Hæstiréttur íslands
Mál nr. 216/2002
Lykilorð
- Kærumál
- Valdmörk
- Útlendingur
- Gjafsókn
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Föstudaginn 17. maí 2002. |
|
Nr. 216/2002. |
Gohar Simoni Hayrapetyan(Haraldur Blöndal hrl.) gegn íslenska ríkinu (Óskar Thorarensen hrl.) |
Kærumál. Valdmörk. Útlendingar. Gjafsókn. Frávísunarúrskurður staðfestur.
Í máli sem G hafði höfðað á hendur íslenska ríkinu gerði hún m.a. þær varakröfur að hún skyldi fá hæli hér á landi af mannúðarástæðum og að hún fengi dvalarleyfi hérlendis. Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem þessum varakröfum G var vísað frá dómi á þeim grundvelli að sakarefni þessi væru undanþegin lögsögu dómstóla, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. apríl 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. maí sama árs. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. apríl 2002, þar sem vísað var frá dómi annars vegar kröfu varnaraðila um að hún skuli fá hæli hér á landi af mannúðarástæðum og hins vegar kröfu hennar um að hún fái dvalarleyfi hérlendis. Öðrum frávísunarkröfum varnaraðila var hafnað. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og öllum frávísunarkröfum varnaraðila hafnað. Hún krefst einnig málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar, eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.
Varnaraðili krefst þess, að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Málskostnaður og kærumálskostnaður verður ekki dæmdur. Ekki eru skilyrði til að dæma gjafsóknarkostnað í þessum þætti málsins, sbr. 5. mgr. 127. gr. laga nr. 91/1991.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. apríl 2002.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 9. þ.m., var höfðað með stefnu, áritaðri um birtingu 8. ágúst 2001.
Stefnandi er Gohar Simoni Hayrapetyan, f. 25. desember 1960.
Stefndi er íslenska ríkið.
Dómkröfur stefnanda:
Aðallega, að ógiltur verði úrskurður stefnda, dómsmálaráðherra, dr stefnanda:
Aðallega, að ógiltur ags. 21. desember 2000, og dæmt að úrskurður útlendingaeftirlitsins frá 3. nóvember 2000, verði felldur úr gildi og málinu vísað aftur til útlendingaeftirlitsins til löglegrar meðferðar og úrlausnar.
Fyrsta varakrafa, að dæmt verði að stefnandi skuli fá hæli hér á landi af mannúðarástæðum.
Önnur varakrafa, að stefnandi fái dvalarleyfi.
Þriðja varakrafa, að tímabundið endurkomubann til Íslands verði fellt úr gildi.
Fjórða varakrafa að viðurkennt verði að bannið nái ekki til annarra Norðurlanda.
Þá er krafist málskostnaðar úr hendi ríkissjóðs eins og málið væri eigi gjafsóknarmál, en stefnandi fékk gjafsókn í máli þessu með leyfi dómsmálaráðherra, dags. 21. ágúst 2001.
Dómkröfur stefnda:
Aðallega, að málinu verði vísað frá dómi.
Til vara er krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda.
Í báðum tilvikum er þess krafist að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati réttarins að viðbættum virðisaukaskatti á dæmdan málskostnað.
Frávísunarkrafa stefnda er hér til úrlausnar.
Málavextir
Hinn 21. október 2000 kom stefnandi, sem er frá Armeníu, til Íslands með annari konu, Hamest Iskandaryan, sem einnig er frá Armeníu. Þær komu með flugvél Flugleiða frá Arlanda flugvelli í Stokkhólmi. Við komu á Keflavíkurflugvöll framvísuðu þær stefnandi og Hamest Iskandaryan vegabréfum frá Armeníu með vegabréfsáritun til Íslands, útgefinni af sendiráði Íslands í Moskvu. Vegabréf stefnanda var nr. AE-0576274, útgefið í Armeníu með gildistíma frá 30. ágúst 2000 til 30. ágúst 2010. Samkvæmt umsókn stefnanda ætlaði hún að vera hér í sex daga.
Að kvöldi 21. okt. 2000 voru stefnandi og stalla hennar handteknar. Voru þær þá skilríkjalausar. Daginn eftir báru þær stöllur við yfirheyrslu hjá lögreglu að þær hefðu fargað farseðlum sínum og vegabréfum til að komast hjá því að verða sendar heim. Lögreglan útvegaði þeim húsnæði og kynnti þeim reglur um vegabréfsáritanir, umsóknir um dvalar- og atvinnuleyfi og sagði þeim að mál þeirra yrðu send útlendingaeftirlitinu til afgreiðslu. Var þeim síðan sleppt um kl. 20:00 þann 22. okt.
Þann 25. okt. 2000 leituðu stefnandi og ferðafélagi hennar til Rauða kross Íslands og kváðust óska eftir hæli á Íslandi. Hinn 3. nóv. 2000 kvað Útlendingaeftirlitið upp úrskurð þar sem beiðni stefnanda um pólitiskt hæli hér á landi var hafnað. Jafnframt var úrskurðað að stefnanda skuli ekki veitt dvalarleyfi á Íslandi. Stefnandi skyldi verða á brott af Íslandi svo fljótt sem við yrði komið. Henni var bönnuð endurkoma til Ísland í þrjú ár frá og með framkvæmdardegi brottvísunar.
Stefnandi kærði þennan úrskurð til dómsmálaráðuneytis sem staðfesti úrskurðinn 21. des. 2000.
Rökstuðningur aðila vegna frávísunarkröfunnar
Stefndi byggir frávísunarkröfu sína á því að stefnandi eigi ekki lengur lögvarinna hagsmuna að gæta að fá leyst úr sakarefninu þar sem hún sé þegar farin úr landi og hinum umdeilda úrskurði hafi þegar verið fullnægt og stefnandi sé komin aftur til Armeníu.
Þá sé stefnandi að fara fram á við dóminn með fyrstu og annarri varakröfu sinni að dómurinn veiti stefnanda hæli hér á landi eða dvalarleyfi. Þetta sé í andstöðu við 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991 um hlutverk dómstóla. Um þessi tilgreindu atriði eigi stjónvöld fullnaðarúrskurðarvald og séu þeir aðilar sem veiti slík leyfi. Komist dómstólar að þeirri niðurstöðu að ákvörðun stjórnvalds sé ólögmæt geti þeir fellt hana úr gildi en taki yfirleitt ekki aðra ákvörðun í hennar stað.
Af hálfu stefnanda var því haldið fram að stefnandi hefði lögvarða hagsmuni af því að fá úrskurðað hvort úrskurðurinn hafi verið í samræmi við lög.
Úrskurðurinn sé tvíþættur. Stefnanda hafi verið vísað úr landi og henni hafi verið bönnuð endurkoma í þrjú ár. Konan fái ekki dvalarleyfi. Bannið nái til allra Norðurlandanna.
Stefnandi hafi lögvarða hagsmuni af því að fá úrskurðinum hnekkt þar sem hún geti hvorki komið hingað til lands né til annarra Norðurlanda.
Niðurstaða
Það er hvorki hlutverk dómsins að veita hæli af mannúðarástæðum né dvalarleyfi. Það er í höndum stjórnvalda að veita slíkt. Ber því með vísan til 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991 að vísa frá dómi fyrstu og annarri varakröfu stefnanda.
Í úrskurði útlendingaeftirlitsins frá 3. nóv. 2000 var stefnanda bönnuð endurkoma til Íslands í þrjú ár frá og með framkvæmdardegi brottvísunar, sem var 24. okt. 2001. Samkvæmt samningi Norðurlanda gildir bann þetta einnig á hinum Norðurlöndum. Þannig er stefnanda samkvæmt úrskurðinum óheimil koma hingað til lands og til annarra Norðurlanda allt til 24. okt. 2004. Verður því ekki á þá skoðun stefnda fallist að stefnandi hafi ekki lögvarða hagsmuni af því að fá leyst úr sakarefni málsins.
Kröfu stefnda um frávísun aðalkröfu stefnanda og þriðju og fjórðu varakröfu er því hafnað.
Ákvörðun um málskostnað vegna þessa þáttar málsins bíður efnisdóms í málinu.
Úrskurðinn kveður upp Auður Þorbergsdóttir héraðsdómari.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Fyrstu og annari varakröfu stefnanda, Gohar Simoni Hayrapetyan, er vísað frá dómi.
Öðrum frávísunarkröfum stefnda, íslenska ríkisins, er hafnað.