Hæstiréttur íslands

Mál nr. 347/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Kröfugerð
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi


                                     

Miðvikudaginn 5. júní 2013.

Nr. 347/2013.

Kaupþing hf.

(Ólafur F. Haraldsson hrl.)

gegn

Brit Insurance Limited

Great Lakes Reinsurance (UK) Plc

Chubb Insurance Company of Europe SE

Aspen Insurance UK Limited

Axis Specialty Europe Limited

Markel Capital Limited

Chaucer Corporate Capital (No 2) Limited

Argo (No 604) Limited

QBE Corporate Limited

Catlin Syndicate Limited

Antares Underwriting Limited og

Alterra Corporate Capital 2 Limited

(Jón Ögmundsson hrl.)

Kærumál. Kröfugerð. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli K hf. gegn B o.fl. var vísað frá dómi. B. o.fl. höfðu veitt K hf. ábyrgðartryggingu og höfðaði K hf. málið til að krefjast viðurkenningar þess að B o.fl. væri skylt að selja sér svokallaðan tilkynningarfrest gegn greiðslu á iðgjaldi í samræmi við skilmála sem um vátrygginguna giltu Í dómi Hæstaréttar kom fram að þegar leitað væri viðurkenningardóms væri ekki þörf á að tilgreina með eins afdráttarlausum hætti gagngjald úr hendi stefnanda á móti því að stefndi leysti af hendi tiltekna skyldu. Kom því ekki að sök þótt hluti kröfugerðar K hf. lyti að því að viðurkennt yrði að gegn því að krafa hans á hendur B o.fl. yrði tekin til greina tæki K hf. á sig skyldu til að inna af hendi til B o.fl. greiðslu á iðgjaldi í samræmi við tilteknar greinar í vátryggingarskilmálunum án þess að tiltekin væri fjárhæð iðgjaldsins. Var hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. maí 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. maí 2013, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Atvikum málsins er skilmerkilega lýst í hinum kærða úrskurði. Eins og þar kemur fram gerði sóknaraðili þá aðalkröfu á hendur varnaraðilum að viðurkennt yrði að þeim væri skylt að selja sér „36 mánaða tilkynningafrest“ í samræmi við ákveðnar greinar í nánar greindum vátryggingarskilmálum „gegn greiðslu á iðgjaldi í samræmi við grein A4 í kafla 3 í vátryggingarskilmálunum.“ Til vara hafði sóknaraðili uppi þá kröfu að viðurkennt yrði að varnaraðilum væri skylt að selja sér „allt að 72 mánaða tilkynningafrest“ í samræmi við ákveðna grein í sömu vátryggingarskilmálum „gegn greiðslu á iðgjaldi í samræmi við grein A8 í kafla 3 í vátryggingarskilmálunum.“ Varnaraðilar kröfðust þess að málinu yrði vísað frá héraðsdómi og er gerð grein fyrir málsástæðum þeirra fyrir frávísunarkröfunni í hinum kærða úrskurði.

Eins og framangreind kröfugerð sóknaraðila ber með sér hefur hann nýtt sér heimild 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 til að leita viðurkenningardóms um kröfur sínar í stað þess að leita um þær dóms sem fullnægja mætti með aðför. Fallist er á með sóknaraðila að hann hafi lögvarða hagsmuni af úrlausn þess álitaefnis hvort fullnægt sé skilyrðum umræddra vátryggingarskilmála til kaupa á tilkynningarfresti af varnaraðilum, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 14. febrúar 2013 í máli nr. 390/2012.

Ákvæði 4. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991, sem vísað er til í hinum kærða úrskurði, horfa öðru vísi við þegar stefnandi leitar viðurkenningardóms í stað aðfararhæfs dóms, þar á meðal er í því tilviki ekki þörf á að tilgreina með eins afdráttarlausum hætti gagngjald úr hendi hans á móti því að stefndi leysi af hendi tiltekna skyldu. Vegna þess hvers eðlis kröfugerð sóknaraðila er kemur því ekki að sök þótt hluti af henni lúti að því að viðurkennt verði að gegn því að krafa hans á hendur varnaraðilum verði tekin til greina taki hann sjálfur á sig skyldu til að inna af hendi til varnaraðila greiðslu á iðgjaldi í samræmi við tilteknar greinar í vátryggingarskilmálunum án þess að tiltekin sé fjárhæð iðgjaldsins.

Með vísan til þessa fullnægja kröfur sóknaraðila áskilnaði laga nr. 91/1991 um ákveðna og ljósa kröfugerð. Samkvæmt því verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

Varnaraðilar verða dæmdir til að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir. 

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

Varnaraðilar, Brit Insurance Limited, Great Lakes Reinsurance (UK) Plc, Chubb Insurance Company of Europe SE, Aspen Insurance UK Limited, Axis Specialty Europe Limited, Markel Capital Limited, Chaucer Corporate Capital (No 2) Limited, Argo (No 604) Limited, QBE Corporate Limited, Catlin Syndicate Limited, Antares Underwriting Limited og Alterra Corporate Capital 2 Limited, greiði óskipt sóknaraðila, Kaupþingi hf., 300.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. maí 2013.

Mál þetta, sem var þingfest 6. september 2011, er höfðað 28. júní 2011.

Stefnandi er Kaupþing banki hf. kt. 560882-0419, Borgartúni 26, Reykjavík.

Stefndu eru Brit Insurance Limited, 55 Bishopsgate, London, EC2N 3AS, Great Lakes Reinsurance (UK) Plc., Plantation Place, 30 Fenchurch Street, London, EC3M 3AJ, Bretlandi, Chubb Insurance Company of Europe SE, 106 Fenchurch Street, London, EC3M 5JB; Aspen Insurance UK Limited, 30 Fenchurch Street, London, EC3M 3BD, Bretlandi; AXIS Specialty Europe Limited, 4th Floor, Plantation Place South, 60 Great Tower Street, London, EC3R 5AZ, Bretlandi, svo og eins og segir í stefnu tiltekin samtök vátryggjenda Lloyd‘s sem stefnandi segir að tilgreina beri sem stefndu með eftirfarandi hætti: Markel Capital Limited sem eina meðliminn í samtökum 3000 (Syndicate 3000) fyrir reikningsárið 2007 (for the 2007 year of account), Markel Syndicate Management Limited, The Markel Building, 49 Leadenhall Street, London, EC3A 2EA, Bretlandi; Chaucer Corporate Capital (No 2) Limited sem eina meðliminn í samtökum 1084 (Syndicate 1084) fyrir reikningsárið 2007 (for the 2007 year of account), Chaucer Syndicates Limited, Plantation Place, 30 Fenchurch Street, London, EC3M 3AD, Bretlandi; Argo (No 604) Limited sjálft og fyrir hönd allra annarra meðlima í samtökum 3245 (Syndicate 3245) fyrir reikningsárið 2007 (for the 2007 year of account), Argo Managing Agency Limited, Exchequer Court, 33 St Mary Axe, London, EC3A 8AA, Bretlandi; Chaucer Corporate Capital (No 2) Limited sjálft og fyrir hönd allra annarra meðlima í samtökum 4000 (Syndicate 4000) fyrir reikningsárið 2007 (for the 2007 year of account), Chaucer Syndicates Limited, Plantation Place, 30 Fenchurch Street, London, EC3M 3AD, Bretlandi; QBE Coprorate Limited sem eina meðliminn í samtökum 1886 (Syndicate 1886) fyrir reikningsárið 2008 (for the 2008 year of account), QBE Underwriting Limited, Plantation Place, 30 Fenchurch Street, London, EC3M 3BD, Bretlandi; Catlin Syndicate Limited sem eina meðliminn í samtökum 2003 (Syndicate 2003) fyrir reikningsárið 2008 (for the 2008 year of account), Catlin Underwriting Agencies Limited, 20 Gracechurch Street, London, EC3V 0BG, Bretlandi; Antares Underwriting Limited sem eina meðliminn í samtökum 1274 (Syndicate 1274) fyrir reikningsárið 2008 (for the 2008 year of account), Antares Managing Agency Limited, 10 Lime Street, London, EC3M 7AA, Bretlandi; Alterra Corporate Capital 2 Limited sjálft og fyrir hönd allra annarra meðlima í samtökum 1400 (Syndicate 1400) fyrir reikningsárið 2007 (for the 2007 year of account), Alterra At Lloyd’s Limited, 70 Gracechurch Street, London, EC3V 0XL, Bretlandi; QBE Corporate Limited sjálft og fyrir hönd allra annarra meðlima í samtökum 386 (Syndicate 386) fyrir reikningsárið 2007 (for the 2007 year of account), QBE Underwriting Limited, Plantation Place, 30 Fenchurch Street, London, EC3M 3BD, Bretlandi

Stefnandi gerir eftirfarandi dómkröfur:

Aðallega að viðurkennt verði að stefndu sé skylt að selja stefnanda 36 mánaða tilkynningarfrest í samræmi við greinar A3 og A4 í kafla 3 í vátryggingarskilmálum tryggingar stefnanda, sem ber heitið Directors‘ and Officers‘ Liability Insurance (frumtrygging nr. WB 103500X og aukatrygging nr. WB 103501X), með gildistíma frá 1. apríl 2008 til 1. apríl 2009, gegn greiðslu á iðgjaldi í samræmi við grein A4 í kafla 3 í vátryggingarskilmálunum.

Til vara að viðurkennt verði að stefndu sé skylt að selja stefnanda allt að 72 mánaða tilkynningarfrest í samræmi við grein A8 í kafla 3 í vátryggingarskilmálum tryggingar stefnanda, sem ber heitið Directors‘ and Officers‘ Liability Insurance (frumtrygging nr. WB 103500X og aukatrygging nr. WB 103501X), með gildistíma frá 1. apríl 2008 til 1. apríl 2009, gegn greiðslu á iðgjaldi í samræmi við grein A8 í kafla 3 í vátryggingarskilmálunum.

Þá krefst stefnandi þess að honum verði dæmdur málskostnaður að skaðlausu in solidum úr hendi stefndu, auk virðisaukaskatts á dæmdan málskostnað.

Stefndu gera eftirfarandi dómkröfur:

Aðallega að málinu verði vísað frá dómi.

Til vara að stefndu verði sýknaðir af kröfum stefnanda í máli þessu.

Stefndu krefjast þess enn fremur að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefndu málskostnað samkvæmt mati réttar og/eða framlögðum málskostnaðarreikningi auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

Máli þessu var vísað sjálfkrafa frá dómi með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 2. janúar sl. þar sem m.a. var til úrlausnar hvort málið sætti frávísun án kröfu eða kröfu stefndu. Með dómi Hæstaréttar sem kveðinn var upp 27. febrúar 2013 í máli nr. 53/2013 var úrskurðurinn felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til löglegrar meðferðar. Í dómi Hæstaréttar segir m.a.: „Með úrskurðinum var málinu vísað frá héraðsdómi, án þess að fjallað yrði um frávísunarástæður stefndu eða niðurstaðan á þeim reist ... Er hinn kærði úrskurður til endurskoðunar um þær ástæður, sem frávísunin er reist á.“ Þegar málið var tekið fyrir 15. mars sl. í Héraðsdómi Reykjavíkur var ákveðið að málið yrði flutt að nýju um frávísunarkröfu stefndu. Munnlegur flutningur um það var ákveðinn 5. apríl sl. og að honum loknum var málið tekið til úrskurðar. Hér er því til úrlausnar hvort málið sæti frávísun að kröfu stefndu, sbr. 2. mgr. 100. gr. laga nr. 91/1991.

Í þessum þætti málsins gera stefndu þá kröfu að málinu verði vísað frá dómi og krefjast málskostnaðar að skaðlausu en til vara að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu. Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfu stefndu verði hafnað. Jafnframt krefst hann málskostnaðar vegna þessa þáttar málsins samkvæmt mati dómsins.

I

Dómkröfur stefnanda eru byggðar á ábyrgðartryggingu stjórnenda, sem hann keypti af stefndu, fyrir milligöngu vátryggingarmiðlunarinnar Howden Insurance Brokers Ltd. (Howden). Um er að ræða frumtryggingu nr. WB 103500 X og viðbótartryggingu nr. WB 103501 X. Gildistími vátryggingar var frá 1. apríl 2008 til 1. apríl 2009.

Fjármálaeftirlitið tók yfir vald hluthafafundar stefnanda 9. október 2008 og nýr banki, Nýja Kaupþing hf., var stofnaður 21. október 2008 sem tók yfir hluta af starfsemi stefnanda. Með bréfi dagsettu 1. desember 2008 tilkynntu stefndu að vernd samkvæmt tilteknum vátryggingum bankans hefði lokið í kjölfar yfirtöku Fjármálayfirlitsins. Í stefnu er lýst samskiptum stefnandi við vátryggingarmiðlarann Howden fyrir hönd stefndu í kjölfar þessa.

Málatilbúnaður stefnanda er m.a. byggður á því að samkvæmt vátryggingarskírteini nái tryggingin til Kaupþings og Búnaðarbanka Íslands hf., svo og dótturfélaga sem séu að minnsta kosti í helmings eigu viðkomandi banka. Áhættan vegna tryggingarinnar dreifist á stefndu í ákveðnum hlutföllum. Samkvæmt 1 kafla í vátryggingarskilmála sé ljóst að stefndu taki m.a. að sér að greiða fyrir hönd stjórnarmanna og yfirmanna tjón vegna óréttmætra athafna þeirra í skilningi tryggingarinnar hvort sem er gagnvart þriðja manni eða bankanum sjálfum, svo og að greiða fyrir hönd stefnanda tjón vegna óréttmætra athafna ef bankanum er heimilt eða skylt að halda stjórnarmönnum eða yfirmönnum skaðlausum.

Um er að ræða svokallaða kröfugerðartryggingu. Í því felst að tilkynna verður um tjónsatvik á meðan vátryggingin er enn í gildi en eftir það tímamark innan tilkynningarfrests samkvæmt skilmálum hennar. Í stefnu er því lýst að samkvæmt grein A1 í kafla 3 sé vátryggingartaka sjálfkrafa veittur 30 daga tilkynningarfrestur án viðbótarkostnaðar sé vátryggingin ekki endurnýjuð. Þá eigi vátryggður rétt á að kaupa viðbótar tilkynningarfrest í samræmi við sama ákvæði og hafi vátryggingartaki þá lengri tíma til að skila inn tilkynningum vegna krafna sem njóti þá vátryggingarverndar.

Málatilbúnaður stefnanda er byggður á því að „skrifleg tilkynning“ um kaup á 36 mánaða viðbótartilkynningarfresti hafi borist stefndu innan 30 daga frá lokum vátryggingartíma í samræmi við grein A4 í kafla 3 í vátryggingarskilmálum. Þannig hafi beiðnin verið sett fram með skriflegum hætti í tölvupósti Howden til vátryggjenda þann 27. mars 2009 og því innan 30 daga frá lokum vátryggingartíma og því innan þeirra tímamarka sem gert sé ráð fyrir í ákvæðinu. Ákvæðið geri einnig ráð fyrir því að iðgjaldið hafi verið greitt en stefnandi byggir á því að ómögulegt hafi verið að greiða iðgjaldið þar sem stefndu hafi ekki fengist til þess að staðfesta rétt stefnanda til að kaupa umræddan frest og hafi ekki sent reikning fyrir iðgjaldinu eða veitt nokkrar upplýsingar um fjárhæð iðgjaldsins.

Í kjölfar þess að stefnandi hafi tilkynnt um nýtingu réttar til að kaupa 36 mánaða viðbótar tilkynningarfrest hafi hann ítrekað óskað eftir staðfestingu stefndu á réttindum, sbr. bréf, dags. 30. júní 2009 og 18. nóvember 2009. Stefndu hafi neitað að veita slíka staðfestingu og vísað til óvissu um það hvort samruna/yfirtökuákvæði vátryggingarskilmála ætti við, sbr. bréf, dags. 1. september 2009 og 15. janúar 2010. Stefnandi hafi í samræmi við þetta ekki fengið reikning frá vátryggjendum vegna greiðslu iðgjalds fyrir tilkynningarfrestinn, sbr. grein A4 í kafla 3 í vátryggingarskilmálum, og því ekki haft færi á að inna greiðslu af hendi, þrátt fyrir sannanlegan greiðsluvilja stefnanda þar að lútandi.

Stefnandi hafi ætíð verið reiðubúinn að greiða iðgjald vegna kaupa á tilkynningarfresti í samræmi við vátryggingarskilmála. Þar sem stefndu hafi hvorki staðfest rétt stefnanda til kaupa á tilkynningarfresti né sent upplýsingar til að unnt væri að inna greiðslu af hendi, s.s. um fjárhæð greiðslu og greiðslustað, hafi stefnandi sent stefndu bréf þann 11. nóvember 2009. Þar hafi verið lögð áhersla á framkomna beiðni stefnanda um kaup á tilkynningarfresti og vilja bankans til að greiða iðgjald í samræmi við vátryggingarskilmála. Í samræmi við það hafi verið óskað upplýsinga um fjárhæð iðgjaldsins og greiðslustað. Vátryggjendur hafa ekki enn brugðist við þessari beiðni stefnanda.

Þannig hafi stefndu ekki verið reiðubúnir að endurnýja trygginguna, þeir hafi ekki fengist til að staðfesta rétt stefnanda til að kaupa umræddan tilkynningarfrest og heldur ekki veitt upplýsingar um hvernig inna bæri greiðslu af hendi. Þessu geti stefnandi ekki unað, enda hafi hann verulega fjárhagslega hagsmuni af því að fá staðfestan rétt sinn til að kaupa viðbótartilkynningarfrest. Stefnandi eigi kröfur á hendur stjórnendum og/eða starfsmönnum bankans sem falli undir trygginguna. Hann hafi sent vátryggjendum tilkynningar vegna þessa innan þess viðbótar tilkynningarfrests, sem hann krefst viðurkenningar á, bæði samkvæmt aðal- og varakröfu.

Stefnandi hafi því verulega hagsmuni af því að slíkur réttur verði viðurkenndur enda sé ljóst að fjöldi krafna hafi komið fram upp á síðkastið sem geti fallið undir trygginguna sem of seint sé að tilkynna nema stefnanda verði heimilað að kaupa viðbótartilkynningarfrest.

Stefnandi telur að fullnægt sé öllum skilyrðum fyrir kaupum á viðbótartilkynningarfresti. Dómkröfur hans eru aðallega byggðar á því að stefndu sé skylt að selja honum 36 mánaða tilkynningarfrest í samræmi við greinar A3 og A4 í kafla 3 í vátryggingarskilmálum gegn greiðslu á iðgjaldi í samræmi við grein A4 í kafla 3 í vátryggingarskilum. Verði aðalkröfu stefnanda hafnað á þeim grundvelli að samruna/yfirtökuákvæðið í grein B í kafla 7 eigi við byggir stefnandi á því að ákvæði greinar A8 í kafla 3 mæli fyrir um það með skýrum hætti að stefnandi eigi ótvíræðan rétt til að óska eftir tilboði frá vátryggjendum til kaupa á allt að 72 mánaða viðbótar tilkynningarfresti í samræmi við skýrt orðalag ákvæðis. Ekki sé tímabært að gera beina kröfu um að stefndu geri tilboð á grundvelli greinar A8 í kafla 3 í vátryggingarskilmálum, fyrr en úr því hefur verið skorið hvort samruna/yfirtökuákvæðið eigi við, og sé krafan því sett fram til vara. Verði því að líta svo á að skilyrði ákvæðisins um að stefnanda sé heimilt að óska eftir tilboði frá vátryggjendum geti fyrst orðið virkt þegar það liggi fyrir með afdráttarlausum hætti, hvort sem er frá stefndu eða fyrir atbeina dómstóla, hvort samruna/yfirtökuákvæðið eigi við í þessu máli.

Um lagarök vísar stefnandi til laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga og meginreglna vátryggingaréttar, þar á meðal um túlkun vátryggingarsamninga. Þá vísast til meginreglna samningaréttar um skuldbindingargildi samninga. Um heimild til þess að höfða viðurkenningarmál er vísað til 2. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Krafan um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

Krafa stefndu um sýknu er í fyrsta lagi byggð á aðildarskorti. Stefnandi hafi ekki beina hagsmuni af mögulegri framlengingu á tilkynningarfresti, heldur séu stjórnarmenn og yfirmenn stefnenda einu aðilarnir sem geti gert kröfu um framlengingu á tilkynningarfresti eigi þeir réttmæta kröfu. Vátryggingin sé sett til hagsbóta fyrir stjórnendur og yfirmenn en ekki stefnanda sem sé vátryggingartaki. Stefnandi eigi ekki þá hagsmuni sem hann haldi fram í stefnu. Í öðru lagi krefjast stefndu sýknu á grundvelli meginreglna samninga- og kröfuréttar. Samningur um stjórnendaábyrgðartrygginguna sé ógildur vegna ófullnægjandi og rangrar upplýsingargjafar stefnanda við töku tryggingarinnar sem og vegna þess að stefnandi veitti mikilvægar upplýsingar sem hefði átt að gefa við töku tryggingarinnar eða síðar er þær hafi komið í ljós. Í þriðja lagi byggja stefndu á því ef ekki verður fallist á að samningurinn sé ógildur á grundvelli meginreglna samninga- og kröfuréttar eða ákvæða laga nr. 7/1936 að ábyrgð þeirra samkvæmt vátryggingarsamningnum hafi fallið niður vegna vanrækslu stefnanda á upplýsingaskyldu sinni á grundvelli laga um vátryggingarsamninga nr. 30/2004. Í fjórða lagi er á því byggt að vátryggingarsamningnum hafi verið rift. Í fimmta lagi að honum hafi verið sagt upp. Í sjötta lagi byggja stefnu sýknukröfu sína á því að skilyrði ákvæða A.3 og A.4. í III. kafla vátryggingarskilmálanna sé ekki fullnægt og af þeim sökum eigi stefnandi ekki rétt á að kaup tilkynningarfrest samkvæmt nefndum ákvæðum. Því sé ekki unnt að viðurkenna skyldu til sölu á slíkum fresti. Það sé ófrávíkjanlegt skilyrði samkvæmt skilmálunum að vátryggjandi neiti að bjóða endurnýjun á vátryggingarskilmálunum og að skrifleg tilkynning um kaupin sem og greiðsla viðbótariðgjalds berist innan 30 daga frá lokum vátryggingartímans. Ekkert þessara skilyrða hafi verið uppfyllt af hálfu stefnanda. Þá hafi stefnandi aldrei greitt viðbótariðgjald fyrir viðbótartilkynningarfrest, svo sem gert er að skilyrði í gr. III.A.4 í skilmálum stjórnendatryggingarinnar fyrir kaupum á slíkum fresti. Því hafi engin kaup farið fram. Stefnandi hafi fyrst boðið fram greiðslu með bréfi 11 tæpum sjö mánuðum eftir að tímafresti til þess lauk. Stefndu mótmæla sérstaklega sem rangri fullyrðingu stefnanda í stefnu að stefnanda hafi verið „ómögulegt“ að inna greiðslu viðbótariðgjalds af hendi. Skilmálar vátryggingarinnar í nefndri gr. III. A.4 séu skýrir. Þeir kveði á um skriflega tilkynningu innan tímafrests, um greiðslu iðgjalds og viðmið þess. Þeir feli ekki í sér skilyrði um útgáfu reiknings eða að iðgjald greiðist að gefnum ákveðnum forsendum eða atvikum. Stefnandi hafi haft öll gögn tiltæk, m.a. vátryggingarskilmálana, og hann hefði einnig getað leitað til vátryggingarmiðlara síns um nefndar upplýsingar. Í sjöunda lagi styðja stefndu sýknukröfu á þeim grunni að skilyrði fyrir virkjun og beitingu yfirtöku- og samrunaákvæðis vátryggingarinnar séu fyrir hendi og hafi stefnandi átt rétt á að kaupa viðbótartilkynningarfrest hafi sá réttur fallið niður þegar ákvæði greinar B í III. kafla vátryggingarskilmálanna um samruna og yfirtöku hafi orðið virkt. Ákvæði kveði með skýrum hætti á um að stefnanda standi ekki til boða að kaupa viðbótartilkynningarfrest eftir að samruna- og yfirtökuákvæðið hafi orðið virkt.

Þá er varakröfu stefnanda alfarið mótmælt, einkum með vísan til framangreindra málsástæðna. Að auki benda stefndu þó á að samkvæmt gr. III.A.8 í skilmálunum getur stefnandi hins vegar eingöngu óskað eftir tilboði frá stefndu um viðbótartilkynningarfrest í allt að 72 mánuði ef ákvæði gr. VII.B um samruna og yfirtökur á við. Dómkrafa stefnanda snúi að því að stefndu sé skylt að selja stefnanda allt að 72 mánaða tilkynningarfrest í samræmi við gr. III.A.8 í vátryggingarskilmálum stjórnendaábyrgðartryggingarinnar. Ákvæðið feli þess vegna í fyrsta lagi eingöngu í sér viljayfirlýsingu aðila þess efnis að stefnandi geti óskað tilboðs frá stefndu en ekki sé lögð nein skylda á stefndu að ganga til samninga við stefnanda, hvort heldur sé á fyrir fram ákveðnum forsendum eða ekki. Í öðru lagi geri umrætt ákvæði það að skilyrði að kröfu um viðbótartilkynningarfrest þurfi að hafa uppi innan 30 daga frá lokum vátryggingartímabilsins. Óumdeilt sé í máli þessu sbr. stefnu að stefnandi hafði slíkan áskilnað í fyrsta skipti frammi 18. nóvember 2009, tæpum átta mánuðum eftir að vátryggingartímabilinu lauk. Því verði að sýkna stefndu af varakröfu stefnanda. Verði talið að stefndu eigi rétt á að óska eftir tilboði samkvæmt ákvæðum skilmálanna verði engu að síður að sýkna stefndu af varakröfu stefnanda sem snúi að skyldu til að selja. Í ákvæði gr. III.A.8 sé engin slík skylda. Þar komi hins vegar fram að iðgjald vegna slíks tilkynningarfrests, skilmálar þess og skilyrði skuli vera í samræmi við það sem vátryggjendur af sanngirni kunna að ákveða. Það sé því stefndu að ákvarða iðgjald, skilmála og skilyrði viðbótarfrestsins og er dómkrafa stefnanda ekki í samræmi við það. Ljóst sé að ekki einvörðungu sú alvarlega háttsemi stefnanda sem líst er hér að framan, heldur og hin gjörólíka staða sem stefnandi sé í nú samanborið við stöðu stefnanda við töku tryggingarinnar leiði til þess að stefndu gætu ekki boðið tryggingu á ásættanlegum kjörum. Þá yrði hvers konar boð um viðbótartilkynningarfrest háð fyrirvörum sem myndu létta allri ábyrgð af stefndu vegna þess tjóns sem búast má við að stefnandi hyggist tilkynna, s.s. í tengslum við fall bankans. Iðgjaldið yrði jafnframt eðli máls samkvæmt afar hátt. Enga umfjöllun sé að finna í stefnu um hvort stefnandi sé tilbúinn að ganga að hvers kyns skilmálum og iðgjöldum eða þeim skilyrðum sem stefndu myndu leggja fram væri þeim gert skylt að selja stefnanda viðbótartryggingu. Dómkrafa hans sé því í engu samræmi við ákvæði skilmálanna og verði því að sýkna stefndu af kröfunni.

Um helstu lagarök vísa stefndu til ákvæða laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, einkum 30. gr., 33. gr. og 36. gr. sem og almennra óskráðra reglna samninga- og kröfuréttar, þ.m.t. sjónarmið um brostnar forsendur og ógildi löggerninga. Enn fremur til laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga, einkum ákvæða 2. mgr. 3. gr. og 15., 19., 20., 21., 27., og 28. gr. laganna. Stefndu vísa einnig til laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, einkum, 84., 86., og 100. gr. a, laga nr. 125/2008 um sérstakar aðstæður á fjármálamarkaði, almennra hegningarlaga nr. 19/1940, laga nr. 180/2007 um verðbréfaviðskipti, laga nr. 2/1995 um hlutafélög, laga nr. 30/2003 um verðbréfasjóði o.fl., laga nr. 142/2008 um rannsóknarnefnd Alþingis og laga nr. 135/2008 um embætti sérstaks saksóknara. Um málskostnaðarkröfu vísast til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

II

Stefndu byggja frávísunarkröfu sína í fyrsta lagi á því að kröfugerð stefnanda fullnægi ekki skilyrðum laga um meðferð einkamála nr. 90/1991 þar sem um lögspurningu sé að ræða. Með kröfugerðinni sé stefnandi eingöngu að óska álits dómsins, að því er varðar tiltekin réttindi á grundvelli ákvæða vátryggingarskilmála. Úrlausn dómstóla um viðkomandi réttindi sé hins vegar ekki nauðsynleg til úrlausnar á ákveðinni dómskröfu enda hafi stefnandi hvorki gert beina kröfu á stjórnendur og yfirmenn né stefndu á grundvelli tryggingarinnar.

Þannig feli framlagðar tilkynningar stefnanda til Howden frá 13. júlí 2010 aðeins í sér tilkynningar um atvik, sem hugsanlega gætu varðað bótaskyldu en ekki ákveðna kröfu undir stjórnendatryggingunni líkt og tiltekið sé í tilkynningunum. Hér verði að hafa í huga að skilmálar vátryggingarinnar snúi að kröfum á stjórnarmenn og yfirmenn. Tryggingin geri greinarmun á beinum kröfum sbr. gr. VI.A.1.(1) og tilkynningum um fyrirætlanir um kröfugerð eða atvikum sem kunni að leiða til kröfugerðar sbr. gr. VI.A.1.(2) og VI.A.1.(3). Í hinum síðarnefndu tilvikum sé gert ráð fyrir að þeim sé fylgt eftir með kröfu síðar og því ekki um eiginlega kröfu að ræða á þeim tímapunkti. Stefnandi hafi því aðeins tilkynnt um möguleg tjónsatvik á grundvelli fyrrnefndra ákvæða en ekki gert beina kröfu. Tilkynning um atvik, sem ekki leiði til tjóns, vegna krafna samkvæmt vátryggingunni leiði ekki til neinnar skyldu af hálfu stefndu. Auk þess hafi stefnandi ekki sýnt fram á að honum beri eða hafi borið að halda stjórnendum skaðlausum af slíkri kröfu. Stefnandi hafi þannig ekki sýnt fram á að líklegt verði að teljast að hann hafi orðið fyrir fjártjóni sem sé forsenda þess að viðurkenningarkrafa sé dómtæk.

Stefndu segja að stefnandi sé í raun að leita álits dómsins um það hvort tiltekin atvik hafi átt sér stað er varði möguleg kaup á tilkynningarfresti samkvæmt fyrrnefndum vátryggingarskilmálum. Af lýsingu stefnanda á samskiptum við lögmenn stefndu, hluta stefndu, sem og vátryggingarmiðlara stefnanda, virðist sem stefnandi sé að óska staðfestingar dómsins á því að ákveðin atvik hafi átt sér stað í samskiptum þessara aðila, sem leiði til tiltekinnar réttarstöðu stefnanda og stefndu. Álitsbeiðni þessi sé ekki nauðsynleg til úrlausnar um ákveðna dómkröfu með vísan til þess sem fyrr sagði. Í báðum tilvikum sé um að ræða framsetningu viðurkenningarkröfu sem ekki fái staðist skilyrði 1. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

Í öðru lagi byggja stefndu frávísunarkröfu sína á því að stefnandi hafi ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Reifun stefnanda á hagsmunum sínum af úrlausn málsins sé takmörkuð en eingöngu stuttlega vísað til þess í stefnu að stefnandi telji sig mögulega eiga kröfur gegn stjórnarmönnum og/eða yfirmönnum stefnanda, sem geti átt undir trygginguna og hafi því fjárhagslega hagsmuni af niðurstöðu í málinu. Stefndu telji hins vegar fyrrgreindar tilkynningar, sem byggi á tilteknum atvikum og greint sé frá í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, ekki fullnægjandi tilgreiningu á kröfu og þar með sennilegu fjártjóni stefnanda. Stefnandi hafi ekki gert þær kröfur sem hann telji sig eiga og sé því viðurkenningarkrafa hans í máli þessu einvörðungu álitsbeiðni.

Stefnandi hafi enn fremur ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins með vísan til þess að hann hefur ekki þá stöðu samkvæmt vátryggingarskilmálum og að lögum að geta gert kröfu í máli þessu um lengdan tilkynningarfrest. Vátryggingin sé til hagsbóta fyrir stjórnarmenn og yfirmenn stefnanda, sbr. röksemdir stefnanda í stefnu, en ekki fyrir stefnanda sjálfan, enda nái hugtakið tjón samkvæmt staflið I í II. kafla skilmálanna aðeins til tjóns stjórnarmanna og yfirmanna. Stefnandi eigi aðeins réttindi undir vátryggingunni á grundvelli vátryggingarákvæðis 2), í I. kafla um vátryggingarákvæði. Ákvæðið taki til þess að vátryggjendur greiði fyrir hönd stefnanda tjón vegna kröfu sem beinist að stjórnarmönnum og/eða yfirmönnum stefnanda, sem hann hefði annars mátt eða verið skylt að lögum, hvort heldur er settum lögum eða dómafordæmum, að ábyrgjast skaðleysi stjórnarmanna og yfirmanna. Hvergi í stefnu sé kröfu af þeim toga lýst og ekki sé sýnt fram á að stefnanda bæri að íslenskum lögum að halda stjórnendum sínum skaðlausum vegna slíkrar kröfu.

Þá halda stefndu því fram að stefnanda standi ekki til boða úrræði 44. og 46. gr. laga um vátryggingarsamninga nr. 30/2004 við kröfugerð á hendur vátryggjanda, þ.e. að gera beina kröfu á hendur stefndu, þar sem ekki sé unnt að líta á hann sem tjónþola í skilningi framangreindra ákvæða. Stefndu telja reyndar að stefnandi geti yfirhöfuð ekki gert kröfu sem viðkemur tryggingunni, hvort heldur er á hendur stjórnarmönnum eða yfirmönnum eða beint á stefndu, í ljósi þess að hann er vátryggingartaki en vátryggingin sé til hagsbóta fyrir stjórnendur en ekki stefnanda sjálfan. Tryggingunni sé ætlað að veita stjórnarmönnum og yfirmönnum vátryggingavernd en ekki vátryggingartaka sjálfum. Auk þess sé ótækt að stefnandi, sem sé vátryggingartaki sem hafi vanefnt skyldur sínar samkvæmt samningi, m.a. hvað varðar upplýsingaskyldu og yfirlýsingar, geti sjálfur gert kröfu í tryggingu sem tekin hafi verið fyrir stjórnendur vegna tjóns sem hann hafi sjálfur verið valdur að og/eða kunni að bera ábyrgð á. Hér verði að hafa í huga almenn sjónarmið skaðabótaréttar, þess efnis að annar aðili en tjónvaldur þurfi að hafa orðið fyrir tjóni, en ekki að þetta sé sami aðilinn. Í máli þessu sé stefnandi valdur að og/eða ábyrgur fyrir því tjóni sem af hlaust, m.a. á grundvelli sjónarmiða um samsömun við stjórnendur sína og yfirmenn, eftir því sem við kunni að eiga.

Í þriðja lagi byggja stefndu frávísunarkröfu sína á því að kröfugerð stefnanda um viðurkenningu uppfylli ekki kröfur um skýrleika sem áskilið sé í 25. gr. og 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, sbr. meginreglur einkamálaréttarfars um skýran og glöggan málatilbúnað. Í kröfugerðinni sé óskað viðurkenningar á meintri skyldu stefndu til sölu á 36 (eða eftir atvikum 72) mánaða tilkynningarfresti, en samkvæmt eðli sínu verði dómum um viðurkenningu ekki fullnægt með aðför, þar sem í viðurkenningardómum verði ekki mælt fyrir um skyldu stefndu, svo sem kröfugerð stefnanda feli í sér.

Kröfugerð stefnanda feli eingöngu í sér yfirlýsingu um greiðslu á tilheyrandi iðgjaldi, án þess að tilgreina fjárhæð þess. Stefnandi hefði getað tilgreint umrædda fjárhæð, ýmist á grundvelli eigin fyrirliggjandi gagna eða með því að afla upplýsinga hjá vátryggingarmiðlara sínum. Stefnandi vísi hins vegar með óskýrum hætti til greinar A.4 í III. kafla vátryggingarskilmála en það sé hluti af skýrum og glöggum málatilbúnaði að tilgreina umrædda fjárhæð. Enn fremur verði að horfa til þess að ákvæði gr. A.3 í III. kafla fjalli um rétt til að kaupa en ekki skyldu til að selja.

Kröfugerð stefnanda uppfylli auk þess ekki skilyrði laga um skýra kröfugerð þar sem í aðalkröfu sé gerð krafa um 36 mánaða tilkynningarfrest, en til vara um 72 mánaða frest. Gera verði kröfu til þess að stefnandi tilgreini fyrst sínar ýtrustu kröfur og í kjölfarið varakröfu, enda eru kröfur hans sömu tegundar en með tilvísan í mislangan tilkynningarfrest. Komi til þess að dómur fallist ekki á aðalkröfu stefnanda en fallist þess í stað á varakröfu, veiti hún samkvæmt orðalagi sínu skyldu til sölu á helmingi lengri tilkynningarfresti en samkvæmt aðalkröfu.  

Í fjórða lagi byggja stefndu kröfu um frávísun á því að dómsúrlausn í málinu á grundvelli kröfugerðar stefnanda yrði ekki endanleg úrlausn um sakarefnið eða ágreining aðila, í skilningi 4. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991. Stefndu hafi með bréfi sínu til stefnanda 23. desember 2010 borið fyrir sig öll þau vanefndaúrræði sem hvert um sig er sérgreint og þeir telja tæk á grundvelli samninga-, kröfu- og vátryggingaréttar, vegna vanefnda stefnanda samkvæmt vátryggingunni og skilmálum hennar. Af þeim sökum sé ekki unnt að viðurkenna kröfu sem byggi á samningi sem stefndu hafa þegar lýst yfir að sé ógildur eða alltént að honum hafi verið rift miðað við 23. desember 2010. Stefnandi hafi með ófullnægjandi hætti tekið mið af þessari afstöðu stefndu í kröfugerð sinni þrátt fyrir að bréf þess efnis hafi verið afhent stefnanda níu mánuðum fyrir þingfestingu máls þessa. Dómur um viðurkenningu samkvæmt kröfugerð stefnanda breyti ekki þeirri staðreynd. Ágreiningur málsaðila um umfang vátryggingarinnar, vernd og gildi hennar stæði auk þess eftir óleystur.

Loks byggja stefndu frávísunarkröfu sína vegna varakröfu stefnanda einnig á því að kröfugerð stefnanda uppfylli ekki kröfur um skýrleika sem áskilið sé í 25. gr. og 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, sbr. meginreglur einkamálaréttarfars um skýran og glöggan málatilbúnað. Í varakröfu geri stefnandi kröfu um viðurkenningu á skyldu stefndu á sölu til stefnanda á allt að 72 mánaða tilkynningarfresti. Um greiðslu viðeigandi iðgjalds sé vísað til greinar A8 í III. kafla vátryggingarskilmála. Skilmálar vátryggingarinnar vísi hins vegar til þess að stefnandi kunni, eftir atvikum, að eiga rétt á að óska eftir tilboði frá vátryggjanda til kaupa á allt að 72 mánaða tilkynningarfresti. Stefnandi gæti, eftir atvikum, beðið stefndu um tilboð, en ákvæðið feli ekki í sér neina samsvarandi skyldu af hálfu stefndu til að veita, hvað þá að ganga frá samningum við stefnanda um tilkynningarfrest af þeim toga. Hér sé um viljayfirlýsingu að ræða, sem feli eftir atvikum í sér að vátryggjendur geti lagt fram tilboð, en engin slík skylda sé fyrir hendi af þeirra hálfu. Þá kunni hugsanlega að verða samið um frekari skilmála tryggingarverndar, þ.m.t. fjárhæð iðgjalds. Enn fremur sé fjárhæð iðgjalds ekki tilgreind í varakröfu stefnanda, en aðeins vísað með óskýrum hætti til ákvæða vátryggingarskilmála. Dómkrafa stefnanda sé af þeim sökum alls ekki í samræmi við skýrt orðalag nefndrar greinar A8 í III. kafla vátryggingarskilmála og uppfylli ekki fyrrnefnda kröfu um skýrleika og rökstuðning. Dóminum sé því ómögulegt að verða við henni. Að öðru leyti vísa stefndu til sömu málsástæðna um frávísun varakröfu og færðar eru fram að ofan varðandi frávísun aðalkröfu, þ. á m. til laga nr. 90/1991 um meðferð einkamála, einkum 25. gr., 1. mgr. 80. gr. og 4. mgr. 114.gr.

Við málflutning um frávísunarkröfu stefndu var af hálfu stefnanda m.a. byggt á því að ýmsar röksemdir stefndu fyrir frávísun sneru að efni málsins en ekki formi. Þetta ætti bæði við um þá röksemd að stefnandi geti ekki krafist greiðslu úr tryggingunni vegna tjóns sem leiði af óréttmætum athöfnum stjórnenda og yfirmanna stefnanda og gildi vátryggingarsamningsins. Stefnandi mótmælti því að kröfugerð stefnanda fæli í sér lögspurningu. Stefnandi hefði lögvarða hagsmuni af úrlausn um kröfur sínar óháð því hvort beinar kröfur hefðu verið settar fram á hendur fyrrum stjórnendum stefnanda. Stefnandi lýsti því yfir að beinar kröfur hefðu verið settar fram á hendur stjórnendum með stefnu sem hefði verið þingfest 18. desember sl. Dómkröfur stefnanda fullnægðu kröfum um skýrleika, enda heimilt að krefjast viðurkenningar á skyldu stefndu eins og staðfest hefði verið í dómaframkvæmd. Heimilt væri að leggja skyldu á stefnda með dómi gegn því að stefnandi léti af hendi tiltekið endurgjald á síðari stigum. Sú staðreynd að ekki væri tilgreind fjárhæð iðgjalds í dómkröfu leiddi alls ekki til óskýrleika. Því til stuðnings vísaði stefnandi til greinar A.4 í 3. kafla vátryggingarskilmálanna en hún væri skýr. Stefnandi hefði leitað upplýsinga um fjárhæð iðgjaldsins frá stefndu með bréfi 11. nóvember 2009 en þeirri beiðni hefði ekki verið svarað. Ákveðin atriði væru óljós um fjárhæðir en ekki fyrir stefndu sem myndu ákveða iðgjaldið sem vátryggjendur. Það gæti ekki vafist fyrir þeim hver fjárhæð iðgjaldsins væri. Stefnandi viti ekki hvað eigi að borga en fyrir liggi vilji stefnanda til að greiða í samræmi við greiðslufyrirmæli frá stefndu bæði hvað varði fjárhæð og greiðslustað. Úrlausn um kröfu stefnanda yrði endanleg úrlausn um það hvort stefndu væri skylt að selja tilkynningarfrest, þ.e. endaleg úrlausn um sakarefni. Kröfugerðin væri því í samræmi við 4. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991. Skipting kröfugerðar í aðal- og varakröfu væri nauðsynleg vegna vátryggingarskilmálanna. Varakrafan gæti ekki komið til álita nema forsendur sem aðalkrafa byggðist á stæðust ekki.

III

Í þessum þætti málsins deila aðilar um hvort kröfugerð stefnanda og afmörkun hans á sakarefni málsins fullnægi skilyrðum 1. og 2. mgr. 25. gr., 1. mgr. 80. gr. og 4. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 er heimilt að höfða mál til að leita viðurkenningardóms um kröfu ef aðili hefur lögvarða hagsmuni af því að skorið sé úr um tilvist eða efni réttinda eða réttarsambands. Óumdeilt er að forveri stefnanda, Kaupþing hf., keypti umdeilda stjórnendatryggingu af stefndu og var gildistími hennar 1. apríl 2008 til 1. apríl 2009. Umrædd trygging er svokölluð kröfugerðartrygging en í því felst að tilkynna verður um tjónsatvik á meðan vátryggingin er enn í gildi en eftir það tímamark innan tilkynningarfrests samkvæmt skilmálum hennar. Þetta eðli tryggingarinnar kemur ljóslega fram í upphafsorðum tryggingarskilmálanna þar sem segir: „ÞESSI VÁTRYGGING GILDIR UM KRÖFUR SEM GERÐAR ERU Á VÁTRYGGINGARTÍMA. Nema vátryggingarsamningur þessi kveði á um annað, tekur vátryggingin einungis til KRAFNA sem gerðar eru á hendur STJÓRNARMÖNNUM og YFIRMÖNNUM á VÁTRYGGINGARTÍMA.“ Í 3. kafla skilmálanna sem ber yfirskriftina „VIÐBÓT VIÐ VÁTYRGGINGARVERND“ er í greinum A1-8 kveðið á um að skilyrði þess að m.a. „FÉLAGIГ geti átt rétt á að kaupa tilkynningarfrest.

Samkvæmt framanrituðu þykir ljóst að stefnandi kann að hafa lögvarða hagsmuni af úrlausn þess hluta ágreinings aðila hvort fullnægt sé skilyrðum umdeildra ákvæða 3. kafla skilmálanna til að kaupa á tilkynningarfresti og þar með viðbótartryggingarvernd samkvæmt vátryggingarsamningi aðila að loknum gildistíma hans. Skiptir þá engu hvort sýnt sé fram á í þessu máli hvort tjónstilkynningarnar sem stefnandi hefur þegar sent stefndu muni í raun leiða til greiðsluskyldu stefndu samkvæmt samningnum ef fallist yrði á dómkröfur stefnanda. Þá er fallist á það með stefnanda að ágreiningur aðila um gildi samningsins, þ. á m. um þýðingu vanefndaúrræða sem stefndu halda fram að þeir hafi beitt, varðar efni málsins en ekki form þess.

Kemur þá til skoðunar form kröfugerðar stefnanda samkvæmt aðal- og varakröfu og afmörkun sakarefnisins samkvæmt málatilbúnaði hans. Kröfurnar fela ekki aðeins í sér kröfu um viðurkenningu á skyldu stefndu til að selja tilkynningarfrest, annars vegar 36 mánaða samkvæmt aðalkröfu og hins vegar allt að 72 mánaða samkvæmt varakröfu, í samræmi við tilteknar greinar í 3. kafla vátryggingarskilmála hinnar umdeildu tryggingar, heldur þá jafnframt viðurkenningu á gagnkvæmri skyldu stefnanda sjálfs til að greiða iðgjald í samræmi við tiltekin ákvæði í sama kafla vátryggingarskilmálanna. Sakarefni máls þessa snýst því ekki einvörðungu um hvort fullnægt sé skilyrðum vátryggingarsamningsins til að viðurkennt verði með dómi að stefndu sé skylt að selja stefnanda tilkynningarfrest heldur jafnframt um þá kröfu stefnanda að viðurkennd verði að sama skapi skylda hans til greiðslu iðgjalds gegn því. Hvað varðar þann lið kröfugerðar stefnanda, er snýr að kröfu um viðurkenningu á gagnkvæmri skyldu hans sjálfs til greiðslu iðgjalds, er hvorki í aðal- né varakröfu tekin upp nein lýsing á fjárhæð iðgjaldsins eða ákvörðun þess, heldur lætur stefnandi við það sitja að vísa til framlagðs skjals í málinu, þ.e. fyrrgreindra ákvæða vátryggingarskilmálanna. Annars vegar er í aðalkröfunni vísað til „ ... gegn greiðslu á iðgjaldi í samræmi við grein A4 í kafla 3 í vátryggingarskilmálunum.“ en hins vegar í varakröfunni til „ ... gegn greiðslu á iðgjaldi í samræmi við grein A8 í kafla 3 í vátryggingarskilmálunum.“ Grein A4 í kafla 3 í vátryggingarskilmálum hljóðar svo: „Það er skilyrði fyrir kaupum á tilkynningarfresti að skrifleg tilkynning um kaupin berist innan 30 daga frá lokum VÁTRYGGINGARTÍMA og skal þá greiða viðbótariðgjald eins og hér segir: (i) 12 mánuðir: 25 prósent af árlegu iðgjaldi skv. vátryggingarsamningi þessum (ii) 24 mánuðir: 50 prósent af árlegu iðgjald skv. vátryggingarsamningi þessum (iii) 6 mánuðir: 75 prósent af árlegu iðgjald skv. vátryggingarsamningi þessum“. Grein A8 í kafla 4 í vátryggingarskilmálum hljóðar svo: „Ekki er boðið upp á kaup á tilkynningarfresti í samræmi við ofangreint í tengslum við samruna og yfirtökur eins og lýst er í 7. kafla. B. Í þessu tilviki skal FÉLAGIÐ þó hafa rétt til að óska eftir tilboði frá VÁTRYGGJENDUM um tilkynningarfrest í allt að 72 mánuði. Iðgjald fyrir slíkan tilkynningarfrest, skilmála og skilyrði er eins og VÁTRYGGJENDUR kunna að ákveða að sanngirni.“

Eins og fram hefur komið er á því byggt í stefnu að stefnanda hafi verið ómögulegt að greiða iðgjaldið þar sem stefndu hafi ekki sent reikning fyrir iðgjaldinu og heldur ekki veitt upplýsingar um hvernig inna beri greiðslu þess af hendi, þ. á m. hvorki upplýsingar um fjárhæð né greiðslustað. Samkvæmt þessum málatilbúnaði stefnanda telur hann fjárhæð iðgjaldsins ekki einhlíta samkvæmt þeim ákvæðum vátryggingarskilmálanna sem hann vísar til um iðgjaldið í aðal- og varakröfu. Við málflutning um frávísunarkröfu stefndu kom fram í ræðu lögmanns stefnanda að ákveðin atriði væru óljós um fjárhæðir en þó ekki fyrir stefndu sem myndu ákveða iðgjaldið sem vátryggjendur. Fyrir lægi vilji stefnanda til að greiða í samræmi við greiðslufyrirmæli frá stefndu, bæði hvað varði fjárhæð og greiðslustað. Aðal- og varakrafa stefnanda endurspegla hins vegar hvorki þessa óvissu, er stefnandi telur vera um fjárhæð iðgjaldsins samkvæmt tilvitnuðum samningsskilmálum, né að ákvörðun iðgjaldsins, sem stefnanda yrði gert að greiða stefndu, gæti verið einhliða og endanlega ákveðin af stefndu.

Með vísan til þessa þykir hvorki aðal- né varakrafan afmarka nægilega skýrt iðgjaldið, sem stefnandi krefst viðurkenningar dómsins á að honum verði gert greiða gegn því að viðurkennd verði skylda stefndu til að selja honum umkrafinn viðbótartilkynningarfrest, og þar með þann þátt sakarefnis málsins, eins og nauðsyn ber til samkvæmt 4. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991, sbr. enn fremur 1. mgr. 25. gr. sömu laga. Kröfugerð stefnanda í málinu fullnægir því ekki meginreglu einkamálréttarfars um ákveðna og ljósa kröfugerð og er þannig einnig andstæð d-lið 1. mgr. 80. gr. og 2. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 26. mars 2009 í máli nr. 605/2008. Vegna þessara annmarka er hvorki aðal- né varakrafa stefnanda tæk til efnisdóms og ber því að vísa málinu frá dómi.

Með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnanda gert að greiða stefndu málskostnað sem með hliðsjón af sakarefni og umfangi málsins þykir hæfilega ákveðinn 1.000.000 króna.

Af hálfu stefnanda flutti málið Ásgerður Ragnarsdóttir hdl.

Af hálfu stefndu flutti málið Dóra Sif Tynes hdl.

Áslaug Björgvinsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

ÚRSKURÐARORÐ:

Máli þessu er vísað frá dómi.

Stefnandi Kaupþing banki hf. greiði stefndu Brit Insurance Limited, Great Lakes Reinsurance (UK) Plc., Chubb Insurance Company of Europe SE, Aspen Insurance UK Limited, AXIS Specialty Europe Limited, Markel Capital Limited, Markel Syndicate Management Limited, Chaucer Corporate Capital (No 2) Limited, Chaucer Syndicates Limited, Argo (No 604) Limited sjálfu og fyrir hönd allra annarra meðlima í samtökum 3245 (Syndicate 3245) fyrir reikningsárið 2007, Argo Managing Agency Limited, Chaucer Corporate Capital (No 2) Limited sjálfu og fyrir hönd allra annarra meðlima í samtökum 4000 (Syndicate 4000) fyrir reikningsárið 2007, QBE Coprorate Limited, Catlin Syndicate Limited, Antares Underwriting Limited, Alterra Corporate Capital 2 Limited sjálfu og fyrir hönd allra annarra meðlima í samtökum 1400 (Syndicate 1400) fyrir reikningsárið 2007, QBE Corporate Limited sjálfu og fyrir hönd allra annarra meðlima í samtökum 386 (Syndicate 386) fyrir reikningsárið 2007, 1.000.000 króna í málskostnað.