Hæstiréttur íslands
Mál nr. 26/2006
Lykilorð
- Skaðabótamál
- Líkamstjón
- Sakarskipting
|
|
Fimmtudaginn 28. september 2006. |
|
Nr. 26/2006. |
Ísak Þór Ragnarsson(Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl.) gegn FL Group hf. (Kristín Edwald hrl.) |
Skaðabótamál. Líkamstjón. Sakarskipting.
Í sótti F til greiðslu bóta vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir í starfi fyrir félagið. Varð slysið með þeim hætti að Í hrasaði og féll niður þjónustustiga, sem var áfastur landgangsrana flugvélar sem hann var að þrífa. Flugvélin sem um ræddi var af stærstu gerð og leiddi það til þess að umræddur þjónustustigi varð óvenju brattur, framstig hans grunnt og hölluðu þrepin fram um þrjár gráður. Veðurskilyrði voru þannig að blautt var og gekk á með slydduéljum Var staða stigans við þær aðstæður sem fyrir hendi voru talin helsta orsök slyssins. Var því talið að F bæri bótaábyrgð á tjóni Í en honum gert að bera þriðjung tjóns síns sjálfur vegna eigin sakar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 11. janúar 2006. Hann krefst þess aðallega að stefnda verði gert að greiða honum skaðabætur að fjárhæð 8.552.555 krónur, auk 4,5% ársvaxta frá 24. júní 2000 til 24. júní 2004 en dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst hann skaðabóta að fjárhæð 5.061.458 krónur, auk vaxta eins og í aðalkröfu. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt á báðum dómstigum.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að kröfur áfrýjanda verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður.
Sjóvá-Almennum tryggingum hf. hefur verið stefnt til réttargæslu í málinu.
I.
Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi hóf áfrýjandi störf í hreinsunardeild stefnda í september 1999. Var starf hans fólgið í að fjarlægja ruslapoka og annað sorp úr flugvélum. Hann varð fyrir slysi 1. desember sama ár þegar hann vann við ræstingu júmbóþotu af gerðinni Boeing 747. Slysið varð með þeim hætti að áfrýjandi bar poka niður svonefndan þjónustustiga, sem lá frá landgangsrana flugvélarinnar. Er óumdeilt að hann sneri fram er hann gekk niður stigann og hrasaði þannig að hann rann á bakinu niður á jafnsléttu. Nefndur stigi er áfastur við landgangsranann og hækkar og lækkar eftir hæð þeirrar vélar sem verið er að afgreiða. Þegar staða ranans hækkar breytist stiginn þannig, að hann verður brattari og framstig þrepa minnkar.
Fyrir Hæstarétt hefur áfrýjandi lagt matsgerð Magnúsar Þórs Jónssonar frá 21. apríl 2006. Er henni ekki mótmælt af stefnda. Samkvæmt matsgerðinni var hæð landgangs, sem settur var upp við tóma Boeing júmbóþotu, 5460 mm, en stigapalls 5350 mm, halli stiga var 55 gráður, bil á milli stigaþrepa 249 mm, ástigsflötur þreps þegar farið er niður eða svonefnt framstig var 177 mm. Við þessar aðstæður hölluðu stigaþrepin fram um 3 gráður. Þegar stiginn var notaður við þjónustu flugvéla af almennri stærð, svo sem Boeing 757, mældist hæð landgangs 4010 mm, en stigapalls 4100 mm, bil á milli stigaþrepa var 184 mm, halli stiga 38 gráður, framstig þrepa 233 mm og enginn halli var á þrepum. Af öðrum gögnum er ljóst að stiginn var með handriðum, hrufóttum járnþrepum og stöðugur. Uppfyllti hann „vel allar kröfur varðandi slíka stiga“ samkvæmt umsögn starfsmanns Vinnueftirlits ríkisins, sem kvaddur var til eftir að slysið varð. Í umsögninni er þó einnig tekið fram, að vegna hæðar vélarinnar sé stiginn „nokkuð reistur“. Ennfremur segir þar að stiginn hafi verið blautur við skoðun en ekki háll, en ekki sé útilokað að svo hafi verið þegar slysið átti sér stað vegna veðurskilyrða. Þá er þess getið að viðstaddir á slysstað hafi rætt um „að mikið hraðaálag væri við afgreiðslu vélanna“. Auk þessa þjónustustiga, sem oftast var notaður við ræstingu flugvéla, var starfsmönnum, samkvæmt vætti þáverandi yfirhlaðstjóra, alltaf tiltækur stigabíll. Sagði hann að á stigabíl breytist halli og ástig þrepa ekki með hæð stigans.
II.
Þegar litið er til matsgerðar um stöðu þjónustustigans þá er landgangurinn nam við tilgreinda vél, verður að telja að hann hafi verið varhugaverður vegna brattans, hversu stutt framstigið var og framhalla á þrepunum. Veður var vott og hafði verið slydda, hitastig 45 mínútum fyrir slysið var 1,2 gráða og fór lækkandi. Ís var á jörðu. Þá liggur fyrir að hraða varð verkinu. Verður að telja fyrrgreinda stöðu stigans við þessar aðstæður helstu orsök slyss áfrýjanda. Er fallist á með honum að þetta leiði til skaðabótaábyrðar stefnda.
Áfrýjandi var nýorðinn 18 ára þegar slysið varð. Hafði hann hafið störf hjá stefnda tæpum þremur mánuðum fyrr. Verk það sem áfrýjandi vann var í sjálfu sér einfalt og gat honum ekki dulist að varhugavert væri að snúa fram þegar gengið var niður stigann, vegna þess hve brattur hann var og framstigið stutt. Á þetta einkum við þegar haft er í huga að hann var með byrði. Verður að ætla að áfrýjandi hafi ekki gætt nægilegrar varkárni og að það hafi verið meðorsök að slysinu. Verður hann því látinn bera þriðjung tjóns síns sjálfur.
III.
Aðalkröfu sína byggir áfrýjandi á yfirmatsgerð 26. apríl 2005, sem gerð var að tilhlutan stefnda. Samkvæmt henni miðast batahvörf við 1. mars 2000. Hann telst hafa verið óvinnufær í þrjá mánuði, og veikur án þess að vera rúmliggjandi í þrjá mánuði. Varanlegur miski var metinn 15 stig, varanleg örorka 20 stig og svonefnd læknisfræðileg örorka 15 stig. Aðalkrafa áfrýjanda sundurliðast svo: 1) tímabundið tekjutap 73.088 krónur; 2) þjáningabætur 88.200 krónur; 3) varanlegur miski 837.450 krónur; og 4) varanleg örorka 7.553.817 krónur. Við kröfugerð sína hefur áfrýjandi dregið frá bótalið vegna varanlegrar örorku greiðslu úr launþegatryggingu réttargæslustefnda 215.276 krónur og slysatryggingabætur frá Tryggingastofnun ríkisins 884.568 krónur.
Kröfu sína um tímabundið tekjutap byggir áfrýjandi á því að hann hafi orðið af tekjum vegna aukavinnu þann tíma sem hann var óvinnufær. Kröfu þessari er mótmælt af stefnda. Í ljósi þess hversu skamman tíma áfrýjandi hafði starfað hjá stefnda þykja áunnar aukavinnutekjur hans ekki fullnægjandi sönnun fyrir því að hann hefði á þessu tímabili fengið sambærilega fjárhæð vegna aukavinnu. Er þessum lið hafnað.
Krafa vegna þjáningabóta er gerð með vísan til 3. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og er bótafjárhæð reiknuð samkvæmt lánskjaravísitölu í maí 2004 í 90 daga, 980 krónur á dag, samtals 88.200 krónur. Stefndi mótmælir ekki útreikningi þessarar kröfu og verður hún tekin til greina að frádregnum þeim hluta sem áfrýjandi ber vegna eigin sakar.
Kröfufjárhæð vegna varanlegs miska er reiknuð samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga miðað við lánskjaravísitölu í maí 2004, 15% af 5.583.000 krónum, samtals 837.450 krónur. Stefndi mótmælir ekki útreikningnum og verður krafan tekin til greina með sama fyrirvara og að framan.
Varanleg örorka áfrýjanda var metin 20% í yfirmatsgerð og miðað við batahvörf 1. mars 2000. Er útreikningur þessa kröfuliðar byggður á árslaunum áfrýjanda fyrsta heila árið eftir slysið, sem voru 2.358.460 krónur samkvæmt skattframtali ársins 2001. Rök áfrýjanda fyrir þessari viðmiðun eru þau að hann hafi verið nýorðinn 18 ára gamall þegar slysið varð 1. desember 1999, og því með litla starfsreynslu. Beri af þessum ástæðum að ákvarða árstekjur hans sérstaklega í samræmi við heimild 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Megi gera ráð fyrir því að ef slysið hefði ekki orðið, hefði hann að minnsta kosti haft jafnháar tekjur næstu árin og hann hafði árið 2000.
Áfrýjandi var ungur að árum og hafði ekki lagt grunn að sérstökum starfsréttindum. Töldu yfirmatsmenn, varðandi framtíðina, rétt að leggja „til grundvallar að hann hefði unnið einhvers konar líkamleg störf“. Má fallast á framangreind rök áfrýjanda og þá fjárhæð sem hann vill miða við, en hún er svipuð meðallaunum verkamanna að viðbættu 6% framlagi atvinnurekanda í lífeyrissjóð. Samkvæmt 6. gr. skaðabótalaga er kröfufjárhæðin 8.653.661 króna vegna varanlegrar örorku fundin af þessari viðmiðunarfjárhæð með reiknistuðli 18,346 og miðað við 20% örorku. Verður fallist á þennan útreikning áfrýjanda.
Samkvæmt framangreindu nemur heildartjón áfrýjanda 9.579.311 krónum. Frá þeirri fjárhæð dragast 884.568 krónur sem áfrýjandi fékk greiddar úr slysatryggingu almannatrygginga. Þá standa eftir 8.694.743 krónur. Af þeirri fjárhæð ber stefnda samkvæmt framansögðu að greiða áfrýjanda 2/3 hluta eða 5.796.495 krónur. Frá þeirri fjárhæð dragast loks 215.276 krónur sem áfrýjandi fékk greiddar úr launþegatryggingu sem stefndi hafði keypt, sbr. 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga. Verður stefndi því dæmdur til að greiða áfrýjanda 5.581.219 krónur með vöxtum eins og nánar greinir í dómsorði.
IV.
Áfrýjanda var veitt gjafsókn í héraði og fyrir Hæstarétti.
Ákvörðun héraðsdóms um gjafsóknarkostnað áfrýjanda verður staðfest.
Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði eins og í dómsorði greinir.
Stefndi verður dæmdur til að greiða málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti í ríkissjóð eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Stefndi, FL Group hf., greiði áfrýjanda, Ísak Þór Ragnarssyni, 5.581.219 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 24. júní 2000 til 24. júní 2004 og dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.
Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað áfrýjanda er óraskað.
Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningslaun lögmanns hans 400.000 krónur.
Stefndi greiði í ríkissjóð málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti samtals 1.000.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 20. október 2005.
Mál þetta, sem dómtekið var 12. október 2005, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Ísaki Þór Ragnarssyni, kt. 131181-5079, Suðurgötu 44, Keflavík, gegn Flugleiðum hf., kt. 601273-0129, Reykjavíkurflugvelli, Reykjavík, og til réttargæslu Sjóvá-Almennum tryggingum hf., kt. 701288-1739, Kringlunni 5, Reykjavík, með stefnu sem birt var 10. júní 2004.
Dómkröfur stefnanda eru að stefnda verði gert að greiða stefnanda 8.552.555 kr. auk 4,5% ársvaxta af 998.738 kr. frá 1. desember 1999 til 1. mars 2000, en af allri fjárhæðinni frá þeim degi til þingfestingardags, 24. júní 2004, en með dráttarvöxtum skv. 9. gr. sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda líkt og málið væri eigi gjafsóknarmál samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.
Dómkröfur stefnda eru aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins. Til vara að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og málskostnaður verði felldur niður.
Helstu málavextir eru að stefnandi slasaðist 1. desember 1999. Hann var þá nýorðinn 18 ára gamall og starfaði hjá stefnda í svokallaðri hreinsunardeild, en þar hafði hann starfað í um það bil þrjá mánuði er slysið varð. Stefnandi var að vinna á Keflavíkurflugvelli við hreinsun Boeing 747 vélar flugfélagsins Atlanta. Hafði honum verið falið að koma í burtu ruslapokum úr flugvélinni. Hafi hann farið með þá út á stigapall, þ.e. efsta hluta stiga sem er áfastur landgangi (rana), og látið pokana falla niður í kerru er hann hafði fyrir neðan stigann, sbr. dskj. nr. 17. Í skýrslu, sem stefnandi gaf hjá lögreglunni í Keflavík 11. ágúst 2000 vegna slyssins að viðstöddum lögmanni sínum, bar hann m.a., að hann hafi verið að ljúka vinnu sinni og verið kominn niður, þegar einhver starfsmaður hafi hent ruslapoka niður stigann. Pokinn hafi fest í miðjum stiganum. Hafi hann því farið aftur upp í stigann til að sækja pokann. Og er hann var að setja pokann á bakið þarna í miðjum stiganum og að snúa sér við til að fara niður, hafi hann misst fótanna og runnið á bakinu niður stigann með fæturna á undan og lent á ísuðu og blautu malbikinu fyrir neðan.
Í umsögn Vinnueftirlits ríkisins um slysið segir m.a.:
Við skoðun á stiganum kom fram að hann uppfyllir vel allar kröfur varðandi slíka stiga, það er, hann er stöðugur, með góðum handriðum og ristaþrepum úr járni hrufóttum á efra borði þrepa.
Vegna hæðar vélarinnar var stiginn nokkuð reistur, framstig mældist 21 sentímetrar, mælt frá frambrún til frambrúnar tveggja þrepa. Uppstigið mældist 20,5 sentímetrar mælt frá efra borði á efra borð þrepa.
Stiginn var blautur við skoðun en ekki háll en þess ber að geta að veðurfar var þannig að gekk á með slydduéljum og hugsanlega gat verið meiri hálka ef krap var á stigaþrepunum er slasaði féll.
Í áverkavottorði fyrir stefnanda, sem Árni Leifsson, skurðlæknir hjá Heilbrigðis-stofnun Suðurnesja, gaf út 19. janúar 2000 segir m.a.:
Ísak var fluttur í sjúkrabíl á Slysamóttöku heilbrigðisstofnunar Suðurnesja 01.12.1999 kl: 10:20. Hann mun þá hafa verið að vinnu sinni í flugstöð Leifs Eiríkssonar þegar hann féll um 4 metra niður stiga við landgangs rana. Hann lenti á baki og síðan skall höfuðið í. Missti ekki meðvitund. Kvartar við komu um höfuðverk, verk í hálsi og baki.
Við skoðun voru eymsli aftan á höfði, hálsi og baki. Ekki merki um áverka á líffæri brjósthols eða kviðarhols. Ákveðið var að flytja Ísak á Slysadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur til frekara mats og greindust ekki frekari áverkar samkv. læknabréfi þaðan.
Þess ber að geta að Ísak þjáðist af mígreni, höfuðverk og spennuhöfuðverk fyrir slysið.
...
Sjúkdómsgreiningar:
Hálshnykkur S 13,4
Mjóbakshnykkur S 33,5
Mar á kviðvegg S 30,1
Ragnar Jónsson, sérfræðingur í bæklunarskurðlækningum, gaf út áverkavottorð (bráðabirgðavottorð) varðandi stefnanda 18. febrúar 2000: Þar segir undir fyrirsögninni Samantekt-álit:
Við slysið 01.12. 1999 hefur Ísak fengið tognunaráverka á háls og mjóbak. Hann virðist hafa jafnað sig vel af hálstognuninni en hafði við síðasta eftirlit enn nokkur einkenni frá mjóbaki. Þetta var þó allt í rénun. Gert var ráð fyrir að hann færi til vinnu eftir ½ -1 mánuð.
Við síðasta eftirlit talaði Ísak um breytingu á skammtímaminni. Hann sagði þá að hann hefði fengið höfuðhögg þegar hann datt niður stigann en hins vegar kemur ekkert fram um þetta í gögnum Slysadeildar. Þannig að mínu mati fremur óljóst.
Um varanlegar afleiðingar þess slyss er ekki hægt að fullyrða á þessu stigi. Leggja verður mat á það síðar.
Með bréfi 2. október 2000 kynnti lögmaður stefnanda stefnda stöðu málsins að hans áliti og viðhorf sitt til bótaréttar stefnanda. Fór hann þess jafnframt á leit að haft yrði samband við hann sem fyrst og hann upplýstur um afstöðu stefnda.
Í bréfi frá réttargæslustefnda, Sjóvá-Almennum tryggingum hf., til lögmanns stefnanda 8. nóvember 2000 segir m.a.:
Flugleiðir hf. hafa framsent félaginu erindi þitt dags. 2. október sl. varðandi slys sem ofangreindur umbjóðandi þinn varð fyrir hinn 1. desember 1999 er hann hrasaði á leið niður stiga til hliðar við landganga að Boeing 747 vél á Keflavíkurflugvelli.
Að mati félagsins virðist sem um hafi verið að ræða hreint óhappatilvik en ekki er fallist á að slysið megi rekja til vanbúnaðar stigans, brota á ákvæðum laga nr. 46/1980 né annarra atvika sem fellt geti skaðabótaábyrgð á Flugleiðir hf. Því hafnar félagið greiðslu bóta úr frjálsri ábyrgðartryggingu Flugleiða hf. vegna slyssins. Jafnfram skal staðfest að slysið fellur undir slysatryggingu launþega.
Sigurjón Sigurðsson læknir gaf út áverkavottorð varðandi stefnanda 1. desember 2000. Þar segir undir fyrirsögninni Ályktun:
Hér er um að ræða ungan mann sem lendir í því að falla niður stiga 4 metra fall og lenda á sitjandanum, við það hlýtur hann högg upp hrygginn.
Ekki hefur verið sýnt fram á brot í hryggnum en túlka verður að umræddur áverki hafi valdið töluverðum tognunum neðst í mjóbaki sem orsaka þau einkenni sem hann hefur í dag. Engin breyting hefur orðið á líðan hans lengi þannig að túlka verður að hann sé kominn á stöðuga líðan.
Með bréfi 22. janúar 2001 óskaði stefnandi eftir úrskurði tjónanefndar vátryggingafélaganna vegna ágreinings við stefnda um bótaskyldu vegna vinnuslyssins 1. desember 1999. Þá lagði Atli Þór Ólason, dr. med., sérfræðingur í bæklunar-skurðlækningum, 17. apríl 2001 mat samkvæmt skaðabótalögum á líkamstjón stefnanda af völdum slyssins, að beiðni lögmanns stefnanda. Niðurstaða hans var þessi:
1. Tímabundið atvinnutjón skv. 2. grein
3 mánuðir ...................... 100%
2. Þjáningabætur skv. 3. grein
a)Rúmliggjandi: 1.12.1999 2.12.1999.
b)Batnandi, án þess að vera rúmliggjandi: 3 mánuðir.
3. Varanlegur miski skv. 4. grein: 8%.
4. Varanleg örorka skv. 5. grein: 8%.
5. Hefðbundin, varanleg læknisfræðileg örorka: 8%.
Þann 12. febrúar 2002 komst tjónanefnd vátryggingafélaganna að þeirri niðurstöðu að tjón stefnanda yrði ekki rakið til sakar vátryggingartaka, Flugleiða hf. Með bréfi 20. mars 2002 skaut stefnandi málinu til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum. Úrskurðarnefndin kvað upp úrskurð 30. apríl 2002. Þar segir undir fyrirsögninni Álit:
Samkvæmt umsögn Vinnueftirlits ríkisins var stigi sá sem M [stefnandi] féll í ekki vanbúinn. Þótt hann hafi verið nokkuð reistur og allbrattur af þeim sökum, verður ekki séð að hann hafi verið beinlínis hættulegur, ef um hann var gengið með þeirri aðgát sem almennt mátti krefjast af starfsmönnum A [stefnda]. Ekki hefur verið sýnt fram á í gögnum málsins að slysið megi rekja til óhæfilegs vinnuálags á M, ónógrar verkstjórnar eða skorts á leiðbeiningum um það hvernig ganga skyldi um stigann. Að öllu athuguðu verður ekki talið að slysið megi rekja til vanbúnaðar eða annarra atvika sem A getur borið ábyrgð á.
Bogi Jónsson, dr. med., bæklunarskurðlæknir gaf út læknisvottorð varðandi stefnanda 10. júní 2003. Þar segir undir fyrirsögninni Sjúkdómsgreining:
|
Tognun á lendarhrygg |
S33.5 |
|
Hálstognun |
S13.4 |
|
Contusion of abdominal wall |
S30.1 |
Þá segir undir fyrirsögninni Álit og meðferð:
Það eru stöðugir verkir frá hálsi og mjóbaki. Hann á erfitt með að beita sér líkamlega og fær hann þá verki sem vara í fleiri daga á eftir. Hann er ónýtur til líkamlega erfiðra starfa. Þessi einkenni hafa ekkert lagast. Við gerð fyrri vottorða vonuðust menn að hann muni (sic.) lagast en slíkar breytingar hafa ekki orðið og er hann enn óvinnufær. Ekki er búist við frekari bata úr þessu. Þar sem hann er ólærður þá verður geta hans til að komast á vinnumarkaðinn mun minni, en annars hefði orðið. Hann er því óvinnufær til allra þeirra starfa sem hann hefur fyrir slys getað unnið.
Hann er kominn með slitbreytingar þessi 21 árs gamli maður sem verður að teljast óeðlilegt nema að slys hafi orðið eins og reyndin er með þennan dreng. Við vitum að slæmar tognanir geta valdið langvarandi bólgum sem með tímanum sýna merki kölkunar og slitbreytinga og virðist sem þetta slit hafi orðið vegna slyssins. Þar sem þetta er það ungur maður.
Með beiðni, dags. 23. október 2003, fór stefnandi fram á dómkvaðningu tveggja matsmanna, læknis og lögfræðings, til að láta í té skriflegt og rökstutt álit um eftirfarandi:
1) Hversu lengi var Ísak Þór Ragnarsson óvinnufær vegna afleiðinga vinnuslyssins þann 1. desember 1999, sbr. 2. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993?
2) Hversu lengi var Ísak Þór Ragnarsson veikur, með og án rúmlegu, vegna afleiðinga vinnuslyssins þann 1. desember 1999, sbr. 3. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993?
3) Hver er varanlegur miski Ísaks Þórs Ragnarssonar vegna afleiðinga vinnuslyssins þann 1. desember 199, sbr. 4. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993?
4) Hver er varanleg örorka Ísaks Þórs Ragnarssonar vegna afleiðinga vinnuslyssins þann 1. desember 1999, sbr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993?
5) Hver er varanleg læknisfræðileg örorka Ísaks Þórs Ragnarssonar vegna afleiðinga vinnuslyssins þann 1. desember 1999?
Á dómþingi 19. desember 2003 voru þeir Páll Sigurðsson, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, og Torfi Magnússon, sérfræðingur í heila- og taugasjúkdómum við Landspítala-Háskólasjúkrahús, kvaddir til að framkvæma hið umbeðna mat. Matsgerðin er dagsett 23. mars 2004 og er niðurstaða hennar þessi:
1. Tímabundið atvinnutjón skv. 2. grein:
Þrír mánuðir.
2. Þjáningabætur skv. 3. grein:
Rúmliggjandi 2 daga
Batnandi, án þess að vera rúmliggjandi í 6 mánuði.
3. Varanlegur miski matsbeiðanda á grundvelli 4. gr. skaðabótalaga er 20% - 20 stig.
4. Varanleg örorka matsbeiðanda á grundvelli 5. gr. skaðabótalaga er 20% - 20 stig.
5. Varanleg læknisfræðileg örorka 20% - 20 stig.
Af hálfu stefnda var krafist yfirmats og voru á dómþingi 22. nóvember 2004 þeir Júlíus Valsson, sérfræðingur í gigtarlækningum og embættislækningu, Kristinn Tómasson, sérfræðingur í geðlækningum og embættislækningu og Viðar Már Matthíasson, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, kvaddir til að framkvæma hið umbeðna mat. Matsgerðin er dagsett 26. apríl 2005 og er niðurstaða hennar í stuttu máli þessi:
Yfirmatsmenn telja, að líkamstjón það er yfirmatsþoli hlaut í slysinu 1. desember 1999, hafi haft í för með sér tímabundna óvinnufærni hans í þrjá mánuði.
Yfirmatsmenn telja að yfirmatsþoli hafi verið veikur, án þess að vera rúmliggjandi, í þrjá mánuði vegna slyssins.
Yfirmatsmenn telja að batahvörf (stöðugleikatímapunktur) sé 1. marz 2000.
Yfirmatsmenn telja varanlegan miska hæfilega metinn 15 stig.
Yfirmatsmenn telja varanlega örorku hæfilega metna 20%.
Yfirmatsmenn telja að varanleg læknisfræðileg örorka yfirmatsþola vegna líkamstjóns sé 15%.
Stefnandi byggir á því að verklagi, verkstjórn og vinnuaðstöðu hafi verið ábótavant á vinnustað þegar slysið varð. Stefnda og verkstjóra stefnda á vinnustað hafi borið að sjá til þess að vinnuaðstæður væru með þeim hætti að ekki stafaði hætta af fyrir starfsmenn, og vinnu og framkvæmdum hagað þannig að gætt væri fyllsta öryggis, sbr. 13. gr., 21. gr. og 37. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Þar sem stefnandi hafi verið ungur að árum, einungis nýorðinn 18 ára gamall þegar slysið varð, hafi þeim mun ríkari skylda hvílt á vinnuveitanda til að veita leiðbeiningar og tryggja öryggi og aðbúnað á vinnustað. Stefndi hafi brotið gegn framangreindum ákvæðum með eftirfarandi hætti:
Í fyrsta lagi hafi stefnanda verið gert að vinna við ræstingu á Júmbóþotu, sem er stærsta og hæsta þotan í flugflotanum. Þar af leiðandi hafi stiginn, sem hékk í rananum, verið mjög brattur, mun brattari en þegar um ræstingu hefðbundinna flugvéla er að ræða. Halli, uppstig og framstig stigans hafi verið langt frá því að vera æskileg samkvæmt almennum viðmiðum. Vísað er til þess að 6. gr. reglugerðar nr. 499/1994 kveði sérstaklega á um að þar sem byrðar eru handleiknar skuli vinnuaðstæður vera eins góðar og kostur er og umferðarleiðir vera greiðfærar til að koma í veg fyrir hættu á að starfsmenn renni til, hrasi o.s.frv. Í öðru lagi hafi stiginn verið bæði blautur og háll. Í þriðja lagi hafi stefnandi verið látinn vinna of langa næturvakt umrætt sinn, starfað í samtals 13 klukkustundir og 45 mínútur er slysið varð, þannig verið þreyttur og sljór er hann slasaðist. Vísað er til ákvæða 56. gr. laga nr. 46/1980 í þessu sambandi. Í fjórða lagi hafi stefnda verið í lófa lagið að haga vinnuaðstöðu stefnanda með þeim hætti að koma hefði mátt í veg fyrir slysið.
Stefnandi sundurliðar kröfu sína þannig:
|
1. Tímabundið tekjutap |
73.088 kr. |
|
2. Þjáningabætur |
88.200 kr. |
|
3. Varanlegur miski 15% |
837.450 kr. |
|
4. Varanleg örorka 20% |
7.553.817 kr. |
|
Samtals |
8.552.555 kr. |
Um 1. tölulið.
Krafa stefnanda um bætur vegna tímabundins tekjutaps er óbreytt frá því sem greinir í stefnu.
Um 2. tölulið.
Að mati dómkvaddra yfirmatsmanna var stefnandi veikur í skilningi 3. gr. skaðabótalaga í þrjá mánuði frá slysdegi, samtals í 90 daga. Samkvæmt ákvæðum 3. gr. skaðbótalaga, sbr. 1. mgr. 15. gr., nema þjáningabætur vegna hvers dags kr. 980, - miðað við lánskjaravísitölu í maí 2004. Krafa vegna þjáningabóta nemur því: kr. 980. - x 90,- = kr. 88.200,-.
Um 3. tölulið.
Varanlegur miski stefnanda er metinn 15% í yfirmatsgerð. Fjárhæðin er reiknuð skv. 4. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 15. gr. skaðabótalaga, skv. lánskjaravísitölu í maí 2004. Krafa vegna varanlegs miska nemur því: kr. 5.583.000, - x 15% = kr. 837.450,-.
Um 4. tölulið.
Varanleg örorka stefnanda er sem fyrr metin 20%. Yfirmatsmenn telja hins vegar að stöðugleikapunktur sé 1. mars 2000 en ekki 1. júní 2000 eins og í undirmati. Krafa stefnanda breytist til samræmis við það.
Stuðst er við sama árslaunaviðmið og í stefnu, kr. 2.358.460,-. Þann 1. mars 2000 var stefnandi 18 ára og 107 daga gamall.
Stuðull skv. 6. gr. skaðabótalaga reiknast því þannig:
(18,476 (stuðull f. 18 ára) 18,031 (stuðull f. 19 ára) = 0,445)
(0,445 x 107/365 = 0,130)
(18,476 0,130 = 18,346)
Bætur vegna varanlegrar örorku nema því: kr. 2.358.460,- x 18,346 x 20% = kr. 8.653.661,-.
Frádráttur.
Stefnandi fékk greiddar kr. 215.276,- úr launþegatryggingu réttargæslustefnda og kr. 884.568,- í slysatryggingabætur frá Tryggingastofnun ríkisins (dskj. nr. 41), samtals kr. 1.099.844,-. Koma þær greiðslur til frádráttar bótum fyrir varanlega örorku, sbr. 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga.
Bætur vegna varanlegrar örorku nema því: kr. 8.653.661,- kr. 1.099.844,- = kr. 7.553.817,-.
Stefndi byggir aðallega á því að tjón stefnanda verði ekki rakið til atvika sem stefndi beri skaðbótaábyrgð á að lögum. Óhapp stefnanda verði ekki rakið til þess að verklagi, verkstjórn og vinnuaðstöðu stefnda hafi verið ábótavant. Vísað er til þess að skýrsla Vinnueftirlits ríkisins - sem gerð var sama morgun og slysið varð - greini frá því að stefnanda hafi orðið fótaskortur í stiga sem „uppfyllir vel allar kröfur varðandi slíka stiga“ og hafi lýst hann stöðugan með góðum handriðum, ristaþrepum úr járni, hrufóttum á efra borði þrepa. Þá er bent á að stefnandi hafi verið rúmlega átján ára er slysið varð og hafi á þeim tíma verið búinn að vinna við þau störf sem hér um ræðir í þrjá mánuði. Þannig hafi hann margoft í ýmsum veðrum þetta haust farið með rusl niður umræddan eða sams konar stiga. Hafi hann gjörþekkt aðstæður og verkið einfalt. Verkstjóri hafi með réttu mátt ætla að ofrausn væri í hvert sinn að leiðbeina stefnanda, starfsmanni með þriggja mánaða reynslu, hvernig öruggast væri að bera sig að svona verki.
Stefndi byggir á því að vinnuaðstæður hafi verið góðar, umferðarleiðir greiðfærar og ekkert tálmað för stefnanda um stigann. Þá hafi lýsing einnig verið nægileg. Þá er byggt á því að ósannað sé að orsakasamhengi hafi verið milli þess álags sem var á stefnanda um að vinna verkið rösklega og þess óhapps sem varð. Starfið hafi alls ekki verið sérlega áhættusamt og ekki falið í sér mikið líkamlegt og andlegt álag svo sem áskilið sé í ákvæði 4. mgr. 56. gr. laga nr. 46/1980 varðandi hámark vinnutíma. Hér eigi við ákvæði 1. mgr. 56. gr. sömu laga sem kveða á um að vinnutími næturvinnu-starfsmanna skuli að jafnaði ekki vera lengri en átta klukkustundir á hverju 24 klukkustunda tímabili.
Verði ekki fallist á sýknukröfu stefnda krefst stefndi lækkunar bóta á grundvelli eigin sakar stefnanda.
Stefnandi gaf skýrslu fyrir rétti. Hann sagði m.a. að hann hefði í aðdraganda slyssins verið búinn að vinna á næturvakt frá því klukkan 8 kvöldið áður og þar til klukkan 8 næsta morgun, er hann hafi verið beðinn um að vinna lengur. Unnið hafi verið við Atlanta þotuna og hafi verkinu verið næstum lokið er einhver hafi hent poka niður stigann. Pokinn hafi stoppað fyrir miðjum stiganum. Hafi hann þá farið upp í stigann aftur, tekið pokann og ætlað að klára sitt verk. Hafi hann snúið sér við og misst fótanna sökum þess að þrepin voru stutt og stiginn brattur, og runnið þarna niður á bakinu. Þetta hafi gerst rétt fyrir klukkan 10 þennan morgun. Hafi hann þá verið búinn að vinna sleitulaust í tæpa 14 tíma og bæði verið orðinn þreyttur og syfjaður.
Stefnandi tók fram að stiginn hefði verið blautur þar sem rignt hefði. Hafi hann engar leiðbeiningar fengið um skóbúnað í vinnunni en verið búinn að starfa þarna í þrjá mánuði er slysið varð. Hafi hann engar leiðbeiningar fengið um hvernig hann ætti að bera sig að við störfin eða tilsögn um hvaða hætta fylgdi þeim, hvorki almennt né við þessar sérstöku aðstæður er sköpuðust við að stiginn varð svo brattur [vegna stærða Júmbóþotunnar er þá var verið að þrífa]. Kvaðst hann hafa unnið við Júmbóþotur fjórum sinnum áður. Tvisvar sinnum hafi þotan þá staðið „út á hlaði“ og þá hafi stigabíll verið notaður en á stigabíl sé unnt að hækka stigann án þess að þrepin minnki, hallinn verði ekkert meiri, stiginn alltaf eins, sama hversu hátt hann fari.
Stefnandi sagðist hafa verið búinn að snúa sér við og verið á leiðinni niður stigann þegar hann datt. Hann kvaðst ekki muna hvort hann hefði haldið í handriðið. Hann kvaðst við störf í Júmbóþotum hafa farið stigann tvær til þrjár ferðir.
Kristbjörg Gunnbjörnsdóttir gaf skýrslu fyrir rétti. Hún sagði m.a. að hún hefði verið verkstjóri hjá stefnda, Flugleiðum hf., þegar umrætt slys varð. Hún sagði að úti hafi verið blautt á þessum tíma. Hún kvað þó ekki hafa stafað hætta af því í umræddum stiga, hafi hann aðeins þegar ísregn var orðið sleipur. Hún kvaðst ekki vita til að stefnandi hefði fengið leiðbeiningar um hvaða skór væru hættulegir til notkunar við aðstæður er þarna voru. Hún sagði að starfsmenn hefðu ekki fengið sérstakar leiðbeiningar eða námskeið um verklag, en yfirleitt hefðu eldri starfsmenn kennt nýjum starfsmönnum, hvernig staðið væri að verki.
Kristbjörg sagði að allir starfsmenn sem unnu við hreinsun flugvélarinnar hefðu notað umræddan stiga. Þetta hafi verið eina aðgengið fyrir þá inn í vélina.
Inga Jóna Björgvinsdóttir gaf skýrslu fyrir rétti. Hún sagðist m.a. hafa á þessum tíma unnið í „þjónustubyggingunni“ en tekið „útköll“ í hreinsun á flugvélunum. Í þetta sinn hafi verið um Atlantavél að ræða. Hún kvað alltaf unnið hratt við þessi störf. Hún sagði að hættulegt hafi verið eins og stiginn var brattur að vera í íþróttaskóm með sléttum botni. Hún kvaðst ekki muna að starfsmenn hefðu fengið leiðbeiningar um hvers konar skó þeir ættu að nota við aðstæður eins og þessar.
Inga kvaðst hafa séð þegar stefnandi datt, en hún hefði staðið fyrir neðan stigann og horft upp. Krap hafi verið alls staðar. Stefnandi hafi komið gangandi niður stigann en misst fótanna í miðjum stiganum. Hún kvaðst ekki muna hvort hann hefði haldið sér í handriðið. Kvaðst hún halda að hann hefði verið með poka.
Örn Sævar Eiríksson gaf skýrslu símleiðis. Hann sagði m.a. að stiginn sem hér um ræðir hafi verið samþykktur af vinnueftirlitinu á sínum tíma. Þegar saman fór bleyta og vindur kvað Örn stigann hafa verið varhugaverðan. Við þau skilyrði, sagði hann, að fólk hefði talað um að stiginn gæti verið háll.
Örn kvaðst hafa verið yfirhlaðstjóri á þeim tíma sem hér um ræðir. Örn kvaðst ekki hafa sagt stefnanda að gúmmísólar gætu verið hálir, ef saman færi bleyta og vindur, við þær aðstæður yrði viðnámið minna. Hann kvaðst ekki vita til þess að stefnandi hefði fengið slíkar leiðbeiningar, en lagt hefði verið fyrir starfsfólk að vera í réttum skóbúnaði eða skóbúnaði við hæfi. Sérstaklega hafi þó verið ráðlagt að kvenfólkið væri ekki í háhæluðum skóm. Örn kvaðst ekki vera kunnugt um hvort stefnandi hefði fengið leiðbeiningar er hann hóf störf hjá stefnda. Almennt hafi klukkutíma fyrirlestur verið haldinn um öryggi á hlaði. Ekki hafi í slíkum fyrirlestri verið fjallað um skóbúnað heldur um aðgengi og hvernig bæri að haga sér nálægt flugvélum o.þ.u.l.
Örn kvað stigabíla alltaf vera tiltæka. Almennt hafi starfsfólk notað „þjónustustigana“ við hreinsun á Boeing 747 heldur en stigabílana. Hann sagði að sömu vinnubrögðin við þessi störf tíðkuðust enn í dag.
Telma Björgvinsdóttir gaf skýrslu símleiðis. Hún sagði m.a. að er slysið varð hafi hún ásamt öðrum verið að þrífa Atlantavél. Klukkan hafi líklega verið milli 9 og 10 um morgun. Hálka hafi verið úti og búið að vera frekar leiðinlegt veður. Stiginn hafi verið mjög brattur upp í vélina. Stefnandi hafi verið á leið niður stigann með fullt af dóti og misst fótanna og fallið niður stigann. Hún sagði að allir starfsmennirnir hefðu notað þennan stiga.
Ályktunarorð: Fyrir liggur í málinu greinargóð umsögn eftirlitsmanns frá vinnueftirliti ríkisins, en hann fór þegar á vettvang sama dag og slysið varð, skömmu eftir að búið var að flytja hinn slasaða af staðnum til rannsóknar og aðhlynningar. Ekki verður ráðið af umsögninni og ljósmyndum, er teknar voru þá af umhverfi og aðstæðum og liggja frammi í málinu, að stiginn, sem stefnanda varð fótaskortur í, hafi verið vanbúinn. Verður ekki betur séð en að stiginn hafi verið vel greiðfær og með góðum handriðum á báðum hliðum. Þá er upplýst að allir starfsmenn stefnda, sem unnu ásamt stefnanda við þrif flugvélarinnar, notuðu umræddan stiga sem hluta af einu leiðinni fyrir þá inn og út úr flugvélinni umrætt sinn. Og þó að stiginn geti talist brattur fyrir almenna umferð utan húss, verður ekki séð að hann hafi verið hættulegur, ef eðlileg aðgát var höfð, allra síst fyrir þann sem þekkti aðstæður allar og hafði gengið upp og niður stigann áður þennan morgun eins og stefnandi hafði sannarlega gert. Um einfalt verk var að ræða við einfaldar aðstæður. Ónákvæm verkstjórn verður því ekki talin ástæða þess að slysið varð. Jafnframt er ályktað að gögn málsins og framburður vitna sýni hvorki né sanni að ótilhlýðilegt vinnuálag á stefnanda hafi átt þátt í slysinu.
Þannig þykir einsætt að stefndi eigi ekki sök á því að svo fór sem fór. Stefndi verður því sýknaður af kröfum stefnanda á hendur honum.
Rétt er að aðilar beri hvor sinn kostnað af málinu, en um gjafsóknarkostnað stefnanda fer samkvæmt því sem í dómsorði greinir.
Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Stefndi, Flugleiðir hf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Ísaks Þórs Ragnarssonar.
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkisjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns stefnanda, 350.000 krónur.