Hæstiréttur íslands

Mál nr. 330/2005


Lykilorð

  • Kærumál
  • Þinglýsing
  • Kröfugerð
  • Frávísun frá Hæstarétti að hluta


Mánudaginn 29

 

Mánudaginn 29. ágúst 2005.

Nr. 330/2005.

Kristján Sveinbjörnsson.

(Guðjón Ármann Jónsson hrl.)

gegn

Auðbjörgu Guðjónsdóttur

Guðnýju Védísi Guðjónsdóttur

Hallgrími Guðjónssyni

Margréti Jónu Guðjónsdóttur og

Hraunfelli ehf.

(Klemenz Eggertsson hdl.)

 

Kærumál. Þinglýsing. Kröfugerð. Frávísun máls að hluta frá Hæstarétti.

K krafðist viðurkenningar á því að þinglýsing eignarheimildar A, G, H og M fyrir þeirri fasteign sem deilt var um hafi verið mistök og að þinglýsingarstjóra bæri að bæta þar úr. Enn fremur krafðist K viðurkenningar á því að þinglýsingarstjóra hafi borið að vísa frá afsali sem þinglýst hafði verið á fasteignina og að honum yrði gert að afmá það úr fasteignabók. Þessar kröfur voru aðrar en hann hafði uppi í héraði og var þeim því vísað frá Hæstarétti. K krafðist enn fremur ógildingar á ákvörðun þinglýsingarstjóra um að afmá yfirlýsingu K, þar sem eignarheimild A, G, H og M fyrir umræddri fasteign var véfengd, úr fasteignabók. Í úrskurði héraðsdóms var komist að þeirri niðurstöðu að hin umdeilda ákvörðun þinglýsingarstjóra hafi verið rétt enda miðuðu þinglýsingarlög að því að stemma stigu við því að yfirlýsingar af þessu tagi yrðu þinglýstar, sbr. grunnrök 2. mgr. 7. gr. þinglýsingarlaga nr. 39/1978. Úrskurður héraðsdóms um að hafna ofangreindri kröfu var staðfestur með vísan til forsendna hans.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Guðrún Erlendsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. júlí 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 27. júní 2005 þar sem kröfu sóknaraðila sem laut að þinglýsingu 23. desember 1998 á eignarheimild fyrir fasteigninni Miðskógar 8 í Bessastaðahreppi var vísað frá dómi og öðrum kröfum hans hafnað. Kæruheimild er í 5. mgr. 3. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978, sbr. 1. gr. laga nr. 6/1992. Sóknaraðili krefst þess að ákvörðun þinglýsingarstjóra 9. maí 2005 um að afmá yfirlýsingu sóknaraðila frá 8. október 2004 úr fasteignabók verði felld úr gildi. Jafnframt krefst hann viðurkenningar á að þinglýsing á fyrrgreindu skjali 23. desember 1998 hafi verið mistök og að þinglýsingarstjóra beri að bæta úr efnislega rangri færslu í fasteignabók og einnig að þinglýsingarstjóra hafi borið að vísa frá afsali sem þinglýst var 8. apríl 2005 á sömu fasteign og að honum verði gert að afmá það úr fasteignabók. Þá krefst hann þess að málskostnaður í héraði verði felldur niður og honum dæmdur kærumálskostnaður.

Varnaraðilar krefjast þess aðallega að úrskurður héraðsdóms verði staðfestur en til vara að ofangreindum viðurkenningarkröfum sóknaraðila verði vísað frá Hæstarétti „og/eða öllum öðrum dómkröfum sóknaraðila verði hafnað.“ Þá krefjast þau kærumálskostnaðar.

Viðurkenningarkröfur sóknaraðila, sem varða skjölin sem þinglýst var 23. desember 1998 og 8. apríl 2005, eru aðrar kröfur en hann hafði uppi í héraði að því er þessi skjöl varðar. Geta þær þegar af þessari ástæðu ekki komið til neinna álita í málinu og verður vísað frá Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður staðfest sú niðurstaða hans að hafna kröfu sóknaraðila um að fella úr gildi ákvörðun þinglýsingarstjóra 9. maí 2005 um að afmá yfirlýsingu sóknaraðila 8. október 2004 úr fasteignabók.

Ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað verða staðfest.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðilum kærumálskostnað svo sem greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Kröfum sóknaraðila, Kristjáns Sveinbjörnssonar, sem varða skjölin sem þinglýst var 23. desember 1998 og 8. apríl 2005 er vísað frá Hæstarétti.

Staðfest er sú niðurstaða hins kærða úrskurðar að hafna kröfu sóknaraðila um að fella úr gildi ákvörðun þinglýsingarstjóra 9. maí 2005 um að afmá yfirlýsingu sóknaraðila frá 8. október 2004 úr fasteignabók.

Ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað skulu vera óröskuð.

Sóknaraðili greiði varnaraðilum Auðbjörgu Guðjónsdóttur, Guðnýju Védísi Guðjónsdóttur, Hallgrími Guðjónssyni og Margréti Jónu Guðjónsdóttur samtals 150.000 krónur og Hraunfelli ehf. 50.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 27. júní 2005.

Mál þetta var tekið til úrskurðar 24. þ.m.

Sóknaraðili er Kristján Sveinbjörnsson, Miðskógum 6, Álftanesi.

Varnaraðilar eru Auðbjörg Guðjónsdóttir, Kringlunni 93, Reykjavík, Guðný Védís Guðjónsdóttir, Látraströnd 21, Seltjarnarnesi, Hallgrímur Guðjónsson, Látraströnd 21, Seltjarnarnesi, Margrét Jóna Guðjónsdóttir, Móaflöt 17, Garðabæ og Hraunfell ehf., Kirkjubraut 2 á Akranesi.

Í málinu gerir sóknaraðili svofelldar kröfur:

„[Að] ógilt verði með úrskurði ákvörðun þinglýsingarstjóra við embætti sýslumannsins í Hafnarfirði, dags. 9. maí 2005, um að afmá skjal nr. Z-004436/2004 úr þinglýsingabók lóðarinnar nr. 8 við Miðskóga, fastanr. 123442, Álftanesi, þ.e. mótmæli og athugasemdir [sóknaraðila], þannig að þinglýsing skjalsins standi óhreyfð á eigninni.

Að þinglýsingarstjóra verði gert að vísa frá þinglýsingu afsali, sem þinglýst var 11. apríl 2005 á lóðina nr. 8 við Miðskóga, fastanr. 123422, Álftanesi, skjal nr. X-3179/2005, [sóknaraðila] Margrétar Jónu, Auðbjargar, Hallgríms og Guðnýjar Védísar Guðjónsbarna til [sóknaraðila] Hraunfells ehf.

Að þinglýsingarstjóra verði gert að vísa frá skjali eða bæta úr efnislega rangri færslu í þinglýsingabók ofangreindrar lóðar, sem gerð var á grundvelli yfirlýsingar hluta sameigenda lóðarinnar, Margrétar Jónu, Auðbjargar, Hallgríms og Guðnýjar Védísar Guðjónsbarna og þinglýst var á lóðina þann 29. desember 1998, þannig að eignarhlutar allra sameigenda verði rétt tilgreindir í samræmi við skiptayfirlýsingar sem þinglýstar hafa verið á jörðina Vestri-Skógtjörn.“  Þá er krafist málskostnaðar úr hendi varnaraðila.

Varnaraðilar gera þá kröfu aðallega að málinu verði vísað frá dómi, en til vara að öllum kröfu sóknaraðila verði hafnað. Þá krefjast varnaraðilar málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.

I.

    Málavextir eru þeir helstir að 8. apríl 2005 afsöluðu varnaraðilar, systkinin Auðbjörg, Guðný Védís, Hallgrímur og Margrét Jóna Guðjónsbörn, lóð nr. 8 við Miðskóga á Álftanesi til varnaraðilans Hraunfells ehf. Studdist eignarheimild þeirra að lóðinni við yfirlýsingu þeirra frá 21. desember 1998 og einkaskipatgerð sem henni fylgdi. Í yfirlýsingunni segir að við skipti á dánarbúi Auðbjargar Jónsdóttur, sem var fædd 5. maí 1888, og dánarbúum sonar hennar, Guðjóns Klemenzsonar, og eiginkonu hans, Margrétar Hallgrímsdóttur, sé „ein af lóðum búsins, Miðskógar 8, Bessastaðahreppi, lóðanúmer 123422-616-00080“, komin að jöfnu í hlut systkinanna, sem eru börn Guðjóns og Margrétar. Var yfirlýsing þessi móttekin til þinglýsingar 23. desember 1998 og hún innfærð í fasteignabók 28. sama mánaðar. Með þessari þinglýsingu var umrædd lóð gerð að sérstakri fasteign í fasteignabók. Hinn 8. október 2004 var móttekin til þinglýsingar yfirlýsing frá sóknaraðila og var henni þinglýst á lóðina 11. sama mánaðar. Í yfirlýsingunni segir svo: „Ég undirritaður, eigandi/erfingi lands Vestri-Skógtjarnar að 2,31%, þinglýsi eftirfarandi yfirlýsingu á lóðina Miðskóga 8 Álftanesi sem er úr spildu Vestri-Skógtjarnar. Samkvæmt neðangreindum forsendum er lóðin sameign eiganda/erfingja Vestri-Skógtjarnar: Lóðin er úr landi Vestri-Skógtjarnar og var skráð hjá Fasteignamati ríkisins sem sameign eiganda/erfingja Vestri-Skógtjarnar fram til 1999. Þá breyttist skráð eignarhald lítillega án þess þó að lóðinni væri þinglýst í gögnum sýslumanns. Engin gögn eru til sem sýna fram á að eigendur/erfingjar Vestri-Skógtjarnar hafi nokkru sinni afsalað sér lóðinni. Meðfylgjandi eru gögn sem sýna hins vegar að þeim aðilum sem nú hafa þinglýst lóðinni á sig var ánafnað annarri lóð. Er sú lóð vestan við lóðina að Miðskógum 8 [...].“ Framangreindu afsali til Hraunfells ehf. var þinglýst 11. apríl 2005. Í kjölfar þess fór lögmaður félagsins þess á leit við þinglýsingarstjóra að yfirlýsing sóknaraðila yrði afmáð úr fasteignabók. Varð þinglýsingarstjóri við þeirri kröfu með ákvörðun 9. maí 2005. Hafði lögmaður sóknaraðila þá ritað þinglýsingarstjóra bréf þar sem þessari kröfu var mótmælt og þess jafnframt krafist að framangreindu afsali til Hraunfells ehf. yrði vísað frá þinglýsingu. Með bréfi til þinglýsingarstjóra 25. maí 2005 var svo tilkynnt að framangreind ákvörðun hans væri borin undir héraðsdóm, sbr. 3. mgr. 3. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978, svo og sú „ákvörðun“ hans „að hafna kröfu [...] um frávísun afsals sem þinglýst var 11. apríl [2005]“. Að þessu viðbættu kemur fram í bréfinu að fyrir héraðsdómi muni sóknaraðili gera þá kröfu „[að] þinglýsingarstjóri vísi frá skjali eða bæti úr efnislega rangri færslu í þinglýsingabók ofangreindrar lóðar, sem gerð var á grundvelli yfirlýsingar hluta sameigenda lóðarinnar og þinglýst var á lóðina þann 29. desember 1998, þannig að eignarhlutar þeirra verði rétt tilgreindir í samræmi við skiptayfirlýsingar sem þinglýstar hafa verið á Vestri-Skógtjörn, sbr. 27. gr. þinglýsingalaga.“ Sóknaraðili vísaði síðan málinu til héraðsdóms með bréfi 3. þ.m. og gerir samkvæmt því þær dómkröfur sem áður er getið. Athugasemdir og kröfur varnaraðila voru síðan settar fram með bréfi lögmanns þeirra, sem barst héraðsdómi 23. þ.m.  

II.

    Um málavexti vísar sóknaraðili til þess að jörðina Vestri-Skógtjörn á Álftanesi áttu og byggðu hjónin Klemenz Jónsson og Auðbjörg Jónsdóttir. Þau eignuðust 10 börn. Klemenz lést 16. ágúst 1955 og Auðbjörg 14. desember 1977. Við skipti á dánarbúi þeirra hafi jörðin komið í hlut erfingja þeirra sem óskipt sameign. Við lát foreldra sinna og föðurbróður hafi sóknaraðili eignast hlut í jörðinni og þar með þeirri lóð sem mál þetta tekur til, enda sé hún hluti jarðarinnar. Byggir sóknaraðili eignarheimild sína annars vegar á skiptayfirlýsingu vegna dánarbús Sigurfinns Klemenzsonar, en samkvæmt henni hafi 1,06% jarðarinnar Vestri-Skógtjarnar komið í hlut hans. Hins vegar hafi 1,25% eignarhlutur í jörðinni komið í hans hlut við lát móður hans, sbr. skiptayfirlýsing frá 2. maí 2001. Eignarhlutur sóknaraðila í Vestri-Skógtjörn og þar með talinni lóðinni nr. 8 við Miðskóga sé því 2,31%.

    Af hálfu sóknaraðila er því mótmælt að tiltekinni lóð hafi verið skipt út úr landi jarðarinnar Vestri-Skógtjarnar. Í skiptayfirlýsingu frá 3. maí 1979 vegna skipta á dánarbúi Auðbjargar Jónsdóttur komi fram að fullt samkomulag hafi orðið um tiltekna ráðstöfun jarðarinnar, meðal annars að fimm erfingjar eigi hver sína lóð í Árnakotstúni sem verði útmæld þegar skipulag leyfi. Guðjón Klemenzson hafi verið einn þessara erfingja. Því er hins vegar mótmælt að lóðin nr. 8 við Miðskóga hafi komið í hlut Guðjóns með þessari skiptayfirlýsingu eða nokkurri annarri. Í raun hafi Guðjóni verið ánöfnuð önnur lóð. Hvað sem því líði hefði þurft að koma til samþykki eða afsal sameigenda hans við eignayfirfærslu til erfingja hans. Þeir geti ekki með einhliða yfirlýsingu, sbr. áðurgreind yfirlýsing þeirra frá 21. desember 1998, lýst sig eigendur að lóðinni nr. 8 við Miðskóga þótt faðir þeirra hefði samkvæmt skiptayfirlýsingunni átt að fá lóð úr landi jarðarinnar Vestri-Skógtjarnar í sinni hlut. Til þess að skiptayfirlýsingin sé gild eignarheimild hljóti að þurfa að tilgreina lóðina nákvæmlega. Hinni tilgreindu lóð hafi aldrei verið afsalað til Guðjóns eða eiginkonu hans og þar af leiðandi sé útilokað að lóðin hafi með lögformlegum hætti komið í hlut varnaraðila við skipti á dánarbúum foreldra þeirra. Hefði það og komið í ljós ef þinglýsingarstjóri hefði gætt að þeirri skyldu sinni áður en hann þinglýsti yfirlýsingu varnaraðila að dánarbú ætti þau þinglýstu eignarréttindi sem varnaraðilar lýstu þar sína eign. Sú ákvörðun þinglýsingarstjóra að þinglýsa allt að einu yfirlýsingu varnaraðila og gera lóðina þar með að sérstakri fasteign í fasteignabók fái samkvæmt þessu ekki staðist. Með vísan til þess sem rakið hefur verið hér að framan er því jafnframt haldið fram að varnaraðilar Auðbjörg, Guðný Védís, Hallgrímur og Margrét Jóna hafi enga heimild haft til að afsala lóðinni til varnaraðilans Hraunfells ehf. Þá geti forsvarsmenn félagsins ekki borið við grandleysi um það hvernig raunverulegum eignarrétti að lóðinni sé háttað þar sem sóknaraðili hafi verið búinn að fá yfirlýsingu sinni þinglýst þá er afsal til félagsins var gefið út. 

    Í bréfi lögmanns sóknaraðila til dómsins segir að sóknaraðila hafi ekki orðið kunnugt um þinglýsingu yfirlýsingar varnaraðila frá 21. desember 1998 fyrr en löngu eftir að hún átti sér stað. Hann hafi síðan brugðist við með því að útbúa áðurgreinda yfirlýsingu sína og fengið henni þinglýst. Hann hafi talið að þessi yfirlýsing hans fæli í sér kröfu um að þinglýsingarstjóri vísaði frá skjali eða leiðrétti efnislega ranga færslu í þinglýsingabók, sem átt hafi sér stað með þinglýsingu yfirlýsingar varnaraðila frá í desember 1998. Til þeirrar kröfu hafi þinglýsingarstjóri í reynd ekki tekið afstöðu fyrr en með ákvörðun sinni 9. maí 2004, sem áður er getið.

III.

    Aðalkrafa varnaraðila um frávísun málsins er á því byggð að í málinu sé uppi ágreiningur um eignarrétt. Slíkur ágreiningur verði einvörðungu leiddur til lykta í almennu einkamáli. Þá sé kröfugerð sóknaraðila óskýr og villandi. Er því haldið fram að ekki sé unnt að gera kröfu um að vísa frá skjali sem þegar hafi verið innfært í þinglýsingabók.

     Við umfjöllun um varakröfu sína tiltaka varnaraðilar að ekki verði í málinu tekin afstaða til álitaefna sem varði annað en þá ákvörðun þinglýsingarstjóra 9. maí 2005 að afmá yfirlýsingu sóknaraðila frá 1. október 2004. Þannig hafi þinglýsingarstjóri enga afstöðu tekið til kröfu sóknaraðila um að afsali til Hraunfells ehf. 8. apríl 2005 verði vísað frá þinglýsingu. Kröfu sóknaraðila sem að afsalinu lýtur verði því að vísa frá dómi. Þá standi 3. gr. þinglýsingalaga því í vegi að kröfur sem varða eignarheimild annarra varnaraðila verði hafðar uppi í málinu, en í bréfi lögmanns sóknaraðila til þinglýsingarstjóra 4. maí 2005, sem ritað hafi verið í tilefni af kröfu varnaraðila Hraunfells ehf. þess efnis að framangreind yfirlýsing sóknaraðila yrði afmáð úr fasteignabók og þinglýsingarstjóri varð við með ákvörðun sinni, hafi ekkert verið vikið að þessari eignarheimild og þinglýsingu hennar á sínum tíma. Þá sé hennar ekki getið í tilkynningu til þinglýsingarstjóra, sbr. 3. mgr. 3. gr. þinglýsingalaga, með þeim hætti að ljóst sé að verið sé að tilkynna að bera eigi hana undir héraðsdóm.

    Varnaraðilar vísa til þess að samkvæmt einkaskiptagerð erfingja Auðbjargar Jónsdóttur, Vestri-Skógtjörn, 3. maí 1979 hafi þeir orðið sammála um að tilteknir fimm erfingjar „sem ekki hafa áður fengið lóð fá eina lóð hver úr Árnakotstúni þegar unnt er vegna skipulags“. Guðjón Klemenzson, faðir varnaraðila Auðbjargar, Guðnýjar Védísar, Hallgríms og Margrétar Jónu, hafi verið einn þessara erfingja. Hann hafi valið sér þá lóð sem nú sé nr. 8 við Miðskóga. Hann hafi hins vegar ekki gert reka að því að þinglýsa yfirlýsingu þess efnis. Börn hans hafi hins vegar gert það eftir lát foreldra sinna. Hafi yfirlýsingu þeirra þar að lútandi verið þinglýst athugasemdalaust, en framangreind einkaskiptagerð hafi fylgt henni. Samkvæmt einkaskiptagerðinni hafi Guðjón getað valið sér lóð og fengið í sinn hlut þegar skipulag lægi fyrir. Hinir fjórir erfingjarnir hafi gert slíkt hið sama og enginn ágreiningur orðið um það. Þegar einkaskiptagerðin var undirrituð hafi sóknaraðili ekki verið eigandi Vestri-Skógtjarnar og hafði aldrei verið. Hans eignarhlutdeild í jörðinni komi til löngu síðar við skipti á dánarbúum. Hann hafi því aldrei verið eigandi að lóðinni nr. 8 við Miðskóga. Þar af leiðandi hafi sóknaraðili ekki lögvarða hagsmuni af því hvernig lóðinni er ráðstafað. Honum hafi alla tíð verið um það kunnugt hverjir ættu lóðina. Hafi hann sérstaklega minnst á það þá er hann fékk lóð nr. 6 við Miðskóga í sinn hlut að hann vonaði að börn Guðjóns myndu ekki byggja á lóðinni nr. 8 í bráð því þá myndi hann missa útsýnið. Um það snúist mál þetta í raun af hans hálfu.

    Af framangreindu telja varnaraðilar ljóst að engin rök hafi staðið til þess að umræddri yfirlýsingu sóknaraðila væri þinglýst á lóðina nr. 8 við Miðskóga. Með þinglýsingu yfirlýsingarinnar hafi þinglýsingarstjóri gert mistök, sem hann hafi nú leiðrétt.    

IV.

Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978, sbr. 1. gr. laga nr. 6/1992, skal úrlausn þinglýsingarstjóra um þinglýsingu samkvæmt lögunum borin undir dóm áður en fjórar vikur eru liðnar frá henni ef þinglýsingarbeiðandi eða umboðsmaður hans var við hana staddur, en ella áður en fjórar vikur eru liðnar frá þeim tíma er hann eða umboðsmaður hans fékk vitneskju um hana. Aðrir sem eiga lögvarinna hagsmuna að gæta vegna ákvörðunar þinglýsingarstjóra hafa samkvæmt ákvæðinu einnig heimild til að bera úrlausn þinglýsingarstjóra undir dóm. Í þinglýsingalögum er ekki mælt fyrir um sérstakan upphafstíma frests gagnvart þriðja manni, það er öðrum en þinglýsingarbeiðanda, sem bera vill úrlausn þinglýsingarstjóra undir héraðsdóm. Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi því er varð að lögum nr. 6/1992 kemur fram að sömu reglur skuli gilda um þetta og við eiga gagnvart þinglýsingarbeiðanda. Beri því gagnvart þriðja manni að miða við það tímamark er þinglýsingarbeiðandi fékk vitneskju um úrlausnina. Komi krafa þriðja manns um úrlausn héraðsdómara fram eftir að frestur þinglýsingarbeiðanda er liðinn beri að vísa málinu frá. Þyki ekki heppilegt að þriðji maður hafi lengri frest en þinglýsingarbeiðanda er veittur. Sé í þessu sambandi rétt að hafa í huga að þriðji maður geti í slíkum tilvikum, það er eftir að frestur er liðinn, fengið leiðréttingu sinna mála á grundvelli dóms í almennu einkamáli.

Með úrlausn í skilningi 3. gr. þinglýsingalaga er ekki einungis átt við ákvörðun þinglýsingarstjóra um að þinglýsa skjali eða synja því að taka skjal til þinglýsingar. Þannig falla einnig undir úrlausn í þessum skilningi skráning á skjali í þinglýsingabók, aflýsing, afmáning hafta, leiðrétting á bókunum og athugasemdir sem þinglýsingarstjóri skráir á skjöl.

Svo sem fram er komið afsöluðu varnaraðilar Margrét Jóna, Auðbjörg, Hallgrímur og Guðný Védís lóðinni nr. 8 við Miðskóga á Álftanesi til varnaraðila Hraunfells ehf. 8. apríl 2005. Voru þau systkinin þá þinglýstir eigendur lóðarinnar, sbr. 1. mgr. 25. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978, en heimildarbréf þeirra fyrir henni var móttekið til þinglýsingar 23. desember 1998 og innfært í fasteignabók 28. sama mánaðar. Það var hins vegar fyrst með bréfi lögmanns hans til þinglýsingarstjóra 25. maí 2005 sem sett var fram krafa samkvæmt 3. gr. þinglýsingalaga vegna þessa, en líta verður svo á að með því bréfi hafi verið tilkynnt að sú úrlausn þinglýsingarstjóra sem hér um ræðir væri borin undir héraðsdóm. Er ljóst að sóknaraðila var um það kunnugt löngu áður að systkinin væru þinglýstir eigendur lóðarinnar. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með vísan til þess sem rakið er hér að framan ber að vísa frá dómi kröfu sem sóknaraðili hefur uppi í málinu vegna þessarar úrlausnar þinglýsingarstjóra. Er þá jafnframt til þess að líta að ekki verður á öðrum grunni tekin afstaða til þess í þessu máli, sem er eins og fram er komið rekið samkvæmt 3. gr. þinglýsingalaga, hvort efni séu til að hnekkja þinglýsingu á heimildarbréfi varnaraðila.

Að framangreindri niðurstöðu fenginni stendur eftir að taka afstöðu til krafna sóknaraðila sem varða yfirlýsingu hans frá 1. október 2004 og afsal til varnaraðila Hraunfells ehf. 8. apríl 2005.

Að því er afsalið varðar er til þess að líta að með bréfi til þinglýsingarstjóra 4. maí 2005 var þess krafist af hálfu sóknaraðila að afsalinu yrði „vísað frá þinglýsingu vegna skorts á eignarheimild og samþykki sameigenda og það afmáð úr þinglýsingabókum“. Úr þessari kröfu hefur þinglýsingarstjóri ekki leyst, en ákvörðun hans 9. maí 2005 tók samkvæmt efni sínum einvörðungu til þeirrar kröfu varnaraðila Hraunfells ehf. að yfirlýsing sóknaraðila frá 1. október 2004 yrði afmáð úr fasteignabók. Í tilkynningu sóknaraðila til þinglýsingarstjóra 25. maí 2005, sbr. 3. mgr. 3. gr. þinglýsingalaga, var hins vegar tekið fram að borin væri undir héraðsdóm „ákvörðun þinglýsingarstjóra frá 9. maí 2005 um [...] að hafna kröfu hans um frávísun afsals sem þinglýst var 11. apríl [2005]“. Er í málatilbúnaði sóknaraðila á því byggt að miða verði við að þinglýsingarstjóri hafi í reynd hafnað framangreindri kröfu hans með þeirri ákvörðun sem hann tók í málinu 9. maí 2005. Að framangreindum atvikum virtum verður ekki litið svo á að frestur samkvæmt 1. mgr. 3. gr. þinglýsingalaga standi því í vegi að taka megi til efnismeðferðar kröfu sóknaraðila sem að afsalinu lýtur.

Við meðferð máls sem rekið er samkvæmt 3. gr. þinglýsingalaga verður ekki skorið úr öðrum álitaefnum en þeim er varða úrlausn þinglýsingarstjóra um þinglýsinguna. Í ljósi þessa og með því að varnaraðilar Margrét Jóna, Auðbjörg, Hallgrímur og Guðný Védís höfðu sem þinglýstir eigendur þeirrar lóðar, sem málið tekur til, heimild til að ráðstafa henni á þann hátt sem þau gerðu með afsalinu 11. apríl 2005 var varnaraðilanum Hraunfelli ehf. jafnframt rétt að fá eignarheimild sinni að henni þinglýst. Eru þegar af þessari ástæðu ekki skilyrði til að fallast á það með sóknaraðila að þinglýsingarstjóra hafi borið að vísa afsalinu frá þinglýsingu.

Hér að framan hefur verið gerð grein fyrir því hvernig þinglýstum eignarheimildum að umræddri lóð hefur verið háttað frá því í lok árs 1998. Þrátt fyrir það sem þar kemur fram var þeirri yfirlýsingu sóknaraðila frá 1. október 2004, sem mál þetta tekur meðal annars til, þinglýst á lóðina. Með þinglýsingalögum er stemmt stigu við því að yfirlýsingu sem þessari verði þinglýst, sbr. grunnreglu 2. mgr. 7. gr. þeirra, enda eiga ekki við um hana þau ákvæði laganna sem mæla fyrir um frávik frá meginreglu 1. mgr. 24. gr. þeirra. Samkvæmt þessu var það rétt ákvörðun hjá þinglýsingarstjóra að afmá yfirlýsinguna úr fasteignabók.

Samkvæmt öllu framansögðu er niðurstaða málsins sú sem í úrskurðarorði greinir. 

Eftir framangreindum málsúrslitum verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðilum málskostnað. Þykir hæfilegt að sóknaraðili greiði varnaraðilum samtals 120.000 krónur í málskostnað og svo sem nánar greinir í úrskurðarorði, sbr. 132. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Þorgeir Ingi Njálsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu sóknaraðila, Kristjáns Sveinbjörnssonar, sem lýtur að þinglýsingu eignarheimildar til handa varnaraðilum, Auðbjörgu Guðjónsdóttur, Guðnýju Védísi Guðjónsdóttur, Hallgrími Guðjónssyni og Margréti Jónu Guðjónsdóttur, fyrir lóð nr. 8 við Miðskóga á Álftanesi, er vísað frá dómi. 

Öðrum kröfum sóknaraðila í málinu er hafnað.

Sóknaraðili greiði varnaraðilum, Auðbjörgu, Guðnýju Védísi, Hallgrími og Margréti  Jónu, samtals 100.000 krónur í málskostnað.

Sóknaraðili greiði varnaraðila, Hraunfelli ehf., 20.000 krónur í málskostnað.