Hæstiréttur íslands

Mál nr. 706/2009


Lykilorð

  • Líkamstjón
  • Slysatrygging
  • Örorkubætur
  • Almannatryggingar


Fimmtudaginn 14. október 2010.

Nr. 706/2009.

Jón Friðrik Sigurðsson

(Steingrímur Þormóðsson hrl.)

gegn

Tryggingamiðstöðinni hf.

(Guðmundur Pétursson hrl.)

Líkamstjón. Slysatrygging. Örorkubætur. Almannatryggingar.

J höfðaði mál gegn T og krafðist greiðslu bóta úr slysatryggingu sjómanna vegna vinnuslyss sem hann varð fyrir 14. október 2005. Undir rekstri málsins í héraði aflaði J yfirmatsgerðar um afleiðingar slyssins og á grundvelli hennar gekk T til uppgjörs við J, að öðru leyti en því að J felldi sig ekki við að til frádráttar bótunum kæmi útreiknað eingreiðsluverðmæti framtíðarbóta frá lífeyrissjóði hans og úr almannatryggingum, sbr. 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Greindi aðila því á um hvort T hafi verið heimilt að halda eftir þessari fjárhæð við uppgjör bóta til J. Talið var að við uppgjör bóta í málinu bæri að fara eftir reglum skaðabótalaga, þar sem það leiddi til hærri heildarbóta en samkvæmt 172. gr. siglingalaga nr. 34/1985. Við uppgjörið bæri því að miða við frádráttarreglur samkvæmt 4. mgr. 5. gr. laganna. Þó endurmeta skyldi síðar varanlega örorku hjá Tryggingastofnun og hjá lífeyrissjóði J yrði vegna forsendna fyrir tjónsuppgjöri að miða við að matið myndi ekki breytast í þeim mæli í framtíðinni að ekki væri unnt að draga þessar uppreiknuðu bótagreiðslur frá skaðabótum. Var T því sýknað af kröfum J í málinu.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 1. október 2009. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 18. nóvember 2009 og var áfrýjað öðru sinni 10. desember sama ár. Áfrýjandi krefst þess aðallega að stefnda verði gert að greiða sér 20.042.900 krónur, en til vara 15.527.559 krónur, í báðum tilvikum með 4,5% ársvöxtum af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 14. október 2005 til 20. júní 2008, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum tilteknum innborgunum að fjárhæð samtals 10.411.782 krónur. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Eins og nánar greinir í héraðsdómi leitar áfrýjandi með máli þessu greiðslu á bótum úr slysatryggingu sjómanna vegna vinnuslyss, sem hann varð fyrir 14. október 2005, en undir rekstri málsins í héraði tókst samkomulag milli aðilanna um uppgjör bóta að öðru leyti en því að áfrýjandi felldi sig ekki við að til frádráttar slysatryggingarbótum kæmi útreiknað eingreiðsluverðmæti framtíðarbóta frá lífeyrissjóði hans og úr almannatryggingum. Í hinum áfrýjaða dómi segir að við upphaf aðalmeðferðar hafi komið fram að ágreiningur aðilanna lyti að þessu gerðu aðeins að því hvort stefnda væri heimilt að draga þetta eingreiðsluverðmæti frá bótum. Þá segir þar einnig að áfrýjandi hafi ekki mótmælt útreikningi tryggingarstærðfræðings á þessu eingreiðsluverðmæti tölulega, þótt hann telji að óheimilt sé að draga fjárhæðina frá við uppgjör bóta. Úr málinu var svo leyst fyrir héraðsdómi á þessum grunni. Fyrir Hæstarétti hefur áfrýjandi haft uppi athugasemdir um ýmis atriði í forsendum þessa útreiknings, sem hann telur að valda eigi að útreikningurinn verði virtur að vettugi, en af þeim sökum beri að taka til greina aðalkröfu hans, sem tekur mið af fjárhæð slysatryggingarbóta án nokkurs frádráttar af þessum toga. Af framangreindu er ljóst að þessi málatilbúnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti er reistur á málsástæðum, sem ekki var haldið fram í héraði, og fá þær ekki komist að hér fyrir dómi, sbr. 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála með áorðnum breytingum. Að þessu virtu verður héraðsdómur staðfestur með vísan til forsendna hans.

Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 1. júlí 2009

Mál þetta, sem dómtekið var að loknum munnlegum málflutningi 11. júní sl., er höfðað með stefnu birtri 29. ágúst 2007.

Stefnandi er Jón Friðrik Sigurðsson, [...], en stefndi er Tryggingamiðstöðin hf., Aðalstræti 6-8, Reykjavík. 

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru aðallega þær að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 20.042.900 krónur, með 4,5% ársvöxtum frá 14. október 2005 af 2.763.195 krónum til 11. apríl 2008, en af stefnufjárhæð frá þeim degi til 20. júní 2008, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum eftirtöldum innborgunum; 500.000 krónum 28. ágúst 2006, 1.000.000 króna 22. desember 2006, 1.500.000 krónum 4. janúar 2007, 500.000 krónum 16. maí 2007 og 6.911.782 krónum 20. maí 2008.

Til vara krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 15.527.559 krónur með sama vaxtafæti og í aðalkröfu og með sömu innágreiðslum til frádráttar.

Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar.

Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda, auk málskostnaðar, en til vara lækkunar á dómkröfum og að málskostnaður verði þá látinn falla niður.

Upphaflegar kröfur stefnanda voru þær að stefndi yrði dæmdur til að greiða honum 23.279.328 krónur, en til vara 21.768.450 krónur, en við upphaf aðalmeðferðar málsins 16. apríl sl. breytti hann dómkröfum sínum í núverandi horf. Við sama tækifæri var bókað í þingbók að ágreiningur málsins lyti nú aðeins að því hvort stefnda hafi verið heimilt að draga frá slysabótum greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins og lífeyrissjóði stefnanda á grundvelli 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, með síðari breytingum. Umfjöllun um málsatvik og málsástæður aðila tekur mið af því. 

Málsatvik og ágreiningsefni

Stefnandi slasaðist í vinnuslysi um borð í ms. Papey, eign Salar Islandica hf., 14. október 2005 hf. Var skipið þá í þurrdokk í Fosen Mek Kvithill hamn, skammt frá Þrándheimi í Noregi. Á slysdegi var í gildi slysatrygging sjómanna hjá stefnda vegna skipverja ms. Papeyjar, og er kröfum því beint að stefnda, Tryggingamiðstöðinni hf.

Eftir slysið kveðst stefnandi hafa verið óvinnufær  og stöðugt undir læknishendi. Á árinu 2006 óskaði hann eftir mati sérfræðinga á afleiðingum slyssins og var niðurstaða þeirra sú að varanlegur miski var metinn 18%, en varanleg örorka 35%. Í kjölfarið greiddi stefndi 1.000.000 króna inn á kröfuna 22. desember 2006 og 1.500.000 krónur 4. janúar 2007, en neitaði frekari greiðslu þar sem upplýsingar skorti um væntanleg réttindi stefnanda úr lífeyrissjóði sjómanna til þess að hægt væri að reikna út eingreiðsluverðmæti þeirra. Áður hafði stefndi greitt stefnanda 500.000 krónur, 28. ágúst 2006.

Í byrjun árs 2007 óskaði stefnandi eftir því að dómkvaddir yrðu tveir matsmenn til að meta tjón stefnanda og voru dómkvaddir til verksins Páll Sigurðsson prófessor og Albert Páll Sigurðsson læknir. Skiluðu þeir matsgerð 17. maí 2007 og voru niðurstöður þær að varanlegur miski stefnanda var talinn 20%, en varanleg örorka 35% til almennra starfa og 25% til heimilisstarfa. Byggðist upphafleg kröfugerð stefnanda á þessari matsgerð. Stefndi greiddi 16. maí 2007 500.000 krónur inn á kröfu stefnanda.

Undir rekstri málsins óskaði stefnandi eftir því að aflað yrði yfirmatsgerðar til að meta afleiðingar slyssins, og voru Ingvar Sveinbjörnsson hrl., Viðar Már Matthíasson prófessor og Sigurður Thorlacius læknir kvaddir til matsstarfa. Matsgerð þeirra er dagsett 11. apríl 2008 og samkvæmt henni er varanlegur miski stefnanda metinn 35%, en varanleg örorka 60%. Töldu yfirmatsmenn að vegna afleiðinga slyssins fullnægði stefnandi skilyrðum staðals reglugerðar nr. 379/1999 um 75% örorku. Á grundvelli yfirmatsgerðarinnar gekk stefndi til uppgjörs við stefnanda 20. maí 2008, og greiddi honum þá 9.018.659 krónur, að meðtöldum vöxtum, innheimtuþóknun og útlögðum kostnaði, en áskildi sér rétt til að draga frá bótum til stefnanda 9.631.118 krónur, vegna ætlaðra bótagreiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins og lífeyrissjóðnum Stapa. Var sú fjárhæð í samræmi við útreikning Ragnars Þ. Ragnarsson tryggingastærðfræðings frá 3. desember 2007. Ágreiningur aðilar lýtur að því hvort stefnda hafi verið heimilt að halda eftir þessari fjárhæð við uppgjör bóta til stefnanda.

         Við upphaf aðalmeðferðar gaf Ragnar Þ. Ragnarsson tryggingastærðfræðingur skýrslu fyrir dóminum og útskýrði útreikninga sína á eingreiðsluverðmæti bóta.

Málsástæður stefnanda og lagarök

Stefnandi kveðst byggja aðalkröfu sína á sérstökum tryggingasamningi stefnda og útgerðarinnar, svokallaðri sjómannatryggingu (slysatryggingu sjómanna samkvæmt kjarasamningi 16. maí 2001), er byggist á úrskurði gerðardóms samkvæmt 2. gr. laga nr. 34/2001 frá 30. júní 2001. Byggist krafan ekki á því að útgerðin hafi sýnt af sér sök og sé skaðabótaskyld gagnvart stefnanda af þeim sökum, heldur á því að um sé að ræða slys sem stefndi hafi skuldbundið sig til að bæta á grundvelli 172. gr. siglingalaga og í samræmi við þann tryggingasamning sem í gildi sé samkvæmt ofangreindum gerðardómsúrskurði.    Stefnandi heldur því fram að hann eigi rétt á að fá bótakröfu sína óskerta, þar sem 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga eigi aðeins við um hreinar skaðabótakröfur. Slíkt eigi ekki við í þessu tilviki, þar sem um sé að ræða samningsbundnar réttindabætur sem séu framlenging af launþegatryggingu, sem hafi stoð í 172. gr. siglingalaga, og séu um leið kjarasamningsbundin tryggingaréttindi. Byggir stefnandi á því að hið stefnda félag leggi á útgerðir í landinu iðgjöld sem séu byggð á ákveðinni tjónareynslu, sem og alla starfandi sjómenn þeirra útgerða sem tryggi hjá félaginu, sem útgerðin haldi síðan eftir af hlut viðkomandi sjómanns og greiði til félagsins. Þar af leiðandi geti hið stefnda félag ekki knúið stefnanda til að krefja aðra aðila um þær tryggingabætur sem félagið hafi sjálft tekið sér á hendur að greiða stefnanda samkvæmt kjarasamningi og álagningu iðgjalda. Komi hér einnig til réttarreglur um ólögmætan ávinning, haldi stefndi uppteknum hætti. Jafnframt kveðst stefnandi byggja á því að stefndi hafi sönnunarbyrði um allan hugsanlegan frádrátt frá bótakröfu stefnanda samkvæmt grundvallarreglum um sönnun í skaðabótamálum. Tekur hann fram að fyrir slysið 2005 hafi hann fengið ákveðin líkamleg áföll, þó hann hafi þá áfram verið vinnufær til sjómannsstarfa og annarra starfa. Þeir áverkar, sem stefnandi hafi fengið í slysinu í október 2005, skori því einungis til frádráttar samkvæmt þeim bótum sem nú sé krafið um, hvort sem það sé frá Tryggingastofnun eða lífeyrissjóðum. Af þessum ástæðum telur stefnandi ekki unnt að draga bætur frá þriðja aðila frá umkröfðum bótum, eða fresta greiðslum af þeim sökum um óákveðinn tíma, í þeim mæli sem stefndi hafi gert í þessu máli.

Aðalkrafa stefnanda sundurliðast þannig:

Miskabætur, 6.788.500 x 35 stig                                                                       kr.   2.375.975

Þjáningabætur                                                                                                    kr.      387.220

Bætur fyrir varanlega örorku, 3.965.782 x 7,262 x 60%                  kr. 17.279.705

                                                                                     Samtals                  kr. 20.042.900

Stefndi hafi þegar greitt 10.411.782 krónur inn á kröfuna, annars vegar 3.500.000 krónur fyrir höfðun málsins og 6.911.782 krónur með uppgjöri 20. maí 2008. Þann sama dag hafi stefndi einnig greitt vexti að fjárhæð 786.579 krónur, svo og innheimtuþóknun og útlagaðan kostnað stefnanda að fjárhæð 1.320.298 krónur. Að frádregnum innborgunum stefnda standi því eftir 9.631.118 krónur, sem stefndi hafi dregið frá bótafjárhæðinni samkvæmt 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga (20.042.900 – 10.411.782 = 9.631.118). Tölulegur ágreiningur sé þannig ekki í málinu, nema að því leyti er varði frádrátt samkvæmt 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga, þ.e. framtíðarbætur frá Tryggingastofnun og lífeyrissjóði. Þá sé samkomulag milli aðila um að greiðslur frá Tryggingastofnun vegna slysatryggingar og greiðslur á óvinnufærnitíma frá Tryggingastofnun jafnist upp á móti greiðslum stefnanda fyrir annað fjártjón og sjúkrakostnað. 

Varakröfu sína byggir stefnandi á því að 4.515.341 króna dragist frá höfuðstól bótakrafna og verði krafan þannig 15.527.559 krónur. Til stuðning þeirri kröfu vísar stefnandi til útreiknings Ragnars Þ. Ragnarssonar tryggingastærðfræðings frá 7. desember 2008, þar sem hann miðar við að greiðslum frá Tryggingastofnun og lífeyrissjóði ljúki við endurmat í október 2011, og nemi eingreiðsluverðmæti bóta því alls 4.515.341 krónu. Að öðru leyti byggir stefnandi á öllum sömu málsástæðum og í aðalkröfu.

Um lagarök vísar stefnandi til meginreglna vátryggingarsamningalaga, svo sem 2. mgr. 24. gr. þeirra laga. Einnig kveðst hann byggja á þeim vátryggingarsamningi sem útgerðinni bar að gera samkvæmt kjarasamningum, sbr. lög nr. 34/2001 og úrskurð gerðardóms skv. 2. gr. laga nr. 34/2001 frá 30. júní 2001. Þá vísar hann til 172. gr. siglingalaga. Bótafjárhæð byggir stefnandi á 1.-7. gr. skaðabótalaga, og vísar um leið til þess að samkvæmt 4. mgr. 5. gr. þeirra laga skuli þar tilgreindar greiðslur eingöngu dragast frá skaðabótakröfum eða skaðabótum. Stefnandi vísar einnig til réttarreglna varðandi kjarasamninga og til eignaverndar- og jafnræðisverndarákvæða stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu. Þá skírskotar stefnandi til þeirra lögskýringarsjónarmiða að lagaatriði sem þrengja bótarétt tjónþola verði að skýra þröngt gagnvart rétti tjónþola og í því sambandi til lögmætisreglunnar eða reglunnar um skýra lagaheimild. 

Málsástæður stefnda og lagarök

 Stefndi byggir málatilbúnað sinn á því að óumdeilt sé að mál þetta snúist um greiðslur úr slysatryggingu sjómanna. Eins og kröfugerð stefnanda sé háttað þýði það að bætur ákvarðist eftir reglum skaðabótalaga, sbr. gr. 6.1 í skilmálum stefnda. Um leið gildi frádráttarreglur skaðabótalaga um bótagreiðslurnar, og verði því að hafna sjónarmiðum stefnanda þar sem hann haldi því fram að svo sé ekki.

Að því er kröfur stefnanda varði byggir stefndi á því að stefnandi hafi þegar fengið tjón sitt bætt að fullu. Þannig hafi stefnanda 20. maí 2008 verið greiddar 9.018.659 krónur vegna uppgjörs á tjóni því er mál þetta snúist um. Áður hefði félagið greitt stefnanda 3.500.000 krónur. Samkvæmt útreikningum Ragnars Þ. Ragnarssonar tryggingastærðfræðings frá 3. desember 2007 sé eingreiðsluverðmæti bóta frá Tryggingastofnun og lífeyrissjóði stefnanda 9.631.118 krónur, og hafi stefnda verið heimilt að draga þá fjárhæð frá bótakröfu stefnanda. Því til stuðnings vísar stefndi til 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga. Með bótauppgjörinu frá 20. maí 2008 hafi stefnandi því fengið allt tjón sitt bætt.

Stefndi telur ástæðu til að mótmæla þeirri fullyrðingu stefnanda að hann hafi ávallt verið reiðubúinn til að leggja fram upplýsingar sem stefndi hafi óskað eftir eða heimilað honum að afla þeirra. Vísar stefndi í því sambandi til gagna málsins. Um leið telur hann að tilvísun stefnanda til 2. mgr. 24.  gr. þágildandi vátryggingarsamningalaga sé á misskilningi byggð og er henni mótmælt. Stefndi mótmælir einnig tilvísun stefnanda til stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu og telur að það hafi enga þýðingu fyrir úrlausn málsins.

Niðurstaða

Við upphaf aðalmeðferðar í máli þessu 16. apríl sl. var bókað í þingbók að ágreiningur málsins lyti aðeins að því hvort stefnda hafi verið heimilt að draga frá slysabótum ætlaðar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins og lífeyrissjóði stefnanda á grundvelli 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, með síðari breytingum. Samkvæmt útreikningi Ragnars Þ. Ragnarssonar tryggingastærðfræðings frá 3. desember 2007 nam eingreiðsluverðmæti þeirra bóta alls  9.631.118 krónum, og miðaðist útreikningur við að greiðslur yrðu óbreyttar til 67 ára aldurs stefnanda. Kom sú fjárhæð til frádráttar við uppgjör til stefnanda 20. maí 2008. Byggir stefnandi á því að hann eigi rétt á að fá bótakröfuna óskerta úr hendi stefnda, þar sem 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga eigi aðeins við um hreinar skaðabótakröfur, en ekki við samningsbundnar réttindabætur sem hafi stoð í 172. gr. siglingalaga og séu um leið kjarasamningsbundin tryggingaréttindi.

Meðal gagna málsins eru vátryggingarskilmálar stefnda um slysatryggingu sjómanna samkvæmt kjarasamningum LÍÚ við stéttarfélög áhafna fiskiskipa, og giltu þeir skilmálar á slysdegi. Þar segir í gr. 6.1 að valdi slys vátryggðum líkamstjóni eða dauða skuli bætur ákvarðast eftir reglum skaðabótalaga nr. 50/1993, leiði það til hærri heildarbóta en samkvæmt 172. gr. siglingalaga nr. 34/1985. Ákvæði þetta er efnislega samhljóða úrskurði gerðardóms samkvæmt 2. gr. laga nr. 34/2001, sem kveðinn var upp 30. júní 2001. Eins og málatilbúnaði stefnanda er háttað þykir ekki fara á milli mála að krafa hans og útreikningur bótafjárhæða styðst við reglur skaðabótalaga nr. 50/1993, enda vísar hann til ákvæða 1.-7. gr. laganna kröfum sínum til stuðnings. Þá er ekki um það deilt að í þessu tilviki nema heildarbætur hærri fjárhæð en samkvæmt 172. gr. siglingalaga. Samkvæmt því verður fallist á það með stefnda að bótauppgjör í máli þessu fari eftir reglum skaðabótalaga og að við uppgjörið gildi að sama skapi frádráttarreglur samkvæmt  4. mgr. 5. gr. skaðabótalaganna, sbr. og dómur Hæstaréttar  26. febrúar 2009 í máli nr. 342/2008. Við bótauppgjör til stefnanda 20. maí 2008 var stefnda því heimilt  að draga eingreiðsluverðmæti bóta frá Tryggingastofnun og lífeyrissjóði stefnanda frá þeirri fjárhæð sem innt var af hendi sem fullnaðarbætur. Verður ekki fallist á að sá frádráttur fari í bága við eignarverndar- og jafnræðisreglur stjórnarskrár eða mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. og áðurnefndur dómur Hæstaréttar í máli nr. 342/2008.

Í málinu er ekki ágreiningur um fjárhæð bótakröfu stefnanda og var gengið frá bótauppgjöri 20. maí 2008 með greiðslu að fjárhæð 9.018.659 krónur. Áður hafði stefndi greitt 3.500.000 krónur inn á kröfu stefnanda. Við móttöku greiðslunnar gerði lögmaður stefnanda fyrirvara vegna frádráttar stefnda samkvæmt 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga að fjárhæð 9.631.118 krónur, sem byggðist á áðurnefndum útreikningi Ragnars Þ. Ragnarssonar tryggingastærðfræðings. Stefnandi hefur ekki mótmælt þeim útreikningi tölulega, þótt hann telji að ekki sé heimilt að draga fjárhæðina frá bótauppgjörinu. Með vísan til umfjöllunar hér að ofan um það álitaefni verður niðurstaða dómsins sú að krafa stefnanda hafi að fullu verið greidd með uppgjöri stefnda til stefnanda 20. maí 2008. Ber því að sýkna stefnda af aðalkröfu stefnanda.

Varakrafa stefnanda er einkum á því reist að stefnda sé aðeins heimilt að draga 4.515.341 krónu frá höfuðstóli bótakrafna, enda ljúki greiðslum frá Tryggingastofnun og lífeyrissjóði við endurmat á örorku stefnanda í október 2011. Um útreikning fjárhæðarinnar vísar stefnandi til bréfs Ragnars Þ. Ragnarssonar tryggingastærðfræðings frá 7. desember 2008, þar sem fram kemur að eingreiðsluverðmæti bóta samkvæmt þeim forsendum nemi 4.515.341 krónu.

Samkvæmt yfirmatsgerð dómkvaddra matsmanna frá 11. apríl 2008, sem lögð er til grundvallar kröfugerð stefnanda í máli þessu, var varanlegur miski stefnanda metinn til 35 stiga og varanleg örorka hans metin 60%. Jafnframt töldu yfirmatsmenn að stefnandi fullnægði skilyrðum staðals reglugerðar nr. 379/1999 um 75% örorku. Stefnandi mun nú vera metinn til 75% örorku hjá Tryggingastofnun ríkisins, en er gert að koma til endurmats í október 2011. Þá liggur fyrir yfirlýsing frá lífeyrissjóðnum Stapa um að endurmat á örorku stefnanda fari fram í október 2009. Forsenda varakröfu stefnanda er því sú að greiðslum frá Tryggingastofnun og lífeyrissjóði ljúki löngu áður en stefnandi nær 67 ára aldri.

Eins og áður hefur komið fram lauk stefndi greiðslu fullnaðarbóta til stefnanda 20. maí 2008, en dró frá uppgjörsfjárhæðinni eingreiðsluverðmæti bóta frá Tryggingastofnun ríkisins og lífeyrissjóði, miðað við að þær greiðslur yrðu óbreyttar til 67 ára aldurs. Forsendur slíkrar eingreiðslu eru að skaðabætur fyrir varanlega örorku vegna slyss séu greiddar fyrir líkindatjón fram í tímann og að frá skaðabótum dragist að sama skapi áætlaðar framtíðargreiðslur frá almannatryggingum og lífeyrissjóði, líkt og gert er ráð fyrir í 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga. Enda þótt endurmeta skuli varanlega örorku stefnanda hjá Tryggingastofnun ríkisins í október 2011 og í október 2009 hjá lífeyrissjóðnum Stapa, verður vegna forsendna fyrir tjónsuppgjöri að miða við að matið muni ekki breytast í þeim mæli í framtíðinni að ekki sé unnt að draga þessar uppreiknuðu bótagreiðslur frá metnum skaðabótum. Eru því ekki efni til að verða við varakröfu stefnanda og verður stefndi því jafnframt sýknaður af henni.

Með hliðsjón af atvikum þykir rétt að málskostnaður milli aðila falli niður.

Samkvæmt gögnum málsins hefur stefndi nú þegar greitt allan útlagðan kostnað stefnanda, samtals 1.825.811 krónur, að undanskildum kostnaði vegna útreiknings Ragnars Þ. Ragnarssonar tryggingastærðfræðings, að fjárhæð 37.350 krónur. Þá hefur stefndi og greitt lögmannsþóknun stefnanda, samtals 995.287 krónur. Stefnandi nýtur gjafsóknar samkvæmt gjafsóknarleyfi 28. nóvember 2007, og er gjafsóknin takmörkuð við rekstur málsins fyrir héraðsdómi. Allur gjafsóknarkostnaður, þ.e. þóknun lögmanns stefnanda, Steingríms Þormóðssonar hrl., sem ákveðst hæfileg 120.000 krónur, auk útlagðs kostnaðar að fjárhæð 37.350 krónur, eða samtals 157.350 krónur, greiðist úr ríkissjóði. Við ákvörðun lögmannsþóknunar hefur verið tekið tillit til greiðslu virðisaukaskatts. 

Ingimundur Einarsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð:

Stefndi, Tryggingamiðstöðin hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Jóns Friðriks Sigurðssonar.

Málskostnaður milli aðila fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, samtals 157.350 krónur, greiðist úr ríkissjóði.