Hæstiréttur íslands

Mál nr. 275/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Hæfi dómara


Miðvikudaginn 30

 

Miðvikudaginn 30. maí 2007.

Nr. 275/2007.

Ker hf.

(Kristinn Hallgrímsson hrl.)

Olíuverslun Íslands hf. og

(Gísli Baldur Garðarsson hrl.)

Skeljungur hf.

(Hörður Felix Harðarson hrl.)

gegn

Samkeppniseftirlitinu og

íslenska ríkinu

(Heimir Örn Herbertsson hrl.)

 

Kærumál. Hæfi dómara.

Héraðsdómari í máli, sem K hf., O hf. og S hf. höfðuðu gegn S og Í var ekki talinn vanhæfur til að fara með málið á grundvelli g. liðar 5. gr. laga nr. 91/1991. Var kröfu félaganna um að dómarinn viki sæti því hafnað.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kærum 9., 7. og 14. maí 2007, sem bárust réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. apríl 2007, þar sem hafnað var kröfum sóknaraðila um að Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari viki sæti í máli, sem sóknaraðilar hafa höfðað gegn varnaraðilum. Kæruheimild er í a. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og dómaranum gert að víkja sæti í málinu. Þá krefjast þeir kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Ekki liggja fyrir atvik eða aðstæður, sem geta valdið því að héraðsdómarinn verði talin vanhæf til að fara með framangreint mál vegna ákvæðis g. liðar 5. gr. laga nr. 91/1991. Ber því að staðfesta niðurstöðu hins kærða úrskurðar.

Sóknaraðilum verður gert að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðilar, Ker hf., Olíuverslun Íslands hf. og Skeljungur hf., greiði óskipt varnaraðilum, Samkeppniseftirlitinu og íslenska ríkinu, samtals 150.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. apríl 2007.

Mál þetta, sem var tekið til úrskurðar 23. apríl sl., er höfðað af Keri hf., Suðurlandsbraut 18, Reykjavík, Olíuverslun Íslands hf., Sundagörðum 2, Reykjavík og Skeljungi hf., Hólmaslóð 8, Reykjavík, á hendur Samkeppniseftirlitinu og íslenska ríkinu, með stefnum birtum 29. júní 2005, 28. júlí 2005 og 27. júlí 2005, en málin voru sameinuð í fyrirtöku 28. febrúar 2006.

Í þessum þætti málsins eru kröfur stefnanda, Olíuverslunar Íslands hf., að Sigrún Guðmundsdóttir dómari víki sæti í máli þessu, sbr. g lið 5. gr. laga um meðferð einkamála og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 70. gr. stjórnarskrár Lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Aðrir stefnendur taka undir kröfugerð þessa og lagarök. Stefndu andmæla kröfum stefnenda.

Lögmaður Olíuverslunar Íslands hf. tók fram að hann telji „að stefnendur hafi áhyggjur af því að mótaðar skoðanir dómara, sem komið hafi fram í skaðabótamálum sem nýlega hafi verið dæmd, komi í veg fyrir að mál þetta verði höndlað þannig að hlutleysis væri gætt.“ Sérstaklega vísar lögmaðurinn til eftirfarandi atriðis úr sératkvæði dómarans í dómi frá 16. febrúar sl. í málinu nr. E-4914/2005:  Sigurður Hreinsson gegn Keri hf., en þar segir: „Telja verður að samráðið og hinar samstilltu aðgerðir olíufélaganna hafi verið gerðar í tekjuöflunarskyni, beint eða óbeint, enda ekki aðrar fullnægjandi skýringar fyrir hendi.  Þá þykir fákeppni ekki skipta hér máli því hún er með sama hætti háð ákvæðum 10. gr. laga nr. 8/1993. - Samkvæmt þessu aflaði stefndi sér ólögmæts ávinnings með því að fella ávinninginn inn í söluverð á bensíni og olíu. Svarar þessi ólögmæti ávinningur til tjóns stefnanda.“  Af hálfu Kers hf. er einnig vísað til dóms Héraðsdóms Reykjavíkur frá 13. desember 2006 í málinu nr. 2008/2006: Strætó bs. gegn stefnendum, þar sem segir: „Samkvæmt framansögðu er það álit dómsins að gögn málsins bendi eindregið til þess að þær fjárhæðir, sem forsvarsmenn stefndu sammæltust um að skipta á milli sín við útboðið 3. júní 1996 við sölu á hverjum lítra af eldsneyti, hafi svarað til fjárhæða sem voru umfram eðlilega framlegð við sölu á gasolíu til stefnanda samkvæmt forsendum útboðsins.“

Þá er tekið fram af hálfu Olíuverslunar Íslands hf., að dómarinn hafi, ásamt sérfróðum meðdómara, dæmt annan upphafstíma dráttarvaxta í málum Strætó bs. og Reykjavíkurborgar gegn stefnendum en Skúli Magnússon héraðsdómari. Einnig hafi dómarinn skilað sératkvæði í máli Sigurðar Hreinssonar gegn Keri hf., þar sem bætur voru ákveðnar hærri en í atkvæði Skúla Magnússonar héraðsdómara og sérfróðs meðdómara, sbr. dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá 16. febrúar sl.

Niðurstaða.

             Þau mál, sem dómarinn hefur dæmt í og stefnendur verið aðilar að, eru mál Reykjavíkurborgar og Strætó bs. Í báðum tilvikum var dómarinn dómsformaður og ásamt henni skipuðu dóminn, þeir Skúli Magnússon héraðsdómari og  Friðbjörn Björnsson, löggiltur endurskoðandi. Þá kom dómarinn að máli Sigurðar Hreinssonar gegn Keri hf. eftir að Hæstiréttur Íslands hafði hrundið frávísun á þrautaþrautavarakröfu Sigurðar og lagt fyrir héraðsdóm að taka kröfuna til efnismeðferðar. Krafan varðaði bætur að álitum, sbr. dóm héraðsdóms frá 16. febrúar 2007. Héraðsdómararnir Friðgeir Björnsson og Skúli Magnússon ásamt Birgi Þór Runólfssyni dósent, kváðu upp upphaflega dóminn í málinu frá 6. desember 2006.  Þar sem Friðgeir Björnsson lét af embætti um síðustu áramót tók dómarinn sæti í dóminum. Þannig er ljóst að afskipti dómarans af málum stefnenda eru mun minni en Skúla Magnússonar héraðsdómara.

             Öll þessi mál eiga það sammerkt að gerðar voru kröfur um að stefnendur yrðu dæmdir til greiðslu skaðabóta.

Í málum Reykjavíkurborgar og Strætó bs. var ágreiningslaust á milli málsaðila, eins og segir í greinargerð lögmanns eins olíufélaganna: „að samráð olíufélaganna hafi brotið í bága við ákvæði 10. gr. þágildandi samkeppnislaga nr. 8/1993 svo sem nánar er rakið í ákvörðun samkeppnisráðs í máli nr. 21/2004 og úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála í máli nr. 3/2004. Ágreiningur málsaðila lýtur hins vegar að því hvort samstarf olíufélaganna hafi leitt til tjóns fyrir stefnanda.“ Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að svo hafi verið og dæmdi stefnendur til greiðslu bóta.

Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 6. desember 2006 í máli Sigurðar Hreinssonar gegn Keri hf., en dómari þessa máls átti ekki sæti í þeim dómi, segir m.a. svo: „Dómurinn telur ljóst af gögnunum að stefndi hefur á tímabilinu frá því í mars 1993 til 18. desember 2001 tekið þátt í ólögmætu athæfi, þ.e. ólögmætu samráði og samstilltum aðgerðum olíufélaganna, og stefndi viðurkennir að svo hafi verið. Dómurinn telur einnig ljóst að þetta hafi verið gert í þeim megintilgangi að selja vörur félaganna, þ.á m. bensín, á hærra verði en annars hefði verið. Eins og síðar greinir í niðurstöðum telur dómurinn samkvæmt þessu að leitt hafi verið í ljós að fyrir hendi séu þau skilyrði almennu skaðabótareglunnar fyrir bótaskyldu að um sé að ræða saknæma athöfn, ásetning í því tilviki sem hér um ræðir, og ólögmæta, þ.e. brot gegn samkeppnislögum, sem til þess voru fallin að valda stefnanda tjóni.

Kemur þá að því að fjalla um málsástæður aðila er varða það hvort stefnandi hafi leitt í ljós að hann hafi af þessum sökum orðið fyrir tjóni og þá hve miklu, en stefnanda ber að sanna hvort tveggja.“ Dómurinn taldi Sigurð ekki hafa sýnt fram á tjónið og sýknaði Ker hf. af aðal- og varakröfu, en vísaði öðrum kröfum frá.  Í kjölfar dóms Hæstaréttar Íslands frá 18. janúar 2007 var málið endurupptekið og tekið til dóms að nýju, sbr. dóm héraðsdóm frá 16. febrúar sl. Allir dómarar voru sammála um að dæma Sigurði bætur að álitum, en leiðir skildu varðandi fjárhæð þeirra.

Dómari gæti að hæfi sínu af sjálfsdáðum. Í 5. gr. laga nr. 91/1991 segir í g-lið að dómari sé vanhæfur til að fara með mál ef fyrir hendi eru tilvik eða aðstæður sem fallin eru til þess að draga óhlutdrægni hans með réttu í efa.

Mál það sem hér er til umfjöllunar varðar stjórnvaldsákvörðun þar sem gerð er krafa um að úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála verði felldur úr gildi eða breytt og stjórnvaldssektir lækkaðar. Þau dómsmál er stefnendur vísa til, sem rökstuðning fyrir vanhæfi dómarans, eru skaðabótamál. Því er sakarefnið í málunum ekki það sama. Í fyrrnefndum skaðabótamálum hefur aðkoma dómarans ekki verið að meta hvort gerðir stefnenda hafi verið saknæmar og ólögmætar, heldur einungis hvort málsaðilum hafi tekist að sanna að þeir hafi orðið fyrir tjóni og meta tjónið. Það er því mat dómarans að ekki séu fyrir hendi þau atvik eða aðstæður sem leitt geti til þess að óhlutdrægni hennar verði með réttu dregið í efa.

Þá skal tekið fram að Skúla Magnússyni héraðsdómara var falin meðferð máls þessa um síðustu áramót og taldi hann sig ekki vanhæfan til meðferðar þess. Engar mótbárum voru hafðar uppi af hálfu stefnenda um hæfi hans. Þá þykja tilvitnanir lögmanna til mannréttindasáttmála Evrópu og stjórnarskrárinnar ekki eiga við.  Kröfum stefnenda um að dómarinn víki sæti er því hafnað.

Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

 

Úrskurðarorð

Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari víkur ekki sæti í málinu.