Hæstiréttur íslands

Mál nr. 612/2013


Lykilorð

  • Fasteign
  • Eignarréttur
  • Þjóðlenda
  • Afréttur
  • Tómlæti


Fimmtudaginn 13. febrúar 2014.

Nr. 612/2013.

Félagsbúið Tungufelli

Einar Jónsson og

Sigurjón Helgason

(Eiríkur Gunnsteinsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Björn Jóhannesson hrl.)

Fasteign. Eignarréttur. Þjóðlendur. Afréttur. Tómlæti.

F, E og S kröfðu Í um endurgreiðslu útlagðs kostnaðar vegna rafmagnsgirðingar sem þeir settu upp á mörkum jarðarinnar Tungufells, sem þeir munu vera þinglýstir eigendur að, og Hrunaheiða, sem er þjóðlenda í eigu Í. Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 133/2006 hafði verið staðfest niðurstaða óbyggðanefndar og héraðsdóms um að Hrunaheiðar, með nánar tilgreindum merkjum væru þjóðlenda, en jafnframt afréttareign eiganda prestssetursjarðarinnar Hruna. Með samkomulagi Í og þjóðkirkjunnar 20. október 2006 um prestssetur og afhendingu þeirra var kveðið á um að prestssetur og prestsbústaðir væru eign þjóðkirkjunnar. Var Hruni með í upptalningu um prestssetur sem fylgdi samkomulaginu og þetta átti við um. Með lögum nr. 82/2007 um breyting á lögum nr. 78/1997 um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar var eignarréttur þjóðkirkjunnar að prestssetursjörðum staðfestur. Um greiðsluskyldu Í vísuðu F, E og S til 1. málsliðar 1. mgr. 6. gr. girðingarlaga nr. 135/2001 þar sem segir að vilji meirihluti landeigenda, sem lönd eigi er liggi að afrétti, girða milli afréttar og heimalanda sinna skuli eigendur eða notendur afréttar greiða 4/5 hluta stofnkostnaðar girðingarinnar en eigendur eða ábúendur hlutaðeigandi jarða 1/5 hluta. Óumdeilt væri að Í væri eigandi þjóðlendunnar á Hrunaheiðum og því greiðsluskyldur sem slíkur. Þá hefði afréttareign á Hrunaheiðum ekki fylgt með við eignayfirfærslu að prestssetursjörðinni Hruna samkvæmt áðurnefndu samkomulagi Í og þjóðkirkjunnar og tilheyrði hún því Í enn. Greiðsluskylda Í væri því ótvíræð og væri Í skylt að bera 4/5 hluta stofnkostnaðar við girðinguna. Með vísan til áðurnefnds dóms réttarins og lagasetningar á árinu 1997 lagði Hæstiréttur til grundvallar að Prestssetrasjóður hefði ekki síðar en á því tímamarki ótvírætt verið eigandi Hruna. Samkomulagið frá 2006 og lagasetning á árinu 2007 breyttu engu um þann eignarrétt. Að öllu virtu hafnaði Hæstiréttur málstæðu F, E og S um greiðsluskyldu Í sem reist væri á því að Í hefði verið eigandi Hruna til 2007 og að afréttareign á Hrunaheiðum tilheyrði því ennþá. Greiðsluskylda yrði hvorki felld á Í á þeim grunni að það væri notandi né eigandi afréttareignar á Hrunaheiðum, sbr. 6. gr. girðingarlaga. Með vísan til forsögu þess lagaákvæðis, ummæla í lögskýringagögnum sem styðji það að megináhersla vegna greiðsluskyldu hafi verið lögð á not afréttar og skýringar hugtaksins afréttur í lögum nr. 58/1988 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta taldi Hæstiréttur að eignarréttur Í á þjóðlendunni gæti ekki leitt til þess að krafa F, E og S næði fram að ganga. F, E og S héldu því einnig fram að Í hefði sýnt tómlæti við að halda fram rétti sínum þar sem hartnær þrjú ár liðu frá því úrskurður nefndar samkvæmt 7. gr. girðingarlaga lá fyrir þar til Í gerði reka að því að fá hann felldan úr gildi. Taldi Hæstiréttur aðgerðarleysi um framgang málsins hafa verið viðhaft á báða bóga. F, E og S krefðust ekki endurskoðunar á þeim hluta héraðsdóms að úrskurður nefndarinnar væri felldur úr gildi. Að öllu virtu hafnaði Hæstiréttur því þessari málsástæðu og var Í sýknað af kröfu F, E og S.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson og Gunnlaugur Claessen fyrrverandi hæstaréttardómari.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 18. september 2013. Þeir krefjast þess að stefnda verði gert að greiða þeim 2.426.563 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. janúar 2009 til greiðsludags. Þá krefjast þeir málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Ágreiningur málsaðila snýst um það hvort stefnda sé skylt að endurgreiða áfrýjendum hluta útlagðs kostnaðar af rúmlega 5 km langri rafmagnsgirðingu sem þeir síðarnefndu reistu haustið 2008 sem næst á mörkum jarðarinnar Tungufells í Hrunamannahreppi og Hrunaheiða. Síðastnefnt landsvæði er þjóðlenda í eigu stefnda en áfrýjendurnir Einar Jónsson og Sigurjón Helgason munu vera þinglýstir eigendur Tungufells. Áfrýjendur halda fram að nauðsynlegt hafi verið fyrir þá að reisa girðinguna til að verjast ágangi búfjár frá jörðum í Hrunamannahreppi sem gangi á sumrin á Hrunaheiðum en sæki á haustin í land Tungufells. Um greiðsluskyldu stefnda vísa þeir í 1. málslið 1. mgr. 6. gr. girðingarlaga nr. 135/2001 þar sem segir að vilji meiri hluti landeigenda, sem eigi lönd er liggja að afrétti, girða milli afréttar og heimalanda sinna skuli eigendur eða notendur afréttar greiða 4/5 hluta stofnkostnaðar girðingarinnar en eigendur eða ábúendur hlutaðeigandi jarða 1/5 hluta. Óumdeilt sé að stefndi sé eigandi þjóðlendunnar á Hrunaheiðum og sem slíkur sé hann greiðsluskyldur. Að auki tilheyri afréttareign á þjóðlendunni einnig stefnda sem renni frekari stoðum undir greiðsluskyldu hans. Stefnda sé samkvæmt því skylt að bera 4/5 hluta stofnkostnaðar við girðinguna.

Á árinu 1999 lýsti stefndi kröfu sinni til óbyggðanefndar sem starfar samkvæmt lögum nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta. Laut krafan að því meðal annars að viðurkennt yrði að Hrunaheiðar væru þjóðlenda og að mörk hennar og efstu jarða í Hrunamannahreppi yrðu dregin með nánar tilgreindum hætti. Prestssetrasjóður, sem starfaði samkvæmt lögum nr. 137/1993 um prestssetur, stóð til andsvara og taldi heiðarnar heyra til eignarlands prestssetursjarðarinnar Hruna. Endanlega var skorið úr ágreiningnum með dómi Hæstaréttar 5. október 2006 í máli nr. 133/2006 þar sem staðfest var sú niðurstaða óbyggðanefndar og héraðsdóms að Hrunaheiðar með nánar tilgreindum merkjum væru þjóðlenda, en þær væru jafnframt afréttareign eiganda Hruna. Varðandi aðild að málinu var sérstaklega tekið fram að samkvæmt lögum nr. 78/1997 um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar færi Prestssetrasjóður með yfirstjórn prestssetra. Sjóðurinn hafi því það lögbundna forræði yfir prestssetrum að hann gæti átt aðild að dómsmálum sem þau varða án tillits til þess hvort stefndi sé þar gagnaðili eða aðrir. Eftir setningu laga nr. 82/2007 um breyting á áðurnefndum lögum nr. 78/1997 hefur Kirkjumálasjóður tekið við málefnum prestssetursjarða, en sjóðurinn starfar samkvæmt lögum nr. 138/1993 og lýtur stjórn þjóðkirkjunnar.

Stefndi og þjóðkirkjan gerðu samkomulag 20. október 2006 um „prestssetur og afhendingu þeirra“ með fyrirvara um samþykki Kirkjuþings og Alþingis. Þar segir í 1. gr. að prestssetur og prestsbústaðir, sem Prestssetrasjóður tók við yfirumsjón á 1. janúar 1994, séu eign þjóðkirkjunnar. Hruni var með í upptalningu um prestssetur sem fylgdi samkomulaginu og þetta átti við um. Í 6. gr. laga nr. 82/2007 um breyting á áðurnefndum lögum nr. 78/1997 var eignarréttur þjóðkirkjunnar staðfestur og skyldi hið sama eiga við um prestsbústaði og aðrar eignir sem Prestssetrasjóður hafði keypt, en þetta ákvæði laganna öðlaðist gildi 1. júní 2007. Kirkjumálasjóður sendi sýslumanninum á Selfossi skjal dagsett 4. desember sama ár með beiðni um þinglýsingu þess sem eignarheimildar á Hruna fyrir þjóðkirkjuna og sjóðinn með vísan til áðurnefndra laga og samkomulags. Áfrýjendur byggja á því að eignarréttur að Hruna hafi fyrst á þessu tímamarki færst frá stefnda til Kirkjumálasjóðs og hvergi komi fram að afréttareign jarðarinnar á Hrunaheiðum hafi fylgt með í eignayfirfærslunni. Stefndi sé þannig eigandi bæði þjóðlendunnar og afréttareignar þar, sem áður fylgdi Hruna, og greiðsluskylda stefnda því ótvíræð. Stefndi andmælir þessu og bendir á að ekki sé ágreiningur milli aðila samkomulagsins 20. október 2006 um að afréttareign Hruna á Hrunaheiðum hafi fylgt jörðinni við þinglýsingu á rétti þjóðkirkjunnar yfir henni.

Hinn 20. október 2006 höfðu áfrýjendur uppi kröfu um viðurkenningu á greiðsluskyldu stefnda sem hafnaði henni. Eftir það óskuðu þeir eftir því við nefnd samkvæmt 7. gr. girðingarlaga að hún myndi skera úr ágreiningi aðila og voru þrír menn tilnefndir til að taka sæti í nefndinni á fyrri hluta árs 2009. Úrskurður hennar var kveðinn upp 29. september sama ár og varð niðurstaðan í samræmi við kröfu áfrýjenda. Stefndi neitaði enn greiðsluskyldu. Áfrýjendur höfðuðu málið 12. júní 2012 en stefndi krafðist sýknu. Hann höfðaði jafnframt gagnsök í málinu 10. júlí sama ár þar sem þess var krafist að áðurnefndur úrskurður nefndar samkvæmt 7. gr. girðingarlaga yrði felldur úr gildi, en þeirri kröfu beindi hann að Kirkjumálasjóði auk áfrýjenda. Allir gagnstefndu í héraði kröfðust sýknu. Með hinum áfrýjaða dómi var stefndi sýknaður af fjárkröfu áfrýjenda og jafnframt fallist á kröfu hans um að fella úrskurð nefndarinnar úr gildi. Fyrir Hæstarétti krefjast áfrýjendur þess að fjárkrafa þeirra verði tekin til greina en þar er ekki vikið að þeim hluta dómsorðs héraðsdóms að úrskurður nefndarinnar sé felldur úr gildi. Kirkjumálasjóður hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti. Áfrýjendur benda á að hartnær þrjú ár hafi liðið frá því úrskurður nefndarinnar lá fyrir þar til stefndi gerði reka að því með höfðun gagnsakar að fá hann felldan úr gildi. Þeir byggja á að með þessu hafi stefndi sýnt slíkt tómlæti að hugsanlegur réttur hans til að fá úrskurðinn ógiltan sé niður fallinn.

II

Eins og að framan var getið byggja áfrýjendur á því að eignarhald á Hruna hafi færst frá stefnda til þjóðkirkjunnar með samkomulagi 2006 og lagasetningu 2007. Afréttareign á Hrunaheiðum hafi ekki fylgt með við þessa eignayfirfærslu og tilheyri hún því enn stefnda. Málsástæðan gefur tilefni til að huga sérstaklega að því hvaða þýðingu samkomulagið og lögin hafi haft um eignarráð á jörðinni. Kemur þá til úrlausnar hvort í þessu hafi falist formleg og endanleg viðurkenning stefnda á eignarrétti þjóðkirkjunnar á Hruna, sem þegar var í raun fyrir hendi, eða hvort eignarréttur á jörðinni hafi fyrst á árinu 2007 verið fluttur frá stefnda til þjóðkirkjunnar eða starfseiningar á hennar vegum.

Með setningu laga nr. 78/1997 var kveðið á um eignarrétt að jarðeignum kirkjunnar, en um það hafði lengi verið ágreiningur. Hann náði allt aftur til setningar laga nr. 46/1907 um laun sóknarpresta og laga nr. 50/1907 um sölu kirkjujarða þegar breyttri skipan var komið á um vörslu kirkjueigna samtímis því að stefndi tók að sér í reynd að greiða laun presta þjóðkirkjunnar. Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi sem varð að lögum nr. 78/1997 kemur meðal annars fram að samtímis gerð þess hafi viðræðunefndir stefnda og þjóðkirkjunnar náð samkomulagi um kirkjueignir og launagreiðslur til presta og tiltekinna annarra starfsmanna þjóðkirkjunnar. Drög að því samkomulagi fylgdi frumvarpinu, en í 1. gr. þess segir að kirkjujarðir og aðrar kirkjueignir sem þeim fylgja séu eign stefnda að frátöldum prestssetrum og því sem þeim fylgir. Í athugasemdum með 61. gr. frumvarpsins, sem varð 60. gr. laganna, segir meðal annars að stefndi verði formlegur eigandi allra kirkjujarða að frátöldum prestssetrum. Á þeim grunni skuldbindi stefndi sig til að greiða prestum og tilteknum öðrum starfsmönnum þjóðkirkjunnar laun. Þar segir einnig að eins og fram komi í 4. gr. nefnds samkomulags „líta aðilar svo á að þetta samkomulag um eignaafhendingu og skuldbindingu sé fullnaðaruppgjör vegna þeirra verðmæta sem ríkissjóður tók við árið 1907 ... .“

Lög nr. 78/1997 lýstu stefnda réttan eiganda kirkjujarða að undanskildum prestssetursjörðum og í umfjöllun í lögskýringargögnum segir beinlínis að í þessu felist fullnaðaruppgjör vegna verðmæta í eigu þjóðkirkjunnar sem stefndi tók til sín með lögum árið 1907. Í fullnaðaruppgjöri felst að af hálfu þjóðkirkjunnar hafi nú með afhendingu kirkjujarða verið greitt að fullu fyrir þær skuldbindingar sem stefndi tókst á herðar gagnvart henni 1907 eða síðar, en prestssetur voru undanskilin í ákvörðun um endurgjald til stefnda. Í því hlaut að felast að jarðir, sem ótvírætt voru prestssetur, yrðu eftir sem áður eign þjóðkirkjunnar eða starfseininga hennar. Óumdeilt er að prestar hafi setið í Hruna á þessum tíma. Þá hefur Prestssetrasjóður lengi stjórnað málefnum jarðarinnar og mun meðal annars hafa ráðstafað hlunnindum hennar á Hrunaheiðum, svo sem með gerð óformlegs samkomulags við Hrunamannahrepp um að sveitarfélagið annist haustsmölun þar og fái í staðinn arð af veiðihlunnindum fyrir landi heiðanna í Stóru-Laxá.

Dómur Hæstaréttar í áðurnefndu máli nr. 133/2006 féll áður en viðbótarsamkomulag stefnda og þjóðkirkjunnar var gert 20. október 2006, sbr. einnig lög nr. 82/2007. Málsaðilar þar voru Prestssetrasjóður og stefndi, en að framan var greint frá niðurstöðum dómsins um aðild sjóðsins sem talin var heimil. Um þetta er jafnframt að líta til dóms Hæstaréttar 6. september 2005 í máli nr. 367/2005 þar sem stefndi var aðili bæði til sóknar og varnar. Í því máli kom stefndi annars vegar fram með kröfu um viðurkenningu á því að tiltekið landsvæði væri þjóðlenda og jafnframt sem eigandi tveggja jarða þar sem hann mótmælti þjóðlendukröfu sjálfs sín þar eð hún gengi inn á eignarland jarðanna. Samkvæmt dóminum verður dómsmál samkvæmt meginreglum einkamálaréttarfars ekki rekið af sama aðila til sóknar og varnar og var niðurstaða héraðsdóms um frávísun málsins staðfest. Að þessu leyti væri sama aðstaða fyrir hendi hefði stefndi sem eigandi Hruna en ekki Prestssetrasjóður andmælt þjóðlendukröfu stefnda á Hrunaheiðum, en af eldri dóminum verður ráðið að slíkri kröfu stefnda hefði verið vísað frá dómi. Prestssetrasjóður gat á hinn bóginn verið aðili að nefndu dómsmáli nr. 133/2006. Samkvæmt því sem að framan er rakið um síðastnefndan dóm og lagasetningu á árinu 1997 verður lagt til grundvallar að Prestssetrasjóður hafi ekki síðar en á því tímamarki ótvírætt verið eigandi Hruna. Samkomulag stefnda og þjóðkirkjunnar 2006 og lög nr. 82/2007 breyta engu um þann eignarrétt en samkvæmt nefndu samkomulagi skyldi framlag stefnda til Kirkjumálasjóðs hækkað, en önnur prestssetur en þau sem Prestssetrasjóður hafði áður yfirtekið skyldu teljast með kirkjueignum sem féllu í hlut stefnda 1997. Þegar samkomulagsdrögin voru lögð fyrir Kirkjuþing 2006 fylgdi þeim greinargerð þar sem sagði meðal annars að „í samkomulaginu er gengið frá því hvaða prestssetrum Þjóðkirkjan heldur áfram í eigu sinni og hvaða önnur prestssetur færast til ríkisins.“ Að virtu öllu því sem sem að framan greinir verður hafnað málsástæðu áfrýjenda um greiðsluskyldu  stefnda sem reist er á því að stefndi hafi verið eigandi Hruna til 2007 og að afréttareign á Hrunaheiðum tilheyri honum ennþá. Greiðsluskylda verður því hvorki felld á stefnda á þeim grunni að hann sé notandi né eigandi afréttareignar á Hrunaheiðum, sbr. 6. gr. girðingarlaga.

III

Áfrýjendur bera því jafnframt við að stefndi sé greiðsluskyldur sem eigandi áðurnefndrar þjóðlendu samkvæmt 6. gr. girðingarlaga. Í héraðsdómi er greint frá forsögu ákvæðisins í eldri lögum um sama efni og að það eigi sér rætur í réttarskipan sem var á vissan hátt með öðru móti þá en nú í eignarréttarlegu tilliti. Þar er einnig getið ummæla í lögskýringargögnum sem styðji það að megináhersla vegna greiðsluskyldu hafi verið lögð á not afréttar þar sem vísað var til þess að afréttar- og upprekstrarfélög eigi að bera aukinn kostnað umfram eigendur eða notendur heimalands jarða, en þörf á girðingum sé meðal annars til komin vegna búfénaðar sem færður er til sumarbeitar á afrétti. Um notkun hugtaksins afréttur í 6. gr. núgildandi girðingarlaga verður einnig að líta til þess að þau eru yngri en lög nr. 58/1998, en um skýringu á hugtakinu verður litið til síðastnefndra laga. Að því virtu sem að framan greinir getur eignarréttur stefnda á þjóðlendu á Hrunaheiðum ekki leitt til þess að krafa áfrýjenda á hendur honum nái fram að ganga.

IV

Í kafla I að framan var greint frá málsástæðu áfrýjenda sem studd er við tómlæti stefnda um að halda fram rétti sínum með því að höfða mál til að fá úrskurð nefndar samkvæmt 7. gr. girðingarlaga felldan úr gildi. Þar er einkum á því byggt að tæplega þrjú ár hafi liðið frá því úrskurður nefndarinnar var kveðinn upp 29. september 2009 án þess að stefndi aðhefðist neitt til að fá honum hnekkt.

Áfrýjendur sendu stefnda innheimtubréf 26. nóvember 2009 og kröfðust greiðslu innan tíu daga, en að öðrum kosti yrði krafan innheimt með atbeina dómstóla. Stefndi svaraði lögmanni áfrýjenda með bréfi 1. desember sama ár þar sem boðuð var höfðun máls til að fá úrskurðinum hnekkt. Hvorugur fylgdi þessu þó eftir fyrr en um tveimur og hálfu ári síðar, en áfrýjendur höfðuðu málið eins og áður segir 12. júní 2012 og stefndi gagnsök 10. júlí sama ár. Aðgerðarleysi um framgang málsins var þannig viðhaft á báða bóga. Áfrýjendur krefjast ekki endurskoðunar á þeim hluta héraðsdóms að úrskurður nefndarinnar sé felldur úr gildi. Að öllu virtu verður þessari málsástæðu áfrýjenda hafnað.

Samkvæmt öllu framanröktu verður niðurstaða héraðsdóms staðfest eins og nánar segir í dómsorði. Ákvæði héraðsdóms um málskostnað verður staðfest, en rétt er að hvor málaðila beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Stefndi, íslenska ríkið, er sýkn af kröfu áfrýjenda, Félagsbúsins Tungufelli, Einars Jónssonar og Sigurjóns Helgasonar.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað skal vera óraskað.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. júní 2013.

I.

Mál þetta var höfðað 12. júní 2012 og dómtekið 22. maí 2013 að loknum munnlegum málflutningi.

Aðalstefnendur eru Einar Jónsson, til heimilis að Suðurengi 26, Selfossi, Sigurjón Helgason, til heimilis að Ofanleiti 11, Reykjavík og Félagsbúið Tungufelli í Hrunamannahreppi, en aðalstefndi er íslenska ríkið.

Gagnstefnandi er íslenska ríkið, en gagnstefndu eru Einar Jónsson, Sigurjón Helgason og Jón Óli Einarsson til heimilis að Tungufelli Hrunamannahreppi fyrir hönd Félagsbúsins Tungufelli og Guðmundar Þórs Guðmundssonar, til heimilis að Drekavogi 18, Reykjavík fyrir hönd Kirkjumálasjóðs, Laugavegi 31, Reykjavík.

Aðalstefnendur krefjast þess í aðalsök að aðalstefndi verði dæmdur til að greiða þeim 2.426.563 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu frá 1. janúar 2009 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar.

Aðalstefndi íslenska ríkið krefst sýknunar af öllum kröfum aðalstefnenda. Þá er krafist málskostnaðar.

Gagnstefnandi höfðaði mál á hendur aðalstefnendum og Kirkjumálasjóði með stefnu birtri 10. júlí 2012. Er þess krafist að felldur verði úr gildi úrskurður nefndar sem skipuð var samkvæmt 7. gr. girðingarlaga nr. 135/2001 til að skera úr um greiðslu kostnaðar vegna landamerkjagirðingar á mörkum Tungufells og Hrunaheiða, sem kveðinn var upp þann 29. september 2009. Þá er krafist málskostnaðar.

Gagnstefndu Einar og Sigurjón og félagsbúið Tungufelli krefjast sýknu af kröfu gagnstefnanda í gagnsök. Þá er krafist málskostnaðar.

                Stefndi í gagnsök, Kirkjumálasjóður, krefst sýknu af kröfum gagnstefnanda. Þá er krafist málskostnaðar.

II

Málsatvik:

Aðalstefnendur óskuðu eftir því við forsætisráðuneytið með bréfi dags. 20. október 2006 sem ítrekað var með bréfi dags. 24. nóvember s.á., að ríkið tæki þátt í girðingarkostnaði vegna fyrirhugaðrar girðingar á merkjum Tungufells og Hrunaheiða í samræmi við 6. gr. girðingarlaga nr. 135/2001, í því skyni að verjast ágangi búfjár úr Hrunaheiðum. Var farið fram á að íslenska ríkið sem eigandi þjóðlendunnar greiddi 4/5 hluta kostnaðar við girðinguna en eigendur eða ábúendur Tungufells greiddu 1/5 hluta.

                Með bréfum forsætisráðuneytisins til aðalstefnenda, dags. 4. desember 2006 og til Hrunamannahrepps, dags. 27. maí 2008, hafnaði ráðuneytið kröfu um kostnaðarþátttöku í girðingunni og vísaði í því sambandi til 6. gr. girðingarlaga nr. 135/2001, og forsögu þess, sbr. 7. gr. girðingarlaga nr. 10/1965 og laga nr. 24/1952. Tók ráðuneytið fram að ákvæði 6. gr. laganna hafi einkum verið hugsað þannig að þeir sem noti afréttinn fyrir búfénað bæru þyngri kostnað og m.a. skyldi taka tillit til ... þess ágangs, er ábúendur fjalljarða verða oft við að búa af afréttarfénaði. Það væri mat ráðuneytisins þegar litið væri til orðalags 6. gr. girðingarlaga og tilurðar þess, að kröfu um skiptingu kostnaðar samkvæmt ákvæðinu yrði ekki beint að forsætisráðuneytinu.

                Í svarbréfi Prestsetrasjóðs, dags. 25. janúar 2007, sem er svar við bréfi ábúenda að Tungufelli hafnaði sjóðurinn greiðsluþátttöku í girðingunni. Tók sjóðurinn fram að það væri eigandinn, þ.e. ríkið, sem væri hinn rétti aðili málsins. Kirkjan hefði ekki notað landið til beitar um árabil, þess vegna væri sjóðnum ekki skylt að girða landið. Kirkjan hefði ekki tekið ákvörðun um hvernig afrétturinn yrði nýttur í framtíðinni, en sl. áratugi hefði landið verið í umsjón Hrunamannahrepps samkvæmt óformlegu samkomulagi. Í svarbréfi landbúnaðarráðuneytisins til ábúenda að Tungufelli, dags. 16. apríl 2007 sem er svar við bréfi ábúenda, dags. 27. febrúar 2007, kom m.a. fram að ráðuneytið teldi sterk rök hníga til þess að 4/5 hlutar kostnaðar við girðingu milli heimalands og afréttar samkvæmt 6. gr. girðingarlaga yrði felldur á það upprekstrarfélag sem nýtti afréttinn. Vísaði ráðuneytið m.a. til laga nr. 6/1986 um afrétta- og fjallskilamálefni og eldri girðingarlaga varðandi tilurð og tilgang 6. gr. gildandi girðingarlaga.

                Með bréfi hreppsnefndar Hrunamannahrepps til gagnstefnanda, íslenska ríkisins, þann 30. október 2007 kom fram að hreppsnefndin teldi eðlilegt í ljósi þess að Hrunaheiðar væru þjóðlenda að ríkissjóður Íslands tæki þátt í girðingarkostnaði á móti ábúendum á Tungufelli.

                Á árinu 2009, tóku aðalstefnendur ákvörðun um að girða landið á eigin kostnað, þar sem ekki mætti bíða lengur með girðinguna. Var girt með 5.300 metra langri fimm strengja rafmagnsgirðingu og nam kostnaður vegna þess 3.033.204 krónum.

                Í kjölfar beiðni Svans Einarssonar á Tungufelli var skipuð þriggja manna nefnd samkvæmt 7. gr. girðingarlaga nr. 135/2001 til þess að skera úr um kostnað vegna landamerkjagirðingar á mörkum Tungufells og Hrunaheiða. Nefndina skipuðu þeir Kristján BJ. Jónsson ráðunautur, tilnefndur af Hrunamannahreppi, Rúnar Steingrímsson, lögreglumaður og búfræðingur, tilnefndur af sýslumanninum á Selfossi, og Sigurður Jónsson hrl., tilnefndur af Búnaðarsambandi Suðurlands. Með úrskurði nefndarinnar, dags. 29. september 2009, var komist að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkinu bæri sem eiganda þjóðlendunnar að greiða 4/5 hluta girðingarkostnaðar vegna afréttargirðingarinnar milli Tungufells og Hrunaheiða, samtals 2.426.563 krónur ásamt dráttarvöxtum frá 1. janúar 2009 til greiðsludags. Var það niðurstaða nefndarinnar að íslenska ríkið teldist eigandi Hrunaheiða í skilningi girðingarlaga og færi auk þess með umráð afréttarins. Í forsendum úrskurðarins segir eftirfarandi:

                Samkvæmt 2. gr. l. 58/1998 er íslenska ríkið eigandi lands og hvers konar landsréttinda og hlunninda í þjóðlendum sem ekki eru háð einkaeignarrétti. Megin tilgangurinn með setningu l. 58/1998 var einmitt að tryggja að svo skyldi vera. Að mati nefndarinnar er þannig ekki hægt að halda því fram að íslenska ríkið sé hvorki eigandi né notandi Hrunaheiða í skilningi girðingarlaga. Þvert á móti hljóti ríkisvaldið að vera eigandi landsins hvað sem líður notkun þess. Ekki sé öðrum til að dreifa sem eigendum. Auk þess fari ríkisvaldið með umráð landsins sem eigandi eins og kveðið er á um í 2. kafla l. 58/1998 og sé þar ekki heldur öðrum til að dreifa. Loks hafi með úrskurði óbyggðanefndar þann 21. mars 2002 verið staðfest að Hrunamannaafréttur og Hrunaheiðar væru ekki eign annarra en ríkisvaldsins þó að Hrunaheiðar væru taldar afréttareign Prestsetrasjóðs. Spurningin sé einungis sú hvort skyldan til greiðslu kostnaðar við girðinguna skuli hvíla beint á ríkinu sjálfu eða á Kirkjumálasjóði sem afréttareiganda ef hann getur talist það.

                Um það álitaefni hvor sé eigandi í skilningi 6. gr. girðingarlaga, Prestsetrasjóður eða íslenska ríkið, vísaði nefndin til 62. gr. laga nr. 78/1997 um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, þar sem fram komi að kirkjujarðir og aðrar kirkjueignir, sem þeim fylgi séu eign íslenska ríkisins, að frátöldum prestsetrum. Lög nr. 137/1993 um prestsetur hafi verið felld úr gildi með 7. gr. laga nr. 82/2007, um breytingu á lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, nr. 78/1997 vegna samkomulags íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar, sem undirritað hafi verið 20. október 2006, þar sem íslenska ríkið afhenti þjóðkirkjunni til eignar prestssetur. Í 7. gr. samkomulagsins komi fram að prestsetursjarðir er séu afhentar, miði við landamerki jarða eins og þau séu talin vera þann 20. október 2006. Með samkomulaginu hafi átt að taka af öll tvímæli um eignarrétt að prestssetrum. Þá segir eftirfarandi í úrskurðinum:  Þó að jörðin Hruni ... sé ein þeirra jarða sem falla skyldu til kirkjunnar samkvæmt samkomulaginu, liggur ekki fyrir hvort Hrunaheiðar séu innan landamerkja jarðarinnar Hruna eins og þau eru eftir að henni var ráðstafað til Kirkjumálasjóðs með eignarheimild sem þinglýst var þann 4. desember 2007. Af bréfi Prestsetrasjóðs til eigenda Tungufells dags 25 janúar 2007 má ráða að sjóðurinn telji að svo hafi verið þó að áhersla sé þar lögð á eignarrétt ríkisins og að landið sé undir umsjón Hrunamannahrepps. Hvorki er í ofannefndri eignarheimild Kirkjumálasjóðs né í samkomulaginu frá 20. október 2006 tekið fram að afréttareignin á Hrunaheiðum fylgi prestssetursjörðinni Hruna. Í fasteignaregistri fyrir jörðina Hruna 166769 eru talin upp hús og ræktun en afréttareign á Hrunaheiðum er þar ekki talin meðal matseininga. Land Hrunaheiða og Hruna tengjast ekki landfræðilega.

                Með bréfi forsætisráðuneytisins, dags. 1. desember 2009, sem er svar við innheimtubréfi fyrirsvarsmanns aðalstefnenda vegna hins umþrætta girðingarkostnaðar, tók ráðuneytið fram að það hefði falið ríkislögmanni að fá úrskurði þeim sem lægi til grundvallar kröfu fyrirsvarsmannsins hnekkt.

                Svanur Helgi Einarsson fyrirsvarsmaður Félagsbúsins Tungufelli gaf aðilaskýrslu fyrir dómi.

III

1. Málsástæður aðalstefnenda

Aðalstefnendur vísa til 5. og 6. gr. girðingarlaga nr. 135/2001 máli sínu til stuðnings. Þeir byggja á því að úrskurður nefndar skv. 7. gr. girðingarlaga, frá 29. september 2009, sé bindandi fyrir aðalstefnda. Tekið er fram að íslenska ríkið sé talinn eigandi lands og hvers konar landsréttinda og hlunninda í þjóðlendum sem ekki séu háð einkaeignarrétti, sbr. 2. gr. laga nr. 58/1998, um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta. Ekki sé hægt að halda því fram að íslenska ríkið sé hvorki eigandi né notandi Hrunaheiða í skilningi girðingarlaga. Þvert á móti hljóti ríkisvaldið að vera eigandi landsins hvað sem líður notkun þess. Ekki sé öðrum til að dreifa sem eigendum. Auk þess fari ríkisvaldið með umráð landsins sem eigandi eins og mælt sé fyrir um í 2. kafla laga nr. 58/1998 og sé þar ekki heldur öðrum til að dreifa. Loks hafi verið staðfest með úrskurði óbyggðanefndar, þann 21. mars 2002, að Hrunamannaafréttur og Hrunaheiðar væru ekki eign annarra en ríkisvaldsins þó að Hrunaheiðar væru taldar afréttareign Prestssetrasjóðs. Spurningin sé einungis hvort skyldan til greiðslu kostnaðar við girðinguna skuli hvíla beint á ríkinu sjálfu eða á Kirkjumálasjóði sem afréttareiganda.

                Af hálfu Kirkjumálasjóðs hafi verið upplýst að sjóðurinn hafi engin afnot haft af landinu þrátt fyrir að hann, hafi verið talinn afréttareigandi samkvæmt áðurgreindum dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 133/2006. Af því leiði að ákvæði 6. gr. girðingarlaga, þar sem segir að eigendur eða notendur afréttar skuli greiða 4/5 hluta stofnkostnaðar girðingarinnar, geti einungis átt við um eigendur þar sem notendum sé ekki til að dreifa. Heiðarnar séu ekki í afréttarnotum íbúa Hrunamannahrepps og skipti engu máli hvort hreppurinn aðstoði við hreinsun þeirra að hausti, til að tryggja góð gangnaskil. Nefndin hafi talið nauðsynlegt í ljósi þessa, að athuga hvor aðilja teldist eigandi í skilningi 6. gr. girðingarlaga, þ.e. sá sem færi með fullkominn eignarrétt að landinu eða sá sem teldist afréttareigandi þess. Aðalstefnendur byggja jafnframt á því að aðalstefndi hafi látið undir höfuð leggjast að fá úrskurði nefndarinnar hnekkt og útiloki slíkt tómlæti varnir af hálfu aðalstefnda.

2. Málsástæður aðalstefnda íslenska ríkisins

Aðalstefndi telur úrskurð nefndar samkvæmt 7. gr. girðingarlaga rangan, þar sem íslenska ríkið geti ekki talist eigandi eða notandi afréttarins í skilningi 6. gr. girðingarlaga og af þeim sökum beri að fella hann úr gildi. Telur gagnstefnandi óumdeilt að Hrunaheiðar séu þjóðlenda og í eigu íslenska ríkisins samkvæmt 2. gr. þjóðlendulaga nr. 58/1998. Hrunaheiðar séu hins vegar afréttareign Kirkjumálasjóðs, sem eiganda prestssetursjarðarinnar Hruna í Hrunamannahreppi. Hruni hafi nýtt afréttareignina áður fyrr en Kirkjumálasjóður hafi síðar gert óformlegt samkomulag við Hrunamannahrepp um nýtingu á afréttareigninni.

                Aðalstefndi vísar til 6. gr. girðingarlaga máli sínu til stuðnings. Orðalag ákvæðisins gefi til kynna að það sé fyrst og fremst nýting afréttarins og heimalanda sem ráði því hver skuli bera kostnað sem hljótist af girðingarframkvæmdum, þar sem talað sé um eigendur eða notendur afréttar og um eigendur eða ábúendur hlutaðeigandi jarða. Þetta sé eðlilegt þegar litið sé til tilurðar og forsögu lagaákvæðisins og þeirrar staðreyndar að girðingar milli afréttar og heimalanda séu fyrst og fremst til hagsbóta fyrir þá sem nýta viðkomandi landsvæði fyrir búfénað sinn, enda séu girðingarnar tilkomnar vegna þeirra nota. Með orðunum eigendur eða notendur afréttar í 6. gr. sé fyrst og fremst átt við þá sem eru afréttareigendur eða nýta afréttinn, sem langoftast eru afréttar- eða upprekstrarfélög eða sveitarfélög sem nýta hann til sumarbeitar fyrir búfénað. Sennilegt sé að ástæður þess að talað sé um eigendur eða notendur afréttar í lagagreininni sé annars vegar sú áhersla sem lögð er á nýtingu afréttarins og hins vegar sú staðreynd að áður fyrr var ákveðin óvissa um eignarréttarlega stöðu þessara svæða, en með tilkomu þjóðlendulaga hafi orðið breyting þar á.

                Ekki sé um það deilt að Hrunaheiðar séu afréttareign eiganda jarðarinnar Hruna. Breyti engu í því sambandi þó að eigandi Hruna hafi ekki nýtt sjálfur afréttareignina á síðustu árum, heldur gert óformlegt samkomulag við sveitarfélagið, Hrunamannahrepp, um nýtingu á afréttareigninni. Afréttareigninni fylgi m.a. þau réttindi að geta nýtt hana til sumarbeitar fyrir búfénað en jafnframt fylgi afréttareigninni ákveðnar skyldur sem taki mið af þeim réttindum sem fylgi henni, svo sem smölun búfjár, verndun beitarlands, varnir gegn ágangi búfjár og annað sem kunni að falla til vegna sumarbeitar búfjár á afréttinum.

                Þá bendi aðalstefndi á að væru Hrunaheiðar þjóðlenda en ekki jafnframt afréttareign, færi kostnaður væntanlega eftir 5. gr. girðingarlaga. Sú staðreynd að landið sé afréttareign leiði til þess að kostnaði við girðingarframkvæmdir skuli skipt samkvæmt 6. gr. laganna. Þörfin fyrir girðingar væri fyrst og fremst vegna réttinda afréttareigandans til að beita búfénaði sínum á afréttinn.

                Með vísan til framangreinds telur aðalstefndi að kröfu um greiðslu kostnaðar samkvæmt 6. gr. girðingarlaga skuli beint að Kirkjumálasjóði, sem eiganda afréttareignarinnar.

3. Málsástæður gagnstefnanda íslenska ríkisins

Gagnstefnandi telur að fella beri úr gildi úrskurð nefndar sem skipuð var samkvæmt 7. gr. girðingarlaga nr. 135/2001. Hrunaheiðar séu afréttareign gagnstefnda Kirkjumálasjóðs og breyti engu í því sambandi þó að sjóðurinn eða þjóðkirkjan hafi ekki sjálf nýtt afréttareignina um árabil. Telur gagnstefndi að hafa verði í huga þegar litið sé til tilurðar 6. gr. gildandi girðingarlaga, að ákvæðið eigi sér rætur í réttarskipun sem hafi veri önnur en sé fyrir hendi í dag. Ljóst sé af forsögu ákvæðisins og lögskýringargögnum að megináhersla sé lögð á not afréttarins, þar sem vísað sé til þess að afréttar- og upprekstrarfélög eigi að bera aukinn kostnað umfram eigendur eða notendur heimalanda, enda girðingarnar m.a. tilkomnar vegna þess búfénaðar sem fært var til sumarbeitar á afréttinn. Ástæður þess að í 6. gr. girðingarlaga og forsögu þess hafi verið talað um eigendur eða notendur afréttar megi án efa rekja til þeirrar óvissu sem hafi ríkt fyrir gildistöku þjóðlendulaga nr. 58/1998, um eignarréttarlega stöðu þessara svæða. Þar sem girðingarlög séu yngri en lög nr. 58/1998, verði að beita ákvæðum girðingarlaga um afrétti innan þjóðlendna í ljósi þeirra laga. Sá greinarmunur sem gerður sé á eiganda og notanda í girðingarlögum hafi mikla þýðingu. Þegar óbyggðanefnd kveði á um mörk eignarlanda, þjóðlendna og afréttar liggi jafnframt fyrir af hálfu nefndarinnar hvort afréttur innan þjóðlendu sé afréttareign annars en eiganda þjóðlendunnar. Afréttareigninni fylgi ákveðin réttindi en þar sé fyrst og fremst um að ræða rétt til að nýta viðkomandi afréttareign til sumarbeitar fyrir búfé. Afréttareign fylgi ákveðin réttindi en einnig ákveðnar skyldur. Þær skyldur taki taki vissulega mið af þeim notum sem afréttareigandinn hafi af eigninni, svo sem verndun beitilands, smölun búfjár og aðgerðir til varnar ágangi búfjár á heimalönd, sbr. lög nr. 6/1986 um afréttarmálefni, fjallskil o.fl. Af framansögðu leiði að á afréttareigandanum hvíli einnig skylda til að standa straum af þeim kostnaði sem lagður er á notendur afréttarins samkvæmt ákvæðum girðingarlaga.  Gagnstefnandi tekur fram að það sé óumdeilt að Hrunaheiðar séu afréttareign jarðarinnar Hruna, en jörðin sé í eigu gagnstefnda Kirkjumálasjóðs. Með vísan til framangreindra sjónarmiða telur gangstefnandi að það sé afréttareigandinn sem beri þær skyldur sem hvíli á eiganda eða notanda afréttar samkvæmt 6. gr. laga nr. 135/2001. Úrskurður nefndar samkvæmt 7. gr. sömu laga þar sem skorið er úr um greiðslu kostnaðar vegna landamerkjagirðingar á mörkum Tungufells og Hrunaheiða sé því rangur og ekki í samræmi við réttan lagaskilning. Því beri að fella hann úr gildi. Engu breyti þó að eigandi jarðarinnar Hruna hafi ekki nýtt afréttareign sína á síðustu árum, eftir sem áður séu Hrunaheiðar afréttareign eiganda Hruna.

4. Málsástæður gagnstefndu Einars Jónssonar, Sigurjóns Helgasonar og Félagsbúsins Tungufelli

Gagnstefndu byggja á því að íslenska ríkið sé í raun afréttareigandi að Hrunaheiðum með vísan til samkomulags, dags. 20. október 2006 á milli íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar um kirkjueignir og prestssetur. Á sama tíma hafi lög nr. 137/1993 verið felld úr gildi með lögum nr. 82/2007, um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar. Með samkomulaginu hafi nánar tilgreindar eignir verið afhentar kirkjunni til eignar og þar með skorið úr um óvissu varðandi eignarhald á prestssetrum og prestssetrajörðum. Með samkomulaginu hafi því aðrar eignir fallið undir íslenska ríkið, þ.m.t. afréttareign Kirkjumálasjóðs á Hrunaheiðum, sbr. 1. mgr. 62. gr. laga nr. 78/1997.

                Verði ekki fallist á framangreind sjónarmið er á því byggt að umrædd afréttareign sé ekki í notkun af hálfu Kirkjumálasjóðs og því verði gagnstefndu að beina kröfum sínum að eiganda landsins, íslenska ríkinu. Þá telja gagnstefndu það ekki óumdeilt eins og haldið hafi verið fram að Hrunaheiðar séu afréttareign jarðarinnar Hruna. Hvorki komi fram í samkomulaginu frá 20. október 2006 né í eignarheimild sem send hafi verið til þinglýsingar þann 4. desember 2007 að afréttareign fylgi jörðinni Hruna. Þá sé afréttareignar ekki getið í fasteignaskrá og í dómi Hæstaréttar í máli nr. 133/2006 komi fram að samkvæmt þinglýsingarbókum sé jörðin skráð sem ríkisjörð. Enn fremur telja gagnstefndu að krafa gagnstefnanda sé fallin niður vegna tómlætis. Frá því að úrskurður nefndar samkvæmt 7. gr. girðingarlaga hafi verið kveðinn upp séu liðin rúm þrjú ár. Sú skylda hvíli á íslenska ríkinu að stuðla að því að leyst sé úr ágreiningsmálum hratt og örugglega. Er í því sambandi m.a. vísað í ákvæði landskiptalaga nr. 46/1941, þar sem mælt sé fyrir um sex mánaða frest til að leita yfirmats eða lög nr. 58/1998 um sex mánaða málshöfðunarfrest. Því er einnig haldið fram að þessi málsmeðferð brjóti í bága við 70. gr. stjórnarskrár.

5. Málsástæður gagnstefnda Kirkjumálasjóðs

Gagnstefndi Kirkjumálasjóður telur ljóst með vísan til niðurstöðu óbyggðanefndar sem staðfest hafi verið af Hæstarétti Íslands, að ríkið sé eigandi þjóðlendunnar Hrunaheiða og þar með eigandi hvers konar landsréttinda og hlunninda í þjóðlendunni, sem ekki séu háðar einkaeignarétti. Eigandanum beri að greiða girðingarkostnaðinn samkvæmt 6. gr. laga nr. 135/2001. Telur gagnstefndi að orðalag ákvæðisins eigendur eða notendur vísi einkum til þess að miða skuli við eiganda sé hann þekktur, en notanda ef eigandi finnst ekki. Eðli máls samkvæmt verði eigandinn að bera kostnað af fasteign sinni, og hann verði því ekki felldur á afnotahafa, nema eigandinn finnist ekki.       Stefndi telur það heyra undir samráðsnefnd samkvæmt 4. gr. laga nr. 58/1998, að leysa úr innbyrðis kostnaðaruppgjöri á milli eiganda og afnotarétthafa vegna þjóðlendunnar, þar með talið hinum umþrætta girðingarkostnaði.

                Gagnstefndi tekur fram að óumdeilt sé að stefndi Kirkjumálasjóður sé ekki notandi að afréttarlandinu Hrunaheiðum í skilningi girðingarlaga og hafi ekki verið um langan tíma. Umsjónarmaður heiðanna samkvæmt óformlegu samkomulagi við kirkjuna sé Hrunamannahreppur. Hreppurinn hafi séð um hreinsun heiðanna af flækingsfé, en í staðinn þegið arð af veiði úr Stóru-Laxá fyrir landi heiðanna. Kirkjumálasjóður sé samkvæmt framangreindu hvorki eigandi né notandi Hrunaheiða í merkingu girðingarlaga, eins og haldið sé fram af gagnstefnanda íslenska ríkinu. Íslenska ríkið sé eini eigandi afréttarlandsins Hrunaheiða samkvæmt úrskurði óbyggðanefndar, en ákveðinn takmarkaður afnotaréttur af Hrunaheiðum tilheyri Kirkjumálasjóði Hann hafi þó ekki nýtt þennan rétt um áratugaskeið. Landið sé ekki samnotaafréttur og enginn reki þangað fé sitt eða hafi sjálfstæðan upprekstrarrétt. Upprekstrarfélag um heiðarnar hafi ekki verið stofnað. Stefndi telur þann ágalla á úrskurði nefndar samkvæmt 7. gr. laga nr. 135/2001, að nefndin hafi ekki tekið skýra afstöðu til þess hvort ríkinu sem eiganda þjóðlendu beri að greiða kostnað við girðingu hennar eða handhafa afréttareignarinnar eða eftir atvikum raunverulegum notanda, sé hann annar en afréttareigandi. Hafa beri í huga að byggðamenn kunni að eiga afréttarítak á afrétt er sé afréttareign á grundvelli venju. Stefndi telji hins vegar að staðfesta beri niðurstöðu nefndarinnar.

                Stefndi tekur fram að girðingarlög séu yngri en lög um þjóðlendur. Engu að síður hafi ekki verið minnst á þjóðlendur í fyrrgreindu lögunum er sé verulegur ágalli. Þurft hefði að taka skýrt fram í girðingarlögum ef breyta hefði átt þeirri meginreglu að eigandi afréttar greiddi girðingarkostnað vegna afréttargirðingar.

IV.

Niðurstaða

Með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 133/2006, Prestssetrasjóður (nú Kirkjumálasjóður) gegn íslenska ríkinu frá 5. október 2006, var komist að þeirri niðurstöðu að Hrunaheiðar væru þjóðlenda, en að Prestssetrasjóður ætti óbeinan eignarrétt, þ.e. afréttareign, að Hrunaheiðum. Jörðin Tungufell liggur að Hrunaheiðum.

                Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. girðingarlaga nr. 135/2001, skulu eigendur eða notendur afréttar greiða 4/5 hluta stofnkostnaðar girðingar, en eigendur eða ábúendur hlutaðeigandi jarða 1/5. Umrætt ákvæði er að rekja til þágildandi laga nr. 24/1952 sem síðan voru endurskoðuð en þó ekki að því leyti sem þau eru hér til skoðunar.

                Fyrir gildistöku laga nr. 58/1998, um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta ríkti óvissa um eignarréttarlega stöðu afrétta en hugtakið afréttur var skilgreint út frá beitarnotum fyrir búfé á landsvæði sem sannanlega hafði verið nýtt til sumarbeitar fyrir búpening. Á þessum tíma var ríkið almennt ekki talið eigandi svæða sem ekki voru háðir einkaeignarrétti. Með lögum nr. 58/1998 varð á hinn bóginn breyting á þessu. Þá var að því stefnt að taka landsvæði til meðferðar og úrlausnar og kveða á um réttarstöðu þeirra eftir því hvort þau væru eignarlönd háð einkaeignarrétti eða landsvæði utan eignarlanda, þ.e. þjóðlendur. Í þjóðlendum er íslenska ríkið eigandi lands og hvers konar landsréttinda og hlunninda sem ekki eru háð einkaeignarrétti. Í lögum nr. 58/1998 er gert ráð fyrir því að einstaklingar eða lögaðilar kunni að eiga þar takmörkuð einkaeignarréttindi, þar á meðal afrétti, og fellur það m.a. undir hlutverk óbyggðanefndar að úrskurða um slík réttindi. Þetta var m.a. gert í fyrrgreindum dómi Hæstaréttar sem tekur til máls þess sem hér er til meðferðar.

                Sem fyrr greinir eru orðin „eigendur eða notendur afréttar“ ættuð úr eldri löggjöf og miðuð við annað réttarástand en nú ríkir, þar sem óvissa gat hæglega verið um sjálfan eignarréttinn að afréttinum enda þótt ljóst væri að notandi hans væri viðkomandi sveitarfélag eða upprekstrarfélag. Eftir gildistöku þjóðlendulaga er þessi óvissa ekki lengur fyrir hendi, a.m.k. varðandi þau mál sem þegar er lokið. Ber að skýra fyrrgreind orð með hliðsjón af þessu. Af þeim leiðir fyrst og fremst að eigandi ber hér ábyrgð ef hann er þekktur. Sem fyrr sagði hafa dómstólar komist að þeirri niðurstöðu að Kirkjumálasjóður eigi afréttareign að Hrunaheiðum. Af því leiðir að fyrrgreind ákvæði 1. mgr. 6. gr. girðingarlaga taka ekki til íslenska ríkisins.

                Af framansögðu leiðir að aðalstefndi, íslenska ríkið skal vera sýkn af kröfum aðalstefnenda í máli þessu en rétt þykir að málskostnaður falli niður. 

                Í gagnsök hefur gagnstefnandi íslenska ríkið gert kröfu um að fyrrgreindur úrskurður nefndar samkvæmt 7. gr. girðingarlaga til að skera úr um greiðslu kostnaðar vegna landamerkjagirðingar á mörkum Tungufells og Hrunaheiða, sem kveðinn var upp 29. september 2009, verði felldur úr gildi. Í úrskurðinum var m.a. komist að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið skyldi greiða 4/5 hluta af girðingarkostnaðinum vegna afréttargirðingar milli Tungufells og Hrunaheiða.

                Þessi úrskurður felur í sér bindandi niðurstöðu fyrir málsaðila hans að stjórnsýslurétti, en hann sætir þó endurskoðun dómstóla. Telja verður án tvímæla að gagnstefnandi eigi rétt til að sækja mál þetta í gagnsök samkvæmt 2. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Verður ekki fallist á að úrskurður hafi orðið bindandi fyrir tómlæti.

                Eins og áður greinir hefur dómurinn komist að þeirri niðurstöðu í aðalsök að íslenska ríkið skuli vera sýkn af kröfum aðalstefnenda í aðalsök þar sem lög leiði ekki til þeirrar niðurstöðu að íslenska ríkið sé greiðsluskylt. Fyrrgreindur úrskurður er í beinni andstöðu við þessa niðurstöðu. Ber þegar af þeim sökum að fella hann úr gildi. Eftir atvikum þykir þó rétt að málskostnaður í gagnsök og sakaukasök falli niður að öllu leyti. 

Ragnheiður Snorradóttir héraðsdómari kvað upp þennan dóm.

DÓMSORÐ

                Aðalstefndi, íslenska ríkið, er sýknaður af kröfum aðalstefnenda.

                Í gagnsök er úrskurður nefndar sem skipuð var samkvæmt 7. gr. girðingarlaga nr. 135/2001 til að skera úr um greiðslu kostnaðar vegna landamerkjagirðingar á mörkum Tungufells og Hrunaheiða, sem kveðinn var upp þann 29. september 2009, felldur úr gildi. Málskostnaður fellur niður í öllum sökum.