Hæstiréttur íslands

Mál nr. 420/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Verjandi
  • Ómerking úrskurðar héraðsdóms


Föstudaginn 5

 

Föstudaginn 5. september 2008.

Nr. 420/2008.

Ákæruvaldið

(Helgi Magnús Gunnarsson saksóknari)

gegn

X

(Ragnar Aðalsteinsson hrl.)

 

Kærumál. Verjandi. Ómerking úrskurðar héraðsdóms.

Á dómþingi 16. júlí 2008 óskaði X eftir því að tveir nafngreindir hæstaréttarlögmenn yrðu skipaðir verjendur hans í opinberu máli. Sækjandi sagði þá frá því að annar þeirra, A, kynni að verða kvaddur fyrir dóm sem vitni og gæti það staðið því í vegi að skipa mætti hann verjanda vegna ákvæða 3. mgr. 39. gr. laga nr. 19/1991 laga um meðferð opinberra mála. Taldi sækjandi dómara eiga að gæta af sjálfsdáðum að skilyrðum þessa lagaákvæðis. Málið var tekið fyrir á ný 23. júlí 2008 og var hinn kærði úrskurður kveðinn upp í framhaldi af því að þinghald hafði verið sett en með honum var kröfu X um að A yrði skipaður verjandi hans hafnað. Bókun héraðsdómara í þingbók bar ekki með sér að lögmaðurinn, sem skipaður var verjandi X í þinghaldinu 16. júlí, hefði í neinu lýst viðhorfum X  til skýringar 3. mgr. 39. gr. laga nr. 19/1991 og hvort fullnægt væri efnisatriðum ákvæðisins með tillit til þess. Í dómi Hæstaréttar sagði m.a. að verjandi X hafi ekki þurft að vænta annars en að tækifæri gæfist til að rökstyðja kröfu X frekar áður en afstaða yrði tekin til hennar, en í því sambandi yrði ekki horft fram hjá því að ekkert var fært til bókar um að héraðsdómari tæki þetta atriði til úrskurðar. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi til þess að héraðsdómari tæki á ný afstöðu til kröfu X að gættum nauðsynlegum undirbúningi. 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. júlí 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 31. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. júlí 2008, þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að A yrði skipaður verjandi hans. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til meðferðar á ný, en til vara að lagt verði fyrir héraðsdóm að skipa A verjanda varnaraðila. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdóms verði staðfestur.

I.

Ríkislögreglustjóri höfðaði mál þetta á hendur varnaraðila og þremur öðrum mönnum með ákæru 3. júlí 2008. Við þingfestingu málsins 16. sama mánaðar mættu meðal annars varnaraðili og með honum hæstaréttarlögmennirnir Ragnar Aðalsteinsson og A, sem sá fyrstnefndi óskaði eftir að yrðu báðir skipaðir verjendur hans. Að þessu framkomnu færði héraðsdómari eftirfarandi í þingbók: „Sækjandi málsins gerir grein fyrir því að svo kunni að fara að A verði kallaður fyrir í málinu sem vitni við aðalmeðferð málsins. Kunni það að varða því að ekki sé unnt að skipa hann verjanda á grundvelli 3. mgr. 39. gr. laga nr. 19/1991.

Ragnar Aðalsteinsson hrl. óskar eftir að bókað verði eftirfarandi: Ég lít svo á að með kröfu ákæruvaldsins um að synja um skipun A sem verjanda X í málinu sé gengið á regluna um rétt hvers manns til að fá sér skipaðan verjanda að eigin vali. Jafnframt felist í afstöðunni ágangur af hálfu ákæruvaldsins á sjálfstæði lögmannastéttarinnar og krefst ég þess að kröfu ákæruvaldsins að þessu leyti verði hafnað.

Sækjandi óskar eftir að bókað verði eftirfarandi: Sækjandi telur 39. gr. kveða á um skilyrði skipunar verjanda sem dómara beri að gæta af sjálfsdáðum, en bendir dómara á ... að viðkomandi lögmaður kunni að vera boðaður sem vitni í málinu. Ábending þessi hefur ekkert að gera með afstöðu sækjandans til lögmannsins eða lögmannastéttarinnar heldur að þessi lagagrein verði túlkuð samkvæmt efni hennar.

Dómari ákveður að skipa Ragnar Aðalsteinsson hrl. verjanda ákærða, X. Dómari mun ákveða sérstaklega eftir þinghaldið hvernig fari með kröfu ákærða að öðru leyti um skipun verjanda.“

Að þessu búnu var fært í þingbók að aðrir nafngreindir ákærðu sæktu þing, að þeim væru skipaðir tilteknir verjendur, gætt hafi verið ákvæða 3. mgr. 32. gr. laga nr. 19/1991 gagnvart ákærðu, sækjandi hafi gert grein fyrir ákæru og verjendur legðu fram tiltekin gögn. Sagði síðan að ákærðu óskuðu eftir fresti til að kynna sér gögn málsins og væri því frestað í því skyni til 2. september 2008, en ráðgert væri að málið yrði munnlega flutt um frávísunarkröfu 16. sama mánaðar. Loks var bókað um áskoranir tveggja verjenda til sækjanda um gagnaöflun og þinghaldi svo slitið.

Málið var tekið fyrir á ný 23. júlí 2008 að viðstöddum sækjanda og verjanda varnaraðila og var hinn kærði úrskurður kveðinn upp í framhaldi af því að þinghald hafði verið sett. Að því gerðu var fært í þingbók eftir verjanda varnaraðila að hann hafi komið til þinghaldsins búinn undir að gera grein fyrir kröfu varnaraðila um að A yrði jafnframt skipaður verjandi hans og síðan í all nokkru máli hvaða röksemdum hann hafi ætlað að tefla fram fyrir þeirri kröfu. Þá var einnig greint í þingbók frá andsvörum sækjanda, en að endingu að verjandi hafi lýst yfir að úrskurður héraðsdóms yrði kærður til Hæstaréttar.

II.

Samkvæmt því, sem héraðsdómari færði í þingbók þegar mál þetta var tekið fyrir á dómþingi 16. júlí 2008 og áður er greint frá, óskaði varnaraðili eftir því að tveir nafngreindir hæstaréttarlögmenn yrðu skipaðir verjendur hans. Sækjandi sagði þá frá því að annar þeirra, A, kynni að verða kvaddur fyrir dóm sem vitni og gæti það staðið því í vegi að skipa mætti hann verjanda vegna ákvæða 3. mgr. 39. gr. laga nr. 19/1991. Af því, sem greindi í þingbók, verður ekki ráðið að sækjandinn hafi mótmælt skipun lögmannsins til að annast málsvörn, enda kom þar fram síðar að sækjandinn teldi dómara eiga að gæta af sjálfsdáðum að skilyrðum þessa lagaákvæðis. Af þessu verður því ekki séð að þess hefði að óbreyttu verið að vænta að sækjandinn hefði neitt frekar fram að færa um þetta efni. Til þess verður á hinn bóginn að líta að bókun héraðsdómara ber ekki með sér að lögmaðurinn, sem skipaður var verjandi í þinghaldinu, hafi í neinu lýst viðhorfum varnaraðila til skýringar 3. mgr. 39. gr. laga nr. 19/1991 og hvort fullnægt væri efnisatriðum ákvæðisins með tilliti til þess. Samkvæmt meginreglum réttarfars bar héraðsdómara að gefa verjandanum kost á að reifa þau atriði, þótt enga nauðsyn bæri til að efna til munnlegs málflutnings af því tilefni. Eins og skilið var við þetta efni í þinghaldinu samkvæmt því, sem fram kom í þingbók, átti verjandinn ekki að þurfa að vænta annars en að tækifæri gæfist til að rökstyðja kröfu varnaraðila frekar áður en afstaða yrði tekin til hennar, en í því sambandi verður ekki horft fram hjá því að ekkert var fært til bókar um að héraðsdómari tæki þetta atriði til úrskurðar. Að þessu virtu er óhjákvæmilegt að fella hinn kærða úrskurð úr gildi til þess að héraðsdómari taki á ný afstöðu til kröfu varnaraðila að gættum nauðsynlegum undirbúningi.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr. 169. gr. laga nr. 19/1991.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. júlí 2008.

Með ákæru ríkislögreglustjóra dagsettri 3. júlí sl. var höfðað opinbert mál á hendur ákærðu fyrir brot gegn almennum hegningarlögum með meiriháttar brotum á skatta-, bókhalds- og ársreikningalögum. Við þingfestingu málsins á dómþingi 16. júlí sl. krafðist ákærði X þess að bæði Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður og A yrðu skipaðir verjendur sínir í málinu. Af hálfu sækjanda málsins var vakin athygli á því að svo kynni að fara að A yrði kvaddur fyrir dóm sem vitni í málinu. Kynnu þar af leiðandi ákvæði 3. mgr. 39. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála að standa í vegi fyrir því að lögmaðurinn yrði skipaður verjandi ákærða. Tók dómari þetta atriði til úrlausnar og ákvað að fresta til dagsins í dag úrskurði um álitaefnið.

   Samkvæmt 3. mgr. 39. gr. laga nr. 19/1991 má ekki skipa eða tilnefna þann mann verjanda sem kann að verða kvaddur til að bera vitni eða hefur verið skipaður mats- eða skoðunarmaður í málinu, eða er að öðru leyti svo viðriðinn mál eða aðila að hætta sé á að hann geti ekki gætt hagsmuna sakbornings sem skyldi. Samkvæmt rannsóknargögnum málsins var mánudaginn 6. nóvember 2006 tekin skýrsla af A í þágu rannsóknar málsins og hafði hann þá réttarstöðu grunaðs manns. Var yfirheyrslan m.a. í tengslum þá stöðu að A var fyrrverandi stjórnarmaður Norðurljósa samskiptafélags hf., Skífunnar hf. og Íslenska útvarpsfélagsins hf., en fyrir lá kæra Skattrannsóknarstjóra ríkisins vegna skattskila framangreindra lögaðila. A hefur ekki lengur stöðu grunaðs manns og var hann ekki ákærður samhliða öðrum ákærðu vegna þeirra sakarefna er fram koma í ákæru og varða m.a. lögaðilana Norðurljós samskiptafélag hf., Skífuna hf. og Íslenska útvarpsfélagið hf. Í ljósi rannsóknar málsins hjá lögreglu er á þessu stigi málsins ekki unnt að útiloka að A verði á síðari stigum kallaður fyrir dóm sem vitni í málinu. Er því á grundvelli 3. mgr. 39. gr. laga nr. 19/1991 óheimilt að skipa hann verjanda í málinu og verður kröfu um það því hafnað.

Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

                                                               Ú r s k u r ð a r o r ð:

   Kröfu ákærða, X, um að A verði skipaður verjandi ákærða, er hafnað.