Hæstiréttur íslands

Mál nr. 269/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. B. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
  • Framsal sakamanns


Föstudaginn 19. apríl 2013.

Nr. 269/2013.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H.B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Brynjólfur Eyvindsson hdl.)

 Kærumál. Gæsluvarðhald. B. liður 1. mgr. 95 gr. laga nr. 88/2008. Framsal sakamanna.

Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi á grundvelli b. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og 15. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum, en gæsluvarðhaldi markaður skemmri tími.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Eiríkur Tómasson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. apríl 2013, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. apríl 2013, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi á meðan framsalsmál hans er til meðferðar, þó eigi lengur en til miðvikudagsins 8. maí 2013 klukkan 16. Kæruheimild er í 24. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími, en að því frágengnu að honum verði gert að sæta farbanni í stað gæsluvarðhalds.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður staðfest niðurstaða hans um áframhaldandi gæsluvarðhald varnaraðila á grundvelli b. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 1. mgr. 15. gr. laga nr. 13/1984. Með vísan til lokamálsliðar 2. mgr. þeirrar greinar verður gæsluvarðhaldi þó markaður sá tími sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Varnaraðili, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi á meðan framsalsmál hans er til meðferðar hjá íslenskum stjórnvöldum, þó eigi lengur en til miðvikudagsins 1. maí 2013 klukkan 16.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. apríl 2013.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, fæddur [...]. [...] [...], verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi á meðan að framsalsmál hans er til meðferðar hjá íslenskum stjórnvöldum, þó eigi lengur en til miðvikudagsins 8. maí 2013 kl. 16:00.

Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafi fengið tilkynningu frá Lögreglustjóranum á Suðurnesjum um að för X og tveggja félaga hans hafi verið stöðvuð í tollinum. Við leit á mönnunum hafi komið í ljós segull sérstakrar gerðar en notkun slíkra segla sé þekkt hjá afbrotamönnum við að gera þjófavarnir, á lausamunum í verslunum, óvirkar. Mönnunum hafi verið hleypt inn í landið og hafi þeir sagst ætla að dvelja á nánar tilgreindu gistihúsi í Reykjavík. Við nánari skoðun hafi komið í ljós að X sé eftirlýstur af hálfu Interpol vegna tveggja alvarlegra afbrota á Kýpur.

Í fyrsta lagi sé X grunaður um innbrot og þjófnað, í félagi, í skartgripaverslunina ELENA KLEOVOULOU LTD í Nikósía sem framið hafi verið milli kl. 13:30 og 08:30 dagana 2. og 3. maí 2012. Í innbrotinu hafi verið teknir skartgripir að andvirði EUR 200.000 (ISK 32.000.000).

Í öðru lagi sé X grunaður um að hafa, í félagi við annan mann, þann 4. maí 2012 ráðist með ofbeldi að verslunarstjóra stórmarkaðarins ELOMAS í Latsía, úthverfi af borginni Nikósía, í þeim tilgangi að ræna hann. Í ráninu hafi verið komist yfir uppgjör verslunarinnar að fjárhæð EUR 17.205 (ISK 2.750.000). Fórnarlambið hafi verið illa leikið í kjölfar ofbeldisins og þurft að leggjast inn á sjúkrahús til frekari meðferðar.

Interpol hafi krafist þess af viðkomandi lögregluyfirvöldum að X verði handtekinn, þar sem farið verði fram á framsal á hendur honum, en hann sé grunaður um brot gegn eftirfarandi ákvæðum 154. kafla Kýpversku hegningarlaganna: A. 371. gr. (samblástur um þátttöku í glæpsamlegu athæfi), B. 282. og 283. gr. (rán), C. 291. og a-liður 294., 1. mgr. 255. og 262. gr. (innbrot og þjófnaður), D. 231. gr. (valdið skaða). Samkvæmt íslenskum refsilögum virðist heimfærsla verknaðanna a.m.k. eiga undir 2. mgr. 244. gr. og 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Við meintum afbrotum liggi að hámarki lífstíðarfangelsi, samkvæmt kýpverskum refsilögum. Þann 27. mars sl. hafi verið tekin skýrsla af X þar sem hann kvaddist hafa verið á Kýpur í um þriggja vikna skeið í apríl og maí í fyrra. Hann hafi neitað afbrotunum en kvaðst hafa verið þar ásamt nánar tilgreindum manni sem gögn málsins beri með sér að sé einnig grunaður um verknaðina. Jafnframt kannist X við að hafa búið í Latsía. Spurður út í sakaferil sinn kvaddist hann vera með hreina sakarskrá en að hafa þó ,,flækst” inn í vændismál á Spáni og hafi þurft að sæta tveggja mánaða skilorðsbundinni fangelsisrefsingu af þeim sökum.

X hafi þann 27. mars sl. verið úrskurðaður í þriggja vikna gæsluvarðhald með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. R-121/2013. Alþjóðadeild Ríkislögreglustjórans hafi tilkynnt Interpol og kýpverskum yfirvöldum um handtöku X. Framsalsbeiðni hafi borist innanríkisráðuneytinu sem muni í kjölfarið taka afstöðu til beiðninnar. X, sem sé rúmenskur ríkisborgari, hafi takmörkuð tengsl við land og þjóð og því hætta á að hann kunni að koma sér úr landi og þannig undan málsmeðferð lögregluyfirvalda.

Til að tryggja nærveru X meðan framsalsmál hans sé til meðferðar hjá íslenskum stjórnvöldum og með hliðsjón af alvarleika sakargiftanna, sé þess krafist, að hann verði úrskurðaður í gæsluvarðhald með vísan til 15. gr. laga um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum nr. 13/1984, sbr. b-lið 1. mgr. 95 gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

         Samkvæmt gögnum málsins hafa yfirvöld á Kýpur, með erindi mótteknu af innanríkisráðuneytinu í dag, krafist framsals varnaraðila, sem er rúmenskur ríkisborgari. Er hann grunaður um aðild að annars vegar innbroti í skartgripaverslun, þar sem verðmæti þýfisins var um 200.000 evrur, og hins vegar að ráni þar sem brotaþoli var beittur harkalegu ofbeldi. Varnaraðili hefur afar takmörkuð tengsl við Ísland. Hann var handtekinn fljótlega eftir komu hans til landsins ásamt tveimur félögum sínum og sögðust þeir ætla að dvelja á gistihúsi í Reykjavík. Í fórum mannanna fannst segull sem hægt er að nota til að gera þjófavarnir óvirkar. Fallist verður á með lögreglustjóra að skilyrðum b-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 fyrir gæsluvarðhaldi yfir varnaraðila sé fullnægt, enda má ætla að hann muni reyna að komast úr landi meðan mál hans er til meðferðar hér á landi. Þau brot sem varnaraðili er grunaður um eru alvarleg, en samkvæmt fyrirliggjandi gögnum er hámarksrefsing við þeim samkvæmt kýpverskum hegningarlögum lífstíðarfangelsi. Þykja ekki efni til að varnaraðili sæti farbanni í stað gæsluvarðhalds. Með vísan til framangreinds verður krafa lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu tekin til greina og ákveðið, með heimild í 15. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum og b-lið 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála, að varnaraðili sæti áfram gæsluvarðhaldi, eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

         Barbara Björnsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Varnaraðili, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi á meðan framsalsmál hans er til meðferðar hjá íslenskum stjórnvöldum, þó eigi lengur en til miðvikudagsins 8. maí 2013 kl. 16:00.