Hæstiréttur íslands

Mál nr. 630/2007


Lykilorð

  • Loforð
  • Geymslusamningur
  • Skaðabætur
  • Gagnsök


                                     

Fimmtudaginn 2. október 2008.

Nr. 630/2007.

Fiskmarkaður Suðurnesja hf.

(Jóhannes Karl Sveinsson hrl.)

gegn

IKAN ehf.

(Einar Gautur Steingrímsson hrl.)

og gagnsök

 

Loforð. Geymslusamningur. Skaðabætur. Gagnsök.

I landaði tilteknu magni af þorski í Bolungarvík þann 4. júlí 2002. Aflinn glataðist og taldi I að F bæri ábyrgð á greiðslu andvirði hans aðallega á grundvelli loforðs en til vara vegna saknæmrar háttsemi sem valdið hefði hvarfi aflans. Upplýst var í málinu að fiskurinn hefði farið inn í hús hjá F eftir að hafa verið landað úr bátnum. Jafnframt þótti mega leggja til grundvallar að aflinn hefði verið fluttur þaðan síðar sama dag. Hæstiréttur sýknaði F af kröfu I þar sem ekki tókst að sanna að F hefði lofað að tryggja F greiðslu á andvirði aflans, né að saknæm háttsemi af hálfu F eða starfsmanna hans hefði valdið missi aflans.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 26. nóvember 2007. Hann krefst sýknu af kröfu gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði fyrir sitt leyti 6. febrúar 2008. Hann krefst þess að aðaláfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 700.325 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 19. júlí 2002 til greiðsludags. Þá krefst hann hækkunar málskostnaðar í héraði og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi byggir kröfu sína í fyrsta lagi á því, að aðaláfrýjandi hafi lofað að tryggja honum greiðslu fyrir aflann úr Hansa RE 24, sem landað var úr bátnum í Bolungarvík 5. júlí 2002. Verði ekki á það fallist byggir hann á því að stefndi sé bótaskyldur samkvæmt almennu skaðabótareglunni, þar sem hann eigi sök á því að farmurinn úr bátnum hafi týnst. Loks byggir hann á því að aðaláfrýjandi beri ábyrgð á tjóni því sem hann varð fyrir við hvarf aflans „sem geymslumaður“.

Aðaláfrýjandi hafnar því að hann hafi gert samning við gagnáfrýjanda um aflann úr bátnum. Þá mótmælir hann því að hafa sýnt af sér gáleysi sem hafi valdið því að aflinn glataðist og einnig að hafa tekið að sér geymslu hans. Jafnvel þótt ekki verði á það fallist, beri geymslumaður ekki ábyrgð á geymsluhlut að íslenskum rétti nema sýnt sé fram á sök af hans hálfu og þess vegna falli tvær síðarnefndu málsástæður gagnáfrýjanda í reynd saman. Loks byggir aðaláfrýjandi á því að gagnáfrýjandi hafi glatað kröfu sinni fyrir sakir tómlætis, þar sem ekkert hafi heyrst frá honum um hana allt frá því aðaláfrýjandi hafnaði kröfunni með bréfi 23. september 2003 og þar til málið var höfðað 4. júlí 2006.

Gagnáfrýjanda hefur ekki tekist sönnun þess að aðaáfrýjandi hafi lofað að tryggja honum greiðslu á andvirði aflans. Verður málsástæðu gagnáfrýjanda sem að því lýtur því hafnað. Upplýst er í málinu að aflinn fór inn í hús hjá aðaláfrýjanda í Bolungarvík eftir að honum hafði verið landað úr bátnum 5. júlí 2002. Jafnframt þykir mega leggja til grundvallar að hann hafi verið fluttur þaðan síðar þann sama dag. Aðaláfrýjandi hefur ekki mótmælt því að hann hafi fyrir sitt leyti fallist á að aflinn yrði fluttur inn í húsið. Kveðst hann hafa talið að fyrirætlan gagnáfrýjanda hafi verið að senda aflann til Fiskvinnslunnar Kambs ehf. á Flateyri. Telur hann sannað að flutningabifreið frá Páli Sigurði Önundarsyni hafi sótt aflann og kveðst hann ekki hafa haft ástæðu til að ætla annað en að það væri með heimild gagnáfrýjanda vegna sölu aflans. Til þess að aðaláfrýjandi verði gerður skaðabótaskyldur fyrir því tjóni sem gagnáfrýjandi varð fyrir, þegar aflinn glataðist, verður gagnáfrýjandi að sýna fram á að saknæm háttsemi aðaláfrýjanda eða starfsmanna hans hafi valdið missi aflans. Þetta hefur honum ekki tekist og verður málsástæðum hans sem lúta að bótaábyrgð samkvæmt sakarreglunni og ábyrgð geymslumanns því hafnað.

Samkvæmt framansögðu verður aðaláfrýjandi sýknaður af kröfu gagnáfrýjanda. Gagnáfrýjandi verður dæmdur til að greiða aðaláfrýjanda málskostnað sem ákveðst í einu lagi í héraði og fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Aðaláfrýjandi, Fiskmarkaður Suðurnesja hf., er sýkn af kröfu gagnáfrýjanda, IKAN ehf.

Gagnáfrýjandi greiði aðaláfrýjanda samtals 600.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Vestfjarða 31. ágúst 2007.

Mál þetta, sem var dómtekið 22. maí sl., en endurupptekið fyrr í dag og dómtekið á ný, höfðaði Ikan ehf., Egilsgötu 4, Borgarnesi, 4. júlí sl., aðallega gegn Fiskmarkaði Suðurnesja hf., Miðgarði 4, Grindavík, til vara gegn Páli Sigurði Önundarsyni, Ólafstúni 6, Flateyri, en til þrautavara Fiskvinnslunni Kambi ehf., Hafnarbakka, Flateyri.

Stefnandi krefst þess aðallega að aðalstefndi verði dæmdur til að greiða sér 700.325 krónur, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 19. júlí 2002 til greiðsludags og málskostnaðar að skaðlausu. Til vara gerir hann sömu kröfu á hendur varastefnda og til þrautavara sömu kröfu á hendur þrautavarastefnda.

Aðalstefndi, varastefndi og þrautavarastefndi krefjast allir sýknu og málskostnaðar úr hendi stefnanda.    

 

I.

Fyrirsvarsmaður stefnanda, Þorsteinn Máni Árnason, landaði þann 4. júlí 2002 4.327 kg af þorski úr Hansa RE-24 í Bolungarvík. Starfsmaður aðalstefnda mun hafa ekið aflanum á hafnarvog. Samkvæmt vigtarnótu var þrautavarastefndi kaupandi aflans.

Fyrirsvarsmaður stefnanda mun hafa rætt við Karl Ágúst Gunnarsson, fyrirsvars­mann aðalstefnda í Bolungarvík um ráðstöfun aflans. Ber þeim ekki saman um niðurstöðu þeirra viðræðna. Staðhæfir fyrirsvarsmaður stefnanda að hann hafi viljað komast í föst viðskipti við einhvern kaupanda sem greiddi afla á föstu verði hverju sinni. Hafi hann verið að veiða á misjöfnum stöðum vestur af landinu og þótt þægilegt að geta landað þar sem styst væri að fara og gengið að fiskverði vísu. Hafi hann eftir sem áður viljað að uppgjör færi í gegn um fiskmarkaðina sem myndu annast greiðslu og uppgjör við lögbundna sjóði. Hafi viðskipti sem þessi verið töluvert tíðkuð. Staðhæfir stefnandi að Karl Ágúst hafi tekið þetta að sér fyrir hönd þrautavarastefnda og að fiskverðið yrði 130 kr./kg. Hafi hann sagst hafa fullt umboð frá þrautavarastefnda til þessa.

Stefnanda barst ekki greiðsla fyrir aflann, sem hann segir að hafi átt að greiðast 19. júlí 2002. Er fyrirsvarsmaður hans grennslaðist fyrir kannaðist enginn við það af hálfu þrautavarastefnda að fiskurinn hefði borist þangað. Af hálfu aðalstefnda var talið að fiskurinn hefði verið afhentur varastefnda til flutnings til þrautavarastefnda ásamt öðrum fiski sem þrautavarastefndi hafði keypt í gegnum markað aðalstefnda.

Fyrirsvarsmaður stefnanda kærði hvarf fisksins til lögreglu. Tók hún skýrslu af Karli Ágúst þann 1. ágúst 2002. Sagði hann að aflinn hefði farið á vigt og síðan inn í hús hjá aðalstefnda. Hann lýsti samtali sínu við Þorstein Mána þannig að hann hafi sagst geta samið við hann í samráði við Hinrik Kristjánsson, fyrirsvarsmann þrautavarastefnda, ef aflinn færi í gegnum markað. Þorsteinn Máni hafi hins vegar ákveðið að „landa beint“ á þrautavarastefnda. Hafi það verið aðstoð af hálfu aðalstefnda við þrautavarastefnda að taka aflann inn á gólf og hafi hann síðan verið afhentur varastefnda til flutnings daginn eftir. Tók hann fram að bílstjóra beri að taka vigtarnótu hjá hafnarvigt.

Varastefndi, Páll Sigurður Önundarson skýrði lögreglu frá því að hann gæti hvorki játað því né neitað að þessi fiskur hefði verið lestaður í bíl á hans vegum þann 5. júlí 2002. Engir pappírar hafi verið gerðir vegna flutnings til Flateyrar. Venjulega hafi þau fiskikör sem hann hafi átt að flytja verið á tilteknum stað í húsinu og hann flutt þann fisk sem honum var vísað til.

Starfsmaður aðalstefnda, Guðmundur Guðfinnsson, skýrði lögreglu frá því að Þorsteinn Máni hefði sagt sér að þrautavarastefndi ætti að vera skráður kaupandi við vigtun. Hafi hann ekið aflanum í hús aðalstefnda eftir vigtun.  Aflinn hafi verið færður á bifreið frá varastefnda daginn eftir. Milan Remic, starfsmaður aðalstefnda bar einnig um fyrir lögreglu að aflinn hefði verið afhentur varastefnda til flutnings.

Lögregla yfirheyrði einnig Guðbjart Jónsson, starfsmann Fiskmarkaðs Flateyrar, sem sá um slægingu fyrir þrautavarastefnda. Staðhæfði hann að umræddur afli hefði aldrei borist til slægingar hjá sér.

Lögregla grennslaðist fyrir hjá fyrirsvarsmönnum þrautavarastefnda, sem kváðust hafa marg farið yfir gögn fyrirtækisins og samkvæmt þeim hefði þessi fiskur aldrei komið til þrautavarastefnda. Haft er eftir Hinrik Kristjánssyni, fyrirsvarsmanni þrautavarastefnda að hann hefði aldrei beðið Karl Ágúst að annast viðskipti fyrir þrautavarastefnda.

Sýslumaðurinn í Bolungarvík lauk rannsókn málsins með því að hætta henni og tilkynnti fyrirsvarsmanni stefnanda það með bréfi 13. júní 2003. Segir í bréfinu að þrátt fyrir ítarlega rannsókn hafi ekki tekist að upplýsa hvað hefði orðið um hinn horfna afla og ekki hefði verið leidd í ljós háttsemi sem talin yrði refsiverð.

Við meðferð málsins hér fyrir dómi voru teknar skýrslur af fyrirsvarsmanni stefnanda, Þorsteini Mána Árnasyni, Karli Ágúst Gunnarssyni, varastefnda og Önundi Hafsteini, syni hans, sem annaðist fiskflutninga á hans vegum, Hinrik Kristjánssyni, fyrirsvarsmanni þrautavarastefnda og fyrrnefndum Guðmundi Guðfinnssyni, Guðbjarti Jónssyni, Milan Remic og loks Sigurði Þórissyni, sem var verkstjóri hjá þrautavarastefnda. Varð ekki upplýst með skýrslum þessara manna hvað um fiskinn varð og fyrirsvarsmanni stefnanda og Karli Ágúst Gunnarssyni ber sem fyrr ekki saman um það hvort þeir sömdu sín á milli um að ráðstafa fiskinum gegnum markað aðalstefnda með þrautavarastefnda sem kaupanda á föstu verði.

  

II.

Stefnandi kveðst byggja kröfu sína á hendur aðalstefnda á því að hann hafi tekið að sér umrædd viðskipti og að standa að þeim með venjulegum hætti, með þeirri undantekningu einni að í stað uppboðsandvirðis yrði skilað föstu verði. Beri aðal­stefndi ábyrgð á greiðslu kaupverðsins gagnvart sér. Vísar hann um þetta til reglu um skuldbindingargildi samninga og laga nr. 123/1989.

Verði ekki á þetta fallist sé byggt á almennu skaðabótareglunni, en það verði að telja aðalstefnda til gáleysis að láta verðmæti sem þessi fara forgörðum í sínum höndum án þess að ljóst sé hvað um þau varð. Hvíli sönnunarbyrði á aðalstefnda um að öðrum skýringum sé til að dreifa.

Verði ekki á þetta fallist beri aðalstefndi ábyrgð sem geymslumaður samkvæmt reglum um ábyrgð geymslumanna.

Verði aðalstefndi sýknaður og ekki fallist á þær málsástæður sem liggja til grundvallar kröfu á hann, verði að byggja á því að varastefndi hafi tekið við umræddum fiski og beri ábyrgð á að koma honum til skila. Verði að virða honum, eða starfsmönnum hans til gáleysis að koma fiskinum ekki til skila og aka án vigtarnótna og geta ekki gert grein fyrir afdrifum fisksins. Verði ekki fallist á þetta sé á því byggt að farmflytjandi beri hlutlæga ábyrgð á afdrifum farmsins.

Verði aðal- og varastefndi sýknaðir, sé á því byggt að þrautavarastefnda beri að inna kaupverð af hendi til stefnanda, en ella að hann beri ábyrgð á því hvað varð um fiskinn á grundvelli almennu skaðabótareglunnar.   

 

III.

Aðalstefndi kveðst engan samning hafa gert við stefnanda, hvorki um fisksölu né geymslu. Beri stefnandi sönnunarbyrði um hið gagnstæða og geri hann ekki tilraun til að sanna að samningur hafi tekist og þá um hvað. Eigi aðalstefndi enga aðild að hugsanlegum föstum viðskiptum sem stefnandi kunni að hafa hugsað sér að fara í, væntanlega við þrautavarastefnda. Hafi aflinn ekki verið seldur í gegnum sölukerfi aðalstefnda og ekki verði boðinn þar upp. Virðist sem þrautavarastefndi eða sonur hans hafi sótt fiskkörin og séu þeir menn ekki á vegum aðalstefnda.

Aðalstefndi hafi leitast við það eftir megni á sínum tíma að upplýsa málið og hefðu starfsmenn hans staðfest að aflinn hafi farið á vörubifreið í eigu varastefnda, en rannsókn lögreglu hafi ekki leitt í ljós hvað um aflann varð.

Hinn 1. september 2003 hafi sér borist bréf frá lögmanni fyrir hönd stefnanda, sem hafi krafið sig um 648.479 krónur, sem ógreitt söluverðmæti. Þeim kröfum hafi verið svarað með bréfi lögmanns aðalstefnda þann 23. sama mánaðar og þá gerð skýr grein fyrir afstöðu aðalstefnda og því að hann hefði alls ekki selt þennan afla. Hafi kröfunum verið hafnað. Ekkert hafi heyrst frá stefnanda eftir það fyrr en stefna var birt í júlí árið 2006.

Aðalstefndi kveðst alfarið hafna þeirri málsástæðu stefnanda að aðalstefndi hafi tekið að sér umrædd viðskipti. Virðist sem stefnandi byggi á því öðrum þræði að komist hafi á samningur milli sín og þrautavarastefnda. Réttindi og skyldur samkvæmt þeim samningi séu aðalstefnda óviðkomandi. Hann hafi ekki verið milligöngumaður um viðskiptin og ekki tekið að sér neinar skyldur á grundvelli laga nr. 123/1989. Fiskurinn hafi ekki farið á uppboð, enda lýsi stefnandi því sjálfur yfir að um bein viðskipti sín hafi verið að ræða við þrautavarastefnda. Aðalstefndi hafi aldrei tekið við kaupverði fyrir aflann og geti því ekki skilað því til stefnanda sem seljanda. Aðalstefndi hafi ekki heldur tekið ábyrgð á því að kaupverð samkvæmt samningi stefnanda við þriðja mann yrði greitt og því sé þessi málsástæða algerlega vanreifuð og geti ekki leitt til þess að krafa stefnanda nái fram að ganga. Stefnandi hafi auk þess sönnunarbyrði fyrir því að einhver samningur í þá veru sem hann heldur fram hafi komist á, en þá sönnunarbyrði hafi hann ekki náð að axla.

Hvað varði málsástæður stefnanda um skaðabótaábyrgð aðalstefnda og ábyrgð sem geymslumanns, hafi ekki verið sýnt fram á skyldur aðalstefnda og þá á hvaða hátt hann hafi brugðist þeim með saknæmum hætti. Sé því sérstaklega vísað á bug að stefndi hafi tekið að sér einhverjar skyldur sem geymslumaður samkvæmt samningi við stefnanda.

Þá kveðst aðalstefndi mótmæla fjárhæð kröfu stefnanda og vaxtakröfum. Engar sönnur hafi verið færða fram um það fiskverð sem stefnanda hafi staðið til boða og það tjón sem hann gæti hafa orðið fyrir vegna hvarfs aflans. Verði málsástæður stefnanda taldar eiga einhvern rétt á sér séu kröfur hans fallnar niður fyrir stórfellt tómlæti. Enginn reki hafi verið gerður að þeim í hartnær fjögur ár. Afstaða aðalstefnda hafi ætíð legið ljós fyrir og verði ekki séð að neitt sérstakt hafi hamlað því að kröfur yrðu hafðar uppi löngu fyrr. Reglur um tómlæti séu til þess ætlaðar að skapa festu í viðskiptum og koma í veg fyrir sönnunarvandkvæði þegar langt sé liðið frá atvikum máls. Eigi þau sjónarmið algerlega við hér. 

  

IV.

Varastefndi kveðst fyrst og fremst byggja sýknukröfu sína á því að hann hafi aldrei átt viðskipti við stefnanda, hvorki varðandi fiskkaup né varðandi flutning á fiski. Hann annist fiskflutninga fyrir þrautavarastefnda. Þennan dag hafi hann farið tvær ferðir til Bolungarvíkur til að sækja fisk fyrir þrautavarastefnda. Hann hafi flutt þann fisk sem starfsmenn aðalstefnda hafi tjáð að ætti að fara til þrautavarastefnda. Sér sé með öllu ókunnugt um það hvort þar hafi verið um að ræða fisk af báti stefnanda, en hann minnist þess ekki að fiskikörin hafi verið merkt bátum eða stefnanda. Hann telji því alveg ósannað að hann hafi flutt fisk af Hansa RE-24 umræddan dag eða síðar.

Hann hafi skilað öllum þeim fiski sem hann hafi flutt frá starfstöð aðalstefnda í Bolungarvík til þrautavarastefnda þennan dag. Hafi það verið aðalstefndi sem sá um að halda utan um það magn sem fór í gegnum markað aðalstefnda og á bifreið varastefnda. Meðan ekki sé sannað að varastefndi hafi flutt fisk stefnanda verði hann ekki gerður ábyrgur fyrir honum eða verðmæti hans. Beri stefnandi sönnunarbyrði í þá veru.

Varastefndi kveðst ekki verða krafinn um greiðslu fyrir aflann á grundvelli almennu skaðabótareglunnar með vísan til þess að honum verði virt það til gáleysis að hafa ekið með farm án vigtarnótna og að hann geti þar af leiðandi ekki gert grein fyrir þeim fiski sem hann ók með. Kveðst hann benda á að aðalstefndi hafi haldið utan um skráningu á öllum afla sem fór til Flateyrar umræddan dag auk þess sem það sé skráð hjá Fiskmarkaði Flateyrar hvaða afli var móttekinn og þá sérstaklega hvað kom frá aðalstefnda til þrautavarastefnda. Verði ábyrgð varastefnda ekki á þessu byggð, enda ítreki hann að engin sönnun liggi fyrir um að hann hafi yfir höfuð flutt fisk af báti stefnanda. Hljóti aðalstefndi að geta gert grein fyrir því magni sem fór í gegnum markað hans þennan dag og hvað hafi verið sent til Flateyrar með varastefnda og einnig hljóti Fiskmarkaður Flateyrar, og/eða þrautavarastefndi að geta gert grein fyrir þeim afla sem þau móttóku eða keyptu þennan dag. Þá kveðst varastefndi engin rök standa til þess að hann beri hlutlæga ábyrgð á afdrifum farmsins. Jafnframt bendir hann á að stefnandi hafi sýnt af sér stórfellt tómlæti við að halda fram kröfum sínum og mótmælir fjárhæð kröfu stefnanda og dráttarvaxtakröfu hans.

    

V.

Þrautavarastefndi kveðst fyrst hafa orðið var við hina meintu löndun þann 14. júlí 2002, er hann hafi verið inntur eftir greiðslu. Hafi framkvæmdastjóri hans þó verið í sambandi við Þorstein Mána Árnason þann 10. júlí 2002, er hinn síðarnefndi hafi leitað eftir föstum viðskiptum. Hafi þá ekkert komið fram um löndunina 4. júlí. Þá hafi hann verið í sambandi við Karl Ágúst Gunnarsson þann 6. júlí og hafi hann ekkert minnst á viðskipti af hálfu stefnanda. Rekur þrautavarastefndi að er hann var krafinn um greiðslu hafi verið kannað hvort nokkur kannaðist við þessa meintu löndun, án árangurs.

Þrautavarastefndi byggir sýknukröfu sína á því að hann eigi ekki aðild að málinu. Ekki hafi verið gerðir samningar milli hans og stefnanda um kaup á fiski og umræða  um meintan akstur á fiski frá stefnanda hafi ekki komið upp fyrr en löngu síðar. Sé ljóst að hvort sem starfsmaður aðalstefnda hafi samið við stefnanda eða ekki sé hugsanleg samnings- eða bótakrafa stefnanda algerlega óviðkomandi þrautavara­stefnda. Hafi starfsmaður aðalstefnda ekki haft neitt umboð til samninga um kaup á fiski. Hjá þrautavarastefnda sé nákvæm afstemming á hráefniskaupum til vinnslu. Engin frávik hafi komið upp við innvigtun á hráefni sem barst frá Bolungarvík þennan dag og því hafi ekkert komið fram sem renni stoðum undir fullyrðingar um að þessi afli hafi verið unninn í fiskvinnslu þrautavarastefnda. Sé kröfugerð stefnanda á hendur honum með öllu tilefnislaus.

Þá kveðst þrautavarastefndi benda á það að stefnandi hafi sýnt af sér ótrúlegt kæruleysi með því að ganga ekki frá sínum málum áður en hann afhenti aflann til aðalstefnda. Hafi staðið honum næst að tryggja að samkomulag væri til staðar um kaup á aflanum og að hann kæmist í hendur réttra flutningsaðila. Hljóti stefnandi að bera hallann af þessu vinnulagi. Hvíli sönnunarbyrði um vafaatriði á honum. Þá sé óljóst hvort kröfu stefnanda sé beint að þrautavarastefnda sem samnings- eða skaðabótakröfu og hljóti að koma til skoðunar hvort vísa beri málinu frá dómi án kröfu.

 

VI.

Svo sem áður segir greinir fyrirsvarsmann stefnanda og Karl Ágúst Gunnarsson á um það hvort samist hafi um það og þá með hvaða hætti fyrrgreindur afli færi í gegnum markað aðalstefnda. Gegn neitun aðalstefnda verður ekki talið sannað að Karl Ágúst hafi samið um það í umboði þrautavarastefnda að þrautavarastefndi keypti fiskinn á föstu verði gegnum markað aðalstefnda. Verður aðalstefndi því ekki dæmdur til að greiða stefnanda aflann með vísan til ákvæða laga nr. 123/1989.

Samkvæmt skilningi aðalstefnda hafði stefnandi ákveðið að selja fiskinn beinni sölu til þrautavarastefnda. Verður að leggja til grundvallar að aðalstefndi hafi á grundvelli þessa skilnings tekið fiskinn í hús til varðveislu og ætlað að afhenda hann flutningsmanni, varastefnda, sem annaðist fiskflutninga fyrir þrautavarastefnda.

Starfsmenn aðalstefnda skýra frá því, svo sem fyrr er rakið að þeir hafi afhent þennan fisk til þrautavarastefnda, eða sonar hans ásamt öðrum fiski sem þeir fluttu til þrautavarastefnda þennan dag. Engra annarra gagna nýtur við um að fiskurinn hafi í raun verið afhentur til flutnings með þessum hætti. Guðbjartur Jónsson, sem annaðist slægingu fyrir þrautavarastefnda undir merkjum Fiskmarkaðar Flateyrar, ber eindregið að þessi afli hafi aldrei komið þangað til slægingar og af hálfu þrautavarastefnda er eindregið staðhæft að til hans hafi hann aldrei borist.

Varhugavert þykir að telja nægilega sannað með munnlegum skýrslum starfs­manna aðalstefnda að umræddur afli hafi verið afhentur þrautavarastefnda til flutnings. Er því óupplýst hvað um fiskinn varð eftir að hann kom í húsnæði aðal­stefnda.

Aðalstefndi þykir eiga að bera sönnunarbyrði um það hvert hann ráðstafaði fiskinum úr sinni vörslu. Þykir hann verða að bera hallann af því að hann hefur ekki getað gert fullnægjandi grein fyrir því hvað af fiskinum varð enda hefur ekki tekist að upplýsa það með öðrum hætti. 

 Óumdeilanlega varð stefnandi fyrir tjóni vegna þess að fiskurinn kom ekki fram svo sannað sé, til þrautavarastefnda, enda hefði stefnandi þá enn átt þess kost að ráðstafa honum með öðrum hætti ef þrautavarastefndi hefði ekki viljað veita honum viðtöku. Verður að leggja til grundvallar að aðalstefndi hafi sýnt af sér gáleysi við meðferð fisksins þar sem hann hefur ekki getað gert fullnægjandi grein fyrir því hvað hann gerði við hann. Þykir hann með því hafa bakað sér skaðabótabyrgð gagnvart stefnanda.

Er stefnandi uppgötvaði hvernig komið var hófst hann þegar handa um aðgerðir, þ.á.m. með því að vísa málinu til lögreglu. Eins og hér að framan er rakið hafðist hann hins vegar ekki að svo séð verði um að halda fram kröfu sinni, eftir að lögmaður aðalstefnda hafnaði greiðsluskyldu með bréfi þann 23. september 2003, fyrr en með höfðun þessa máls. Dómurinn telur hann þó ekki hafa fyrirgert rétti til bóta með þessu, en tekið verður tillit til þess við ákvörðun vaxta.

Aðalstefndi mótmælir fjárhæð kröfu stefnanda, þar sem engar sönnur hafi verið færðar á tjón hans vegna hvarfs aflans. Dómurinn telur rétt að dæma bætur miðað við verð sem staðhæft er að honum hafi staðið til boða frá öðrum kaupanda, en hann vildi ekki selja á, þ.e. 125 kr/kg. Verður aðalstefndi dæmdur til að bæta stefnanda aflann miðað við það verð, þ.e. 4.327 kg x 125 kr. = 540.875 krónur. Fallist verður á mótmæli aðalstefnda sem höfð voru uppi við munnlegan málflutning þess efnis að við ákvörðun bótafjárhæðar verði virðisaukaskattur ekki lagður á bætur.

Dráttarvextir verða dæmdir frá þeim degi sem stefna var birt aðalstefnda, eins og nánar greinir í dómsorði.

Eftir þessari niðurstöðu verður aðalstefndi dæmdur til að greiða stefnanda 300.000 krónur í málskostnað.

Þar sem bótaskylda hefur hér verið lögð á aðalstefnda ber að sýkna vara- og þrautavarastefndu af kröfum stefnanda í málinu. Eftir atvikum máls þykir rétt að málskostnaður falli niður hvað þessa aðila varðar.

Dóm þennan kveður upp Erlingur Sigtryggsson, dómstjóri.

Dómsorð:

Aðalstefndi, Fiskmarkaður Suðurnesja hf., greiði stefnanda, Ikan ehf., 540.875 krónur, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 4. júlí 2006 til greiðsludags og 300.000 krónur í málskostnað.

Varastefndi, Páll Sigurður Önundarson og þrautavarastefndi, Fiskvinnslan Kambur ehf., eru sýknir af kröfum stefnanda. Málskostnaður fellur niður milli þeirra og stefnanda.