Hæstiréttur íslands

Mál nr. 332/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


Fimmtudaginn 18

 

Fimmtudaginn 18. júní 2009.

Nr. 332/2009.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Stefán Eiríksson lögreglustjóri)

gegn

X

(Jón Höskuldsson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, nú  á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari. 

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. júní 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. júní 2009, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 13. júlí 2009 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. 

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Fallist er á að varnaraðili sé undir sterkum grun um að hafa ásamt tveimur meðkærðu framið almannahættubrot sem fallið geti undir 2. mgr. 164. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og varðað allt að 16 ára fangelsi. Með þessari athugasemd og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. júní 2009.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, allt til mánudagsins 13. júlí nk. kl. 16:00.

Í greinargerð lögreglu kemur fram að að morgni 6. júní sl. 8:29 hafi Fjarskiptamiðstöð lögreglu borist tilkynning um ofsaakstur bifreiðarinnar [...] sem ekið hafi verið að sögn sjónarvotts greitt vestur Sæbraut við Holtagarða og tvívegis gegnt rauðu ljósi. Skömmu síðar, eða kl. 8:33 barst önnur tilkynning en um hafi verið að ræða neyðarkall karlmanns sem kvað nokkra karlmenn hafa ruðst inn á sig að [...].

Enn frekari upplýsingar bárust og voru þær á þann veg að þrír aðilar væru í átökum fyrir utan [...] og að kveikt hefði verið í húsinu. Lögreglan fór þegar á vettvang.

Í frumskýrslu lögreglu sem kom á vettvang klukkan 08:35 kemur fram að þeir hafi komið að húsinu [...] í Reykjavík, sem sé einbýlishús, að greinilegt hafi verið að garðhlið að lóð þess hafi verið brotinn, eldur hafi verið í húsinu sem reyk lagði frá og að skömmu eftir að lögregla kom á vettvang hafi eldur breiðst út.  Bifreiðin [...] hafi verið kyrrstæð fyrir framan húsið og var hún í gangi. Í framsæti farþegamegin hafi setið kona, A, tveir karlmenn hafi staðið við bifreiðina, kærði B og C. Á lóð hússins hafi verið X og D húsráðandi og hann verið á nærbuxum einum fata. Mennirnir rifust og höfðu lögreglumenn afskipti af þeim. Kærði og meðkærðu og A voru öll flutt á lögreglustöðina til yfirheyrslu.

Lögregla hafi rætt við nokkur vitni á vettvangi en tekið í framhaldi formlegar skýrslur af þeim. Vitni töldu vafalaust að mennirnir sem lögregla handtók á staðnum og komu að húsinu skömmu áður á bifreiðinni [...] hefðu einn eða allir lagt eld að húsinu. Vitni hafi verið að því er mennirnir komu akandi að húsinu og að þeir hefðu gengið að húsinu með fyrirgangi og látum m.a. mölvað garðhliðið inn á lóðina.  Húsið hefðu þeir barið að utan.  Einn þeirra, dökkhærður piltur, hefði tekið brúsa sem lá við hlið vélgarðsláttuvélar sem var við húsið og skvett úr honum á útidyr þess.  Síðan hafi verið lagður eldur að, en líklega hafi verið bensín í brúsanum eða rokgjarnt efni.

Kærðu beri öllum saman um að farið hafi verið að [...] að frumkvæði kærða X sem hafi átt eitthvað vantalað við D sem þar býr og að X hafi ekið bifreiðinni. Þá beri þeim saman um að þeir hafi allir gengið að húsinu, en þeir hafi ekki komist í samband við húsráðanda.  Um atburðarásina þegar tekinn var bensínbrúsi sem var á lóðinni skvett úr honum á útidyrnar og kveikt í beri þeim ekki saman

Kærði B hafi borið að meðkærðu C og X hafi verið við dyrnar þegar eldurinn varð en hann viti ekki hvernig eldsupptökin urðu.

Meðkærði C hafi borið að B hafi tekið bensínbrúsa og hellt bensíni á hurðina. X, sem hafi staðið við hliðina á B, hafi sagt við C að sækja kveikjara en hann hafi neitað því og farið aftur að bifreiðinni. Kvaðst hann ekki hafa séð hver kveikti í.

Kærði, X, hafi borið að B hafi komið með bensínbrúsa sem var í garðinum og hellt á húsdyrnar. C hafi svo kveikt í. Kvaðst hann ekkert hafa gert til þess að stoppa þá.

Kærði C hafi borið að þeir X og B hafi komið  að bifreiðinni eftir að búið var að hella bensíni á hurðina. Þeir hafi því næst allir farið í bifreiðina og X ekið burt en stöðvað þegar íbúi hússins D kom út úr húsinu, en þá verið kominn eldur í neðri hluta hurðarinnar. X og B hafi þá farið að manninum og byrjað að rífast við hann.

 X hafi einnig borið að þeir hafi farið í upp í bifreiðina og ekið af stað eftir að búið var að kveikja í en þeir hafi svo hætt við að fara og farið aftur að húsinu.

Af ofangreindu sé ljóst að mikið ósamræmi sé í framburði kærðu hjá lögreglu varðandi eldsupptökin, þ.e. hver hellti bensíni á hurð hússins og hver kveikti í. Bendi þeir hver á annan eða segist ekki vita hver kveikti í. Það liggi hins vegar fyrir að þeir komu saman að [...] með miklum látum og létu ófriðlega og börðu það að utan. Vitnum beri saman um að þeir hafi allir verið við húsið og að einn hafi sótt bensínbrúsa og í framhaldi hafi greinilega verið kveikt í þar sem þeir voru allir við húsið þó svo að vitað væri af húsráðanda inni en það liggi fyrir að kærðu hringdu í húsráðanda úr síma B áður en þeir komu. Kærðu fóru svo upp í bifreiðina eftir að hafa borið eld að húsinu og ætluðu fyrst að aka af vettvangi. Líti lögreglan svo á að um samverknað allra kærðu hafi verið að ræða.

Að mati lögreglu sé fram komin sterkur grunur um að kærði hafi í félagi við meðkærðu hafi framið verknað sem varði ævilöngu fangelsi eða allt að 16 ára tímabundinni fangelsisrefsingu. Samkvæmt 2. mgr. 164. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sé refsilágmark 2 ára fangelsi. Um sé að ræða mjög alvarlegt brot, unnið í félagi við meðkærðu, en brotið sé þess eðlis að mönnum megi vera ljóst að  það hafi í för með sér almannahættu. Þá megi mönnum vera ljóst að bersýnilegur lífsháski sé búinn af verkinu og/eða gríðarleg eignarspjöll geti af því hlotist. Samkvæmt bráða­birgða­niðurstöðu dómkvadds matmanns, Guðmundar Gunnarssonar, á almannahættu vegna íkveikjunnar megi telja öruggt að hún hafi leitt til almannahættu fyrir íbúa hússins en eldurinn var kveiktur í anddyri hússins, einu flóttaleiðinni frá húsinu.

Telji lögreglustjóri brotið vera í eðli sínu svo svívirðilegt að áframhaldandi gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. 

Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og 2. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Með vísan til þess sem að framan var rakið er fallist á það með lögreglustjóra að kærði sé undir sterkum grun um að hafa framið afbrot sem að lögum getur varðað allt að 10 ára fangelsi. Ennfremur er fallist á það að brotið sem kærði er grunaður um að hafa framið sé þess eðlis að varðhald teljist nauðsynlegt með tilliti til almanna­hagsmuna. Samkvæmt þessu eru uppfyllt skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 og veður því fallist á kröfu lögreglustjóra eins og nánar greinir í úrskurðarorði

Ásgeir Magnússon héraðsdómari kvað upp úrskurðinn. 

ÚRSKURÐARORÐ:

Kærði, X, kt. [...], skal sæta áfram gæslu­varðhaldi allt til mánudagsins 13. júlí 2009 kl. 16:00.