Hæstiréttur íslands

Mál nr. 566/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Sakarefni
  • Lögspurning
  • Frávísun frá héraðsdómi að hluta


Fimmtudaginn 6

 

Fimmtudaginn 6. nóvember 2008.

Nr. 566/2008.

Daniela Schmitz

(Atli Gíslason hrl.)

gegn

Landsvirkjun og

(Þórður Bogason hrl.)

íslenska ríkinu

(Skarphéðinn Þórisson hrl.)

 

Kærumál. Sakarefni. Lögspurning. Frávísun máls frá héraðsdómi að hluta.

D er eigandi jarðarinnar Skálmholtshrauns í Flóahreppi. Kært var ákvæði í dómi héraðsdóms en með því var vísað frá dómi ítrustu varakröfu D þar sem hún krafðist viðurkenningar á því í 13 liðum að Í og L væri óheimilt að haga á tiltekinn veg framkvæmdum í og fyrir landi Skálmholtshrauns, og öðrum gerðum sínum í tengslum við virkjun. Í dómi Hæstaréttar sagði að í málatilbúnaði D væri ekki gerð viðhlítandi grein fyrir því hvar fram kæmu ráðagerðir um þá þætti í fyrirhuguðum framkvæmdum sem varðað gætu jörð D og einstaka liðir í ítrustu varakröfu hennar í héraði lutu að. Að þessu virtu fæli umrædd dómkrafa D í sér að leitað væri álits um lögfræðilegt efni, sem dómstólar yrðu ekki krafðir um samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þegar af þeirri ástæðu var staðfest hið kærða ákvæði héraðsdóms um frávísun málsins að hluta.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. október 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kært er ákvæði í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 26. september 2008, en með því var vísað frá dómi svokallaðri þrautaþrautavarakröfu sóknaraðila í máli hennar á hendur varnaraðilum. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að þetta ákvæði dómsins verði fellt úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka kröfu hennar til efnismeðferðar. Þá krefst hún kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar krefjast hvor fyrir sitt leyti að ákvæði héraðsdóms um frávísun verði staðfest og sóknaraðila gert að greiða kærumálskostnað.

I

Samkvæmt gögnum málsins er sóknaraðili eigandi jarðarinnar Skálmholtshrauns í Flóahreppi samkvæmt afsali 3. júlí 1996. Jörðin, sem á land að vesturbakka Þjórsár, mun á árinu 1919 hafa komist í eigu Títanfélagsins hf., sem gaf aftur afsal fyrir henni 2. september 1931. Þar var lýst yfir að jörðin væri látin af hendi með öllu, sem henni fylgdi, en „þó að undanteknum öllum vatnsrjettindum jarðarinnar í Þjórsá, sem áframhaldandi skulu vera eign seljanda og skal hann og hver sá, sem síðar öðlast rjett hans, að öllu eða nokkru leyti, hafa rjett til að eignast af landi jarðarinnar allt það land, sem eigandi vatnsrjettindanna telur sig þurfa í beinu eða óbeinu sambandi við notkun vatnsafls Þjórsár ... gegn greiðslu andvirðis fyrir landið“, sem nánar var mælt fyrir um. Með samningi við Títanfélagið hf. 8. júní 1951 keypti varnaraðilinn íslenska ríkið meðal annars vatnsréttindi í Þjórsá, sem félagið hafði eignast með nánar tilgreindum kaupsamningum og afsölum á árabilinu frá 1914 til 1924, og var þar meðal annars getið um vatnsréttindi fyrir landi Skálmholtshrauns, sem undanskilin hafi verið við sölu þeirrar jarðar 2. september 1931. Afsal á grundvelli þessa kaupsamnings var gefið út 16. janúar 1952.

Varnaraðilar gerðu samkomulag sín í milli 9. maí 2007 um yfirtöku Landsvirkjunar á öllum vatnsréttindum í Þjórsá neðan Búrfellsvirkjunar, sem væru í eigu íslenska ríkisins samkvæmt afsali frá Títanfélaginu hf. 16. janúar 1952. Áður hafði varnaraðilinn Landsvirkjun lagt fram í apríl 2003 skýrslu vegna mats á umhverfisáhrifum Urriðafossvirkjunar í Þjórsá, en þar var ráðgert að gerð yrði stífla í farvegi árinnar og myndað ofan stíflunnar lón, sem næði meðal annars inn á land Skálmholtshrauns. Umhverfismati vegna fyrirhugaðrar virkjunar mun hafa verið lokið með úrskurði umhverfisráðherra 27. apríl 2004, en að öðru leyti virðist varnaraðilinn Landsvirkjun ekki hafa aflað sér heimilda til að hefja framkvæmdir við virkjunina.

Sóknaraðili höfðaði mál þetta með stefnu 23. maí 2008 og sætir það flýtimeðferð. Fyrir héraðsdómi krafðist sóknaraðili þess aðallega að viðurkennt yrði að vatnsréttindi varnaraðilans íslenska ríkisins í Þjórsá fyrir landi Skálmholtshrauns hafi fallið niður fyrir vanlýsingu samkvæmt ákvæðum laga nr. 113/1952 um lausn ítaka af jörðum. Til vara krafðist sóknaraðili viðurkenningar á því að hún hefði eignast þessi vatnsréttindi að nýju fyrir hefð, en ella að vatnsréttindi varnaraðilans íslenska ríkisins væru fallin niður fyrir vangeymslu og tómlæti. Að þessu frágengnu gerði sóknaraðili í fjórða lagi þá kröfu að viðurkennt yrði að vatnréttindi þessa varnaraðila fyrir landi Skálmholtshrauns veittu honum og varnaraðilanum Landsvirkjun ekki heimild til aðgerða, sem taldar voru í þrettán liðum í héraðsdómsstefnu. Nánar tiltekið væru þær aðgerðir fólgnar í því að stífla Þjórsá og mynda þannig svokallað Heiðarlón í og fyrir landi Skálmholtshrauns, að breyta með þessu straumvatni árinnar fyrir landi jarðarinnar í stöðuvatn, að byggja stíflugarða í og fyrir landi jarðarinnar, að hækka þannig vatnsborð Þjórsár umfram hæð Skálmholtshrauns yfir sjávarmáli, að grafa fráveituskurð innan stíflugarða í landi jarðarinnar, að breyta með fyrrgreindum mannvirkjum gönguleiðum laxfiska um ána og hrygningar- og uppeldisstöðvum þeirra í henni, að koma í veg fyrir að sóknaraðili geti skipulagt frístundabyggð í landi jarðarinnar og ráðstafað landspildum undir sumarbústaði, að skapa hættu á breyttri og hærri grunnvatnsstöðu í landinu, að rýra verðmæti og markaðsvirði jarðarinnar, að láta verða af virkjunaráformum án þess að taka aðallega allt land jarðarinnar eignarnámi en til vara það land sem færi undir tiltekin mannvirki og bæta um leið fyrir aðgang og átroðning á landi jarðarinnar og verðrýrnun þess, að spilla lífríki í og við Þjórsá án eignarnámsbóta, að leggja til grundvallar ákvæði í áðurnefndu afsali 2. september 1931 um greiðslu fyrir land úr Skálmholtshrauni og loks að ráðast í framkvæmdir við virkjun án umhverfismats á breyttum og nýjum áformum frá því, sem ráðgert hafi verið í fyrirliggjandi umhverfismati. Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 26. september 2008 voru varnaraðilar sýknaðir af þremur fyrstnefndu kröfum sóknaraðila, en þeirri síðastnefndu, svokallaðri þrautaþrautavarakröfu hennar, var vísað frá dómi og lýtur kærumál þetta að því ákvæði dómsins.

II

Eins og að framan greinir hefur varnaraðilinn Landsvirkjun fengið mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Urriðafossvirkjunar, auk þess að hafa gert samkomulag við varnaraðilann íslenska ríkið um vatnsréttindi í Þjórsá, sem sá síðarnefndi telur sig ráða yfir. Að öðru leyti verður ekki ráðið af gögnum málsins að varnaraðilinn Landsvirkjun hafi aflað sér leyfa eða annarra heimilda, sem nauðsynlegar yrðu til að hefja mætti framkvæmdir við gerð virkjunarinnar. Í málatilbúnaði sóknaraðila er ekki gerð viðhlítandi grein fyrir því hvar fram komi ráðagerðir um þá þætti í fyrirhuguðum framkvæmdum, sem varðað gætu jörð hennar og einstakir liðir í ítrustu varakröfu hennar í héraði lúta að. Að þessu virtu felur dómkrafa sóknaraðila um viðurkenningu á því að varnaraðilunum sé óheimilt að haga á tiltekinn veg framkvæmdum í og fyrir landi Skálmholtshrauns og öðrum gerðum sínum í tengslum við virkjun, sem ekki er frekar afráðið um en að framan greinir, í sér að leitað er álits um lögfræðileg efni, sem dómstólar verða ekki krafðir um samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Þegar af þeirri ástæðu verður staðfest hið kærða ákvæði héraðsdóms um frávísun málsins að hluta.

Rétt er að aðilarnir beri hver sinn kostnað af kærumáli þessu.

Dómsorð:

Hið kærða ákvæði héraðsdóms um frávísun málsins að hluta er staðfest.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 26. september 2008.

          Mál þetta sem dómtekið var 15. september sl. er höfðað 27. maí 2008.

       Stefnandi er Daniela Schmitz, Skálmholtshrauni, Flóahreppi.

          Stefndu eru íslenska ríkið og Landsvirkjun, Háaleitisbraut 68, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda

Dómkröfur stefnanda eru þær aðallega, að viðurkennt verði með dómi að vatnsréttindi íslenska ríkisins að Þjórsá í landi Skálmholtshrauns sem byggjast á samningi, dags. 8. júní 1951 og 16. janúar 1953 og afsali dags. 2. september 1931, séu niður fallin fyrir vanlýsingu samkvæmt ákvæðum laga nr. 113/1952 um lausn ítaka af jörðum.

Til vara, að stefnandi hafi fyrir hefð eignast að nýju vatnsréttindi Skálmholtshrauns, sem undanskilin voru frá jörðinni með afsali, dags. 2. september 1931.

Til þrautavara, að viðurkennt verði með dómi að vatnsréttindi íslenska ríkisins að Þjórsá í landi Skálmholtshrauns, sem byggjast á samningi, dags. 8. júní 1951 og 16. janúar 1952 og  afsali dags. 2. september 1931, séu niður fallin fyrir vangeymslu og tómlæti.

Til þrautaþrautavara, að viðurkennt verði með dómi að vatnsréttindi íslenska ríkisins að Þjórsá í landi Skálmholtshrauns sem byggjast samningi, dags. 8. júní 1951 og 16. janúar 1952 og afsali dags. 2. september 1931, heimili stefndu ekki að:

1.                 Stífla Þjórsá í landi Þjótanda og Þjórsártúns og byggja fyrirhugað Heiðarlón í og fyrir landi Skálmholtshrauns.

2.                 Að breyta straumvatni Þjórsár fyrir landi Skálmholtshrauns í stöðuvatn með Heiðarlóni.

3.                 Byggja stíflugarða í og fyrir  landi Skálmholtshrauns að Þjórsá.

4.                 Hækka vatnsborð Þjórsár með stíflugörðum og Heiðarlóni umfram hæð Skálmholtshrauns yfir sjávarmáli.

5.                 Grafa fráveituskurð innan og meðfram stíflugörðum í landi Skálmholtshrauns.

6.                 Breyta með stíflu, stíflugörðum og Heiðarlóni gönguleiðum laxfiska upp  Þjórsá, gönguleiðum laxaseiða til sjávar og hrygningar- og uppeldisstöðvum laxfiska og seiða í ánni. 

7.                 Koma í veg fyrir að stefnandi geti skipulagt frístundabyggð á landi Skálmholtshrauns við Þjórsá og selt eða leigt landsspildur fyrir sumarbústaði.

8.                 Skapa hættu á breyttri og hærri grunnvatnsstöðu í landi Skálmholtshrauns.

9.                 Rýra verðmæti og markaðsvirði Skálmholtshrauns.

10.              Framkvæma fyrirhuguð virkjanaáform án þess að taka allt land Skálmholtshrauns eignarnámi. Til vara án þess að taka eignarnámi það land sem fer undir stíflugarða, fráveituskurði og bæta fyrir aðgang, átroðning og áníðslu  á og um land Skálmholtshrauns og fyrir verðrýrnun landsins.

11.              Spilla lífríki í og við Þjórsá án eignarnámsbóta.

12.              Leggja til grundvallar ákvæði í afsali dags. 2. september 1931 um greiðslur fyrir land Skálmholtshrauns.

13.              Ráðast í fyrirhugaðar virkjanaframkvæmdir án umhverfismats á breyttum og nýjum framkvæmdaáformum frá gildandi umhverfismati  dags. 19. ágúst 2003.

Ekki eru gerðar sérstakar kröfur á hendur réttargæslustefnda. 

Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefndu í samræmi við málskostnaðarreikning og vinnustundaskráningu, sem lögð verða fram fyrir aðalmeðferð málsins, að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Dómkröfur stefnda Landsvirkjunar

Aðallega er þess krafist að stefndi verði sýknaður af aðal-, vara- og þrautavarakröfu stefnanda, en þrautaþrautavarakröfu stefnanda verði vísað frá dómi.

Til vara er þess krafist að stefndi verði sýknaður af öllum dómkröfum stefnanda.

Í öllum tilvikum er krafist málskostnaðar samkvæmt mati dómsins eða síðar framlögðum málskostnaðarreikningi.

Dómkröfur stefnda íslenska ríkisins.

Aðallega er þess krafist að stefndi verði sýknaður af aðal-, vara- og þrautavarakröfu stefnanda, en að þrautaþrautavarakröfu stefnanda verði vísað frá dómi.

Til vara er þess krafist að stefndi verði sýknaður af öllum dómkröfum stefnanda. Með báðum dómkröfum er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda samkvæmt mati dómsins.

Málavextir

          Í stefnu lýsir stefnandi málavöxtum þannig:

Forsaga

Stefnandi kveðst vera eigandi jarðarinnar Skálmholtshrauns í Flóahreppi, en jörðin liggur að Þjórsá. Málavextir séu þeir að um og eftir aldamótin 1900 hafi ýmsir aðilar fyrirhugað nýtingu vatnsafls á Íslandi og hafi verið stofnuð nokkur félög til þess að hrinda þeim hugmyndum í framkvæmd.  Meðal annars hafi þessi félög og einstaklingar fyrirhugað að  virkja fossa og flúðir Þjórsár. Eitt þessara félaga, h/f Orion, hafi fest kaup á jörðinni Skálmholtshrauni, með öllu sem henni fylgdi, sérstaklega réttindum til vatns og vatnsafls í Þjórsá. Kaupsamningur milli Þorsteins Björnssonar og h/f Orions um Skálmholtshraun þess efnis hafi verið gerður þann 26. febrúar 1917. Rúmum tveimur árum síðar, eða þann 20. mars 1919, hafi jörðinni verið afsalað til Títanfélagsins, hf., sem stofnað var af Einari Benediktssyni. Tilgangur þess félags hafi verið að virkja fossa og flúðir Þjórsár. Undirbúningur virkjana og mælingar í og við Þjórsá var þá þegar hafinn.

Á sama tíma hafi Alþingi sett á fót svokallaða Fossanefnd, sem hafi verið gert að semja frumvarp að vatnalögum, fara yfir og gera samantekt á vatnsréttindamálum að fornu og nýju og gera tillögur að framtíðarskipan vatnsréttinda og virkjanamála á Íslandi. Fossanefndin hafi aflað ítarlegra sérfræðiálita, gagna og heimilda, meðal annars um fyrirhugaðar virkjanir Títanfélagsins í Þjórsá, og komist að þeirri niðurstöðu að hafna ætti hugmyndum félagsins og að íslenska ríkið ætti í staðinn að taka það að sér sjálft að virkja ána. Fossanefndin hafi þríklofnað í málinu og hafi frumvarp annars minni hluta nefndarinnar orðið að vatnalögum nr. 15/1923.  Nefndina hafi þó ekki greint á um helstu meginreglur laganna og þær takmarkanir sem vatnalögin settu Títanfélaginu og öðrum virkjanafélögum.

Eftir gildistöku vatnalaga nr. 15/1923 hafi Títanfélagið sótt um sérleyfi og með lögum nr. 26, 31. maí 1927, hafi atvinnumálaráðherra verið veitt heimild til að veita því sérleyfi  til að virkja Urriðafoss, sbr. 7. gr. laganna. Í lögunum hafi meðal annars falist heimild til að gera uppistöðu í ánni ofan við fossinn, hækka eða lækka vatnsborð eða farveg og gera vatnsrásir ofanjarðar eða neðan eftir þörfum. Ráðgert var að hin fyrirhugaða virkjun yrði allt að 160.000 hestöfl, en það jafngildi um 117 MW.  Í 11. gr. laganna hafi verið kveðið á um að framkvæmdir skyldu eigi síðar en 1. júlí 1934 (sic) og samkvæmt 4. gr. laganna var sérleyfistíminn ákveðinn allt að 70 ár, en af framkvæmdunum varð ekki.  Nefnd lög séu úr gildi fallin og lagasérleyfi til virkjana í neðri hluta Þjórsár hafi Alþingi ekki veitt síðan eins og vatnalög hafi gert og geri ráð fyrir og veitt hafi verið vegna annarra virkjanaframkvæmda. 

Með afsali, dags. 2. september árið 1931, hafi Títanfélagið selt jörðina Skálmholtshraun til Guðbrands Tómassonar, en hafi undanskilið  vatnsréttindi jarðarinnar. Í afsalinu segi orðrétt:

“Hlutafjelagið Títan selur og afsalar með brjefi þessu Guðbrandi Tómassyni í Skálmholti jörðina Skálmholtshraun í Villingaholtshreppi í Árnessýslu, sem hann nú hefur ábúð á, með öllu því sem jörð þessari fylgir og tilheyrir einsog seljandi á hana, þó að undanteknum öllum vatnsrjettindum jarðarinnar í Þjórsá, sem áframhaldandi skulu vera eign seljanda og skal hann og hver sú, sem síðar öðlast rjett hans, að öllu eða nokkru leyti, hafa rjett til að eignast af landi jarðarinnar allt það land, sem eigandi vatnsrjettindanna telur sig þurfa í beinu eða óbeinu sambandi við notkun vatnsafls Þjórsár t.d. vegna útbygginga, verksmiðja og reksturs þeirra, gegn greiðslu andvirðis fyrir landið, sem ákveðst kr. 1000.00- eitt þúsund- kr. pr. Hektar af túni og matjurtagörðum, 200- tvö hundruð- kr. pr. Hektar af engi en 50- fimmtíu-kr. pr. Hektar af óræktuðu landi. Endurgjald fyrir hús og mannvirki fari eftir mati dómkvaddra manna..”

Hugmyndir Títanfélagsins hafi ekki fengið brautargengi hjá fjárfestum og hafi ekki orðið úr virkjunaráformum félagsins í Þjórsá af þeim sökum, vegna setningar vatnalaga og af fleiri ástæðum. Félaginu hafi endanlega verið slitið um miðja 20. öld og vatnsréttindi félagsins framseld íslenska ríkinu með samningi við Títanfélagið, dags. 16. janúar 1952.

Eigendaskipti að Skálmholtshrauni hafi orðið nokkrum sinnum eftir árið 1931, en jörðinni hafi upphaflega verið skipt út úr jörðinni Skálmholti.  Stefnandi hafi keypt Skálmholtshraun af Sigurbirni Bárðarsyni þann 3. júlí 1996. 

Um forsögu málsins og virkjanaáform Títanfélagsins vísi stefnandi að öðru leyti til framlagðra dómskjala og nefndarálita meiri- og minnihluta Fossanefndarinnar og fylgiskjala, meðal annars greinargerðar Jóns Þorlákssonar, verkfræðings. Einnig sé vísað til ævisögu Einars Benediktssonar, Væringinn mikli, og til ritgerða Sigurðar Ragnarssonar í Tímaritinu Sögu 1976 og 1977, sem tilgreindar séu undir yfirliti yfir hliðsjónargögn.

Matsskýrsla, málsmeðferð hjá Skipulagsstofnunar og umhverfisráðherra

Stefnandi kveður Landsvirkjun nú, án sérstaks lagaleyfis Alþingis, og án þess að hafa fengið framseld meint vatnsréttindi íslenska ríkisins í neðri hluta Þjórsár, hafa tekið upp hugmyndir Títanfélagsins um virkjanir í neðri hluta Þjórsár, en nú í þremur þrepum í stað fimm þrepa, með Holtavirkjun, Hvammsvirkjun og Urriðafossvirkjun og tilheyrandi miðlunarlónum og umtalsverðum öðrum breytingum. Þann 25. apríl 2003 hafi Skipulagsstofnun borist skýrsla um mat á umhverfisáhrifum Urriðafossvirkjunar. Skipulagsstofnun hafi fallist á tillögu Landsvirkjunar með úrskurði sínum, dags. 19. ágúst 2003, en hafi sett ákveðin skilyrði fyrir framkvæmdinni. Úrskurður Skipulagsstofnunar hafi verið kærður til umhverfisráðherra af nokkrum aðilum, en umhverfisráðherra hafi staðfest úrskurð Skipulagsstofnunar með breytingum og viðbótarskilyrðum þann 27. apríl 2004. Um nánari útlistun á virkjuninni sé vísað til útdráttar úr matsskýrslunni og annarra gagna málsins.

Umhverfisáhrif

Umhverfisáhrifum Urriðafossvirkjunarinnar sé lýst í matsskýrslu frá apríl 2003.  Fyrirhugað sé að stífla Þjórsá við svonefndan Heiðartanga rétt neðan og austan við Skálmholtshraun. Með því myndist um 9 km2 stórt uppistöðulón, sem kallist Heiðarlón og muni yfirborð þess verða mest í um 51 m hæð yfir sjávarmáli. Á vesturbakka Heiðarlóns í Þjórsá sé fyrirhugaður samtals 4,4 km langur stífluvarnargarður, allt að 13 m á hæð, en mest allt land vestan árinnar, þar með talið land Skálmholtshrauns, sé 3 til 6 m lægra en vatnsyfirborð lónsins sé áætlað. Meðfram og yfir öllu landi Skálmholtshrauns að Þjórsá verði byggður stíflugarður, samtals 1,5 km á lengd. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum muni stíflugarðurinn verða 65 m breiður úr mold og möl, með möl á toppnum, en grasi vaxin brekka muni snúa að landi Skálmholtshrauns. Í brekkuna verði sett girðing meðfram öllum stíflugarðinum. Landmegin komi vatnsrás, fráveituskurður, meðfram varnargarðinum sem ætlað sé að taka við afrennslisvatni og grunnvatni auk vatns sem leki úr lóninu og sé gert ráð fyrir 5 til 6 rúmmetra rennsli á sekúndu að meðaltali í fráveituskurðinum.  Stíflugarðurinn eigi að ná um 53,5 m hæð yfir sjávarmáli, en land Skálmholtshrauns sé að mestu leyti 47 og 48 m yfir sjávarmáli.  Við stíflu fyrir landi Þjótanda og Þjórsártúns muni verða vatnsinntak með leiðslum að stöðvarhúsi fyrir virkjunina og muni vatninu verða veitt aftur í farveg Þjórsár um 3 km neðan stíflunnar.

Við undirbúning mats á umhverfisáhrifum hafi verið unnar sjö rannsóknarskýrslur sem fjalla um jarðfræðilega eiginleika svæðisins, fornleifaskráningu, gróður og fugla, lífríki Þjórsár, viðhorf ferðamanna og áhrif á ferðaþjónustu, vatnafar í neðri hluta Þjórsár og strandrof við lón.  Þessar skýrslur og fyrirliggjandi umhverfismat leiði meðal annars í ljós að meðalrennsli Þjórsár í dag er yfir 300 rúmmetra á sekúndu en muni fara niður í 10 til 15 rúmmetra frá stíflu og að útfalli frá stöðvarhúsi en með afar ójöfnu rennsli eftir árstíðum eða yfir 100 rúmmetra þegar rennslið er mest. Heiðarlón, Holtalón og Hvammslón muni breyta straumvatni Þjórsár í stöðuvötn. Þetta muni hafa alvarlegar afleiðingar, meðal annars á lífríki fiska, gönguleiðir laxfiska og seiða og hrygningar- og uppeldisstöðvar. Mótvægisaðgerðir séu fyrirhugaðar, en vandséð  hvernig lax geti gengið upp og niður ána og laxaseiði til sjávar. Þeirri spurningu og mörgum fleirum um áhættuþætti fyrirhugaðra virkjana hafi ekki verið svarað.  Áætlað sé að setja upp seiðaveitu, en slíkar veitur hafi reynst illa erlendis og áformin byggist á ófullnægjandi rannsóknum, eins og fram komi í rannsóknarskýrslu um lífríki Þjórsár. Veruleg hætta sé búin laxastofni Þjórsár verði framkvæmdir að veruleika. Að sama skapi muni skapast hætta á sandfoki af afar umfangsmiklum haugsvæðum og af bökkum og úr farvegi árinnar þegar rennsli sé minnst, vatnsmesti foss Íslands, Urriðafoss, muni verða tekinn úr sambandi og aðrar náttúruperlur í og við Þjórsá verða eyðilagðar.

Í skýrslu um jarðfræðilega eiginleika svæðisins eftir Pál Einarsson, jarðeðlisfræðing,  Mathilde Böttger og Steingrím Þorbjarnarson, sé sérstaklega fjallað um sprungur, jarðskorpuhreyfingar og jarðskjálfta á svæðinu. Þau vari sérstaklega við eftirfarandi áhættuatriðum:

-          Stórir jarðskjálftar séu algengir á svæðinu.

-          Suðurlandsjarðskjálftar eigi þar sín upptök, á svonefndum Hreppafleka.

-          Margar sprungur séu á svæðinu sem hreyfast, ekki einungis í jarðskjálftum.

-          Sprungurnar séu óþéttar og sama gildi um gljúpt og óþétt Þjórsárhraun, sem Þjórsá renni um.

Þessir eiginleikar svæðisins leiði til þess að hættulegt geti talist að ráðast í fyrirhugaðar framkvæmdir vegna hættu á stíflurofi. Einnig sé talið að líklegt sé að vatnið muni ekki haldast í lóninu, leka úr því neðanjarðar um afar djúpar sprungur og gljúpan jarðveg. Með því muni grunnvatnsstaða á svæðinu stórhækka.  Rannsóknir fræðimanna og eigin rannsóknir stefnanda og eiginmanns hennar hafi sýnt fram á það að tengsl séu neðanjarðar milli Þjórsár og Hvítár og í flóðum í Þjórsá fyllist brunnar í Skeiðahreppi og Flóahreppi, lækir og dý litist af jökulvatni og jökulvatn Þjórsár komi upp í lækjum sem renna í Hvítá. Í matsskýrslu sé hins vegar aðeins fullyrt að áhrif á grunnvatnsstöðu verði lítil, en þessi staðhæfing og vá séu hvorki rökstuddar né rannsakaðar á fullnægjandi hátt. Fleiri atriði matsskýrslunnar séu lítt rannsökuð og gæði mótvægisaðgerða óþekkt. Jafnframt sé vitað að hönnun Urriðafossvirkjunar hafi ekki verið lokið þegar matsskýrslan var gerð og að miklar breytingar hafi síðan verið gerðar á framkvæmdaáformum Landsvirkjunar. Í skýrslu sem Ragnhildur Sigurðardóttir hafi unnið í september 2007 sé sérstaklega farið yfir fyrirliggjandi umhverfismatsskýrslu Urriðafossvirkjunar og komist höfundur meðal annars að þeirri niðurstöðu að matsskýrslan sé úrelt þar sem framkvæmdin hafi breyst, mikilvæga kafla vanti, nútímakröfum sé ekki fullnægt og matsskýrslan ætti að vera sameiginleg fyrir allar þrjár fyrirhugaðar virkjanir í neðri hluta Þjórsár. Aðrar niðurstöður séu raktar í niðurlagi matsskýrslunnar og varði mótvægisaðgerðir, annmarka á rannsóknum o.fl.  Þá liggi fyrir að stefnandi og almenningur hafi ekki aðgengi að fullnægjandi upplýsingum í umhverfismatsferlinu. Umfangsmiklum og óafturkræfum umhverfisáhrifum fyrirhugaðra virkjana sé nánar lýst í skjölum málsins.

Ferli málsins eftir umhverfismat

Samhliða rannsóknum á svæðinu og undirbúningi umhverfismats hafi verið unnið að öðrum þáttum sem huga þurfi að til að geta ráðast í fyrirhugaðar framkvæmdir. Landsvirkjun, sem framkvæmdaaðili, hafi haft samband við eigendur jarða í og við neðri hluta Þjórsár, þar á meðal stefnanda, og sveitarstjórnir fjögurra sveitarfélaga sem eigi hlut að málinu.

Ásahreppur og Rangárþing ytra austan Þjórsár geri ráð fyrir virkjunum í neðri hluta Þjórsár í aðalskipulögum sínum. Skeiða- og Gnúpverjahreppur hafi auglýst breytingu á gildandi aðalskipulagi þar sem gert sé ráð fyrir Holta- og Hvammsvirkjun en ekki afgreitt þær og framkomnar athugasemdir. Aðalskipulag Flóahrepps sé í vinnslu og hafi ekki verið gert ráð fyrir Urriðafossvirkjun í upphaflegum hugmyndum.  Við fyrstu kynningu á aðalskipulagstillögu þann 25. júní 2007 hafi skipulagi viðkomandi svæðis verið frestað þar til áhættumat Urriðafossvirkjunar lægi fyrir. Þann 18. október 2007 hafi farið fram íbúafundur þar sem drög að áhættumati voru kynnt. Á sama tíma hafi Landsvirkjun haldið áfram viðræðum við sveitarstjórn Flóahrepps og hafi auk þess, þann 19. júlí 2007, gert sérstakt samkomulag við sveitarfélagið til að ná fram virkjanaáformum sínum.  Hafi Landsvirkjun skuldbundið sig til að vinna ýmis samfélagsleg verkefni, svo sem við vegagerð, vatnsveitu, bætta símaþjónustu auk beinna fjárframlaga og fleira. Samkomulagið sé skilyrt með því að væntanlegar skipulagsbreytingar nái fram að ganga og áform Landsvirkjunar um virkjun Urriðafoss.  Samkomulagið hafi orðið til þess að Flóahreppur geri nú ráð fyrir virkjuninni í aðalskipulagstillögu sinni. Margir aðilar séu afar ósáttir við þennan samning milli Landsvirkjunar og sveitarstjórnar Flóahrepps og hafi verið lögð fram kvörtun til Umboðsmanns Alþingis og kæra til Samgönguráðuneytisins vegna samkomulagsins og málsmeðferðar Flóahrepps og framgöngu að öðru leyti. Eftir þessar breytingar, og fleiri, hafi aðalskipulagstillagan loks verið afgreidd frá sveitarstjórn Flóahrepps í lok ársins 2007 og send umsagnaraðilum.  Þann 19. mars 2008 hafi tillagan verið rædd á sveitarstjórnarfundi og ákveðið að senda hana til Skipulagsstofnunar til afgreiðslu.

Á meðan á skipulagsferlinu stóð hafi Landsvirkjun verið í tíðum viðræðum við sveitarstjórn Flóahrepps, en hönnun mannvirkja hafi þá ennþá verið í vinnslu og sé ekki enn frágengin. Umtalsverðar breytingar hafi átt sér stað á framkvæmdaáformum Landsvirkjunar frá umhverfismati, t.d. hafi mesta vatnshæð miðlunarlóns Urriðafossvirkjunar verið lækkuð, ákveðið hafi verið að byggja varnargarð í landi Herriðarhóls, stíflugarður í landi Skálmholtshrauns hafi verið færður á árbakkann, nýjar efnisnámur hafi verið skilgreindar og einnig ný haugsvæði og fleira, sem ekki hafi sætt umhverfismati lögum samkvæmt. Að sama skapi hafi Landsvirkjun farið í  samningaviðræður við eigendur jarða sem liggja að neðri hluta Þjórsár og hafi verið samið við nokkra þeirra. Margir landeigendur hafi hafnað samningum og lagst gegn Urriðafossvirkjun, þar á meðal 9 af 10 eigendum landa austan Þjórsár sem liggja að framkvæmdasvæði Urriðafossvirkjunar.  Heimild sína til samninga við landeigendur hafi Landsvirkjun byggt á samkomulagi milli sín og ríkisstjórnarinnar frá 9. maí 2007, en með því samkomulagi hafi ríkisstjórnin afsalað, fyrir hönd íslenska ríkisins, öllum vatnsréttindum í neðri hluta Þjórsár til Landsvirkjunar. Í skýrslu frá því í desember 2007 hafi Ríkisendurskoðun hins vegar gert athugasemdir við samkomulagið og hafi talið að það væri ekki bindandi þar sem ríkisstjórnina skorti heimild til að ráðstafa réttindunum án atbeina Alþingis.  Frumvarp þess efnis hafi ekki verið lagt fyrir Alþingi.  Engu að síður hafi Landsvirkjun, þrátt fyrir vanheimild sína, haldið áfram undirbúningsvinnu sinni, samningaviðræðum við landeigendur, áhættumati, hönnun og endurhönnun mannvirkja vegna virkjananna, fundum með sveitarstjórnum og svo framvegis.

Fyrir liggi að samningaviðræður milli stefnanda og stefndu hafa reynst árangurslausar og Landsvirkjun vinni af miklu kappi að undirbúningi framkvæmda og áætlað að þær hefjist innan fárra mánaða.  Stefnandi sé því knúin til málssóknar og brýnt að dómur verði lagður á málið áður en framkvæmdir hefjast.

Stefndi, Landsvirkjun,                kveðst mótmæla einhliða og allsérstæðri málsatvika­lýsingu stefnanda sem hafi ákaflega lítið með efni þessa máls að gera og sé verulega gildishlaðin.

Óumdeilt sé í málinu að íslenska ríkið hafi verið þinglýstur eigandi vatnsréttinda fyrir landi Skálmholtshrauns frá því réttindin voru keypt af Títanfélaginu árið 1952 og að réttindin hafi verið skilin frá jörðinni þegar Títanfélagið seldi Guðbrandi Tómassyni jörðina árið 1931. Stefnandi hafi keypt jörðina árið 1996 með fullri vitneskju um að vatnsréttindi fylgdu ekki með í kaupinu. Málshöfðunin snúist því aðallega um það hvort eignarréttur að vatnsréttindunum hafi með einhverju móti fallið stefnanda í skaut. Málavaxtalýsing og umfjöllun um málsástæður þrautaþrautavarakröfu stefnanda sé mjög ruglingsleg og erfitt að greina milli málsatvika og málsástæðna. Of langt mál væri að rekja allar rangfærslur sem fram komi í stefnunni en stefndi telur þó nauðsynlegt að gera nokkrar athugasemdir.

Stefndi geri athugasemd við þá fullyrðingu stefnanda að Landsvirkjun hafi, án sérstaks lagaleyfis, tekið upp hugmyndir um virkjanir í Þjórsá. Stefndi bendi á að hina almennu lagaheimild til virkjana sé nú að finna í raforkulögum, nr. 65/2003, en eftir gildistöku þeirra laga þurfi ekki lengur sérstaka lagaheimild fyrir hverri virkjun. Þá hafi verið gerður samningur milli íslenska ríkisins og Landsvirkjunar um vatnsréttindi 9. maí 2007 sem sé í fullu gildi. Stefndi veki athygli á að framkvæmdir og athuganir á vatnasvæði Þjórsár, sem og allur undirbúningur að virkjunarframkvæmdum, hafi verið og séu í samræmi við hlutverk og skyldur fyrirtækisins, sbr. lög nr. 42/1983, bæði fyrir og eftir gildistöku raforkulaga 1. júlí 2003, og markmið raforkulaga og byggist að öllu leyti á gildandi lögum.

Mati á umhverfisáhrifum framkvæmdanna sé lokið og er ekki til umfjöllunar í þessu máli. Stefndi vinni að samningum við landeigendur á svæðinu í fullu umboði meðstefnda, íslenska ríkisins, sbr. framangreint samkomulag þessara aðila, þótt íslenska ríkið sé eigandi umræddra réttinda.

Loks mótmæli stefndi þeirri staðhæfingu stefnanda sem fram komi í stefnu að samningaviðræður hafi reynst árangurslausar og að áætlað sé að framkvæmdir hefjist innan fárra mánaða fyrir landi stefnanda. Staðhæfing þessi eigi sér enga stoð í raunveruleikanum og virðist eingöngu sett fram til að ná fram flýtimeðferð málsins fyrir dómstólum.

Málsástæður stefnanda og lagarök

Aðalkröfu sína styður stefnandi þeim rökum að með lögum nr. 113/1952, um lausn ítaka af jörðum, sem tóku gildi 30. desember 1952 eftir að ríkið eignaðist umrædd vatnsréttindi í landi Skálmholtshrauns, voru gefin fyrirmæli um að birtar skyldu opinberlega áskoranir til þeirra sem teldu sig eiga ítaksrétt í jörðum, þar með talin vatnsréttindi, um að lýsa þeim til viðkomandi héraðsdómara.  Ef ítaki var ekki lýst féll það sjálfkrafa úr gildi burtséð frá því hvort ítaksréttindin voru þinglýst á viðkomandi jarðir eða ekki.  Í þessu samhengi verði að líta til þess að meintum vatnsréttindum íslenska ríkisins sé þinglýst sem kvöð á landi Skálmholtshrauns.  Áskorun um lýsingu ítaksréttinda í Árnessýslu sé dags. 1. júní 1953 og hafi verið birt í Lögbirtingarblaðinu 6. júní, 10. júní og 18. júní 1953.  Íslenska ríkið hafi ekki lýst meintum vatnsréttindum sínum að Þjórsá í landi Skálmholtshrauns og hafi þau þar með fallið niður.  Skýrt fordæmi Hæstaréttar liggi fyrir þar að lútandi, sbr. hæstaréttardóm í máli nr. 92/1995, uppkveðinn 29. febrúar 1996.  Aðalkrafa stefnanda samrýmist jafnframt niðurstöðu álitsgerðar Ólafs Jóhannessonar, prófessors,  dags. 23. janúar 1963, um brottfall ítaks vegna vanlýsingar samkvæmt lögum nr. 113/1952.  Einnig er vísað til rökstuðnings fyrir öðrum kröfum stefnanda og framlagðra dómskjala.

Hefðarréttindi

Fyrir liggi að stefnandi, og fyrri eigendur Skálmholtshrauns, hafi nytjað jörðina og vatnsréttindi hennar sem sína eign frá öndverðu.  Sé varakrafa á því byggð að stefnandi hafi með eignarhaldi sínu, og eignarhaldi fyrri eigenda allt frá árinu 1931, unnið eignarrétt að vatnsréttindunum fyrir hefð, sbr. einnig norsku lög Kristjáns 5. frá  15. apríl 1687, V. bók, 5. kap., og lög nr. 46/1905 um hefð og röksemdir fyrir öðrum kröfum stefnanda.

Vangeymsla, tómlæti og vanheimild

Þrautavarakrafa stefnanda sé sérstaklega studd þeim rökum að sérleyfisheimild Títanfélagsins samkvæmt lögum nr. 26/1927 hafi ekki verið nýtt og virkjanaframkvæmdir félagsins hafi ekki farið af stað fyrir 1. júlí 1934, sbr. umfjöllun undir málavaxtalýsingu.  Augljóst sé að virkjanaáform Landsvirkjunar geti ekki náð fram að ganga án nýs sérleyfis samkvæmt lögum frá Alþingi, eins og ítarlega verði rökstutt hér á eftir.  Vilji löggjafans og tilgangur vatnalaga nr. 15/1923 endurspeglist fullkomlega í nefndum lögum nr. 26/1927, sbr. aðrar röksemdir stefnanda.  Vatnalögunum hafi beinlínís verið ætlað að koma í veg fyrir virkjanaáform Títanfélagsins sem hlutafélagið Landsvirkjun hafi heimildarlaust á prjónunum. Stefndu geti ekki byggt á heimildum sem að lögum séu niður fallnar, sbr. einnig það sem síðar verði rakið. Stefndu hafi engan reka gert að því að viðhalda réttindum sínum í tæp 80 ár og sýnt af sér slíkt tómlæti að meint vatnsréttindi þeirra verði að teljast niður fallin.  Loks sé byggt á því að Landsvirkjun sé ekki eigandi meintra vatnsréttinda ríkisins í Þjórsá og geti hvorki undirbúið framkvæmdir né ráðist í þær án lögfullra eignarheimilda.

Um þrautaþrautavarakröfu

Þrautaþrautavarakrafa stefnanda í 13 liðum byggi á framanrituðum og eftirfarandi röksemdum:

Ákvæði 7. gr. vatnalaga:

Vísað sé til þeirrar staðreyndar að meintar eignarheimildir stefndu til nýtingar á vatnsréttindum að Þjórsá í landi Skálmholtshrauns heimili ekki fyrirhugaðar og afar umfangsmiklar  virkjanaframkvæmdir við svonefnda Urriðafossvirkjun og Heiðarlón.  Hvorki íslenska ríkið né Landsvirkjun geti á grundvelli meintra eignarheimilda að vatnsréttindum að Þjórsá í landi Skálmholtshrauns og öðrum löndum sem liggja að Þjórsá  ráðist í þær virkjanaframkvæmdir sem fyrirhugaðar séu.  Réttur samkvæmt  eignarheimildum að vatnsréttindum fyrir landi Skálmholtshrauns hafi byggst og byggist á grundvallarreglum að fornu og nýju um vatn.  Geti stefndu ekki öðlast betri rétt en framseldur hafi verið með samningum um vatnsréttindi Skálmholtshrauns. Þegar umrædd vatnsréttindi hafi verið tekin undan jörðinni Skálmholtshrauni með afsali dags. 2. september 1931 hafi verið og séu í gildi ákvæði 7. gr. vatnalaga nr. 15/1923 svohljóðandi:

„Vötn öll skulu renna sem að fornu hafa runnið. 

Óheimilt er manni, nema sérstök heimild eða lagaleyfi sé til þess: 

a.  að breyta vatnsbotni, straumstefnu eða vatnsmagni, hvort sem það verður að fullu og öllu eða um ákveðinn tíma, svo og að hækka eða lækka vatnsborð.

b. að gerstífla straumvatn eða að gera mannavirki í vatni eða yfir því.

c. að veita vatni úr landi sínu í annarra land, ef tjón eða hætta er af því búin eign annars manns eða réttindum, óhæfilegar tálmanir almennri umferð eða tjón eða hætta að nokkru ráði fyrir hagsmuni ríkis eða almennings.“

Stefndu hafi hvorki aflað lagaleyfis né tekið eignarnámi þau vatnsréttindi og önnur landsréttindi sem þeir þurfi til að virkja Þjórsá í landi Skálmholtshrauns með fyrirhuguðum virkjanaáformum sem gangi langtum lengra en heimildir samkvæmt nefndu afsali, dags. 2. september 1931, og vatnalögum veiti þeim.  Í þessu samhengi sé einnig vísað til laga um raforkuver nr. 60/1981.

                 Fyrirhugaðar virkjanaframkvæmdir, Urriðafossvirkjun, Holtavirkjun og Hvammsvirkjun, með tilheyrandi lónum, stíflugörðum, fráveituskurðum innan stíflugarða með 5 til 6 rúmmetra rennsli, rennslisbreytingum í Þjórsá, námum, haugsvæðum, fokhættu úr þeim og árfarvegi Þjórsár og frá lónsbökkum, eyðileggingu og eða umfangsmiklum spjöllum á lífríki Þjórsár og mörgu fleiru, sem ítarlega sé greint frá undir málavaxtalýsingu hér að framan, gangi þvert gegn 7. gr. vatnalaga og öðrum meginreglum þeirra og þeim ákvæðum Grágásar og Jónsbókar sem tekin hafi verið óbreytt upp í vatnalögin.  Til þess að af fyrirhuguðum virkjanaáformum geti orðið þurfi sérlög frá Alþingi og eignarnám.   Verði af framkvæmdum með tilheyrandi hækkun grunnvatnsstöðu á hripleku jarðsvæði, flóðahættu og lífríkisbreytingum blasi við að jörðin Skálmholtshraun verði óbyggileg og verðlaus eða til muna verðminni og seljist ekki nema fyrir hrakvirði.  Það eitt að Heiðarlón verði að mestu leyti 3 metrum hærra yfir sjávarmáli en land Skálmholtshrauns innan stíflugarða við lónið segi allt sem segja þurfi um þá hættu sem eignum stefnanda sé búin af virkjanaáformunum. 

Álit Fossanefndarinnar

Stefnandi byggi sérstaklega á því að fyrirhugaðar virkjanaframkvæmdir fari í bága við álit meirihluta og minnihluta svonefndrar Fossanefndar, sem hafi skilað frá sér frumvörpum að núgildandi vatnalögum og fylgigögnum, sem stefnandi vísi til og geri að sínum til stuðnings framsettum kröfum.  Frumvarp annars minnihluta nefndarinnar hafi orðið að lögum en öll nefndin hafi verið sammála um að takmarka þau réttindi Títanfélagsins sem  íslenska ríkið telji sig nú ráða yfir.  Sé lögunum beinlínis ætlað að takmarka þau og koma í veg fyrir vatnsréttindabruðl og óvissu í kjölfar uppkaupa Títanfélags Einars Benediktssonar á jörðum og vatnsréttindum, meðal annars á Skálmholtshrauni árið 1917, sem íslenska ríkið leiði rétt sinn af. Í kjölfar setningar vatnalaganna frá árinu 1923 hafi verið komið í veg fyrir virkjanaáform Títanfélagsins, þau slegin af borðinu, og stefndu hafi sannarlega ekki öðlast betri rétt.  Framkvæmdaáform Landsvirkjunar leiði óhjákvæmilega til þess bruðls og óvissu sem vatnalögunum hafi verið ætlað að koma í veg fyrir og ganga þvert gegn skýrum löggjafarvilja og tilgangi vatnalaganna. Niðurstaða Fossanefndarinnar, bæði meirihluta og minnihluta, sýni glöggt að grundvallarreglan um að öll vötn skuli renna sem að fornu hafa runnið og önnur ákvæði 7. gr. vatnalaga nr. 15/1923 útiloki umrædd virkjanaáform án sérstakra laga frá Alþingi og eignarnáms.  Bannið við því að breyta farvegi vatna, vatnsbotni, straumstefnu eða vatnsmagni og vatnshæð, valda tjóni eða hættu á tjóni á eignum og réttindum annars manns og almennings hafi verið og sé fortakslaust.  Einber hætta á tjóni á eignum eða hagsmunum annars manns, óhæfilegar tálmanir almennri umferð eða tjón eða hætta að nokkru ráði fyrir hagsmuni stefnanda og almennings nægi til að brotið sé gegn 7. gr. vatnalaga.  Þessi hætta sé svo sannarlega til staðar hvað stefnanda varðar og það bæti gráu ofan á svart að stefndu hafi ekki metið hana.  Að fornu hafi brot gegn þessum meginreglum varðað skóggangssök, en að vatnalögum sektum eða fangelsi allt að 2 árum.  Það og orðalag ákvæða vatnalaga, Grágásar og Jónsbókar sýni glöggt einbeittan löggjafarvilja og að túlka verði allan hugsanlegan vafa í máli þessu stefnanda í hag. Jafnframt verði að túlka heimildir samkvæmt meintum vatnsréttindum stefndu þröngt út frá 71. gr. og 75. gr. stjórnarskrárinnar og ákvæðum vatnalaga nr. 15/1923, einkum 2. gr., 7. gr., 12. gr., 13. gr., 17. gr., 38. gr., 49. gr., 50. gr., 52. gr., 53. gr., 70. gr., 72. gr., 75. gr., 131. gr., 133. gr. og 139. gr.  Virkjanaáform stefndu, Landsvirkjunar, hf., og íslenska ríkisins sem eiganda hlutafélagsins, feli í sér brýn brot á áminnstum meginreglum og skorti stoð í lögum á sviði vatnsréttinda, orkumála, og virkjana, sbr. einnig tilvísanir undir lagarökum.  Þá hafi sérlög ekki verið sett, eins og nauðsyn beri til, eigi að verða af virkjanaáformum stefndu.  Um  frekari rök fyrir þessum sjónarmiðum vísar stefnandi til framlagðra dómsskjala.   

Afnotaréttur vatns

Grunnhugsun íslenskrar vatnalöggjafar hafi verið og sé sú að afnotaréttur að vatni fari eigi framar en samrýmanlegt sé hagsmunum annarra, sem vatnsins þurfa eða ef vatnið kunni að vinna spell á eignum þeirra eða baka þeim óhagræði.  Það eigi sannarlega við í tilviki stefnanda, sem geti hvorki, verði af fyrirhuguðum virkjanaáformunum, skipulagt, selt eða leigt sumarbústaðalóðir í Skálmholtshrauni né yrkt landið vegna fyrirséðra breytinga á grunnvatnsstöðu og flóðahættu.  Megi ljóst vera að Flóahreppur muni ekki í ljósi fyrirhugaðra skipulagsbreytinga samþykkja frístundabyggð í landi Skálmholtshrauns að baki fyrirhugaðra stíflugarða, sbr. jafnframt áskorun og áskilnað í niðurlagi stefnunnar.  Jafnframt hafi meginreglan verið sú að vatn yrði nýtt til almenningsþarfa en ekki til einsleitrar og mengandi stóriðju, eins og glöggt komi fram í álitum Fossanefndarinnar og vatnalögum.  Þannig hafi meðal annars verið talið að Sogsvirkjanirnar mundu nægja þjóðinni til langframa.  Bæði meirihluti og minnihluti svonefndrar Fossanefndar, hafi verið sammála um grundvallarregluna í Jónsbók, sbr. orðin í Llb., kap. 56:  Vötn öll skulu svá renna sem að fornu runnit hafa“.  Landeigandi hafi getað ráðið vatni meðan það var í landi hans ef farið var með það þannig að það gæti ekki orðið öðrum til meins og hafi hann orðið að fella vatnið í upprunalegan farveg áður en landareign hans sleppti.  Virkjanaáform stefndu í neðri hluta Þjórsár gangi gegn þessum meginreglum og fullnægjandi lagaleyfi, lög frá Alþingi, sem heimili virkjanirnar, séu ekki fyrir hendi og eignarnáms sé þörf verði stefndu veitt sérstakt lagaleyfi til umræddra virkjanaframkvæmda, eins og margítrekað sé í stefnu þessari.  Þessar staðreyndir einar leiði til viðurkenningar á kröfum stefnanda.  Til frekari rökstuðnings fyrir þessum sjónarmiðum stefnanda vísist til álits meiri hluta Fossanefndar, fylgiskjals B I, „Eignarréttur yfir vatni“, grein eftir Bjarna Jónsson frá Vogi.  Þar séu reifuð ákvæði Grágásar og Jónsbókar, uppsprettu vatnalaga nr. 15/1923, sem öll séu því marki brennd að stefndu geti ekki í krafti meintra eignarheimilda sinna um afnotarétt að vatni í Þjórsá virkjað í neðri hluta árinnar, þar með talin vatnsréttindi Skálmholtshrauns.  Lög um vatnsréttindi, sett eftir að Jónsbók var í lög leidd, staðfesti þessa réttarstöðu, sbr. fyrrnefnda grein, bls. 13 til 17.   Sú löggjöf, meðal annars lög nr. 65/1910, sýni það glöggt að fyrirætlanir um virkjanir snerust um að virkja einbera fallhæð og rennsli fossa og flúða og þau séu fráleitt í anda þeirra risalóna og annarra virkjanaáforma í Þjórsá sem hugur stefndu standi til.  Megi því ljóst vera að farvegi, rennsli, vatnsbotni, vatnshæð og frárennsli verði ekki breytt án lagaleyfis.

Títansamningarnir

Fyrirætlanir um virkjanir í Þjórsá á grundvelli kaupa á vatnsréttindum í ánni fyrir rúmum 90 árum, svonefndur Títansamningur, hafi sem fyrr greini verið allt aðrar og mun smærri í sniðum en virkjanaáform Landsvirkjunar. Hugmyndir kaupenda vatnsréttindanna lutu eins og áður segir einvörðungu að því að virkja fossa og flúðir í neðri hluta Þjórsár á fimm stöðum.  Það hafi hvorki hvarflað að seljendum né kaupendum vatnsréttindanna að á grundvelli þeirra yrðu byggð virkjunarlón í stíl við það sem Landsvirkjun fyrirhugar, meðal annars með Heiðarlóni, með margra metra hærri vatnsstöðu en nú sé raunin, með gríðarlegum rennslisbreytingum og samfarandi hættu í og við Þjórsá, tjóni á landareignum og öðrum augljósum spjöllum á lífríki og annarri vá.  Landsvirkjun viðurkenni beinlínis þessa hættu sem við blasi, einkum hvað laxastofninn varðar.  Sú vá sé langt um meiri en 7. gr. vatnalaga og löggjafarvilji heimili.  Til áréttingar á því að fyrirhugaðar virkjanaframkvæmdir stefndu gangi langt umfram meintar eignarheimildir þeirra yfir vatnsréttindunum sé vísað til álits meirihluta Fossanefndar bls. XLII, sem minnihlutinn hafi verið sammála um, og meðfylgjandi greinargerð Jóns Þorlákssonar, verkfræðings, „Vatnsorka á Íslandi og notkun hennar“.  Af lestri greinargerðar Jóns Þorlákssonar sé deginum ljósara að virkjanaáform Landsvirkjunar séu allt önnur og langt um umfangsmeiri en gengið hafi verið út frá við sölu vatnsréttinda landeiganda við Þjórsá.  Til frekari rökstuðnings sé jafnframt vísað til greinar Einars Arnórssonar, „Um vatnsréttindi“ sem einnig sé fylgiskjal með áliti Fossanefndarinnar.  Þar komi meðal annars fram á bls. 5 og 25 að meðferð vatnsréttinda verði að vera öðrum bagalaus, megi ekki spilla eignum annarra, eins og ljóst sé að verði með landareign stefnanda ef af virkjanaáformum í neðri hluta Þjórsár verði. Einnig sé í þessu samhengi vísað til doktorsritgerðar Gauks Jörundssonar, „Um eignarnám“, útgefin í Reykjavík árið 1969, bls. 172 til 176, og til rits Ólafs Lárussonar, „Eignarréttur“, útgefið í Reykjavík árið 1950, bls. 47 til 51.  Þær skorður sem núgildandi vatnalög setji stefndu komi í veg fyrir fyrirhuguð virkjanaáform.  Hér skuli og áréttað að vegna ákvæða stjórnarskrárinnar um friðhelgi eignarréttar og atvinnufrelsi sé það grundvallar túlkunaratriði að einungis hafi verið látin af hendi með svonefndum Títansamningum vatnsréttindi í Þjórá til virkjanaáforma sem uppi hafi verið þegar þeir samningar voru gerðir en ekki til þeirra umfangsmiklu og allt annarra og meiri framkvæmda sem felist í virkjanaáformum Landsvirkjunar í dag.  Hér skipti öllu að skoða og skilgreina hvað fólst í vatnsréttindum Skálmholtshrauns þegar þau voru aðskilin frá jörðinni árið 1931.  Sérstaks lagaleyfis og síðan eignarnáms sé þörf hvernig sem á málið sé litið takist ekki samningar við landeigendur.  Þar fyrir utan sé því haldið fram í málinu að skilyrðum eignarnáms um almenningsþörf og fleira sé ekki fullnægt og að eignarnám í þágu einstakra fyrirtækja og einberra hagsmuna þeirra sé aldrei heimilt, sbr. einnig grein Atla Gíslasonar, hrl., þar að lútandi, sem sé meðal dómsskjala. Með vísun til alls framanritaðs verði einnig að telja að forsendur fyrrnefnds afsals, dags. 2. september 1931, séu brostnar, sbr. einnig fyrrnefnd lög nr. 26/1927.  Sérstaklega sé vísað til þess að samningsákvæði um greiðslur fyrir land Skálmholtshrauns samkvæmt afsali, dags. 2. september 1931, og önnur ákvæði afsalsins hafi byggst á því að virkjanaframkvæmdum, samkvæmt lagasérleyfi Títanfélagsins, yrði lokið fyrir 1. júlí 1934, standist ekki í dag.

Vatnalöggjöf að fornu og nýju

Við úrlausn þessa máls verði einnig að líta til laga settra á sviði vatnsréttinda  eftir gildistöku Jónsbókar.  Hvorki þau lög né önnur veiti stefndu þær heimildir sem fyrirhugaðar virkjanaframkvæmdir í Þjórsá feli í sér.  Stefnandi rökstyður kröfur sínar jafnframt með tilvísun til samantektar í niðurlagi meirihluta álits Fossanefndarinnar, „Íslenskir lagastafir um vatnsrjettindi að fornu og nýju“, bls. 98 til 110.  Þar séu tilgreind lagaákvæði sem komi í veg fyrir virkjanaáform stefndu í Þjórsá.  Áréttar stefnandi tilvísanir í samantektinni til ákvæða Grágásar um að vötn skuli falla til bólstaða allra og um stíflur, einkum töluliðir 3, 5, 6, og 7, til Jónsbókar, töluliðir 3, 5, 8 og 9 og tilvísun í lög nr. 65/1913 um vatnsveitingar, einkum 1. gr.  Allar þessar réttarheimildir staðfesti að stefndu skortir eignarheimildir og lagaleyfi til áformaðra virkjana í Þjórsá. Hvorki Grágás, Jónsbók, lög um vatnsréttindi sett um og eftir aldamótin 1900 né núgildandi vatnalög hafi veitt landeigendum við Þjórsá rétt til að selja vatnsréttindi sem heimili stefndu þær umfangsmiklu framkvæmdir sem séu áformaðar.  Hér sé um vanheimild er að ræða.  Á því er jafnframt byggt að fyrirætlanir Landsvirkjunar brjóti í bága við ákvæði  71. gr. og 75 gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi eignarréttar stefnanda og atvinnuréttindi stefnanda. 

Álit minnihluta Fossanefndarinnar 

Stefnandi ítrekar jafnframt tilvísanir til álita minnihluta svonefndrar Fossanefndar, þeirra Sveins Ólafssonar annars vegar og Guðmundar Eggerz hins vegar, en frumvarp samið af Sveini Ólafssyni hafi orðið að núgildandi vatnalögum nr. 15/1923.  Áform Landsvirkjunar og orkusala frá fyrirhuguðum virkjunum gangi allsendis gegn álitum minnihlutans, sbr. bls. VI. til XI.  Einnig er vísað til athugasemda við 7. gr. frumvarps annars minnihlutans um að vötn öll skuli renna sem að fornu runnið hafa, bls. 2 og 34.  Þá er vísað til fylgigreinar annars minnihluta álitsins, „Sala orkuvatna og greining þeirra um landið“ eftir nefndarmanninn Svein Ólafsson, bls. 45 til 73.  Sérstaklega er vísað til ályktarorða á bls. 73 og ummæla um að forsendan sé að virkjað skuli í þágu þarfa almennings.  Sú sé engan veginn raunin í þessu máli.  Bæði álit meiri- og minnihluta Fossanefndarinnar staðfesti meginmálsástæður stefnanda og er vísað til álitanna og fylgiskjala þeirra í heild sinni til rökstuðnings fyrir kröfum stefnanda.

Mannréttindi umhverfisréttar

Stefnandi byggir kröfur sínar enn fremur á því að virkjanaáform Landsvirkjunar í neðri hluta Þjórsár stríði gegn tilgangi og meginreglum umhverfisréttar íslenskra laga, tilskipunum EB og alþjóðasamningum um umhverfismál og mat á umhverfisáhrifum framkvæmda.  Samkvæmt lögum nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, fylgiskjali I, inngangi, hafi íslenska ríkið skuldbundið sig til að varðveita, vernda og bæta umhverfið og sjá til þess að náttúruauðlindir séu nýttar af varúð og skynsemi, einkum á grundvelli meginreglunnar um sjálfbæra þróun, og þeirrar meginreglu að grípa skuli til varúðarráðstafana og fyrirbyggjandi aðgerða, sbr. einnig 73. gr. fylgiskjalsins.  Rauði þráðurinn í þessum skuldbindingum sé að náttúran og umhverfið njóti vafans en ekki Landsvirkjun og stóriðja.  Fyrirhugaðar virkjanaframkvæmdir gangi á skjön við þessar meginreglur.  Nægi hér að nefna að Urriðafoss, vatnsmesti foss Íslands,  Búðafoss, aðrir fossar og flúðir, eyjar og hólmar og aðrar náttúruperlur í og við Þjórsá verði eyðilagðar með óafturkræfum hætti.  Laxastofn árinnar og annað lífríki séu sett í dauðans óvissu.    Grunnvatnsstaða í landi stefnanda og  fjölda jarða í aðliggjandi sveitarfélögum muni óhjákvæmilega hækka og gera fjölda jarða lítt byggilegar eða óbyggilegar, verðlausar eða verðlitlar.  Það hafi sýnt sig í flóðum í Þjórsá að lækir og dý allt niður að Hvítá sunnan Vörðufells litist af jökulvatni frá Þjórsá og brunnar fyllist.

 Flóðahætta frá Heiðarlóni, á svonefndum Hreppafleka, þar sem jarðvegur er mjög gljúpur og landið þverskorið af afar djúpum sprungum, skapi alvarlega hættu.  Suðurlandsjarðskjálftar, sem upptök eiga á svæðinu, valdi óhjákvæmilega stórhættu og alkunna sé að í jarðskjálftunum árið 2000 hljóp vatn úr Þjórsá eftir sprungum og eyðilagði tún í nágrenni árinnar. Greinargerð Páls Einarssonar, jarðeðlisfræðings, og fleiri staðfesti þessa stórfelldu vá.  Þá muni virkjanirnar óhjákvæmilega raska framburði Þjórsár og spilla lífríki og hrygningar- og uppeldisstöðvum þorsks við og utan árósa Þjórsár.  Allt þetta og margt fleira brjóti í bága við fyrrnefndar meginreglur.  Í þessu samhengi sé enn fremur vísað til 1. gr. skipulagslaga nr. 73/1997 og 1. gr. laga um náttúruvernd nr. 44/1999, sbr. einnig lagatilvísanir í niðurlagi stefnu.  Með virkjanaáformum Landsvirkjunar sé tekin veruleg áhætta í bága 7. gr. vatnalaga og annarra nefndra lagaheimilda og náttúran ekki látin njóta vafans samkvæmt mannréttindaákvæðum umhverfisréttar. 

Liðkað fyrir skipulagi

Byggt er á því að Landsvirkjun hafi með samningum við Flóahrepp um fjárframlög til að ná fram skipulagsbreytingu í sveitarfélaginu í þágu fyrirtækisins og með því að taka að sér samfélagsleg verkefni fyrir  sveitarfélagið gert sveitarfélagið vanhæft til ákvarðana og kippt grundvelli undan lögmæti fyrirhugaðra virkjanaframkvæmda, framkvæmdaleyfis,  skipulagsbreytinga og annarra tilskildra leyfa sem nauðsynleg séu vegna virkjanaáformanna.  Þá hafi verið brotið gegn öðrum reglum stjórnsýslulaga, svo sem um andmæla- og upplýsingarétt, reglum um rökstuðning o.fl.  Háttsemi Landsvirkjunar og stjórnsýsla Flóahrepps sé að engu hafandi og geti ekki skuldbundið stefnanda til fyrirhugaðra virkjanaáforma. Telji stefnandi að lýðræðisleg og lögbundin réttindi íbúa sveitarfélagsins til andmæla, athugasemda og fleira hafi fyrirfram verið tekin úr sambandi.  Yfir þessari háttsemi hafi verið kvartað til Umboðsmanns Alþingis og samgönguráðuneytisins, eins og framlögð dómsskjöl beri með sér.  Sé vísað til umræddra skjala til frekri rökstuðnings. 

Breytt og ný framkvæmdaáform

                Byggt sé á því að umhverfismat hafi ekki farið fram á þeim breytingum sem orðið hafa á framkvæmdaáformum Landsvirkjunar frá því að umhverfismat var gert árið 2003.  Um þennan þátt málsins sé sérstaklega vísað til málavaxtalýsingar, greinargerða Ragnhildar Sigurðardóttur og Jóns Árna Vignissonar og annarra framlagðra gagna.  Liggi fyrir að þegar umhverfismat fór fram hafi hönnun framkvæmda ekki verið lokið og upplýsingar hafi ekki verið tiltækar fyrir stefnanda og almenning um eðli og umfang framkvæmdanna, sem síðan hafi tekið umtalsverðum breytingum.  Til að mynda hafi verið ákveðið að opna nýjar námur, setja upp ný haugstæði, byggja nýja stíflugarða, svo sem við Herriðarhól í Ásahreppi, og breyta öðrum og fleiri breytingar séu á teikniborði Landsvirkjunar.  Þá hafi ekki verið lagt mat á þau verðmæti sem felist í náttúruperlum í og við Þjórsá, lífríki og landi sem óhjákvæmilega verði spillt. Þá hafi hætta á grunnvatnsbreytingum ekki verið metin, hætta á flóði frá Þjórsá yfir í Hvítá, hætta á stíflu- og stíflugarðarofi vegna jarðskjálfta og margir aðrir áhættuþættir. Verði stefnanda ekki gert að þola fyrirhugaðar virkjanaframkvæmdir og eignaspjöll í og fyrir landi sínu nema nýtt lögformlegt umhverfismat fari fram og þá sérstaklega á þeim breytingum sem framkvæmdaáform Landsvirkjunar hafi tekið frá því að umhverfismat lá endanlega fyrir.  Þá sé fyrirliggjandi umhverfismat haldið slíkum ágöllum að fyrirhugaðar skerðingar á friðhelgi eignarréttar stefnanda feli í sér stjórnarskrárbrot.    

Lagarök

Helstu lagarök stefnanda eru eftirfarandi:

Lög nr. 113/1952 um lausn ítaka af jörðum, einkum 1., gr., 4. gr. og 5. gr.

Þingsályktun um athugun á framkvæmd laga nr. 113/1952 um lausn ítaka af jörðum samþykkt af Alþingi 10. apríl 1963.

Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, 72. gr. og 75. gr.

Vatnalög nr. 15/1923 og ákvæði Grágásar og Jónsbókar, sbr. tilvísanir undir umfjöllun um málsástæður.

Lög nr. 26/1927 um heimild til að veita sérleyfi til að virkja Urriðafoss o.fl.

Lög nr. 48/1926 um heimild til að veita sérleyfi til að virkja Dynjandafoss o.fl.

Lög nr. 106/2000 og reglugerð nr. 671/2000 um mat á umhverfisáhrifum, einkum 1. gr., 5. gr., 6. gr. og 18. gr. laganna og viðaukar með þeim.

Lög nr. 105/2000 um umhverfismat áætlana, einkum 1. gr. og 7. gr.

Lög nr. 44/1999 um náttúruvernd, einkum 1. gr., 33. gr., 34. gr., 37. gr. til 39. gr., 45. gr. 46. gr., 75. gr. og 77. gr.

Skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997, einkum 1. gr., 9. gr., 16. gr. til 18. gr., 21. gr. og 27. gr.

Lög nr. 17/1965 um landgræðslu, einkum 1. gr., 17. gr. og 18. gr.

Lög nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og dýrum, einkum 2. gr. og 6. gr.

Lög nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, fylgiskjal I, inngangur og 73. gr. samningsins.

Lög nr. 21/1993 um upplýsingamiðlun og aðgang að upplýsingum um umhverfismál, einkum 1. gr., 3. gr. og 5. gr.

Lög nr. 23/2006 um upplýsingarétt um umhverfismál, einkum 1. gr. og II. kafli.

Raforkulög nr. 65/2003, einkum 1. gr., 4. gr., 5. gr. og 21. gr. til 23. gr.

Sveitarstjórnarlög nr. 45/1998, einkum 9. gr. og 19. gr.

Stjórnsýslulög nr. 37/1993, einkum 1. gr., 3. gr., 4. gr., 10. gr., 11. gr., 13. gr. og 15. gr.

Upplýsingalög nr. 50/1996, einkum 3. gr. og, 10. gr.

Lög nr. 91/1991 um meðferð einkamála, XXI. kafli um málskostnað.

Tilskipun Evrópusambandsins 85/377EBE um mat á áhrifum tiltekinna framkvæmda á vegum hins opinbera eða einkaaðila á umhverfið, einkum inngangur, 3. gr., 5. gr. og 2. mgr. og 3. mgr. 6. gr.

Tilskipun Evrópusambandsins 97/11EB um breytingu á tilskipun 85/377/EBE, einkum 1. og 2. tl. inngangs og 5. tl., 6. tl., 7. tl., 8. tl, og 11. tl. 1. gr.

Tilskipun Evrópusambandsins 90/313EBE um frjálsan aðgang að upplýsingum um umhverfismál, einkum inngangur, 1. gr. til 4. gr. og 6. gr.

Rammasamningurinn um votlendi sem hafi alþjóðlegt gildi, einkum fyrir fuglalíf, sem Ísland gerðist aðili að 2. apríl 1978, einkum inngangur, 2. gr., 3. gr. og 4. gr.

Ríóyfirlýsingin um umhverfi og þróun frá júní 1992, einkum varúðarreglan nr. 15, regla nr. 16 um mengunarbætur frá þeim sem veldur skaða og regla nr. 17 um mat á umhverfisáhrifum.  Einnig reglur nr. 1 og nr. 8 um sjálfbæra þróun.

Samningurinn um líffræðilega fjölbreytni, Ríó de Janeiro 1992, sem Ísland gerðist aðili að 11. desember 1994, einkum inngangur, 1. gr., 8. gr., 10. gr. og 14. gr.

Bernarsamningur um verndun villtra dýra og plantna og búsvæða þeirra í Evrópu, sem öðlaðist gildi hér á landi 1. október 1993, einkum inngangur 1. gr. og 4. gr.

Árósarsamningurinn um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum, undirritaður af Íslands hálfu 25. júní 1998, einkum inngangur, 1. gr., 3. gr., 4. gr., 5. gr., 6. gr., 7. gr. og 9. gr.

Hrd.1988:1532, dómur Hæstaréttar uppkveðinn 29. febrúar 1996 í svonefndu Blikdalsmáli nr. 92/1995, dómur Hæstaréttar frá 23. maí 2001 í máli nr. 2/2001 og dómur Hæstaréttar frá 9. júní 2003 í máli nr. 20/2005.

Að öðru leyti sé vísað til umfjöllunar um lagarök undir lýsingu málavaxta og málsástæðna. 

Málsástæður og lagarök stefnda, Landsvirkjunar

A. Aðalkrafa – sýkna af aðalkröfu, varakröfu og þrautavarakröfu stefnanda

1. Aðalkrafa stefnanda

Stefnandi krefst þess aðallega að viðurkennt verði með dómi að vatnsréttindi íslenska ríkisins að Þjórsá í landi Skálmholtshrauns sem byggjast á samningi, dags. 8. júní 1951, og afsali, dags. 2. september 1931, séu niður fallin fyrir vanlýsingu samkvæmt ákvæðum laga nr. 113/1952, um lausn ítaka af jörðum (hér einnig nefnd ítakslög). Stefndi krefst sýknu af þessari kröfu og hafnar því alfarið að vatnsréttindi íslenska ríkisins geti talist til ítaksréttinda í skilningi þessara laga eða fallið undir gildissvið þeirra að öðru leyti og kveðst gera alvarlegar athugasemdir við framsetningu stefnanda á bls. 7 í stefnu þar sem fullyrt sé hiklaust, eins og það komi orðrétt fram í lagatextanum sjálfum, að vatnsréttindi falli beint undir nefnt lagaákvæði.

a. Vatnsréttindi teljast ekki til ítaksréttinda skv. lögum nr. 113/1952

Stefndi byggir á þeirri málsástæðu að vatnsréttindi, sbr. 16. og 49. gr. vatnalaga, nr. 15/1923, falli ekki undir gildissvið laga nr. 113/1952.

Í eignarrétti hafi beinn eignarréttur verið skilgreindur með neikvæðum hætti þannig að hann sé einkaréttur ákveðins aðila, eigandans, til hvers konar umráða og ráðstafana yfir tilteknum líkamlegum verðmætum, innan þeirra takmarka sem þessum rétti séu sett í lögum og af takmörkuðum eignarréttindum. Takmörkuðum (óbeinum) eignarréttindum séu aftur á móti mörk sett með jákvæðum hætti gagnvart öðrum rétthöfum, sérstaklega þeim aðila, sem verði eftir sem áður talinn eiga eignarrétt (Gaukur Jörundsson, Um eignarnám, 1969 bls. 59-60). Takmörkuð (óbein) eignarréttindi veiti rétthafanum aðeins tiltekin not eða umráð hlutarins sem lýsi sér í takmörkun á hinum víðtækari rétti eigandans og til takmarkaðra eignarréttinda teljist m.a. afnotaréttindi, ítök, veð og haldsréttur (Ólafur Lárusson, Eignaréttur 1950, bls. 7). Óbeins eignarréttar geti handhafinn aðeins notið í skjóli eiganda hins beina eignarréttar, því óbeinu eignarréttindin verði aðeins talin hluti hans (sama rit bls. 14). Ef hluti hins beina eignarréttar hafi verið skilinn varanlega frá eign með lögum eða samningi sé eðli máls samkvæmt ekki lengur um óbein eignarréttindi að ræða, þeirra verður notið sjálfstætt.

Þá hafi í eignarrétti verið byggt á því að unnt sé að stofna til ýmiskonar afnotaréttinda yfir fasteignum og fari það eftir efni þeirra hvers eðlis þau séu. Til slíkra réttinda megi m.a. telja veðsetningu, afnotaréttindi, leiguréttindi, ítök, ískyldur, ítölu, kvaðir o.s.frv. Þannig sé fráleitt að álykta, og ekki í samræmi við viðurkennd sjónarmið í eignarrétti, að öll óbein eignarréttindi að jörðum teljist ítaksréttindi í skilningi laga. Ítök séu einungis ein afmörkuð tegund afnotaréttinda sem unnt sé að stofna yfir fasteign en í þeim felist mjög afmarkaðar og þröngar heimildir til tiltekinna afnota af jörð annars manns. Fjölmargar kvaðir hvíli á fasteignum og jörðum án þess að um ítök sé að ræða s.s. vegna vega og girðinga, án þess að unnt sé að segja að rétthafinn eigi ítak í viðkomandi jarðir. Jafnvel þótt túlkun á hugtakinu ítak sé rýmkuð og það talið ná til hvers konar kvaða sem hvíla á fasteignum, sé ljóst að gildissvið laga nr. 113/1952 sé mun þrengra og bundið við ákveðna tegund ítaka.

Við setningu vatnalaga, nr. 15/1923, hafi vísvitandi verið látið liggja milli hluta, hvaða nafni réttur landeiganda yfir vatni væri nefndur, hvort hann skyldi talinn eignarréttur í lagamerkingu eða einhverju öðru nafni nefndur. Lögfræðinni hafi verið látið  eftir að svara því. Hafi verið látið nægja að ákveða að landareign fylgdi réttur til að hagnýta sér vatn, sem á henni lá, innan þeirra takmarka sem lög, venjur eða aðrar heimildir hefðu í för með sér. Með 2. gr. vatnalaga hafi því verið ákveðið að vatnsréttindi fylgdu landinu eða eignarrétti að því, nema þau væru sérstaklega frá skilin (Alþt. 1921, A, bls. 180, þskj. 19).

Vatnsréttindi hafi verið skilgreind sem rétturinn til að nytja grunnvatn, vatnsfall eða stöðuvatn. Í 1. mgr. 16. gr. vatnalaga, nr. 15/1923, komi fram að séu vatnsréttindi látin af hendi án þess að eignarréttur að landi sé jafnframt látinn, fari eftir reglum um landkaup. Af þessu leiði að vatnsréttindi önnur en þau sem fram komi í 15. gr. vatnalaga verði varanlega skilin frá eignarrétti að fasteign. Séu vatnsréttindi skilin frá fasteign teljist þau ekki lengur sem hluti hennar og þar með ekki takmörkuð eignarréttindi, heldur sjálfstætt andlag beins eignarréttar. Mikilvægur hluti vatnsréttinda, og sá sem fjallað sé um í þessu máli, sé orkunýtingarrétturinn, sbr. 49. gr. vatnalaga, nr. 15/1923.

Í 1. gr. laga nr. 113/1952 segi að ítak merki hvers konar afnot fasteignar, sem eigi séu samfara vörslum hennar eða þess hluta hennar, sem afnotin taki til, enda sé réttur til afnotanna byggður á heimild einkaréttareðlis. Í athugasemdum við þessa grein sem fylgdu frumvarpi að lögunum (Alþt. 1952, A-deild, bls. 512, þskj. 189) hafi komið fram að fylgt væri hinni venjulegu fræðilegu skýringu á ítaki. Í hinum almennum athugasemdum með frumvarpinu komi fram að flest ítök í jarðir hér á landi séu alda gömul og þau séu ítakshafanum að litlu eða engu gagni. Í skýringum með 4. og 5. gr. frumvarpsins sé tekið fram að stefnt sé að því að hreinsa jarðir af ítökum sem hætt sé að nota og að slík hreinsun sé æskileg. Tilgangur laganna hafi því augljóslega verið að losa eigendur jarða úr viðjum aldagamalla og úreltra búskaparhátta með því losa þá undan oft á tíðum óljósum ítökum í jarðir þeirra er misst höfðu í raun alla fjárhagslega þýðingu. Með engu öðru móti gætu lögin talist samræmast ákvæðum þá 67. gr. stjórnarskrárinnar, nr. 33/1944, nú 72. gr. hennar.

Þá beri að túlka vísun 1. gr. laganna til „heimildar einkaréttareðlis“ með þeim hætti að ítak falli ekki undir gildissvið laganna, ef um það er fjallað í öðrum lögum. Í athugasemdum við 1. gr. laganna segir um þetta: Að þess er getið sérstaklega, að afnotarétturinn skuli byggður á heimild einkaréttareðlis, er gert til að taka af allan vafa um það, að lögin taki eigi til afnota, sem almennar reglur laganna leyfa. Vísan til almennra reglna laganna sé vísan til annarra laga almennt, þ.e.a.s. sé kveðið á um afnot í öðrum lögum sé lögum nr. 113/1952 ekki ætlað að ná til þeirra. Í athugasemdum við 3. gr. laganna segi að ekki þyki ástæða til að hagga við ákvæðum laga um lausn ítaka sem þar greini. Í skýringum með 4. og 5. gr. komi svo fram að með ákvæðum þessum sé stefnt að því að fá fullkomið yfirlit yfir ítök þau sem talin séu vera í jarðir í landinu. Ljóst sé að helstu heimildir séu landamerkjaskrár og önnur „jarðaskjöl“, þ.e.a.s. heimildir einkaréttareðlis en ekki einkaréttarlegir samningar sem byggist á ákvæðum almennra laga, sbr. t.d. Hrd. 92/1995, eða almenn lög hafa verið sett um, eins og t.d. vatnsréttindi, sbr. lög nr. 15/1923. Við lestur almennra athugasemda með frumvarpinu verði þessi skilningur vafalaus en þar segir m.a.: Það er og bannað með lögum að skilja sum hlunnindi, sem fasteign fylgja, frá henni, ..., rétt til vatns, sem á fasteign er, til heimilis- eða búsþarfa, eða jarðræktar á henni, sbr. l. nr. 15 20. júní 1923, ... og ber þetta allt vott um þá stefnu löggjafans að tryggja það, að eðlileg gæði fasteigna fylgi þeim sjálfum og séu nytjuð í sambandi við notkun þeirra. Heimild sú, sem frumvarp þetta veitir til lausnar ítaka af jörðum, er spor í þessa sömu átt. Með öðrum orðum sé lögunum á engan hátt ætlað að hrófla við öðrum gildandi lögum um fasteignaréttindi, s.s. ákvæðum vatnalaga.

Það hafi því ekki verið takmark löggjafans að færa fram nýja víðtækari skilgreiningu á ítakshugtakinu en í gildi hafði verið. Hvergi sé í lögunum tekið fram að þau nái til vatnsréttinda, líkt og haldið er fram í upphafi málsástæðna stefnanda og sé þeirri fullyrðingu mótmælt sem rangri. Gildissvið laganna sé takmarkað og vegna hins sérstaka eðlis þeirra beri að túlka það þröngt þannig að það nái einvörðungu til ákveðinna ítaka er tengjast hefðbundnum landbúnaðarnotum fyrri tíma. Stefndi telur að vatnsréttindi hafi ekki verið talin til ítaka samkvæmt venjulegri fræðilegri skilgreiningu á þeim tíma er lögin voru samþykkt og að beinn eignarréttur að fasteignaréttindum, eins og vatnsréttindum, sem löglega hafa verið skilin frá jörðum, geti eftir það ekki talist ítök í skilningi laga.

Setning laga um ítök hafi átt sér talsverðan aðdraganda. Það mál hafi fyrst verið vakið á Alþingi 1949, er frumvarp til laga um rétt manna til kaupa á ítökum var flutt, sbr. Alþt. 1949, A, þskj. 409. Við meðferð málsins á Alþingi það ár hafi frumvarpinu verið breytt á þá lund að við var bætt skilgreiningu á ítakshugtakinu, sbr. breytingartillögu Páls Zóphóníassonar þáverandi búnaðarmálastjóra við frumvarpið, Alþt. 1949, A, þskj. 637, en hún hljóðaði svo:

Það kallast ítak í lögum þessum, er jörð á land eða rétt til landsnytja, svo sem slægna, beitar, svarðartekju, torfristu, laxveiði, silungsveiði, reka alls konar, grasatekju, sölvafjöru, eggjatöku eða annars utan landamerkja sinna, en innan landamerkja annarra jarðar eða fyrir landi hennar. Ítak telst einnig nytjaréttur, er kirkjur eiga utan heimajarðar kirknanna.

Á Alþingi urðu nokkrar umræður um hvort upptalningin væri tæmandi og í kjölfar athugunar lagði flutningsmaður fram breytingartillögu við 1. gr. frumvarpsins þar sem lagt var til að í stað orðanna „sölvafjöru, eggjatöku eða annars“ kæmi: eggjatekju, fuglatekju, sölvafjöru, maríukjarnafjöru og hvers konar annarra ítaka“. Í umræðum um þetta atriði á Alþingi hafi komið fram að nú væri nánast um tæmandi upptalningu að ræða eftir að breytingartillagan kom fram. Hefðu vatnsréttindin talist til ítaka megi þykja öruggt að þau hefðu komið fyrr upp í huga framsögumanns breytingartillögunnar og orðið tilefni umræðna, en t.a.m. ítök í maríukjarna, sem séu brúnþörungar sem vaxi í sjó niður á allt að 20-30 m dýpi.

Hið endanlega frumvarp sem lagt hafi verið fram árið 1952 hafi m.a. verið samið af sama flutningsmanni og hafði áður flutt það. Í greinargerð sem fylgdi frumvarpinu hafi ekki verið vikið að ítakshugtakinu að öðru leyti en áður sé verið fjallað um. Enginn vafi leiki á að á þeim rúmu tveimur árum sem liðu, á milli þess að framangreind breytingartillaga var lögð fram og þess að endanlegt frumvarp var samþykkt, hafi ekki orðið kúvending á þeirri venjulegu skilgreiningu sem þar sé lögð til grundvallar.

Ljóst sé að orðalag 1. gr. ítakslaganna sé alltof rúmt ef það sé túlkað samkvæmt þeirri víðtæku skýringu sem stefnandi leggi til grundvallar og mundi þannig nánast ná til hvers konar afnotaréttinda sem stofnað sé til yfir jörðum. Af forsögu ákvæðisins, sem rakin hafi verið hér að framan, sé ljóst að vilji löggjafans hafi ekki staðið til að fella öll óbein eignarréttindi að jörðum undir hugakið ítak. Þvert á móti verði að draga þá ályktun að löggjafinn hafi haft í huga hinn hefðbundna skilning á þessari tegund óbeinna eignarréttinda, þ.e. þau sem almennt höfðu tíðkast innan landbúnaðarins s.s. beit, slægjur, eggjataka, reki o.þ.h.

Áður sé minnst á að lögin hafi mikla sérstöðu er komi að túlkun þeirra gagnvart 72. gr. stjórnarskrárinnar. Væntanlega hafi ekki verið talið að ákvæði laganna hefðu í för með sér bótalausa eignaupptöku þar sem þeim hafi, eins og áður segi, verið beint að hefðbundnum ítökum jarða í aðrar jarðir sem í flestum tilfellum höfðu misst gildi sitt og fjárhagslega þýðingu. Beri af framangreindum ástæðum að túlka ákvæði laganna þröngt og öndvert við það sem stefnandi haldi fram.

Réttur sá sem ítaki fylgi sé bundinn við tiltekna fasteign. Því til staðfestingar megi vísa til 1.-2. málsl. 1. mgr. 2. gr. laga um landamerki o.fl., nr. 41/1919, en þar segi:

Eigandi lands eða fyrirsvarsmaður skal gera glöggva skrá um landamerki, eins og hann veit þau réttust. Skal þar og getið ítaka og hlunninda í land það, svo og þeirra ítaka og hlunninda, er því landi fylgja í lönd annarra manna.

Minnt sé á framangreinda skilgreiningu á ítaki við meðferð málsins á Alþingi en þar segi: (Altþ. A, 1949, þskj. 637): 

Það kallast ítak í lögum þessum, er jörð á land eða rétt til landsnytja ... utan landamerkja sinna, en innan landamerkja annarra jarðar eða fyrir landi hennar.

Hin hefðbundnu ítök sem lögin ná til byggist þannig fyrst og fremst á einhliða viðurkenningu ítaksþola en ekki tvíhliða samningum líkt og framsal vatnsréttinda eða þegar þau eru undanskilin við sölu jarða. Vatnsréttindi við Skálmholtshraun séu þinglýst eign íslenska ríkisins og hafi verið það bæði fyrir og eftir gildistöku ítakslaganna. Vatnsréttindunum hafi verið haldið eftir við sölu jarðarinnar árið 1931 og hafi aldrei verið eign þeirra sem stefnandi leiði rétt sinn frá. Hins vegar hafi þau verið keypt af íslenska ríkinu árið 1951 með heimild í lögum, sbr. síðar, og geti þegar af þeirri ástæðu ekki talist til ítaksréttinda.

Kaup íslenska ríkisins á vatnsréttindum Títanfélagsins hafi ekki verið tilviljun háð eða gerð með skammtímasjónarmið í huga. Þvert á móti hafi þau byggst á vandlegum undirbúningi svonefndrar Þjórsárnefndar, sem hafi skilað skýrslu árið 1949, og voru í fullu í samræmi við bæði ákvæði þágildandi raforkulaga, nr. 12/1946, og fjárlög fyrir árið 1952. Allar fullyrðingar stefnanda um vangeymslu, tómlæti eða hefð vegna þessara réttinda séu því úr lausi lofti gripnar og sé mótmælt sem röngum og ósönnuðum. Þá hafi hugsanlegur ómöguleiki Títan-félagsins á nýtingu réttindanna ekki hindrað kaupin og því síður hafi sú staða verið uppi að eignarréttur félagsins væri ekki gildur á einhvern hátt. Slíkt hafi ekki verið dregið í efa. Öðru nær. Viðurkennt hafi verið að Títan-félagið hefði eignast vatnsréttindi í Þjórsá með lögmætum hætti og að eignarheimildir þess að réttindunum væru í lagi, sbr. nánar skýrslu Þjórsárnefndar, I. kafli, sbr. dskj. 39.

Samkvæmt lögum nr. 102/1951, fjárlög fyrir árið 1952, hafi 1.570.000 krónur verið veittar til kaupa á vatnsréttindum Títan hf. Við 1. umræðu um fjárlagafrumvarpið á Alþingi síðari hluta árs 1951 hafi fjármálaráðherra, Eysteinn Jónsson, gert grein fyrir í framsöguræðu sinni að gert væri ráð fyrir fjárveitingu vegna kaupa á réttindum Títanfélagsins, sbr. eftirfarandi: „[S]ett er inn fjárveiting til kaupa á vatnsréttindum í Þjórsá, 1570 þús. kr. Íslendingar verða að eiga vatnsréttindi sín sjálfir, og hafa tekizt samningar við erlenda eigendur þessara réttinda um sölu á þeim fyrir þetta verð.“   Enginn þingmaður hafi gert þessa tillögu að umfjöllunarefni við umræðuna eða síðari umræður um fjárlagafrumvarpið og því rökrétt að álykta að einhugur hafi ríkt um hana.

Ljóst sé því að farið var með vatnsréttindin sem bein eignarréttindi í eigu Títanfélagsins og með kaupsamningi hafi íslenska ríkið eignast beinan eignarrétt að þessum réttindum og þar að auki aðrar þær heimildir til nýtingar þeirra sem samningar Títan-félagsins kváðu á um, t.d. kauprétt að ótakmörkuðu landi úr jörð stefnanda sem enn sé í fullu gildi, kjósi meðstefndi, íslenska ríkið, að nýta hann.

Ákvörðun um kaupin hafi byggst á vinnu Þjórsárnefndar undir forustu raforkumálastjóra sem hafi haft hlutverk og skyldur samkvæmt 49. gr. raforkulaga, nr. 12/1946, en 2. mgr. hafi verið svohljóðandi: „Raforkumálastjóri gerir tillögur til ríkisstjórnarinnar um kaup á vatnsréttindum og jarðhitasvæðum sem hann telur nauðsynlegt eða hagkvæmt að ríkið eignist.“

Alþingi og ríkisstjórn Íslands hafi því verið fullkunnugt um eðli og tilvist réttindanna og alltaf hafi legið ljóst fyrir að ríkið væri að kaupa beinan eignarrétt að réttindunum en ekki væri verið að stofna ítak í jarðir. Skýrt komi fram að réttindin höfðu verið í eigu útlendinga og nauðsynlegt þótti að tryggja Íslendingum yfirráð þeirra. Kaup á réttindunum hafa vegið þungt í útgjaldalið ríkisins á niðurskurðartímum eða um 0,45% af heildarútgjöldum ríkisins það árið. Ljóst sé að samningar Títanfélagsins við landeigendur og eiganda Skálmholtshrauns hafi verið byggðir á beinum eignarétti en ekki stofnun einhvers konar ítaks.

Þá verði einnig að líta til þess að miðað við ákvæði 1. gr. þágildandi raforkulaga nr. 12/1946, þess eðlis að ríkinu einu væri heimilt að reisa og reka raforkuver sem væru stærri en 100 hestöfl nema samþykki Alþingis kæmi til, sé það vafamál hvort flokka beri samning íslenska ríkisins um kaup á vatnsréttindum í Þjórsá til löggernings einkaréttareðlis eða opinbers eðlis. Þegar af þeirri ástæðu geti umræddur samningur með engu móti fallið undir gildissvið laga nr. 113/1952.

Fjarstæðukennt sé að halda því fram að íslenska ríkið hafi lagt gríðarlega mikla vinnu í að meta hvort kaupa skyldi vatnsréttindin af Títanfélaginu og meta hvað greiða skyldi fyrir þau, afla verulegrar fjárheimildar úr ríkissjóði til greiðslu þeirra og svo strax næsta ár setja lög sem sviptu það sjálft eign sinni bótalaust og innan mjög skamms tíma. Eðli máls samkvæmt gangi slík lagatúlkun ekki upp, burtséð frá orðalagi laganna. Vilji löggjafans hafi fráleitt staðið til þess að lögin yrðu skilin á þann veg sem stefnandi byggi á.

Samkvæmt gildandi raforkulögum á þeim tíma þegar ítakslögin voru sett hafi legið ljóst fyrir að löggjafinn leit svo á að vatnsréttindi væru beinum eignarrétti háð og ráð fyrir því gert að íslenska ríkið eignaðist þau. Raforkulögin verði ekki skilin svo að um stofnun ítaksréttinda sé að ræða heldur sé ráð fyrir því gert að ríkið eignist réttindin beinum eignarrétti. Skoða verði umfjöllun Ólafs Lárussonar í ritinu Eignaréttur, bls. 47, sem stefnandi vísi til, í því ljósi.

Í afsali Títanfélagsins til Guðbrands Tómassonar, sbr. dskj. 3, sé ótvírætt kveðið á um að jörðin sé seld án allra vatnsréttinda. Þessum samningi var þinglýst og hefur fylgt jörðinni Skálmholtshrauni æ síðan sem kvöð á jörðinni. Samningurinn um kaup á vatnsréttindum sé auk þess samofinn kauprétti á landi og því sé útilokað, hvernig sem á málið sé litið, að telja að vatnsréttindi stefnda íslenska ríkisins geti talist ítak í jörðina Skálmholtshraun. Þvert á móti bendi orðalag samningsins til þess að efni hans kunni að vera mjög víðtækt. Samningur þessi sé í fullu gildi.

Þá bendi stefndi á að þrátt fyrir mikla leit hafi stefndi ekki fundið nein dæmi þess að vatnsréttindi, sem skilin höfðu verið frá jörðum, hafi verið afmáð úr þinglýsingabókum í kjölfar gildistöku laga um lausn ítaka af jörðum, nr. 113/1952, sbr. dskj. 40 og 44-54. Stefnandi hafi heldur ekki lagt fram nein gögn þess efnis. Byggir stefndi á því að gildissvið laga nr. 113/1952 nái ekki til vatnréttinda sem löglega hafi verið skilin frá jörðum með heimild í 1. mgr. 16. gr. vatnalaga. Í athugasemdum við 1. gr. laga nr. 113/1952 sé tekið fram að þau gildi ekki um afnot sem almenn lög leyfa. Ákvæði 1. mgr. 16. gr., sbr. og 49. gr., vatnalaga sé slík heimild og þegar af þeirri ástæðu nái lögin ekki til vatnsréttinda, hvort sem til slíkra eignarréttinda hafi verið stofnað fyrir eða eftir gildistöku laga nr. 15/1923.

Í lögum hafi verið og sé enn að finna fjölmörg dæmi þess að heimilt sé að skilja tiltekin fasteignaréttindi varanlega frá jörðum. Í þessu sambandi nægi að nefna lög nr. 50/1907, um sölu kirkjujarða, sem nú séu niður fallin, vatnalög, nr. 15/1923, landgræðslulög, nr. 17/1965, jarðalög, nr. 81/2004, lög nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu auðlinda í jörðu, lög nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði, svo fátt eitt sé nefnt.

Það sé augljóst að lögum nr. 113/1952 hafi ekki verið ætlað að hafa nein áhrif á almenn ákvæði laga um vatnsréttindi eða t.d. námaréttindi sem undanskilin séu frá jörðum samkvæmt ákvæðum almennra laga. Öll síðari tíma réttarþróun styðji þessa skoðun en rúm hálf öld sé síðan lög nr. 113/1952 voru sett til hagsbóta fyrir þá landeigendur sem hafi verið í óvissu um réttmæti aldagamalla ítaka annarra jarða í jarðir sínar. 

Stefndi byggir einnig á því að gildissvið 1. gr. laganna verði að skýra með hliðsjón af lagaáskilnaðarreglu 72. gr. stjórnarskrárinnar um vernd eignarréttinda. Það sé viðurkennt sjónarmið við túlkun laga að skýra beri með þröngum hætti öll þau lagaákvæði sem feli í sér frávik frá almennum reglum, sbr. Hrd. 118/1972, Hrd. 128/1985 og Hrd. 519/2006. Framangreint lögskýringarsjónarmið eigi sér í lagi við um lög sem þrengja mannréttindi og verði að gera þá kröfu að slík ákvæði séu skýr og ótvíræð, sbr. Hrd. 239/1987. Í þessu máli sé um að ræða lög sem mæli fyrir um bótalausa eignaupptöku. Slík lagaákvæði orki tvímælis og verði að túlka afar þröngt.

Þá sé ljóst að á Alþingi hafi komið upp efasemdir um stjórnskipulegt gildi ítakslaganna. Í málinu hafi verið lagt fram álit Ólafs Jóhannessonar, dags. 23. janúar 1963, þar sem fram komi efasemdir hans um gildi laganna, einkum hvað varðar þinglýst réttindi manna. Í kjölfar þess hafi Alþingi samþykkt þingsályktun 10. apríl 1963 um athugun á framkvæmd laga nr. 113/1952, um lausn ítaka af jörðum. Í greinargerð sem fylgt hafi þingsályktunartillögunni komi skýrt fram hinn yfirlýsti tilgangur lagasetningarinnar sem „voru sett til að koma reglu á ítök í bújarðir og gefa jarðeigendum tækifæri til að leysa þau af, ef svo bæri undir“. Þá komi fram í greinargerðinni að talið var eðlilegt að fram færi athugun á framkvæmd laganna og ef í ljós kæmi að einhverjir hefðu orðið fyrir óeðlilegri réttarskerðingu yrði leitað ráða til að bæta hlut þeirra. Í svörum bæjarfógeta og sýslumanna við bréfi atvinnumálaráðuneytisins á dskj. 44 til 54 komi skýrt fram hvers konar réttindi um hafi verið að ræða en það hafi einkum verið beitarréttur, hagaganga, upprekstrarréttur, reki, saltfjara, sölvafjara, eggjataka, hvalskurður, torfrista, selveiði o.s.frv. Greinilegt sé að hér sé um hin hefðbundnu landbúnaðarítök að ræða sem lögunum var stefnt gegn og gildisvið þeirra takmarkast við. 

Stefnandi reisi málatilbúnað sinn m.a. með vísan til dóms Hæstaréttar í máli nr. 92/1995 (Blikadalur). Stefndi hafnar því alfarið að dómur þessi hafi fordæmisgildi fyrir mál það sem hér sé til úrlausnar enda hafi það snúist um hefðbundið landbúnaðarítak, beitarrétt fyrir búfénað, sem lögunum frá 1952 var einmitt ætlað að ná til eins og að framan hefur verið rakið. 

Af framangreindum ástæðum öllum ber að sýkna stefndu af aðalkröfu stefnanda.

b. Stjórnskipulegt gildi laga nr. 113/1952

Eins og að framan sé bent á verði við túlkun laga nr. 113/1952 að taka mið af ákvæði 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands um vernd eignarréttar. Vatnsréttindi við Skálmholtshraun hafi löglega verið seld frá jörðinni og kaupandi hafi þinglýst þeim réttindum sínum. Allt frá árinu 1952 hafi vatnsréttindin verið þinglýst eign íslenska ríkisins. Ekki sé heimilt að túlka ákvæði laga nr. 113/1952 svo rúmt að þau nái til orkunýtingarréttar vatnsfalla, sem löglega hafi verið frá þeim skilinn með samningi á grundvelli heimildar í 16. og 49. gr. vatnalaga, nr. 15/1923, með þeim réttaráhrifum að eigandi réttindanna glati þeim bótalaust hafi hann ekki lýst þeim innan tiltekins skamms tíma fyrir stjórnvaldi. Slík túlkun fái ekki staðist gagnvart ákvæðum 72. gr. stjórnarskrárinnar. Þar að auki verði að hafa í huga þá aðstöðu að síðari eigandi, stefnandi þessa máls, væri með því að auðgast með óverðskulduðum hætti á kostnað löglegs eiganda réttindanna, sbr. sjónarmið um óréttmæta auðgun.

Því telji stefndi að ef talið yrði að lög nr. 113/1952 gildi um vatnsréttindi þá brjóti ákvæði laganna í bága við ákvæði 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, (áður 67. gr.) og af þeim sökum verði að víkja þeim til hliðar. Samkvæmt nefndu stjórnarskrárákvæði sé eignarrétturinn friðhelgur og enginn verði sviptur eignarrétti sínum án lagaheimildar og greiðslu fullra bóta. Með lögum 113/1952 hafi verið gert ráð fyrir að óbein eignarréttindi féllu niður ef þeim væri ekki lýst fyrir héraðsdómara innan 12 mánaða. Eins og mál þetta er byggt upp af hálfu stefnanda, og þrátt fyrir Hrd. 92/1995, geti dómurinn ekki vikist undan því að taka afstöðu til gildis laga nr. 113/1952 gagnvart nefndu ákvæði stjórnarskrárinnar. Um vandkvæði sem sköpuðust vegna þessarar sérkennilegu lagasetningar megi vísa til erindis Guðmundar Kristjánssonar, bónda á Núpi í Axarfirði til forsætisráðherra árið 1962, minnisblaðs J.S, dags. 30. október 1962, umfjöllunar Ólafs Jóhannessonar og þingsályktunar Alþingis um athugun á framkvæmd laga nr. 113/1952, um lausn ítaka af jörðum frá 10. apríl 1963.

c. Ítök yngri en 25 ára féllu ekki úr gildi með setningu laga nr. 113/1952

Verði ekki fallist á sýknu á grundvelli framangreindra málsástæðna og verði talið að vatnsréttindi geti verið andlag ítaksréttinda er falli undir gildissvið laga nr. 113/1952, krefst stefndi sýknu á grundvelli þess að vatnsréttindi við Skálmholtshraun hafi ekki fallið niður fyrir vanlýsingu samkvæmt ákvæðum laga nr. 113/1952, um lausn ítaka af jörðum.

Með 4. og 5. gr. laga nr. 113/1952 hafi verið stefnt að því að fá fullkomið yfirlit yfir ítök þau, sem talin voru vera í jörðum í landinu, sbr. Alþt. 1952, A, þskj. 189. Í lögunum hafi verið gert ráð fyrir að ítök sem stofnast hefðu nýlega fyrir setningu laganna, ættu meiri rétt á sér en ítök sem eldri voru og því var framangreind lausnarheimild bundin við að ítakið væri eldra en 25 ára , sbr. Alþt. 1952, A, þskj. 189, sbr. og 6.-10. gr. laga nr. 113/1952. Skilyrði innlausnarréttarins hafi verið að hagsmunir ítakshafans af ítakinu væru metnir mun minni en hagsmunir lausnarbeiðanda af því að fá þau leyst af jörðinni, sbr. Alþt. 1952, B, 1192-1193 og álitsgerð Ólafs Jóhannessonar, dags. 23. janúar 1963 (bls. 4).

                 Títanfélagið hafi selt jörðina Skálmholtshraun með afsali, dags. 2. september 1931, til Guðbrands Tómassonar, en hafi undanskilið vatnsréttindi jarðarinnar. Félagið hafi selt þau réttindi og afsalað síðar til íslenska ríkisins 1952. Vatnsréttindin hafi því fyrst verið skilin frá jörðinni 21 ári áður en lögin um ítök voru samþykkt og falli því ekki undir ákvæði laganna um sjálfkrafa brottfall vanlýstra ítaka.

Af framangreindum ástæðum öllum beri að sýkna stefnda af aðalkröfu stefnanda.

2. Varakrafa stefnanda

Í varakröfu stefnanda sé þess krafist að stefnandi hafi fyrir hefð eignast að nýju vatnsréttindi Skálmholtshrauns, sem skilin voru frá jörðinni með afsali dags. 2. september 1931.

Í stefnu komi ekki fram á hvaða lagagreinum hefðarlaganna stefnandi byggi og því ekki hægt að taka afstöðu til hvers konar réttindi hann telur vatnsréttindi vera samkvæmt þessari grein. Málsástæður stefnanda séu að þessu leyti svo vanreifaðar að dómur verður ekki lagður á dómkröfur hans.

Lög um hefð, nr. 46/1905, geri það að skilyrði fyrir hefð, að óslitin notkun eða óslitið eignarhald af hálfu hefðanda hafi haldist um tiltekinn tíma. Samkvæmt 2. gr. hefðarlaga er skilyrði eignarhefðar óslitið eignarhald á fasteign í 20 ár og samkvæmt 8. gr. 40 ár vegna ósýnilegra ítaka. Ljóst sé að stefnendur hafi ekki farið með eignarhald á vatnsréttindum við Skálmholtshraun frá útgáfu afsalsins, dags. 2. september 1931. Ekki sé vitað til þess að þeir hafi nytjað þau að öðru leyti en samkvæmt lögbundnum afnotarétti sbr. 15. gr. vatnalaga, nr. 15/1923. Óumdeilt sé að landeigendur fari með réttindi samkvæmt 15. gr. vatnalaga. Notkun þeirra réttinda geti hins vegar ekki veitt landeigendum víðtækari rétt, þ.e.a.s. eignarrétt yfir vatnsréttindum að fullu, og skipti þá einu á hvaða ákvæðum hefðarlaganna sé byggt.

Stefndi, íslenska ríkið, sé aftur á móti þinglýstur eigandi vatnsréttindanna og hafi því farið með óslitið, þinglýst eignarhald á réttindunum frá janúar 1952 og fyrir þann tíma Títanfélagið, viðsemjandi landeiganda.

Er stefnandi keypti jörðina Skálmholtshraun árið 1996 hafi hann haft fulla vitneskju um þinglýstan eignarrétt íslenska ríkisins að vatnsréttindum. Þá hafi stefnandi ekki, þrátt fyrir að hafa verið eigandi Skálmholtshrauns í rúman áratug, séð ástæðu til þess að reyna á rétt sinn til vatnsréttinda við jörðina fyrir dómstólum. Öðru nær. Hann hafi viðurkennt eignarrétt íslenska ríkisins á hinum umdeildu vatnsréttindum, sbr. skiptagjörð vegna Skálmholtshrauns, dags. 13. júlí 2005, sem stefnandi leggi fram. Stefnandi geti því ekki hafa unnið hefðarrétt á vatnsréttindum meðstefnda íslenska ríkisins, þvert á móti ættu allar kröfur stefnanda frekar að hafa fallið niður fyrir tómlæti og viðurkenningu.

Af framangreindum ástæðum ber því að sýkna stefnda af varakröfu stefnanda.

3. Þrautavarakrafa stefnanda

Í þrautavarakröfu stefnanda komi fram að virkjanaáform Landsvirkjunar við Skálmholtshraun nái ekki fram að ganga án nýs virkjunarleyfis samkvæmt lögum frá Alþingi. Af því, sem og þeirri staðreynd að íslenska ríkið hafi ekki nýtt vatnsréttindi sín hingað til, leiðir stefnandi að réttindin séu niður fallin fyrir vangeymslu og tómlæti. Krafan sé að mestu órökstudd og sé henni mótmælt. Hér að framan hafi verið fjallað um ákvæði raforkulaga, nr. 65/2003. Ekki verði séð hvernig eignarréttindi geti fallið brott við það eitt að tiltekið framkvæmdaleyfi renni úr gildi, líkt og vísað sé til í stefnu. Virkjanaáform Títanfélagsins hafi ekkert að gera með eignarétt ríkisins yfir vatnsréttindum við Skálmholtshraun. Íslenska ríkið hafi keypt þau vatnsréttindi af Títanfélaginu, eftir að viðamikil rannsókn hafi leitt í ljós að staðarhættir þóttu hagkvæmir með tilliti til mögulegrar virkjunar. Landeigendur hafi þá engu hreyft við og hafi kaupunum ekki verið mótmælt af þeirra hálfu. Virkjanaáform Landsvirkjunar skipti hins vegar engu máli við málshöfðun þessa, þar sem þau hafi ekki áhrif á eignarrétt meðstefnda íslenska ríkisins að vatnsréttindum fyrir landi Skálmholts-hrauns. Umfjöllun um meinta vanheimild stefnda sé því marklaus og tengist ekki dómkröfum stefnanda.

Eignarréttindi falli almennt ekki brott nema með sérstakri lagaheimild að gættum ákvæðum 72. gr. stjórnarskrárinnar. Megi þar m.a. vísa til laga um fyrningu kröfuréttinda, nr. 150/2007, og laga um hefð, nr. 46/1905. Fyrrnefndu lögin eigi ekki við um þau eignarréttindi sem deilt sé um í máli þessu og fram hafi komið að skilyrði síðari laganna séu ekki uppfyllt. Meðstefnda íslenska ríkinu beri engin skylda til að nýta vatnsréttindi, til þess eins að viðhalda þinglýstum eignarétti sínum. Sú krafa og fullyrðing stefnanda, að þinglýst eignarréttindi falli niður við það eitt að þau séu ekki nýtt, sé órökstudd og úr lausu lofti gripin. Eins og að framan sé rakið hafi vatnsréttindin verið keypt með langtímahagsmuni í huga.

Af framangreindum ástæðum ber því að sýkna stefnda af varakröfu stefnanda.

B. Aðalkrafa – krafa um frávísun þrautaþrautavarakröfu stefnanda

Í þrautaþrautavarakröfu stefnanda sé krafist viðurkenningar á því að vatnsréttindi íslenska ríkisins að Þjórsá, í landi Skálmholtshrauns, sem byggist á samningi, dags. 8. júní 1951 og 16. janúar 1952, og afsali, dags. 2. september 1931, heimili stefndu ekki tilteknar aðgerðir.

Stefndi byggir frávísunarkröfu sína á því að málatilbúnaður þrautaþrautavara­kröfu stefnanda uppfylli ekki skilyrði laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, (einnig nefnd hér eml.) og sé því ekki tækur til efnismeðferðar.

Stefndi byggir frávísunarkröfu sína á eftirfarandi atriðum:

a. Lögspurning

Stefnandi fjalli um í stefnu sinni á almennan hátt um möguleg umhverfisáhrif virkjana við Neðri-Þjórsá. Með dómkröfum sínum sé ljóst að stefnandi leiti víðtækrar dómsviðurkenningar á efni eignarréttinda sinna á því svæði sem þær taki til.

Í því tilviki sem hér sé til úrlausnar beinist kröfur stefnanda ekki að lögmæti tiltekinna athafna eða ákvarðana stefnda, heldur miði þær að því að dómstólar kveði almennt á um réttarstöðu þá sem felist í eignarrétti hans að jörð sinni og þær takmarkanir sem sú réttarstaða setji vatnsréttindum í eigu íslenska ríkisins.

Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 geti sá, sem hefur lögvarða hagsmuni af því að skorið sé úr um tilvist eða efni réttinda eða réttarsambands, leitað viðurkenningardóms um kröfur sínar í þeim efnum. Jafnframt sé tekið fram í 1. mgr. sömu lagagreinar að dómstólar verði ekki krafðir álits um lögfræðileg efni nema að því leyti sem nauðsynlegt sé til úrlausnar um ákveðna kröfu í dómsmáli. Þessi ákvæði hafi verið skýrð þannig að sá sem leitar viðurkenningardóms geti ekki fengið úrlausn um kröfu sína nema hann sýni fram á að hann hafi lögvarinna hagsmuna að gæta, sem talist geti sérstakir fyrir hann og snerti réttarsamband hans við þann sem hann beinir kröfu sinni að.

Í þrautaþrautavarakröfu stefnanda felist því krafa um álit dómstólsins um lögfræðilegt efni. Slíkt verði dómstólar ekki krafðir um, sbr. 1. mgr. 25. gr. eml. og Hrd. 554/2007, og krefst stefndi því að þrautaþrautavarakröfu stefnanda verði vísað frá dómi.

b. Vanreifun

Stefndi byggir frávísunarkröfu sína enn fremur á því, að dómkröfur og málsástæður þær sem koma fram í þrautaþrautavarakröfu stefnanda séu svo óljósar og vanreifaðar að stefnda sé ófært að taka til varna.

Í stefnu sé t.a.m. oft á tíðum óljóst hvort fjallað sé um vatnsréttindi eða önnur réttindi, sbr. málsástæður stefnanda um mannréttindi umhverfisréttar og svokallaða liðkun fyrir skipulagi. Stefndi telur þá umfjöllun stefnanda óviðeigandi með öllu og mótmælir henni sérstaklega. Sökum þessa vefjist það fyrir stefnda hvert hið raunverulega sakarefni sé.

Af þessum ástæðum, og með tilvísun til 1. mgr. 80. gr. eml., krefjist stefndi þess að þrautaþrautavarakröfu stefnanda verði vísað frá dómi.

C. Varakrafa – krafa um sýknu af öllum dómkröfum stefnanda

Til vara er krafist sýknu af þrautaþrautavarakröfu stefnanda með vísan til 2. mgr. 16. og eftir atvikum 1. mgr. 26. gr. eml. Þá er einnig vísað til rökstuðnings með frávísunarkröfu sem einnig á hér við og rökstuðnings með aðalkröfu um sýknu sem einnig á við um þá kröfu stefnda að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda.

Allir 13 liðir þrautaþrautavarakröfu stefnanda snúa að atriðum sem ekki geta komið til framkvæmda fyrr en virkjunarleyfi samkvæmt raforkulögum, nr. 65/2003, og framkvæmdaleyfi samkvæmt skipulags- og byggingalögum, nr. 73/1997, hafa verið veitt, en svo er ekki í þessu tilviki. Allur undirbúningur stefnda að virkjunarframkvæmdum byggist á lögum, fyrst og fremst raforkulögum og lögum um Landsvirkjun, og hvað varðar Títan-réttindin sérstaklega þá sé ljóst að stefndi vinni að samningum við landeigendur á svæðinu í fullu umboði meðstefnda, íslenska ríkisins, sbr. samkomulag þessara aðila frá 9. maí 2007, þótt íslenska ríkið sé eigandi umræddra réttinda.

Því sé umfjöllun stefnanda um þrautaþrautavarakröfu sína að mestu um atriði sem séu málinu óviðkomandi og stefnandi hafi ekki forræði á eða lögvarða hagsmuni af að fá úrlausn um. Þannig sé umhverfismat virkjananna þriggja ekki til endurskoðunar í þessu dómsmáli. Allri umfjöllun stefnanda sé mótmælt sem rangri en stefndi telur af framangreindum ástæðum ekki þörf á að svara þeim lið fyrir lið.

Öll umfjöllun stefnanda í stefnu um auðlindanýtingu og vinnslu raforku sé því marki brennd að þar sé fjallað um umræður og réttarstöðu í upphafi 20. aldar en varla vikið að réttarþróun á þeirri öld eða gildandi lögum um þessi málefni nú í upphafi 21. aldar. Geri það umfjöllun hans í besta falli ómarkvissa en í versta falli ómarktæka.

Þannig fjalli stefnandi í þrautaþrautavarakröfu sinni um sakarefni sem hann eigi ekki aðild að og þótt í einhverjum tilvikum verði hann talinn hafa hagsmuni af úrlausn sé ljóst að dómstóll muni ekki skera úr um skilyrði leyfisveitinga sem ekki hafi farið fram.

Framsetning dómkrafna og málsástæðna sé einnig mjög óljós og ruglingsleg og rökstuðningur fyrir þeim takmarkaður þannig að ekki sé unnt að leggja dóm á dómkröfu stefnanda.

Þegar af þessum ástæðum beri að sýkna stefnda af þrautaþrautavarakröfu stefnanda.

Lagarök

Vísað sé til helstu lagaraka í umfjöllun um málsástæður. Stefndi vísar sérstaklega til eftirfarandi laga:

Lög um hefð, nr. 46/1905.

Lög um sölu kirkjujarða, nr. 50/1907.

Vatnalög, nr. 15/1923.

Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944

Raforkulög, nr. 12/1946.

Lög um lausn ítaka af jörðum, nr. 113/1952.

Lög nr. 42/1983, um Landsvirkjun, með síðari breytingum.

Lög nr. 91/1991, um meðferð einkamála, en stefndi styður málskostnaðarkröfu sína við XXI. kafla þeirra laga.

Skipulags og byggingarlög nr. 73/1997.

Lög um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000.

Raforkulög nr. 65/2003.

Ábúðarlög, nr. 80/2004.

Jarðalög, nr. 81/2004.

Lög um fyrningu kröfuréttinda, nr. 150/2007.

Meginreglna eignarréttar og kröfuréttar

Málsástæður  og lagarök stefnda, íslenska ríkisins.

Stefndi mótmælir kröfugerð stefnanda í heild sinni  og telur kröfugerðina í engu samræmi við réttarstöðu stefnda með tilliti til vatnsréttinda í landi Skálmholtshrauns í Flóahreppi. Stefndi telur sig án vafa eiga þessi réttindi og að stefnandi hafi hvorki sýnt fram á að eignarréttindin hafi færst úr hendi stefnda né séu þeim takmörkunum háð sem stefnandi byggir á. 

I.

Aðalkrafa stefnanda byggist á því að vatnsréttindi stefnda hafi fallið niður fyrir vanlýsingu samkvæmt ákvæðum laga nr. 113/1952 um lausn ítaka af jörðum. Stefndi mótmælir þessu og telur kröfuna byggða á misskilningi.

Að mati stefnda eigi ofangreind lög alls ekki við um vatnsréttindi sem skilin hafi verið frá jörð á grundvelli 16. gr. vatnalaga nr.15/1923.  Í nefndri lagagrein segi að séu vatnsréttindi látin af hendi án þess að eignarréttur að landi sé jafnframt látinn, skuli fara eftir reglum um landkaup. Stefndi telur að túlka verði ákvæði þetta á þann hátt að vatnsréttindi jarða í skilningi 16. gr. vatnalaga séu undirorpin beinum eignarrétti, á sama hátt og fasteignir almennt, og séu því ekki ítak í skilningi laga nr. 113/1952. Samkvæmt þessum skilningi eigi lög nr. 113/1952 því ekki við hér.

Í lögum nr. 113/1952 sé hvergi gert ráð fyrir því að vatnsréttindi sem skilin hafi verið frá jörð með samningi séu ítak í skilningi laganna. Þessi fullyrðing eigi við lagatextann sjálfan, öll finnanleg lögskýringargögn og síðast en ekki síst framkvæmd laganna. Hvergi sé því að finna heimildir sem bendi til þess skilnings sem stefnandi byggi hér á. Að mati stefnda hefði þurft skýr ákvæði í lög nr. 113/1952 um að vatnsréttindi sem undanskilin hefðu verið jörð teldust til ítaka í skilningi laganna. Svo sé ekki eins og áður segi.

Í 1. gr. greinargerðar með frumvarpi til laga um lausn ítaka af jörðum segi eftirfarandi:

„Hér er fylgt hinni venjulegu fræðilegu skýringu á því, hvað ítak sé. Að þess er getið sérstaklega, að afnotarétturinn skuli byggður á heimild einkaréttareðlis, er gert til þess að taka af allan vafa um það, að lögin taki eigi til afnota, sem almennar reglur laganna leyfa.“

Stefndi telur að óhjákvæmilegt sé að skýra 1. gr. laga nr. 113/1952, sbr. 1. gr. greinargerðar með frumvarpinu, á þann hátt að lögin taki ekki til vatnsréttinda jarða vegna þess að 16. gr. vatnalaga nr. 15/1923 heimili að vatnsréttindi jarða séu látin af hendi. Skipti hér ekki máli hvort vatnsréttindi í skilningi 16. gr. vatnalaga séu talin ítök í fræðilegum skilningi. Lög nr. 113/1952 eigi því einungis við einkaréttarlega ítakssamninga um efnisatriði sem löggjöfin hafi ekki sérstaklega látið til sín taka. 

Stefndi byggir líka á því,  verði vatnsréttindi talin ítak í skilningi laga nr. 113/1952, að við gildistöku laganna 1952 hafi vatnsréttindi stefnda í landi Skálmholtshrauns verið innan við 25 ára gömul. Samkvæmt 6. gr. laganna eigi eigandi jarðar, sem ítak sé í eldra en 25 ára, þess kost að leysa af jörð sinni ítak samkvæmt reglum laganna. Aldursmörk þessi eigi ekki við jörð stefnanda. Vatnsréttindin hafi verið undanskilin jörðinni með afsali 2. september 1931 en lögin hafi tekið gildi 30. desember 1952. Tímamörkum samkvæmt lögunum sé því ekki fullnægt.

Stefnandi hafi keypt Skálmholtshraun með afsali árið 1996. Ekki sé að sjá að athugasemdir hafi þá komið fram af hálfu stefnanda vegna vatnsréttinda stefnda á jörðinni. Ekki sé heldur að sjá að fyrri eigendur hafi gert athugasemdir vegna réttar stefnda til vatnsréttinda jarðarinnar. Í ljósi fyrrgreindra forsendna laga nr. 113/1952 sé stefnandi í engri lagalegri aðstöðu til að sækja rétt á grundvelli laganna. Í fyrsta lagi eigi lögin ekki við um réttarstöðu stefnanda og í öðru lagi hafi hann sjálfur sýnt fullkomið tómlæti um meinta réttarstöðu sína.

Samkvæmt framansögðu ber því að sýkna stefnda af aðalkröfu stefnanda.

II.

Varakrafa stefnanda byggist á hefðarlögum nr. 46/1905. Ekki sé krafa þessi rökstudd á annan hátt en þann „að stefnandi hafi með eignarhaldi sínu og eignarhaldi fyrri eigenda allt frá árinu 1931 unnið eignarrétt að vatnsréttindum fyrir hefð, sbr. einnig norsku lög Kristjáns 5. frá 15. apríl 1687, V bók, 5. kap., og lög nr. 46/1905 um hefð og röksemdir fyrir öðrum kröfum stefnanda.“ Stefndi mótmæli þessari dómkröfu og telur hana ekki standast. Auk þess sé kröfugerðin vanreifuð með tilliti til rökstuðnings enda komi hvergi fram á hvaða lagasjónarmiðum hefðarlaga á sé byggt. Einungis sé fullyrt ranglega af hálfu stefnanda að hefð eigi hér við. 

Óumdeilt sé að stefnandi eignaðist Skálmholtshraun á árinu 1996. Takmarkaðar upplýsingar liggi frammi í málinu um eignarhald fyrri eigenda jarðarinnar. Samkvæmt 2. gr. hefðarlaga sé skilyrði fyrir hefð óslitið eignarhald á fasteign í tuttugu ár. Stefnandi uppfylli ekki þetta grunnskilyrði. Auk þess hafi vatnsréttindi stefnda verið þinglesin eign hans allt frá árinu 1952 og stefnandi virðist ekki hafa gert athugasemdir við eignarhald stefnda við kaupin á jörðinni 1996. Í öðru lagi hafi stefnandi aldrei farið með eignarhald þessara eignaréttinda, að öðru leyti en því sem 15. gr. vatnalaga heimili til  heimilis- og búsþarfa jarðarinnar eða til jarðræktar.  Hefðalög eigi því ekki við um ágreining dómsmáls þessa og beri því að sýkna stefnda af varakröfu stefnanda.

III.

Þrautavarakrafa stefnanda byggist á því að vatnsréttindi stefnda „séu niður fallin fyrir vangeymslu og tómlæti.“ Þessu mótmælir stefndi.

Sem fyrr sé rakið hafi stefndi eignast umdeild vatnsréttindi með samningi og afsali á árinu 1952. Fyrri eigandi réttindanna hafi undanskilið þau frá jörðinni á árinu 1931. Heimildarskjölum vegna framsala þessara réttinda hafi verið þinglýst á eðlilegan hátt eins og framlögð skjöl beri með sér. Um það sé því ekki deilt.

Stefnda hafi borið eða beri engin lagaleg skylda til þess að nýta þessa eign sína eins og skilja megi málatilbúnað stefnanda. Eignin sé fyrir hendi og hún byggist á þinglýstu afsali frá árinu 1952. Um viðhald á réttindum, eins og stefnandi haldi fram, sé því ekki að ræða. Stefndi ráði því sjálfur hvernig hann fari með eða nýti þessa eign sína, að því gefnu að lög heimili honum það á hverjum tíma. „Vangeymsla, tómlæti og vanheimild“ eigi því ekki við um eignarhald stefnda á réttindunum og reyndar afar langsótt fullyrðing. Beri því jafnframt að sýkna stefnda af þessari dómkröfu stefnanda.

IV.

Stefndi krefst aðallega frávísunar á þrautaþrautavarkröfu stefnanda. Stefndi telur að dómkrafa þessi uppfylli ekki lágmarksskilyrði einkamálalaga til þess að hægt sé að leggja á hana dóm.

Dómkröfur stefnanda séu þrettán að tölu og séu þær mjög ólíkar innbyrðis. Þær séu allar án beinna tengsla við tiltekin eða áþreifanleg sakarefni og auk þess án sjáanlegra tengsla við stjórnsýslu og valdsvið fjármálaráðherra vegna íslenska ríkisins.

Dómkröfur stefnanda varði ekki eign stefnanda sjálfs. Þær varða hugsanlega framtíðarnýtingu vatnsréttinda stefnda. Sú hugsanlega nýting sé enn óákveðin í þeim skilningi að ekki hafi enn verið teknar ákvarðanir um virkjanaleyfi þótt umhverfismat hafi farið fram á árinu 2003 og unnið hafi verið af hálfu meðstefnda að rannsóknum um virkjun vatnsafls á svæðinu. Samkvæmt þessu sé stefnandi í fyrsta lagi ekki í lagalegri aðstöðu til þess að gera kröfur um takmörkun nýtingar á eign sem hann eigi ekki og í öðru lagi hafi virkjanaleyfi og önnur hugsanleg leyfi enn ekki verið gefin út af réttum stjórnvöldum. Til dæmis sé enn óvíst hvort nauðsynlegt verði að afla lagaheimildar vegna framsals vatnsréttinda til virkjunaraðila. Eins og hér hátti til beinist kröfugerð stefnanda ekki að lögmæti tiltekinna athafna eða ákvarðana stefnda heldur miði þær að því að dómstólar láti uppi álit á því hver sé réttarstaða jarðeiganda gagnvart vatnsréttarhafa þegar vatnsréttindi hafa verið undanskilin jörðinni á grundvelli 16. gr. vatnalaga og að hvaða marki stefnandi geti takmarkað nýtingu stefnda á eign sinni. Dómkrafa stefnanda sé því beiðni um lögfræðilegt álit sem sé andstætt 1. mgr. 25. gr. einkamálalaga nr. 91/1991 og beri því að vísa kröfunni frá dómi.

Eins og áður hafi komið fram eru þrettán liðir í þessari dómkröfu stefnanda. Einstökum liðum sé ekki fylgt eftir af hálfu stefnanda með sjálfstæðri umfjöllun um hvern lið fyrir sig. Þess í stað sé fjallað um ýmis skyld og óskyld mál sem ekki sé auðvelt að sjá að falli beinlínis undir einstaka liði í dómkröfum stefnanda. Að mati stefnda sé framsetning og rökstuðningur stefnanda ómarkviss og nokkuð ruglingsleg og sé því erfitt að átta sig á hvaða rökstuðningur eigi við einstaka liði í þrautþrautavarakröfu stefnanda. Að mati stefnda sé dómkrafa þessi vanreifuð og því andstæð áskilnaði 1. tl. 80. gr. einkamálalaga nr. 91/1991 um skýran málatilbúnað.

V.

Varakrafa stefnda sé að hann verði sýknaður af öllum dómkröfum stefnanda. Hér að framan hafi verið gerð grein fyrir sýknukröfum stefnda með öllum öðrum kröfum en þrautaþrautavarakröfu stefnanda. Sýknukrafa stefnda með þeirri dómkröfu byggi á sama rökstuðningi og gerð sé grein fyrir hér að framan með frávísunarkröfu. Sömu sjónarmið eigi hér við. Stefnandi sé ekki eigandi vatnsréttindanna og hann sé ekki í lögformlegri stöðu til að krefjast takmörkunar á notkun eignar stefnda. Þar að auki er kröfugerðin ruglingsleg og rökstuðningur afar óljós. Dómkrafan sé sett fram með þeim hætti að útilokað sé að fallast á hana. Beri því að sýkna stefnda af þessari kröfu sem og öllum öðrum kröfum stefnanda.

Niðurstaða

                Með afsali, dags. 2. september 1931 seldi Títanfélagið jörðina Skálmholtshraun til Guðbrands Jónssonar, eins og áður er rakið. Í afsalinu kemur fram að Títanfélagið afsalaði jörðinni og því sem henni fylgdi til Guðbrands en tekið er fram að öll vatnsréttindi jarðarinnar í Þjórsá skuli áfram vera eign Títanfélagsins. Samkvæmt afsalinu hélt Títanfélagið því eignarrétti sínum yfir vatnsréttindunum en afsalaði þeim eignarrétti til íslenska ríkisins með samningi, dags. 16. janúar 1952.

                Stefnandi byggir aðalkröfu sína á því að þau vatnsréttindi í Þjórsá, sem íslenska ríkið öðlaðist með fyrrgreindum samningi, sé í raun ítaksréttur en ekki eignarréttur og réttindin hafi fallið niður þar sem þeim hafi ekki verið lýst hjá viðkomandi héraðsdómara í samræmi við 4. gr. laga nr. 113/1952 um lausn ítaka af jörðum, sbr. og 2. mgr. 5. gr. laganna.

                Þegar lög um lausn ítaka af jörðum voru sett 1952 höfðu vatnalög þegar verið sett, eða árið 1923. Í vatnalögum er m.a. að finna almenn ákvæði um vatnsréttindi. Í 2. gr. þeirra segir að landareign hverri fylgi réttur til umráða og hagnýtingar á því vatni, straumvatni eða stöðuvatni, sem á henni er, á þann hátt sem lögin mæla. Í 16. gr. vatnalaganna er ráð fyrir gert að vatnsréttindi verði af hendi látin án þess að eignarréttur að landi sé jafnframt af hendi látinn og fari þá eftir reglum um landkaup. Verður að telja að afsöl þau er að framan er getið hafi verið gerð í samræmi við þetta ákvæði vatnalaga.

                Í 1. gr. laga nr. 113/1952 segir að ítak merki í lögum þessum hvers konar afnot fasteignar, sem eigi eru samfara vörslum hennar eða þess hluta hennar, sem afnotin taka til, enda sé réttur til afnotanna byggður á heimild einkaréttareðlis.

                Í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 113/1952 segir m.a. að um allt land séu til alls konar ítök, sem þessi eða hinn telur sig eiga í landi annarra jarða, eða fyrir því þegar um reka er að ræða. Í skógræktarlögum sé mönnum gefinn kostur á að kaupa aftur undir jarðir sínar skógarítök, og í laxveiðilögum séu ákvæði um  að menn geti keypt aftur undir jarðirnar laxveiði, sem undan þeim hefur gengið. Í þessu frumvarpi sé mönnum gert kleift að kaupa aftur undir jarðir sínar réttindi, sem þeim beri að fylgja að eðlilegum hætti, svo sem trjáviðarreka, hvalreka, mótekju, slægjuítök, beitarítök, bjargsig, sölvafjöru o. s. frv.

Eins og rakið er í kaflanum um málsástæður stefnda, Landsvirkjunar, átti lagasetning um lausn ítaka sér talsverðan aðdraganda. Þáverandi landbúnaðarnefnd lagði m.a. til að framan við lagafrumvarpið kæmi ný grein þar sem skilgreint væri hvað ítak væri. Segir Páll Zóphóníasson í framsöguræðu að þessi skilgreining í ákvæðinu, eins og nefndin leggi til, sé ekki tæmandi, en nærri muni láta að svo sé. Skyldi greinin hljóða svo:  

„Það kallast ítak í lögum þessum, er jörð á land eða rétt til landsnytja, svo sem slægna, beitar, svarðartekju, torfristu, laxveiði, silungsveiði, reka alls konar, grasatekju, sölvafjöru, eggjatöku eða annars utan landamerkja sinna, en innan landamerkja annarra jarðar eða fyrir landi hennar. Ítak telst einnig nytjaréttur, er kirkjur eiga utan heimajarðar kirknanna.“

Verður að fallast á með stefnda að hefði tilgangurinn verið að fella vatnsréttindi undir ákvæði laganna má telja næsta víst að þau hefðu komið fyrr upp í huga framsögumanns breytingartillögunnar og orðið tilefni umræðna á þinginu.  Þykir ekki sýnt fram á að tilgangur lagasetningar um lausn ítaka hafi verið sá að fella vatnsréttindi undir lögin enda höfðu verið sett heilstæð lög um vatnsréttindi árið 1923.

Samkvæmt framansögðu er ekki fallist á það með stefnanda að l. nr. 113/1952 taki til vatnsréttinda sem skilin hafa verið frá jörð með samningum á grundvelli 16. gr. vatnalaga nr. 15/1923. Ber því að sýkna stefndu af aðalkröfu stefnanda.

                Varakrafa stefnanda lýtur að því að viðurkennt verði að stefnandi hafi fyrir hefð eignast að nýju vatnsréttindi Skálmholtshrauns, sem undanskilin voru frá jörðinni með afsali dags. 2. september 1931.

                Kröfu sína styður stefnandi þeim rökum að hann og fyrri eigendur Skálmholtshrauns hafi nytjað jörðina og vatnsréttindi hennar sem sína eign frá öndverðu og hafi þannig unnið eignarrétt að vatnsréttindum fyrir hefð. Vísar stefnandi í heild til hefðarlaga nr. 46/1905 án þess að fram komi í málatilbúnaði hans á hvaða lagasjónarmiðum er byggt.

                Fyrir liggur að vatnsréttindi stefnda, íslenska ríkisins, hafa verið þinglesin eign þess frá árinu 1952. Stefnandi hefur ekki sýnt fram á að hún hafi nytjað vatnsréttindi við Skálmholtshraun umfram það sem ráð er fyrir gert í 15. gr. vatnalaga nr. 15/1923, þ.e.a.s. til heimilisþarfa, búsþarfa eða jarðræktar. Þá liggur fyrir í málinu skiptagjörð vegna jarðarinnar Skálmholtshrauns frá árinu 2005 sem stefnandi undirritar án athugasemda. Í skiptagjörðinni kemur skýrt fram að vatnsréttindi í Þjórsá séu eign ríkissjóðs samkvæmt afsali dags. 16. janúar 1952.

                Stefnandi hefur ekki sýnt fram á að hún hafi með eignarhaldi sínu að jörðinni unnið eignarrétt að umræddum vatnsréttindum á grundvelli hefðarlaga. Ber því að sýkna stefndu af varakröfu stefnanda.

                Þrautavarakröfu sína byggir stefnandi á því að vatnsréttindi stefnda séu niður fallin fyrir vangeymslu og tómlæti.

                Eins og rakið hefur verið eignaðist stefndi, íslenska ríkið, umdeild vatnsréttindi með samningi og afsali á árinu 1952. Var heimildarskjölum vegna þessara framsala þinglýst. Eignarhald stefnda, íslenska ríkisins, byggist á þinglýstu afsali. Hefur stefnandi ekki sýnt fram á að lögum samkvæmt beri stefnda, íslenska ríkinu, að viðhalda þinglýstum eignarréttindum sínum með sérstökum hætti.

                Heimildir stefnda, Landsvirkjunar, til framkvæmda og athugana á vatnasvæði Þjórsár á grundvelli laga og samninga við íslenska ríkið þykja ekki skipta máli í þessu sambandi.

                Ber samkvæmt framansögðu að sýkna stefndu af þrautavarakröfu stefnanda.

                Þrautaþrautavarakrafa stefnanda lýtur að því að viðurkennt verði með dómi að vatnsréttindi íslenska ríkisins að Þjórsá í landi Skálmholtshrauns, sem byggist á samningi, dags. 8. júní 1951 og 16. janúar 1952, og afsali, dags. 2. september 1931, heimili stefndu ekki tilteknar aðgerðir sem settar eru fram í 13 liðum.

                Hafa báðir stefndu krafist frávísunar á þessari kröfu stefnanda.

Stefnandi gerir enga grein fyrir aðild sinni að þessari kröfu. Beinast kröfur stefnanda ekki að lögmæti tiltekinna athafna eða ákvarðana stefndu heldur varða þær hugsanlega framtíðarnýtingu vatnsréttinda stefnda, íslenska ríkisins. Miða kröfur stefnanda að því að dómurinn láti uppi álit á því hver sé réttarstaða hennar, sem landeiganda, gagnvart vatnsréttarhafa þegar vatnsréttindi hafa verið undanskilin jörðinni á grundvelli 16. greinar vatnalaga og að hvaða marki stefnandi geti takmarkað nýtingu stefnda á eign sinni. Fallist er á með stefndu að dómkrafan feli í sér beiðni um lögfræðilegt álit sem er andstætt 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991.

                Framsetning málsástæðna er óljós og ruglingsleg og er ekki að finna tengsl málsástæðna við einstaka kröfuliði. Samhengi kröfu og málsástæðna er óljóst og ekki í samræmi við e. lið 1. tl. 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.

                Í ljósi framangreinds telst þrautaþrautavarakrafa stefnanda ódómtæk og ber að vísa henni frá dómi.

                Samkvæmt framansögðu skulu báðir stefndu vera sýknir af aðalkröfu, varakröfu og þrautavarakröfu stefnanda. Þrautaþrautavarakröfu stefnanda er vísað frá dómi.

                Rétt þykir að hver aðila beri sinn kostnað af málinu.

                Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

                Stefndu, íslenska ríkið og Landsvirkjun, skulu vera sýknir af aðalkröfu, varakröfu og þrautavarakröfu stefnanda, Danielu Schmitz..

                Þrautaþrautavarakröfu stefnanda er vísað frá dómi.

                Málskostnaður fellur niður.