Hæstiréttur íslands

Mál nr. 375/2010


Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Vinnuslys
  • Líkamstjón
  • Ábyrgðartrygging


Fimmtudaginn 3. febrúar 2011.

Nr. 375/2010.

Birgir Brynjólfsson

(Einar Gautur Steingrímsson hrl.)

gegn

Vátryggingafélagi Íslands hf.

(Einar Baldvin Axelsson hrl.)

Skaðabætur. Vinnuslys. Líkamstjón. Ábyrgðartrygging.

B krafðist skaðabóta úr hendi ábyrgðartryggjandans V hf. vegna tjóns sem hann varð fyrir við vinnu sína í þágu Í ehf. Í dómi Hæstaréttar segir meðal annars að fallast yrði á með B að Í ehf. hefði ekki sinnt skyldu sinni samkvæmt 13. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum,  sbr. meðal annars 1. mgr. 37. gr. sömu laga, með því að sjá B ekki fyrir þeim einfalda búnaði sem þurfti til að tryggja öryggi hans. Voru kröfur B því teknar til greina. Hæstiréttur lagði niðurstöður matsgerðar, sem B hafði aflað einhliða, til grundvallar við ákvörðun bóta honum til handa, enda neytti V hf. ekki úrræða sem hann hafði að lögum til að hnekkja henni.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 11. júní 2010. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 6.095.502 krónur með 4,5% ársvöxtum af 1.331.850 krónum frá 2. október 2007 til 2. janúar 2008, af 6.095.502 krónum frá þeim degi til 10. mars 2009, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum að fjárhæð 1.066.824 krónur 20. mars 2009 og 1.343.475 krónur 28. apríl 2010. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. 

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara lækkunar á kröfu áfrýjanda og að málskostnaður falli þá niður.

Áfrýjandi varð fyrir slysi á verkstæði Íslandsfraktar ehf. í Hafnarfirði 2. október 2007, en hann var starfsmaður félagsins. Hann krefst skaðabóta úr hendi stefnda, sem var ábyrgðartryggjandi Íslandsfraktar ehf., þegar slysið varð.

Áfrýjandi vann við að slípa niður suðu af þverbitum á beislisvagni vörubíls. Klifraði hann upp á vagngrindina sem var meira en einum metra frá gólfi verkstæðisins og kom sér fyrir uppi á bitanum sem hann vann við. Var hann með í höndunum allþungan slípirokk sem hann notaði við verkið. Er óumdeilt að slysið hafi orðið með þeim hætti að áfrýjandi féll út af bitanum niður á gólf verkstæðisins, en verkstjórinn, sem hafði verið viðstaddur þegar verkið hófst, hafði þá brugðið sér frá.

Við mat á því hvort vinnuveitandi áfrýjanda beri ábyrgð á slysinu verður haft í huga að verkið var unnið undir stjórn verkstjóra á verkstæðinu, Helga Ársælssonar, sem óumdeilt er að hafi sagt áfrýjanda til um verkið og verið, eins og áður sagði, viðstaddur þegar það hófst. Augljóst má telja að einfaldur vinnupallur í hæfilegri hæð, sem áfrýjandi hefði getað staðið á meðan hann vann við slípunina, hefði aukið öryggi hans við framkvæmd verksins til muna. Samkvæmt 13. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum skal vinnuveitandi tryggja að gætt sé fyllsta öryggis á vinnustað meðal annars um framkvæmd vinnu, sbr. meðal annars 1. mgr. 37. gr. sömu laga. Verður fallist á með áfrýjanda að Íslandsfrakt ehf. hafi ekki sinnt þessari skyldu með því að sjá ekki fyrir þeim einfalda búnaði sem þurfti til að tryggja öryggi áfrýjanda er hann vann umrætt verk. Leiðir þetta til þess að félagið ber skaðabótaábyrgð á því tjóni sem hann varð fyrir umrætt sinn. Eins og atvikum er háttað verður ekki talið að áfrýjandi, sem vann verkið undir beinni stjórn verkstjóra og raunar að hluta í samvinnu við hann, verði að sæta lækkun bóta vegna eigin sakar. Leiðir þessi niðurstaða til þess að stefndi, en hann hafði veitt Íslandsfrakt ehf. ábyrgðartryggingu, sem óumdeilt er að hafi tekið til þess atviks sem fjallað er um í málinu, verður dæmdur til að greiða áfrýjanda bætur vegna líkamstjóns hans, sbr. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga.

Áfrýjandi byggir kröfu sína á matsgerð Stefáns Dalbergs læknis og Björns Daníelssonar lögfræðings 5. febrúar 2009, þar sem þeir töldu áfrýjanda hafa í slysinu hlotið 10% varanlega örorku og 15% varanlegan miska og er þá átt við 15 miskastig samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Áfrýjandi aflaði matsgerðarinnar án þess að óska eftir dómkvaðningu og er ósannað að stefndi hafi átt með honum aðild að beiðni um matið. Nefndir matsmenn komu fyrir dóm og staðfestu matsgerð sína. Af hálfu stefnda komu strax í greinargerð í héraði fram mótmæli við matsgerðinni og taldi stefndi hana ekki haldbært sönnunargagn um afleiðingar slyssins fyrir heilsufar áfrýjanda. Stefndi nýtti sér hins vegar hvorki heimild í 1. mgr. 10. gr. skaðabótalaga til þess að bera matsgerðina undir örorkunefnd né óskaði eftir dómkvaðningu matsmanna til að hnekkja henni. Hann hefur á hinn bóginn lagt matsgerðina til grundvallar við ákvörðun bóta til áfrýjanda úr slysatryggingu launþega, en þá tryggingu hafði hann einnig veitt Íslandsfrakt ehf. Þykir við þessar aðstæður mega leggja niðurstöðu nefndrar matsgerðar til grundvallar við  ákvörðun bóta til áfrýjanda.

Við flutning málsins fyrir Hæstarétti hafði stefndi ekki uppi sérstök andmæli við tölulegri útlistun á kröfu áfrýjanda. Verður krafan því tekin til greina.

Samkvæmt þessum úrslitum málsins og með vísan til 1. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefndi dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem ákveðst í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., greiði áfrýjanda, Birgi Brynjólfssyni, 6.095.502 krónur með 4,5% ársvöxtum, af 1.331.850 krónum frá 2. október 2007 til 2. janúar 2008, af 6.095.502 krónum frá þeim degi til 10. mars 2009, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum að fjárhæð 1.066.824 krónur 20. mars 2009 og 1.343.475 krónur 28. apríl 2010.

Stefndi greiði áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, samtals 1.200.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 2. júní 2010.

Mál þetta, sem dómtekið var hinn 7. maí sl., var höfðað fyrir dómþinginu af Birgi Brynjólfssyni, Egilsbraut 20, Reykjavík, á hendur Vátryggingafélagi Íslands hf., Ármúla 3, Reykjavík, með stefnu áritaðri um birtingu hinn 10. september 2009.

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda 6.095.502 krónur, auk 4,5% ársvöxtum af 1.331.850 krónum frá 2. október 2007 til 2. janúar 2008, en af 6.095.502 krónur frá þeim degi til 10. mars 2009, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. laga nr. 38/2001 af samanlagðri fjárhæð höfuðstóls og vaxta frá þeim degi til greiðsludags.  Allt að frádreginni innborgun hinn 20. mars 2009, að fjárhæð 1.066.824 krónur, og hinn 28. apríl 2010, að fjárhæð 1.343.475 krónur.

Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að félagið verði sýknað af öllum kröfum stefnanda tildæmdur málskostnaður úr hans hendi, að mati dómsins, en til vara að sök verði skipt í málinu, stefnukröfur lækkaðar og málskostnaður felldur niður.

II

Málavextir eru þeir, að stefnanda var falið það verk á verkstæði Íslandsfraktar ehf., að slípa niður suðu af gömlum þverbitum á vörubílagrind.  Þurfti að koma fyrir nýjum flutningskassa á grindina og leggja ný lagnabönd á hana sem undirstöður.  Slípirokkur var notaður til að sverfa af eldri suðu, sem festi gömlu lagnaböndin á grindina, en grindin var ofan við hjólabúnað.  Líkleg hæð grindarinnar frá gólfi er rúmur metri.  Verkstjóri á verkstæði Íslandsfraktar ehf., Helgi Ársælsson, fól stefnanda að vinna umrætt verk.  Umræddan dag voru þeir bara tveir að vinna á verkstæðinu.  Að sögn stefnanda féll hann af grindinni skömmu eftir að hann hóf verkið og lenti á öxl og baki.  Vegna verkja yfirgaf hann síðan vinnustaðinn en mætti daginn eftir til vinnu.  Var stefnandi síðan í nokkra daga í veikindaleyfi.

Stefnandi kveðst hafa unnið í nokkur ár sem bílstjóri hjá Íslandsfrakt ehf., en hafði skömmu fyrir slysið fengið flutning í starfi á verkstæði fyrirtækisins og hafði verið þar í nokkra mánuði áður en slysið varð.

Stefnandi hefur lýst aðdraganda slyssins þannig, að honum hafi verið falið að vinna við grind á flutningabifreið, sem flutningskassi hafi átt að fara ofan á.  Grindin hafi verið lengd á verkstæði Íslandsfraktar að Steinhellu 1, Hafnarfirði, m.a. með því að skeyta aftan við hana.  Stefnandi kveðst hafa farið að fyrirmælum verkstjórans, sem hafi sýnt honum hvernig verkið skyldi unnið.  Hafi verkstjórinn bent honum á suðurnar sem staðið hafi upp fyrir kantinn á grindinni og hafi, eðli máls samkvæmt, þurft að slípa niður áður en flutningshúsið yrði lagt ofan á.  Breiddin á bitunum hafi aðeins verið um 15 cm og hæð frá jörðu 1,30 m.  Stefnandi kveðst hafa hafist handa við verkið eins og fyrir hann hafi verið lagt.  Slípirokkurinn, sem hann hafi notað hafi verið um 2-3 kg að þyngd og hafi verkið reynst heldur óþægilegt.  Halda hafi þurft á slípirokknum með báðum höndum og við það hafi myndast öfugt vogarafl.  Hafi verkstjórinn því stutt við stefnanda meðan hann hafi verið að koma sér fyrir.  Verkstjórinn hafi síðan brugðið sér frá og á meðan hafi stefnandi dottið niður á hart steingólfið.  Hann hafi lent á öxlinni og ofarlega á bakið.  Stefnandi kveðst hafa verið með vettlinga á höndum, eyrnahlífar, rykgrímu fyrir andliti og hlífðargleraugu, sem náð hafi frá nefi upp á enni.  Stefnandi telur að þessi búnaður hafi truflað skyn hans og jafnvægi upp á grindinni.

Stefnandi og verkstjórinn tilkynntu slysið til vinnueftirlitsins hinn 20. nóvember 2007 og gengu einnig frá skýrslum til Tryggingastofnunar ríkisins.

Atvinnurekandi stefnanda, Íslandsfrakt ehf., var ábyrgðartryggður hjá stefnda og krafðist stefnandi greiðslu úr þeirri tryggingu hinn 18. ágúst 2008.  Stefndi hafnaði kröfunni.

Hinn 24. september 2008 óskaði lögmaður stefnanda eftir því við stefnda að hann endurskoðaði ákvörðun sína. 

Með bréfi, dagsettu 22. október 2008, ítrekaði stefndi fyrri afstöðu sína.

Stefnandi fékk Stefán Dalberg lækni og Björn Daníelsson, lögfræðing, til þess að meta tjón stefnanda af völdum slyssins.  Matsgerð þeirra er dagsett 5. febrúar 2009.  Niðurstaða matsgerðarinnar er sú, að stefnandi hafi hlotið 10% varanlega örorku af völdum slyssins og 15% varanlegan miska.

III

Stefnandi byggir kröfur sínar á því, að 13. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, hafi verið brotin.  Vísar stefnandi til V.-IX. kafla þeirra laga.  Þá hafi atvinnurekandi stefnanda ekki gert honum ljósa slysahættuna, sem falist hafi í starfi stefnanda.  Auk þess byggir stefnandi á því, að hann hafi hvorki fengið nauðsynlega kennslu né þjálfun við að framkvæma störf sín á þann hátt að ekki stafaði hætta af.  Stefnandi byggir á því, að verkstjóri hafi ekki beitt sér með fullnægjandi hætti fyrir því að aðbúnaður og öryggi væri nægilega gott í umrætt sinn.  T.d. hafi hvorki verið vinnupallur né planki til að vinna á.  Verkstjóra hafi einnig borið að tryggja að þeirri hættu yrði afstýrt sem framkvæmd verksins væri búin.  Framkvæmd vinnu í skilningi V. kafla laga nr. 46/1980 hafi verið ábótavant, sbr. t.d. 37. gr. laganna.  Verkið hefði mátt framkvæma á hættuminni hátt.  Í engu hafi verið fylgt reglum III. kafla laga nr. 46/1980 um bætt öryggi og hvernig koma eigi í veg fyrir slys.  Með sama hætti hafi ákvæði XI. kafla laganna um áhættumat, heilsuvernd og heilsufarsskoðanir verið hunsaðar. 

Stefnandi kveður að framkvæma hafi mátt umrætt verk með öruggari hætti, t.d. hefði mátt nota pall, annað hvort í sömu hæð og grindin en sennilega hefði verið enn betra að hafa hann lægri þannig að menn gætu staðið við verkið í eðlilegri vinnuhæð upp við grindina og slípað þannig með slípirokknum.  Einnig hefði mátt leggja breiðan planka yfir grindina á bílnum og vinna á honum.  Á vinnustaðnum hafi hins vegar hvorki verið til slíkur planki né vinnupallur.  Telur stefnandi, að yfirstjórn Íslandsfraktar hafi verið skeytingalaus um öryggisatriði.

Atvinnurekandi hafi ekki tilkynnt Vinnueftirlitinu um slysið þegar í stað, og hafi sönnunargögn því farið forgörðum.  Á því beri stefndi hallann.

Stefnandi hefur sundurliðað bótakröfu sína með eftirgreindum hætti:

1.  Þjáningabætur reiknist frá tjónsatburði hinn 2. október 2007 til stöðugleikapunkts hinn 2. janúar 2008 eða alls 93 daga.  Þjáningabætur á dag séu 1.400 krónur, eða samtals 130.200 krónur.  Grunnfjárhæð þjáningabóta samkvæmt skaðabótalögum, 1.400 krónur, miðað við grunnvísitöluna 3282, en uppfært til 1. febrúar 2009 miðað við lánskjaravísitöluna 6573.

2.  Varanlegur miski reiknist 15% af 8.011.000 krónum, eða samtals 1.201.650 krónur.  Tjónþoli hafi verið 37 ára á tjónsdegi og grunnfjárhæð samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga fyrir 100% miska sé 4.000.000, sem breytist samkvæmt 15. gr. skaðabótalaga miðað við grunnlánskjaravísitöluna 3282, sem sé á útreikningsdegi 6573.

3.  Varanleg örorka reiknist 15% miðað við viðmiðunarlaun síðustu þrjú almanaksár fyrir slys eða meðaltal áranna 2004, 2005 og 2006, uppfært til launavísitölu á stöðugleikatímapunkti 330,9 stig:

Samantekt

Upphæð

Launavísitala

Uppfært

Árið 2006

4.338.603

292,7

kr. 4.904.830

Árið 2005

2.842.157

267,2

kr. 3.519.722

Árið 2004

2.598.026

205

kr. 3.43.626

 

Meðaltal                                                           

kr. 3.953.059

 

Skyldubundin lífeyrisréttindi

kr. 265.265

 

Viðbótarframlag atvinnurekanda

kr. 79.061

 

Viðmiðunarlaun

kr. 4.197.386

                      Stuðull samkvæmt 6. gr. skaðabótalaga sé 11,085 stig.  Því reiknist fjárhæðin þannig: 4.297.386 x 11,085 x 10% = 4.763.652 krónur.

                Krafan sundurliðist því þannig:

Þjáningabætur

kr. 130.200

Varanlegur miski

kr. 1.201.650

Varanleg örorka

kr. 4.763.652

Samtals

kr. 6.095.502

                Um lagarök vísar stefnandi til almennu skaðabótareglunnar, reglna um húsbóndaábyrgð, laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.  Einnig vísar stefnandi til reglugerðar nr. 920/2006, um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnustöðum.  Þá vísar stefnandi til Evróputilskipana 89/391/EBE og 89/654/EBE.

Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sérstaklega 129. gr. og 130. gr. þeirra laga. Þá krefst stefnandi þess, að tekið verði tillit til þess að hann sé ekki virðisaukaskattsskyldur og þurfi því aðfararhæfan dóm fyrir skattinum úr hendi stefnda.   

IV

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því, að ekkert liggi fyrir í málinu sem styðji fullyrðingar stefnanda um ábyrgð á óhappi því, sem málið sé sprottið af.  Um skaðabótaábyrgð á slysinu fari eftir sakarreglunni og hvíli sönnunarbyrðin óskipt á stefnanda um meinta sök og orsakatengsl.  Ósannað sé, að Íslandsfrakt ehf., sem atvinnurekandi, eða starfsmaður á þeirra vegum eigi nokkra sök á slysi stefnanda, sem alfarið megi rekja til gáleysis hans sjálfs eða óhappatilviljunar.

Engin sérstök hætta hafi fylgt starfanum, sem hafi verið einfalt.  Framkvæmdin hefðbundin og ef stefnandi hefði viljað haga vinnu sinni á annan hátt, hafi það verið honum í sjálfsvald sett, enda 37 ára vanur maður á ferð.  Sú málsástæða að verkstjóri hefði átt að ná í pall eða planka handa stefnanda sé mótmælt, enda ekki um lærling að ræða.  Það að nota slípirokk sé í engu hættulegra eða erfiðara en gengur og gerist með almenn störf á verkstæði, að því undanskildu að verja þurfi hendur, andlit og augu sérstaklega og hafi verkstjóri séð til þess.

Í öðru lagi mótmælir stefndi því, að rangur búnaður hafi verið notaður við verkið, enda í engu rökstutt í hverju slíkt brot hafi falist, t.d. brot á lögum eða reglugerðum, í stefnu.

Í þriðja lagi mótmælir stefndi því, að starfssvið stefnanda hafi ekki verið almenn störf á verkstæði.

Í fjórða lagi sé því hafnað, að starfsmenn eða verkstjóri Íslandsfraktar, hafi ekki sinnt leiðbeiningar- eða eftirlitsskyldu sinni við verkið.  Ekkert sé athugavert við verklagið eitt og sér og því hafnað, að hið tryggða félag hafi brotið nokkur lög eða verklagsreglur við framkvæmd starfans.  Ekkert liggi fyrir í málinu um að starfsfólk, annað eða verkstjóri, hafi getað gripið til einhverra ráðstafana til þess að koma í veg fyrir óhappið og verði að árétta að stefnandi hafi átt að gera sér fullkomna grein fyrir því hvort og þá hvernig sú hætta hafi skapast, sem lýst sé í stefnu, hafi hún verið til staðar.

Í fimmta lagi felli það eitt ekki bótaskyldu á stefnda, að vinnueftirlitið hafi ekki verið kvatt á vettvang samdægurs.  Hafi vanræksla á því aðeins þá þýðingu, að stefndi kunni að þurfa að bera halla af upplýsingaskorti um óupplýst atvik, sem vettvangsrannsókn myndi hafa leitt í ljós.

Hér standi hins vegar svo á, að stefnandi sé einn til frásagnar um það, hvernig hann hafi dottið.   Hefði vettvangsrannsókn vinnueftirlitsins ekki getað upplýst það frekar.  Rannsókn vinnueftirlitsins á vinnustaðnum hefði heldur ekki getað skorið úr um réttmæti gagnstæðra fullyrðinga aðila um það, hvort notast hefði átt við planka eða pall.  Þvert á móti verði að líta svo á að þar sem vinnueftirlitinu hafi verið tilkynnt um slysið og það kosið að koma ekki og skoða vettvang sé það frekar sönnun þess að slíkrar skoðunar þurfi ekki við.

Óhappið sé því alfarið að kenna skorti á aðgæslu af hálfu stefnanda og/eða óhappatilviljun.  Leggja verði áherslu á að ekki sé hægt að leggja lýsingar stefnanda sjálfs til grundvallar, án þess að hafa í huga að stefnandi hafi persónulega mikla hagsmuni af því að óhappið verði rakið til sakar annars manns en hans sjálfs.

Varakröfu sína um lækkun byggir stefndi á því, að skipta beri sök í málinu og leggja meginhluta sakar á slysinu á stefnanda sjálfan.  Um eigin sök stefnanda vísast til þess, sem reifað sé um það atriði hér að framan og þess að stefnandi hafi sjálfur ákveðið að fara upp á grindina og síðan ekki gætt betur að sér en svo, að hann hafi misst jafnvægið og dottið niður á gólf.  Geti því aldrei komið til þess, að stefndi beri bótaábyrgð á slysi stefnanda, nema að litlum hluta, hvað sem öðru líði.

Stefndi mótmælir framlagðri matsgerð.  Í fyrsta lagi hafi stefnandi vitað að bótaskyldu hafði verið hafnað á grundvelli þess, að ekki væri um bótaskylt atvik að ræða, ekki hafi því verið komið að ágreiningi um bótafjárhæðir.  Í öðru lagi sé matið einhliða og utanréttar og því ekki haldbært sönnunargagn.  Í þriðja lagi sé matið ekki nægjanlega rökstutt hvað varði miska og örorku.  Skil milli slysanna tveggja sem metin hafi verið séu óljós og ósannfærandi hvað varði rökstuðning fyrir örorku.  Þá vanti töluvert upp á að tekið sé tillit til fyrri áverka á vinstri öxl sem og rökstuðnings fyrir svo háum miska við seinna slysið miðað við það fyrra.

Þá bendir stefndi á, að samkvæmt 1. og 2. mgr. 5. gr. skaðabótalaga eigi tjónþoli ekki að fá metnar eða greiddar bætur vegna örorku nema það dragi úr getu hans til þess að afla sér tekna.  Gögn í málinu leiði ekki til þess að ætla að stefnandi hafi orðið fyrir skerðingu á að afla tekna og breyti matsgerðin þeirri staðreynd ekki.

Stefndi gerir sérstakar athugasemdir varðandi fjárhæð stefnukröfu.  Telur hann að lækka beri stefnukröfur og leiðrétta, þar sem útreikningar í stefnu byggi að hluta á röngum forsendum.

Stefnandi geri kröfu um greiðslu bóta á grundvelli matsgerðar í málinu og 3., 4. og 5.-7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 með síðari breytingum.  Stefndi gerir þær athugasemdir við útreikning bóta, að þar sem viðmiðunarvísitalan sé allt of há, virðist vísitalan sem notuð sé miða við ágúst/september 2009 (6573), en ekki vísitöluna eins og hún hafi verið á stöðugleikatímapunkti, sem hafi verið í janúar 2008.  Þá mótmælir stefndi því, að hvergi sé tekið tillit til þess að draga beri frá greiðslur úr öðrum tryggingum og frá Tryggingastofnun, sbr. þágildandi 5. gr. skaðabótalaga, en upplýst sé í málinu að stefnandi hafi notið þeirra.

Verði ofangreindir meinbugir varðandi stefnufjárhæðina ekki lagfærðir af stefnanda beri að vísa henni frá dómi sem vanreifaðri.

Stefndi mótmælir sérstaklega kröfu um dráttarvexti frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi, enda liggi ekki fyrir um endanlegt tjón stefnanda fyrr en að gengnum dómi.

Um lagarök vísar stefndi til skaðabótalaga nr. 50/1993, almennra reglna skaðabótaréttar um saknæmi, orsakasamhengi, sönnunarbyrði, gáleysi og eigin sök tjónþola.

Kröfu um málskostnað byggir stefndi á 1. og 3. mgr. 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/199.

Kröfu um virðisaukaskatt á málskostnað byggir stefndi á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

V

Ágreiningur máls þessa lýtur að bótaábyrgð á slysi sem stefnandi varð fyrir við vinnu sína hjá Íslandsfrakt ehf.  Fyrir héraðsdómi skýrði stefnandi frá því að verkstjóri hjá Ísfrakt ehf. hafi falið honum vinnu við að slípa til bita á svokölluðum beislisvagni.  Til verksins notaði stefnandi slípirokk, sem hann kveður að hafi verið u.þ.b. 3-4 kg að þyngd.  Stefnandi og verkstjóri hjá Íslandsfrakt ehf. hafa lýst því svo, að stefnandi hafi klifrað upp á grindina, sem hafi verið um 1.3 m hæð frá gólfi og þverbitarnir í grindinni hafi verið um 15 cm á breidd.  Verkstjórinn hafi stutt við stefnanda meðan hann hafi verið að koma sér fyrir ofan á bitunum.  Síðan hafi verkstjórinn farið frá og skömmu síðar hafi stefnandi misst jafnvægið og fallið niður á steingólfið.   Stefnandi var með öryggishlíf á höfði og hlífðargleraugu við verkið.  Samkvæmt framburði stefnanda og verkstjórans var ekkert það á staðnum, svo sem stigi eða pallur, sem nota hafi mátt til verksins.  Kvað verkstjóri að venja væri til að framkvæma verk sem þetta með svipuðum hætti.  Stefnandi bar fyrir dómi að honum hafi þótt verklagið óþægilegt, enda hafi hann þurft að bogra við það og erfitt hafi verið að koma sér fyrir á bitunum.

Í málinu liggur ekkert annað fyrir en að verk stefnanda hafi verið einfalt og mátti honum vera ljósar aðstæður þær er hann vann við þó svo hann hafi ekki unnið lengi á verkstæðinu.   Samkvæmt framburði stefnanda verður ekki annað ráðið en að hann hafi metið það svo í umrætt sinn að hann væri fullfær um að framkvæma verkið eins og hann gerði og án nokkurrar aðstoðar.  Þegar litið er til þess hvernig umrætt verk er framkvæmt verður ekki fallist á það með stefnanda að verkstjóri Íslandsfraktar ehf. hafi í umrætt sinn brotið gegn almennum varúðar- og öryggisreglum eða að öryggisbúnaður á starfstöð Íslandsfraktar ehf. hafi verið ófullnægjandi eða í andstöðu við fyrirmæli laga nr. 46/1980. 

Þá hefur stefnandi vísað til þess að stefnda hafi láðst að tilkynna slysið til Vinnueftirlits ríkisins fyrr en mánuður var frá því liðinn.  Með því hafi stefndi brotið gegn þágildandi 81. gr. laga nr. 46/1980, sbr. og reglum nr. 612/1989 um tilkynningu vinnuslysa.  Vanræksla á þeirri skyldu hljóti að verða metin stefnda í óhag, en hefðu atvik málsins verið betur upplýst ef atburðurinn hefði strax verið rannsakaður af kunnáttumönnum.  Í gögnum málsins kemur fram að stefnandi mat það svo að hann þyrfti ekki aðstoðar læknis fyrr en nokkru síðar og þá í framhaldinu hafi slysið verið tilkynnt til Vinnueftirlitsins, sem þó sá ekki ástæðu til þess að mæta á staðinn.  Í ljósi þessa benti ekkert til þess að um tilkynningarskylt slys hefði verið að ræða.  Eru því ekki efni til að meta stefnda í óhag, eins og mál þetta er vaxið, að slysið var ekki strax tilkynnt Vinnueftirliti ríkisins.

Með vísan til þess sem að ofan er rakið er það niðurstaða dómsins að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að stefndi hafi brotið gegn tilvitnuðum ákvæðum laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, né heldur gegn tilvitnuðum ákvæðum reglugerðar nr. 499/1994.  Stefnandi kaus sjálfur að haga verki sínu með framangreindum hætti og hlýtur, eins og hér háttar til, að bera á því fulla ábyrgð.

Að öllu framansögðu virtu verður að telja að stefnandi hafi ekki leitt sönnur að því að slysið og tjónið sem af því hlaust verði rakið til sakar stefnda heldur verði að telja að slysið verði alfarið rakið til óhappatilviks sem enginn beri sök á.   Ber því að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda í málinu.

Þrátt fyrir þessa niðurstöðu þykir rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu.

Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð :

Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Birgis Brynjólfssonar.

Málskostnaður fellur niður.