Hæstiréttur íslands

Mál nr. 569/2016

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum (Guðmundur Þórir Steinþórsson fulltrúi)
gegn
X (Snorri Snorrason hdl.)

Lykilorð

  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
  • Útlendingur
  • Kærumál

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 7. mgr. 29. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Helgi I. Jónsson og Karl Axelsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. ágúst 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 9. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 6. ágúst 2016, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til laugardagsins 13. ágúst 2016 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að beitt verði vægari úrræðum.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar er fallist á að fyrir hendi séu rannsóknarhagsmunir til þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 7. mgr. 29. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga. Þegar af þeirri ástæðu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 6. ágúst 2016

                Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur í dag krafist þess að að erlendum aðila sem kveðst heita X og vera fæddur [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til laugardagsins 13. ágúst 2016, kl. 16.00. Til vara er þess krafist að honum verði gert að sæta farbanni til laugardagsins 13. ágúst 2016, kl. 16.00.

                Í greinargerð með kröfunni segir að lögreglan á Suðurnesjum hafi haft afskipti af kærða í dag, 6. ágúst, við vegabréfaskoðun á Keflavíkurflugvelli. Kærði hafi komið til landsins fyrr í dag og ætlað að halda áfram með flugi [...] til [...] í [...]. Hafi kærði framvísað við lögreglu [...] vegabréfi nr. [...] á nafni [...], f.d. [...], með gildistíma [...].

                Grunur hafi vaknað hjá lögreglu um að kærði væri ekki lögmætur handhafi vegabréfsins. Hafi kærði því verið tekinn til nánari skoðunar á landamærum. Skilríkjasérfræðingur lögreglu hafi rannsakað persónuskilríki kærða og sé niðurstaða þeirrar rannsóknar að kærði sé ekki lögmætur handhafi vegabréfsins og að það sé breytifalsað, þ.e. falsað að hluta. Hið sama hafi átt við um kennivottorð sem kærði hafi framvísað í kjölfarið. Við athugun í kerfum lögreglu hafi komið í ljós að vegabréfið hafði verið tilkynnt stolið. Í kjölfar þessa hafi kærða verið kynnt að hann væri handtekinn grunaður um misnotkun skjals og hann vistaður á lögreglustöðinni við Hringbraut í þágu rannsóknar málsins.

Samkvæmt framansögðu og með vísan til gagna málsins telji lögreglustjóri sig hafa rökstuddan grun um að kærði hafi með háttsemi sinni, þ.e. að framvísa vegabréfi annars manns, gerst sekur um brot á 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Rannsókn málsins sé á frumstigi. Lögregla hafi engar upplýsingar um hver kærði er, utan upplýsinga frá honum sjálfum, sem engin staðfesting liggi fyrir um að séu réttar. Ekkert hafi fundist í fórum kærða sem vísbendingu geti gefið um persónu hans. Fyrir liggi að afla þurfi upplýsinga erlendis frá um kærða. Tekin hafi verið fingraför og myndir af kærða og sé unnið að því í samstarfi við alþjóðadeild ríkislögreglustjóra að afla nánari upplýsinga um kærða. Sé unnið að því í fyrsta lagi að upplýsa hver kærði sé og í öðru lagi að kanna nánar hvernig tilhögun ferðar hans var, í hvaða tilgangi og á hvers vegum. Sé þannig framundan gagnaöflun á erlendri grundu og telji lögregla jafnframt þörf á að kanna brotaferil kærða erlendis. Sé í þessu sambandi vísað m.a. til dóma Hæstaréttar Íslands í málum nr. 529/2012 og 558/2012.

Að framansögðu telji lögreglustjóri nauðsynlegt að kærði sæti gæsluvarðhaldi á meðan mál hans er til rannsóknar hjá lögreglu. Telji lögregla að kærði kunni að torvelda rannsókn málsins gangi hann laus, ellegar reyna að komast úr landi, leynast eða koma sér með öðrum hætti undan málssókn eða fullnustu refsingar.

Með vísan til alls framangreinds, gagna málsins, a- og b-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og 7. mgr. 29. gr. laga um útlendinga nr. 96/2002, sbr. lög nr. 86/2008, krefjist lögreglustjóri þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til laugardagsins 13. ágúst 2016, kl. 16:00. Til vara sé þess krafist að honum verði gert að sæta farbanni allt til laugardagsins 13. ágúst 2016, kl. 16:00.

Kærði er undir rökstuddum grun um að hafa við komu til landsins fyrr í dag framvísað við lögreglu vegabréfi annars manns, sem samkvæmt skráningu í kerfum lögreglu hafði verið tilkynnt stolið. Einnig leikur grunur á um að vegabréfið sé falsað að hluta til, þ.e. breytifalsað. Rökstuddur grunur er því um að kærði gefi rangar upplýsingar um hver hann er, en engin gögn liggja fyrir um hver kærði er í raun og veru. Kærði hefur mótmælt því að vegabréfið sé falsað. Með hliðsjón af framangreindu eru fyrir hendi rannsóknarhagsmunir til þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, sbr. og 7. mgr. 29. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga. Þá er kærði erlendur ríkisborgari sem ekki virðist eiga nein tengsl við landið, en hætta þykir á að kærði muni reyna að komast úr landi eða leynast og koma sér þannig undan málsókn eða fullnustu refsingar gangi hann laus. Eru því einnig fyrir hendi skilyrði b-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála til að verða við kröfu lögreglustjóra um að kærði sæti gæsluvarðhaldi eins og krafist er.

Úrskurð þennan kveður upp Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari.

Úrskurðarorð:

                Kærði, sem kveðst heita X, sæti gæsluvarðhaldi til laugardagsins 13. ágúst 2016 kl. 16:00.