Hæstiréttur íslands

Mál nr. 490/2016

A (Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl.)
gegn
B ehf. og Sjóvá-Almennum tryggingum hf. (Guðjón Ármannsson hrl.)

Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Vinnuslys
  • Líkamstjón

Reifun

A krafðist skaðabóta úr ábyrgðartryggingu B ehf., sem félagið hafði tekið hjá S hf., vegna vinnuslyss sem hann varð fyrir þegar iðnaðarhurð féll á hann en A hafði verið ásamt öðrum að loka iðnaðarhurð í verksmiðjuhúsi á […] sem hafði staðið föst í brautinni í hálfopinni stöðu um 170 cm frá jörðu. Hafði verkstjórinn C óskað eftir því símleiðis að A og samstarfsmaður hans færu til að sinna verkinu. Var talið að verkið hefði ekki verið þess eðlis að fyrir fram hefði mátt gera ráð fyrir að það væri flókið eða hættulegt jafnvel þó að ákveðin fallhætta kynni að vera til staðar þegar iðnaðarhurðir sætu fastar. Þá var ekki talið að verkstjórinn C hefði með athafnaleysi sínu sýnt af sér saknæma háttsemi eða að hann hefði brotið gegn starfsskyldum sínum. Hann hefði mátt treysta verkviti A og að hann myndi kalla eftir aðstoð eða ráðgjöf ef hann hefði talið slíkt þurfa. Þá var ekki talið að saknæmri háttsemi B ehf. væri fyrir að fara sem leiða ætti til skaðabótaskyldu. Voru B ehf. og S hf. því sýknuð af kröfu A.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Benedikt Bogason og Þorgeir Ingi Njálsson settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 1. júlí 2016. Hann krefst þess að stefndu verði gert að greiða sér óskipt 12.787.344 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 19. febrúar 2011 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms verða stefndu sýknuð af kröfu áfrýjanda. Verður dómurinn staðfestur um annað en málskostnað sem felldur verður niður á báðum dómstigum.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 4. apríl  2016.

Mál þetta var höfðað 19. febrúar 2015 og dómtekið 18. mars 2016.

Stefnandi er A, […].

Stefndu eru B ehf., […] og Sjóvá-Almennar

tryggingar hf., Kringlunni 5, Reykjavík.

Stefnandi krefst þess að stefndu verði dæmdir sameiginlega (in solidum) til að greiða stefnanda 12.787.344 krónur með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 6.243.130 krónum frá 4. janúar 2009 til 9. október 2014 en af 12.787.344 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Þá krefst stefnandi þess að stefndu verði dæmdir sameiginlega til að greiða stefnanda málskostnað sem verði dæmdur eins og málið sé ekki gjafsóknarmál.

 

Stefndu krefjast þess aðallega að þeir verði sýknaðir af kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefndu málskostnað.

Til vara krefjast stefndu þess að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og málskostnaður verði felldur niður.

I.

Málavextir

                Stefnandi var starfsmaður stefnda B ehf. á […] er atvik máls áttu sér stað. Fyrirtækið sinnir ýmiss konar þjónustu, m.a. viðhaldi og reglubundnu eftirliti með ýmsum búnaði á iðnaðarsvæðinu á […] og í […].

Laugardaginn 9. desember 2006 um kl. 10:30 fékk stefnandi símtal frá C, verkstjóra stefnda, og var kallaður til starfa. Verkefnið fólst í að loka iðnaðarhurð eins verksmiðjuhúss […] ehf. nú […], sem stóð föst í brautinni í hálfopinni stöðu um 170 cm frá jörðu. Hurðin var samsett úr flekum en ekið hafði verið á hurðina og var neðsti fleki hennar laskaður. Veðurspá kvöldsins var slæm og búist var við miklu hvassviðri.

Fyrir liggur að starfsmönnum á helgarvakt hefði alla jafna verið falið verkið en þeir voru uppteknir í öðrum verkum. Var samstarfsmanni stefnanda, D, falið að vinna verkið með honum.

                Ágreiningslaus er lýsing stefnanda á hurðarbúnaðinum og tildrögum slyssins. Tveir vírar héldu umræddri iðnaðarhurð uppi og gengu upp í öxul á veggnum fyrir ofan og innan við hurðina. Stefnandi og D ákváðu að skera á vírana og hugðust þeir reyna að draga hurðina niður. Ákváðu þeir að setja trékubba undir sitt hvora brautina en þeir voru um 160 cm háir. Um 10 cm bil var því á milli hurðar og planka. Við það að klippa á vírana haggaðist hurðin þó ekki og var ákveðið að D skyldi beita kúbeini til að hreyfa hjólin í brautinni. Við það losnaði hurðin og stöðvaðist á kubbunum fyrir neðan. Efri hluti hurðarinnar sem ekki var kominn niður í lóðrétta brautina liðaðist í sundur þegar festingar á milli þriðja og fjórða fleka að ofan slitnuðu og gengu hjólin úr þriðja flekanum úr brautinni. Þar sem festingar á fyrsta fleka héldu sveifluðust flekarnir þrír frá hurðargatinu, losnuðu úr brautinni og féllu niður og lentu á höfði, hægri öxl og baki stefnanda. Ætlað var að samanlögð þyngd flekanna þriggja væri á milli 60 til 80 kg. Þá má ætla eftir að hafa skoðað aðstæður á vettvangi að flekarnir hafi fallið úr um 4 metra hæð.

Fyrir liggur að fyrst eftir slysið hélt stefnandi áfram störfum sínum en í lok árs 2006 varð hann óvinnufær. Stefndi B ehf. tilkynnti Vinnueftirlitinu um slysið þann 8. ágúst 2007. Stefnandi hætti störfum hjá stefnda í lok árs 2007 vegna bakverkja sem hann rekur til slyssins.

                Aðilar óskuðu sameiginlega eftir matsgerð E læknis og F, hrl., til að leggja mat á varanlegar afleiðingar slyssins. Í niðurstöðum matsgerðar þeirra frá 20. október 2008, kemur fram að varanlegur miski stefnanda af völdum slyssins sé 10 stig vegna tognunareinkenna frá mjóbaki og brjóstbaki og varanleg örorka 15%.

                Með bréfi stefnanda, dagsettu 4. desember 2008, var þess krafist að stefndi, Sjóvá-Almennar hf., viðurkenndi greiðsluskyldu sína úr ábyrgðartryggingu stefnda, B ehf., og greiddi bætur í samræmi við niðurstöður matsgerðarinnar. Stefndi hafnaði bótaskyldu sinni með tölvubréfi 4. júní 2009 á þeim grundvelli að stefnandi væri fullgildur iðnaðarmaður og fullfær um að haga umræddu verki með þeim hætti að ekki stafaði hætta af. Fyrir liggur að stefndi greiddi stefnanda bætur úr slysatryggingu launþega þann 17. desember 2008.

                Stefnandi kærði synjun stefnda, Sjóvár-Almennra hf., til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum sem komst að þeirri niðurstöðu þann 30. mars 2010 að ekki hefði verið sýnt fram á greiðsluskyldu af hálfu stefndu.

                Stefnandi telur að heilsu hans hafi hrakað verulega eftir slysið og að bein orsakatengsl séu á milli þess og heilsubrestsins. Fór hann því fram á að dómkvaddir yrðu matsmenn til að endurmeta afleiðingar þess. Í niðurstöðum matsgerðar G læknis og H hrl. frá 27. júlí 2014, kemur fram að varanlegur miski stefnanda af völdum slyssins væri hæfilega metinn 12 stig vegna fyrrgreindra tognunareinkenna auk einkenna frá hálsi og herðasvæði hægra megin. Varanleg örorka var metin 30%.

Með bréfi þann 9. september 2014 krafðist stefnandi þess á ný að stefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., viðurkenndi greiðsluskyldu sína vegna afleiðinga slyssins. Kröfunni var hafnað þann 12. janúar 2015 með sömu rökum og áður. Við það getur stefnandi ekki unað og höfðaði hann því mál þetta.

 

II.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi reisir málsókn sína á sakarreglunni, reglunni um vinnuveitendaábyrgð, reglum um skaðabótaábyrgð fasteignareiganda vegna slysa sem hljótast af aðbúnaði fasteigna og ákvæðum laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, og reglum og reglugerðum settum samkvæmt þeim.

Stefnandi telur stefnda, B ehf., bera ábyrgð á líkamstjóni sínu sem sé afleiðing af gáleysi starfsmanns félagsins, verkstjórans C.

Jafnframt byggir stefnandi kröfur sínar á því að aðbúnaði, verklagi og verkstjórn á vinnustað hafi verið ábótavant þegar slysið átti sér stað og beri stefndi, B ehf., fulla ábyrgð á því sem vinnuveitandi. Stefnandi telur orsök slyssins eingöngu stafa af ófullnægjandi vinnuaðstöðu og slælegri verkstjórn sem stefndi, B ehf., beri fulla ábyrgð á. Vísar hann til þess að á atvinnurekanda hvíli ríkar kröfur um að tryggja öryggi starfsmanna sinna eins og kostur er og að þeir séu ekki settir í meiri hættu en nauðsyn krefur. Þannig skuli atvinnurekandi tryggja að gætt sé fyllsta öryggis, góðs aðbúnaðar og hollustuhátta á vinnustað, sbr. 13. gr. laga nr. 46/1980, ásamt því að gera starfsmönnum sínum ljósa þá slysa- og sjúkdómshættu sem kunni að vera bundin við starf þeirra, sbr. 14. gr. laganna. Samkvæmt 20.–23. gr. laganna beri verkstjóri ábyrgð á því að öruggt skipulag sé ríkjandi á vinnustað og vísar stefnandi til þess að verkstjóri hafi átt að ganga úr skugga um hættuna af framkvæmd verksins og gera viðhlítandi ráðstafanir til að verjast henni.

Stefnandi byggir á því í fyrsta lagi að vinnuaðstæðum á vinnustaðnum þar sem honum hafi verið falið að vinna verk sitt hafi verið áfátt og hafi það leitt til þess að stefnandi hafi orðið fyrir því slysi sem hér um ræðir. Vísar hann í þessu sambandi til 1. mgr. 42. gr. laga nr. 46/1980 sem kveður á um að vinnustaður skuli vera þannig úr garði gerður að þar sé gætt fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta. Til nánari skýringar sé vísað til 1. mgr. 3. gr. reglna nr. 581/1995, um húsnæði vinnustaða, þar sem greint er frá því að húsnæði skuli innrétta þannig að þar sé sem öruggast og heilsusamlegast starfsumhverfi. Vísað er til þess að stefnanda hafi sérstaklega verið falið af verkstjóranum C að gera við og loka umræddri rennihurð sem bersýnilega hafi verið skemmd og því ekki virkað eins og hún átti að gera. Af henni hafi skapast slysahætta líkt og mál þetta sanni. Stefnandi telur að þar eð hurðin hafi verið skemmd, slysahætta stafað af henni og engar öryggisráðstafanir verið viðhafðar, sbr. síðari umfjöllun, hafi vinnustaður hans ekki verið öruggur í skilningi laga nr. 46/1980.

Í öðru lagi vísar stefnandi til þess að verkstjóri stefnda, B ehf., hafi vitað af skemmdunum og að hurðin hafi verið föst í u.þ.b. 170 cm hæð frá gólfi. Fallhætta hafi því verið umtalsverð. Mátti hann að mati stefnanda gera sér grein fyrir þeirri slysahættu sem í því fólst. Stefnandi og D hafi gert viðeigandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir þá hættu með því að setja planka undir hurðina sem þó dugði ekki til. Yfirmaður stefnanda hafi þannig látið farast fyrir að tryggja að verkið væri unnið á öruggan máta og af sérhæfðu fólki en með slíku hefði mátt koma í veg fyrir slysið. Með því að aðhafast ekkert hafi hann brotið gegn ákvæði 5. mgr. 39. gr. reglna nr. 581/1995. En þar sé kveðið á um að ef hættusvæði er á vinnustöðum þar sem starfsmenn geti hrasað eða hlutir fallið vegna þess hvernig vinnu sé háttað skuli afgirða þau eins og unnt sé til að koma í veg fyrir aðgang óviðkomandi starfsmanna. Gera skuli viðeigandi ráðstafanir til að vernda þá starfsmenn sem hafi aðgang að slíkum hættusvæðum sem skuli vera greinilega merkt. Með ástand flekahurðarinnar í huga hafi vinnuveitandi stefnanda mátt gera sér grein fyrir því að hætta kynni að skapast þegar unnið væri við hurðina. Þá hafi mátt gera ráð fyrir að sleðabrautin, sem flekarnir runnu eftir, væri einnig skemmd. Þrátt fyrir það aðhafðist hann ekkert heldur lagði áherslu á að verkinu yrði lokið sem allra fyrst enda óveður í aðsigi.

Í þriðja lagi er á því byggt að verkstjóranum hafi borið að koma á vinnustaðinn og stýra verkinu. Hann hafi látið nægja að tilkynna stefnanda símleiðis að hurðin sæti föst í braut sinni og að loka þyrfti fyrir gatið. Frekari leiðbeiningar hafi hann ekki gefið og mat hann því aðstæður augljóslega rangt enda hafi verið full þörf á að fara yfir skipulag verksins. Hafi hann þannig í reynd samþykkt að öryggi stefnanda væri tryggt með þeirri aðferð er hann veldi. Verklagið hafi með öðrum orðum ekki verið rétt og á því beri atvinnurekandi ábyrgð. Byggir stefnandi á því að unnt hefði verið að leysa verkið sem um ræðir á mun auðveldari og öruggari hátt en gert hafi verið, t.d. með því að loka tímabundið fyrir opið með hlera. Þessi verkaðferð hafi aftur á móti ekki komið til greina enda hafi verkstjóri lagt áherslu á að verkinu yrði lokið fyrir dagslok. Af þeirri ástæðu hafi verið ríkara tilefni en ella til þess að verkstjórinn gæfi fyrirmæli á vettvangi.

Stefnandi telur að með því að samþykkja það verklag sem unnið var eftir hafi verkstjórinn brotið gegn 14. gr. laga nr. 46/1980, sem kveður á um að atvinnurekandi skuli gera starfsmönnum sínum ljósa slysahættu sem kunni að vera bundin við starf þeirra og 1. mgr. 37. gr. laganna um að vinnu skuli hagað og hún framkvæmd þannig að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta. Verkstjóri sé fulltrúi atvinnurekanda og í hans höndum að fylgja lögbundnu verklagi, sbr. 21. gr. laganna. Geti hann ekki firrt sig þeirri ábyrgð með því að fela undirmönnum, er hann telur nægilega reynda, framkvæmd verks.

Í fjórða lagi vísar stefnandi til þess að vinnuveitandi hans hafi ekki fylgt ákvæðum reglugerðar nr. 367/2006 um notkun tækja. Í 7. gr. reglugerðarinnar er m.a. kveðið á um að atvinnurekandi skuli upplýsa starfsmenn sína um notkunarskilyrði tækja, óvenjulegar aðstæður sem eru fyrirsjáanlegar og þá reynslu sem fengist hefur við notkun hlutaðeigandi tækja. Stefnandi hafi engar leiðbeiningar fengið um hvernig öruggast væri að vinna verkið við iðnaðarhurðina sem um ræðir eða hvernig haga skyldi vinnu við hana. Liggi ekkert fyrir um að leitað hafi verið eftir upplýsingum til umboðsaðila hurðarinnar um það. Í 2. mgr. 8. gr. sömu reglugerðar er kveðið á um að atvinnurekandi skuli tryggja að starfsmenn, sem hafa verið faldar viðgerðir, breytingar, viðhald eða umhirða tækja, fái nægjanlega starfsþjálfun. Stefnandi hafi ekki fengið slíka þjálfun. Í gr. 2.5 í viðauka reglugerðarinnar segir að ef hætta stafar af notkun tækis vegna þess að hlutir geta fallið skuli hafa á því viðeigandi öryggisbúnað í samræmi við það hvers eðlis hættan er. Ekki hafi verið gætt að þessu hjá stefnda, B ehf. Þá hafi heldur ekki verið gætt að 3.2.3. gr. viðaukans en þar kemur fram að varanlegur tækjabúnaður skuli vera þannig upp settur að byrðin skapi ekki slysahættu og renni ekki af stað eða falli niður.

Í fimmta lagi vísar stefnandi til 1. mgr. 12. gr. A-hluta IV. viðauka reglna nr. 547/1996, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggisráðstafanir á byggingarvinnustöðum og við aðra tímabundna mannvirkjagerð, sem stefnandi telur að rétt sé að hafa til hliðsjónar við úrlausn málsins. Af ákvæðinu má leiða meginreglur um það hvernig hurðir eigi að vera úr garði gerðar en í því segir að á rennihurðum skuli vera öryggisbúnaður sem komi í veg fyrir að þær losni af spori og falli niður. Enginn slíkur búnaður hafi verið á rennihurðinni sem hér um ræðir. Hefði hann verið til staðar er líklegt að flekar hurðarinnar hefðu ekki fallið niður umrætt sinn.

Að síðustu vísar stefnandi til þess að engin verklýsing hafi verið til um verkið. Með gerð slíkrar lýsingar hefði mátt koma í veg fyrir slys stefnanda enda líkur fyrir því að starfið hefði þá verið rétt unnið. Líkt og að framan greinir hvílir á atvinnurekendum ströng skylda að gera starfsmönnum sínum grein fyrir þeirri slysahættu sem kann að fylgja störfum þeirra, sbr. 14. gr. laga nr. 46/1980. Ljóst sé að B ehf. hafi ekki sinnt þeirri lögbundnu skyldu sinni og verði að virða félaginu það til gáleysis að hafa ekki staðið að gerð verklýsingar fyrir umrætt starf.

Stefnandi kveður útreikning stefnufjárhæðar taka mið af ákvæðum skaðabótalaga nr. 50/1993 og fyrirliggjandi matsgerðum málsins, annars vegar matsgerð E læknis og F hrl., dags. 20. október 2008, og matsgerð G læknis og H hrl., dags. 27. júlí 2014, og er krafan sundurliðuð í stefnu, samtals 12.787.344 kr. Þá rökstyður stefnandi einstaka liði kröfugerðarinnar í stefnunni.

III.

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndu mótmæla því harðlega að aðbúnaði, verklagi eða verkstjórn á vinnustað hafi verið ábótavant. Stefnandi hafði starfað hjá stefnda, B ehf., frá 2003 og hafði áður starfað hjá Vélsmiðju […] frá 2002 við samsvarandi störf. Stefnandi er menntaður kjötiðnaðarmaður og rafsuðumaður. Stefnandi hafði margoft áður komið að sambærilegum verkum og því sem hann var að vinna er slysið átti sér stað. Hann hafi verið reyndur, vel menntaður og sjálfstæður í störfum. Stefnandi hafi þannig haft allar forsendur til að taka ákvörðun um hvernig verkið var unnið. Verkstjóri stefnanda hafi hringt í stefnanda og óskað eftir því að hann tæki verkið að sér en sjálfur hafði hann ekki metið aðstæður á vettvangi. Eftir að stefnandi hafði sjálfur kynnt sér aðstæður hafi hann ekki séð ástæðu til að hafa aftur samband við verkstjóra og ræða um verklag. Stefnandi og D tóku því ekki við fyrirmælum frá verkstjóra um það hvernig vinna skyldi verkið né höfðu þeir samband við verkstjóra til að óska eftir leiðsögn eða fyrirmælum.

Stefndu mótmæla því að vinnuaðstæðum á verkstað hafi verið ábótavant eða áfátt enda ekkert sem styður þá fullyrðingu stefnanda. Taka stefndu fram að slysið hafi átt sér stað í verksmiðjuhúsnæði sem hafi ekki verið í eigu stefndu og séu aðstæður í húsnæðinu því ekki á ábyrgð stefnda, B ehf. […] hafi verið langstærsti viðskiptavinurinn sem stefndi veitti þjónustu og starfsmenn stefnda m.a. séð um viðhald á öllum iðnaðarhurðum félagsins sem séu um 50 talsins. Flestar hurðanna séu stærri en sú sem hér um ræði. Stefnandi hafði því í störfum sínum fyrir stefnda margsinnis unnið að viðgerð slíkra hurða.

Stefnanda bar áður en hafist var handa við að reyna að loka hurðinni til að tryggja að fallhætta væri ekki fyrir hendi. Það hefði verið hægt að gera með ýmsum hætti svo sem með því að setja verkpall undir hurðina, vinnulyftu, talíu eða binda hurðina uppi með öðrum hætti. Stefnandi hafi ekki gert slíkar varúðarráðstafanir. Þá hafi stefnandi átt að gera sér grein fyrir fallhættunni en hafi verið þannig staðsettur að hann varð undir hurðinni.

Stefndu mótmæla þeim málatilbúnaði stefnanda að það eitt að hurðin sem stefnanda var falið að loka hafi verið skemmd jafngildi því ekki að vinnuaðstaða hafi verið ófullnægjandi. Vinna stefnanda hafi m.a. falist í nákvæmlega slíkri viðhaldsvinnu. Verkið sem stefnanda var falið þennan tiltekna dag hafi hvorki verið umfangsmeira né áhættusamara en önnur hefðbundin verk.

Stefndu mótmæla því að þeir hafi gerst sekir um brot gegn þeim skráðu hátternisreglum sem vísað er til í stefnu. Þvert á móti hafi stefndi, B ehf., gert allt sem í hans valdi stóð til að gæta að öryggi starfsmanna félagsins og fylgja skráðum hátternisreglum. Þeirri málsástæðu stefnanda að stefndi, B ehf., hafi vanrækt skyldur sínar samkvæmt lögum nr. 46/1980 og reglum á grundvelli þeirra og brotið gegn reglugerð nr. 367/2006, um notkun tækja, er eindregið mótmælt. Sérstaklega er mótmælt tilvísun til viðauka við reglur nr. 547/1996, um heilsuvernd á byggingarsvæðum. Slys stefnanda átti sér ekki stað við eða á byggingarstað eða á öðru ófullgerðu mannvirki og eigi reglur þessar því ekki við. 

Þá sé því mótmælt að verkstjóra hafi borið að koma á staðinn og stýra verkinu. Um sé að ræða stóran vinnustað með 60-70 starfsmönnum í vinnu og þar af hafi verið um 20-30 starfsmenn í sambærilegum störfum og stefnandi. Verkstjóri geti ekki haft auga með og handstýrt hverju verki. Verkstjóri hafi falið stefnanda og D að vinna verkið enda hafi þeir verið hæfir til þess. Sú skylda hafi hins vegar hvílt á stefnanda að leita eftir leiðsögn eða verkstjórn teldi hann þörf á. Stefnandi og D hafi hins vegar tekið sjálfstæðar ákvarðanir um framvindu verksins enda reyndir starfsmenn og menntaðir.

Þá sé þeirri túlkun mótmælt að verkstjóri stefnda, B, hafi með einhverjum hætti samþykkt rangt verklag. Verkstjóri hafi einfaldlega falið starfsmönnum að vinna tiltekið venjubundið verk og verið í góðri trú um að það verkefni yrði leyst með sem ákjósanlegustum hætti og að starfsmennirnir myndu leita eftir frekari hjálp eða leiðsögn ef þörf krefði. Lögum samkvæmt hvílir ekki hlutlæg ábyrgð á vinnuveitendum vegna vinnuslysa. Sýna þurfi fram á sök af hálfu stefndu. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á að slysið hafi borið að með þeim hætti að stefndu beri á því skaðabótaábyrgð. Stefndu telja þvert á móti að orsök slyssins hafi verið aðgæsluleysi af hálfu stefnanda sjálfs með því að standa beint undir hurðinni og hins vegar óhappatilviljun. Að mati stefndu beri að sýkna þá af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.

Verði ekki fallist á aðalkröfu stefndu um sýknu er varakrafa stefndu á því byggð að stefnanda hafi, í ljósi stöðu sinnar, reynslu og þekkingar, mátt vera ljós sú hætta sem stafaði af því að bera sig að með þeim hætti sem hann gerði. Með hliðsjón af fagþekkingu stefnanda og starfsreynslu mátti honum vera ljóst að hætta var á að hurðin myndi falla og því væri réttara að gera varúðarráðstafanir til að halda hurðinni uppi og að halda sig í öruggri fjarlægð frá hurðinni en ekki beint undir henni. Beri því að lækka bætur til hans sem nemi eigin sök hans.

Varðandi útreikning bóta þá mótmæla stefndu bótum vegna tímabundins atvinnutjóns sem ósönnuðu og gera athugasemdir varðandi útreikning á varanlegri örorku varðandi tekjur stefnanda árið 2003 og útreikningi á varanlegum miska. Þá mótmæla stefndu dráttarvaxtakröfu eins og nánar er rakið í greinargerð.

IV.

Niðurstaða

                Stefnandi starfaði hjá stefnda, B ehf., þegar hann varð fyrir slysi 9. desember 2006. Krefst hann skaðabóta úr hendi stefndu samkvæmt niðurstöðum matsgerðar er liggur fyrir í málinu vegna þess líkamstjóns sem rakið er til slyssins.

                Ekki er ágreiningur með aðilum um tildrög slyssins og er frásögn stefnanda lögð til grundvallar hvað það varðar. Fyrir liggur að stefnandi hélt áfram að vinna eftir slysið og að það var ekki tilkynnt Vinnueftirlitinu þá þegar.

                Kröfur sínar byggir stefnandi annars vegar á reglunni um vinnuveitendaábyrgð hvað varðar gáleysi verkstjórans C og hins vegar á sakarreglunni hvað varðar sjálfstæða ábyrgð stefnda. Í því sambandi vísar stefnandi m.a. til ákvæða laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, og til reglna og reglugerða sem settar eru með stoð í þeim lögum.

Atvikum er áður lýst en fyrir liggur að verkstjóri stefnanda, C, óskaði eftir því símleiðis að hann og samstarfsmaður hans, D, færu til þess að sinna hinu umdeilda verki, sem fólst í því að loka iðnaðarhurð í verksmiðjuhúsi á […].

                Stefnandi, C og D gáfu skýrslu fyrir dóminum og er ágreiningslaust að áhersla var á það lögð af hálfu C að loka þyrfti hurðinni eða opinu fyrir kvöldið en þá átti veðrið að versna til muna. Hafi C aðeins verið kunnugt um að ekið hefði verið á hurðina og hún sæti föst. Lagði hann til að hurðaropinu yrði lokað með hlera eða hurðin dregin niður. C hafi ekki komið á staðinn til þess að gefa fyrirmæli um hentugt verklag.

                Af ofangreindum framburðum verður ekki annað ráðið en að meginmarkmið verksins hafi verið að loka hurðaropinu í þeim tilgangi að verja það sem innanhúss var gegn veðri og vindum. Var stefnanda og D falið að finna úrræði til þess upp á eigin spýtur og höfðu þeir samráð um það hvernig vinna skyldi verkið.

Stefnandi og D voru báðir vanir iðnaðarmenn en á meðal þeirrar viðhaldsvinnu sem stefnandi sinnti var vinna við iðnaðarhurðir, m.a. viðgerðir á þeim. Bar stefnandi að af þeim sökum hafi hann þekkt virkni hurðanna. Hann hafi hins vegar aldrei staðið frammi fyrir nákvæmlega sama verki og þennan dag. Hafi hann talið þörf á að vinna verkið innan frá og lagði á það áherslu að ekki hefði verið unnt að koma lyftara inn í húsið. Aðspurður kvaðst hann ekki hafa kannað aðrar leiðir sérstaklega, tækjakost eða efnivið til þess að vinna verkið á annan hátt. Gekk hann út frá því að aðrar leiðir væru tímafrekari.

Að mati dómsins var hið umdeilda verk ekki þess eðlis að fyrir fram mætti gera ráð fyrir að það væri flókið eða hættulegt, jafnvel þó að ákveðin fallhætta kunni að vera til staðar þegar iðnaðarhurðir sitja fastar af óþekktum ástæðum eins og hér var. Tjón stefnanda verður hins vegar ekki rakið til hættueiginleika hurðarinnar. Ljóst var að stefnandi og D mátu aðstæður þannig að þeir gætu leyst úr verkinu og hófust þegar handa. Þó að áhersla hafi verið lögð á að ljúka verkinu fyrir kvöldið var enn nægur tími til stefnu en það hófst fyrir hádegi umræddan dag. Verður því ekki fallist á það með stefnanda að tímaskortur hafi verið þess valdandi að aðrar leiðir kæmu ekki til skoðunar. Fyrir liggur samkvæmt vottorði Veðurstofu Íslands að veður var skaplegt þennan morgunn. Þá telur dómurinn það ekki vera óeðlilega kröfu eða íþyngjandi að leita ráðgjafar verkstjóra eða kalla hann á staðinn teldu þeir verkið við skoðun annars eðlis eða flóknara en gert var ráð fyrir. Ekki verður séð að nokkuð hafi gefið ástæðu til að ætla að svo væri. Þó hurðin hafi verið löskuð þá liggur fyrir að hún var enn í brautinni og eftirfarandi aðgerðir stefnanda og félaga hans miðuðu að því að koma henni niður á kubbana sem þeir höfðu stillt upp. Hins vegar er óljóst hvernig þeir hugðust loka hurðaropinu eftir að hurðin var þangað komin. Fram kom í skýrslu D fyrir dómi að eftir slysið stilltu þeir vinnuvél upp í hurðaropinu áður en þeir gengu til annarra starfa.

                 Með hliðsjón af því sem hér hefur verið rakið verður ekki á það fallist með stefnanda að verkstjórinn C hafi með athafnaleysi sínu sýnt af sér saknæma háttsemi eða að hann hafi að öðru leyti brotið gegn starfsskyldum sínum. Eins og hér stóð á mátti hann treysta verkviti stefnanda og að hann myndi kalla eftir aðstoð eða ráðgjöf ef hann mæti aðstæður slíkar að með þyrfti. Þá þykja þær almennu hátternisreglur laga nr. 46/1980, sem stefnandi vísar til í þessu sambandi, ekki eiga við eins og hér háttaði til. Verður skaðabótaskylda stefndu því ekki reist á reglunni um vinnuveitendaábyrgð.

                Kemur þá til skoðunar hvort stefndi, B ehf., beri sjálfstæða ábyrgð á grundvelli sakarreglunnar. Dómurinn hefur þegar komist að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið til að dreifa saknæmri háttsemi verstjóra stefnda og kemur því einkum til skoðunar hvort stefndi hafi brotið skráðar hátternisreglur sem vinnuveitanda er skylt að fara eftir og ef svo er hvort orsakatengsl séu á milli þess og tjóns stefnanda. Vísar stefnandi í þessu sambandi til þess að vinnuaðstæðum stefnanda hafi verið áfátt og vísar til hátternisreglna 1. mgr. 42. gr. laga nr. 46/1980 og 1. og 5. mgr. 39. gr. laga nr. 581/1995 um húsnæði vinnustaða. Dómurinn telur að tilvitnað ákvæði fyrrgreindra laga hafi ekki verið brotið en ákvæðið fjallar um hvernig vinnustaður skuli úr garði gerður svo gætt sé fyllsta öryggis, góðs aðbúnaðar og hollustuhátta. Ákvæði síðargreindu laganna eiga hins vegar ekki við í þessu sambandi en ákvæðið fjallar um hættusvæði sem þarf að afgirða til verndar óviðkomandi starfsmönnum. Þá ber að líta til þess að stefndi, B ehf., hafði engan umráðarétt yfir því iðnaðarhúsnæði sem hér um ræðir og verður að meta skyldur þeirra sem vinnuveitanda í því því ljósi.

                Þá fellst dómurinn ekki á að stefndi, B ehf., hafi sýnt af sér saknæma háttsemi með því að fylgja ekki ákvæðum reglugerðar nr. 367/2006, um notkun tækja, svo og 1. mgr. 12. gr. A-hluta IV. viðauka reglna nr. 547/1996. Stefnandi stóð ekki frammi fyrir því að framkvæma viðgerð á hurðinni. Óumdeilt er að efstu flekar hurðarinnar féllu niður á stefnanda, þar sem hann var staðsettur, eftir að hurðin féll niður a.m.k. 10 cm á kubbana sem stefnandi og D höfðu stillt undir hana. Bar stefnandi að hann hefði horft á F þegar hann losaði um hjólin í brautinni með kúbeininu í því skyni að koma hurðinni af stað. Verður ekki séð að það sem gerðist komi notkun tækjabúnaðar hurðarinnar nokkuð við. Þá verður ekki séð að verklýsing um það verk sem stefnandi stóð frammi fyrir hefði haft nokkra þýðingu í þessu sambandi.

                Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið er það niðurstaða dómsins að saknæmri háttsemi stefndu sé ekki fyrir að fara sem leiða eigi til skaðabótaskyldu þeirra gagnvart stefnanda. Verða stefndu því sýknaðir af öllum kröfum stefnanda.

                Með hliðsjón af niðurstöðu málsins, og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, ber stefnanda að greiða stefndu 700.000 kr. í málskostnað.

                Stefnandi nýtur gjafsóknar í málinu. Allur gjafsóknarkostnaður hans, þar með talin þóknun lögmanns hans, sem þykir hæfileg 950.000 kr., greiðist úr ríkissjóði.

Sigríður Hjaltested héraðsdómari kveður upp þennan dóm.

D Ó M S O R Ð:

                Stefndu, B ehf. og Sjóvá-Almennar tryggingar hf., eru sýknaðir af kröfum stefnanda.

                Stefnandi greiði stefndu sameiginlega 700.000 kr. í málskostnað.

                Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin þóknun lögmanns hans, 950.000 kr., greiðist úr ríkissjóði.