Hæstiréttur íslands

Mál nr. 181/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gjaldþrotaskipti
  • Fjarnám


Föstudaginn 30. apríl 2010.

Nr. 181/2010.

LMD ehf.

(Fróði Steingrímsson hdl.)

gegn

sýslumanninum á Selfossi

(enginn)

Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Fjárnám.

L ehf. kærði úrskurð héraðsdóms þar sem bú hans var tekið til gjaldþrotaskipta. Talið var að ekki hefðu með réttu verið skilyrði til að ljúka fjárnámi hjá L ehf. án árangurs, sbr. 63. gr. laga nr. 90/1989. Gerðin hafi því ekki talist gefa rétta mynd af fjárhag L ehf., sbr. 1. tölulið 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991. Þegar af þessari ástæðu hafi héraðsdómi borið að hafna kröfu um gjaldþrotaskipti. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. mars 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 25. febrúar 2010, þar sem bú sóknaraðila var að kröfu varnaraðila tekið til gjaldþrotaskipta. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að kröfu varnaraðila um gjaldþrotaskipti verði hafnað og honum gert að greiða málskostnað í héraði ásamt kærumálskostnaði.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Samkvæmt gögnum málsins tók varnaraðili 17. september 2009 fyrir beiðni sína um að gert yrði fjárnám hjá sóknaraðila fyrir kröfu að höfuðstól 33.265.901 króna vegna ógreiddra opinberra gjalda. Við gerðina mætti nafngreindur fyrirsvarsmaður sóknaraðila, sem lýsti hann eignalausan, og var henni lokið án árangurs. Varnaraðili beindi 2. desember sama ár kröfu til héraðsdóms um að bú sóknaraðila yrði tekið til gjaldþrotaskipta á grundvelli árangurslausa fjárnámsins og var hún tekin fyrir á dómþingi 13. janúar 2010. Þar var sótt þing af hálfu sóknaraðila, sem hreyfði ekki andmælum gegn kröfu varnaraðila en óskaði eftir fresti, sem veittur var til 10. febrúar sama ár. Í þinghaldi þann dag tók sóknaraðili til varna gegn kröfunni með greinargerð, sem hann lagði fram ásamt gögnum þeim til stuðnings. Varnaraðili tók efnislega til andsvara við þessum vörnum í greinargerð, sem lögð var fram 12. sama mánaðar, og var málið síðan munnlega flutt og tekið til úrskurðar. Með hinum kærða úrskurði var krafa varnaraðila sem fyrr segir tekin til greina.

Án tillits til þess hvort sóknaraðili hafi vegna ákvæða 2. mgr. og 4. mgr. 70. gr. laga nr. 21/1991 mátt koma að vörnum í þinghaldinu 10. febrúar 2010 gegn kröfu varnaraðila, sbr. dóm Hæstaréttar 11. janúar 1995 í máli nr. 12/1995, sem birtur er í dómasafni þess árs á bls. 26, þótt ekki verði séð að varnaraðili hafi andmælt að svo yrði gert, er til þess að líta að samkvæmt 1. mgr. 71. gr. sömu laga bar héraðsdómara að gæta þess af sjálfsdáðum hvort lagaskilyrði væru fyrir gjaldþrotaskiptum. Þegar málið var tekið til úrskurðar hafði sóknaraðili lagt fram gögn, sem var ætlað að sýna fram á réttmæti staðhæfinga hans um að hann væri ekki eignalaus, þrátt fyrir yfirlýsingu fyrirsvarsmanns hans við fjárnámið 17. september 2009, þar sem hann ætti verðbréf og bankainnstæðu að andvirði samtals 441.540.795 krónur, auk 113 sumarhúsalóða, sem hann taldi að söluverði milli 169.500.000 og 226.000.000 krónur. Eignir þessar væru að vísu háðar veðböndum, en þau hafi þó engan veginn svarað til verðmætis eignanna. Af þessum sökum var ljóst eins og málið lá fyrir að ekki hefðu með réttu verið skilyrði til að ljúka fjárnáminu án árangurs, sbr. 63. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Gerðin gat því ekki talist gefa rétta mynd af fjárhag sóknaraðila, sbr. 1. tölulið 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991. Þegar af þessari ástæðu bar héraðsdómi að hafna kröfu varnaraðila um gjaldþrotaskipti og verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi.

Eins og atvikum er háttað er rétt að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Hafnað er kröfu varnaraðila, sýslumannsins á Selfossi, um að bú sóknaraðila, LMD ehf., verði tekið til gjaldþrotaskipta.

Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 25. febrúar 2010.

Með beiðni, dagsettri 2. desember 2009 sem móttekin var 4. desember s.á, krafðist Sýslumaðurinn á Selfossi, kt. 461278-0279, Hörðuvöllum 1, 800 Selfossi, þess að bú LMD ehf., kt. 560702-2210, Hrísmýri 4, 800 Selfossi, yrði tekið til gjaldþrotaskipta.  

Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila samkvæmt mati dómsins.

Mál þetta var þingfest 13. janúar sl. Var þá mætt af hálfu varnaraðila sem óskaði eftir fresti. Málið var tekið fyrir á ný 10. febrúar sl. og lagði varnaraðili þá fram greinargerð. Málið var aftur tekið fyrir 12. febrúar sl. og lagði sóknaraðili þá fram greinargerð af sinni hálfu. Munnlegur málflutningur fór fram um kröfu sóknaraðila sama dag og var málið að því loknu tekið til úrskurðar.

Sóknaraðili krefst þess að bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta auk málskostnaðar úr hendi varnaraðila samkvæmt mati dómsins. Fram kemur í beiðni sóknaraðila og greinargerð að endanleg krafa hans sé vegna skuldar að höfuðstól 40.748.657 krónur, auk gjalds í ríkissjóð að fjárhæð 3.900 krónur vegna kröfu um gjaldþrotaskipti. Sóknaraðili byggir kröfu sína á árangurslausu fjárnámi sem gert var hjá gerðarþola 17. september 2009. Sóknaraðili byggir á því að skuld varnaraðila við sóknaraðila sé vegna opinberra gjalda. Sóknaraðili hafi sent kröfu um gjaldþrotaskipti á búi varnaraðila 2. desember 2009 og hafi því ekki verið tekið tillit til lækkunar á tekjuskatti varnaraðila samkvæmt úrskurði Ríkisskattstjóra 4. janúar 2010. Ljóst sé að krafa sóknaraðila hafi lækkað sem um nemur 17.630.150 krónum en eftir standi skuld varnaraðila að fjárhæð 40.748.657 krónur. Varnaraðili sé skattskyldur lögaðili samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Samkvæmt 1. sbr. 3. mgr. 90. gr. sömu laga sé varnaraðila skylt að afhenda Ríkisskattstjóra skýrslu þar sem tilgreindar séu að viðlögðum drengskap tekjur á síðastliðnu ári og eignir í árslok, svo og önnur atriði sem máli skipti við skattálagningu. Ríkisskattstjóri ákveði frest skattaðila í upphafi hvers árs til að skila framtali, sbr. 2. mgr. 93. gr. sömu laga. Samkvæmt 2. mgr. 95. gr. sömu laga skuli Ríkisskattstjóri áætla tekjur skattaðila sem ekki telji fram innan tilskilins framtalsfrests. Skuli slík áætlun vera svo rífleg að ekki sé hætt við að fjárhæðir séu áætlaðar lægri en þær séu í raun og veru. Skattar skattaðila séu síðan ákvarðaðir til samræmis við framangreinda áætlun, sbr. 108. gr. sömu laga. Af þessu leiði að áætlun skatta fyrir árið 2008 teljist rétt þar til sýnt hafi verið fram á annað með framlagningu skattframtals en það sé alfarið á ábyrgð varnaraðila. Í greinargerð varnaraðila bendi hann m.a. á innistæðu sína á bankareikningi og skuldabréfasafn til tryggingar kröfu sóknaraðila. Samkvæmt gögnum málsins sé innistæða á reikningnum 20.928.868 krónur. NBI hf. sé með handveð í innistæðu umrædds bankareiknings og skuldabréfasafni til tryggingar á öllum skuldum varnaraðila. Samkvæmt framangreindu sé ljóst að eignir varnaraðila séu ekki nægjanlegar til tryggingar kröfu sóknaraðila, enda hafi verið gert árangurlaust fjárnám hjá varnaraðila þar sem fyrirsvarsmaður hans hafi lýst yfir eignaleysi. Ekkert hafi komið fram sem gefi tilefni til að efast um þá yfirlýsingu. Skilyrði séu því til þess að krafa sóknaraðila um að bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta nái fram að ganga. Um lagarök vísar sóknaraðili til 1. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti. Kröfu um málskostnað byggir sóknaraðili á 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Varnaraðili byggir á því að skuld hans við sóknaraðila sé fyrst og fremst tilkomin vegna synjunar NBI hf. um útgreiðslu af handveðsettum viðskiptareikningi varnaraðila til greiðslu skuldarinnar. Varnaraðili fullyrði að skuld sem tilgreind sé í kröfu sóknaraðila sé of há. 4. janúar sl. hafi Ríkisskattstjóri úrskurðað um lækkun á ákvörðuðum tekjuskatti varnaraðila um 17.630.150 krónur og sé krafa sóknaraðila því of há sem þessu nemi. Það sem eftir standi af kröfu sóknaraðila sé tilkomið vegna áætlana um skattbyrði varnaraðila vegna starfsemi hans á árinu 2008 en skattframtölum hafi enn ekki verið skilað. Áætlanir um skattbyrði gefi því ekki rétta mynd af skuld varnaraðila á opinberum gjöldum. Fullvissa sé fyrir því að krafa sóknaraðila muni lækka verulega þegar skattframtölum hafi verið skilað. Því sé mótmælt að krafa sem sé sannanlega röng geti orðið grundvöllur gjaldþrotaskipta. Varnaraðili byggir á því að eignir hans nægi fyllilega til greiðslu kröfu sóknaraðila. Varnaraðili eigi skuldabréfasafn að nafnvirði 420.611.927 krónur, miðað við 29. janúar 2010 og innistæðu á bankareikningi að fjárhæð 20.928.868 krónur, en eignir þessar hafi verið settar NBI hf. að handveði vegna kröfu að fjárhæð 291.949.366 krónur. Þá eigi varnaraðili 113 sumarhúsalóðir að verðmæti 169,5 til 226 milljónir króna. Örðugt sé að fullyrða um raunverulegt verðmæti lóðanna í dag, en hver og ein lóðanna sé að verðmæti a.m.k. 1.500.000 króna. Tvær slíkar lóðir hafi verið seldar í júlí og ágúst 2009 og hafi önnur lóðin verið seld á 1.500.000 krónur en hin á 2 milljónir króna. Lóðirnar 113 séu flestar svipaðar að gæðum og verðmæti fyrir utan 17 lóðir sem standi við Sogið og séu talsvert verðmætari. Sé aðeins tekið mið af kaupverði þeirra lóða sem seldar hafi verið í júlí og ágúst 2009 og litið fram hjá þeim lóðum sem standi við Sogið sé ljóst að verðmæti þeirra sé í dag a.m.k. 169,5 til 226 milljónir króna. Í ljósi verðmætis framangreindra eigna varnaraðila sé fullyrðing sóknaraðila um að ,,ekkert gefi til kynna að [varnaraðili] sé fær um að standa í skilum við [sóknaraðila] nú þegar eða innan skamms tíma.” beinlínis röng. Eignir varnaraðila standi fyllilega undir greiðslu kröfunnar. Sóknaraðila sé því ekki unnt að krefjast gjaldþrotaskipta á búi varnaraðila, sbr. 1. tl. 3. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Árangurslaust fjárnám hjá varnaraðila gefi engan veginn rétta mynd af fjárhagsstöðu hans. Loks byggir varnaraðili á því að hann sé allt að einu fullfær um að standa skil á skuldum sínum. Árangurslaust fjárnám hjá varnaraðila gefi engan veginn rétta mynd af fjárhagsstöðu hans, sbr. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991, enda séu eignir varnaraðila meiri en skuldir. Þá telur varnaraðili að bankainnistæða hans nægi fyllilega til greiðslu á skuld hans við sóknaraðila að teknu tilliti til leiðréttingar á kröfunni og leiðréttinga sem gerðar verði á áætlunum. Um lagarök vísar varnaraðili til 2. og 3. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Kröfu um málskostnað byggir varnaraðili á 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Niðurstaða.

Sóknaraðili krefst þess að bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta og byggir kröfu sína á árangurslausu fjárnámi frá 17. september 2009. Varnaraðili mótmælir því að fjárnámið gefi rétta mynd af fjárhagsstöðu hans og leggur fram gögn sem hann telur sanna að hann sé þrátt fyrir það gjaldfær.

Samkvæmt 1. mgr. 71. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. skal dómari gæta þess af sjálfsdáðum hvort lagaskilyrði séu fyrir gjaldþrotaskiptum þótt ekki hafi verið móti því mælt. Fram kemur í 3. mgr. 70. gr. sömu laga að ef skuldari og lánardrottinn sem krefst skipta á búi hans æskja þess megi dómari verða við sameiginlegri beiðni þeirra um að fresta meðferð kröfunnar, þótt mótmæli hafi ekki komið fram gegn kröfunni. Slíka fresti má ekki veita til lengri tíma en samtals eins mánaðar, með einni undantekningu sem ekki á við í máli þessu. Í 4. mgr. 70. gr. sömu laga segir að sæki skuldari þing og mótmæli kröfu lánardrottins um að bú hans verði tekið til gjaldþrotaskipta skuli farið með hana eftir ákvæðum 168. gr. sömu laga. Í því ákvæði kemur fram að ef mótmæli koma fram á dómþingi af hálfu skuldara við kröfu lánardrottins um að bú hans verði tekið til gjaldþrotaskipta, sbr. 4. mgr. 70. gr. skuli héraðsdómari þegar í stað þingfesta mál án undangenginna tilkynninga, þar sem leyst verði úr ágreiningnum. Túlka verður ákvæði 4. mgr. 70. gr. laga nr. 21/1991 í samræmi við 1. og 2. mgr. sömu lagagreinar, þannig að skuldari verði að hafa uppi mótmæli við kröfu lánardrottins við þingfestingu kröfunnar. Svo var ekki gert, heldur var eingöngu beðið um frest af hálfu varnaraðila. Eru mótmæli varnaraðila við kröfu sóknaraðila því of seint fram komin, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands frá 11. janúar 1995 sem birtur er í dómasafni réttarins 1995, bls. 26. Með vísan til þessa, og þar sem uppfyllt eru skilyrði 1. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991, ber að fallast á kröfu sóknaraðila.

Eftir þessum úrslitum og með vísan til 130. gr. laga nr. 91/1991 skal varnaraðili greiða sóknaraðila 150.000 krónur í málskostnað

Ástríður Grímsdóttir, héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.

Úrskurðarorð:

LMD ehf., kt. 560702-2210, Hrísmýri 4, 800 Selfossi, er tekið til gjaldþrotaskipta.

Varnaraðili greiði sóknaraðila 150.000 krónur í málskostnað.