Hæstiréttur íslands

Mál nr. 183/2003


Lykilorð

  • Skuldamál
  • Verklaun
  • Umboð


Fimmtudaginn 20

 

Fimmtudaginn 20. nóvember 2003.

Nr. 183/2003.

Global hf.

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

gegn

Smáhúsum ehf.

(Bjarni Þór Óskarsson hrl.)

 

Skuldamál. Verklaun. Umboð.

S krafði G um greiðslu skuldar samkvæmt reikningi vegna verka sem S vann við smíði húss G. G tók til varna og vísaði til þess að ekkert samningssamband hefði komist á milli þeirra, heldur hafi verktakinn T ráðið S sem undirverktaka. G yrði ekki gerður ábyrgur fyrir efndum T við undirverktaka. G var talinn bera sönnunarbyrði fyrir því að T hafi verið verktaki alls verksins við að reisa umrætt hús og að fyrirsvarsmaður T, sem jafnframt var byggingarstjóri framkvæmdanna, hafi ráðið S til verksins sem undirverktaka T. Með því að G hafði ekki tekist sú sönnun voru kröfur S teknar til greina.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen og Árni Kolbeinsson og Arnljótur Björnsson fyrrverandi hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. maí 2003. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Í máli þessu krefur stefndi áfrýjanda um greiðslu skuldar samkvæmt reikningi 10. desember 2001 vegna verka, sem hann hafi unnið við smíði fjöleignarhúss áfrýjanda við Jörfagrund 34 til 36 í Reykjavík. Áfrýjandi heldur því fram að hann hafi samið við verktakafyrirtækið T-hús ehf. um að reisa húsið. Stefndi hafi gerst undirverktaki T-húsa ehf. við þá framkvæmd. Ekki hafi verið um að ræða samningssamband milli aðila þessa máls. Áfrýjandi verði sem verkkaupi ekki gerður ábyrgur fyrir efndum verktakans T-húsa ehf. við undirverktaka. Jón Sigurður Ólafsson var fyrirsvarsmaður T-húsa ehf. en jafnframt byggingarstjóri framkvæmdanna að Jörfagrund 34 til 36.

Í héraðsdómi var lagt til grundvallar að hvorki væri í málinu tölulegur ágreiningur né ágreiningur um að þau verk, sem stefndi krefur um greiðslu fyrir, hafi verið við unnin við fjölbýlishús áfrýjanda. Í greinargerð áfrýjanda til Hæstaréttar var skorað á stefnda að leggja fram reikning, sem stefndi hafi gefið út „í mars 2001“, en síðar bakfært og endurútgefið „í formi þess reiknings sem nú er stefnt út af.“ Stefndi varð við þessari áskorun og lagði fyrir Hæstarétt reikning sinn á hendur áfrýjanda 2. maí 2001, sem áritaður er af Jóni Sigurði Ólafssyni. Er fjárhæð þess reiknings og sundurliðun hennar samhljóða þeim reikningi, sem stefndi krefur um greiðslu á í þessu máli. Í texta beggja reikninganna er tekið fram í upphafi að unnið hafi verið við Jörfagrund 34 til 36 frá 19. mars til 17. apríl 2001. Síðan er samhljóða upptalning á einstökum verkþáttum, sem eru ísetning á glerlistum, uppsetning á gifsveggjum, uppsetning á sperrum, klæðning á þaki, frágangur og fleira. Aftan við þá upptalningu er svofelld viðbót í fyrri reikningnum, sem ekki er í þeim síðari: „Unnið við bústað að beiðni Jóns S. Ólafssonar.“

 Áfrýjandi telur að með þessu sé í ljós leitt að einhver hluti þeirrar vinnu, sem stefndi krefur um greiðslu á, sé unninn við annað en umrætt fjölbýlishús og þar sem ekki liggi fyrir hversu stór sá hluti sé beri þegar af þeirri ástæðu að sýkna hann af kröfu stefnda. Í bréfi þáverandi lögmanns stefnda til áfrýjanda 26. júní 2001 var óskað eftir „uppgjöri á hjálögðum reikningi“ stefnda vegna vinnu við Jörfagrund 34 til 36 og var tekið fram að Jón Sigurður Ólafsson hafi áritað reikninginn. Þessu bréfi svaraði  áfrýjandi daginn eftir og hafnaði greiðslu reikningsins. Samkvæmt þessu verður ekki annað séð en að áfrýjandi hafi fengið umræddan reikning frá 2. maí 2001 tæpum 13 mánuðum áður en mál þetta var höfðað. Hann hafði þó ekki uppi í héraði skýr andmæli á þeim grunni, sem hann nú gerir, og gagnaöflun beindist þar af leiðandi ekki að því að leiða í ljós hvort einhver hluti vinnu stefnda varðaði önnur verk. Kemst þessi málsástæða áfrýjanda því ekki að fyrir Hæstarétti, sbr. 2. mgr 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála með síðari breytingum.

Áfrýjandi ber sönnunarbyrði fyrir því að T-hús ehf. hafi verið verktaki alls verksins við að reisa umrætt fjöleignarhús áfrýjanda og að Jón Sigurður Ólafsson hafi ráðið stefnda til verksins sem undirverktaka T-húsa ehf. Hefur honum ekki tekist sú sönnun. Verður því að leggja til grundvallar að Jón Sigurður Ólafsson hafi sem byggingarstjóri ráðið stefnda til verksins í þágu áfrýjanda samkvæmt umboði eftir 3. mgr. 51. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Með þessum athugasemdum, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

                                                              Dómsorð:

           Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

          Áfrýjandi, Global hf., greiði stefnda, Smáhúsum ehf., 250.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. febrúar 2003.

Stefnandi málsins er Smáhús ehf., kt. 600598-3179, Esjugrund 38, Mosfellsbæ, en stefndi er Global efh., kt. 500269-7589, Einholti 6, Reykjavík.

Málið er höfðað með stefnu, dagsettri 10 júlí 2002, sem birt var 25. sama mánaðar.  Það var þingfest hér í dómi 5. september 2002, en dómtekið 10. febrúar sl. að afloknum skýrslutökum og munnlegum málflutningi.

Dómkröfur:

Stefnandi krefst þess, að hið stefnda félag (eftirleiðis stefndi) verði dæmt til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 1.511.330 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 (hér eftir vaxtalög) frá 20. desember 2001 til greiðsludags. Frá dragast 550.000 krónur, sem greiddar voru inn á skuldina 10. apríl 2001.

Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda að mati dómsins, að teknu tilliti til framlagðs tímaskráningaryfirlits lögmanns stefnanda.

Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða sér málskostnað að mati réttarins.

Málavextir, málsástæður og lagarök málsaðila.

Málavextir eru í aðalatriðum þeir, að stefnda var úthlutað lóð undir fjölbýlishús að Jörfagrund nr. 34-36 í Reykjavík (Kjalarnesi). Af því tilefni leitaði stefndi til Húsasmiðjunnar hf. um fjármögnun byggingarkostnaðar, sem leiddi til samnings þeirra í milli, sem undirritaður var 3. október 2000. Í 3. gr. 1. tl. samningsins segir m.a., að Húsasmiðjan skuli greiða reikninga fyrir steypu og gler, sé þess óskað af hálfu lántaka (stefnda), og verði þeir reikningar skuldfærðir á viðskiptareikning stefnda. Síðan segir: Ef um aðra reikninga vegna byggingarvara er að ræða þarf að yfirfara þau mál sérstaklega og þarf H. (Húsasmiðjan) að samþykkja alla aðra reikninga sem óskað er eftir að Húsasmiðjan hf. greiði. H. mun einnig veita lántaka peninga vegna verksins. Heildarlán H. (skuld á viðskiptareikningi og lán í peningum)  geta aldrei orðið meiri en sem nemur 80% af áætluðu nettó söluverði/markaðsverði eignanna á hverjum tíma að teknu tilliti til allra atriða, m.a. affalla húsbréfa.  Samkvæmt 2. tl. 3. gr. samningsins skyldi fasteignasalan Höfði leggja mat á söluverð/markaðsverð eignarinnar á tveggja vikna fresti og úttektarheimildir stefnda skyldu miðast við umsamið hlutfall (80%) af matsverði. Í niðurlagi samningsins segir  að Grímur Valdimarsson kt. 160643-6849 og Jón Sigurður Ólafsson kt. 230854-3359 munu gangast í sjálfskuldarábyrgð yfir efndum á samningi þessum og staðfesta þeir ábyrgð sína með undirritun sinni á samning þennan.  Samningurinn er undirritaður af Grími Valdimarssyni, persónulega og f.h. stefnda, og af Jóni Sigurði, ásamt Smára Hilmarssyni hdl. f.h. Húsasmiðjunnar.

Hinn 5. sama mánaðar undirrituðu sömu aðilar svohljóðandi yfirlýsingu: Yfirlýsing þessi er hluti af samningi um fjármögnun og fl. milli REV hf. kt. 500269-7869 og Húsasmiðjunnar hf. vegna bygginga að Jörfagrund 34-36, Kjalarnesi, dags. 3. okt.. 2000. Aðilar eru samþykkir því, að fjármögnunarreikningur vegna þessa samnings verður á nafni REV hf. kt 500269-7869, en að viðskiptareikningurinn vegna vöruúttekta verði á nafni T-húsa ehf. kt. 560296-2829, reikningur merktur Jörfagrund 34-36. Viðskiptaskuld á reikningi T-húsa ehf. í dags, sem nemur kr. 177.248 verður millifærð inn á þennan sérstaka reikning T-húsa ehf.  Jón Sigurður Ólafsson undirritaði yfirlýsinguna f.h. T-húsa ehf. 

Þess ber að geta,  að nafni REV hf. var breytt í Global hf., stefnda í þessu máli.

Hinn 11. júlí 2001 gera stefndi og Húsasmiðjan svonefndan viðaukasamning við samninginn frá 3. október 2000. Þar eru T-hús ehf. leyst frá verkinu með svofelldum orðum: Ljóst er að T-hús ehf., sem sáu um framkvæmdir vegna verksins munu ekki framkvæma meira og er samstarfi Global ehf. og T-hús ehf. lokið.  Þar segir einnig: Ljóst er að T-hús ehf. koma ekki nálægt framkvæmd samnings þessa hér eftir vegna vanefnda af þeirra hálfu, og ljóst að til að bjarga þeim hagsmunum sem í húfi eru er nauðsynlegt að hraða framkvæmdum við húsið og semja við aðra verktaka um verklok. Í niðurlagi samningsins er sérstaklega tekið fram, hvaða reikninga Húsasmiðjan muni greiða og frá hverjum.  Síðan segir í samningnum: Einnig mun Húsasmiðjan greiða aðra reikninga skv. beiðni Global ehf. sem nauðsynlegir eru vegna framvindu verksins, m.a. reikninga til pípara og rafvirkja.

Stefnandi kom að byggingarframkvæmdum Jörfagrundar 34-36 að beiðni Jóns Sigurðar Ólafssonar, sem ráðinn hafði verið byggingarstjóri að húsinu. Í framlögðum reikningi stefnanda kemur fram, að unnið hafi verið við bygginguna á vegum stefnanda á tímabilinu frá 19. mars til 17. apríl. Reikningsfjárhæðin nemur samtals 1.511.330 kr. sem svarar til stefnufjárhæðarinnar.  Einnig kemur fram í texta reikningsins, að Húsasmiðjan hafi greitt inn á reikninginn 550.000 kr. hinn 10. apríl 2001 og að eftirstöðvar nemi 961.330 kr.  Reikningurinn er dagsettur 10. desember 2001.

Lögmaður stefnanda sendi stefnda greiðslutilmæli með bréfi, dags. 26. júní s.á. Í bréfinu er óskað eftir uppgjöri á hjálögðum reikningi stefnanda. Einnig segir þar, að Smáhús ehf. hafi komið að verki fyrir beiðni Jóns Sig. Ólafssonar, sem hafi áritað reikninginn.  Svarbréf stefnda er dags. 27. sama mánaðar. Þar segir svo: Undirritaður hefur eftirfarandi um þessa kröfu að segja:

1.       Jón Sig. Ólafsson, T-hús ehf. er byggingastjóri og skráður verktaki fyrir ofangreinda eign í samráði við Húsasmiðjuna í nafni Global h/f. Global h/f hefur hvergi komið þar að verki, ráðið menn í vinnu eða skrifað undir verktakasamninga.

2.       Skv. upplýsingum frá lögmanni Húsasmiðjunnar hefur T-hús fengið fjármuni frá Húsasmiðjunni sem eiga fyllilega að nægja fyrir áföllnum kostnaði T-húsa vegna ofangreindrar eignar þar á meðal ofangreinda kröfu.

3.       Skv. upplýsingum undirritaðs komu Smáhús að öðrum verkefnum á vegum T-húsa. Vaknar sú spurning, hver er hvers og hvers er hvað?

Skv. ofanskráðu er undirritaður ekki reiðubúinn að greiða eftirstöðvar á óljósri kröfu tafarlaust. Ef kröfunni verður lýst betur svo að tilefni verði til samninga, verði þeir samningar að vera gerðir í samráði við Húsasmiðjuna, því lögmaður hennar hefur öll spil á hendi viðvíkjandi ofangreinda eign að Jörfagrund 34-36, Kjalarnesi. Grímur Valdimarsson ritar undir bréfið.

Lögheimtan sendi stefnda síðan innheimtubréf, sem var ítrekað 5. júní 2002. Mál þetta var því næst höfðað, þar  sem stefndi sinnti ekki innheimtutilmælum stefnanda, eins og fyrr er getið.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi byggir á því, að Jón Sigurður Ólafsson, byggingarstjóri að byggingar­framkvæmdum að Jörfagrund 34-36 hafi komið að máli við Hólmar Þór Stefánsson eiganda stefnanda og óskað eftir því, að stefnandi tæki að sér ákveðna verkþætti við bygginguna. Hann hafi sagt framkvæmdaraðila komna á eftir áætlun og þyrftu þeir því á liðsinni stefnanda að halda. Húsasmiðjan hf. myndi sjá um greiðslur. Haft hafi verið samband við Smára Hilmarsson lögmann Húsasmiðjunnar, sem sá um þessi mál í hennar umboði, og hafi hann staðfest, að Húsasmiðjan myndi annast greiðslu til stefnanda. Því hafi verið farið í verkið. Húsasmiðjan hafi greitt 550.000 krónur í apríl 2001, þegar stefnandi hafi hótað að hætta vinnu við bygginguna, en ekki hafi verið um frekari greiðslur að ræða, hvorki hjá stefnda né Húsasmiðjunni. Stefnandi hafi vitað, að stefndi væri handhafi byggingarleyfis að Jörfagrund 34-36 og Jón Sigurður Ólafsson byggingarstjóri að framkvæmdunum og því með stöðuumboð samkvæmt 2. mgr. 51. gr. byggingarlaga nr. 73/1997. Ekki hafi verið um það rætt að stefnandi tæki að sér verkið sem undirverktaki T-húsa ehf.

Stefnandi kveðst byggja kröfur sínar á hendur stefnda á reglum samninga- og kröfuréttar um loforð og efndir fjárskuldbindinga. Til stuðnings dráttarvaxtakröfu sinni vísar stefnandi til vaxtalaga en byggir kröfu sína um málskostnað á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 (eml.).

Málsástæður og lagarök stefnda.

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því, að stefnandi hafi að eigin sögn unnið við smíðavinnu að Jörfagrund 34-36. Hann hafi unnið sem undirverktaki hjá T-húsum ehf., fyrirtæki Jóns Sigurðar Ólafssonar byggingameistara. T-hús hafi tekið að sér sem verktaki að annast byggingu umrædds húss með samningi við stefnda. Stefnandi hafi á sama tíma einnig unnið að öðrum verkum fyrir T-hús. Fjármögnun framkvæmdanna hafi verið í höndum Húsasmiðjunnar og hafi T-hús tekið út af viðskiptareikningi stefnda eftir stöðu framkvæmda að mati fasteignasölunnar Höfða eða að Húsasmiðjan hafi greitt beint til T-húsa eða undirverktaka þess félags. Innborgun inn á verk stefnanda hafi Húsasmiðjan annast að beiðni T-húsa og hafi stefndi hvergi komið þar nærri. Stefndi hafi fyrir löngu gert upp að fullu við T-hús.

Stefndi kveðst byggja á því, að ekki sé um að ræða samningssamband milli stefnda og stefnanda. Stefndi hafi samið við verktakafyrirtækið T-hús ehf. um byggingu húsanna við Jörfagrund og hafi gert upp þann samning. Stefndi verði því ekki gerður ábyrgur fyrir efndum verktaka við undirverktaka. Innborgun Húsa­smiðjunnar hafi engar réttarverkanir gagnvart stefnda, enda hafi greiðslan verið innt af hendi að beiðni T-húsa. Stefndi vísar til samnings frá 3. október 2000 og yfirlýsingar frá 5. sama mánaðar máli sínu til stuðnings. Ljóst sé af þessum málskjölum, að T-hús ehf. hafi komið að byggingu hússins við Jörfagrund sem verktaki. Jón Sigurður Ólafs­son hafi vegna aðildar sinnar að T-húsum ehf. gengist í sjálfskuldarábyrgð gagnvart Húsasmiðjunni, ásamt Grími Valdimarssyni, sem veitt hafi ábyrgð vegna stefnda.  Einnig sýni yfirlýsingin frá 5. október 2000 þátt T-húsa ehf. í framkvæmdunum. Stefndi vísar til meginreglna samninga- og kröfuréttar til stuðnings kröfum sínum, en byggir málskostnaðarkröfu sína á 130. gr. eml.

Niðurstaða.

Við aðalmeðferð málsins gáfu þessir menn skýrslu: Hólmar Þór Stefánsson, aðaleigandi stefnanda, Grímur Valdimarsson, aðaleigandi stefnda, Sigurður Smári Hilmarsson hdl., sem annaðist málið f.h. Húsasmiðjunnar hf., og Jón Sigurður Ólafsson, aðaleigandi T-húsa ehf. sem lýst var gjaldþrota á árinu 2001.

Verður nú gerð grein fyrir helstu atriðum í vætti þeirra.

Hólmari Þór Stefánssyni sagðist svo frá, að Jón Sigurður Ólafsson hafi hringt í sig einn morguninn og beðið um aðstoð, því að hann væri vandræðum með hús í smíðum, sem ætti að fara að afhenda. Jón Sigurður hafi sagst vera byggingarstjóri að þessu verki, fyrir stefnda. Mætti kvaðst áður hafa unnið verk, sem Jón Sigurður hafi komið að sem byggingarstjóri. Þar hafi allt staðist. Hann kvaðst hafa spurt Jón Sigurð um það, hver myndi borga fyrir verkið og fengið þau svör, að Húsasmiðjan fjármagnaði verkið og myndi sjá um það. Hafi hann því hringt í Smára Hilmarsson hjá Húsasmiðjunni og fengið þau svör, að hann sæi um að greiða öllum verktökum á grundvelli einhvers samnings við byggendur.  Í kjölfarið hafi hann ákveðið að taka verkið að sér,  en ekkert velt því fyrir sér fyrir hvern hann var að vinna. Húsasmiðjan hafi greitt inn á verkið. Það hafi gerst með þeim hætti, að hann hafi beðið Jón um greiðslu inn á verkið, og hafi Jón þá gert sér ferð með honum til Smára Hilmarsson hjá Húsasmiðjunni, og síðan hafi greiðsla borist inn á reikning daginn eftir.  Eftir það hafi honum alltaf verið sagt, þegar hann gekk eftir greiðslum, að þær kæmu, þegar húsbréf hefðu fengist afhent.  Síðan hafi komið bakslag í málið. Aðspurður kvaðst mætti ekki hafa haft neitt sambandi við stefnda, enda sé það ekkert óvenjulegt. Samskiptin eigi sér stað við byggingarstjóra. Engin skriflegur samningur hafi verið gerður við stefnda, enda hafi munnlegir samningar hingað til talist fullgildir.  Mætti kvaðst ekki vita, hvort Jón Sigurður hafi sjálfur verið verktaki að umræddu verki, það hafi ekki komið til umræðu. Hann upplýsti aðspurður, að reikningur sá, sem liggi frammi í málinu hafi verið gefinn út í desember 2001. Annar reikningur sömu fjárhæðar hafi verið gefinn út við verklok, en bakfærður, því ella hefði stefnandi þurft að standa skil á virðisaukaskatti af reikningsfjárhæðinni, sem sé umtalsverð fjárhæð fyrir lítið fyrirtæki. Þetta sé skýringin á innheimtubréfi sem Kristján Stefánsson hrl. hafi sent stefnda 26. júní 2001. Þá hafi ekki verið búið að bakfæra fyrri reikninginn. Jón Sigurður Ólafsson hafi áritað þann reikning. Fyrri reikningurinn hafi verið sendur stefnda, sem ekki hafi endursent hann og sennilega notað hann til skuldfærslu.

Grímur Valdimarsson lýsti aðkomu stefnda að byggingu fjögurra íbúða að Jörfagrund 34-36 og tilurð samnings milli stefnda og Húsasmiðjunnar hf., sem liggur frammi í málinu á þann veg, að Jón S. Ólafsson eigandi T-húsa efh., hafi átt hugmyndina um þær framkvæmdir. Einnig hafi hann átt hugmyndina að því, að Húsasmiðjan yrði fengin til að fjármagna verkefnið. Jón hafi skuldað stefnda smáfé, sem hann hugðist jafna með þátttöku sinni í þessum framkvæmdum. Gert hafi verið ráð fyrir því í samningum við Húsasmiðjuna, að Jón Sigurður yrði byggingarstjóri og félag hans T-hús ehf. yrði verktaki, og hafi það hvort tveggja gengið eftir. Greiðslur skyldu vera eins og segi í samningnum frá 3. október 2000 og miðast við umsamið hlutfall miðað við stöðu verksins að mati fasteignasölunnar Höfða. Jón Sigurður hafi tilkynnt fasteignasölunni um stöðu  framkvæmda. Húsasmiðjan hafi síðan, að fengnu áliti fasteignasölunnar, greitt fé inn á reikning T-húsa. Að áliti mætta hafi T-hús ehf. fengið mun meira greitt frá Húsasmiðjunni en félagið hafi átt rétt á, án þess að geta tilgreint nákvæma tölu en taldi það hafa numið u.þ.b. 30 milljónum króna. Við könnun á stöðu verksins, þegar T-hús var gert að hætta framkvæmdum, hafi félagið fengið ofgreitt miðað við verkstöðu á bilinu 12 til 15 milljónir króna.  Mætti kvaðst engin samskipti hafa átt við stefnanda eða fyrirsvarsmann félagsins, meðan á framkvæmdum stóð, en eftir það hafi stefndi fengið innheimtubréf frá lögmanni stefnanda. Mætti taldi sig hafa komið fyrri reikningi stefnanda til Smára í Húsasmiðjunni, án þess þó að vilja fullyrða um það. Allar greiðslur hafi runnið beint til T-húsa, annaðhvort í formi efnisúttekta eða inn á bankareikning félagsins. Ekki hafi verið gerður beinn samningur milli stefnda og T-húsa, en félagið hafi verið aðili að samningnum við Húsasmiðjuna, m.a. hafi Jón Sigurður gengið í sjálfskuldarábyrgð fyrir efndum hans. Einnig liggi fyrir yfirlýsing um verkið frá 5. október 2000 og samningur, þegar T-hús var leyst frá verkinu. Þá hafi Jón Sigurður verið byggingarstjóri að verkinu, samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg, en byggingastjóri beri ábyrgð á framkvæmd verksins og ráði m.a. alla verktaka til starfa.  T-hús hafi ekki átt að framvísa reikn­ingum eða fá umsamda fyrirfram ákveðna fjárhæð fyrir verkið, heldur hafi átt að greiða félaginu um 80% af kostnaði við verkið eftir stöðu þess:  Síðan hafi átt að koma til lokauppgjörs milli stefnda og T-húsa, sem aldrei hafi orðið.  Mætti segir stefnda hafi verið skráðan lóðarhafa og þinglýstan eiganda fasteignarinnar Jörfagrundar 34-36.

Sigurður Smári Hilmarsson lögmaður Húsasmiðjunnar hf. staðfesti fjár­mögnunarsamning Húsasmiðjunnar og stefnda og kvaðst hafa samið það skjal. Samningurinn hafi aðeins snúið að þessum tveimur félögum og því hafi ekki verið minnst á T-hús þar. Greiðslur samkvæmt fjármögnunarsamningnum hafi gengið beint til Jóns Sigurðar Ólafssonar, f.h. T-húsa, samkvæmt framsali stefnda, og einnig hafi T- hús haft heimild til að taka út efni. Þessar greiðslur hafi farið fram eftir stöðu verksins að mati fasteignasala. Í sumum tilvikum hafi verktökum verið greitt beint en ekki fyrir milligöngu T-húsa. Vitnið kannaðist við að hafa greitt beint til stefnanda 550.000 krónur, en sú fjárhæð hafi átt að ganga til T-húsa. Hólmar Þór hafi ætlað að hætta vinnu við verkið og því hafi Jón Sigurðsson veitt heimild fyrir því, að greiðsla, sem ella hefði átt að renna til T- húsa, yrði greidd stefnanda. Stefndi hafi síðar verið í sambandi við vitnið, en þá hafi málið verið komið í þrot og ekki um frekari greiðslur að ræða. Staðið hafi til að reyna að tryggja stefnanda greiðslu, en það hafi ekki gengið eftir.

Jón Sigurður Ólafsson sagðist hafa komið að samningi stefnda og Húsa­smiðjunnar en mundi ekki nákvæmlega með hvaða hætti.  Hann hafi verið byggingar­stjóri að framkvæmdunum við Jörfagrund, en í því starfi hafi falist eftirlit með því að verkið væri unnið, að annast mannaráðningar að einhverju leyti og bera að hluta til faglega ábyrgð á verkinu. Hann kvaðst hafa ráðið stefnanda til umrædds verks í umboði stefnda. Hann hafi farið með Hólmari Þór Stefánssyni til Smára Hilmarssonar hjá Húsasmiðjunni, sem hafi fjármagnað verkið að öllu leyti. Þar hafi verið um það rætt, að Húsasmiðjan borgaði stefnanda beint til að tryggja, að hann fengi greitt.  Vitnið kvaðst hafa greitt einhverjum verktökum af fé frá Húsasmiðjunni, en Húsa­smiðjan hafi greitt öðrum. Matsmaður frá Húsasmiðjunni hafi metið verkið, og greitt hafi verið samkvæmt mati hans inn á reikning sinn. Hann hafi ekki framvísað reikningum til Húsasmiðjunnar. Enginn skriflegur samningur hafi verið gerður milli hans og stefnda , en T-hús ehf. hafi verið verktaki að hluta af verkinu. Vitnið taldi sjálfskuldarábyrgð sína á samningnum við Húsasmiðjunnar frá 3. október 2000 hafa verið mistök, því að hann hafi enga persónulega ábyrgð átt að bera.

Álit dómsins:

Stefndi byggir sýknukröfu sína á aðildarskorti. Ekkert réttarsamband sé eða hafi verið milli málsaðila. Jón Sigurður Ólafsson hafi, f.h. T-húsa ehf., tekið að sér gagnvart stefnda að annast byggingaframkvæmdir við umrædda húseign og stefnda sé óviðkomandi, hvernig hann hafi hagað því verki.

Enginn skriflegur samningur var gerður milli stefnda og T-húsa ehf., þar sem staða hvors um sig er skilgreind og verkaskipting ákveðin í tengslum við umrædda framkvæmd. Í fjármögnunarsamningnum frá 3. október 2002 er T-húsa ehf. hvergi getið. Í yfirlýsingu frá 5. október eru ekki tekin af tvímæli um stöðu T-húsa ehf. gagnvart stefnda. Ráða má af viðaukasamningi frá 11. júlí 2001, sem áður er getið, að T-hús ehf. hafi verið verktaki að framkvæmdum við umrædda húseign við Jörfagrund, en ekki tilgreint nánar, í hverju starf hans væri fólgið.

Vitnið Jón Sigurður Ólafsson bar hér í dómi, að T-hús ehf. hafi verið verktaki að hluta af verkinu, en aftók, að félagið hafi staðið fyrir öllum framkvæmdum og alls ekki fyrir því verki, sem stefnandi tók að sér að vinna. Hann taldi sig hafa ráðið stefnanda til starfa í umboði stefnda á grundvelli stöðu sinnar sem byggingarstjóri að byggingu Jörfagrundar 34-36.

Því verður að telja ósannaða þá málsástæðu stefnda, að Jón Sigurður Ólafsson, hafi ráðið stefnanda til starfa í nafni T-húsa ehf.

Staðfest var af fyrirsvarsmanni stefnda, að félagið var handhafi byggingarleyfis og þinglýstur eigandi umræddrar fasteignar. Einnig liggur fyrir, að Jón Sigurður Ólafsson var byggingarstjóri að umræddum byggingarframkvæmdum og hafði sem slíkur heimild til að skuldbinda stefnda, sbr. 2. mgr. 51. gr. skipulags og byggingar­laga, sem áður er vísað til.

Verk stefnanda var sannanlega unnið í þágu stefnda og ekki liggur annað fyrir en verkið hafi gagnast stefnda.  Að mati dómsins var stefnandi ráðinn til að starfa í þágu stefnda af réttum aðila, sem til þess hafði fullt umboð.

Með vísan til þess, sem að framan er rakið, þykir verða að fallast á kröfu stefnanda og dæma stefnda til að greiða stefnanda 961.330 krónur, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af þeirri fjárhæð frá 20. desember 2001 til greiðsludags. Dráttarvextir skulu uppfærast á 12 mánaða fresti, fyrst 20. desember 2002.

Samkvæmt 1. tl. 130. gr. eml. ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilegur 140.000 krónur.

Skúli J. Pálmason héraðsdómari kveður upp þennan dóm.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, Global hf., skal greiða stefnanda, Smáhúsum ehf.,  961.330 krónur, auk dráttarvaxta, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, af þeirri fjárhæð frá 20. desember 2001 til greiðsludags.

Dráttarvextir skulu uppfærast á 12 mánaða fresti, fyrst 20. desember 2002.

Stefndi greiði stefnanda 140.000 krónur í málskostnað.