Hæstiréttur íslands

Mál nr. 272/2000


Lykilorð

  • Meiðyrði
  • Sönnun ummæla
  • Sýkna
  • Sératkvæði


Þriðjudaginn 19

 

Þriðjudaginn 19. desember 2000.

Nr. 272/2000.

Kjartan Gunnarsson

(Jakob R. Möller hrl.)

gegn

Sigurði G. Guðjónssyni

(Gestur Jónsson hrl.)

                                                   

Meiðyrði. Sönnun ummæla. Sýkna. Sératkvæði.

K krafðist ómerkingar á tilteknum ummælum S, sem birtust í dagblaði. Hann taldi að  í þeim fælust ærumeiðandi aðdróttanir um sig. Voru umrædd greinarskrif S innlegg í heita þjóðfélagsumræðu í tengslum við svokallað FBA mál og báru með sér hvassa gagnrýni á forystumenn Sjálfstæðiflokksins, en K gegndi meðal annars stöðu framkvæmdastjóra flokksins. Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms um sýknu S. Taldi Hæstiréttur að ekki yrði lagt á S að sanna ummælin þar sem sönnunarfærslan myndi reynast honum óhæfilega erfið. Þá kom fram að K væri framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins og hefði einnig gegnt tilteknum stöðum eftir tilnefningu flokksins. Þegar litið væri til áberandi stöðu hans innan Sjálfstæðisflokksins yrði hann að una því að um þessi tengsl væri fjallað á opinberum vettvangi og bæri að fara varlega við að hefta slíka umræðu. Sératkvæði.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Haraldur Henrysson og Hrafn Bragason.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 10. júlí 2000. Hann krefst þess að nánar tilgreind ummæli stefnda verði dæmd dauð og ómerk og stefndi dæmdur til að greiða sér 350.000 krónur, ásamt nánar tilgreindum dráttarvöxtum, til þess að kosta birtingu dóms í málinu í þremur dagblöðum. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Í héraði krafðist áfrýjandi auk þessa miskabóta úr hendi stefnda, en hefur fallið frá þeirri kröfu fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Í héraðsdómi eru rakin málsatvik og málsástæður aðila.

Í endurritum úr héraði kemur fram, að stefndi hafi krafist þess að héraðsdómari viki sæti með vísan til g. liðs 5. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála þar sem dómarinn og formaður Sjálfstæðisflokksins væru systkinabörn en áfrýjandi framkvæmdastjóri flokksins og náinn vinur formanns hans. Í greininni, þar sem hin átöldu ummæli væru, hafi margsinnis verið vikið að formanni Sjálfstæðisflokksins og nafn hans nefnt um það bil þrjátíu sinnum en nafn áfrýjanda aðeins þrisvar. Í greininni hafi formaður flokksins verið gagnrýndur fyrir verk sín og hafi það verið mun meiri gagnrýni en á gjörðir áfrýjanda. Með úrskurði 14. janúar 2000 hafnaði héraðsdómari kröfu stefnda um að hann viki sæti. Sá úrskurður hefur ekki verið kærður til Hæstaréttar eða sætt þar umfjöllun af hálfu aðila. Þykir verða við hann unað.

II.

Svo sem í héraðsdómi greinir birti dagblaðið Dagur heillar opnu grein eftir stefnda 31. ágúst 1999 undir yfirskriftinni Þjóðmál. Fyrirsögn greinarinnar, sem rituð var með stórum stöfum hljóðaði svo: „Er nema von að Steingrímur joð finni bananalykt!“. Var greinin að sögn stefnda innlegg í heita þjóðfélagsumræðu í tengslum við svokallað FBA mál, og hvöss gagnrýni á forystumenn Sjálfstæðisflokksins. Leitaðist stefndi þar við að rökstyðja þá skoðun sína að því færi fjarri að þjóðfélagsþegnarnir stæðu jafnir gagnvart viðskiptalegum ákvörðunum forystumanna Sjálfstæðisflokksins, sem fari með pólitískt vald. Meðal þess sem stefndi fjallaði um voru atvik, sem urðu í kjölfar þess að hann, Jón Ólafsson og nokkrir aðrir einstaklingar, keyptu hlutabréf í Íslenska útvarpsfélaginu hf. í maí 1994. Með kaupunum hafi myndast nýr meirihluti innan hluthafahóps félagsins. Áður hafi verið tekin ákvörðun um að kaupa nýja myndlykla fyrir félagið og búið að semja við Íslandsbanka hf., þáverandi viðskiptabanka félagsins, um tæplega 300 milljón króna lán vegna myndlyklakaupanna. Lýsti stefndi atvikum svo, að þegar stjórnarskipti hafi orðið í félaginu hafi viðskiptabankinn afturkallað lánsloforðið og í reynd vísað félaginu úr viðskiptum. Benti stefndi á að bankastjóri Íslandsbanka og fráfarandi formaður stjórnar félagsins hafi verið tengdir nánum fjölskylduböndum auk þess sem formaðurinn fyrrverandi hafi átt sæti í fjármálaráði Sjálfstæðisflokksins. Þessum þætti greinar stefnda lauk með eftirfarandi hluta, sem í eru hin umstefndu ummæli. Eru þau auðkennd hér skáletruð:

„Þá var leitað eftir viðskiptum við Landsbanka Íslands. Í stóli formanns bankaráðs Landsbanka Íslands sat þá Kjartan Gunnarsson, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins og formaður útvarpsréttarnefndar, sem fer með mál frjálsu útvarpsstöðvanna. 29. júlí 1994 barst Íslenska útvarpsfélaginu hf. bréf frá Landsbankanum, þar sem bankinn hafnaði að eiga viðskipti við félagið. Engar skýringar fengust, þó var okkur sagt sem stóðum í forsvari fyrir viðræðum við bankann að Kjartan Gunnarsson legðist gegn því að Landsbanki Íslands ætti viðskipti við félag, sem Jón Ólafsson ætti aðild að. Engar formlegar viðræður fóru fram við hinn ríkisbankann, Búnaðarbanka Íslands, þar sem okkur var sagt í óformlegum viðræðum, að bankinn gæti ekki tekið Íslenska útvarpsfélagið hf. í viðskipti, þar sem sumir þeirra, sem orðið höfðu undir í Íslenska útvarpsfélaginu hf. á hluthafafundinum í júlí væru viðskiptavinir bankans og það gæti styggt þá, ef Íslenska útvarpsfélaginu hf. yrði veitt fyrirgreiðsla eða það tekið í viðskipti við Búnaðarbanka Íslands. Sem betur fer voru á þessum tíma líka til í landinu sparisjóðir, þar sem litið var á viðskipti við Íslenska útvarpsfélagið hf. sem góðan kost og ábatasaman fyrir sparisjóðina. Þar var ákvörðun um viðskipti við Íslenska útvarpsfélagið hf. tekin á grundvelli viðskiptalegra hagsmuna sparisjóðanna, en ekki á þeim forsendum hvað væri Sjálfstæðisflokknum fyrir bestu og forkólfum fjármálaráðs flokksins þénanlegt.“

III.

            Að framan er frá því skýrt að umstefnd ummæli féllu í hvassyrtri blaðagrein sem stefndi beindi að Sjálfstæðisflokknum og nafngreindum og ónafngreindum frammámönnum í þeim flokki. Ummæli þessi féllu í deilum sem urðu í kjölfar þess að hópur kenndur við Orca SA í Luxemborg keypti stóran hlut í Fjárfestingabanka atvinnulífsins hf. af dótturfyrirtæki Kaupþings hf. í Luxemborg. Deildu forsætisráðherra landsins og aðrir frammámenn Sjálfstæðisflokksins mjög á Kaupþing hf. fyrir höndlun þessara bréfa. Dróst nafn Jóns Ólafssonar inn í þá umræðu, en hann var einn félaga í hópnum. Jón mun vera viðskiptavinur á lögmannsstofu stefnda. Af þessu tilefni mun greinin skrifuð og gamlar væringar rifjaðar upp. Er áfrýjandi þar meðal annarra nefndur til leiks sem framkvæmdastjóri flokksins og jafnframt bankaráðsmaður í Landsbanka Íslands og formaður útvarpsréttarnefndar.

            Kröfur áfrýjanda um ómerkingu beinast að tvennum ummælum í kafla greinarinnar sem ber yfirskriftina „Misnotkun á aðstöðu”. Er þar átt við Sjálfstæðisflokkinn. Eru síðari ummælin í lok kaflans og beinast gegn ónafngreindum „forkólfum fjármálaráðs flokksins”. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að áfrýjandi sé í fjármálaráði flokksins þótt vera kunni að hann sem framkvæmdastjóri hans sitji fundi þess. Ummæli þessi beinast ekki sérstaklega að áfrýjanda heldur eru þau þáttur í heildarádeilu greinarinnar. Til þess ber einnig að líta að fyrr í þessum kafla greinarinnar hafði stefndi nafngreint mann í fjármálaráði flokksins í tengslum við bankaviðskipti Íslenska útvarpsfélagsins hf. Verður áfrýjandi ekki talinn geta fengið ómerkt ummæli sem beinast þannig að ótilgreindum fjölda manna. Fallast má hins vegar á það með honum að þessi ummæli komi til skoðunar þegar metið skal hvernig skilja beri fyrri ummælin sem ljóslega eiga við hann. Segir í greininni, að þegar stefndi og aðrir hluthafar í Íslenska útvarpsfélaginu hf. leituðu eftir skýringum á því hvers vegna Landsbanki Íslands hafnaði því, að taka félagið í viðskipti, hafi þeir fengið það óformlega svar „að Kjartan Gunnarsson legðist gegn því að Landsbanki Íslands ætti viðskipti við félag, sem Jón Ólafsson ætti aðild að.” Hefur stefndi haldið því fram opinberlega að ótilgreindir starfsmenn bankans hafi sagt þeim þetta.

Áfrýjandi segir með öllu rangt að hann hafi átt þátt í ákvarðanatöku bankans og styðst það við opinberar yfirlýsingar tveggja þáverandi bankastjóra Landsbankans. Bendir áfrýjandi á að bankaráðsmenn komi að jafnaði ekki að lánveitingum bankans. Lögum samkvæmt var þó ekkert því til fyrirstöðu, væri sérstaklega eftir því leitað af hálfu bankastjóra, sbr. 39. gr. þágildandi laga nr. 43/1993 um viðskiptabanka og sparisjóði. Stefndi hefur ekki reynt að færa sönnur á að áfrýjandi hafi komið að þessari ákvörðunartöku. Hann hefur hins vegar haldið því fram að þeir starfsmenn bankans, sem mátu lánshæfni félagsins, hafi skýrt þeim frá þætti áfrýjanda. Af gögnum málsins verður ekkert ráðið um það, að ekki hafi getað legið gildar viðskiptalegar ástæður til synjunarinnar. Höfðu mikil átök orðið um yfirtöku nýs meirihluta í Íslenska útvarpsfélaginu hf. og hlaust af því nokkur óvissa um framtíð þess, þótt ekki liggi annað fyrir en vel hafi úr ræst.

Ummæli stefnda verða ekki metin á annan hátt en þann sem þau birtast í greininni. Lúta þau ekki að ákvarðanatökunni sjálfri, heldur því sem bankastarfsmenn hafi borið fyrir sig óformlega, en engar formlegar skýringar voru gefnar á synjuninni. Stefndi yrði því ekki talinn þurfa að sýna fram á annað en að þetta hafi forsjármönnum félagsins verið sagt. Til þess nægir honum ekki að leiða aðeins til vitnis félaga sína, sem stóðu að þessum erindisrekstri með honum. Yrði hann einkum að leiða fyrir dóm þá bankastarfsmenn sem komu að lánveitingunni. Þessu neitar stefndi og ber fyrir sig að það muni koma þeim mönnum illa. Samkvæmt 43. gr. núgildandi laga nr. 113/1996 um viðskiptabanka og sparisjóði hafa þessir menn víðtæka þagnarskyldu um öll atriði, sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara. Gefur auga leið að þeir myndu tregir til að bera um athæfi sem bankaráðsmaður telur vera sér til hnekkis og telur jafnvel að myndi vera lögbrot af hans hálfu ef satt væri. Hagsmunir áfrýjanda af því að fá ummæli þessi ómerkt eru tæpast þess eðlis að líklegt sé að bankastarfsmönnum yrði gert skylt að bera um þau. Á það sérstaklega við þegar litið er til þess í hvaða samhengi ummælin koma fram. Verður ekki lagt á stefnda að færa fram sönnun fyrir þessum ummælum þar sem það gæti talist óhæfilegum erfiðleikum bundið fyrir hann.

Að framan er frá því greint að áfrýjandi er framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins og því valdamaður í stjórnmálalífi þjóðarinnar. Hann hefur einnig setið í bankaráði Landsbanka Íslands og verið formaður útvarpsréttarnefndar, tilnefndur af Sjáfstæðisflokknum og kosinn af Alþingi. Störf hans á þessum vettvangi eru og eiga að vera óháð starfi hans sem framkvæmdastjóra flokksins. Þegar litið er til áberandi stöðu hans innan flokksins þykir hann verða að una því að um þessi tengsl sé fjallað á opinberum vettvangi. Ber að fara varlega við að hefta slíka umræðu í lýðræðislegu þjóðfélagi með refsikenndum viðurlögum.

Af framangreindum ástæðum ber að staðfesta niðurstöðu héraðsdóms og sýkna stefnda af kröfum áfrýjanda.

Samkvæmt þessari niðurstöðu ber áfrýjanda að greiða stefnda kostnað sem af áfrýjun máls þessa leiðir, svo sem nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Kjartan Gunnarsson, greiði stefnda, Sigurði G. Guðjónssyni, 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.


Sératkvæði

Garðars Gíslasonar

I. og II. kafla atkvæðis meirihlutans er ég sammála, svo og fyrstu þremur málsgreinum í III. kafla. Þegar komið er í 4. mgr. III. kafla, sem hefst á orðunum „Ummæli stefnda ... “, er fjallað um það hvort stefndi hafi getað sannað ummæli sín um áfrýjanda. Þar skiljast leiðir. Eftir þriðja málslið í 4. mgr. ætti framhaldið að mínu mati að vera á þessa leið:

Til þess hefði hann þurft að leiða fyrir dóm þá bankastarfsmenn sem komu að lánveitingunni eða að minnsta kosti þá félaga sína, sem einnig var sagt þetta. Hefði stefndi valið fyrri kostinn og leitt fyrir dóm þessa ótilgreindu bankastarfsmenn verður ekki séð að það hefði verið vandkvæðum bundið. Áfrýjandi hefur sjálfur krafist þess að stefndi sannaði ummæli sín og hann gæti því ekkert hafa haft á móti því að þessir bankastarfmenn kæmu fyrir dóm og svöruðu spurningum, enda verður þá ekki séð að starfmennirnir væru þar með að bregðast þagnarskyldu um neitt sem leynt ætti að fara, sbr. 43. gr. laga um viðskiptabanka og sparisjóði. En stefndi gat einnig valið síðari kostinn og leitt fyrir dóm til skýrslugjafar samstarfsmenn sína, sem einnig áttu að hafa heyrt bankastarfsmennina segja þetta um áfrýjanda. Síðari kosturinn hefði staðið stefnda nær og með honum hefði hann gert tilraun til þess að sýna fram á sannleiksgildi orða sinna á auðveldan hátt.

Fram er komið í málinu að stefndi hafi oft borið því við í viðtölum í fjölmiðlum eftir að grein hans birtist, að ummælin um áfrýjanda væru sönn og hann gæti sannað þau. Í máli þessu ber hann því hins vegar við, að með orðum sínum hafi hann ekkert sagt um áfrýjanda heldur aðeins hvað honum og fleirum hafi verið sagt um áfrýjanda. Þessi vörn stoðar stefnda ekki þar sem hann bar um hvað aðrir hefðu sagt um áfrýjanda, og sú frásögn hans fellur út af fyrir sig undir 235. gr. almennra hegningarlaga, enda felur hún í sér að áfrýjandi hafi með afskiptum sínum af lánamálum bankans brotið alvarlega starfsskyldur sínar sem formaður bankaráðs. Telst það meiðandi aðdróttun nema sönnuð sé. Stefndi hefur enga tilraun gert til þess að sanna ummæli sín. Ekkert er leitt í ljós að með því að krefjast þess af honum væru gerðar til hans óhæfilega strangar kröfur.

Tel ég því að hin fyrri ummæli stefnda hafi falið í sér meiðandi aðdróttun um áfrýjanda, sem stefndi hafi hvorki sannað né réttlætt á annan hátt og því beri að taka til greina kröfu áfrýjanda um að þau verði ómerkt. Eftir 241. gr. almennra hegningarlaga verði stefnda jafnframt gert að greiða áfrýjanda kostnað við birtingu dómsins, eins og krafist er, svo og málskostnað fyrir Hæstarétti.

 


 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 3. maí 2000.

I

Mál þetta, sem dómtekið var hinn 28. mars sl., að loknum munnlegum mál­flutningi, var höfðað fyrir dómþinginu af Kjartani Gunnarssyni, kt. 041051-7019, Star­haga 4, Reykjavík á hendur Sigurði G. Guðjónssyni, kt. 081151-3189, Lækjarási 7, Reykjavík, með stefnu þingfestri 16. september 1999.

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær, að ummæli stefnda: „Þó var okkur sagt sem stóðum í forsvari fyrir viðræðum við bankann að Kjartan Gunnarsson legðist gegn því að Landsbanki Íslands ætti viðskipti við félag, sem Jón Ólafsson ætti aðild að” og „Þar var ákvörðun um viðskipti við Íslenska útvarpsfélagið hf. tekin á grund­velli viðskiptalegra hagsmuna sparisjóðanna, en ekki á þeim forsendum hvað væri Sjálf­stæðisflokknum fyrir bestu og forkólfum fjármálaráðs flokksins þénanlegt” verði dæmd dauð og ómerk.  Þá krefst stefnandi þess, að stefndi verði dæmdur til að greiða 600.000 krónur í miskabætur til stefnanda og að tildæmd fjárhæð beri dráttarvexti sam­kvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 16. september 1999 og að vextir legg­ist við höfuðstól á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn þann 16. september 2000.  Stefnandi krefst þess og að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 350.000 krónur til að kosta birtingu dóms í málinu, það er forsendna og dómsorðs, í þremur dagblöðum og beri tildæmd fjárhæð dráttarvexti samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 16. september 1999 og leggist vextir við höfuðstól á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn þann 16. september 2000.  Auk þessa krefst stefnandi þess, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi og að við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til skyldu stefnanda til þess að greiða virð­isaukaskatt af lögmannsþjónustu.

Endanlegar dómkröfur stefnda eru þær, að stefndi verði sýknaður af öllum kröf­um stefnanda og stefnda tildæmdur hæfilegur málskostnaður úr hendi stefnanda að teknu tilliti til kostnaðar stefnda af  virðisaukaskattskyldri lögmannsþjónustu.

Áður en dómur var kveðinn upp var gætt ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

II

Hinn 31. ágúst 1999 birtist heillar opnu grein í dagblaðinu Degi, skrifuð af stefnda, sem, samkvæmt upphafsorðum greinarinnar, var rituð vegna umfjöllunar fjöl­miðla um viðskipti með hlutabréf í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf., með kaupum Orca S.A. í Lúxemborg á hlutabréfum í bankanum.

Í grein sinni fjallar stefndi m.a. um atvik sem átt hafi að eiga sér stað í kjölfar þess, að hann, Jón Ólafsson, og fleiri keyptu hlutabréf í Íslenska útvarpsfélaginu hf. í maí 1994.  Segir hann þar, að Íslandsbanki hf., þáverandi viðskiptabanki Íslenska út­varps­félagsins hf., eftir stjórnarskipti í félaginu í júlí það ár, hafi afturkallað áður gefið lánsloforð og „í raun vísað félaginu úr viðskiptum” eins og segir í blaða­grein­inni.  Síðan lýsir greinarhöfundur samskiptum félagsins við Landsbankann, og greinir svo frá: „Þá var leitað eftir viðskiptum við Landsbanka Íslands.  Í stóli formanns banka­ráðs Landsbanka Íslands sat þá Kjartan Gunnarsson, framkvæmdastjóri Sjálf­stæð­isflokksins og formaður útvarpsréttarnefndar, sem fer með mál frjálsu út­varps­stöðv­anna.  29. júlí 1994 barst íslenska útvarpsfélaginu hf. bréf frá Landsbankanum, þar sem bankinn hafnaði að eiga viðskipti við félagið.  Engar skýringar fengust, þó var okkur sagt sem stóðum í forsvari fyrir viðræðum við bankann að Kjartan Gunnarsson legð­ist gegn því að Landsbanki Íslands ætti viðskipti við félag, sem Jón Ólafsson ætti aðild að.  Engar formlegar viðræður fóru fram við Búnaðarbanka íslands, þar sem okkur var sagt í óformlegum viðræðum, að bankinn gæti ekki tekið Íslenska út­varps­fél­agið hf. í viðskipti, þar sem sumir þeirra, sem höfðu orðið undir í Íslenska út­varps­félaginu hf. á hluthafafundinum í júlí væru viðskiptavinir bankans og það gæti styggt þá, ef Íslenska útvarpsfélaginu hf. yrði veitt fyrirgreiðsla eða það tekið í við­skipti við Búnaðarbanka Íslands.  Sem betur fer voru á þessum tíma líka til í landinu spari­sjóðir, þar sem litið var á viðskipti við Íslenska útvarpsfélagið hf. sem góðan kost og ábatasaman fyrir sparisjóðina.  Þar var ákvörðun um viðskipti við Íslenska út­varps­félagið hf. tekin á grundvelli viðskiptalegra hagsmuna sparisjóðanna, en ekki á þeim forsendum hvað væri Sjálfstæðisflokknum fyrir bestu og forkólfum fjármálaráðs flokks­ins þénanlegt”.

Stefndi ítrekaði síðar framangreind ummæli sín í viðtölum bæði í dagblöðum og út­varpi, þar sem hann hélt því fram að ummælin væru sönn.

III

Stefnandi byggir kröfur sínar á því, að stefndi hafi í áðurgreindri blaðagrein og svo ítrekað í viðtölum sínum við fjölmiðla borið á stefnanda, að hann hafi látið aðra hags­muni, en hagsmuni bankans, ráða afstöðu sinni um viðskipti Landsbankans við ein­stök fyrirtæki.  Stefndi hafi með skrifum sínum og ummælum borið á stefnanda sak­næma háttsemi og brot á almennum viðskiptareglum, viðskiptasiðferði og stjórn­sýslu­reglum.  Ummælin hafi því augljóslega verið virðingu stefnanda til hnekkis.

Stefnandi kveður starfssvið bankaráðs koma fram í 39. gr. laga nr. 43/1993, um við­skiptabanka og sparisjóði.   Bankaráð Landsbanka Íslands fjalli ekki um viðskipti bank­ans við einstök fyrirtæki eða einstaklinga.  Ákvarðanir um þess konar viðskipti séu algjörlega í höndum lánanefndar bankans nema í þeim tilvikum er bankastjórar leggi málið fyrir bankaráðið.  Ákvörðun um hvort til viðskipta yrði stofnað á milli Lands­banka Íslands og Íslenska útvarpsfélagsins hf. hafi aldrei komið til kasta banka­ráðs­ins og þar með ekki stefnanda.  Hafi hann ekki einu sinni vitað til þess, að Íslenska útvarpsfélagið hf. hefði sóst eftir slíkum viðskiptum við bankann, enda hafi full­trúar í lánanefnd bankans, bankastjórarnir, aldrei rætt þau mál við stefnanda.  Um­mæli stefnanda séu því rakalaus ósannindi og höfð í frammi annað hvort gegn betri vit­und eða að minnsta kosti af fullkomnu skeytingarleysi um réttmæti þeirra.  Stefndi hafi með ummælum sínum um stefnanda tekið að sér hlutverk sögubera ósannra full­yrð­inga og kjaftagangs, væntanlega úr umhverfi stefnda.  Stefnandi telur og, að í ljósi mennt­unar stefnda og reynslu hans af lögmannsstörfum og viðskiptalífinu, verði að gera strangari kröfur til hans um að hann gæti að sannleik orða sinna.

Stefnandi byggir miskabótakröfu sína á því, að ummæli stefnda hafi verið ólög­mæt meingerð gegn persónu stefnanda, sem stefnda beri að bæta stefnanda á grund­velli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.  Við mat á miskabótakröfu beri að líta til 235.gr. og 236.gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, þar sem látið er varða refsingu að drótta að öðrum manni einhverju því, sem verða myndi virðingu hans til hnekkis, eða bera slíka aðdróttun út, og varði refsiþyngingu að bera út aðdróttun gegn betri vitund eða án réttmætrar ástæðu til að telja hana rétta.  Vísar stefnandi, þessari kröfu sinni til stuðnings, til dóms Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 177/1998, uppkveðnum 4. febrúar 1999.

Stefnandi byggir kröfu sína um greiðslu kostnaðar við birtingu forsendna og dóms­orðs á 2. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og fjárhæð kröf­unn­ar á mati á þeim kostnaði.

Um lagarök vísar stefnandi til 1. og 2. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Kröfu um miskabætur byggir stefnandi á b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 19/1940.

IV

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því, að fyrrgreind blaðagrein hafi í heild sinni verið hvöss ádrepa á þær leikreglur, sem hann telji vera við lýði í viðskiptum hér á landi.  Gagnrýni af þessu tagi sé nauðsynleg í lýðræðisþjóðfélagi.  Tjáningarfrelsi í ræðu og riti sé hornsteinn íslenskrar stjórnskipunar og því beri að skýra heimildir manna til þess að tjá skoðanir sínar um menn og málefni rúmt.  Takmarkanir sem settar séu tjáningarfrelsinu verði að eiga sér örugga stoð í stjórnskipunarlögum og al­þjóð­legum skuldbindingum um mannréttindi, sem Íslendingar hafi gengist undir, svo sem mannréttindasáttmáli Evrópu, lög nr. 62/1994, og alþjóðasamningur Sameinuðu þjóð­anna um borgaraleg og stjónmálaleg réttindi frá 1966, sem Ísland hefur fullgilt.

Einstaklingar sem veljist til að vera í forsvari fyrir stjórnmálaflokka eða mikil­vægar þjóðfélagsstofnanir verði að sæta því að verða fyrir hvassa gagnrýni í tengslum við störf sín eða stöðu en einstaklingar, sem ekki láti til sín taka á opinberum vett­vangi.  Augljóst sé að stefnandi tilheyri fyrrgreinda hópnum.  Þessi sjónarmið hafi komið fram í dómum Hæstaréttar.  Þá hafi mannréttindadómstóll Evrópu margsinnis komist að þeirri niðurstöðu að tjáningarfrelsi sé rúmt í stjórnmálalegri umræðu. 

Fráleitt sé að umstefnd ummæli falli utan tjáningarfrelsisins eða feli í sér að­drótt­un eða ærumeiðingu í garð stefnanda.  Í fyrra tilvikinu sé krafist ómerkingar á sannri frá­sögn, án þess að fullyrt sé að sú sé ástæða neitunar Landsbankans á viðskiptum við Íslenska útvarpsfélagið hf.  Stefndi greini aðeins frá skýringu sem hann hafi fengið, frá ótilgreindum aðila, á afstöðu bankans.  Stefnandi geti ekki staðhæft að frásögn stefnda í þessu efni sé röng, þar sem hann geti ekki vitað hvað einstakir starfsmenn Lands­bankans kunni að hafa sagt stefnda í einkasamtölum.  Þá sé ekki unnt að krefjast þess af stefnda, sem í senn hafi verið lögmaður og stjórnarformaður Íslenska út­varpsfélagsins hf., að hann geri nánari grein fyrir viðmælendum sem hann vísi til.  Í síðara tilvikinu sé stefnandi hvergi nefndur til sögunnar, heldur Sjálfstæðisflokkurinn og forkólfar fjármálaráðs þess flokks, en stefnandi sé ekki í fjármálaráði Sjálf­stæð­is­flokks­ins.

Stefndi telur ummæli sín, sem krafist sé ómerkingar á, fela í sér gildisdóm, sem varinn sé af tjáningarfrelsinu.

Stefndi mótmælir og miskabótakröfu stefnanda, þar sem fráleitt sé að telja, að skrif hans hafi falið í sér meingerð gegn æru eða persónu stefnanda.

Stefndi mótmælir og kröfu stefnanda um birtingarkostnað.  Stefnandi krefjist ekki refs­ingar samkvæmt 235. eða 236 gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.  Þegar af þeirri ástæðu séu ekki réttarfarsleg skilyrði fyrir þessari kröfu stefnanda, þar sem 241. gr. almennra hegningarlaga vísi aðeins til þeirra greina laganna.  Þá feli umstefnd um­mæli stefnda ekki í sér ærumeiðandi aðdróttun.  Stefndi mótmælir og sérstaklega fjár­hæð þessarar kröfu stefnanda, sem úr hófi gerðri.

Stefndi byggir kröfu sína um málskostnað á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um með­ferð einkamála og mótmælir jafnframt kröfu stefnanda um málskostnað og drátt­ar­vexti á hann.

V

Tilefni umræddrar blaðagreinar stefnda í dagblaðinu Degi hinn 31. ágúst sl. kveður stefndi hafa verið mikla umræðu og gagnrýni sem fram hafi komið vegna kaupa Orca A.S. á hlutabréfum í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins.  Má því fallast á að fram­lögð blaðagrein hafi átt að vera andsvar stefnda við þeirri gagnrýni.  Stefndi telur blaða­grein sína eiga að sýna fram á að annarlegar leikreglur gildi og hafi gilt í við­skipt­um hér á landi.  Verður því að telja að frásögn stefnda af viðskiptum sínum og Íslenska útvarpsfélagsins hf. við Landsbankann, fyrir um það bil sex árum síðan,  eigi að sýna fram á þá fullyrðingu hans.  Í greinargerð sinni kveður stefndi að tilgangur um­mæla þessara hafi verið að vekja athygli og umræður.  

Í málinu liggur frammi svarbréf bankans til stefnda vegna áðurgreindri beiðni Íslenska útvarpsfélagsins hf. og hljóðar það svo:„ Varðandi beiðni yðar um láns­við­skipti.  Bankastjórn Landsbanka Íslands hefur fjallað um beiðni yðar um lánsviðskipti.  Nið­urstaða þeirrar umfjöllunar er sú, að fallast ekki á beiðnina.  Þetta tilkynnist yður hér með.”  Bréf þetta er dagsett 28. júlí 1994. Samkvæmt því sem fram er komið leit­aði stefndi ekki eftir rökstuðningi eða ástæðu fyrir þessari neitun bankans.  Í starfi stefn­anda, sem bankaráðsformanns, fólst ekki afgreiðsla slíkra erinda og eru þess ekki merki, að stefnandi hafi tekið þátt í þessari afgreiðslu bankans.  Með umstefndum um­mælum stefnda er hins vegar gefið í skyn, með því að bera fyrir sig óljósar sögu­sagnir, að afstaða stefnanda til Jóns Ólafssonar, eins af eigendum félagsins, hafi ráðið af­greiðslu bankastjórnarinnar á erindi félagsins. 

 Þó svo fyrrgreind ummæli séu sett fram af vissu smekkleysi og feli í sér að­drótt­un um málsatvik, sem ekki hafa verið staðreynd,  þykja þau þó ekki þess eðlis að ómerkja beri þau í því samhengi sem þau voru sett fram.  Með hliðsjón af þessari nið­ur­stöðu verður stefndi sýknaður af miskabótakröfu stefnanda. 

Þrátt fyrir þessa niðurstöðu þykir, með hliðsjón af málsatvikum, rétt að aðilar beri hvor sinn kostnað af málinu.

Hervör Þorvaldsdóttir, héraðsdómari, kvað upp dóm þennan.

Dómsorð:

Stefndi, Sigurður G. Guðjónsson, er sýkn af kröfum stefnanda, Kjartans Gunnars­sonar, í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.