Hæstiréttur íslands

Mál nr. 67/2004


Lykilorð

  • Gæsluvarðhald
  • Handtaka
  • Fyrning
  • Gjafsókn


Föstudaginn 18

 

Föstudaginn 18. júní 2004.

Nr. 67/2004.

Hjörtur Þórarinn Sigurðsson

(Kristján Stefánsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Sigrún Guðmundsdóttir hrl.)

 

Gæsluvarðhald. Handtaka. Fyrning. Gjafsókn.

H, sem hafði verið handtekinn og sætt gæsluvarðhaldi í tengslum við rannsókn lögreglu á mannsláti, krafðist miskabóta þar sem hann taldi aðgerðirnar hafa verið ólögmætar. H hafði ekki höfðað málið fyrr en liðinn var sex mánaða fyrningarfrestur samkvæmt 181. gr. laga nr. 19/1991. Var Í því sýknað af kröfu H.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 10. febrúar 2004. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 2.000.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 16. nóvember 2002 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem honum hefur verið veitt á báðum dómstigum.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Lögreglan í Kópavogi var kvödd að húsi við [...] aðfaranótt 10. mars 2002 eftir að tilkynning hafði borist um að maður lægi meðvitundarlaus á gólfi íbúðar sinnar þar. Þegar lögreglan kom á staðinn reyndist maðurinn vera látinn. Áfrýjandi var þá staddur í íbúðinni ásamt nafngreindri konu og bentu ummerki á vettvangi til þess að rannsóknar væri þörf. Var áfrýjandi handtekinn þá um nóttina, en sleppt eftir skýrslutöku síðdegis næsta dag. Hann var handtekinn á nýjan leik 12. mars 2002 eftir að skýrsla Rannsóknastofu Háskólans í meinafræðum um dánarorsök mannsins lá fyrir, en samkvæmt henni lést hann „af völdum sljós áverka á kvið.“ Hafði áverkinn valdið rifu á lifur og blæddi honum út innvortis. Var áfrýjandi úrskurðaður í gæsluvarðhald til 19. mars 2002 og gæsluvarðhaldið síðan framlengt til 10. apríl sama árs. Áfrýjandi var látinn laus 11. sama mánaðar eftir að héraðsdómari hafði hafnað kröfu um að gæsluvarðhald yrði enn framlengt. Málavextir eru nánar raktir í hinum áfrýjaða dómi.

Í málinu krefur áfrýjandi stefnda um bætur vegna handtöku, gæsluvarðhalds, frelsissviptingar eftir að gæsluvarðhaldstími var runninn út og halds á munum, en allar þessar aðgerðir telur hann hafa verið ólögmætar. Reisir hann kröfuna á ákvæðum XXI. kafla laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála og vísar einkum til 175. gr. og 176. gr. laganna. Málsástæður aðilanna eru nánar raktar í héraðsdómi.

II.

Stefndi ber fyrir sig að krafa áfrýjanda sé fyrnd. Vísar hann til 181. gr. laga nr. 19/1991, en samkvæmt þeirri grein fyrnist bótakrafa samkvæmt XXI. kafla laganna á sex mánuðum frá vitneskju aðila um niðurfellingu rannsóknar. Ríkissaksóknari hafi ritað áfrýjanda bréf 16. október 2002 vegna atviksins í [...], sem áður var nefnt, en afrit þess hafi verið sent skipuðum verjanda áfrýjanda í gæsluvarðhaldsmálinu, sem einnig sé lögmaður hans í þessu máli. Þar hafi ríkissaksóknari tilkynnt að þar sem það, sem fram hefði komið í málinu væri eigi talið nægilegt eða líklegt til sakfellis, væru ekki efni til frekari aðgerða í því og málið því fellt niður með vísan til 112. gr. laga nr. 19/1991. Áfrýjandi hafi hins vegar ekki höfðað mál þetta fyrr en 22. apríl 2003 og þá hafi verið liðinn sex mánaða fresturinn, sem mælt sé fyrir um í lagagreininni. Bótaréttur, sem áfrýjandi telji vera fyrir hendi, sé því hvað sem öðru líði, fallinn niður fyrir fyrningu.

Áfrýjandi mótmælir því að hafa fengið umrætt bréf. Lögmaður hans viðurkennir að hafa fengið afrit þess, en þó ekki fyrr en síðar en dagsetning bréfsins segir til um. Engin nákvæm tímasetning er þó nefnd, en við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti taldi lögmaðurinn það hafa gerst „undir áramót“ þegar hann hafi farið að grennslast fyrir um málið hjá ríkissaksóknara. Hafi fyrningarfrestur því ekki verið liðinn þegar málið var höfðað. Að auki hafi ríkissaksóknari orðið að beina tilkynningunni að áfrýjanda sjálfum, sem ekki hafi verið gert, og nægi ekki að tilkynna lögmanni hans um niðurfellingu málsins. Sé þá til þess að líta að skipun verjanda áfrýjanda vegna gæsluvarðhalds hafi fallið niður þegar áfrýjandi var látinn laus úr gæslu 11. apríl 2002.

III.

Meðal málsgagna er bréf ríkissaksóknara 17. september 2003 til lögmanns áfrýjanda. Segir þar að samkvæmt beiðni lögmannsins skuli staðfest að áðurnefnt bréf 16. október 2002 muni ekki hafa verið póstlagt, en ástæða þess hafi verið sú að ekki var vitað um heimilisfang áfrýjanda. Í þjóðskrá sé hann skráður óstaðsettur í hús í Reykjavík og hafi sú skipan staðið allt frá 1999. Síðan segir: „Eins og meðfylgjandi afrit bréfsins ber með sér var yður sent afrit þess.“

Í stefnu til héraðsdóms var enginn fyrirvari gerður um það að afrit bréfsins hafi ekki borist lögmanninum á þeim tíma, sem dagsetning þess bendir til. Þvert á móti segir að „stefnandi fékk bréf ríkissaksóknara, dags. 16. október 2002 um að frekari rannsókn málsins væri felld niður“. Sambærilega setningu er að finna í kröfubréfi lögmannsins fyrir hönd áfrýjanda 4. mars 2003. Samkvæmt kröfugerð í stefnu til héraðsdóms var þess krafist að stefnufjárhæðin bæri dráttarvexti frá 16. nóvember 2002 þegar mánuður var liðinn frá dagsetningu áðurnefnds bréf ríkissaksóknara. Verður að ætla að það sé gert á grundvelli 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

Samkvæmt þessu hefur áfrýjandi lagt grundvöll málsins með þeim hætti að réttur hans til dráttarvaxta skuli miðaður við dagsetningu bréfs ríkissaksóknara 16. október 2002. Engu að síður telur hann að um annað, þ.e. fyrningu kröfunnar, skuli miða við aðra og einhverja síðari dagsetningu, sem fær illa samrýmst því hvenær hann telur kröfuna hafa orðið til. Svo sem áður er fram komið var lögmaður áfrýjanda skipaður verjandi hans vegna gæsluvarðhalds í mars 2002. Því máli lauk ekki fyrr en með tilkynningu ríkissaksóknara 16. október sama árs. Áfrýjandi var boðaður til skýrslutöku hjá lögreglu 26. september 2002. Í upphafi skýrslunnar segir meðal annars: „Sömuleiðis er honum kynntur réttur hans til að hafa verjanda sinn viðstaddan og er verjandi hans, Kristján Stefánsson, viðstaddur yfirheyrsluna, og hafa þeir ræðst við einslega fyrir yfirheyrsluna.“ Eins og málið liggur fyrir verður að leggja til grundvallar að umboð skipaðs verjanda, hafi haldist þar til tilkynnt var 16. október 2002 að ákæruvaldið myndi falla frá saksókn, sbr. einnig til hliðsjónar VI. kafla laga nr. 19/1991.

Að virtu öllu því, sem að framan er rakið, verður fallist á með stefnda að ganga verði út frá því að afrit tilkynningar ríkissaksóknara 16. október 2002 hafi þá borist lögmanni áfrýjanda og að upphaf fyrningarfrests samkvæmt 181. gr. laga nr. 19/1991 skuli miðast við það. Krafa áfrýjanda var því fyrnd þegar málið var höfðað. Verður sýknukrafa stefnda samkvæmt því tekin til greina.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarlaun verða staðfest.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti verður ákveðinn eins og nánar segir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Hjartar Þórarins Sigurðssonar, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, 250.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 9. desember 2003.

I

Mál þetta var höfðað 22. apríl 2003 og dómtekið 13. nóvember 2003.  Var málið endurupptekið í dag til framlagningar gjafsóknarleyfis og dómtekið að nýju sama dag.

Stefnandi er Hjörtur Þórarinn Sigurðsson, [kt.], en stefndi er íslenska ríkið og er fjármálaráðherra stefnt fyrir hönd þess.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda miskabætur að fjárhæð 2.000.000 króna með dráttarvöxtum samkvæmt 6. gr. sbr. 12. gr. laga nr. 38/2001 frá 16. nóvember 2002 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

Stefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað.  Til vara krefst stefndi þess að dómkröfur verði lækkaðar verulega og í því tilviki verði málskostnaður felldur niður.

II

Málavextir eru þeir að kl. 00.05 aðfararnótt sunnudagsins 10. mars 2002 var lögreglunni í Kópavogi tilkynnt að maður lægi meðvitundarlaus á gólfi íbúðar sinnar að […], Kópavogi.  Þegar lögreglan kom á staðinn var maðurinn, sem reyndist vera A, látinn.  Í íbúðinni umrætt sinn var stefnandi staddur ásamt B.  Lögreglan taldi ljóst af ummerkjum á vettvangi að frekari rannsóknar væri þörf og boðaði rannsóknardeild lögreglunnar á staðinn.

Stefnandi var handtekinn kl. 00.50 í þágu rannsóknar á andláti A og kl. 01.15 var áðurnefnd B handtekin í þágu rannsóknar málsins. Í kjölfar handtökunnar var stefnandi færður á Landspítalann í Fossvogi þar sem tekið var af honum blóð- og þvagsýni vegna rannsóknar málsins og að því loknu var hann vistaður í fangageymslu.  Upp úr hádegi sunnudagsins 10. mars 2002 var stefnandi yfirheyrður og var honum sleppt að yfirheyrslum loknum.

Stefnandi var síðan handtekinn á ný þann 12. mars 2002 og daginn eftir var hann úrskurður í gæsluvarðhald til 19. mars 2002.  Gæsluvarðhaldið var svo framlengt til 10. apríl 2002 en þann 11. apríl 2002 var hann látinn laus eftir að Héraðsdómur Reykjaness hafði hafnað kröfu um framlengingu gæsluvarðhalds yfir stefnanda.

Með bréfi 16. október 2002 var lögmanni stefnanda tilkynnt að málið yrði fellt niður með vísan til 112. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála þar sem það sem fram væri komið í málinu væri eigi talið nægilegt eða líklegt til sakfellis.  Ekki reyndist unnt að senda bréfið til stefnanda þar sem ekki var vitað um heimilisfang hans en hann var samkvæmt þjóðskrá óstaðsettur í hús og hafði verið svo allt frá 12. maí 1999.

Með bréfi 25. febrúar 2003 var lögreglan í Kópavogi krafin um afhendingu persónulegra muna stefnanda sem haldlagðir höfðu verið í þágu rannsóknar málsins og með bréfi 11. júní 2003 var því hafnað að svo stöddu þar sem erfingjar A hefðu óskað eftir frekari rannsókn málsins.

Með bréfi 4. mars 2003 til dómsmálaráðherra setti lögmaður stefnanda fram miskabótakröfu stefnanda með vísan til XXI. kafla laga nr. 19/1991. Ráðuneytið sendi ríkislögmanni erindið 7. mars 2003 en ríkislögmaður hafði ekki tekið afstöðu til kröfunnar þegar mál þetta var höfðað.

Með bréfi ríkissaksóknara 17. september 2003 var lögmanni stefnanda tilkynnt um ástæður þess að stefnanda var ekki sjálfum sent bréf um niðurfellingu lögreglumálsins auk þess sem fram kemur í bréfinu að kröfum erfingja A um endurupptöku rannsóknar málsins hafi verið hafnað 4. júlí 2003.

Lögmaður stefnanda óskaði eftir leyfi dómsmálaráðuneytis til gjafsóknar í málinu 6. nóvember 2003 og var stefnanda veitt leyfi til gjafsóknar með bréfi dóms- og kirkjumálaráðherra 2. desember 2003.

Stefnandi krefst bóta þar sem hann hafi að ósekju sætt gæsluvarðhaldi og vegna annarra aðgerða sem hann hafi sætt af hálfu stjórnvalda í þágu rannsóknar málsins.

Stefndi hafnar bótaskyldu þar sem lögmæt skilyrði hafi verið til handtöku stefnanda og gæsluvarðhaldsvistunar auk þess sem krafa stefnanda sé fyrnd.

III

Stefnandi kveður að gæsluvarðhaldsvist hans vegna rannsóknar umrædds lögreglumáls hafi verið honum mjög þungbær.  Hann hafi verið borinn sökum um það alvarlega brot að hafa orðið manni að bana með líkamsárás.  Endurteknir úrskurðir um gæsluvarðhald hafi orðið geðheilsu hans mjög erfiðir og hafi fangaverðir jafnvel óttast að stefnandi myndi skaða sig og hafi hann um tíma verið undir samfelldu eftirliti þeirra með eftirlitsvélum.

Telur stefnandi að eftir að hann hafi verið laus úr gæsluvarðhaldi virðist sem rannsókn málsins hafi fjarað út, utan þess að tekin hafi verið skýrsla af stefnanda 26. september 2002.

Stefnandi kveðst hafa neitað sök staðfastlega.  Meðkærða, B, hafi verið á vettvangi allan tímann og aldrei borið stefnanda sökum.  Hafi stefnandi því ranglega verið sagður undir rökstuddum grun um stórfellda líkamsárás. Þá hafi rannsókn málsins verið óskilvirk og sá tími sem stefnandi hafi verið í gæsluvarðhaldi úr hófi langur og engin rannsóknarþörf hafi verið á því að halda honum í gæsluvarðhaldi allan þann tíma sem raun beri vitni, meðan beðið hafi verið eftir rannsókn á haldlögðum gögnum og sýnatökum.  Enn síður hafi verið þörf á að hafa hann í einangrun.

Sýnist stefnanda að gæsluvarðhaldi hafi frekar verið beitt til þess að knýja fram játningu en að svara rannsóknarhagsmunum samkvæmt 103. gr. laga nr. 19/1991.  Hið langa gæsluvarðhald og hinar alvarlegu sakargiftir hafi valdið stefnanda miklum félagslegum og andlegum erfiðleikum og hafi honum gengið illa að takast á við fylgjur þess.  Stefnandi hafi síðan fengið bréf ríkissaksóknara, dagsett 16. október 2002, um að frekari rannsókn málsins væri felld niður.

Skaðabótakrafa stefnanda sé vegna ólögmætrar handtöku, frelsisskerðingar og halds á munum, gæsluvarðhalds að ósekju í 30 daga og frelsisskerðingar án formlegrar heimildar í 18 klukkustundir.

Stefnandi kveðst reisa kröfur sínar á meginreglum XXI. kafla laga nr. 19/1991, sbr. 175. og 176. gr. laganna.  Samkvæmt 178. gr. laga nr. 19/1991 eigi stefnandi lögboðinn rétt til gjafsóknar. Þá kveðst stefnandi jafnframt byggja kröfur um málskostnað á ákvæðum XXI. kafla laga nr. 91/1991.

IV

Stefndi byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að krafa stefnanda sé fyrnd, sbr.

181. gr. laga um meðferð opinberra mála.  Samkvæmt ákvæðinu fyrnist krafan á sex mánuðum frá því að málið var fellt niður eða frá 16. október 2002.  Mál þetta hafi ekki verið höfðað fyrr en með áritun um viðtöku stefnu þann 22. apríl 2003, sbr. 93. gr. laga nr. 91/1993, en málshöfðun rjúfi fyrningu.  Útgáfa réttarstefnu rjúfi ekki fyrningu.

Verði ekki fallist á að krafan sé fyrnd,  þá sé því haldið fram að lögmæt skilyrði hafi verið fyrir handtöku stefnanda og vísist í því sambandi til 97. gr. laga nr. 19/1991. Aðstæður á vettvangi hafi verið þannig að grunur hafi vaknað um að andlát A hefði ekki borið að með eðlilegum hætti.  Hinn látni hafi legið á gólfinu í svefnherbergi íbúðarinnar.  Á gólfinu hafi verið bleyta, föt hins látna hafi verið blaut sem og hár hans og hafi í hári hans verið greiða.  Einnig hafi sæng og koddi hins látna verið blaut.  Þá hafi hinn látni verið með skrámur í andliti en ekkert blóð eins og ætla hefði mátt miðað við skrámurnar.  Stefnandi hafi verið á staðnum og verið ölvaður þannig að ekki hafi verið hægt að yfirheyra hann.  Því hafi hann verið færður í fangageymslur og verið látinn sofa úr sér þar og hann yfirheyrður daginn eftir.  Honum hafi svo verið sleppt eftir það.

Daginn eftir umræddan atburð, þann 11. mars 2002, hafi verið haft samband við stefnanda í farsíma og hann ekki viljað gefa upp hvar hann dveldist.  Hann hafi heldur ekki mætt hjá lögreglu þrátt fyrir loforð þar um.  Hann hafi síðan verið handtekinn þegar hann fannst, þann 12. mars 2002, og farið hafi verið fram á gæsluvarðhald yfir honum.

Telur stefndi að fyrir hendi hafi verið rökstuddur grunur um það að stefnandi hafi framið afbrot sem sætt gæti ákæru og hafi skilyrði handtöku verið uppfyllt.  Þá hafi verið fyrir hendi lögmæt skilyrði gæsluvarðhalds yfir stefnanda enda hafi dómari fallist á það í gæsluvarðhaldsúrskurði 13. mars 2002.  Sá úrskurður hafi ekki verið kærður til Hæstaréttar af hálfu stefnanda.

Í rökstuðningi héraðsdómara fyrir gæsluvarðhaldi stefnanda kveður stefndi að fram komi að réttarmeinafræðingur hafi krufið hinn látna að morgni 11. mars 2002 og hafi niðurstaða hans verið sú að A hefði látist af völdum sljós áverka á kvið. Komi fram í bréfi réttarmeinafræðings til lögreglu um niðurstöðu krufningarinnar að áverkinn hafi valdið rifu á lifur sem blætt hafi frá og hafi A blætt út innvortis. Einnig hafi áverkinn valdið mari í rót mjógirnishengisins og í kringum brisið.  Ekki sé unnt að segja til um hvað hafi valdið áverkanum en ljóst sé að hann hafi ekki valdið dauða samstundis.  Þeir áverkar sem sést hafi á höfði hafi verið minni háttar.  Þá komi fram að réttarefnafræðilegum mælingum sé ólokið en ljóst sé að niðurstöður þeirra rannsókna muni ekki breyta neinu um dánarorsökina.

Stefndi kveður að réttarmeinafræðingurinn hafi talið að A hefði látist milli kl. 20.00 og  23.00 að kvöldi laugardagsins 9. mars 2002.  Á þeim tíma hafi stefnandi ásamt B verið á heimili hins látna.  Þau hafi enga viðhlítandi skýringu getað gefið á því hvers vegna þau hafi ekki hringt á lögreglu fyrr en um einni klukkustund eftir þann tíma sem A hafi í síðasta lagi látist.  Þá hafi verið ljóst að þegar A, stefnandi og B hafi komið á heimili A umrætt kvöld hafi hann ekki verið með áverka.  Megi ráða það af framburði vitna og myndbandi sem tekið hafi verið upp í bílageymslu í […] um kl. 19.30 þegar þau komu á staðinn í leigubíl.

Þá hafi krufning leitt í ljós röð marbletta á kviði, handlegg og á bringu hins látna. Virðist sem hinn látni hafi fengið marbletti á kvið þegar hann fékk högg það sem olli áverkanum í kviðarholi hans.  Marblettirnir hafi bent til þess að ólíklegt væri að A hefði sjálfur fallið á hlut og þannig hlotið áverkann.  Þá hafi lögreglan fundið blóð í svefnherberginu sem reynt hefði verið að þrífa upp og einnig hafi fundist blóð í baðherbergi.

Í framburði stefnanda frá 10. mars 2002 komi fram að þau hefðu þrjú setið við drykkju að kvöldi 9. mars 2002.  Síðan hafi A annaðhvort orðið slappur eða dauðadrukkinn og þá hafi stefnandi ásamt B stutt hann inn í herbergi og lagt hann á rúmið.  Stefnandi hafi svo haldið áfram drykkju ásamt B en síðan hafi hann sofnað.  B hafi svo vakið hann og sagt honum að A væri dáinn og hún hefði hringt á lögreglu.  Hafi stefnandi þá kíkt inn í herbergið og séð að A væri dáinn en hann hafi ekki tekið eftir áverkum á honum.  Þá sé einnig haft eftir stefnanda að engin átök hafi verið í íbúðinni, allt hafi þar farið fram í friði og spekt.  Í skýrslu sem tekin hafi verið af stefnanda 12. mars 2002 segi hann hins vegar að hann hafi heyrt B og A jagast um peninga.  Ljóst sé því að ósamræmi hafi verið í framburði stefnanda.  Þá hafi umrædd B borið að hún hefði heyrt A detta og í framhaldi af því séð hann liggjandi á gólfi svefnherbergisins.

Í úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 13. mars 2002 komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að sterkur grunur sé kominn fram um að stefnandi hafi framið afbrot sem varðað gæti við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en brot á því ákvæði geti varðað allt að 16 ára fangelsi.  Því hafi verið fallist á að gæsluvarðhald yfir stefnanda væri nauðsynlegt svo að tryggja mætti að hann torveldaði ekki rannsókn málsins og hafi hann verið látinn sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a-liðar 103. gr. laga nr. 19/1991, til 19. mars 2002.

Héraðsdómari hafi svo fallist á að framlengja gæsluvarðhald stefnanda til 10. apríl 2002 og hafi rökin fyrir framlengingunni verið þau að um rökstuddan grun væri að ræða fyrir því, að stefnandi hafi framið alvarlegt brot sem varðað gæti allt að 16 ára fangelsi, samkvæmt. 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.  Rannsóknin væri á frumstigi og ef stefnandi yrði látinn laus gæti hann torveldað rannsókn málsins með því að hafa áhrif á vitni eða samseka og spillt sakargögnum og hafi verið vísað til a-liðar l. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.  Stefnandi hafi síðan verið látinn laus þann 11. apríl 2002.

Áverkar hafi verið á hinum látna og hafi engum öðrum verið til að dreifa sem valdið höfðu getað hinum látna umrædda áverka nema stefnandi og B og engir húsmunir sem hinn látni hefði getað dottið á og valdið þessum áverkum.  Þá hafði verið reynt að þrífa blóð í svefnherberginu.  Í framburði vitna hafi komið fram að hávaði hafi verið í íbúðinni og eitt vitni hafi borið að hafa heyrt högg og dynki. Framburður stefnanda hafi verið ótrúverðugur og megi ætla af gögnum málsins að hann hafi vitað meira hvað gerðist í íbúðinni en hann hafi upplýst hjá lögreglu. Stefnanda hafi ekki verið haldið lengur í gæsluvarðhaldi en nauðsyn hafi borið til.  Hafi verið þörf á að yfirheyra hann og vitni frekar og fá niðurstöður úr þeim rannsóknum sem gerðar höfðu verið.

Telur stefndi að ekki séu í málinu uppfyllt skilyrði XXI. kafla laga nr. 19/1991 til greiðslu bóta og því beri að sýkna stefndu af öllum kröfum stefnanda.  Krafa um bætur vegna frelsisskerðingar í 18 klukkustundir eigi ekki við rök að styðjast og sé í því sambandi vísað til 1. mgr. 105. gr. laga um meðferð opinberra mála.  Varðandi kröfu um bætur vegna haldlagningar á munum, þá sé vanreifað hvaða muni sé um að ræða og verði stefnandi að tilgreina þá nákvæmlega svo að unnt sé að taka afstöðu til þessarar málsástæðu.

Varakröfu sína um lækkun byggir stefndi á því að kröfur stefnanda séu ekki í neinu samræmi við dómvenju.  Þá sé upphafstíma dráttarvaxtakröfu mómælt og vísað til 9. gr. laga nr. 38/2001 í því sambandi.  Um málskostnað vísar stefndi til 130. gr. laga um meðferð einkamála.

V

Samkvæmt 175. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála má dæma bætur, ef rannsókn hefur verið hætt eða ákæra ekki gefin út vegna þess að sú háttsemi, sem sakborningur var borinn, hafi talist ósaknæm eða sönnun hafi ekki fengist um hana eða sakborningur verið dæmdur sýkn með óáfrýjuðum eða óáfrýjanlegum dómi af sömu ástæðu.  Þó má fella niður bætur eða lækka þær, ef sakborningur hefur valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum, sem hann reisir kröfu sína á.  Samkvæmt 176. gr. laganna má dæma bætur vegna handtöku, leitar á manni eða í húsi, halds á munum, rannsókn á heilsu manns, gæsluvarðhalds og annarra aðgerða, sem hefur frelsisskerðingu í för með sér, aðra en fangelsi, ef lögmæt skilyrði hefur brostið til slíkra aðgerða eða ef ekki hefur verið, eins og á stóð, nægilegt tilefni til slíkra aðgerða eða þær verið framkvæmdar á óþarflega hættulegan, særandi eða móðgandi hátt enda sé jafnframt uppfyllt skilyrði 175. gr.

Stefnandi byggir á því að hann eigi rétt á bótum vegna ólögmætrar handtöku, frelsisskerðingar og halds á munum, gæsluvarðhalds að ósekju í 30 daga og frelsisskerðingar án formlegrar heimildar í 18 klukkustundir.  Af málatilbúnaði stefnanda verður ráðið að hin meinta ólögmæta handtaka hafi verið sú sem fór fram þann 12. mars 2002.

Samkvæmt 1. mgr. 97. gr. laga nr. 19/1991 er lögreglu rétt að handtaka mann ef rökstuddur grunur er á að hann hafi framið brot sem sætt getur ákæru, enda sé handtakan nauðsynleg til að koma í veg fyrir áframhaldandi brot, tryggja návist hans og öryggi eða koma í veg fyrir að hann spilli sönnunargögnum. 

Þegar stefnandi var handtekinn þann 12. mars 2002 lá fyrir niðurstaða rannsóknar um að leifar af blóði hafi fundist í íbúðinni og að reynt hafi verið að þvo það með vatni.  Einnig var fyrirliggjandi skýrsla réttarmeinafræðings dagsett 11. mars 2002 þar sem niðurstaðan er sú að A hafi látist af völdum sljós áverka á kvið.  Áverkinn hafi valdið rifu á lifur sem blætt hafi frá og hafi A blætt út innvortis.  Þá kemur fram að áverkinn hafi einnig valdið mari í rót mjógirnishengisins og í kringum brisið.  Ekki sé unnt að segja til um hvað hafi valdið áverkanum en ljóst sé að hann hafi ekki valdið dauða samstundis.  Þá hafi sjáanlegir áverkar á höfði verið minniháttar.  Þá kemur fram að réttarefnafræðilegum mælingum sé ólokið en ljóst að niðurstöður þeirra rannsókna muni ekki breyta neinu um dánarorsökina.

Samkvæmt gögnum málsins liggur fyrir að stefnandi kom ásamt A og B á heimili þess fyrrnefnda um sjöleytið laugardagskvöldið 9. mars 2002.  Kemur fram í frumskýrslu lögreglu að stefnanda hafi fundist A veiklulegur og hafi hann farið inn í svefnherbergi.  Stuttu síðar hafi hann heyrt kokhljóð og síðan hljóð eins og A dytti í gólfið.  Aðspurður hafi stefnandi verið undir áhrifum áfengis en hefði ekki drukkið mikið, ekki hafi hann vitað hvaða dagur væri né tími dags því hann hefði sofnað í sófa í stofunni og vaknað þegar lögreglumenn hafi komið inn í íbúðina.  Stefnandi bar í skýrslu hjá lögreglu þann 10. mars 2002 að þau hefðu öll þrjú verið drukkin og hann sjálfur hefði sofnað ölvunarsvefni.  Hann bar einnig að enginn hávaði hefði verið í íbúðinni.  Við yfirheyrslu þann 12. mars 2002 hjá lögreglu bar hann að hinn látni og B hefðu eitthvað verið að jagast um peninga en engin átök hefðu átt sér stað.

Samkvæmt gögnum málsins voru aðstæður á vettvangi þannig að allt benti til þess að andlát A hafi ekki borið að með eðlilegum hætti.  Hinn látni lá á gólfinu í svefnherbergi og á gólfinu var bleyta og föt hans voru blaut.  Þá var hinn látni með skrámur í andliti.  Stefnandi og B voru á vettvangi þegar A lést og höfðu dvalið þar hjá honum frá því um kl. 19.00.  Þegar litið er til þessa og þess að bráðabirgðaniðurstaða krufningar sýndi fram á að dánarmein hins látna yrði rakið til áverka á kvið auk þess sem rannsókn á vettvangi sýndi að blóð hefði verið þrifið upp í svefnherberginu þar sem hinn látni lá, verður að telja að stefnandi hafi verið undir rökstuddum grun um að hafa átt þátt í refsiverðum verknaði og bar því nauðsyn til að handtaka hann til þess að koma í veg fyrir að sakargögnum væri spillt.  Voru því uppfyllt skilyrði 1. mgr. 97. gr. laga nr. 19/1991 til að handtaka stefnanda greint sinn. 

Með sömu rökum voru uppfyllt lagaskilyrði til að kveða á um gæsluvarðhald yfir stefnanda þann 13. mars 2002 sbr. a-liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 og var dómsúrlausn í þá átt því reist á lögmætum grunni og í samræmi við ákvæði laga um meðferð opinberra mála.  Þá þykir sá tími sem gæsluvarðhaldinu var markaður síst of langur með hliðsjón af þeim rannsóknarhagsmunum sem í húfi voru.

Enda þótt lagaskilyrði hafi verið til að úrskurða stefnanda í gæsluvarðhald þann 13. mars 2002 vegna rannsóknarnauðsynja verður að telja aðfinnsluverða þá fullyrðingu, sem fram kemur í kröfugerð sýslumannsins í Kópavogi 13. mars 2002 um gæsluvarðhald yfir stefnanda og síðan var ítrekuð í kröfu um framlengingu á gæsluvarðhaldi þann 19. mars 2002, um að allt bendi til þess að stefnandi hafi einn eða ásamt B lent í rifrildi við A, líklega út af peningum sem A hefði sagt þeim að hann ætti.  Þetta hafi svo endað með átökum.  Þá hafi A hlotið áverka á lifur þegar hann annaðhvort var kýldur í maga, sparkað hafi verið í hann eða hann laminn í maga með hlut sem ekki hafi verið með hart yfirborð.  Í þeim átökum hafi hann einnig fengið skurð á vinstri augabrún framan við gagnauga.  Þessar ályktanir lögreglu um háttsemi stefnanda sýnast að miklu leyti byggðar á getgátum sem ekki voru studdar haldbærum gögnum. 

Sýslumaðurinn í Kópavogi óskaði síðan eftir að gæsluvarðhald yrði framlengt yfir stefnanda allt til 18. apríl 2002 og féllst dómari á þá kröfu en þó eigi lengur en til 10.apríl 2002.  Krafan var enn studd við ákvæði 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 og rökstudd með því að rannsókn málsins væri mjög viðamikil og á frumstigi og muni á næstu dögum beinast að tæknirannsókn á vettvangi, blóðsýni úr fatnaði send erlendis til DNA-greiningar til athugunar úr hverjum það sé, beðið sé eftir endanlegri niðurstöðu úr krufningu og réttarefnafræðilegum rannsóknum auk þess sem frekari skýrslutökur séu fyrirhugaðar af stefnanda og fleiri vitnum án þess að tiltekið væri sérstaklega hver þau væru. 

Flest framangreind atriði eru þess eðlis að útilokað var fyrir stefnanda að torvelda frekari rannsókn fengi hann frelsi sitt að nýju.  Þannig verður ekki af gögnum ráðið annað en að tæknirannsókn á vettvangi hefði þegar farið fram og því vandséð hvernig stefnandi gæti torveldað frekari rannsókn þar.  Þá verður heldur ekki séð hvernig stefnandi gat torveldað rannsókn á blóðsýnum sem senda átti erlendis til DNA-greiningar eða hvernig frelsi hans kæmi í veg fyrir að endanleg niðurstaða úr krufningu og réttarefnafræðilegum rannsóknum skilaði sér.  Þá verður heldur ekki séð að gæsluvarðhald hafi verið nauðsynlegt vegna fyrirhugaðrar skýrslutöku af stefnanda og fleirum, en á þessum tíma hafði stefnandi ítrekað verið yfirheyrður um málsatvik og bar þeim B nokkuð saman um þau.  Bæði neituðu þau því að til átaka hafi komið við hinn látna.  Verður ekki annað séð en að lögreglu hefði átt að gefast nægur tími til að yfirheyra nauðsynleg vitni á þeim tíma sem stefnandi sat í einangrun í gæsluvarðhaldi án þess að stefnandi hefði getað haft áhrif á þann þátt rannsóknarinnar.   Þá verður af gögnum málsins ráðið að rannsókn málsins hafi verið vel á veg komin þann 19. mars 2002 og vart á frumstigi eins og fullyrt var. 

Þegar allt framangreint er virt þykir ekki eins og á stóð hafa verið nægilegt tilefni til að kveða á um áframhaldandi gæsluvarðhald yfir stefnanda þann 19. mars 2002 og sat stefnandi því lengur í gæsluvarðhaldi en rannsóknarnauðsynjar gáfu tilefni til eða í 23 daga.

Stefnandi hefur ennfremur haldið því fram að hann hafi verið sviptur frelsi án formlegrar heimildar á tímabilinu frá kl. 16.00 þann 10. apríl 2002 er gæsluvarðhald hans rann út og fram til kl. 10.00 þann 11. apríl 2002.  Samkvæmt 105. gr. laga nr. 19/1991 skal dómari að jafnaði leggja úrskurð á kröfu um gæsluvarðhald í því þinghaldi þar sem krafa er sett fram um gæsluvarðhal en honum er þó heimilt að fresta uppkvaðningu úrskurðar í allt að sólarhring frá þeim tíma sem sakborningur kemur fyrir dóm. Stefnandi kom fyrir dómara þegar krafist var framlengingar gæsluvarðhalds þann 10. apríl 2002 kl. 15.00.  Dómari tók sér lögmætan frest til að kveða upp úrskurð og gerði það í þinghaldi daginn eftir kl. 10.00 árdegis.  Verður því ekki séð að stefnandi hafi í umrætt sinn verið sviptur frelsi á ólögmætan hátt.

Krafa stefnanda um bætur vegna halds á munum er ekki studd neinum haldbærum gögnum og því vanreifuð og því ekki unnt að taka afstöðu til hennar.

Að því virtu sem nú hefur verið rakið þykir fullnægt skilyrðum b-liðar 176. gr. og 175. gr. laga nr. 19/1991 með áorðnum breytingum til að dæma stefnanda bætur fyrir miska vegna gæsluvarðhalds sem hann sætti frá 19. mars 2001 til 11. apríl 2002.

Stefndi byggir á því að ef bótaskylda teljist vera fyrir hendi sé sú krafa fyrnd samkvæmt 181. gr. laganna, en þar segir að bótakrafa fyrnist á sex mánuðum frá vitneskju aðila um ákvörðun um niðurfall rannsóknar eða ákæru eða uppkvaðningu dóms, eða frá því að hann var látinn laus úr fangelsi.

Í málinu liggur fyrir og er óumdeilt að lögmaður stefnanda fékk bréf ríkissaksóknara dagsett 16. október 2002 þar sem tilkynnt var um niðurfellingu máls varðandi ætlaða líkamsárás stefnanda á A, þar sem það sem fram væri komið í málinu væri eigi talið nægilegt eða líklegt til sakfellis og því eigi efni til frekari aðgerða í því.  Var málið því fellt niður á grundvelli 112. gr. laga nr. 19/1991.

Við munnlegan málflutning hélt lögmaður stefnanda því fram að ekki hefði verið nóg að senda umrædda tilkynningu til lögmanns stefnanda heldur hefði þurft að senda stefnanda hana sjálfum.  Af hálfu stefnda var þessari málsástæðu mótmælt sem of seint fram kominni.

Samkvæmt l. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefnandi að setja fram málsástæður sínar og frásögn af öðrum atvikum að baki máli í stefnu.  Eftir þetta getur stefnandi að meginreglu ekki komið að nýjum málsástæðum eða mótmælum nema tilefni gefist fyrst til þeirra á síðari stigum máls sbr. 5. mgr. 101. gr. laganna.

Í stefnu kemur fram að stefnandi hafi fengið umrætt bréf ríkissaksóknara dagsett 16. október 2002 og byggir dráttarvaxtakrafa stefnanda á þeirri dagsetningu þar sem hann krefst dráttarvaxta frá 16. nóvember 2002, eða mánuði eftir að ríkissaksóknari tilkynnti um niðurfellingu málsins.  Þá kemur einnig fram í bréfi lögmanns stefnanda til dómsmálaráðherra 4. mars 2003, þar sem skaðabótakrafa stefnanda er sett fram, að með bréfi ríkissaksóknara 16. október 2002 hafi stefnanda verið tilkynnt að rannsókn málsins væri felld niður.  Fyrrgreind málsástæða stefnanda um að honum hafi ekki verið tilkynnt um niðurfellingu málsins stangast því algerlega á við framangreindar fullyrðingar í stefnu og kröfubréfi og engar skýringar hafa komið fram á þessum breyttu málsástæðum hans.  Er málsástæða þessi því of seint fram komin og gegn andmælum stefnda verður ekki á henni byggt í málinu.

Að því virtu sem að framan er rakið verður við það miðað að tilkynning um niðurfellingu málsins hafi borist stefnanda 16. október 2002, en stefnandi hefur ekki í málatilbúnaði sínum fyrr en eins og áður greinir við munnlegan málflutning, haldið öðru fram.  Eins og greint hefur verið fyrnist slík bótakrafa sem hér er höfð uppi á sex mánuðum frá vitneskju aðila um ákvörðun um niðurfellingu rannsóknar.  Mál þetta var höfðað með áritun stefnda um viðtöku stefnu þann 22. apríl 2003 og þá þegar var liðinn sá sex mánaða frestur sem stefnandi hafði til að gera bótakröfu samkvæmt 181. gr. laga nr. 19/1991, en málssókn telst byrjuð áður en fyrningarfrestur er liðinn, ef stefna er birt innan nefnds tíma sbr. 11. gr. laga nr. 14/1905.

Bótakrafa stefnanda er því fyrnd og verður stefnandi því þegar af þeirri ástæðu sýknaður af öllum kröfum stefnanda.  Eru því ekki efni til að fjalla um fjárhæð miskabóta.

Eftir atvikum þykir rétt að fella niður málskostnað. 

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, sem er málflutningsþóknun lögmanns hans, Kristjáns Stefánssonar hrl., sem þykir hæfilega ákvörðuð 560.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

Af hálfu stefnanda flutti málið Kristján Stefánsson hrl. en af hálfu stefnda flutti

málið Sigrún Guðmundsdóttir hrl.

Greta Baldursdóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.

D Ó M S O R Ð

Stefndi íslenska ríkið skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Hjartar Þórarins

Sigurðssonar.

Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, sem er málflutningsþóknun lögmanns hans, Kristjáns Stefánssonar hrl., sem þykir hæfilega ákvörðuð 560.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.