Hæstiréttur íslands
Mál nr. 365/2009
Lykilorð
- Kærumál
- Framsal
|
|
Föstudaginn 3. júlí 2009. |
|
Nr. 365/2009. |
Ákæruvaldið(Kolbrún Sævarsdóttir saksóknari) gegn X (Jón Höskuldsson hrl.) |
Kærumál. Framsal.
Úrskurður héraðsdóms, um að staðfesta ákvörðun dómsmálaráðherra frá 8. maí 2009 um að framselja X til Póllands, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. júlí 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. júlí 2009, þar sem staðfest var ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins 8. maí 2009 um að framselja varnaraðila til Póllands. Kæruheimild er í 24. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Samkvæmt 7. gr. laga nr. 13/1984 má synja um framsal ef mannúðarástæður mæla gegn því svo sem aldur, heilsufar eða aðrar persónulegar aðstæður. Dómsmálaráðherra hefur metið aðstæður í þessu máli svo, að slíkar ástæður standi ekki gegn framsali varnaraðila. Ekki eru efni til að dómstólar hnekki því mati. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. júlí 2009.
Málið var tekið til úrskurðar 26. júní sl. Það barst dómnum 3. júní sl. með bréfi ríkissaksóknara 2. sama mánaðar. Ríkissaksóknari verður hér eftir nefndur sóknaraðili.
Málavextir eru þeir að dómsmálaráðherra ákvað 8. maí 2009 sl. að fallast á beiðni pólskra dómsmálayfirvalda um að framselja X, kt. [...], [...], Hafnarfirði, pólskan ríkisborgara, sem hér eftir verður nefndur varnaraðili, til Póllands. Varnaraðila var kynnt þessi ákvörðun 27. maí sl. og sama dag krafðist hann úrskurðar dómsins um ákvörðunina.
Sóknaraðili krefst þess að framangreind ákvörðun dómsmálaráðherra verði staðfest.
Varnaraðili krefst þess að ákvörðunin verði felld úr gildi og málsvarnarlaun greidd úr ríkissjóði.
Sóknaraðili gerir svofellda grein fyrir málavöxtum, að með bréfi pólska dómsmálaráðuneytisins, dags. 29. október 2008, hafi dóms- og kirkjumálaráðuneytinu borist beiðni um framsal X, kt. [...] (varnaraðila) til Póllands til fullnustu refsidóms. Samkvæmt gögnum er fylgdu framsalsbeiðninni er hún til fullnustu refsidóma og byggir á þremur dómum Héraðsdómsins í Klodzko:
1. Með dómi uppkveðnum 2. júlí 2001 hafi varnaraðili verið sakfelldur fyrir brot á 1. mgr. 286. gr. pólskra hegningarlaga, með því að hafa þann 16. febrúar 2000, í ágóðaskyni, blekkt starfsmann „System“ verslunarinnar og fengið hann, á fölskum forsendum, til að lána sér PLN 1.165,75 fyrir kaupum á Philips sjónvarpi, og ekki greitt lánið. Refsing var ákveðin fangelsi í 10 mánuði, skilorðsbundið til þriggja ára og greiðsla bóta. Áfrýjunardómstóll í Swidnica staðfesti sakfellingu varnaraðila og ákvörðun refsingar með dómi 12. desember 2001.
Með ákvörðun Héraðsdómsins í Klodzko frá 29. mars 2004 var kveðið á um að varnaraðili skyldi afplána refsingu samkvæmt dómnum frá 2. júlí 2001 þar sem hann hafði á skilorðstímanum verið fundinn sekur um samkynja brot, sbr. dóm Héraðsdómsins í Klodzko frá 15. desember 2003. Með ákvörðun Héraðsdómsins í Swidnica þann 8. nóvember 2004 fékk varnaraðili reynslulausn á eftirstöðvum fangelsisrefsingar samkvæmt dómnum í lið 1, en hann hafði setið í afplánun frá 5. maí til 10. nóvember 2004. Reynslulausnin var skilorðsbundinn til tveggja ára. Sami dómstóll afturkallaði þessa ákvörðun sína hinn 28. desember 2006 og fyrirskipaði að varnaraðili skyldi afplána eftirstöðvar refsingarinnar þar sem hann hafði á skilorðstímanum orðið uppvís að samkynja broti.
2. Með dómi uppkveðnum 8. desember 2003 var varnaraðili sakfelldur fyrir brot á 1. mgr. 286. gr. og 2. mgr. 284. gr., sbr. 2. mgr. 11. gr. pólskra hegningar-laga. Annars vegar með því að hafa þann 14. ágúst 1999, í ágóðaskyni, blekkt starfsmann „Unipol“ verslunarinnar og fengið hann, á fölskum forsendum, til að lána sér PLN 634,06 til kaupa á parketti, og ekki greitt afborganir lánsins. Hins vegar með því að hafa þann 28. febrúar 2000, í ágóðaskyni, blekkt starfsmann „Neptun“ verslunarinnar og fengið hann, á fölskum forsendum, til að lána sér PLN 618,42 til kaupa á Play station leikjatölvu, vitandi það að hann myndi ekki borga afborganir lánsins, og fyrir að hafa selt leikjatölvuna öðrum manni. Refsing var ákveðin fangelsi í 1 ár og 6 mánuði, skilorðsbundið í þrjú ár, auk greiðslu bóta.
Með ákvörðun Héraðsdómsins í Klodzko frá 9. janúar 2007 var varnaraðila gert að afplána dóminn frá 8. desember 2003 þar sem hann hafði orðið uppvís að samkynja broti á skilorðstímanum, sbr. dóm í lið 3.
3. Með dómi uppkveðnum 21. nóvember 2006 var dómfelldi sakfelldur fyrir tvö brot gegn 1. mgr. 278. gr. pólskra hegningarlaga. Annars vegar með því að hafa þann 7. janúar 2006 í félagi við tvo aðra, brotist inn og stolið stálofni, stálplötum, verkfærum o.fl. að fjárhæð samtals PLN 3.350 og hins vegar með því að hafa 16. desember 2005, í félagi við annan mann, tileinkað sér ýmis verðmæti s.s. stálpípur og brotajárn að fjárhæð PLN 3.800. Refsing var ákveðin fangelsi í 1 ár og 4 mánuði og greiðsla bóta.
Í framsalsbeiðninni er tekið fram að varnaraðili hafi ekki afplánað refsingu skv. dómunum í liðum 2 og 3 og að eftirstöðvar fangelsisrefsingar skv. dómnum í lið 1 séu 3 mánuðir og 25 dagar.
Hinn 20. mars 2009 hafi varnaraðila verið kynnt framsalsbeiðnin af lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Hafi varnaraðili kannast við málin sem rakin séu í framsalsbeiðninni en hafnaði framsali.
Ríkissaksóknari sendi dómsmálaráðuneytinu umsögn um skilyrði framsals, dags. 22. apríl 2009, þar sem efnisskilyrði framsals voru talin uppfyllt, sbr. einkum 1. og 3. mgr. 3. gr. og 9. gr. laga nr. 13/1984. Með hliðsjón af dómi Hæstaréttar í máli 607/2008 hafi hins vegar ekki verið talin uppfyllt skilyrði 4. mgr. 12. gr. laganna þar sem endurrit dóms Héraðsdóms Klodzko frá 15. desember 2003 hafi ekki fylgt gögnum með framsalsbeiðninni. Með þeim dómi hafi varnaraðili verið dæmdur í 1 árs skilorðsbundið fangelsi og hafi hann verið grundvöllur ákvörðunar sama dómstóls frá 29. mars 2004 um að varnaraðili skyldi afplána dóm skv. lið 1. Tók ríkissaksóknari fram í umsögn sinni að bærust umrædd gögn ráðuneytinu teldust formskilyrði framsals einnig uppfyllt.
Dómsmálaráðuneytið hafi fallist á beiðni pólskra dómsmálayfirvalda um framsal varnaraðila með bréfi dags. 8. maí sl. Þar komi fram að ráðuneytið hefði aflað endurrits framangreinds dóms frá 15. desember 2003 frá pólskum yfirvöldum. Einnig kom fram í bréfi ráðuneytisins að upplýsingar um persónulega hagi varnaraðila hefðu borist ráðuneytinu frá verjanda hans. Persónulegar aðstæður varnaraðila teldust að mati ráðuneytisins hins vegar ekki nægilegar til að synja um framsal hans til Póllands á grundvelli 7. gr. laga nr. 13/1984.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu kynnti varnaraðila ákvörðun dómsmála-ráðuneytisins þann 27. maí sl. Með bréfi sem barst ríkissaksóknara sama dag krafðist verjandi varnaraðila úrskurðar héraðsdóms um hvort skilyrði laga um framsal væru fyrir hendi, sbr. 14. gr. laga nr. 13/1984.
Um skilyrði framsals samkvæmt I. kafla laga nr. 13/1984 er vísað til áðurnefndrar umsagnar ríkissaksóknara. Jafnframt þykir fullnægt skilyrðum II. kafla laganna um form framsalsbeiðninnar.
Á því er byggt af hálfu varnaraðila að ekki sé unnt að heimila framsal sakbornings á grundvelli laganna þar sem frestun á fullnustu þeirra hafi verið felld brott með einhliða ákvörðun viðkomandi yfirvalds en ekki með dómi. Sú ákvörðun sé íþyngjandi fyrir varnaraðila og hafi honum ekki gefist kostur á að tala máli sínu áður en hún var tekin.
Af hálfu varnaraðila er auk framangreinds vísað til þess að hann hafi verið hér á landi í tæp tvö ár og búi með föður sínum, bróður og vinkonu í Hafnarfirði. Hann stundi hér vinnu og hafi getið sé gott orð á vinnustað. Séu persónulegir hagir hans þannig að full ástæða sé til að beita ákvæði 7. gr. laga nr. 13/1984 og synja um framsal af mannúðarástæðum.
Í 1. gr. laga nr. 13/1984 segir að þann sem í erlendu ríki er grunaður, ákærður eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað sé heimilt að framselja samkvæmt lögunum. Í 2. gr. segir að ekki megi framselja íslenska ríkisborgara. 1. mgr. 3. gr. laganna segir að framsal á manni sé aðeins heimilt ef verknaður eða sambærilegur verknaður geti varðað fangelsi í meira en 1 ár samkvæmt íslenskum lögum. Í 3. mgr. segir að framsal til fullnustu á dómi sé aðeins heimilt ef refsing samkvæmt honum er minnst 4 mánaða fangelsi eða dómþoli skuli vistaður á stofnun í sama tíma hið minnsta.
Sú háttsemi sem sóknaraðili var dæmdur fyrir í Póllandi myndi varða við 1. mgr. 248. gr. almennra hegningarlaga, en brot gegn því ákvæði getur varðað allt að 6 ára fangelsi.
Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið eru uppfyllt skilyrði 1. gr. og 1. og 3. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984 um framsal.
Persónulegar aðstæður varnaraðila þykja ekki slíkar að ákvæði 7. gr. laganna eigi við.
Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið eru ekki lagaskilyrði til að verða við kröfu varnaraðila um að framangreind ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins um framsal hans verði felld úr gildi. Verður því tekin til greina krafa sóknaraðila um staðfestingu ákvörðunarinnar.
Með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 13/1984 greiðist þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Jóns Höskuldssonar hrl., úr ríkissjóði og þykir hún hæfilega ákveðin 306.768 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kröfu varnaraðila, X, er hafnað.
Staðfest er ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins frá 8. maí 2009 um að framselja varnaraðila til Póllands.
Þóknun verjanda varnaraðila, Jón Höskuldsson hrl., 306.768 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti greiðist úr ríkissjóði.