Hæstiréttur íslands

Mál nr. 328/2000


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi
  • Gæsluvarðhald. D. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


                                              

 

Nr. 328/2000.

Mánudaginn 28. ágúst 2000.

Sýslumaðurinn í Kópavogi

(Tryggvi Þórhallsson fulltrúi)

gegn

X

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

                                              

Kærumál. Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi. D. liður 1. mgr. og 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

 

Gæsluvarðhaldsúrskurður var felldur úr gildi þar sem hvorki þóttu uppfyllt skilyrði d. liðar 1. mgr. 103. gr. né 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Markús Sigurbjörnsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. ágúst 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 22. ágúst 2000, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 14. september nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.

Samkvæmt gögnum málsins hefur sóknaraðili að mestu lokið rannsókn á tildrögum þess að M varð fyrir bifreið varnaraðila í bifreiðageymslu við Hamraborg í Kópavogi sunnudaginn 20. ágúst sl. Ekki hlutust af alvarlegir áverkar, þó svo að M hafi verið augljós háski búinn. Sóknaraðili reisir kröfu um gæsluvarðhald á d. lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, með því að þörf sé á að verja M og fyrrverandi eiginkonu varnaraðila, K, sem einnig var stödd í bifreiðageymslunni þennan dag, fyrir árásum varnaraðila. Þótt rannsóknargögn málsins sýni að hann hafi átt í útistöðum við M og fyrrverandi eiginkonu sína, eru ekki fram komnar nægar ástæður til að beita ákvæði d. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 í máli þessu, enda við þessar aðstæður unnt að beita öðrum úrræðum en gæsluvarðhaldi.

Sóknaraðili hefur ekki fært viðhlítandi rök fyrir því að gæsluvarðhald yfir varnaraðila sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Eru því ekki efni til að verða við kröfu sóknaraðila á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Samkvæmt framansögðu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 22. ágúst 2000.

Sýslumaðurinn í Kópavogi krafðist þess í gær fyrir Héraðsdómi Reykjaness að X [...], verði með úrskurði réttarins gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 14. september nk. kl. 16.00.

Krafan er reist á ákvæðum 2. mgr. 218. gr. sbr. 20. gr. alm. hgl. nr. 19/1940.

Að virtum þeim rannsóknargögnum sem liggja fyrir í dóminum þykir vera fyrir hendi sterkur grunur um að kærði hafi með háttsemi sinni gert tilraun til manndráps eða árásar sem hefði getað leitt til stórfells líkams- eða heilsutjóns. Brot kærða kann því að varða við 211. gr. sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, eða í það minnsta við 2. mgr. 218. gr. sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga. Brot gegn báðum þessum ákvæðum getur leitt til 10 ára fangelsis eða meira. Verður því fallist á kröfu sýslumanns og með skírskotun til d-liðar 1. mgr. 103. gr. og 2. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991, verður kærða gert að sæta gæsluvarðhaldi til 14. september nk. kl. 16.00.

Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 14. september nk. kl. 16:00.