Hæstiréttur íslands
Mál nr. 333/2000
Lykilorð
- Ávana- og fíkniefni
- Skilorð
|
|
Þriðjudaginn 19. desember 2000. |
|
Nr. 333/2000. |
Ákæruvaldið (Ragnheiður Harðardóttir saksóknari) gegn Andra Reyr Vignissyni (Brynjar Níelsson hrl.) Guðmundi Inga Þóroddssyni (Hallvarður Einvarðsson hrl.) Inga Þór Arnarsyni (Guðmundur Ágústsson hdl.) Jóni Ágústi Garðarssyni (Andri Árnason hrl.) Sveini Inga Bjarnasyni og (Sigurmar K. Albertsson hrl.) Þóri Jónssyni (Kristinn Bjarnason hrl.) |
Ávana- og fíkniefni. Skilorð.
Mál þetta varðar aðallega innflutning á 3.850 MDMA töflum og sölu og dreifingu fíkniefnanna hérlendis. Var talið sannað að G, I og S hefðu sammælst um að flytja mikið magn ólöglegra fíkniefna til landsins í því skyni að hafa verulegan ágóða af sölu þeirra. Hafi I og S lagt fram fé til kaupanna, án þess að vita hvers þeir mættu vænta í sinn hlut, en miðað var við að þeir hefðu ráðgert að fá svipað magn og þeir fengu, en G var talinn hafa gert sér grein fyrir því frá upphafi að allt að helmingi meira magn fíkniefna fengist fyrir féð. Talið var sannað að J hefði aðallega haft það hlutverk að geyma fíkniefnin og fá þau öðrum í hendur eftir ákvörðun G. Þá var talið sannað að Þ hefði tekið við MDMA töflum frá J og tekið að sér að dreifa þeim til annarra í ágóðaskyni. Loks var talið sannað að A hefði tekið við fíkniefnum af Þ og ætlað þau til sölu, en ósannað þótti að af henni hefði orðið. Var A dæmdur til tíu mánaða skilorðsbundinnar fangelsisrefsingar og greiðslu sektar, G dæmdur í 7 ára fangelsi og til greiðslu sektar, I dæmdur í 4 ára fangelsi og til greiðslu sektar, J dæmdur í 3 ára fangelsi og til greiðslu sektar, S dæmdur í fangelsi í 3 ár og 6 mánuði og til greiðslu sektar og Þ dæmdur í 2 ára fangelsi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Árni Kolbeinsson, Haraldur Henrysson, Hjörtur Torfason og Pétur Kr. Hafstein.
Málinu var skotið til Hæstaréttar 14. ágúst 2000 að ósk ákærðu, en fimm dómfelldra í héraði una héraðsdómi. Af hálfu ákæruvaldsins var jafnframt áfrýjað til fullrar sakfellingar, að því er fimm ákærðu hér fyrir dómi varðar, og á hendur öllum sex til þyngingar á refsingum. Fyrir Hæstarétti er kröfugerð ákæruvaldsins hins vegar á þá lund, að krafist er staðfestingar á niðurstöðu héraðsdómara um sakfellingu ákærðu og þyngingar á refsingu þeirra.
Ákærði Andri Reyr Vignisson krefst sýknu af kröfum ákæruvaldsins.
Ákærði Guðmundur Ingi Þóroddsson krefst þess, að honum verði dæmd vægasta refsing, sem lög leyfi, „að því marki sem lagaskilyrði kynnu að verða talin vera fyrir hendi um refsiábyrgð vegna þáttar hans í málinu.“
Ákærði Ingi Þór Arnarson krefst aðallega ómerkingar héraðsdóms og heimvísunar en til vara sýknu „af þeirri kröfu ákæruvaldsins að hann hafi ásamt meðákærðu Guðmundi Inga og Sveini Inga lagt á ráðin um innflutning á MDMA töflum frá Hollandi. Þá verði ákærði sýknaður af þeirri sök að telja hann og Svein Inga samverkamenn og þeir hafi átt að fá sameiginlega af sendingunni 1850 MDMA töflur.“ Að svo búnu krefst ákærði vægari refsingar en í héraðsdómi „fyrir þau brot sem hann hefur gengist við eða sannað þykir að hann hafi framið.“
Ákærðu Jón Ágúst Garðarsson, Sveinn Ingi Bjarnason og Þórir Jónsson krefjast endurskoðunar á ákvörðun viðurlaga til mildunar.
I.
Í héraðsdómi er gerð grein fyrir málavöxtum og framburði ákærðu. Þar kemur fram, að mál þetta varðar aðallega innflutning á 3.850 MDMA töflum eða svonefndum e-töflum frá Hollandi í desember 1999 og sölu og dreifingu fíkniefnanna hér á landi. Einungis 401 tafla fannst við leit lögreglu á heimili eins hinna ákærðu og voru þær gerðar upptækar með dómi héraðsdóms. Sú ákvörðun er ekki til endurskoðunar hér fyrir dómi. Aðrar upptökukröfur voru ekki bornar fram af hálfu ákæruvalds vegna þeirra ákærðu, sem áfrýjun málsins varðar. Eins og kröfugerð ákæruvaldsins fyrir Hæstarétti er háttað koma heldur ekki til endurskoðunar þær sakargiftir ákæru, sem héraðsdómari taldi ósannaðar.
II.
Ómerkingarkrafa ákærða Inga Þórs er á því reist, að ákæran sé afar óljós og þá sérstaklega um það magn, sem hann sé talinn hafa fjármagnað og fengið í sinn hlut. Þá sé mjög óljóst í ákæru, hvort verið sé að ákæra hann og ákærða Svein Inga fyrir að hafa fjármagnað í sameiningu kaup á 1.850 MDMA töflum eða hvort verið sé að ákæra þá sitt í hvoru lagi fyrir helming þess magns að frádregnum 100 töflum, sem einn dómfelldra í héraði fékk í sinn hlut af þessum töflum. Af hálfu ákærða Guðmundar Inga er tekið undir sjónarmið um óskýrleika í ákæruskjali og talið, að hann kunni ex officio að leiða til ómerkingar héraðsdóms og heimvísunar eða frávísunar málsins frá héraðsdómi.
Af orðalagi og framsetningu ákæru er alveg ljóst, að ákærðu Ingi Þór og Sveinn Ingi eru bornir sökum um að hafa í sameiningu staðið að innflutningi á að minnsta kosti 1.850 MDMA töflum og söludreifingu þeirra að frádregnum þeim 100 töflum, sem áður voru nefndar. Það kemur hins vegar til skoðunar við efnisúrlausn málsins og ákvörðun refsingar, hvort rétt sé að líta svo á, að þeir skuli einungis bera ábyrgð á þeim hluta efnisins, er kom í hlut hvors þeirra um sig við skipti sín á milli, þegar þeir höfðu tekið við fíkniefnunum hér á landi. Þá þarf ekki að velkjast í vafa um það, að þessir ákærðu eru sakaðir um það ásamt ákærða Guðmundi Inga að hafa ráðgast fyrirfram um innflutning ólöglegra fíkniefna, en ekki er nauðsynlegt, að nákvæm lýsing á aðdraganda þess samráðs komi fram í ákæru. Verknaðarlýsing ákæru er að öðru leyti skýr um það, að sakargiftir á hendur þessum ákærðu rúmast fyllilega innan brotalýsingar 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 64/1974. Verður ekki á það fallist, að ákæruskjalið fullnægi ekki áskilnaði c. liðar 116. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Þá er þess og að gæta, að héraðsdómur taldi vörn ákærðu ekki hafa verið áfátt vegna orðalags í ákæru. Eru þannig engin efni til þess að ómerkja héraðsdóm.
III.
Við úrlausn um sýknukröfu ákærða Andra Reyrs verður að líta til þess, að héraðsdómari hlýddi á framburð hans annars vegar og ákærðu Þóris og Guðmundar Inga hins vegar, en að samskiptum ákærða Þóris og ákærða Andra um afhendingu fíkniefna naut ekki vitna. Ákærði Þórir var talinn sannur að því að hafa afhent ákærða Andra 100 MDMA töflur en ekki 200 töflur, eins og misritast hefur í héraðsdómi. Með hliðsjón af endurritum símtala milli ákærða Þóris og ákærða Guðmundar Inga um innheimtu hjá ákærða Andra og einkum símtali hans sjálfs við ákærða Guðmund Inga 28. desember 1999, sem nánar er lýst í héraðsdómi, þykja ekki vera efni til þess að hagga mati héraðsdómara á sönnunargildi framburðar þeirra um þetta.
Af gögnum málsins verður örugglega ráðið, að ákærðu Guðmundur Ingi, Ingi Þór og Sveinn Ingi hafi sammælst um að flytja mikið magn ólöglegra fíkniefna til landsins í því skyni að hafa af sölu þeirra verulegan ágóða. Ákærðu Ingi Þór og Sveinn Ingi lögðu fram fé til kaupanna án þess að séð verði, að þeir hafi fyllilega gert sér grein fyrir, hvers þeir mættu vænta í sinn hlut. Þó verður að miða við, að þeir hafi ráðgert að fá svipað magn og þeir fengu, en ákærði Guðmundur Ingi virðist frá upphafi hafa gert sér grein fyrir því, að allt að helmingi meira magn fengist fyrir þetta fé, og ætlaði hann það sjálfum sér. Ákærðu Ingi Þór og Sveinn Ingi greiddu ákærða Guðmundi Inga jafnframt 150.000 krónur hvor fyrir að takast á hendur ferðina til Hollands, kaupa fíkniefnin og senda þau til Íslands.
Um þátt ákærða Jóns Ágústar er til þess að líta, að hann var ekki ákærður fyrir að hafa átt nokkurn hlut að undirbúningi innflutnings fíkniefnanna, en hann hefur játað fyrir dómi að hafa vitað um erindi ákærða Guðmundar Inga til Hollands rétt áður en hann fór utan. Þá unir ákæruvaldið þeirri niðurstöðu héraðsdóms, að ákærða Jóni Ágústi hafi verið ókunnugt um magn efnanna, þegar þau komu til landsins og hann tók við þeim úr hendi ákærða Sveins Inga. Hlutverk hans í framhaldi þessa virðist aðallega hafa verið að geyma fíkniefni og fá þau öðrum í hendur eftir ákvörðun ákærða Guðmundar Inga. Sá síðarnefndi hélt því fram fyrir dómi, að þeir tveir hafi ætlað að skipta með sér til helminga hagnaði af sölu efnanna, en því neitaði ákærði Jón Ágúst eindregið. Hann bar því hins vegar við, að með dreifingu fíkniefnanna hafi hann vænst þess að fá upp í skuldir, sem fallið hafi á hann vegna reksturs fyrirtækis, sem hann hafi áður átt með ákærða Guðmundi Inga. Af framburði hans verður ráðið, að hann hafi fengið til sín um 70.000 krónur í þessu skyni, en skuldirnar hafi þó verið margfalt hærri. Hefur ekki verið leitt í ljós, að þessu hafi verið á annan veg farið.
Með þessum athugasemdum verður sakarmat héraðsdóms staðfest með skírskotun til forsendna dómsins að öðru leyti.
IV.
Ákvörðun héraðsdóms um refsingu ákærða Andra Reyrs skal standa óhögguð og þykir eftir atvikum mega við það una vegna aldurs hans, að refsivist hans verði skilorðsbundin í þrjú ár.
Við ákvörðun refsingar ákærðu Guðmundar Inga, Inga Þórs og Sveins Inga verður að líta til þess, að þeir stóðu í upphafi saman að ráðagerð og framkvæmd hins ólöglega innflutnings fíkniefnanna, sbr. 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Á hinn bóginn er ljóst, að ákærði Guðmundur Ingi var aðalmaður í skipulagningu og allri framkvæmd innflutningsins og stjórnaði síðan dreifingu á rúmum helmingi efnanna. Verður ákvörðun héraðsdóms um refsingu hans staðfest með frekari vísun til þess rökstuðnings, sem þar greinir, bæði fangelsisrefsing og sektarrefsing. Frá fangelsisrefsingunni ber að draga gæsluvarðhaldsvist ákærða frá 29. desember 1999 til uppkvaðningar þessa dóms.
Við það þykir mega miða, að ákærðu Ingi Þór og Sveinn Ingi hafi frá upphafi haft í huga að skipta með sér fíkniefnunum á þann veg, að hvor þeirra um sig myndi annast sölu og dreifingu efnanna án atbeina hins. Er ekki annað fram komið en að sú hafi orðið raunin. Samverknaður þeirra við kaup og innflutning efnanna verður refsingu þeirra á hinn bóginn til þyngingar. Ekki er ástæða til að gera teljandi mun á refsinæmi verknaðar þeirra, þótt ákærði Sveinn Ingi hafi að fyrirlagi ákærða Guðmundar Inga sótt fíkniefnin á póstmiðstöð DHL hraðflutningafyrirtækisins og fengið þau ákærða Jóni Ágústi í hendur rétt á eftir, en ákærðu Ingi Þór og Sveinn Ingi skiptu efnunum á milli sín að kvöldi sama dags. Báðir játuðu þeir hreinskilnislega brot sín, sem eru stórfelld. Ákærði Sveinn Ingi hefur ekki áður gerst sekur um refsilagabrot, en ákærði Ingi Þór var með dómi Héraðsdóms Reykjaness 18. febrúar 2000 dæmdur í átta mánaða fangelsi fyrir ránsbrot og var fullnustu sex mánaða af refsingunni frestað skilorðsbundið í tvö ár. Refsing ákærða Inga Þórs nú verður hegningarauki við þann dóm, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga, en jafnframt verður skilorðshluti hans dæmdur upp og ákærða gerð refsing í einu lagi, sbr. 60. gr. sömu laga. Þykir refsing ákærða Sveins Inga hæfilega ákveðin fangelsi í þrjú ár og sex mánuði en refsing ákærða Inga Þórs fangelsi í fjögur ár. Frá refsingu beggja ber að draga gæsluvarðhaldsvist til uppsögu þessa dóms, ákærða Sveins Inga frá 29. desember 1999 til 2. janúar 2000 og síðan frá 7. janúar 2000 og ákærða Inga Þórs frá 8. janúar 2000. Þá verður báðum ákærðu gert að greiða sektir á þann veg, sem héraðsdómur tiltók.
Um ákvörðun refsingar ákærða Jóns Ágústar er vísað til forsendna héraðsdóms og að auki þeirra sjónarmiða um sakarmat, sem að framan er lýst. Þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í þrjú ár, og greiði hann jafnframt 300.000 krónur í sekt í ríkissjóð, en um vararefsinguna er mælt í dómsorði. Frá fangelsisrefsingu ákærða ber að draga gæsluvarðhaldsvist þá, er hann sætti frá 4. janúar til 24. febrúar 2000.
Ákvörðun héraðsdóms um refsingu ákærða Þóris verður staðfest með vísun til forsendna hans, en ákærði virðist hafa verið samvinnuþýður við rannsókn málsins. Frá refsingu hans ber að draga gæsluvarðhaldsvist frá 29. desember 1999 til 1. febrúar 2000.
Fallist verður á ákvörðun héraðsdóms um sakarkostnað. Ákærðu skulu greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði Andri Reyr Vignisson sæti fangelsi í tíu mánuði. Fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum þremur árum, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 22/1955. Þá greiði ákærði 150.000 krónur í sekt í ríkissjóð og komi 30 daga fangelsi í stað sektarinnar, verði hún eigi greidd innan fjögurra vikna frá birtingu þessa dóms.
Ákærði Guðmundur Ingi Þóroddsson sæti fangelsi í sjö ár. Frá refsingunni dregst gæsluvarðhaldsvist ákærða frá 29. desember 1999 til uppsögu þessa dóms með fullri dagatölu. Þá greiði ákærði 3.000.000 krónur í sekt í ríkissjóð og komi sex mánaða fangelsi í stað sektarinnar, verði hún eigi greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins.
Ákærði Ingi Þór Arnarson sæti fangelsi í fjögur ár. Frá refsingunni dregst gæsluvarðhaldsvist ákærða frá 8. janúar 2000 til uppsögu þessa dóms með fullri dagatölu. Þá greiði ákærði 1.000.000 krónur í sekt í ríkissjóð og komi þriggja mánaða fangelsi í stað sektarinnar, verði hún eigi greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins.
Ákærði Jón Ágúst Garðarsson sæti fangelsi í þrjú ár. Frá refsingunni dregst gæsluvarðhaldsvist ákærða frá 4. janúar til 24. febrúar 2000 með fullri dagatölu. Þá greiði ákærði 300.000 krónur í sekt í ríkissjóð og komi fangelsi í 45 daga í stað sektarinnar, verði hún eigi greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins.
Ákærði Sveinn Ingi Bjarnason sæti fangelsi í þrjú ár og sex mánuði. Frá refsingunni dregst gæsluvarðhaldsvist ákærða frá 29. desember 1999 til 2. janúar 2000 og frá 7. janúar 2000 til uppsögu þessa dóms með fullri dagatölu. Þá greiði ákærði 1.000.000 krónur í sekt í ríkissjóð og komi þriggja mánaða fangelsi í stað sektarinnar, verði hún eigi greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins.
Ákærði Þórir Jónsson sæti fangelsi í tvö ár. Frá refsingunni dregst gæsluvarðhaldsvist ákærða frá 29. desember 1999 til 1. febrúar 2000 með fullri dagatölu.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skulu vera óröskuð.
Ákærði Andri Reyr greiði skipuðum verjanda sínum fyrir Hæstarétti, Brynjari Níelssyni hæstaréttarlögmanni, 200.000 krónur í málsvarnarlaun.
Ákærði Guðmundur Ingi greiði skipuðum verjanda sínum fyrir Hæstarétti, Hallvarði Einvarðssyni hæstaréttarlögmanni, 300.000 krónur í málsvarnarlaun.
Ákærði Ingi Þór greiði skipuðum verjanda sínum fyrir Hæstarétti, Guðmundi Ágústssyni héraðsdómslögmanni, 200.000 krónur í málsvarnarlaun.
Ákærði Jón Ágúst Garðarsson greiði skipuðum verjanda sínum fyrir Hæstarétti, Andra Árnasyni hæstaréttarlögmanni, 200.000 krónur í málsvarnarlaun.
Ákærði Sveinn Ingi Bjarnason greiði skipuðum verjanda sínum fyrir Hæstarétti, Sigurmar K. Albertssyni hæstaréttarlögmanni, 200.000 krónur í málsvarnarlaun.
Ákærði Þórir Jónsson greiði skipuðum verjanda sínum fyrir Hæstarétti, Kristni Bjarnasyni hæstaréttarlögmanni, 200.000 krónur í málsvarnarlaun.
Allan annan kostnað af áfrýjun sakarinnar greiði ákærðu óskipt.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. júlí 2000.
Ár 2000, fimmtudaginn 6. júlí, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Pétri Guðgeirssyni, héraðsdómara, kveðinn upp dómur í sakamálinu nr. 866/2000: Ákæruvaldið (Sigurður Gísli Gíslason) gegn Andra Reyr Vignissyni (Brynjar Níelsson hrl.), A (Örn Clausen hrl.), Guðmundi Inga Þóroddssyni (Hallvarður Einvarðsson hrl.), Inga Þór Arnarsyni (Guðmundur Ágústsson hdl.), H (Pétur Örn Sverrisson hdl.), Jóni Ágústi Garðarssyni (Andri Árnason hrl.), M (Örn Clausen hrl.), MÍ (Páll Arnór Pálsson hrl.), Ó (Sigmundur Hannesson hrl.), Sveini Inga Bjarnasyni (Pétur Örn Sverrisson hdl.) og Þóri Jónssyni (Karl Georg Sigurbjörnsson hdl.) sem tekið var til dóms hinn 16. júní sl., að lokinni aðalmeðferð.
Málið er höfðað með ákæru Ríkissaksóknara, dagsettri 10. maí sl. á hendur ákærðu, Andra Reyr Vignissyni, kt. 210182-3149, Hléskógum 16, Reykjavík, A, Guðmundi Inga Þóroddssyni, kt. 290574-4639, Völvufelli 17, Reykjavík, Inga Þór Arnarsyni, kt. 150581-3979, Krókamýri 32, Garðabæ, H, Jóni Ágústi Garðarssyni, kt. 070280-4699, Réttarbakka 1, Reykjavík, M, MÍ, Ó, Sveini Inga Bjarnasyni, kt. 260680-3829, Hjaltabakka 24, Reykjavík, og Þóri Jónssyni, kt. 130882-3079, Skagaseli 2, Reykjavík.
Gegn ákærðu A, Guðmundi Inga, Inga Þór, Jóni Ágústi, MÍ, Sveini Inga og Þóri, fyrir brot gegn almennum hegningarlögum, en gegn ákærðu Andra Reyr, H, Ó og M fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni.
I. Innflutningur fíkniefna frá Hollandi til Íslands og söludreifing hérlendis.
Gegn ákærðu Guðmundi Inga, Inga Þór og Sveini Inga, fyrir brot gegn almennum hegningarlögum, og M fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni, með því að hafa í ágóðaskyni staðið að innflutningi á MDMA (3,4 metylendíoxýmetamfetamín) töflum til Íslands frá Hollandi í desember 1999, og ákærða MÍ fyrir hlutdeild í broti meðákærða Sveins Inga gegn almennum hegningarlögum, svo sem hér er rakið.
1. Ákærða Guðmundi Inga er gefið að sök:
Að hafa ásamt meðákærðu Inga Þór og Sveini Inga, lagt á ráðin um innflutning á MDMA töflum frá Hollandi, móttekið í því skyni fé frá þeim, sbr. ákæruliði I.2.og I.3, og keypt um 3.850 töflur í Amsterdam og sent með pósti hingað til lands í tveimur kössum á nafn meðákærða Sveins Inga. Er sendingin með fíkniefnunum kom til landsins 13. desember gefið meðákærða Sveini Inga fyrirmæli um að sækja hana á póstmiðstöð og afhenda meðákærða Jóni Ágústi, sbr. ákæruliði I.2 og II.1. Móttekið sendinguna frá Jóni Ágústi á heimili sínu, sbr. ákærulið II.1, þar sem þeir fjarlægðu fíkniefnin úr henni. Afhent á heimili sínu meðákærða Jóni Ágústi um 2.000 töflur og gefið honum fyrirmæli um að afhenda þær nafngreindum mönnum, þar á meðal meðákærða Þóri um 1.100 töflur, sem ákærði gaf enn fremur fyrirmæli um að afhenda töflur nafngreindum mönnum, sbr. ákæruliði I. 1-2. Þannig selt með milligöngu meðákærðu Jóns Ágústs og Þóris meðákærða A um 700 töflur, meðákærða H um 200 töflur, meðákærða Ó um 100 töflur og meðákærða Andra Reyr um 200 töflur, sbr. ákæruliði II.3-6. Enn fremur afhent sjálfur meðákærða Sveini Inga um 1.850 töflur fyrir utan söluturninn Toppmyndir við Eddufell, Reykjavík, sbr. ákærulið I. 2, kunnugt um að hann og meðákærði Ingi Þór ætluðu þær til söludreifingar hérlendis.
2. Ákærða Sveini Inga er gefið að sök:
Að hafa ásamt meðákærðu Guðmundi Inga og Inga Þór lagt á ráðin um innflutning á MDMA töflum frá Hollandi og hafa ásamt meðákærða Inga Þór lagt fé til kaupanna sem þeir afhentu meðákærða Guðmundi Inga, sbr. ákæruliði I.1 og I.3. Er töflurnar voru komnar til landsins sótt þær á póstmiðstöð DHL hraðflutningafyrirtækisins við Faxafen í Reykjavík og afhent skv. fyrirmælum meðákærða Guðmundar Inga, meðákærða Jóni Ágústi skammt frá vinnustað hans við Bíldshöfða í Reykjavík, sbr. ákæruliði I.1. og II.1. Móttekið síðar sama dag um 1.850 töflur frá meðákærða Guðmundi Inga, sbr. ákærulið I.1, sem ákærði og meðákærði Ingi Þór skiptu jafnt á milli sín á heimili ákærða að frádregnum 100 töflum er ákærði afhenti meðákærða M, sbr. ákæruliði I.3 og I.4. Jafnframt að hafa selt sinn hluta fíkniefnanna ónafngreindum mönnum hérlendis.
3. Ákærða Inga Þór er gefið að sök:
Að hafa ásamt meðákærðu Guðmundi Inga og Sveini Inga lagt á ráðin um innflutning á MDMA töflum frá Hollandi og hafa ásamt meðákærða Sveini Inga lagt fé til kaupanna sem þeir afhentu meðákærða Guðmundi Inga, sbr. ákæruliði I.1 og I.2. Móttók meðákærði Sveinn Ingi fíkniefnin frá meðákærða Guðmundi Inga og fór með á heimili sitt þar sem hann og ákærði skiptu töflunum jafnt á milli sín, að frádregnum 100 töflum í eigu meðákærða M, sbr. ákærulið I.2 og I.4. Jafnframt að hafa selt sinn hluta fíkniefnanna ónafngreindum mönnum hérlendis.
4. Ákærða M er gefið að sök:
Að hafa lagt til fjármagn og afhent meðákærða Sveini Inga til kaupa á 100 MDMA töflum, sem meðákærði Guðmundur Ingi flutti inn til landsins, sbr. ákærulið I.1, og móttekið töflurnar frá meðákærða Sveini Inga á heimili hans, sbr. ákærulið I.2. Jafnframt að hafa að verulegu leyti selt fíkniefnin ónafngreindum mönnum hérlendis.
5. Ákærða MÍ er gefið að sök:
Hlutdeild í framangreindu broti meðákærða Sveins Inga, með því að hafa veitt honum liðsinni í verki til kaupa á erlendum gjaldeyri, en ákærði móttók um 300.000 krónur frá honum og keypti fyrir þær hollensk gyllini í Sparisjóðnum við Digranesveg, Kópavogi og Búnaðarbankanum í Smáranum, Kópavogi, og afhenti meðákærða Sveini Inga féð, vitandi að það átti að fara til kaupa hans á MDMA töflum sem flytja átti til Íslands. Enfremur að hafa veitt meðákærða Sveini Inga liðsinni í verki við móttöku og afhendingu á 3.850 MDMA töflum, með því að aka honum og sendingu sem innihélt fíkniefnin, á bifreið sinni IB-398 frá póstmiðstöð DHL hraðflutningafyrirtækisins við Faxafen að Bíldshöfða í Reykjavík, þar sem meðákærði Sveinn Ingi afhenti fíkniefnin meðákærða Jóni Ágústi, sbr. ákærulið I.2.
II. Afhending og sala fíkniefna hérlendis.
Gegn ákærðu Jóni Ágústi, Þóri og A, fyrir brot gegn almennum hegningarlögum, en gegn ákærðu H, Andra Reyr og Ó gegn lögum um ávana- og fíkniefni, framin hérlendis í desember 1999 til janúar 2000, svo sem hér er rakið:
1. Ákærða Jóni Ágústi er gefið að sök:
Að hafa skv. fyrirmælum meðákærða Guðmundar Inga móttekið um 3.850 MDMA (3,4 metylendíoxýmetamfetamín) töflur þann 13. desember frá meðákærða Sveini Inga skammt frá vinnustað sínum við Bíldshöfða í Reykjavík og afhent fíkniefnin meðákærða Guðmundi Inga á heimili hans, sbr. ákæruliði I.1-2. Sama dag móttekið um 2.000 MDMA töflur frá meðákærða Guðmundi Inga á framangreindu heimili hans og afhent áfram til meðákærðu A, Þóris og H, skv. fyrirmælum meðákærða Guðmundar Inga, sbr. ákæruliði I.1 og II.2-3, kunnugt um að þeir ætluðu töflurnar til frekari söludreifingar, en um 300 töflum skilaði hann meðákærða Guðmundi Inga.
2. Ákærða Þóri er gefið að sök:
Að hafa þann 13. desember móttekið frá meðákærða Jóni Ágústi á heimili hans um 1.100 MDMA töflur, til söludreifingar í ágóðaskyni fyrir meðákærða Guðmund Inga, sbr. ákæruliði I.1 og II.1. Afhent skv. fyrirmælum meðákærða Guðmundar Inga, meðákærða H um 100 töflur, meðákærða Ó um 100 töflur og meðákærða Andra Reyr um 100 töflur, sbr. ákæruliði II.4-6, selt sjálfur ónafngreindum mönnum um 100 töflur, skilað meðákærða Guðmundi Inga um 200-300 töflum, en 401 tafla fannst við leit lögreglu á heimili ákærða þann 29. desember .
3. Ákærða A er gefið að sök:
Að hafa í tvö skipti í desember keypt af meðákærða Guðmundi Inga samtals um 700 MDMA töflur og móttekið þær frá meðákærða Jóni Ágústi við Mjódd og Nethyl í Reykjavík, sbr. ákæruliði I.1 og II.1, og selt ónafngreindum mönnum í ágóðaskyni.
4. Ákærða H gefið að sök:
Að hafa í desember keypt samtals um 200 MDMA töflur af meðákærða Guðmundi Inga og móttekið þær annars vegar frá meðákærða Jóni Ágústi fyrir utan veitingastaðinn Kaffi Hafnarfjörð í Hafnarfirði og hins vegar á ótilgreindum stað í Reykjavík frá meðákærða Þóri, sbr. ákæruliði I.1 og II.1-2, og selt þær ónafngreindum mönnum í ágóðaskyni. Enn fremur haft í vörslum sínum 15 LSD (lýsergíð) skammta og 0,83 g af amfetamíni, sem lögregla fann við húsleit á heimili ákærða, þann 31. janúar.
5. Ákærða Andra Reyr er gefið að sök:
Að hafa í desember keypt um 200 MDMA töflur af meðákærða Guðmundi Inga og móttekið þær frá meðákærða Þóri á heimili hans, sbr. ákæruliði I.1 og II.2, og selt ónafngreindum mönnum í ágóðaskyni.
6. Ákærða Ó er gefið að sök:
Að hafa í desember keypt um 100 MDMA töflur af meðákærða Guðmundi Inga og móttekið þær frá meðákærða Þóri á heimili sínu, sbr. ákæruliði I.1 og II.2, og selt ónafngreindum mönnum í ágóðaskyni. Enn fremur að hafa í vörslum sínum 2,67 g af amfetamíni, sem lögregla fann við húsleit á heimili ákærða, þann 31. janúar.
III. Heimfærsla til refsiákvæða.
Brot ákærðu A, Guðmundar Inga, Inga Þórs, Jóns Ágústar, Sveins Inga og Þóris, teljast varða við 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 64/1974. Brot ákærða MÍ, telst varða við 173. gr. a almennra hegningarlaga, sbr. lög nr. 64/1974, sbr. 22. gr. almennra hegningarlaga. Brot ákærðu Andra Reyrs, H, M og Ó, teljast varða við 2. gr., sbr. 5. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 60/1980, sbr. 9. gr. laga nr. 75/1982, sbr. lög nr. 13/1985, og 2. gr., sbr. 10.gr. reglugerðar um sölu og meðferð ávana- og fíkniefna nr. 16/1986, sbr. reglugerð nr. 177/1986 .
IV. Dómkröfur.
1. Að ákærðu verði dæmdir til refsingar.
2. Að eftirtalin fíkniefni sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins, verði gerð upptæk samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 16/1986:
a) 401 MDMA (3,4 metylendíoxýmetamfetamín) töflur, sem fundust við leit lögreglu á heimili ákærða Þóris þann 29. desember 1999.
b) 15 skammtar af LSD (lýsergíð) og 0,83 g af amfetamíni sem fundust við leit lögreglu á heimili ákærða H, þann 31. janúar 2000.
c) 0,07 g af amfetamíni sem fannst við leit lögreglu á heimili ákærða M þann 20. janúar 2000.
d) 2,67 g af amfetamíni sem fannst við leit lögreglu á heimili ákærða Ó, þann 31. janúar 2000.
3. Að ákærða A verði með vísan til 3. tl. 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 2. gr. laga nr. 10/1997 og 7. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974, sbr. 7. gr. laga nr. 10/1997, gert að sæta upptöku á kr. 2.450.000, sem svara til ávinnings hans af ofangreindu broti.
Við meðferð málsins hefur ákæran verið leiðrétt og henni breytt sem hér segir: Misritun í 2. tl. II. kafla um sakargiftir ákærða Þóris þar sem segir: “..og meðákærða Andra Rey um 100 töflur,..” skuli standa 200 töflur eins og sjáist af samhengi annars staðar í ákærunni. Þá hefur upptökukrafa á hendur ákærða A verið lækkuð í 639.200 krónur.
Enda þótt ákæran sé í sumum atriðum ekki eins skýr og æskilegt hefði verið hefur það ekki komið niður á vörn fyrir ákærðu í málinu. Málavöxtum verður þó ekki lýst hér á eftir að öllu leyti í samræmi við efnisskipan ákærunnar.
Málavextir.
Hinn 14. desember sl. vaknaði um það grunur hjá tollgæslumanni sem var á vakt í hraðflutningafyrirtækinu DHL að daginn áður hefði verið sótt þangað sending frá Hollandi sem gæti hafa verið fíkniefni. Sendingin hafði verið stíluð á Svein Inga Bjarnason, ákærðan í máli þessu. Samkvæmt aðflutningsskjölum voru í henni fatnaður, móttökutæki, loftnet, borðlampi og fleira, allt að tollvirði 162.685 krónur. Aðflutningsgjöld af sendingunni voru 91.462 krónur, og var hún þó sögð vera gjöf. Sendingin hafði verið afhent flutningsfyrirtækinu í Amsterdam 10. sama mánaðar. Lögreglu var gert viðvart um þetta og fóru lögreglumenn heim til ákærða og spurðu hann um þessa sendingu. Kvaðst hann hafa tekið á móti henni fyrir mann sem héti Guðmundur og ætti heima í Efra-Breiðholti, en það reyndist vera Guðmundur Ingi Þóroddsson, ákærður í málinu. Kvaðst Sveinn Ingi hafa sótt sendinguna og farið með hana og sett í jeppabíl sem stóð við Húsgagnahöllina. Þá er þess að geta að um þetta leyti höfðu lögreglu borist vísbendingar, m. a. um það að Guðmundur Ingi væri staddur í Hollandi að kaupa mikið af fíkniefnum, e-töflum og kókaíni, sem hann flytti hingað til lands. Leiddi þetta allt til mjög umfangsmikillar rannsóknar með símhlerun, handtökum, leit og varðhaldsúrskurðum. Var m. a. lagt hald á 401 töflu af efninu MDMA hjá ákærða Þóri sem raktar voru til þessarar sendingar. Töflur þessar eru ljósgular að lit. Öðrum megin á þeim er bókstafurinn S en hinum megin er deiliskora.
Tíu af þessum töflum voru fengnar rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfjafræði til greiningar. Reyndist hver þeirra vera 8 mm í þvermál og vega 312 mg. Töflurnar voru efnagreindar með blettagreiningu á þynnu, gasgreiningu á súlu, massagreiningu, vökvagreiningu á súlu svo og ýmsum efnaprófum. Reyndist hver þeirra innihalda 94 mg af metýlendíóxýmetýlamfetamín-klóríði. Að sögn Ingibjargar Höllu Snorradóttur, lyfjafræðings á rannsóknastofunni, sem framkvæmdi þessa rannsókn hefur meðalinnihald efnisins í töflum sem mældar hafa verið á rannsóknastofunni á þessu ári verið um 93 mg á töflu en á síðasta ári var það milli 100 og 110 mg. Eins og fram kemur hér á eftir voru fluttar inn tvær gerðir af töflum. Hin gerðin var blá að lit að sögn flestra sem um gátu borið. Ekki var lagt hald á neina af þessum töflum í þessu máli en þær eru þekktar hér úr öðrum málum og hafa sérstök auðkenni. Í málinu er matsgerð um rannsókn á þremur þeirra, sams konar og gerð var á þeim töflum sem fundust hjá ákærða Þóri. Í matsgerðinni segir að töflur þessar séu 8 mm í þvermál og 280 mg að þyngd. Á annarri hlið þeirra er mótuð mynd af blómi og innan í því tölustafurinn 6. Hinum megin er deiliskora. Í hverri töflu reyndust vera 0,90 mg af metýlendíóxýmetýlamfetamín-klóríði.
Verður nú gerð grein fyrir því sem fram hefur komið í aðalmeðferð málsins.
A. Ákærðu Guðmundur Ingi, Sveinn Ingi, Ingi Þór, M og MÍ: Innflutningur á MDMA-töflum hingað til lands frá Hollandi, sbr. I. kafla ákæru.
Guðmundur Ingi hefur skýrt frá því að Ingi Þór, sem þá var í vímuefnameðferð, hafi haft samband við sig í október eða nóvember og spurt hvort hann væri til í að “versla” með ecstasy-töflur. Hafi hann sagt að hann myndi hafa samband þegar hann losnaði úr meðferðinni. Sjálfur kveðst ákærði hafa nýlokið meðferð á þessum tíma og hefði Sveinn Ingi verið samtímis í meðferð en þeir tveir hefðu þó ekki rætt neitt um innflutning fíkniefna meðan á meðferðinni stóð. Þó hefði fjárhagskröggur Sveins Inga borið á góma milli þeirra. Í desember hafi Ingi Þór haft samband aftur og þeir hist og síðar hafi Sveinn Ingi bæst í hópinn. Hafi orðið að samkomulagi með þeim þremur að þeir Ingi Þór og Sveinn Ingi legðu til 600.000 krónur í peningum en hann sjálfur færi út og keypti fyrir þá e-töflur. Yrðu þær sendar hingað til lands með pósti að öllum líkindum. Af þessum 600.000 krónum hafi helmingurinn verið þóknun til Guðmundar Inga, þ. e. 150.000 krónur frá hvorum hinna um sig. Þeir hafi talað um það að Ingi Þór og Sveinn Ingi hefðu út úr þessu 2000 e-töflur en hann fengi afganginn í sinn hlut. Ekki hafi verið ljóst hversu mikið fengist fyrir peningana en Guðmundur Ingi kveðst þó hafa búist við að 4000 töflur myndu fást fyrir þessa fjárhæð. Kveðst hann hafa farið til Amsterdam og komið sér í samband við sölumann sem hann hitti á götu og hafi þeir gert kaup um 4000 e-töflur sem maðurinn hafi komið með á hótelið og hafi hann einnig séð um að pakka þessu inn í einn pakka þarna á hótelinu, fylla út sendingarskjöl og senda til Íslands. Hafi það farið þannig fram að maðurinn lét hraðsendingarfyrirtækið DHL sækja sendinguna á hótelið. Þetta hafi verið 10. desember og kveðst ákærði hafa farið heim daginn eftir. Tveimur dögum seinna hafi Ingi Þór hringt og sagt sér eftir Sveini Inga að sendingin væri komin. Kveðst ákærði þá hafa hringt í Svein Inga sem hafi sagt að það kostaði 90.000 krónur að leysa út sendinguna. Segir ákærði að þeir hinir hafi á þessum tíma ekki vitað að í sendingunni væri meira en 2000 töflur. Kveðst ákærði hafa sagt Sveini Inga að hitta sig við bensínstöð Olís í Álfheimum. Hafi ákærði Þórir keyrt með sig þangað og þar hafi Sveinn Ingi fengið þessa peninga hjá sér fyrir aðflutningsgjöldunum. Sveinn Ingi hafi svo ekið að starfstöð DHL en þeir Þórir fylgt á eftir og beðið meðan Sveinn Ingi fór inn og sótti sendinguna. Kveðst ákærði svo hafa fylgst með því þegar Sveinn Ingi ók með sendinguna til Jóns Ágústs, eins og búið hefði verið að ákveða, og hafi einhver verið í bílnum með Sveini Inga. Þeir hafi verið í símasambandi og kveðst ákærði hafa þannig vísað Sveini Inga veginn til vinnustaðar Jóns Ágústs sem hafi þar tekið við sendingunni. Segir ákærði að Þórir hafi svo ekið sér heim, en síðar um daginn hafi Jón Ágúst hringt og sagst vera kominn með sendinguna í hendur. Fyrirhugað hafi verið að fara með hluta af þessu austur fyrir fjall en ákærði kveðst hafa horfið frá því og ákveðið að Jón Ágúst kæmi með þetta allt heim til hans. Um kvöldmatarleytið hafi hann komið með sendinguna sem hafi verið í tveimur pökkum sem þeir hafi borið inn úr bílnum. Hafi Jóni Ágústi verið fullkunnugt um hvað var í þeim. Þeir hafi opnað þetta í sameiningu og hafi töflurnar verið faldar inni í hljómtæki í fjórum pakkningum og límbandi vafið utan um. Töflurnar hafi verið af tveimur gerðum, gular töflur og grænar að því er hann heldur. Þeir hafi skipt töflunum til helminga og sett í poka. Jón Ágúst hafi tekið helminginn af þessu, þ. e. 2000 töflur, og jafn mikið af hvorri tegund en þeir hafi verið búnir að ákveða að fá Þóri til þess að selja þetta fyrir þá. Ákærði kveðst svo hafa hringt í Svein Inga og þeir mælt sér mót. Kveðst ákærði hafa farið í leigubíl upp í Eddufell þar sem Sveinn Ingi hafi komið til hans í bílinn. Hafi þeir látið bílinn aka með þá heim til Sveins Inga og kveðst hann hafa látið Svein Inga hafa töflurnar á leiðinni þangað og Sveinn Ingi haft þær með sér inn til sín. Daginn eftir hafi Sveinn Ingi hringt og sagt að töflurnar hefðu ekki verið fleiri en 1850. Ákærði segist hafa prófað báðar tegundir af þessum e-pillum og hafi þær verkað eins og til var ætlast.
Sveinn Ingi hefur skýrt frá því að hann hafi verið í meðferð á Vogi samtímis þeim Guðmundi Inga og Inga Þór. Hafi þar borið á góma að Ingi Þór skuldaði Guðmundi Inga fé. Sjálfur kveðst hann einnig hafa verið stórskuldugur. Kveðst hann hafa sagt Guðmundi Inga frá skuldunum og Guðmundur Ingi þá slegið upp á því við hann að hann legði peninga í fíkniefnainnflutning og losnaði þannig við skuldirnar. Hafi þeir farið að ræða um það að þeir Ingi Þór tækju lán til þess að kaupa fyrir e-töflur og að Guðmundur Ingi keypti þau erlendis, enda væri hann hvort sem væri á förum til útlanda í sömu erindum. Segir hann þá Inga Þór hafa verið að bræða þetta með sér vestur á Staðarfelli í Dölum þar sem þeir voru í framhaldsmeðferð. Þeir hafi talað við Guðmund Inga í síma og hafi komið fram hjá honum að hann ætlaði út viku eftir að þeir kæmu að vestan. Hafi þeir hvor um sig ákveðið að vera með Guðmundi Inga í þessu og fjármagnað hvor sinn hlut í þessu og leggur ákærði áherslu á að þeir hafi ekki verið saman í þessu. Eftir að þeir komu að vestan hafi þeir útvegað sér peninga til þess að leggja í þetta. Kveðst ákærði hafa tekið 340.000 króna bankalán til þess að standa straum af sínum hluta og hafi hann fengið MÍ, kunningja sinn, til þess að skipta því í gjaldeyri og geti verið að hann hafi sagt MÍ nákvæmlega hvað flytja ætti inn. Þeir Ingi Þór hafi farið heim til Guðmundar Inga og þá hafi talast svo til að þeir yrðu þrír um pakkann en einnig hafi þeir talað um að tveir aðrir ætluðu að leggja einhvern pening í þetta einnig. Þá hafi einnig verið talað um það að þeir tveir, ákærði og Ingi Þór, fengju 500 til 1000 e-töflur í sinn hlut hvor, eftir því hvernig verðlagið væri á þessu þar ytra. Einnig hafi það orðið úr að M lagði 100.000 krónur í þetta og muni M hafa sjálfur séð um að skipta þeim yfir í gyllini. Eftir að þeir voru komnir með gjaldeyrinn í hendur hafi þeir þrír, ákærði, Ingi Þór og M, ekið heim til Guðmundar Inga þar sem Ingi Þór fór inn og afhenti Guðmundi Inga peningana. Ákærði segist vita til þess að Guðmundur Ingi hafi hringt í Inga Þór að utan og virst vera óráðinn í því hvernig hann ætti að koma fíkniefnunum til Íslands en svo hafi hann ákveðið að senda þau með DHL-fyrirtækinu. Þegar sendingin kom til landsins hafi verið hringt frá fyrirtækinu og tilkynnt um hana. Hann hafi haft samband við Guðmund Inga sem hafi útvegað fé fyrir aðflutningsgjöldunum, um 92.000 krónur. Þeir hafi mælt sér mót við bensínstöð Olís í Álfheimum og hafi MÍ ekið sér þangað þar sem ákærði fékk peningana hjá Guðmundi Inga. Þeir hafi svo ekið að hraðflutningafyrirtækinu í tveimur bílum og kveðst ákærði þar hafa leyst út sendinguna og sett í bílinn hjá MÍ. Hafi þetta verið tveir stórir kassar, um metri á kant og hefði Guðmundur Ingi verið búinn að banna sér að opna þá. Þeir hafi svo ekið eftir fyrirmælum og leiðbeiningum Guðmundar Inga þar til þeir komu á fyrir fram ákveðinn stað rétt hjá Húsgagnahöllinni en þar hafi verið maður sem ákærði þekkti ekki og hafi hann tekið við sendingunni. Hafi sá maður sagt að Guðmundur Ingi myndi hringja út af framhaldinu. Guðmundur Ingi hafi hringt um kvöldið og hafi þeir hist í Eddufelli þar sem ákærði kveðst hafa fengið plastpoka hjá honum með um 1800 e-töflum. Þeir Ingi Þór hafi svo skipt þessu á milli sín og M þannig að hvor þeirra Inga Þórs fékk 875 töflur, jafnt af báðum tegundum, og M 100 töflur, einnig jafnt af báðum tegundum. Ákærði kveðst hafa neytt um 10 taflna sjálfur og hafi þær verkað ágætlega. Hann hafi þó heyrt kvartanir um það bláu pillurnar væru engar gleðipillur og þær gulu verkuðu of stutt.
Ingi Þór hefur skýrt frá því að það hafi verið í ágústmánuði að Guðmundur Ingi hafi nefnt það við hann að hann tæki á móti fíkniefnasendingu fyrir sig. Kveðst ákærði hafa þverneitað þessu. Guðmundur Ingi hafi nefnt þetta aftur en ákærði kveðst hafa neitað sem fyrr. Í októberbyrjun hafi hann verið kominn í 100.000 króna fíkniefnaskuld við Guðmund Inga sem hann hafi ekki séð fram úr. Hann hafi haft orð á því við Guðmund Inga að hann myndi slá lán fyrir skuldinni. Hafi Guðmundur þá sagt að hann væri “að fara að taka pakka” um jól eða áramót og spurt hvort hann hvort hann vildi “ekki frekar taka þátt í pakkanum heldur en að vera að taka lán, eða taka í rauninni meira lán og leggja þann pening í pakkann.” Segist ákærði enn hafa neitað. Svo hafi það verið um miðjan þennan mánuð að ákærði kveðst hafa farið í meðferð á Vog og kynnst þar Sveini Inga. Hafi Sveinn Ingi sagt sér að Guðmundur Ingi hefði einnig talað við hann í þessa veru þegar þeir voru þar samtímis, en Guðmundur Ingi hafi þá verið nýfarinn af Vogi. Hefði þetta verið í framhaldi af því að Sveinn Ingi nefndi það við Guðmund Inga að hann væri skuldugur. Þeir Sveinn Ingi hafi ekki talað meira um þetta fyrr en þeir voru komnir vestur á Staðarfell. Það muni svo hafa verið um miðjan nóvember að Guðmundur Ingi hringdi í hann vestur og spurði hvort hann hefði hitt Svein Inga. Hafi hann mælst til þess að hitta þá báða fyrir sunnan. Hann kveðst hafa sagt Sveini Inga af þessu og þeir farið að velta því fyrir sér hvort ekki væri komin þarna leið út úr kröggunum, enda hefði Guðmundur Ingi verið búinn að segja að hægt væri að stórgræða á þessu. Eftir að þeir voru báðir komnir suður hafi Sveinn Ingi hringt og spurt hvort hann væri búinn að tala við Guðmund Inga og kveðst hann þá hafa hringt í hann og þá verið ákveðið að þeir skyldu hittast þrír heima hjá honum eitt kvöldið. Á þeim fundi hafi Guðmundur Ingi sagt að hann væri á leiðinni út til Amsterdam til þess að kaupa e-töflur fyrir sjálfan sig og tvo aðra, sem hann nafngreindi ekki. Þar sem hann vissi að þeir væru illa stæðir ætlaði hann að gefa þeim kost á því “að vera með í pakkanum.” Hafi þeir Sveinn Ingi ákveðið að “vera með.” Þeir tveir hafi rætt þetta saman en þó ákveðið þetta hvor fyrir sig. Segist ákærði telja að það hafi engin áhrif haft fyrir hann hvort Sveinn Ingi yrði með eða ekki. Guðmundur Ingi hefði, þegar hér var komið, verið löngu búinn að ákveða hvernig hann ætlaði að framkvæma þetta og sagt þeim að fíkniefnin yrðu send til landsins með pósti og minnir ákærða að hann hafi nefnt DHL í því sambandi. Eitthvað hafi það verið nefnt á þessum fundi að efnin yrðu send Sveini Inga en það atriði hafi verið á milli þeirra Guðmundar Inga, en hann kveðst heldur ekki hafa sett sig upp á móti því. Guðmundur Ingi hafi sagt þeim að þeir gætu búist við að fá 700 til 1.000 e-töflur hvor fyrir 300.000 króna framlag. Ákærði kveðst svo hafa tekið 350.000 króna lán og keypt gyllini fyrir 300.000 krónur af því. Kveðst ákærði ekki vita hvort Guðmundur reiknaði af því andvirði skuldarinnar eða hvort þetta fór allt í pakkann, enda skipti það ekki máli lengur, því Guðmundur Ingi hafi hvort sem er gefið sér upp þessa skuld eftir að málið komst upp. Segir ákærði að þeir Sveinn Ingi og M hafi farið á bíl heim til Guðmundar Inga og kveðst hann hafa farið inn með peningana í tveimur pokum. Í öðrum hafi verið hlutur hans sjálfs en í hinum hlutur Sveins Inga og líklega M einnig. Þá segist ákærði hafa látið Guðmund Inga hafa 50.000 krónur að láni fyrir utan framlagið til kaupanna. Guðmundur Ingi hafi hringt að utan og sagt að töflurnar yrðu af tveimur gerðum. Ákærði segist svo hafa frétt það hjá Sveini Inga mánudaginn 13. desember að sendingin væri komin til landsins og hann væri búinn að fá hlut þeirra tveggja í hendur. Kveðst hann hafa farið heim til Sveins Inga og þar hafi þeir skipt töflunum jafnt á milli sín, tæplega 900 á mann, jafnt af báðum gerðum eins og sjálfgefið hafi verið. Einnig minnir hann að þeir hafi tekið frá samtals 100 töflur handa M, einnig jafnt af báðum gerðum. Ákærði segist hafa notað um 100 töflur af sínum hluta og hafi hann orðið fyrir vonbrigðum með aðra gerðina og fundist ekki vera næg verkun af henni. Hann hafi þó engar kvartanir fengið frá kaupendum um þetta. Ákærði segir að Guðmundur Ingi hefði verið búinn að áskilja sér 150.000 króna þóknun frá hvorum þeirra Sveins Inga um sig. Kveðst hann hafa greitt hana síðar, eftir að efnin voru komin til landsins, og þá lagt út fyrir þá Svein Inga báða.
M hefur skýrt frá því að hann hafi verið orðinn mjög skuldugur vegna fíkniefnaneyslu og hafi hann verið að leita leiða til þess að losna út úr skuldunum. Hann hafi svo kynnst þeim Sveini Inga og Inga Þór inni á Vogi þar sem þeir voru allir í meðferð. Eftir að þeir voru komnir úr meðferð hafi þeir farið að hugsa þetta nánar, aðallega þeir Sveinn Ingi tveir og ákveðið að leggja “út í svona bissness”, það er að flytja inn e-töflur. Ingi Þór hafi komið inn í þetta seinna. Síðan hafi það orðið úr að þetta skyldi gert í samvinnu við Guðmund Inga og kveðst ákærði hafa lagt í fyrirtækið 100.000 krónur, eða andvirði þeirra í gyllinum, sem hann afhenti Sveini Inga. Kveðst hann muna eftir því að hafa farið í bíl með þeim tveimur upp í Breiðholt þar sem annar þeirra fór inn og gæti það hafa verið til þess að færa Guðmundi Inga peningana. Næst hafi það gerst að Sveinn hafi hringt og sagt að “þetta væri komið” og kveðst ákærði hafa farið heim til hans og sótt sinn hlut, sem hafi verið 100 töflur. Hafi þær verið af tveimur gerðum, gular annars vegar og bláar hins vegar. Kveðst ákærði hafa ætlað þetta allt til eigin neyslu í upphafi þó hann hafi svo freistast til annars seinna. Hafi hann hugsað þetta þannig að með því að kaupa töflur ódýrt erlendis myndi hann draga úr kostnaðinum við eigin neyslu. Hann kveðst ekki geta sagt hvort töflurnar hafi verið sterkar eða veikar. Þá kveðst hann ekki vita neitt um samkomulag hinna þriggja og nánari tilhögun innflutningsins. Hafi hann t. d. aldrei talað við Guðmund Inga. Hans þáttur í þessu fyrirtæki hafi ekki verið annar en að leggja peninga í það og fá töflurnar í hendur.
MÍ hefur skýrt frá því að hann hafi verið til sjós með Sveini Inga og kynnst honum þannig. Eftir að Sveinn Ingi hafði komið úr meðferð hafi hann haft samband og þeir tekið saman billjard eins og þeir hefðu gert áður. Hafi Sveinn Ingi beðið sig um að skipta peningum í hollensk gyllini og væri þetta til þess að kaupa fyrir fíkniefni. Hann hafi þó ekki sagt hvers konar efni þetta væru. Kveðst ákærði hafa samþykkt þetta og tekið við peningunum hjá Sveini Inga. Hann hafi farið í Búnaðarbankann í Smáranum og Sparisjóð í Kópavogi og skipt samtals 300.000 krónum í 11.000 hollensk gyllini sem hann hafi farið með samdægurs heim til Sveins Inga og afhent honum. Svo hafi það verið nokkrum dögum síðar að þeir Sveinn Ingi hafi verið í billjard saman. Hafi þá verið hringt í Svein Inga og honum sagt “að það væri kominn pakki” og að það kostaði 90.000 krónur að leysa hann út. Hafi Sveinn Ingi þá hringt í einhvern en svo beðið hann að aka sér, fyrst í Eddufell þar sem hann fór inn, en síðan að Olísstöðinni í Álfheimum þar sem hann fór í annan bíl. Hafi Sveinn Ingi beðið hann að hitta sig hjá DHL-flutningsfyrirtækinu í Fákafeni. Þegar þangað kom hafi Sveinn Ingi verið þar fyrir og farið inn og leyst út pakkann og komið með hann í bílinn til ákærða. Hafi hann þá sagt að það væru e-töflur í pakkanum. Þeir hafi svo ekið með pakkann upp á Bíldshöfða eftir leiðbeiningum sem Sveinn Ingi fékk um farsíma. Þar hafi verið maður í bíl sem beið eftir þeim í bíl og Sveinn Ingi farið með pakkann yfir í bílinn til hans. Ákærði segist engan þekkja af hinum mönnunum sem þarna hafi komið við sögu.
Meðal gagna málsins er útskrift frá Seðlabanka Íslands um gjaldeyriskaup ákærða MÍ, 3. desember 1999. Kemur þar fram að hann hafi tvisvar þann dag keypt samtals 9.750 gyllini fyrir 333.000 krónur í Sparisjóðsbankanum og að í Búnaðarbanka Íslands hafi hann keypt 1500 gyllini í ferðagjaldeyri fyrir 51.000 krónur.
Niðurstaða.
1. Guðmundur Ingi, Sveinn Ingi og Ingi Þór.
Skilja verður I. kafla ákærunnar svo að þar sé Guðmundur Ingi saksóttur fyrir það að hafa í ágóðaskyni staðið að því að flytja inn ásamt þeim Sveini Inga og Inga Þór 3.850 MDMA-töflur til Íslands frá Hollandi í desember 1999:
-með því að leggja á ráðin um innflutninginn,
-með því að taka við fé frá þeim Sveini Inga og Inga Þór til þess að kosta hann,
-með því að kaupa um 3.850 töflur í Amsterdam og senda með pósti hingað til lands.
Þá verður ákærukaflinn skilinn svo að þar sé Sveinn Ingi saksóttur fyrir það að hafa í ágóðaskyni staðið að innflutningi ásamt Guðmundi Inga og Inga Þór á 1.850 MDMA-töflum til Íslands frá Hollandi í desember 1999:
-með því að leggja á ráðin um innflutninginn,
-með því að leggja fé í fyrirtækið,
-með því að afhenda Guðmundi Inga féð,
-með því að sækja þær á póstmiðstöð DHL og afhenda meðákærða Jóni Ágústi.
Loks verður ákærukaflinn skilinn svo að þar sé Ingi Þór saksóttur fyrir það að hafa í ágóðaskyni staðið að innflutningi ásamt Guðmundi Inga og Sveini Inga á 1.850 MDMA-töflum til Íslands frá Hollandi í desember 1999:
-með því að leggja á ráðin um innflutninginn,
-með því að leggja fé í fyrirtækið,
-með því að afhenda Guðmundi Inga féð.
Sannað er með skýrslum þeirra Guðmundar Inga, Sveins Inga og Inga Þórs sem eru samhljóða í þýðingarmiklum atriðum og studdar gögnum að þeir lögðu saman á ráðin um það að flytja inn í ágóðaskyni verulegt magn af MDMA-töflum. Þá er sannað að þeir framkvæmdu þessa ráðagerð sína með því að tveir þeir síðarnefndu lögðu fé til þessa fyrirtækis og afhentu það Guðmundi Inga, með því að ákærði Guðmundur Ingi fór til Hollands, keypti þar um 3.850 töflur og sá til þess að þær voru sendar hingað til lands, með því að ákærði Sveinn Ingi leysti þær úr tolli með peningum sem hann fékk hjá Guðmundi Inga, allt eins og rakið er hér að framan og nánar greinir í 1. - 3. tl. I. kafla ákærunnar. Telja verður að Sveinn Ingi og Ingi Þór hafi búist við að hlutur þeirra í innflutningnum yrði allt að 2000 MDMA-töflur, en eins og ákærunni er háttað eru þeir ekki sakfelldir hér fyrir innflutning á meiru en um 1.850 töflum af MDMA en Guðmundur Ingi er hér sakfelldur fyrir innflutning á um 3.850 töflum af efninu.
2. M.
Sannað er með framburði þeirra M og Sveins Inga, sem studdur er skýrslu Inga Þórs, að M tók þátt í því að flytja inn MDMA-töflurnar með því að leggja fram andvirði 100.000 króna í hollenskum gyllinum til innflutningsins, eins og lýst hefur verið hér að framan og greinir í 4. tl I. kafla ákærunnar. Telja verður að hann hafi, þegar hann lagði fé sitt í fyrirtækið, ekki haft í huga að selja nema hluta af töflunum, en framburður hans verður þó ekki skilinn öðru vísi en svo að hann hafi einnig ætlað hluta af þeim til sölu.
3. MÍ.
Sannað er með játningu ákærða MÍ, sem studd er skýrslu Sveins Inga, að MÍ veitti Sveini Inga liðsinni í verki við innflutning á margnenfndum MDMA-töflum með því að skipta fyrir hann í banka um 300.000 krónum í hollensk gyllini þótt hann vissi að féð ætti að nota til þess að flytja inn fíkniefni, eins og lýst hefur verið hér að framan og nánar greinir í 5. tl. I. kafla ákærunnar. Ósannað er gegn neitun hans að hann hafi vitað um magn eða gerð efnanna þegar þetta gerðist. Þá er á sama hátt sannað að ákærði liðsinnti Sveini Inga við innflutninginn með því að aka honum og fíkniefnasendingunni í bíl sínum frá Faxafeni að Bíldshöfða eins og rakið hefur verið. Skýrsla Sveins Inga fyrir dómi, um það hvenær ákærði komst að því hvers konar fíkniefni væru í sendingunni sem hann var að flytja með honum, er ekki ótvíræð og ákærði segist sjálfur ekki hafa vitað það fyrr en eftir að Sveinn Ingi hafði sett pakkana í bíl hans. Þykir ekki óhætt að telja það sannað að MÍ hafi fengið vitneskju um það fyrr en þá.
Telst brot ákærðu Guðmundar Inga, Sveins Inga og Inga Þórs vera sérstaklega saknæmt vegna magns og tegundar efnanna og varðar við 173. gr. a í almennum hegningarlögum 19, 1940, sbr. lög nr. 64, 1974, en brot ákærðu Ms Þórs og Más Ívars telst varða við 2. gr., sbr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65, 1974, sbr. lög nr. 60, 1980, nr. 75, 1982, nr. 13, 1985 og við 2., sbr. 10. gr. rgj. um sölu og meðferð ávana- og fíkniefna nr. 16, 1986, sbr. rgj. nr. 177, 1986, allt sbr. 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga að því er MÍ varðar.
Skilja má 1. tl. I. kafla ákærunnar svo að Guðmundur Ingi sé þar saksóttur fyrir það sérstaklega að taka við sendingunni úr hendi Jóns Ágústs, að afhenda Sveini Inga um 1.850 töflur í Eddufelli og að Sveinn Ingi sé að sínu leyti saksóttur sérstaklega í 2. og 3. tl. I. kafla ákærunnar fyrir það að taka við þessum töflum úr hendi Guðmundar Inga. Þá má og skilja 2. og 3. tl. þessa kafla ákærunnar svo að þar séu þeir Sveinn Ingi og Ingi Þór sérstaklega saksóttir fyrir það að skipta með sér sínum hluta af töflunum. Loks má skilja 4. tl. kaflans svo að M sé þar sérstaklega saksóttur fyrir það að taka við sínum hluta af töflunum úr hendi Sveins Inga, og svo framvegis. Það athugast að öll þessi verk hljóta að teljast hluti af þætti þeirra og samverkan í innflutningnum en ekki sjálfstæð brot.
B. Ákærðu Guðmundur Ingi, Jón Ágúst og Þórir: Viðtaka, sala og afhending á MDMA-töflum hér á landi, sbr 1. tl. I. kafla og 1. og 2. tl II. kafla ákæru.
Guðmundur Ingi hefur sagt frá því að þeir Jón Ágúst hefðu verið búnir að ákveða að Jón Ágúst sæi um að dreifa þeim hluta af töflunum sem varð eftir þegar þeir Sveinn Ingi og Ingi Þór væru búnir að fá sinn hluta. Hafi hann því leiðbeint Sveini Inga, eins og fyrr segir, um það hvernig hann ætti að ná fundi Jóns Ágústs. Hafi Sveinn Ingi farið með alla sendinguna til Jóns Ágústs sem svo hafi fært honum hana heim um kvöldið. Þar hafi töflunum verið skipt. Hefðu þeir verið búnir að tala við Þóri um að hann sæi um að selja fyrir þá og ákváðu þeir Jón Ágúst að hann tæki við 1000 töflum og samþykkti Þórir það. Hafi Jón Ágúst haft með sér töflurnar og látið Þóri hafa helminginn, líklega þetta sama kvöld, en hinn helminginn af töflunum hafi Jón Ágúst tekið í geymslu heima hjá sér. Hafi þeir Jón Ágúst átt þær töflur saman. Kveðst ákærði hafa litið svo á að Þórir ætti hinar töflurnar eftir að hann fékk þær í hendur og að hann ætti að standa sér skil á 1.500.000 krónum fyrir þær. Ákærði hefur annars verið spurður rækilega út í það hvort Þórir hafi tekið að sér að selja þetta í umboðssölu eða fyrir eigin reikning og hafa svör hans verið lítið eitt loðin um það, sbr. einnig hér á eftir. Hann segir að þegar hringt hafi verið í sig til þess að falast eftir töflum, sem töluvert hafi verið um, hafi hann látið Þóri vita af því og Þórir séð um söluna. Segist hann ekki hafa skipt sér af því hverjum hann seldi. Segir hann Þóri hafa fengið töflurnar á 1500 krónur hverja og ráðið því hvaða verði hann seldi þær á. Hann hafi þó verið búinn að tala um það við hann að selja þær ekki á lægra verði en 2000 krónur hverja, enda ætluðu þeir sér einnig að selja töflur. Ákærði kannast við að hafa tekið til baka nokkuð af töflum frá Þóri þar sem salan hafi ekki gengið of vel og þá hina hafi vantað peninga. Segist hann hafa selt þessar töflur strák sem hann þekkti ekki. Ákærði kannast við það að hafa ásamt Jóni Ágústi selt ákærða A og Jóhanni nokkrum Björnssyni 500 töflur og eins hafi Jón Ágúst sagt sér að hann hefði látið þá fá 200 töflur til viðbótar. Hann hafi þó ekkert haft með það að gera. Að því er ákærða H varðar segist ákærði hafa vitað að Þórir hafi látið hann hafa 78 töflur. Hafi þetta gerst þannig að Þórir hafi komið með töflurnar heim til hans og skilið þær þar eftir til þess að H gæti sótt þær. Þá kveðst hann vita til þess að Jón Ágúst hafi látið H fá töflur, ef til vill í bíl fyrir utan veitingastofuna Kaffi Hafnarfjörð en hann viti ekki hversu margar töflur H fékk. Þeir Jón Ágúst og Þórir hafi algerlega séð um það. Að því er varðar ákærða Ólaf segir ákærði að Þórir hafi sagt sér að Ó hafi fengið hjá honum töflur en hann hafi ekki sagt hversu margar. Þá hafi Ó komið heim til hans, að því er hann minni, til þess að tala við Þóri sem hafi verið þar í samkvæmi. Þetta hafi verið einhvern tíma í desember, og hafi Ó þá sagt sér sjálfur að hann hefði fengið töflur hjá Þóri. Hann hafi þó ekki sagt hve margar en ákærði segist halda að Ó hafi skuldað Þóri 250.000 krónur fyrir töflur.
Jón Ágúst hefur skýrt frá því að þeir Guðmundur Ingi hefðu rekið saman fyrirtæki á árunum 1998 og 1999. Guðmundur Ingi hefði farið af landi brott með peninga fyrirtækisins en skilið hann eftir með skuldir og ábyrgðir. Seinna hefði Guðmundur Ingi komið og beðist fyrirgefningar á þessu brotthlaupi og gefið til kynna að hann myndi greiða skuldina með hagnaðinum af fíkniefnasölu. Hann kveðst svo hafa vitað að Guðmundur Ingi fór til Amsterdam að kaupa e-töflur. Hafi Guðmundur Ingi hringt fullur í hann að utan og ruglað eitthvað í símann. Þegar hann kom að utan hafi hann hringt frá Keflavíkurflugvelli og beðið um að vera sóttur. Hafi þeir Þórir farið þangað á bíl Þóris og sótt hann. Hafi hann talað um að hann hefði komist yfir góðar töflur þar ytra og að dvölin hafi verið skemmtileg. Síðan hafi það gerst að morgni dags að Guðmundur Ingi hafi hringt og sagt að töflurnar væru komnar til landsins og að ákærði þyrfti að taka við pakkanum úr hendi Sveins Inga eða Inga Þórs. Kveðst ákærði hafa verið óviðbúinn þessu þar sem Guðmundur Ingi hefði ekki nefnt það áður að hann ætti að taka á móti pakkanum eða þá að hann tæki að sér að geyma töflurnar. Hann hefði þó verið búinn að segja sér að sendingin kæmi með DHL-flutningafyrirtækinu. Hafi Guðmundur sagt sér að fara á stað sem hann tiltók, rétt hjá vinnustað ákærða. Yrði komið með sendinguna í bíl og lýsti hann þeim bíl. Kveðst hann svo hafa farið og sótt tvo stóra kassa í bílinn til þeirra hinna og sett í jeppabíl sem hann hafði komið á í vinnuna. Eftir að vinnu lauk hafi hann ekið með kassana heim til Guðmundar Inga þar sem þeir voru opnaðir. Út úr þeim hafi komið úlpur og alls konar dót, þar á meðal kassettutæki sem Guðmundur Ingi hafi skrúfað í sundur. Út úr tækinu hafi komið þrír stórir hlunkar, vafðir inn í límband. Hann hafi opnað einn hlunkinn og úr honum hafi komið tveir pokar og muni hafa verið 1000 e-töflur í hvorum. Hafi hann beðið sig að fara með annan pokann til Þóris en geyma hinn heima hjá sér. Kveðst ákærði hafa þverneitað í fyrstu en svo dregist á það enda hafi Guðmundur Ingi bent honum á það að lögreglan þekkti hann ekki. Kveðst ákærði hafa farið heim til sín með pokana og þá hitt Þóri fyrir utan hjá sér þar sem Þórir tók við pokanum. Hafi Guðmundur Ingi komið þessu í kring og hafi hann sjálfur ekkert haft saman við Þóri að sælda. Hinn pokann kveðst hann hafa geymt úti í bílskúr. Daginn eftir kveðst hann hafa talað við Guðmund Inga og sagt að hann vildi losna við þetta en Guðmundur Ingi getað talað hann til og hann dregist inn á að geyma töflurnar áfram og afhenda þær í skömmtum. Þá hefur ákærði sagt að Guðmundur Ingi hafi gefið í skyn að hann fengi ekki skuldina greidda nema hann yrði samvinnuþýður um þetta. Guðmundur Ingi hafi samið við A um að hann fengi 500 töflur og hafi hann stefnt sér með þær niður í Kringlu. Hann kveðst þó ekki hafa þorað að flytja þær í bílnum sínum þangað heldur farið þangað fyrst og hitt Guðmund Inga og A þar sem þeir biðu í bíl. Hafi Guðmundur Ingi rekið A yfir í bílinn til ákærða og þeir farið heim og sótt þessar 500 töflur. Næst hafi það gerst á föstudegi að Guðmundur Ingi hafi hringt og beðið sig að koma með 100 töflur út í Mjódd. Þar hafi Guðmundur Ingi verið í bíl sínum og með honum H, sem ákærði hafði ekki hitt áður. Hafi Guðmundur Ingi ekið þeim suður í Hafnarfjörð að veitingastað sem heiti Kaffi Fjörður þar sem ákærði segist hafa látið Guðmund Inga hafa töflurnar í bílnum. Síðar um kvöldið kveðst hann hafa orðið þess áskynja að H hafði fengið eitthvað af þessum töflum hjá Guðmundi Inga, þó ekki allar, að því er hann heldur. Næst hafi það verið öðru hvoru megin við jól að Guðmundur Ingi hringdi aftur og bað um að hann kæmi með 100 töflur heim til hans en hann viti ekki hvað hafi orðið af þeim töflum. Enn hafi það gerst sunnudag eða mánudag eftir jólin að Guðmundur Ingi hringdi og bað um að fá 100 töflur til viðbótar og kveðst ákærði hafa farið með þær til hans. Guðmundur Ingi hafi farið með hann í bíltúr og ákærði látið hann hafa töflurnar í bílnum. Hafi þá verið eftir 200 töflur. Þegar hann frétti að Þórir hefði verið handtekinn hefði hann hitt Guðmund Inga og þeir ekið suður í Hafnarfjörð á sama stað og áður. Hafi hann spurt hvað hann ætti að gera við þessar töflur og Guðmundur Ingi þá sagt að hann skyldi láta A hafa þær strax. Kveðst ákærði þá hafa farið heim, sótt töflurnar og skotið þeim til A sem hafi verið í “Pizza 67” í Nethyl. Ákærði segir að með A hafi einatt verið bróðir kærustu hans, Jóhann Einar Björnsson, og kveður hann sig hafa grunað að sá piltur væri í þessu með A. Ákærði kveðst hafa gert sér grein fyrir því að þessar töflur allar, sem hann tók að sér að geyma og afhenti, yrðu hafðar til sölu. Hann kveðst ekkert hafa átt í töflunum og Guðmundur Ingi átt þær allar. Honum hafi ekki gengið annað til en það að Guðmundur Ingi gæti greitt honum skuldina, sem hafi verið 400.000 krónur. Hefði hann ekki fengið greitt nema lítinn hluta af henni. Þá segist ákærði aldrei hafa komið nálægt neinu uppgjöri vegna fíkniefnasölunnar og aldrei flutt peninga á milli manna. Hann kannast hins vegar við að H hafi haft samband og beðið um að fá að skipta töflum yfir í aðra tegund en þegar þetta hafi verið borið undir Guðmund Inga hafi hann neitað því og kveðst ákærði hafa tilkynnt H það.
Þórir hefur skýrt frá því að Guðmundur Ingi eða Jón Ágúst, eða þeir báðir, jafnvel, hafi beðið sig um að taka á móti MDMA-töflum. Þá kannast hann við að hafa farið út á Keflavíkurflugvöll að taka á móti Guðmundi Inga þegar hann kom úr ferðinni eftir að hann keypti töflurnar. Á leiðinni í bæinn hafi hann talað um kaupin á töflunum og einnig sagt að Sveinn Ingi og Ingi Þór væru með honum í þessu fyrirtæki. Ekki er ákærði viss hvort Guðmundur hafi talað um hversu margar töflur hann hefði keypt en segir þó aðspurður að hann geti hafa sagt að þær væru 7000. Síðan hafi það gerst sama daginn og sendingin kom til landsins að þeir hafi hringt í sig, fyrst Guðmundur Ingi og svo Jón Ágúst, og beðið sig um að taka við töflunum sem hefðu verið að koma. Kveðst hann hafa farið heim til Jóns Ágústs og tekið við 1000 töflum í bílskúrnum hjá honum. Hafi þetta verið 10 pokar og 100 töflur í hverjum og allt í stærri poka. Fyrst í stað hafi aðeins verið rætt um að hann geymdi þessar töflur en síðan hafi hann tekið að sér að dreifa þeim eftir nánari fyrirmælum Guðmundar Inga. Hann kveðst ekki hafa átt neitt í þeim og hafa gengið út frá því að Guðmundur Ingi eða Jón Ágúst ætti þær. Ákærði kannast við að hafa tekið við greiðslum frá þeim sem hann afhenti töflur en hafa skilað öllu fénu til Guðmundar Inga nema 30.000 krónum sem hann fékk að halda eftir af greiðslu Andra Reyrs, sbr. hér á eftir. Ákærði kannast við að hafa afhent manni sem kallaður sé “Ó rotta” af þessum e-töflum og heldur að þær hafi verið 100. Þá kveðst hann hafa látið ákærða Andra Reyr fá 100 eða 200 töflur, ákærða H 100 töflur, pilt sem kallaður sé Ragnar “junior”, 30 töflur, að hann heldur, og hafi það verið í viðurvist Guðmundar Inga, enn fremur Aðalstein nokkurn, 30 töflur. Auk þessa alls hafi hann selt öðrum mönnum, ónafngreindum, nokkra tugi taflna. Hann segist hafa skilað 200 - 300 töflum til Guðmundar Inga og kveðst svo hafa vísað lögreglunni á 401 töflu í bílskúrnum hjá sér. Annars kemur fram hjá honum að einhverju geti skeikað um magnið sem hann afhenti öðrum og frásögn hans um söluverð þeirra er mjög svo óljós.
Meðal gagnanna í málinu eru margar upptökur af símtölum Guðmundar Inga við Þóri, Jón Ágúst og aðra, sem lögreglan hleraði 16. til 28. desember sl. vegna málsins. Hafa hlutar af þessum upptökum verið leiknir fyrir Guðmund Inga. Þegar horft er fram hjá nokkrum galgopa í tali manna, einkum Guðmundar Inga, verða þessar upptökur ekki skildar öðru vísi en svo að hann sé að vísa kaupendum á Þóri, að hann sé að skipta sér af því hvernig Þórir afhendir “töflur”, “ellur”eða aðra ónefnda vöru, að hann sé að spyrja um eða reka á eftir því að Þórir innheimti skuldir hjá öðrum, þar á meðal meðákærðum, að hann sé að segja Andra Reyr að hann eigi að borga Þóri, að hann sé að reka fyrirtæki sem hann sé forstjóri fyrir, að hann láti aðra selja fyrir sig, að hann skipi meðákærða H fyrir um hvernig hann eigi að afhenda sér peninga, að hann ákveði, hvort H megi skipta á töflum við Jón Ágúst og svo framvegis. Hann hefur verið mjög rækilega spurður út í það sem kemur fram í þessum upptökum. Að lokum hefur hann nánast viðurkennt að hafa átt töflurnar sem Þórir fékk.
Niðurstaða.
1. Jón Ágúst.
Skilja verður 1. tl. II. kafla ákærunnar svo að þar sé Jón Ágúst saksóttur fyrir afhendingu og sölu fíkniefna hérlendis:
-með því að taka við um 3.850 MDMA töflum úr hendi Sveins Inga skammt frá vinnustað sínum við Bíldshöfða í Reykjavík,
-með því að taka við um 2.000 MDMA töflum frá Guðmundi Inga,
-með því að afhenda Þóri um 1.100 MDMA-töflur, A um 700 töflur og H um 100 töflur, þótt hann vissi að töflurnar væru ætlaðar til sölu.
Sannað er með skýrslu ákærða Sveins Inga, sbr. A - kafla hér á undan, svo og með skýrslum Guðmundar Inga og Jóns Ágústs að Jón Ágúst tók samkvæmt fyrirmælum Guðmundar Inga við pökkum úr hendi Sveins Inga, sem hann vissi að í voru MDMA-töflur, og fór með heim til hans. Hins vegar er það ósannað gegn neitun hans að hann hafi þá vitað hversu margar töflurnar voru. Þá er sannað með skýrslum Jóns Ágústs og Guðmundar Inga að Jón Ágúst tók við um 2000 MDMA-töflum af Guðmundi Inga sem í pökkunum höfðu verið og tók að sér að geyma af þeim um 1.000 töflur. Þá er enn fremur sannað með skýrslu Jóns Ágústs og Þóris, sem styðjast við annað í málinu, að Jón Ágúst afhenti Þóri MDMA-töflur sem hann vissi að ætlaðar voru til sölu. Telja verður ósannað, sbr. hér á eftir, að töflurnar hafi verið fleiri en um 1.000 talsins. Þá er sannað með játningu Jóns Ágústs, sem studd er skýrslu Guðmundar Inga, sbr. hér að framan, og studd skýrslu A, sbr. F-kafla hér á eftir, að Jón Ágúst afhenti A MDMA-töflur sem hann vissi að voru ætlaðar til sölu. Í fyrra skiptið var það að ráði Guðmundar Inga, en vegna frásagnar A verða töflurnar ekki taldar hafa verið fleiri en 488, og í síðara skiptið afhenti hann A 200 töflur. Þá þykir vera sannað með skýrslum Jóns Ágústs og H, sbr. G-kafla hér á eftir, að Jón Ágúst fór með og afhenti í bíl í Hafnarfirði um 100 MDMA-töflur, annað hvort H sjálfum eða þá Guðmundi Inga, sem Jón Ágúst hlaut að vita að afhenti þær H eða öðrum.
2. Þórir.
Skilja verður 2. tl. II. kafla ákærunnar svo að Þórir sé þar saksóttur fyrir afhendingu og sölu fíkniefna hérlendis:
-með því að taka við af Jóni Ágústi um 1.100 MDMA-töflum til sölu í ágóðaskyni,
-með því að afhenda H um 100 MDMA-töflur, Ó um 100 töflur og Andra Reyr um 100 töflur,
-með því að selja ónafngreindum mönnum um 100 töflur.
Sannað er með játningu Þóris og skýrslum þeirra Guðmundar Inga og Jóns Ágústs að Þórir tók við MDMA-töflum úr hendi Jóns Ágústs og tók að sér að dreifa þeim til annarra í ágóðaskyni. Er gegn neitun Þóris ósannað að hann hafi tekið við um 1.100 töflum eins og í ákærunni segir og verður því slegið föstu að þær hafi ekki verið fleiri en um 1.000 talsins. Þá er sannað með játningu Þóris svo og skýrslu H, í G-kafla hér á eftir, að hann afhenti H, eða skildi eftir handa honum hjá Guðmundi Inga, MDMA-töflur. Með hliðsjón af frásögn H þykir ekki vera alveg óhætt að telja að töflurnar hafi verið fleiri en 78 talsins. Þá er sannað með játningu Þóris og því sem rakið er og ályktað hér síðar í I-kafla um þátt Ó, að hann afhenti Ó um 100 töflur. Jafnframt er það sannað með játningu Þóris og því sem rakið er og ályktað hér síðar í H-kafla um þátt Andra Reyrs, að hann afhenti Andra Reyr um 200 töflur og loks með játningu Þóris að hann seldi ónafngreindum mönnum um 100 töflur. Í málinu eru vísbendingar sem þykja styðja þá staðhæfingu ákærða að hann hafi ekki fengið nema 30.000 krónur í sinn hlut og verður á því byggt.
3. Guðmundur Ingi.
Skilja verður 1. tl. I. kafla ákærunnar svo að Guðmundur Ingi Þórir sé þar saksóttur fyrir það að selja og dreifa fíkniefnum hérlendis:
-með því að afhenda Jóni Ágústi um 2.000 MDMA-töflur og láta hann afhenda Þóri um 1.100 töflur,
-með því að láta þá Jón Ágúst og Þóri selja A samtals um 700 töflur, H um 200 töflur, Ó um 100 töflur og Andra Reyr um 200 töflur.
Sannað er með játningu Guðmundar Inga og skýrslum Jóns Ágústs að Guðmundur Ingi afhenti Jóni Ágústi um 2000 MDMA-töflur í því skyni að þær yrðu afhentar öðrum mönnum, þar á meðal meðákærða Þóri um 1000 töflur. Þeir Jón Ágúst og Þórir hafa eindregið borið það að Guðmundur Ingi hafi stjórnað allri dreifingu á MDMA-töflunum sem þeir fengu í hendur og að hann hafi átt þær. Að því er varðar þær 1000 töflur eða svo, sem Jón Ágúst hafði í vörslum sínum og dreifði af, hefur Guðmundur Ingi játað að hafa átt þær ásamt Jóni Ágústi og selt af þeim. Þá eru í málinu, eins og áður er rakið, margar upptökur af símtölum Guðmundar Inga við meðákærðu og aðra. Hafa skýringar hans á þeim ekki verið trúverðugar og verður að telja að þar komi fram ótvíræðar vísbendingar um það að hann hafi einnig stýrt einnig dreifingu taflnanna sem Þórir fékk í hendur, þar með til H, Ó og Andra Reyrs, eins og að ofan segir og einnig er rakið og ályktað um hér á eftir, í köflum G til I. Þegar svo haft er í huga að ákærði nánast viðurkenndi, þegar saumað var að honum fyrir dómi, að hafa átt töflurnar sem Þórir fékk, telst það vera hafið yfir allan skynsamlegan vafa að hann hafi mælt fyrir um það að A, H, Andra Reyr og Ó voru afhentar MDMA-töflur til frekari sölu eins og rakið hefur verið. Gegn neitun hans verður þó ekki talið sannað að hann hafi beinlínis mælt fyrir um það að A voru í seinna skiptið seldar 200 MDMA-töflur, sbr. einnig F-kafla hér á eftir.
Brot Guðmundar Inga, Jóns Ágústs og Þóris teljast vera sérstaklega saknæm vegna magns og tegundar efnanna og varða við 173. gr. a í almennum hegningarlögum 19, 1940, sbr. lög nr. 64, 1974.
C. Ákærði Sveinn Ingi: Sala og afhending á MDMA-töflum hér á landi, sbr. 2. tl. I. kafla ákæru.
Af því sem rakið var og ályktað í A-kafla hér að framan sést að um 875 MDMA-töflur af því sem flutt var inn komu í hlut Sveins Inga. Hann hefur sagt að hann hafi sjálfur neytt um 10 taflna af þeim en selt afganginn. Telst hann þannig vera sannur að því að hafa selt ónafngreindum mönnum um 865 MDMA-töflur. Telst þessi dreifing efnanna vera sérstaklega saknæm vegna magns og tegundar þeirra og því varða við 173. gr. a í almennum hegningarlögum 19, 1940, sbr. lög nr. 64, 1974.
D: Ákærði Ingi Þór: Sala og afhending á MDMA-töflum hér á landi, sbr. 3. tl. I. kafla ákæru.
Af því sem rakið var og ályktað í A-kafla hér að framan sést að um 875 MDMA-töflur af því sem flutt var inn komu í hlut ákærða Inga Þórs. Hann hefur sagt að hann hafi sjálfur neytt um 100 taflna af efninu en selt afganginn. Telst hann þannig vera sannur að því að hafa selt ónafngreindum mönnum um 775 MDMA-töflur. Telst þessi dreifing efnanna vera sérstaklega saknæm vegna magns og tegundar þeirra og því varða við 173. gr. a í almennum hegningarlögum 19, 1940, sbr. lög nr. 64, 1974.
E. Ákærði M : Sala og afhending á MDMA-töflum hér á landi., sbr. 4. tl. I. kafla ákæru.
M hefur viðurkennt, eins og fram er komið í A-kafla hér að framan, að hafa fengið í sinn hlut 100 MDMA-töflur af því sem flutt var inn. Hann hefur viðurkennt að hafa selt um 60 töflur af því og telst með því vera orðinn sannur að broti gegn 2. gr., sbr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65, 1974, sbr. lög nr. 60, 1980, nr. 75, 1982, nr. 13, 1985 og við 2., sbr. 10. gr. rgj. um sölu og meðferð ávana- og fíkniefna nr. 16, 1986, sbr. rgj. nr. 177, 1986.
F. Ákærði A: Kaup og sala á MDMA-töflum hér á landi, sbr. 3. tl. II. kafla ákæru.
A hefur skýrt frá því að hann hafi farið á fund ákærða Guðmundar Inga ásamt vini sínum, Jóhanni Einari að nafni, eftir að margnefnd sending var komin til landsins og þeir falað af honum 500 MDMA-töflur, fyrir 1000 krónur hverja. Nokkrum dögum síðar kveðst ákærði hafa farið til Guðmundar Inga sem hafi hringt í Jón Ágúst og mælt sér mót við hann í Kringlunni. Þeir hafi hist þar allir þrír og kveðst ákærði hafa farið með Jóni Ágústi upp í Mjódd og beðið þar meðan Jón Ágúst fór og sótti MDMA-töflur sem hann svo afhenti ákærða. Hafi töflurnar reynst vera 488 talsins. Þá segir ákærði að daginn sem Guðmundur Ingi eða Þórir var handtekinn hafi Jón Ágúst hringt í sig og spurt hvort hann vildi ekki fá 200 töflur í viðbót á sama verði því hann vildi ekki liggja með neinar töflur lengur. Kveðst ákærði hafa samþykkt það og hitt Jón Ágúst uppi í Nethyl og tekið þar við þessum 200 töflum. Segist ákærði ekki hafa rætt um þessi kaup við Guðmund Inga. Ákærði segir að þeir Jóhann Einar hafi skipt öllum þessum töflum til helminga og kannast ákærði aðeins við það að hafa selt þær töflur sem komu í hans hlut. Hann kveðst sjálfur hafa borgað 150.000 krónur upp í kaupverð þessara taflna en segist hafa haft um 600.000 krónur upp úr því að selja þær.
Fyrrnefndur Jóhann Einar hefur ekki náðst fyrir dóm en systir hans og sambýliskona ákærða, Anna Björg Björnsdóttir, hefur komið fyrir dóminn og sagt það eftir ákærða að Jóhann Einar, bróðir hennar, ætti helminginn af töflunum á móti ákærða. Þá hefur Kristján Albertsson, sem er kunnugur ákærðu Guðmundi Inga og A, borið það að þeir hafi báðir sagt honum að Jóhann Einar væri með honum í kaupunum og að þeir skiptu þessu með sér til helminga.
Niðurstaða.
Sannað er með játningu A og skýrslum þeirra Guðmundar Inga og Jóhanns Ágústs að ákærði keypti af þeim 688 MDMA-töflur sem ætlaðar voru til sölu. Þá er enn fremur sannað með játningu ákærða að hann seldi 344 MDMA-töflur sem hann segir að komið hafi í hans hlut. Gegn neitun hans og með hliðsjón af því sem Jóhann Ágúst, sbr. B-kafla hér að ofan, og vitnin tvö hafa borið um þátt Jóhanns Einars Björnssonar, þykir vera ósannað að hann hafi selt meira en þær 344 MDMA-töflur sem hann hefur viðurkennt að hafa selt.
Brot ákærða telst vera sérstaklega saknæmt vegna magns og tegundar efnanna og varða við 173. gr. a í almennum hegningarlögum 19, 1940, sbr. lög nr. 64, 1974.
G. Ákærði H: Kaup og sala á MDMA-töflum svo og varsla á lýsergíði og amfetamíni hér á landi, sbr. 4. tl. II. kafla ákæru.
H hefur skýrt frá því að hann hafi sett sig í samband við Guðmund Inga og falað af honum 100 MDMA-töflur. Þeir hafi hist og kveðst hann hafa sest í bílinn hjá honum og Guðmundur Ingi ekið upp í Mjódd þar sem þeir hittu Jón Ágúst fyrir utan Íslandsbanka. Hafi Jón Ágúst komið í bílinn til þeirra og þeir allir farið suður í Hafnarfjörð. Við kaffistofuna Kaffi Hafnarfjörð hafi þeir numið staðar og Guðmundur Ingi farið þar inn en á meðan hafi Jón Ágúst afhent sér 90 - 100 MDMA-töflur. Jón Ágúst hafi einnig sagt að ákærði skyldi snúa sér að honum með frekari viðskipti þar sem þeir ættu þetta saman, hann og Guðmundur Ingi. Eftir þetta hafi honum verið ekið heim. H segist hafa notað mikið af þessum töflum sjálfur en eitthvað smávegis hafi hann selt til þess að hafa fyrir mat. Hann kannast við að hafa reynt að fá skipt á töflum og kveðst hann þá hafa hringt í Jón Ágúst út af því. Ákærði kveðst svo í annað sinn hafa hringt í Guðmund Inga og beðið um 100 töflur. Muni Guðmundur Ingi þá hafa haft samband við Þóri sem hafi útvegað töflurnar. Muni það hafa gerst þannig að Þórir hafi farið með töflurnar heim til Guðmundar Inga þar sem hann mátti ekki vera að því að færa ákærða þær. Kveðst hann því hafa farið heim til Guðmundar Inga og tekið töflurnar þar. Kveðst hann hafa talið töflurnar en þær hafi ekki reynst vera nema 78 talsins. Hann hafi notað mest af þessum töflum sjálfur, enda hafi hann verið í mikilli neyslu og komist upp í 17 töflur á dag, en þá hafi hann líka verið lagður inn á spítala.
Ákærði viðurkennir einnig að hafa verið með í vörslum sínum 15 skammta af LSD og 0,83 g af amfetamíni og kveðst hafa ætlað þetta til eigin neyslu.
Niðurstaða.
H hefur játað að hafa keypt og selt MDMA-töflur og haft í vörslum sínum fyrrgreint lýsergíð og amfetamín. Framburði hans um það að töflurnar hafi í allt ekki verið verið fleiri en 178 og að hann hafi aðeins selt lítinn hluta þeirra hefur ekki verið hnekkt og er hann því sýknaður af ákærunni að því leyti sem hún fer í bága við það. Hann er þannig orðinn sannur að broti gegn 2. gr., sbr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65, 1974, sbr. lög nr. 60, 1980, nr. 75, 1982, nr. 13, 1985 og við 2., sbr. 10. gr. rgj. um sölu og meðferð ávana- og fíkniefna nr. 16, 1986, sbr. rgj. nr. 177, 1986.
H. Ákærði Andri Reyr: Kaup og sala á MDMA-töflum hér á landi, sbr. 5. tl. II. kafla ákæru.
Andri Reyr hefur frá upphafi neitað því að hafa tekið við 200 MDMA-töflum af Guðmundi Inga eða selt slíkar töflur. Hann kannast hins vegar við að hafa fengið eina eða tvær slíkar töflur hjá ákærða Þóri og tvö eða þrjú grömm af amfetamíni. Hafi þetta verið í október eða nóvember og hafi hann greitt fyrir þetta fáein þúsund. Hafi taflan kostað 3.500 krónur og amfetamínið 4 - 5.000 krónur hvert gramm. Kveðst hann hafa greitt megnið af þessu, líklega 10 - 12.000 og því aðeins skuldað Þóri 3 - 5.000 krónur. Hann segir þá hafa verið byrjaða að rukka sig um skuldina og hafi hann ráðgert að selja leikjatölvuna sína til þess að geta borgað þá skuld.
Meðal gagna málsins er upptaka á símtali milli Þóris og Guðmundar Inga 18. desember sl. Kemur þar fram að Þórir sé að fara með 200 “til Andra”. Þá er einnig hljóðritun af símtali sömu manna 20. desember þar sem Guðmundur Ingi er að reka á eftir því að Þórir innheimti hjá “Andra” sem hafi aðeins selt fyrir 30.000. Síðar þennan dag er annað símtal milli þeirra þar sem á góma ber að “Andri” sé að selja. Hinn 22. desember var hljóðritað samtal þeirra og kemur þar fram hjá Guðmundi Inga að “Andri” sé búinn að selja helling og að það verði að rukka hann. Loks er að geta símtals Guðmundar Inga og Andra Reyrs sjálfs 28. desember. Þar kemur fram að Þórir hafi verið tekinn fastur og segir Guðmundur Ingi í tilefni af því við ákærða: “Þið skuluð passa ykkur.” Jafnframt er hann að knýja á um greiðslu en ákærði segir að Þórir hafi verið búinn að veita honum einhvern frest fram yfir áramót og að hann gæti fengið að skipta greiðslunni og virðist Guðmundur Ingi samþykkja þá tilhögun en ekki lengur en til annars eða þriðja janúar, að því er skilja má. Þá tala þeir um að ákærði ætli sér eða þurfi að losa sig við eitthvað sem Guðmundur Ingi segir að ætti að vera hægt um áramótin. Hefur ákærði hlustað á þessi símtöl og sagt að hann hafi enga skýringu á því sem Guðmundi Inga og Þóri fari á milli enda sé það honum óviðkomandi. Um skuldina í síðasta samtalinu ítrekar hann að þar hafi verið um að ræða þessa tilteknu skuld, 3- 5.000 krónur. Eins og fram kom í B-kafla hér að framan, kveðst Þórir hafa afhent ákærða 100 eða 200 MDMA-töflur. Guðmundur Ingi hefur verið spurður út í símtölin sem vikið var að hér að framan. Segir hann þau snúast um skuld ákærða vegna kaupa á e-töflum sem hafi numið hundruðum þúsunda króna. Sjálfur hafi hann ekki selt ákærða nein fíkniefni og hafi hann alla vitneskju sína frá Þóri um kaup Andra Reyrs á e-töflum og skuld vegna þeirra.
Niðurstaða.
Andri Reyr neitar algerlega sök að því er varðar sakarefnið í þessu máli. Aftur á móti hefur Þórir borið það að hafa látið hann fá 100 - 200 töflur. Samtöl þeirra Guðmundar Inga og Þóris um ákærða og samtal ákærða og Guðmundar Inga þykja veita óræka vísbendingu um það að hann hafi tekið við til sölu og keypt MDMA-töflur sem hann fékk hjá Þóri. Þá þykir það sem ákærði segir um fjárhæð skuldarinnar og annað því tengt ekki vera trúverðugt. Þykir því ekki vera varhugavert að telja sannað að ákærði hafi tekið við og ætlað til sölu 100 MDMA-töflur hjá Þóri en ósannað þykir að töflurnar hafi verið fleiri. Enda þótt ráða megi af símtölunum að ákærði hafi selt MDMA-töflur er þess þó að gæta að ekki hafa fengist vitni að því og öðrum sönnunargögnum er ekki til að dreifa um það. Þykir því ekki vera unnt að telja það sannað og ber að sýkna ákærða af ákærunni að því leyti til. Hefur ákærði orðið sannur að broti gegn 2. gr., sbr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65, 1974, sbr. lög nr. 60, 1980, nr. 75, 1982, nr. 13, 1985 og við 2., sbr. 10. gr. rgj. um sölu og meðferð ávana- og fíkniefna nr. 16, 1986, sbr. rgj. nr. 177, 1986.
I. Ákærði Ó: Kaup og sala á MDMA-töflum svo og varsla á amfetamíni hér á landi, sbr. 6. tl. II. kafla ákæru .
Ó hefur játað að hafa haft í vörslum sínum 2,67 g af amfetamíni sem fundust þegar við leit hjá honum 31. janúar sl. Hann hefur hins vegar neitað því frá upphafi að hafa keypt MDMA-töflur hjá þeim Guðmundi og Þóri. Kveðst hann ekki þekkja Þóri og ekki muna eftir Guðmundi Inga nema úr barnaskóla. Eins og fram kemur í B-kafla hér að framan hefur ákærði Þórir borið það að hann hafi látið mann sem kallaður sé “Ó rotta” fá 100 MDMA-töflur. Kveðst hann hafa farið með töflurnar heim til “Ó” þessa og afhent honum þær þar utan dyra. Aftur á móti segir hann að “Ó” hafi ekkert borgað fyrir þær. Þórir var látinn skoða myndir úr safni lögreglunnar 1. febrúar sl. meðan mál þetta var til rannsóknar þar. Bar hann þar kennsl á ákærða eftir mynd sem var á spjaldi með myndum af átta karlmönnum sem virðast vera á svipuðu reki og Ó. Hefur Þórir staðfest þessa myndbendingu fyrir dóminum.
Eins og fram kemur í B-kafla hér að framan hefur Guðmundur Ingi það eftir Þóri að ákærði hafi fengið hjá honum MDMA-töflur en ekki hversu mikið. Þá segir hann Ó hafa komið heim til hans, að því er hann minni, til þess að tala við Þóri sem hafi verið þar í samkvæmi. Þetta hafi verið einhvern tíma í desember, og hafi Ó þá sagt sér það sjálfur að hann hefði fengið töflur hjá Þóri. Hann hafi þó ekki sagt hve mikið en Guðmundur Ingi segist halda að Ó hafi skuldað Þóri 250.000 krónur fyrir töflur. Kveðst Guðmundur Ingi hafa verið með Ó í skólabekk og hafi hann þá verið kallaður “Ó rotta”.
Ákærði kannast við að hafa verið kallaður “Ó rotta” í æsku. Meðal gagna málsins er skrá sem Landssíminn hefur gert yfir hringingar á milli farsíma ákærða og farsíma Þóris, 1. nóvember og 31. desember 1999. Kemur þar fram að símar þessir tengdust eða reynt var að tengja þá 168 sinnum á tímabilinu, á báða vegu, en oftast úr númeri ákærða. Kveðst ákærði ekki geta skýrt þetta. Þá eru í málinu upptökur af nokkrum símtölum sem hleruð hafa verið á milli þeirra Þóris og Guðmundar Inga. Í símtali 17. desember er “Ó” nefndur á nafn og sagt að hann eigi ekki peninga til þess að borga þeim. Í símtali 20. desember spyr Guðmundur Ingi um “Ó” og gefur til kynna að hann skuldi peninga. Segist Þórir þar munu fara til hans um kvöldið eftir vinnu til þess að krefja hann um greiðslu, að því er ætla má. Í símtali sem hófst kl. 23.14, hinn 21. desember segist Þórir hafa verið að tala við “Ó rottu” og “Ó” sagst vera kominn með “lítinn pening” en sagst ætla að hringja þegar hann væri kominn með sextíu þúsund. Það athugast að samkvæmt lista Landsímans voru símanúmer ákærða og Þóris tengd kl. 23.09.36 þetta kvöld og að sambandið varaði í 153 sekúndur. Í símtali 22. desember segir Guðmundur Ingi Þóri að rukka “Ó” en Þórir segir að “Ó” hafi ekki verið kominn með nóg daginn áður. Í símtali á Þorláksmessu biður Guðmundur Ingi Þóri um að hringja í Andra og “Ó” og segja þeim að borga, helst þrjátíu þúsund hvorum. Spyr Þórir auk þess hvort Guðmundur Ingi hafi hitt “Ó” í Kringlunni.
Niðurstaða.
Ó neitar því að þekkja nokkuð til Þóris og kveðst aðeins muna eftir Guðmundi Inga frá því í barnaskóla. Vegna hinna fjölmörgu símtala á milli farsíma Ó og Þóris og þess sem kemur fram í símtölum Þóris og Guðmundar Inga er þessari staðhæfingu Ó hafnað, svo og framburði hans að öðru leyti. Verður að telja sannað með framburði Þóris, sem studdur er framburði Guðmundar Inga, upplýsingum úr símhlerunum og fyrrgreindum upplýsingum Landssímans, að Ó hafi tekið við 100 MDMA-töflum frá Þóri í því skyni að selja þær. Enda þótt ráða megi af símtölunum að ákærði hafi verið að selja MDMA-töflur er þess að gæta að ekki hafa fundist vitni að því og öðrum sönnunargögnum um það er ekki til að dreifa. Þykir því ekki vera unnt að telja það sannað og ber að sýkna ákærða af ákærunni að því leyti. Með því að taka við töflunum og hafa í vörslum sínum 2,67 g af amfetamíni hefur ákærði orðið sannur að broti gegn 2. gr., sbr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65, 1974, sbr. lög nr. 60, 1980, nr. 75, 1982, nr. 13, 1985 og við 2., sbr. 10. gr. rgj. um sölu og meðferð ávana- og fíkniefna nr. 16, 1986, sbr. rgj. nr. 177, 1986.
Refsingar, viðurlög og sakarkostnaður.
Fyrir liggur að metýlendíóxýmetýlamfetamín er með hættulegustu fíkniefnum sem á markaðnum eru og að töflur þær sem málið snýst um voru fyllilega virkar að því leyti.
Ákærði Guðmundur Ingi var dæmdur í 30 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir fíknilagabrot 14. október 1998. Hann hefur rofið skilorð þess dóms og ber að dæma hann upp og gera ákærða refsingu í einu lagi. Brot hans er stórfellt og hann er sá sem skipulagði innflutninginn, keypti efnin í Amsterdam og sendi hingað til lands. Þá ber ekki síður að líta til þess að hann stjórnaði dreifingu á rúmum helmingi efnanna. Er refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 7 ár. Frá refsingunni ber að draga gæsluvarðhald sem ákærði hefur sætt frá 29. desember sl. til þessa, samtals 192 daga.
Ákærði Sveinn Ingi hefur ekki áður gerst sekur um refsilagabrot. Brot ákærða er stórfellt en hafa verður í huga að hann hefur játað brot sitt hreinskilnislega. Þykir refsing hans vera hæfilega ákveðin fangelsi í 5 ár. Frá refsingunni ber að draga gæsluvarðhald sem ákærði hefur sætt frá 29. desember til 2. janúar sl. og frá 7. janúar sl. til þessa, samtals 185 daga.
Ákærði Ingi Þór var dæmdur í 8 mánaða fangelsi fyrir ránsbrot 18. febrúar sl. og voru 6 mánuðir af refsingunni skilorðsbundnir. Refsing ákærða nú verður hegningarauki við þann dóm en jafnframt verður skilorðshluti hans dæmdur upp og ákærða gerð refsing í einu lagi. Brot ákærða er stórfellt en hafa verður í huga að hann hefur játað brot sitt hreinskilnislega. Þykir refsingin þannig vera hæfilega ákveðin fangelsi í 5 ár. Frá refsingunni ber að draga gæsluvarðhald sem ákærði hefur sætt frá 8. janúar sl. til þessa, samtals 180 daga.
Ákærði M var sektaður fyrir fíknilagabrot í fyrra sumar. Hann hefur einnig játað brot sitt hreinskilnislega. Þykir refsing hans vera hæfilega ákveðin fangelsi í 12 mánuði. Þar sem ákærði ætlaði töflurnar ekki allar til sölu í upphafi þykir mega ákveða að fresta framkvæmd 9 mánaða af refsingunni og ákveða að sá hluti hennar falli niður að liðnum 3 árum frá dómsuppsögu, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærði MÍ hefur ekki áður hlotið refsingu fyrir fíknilagabrot og hefur sakferill hans ekki þýðingu fyrir málið. Þáttur ákærða í innflutningnum var tækifæriskenndur og hafði ekki afgerandi þýðingu fyrir hann. Þá verður að hafa í huga að ákærði hefur játað brot sitt. Þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 12 mánuði. Þá þykir mega ákveða að fresta framkvæmd refsingarinnar og ákveða að hún falli niður að liðnum 3 árum, haldi ákærði almennt skilorð.
Ákærði Jón Ágúst hlaut 30 daga skilorðsbundinn fangelsisdóm fyrir tékkalagabrot í desember. Refsing hans er hegningarauki við þann dóm. Jafnframt ber að dæma hann upp og gera ákærða refsingu í einu lagi. Brot ákærða er stórfellt en hafa verður í huga að hann hefur játað brot sitt og að hann virðist hafa verið leiðitamur meðákærða Guðmundi Inga. Þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 4 ár. Frá refsingunni ber að draga gæsluvarðhaldsvist sem ákærði sætti frá 4. janúar til 24. febrúar sl., 51 dag.
Ákærði Þórir hefur ekki sakferil sem hér skiptir máli. Aftur á móti er brot hans stórfellt. Ákærði er ekki fullra 18 ára að aldri og í málinu eru vísbendingar um töluvert ístöðuleysi hans gagnvart meðákærða Guðmundi Inga. Þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 2 ár. Frá refsingunni ber að draga gæsluvarðhaldsvist sem ákærði sætti frá 29. desember til 1. febrúar sl., 34 daga.
Ákærði A hefur til þessa hlotið tvo dóma fyrir auðgunarbrot og auk þess var hann í marsmánuði dæmdur í 5 mánaða fangelsi fyrir áfengislagabrot, þar af voru 4 mánuðir skilorðsbundnir. Með í þeirri refsingu var þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi samkvæmt eldri dómi. Dæma ber upp skilorðshluta síðasta dóms og gera ákærða refsingu í einu lagi sem einnig er hegningarauki. Þá verður að hafa í huga að ákærði hefur játað brot sitt hreinskilnislega. Þykir refsingin hæfilega ákveðin fangelsi í 3 ár. Frá refsingunni ber að draga gæsluvarðhald sem ákærði sætti frá 1. febrúar til 31. mars sl., 60 daga.
Ákærði H á að baki talsverðan sakferil. Hefur honum verið refsað 17 sinnum frá því á árinu 1993. Þar af hefur hann verið dæmdur tvisvar eftir að hann framdi brot sitt í þessu máli. Í fyrra sinnið var hann dæmdur í 4 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir skjalafals en í síðara sinnið í 30 daga óskilorðsbundið fangelsi fyrir að aka bíl án ökuréttar. Ber að dæma upp skilorðsdóminn og gera ákærða refsingu í einu lagi. Þá verður að hafa í huga að ákærði hefur játað brot sitt hreinskilnislega. Refsingin er hegningarauki og þykir hæfilega ákveðin fangelsi í 12 mánuði.
Ákærði Andri Reyr hlaut 4 mánaða skilorðsdóm fyrir þjófnað 1998. Hann hefur rofið skilorð þess dóms og ber að dæma hann upp og gera ákærða refsingu í einu lagi. Ákærði var ekki fullra 18 ára þegar hann braut af sér og þykir refsingin hæfilega ákveðin fangelsi í 10 mánuði. Þykir mega ákveða að fresta því að refsingin komi til framkvæmda og ákveða að hún falli niður að liðnum 3 árum haldi ákærði almennt skilorð.
Ákærði Ó var dæmdur í 60 daga skilorðsbundið fangelsi 1997 og hefur staðist skilorð þess dóms. Þar áður hafði honum verið refsað fyrir brot gegn lax- og silungsveiðilögum, umferðarlögum svo og fyrir húsbrot og skemmdarverk. Refsing ákærða þykir hæfilega ákveðin fangelsi í 12 mánuði. Rétt þykir að fresta því að refsingin komi til framkvæmda og ákveða að hún falli niður að liðnum 3 árum haldi ákærði almennt skilorð.
Með heimild í 49. gr. almennra hegningarlaga, sbr. lög nr. 101, 1976 ber að gera nokkrum hinna ákærðu sektarrefsingu sem hér segir:
Guðmundi Inga, þrjár milljónir króna og komi 6 mánaða fangelsi í stað sektarinnar, greiðist hún ekki innan 4 vikna frá dómsbirtingu,
Sveini Inga, eina milljón króna og komi 3ja mánaða fangelsi í stað sektarinnar, greiðist hún ekki innan 4 vikna frá dómsbirtingu,
Inga Þór, eina milljón króna og komi 3ja mánaða fangelsi í stað sektarinnar, greiðist hún ekki innan 4 vikna frá dómsbirtingu,
M, 150.000 krónur og komi 30 daga fangelsi í stað sektarinnar, greiðist hún ekki innan 4 vikna frá dómsbirtingu,
Jóni Ágústi, eina milljón króna og komi 3ja mánaða fangelsi í stað sektarinnar, greiðist hún ekki innan 4 vikna frá dómsbirtingu,
A 300.000 krónur og komi 45 daga fangelsi í stað sektarinnar, greiðist hún ekki innan 4 vikna frá dómsbirtingu,
Andra Reyr 150.000 krónur og komi 30 daga fangelsi í stað sektarinnar, greiðist hún ekki innan 4 vikna frá dómsbirtingu,
Ó 150.000 krónur og komi 30 daga fangelsi í stað sektarinnar, greiðist hún ekki innan 4 vikna frá dómsbirtingu.
Samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni og að kröfu ákæruvalds skal gera upptæk eftirtalin fíkniefni sem hald hefur verið lagt á:
401 töflu af MDMA sem fannst við leit hjá ákærða Þóri 29. desember sl.,
15 skammta af lýsergíði og 0,83 g af amfetamíni sem fundust hjá ákærða H 31. janúar sl.,
0,07 g af amfetamíni sem fundust hjá ákærða M 20. janúar sl. og
2,67 g af amfetamíni sem fannst hjá ákærða Ó 31. janúar sl.
Ákæruvaldið krefst þess einnig, með vísan til 3. tl. 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga, að gerðar verði upptækar hjá ákærða A 639.200 krónur sem svari til ávinnings hans af brotinu. Hjá ákærða fundust 244.500 krónur í reiðufé og var lagt hald á þær. Er óhætt að telja að ákærði hafi haft svo mikið fé í ávinning af brotinu og ber að gera peninga þessa upptæka með heimild í 3. tl. 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga, sbr. lög nr. 10, 1997.
Í málflutningi hefur ákæruvaldið byggt á því að dæma megi upptöku á mismuninum án þess að upptakan beinist að tilteknu andlagi. Á þetta verður ekki fallist. Telja verður að það sé hugtaksatriði um eignaupptöku að verðmætin sem hún beinist að, peningar, munir eða annað, séu til. Ekki verður séð að orðalag 2. gr. laga nr. 10, 1997, sem breytti 3. tl. 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga, gefi til kynna að þar sé vikið frá þessari grunnhugsun. Þá verður heldur ekki séð að greinargerð með lagafrumvarpinu styðji slíkan skilning á lagaákvæði þessu og lögskýringarreglur virðast auk þess eiga að leiða til hins gagnstæða. Loks má benda á það úrræði sem felst í fyrrgreindri 49. gr. almennra hegningarlaga og hér hefur verið gripið til, að dæma má sektir jafnframt refsivist þegar brotamaður hefur aflað sér eða öðrum fjárvinnings með broti eða það hefur vakað fyrir honum. Verður 2. gr. laga nr. 10, 1997 því ekki skilin svo að hún heimili dómstólum að lýsa yfir upptöku fjárhæðar, líkt og um ákvörðun um sekt eða dómsskuld væri að ræða.
Nokkur ökutæki sem talið er að séu eign ákærða hafa verið kyrrsett vegna málsins. Eins og kröfugerð í ákærunni er háttað kemur þó ekki til álita að gera upptækt andvirði ávinnings sem kynni að liggja í þeim þar sem þau eru ekki tilgreind í ákærunni, svo vísað sé til d-liðar 1. mgr. 116. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19,1991 og strangrar dómvenju að þessu leyti. Af öllu þessu leiðir að sýkna ber ákærða Anton Kristin af kröfu um eignaupptöku umfram það sem að framan segir.
Málsvarnarlaun til verjenda ákærðu vegna dómsmeðferðar málsins frá þingfestingu þess greiðist sem hér segir: ákærði Guðmundur Ingi greiði verjanda sínum, Hallvarði Einvarðssyni hrl., 500.000 krónur, ákærði Sveinn Ingi greiði verjanda sínum, Pétri Erni Sverrissyni hdl., 250.000 krónur, ákærði Ingi Þór greiði verjanda sínum, Guðmundi Ágústssyni hdl., 500.000 krónur, ákærði M greiði verjanda sínum, Erni Clausen hrl., 50.000 krónur, ákærði MÍ greiði verjanda
sínum, Páli Arnóri Pálssyni, 50.000 krónur, ákærði Jón Ágúst greiði verjanda sínum, Andra Árnasyni hrl., 500.000 krónur, ákærði Þórir greiði verjanda sínum, Karli Georg Sigurbjörnssyni hdl., 500.000 krónur, ákærði A greiði verjanda sínum, Erni Clausen hrl., 180.000 krónur, ákærði H greiði verjanda sínum, Pétri Erni Sverrissyni hdl., 50.000 krónur, ákærði Andri Reyr greiði verjanda sínum, Brynjari Níelssyni hrl., 300.000 krónur og ákærði Ó greiði verjanda sínum, Sigmundi Hannessyni hrl., 300.000 krónur.
Ljúka hefði mátt hluta málsins án kostnaðarsamrar aðalmeðferðar fyrir suma af hinum ákærðu. Þykir vera rétt af þeim sökum, og einnig eftir málsúrslitum að öðru leyti, að hluti af málsvarnarlaununum greiðist úr ríkissjóði, sem hér segir: 200.000 krónur til verjanda M, Arnar Clausen hrl., 250.000 krónur til verjanda MÍ, Páls Arnórs Pálssonar hrl., 70.000 krónur til verjanda A, Arnar Clausen hrl., 200.000 krónur til verjanda H, Péturs Arnar Sverrissonar hdl., 200.000 krónur til verjanda Andra Reyrs, Brynjars Níelssonar hrl. og 200.000 krónur til verjanda Ó, Sigmundar Hannessonar hrl. Annan sakarkostnað greiði ákærðu óskipt.
Dómsorð:
Ákærði, Guðmundur Ingi Þóroddsson, sæti fangelsi í 7 ár. Frá refsingunni dregst 192 daga gæsluvarðhald.
Ákærði, Sveinn Ingi Bjarnason, sæti fangelsi í 5 ár. Frá refsingunni dregst 185 daga gæsluvarðhald.
Ákærði, Ingi Þór Arnarson, sæti fangelsi í 5 ár. Frá refsingunni dregst 180 daga gæsluvarðhald.
Ákærði, M, sæti fangelsi í í 12 mánuði.
Ákærði, MÍ, sæti fangelsi í 12 mánuði.
Ákærði, Jón Ágúst Garðarsson, sæti fangelsi í 4 ár. Frá refsingunni dregst 51 dags gæsluvarðhald.
Ákærði, Þórir Jónsson, sæti fangelsi í 2 ár. Frá refsingunni dregst 34 daga gæsluvarðhald.
Ákærði, A, sæti fangelsi í 3 ár. Frá refsingunni dregst 60 daga gæsluvarðhald.
Ákærði, H, sæti fangelsi í 12 mánuði.
Ákærði, Andri Reyr Vignisson, sæti fangelsi í 10 mánuði.
Ákærði, Ó, sæti fangelsi í 12 mánuði.
Frestað er því að fullnægja refsingu ákærðu, MÍ, Andra Reyrs og Ó svo og 9 mánuðum af refsivist M og fellur refsingin niður að liðnum 3 árum haldi ákærðu almennt skilorð.
Ákærðu greiði sektir en sæti fangelsisrefsingu, greiðist sektin ekki innan 4 vikna frá dómsbirtingu, sem hér segir:
Guðmundur Ingi, þrjár milljónir króna en ella 6 mánaða fangelsi,
Sveinn Ingi, eina milljón króna en ella 3ja mánaða fangelsi,
Ingi Þór, eina milljón króna en ella 3ja mánaða fangelsi,
M, 150.000 krónur en ella 30 daga fangelsi,
Jón Ágúst, eina milljón króna en ella 3ja mánaða fangelsi,
A, 300.000 krónur en ella 45 daga fangelsi,
Andri Reyr, 150.000 krónur en ella 30 daga fangelsi,
Ó, 150.000 krónur en ella 30 daga fangelsi.
Ákærðu sæti upptöku á 401 töflu af MDMA, 15 skömmtum af lýsergíði og 3,57 grömmum af amfetamíni.
Ákærði, A, sæti upptöku á 244.500 krónum.
Ákærðu greiði verjendum sínum málsvarnarlaun sem hér segir: ákærði, Guðmundur Ingi, Hallvarði Einvarðssyni hrl., 500.000 krónur, ákærði, Sveinn Ingi, Pétri Erni Sverrissyni hdl., 250.000 krónur, ákærði, Ingi Þór, Guðmundi Ágústssyni hdl., 500.000 krónur, ákærði, M, Erni Clausen hrl., 50.000 krónur, ákærði, MÍ, Páli Arnóri Pálssyni, 50.000 krónur, ákærði, Jón Ágúst, Andra Árnasyni hrl., 500.000 krónur, ákærði, Þórir, Karli Georg Sigurbjörnssyni hdl., 500.000 krónur, ákærði, A, Erni Clausen hrl., 180.000 krónur, ákærði, H, Pétri Erni Sverrissyni hdl., 50.000 krónur, ákærði, Andri Reyr, Brynjari Níelssyni hrl., 300.000 krónur og ákærði, Ó, Sigmundi Hannessyni hrl., 300.000 krónur.
Úr ríkissjóði greiðist málsvarnalaun sem hér segir: 200.000 krónur til verjanda M, Arnar Clausen hrl., 250.000 krónur til verjanda MÍ, Páls Arnórs Pálssonar hrl., 70.000 krónur til verjanda A, Arnar Clausen hrl., 200.000 krónur til verjanda H, Péturs Arnar Sverrissonar hdl., 200.000 krónur til verjanda Andra Reyrs, Brynjars Níelssonar hrl. og 200.000 krónur til verjanda Ó, Sigmundar Hannessonar hrl.
Annan sakarkostnað greiði ákærðu óskipt.