Hæstiréttur íslands
Mál nr. 187/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Kærufrestur
- Frávísun frá Hæstarétti
|
|
Föstudaginn 7.apríl 2006. |
|
Nr. 187/2006. |
Sýslumaðurinn á Selfossi(enginn) gegn Y og (Guðjón Ægir Sigurjónsson hdl.) Z(Sigurður Sigurjónsson hrl.) |
Kærumál. Kærufrestur. Frávísun máls frá Hæstarétti.
Kærur á úrskurði héraðsdómara um að dómkveðja skyldi matsmann á grundvelli 1. mgr. 63. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála voru of seint fram komnar og var málinu því vísað sjálfkrafa frá Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Varnaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kærum 27. mars 2006, sem bárust réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. apríl sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 23. mars 2006, þar sem fallist var á kröfu sóknaraðila á grundvelli 1. mgr. 63. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála um dómkvaðningu matsmanns til að framkvæma mats- og skoðunargerð um nánar tilgreind atriði í tengslum við eldsvoða að A 29. janúar 2004. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991. Varnaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og synjað verði um framangreinda dómkvaðningu. Þá krefjast þeir kærumálskostnaðar úr ríkissjóði.
Sóknaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Eins og að framan greinir var hinn kærði úrskurður kveðinn upp 23. mars 2006. Fram kemur í þingbók að lögmenn varnaraðila hafi mætt við uppkvaðninguna. Jafnframt var bókað að varnaraðilar tækju sér lögmæltan kærufrest. Kærur þeirra eru dagsettar og áritaðar um móttöku í héraðsdómi 27. mars 2006. Var þá liðinn sá þriggja sólarhringa kærufrestur, sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 144. gr. laga nr. 19/1991 og verður málinu því vísað sjálfkrafa frá Hæstarétti.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 23. mars 2006.
Með beiðni dags. 29. nóvember 2005 fór Sýslumaðurinn á Selfossi þess á leit við Héraðsdóm Suðurlands að dómkvaddur yrði matsmaður skv. 1. mgr. 63. gr. laga nr. 19/1991, til að framkvæma mats- og skoðunargerð til að meta hvort íkveikja að A, þann 29. janúar 2004, hefði getað valdið eldsvoða, sem haft hefði í för með sér almannahættu, bersýnilegan lífsháska annarra manna eða augljósa hættu á yfirgripsmikilli eyðingu á eigum annarra manna. Var lagt til að Guðmundur Gunnarsson, yfirverkfræðingur hjá Brunamálastofnun, yrði dómkvaddur til verksins. Voru lögð fram rannsóknargögn þar sem fram kom að rannsókn á eldsvoðanum beindist gegn þeim X, [kt.], Y, [kt.] og Z, [kt.]. Við þingfestingu málsins 27. janúar s.l. mótmæltu verjendur kærðu matsbeiðninni og töldu ekki ástæðu til að dómkveðja matsmann eins og hér standi á. Var málinu því frestað til munnlegs málflutnings um kröfuna til fimmtudagsins 2. febrúar og var málið þá tekið til dóms að loknum málflutningi.
Málavextir eru þeir að í byrjun janúar 2004 bárust lögreglu upplýsingar um að til stæði að kveikja í húsnæði [...] að A. Bárust böndin að kærðu X og Y og voru þeir grunaðir um að ætla að svíkja út tryggingafé til þess að geta staðið við fjárhagsskuldbindingar kærða Y. Að kvöldi fimmtudagsins 29. janúar 2004 hóf lögregla eftirlit með húseigninni og sáu þeir kærða X fara inn í húsið og koma síðan út um fimm mínútum síðar. Var kærði handtekinn þar sem hann sat í bifreið ásamt kærða, Z og var hann einnig handtekinn. Við athugun lögreglu á vettvangi kom í ljós að pappakassar við kæliborð hefðu verið vættir með olíu og þá voru tvö, nánast útbrunnin logandi kerti ofan á gulri dulu. Að mati lögreglumannanna myndi ekki líða á löngu uns kertin brynnu upp og eldur bærist í duluna, plastílát og kassastæðu sem þarna var.
Í lögregluskýrslu er aðstæðum á vettvangi svo lýst að vestan við A sé félagsheimilið [...] í u.þ.b. átta metra fjarlægð, austan við A sé stórt fiskvinnsluhús í þriggja til fjögurra metra fjarlægð, en þar séu tvö fiskvinnsluhús með starfsemi og einnig sé þar menningarstarfsemi, [...]. Þá sé íbúð í suðurhluta [næsta húss].
Af hálfu sýslumanns er vísað til 1. mgr. 63. gr. laga nr. 19/1991 og bent á að verið sé að rannsaka ætlað brot gegn 164. gr. almennra hegningarlaga. Sé ljóst að ákæruvaldið sé hjá sýslumanni teljist ætlað brot kærðu varða við 1. mgr. 164. gr. laganna, en hjá ríkissaksóknara verði talið að 2. mgr. 164. gr. laganna eigi við. Þá sé alvanalegt í málum sem þessum að afla slíkrar álitsgerðar.
Verjendur kærðu telja dómkvaðningu matsmanns óþarfa og byggja á því að hægt sé að afla gagna án þess. Hafi húsið nú verið rifið og verði aldrei hægt að sanna hugsanlegt tjón. Þá telja þeir um að ræða óþarfa kostnað fyrir skjólstæðinga sína og sé það hlutverk dómsins, komi til ákæru, að meta þau atriði sem matsbeiðnin taki til, eftir atvikum með sérfróðum meðdómsmönnum.
Niðurstaða.
Samkvæmt 67. gr. laga nr. 19/1991 er markmið rannsóknar lögreglu að afla allra nauðsynlegra gagna til þess að ákæranda sé fært að ákveða að henni lokinni hvort sækja skuli mann til sakar, svo og að afla gagna til undirbúnings málsmeðferðar. Skal rannsókn miða að því að hið sanna og rétta komi í ljós og að gætt sé jafnt að þeim atriðum sem horfa til sýknu og sektar, sbr. 31. gr. laganna. Nauðsynlegt er að rannsókn lögreglu sé nægilega vönduð áður en tekin er ákvörðun um útgáfu ákæru og fer eftir eðli máls hverra gagna er aflað í því skyni. Í 74. gr. laganna segir að ef þörf þyki á aðgerðum sem að lögum þarf til atbeina dómara meðan á rannsókn stendur geti sá sem stýrir rannsókn (lögreglustjóri, forstöðumaður rannsóknardeildar), svo og ríkissaksóknari snúið sér til dómara með beiðni um slíkar aðgerðir. Samkvæmt 1. mgr. 63. gr. laganna er heimilt að afla mats dómkvaddra manna í opinberu máli. Kærðu eru grunaðir um brot eða tilraun til brots gegn 164. gr. almennra hegningarlaga. Samkvæmt 1. mgr. þeirrar lagagreinar varðar það fangelsi ekki skemur en 6 mánuði valdi maður eldsvoða sem hefur í för með sér almannahættu. Refsing skal þó ekki vera lægri en 2 ára fangelsi, hafi sá, er verkið vann, séð fram á, að mönnum mundi vera af því bersýnilegur lífháski búinn eða eldsvoðinn mundi hafa í för með sér augljósa hættu á yfirgripsmikilli eyðingu á eignum annarra manna. Samkvæmt c-lið 3. mgr. 27. gr. laga fer ríkissaksóknari með ákæruvald ef um er að ræða brot gegn XVIII. kafla almennra hegningarlaga, þar á meðal brot gegn 1. og 2. mgr. 164. gr. laganna. Verði talið um brot gegn 2. mgr. 164. gr. laganna að ræða er lágmarksrefsing 2 ára fangelsi. Áður en ákvörðun er tekin um það hvort ákært skuli eftir 1. eða 2. mgr. 164. gr. laganna er nauðsynlegt að fyrir liggi mat á því hvernig aðstæður voru á vettvangi. Verður sýslumanni því ekki meinað að leita eftir mati kunnáttumanns á þessu sviði. Verður framkomnum mótmælum gegn dómkvaðningu matsmanns því hafnað og skal hún fara fram.
Hjörtur O. Aðalsteinsson, dómstjóri, kveður upp úrskurð þennan. Uppkvaðning úrskurðar hefur dregist vegna mikilla embættisanna dómarans.
ÚRSKURÐARORÐ:
Umbeðin dómkvaðning matsmanns skal fara fram.