Hæstiréttur íslands

Mál nr. 603/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. B. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


                                     

Mánudaginn 14. september 2015.

Nr. 603/2015.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum

(Guðmundur Þórir Steindórsson fulltrúi)

gegn

X

(Guðmundur St. Ragnarsson hdl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi á grundvelli b. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. september 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 10. september 2015 þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 8. október 2015 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, til vara að vægari úrræðum verði beitt, en að því frágengnu að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi með úrskurði héraðsdóms 9. ágúst 2015 og hefur setið í gæsluvarðhaldi frá þeim tíma. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur á þann hátt sem í dómsorði greinir.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008.

Dómsorð:

Varnaraðili, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 8. október 2015 klukkan 16.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 10. september 2015.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur í dag krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að erlendum ríkisborgara, sem kveðst heita X, fd. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 8. október 2015.

Í greinargerð lögreglustjórans á Suðurnesjum segir að lögreglunni hafi borist tilkynning 8. ágúst 2015, frá A, um að grunur léki á að aðili væri á leiðinni til Íslands, frá Frankfurt, Þýskalandi, sem talinn var hafa svikið umtalsverða fjármuni út úr A undanfarna mánuði. Kærði hafi verið handtekinn af lögreglu við komu hingað til lands, grunaður um umfangsmikil fjársvik. Við leit lögreglu í farangri kærða hafi m.a. fundist farsími sem hafi verið haldlagður og einnig hafi verið haldlagðir þrír pokar með varningi sem kærði hafi verslað um borð í flugvélinni í tveimur viðskiptum, annars vegar að fjárhæð 196.500 kr. og hins vegar að fjárhæð 8.900 kr., samtals 205.400 kr. Á sama tíma hafi lögreglu borist samtals fimm kærur frá A vegna meintra fjársvika gagnvart fyrirtækinu. Heildarfjárhæð meintra brota kærða í þessum fimm málum nemi samtals 2.141.617 kr.

Rannsókn hafi vegna eðlis málsins verið mjög umfangsmikil. Lögregla hafi rannsakað haldlagðan farsíma kærða, aflað frekari upplýsinga hjá greiðslukortafyrirtækjum um þær greiðslukortaupplýsingar sem kærði hafi notað í viðskiptum sínum við A og hugsanlega aðra aðila hér á landi, feril hans á Spáni, samskipti hans við [...], o.fl. Þá hafi lögregla jafnframt aflað upplýsinga hjá erlendum löggæsluyfirvöldum um hugsanlegan sakaferil hans. Vísast nánar til gagna málsins.

Rannsókn lögreglu megi skipta í tvennt. Annars vegar sé kærði grunaður um hylmingarbrot, með því að hafa tekið við og notað farmiða í flug hjá félaginu á löngu tímabili, sem greiddir höfðu verið með stolnum greiðslukortaupplýsingum, sbr. mál nr. 008-2015-[...]. Rannsókn þessa máls sé lokið og liggi fyrir að ákæra verði gefin út á næstu misserum. Hins vegar sé kærði grunaður um fjársvikabrot, með því að hafa svikið út varning um borð í flugvélum félagsins. Rannsókn þess máls, nr. 008-2015-[...], sé á lokastigum en yfirheyra þurfi kærða á ný vegna upplýsinga sem lögreglu hafi borist erlendis frá um ætluð brot hans auk þess sem beðið sé gagna.

V skýrslutökur af kærða hafi hann játað að hafa flogið þær flugferðir sem greint er frá í þegar framkomnum kærum en neitað að hafa verið meðvitaður um uppruna þeirra farmiða, þ.e. að þeir hafi verið keyptir með illa fengnum greiðslukortaupplýsingum. Kærði hafi greint frá því að hann hafi keypt flugmiðana af aðila sem heiti [...] og hann þekki hann lauslega. Kvað kærði ástæðu þess að umræddur [...] keypti miðana fyrir hann væri sá að hann kynni ekki sjálfur að kaupa flugmiða á netinu. Kærði hafi einnig neitað því að sá varningur sem hann hafi keypt um borð í flugvélunum hafi verið greiddur með stolnum greiðslukortaupplýsingum. Hann hafi notað sitt eigið greiðslukort í þeim viðskiptum og að þau kort hafi verið í lagi eftir því sem hann hafi best vitað. Að mati lögreglu eru skýringar kærða á flugmiðakaupum hans og kaupum á varningi ótrúverðugar. Byggir lögregla þessa skoðun sína m.a. á því að fullyrðingar kærða um þessi efni stangist í verulegum atriðum á við þau gögn sem lögreglu hafi borist frá A þar sem komi m.a. fram að fyrir liggi staðfestingar á því frá útgefendum þeirra greiðslukorta sem notuð voru til greiðslu fyrir umrædda farmiða, að ekki hafi verið heimilt að nota þau. Þá hafi kærði einnig verið nokkuð missaga í framburði sínum hjá lögreglu. Þannig hafi hann greint frá því í upphafi skýrslutökunnar að hann hafi í fyrsta skiptið, þann 8. ágúst, keypt vörur um borð í flugvél A. Það sé í ósamræmi við framburð starfsmanna A og þau gögn sem lögregla hafi undir höndum tengdum kærum félagsins. Síðar hafi kærði greint frá nokkrum tilvikum þar sem hann hafi keypt vörur um borð í flugvélum A. Þá telur lögregla að frásögn kærða í sambandi við framangreindan [...] séu ótrúverðugar, t.d. að kærði hafi leitað til hans í gegnum facebook þar sem hann hafi sjálfur ekki kunnáttu til að panta sér flugmiða á internetinu, einkum í því ljósi að kærði virðist ferðast mikið og greindi sjálfur frá því að hann hafi stundað eigin atvinnurekstur og vinni í ferðamannaiðnaðinum. Þá hafi kærði einnig greint frá því í skýrslutökunni hjá lögreglu að hann hafi haft tölvukunnáttu til að setja sig í samband við rússneskar konur hér á landi.

Lögreglustjóri telur, með vísan til þess sem að framan er rakið, að fram sé kominn rökstuddur grunur um að kærði hafi með háttsemi sinni gerst sekur um brot á 248. og 254. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem við liggi allt að sex ára fangelsi. Telur lögreglustjóri að brot kærða muni ekki hafa í för með sér sektir eða skilorðsbundna refsingu, verði hann fundinn sekur af slíku broti. Byggir sú afstaða m.a. á réttarframkvæmd um viðlíka brot og að þau brot sem kærði er undir sterkum rökstuddum grun að hafa framið séu ítrekuð og hárrar fjárhæðar.

Af framansögðu telur lögreglustjóri nauðsynlegt að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi á meðan mál hans eru til meðferðar hjá lögreglu og ákæruvaldi. Telur lögregla að mikil hætta sé á að kærði muni reyna að komast úr landi eða leynast og koma sér þannig undan málsókn eða fullnustu refsingar, gangi hann laus en hann hefur engin tengsl við landið. Vísast í þessu skyni m.a. til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 595/2011. Telur lögreglustjóri ekki völ á vægari úrræðum til að tryggja þá hagsmuni sem í húfi eru.

Með vísan til alls framangreinds, gagna málsins, b-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála 254., og 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, telur lögreglustjóri brýna rannsóknarhagsmuni standa til þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 8. október 2015, kl. 16:00.   

Samkvæmt rannsóknargögnum málsins er kærði undir rökstuddum grun um að hafa framið fjölda auðgunarbrota. Rannsókn málsins hefur verið umfangsmikil og er ekki lokið, en lögreglu vantar gögn erlendis frá sem afla þarf með réttarbeiðni. Kærði hefur engin tengsl við landið og er full ástæða til að ætla að hann muni reyna að komast úr landi eða leynast ellegar koma sér með öðrum hætti undan málsókn eða fullnustu refsingar. Fallist er á það mat lögreglustjóra að þau brot sem kærði er sakaður um muni ekki hafa í för með sér sektir eða skilorðsbundna refsingu. Einnig er fallist á að ekki kemur til álita að kærði sæti farbanni í stað gæsluvarðhalds. Með vísan til alls framangreinds og b-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 eru uppfyllt skilyrði til að kærði sæti gæsluvarðhaldi.  

Úrskurð þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 8. október 2015 kl. 16:00.