Hæstiréttur íslands

Mál nr. 73/2008


Lykilorð

  • Vörumerki
  • Gagnaöflun


                                     

Fimmtudaginn 16. október 2008.

Nr. 73/2008.

Hlöðver Örn Vilhjálmsson

(Reynir Karlsson hrl.)

gegn

Húsasmiðjunni hf.

(Tómas Jónsson hrl.)

 

Vörumerki. Gagnaöflun.

HÖ var eigandi vörumerkjanna „C-TOX“ og „C-TOX Betri djúpverkun varanleg fúavörn“, ásamt uppskriftum af tilteknum fúavarnarefnum og framleiðslurétti þeirra hér á landi. Í málinu krafðist HÖ þess að viðurkennt yrði að H væri óheimilt að nota umrædd vörumerki og að HÖ ætti einn framleiðslurétt á Íslandi á fúavarnarefnum seldum undir þessum vörumerkjum. Þá krafðist HÖ þess jafnframt að H yrði gert að greiða sér 32.582.052 krónur sem hæfilegt endurgjald vegna notkunar á vörumerkjunum, en í málinu lá fyrir að H hafði um árabil selt vörur undir umræddum vörumerkjum í verslunum sínum. Fyrir Hæstarétti óskaði HÖ eftir því að koma að frekari gögnum í málinu sem meðal annars lutu að framleiðslu á umræddum vörum. Í dómi Hæstaréttar kom fram að þar sem skilyrðum 1. mgr. 160. gr. laga nr. 91/1991 hefði ekki verið fullnægt til að leggja mætti fram ný gögn eftir lok gagnaöflunarfrests, hefði málið ekki verið flutt með tilliti til nýju gagnanna og yrði ekki horft til þeirra við úrlausn málsins. Þar sem HÖ hafði ekki sýnt fram á í málinu að H hefði framleitt eða látið framleiða umræddar vörur var H sýknað af kröfum HÖ.

  

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 8. febrúar 2008. Hann krefst þess að viðurkennt verði að stefnda sé óheimilt að nota vörumerkin „C-TOX“ og „C-TOX Betri djúpverkun varanleg fúavörn“ og að áfrýjandi eigi einn framleiðslurétt á Íslandi á fúavarnarefni, sem selt hafi verið undir vörumerkinu „C-TOX“. Hann krefst þess einnig að stefnda verði gert að greiða sér 32.582.052 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 15. júní 2006 til greiðsludags, svo og málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Eins og nánar er lýst í hinum áfrýjaða dómi er áfrýjandi eigandi þeirra tveggja vörumerkja, sem áðurgreindar dómkröfur hans varða, en það fyrrnefnda er orð- og myndmerki og það síðarnefnda orðmerki. Vörumerkin keypti hann ásamt uppskriftum að tilteknum fúavarnarefnum og framleiðslurétti hér á landi að vörum undir merkjum „C-TOX“ af Ragnheiði Blandon 12. mars 1997. Fyrri eigandi vörumerkjanna og framleiðsluréttarins, Þorsteinn Blandon, hafði áður ráðstafað þeim rétti til Efnamiðstöðvarinnar hf. með samningum 30. september 1985 og 10. nóvember 1986, en í þeim síðarnefnda var honum áskilinn réttur til umboðslauna, sem skyldu nema „5% af heildsöluverði efnisins svo lengi sem hann telst vera umboðsmaður þess á Íslandi.“ Efnamiðstöðin hf. virðist síðast hafa greitt Þorsteini þessi umboðslaun 10. júlí 1992 í einu lagi fyrir tímabilið frá 1. janúar til 29. júlí 1991, samtals 102.736 krónur, en síðastgreindan dag hafði Ragnheiður Blandon, sem kvaðst vera orðin „einkaleyfishafi og umboðsmaður fyrir C-TOX á Íslandi“, lýst yfir riftun samningsins við Efnamiðstöðina hf. Félagið mun eftir sem áður hafa haldið áfram framleiðslu á þessum vörum, svo sem vikið var að í áðurnefndum samningi áfrýjanda við Ragnheiði 12. mars 1997, en þar sagði að þetta hafi verið gert í óþökk og gegn mótmælum hennar. Á þessu tímabili öllu og enn þegar mál þetta var höfðað munu vörur undir merkjum „C-TOX“ hafa verið seldar í verslunum stefnda. Samkvæmt gögnum, sem lögð hafa verið fyrir Hæstarétt, munu þær hafa verið framleiddar í verksmiðju Flügger ehf., áður Hörpu hf. og síðar Hörpu-Sjafnar hf., en eftir málatilbúnaði stefnda mun það hafa verið gert á grundvelli samnings milli þess félags og Efnamiðstöðvarinnar ehf. frá 17. febrúar 1997. Síðastnefnt félag mun nú heita GMG ehf. Áfrýjandi hefur lagt fram í Hæstarétti yfirlýsingu forráðamanns þess 23. febrúar 2008, þar sem meðal annars kemur fram að hann hafi orðið hluthafi í félaginu haustið 2002 og hafi það þá ekki verið starfrækt „um langt árabil“. Segir þar jafnframt að félagið hvorki láti framleiða né selji vörur af þeirri tegund, sem dómkröfur áfrýjanda lúta að.

Eftir að lokið var fresti til gagnaöflunar fyrir Hæstarétti samkvæmt 1. mgr. 160. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 14. gr. laga nr. 38/1994, óskaði áfrýjandi eftir að koma að frekari gögnum, meðal annars um framleiðslu á vörum undir vörumerkinu „C-TOX“. Með því að skilyrðum samkvæmt því ákvæði til að koma að þessum nýju gögnum var ekki fullnægt hefur málið ekki verið flutt með tilliti til þeirra og verður ekki horft til þeirra við úrlausn málsins.

Eins og málið liggur fyrir er óumdeilt að vörur, sem bera fyrrnefnt vörumerki, hafa um langt árabil verið á boðstólum í verslunum stefnda. Gegn andmælum hans hefur áfrýjandi á hinn bóginn ekki sýnt fram á að stefndi hafi framleitt eða látið framleiða þessarar vörur. Að því virtu geta ekki verið efni til að fella dóm á hendur stefnda í samræmi við kröfugerð áfrýjanda. Verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms því staðfest.

Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Hlöðver Örn Vilhjálmsson, greiði stefnda, Húsasmiðjunni hf., 350.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 14. nóvember 2007.

Mál þetta, sem höfðað var 1. júní 2006 var dómtekið 22. maí. sl.  Málið var endurflutt 23. október sl. og dómtekið sama dag.

Stefnandi er Hlöðver Örn Vilhjálmsson, Glaðheimum 26, Reykjavík.

Stefndi er Húsasmiðjan hf., Holtagörðum 10, Reykjavík.

Dómkröfur

Dómkröfur stefnanda eru eftirfarandi:

1.  Að dæmt verði að stefnda sé óheimilt að nota vörumerkin „C-TOX“ og “C-TOX Betri djúpverkun varanleg fúavörn“.

2.  Að staðfest verði með dómi að stefnandi eigi einn framleiðslurétt á Íslandi á fúavarnarefni því sem selt hefur verið undir vörumerkinu „C-TOX“.

3.  Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 32.582.052 krónur sem hæfilegt endurgjald vegna notkunar á vörumerkjum stefnanda með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá 15. júní 2006 til greiðsludags.

4.  Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt mati dómsins eða samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi að viðbættum virðisaukaskatti.

Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda en til vara er þess krafist að stefnukröfur verði lækkaðar verulega.  Þá er þess krafist að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins.

Málavextir

Stefnandi lýsir málsatvikum þannig að með kaupsamningi, dags. 12. mars 1992, hafi hann keypt af Ragnheiði Blandon réttindi sem skilgreind séu í 1. gr. samningsins þannig:

„1.1.       Orðmerkið og myndmerkið „C-TOX“ og orðmerkið „C-Tox Betri djúpverkun varanleg fúavörn“ skv. skráningu í vörumerkjaskrá 26. júlí 1991 og 30. ágúst 1991.

1.2.         Uppskriftir að glœru, brúnu og grænu C-TOX fúavarnarefni.

1.3.          Framleiðslurétt seljanda að fúavarnarefni undir vörumerkinu C-TOX, sbr. bréf Kirk Chemicals as, dags. 11. janúar 1984, og bréf SKANDI FOOD, dags. 27. september 1992.“

Í samræmi við framangreindan kaupsamning hafi Ragnheiður framselt  framangreind orð- og myndmerki til stefnanda, sbr. framsal dags. 13. mars 1997.  Hafi stefnandi síðan endurnýjað skráninguna og séu vörumerkin skráð eign hans enn þann dag í dag.

Í 3. gr. fyrrgreinds kaupsamnings sé svohljóðandi ákvæði:

„Kaupanda er kunnugt um notkun Efnamiðstöðvarinnar hf. á vörumerkinu og framleiðslu á fúavörn undir heitinu C-Tox í óþökk seljanda og að hann hefur mótmœlt notkuninni og seljandi lýsir því yfir að enginn samningur er í gildi á milli seljanda og Efnamiðstöðvarinnar um notkun þessa vörumerkis.“

Stefnandi kveður Ragnheiði Blandon hafa um árabil reynt að stöðva notkun Efnamiðstöðvarinnar hf. á hinum tilgreindu vörumerkjum en án árangurs.  Það félag hafi hins vegar, að því er virðist, hætt framleiðslu á „C-Tox“ og sé komið í allt aðra starfsemi.  Sé félagið skráð í dag sem einkahlutafélagið GMG og samkvæmt upplýsingum úr hlutafélagaskrá sé aðal tilgangur þess eignarhald á verðbréfum og tengd starfsemi.

Stefnanda sé ekki kunnugt hver framleiði C-TOX í dag en stefndi Húsasmiðjan hf. selji fúavarnarefni undir framangreindum vörumerkjum stefnanda.  Hafi stefnandi ítrekað verið í sambandi við stefnda og óskað eftir að félagið láti af notkun vörumerkjanna en án árangurs.  Hafi stefndi mótmælt kröfum stefnanda og vísað til 4. gr. í kaupsamningi, dags. 10. nóvember 1986 á milli nokkurra þar til greindra seljenda, 54,55% hluta í Efnamiðstöðinni hf. og Skilagreinar sf. sem kaupanda, en þar segi orðrétt:

„Efnamiðstöðin hefur framleiðslurétt á C-Tox fúavarnarefni. Umboðsmaður C-Tox á Íslandi Þorsteinn Blandon, nnr. 9731-5515 samþykkir fyrri sitt leyti framleiðslurétt fyrirtækisins um ókomna tíð á nefndu efni. Þorsteinn Blandon fær greidd umboðslaun af heildsöluverði efnisins svo lengi sem hann telst vera umboðsmaður þess á Íslandi.“

Framangreint ákvæði í samningnum sé tekið upp úr samkomulagi, dags. 30. september 1985, á milli Þorsteins Blandon og Efnamiðstöðvarinnar hf. um framleiðslu á C-Tox fúavarnarefni. Þar segir orðrétt:

„1. Þorsteinn Blandon veitir Efnamiðstöðinni hf. rétt til að framleiða og selja C-Tox fúavarnarefni skv. uppskrift. Efnamiðstöðin hf. skuldbindur sig til að fara í einu og öllu eftir gefinni uppskrift. Allar breytingar á uppskrift eru háðar samþykki Þorsteins Blandon.

Sem þóknun greiðir Efnamiðstöðin hf. Þorsteini Blandon 5% af heildsöluverði á hverjum tíma.  Efnamiðstöðin hf. skal á 3ja mánaða fresti senda yfirlit yfir framleiðslu til Þorsteins Blandon.  Umboðslaun greiðast 4 sinnum á ári.

Samningur þessi gildir svo lengi sem Þorsteinn Blandon er umboðsmaður C-Tox á Íslandi og er ekki framseljanlegur til annarra.“

Stefnandi kveður Ragnheiði Blandon, með bréfi lögmanns hennar, dags. 29. júlí 1991, hafa rift samningi við Efnamiðstöðina hf. um framleiðslurétt á C-Tox og hafi hún tilkynnt að frá dags. bréfsins væri fyrirtækinu óheimilt að framleiða C-Tox fúavarnarefni samkvæmt fyrirliggjandi uppskrift og óheimilt að framleiða nokkurt fúavarnarefni undir nafninu C-TOX eða C-TOX, betri fúavörn.  Hafi hún jafnframt krafið Efnamiðstöðina hf. um söluskýrslur yfir heildsölu á C-TOX fúavarnarefni frá 1. janúar 1991 til dags dato og uppgjör á 5% umboðslaunum fyrir sama tímabil, en umboðslaun hafi ekki verið greidd frá 1. janúar 1991.

Fyrrgreindu riftunarbréfi hafi Efnamiðstöðin hf. svarað með bréfi, dags. 13. ágúst 1991, þar sem riftun var hafnað á þeim grundvelli að Þorsteinn Blandon hefði afsalað sér framleiðsluréttinum á C-Tox fúavarnarefni til Efnamiðstöðvarinnar hf. um ókomna tíð.  Kröfu um afhendingu söluskýrslna fyrir tímabilið 1. janúar 1991 til dags dato var einnig hafnað með þeim rökum að Þorsteinn Blandon hefði ekki lengur umboð fyrir C-Tox og hefði hann afsalað sér rétti til umboðslauna ef Ragnheiður Blandon hefði gerst umboðsmaður eða eigandi C-Tox á Íslandi, eins og það hafi verið orðað.

Með bréfí, dags. 10. júlí 1992, til Þorsteins Blandon hafi Efnamiðstöðin hf. tilkynnt að hún hefði greitt 102.736,47 krónur inn á reikning hans vegna umboðslauna fyrir tímabilið 1. janúar 1991 til 29. júlí 1991.  Því bréfi hafi Ragnheiður Blandon svarað f.h. föður síns, Þorsteins Blandon, þar sem hún dró í efa að uppgjör umboðslauna til föður síns væri rétt, en það gæfi til kynna 70-80% samdrátt á sölu á „C-Tox“ á milli áranna 1990 og 1991.  Hafi hún óskað eftir að sér yrðu sendar ítarlegar sölu- og framleiðsluskýrslur fyrir tímabilið 1. janúar 1991 til 29. júlí 1991.  Þær skýrslur hafi ekki borist og hafi aðilar aldrei náð samkomulagi um uppgjör umboðslauna.  Með bréfi lögmanns Ragnheiðar, dags. 24. febrúar 1993, hafi hann ítrekað við Efnamiðstöðina hf. að henni væri algerlega óheimilt að framleiða eða selja fúavarnarefni undir umræddu vörumerki eins og það var orðað.

Stefnandi kveðst, frá því að hann eignaðist vörumerkin, hafa átt fjölda samtala við fulltrúa stefnda og átt í bréfaskriftum við hann en án árangurs.  Sé því málshöfðun þessi óhjákvæmileg. 

Stefndi bendi á að nauðsynleg sé að farið sé yfir málsatvik frá þeim tíma er Skilagrein sf. keypti meirihluta í Efnamiðstöðinni hf. eins og þau horfi við honum.

Stefnandi byggi rétt sinn á kaupsamningi sem hann hafi gert þann 12. mars 1997 við Ragnheiði Blandon um orðmerkið og myndmerkið C-Tox, uppskriftir og framleiðslurétt.

Fylgiskjöl kaupsamnings þessa séu meðal annars kaupsamningur, dags. 10. nóvember 1986, og samningur, dags. 30. september 1985.

Skjöl þessi beri með sér í fyrsta lagi að Efnamiðstöðin hf. (sem í dag heiti GMG ehf.) hafi fengið fulla og ótakmarkaða heimild til að framleiða og selja C-Tox fúavarnarefni og í öðru lagi að Efnamiðstöðin hf. hafi framleiðslurétt á efninu um ókomna tíð, sbr. 4. grein kaupsamningsins.  Á yfirlýsingu frá 30. september 1985 komi einnig fram að samningurinn gildi svo lengi sem Þorsteinn Blandon sé umboðsmaður C-tox á Íslandi og að hann sé ekki framseljanlegur til annarra.  Þorsteinn Blandon hafi því ekki mátt framselja framleiðslurétt á C-Tox til annarra aðila en Efnamiðstöðvarinnar hf.  Þetta bréf hafi tryggt Efnamiðstöðinni hf. rétt á framleiðslu C-Tox um ókomna tíð.  Ítrekað sé að Þorsteinn Blandon hafi skuldbundið sig til að framselja ekki framleiðsluréttinn til annarra aðila.  Hafi þetta ákvæði verið sett inn til að tryggja Þorsteini Blandon ákveðinn lífeyri, meðan hann lifði.  Á móti hafi hann tryggt Efnamiðstöðinni hf. einkarétt á framleiðslu og notkun C-tox.  Sé þetta m.a. staðfest í bréfi sem Jón Snorrason, einn af eigendum Skilagreinar sf. (sem kaupi meirihluta í Efnamiðstöðinni hf., sbr. kaupsamning, dags. 10. nóvember 1986) hafi sent Ragnheiði Blandon og dags. sé 15. maí 1991.

Hafa skuli í huga að C-Tox hafi hvergi verið framleitt nema á Íslandi á þessum tíma (1985), en Kirk Chemicals fyrirtækið hafi hætt framleiðslu C-Tox, sbr. bréf þeirra dags. 23. september 1983.

Í bréfi P. Wassber, framkvæmdastjóra Kirk Chemicals as, frá 23. september 1983, komi fram að Þorsteinn Blandon hafi haft heimild frá Kirk Chemicals til að framleiða og koma á fót eigin C-tox framleiðslu á Íslandi þar sem verið var að hætta framleiðslu í Danmörku vegna hertari krafna í reglugerðum um framleiðslu á C-Tox í Danmörku, sem hafi gert framleiðsluna tæknilega og fjárhagslega óarðbæra eins og segi í bréfinu.

Í bréfi, dags. 11. nóvember 1986, sem Sigurbjörg Snorradóttir, einn eigenda Skilagreinar sf., skrifi f.h. félagsins, komi fram óskir um breytingar á endanlegum samningi, þess efnis m.a. að Þorsteinn Blandon skuli fá umboðslaun meðan hann telst umboðsmaður C-Tox á Íslandi.  Það athugist að bréf þetta sé dagsett 11. nóvember 1986, en fyrrgreindur kaupsamningur sé dagsettur 10. nóvember 1986.  Skýringin sé sú að kaupsamningurinn hafi verið undirritaður seinna en dagsetning hans gefi til kynna, enda séu breytingar sem farið hafi verið fram á í bréfinu frá 11. nóvember 1986 allar í endanlegum samningi sem dags. sé 10. nóvember 1986.  Skýringin sé sú að á þessum tíma hafi tölvutæknin ekki verið komin til sögunnar og hafi samningurinn, sem dags. sé 10. nóvember 1986, verið vélritaður.  Nóg hafi því verið að vélrita aftur þær síður sem breyttust, en síðasta blaðsíða samningsins, þar sem dagsetning hans komi fram, hafi ekki verið vélrituð aftur og því hafi upphafleg dagsetning, þ.e. 10. nóvember 1986 staðið óbreytt.

Undir samninginn frá 30. september 1985 riti m.a. Ragnheiður Blandon og hafi  henni, á þessum tíma, því verið fullkunnugt um réttarstöðu Efnamiðstöðvarinnar hf. hvað C-tox varðaði.  Í kaupsamningi frá 10. nóvember 1986 selji þessi sama Ragnheiður Blandon, sem ein af 5 eigendum alls hlutafjár í Efnamiðstöðinni hf., Skilagrein sf., 54.55% alls hlutafjár í fyrirtækinu.  Eftir þennan gjörning hafi Ragnheiður Blandon átt 18.64% hlutafjár í Efnamiðstöðinni hf.

Í 4. grein þessa samnings komi skýrt fram að Efnamiðstöðin hf. hafi framleiðslurétt á C-Tox fúavarnarefni og hafi umboðsmaður C-Tox á Íslandi á þessum tíma, Þorsteinn Blandon, faðir umgetinnar Ragnheiðar Blandon, samþykkt framleiðslurétt á efninu um ókomna tíð.  Hafi Þorsteinn átt að fá greidd umboðslaun svo lengi sem hann teldist umboðsmaður þess á Íslandi, enda myndi hann ekki framselja framleiðsluréttinn öðrum aðilum, sbr. það sem hann staðfesti gagnvart Efnamiðstöðinni hf. á fyrrgreindum samningum.

Samkvæmt 7. grein þessa kaupsamnings frá 10. nóvember 1986 hafi þáverandi eiginmaður Ragnheiðar Blandon, Kristinn Clausen, verið ráðinn framkvæmdastjóri Efnamiðstöðvarinnar hf.  Undir þennan samning riti Ragnheiður Blandon, sem og faðir hennar, Þorsteinn Blandon.

Aðilum hafi á þessum tíma verið kunnugt um að Þorsteinn Blandon hafði á árinu 1970 skráð vörumerki C-tox.  Eigendum Skilagreinar sf. hafi aftur á móti verið ókunnugt um að skráningunni hafði ekki verið haldið við, en í kaupsamningnum komi fram í 1. grein að fyrirtækinu (Efnamiðstöðinni hf.) fylgi allt sem því hafi fylgt hingað til, svo sem umboð og viðskiptasambönd, og sé vísað í greinar 3 og 4 í kaupsamningi aðila.  Undir allt þetta skrifi Ragnheiður Blandon.

Eftir að samningurinn frá 1986 var undirritaður hafi Efnamiðstöðin hf. framleitt C-Tox vörur og selt áfram.  Kristinn Clausen hafi stjórnað fyrirtækinu til ársins 1989, er honum hafi verið sagt upp störfum af stjórn fyrirtækisins.

Árið 1991 hafi það síðan gerst að Ragnheiður Blandon hafi, með leynd, skráð  vörumerkið C-Tox í vörumerkjaskrá, án þess að Efnamiðstöðinni hf. hafi verið kunnugt um skráninguna og hafi því ekki getað mótmælt henni.  Sé ljóst að hún hafi skráð vörumerkið gegn betri vitund um rétt Efnamiðstöðvarinnar hf.

Eftir að skráning Ragnheiðar á vörumerkinu gekk í gildi hafi Efnamiðstöðinni hf. borist bréf, dags. 29. júlí 1991, þess efnis að Ragnheiður væri nú orðin einkaleyfishafi og umboðsmaður fyrir C-Tox á Íslandi og hafi hún einhliða rift framleiðslurétti Efnamiðstöðvarinnar hf.  Hafi hún jafnframt krafið Efnamiðstöðina hf. um söluþóknun sér til handa.  Ragnheiður hafi engan samning lagt fram til staðfestingar á því að hún væri einkaleyfishafi á framleiðslurétti eða vörumerkinu C-Tox.  Rétt sinn hafi hún eingöngu byggt á skráningu vörumerkisins, sem hún hafi skráð án vitundar og vilja Efnamiðstöðvarinnar hf.

Riftun þessi hafi gerst einhliða af hendi Ragnheiðar og hafi aldrei reynt á hana fyrir dómi.  Efnamiðstöðin hf. hafi því talið hana marklausa á sínum tíma.

Í framhaldinu hafi átt sér stað mikil bréfaskipti milli lögmanna Ragnheiðar Blandon og Efnamiðstöðvarinnar hf.  Séu flest þau skjöl sem farið hafi á milli Ragnheiðar og Efnamiðstöðvarinnar hf. lögð fram af stefnanda, en stefndi leggi fram þau gögn sem upp á vanti og hafi verið í vörslu Efnamiðstöðvarinnar ehf.

Meðal þeirra gagna sem stefndi hafi getað aflað frá Efnamiðstöðinni hf. sé kæra Ragnheiðar til Verðlagsstofnunar, dags. 9. júní 1992, vegna ólögmætrar notkunar á skrásettu vörumerki.  Eftir að Efnamiðstöðin hf. hafi skilað inn greinargerð um málið hafi þáverandi Verðlagsstofnun ákveðið að fella málið niður þar sem engin rök þóttu vera fyrir kærunni.

Efnamiðstöðin hf. hafi talið að málinu væri þar með lokið frá hendi Ragnheiðar Blandon.  Frá árinu 1993 gerist ekkert í málinu, en 12 árum seinna, eða þann 16. júní 2004 berist stefnda bréf frá lögmanni stefnanda.

Það hafi því liðið 12 ár án þess að nokkuð heyrðist af hinum meinta rétti Ragnheiðar Blandon, byggðum á einhliða riftun hennar á samningsbundnum rétti Efnamiðstöðvarinnar hf. sem hún sjálf hafði undirritað og selt og fengið greitt fyrir sem hluthafi í Efnamiðstöðinni hf.

Tólf ár líði uns lögmaður stefnanda sendi bréf til Húsasmiðjunnar hf. vegna heimildarlausrar notkunar á vörumerkinu C-Tox.  Ekkert sé getið um framleiðslurétt eða krafa gerð um umboðslaun, eins og gert sé í stefnu.

Virðist sem stefnandi skrái vörumerkið á sitt nafn þann 15. apríl 2002.

Komi fram í bréfi lögmanns stefnanda, sem dagsett sé 16. júní 2004, að stefnandi hafi áhuga á að selja stefnda vörumerkið og uppskriftir.  Ef stefndi hefði ekki áhuga hafi því verið hótað að stefnandi myndi snúa sér til samkeppnisaðila stefnda og kanna áhuga hans á kaupum.  Bréfi þessu hafi verið svarað með tölvupósti þar sem fram komi, eins og í tölvupóstssamskiptum á árinu 2005, að Húsasmiðjan hf. hafi á sínum tíma keypt Efnamiðstöðina hf.  Hafi svör þessi verið á misskilningi byggð, enda liðin 12 ár frá því að mál þetta var á borði undirritaðs lögmanns.  Hið rétta sé að Skilagrein sf. hafi keypt meirihluta hlutafjár í Efnamiðstöðinni hf. árið 1986, en Ragnheiður Blandon hafi rift framleiðslurétti gagnvart Efnamiðstöðinni hf. árið 1991.  Stefndi Húsasmiðjan hf. hafi aldrei verið aðili að þeim bréfaskiptum og hinni meintu riftun sem áttu sér stað frá árinu 1991.

Í málsatvikalýsingu stefnanda komi fram að hann hafi átt fjölda samtala við fulltrúa stefndu og átt í bréfaskriftum við hann án árangurs.  Sé þessu harðlega mótmælt sem röngu.  Eftir að stefnandi hafi gert kaupsamning þann sem hann byggi rétt sínn á, á árinu 1997, gerist ekkert marktækt í málinu fyrr en með bréfi stefnanda sem dagsett sé 16. júní 2004.

Málsástæður stefnanda og lagarök

Stefnandi byggir kröfur sínar á því að með kaupsamningi, dags. 12. mars 1997, hafi hann keypt orðmerkið og myndmerkið „C-TOX“ og orðmerkið „C-TOX Betri djúpverkun varanleg fúavörn“, uppskriftir að glæru, brúnu og grænu „C-TOX“ fúavarnarefni og framleiðslurétt að fúavarnarefni undir vörumerkinu „C-TOX“. Vörumerkin hafi verið skráð þegar hann keypti þau en með skráningunni hafi stofnast vörumerkjaréttur, sbr. 1. tl. 1. mgr. 3. gr. laga um vörumerki nr. 45/1997.  Þennan rétt hafi hann öðlast fyrir framsal, sbr. 1. mgr. 36. gr. laga nr. 45/1997.  Hann hafi síðan haldið vörumerkjaréttinum við með endurskráningu.  Stefndi hafi ekki andmælt skráningu vörumerkjanna eftir birtingu þeirra, svo sem heimilt sé samkvæmt 1. mgr. 22. gr. laga nr. 45/1997.  Stefndi verði því að bera halla af því tómlæti sínu.

Stefnandi byggir á því að í vörumerkjaréttinum felist að aðrir en eigandi vörumerkis megi ekki, án heimildar, nota í atvinnustarfsemi tákn sem séu eins eða lík vörumerki hans ef notkunin taki til eins eða svipaðrar vöru eða þjónustu og vörumerkjarétturinn nái til og hætt sé við ruglingi, þar með talið að tengsl séu með merkjunum, sbr. 1. og 2. tl. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 45/1997.  Í því tilviki sem hér um ræði framleiði stefndi, Húsasmiðjan hf., eða láti framleiða fyrir sig, fúavarnarefni samkvæmt uppskrift frá stefnanda og selji síðan undir vörumerkjum hans.  Bæði sé um að ræða orð- og myndverkið C-Tox sem komi fram á umbúðum utan um fúavarnarefnið og í auglýsíngum um það.  Í þessu felist ótvírætt brot á vörumerkjarétti stefnanda.

Varðandi þær mótbárur stefnda að fyrrum rétthafi Þorsteinn Blandon hafi afsalað sér framleiðsluréttinum til Efnamiðstöðvarinnar hf. á sínum tíma, þá vísar stefnandi til samkomulags Þorsteins og Efnamiðstöðvarinnar, dags. 30. september 1985, þar sem fram kemur að Þorsteinn veitir Efnamiðstöðinni rétt til að framleiða og selja fúavarnarefni samkvæmt uppskrift gegn 5% þóknun af heildsöluverði á hverjum tíma.  Samkvæmt 3. gr. þess samnings hafi hann átt að gilda á meðan Þorsteinn væri umboðsmaður „C-TOX“ á Íslandi.  Hann hafi hins vegar hætt sem slíkur í júlí 1991, sbr. bréf fyrrum lögmanns Ragnheiðar Blandon, dags. 29. júlí 1991, og bréf Skandi Food, dags. 29. september 1992. Frá þeim tíma hafi hvorki Efnamiðstöðin hf. né stefndi átt nokkurn rétt til notkunar á vörumerkjunum eða framleiðslu á fúavarnarefnum undir þeim merkjum.  Enda hafí hvorki stefndi né Efnamiðstöðin hf. frá 29. júlí 1991 greitt nein umboðslaun vegna framleiðslu og eða sölu á fúavarnarefni undir vörumerkjunum „C-TOX“ og „C-TOX Betri djúpverkun varanleg fúavörn“.  Með því hafi Efnamiðstöðin hf. í raun samþykkt riftunina.

Stefnandi telur að ákvæði 4. gr. kaupsamnings, dags. 10. nóvember 1986, um kaup á hlutum í Efnamiðstöðinni hf., verði, að því leyti sem það kunni að vera óskýrt, að skýra með hliðsjón af samkomulaginu 1985 þar sem það sé augljóslega tekið upp úr því.

Þá byggir stefnandi á því að samkvæmt 3. tl. í samkomulaginu frá 30. september 1985 hafi Efnamiðstöðin hf. ekki getað framselt þau réttindi sem hún átti samkvæmt samkomulaginu.

Kröfu sína um að stefnda sé óheimilt að nota vörumerki stefnanda styður stefnandi við 1. mgr. 42. gr. laga nr. 45/1977.  Stefnandi hafi öðlast rétt sinn til vörumerkjanna fyrir framsal.  Svo sem lýst haf verið hér að framan, hafi stefndi af ásetningi brotið gegn rétti stefnanda þrátt fyrir ítrekuð mótmæli og viðvaranir stefnanda og fyrri rétthafa um að hann yrði látinn sæta ábyrgð.

Kröfu sína um að staðfest verði með dómi að stefnandi eigi einn framleiðslurétt á Íslandi á fúavarnarefni því sem selt hafi verið undir vörumerkinu „C-TOX“, byggir stefnandi á kaupsamningi, dags. 12. mars 1997, sem hann kveðst hafa gert við Ragnheiði Blandon, sem hafi verið rétthafi samkvæmt samningi við Kirk Chemicals as, síðar Skandi Food, sem hafi verið eigandi vörumerkjanna og framleiðsluréttar á fúavarnarefninu, sbr. yfirlýsingu þess efnis, dags. 27. september 1992.  Samkvæmt grein 1.2 í kaupsamningnum keypti stefnandi uppskriftir að fúavarnarefninu og samkvæmt grein 1.3 í samningnum keypti hann framleiðslurétt seljanda að efninu.  Hann eigi því einn þennan rétt á Íslandi og geri þá kröfu að það verði staðfest með dómi.

Kröfu sína um að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 32.582.052 krónur í hæfílegt endurgjald vegna notkunar stefnda á vörumerkinu, styður stefnandi við 1. mgr. 43. gr. laga nr. 45/1997.  Af gögnum málsins megi sjá að um ásetning stefnda hafi verið að ræða þar sem félagið hafi hvorki sinnt mótmælum og aðvörunum stefnanda né fyrri rétthafa.  Upphæð kröfunnar sé fundin þannig að miðað sé við tölur í bréfi þáverandi lögmanns Efnavinnslunnar hf. og núverandi lögmanns stefnda, dags. 10. júlí 1992.  Í því bréfi komi fram að vörunotkun á tímabilinu miðað við heildarsöluverð hafi verið 2.054.729 krónur eins og það sé orðað.  Sé þarna vísað til tímabilsins 1. janúar 1991 til 29. júlí 1991.  Þó ágreiningur hafi verið um þessa tölu og fyrri rétthafi hafi talið hana alltof lága þar sem hún endurspeglaði ótrúlega mikinn samdrátt á milli áranna 1990 og 1991, hafi stefnandi ekki aðrar tölur að miða við.  Þessi tala sem taki til tæplega sjö mánaða gefi niðurstöðu upp á 293.532 krónur á mánuði.  Stefnandi hafi orðið eigandi réttindanna 12. mars 1997.  Stefndi hafi því hagnýtt þessi réttindi í óþökk stefnanda a.m.k. frá 12. mars 1997 til 12. júní 2006 eða í 111 mánuði.  Ef sú tala sé margfölduð með 293.532 krónum (111 mán. x kr. 293.532) verði niðurstaðan 32.582.052 krónur sem stefnandi geri kröfu um að stefndi greiði honum sem hæfilegt endurgjald fyrir notkun á vörumerkjunum.

Krafa um dráttarvexti styðjist við 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., vaxtalaga og 4. mgr. 5. gr. vaxtalaga nr. 38/2001.

Málskostnaðarkröfu sína styður stefnandi við 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 og kröfu um virðisaukaskatt á málskostnað við lög nr. 50/1988 um virðisaukaskatt en stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur.

Málsástæður og lagarök stefnda

Aðalkrafa um sýknu þar sem málið sé höfðað gegn röngum aðila

Stefndi byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að málið sé höfðað gegn röngum aðila og beri því að sýkna stefnda með vísan til 2. mgr. 16. greinar laga 91/1991.

Stefnandi byggi rétt sinn á samningi, dagsettum 12. mars 1997, þar sem hann kaupi vörumerkið C-tox, uppskriftir og framleiðslurétt.  Fylgiskjöl samnings þessa beri það öll með sér að Efnamiðstöðin hf. (sem í dag heiti GMG ehf.) hafi verið sá aðili sem Ragnheiður Blandon, seljandi samkvæmt kaupsamningi, dags. 12. mars 1997, hafi deilt við um rétt til framleiðslu á C-tox fúavarnarefni og notkun vörumerkisins á árinu 1991.

Stefnandi höfði því mál sitt á hendur röngum aðila. Verði ekki séð hvernig Húsasmiðjan hf. geti verið aðili að málinu þar sem Efnamiðstöðin hf. (nú GMG ehf.) sé sá aðili sem hafi framleiðslurétt á C-tox og byggi þann rétt sinn á samningi, dags. 10. nóvember 1986.  Þegar af þessari ástæðu beri að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda í málinu.

Krafa um sýknu þar sem stefnandi getur ekki öðlast betri rétt en viðsemjandi hans átti

Komist dómurinn ekki að þeirri niðurstöðu að sýkna beri stefnda á grundvelli aðildarskorts krefst stefndi sýknu á þeim rökum að stefnandi geti aldrei átt betri rétt en viðsemjandi hans, Ragnheiður Blandon, átti.

Ragnheiður Blandon, sá aðili sem selt hafi stefnanda þau réttindi sem stefna í máli þessu byggist á, byggi rétt sinn á einhliða riftun réttinda sem hún hafi talið sig hafa öðlast og tilkynnt var með bréfi, dags. 29. júlí 1991.  Riftun þessi hafi aldrei verið staðfest fyrir dómi, né með öðrum hætti og hafi henni verið mótmælt harðlega af Efnamiðstöðinni hf.

Ragnheiður hafi aldrei lagt fram neina samninga sem sönnuðu framsal á þeim réttindum sem hún taldi sig eiga, hvorki frá föður sínum né frá öðrum.  Rétt sinn hafi hún eingöngu byggt á skráningu vörumerkisins C-Tox í vörumerkjaskrá og hafi talið sig þar með hafa öðlast einkarétt á framleiðslu á C-Tox og öllu öðru sem snerti vörumerkið C-Tox.

Ragnheiður Blandon hafi kært notkun Efnamiðstöðvarinnar hf. á vörumerkinu C-Tox til Verðlagsstofnunar þann 19. júní 1992. Efnamiðstöðin hf. hafi sent inn skýringar sínar á málinu og hafi Verðlagstofnun felt málið niður eftir að hafa farið yfír þau gögn sem Verðlagsstofnun bárust frá Efnamiðstöðinni hf.

Sé því ljóst að hin meinta riftun Ragnheiðar Blandon var ólögmæt með öllu og því markleysa ein, enda aldrei staðfest fyrir dómi né öðru yfirvaldi.  Stefnandi byggi rétt sinn vegna máls þessa á þessari einhliða riftun, sem aldrei hafi verið staðfest og sé því ljóst að stefnandi geti aldrei byggt rétt sinn á slíkum málatilbúningi.

Stefnandi geti aldrei átt betri rétt en viðsemjandi hans, Ragnheiður Blandon, átti og því ekki um nein réttindi að ræða sem hægt sé að byggja kröfur á.  Sé því ljóst að allar kröfur stefnanda séu haldlausar og beri því af þeirri ástæðu að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda af þessari ástæðu.  Ragnheiður Blandon hafi verið í slæmri trú þegar hún skráði vörumerkið C-tox á sínum tíma, vitandi um rétt Efnamiðstöðvarinnar hf. og þann samning sem gerður hafi verið um sölu á hlutafénu og þeim réttindnm sem Efnamiðstöðin hf. hafi átt.

Þó svo að Ragnheiður Blandon hafi skráð vörumerkið C-Tox árið 1991, þá komi sú skráning ekki í veg fyrir samningsbundinn framleiðslurétt Efnamiðstöðvarinnar hf. á C-Tox, rétt sem Ragnheiður Blandon hafi sjálf staðfest með undirritun sinni á samninginn frá 30. september 1985 og kaupsamning frá 10. nóvember 1986 og sjálf fengið greitt fyrir við sölu á hlutafé sínu í Efnamiðstöðinni hf.

Stefndi mótmæli því að vörumerkjarétturinn einn og sér, og endurskráning vörumerkisins C-Tox af Ragnheiði Blandon á sínum tíma, hafi orðið til þess að útrýma öllum réttindum sem Efnamiðstöðin hf. hafi eignast og greitt hafði verið fyrir tæplega nífalt nafnverð, eins og gert hafi verið með samningnum frá 1986.

Viðsemjandi stefnanda, Ragnheiður Blandon, byggi rétt sinn á einhliða riftun samnings frá 1986 og leggi til grundvallar riftun sinni skráningu á vörumerkinu C-Tox í vörumerkjaskrá árið 1991.  Riftun Ragnheiðar Blandon hafi verið einhliða og aldrei staðfest fyrir dómi né öðrum þar til bærum yfirvöldum.

Stefnandi geti því aldrei unnið betri rétt en viðsemjandi hans átti og því ljóst að kröfur hans séu með öllu haldslausar og beri því af þeirri ástæðu að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda í málinu.

Krafa um sýknu þar sem stefnandi hefur ekki formlegt umboð til málshöfðunar

Þá byggir stefndi sýknukröfu sína á því að stefnandi hafi ekki formlegt umboð til málshöfðunar þessarar, þar sem bú hans hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta í byrjun árs 2003.  Hafi skiptum lokið það sama ár á grundvelli 155. greina laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991, þar sem engar eignir voru í búinu.  Skiptastjóri í búinu sé Rúnar Gíslason hdl., og samkvæmt athugun stefnda hafi hann ekki verið upplýstur um málshöfðun þessa.

Ljóst sé að verðmæti séu að baki þeim kröfum sem stefnandi geri í stefnu, eigi þau réttindi að renna til þrotabúsins, en ekki til stefnanda sjálfs.  Þar sem skiptastjóri hafi ekki gefið heimild eða umboð til málshöfðunar þessarar beri að sýkna stefnda af öllum kröfum sökum aðildarskorts.  Megi vísa til hæstaréttardóms 1999:4688 hvað þetta varðar.

Þrotabú stefnanda sé því réttur aðili málshöfðunar þessarar og beri því að sýkna stefnda af öllum kröfum vegna aðilarskorts stefnanda.

Sýkna á grundvelli þess að stefnandi hafi lýst því yfir fyrir skiptastióra að engar eignir séu fyrir hendi í búi hans

Þá byggir stefndi enn fremur á því að í skýrslutöku af stefnanda hjá skiptastjóra hafi stefnandi lýst því yfir að hann eigi engar eignir og hafi ekki átt síðustu 2 árin, eins og staðfest sé í skýrslutöku sem undirrituð sé af stefnanda.  Stefnandi hafi því lýst því yfir, með bindandi hætti, að hann telji meint verðmæti, samkvæmt samningi þeim sem hann gerði á árinu 1997, ekki fyrir hendi.  Sé hér um bindandi yfirlýsingu að ræða sem bindi hendur stefnanda hvað varðar kröfugerð og umkrafin réttindi hans.  Beri því að sýkna stefnda af þessari ástæðu.

Þar sem stefnandi hafi ekki getið um réttindin við skýrslutöku og skiptum á þrotabúi hans hafi lokið á grundvelli eignaleysis, sé ljóst að sú niðurstaða „tæmi sök“ og því engin forsenda til málshöfðunar þessarar.

Sýkna vegna tómlætis

Þá byggir stefndi sýknukröfu sína á því að með tómlæti sínu og athafnaleysi hafi stefnandi, og áður Ragnheiður Blandon, sem hafi selt stefnanda meint réttindi sín, sýnt af sér slíkt tómlæti að leiði til sýknu í málinu.

Hafi Ragnheiður Blandon talið sig eiga þau réttindi sem hún hafi selt stefnanda málsins, hafi henni borið án ástæðulauss dráttar að hefja lögsókn til staðfestingar á meintum rétti sínum.  Ragnheiður Blandon hafi lýst yfir einhliða riftun á samningsbundnum réttindum Efnamiðstöðvarinnar hf. árið 1991 og hafi byggt hana á skráningu í vörumerkjaskrá.

Eftir að hún hafi lýst yfir riftun sinni hafi hún, án tafar, átt að leggja riftun sína fyrir dóm.  Það eina sem Ragnheiður Blandon hafi gert var að senda bréf til Efnamiðstöðvarinnar hf. og kæra notkun vörumerkisins C-Tox til Verðlagsstofnunar, sem hafi fellt málið niður.

Ragnheiður Blandon hafi ekki aðhafst meira í málinu og því ljóst að hafi hún átt einhver réttindi vegna skráningar sinnar á vörumerkinu C-Tox árið 1991, þá hafi hún, með tómlæti sínu, fyrirgert þeim öllum.

Þá hafi stefnandi, eftir að hann kaupir hin meintu réttindi árið 1997 af Ragnheiði Blandon, án tafar átt að hefja málsókn til staðfestingar á þeim réttindum sem hann taldi sig vera að kaupa.

Efnamiðstöðin hf. hafi öðlast framleiðslurétt á C-Tox árið 1985.

Ragnheiður Blandon hafi einhliða rift samningsbundnum réttindum Efnamiðstöðvarinnar hf. árið 1991, án þess að höfða mál til staðfestingar á riftuninni.

Stefndi hafi keypt hin meintu réttindi Ragnheiðar á árinu 1997, eða fyrir 9 árum síðan. Með tómlætí sínu og athafnaleysi hafi bæði Ragnheiður Blandon og stefnandi fyrirgert öllum rétti sínum, hafi hann einhver verið.

Að vekja upp mál sem byggi á samningi frá árinu 1985, samningi sem verið hafi í fullu gildi og hafi ekki verið hnekkt, geti ekki gengið upp í almennu viðskiptalífi. Almennar tómlætisreglur séu til að vernda samfélagið og viðskiptalífið fyrir slíku.  Eftir 20 ár sé örðugt um sönnun og minni þeirra aðila sem komi að málinu sé ekki treystandi. Almennt sé fyrirtækjum skylt að geyma bókhaldsgögn í 7 ár, en tilviljun ein hafi ráðið því að stefndi fékk aðgang að ýmsum gögnum Efnamiðstöðvarinnar hf.  Í máli þessu sé tekist á um rúmlega 20 ára samninga og sé því ógjörningur að túlka þá samninga með hliðsjón af skýrslutökum af þeim aðilum sem að þessum samningi komu á sínum tíma.  Leggja beri þá skyldu á aðila að þeir leiti réttar síns þegar í stað, telji þeir á sér brotið, þannig að hægt sé að meta réttarstöðu þeirra innan skynsamlegs tíma svo unnt sé að kalla eftir gögnum úr bókhaldi án erfíðleika.  Sé þetta ekki gert beri viðkomandi aðili hallann af þeim drætti með tómlæti sínu og beri því að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda sökum tómlætis.

Þá skuli ítrekað að þrotabú stefnanda hefði átt aðild að málshöfðun þessari, hefði stefnandi getið um hin meintu réttindi sem hann nú byggir kröfu sína á í stefnu.  Þar sem stefnandi hafi ekki getið um réttindin við skýrslutöku og skiptum á þrotabúi hans hafi verið lokið sem eignalausu, sé ljóst að sú niðurstaða „tæmi sök“ og því séu engin frekari réttindi fyrir hendi lengur til málshöfðunar þessarar.  Þar sem stefnandi hafi ekki getið um réttindi þessi við skýrslutöku, beri einnig, með vísan til tómlætis hans hvað þetta varðar, að sýkna stefnda af öllum kröfum.

Sýkna vegna fyrningar

Þá byggir stefndi sýknukröfu sína á því að þær kröfur og þau réttindi sem stefnandi byggir rétt sinn á séu fyrnd.

Almenna reglan um fyrningu byggi á 10 ára fyrningarfresti, með vísan til 2. mgr. 4. gr. laga 14/1905.  Samkvæmt 1. mgr. 5. greinar sömu laga hafi fyrningarfrestur byrjað að líða þegar krafa varð gjaldkræf.  Ragnheiður Blandon hafi byggt rétt sinn á riftun sinni frá árinu 1991.  Það tímamark marki því gjaldkræfi kröfu hennar.  15 ár séu síðan þetta gerðist og krafan því löngu fyrnd.  Stefnandi geti ekki byggt á víðtækari rétti en sá aðili sem seldi honum hin meintu réttindi.  Séu því allar þær kröfur sem mál þetta byggist á löngu fyrndar.

Hefð

Þá byggir stefndi á því að í rúm 20 ár hafi Efnamiðstöðin hf. framleitt C-tox samkvæmt samningi og sé einhver vafi á heimild Efnamiðstöðvarinnar hf. þá hafi félagið hefðað þennan rétt í dag, þar sem rúm 20 ár séu síðan frameiðslan hófst.

Sérstök mótmæli

Stefndi mótmælir fjárkröfu stefnanda sérstaklega sem órökstuddri og vanreyfaðri. Krafan sé þess eðlis að rétt hefði verið að gera kröfu um frávísun þessa liðs með vísan til 1. mgr. 80. greinar laga nr. 91/1991.  Stefnandi byggi kröfu sína hvað þetta varðar á því að um sé að ræða hæfilegt endurgjald vegna notkunar á vörumerki með vísan til 1. mgr. 43. greinar laga nr. 45/1997.  Samkvæmt tilvitnaðri lagagrein sé krafist ásetnings eða gáleysis, og því um skaðabótakröfu að ræða.  Sé því alfarið mótmælt að lagaskilyrði greinarinnar séu fyrir hendi.  Einnig sé þeirri aðferð sem notuð sé við útreikning kröfunnar mótmælt og geti þessi útreikningur aldrei orðið grundvöllur að hæfílegu endurgjaldi samkvæmt 1. mgr. 43. grein laga 45/1997.  Dómkrafan sé því vanreifuð og órökstudd með öllu.  Aðili sem byggi framleiðslurétt og notkun á vörumerki á samningi uppfylli ekki skilyrði þess að brjóta gegn vörumerkjarétti með ásetningi eða gáleysi.  Þá sé fjárhæð hins hæfílega endurgjalds algerlega vanreifuð.  Ekki verði séð að stefnandi hafi orðið fyrir neinu tjóni, a. m. k. sé tjónið með öllu ósannað.

Svo hægt sé að grundvalla slíka kröfu þyrfti að dómkveða matsmenn eða leggja önnur rök við útreikningi slíkrar kröfu svo að krafan sé dómtæk með vísan til 1. mgr. 80. greinar laga 91/1991.  Sé gerð krafa til þess að dómurinn vísi kröfu stefnanda, um hæfilegt endurgjald, að fjárhæð 32.582.052 krónur, frá ex officio.

Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að stefnda beri að greiða endurgjald fyir nokun á vörumerkinu, sé þess krafist að fjárhæðin verði lækkuð verulega.

Þá sé yfirlýsingu Palle Wassberg frá 27. september 1992 sérstaklega mótmælt.  Skjalið sé gefið út af fyrrverandi framkvæmdastjóra félags í Danmörku og hafi því ekkert gildi, enda hafi félag þetta hætt framleiðslu á C-Tox og gefið Þorsteini Blandon full umráð til að framleiða og selja C-Tox á Íslandi, sbr. bréf hans frá 23. september 1983 til Þorsteins.  Áðurgreind yfirlýsing hafi því ekkert sönnunargildi gagnvart þeim samningi sem gerður var árið 1986.  Ef Ragnheiður Blandon hafi öðlast einhvers konar einkarétt á nafninu C-Tox, hljóti að vera gerð sú krafa að stjórnendur þess fyrirtækis sem vísað sé til í Danmörku og framleiddi C-Tox á sínum tíma, hefðu gefið út slíka yfírlýsingu, en ekki fyrrum starfsmaður sem ekkert umboð hafi haft til útgáfu slíkrar yfírlýsingar af hálfu félagsins.

Þá sé því alfarið mótmælt að Efnamiðstöðin hf. hafi á sínum tíma samþykkt riftun Ragnheiðar Blandon með því að greiða ekki umboðslaun til Þorsteins Blandon.

Efnamiðstöðin hf. hafi greitt Þorsteini umboðslaun allt fram að þeim tíma er hann var umboðsmaður fyrir C-Tox.  Hafi Þorsteinn Blandon ekki mótmælt útreikningi Efnamiðstöðvarinnar hf. og hafi hann ekki krafið félagið um umboðslaun í framhaldinu.

Efnamiðstöðin hf. hafi verið með samning þess efnis að félagið öðlaðist framleiðslurétt á C-Tox um ókomna tíð.  Þessum framleiðslurétti hafi aldrei verið hnekkt og sé hann því til staðar ennþá að því er stefnanda sé best kunnugt.

Ragnheiður Blandon virðist hafa stjórnað málefnum föður síns að vild, sbr. umboð Þorsteins til Ragnheiðar, dags. 3. nóvember 1980, og virðist hún ekki hafa haft hagsmuni hans að leiðarljósi er hún rifti samningnum frá 1986 einhliða og tilkynni að hún sjálf sé orðin umboðsmaður fyrir C-Tox og að Þorsteinn Blandon sé ekki lengur umboðsmaður C-tox á Íslandi, sbr. bréf sem hún hafi sent Efnamiðstöðinni hf. þann 29. júlí 1991.

Er öllum málsástæðum stefnanda, sem að öðru leyti fara í bága við málsástæður stefnda, mótmælt sem röngum og ósönnuðum.

Vísað sé til almennra reglna samninga og kröfuréttar um skuldbindingargildi samninga og gildistöku samninga.

Málskostnaðarkrafan byggist á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

Niðurstaða

Með samningi, dags. 30. september 1985, veitti Þorsteinn Blandon Efnamiðstöðinni hf. rétt til að framleiða og selja C-Tox fúavarnarefni samkvæmt uppskrift.  Sem þóknun skyldi Efnamiðstöðin greiða Þorsteini Blandon 5% af heildsöluverði á hverjum tíma.  Í 3. gr. samningsins segir: „Samningur þessi gildir svo lengi sem Þorsteinn Blandon er umboðsmaður C-Tox á Íslandi og er ekki framseljanlegur til annarra.“  Óumdeilt er að Þorsteinn Blandon hafi á þessum tíma haft framleiðslurétt á umræddu efni.  Undir þennan samning ritar Þorsteinn og stjórn Efnamiðstöðvarinnar hf., þ.á m. Ragnheiður Blandon, dóttir Þorsteins.

Árið 1986, 10. nóvember, var gerður kaupsamningur milli eigenda allra hlutabréfa í hlutafélaginu Efnamiðstöðin hf. og sameignarfélagsins Skilagreinar sf. þar sem Skilagrein sf. kaupir 54,55% eignarhlutdeild í Efnamiðstöðinni hf.  Segir m.a. í samningi að fyrirtækinu fylgi allt sem því hafi fylgt fram að gerð samningsins og skuli ekkert undanþegið.

Í 4. gr. kaupsamningsins segir m.a.: „Efnamiðstöðin hf. hefur framleiðslurétt á C-Tox fúavarnarefni.  Umboðsmaður C-Tox á Íslandi Þorsteinn Blandon, nnr. 9731-5515, samþykkir fyrir sitt leyti framleiðslurétt fyrirtækisins um ókomna tíð á nefndu efni.“    Samninginn undirrita hluthafar f.h. Efnamiðstöðvrinnar hf., þ.á m. Ragnheiður Blandon og Þorsteinn Blandon og kaupendur, þ.e. stjórn Skilagreinar sf.

Lögmaður Ragnheiðar sendi Efnamiðstöðinni hf. bréf 29. júlí 1991 þar sem tilkynnt er að Ragnheiður sé einkaleyfishafi og umboðsmaður fyrir C-Tox á Íslandi.  Þá er jafnframt vísað til 4. gr. kaupsamnings frá 10. nóvember 1986 og tilkynnt að rift sé samningi um framleiðslurétt á C-Tox fúavarnarefni frá og með þeim degi sem bréfið var sent.  Þá var tilkynnt að Efnamiðstöðinni hf. væri óheimilt að framleiða nokkurt fúavarnarefni undir nafninu C-Tox eða C-Tox Betri fúavörn.  Engin gögn liggja fyrir í málinu um framsal á einkaleyfinu til Ragnheiðar á þessum tíma sem riftunarbréfið var sent en fyrir liggur bréf, dags. 27. september 1992, til Þorsteins Blandon frá Palle Waaberg, sem var fyrrverandi eigandi og stjórnandi  Kirk Chemicals A/S, fyrirtækis sem á sínum tíma veitti Þorsteini Blandon rétt til að nota vörumerkið C-Tox og framleiða efnið á Íslandi.  Í bréfinu lýsir nefndur Palle Wassberg því yfir að  Ragnheiður Blandon hafi einkarétt á því að skrá vörumerkið C-Tox og framleiðslurétt á efninu.  Áður en riftunarbréfið var sent lét Ragnheiður Blandon, samkvæmt framburði hennar fyrir dómi, skrá sig sem eiganda vörumerkisins C-Tox hjá Einkaleyfastofu, en hún kvaðst, samkvæmt samkomulagi hennar við Kirk Chemicals A/S í Danmörku, hafa fengið rétt til að skrá vörumerkið C-Tox á sitt nafn og framleiðslurétt á efninu.  Samkvæmt gögnum málsins mun Þorsteinn Blandon hafa skráð vörumerkið C-Tox á Íslandi árið 1970.  Ragnheiður Blandon endurnýjaði skráninguna 1991.

 Kröfu Ragheiðar Blandon um riftun var hafnað af hálfu Efnamiðstöðvarinnar hf., sbr. bréf Efnamiðstöðvarinnar hf. frá 13. ágúst 1991.  Ekki liggur fyrir að Ragnheiður Blandon hafi fylgt eftir riftunarkröfu sinni fyrir dómstólum eða riftun verið staðfest með öðrum hætti.  Þegar virt eru gögn málsins þykir ekki sýnt fram á að tilgreindu ákvæði í kaupsamningi milli hluthafa í Efnamiðstöðinni hf. og stjórnar Skilagreinar sf. hafi verið rift með lögformlegum hætti. 

Í kaupsamningi, dags. 12. mars 1997, selur Ragnheiður Blandon stefnanda orðmerkið og myndmerkið C-Tox og orðmerkið C-Tox Betri djúpverkun varanleg fúavörn og framleiðslurétt sinn að fúavarnarefni undirvörumerkinu C-Tox.  Í 3. gr. kaupsamningsins segir að kaupanda, þ.e. stefnanda, sé kunnugt um notkun Efnamiðstöðvarinnar hf. á vörumerkinu og framleiðslu á fúavörn undir heitinu C-Tox í óþökk seljanda, þ.e Ragnheiðar Blandon, og lýsir hún því jafnframt yfir að enginn samningur sé í gildi á milli hennar og Efnamiðstöðvarinnar hf. um þessa notkun vörumerkisins.

Af gögnum málsins verður ráðið að á árinu 1986 hafi Efnamiðstöðin haft framleiðslurétt á fúavarnarefninu C-Tox, sbr. kaupsamning, dags. 10. nóvember 1986.  Ekki hefur verið sýnt fram á að þeim samningi hafi verið rift með lögformlegum hætti, sbr. það sem áður er rakið.  Af kaupsamningi Ragnheiðar Blandon við stefnanda sem gerður var á árinu 1997 verður einnig ráðið að Ragnheiði Blandon hafi verið ljóst að Efnamiðstöðin hf. framleiddi fúavarnarefnið C-Tox.  Gögn málsins bera með sér að Efnamiðstöðin hf. var sá aðili sem Ragnheiður Blandon deildi við um rétt til framleiðslu á C-Tox fúarvarnarefni og notkun vörumerkisins.  Engin gögn í málinu benda til þess að yfirfærsla réttinda til framleiðslu á efninu hafi átt sér stað milli Efnamiðstövarinnar hf. og stefnda Húsasmiðjunnar hf.   Af hálfu stefnanda hefur ekki verið sýnt fram á í máli þessu að stefndi framleiði fúavarnarefni undir vörumerkinu C-Tox eða vörumerkinu C-Tox Betri djúpverkun varanleg fúavörn.  Þegar virt er það sem fram hefur komið í málinu þykir stefnanda, sem leiðir rétt sinn af kaupsamningi við Ragnheiði Blandon, ekki hafa tekist að sýna fram á að stefndi sé réttur aðili að máli þessu.  Telst kröfum því ekki réttilega að honum beint og ber því þegar af þeim sökum að sýkna hann af kröfum stefnanda í málinu, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.

Eftir þessari niðurstöðu ber stefnanda að greiða stefnda málskostnað sem ákveðst 400.000 krónur.

Dóm þennan kvað upp Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð

                Stefndi, Húsasmiðjan hf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Hlöðvers Arnar Vilhjálmssonar.

                Stefnandi greiði stefnda 400.000 krónur í málskostnað.