. 7. gr. og því ekki nein réttaróvissa því tengd, frekar en almennt við útreikning á skaðabótum. Aðferð sem stefnandi vilji beita leiði hins vegar til þess að rauntjón hans sé ekki rétt bætt. Gengisbreytingar á mismunandi tímum geri það að verkum að raunverulegt fjártjón stefnanda skekkist þannig að annaðhvort halli á hann eða hann fái tjón sitt verulega ofbætt. Slíkur útreikningur sé því mun frekar til þess fallinn að valda réttaróvissu.

Niðurstaða

      Skaðabótalög nr. 50/1993 gera ráð fyrir því að bætur fyrir líkamstjón séu reiknaðar út í íslenskum krónum. Hafa lögin þannig ekki að geyma heimild til þess að við uppgjör og útreikning bóta, svo sem um lágmarkstekjuviðmið bóta samkvæmt 3. mgr. 7. gr. laganna og hámark viðmiðunartekna samkvæmt 4. mgr. greinarinnar, sé miðað við erlenda mynt. Við þær aðstæður að tjónþoli hefur haft tekjur sínar í erlendum gjaldmiðli ber því að umreikna árslaun samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laganna til íslenskra króna. Verður að líta svo á að ágreiningur aðila snúist í reynd um nánara tímamark þessa umreiknings.

      Þótt markmið ákvæða skaðabótalaga um útreikning bóta fyrir varanlega örorku sé að gera tjónþola eins settan fjárhagslega og tjón hefði ekki orðið, er ljóst að útreikningur á bótum byggir á líkum og er því eðli málsins samkvæmt óvíst hvort bætur muni í reynd svara til raunverulegs fjárhagslegs tjóns tiltekins manns. Slík óvissa leiðir ekki einungis af óvissuþáttum um raunverulegt aflahæfi tjónþola til framtíðar heldur einnig af verðmæti og ávöxtunarmöguleikum þeirrar eingreiðslu sem hann hlýtur vegna varanlegrar örorku sinnar. Er ljóst að þessir þættir geta verið breytilegir eftir aðstæðum á hverjum tíma í því landi sem tjónþoli er búsettur, þ. á m. vegna þróunar gengis gjaldmiðla, bæði hérlendis og erlendis. Engu að síður byggja skaðabótalög á þeirri meginreglu að bætur fyrir varanlega örorku ber að miða við raunverulegar tekjur sem aflað hefur verið áður en tjón varð, að viðbættum tilteknum öðrum almennum forsendum um lífslíkur manna, ávöxtun eingreiðslu o.fl. Eru núgildandi skaðabótalög þannig reist á þeirri hugsun að varanleg örorka sé bætt í eitt skipti fyrir öll með eingreiðslu og er því ekki um það að ræða að raunverulegt tjón tjónþola sé síðar tekið til endurskoðunar með ákveðnu millibili þegar raunverulegt tjón tjónþola liggur fyrir með vissu.

      Ákvæði skaðabótalaga um útreikning bóta fyrir varanlega örorku eru ófrávíkjanleg og gera ekki ráð fyrir því að tjónþolar sæti mismunandi meðferð eftir þjóðerni eða búsetu. Getur það því engu skipt fyrir úrlausn málsins hvort stefnandi er erlendur ríkisborgari og búsettur erlendis eða t.d. íslenskur ríkisborgari sem haft hefur tekjur erlendis en hyggst búa hér á landi til framtíðar. Að mati dómsins verður samkvæmt þessu að ákveða tekjur stefnanda í íslenskum krónum þannig að sem næst verði komist rauntekjum hans á þeim tíma sem þeirra var aflað, líkt og raunin yrði um tjónþola sem aflað hefur tekna í íslenskum krónum. Er því ekki á það fallist að það sé samrýmanlegt ákvæðum skaðabótalaga, eða þeim sjónarmiðum sem liggja þeim til grundvallar, að horfa til sérstakra aðstæðna tjónþola til framtíðar, svo sem að hann muni líklega búa erlendis og hafa tekjur sínar í erlendri mynt. Þá tekur dómurinn undir með stefnanda að sú aðferð sem stefndi telur sér heimilt að beita gagnvart stefnanda leiði til óvissu um nánara tímamark gengisviðmiðs bóta fyrir örorku þegar um er að ræða tjónþola með tekjur í erlendri mynt. Er slík tilhögun einnig í bersýnilegu ósamræmi við þær meginreglur íslensks skaðabótaréttar sem áður ræðir.

      Samkvæmt framangreindu verður á það fallist með stefnanda að miða beri útreikning bóta til hans við miðgengi norsku krónunnar á þeim árum sem teknanna var aflað. Svo sem áður greinir er ekki ágreiningur um fjárhæð þessara tekna eða nánari umreikning þeirra til íslenskra króna að fenginni þessari forsendu. Sömuleiðis er ekki deilt um vexti og dráttarvexti að fenginni þessari afstöðu dómsins. Verður því fallist á aðalkröfu stefnanda eins og hún er fram sett og nánar greinir í dómsorði.

                Eftir úrslitum málsins verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 950.000 krónur að teknu tilliti til virðisaukaskatts. Hefur þá verið tekið tillit til kostnaðar stefnanda af þýðingu matsgerðar dómkvadds matsmanns yfir á norsku, sbr. g-lið 1. mgr. 129. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Af hálfu stefnanda flutti málið Styrmir Gunnarsson hrl.

Af hálfu stefnda flutti málið Svanhvít Axelsdóttir hrl.

Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., greiði stefnanda, A, 34.312.124 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 4. mars 2015 til 11. desember 2016, en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun að fjárhæð 21.761.302 krónur 11. janúar 2017.

                Stefndi greiði stefnanda 950.000 krónur í málskostnað.