Hæstiréttur íslands
Mál nr. 551/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Mánudaginn 24. ágúst 2015. |
|
Nr. 551/2015. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H. B. Snorrason saksóknari) gegn X (Brynjólfur Eyvindsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Greta Baldursdóttir og Þorgeir Örlygsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. ágúst 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. ágúst 2015 þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 17. september 2015 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með skírskotun til forsendna hins kærða úrskurðar er staðfest sú niðurstaða að fullnægt sé skilyrðum til að varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi samkvæmt c. lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 til þess tíma er í úrskurðinum greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. ágúst 2015.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 17. september nk. kl. 16:00.
Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að í morgun hafi lögreglu borist tilkynning frá starfsmönnum í [...] um mann sem hefði stolið þaðan vörum og væri á flótta undan starfsmönnum. Kærði hafi verið handtekinn skömmu síðar við Álfabakka í Reykjavík og fluttur á lögreglustöðinni í Kópavogi. Þar hafi kærði skýrt frá því að hafa tekið borvél, tvær tangir, hnífasett, töng, skrúfjárn og rykgrímu. Hann hafi svo hlaupið út úr versluninni án þess að greiða fyrir vörurnar. Hafi hann geymt vörurnar í tösku sem hann var með, hlaupið heim til sín að [...] og skilið vörurnar eftir þar inni í skáp, að undanskildum tveimur töngum sem hann hafi hent inn í runna. Kvað hann vin sinn hafa tekið vörurnar úr skápnum og falið á öðrum stað. Í kjölfarið hafi kærði heimilað húsleit í herbergi sínu nr. [...] að [...]. Við leitina hafi fundist hnífasett, töng og skrúfjárn í umræddum skáp og einnig hafi fundist á gólfi tvær nýjar axir sem kærði kvaðst einnig hafa stolið úr [...] áðan.
Hjá lögreglu séu til rannsóknar eftirgreind mál á hendur kærða sem varða brot gegn almennum hegningarlögum og öðrum refsilögum:
007-2015-[...]
Kærði sé grunaður um umferðarlagabrot, með því að hafa laugardaginn 25. apríl sl. ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti og óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist MDMA 415 ng/ml) um Kalkofnsveg í Reykjavík, sunnan við Hörpu, þar sem lögregla hafi stöðvað aksturinn.
007-2015-[...]
Kærði sé grunaður um þjófnað, með því að hafa þriðjudaginn 2. júní sl. í verslun [...], [...] í Reykjavík, stolið hátalara af gerðinni TDK A26 Bluetooth að verðmæti kr. 14.990 og að hafa sama dag í verslun [...], [...] í Reykjavík, stolið hátalara af gerðinni LG Music Flow H7 að verðmæti kr. 79.995. Náðst hafi upptaka af geranda í eftirlitsmyndavélakerfi verslananna, þar sem sjáist að X sé gerandi. Kærði hafi játað sök í þessu máli.
007-2015-[...]
Kærði sé grunaður um þjófnað í félagi við annan aðila, með því að hafa miðvikudaginn 3. júní sl. í verslun [...], [...], Reykjavík, stolið GoPro myndavél að verðmæti kr. 28.995 og heyrnartólum af gerðinni Beats Solo2 On-ear með míkrófón að verðmæti kr. 26.895. Náðst hafi upptaka af gerendum í eftirlitsmyndavélakerfi verslunarinnar, þar sem sjáist að X sé gerandi. Kærði hafi játað sök í þessu máli.
007-2015-[...]
Kærði sé grunaður um umferðarlagabrot, með því að hafa laugardaginn 13. júní sl. ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti og óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist MDMA 995 ng/ml og tetrahýdrókannabínól 1,7 ng/ml) austur Sæbraut í Reykjavík, við Katrínartún, þar sem lögregla hafi stöðvað aksturinn.
007-2015-[...]
Kærði sé grunaður um gripdeild, vopna- og fíkniefnalagabrot, með því að hafa þriðjudaginn 26. júní sl. í verslun [...], [...], Reykjavík, tekið ófrjálsri hendi vörur, samtals að verðmæti kr. 45.594 og gengið út úr versluninni án þess að greiða fyrir vörurnar og að hafa á sama tíma haft í vörslum sínum hnúajárn og fíkniefni sem lögreglumenn hafi fundið við leit á kærða. Kærði hafi játað sök í þessu máli.
007-2015-[...]
Kærði sé grunaður um þjófnað, með því að hafa þriðjudaginn 30. júní sl. í verslun [...], [...], Kópavogi, stolið vörum samtals að verðmæti kr. 2.024. Kærði hafi játað sök í þessu máli.
007-2015-[...]
Kærði sé grunaður um fíkniefnalagabrot, með því að hafa laugardaginn 11. júlí sl. að [...] í Kópavogi, haft í vörslum sínum 13,54 g af maríjúana, sem lögreglumenn hafi fundið við leit. Kærði hafi játað sök í þessu máli.
007-2015-[...]
Kærði sé grunaður um fíkniefnalagabrot, með því að hafa mánudaginn 3. ágúst sl., við Stekkjarbakka í Reykjavík, haft í vörslum sínum 0,23 g af maríjúana, sem lögreglumenn hafi fundið við leit á kærða.
007-2015-[...]
Kærði sé grunaður um þjófnað og fíkniefnalagabrot, með því að hafa þriðjudaginn 11. ágúst sl., í auðgunarskyni farið inn í bifreiðina [...] sem hafi staðið við [...] í Reykjavík, og stolið þaðan vegabréfi, seðlaveski og myndavélarlinsu sem var í eigu A, að óþekktu verðmæti. Lögregla hafi haft afskipti af kærða daginn eftir þar sem hann hafi verið farþegi í bifreið við [...] í Reykjavík. Við leit á honum hafi fundist skilríki í eigu A og fíkniefni. X hafi skýrt lögreglu frá því að restin af mununum sem hann hefði tekið væru í [...], þar sem munirnir síðan fundust. Samkvæmt A hafi allt komist til skila nema um 900 evrur. Kærði játi að hafa farið inn í bifreiðina og tekið þaðan veski, vegabréf og ljósmyndalinsu en kannist ekki við hafa tekið peninga.
007-2015-[...]
Kærði sé grunaður um þjófnað, með því að hafa fimmtudaginn 13. ágúst sl. í verslun [...], [...], Reykjavík, stolið tveimur dúnúlpum, samtals að verðmæti kr. 97.980. Við afskipti lögreglu af kærða þann 19. ágúst sl. hafi kærði framvísað jakka og úlpu frá [...] sem hann kvaðst hafa stolið fyrr í þessum mánuði.
007-2015-[...]
Kærði sé grunaður um þjófnað og vopnalagabrot, með því að hafa miðvikudaginn 19. ágúst sl., í verslun [...], [...], Kópavogi, stolið matvöru og drykkjarföngum, samtals að verðmæti kr. 2.172 og að hafa á sama tíma haft í vörslum sínum hníf. Kærði hafi játað í þessu máli.
Í gær hafi kærði verið handtekinn, en tilkynnt hefði verið um hann í verslun [...] í [...] (Bókun nr. 007-2015-[...]). Lögregla hafi gert húsleit í herbergi X að [...], herbergi [...]. Hald hafi verið lagt á töluvert magn af ætluðu þýfi og hafi kærði viðurkennt að eitthvað af mununum væru úr þjófnaðarmálum í [...], [...],[...] í [...] og sennilega fáeinir munir úr minjagripabúð á Laugavegi. Einnig hafi verið lagt hald á annan fatnað sem kærði kvað vera stolinn en gat ekki skýrt frá hvaðan hann hefði verið tekinn. Þá hafi einnig verið lagt hald á farsíma og utanáliggjandi harðan disk sem grunur er um að sé stolinn. Í kjölfarið hafi kærði verið yfirheyrður þar sem hann hafi skýrt frá því að frá því í byrjun mars og þangað til síðasta mánudag væri hann búinn að vera í mikilli neyslu, fyrir utan eina viku þegar hann var á Vogi í [...]. Kvaðst hann nota amfetamín, kannabis og sterk róandi læknalyf. Kvaðst kærði vera kominn í mjög mikla fíkniefnaskuld og honum hafi verið gert að stela til að borga skuldirnar sínar. Kærði kvaðst vera að reyna að komast í Krísuvík, en vildi hreinsa skuldirnar sínar áður en hann færi í meðferð svo að enginn væri á eftir honum eða fjölskyldu hans. Hafi kærði skýrt frá því að þeir aðilar sem hann skuldi láti hann fá lista með munum sem hann eigi að sækja.
Síðustu tvær vikur hafi kærði stolið mjög miklu. Kvaðst kærði telja að hann hafi stolið um 10 úlpum frá [...] á [...]. Borinn hafi verið undir kærða listi af munum sem lögregla hefði lagt hald á. Kærði kvaðst hafa stolið þremur sokkapörum úr versluninni [...] á [...], tvennum Everlast buxum úr [...] í [...], tveimur utanáliggjandi hörðum disk úr [...], þremur zippo kveikjurum úr minjagripaverslun á Laugavegi, þremur hreindýrasnögum úr [...] í [...], hallarmáli og Bosch skrúfvél úr [...] og jakka og úlpu úr [...] á Laugavegi. Kærði kvaðst hafa stolið þessum munum í síðustu viku. Kvaðst hann hafa stolið hluta af fatnaðnum því honum vantaði hann og hluta til að borga upp í skuld.
Kærði kvaðst skulda 700.000 krónur til fimm mismunandi aðila, en hann væri búinn að greiða 500.000 krónur af heildarskuldinni. Kvaðst hann hafa náð að gera það með því að stela og fá lánaðan pening frá fjölskyldumeðlimum.
Þegar kærði hafi verið handtekinn í morgun hafi fundist tvær stílabækur sem hann var með í tösku. Í þeim hafi verið nákvæmar lýsingar á þjófnuðum, þar sem ákveðið var hvar, hvenær og hverju ætti að stela, ásamt yfirliti yfir fíkniefnasölu og skuldalistar sem líklegast séu vegna fíkniefnakaupa. Í ljósi þessara upplýsinga og afskipta lögreglu af kærða síðustu daga sé það mat lögreglu að kærði sé stórtækur í þjófnaði á ýmsum vörum og fíkniefnamisferli og ljóst að hann gangi skipulega til verks.
Kærði hafi þann 27. febrúar sl. verið dæmdur í 4 mánaða fangelsi, skilorðbundið til tveggja ára fyrir fíkniefna-, umferðar- og hegningarlagabrot.
Með vísan til samfelldra brota kærða sé það mat lögreglustjóra að yfirgnæfandi líkur séu á því að kærði muni halda áfram brotastarfsemi fari hann frjáls ferða sinna.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og c.-liðar 1. mgr. 95. gr. laga 88/2008 um meðferð sakamál sé brýn nauðsyn að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi þar sem veruleg hætta sé á að kærði haldi áfram brotum sínum, enda séu brotin framin eins og að framan er rakið til þess að afla fjár og verðmæta til framfærslu fyrir kærða og til að greiða fyrir fíkniefni og fíkniefnaskuldir en kærði hafi lýst því að hann hafi misst tök á lífi sínu vegna mikillar fíkniefnaneyslu. Sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.
Niðurstaða:
Kærði er undir rökstuddum grun um að hafa gerst sekur um fjölmörg hegningarlagabrot frá því í lok apríl og fram til 19. ágúst þegar hann var handtekinn eftir að lögreglu barst tilkynning um þjófnað í versluninni [...] í [...]. Samkvæmt fyrirliggjandi lögregluskýrslum og svo sem rakið er í greinargerð lögreglu eru nú 13 mál frá ofangreindu tímabili til rannsóknar hjá lögreglu og varða þau þjófnað, gripdeild, fíkniefnabrot og umferðarlagabrot. Kærði hefur játað hluta þessara brota og heimilað lögreglu húsleit þar sem þýfi hefur fundist. Ætluð brot varða við 244. og 245. gr. almennra hegningarlaga, ákvæði laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, umferðarlaga nr. 50/1987 og ákvæði vopnalaga nr. 16/1998. Þá kemur fram í yfirheyrslu lögreglunnar af kærða að um fleiri brot kunni að hafi verið að ræða. Við brotum þessum liggur fangelsisrefsing sannist sök. Með vísan til framangreinds eru skilyrði 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 fyrir hendi fyrir því að kærði sæti gæsluvarðhaldi
Þann 27. febrúar sl. hlaut kærði fjögurra mánaða skilorðsbundin dóm til tveggja ára fyrir þjófnað, fíkniefnamisferli og umferðarlagabrot. Með ætluðum brotum nú hefur hann rofið skilyrði skilorðsins. Með hliðsjón af framangreindum brotaferli og þeim upplýsingum sem fram koma í skýrslum lögreglunnar af tilgangi kærða með brotunum og hve skipulögð þau virðast hafa verið, er fallist á það með lögreglunni að verulegar líkur séu á að kærði muni halda uppteknum hætti haldi hann óskertu frelsi. Er samkvæmt framansögðu fallist á að fyrir hendi séu skilyrði c-liðar 1. mgr. 95. gr. sakamálalaga til að kærði sæti gæsluvarðhaldi.
Verður krafa um gæsluvarðhald því tekin til greina eins og greinir í úrskurðarorði. Með hliðsjón af fjölda mála sem nú eru til rannsóknar og tilgangi varðhalds á grundvelli c-liðar 1. mgr. 95. gr. er ekki tilefni til að marka varðhaldinu skemmri tíma en krafist er.
Ingibjörg Þorsteinsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kærði, X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 17. september 2015 kl. 16:00.