Hæstiréttur íslands
Mál nr. 291/2002
Lykilorð
- Kærumál
- Frávísunarkröfu hafnað
- EFTA-dómstóllinn
- Ráðgefandi álit
|
|
Þriðjudaginn 3. september 2002. |
|
Nr. 291/2002. |
Jóhann Óli Guðmundsson(Hróbjartur Jónatansson hrl.) gegn Lyfjaverslun Íslands hf. Aðalsteini Karlssyni Guðmundi A. Birgissyni og Lárusi L. Blöndal (Jón Steinar Gunnlaugsson hrl.) |
Kærumál. Frávísunarkröfu hrundið. EFTA-dómstóllinn. Ráðgefandi álit.
Synjun héraðsdóms á að óska ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um skýringu á ákvæðum 2. félagaréttartilskipunar Evrópusambandsins var kærð til Hæstaréttar. Kröfu varnaraðila um frávísun var hafnað þar sem talið var að heimild til að kæra slíkan úrskurð gilti hvort sem héraðsdómur hefði synjað eða tekið til greina kröfu um ráðgefandi álit. Þá var Hæstiréttur í fyrsta lagi þegar talinn hafa skýrt þau ákvæði hlutafélagalaga, sem byggðu á umdeildum ákvæðum félagaréttartilskipunarinnar, í máli þar sem mælt var fyrir um lögbann við tilteknum athöfnum sóknaraðila í máli þessu. Í öðru lagi hafi Hæstiréttur í því máli byggt niðurstöðu sína á atriðum sem skýringar EFTA-dómstólsins myndu ekki snerta en þau ein sér hafi nægt til að lögbannið næði fram að ganga. Var synjun héraðsdóms því staðfest.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Garðar Gíslason og Haraldur Henrysson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. júní 2002, sem barst réttinum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. júní 2002, þar sem synjað var kröfu sóknaraðila um að leitað yrði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um skýringu á ákvæðum 2. félagaréttartilskipunar Evrópusambandsins nr. 77/91/EBE, einkum 27., sbr. 10. gr. um greiðslu hlutafjár með öðru en reiðufé, svo sem nánar greinir í úrskurði héraðsdóms. Sóknaraðili krefst þess að úrskurðinum verði hrundið og lagt fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur að afla framangreinds álits.
Varnaraðilar krefjast þess aðallega að kærunni verði vísað frá Hæstarétti en til vara að úrskurðurinn verði staðfestur. Báðir aðilar krefjast kærumálskostnaðar sér til handa.
I.
Varnaraðilar reisa frávísunarkröfu sína á því að synjun héraðsdóms á því að leita álits EFTA-dómstólsins sæti ekki kæru.
Sérstök kæruheimild er í 3. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1994 um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið. Gildir heimildin samkvæmt orðalagi ákvæðisins og athugasemdum, sem fylgdu frumvarpi að lögunum, hvort sem héraðsdómur synjar eða tekur til greina slíka kröfu. Hins vegar vísar ákvæðið til almennra reglna um meðferð einkamála um aðferð við málskotið. Kröfu varnaraðila um frávísun er því hafnað.
II.
Málsatvika er getið í héraðsdómi. Þar er rakið að ágreiningur aðila varði ákvörðun fyrri stjórnar Lyfjaverslunar Íslands hf. í júní 2001 um að kaupa hlutafé sóknaraðila í Frumafli ehf., sem hann greiddi 20. sama mánaðar með hlutafé í fyrrnefnda félaginu að nafnverði 170.000.000 krónur.
Fyrir héraðsdómi krefjast varnaraðilar þess að staðfest verði lögbann sem sýslumaðurinn í Reykjavík lagði á 10. júlí 2001 við því að sóknaraðili nýti sér rétt sem fylgi hlutafjáreign hans í varnaraðila Lyfjaverslun Íslands hf. sem honum var afhent með rafrænum hætti 20. júní 2001, samtals að nafnvirði 170.000.000 króna, eða ráðstafi umræddri hlutafjáreign sinni til þriðja aðila. Jafnframt krefjast þeir þess að viðurkennt verði með dómi að samningur sóknaraðila og Lyfjaverslunar Íslands hf. frá 20. júní 2001 um að þeir kaupi allt hlutafé Frumafls ehf., Hlíðarsmára 8 í Kópavogi, sé ógildur. Sóknaraðili krefst aftur á móti aðallega sýknu en til vara að hafnað verði kröfu varnaraðila um ógildingu kaupsamnings Lyfjaverslunar Íslands hf. og hans um sölu á 44,44 af hundraði hluta í Frumafli hf. og að synjað verði staðfestingar á framangreindu lögbanni að því er varðar sölu á sama hundraðshluta.
Sýslumaðurinn í Reykjavík lagði framangreint lögbann á eftir að Hæstiréttur hafði með dómi sínum 10. júlí 2001 í málinu nr. 256/2001 lagt það fyrir hann. Féllst Hæstiréttur þar með á það með varnaraðilum að fyrirvaralaus ákvörðun stjórnar Lyfjaverslunar Íslands hf. 11. júní 2001 um að kaupa allt hlutafé í Frumafli ehf. við tilteknu verði hafi verið tekin áður en aflað hafði verið sérfræðiskýrslu löggilts endurskoðanda samkvæmt 37. gr., sbr. 5.-8. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög. Þegar af þessari ástæðu taldi rétturinn að ekki hefðu verið uppfyllt skilyrði laganna um að stjórnin mætti ákveða kaupin. Aðilar eru sammála um að nefnd ákvæði hlutafélagalaga hafi verið sett til að fullnægja skuldbindingum samkvæmt 2. félagaréttartilskipun nr. 77/91/EBE frá 13. desember 1976, sem vitnað sé til í XXII. viðauka EES-samningsins og að íslensk lög verði skýrð til samræmis við skuldbindingar, sem Ísland hafi gengist undir í þeim samningi eftir því sem framast sé unnt.
Sóknaraðili telur að oftúlkunar gæti hjá Hæstarétti í framangreindum dómi varðandi greind ákvæði hlutafélagalaga og félagaréttartilskipunar. Hann mótmælir því ekki að ákvörðun stjórnarinnar um hlutafjárhækkunina hafi verið tekin 11. júní 2001 en heldur því hins vegar fram að hlutafjárhækkunin hafi ekki í raun verið framkvæmd fyrr en síðar. Hún hafi ekki orðið í skilningi félagaréttartilskipunarinnar fyrr en þegar sóknaraðili og Lyfjaverslun Íslands hf. undirrituðu kaupsamning um hlutaféð 20. sama mánaðar, en þá hafi sérfræðiskýrslan legið fyrir. Af þessum sökum krefst hann með vísun til 1. gr. laga nr. 21/1994 að álits EFTA-dómstólsins verði aflað um skilning á ákvæðum 1. og 2. töluliða 27. gr. tilskipunarinnar. Augljóst eigi að vera að túlkun á þessum ákvæðum hafi verulega þýðingu fyrir niðurstöðu málsins.
III.
Í framangreindum dómi Hæstaréttar kemur fram að við uppkvaðningu hans lá fyrir hvenær sérfræðiskýrsla löggilts endurskoðanda var gerð. Hæstiréttur hefur því þegar skýrt þau ákvæði hlutafélagalaga, sem byggja á umdeildum ákvæðum félagatilskipunarinnar, áður en lagt var fyrir sýslumann að leggja á umdeilt lögbann, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. Þá byggði Hæstiréttur niðurstöðu sína á því að áður en kaupin gerðust höfðu varnaraðilar krafist hluthafafundar Lyfjaverslunar Íslands hf. í því skyni að allir hluthafar ættu þess kost að taka afstöðu til kaupa félagsins á hlutum í Frumafli ehf. Taldi Hæstiréttur að skilyrðum hlutafélagalaga og samþykkta Lyfjaverslunar Íslands hf. hefði verið fullnægt til að varnaraðilar hefðu getað krafist fundarins. Stjórn Lyfjaverslunarinnar hefði verið í aðstöðu til að boða til fundarins svo fljótt sem auðið yrði og við þessar aðstæður hefði stjórninni verið óheimilt að ákveða sjálf að ganga frá kaupum á öllu hlutafé í Frumafli ehf. áður en slíkur fundur yrði haldinn, svo sem löglega hafði verið krafist.
Af því sem að framan greinir verður Hæstiréttur í fyrsta lagi þegar talinn hafa skýrt þau ákvæði hlutafélagalaga sem framangreindur ágreiningur er um. Í öðru lagi byggði rétturinn niðurstöðu sína á atriðum sem skýringar EFTA- dómstólsins myndu ekki snerta en þau ein sér nægðu til að áðurgreint lögbann næði fram að ganga. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 21/1994 er ekki skylt að leita álits EFTA-dómstólsins að kröfu aðila dómsmáls. Eins og mál þetta liggur fyrir Hæstarétti verða ekki taldar svo miklar líkur fyrir því að álit EFTA-dómstólsins geti haft þýðingu fyrir úrslit máls þessa að rétt sé að leita skýringa hans á fyrrgreindum ákvæðum félagaréttartilskipunarinnar og fresta þannig málinu. Niðurstaða héraðsdóms er því staðfest.
Rétt þykir að ákvörðun málskostnaðar bíði endanlegs dóms í málinu.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. júní 2002.
I
Mál þetta var höfðað af Lárusi L. Blöndal, kt. 051161-2899, Rjúpnahæð 3, Garðabæ, Aðalsteini Karlssyni, kt. 121146-2749, Flókagötu 59, Reykjavík og Guðmundi A. Birgissyni, kt. 010761-2049, Lækjarási 5, Reykjavík með stefnu, birtri 17. júlí og 22. ágúst 2001, á hendur Jóhanni Óla Guðmundssyni, kt. 020954-5829, með skráð heimilisfang samkvæmt þjóðskrá á Gíbraltar, og Lyfjaverslun Íslands hf, Borgartúni 7, Reykjavík.
Á hluthafafundi stefnda, Lyfjaverslunar Íslands hf., 24. janúar 2001 var gengið frá sameiningu þess fyrirtækis og fyrirtækisins A. Karlsson hf. Við þetta eignuðust stefnendur hlut í Lyfjaverslun Íslands hf.
Í framlagðri yfirlýsingu, dags. 24. janúar 2001, segir: “. . .Þá lýsir Aðalsteinn Karlsson því yfir að hann muni ekki gera athugasemdir sem verðandi hluthafi í Lyfjaverslun Íslands hf. við það að samið verði við Fumafl ehf. vegna svokallaðs “Sóltúnsmáls” í samræmi við óformlegt samkomulag milli stjórna Lyfjaverslunar og Frumafls sbr. ódagsett minnisblað.
Þá skuldbindur Aðalsteinn Karlsson sig til þess að andmæla ekki nýtingu frekari kaupréttar á viðbótarhlutafé í Frumafli hf. ef meirihluti stjórnar Lyfjaverslunar Íslands hf. samþykkir að nýta kaupréttinn.”
Undir yfirlýsinguna rita f.h. Lyfjaverslunar Íslands hf. stjórnarmenn þess fyrirtækis, Aðalsteinn Karlsson “f.h. seljenda” og Jóhann Óli Guðmundsson “samþykkur sem stærsti hluthafi Lyfjaverslunar Íslands hf.”
Minnisblað það, sem hér var vísað til, liggur einnig frammi, undirritað með upphafsstöfum, sem munu vera þáverandi stjórnarmanna í Lyfjaverslun Íslands hf. Þar segir m.a.: “LÍ kaupir 44,44% af hlutafé Frumafls og greiðir með 80 milljónum í hlutafé LÍ. LÍ fær kauprétt á 27,78% af hlutafé Frumafls til 6 mánaða, frá undirritun samnings, og kauprétt á öðrum 27,78% til 12 mánaða. Viðmiðunargengi verður 4,78 eins og áður hafði verið ákveðið. Nýta má allan kauprétt innan 6 mánaða.”
Aðalfundur Lyfjaverslunar Íslands hf. var haldinn 2. apríl 2001. Á vormánuðum sama ár kom upp ágreiningur milli stjórnar félagsins og nokkurra hluthafa, m.a. Lárusar L. Blöndals og Aðalsteins Karlssonar, stefnenda máls þessa, vegna ráðagerða stjórnarinnar um að kaupa af stefnda, Jóhanni Óla Guðmundssyni, allt hlutafé í Frumafli ehf. og greiða fyrir það með hlutabréfum í Lyfjaverslun Íslands hf.
Í fundargerð stjórnar Lyfjaverslunar Íslands hf. 31. maí 2001 greinir frá bréfi þriggja hluthafa (stefnenda máls þessa) til stjórnarinnar þar sem þess var óskað að boðaður yrði hluthafafundur í félaginu þar sem fjallað yrði um eftirfarandi dagskrárliði: 1. Tillaga um vantraust á stjórn félagsins. 2. Stjórnarkjör. 3. Fyrirhuguð kaup Lyfjaverslunar Íslands hf. á hlutum í Frumafli hf. 4. Önnur mál. Undir dagskrárliðnum “Samningaviðræður við eigendur Frumafls” var í ljósi ofangreindrar beiðni ákveðið að fresta afgreiðslu málsins.
Á stjórnarfundi í Lyfjaverslun Íslands hf. 11. júní 2001 var bókað að stjórn félagsins líti svo á að félagið hafi með yfirlýsingu, dagsettri 24. janúar 2001, og minnisblaði stjórnar sem fylgdi þeirri yfirlýsingu skuldbundið sig til að kaupa hlutafé í Frumafli hf. í samræmi við þá skilmála sem þar komi fram og jafnframt að stjórnin ákveði að nýta kauprétt á öllu hlutafé í Frumafli hf. eins og fram komi í ofangreindu minnisblaði. Stjórnin veitti formanni og forstjóra félagsins fullt umboð til þess að ganga frá nauðsynlegum gögnum til að efna samninginn að fullu og tilkynna til Verðbréfaþings Íslands.
Frammi liggur útprentun Verðbréfaþings Íslands um tilkynningu 12. júní 2001 þess efnis að stjórn Lyfjaverslunar Íslands hf. hafi staðfest kaupsamninga vegna kaupa á Thorarensen lyf ehf. og Frumafli hf. Hluthafafundur hafi verið boðaður 10. júlí s.á. þar sem nánari grein verði gerð fyrir þessum samningum.
Stefnendur máls þessa kröfðust þess 11. júní 2001 við sýslumanninn í Reykjavík að lagt yrði lögbann við því að Lyfjaverslun Íslands hf. gerði kaupsamning við Jóhann Óla Guðmundsson fyrir hönd eigenda hlutafjár í Frumafli ehf. um kaup á hlutafénu og við því að Lyfjaverslun Íslands hf. ráðstafaði til Jóhanns Óla Guðmundssonar eða annarra seljenda hlutafé í Lyfjaverslun Íslands hf. sem endurgjald samkvæmt slíkum samningi. Þess var krafist að lögbannið gilti þar til hluthafafundur í Lyfjaverslun Íslands hf. hefði tekið lögmæta ákvörðun um gerð slíks samnings. Kröfunni var synjað 20. júní s.á.
Með bréfi stjórnarformanns Lyfjaverslunar Íslands hf., dags. 12. júní 2001, var farið fram á það við Guðmund Sveinsson, löggiltan endurskoðanda, að hann gæfi út sérfræðiskýrslu, með vísun til ákvæða laga nr. 2/1995 um hlutafélög, samkvæmt 37. gr. sbr. III. kafla laganna, vegna kaupa Lyfjaverslunar Íslands hf. á Frumafli hf.
Skýrsla Guðmundar Sveinssonar, dags. 18. júní 2001, var lögð fram á stjórnarfundi Lyfjaverslunar Íslands hf. 20. júní 2001. Einnig var lagt fram bréf Guðmundar Snorrasonar, löggilts endurskoðanda, dags. 18. júní 2001, til stjórnar Lyfjaverslunar Íslands hf. Efni þess er mat á framangreindri sérfræðiskýrslu Guðmundar Sveinssonar samkvæmt beiðni stjórnarformanns. Þá lá fyrir fundinum samningur við Jóhann Óla Guðmundsson um hlutafé í Frumafli hf. “í samræmi við samþykkt stjórnar frá 11. júní 2001 sbr. yfirlýsingu dags. 24. janúar 2001.” Stjórnin samþykkti samninginn og samþykkti að gefa út hlutafé að nafnvirði 170.000.000 króna. Hlutaféð taldist greitt með afhendingu alls hlutafjár í Frumafli hf. sem endurgjald fyrir hlutina í Lyfjaverslun Íslands hf. og voru hlutirnir seldir miðað við gengið 4,78. Í framhaldinu var út gefið hlutafé að nafnvirði 170.000.000 króna í stefnda, Lyfjaverslun Íslands hf., til stefnda, Jóhanns Óla Guðmundssonar.
Stefnendur lögðu að nýju fram lögbannsbeiðni hjá sýslumanni 21. júní 2001 sem hann hafnaði daginn eftir. Málinu var vísað til Héraðsdóms Reykjavíkur og var kveðinn upp úrskurður 3. júlí 2001 þess efnis að hafnað væri kröfu sóknaraðila (stefnenda) um að felld yrði úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík um að synja um lögbann. Úrskurðurinn var kærður til Hæstaréttar sem kvað upp dóm 10. júlí 2001 (mál nr. 256/2001). Hinn kærði úrskurður var felldur úr gildi. Lagt var fyrir sýslumanninn í Reykjavík að leggja lögbann við því að varnaraðili, Jóhann Óli Guðmundsson, hagnýti sér þann rétt sem fylgir hlutafjáreign hans í Lyfjaverslun Íslands hf. sem honum var afhent til ráðstöfunar með rafrænum hætti 20. júní 2001, samtals að nafnverði 170.000.000 króna, eða ráðstafi umræddri hlutafjáreign sinni til þriðja aðila. Í samræmi við þetta var þ. 10. júlí 2001 hjá sýslumanninum í Reykjavík lagt lögbann við framangreindu. Fram var tekið að varnaraðila (stefnda, Jóhanni Óla Guðmundssyni,) væri ekki gert skylt að afhenda sýslumanni hlutina til varðveislu meðan lögbannið stæði.
Á hluthafafundi í Lyfjaverslun Íslands hf. 10. júlí 2001 var svohljóðandi tillaga samþykkt: “Hluthafafundur Lyfjaverslunar Íslands hf. samþykkir að leita eftir ógildingu eða riftun á samningi um kaup á öllu hlutafé í Frumafli hf. af Jóhanni Óla Guðmundssyni sem undirritaður var af meirihluta stjórnar f.h. félagsins þann 20. júní 2001. Er stjórn félagsins falið að leita allra leiða sem tiltækar eru til að ná fram ógildingu eða riftun á þessum samningi.” Á fundinum fór einnig fram kjör stjórnar.
Í fundargerð stjórnarfundar í Lyfjaverslun Íslands hf. 11. júlí 2001 segir að stjórnin líti á samning við Frumafl, sem fyrri stjórn hafi gert 20. júní 2001, sem ógildan. Forstjóra félagsins var falið að óska eftir að hækkun hlutafjár um 170.000.000 króna yrði afturkölluð og afmáð úr hlutafélagaskrá og jafnframt að hlutur þeirrar fjárhæðar, skráður á Jóhann Óla Guðmundsson, yrði afmáður úr hlutaskrá félagsins eða færður yfir á nafn þess sjálfs.
II
Samkvæmt stefnu er sú krafa gerð á hendur stefnda, Jóhanni Óla, einum að staðfest verði lögbann sem sýslumaðurinn í Reykjavík lagði á 10. júlí 2001 við því að hann hagnýti sér þann rétt, sem fylgi hlutafjáreign hans í stefnda, Lyfjaverslun Íslands hf., sem honum var afhent til ráðstöfunar með rafrænum hætti 20. júlí 2001, samtals að nafnvirði 170.000.000 króna, eða ráðstafi umræddri hlutafjáreign sinni til þriðja aðila. Á hendur báðum stefndu er þess krafist að viðurkennt verði með dómi að samningur milli þeirra, sem gengið var frá 20. júní 2001, um að stefndi, Jóhann Óli, selji og stefndi, Lyfjaverslun Íslands hf., kaupi allt hlutafé Frumafls hf., kt. 670700-2320, Hlíðarsmára 8, Kópavogi, sé ógildur. Þá var þess krafist að stefnda, Jóhanni Óla, yrði dæmt skylt að afhenda stefnda, Lyfjaverslun Íslands hf., hlutafé það í félaginu, sem honum var afhent til ráðstöfunar með rafrænum hætti 20. júní 2001, samtals að nafnvirði 170.000.000 króna. Frá þessari síðastgreindu kröfu hefur verið fallið.
Samkvæmt greinargerð stefnda, Jóhanns Óla Guðmundssonar, er aðallega krafist sýknu af öllum kröfum stefnenda en til vara að hafnað verði kröfu stefnenda um ógildingu kaupsamnings Lyfjaverslunar Íslands hf. og hans að því er varðar sölu á 44,44 af hundraði hluta í Frumafli hf. og að synjað verði staðfestingar á lögbanni, dags. 10. júlí 2001, að því er varðar sölu á 44,44 af hundraði hluta í Frumafli hf.
Í greinargerð stefnda, Lyfjaverslunar Íslands hf., er því lýst yfir að fallist sé á allar dómkröfur stefnenda.
Meðalgöngusök, sem Lyfjaverslun Íslands hf. höfðaði 22. ágúst 2001, var vísað frá dómi með úrskurði 15. febrúar 2002 sem sem sætti kæru og var staðfestur með dómi Hæstaréttar 18. mars 2002.
Gagnsök, sem Jóhann Óli Guðmundsson höfðaði 4. október 2001, var vísað frá dómi með úrskurði 3. maí s.l. sem var kærður og er sá þáttur málsins nú til meðferðar í Hæstarétti.
III
Af hálfu stefnda, Jóhanns Óla Guðmundssonar, er krafist úrskurðar um að dómurinn afli, með heimild í lögum nr. 21/1994, sbr. lög nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, álits EFTA-dómstólsins á því hvernig túlka og skýra beri ákvæði 2. félagaréttartilskipunar Evrópusambandsins, einkum 27. gr. sbr. 10. gr., um greiðslu hlutafjár með öðru en reiðufé, á grundvelli eftirgreindra spurninga:
“a) Hvernig skýra beri eftirfarandi orðalag í 27. gr. 2. tl. annarrar félagaréttartilskipunar 77/91/EBE “. . . Áður en hlutafjárhækkun á sér stað ” og í því sambandi;
b) Ber að túlka ákvæði 27. gr. 2. tl. annarrar félagaréttartilskipunarinnar 77/91/EBE, um að skýrsla sérfróðra óháðra matsmanna skuli liggja fyrir “áður en hlutafjárhækkun á sér stað”, svo, að skýrsla hinna óháðu sérfræðinga skuli liggja fyrir áður en stjórn hlutafélags, sem hefur heimild hluthafafundar til að hækka hlutafé og selja aukningarhluti gegn greiðslu í öðru en reiðufé, sé heimilt að taka ákvörðun um að hækka hlutafé í félaginu og að gera skuli samning um sölu þess gegn endurgjaldi, í öðru en reiðufé og með þeim fyrirvara að fela stjórnarformanni og forstjóra að afla nauðsynlegra gagna til undirbúnings og gerðar slíks sölusamnings, eða,
c) hvort að túlka beri framangreint skilyrði í 2. tl. 27. gr. annarrar félagaréttartilskipunar 77/91/EBE svo að skýrsla óháðra sérfræðinga skuli liggja fyrir áður en áskrift að hinum nýju hlutum á sér stað af hálfu þess sem greiða skal með öðrum verðmætum en reiðufé.”
Af hálfu stefnenda og stefnda, Lyfjaverslunar Íslands hf., er þess krafist aðallega að kröfu um öflun álits EFTA-dómstólsins verði hafnað og til vara er mótmælt efni þeirra spurninga sem að framan greinir.
Ágreiningsefni þetta var tekið til úrskurðar í þinghaldi 16. f.m. eftir að lögmenn aðila höfðu tjáð sig um það.
Stefnendur styðja mál sitt einkum með vísun í þau sjónarmið sem fram komi í dómi Hæstaréttar frá 10. júlí 2001 (mál nr. 256/2001). Þar hafi verið dæmt að skilyrðum 37. gr., sbr. 5.-8. gr., laga um hlutafélög nr. 2/1995 hafi ekki verið fullnægt þegar stjórn Lyfjaverslunar Íslands hf. hafi ákveðið að kaupa hlutafé af Jóhanni Óla Guðmundssyni í Frumafli hf. Talið hafi verið að þegar af þeirri ástæðu að skýrslu endurskoðanda á verðmæti hluta í Frumafli hf. hafi ekki verið aflað fyrr en eftir að ákvörðun hafi verið tekin um kaupin hafi ákvörðun þáverandi stjórnar ekki uppfyllt áskilnað umræddra lagaákvæða. Enn fremur hafi verið dæmt að eftir að beiðni hafi komið fram um að haldinn yrði hluthafafundur til að fjalla um fyrirhuguð kaup á hlutum í Frumafli hf. 31. maí 2001 hafi stjórn félagsins verið óheimilt að ákveða sjálf og ganga frá kaupum á öllu hlutafé í Frumafli hf. áður en slíkur fundur yrði haldinn.
Af framangreindu leiði að enginn gildur samningur sé milli Lyfjaverslunar Íslands hf. og stefnda, Jóhanns Óla Guðmundssonar, og þegar af þeirri ástæðu hljóti dómkröfur stefnenda að verða ateknar til greina.
Af hálfu stefnda er staðhæft að í ákvörðun stjórnar Lyfjaverslunar Íslands hf. þann 11. júní 2001 hafi ekki falist hækkun hlutafjár, hvorki í skilningi laga nr. 2/1995 né 2. félagaréttartilskipunar 77/91EBE, heldur einvörðungu ákvörðun um að hlutast til um að hækka hlutafé félagsins á grundvelli heimildar stjórnar til slíks frá 24. janúar 2001. Hin eiginlega hlutafjárhækkun hafi átt sér stað hinn 20. júní 2001 er stefndi hafi skrifað sig fyrir hlutakaupum með undirritun samningsins og greiðslan fór fram. Þá hafi sérfræðiskýrslan legið fyrir eins og 38. gr laga nr. 2/1995 kveði á um og ákvæðum 37. gr. s.l. því verið fullnægt, sbr. og tilvitnað ákvæði félagaréttartilskipunarinnar, er hlutafjárhækkunin hafi átt sér stað.
Með undirritun sinni á hluthafasamkomulag 24. janúar 2001 hafi Aðalsteinn Karlsson skuldbundið sig persónulega, sem og Lárus L. Blöndal sem verðandi hluthafa í Lyfjaverslun Íslands hf., til að gera hvorki athugasemdir við að stjórn félagsins semdi við stefnda um kaup á 44,44% hluta í Frumafli ehf. á þeim kjörum sem tilboð til stefnda á svokölluðu minnisblaði kvað á um, né gera athugasemdir við það að stjórnin nýtti sér umsaminn kauprétt að öðrum fölum hlutum Frumafls ehf. á umsömdum kjörum. Beiðni Aðalsteins og Lárusar til stjórnar Lyfjaverslunar Íslands hf., dags. 31. maí 2001, um hluthafafund gagngert í því skyni að andæfa því að gerður yrði skriflegur samningur við stefnda hafi verið vanefnd á framangreindu hluthafasamkomulagi. Guðmundur A. Birgisson hafi átt 0,1% hlutafjár í félaginu og því ekki getað knúið fram fund og sama hafi gilt um Lárus sem hafi átt innan við eitt prósent hlutafjár.
Í rökstuðningi um úrlausnarefni úrskurðar þessa er af hálfu stefnda, Jóhanns Óla Guðmundssonar, vísað til þess að með lögum nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið hafi EES-samningurinn lagagildi á Íslandi, sbr. 1. mgr. 2. gr. Í 7. gr. hans sé kveðið á um að gerðir og viðaukar skuli teknir upp í landsrétt þannig þó að samningsaðilar hafi val um form tilskipana. Ákvæði annarrar félagaréttartilskipunar hafi verið lögtekin með breytingum á lögum nr. 2/1995 um hlutafélög.
Í framangreindum dómi Hæstaréttar er vitnað til þess að sóknaraðilar (stefnendur máls þessa) kveði 37. gr., sbr. 5.-8. gr., laga um hlutafélög nr. 2/1995 hafa verið sett til að fullnægja skuldbindingum samkvæmt 2. félagaréttartilskipun nr. 77/91/EBE frá 13. desember 1976 sem vitnað sé til í XXII. viðauka EES-samningsins. Verði íslensk lög skýrð til samræmis við skuldbindingar, sem Ísland hafi gengist undir í þeim samningi, eftir því sem framast sé unnt.
Í 37. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög segir að ákvæði 5. gr. og 6.-8. gr. skuli gilda eftir því sem við á um það er hina nýju hluti (sbr. 36. gr. um hækkun hlutafjár með áskrift nýrra hluta) má greiða með skuldajöfnuði eða á annan hátt en með reiðufé. Í 38. gr. laganna er fjallað um áskrift nýrra hluta. Um hækkun hlutafjár og áskriftarréttindi er einnig kveðið á um í 33. gr. og 34. gr. hlutafélagalaga sem einnig er vísað til af hálfu stefnda.
Efni 27. gr. annarrar félagaréttartilskipunar Evrópubandalagsins, nr. 77/91/EBE, er svofellt:
“1. tl.
Ef hlutabréf eru gefin út gegn endurgjaldi í öðru formi en reiðufé við hækkun á skráðu hlutafé skal endurgjaldið innt af hendi að fullu innan fimm ára frá ákvörðun um hækkun skráðs hlutafjár.
2.tl.
Fengnir skulu einn eða fleiri sérfræðingar sem eru óháðir félaginu og skipaðir og samþykktir af hálfu stjórnvalda eða dómstóla til að gera skýrslu um endurgjaldið sem um getur í 1. mgr. áður en hlutafjárhækkun á sér stað. Slíkir sérfræðingar geta verið einstaklingar jafnt sem lögpersónur og félög eða fyrirtæki samkvæmt lögum hvers aðildarríkjanna.”
Af hálfu stefnda er því haldið fram að ágreiningur sé um hvernig túlka og skýra skuli framangreint ákvæði, þ.e. einkum þann hluta þess sem segir “áður en hlutafjárhækkun á sér stað.” Með því að vafi leiki á um túlkun og skýringu á annarri félagaréttartilskipun 77/91/EBE og niðurstaða þess álitaefnis hafi verulega þýðingu í málinu sé þess krafist að dómurinn afli ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins á þeim álitaefnum sem hér um ræðir.
Við efnisúrlausn málsins mun væntanlega m.a. reyna á skýringu framangreindra ákvæða laga nr. 2/1995 um hlutafélög og á það einnig við um “hvenær hlutafjárhækkun á sér stað.” Í 3. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið er kveðið á um það að skýra skuli lög og reglur, að svo miklu leyti sem við á, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggja. Ekki er í ljós leitt misræmi að því leyti sem hér skiptir máli. Samkvæmt því eru ekki efni til að verða við kröfu stefnda um öflun álits EFTA-dómstólsins þar sem það þykir ekki nauðsynlegt til að unnt verði að kveða upp dóm, sbr. 1. gr. laga nr. 21/1994 og 34. gr. samnings EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls.
Úrskurðinn kveður upp Sigurður H. Stefánsson héraðsdómari.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Ekki verður aflað álits EFTA-dómstólsins um það efni sem krafa stefnda, Jóhanns Óla Guðmundssonar, lýtur að.