Hæstiréttur íslands
Mál nr. 245/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Fjármálafyrirtæki
- Slit
- Lánssamningur
- Veðréttindi
- Hlutafélag
- Réttindaröð
|
|
Þriðjudaginn 23. apríl 2013. |
|
Nr. 245/2013.
|
Askar Capital hf. (Þorsteinn Einarsson hrl.) gegn Karli Emil Wernerssyni (Ólafur Eiríksson hrl.) |
Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slit. Lánssamningur. Veðréttindi. Hlutafélag. Réttindaröð.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem krafa K við slit fjármálafyrirtækisins A hf. var viðurkennd með stöðu í réttindaröð samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Krafa K var til komin vegna láns til A hf. sem tryggt var með veði í hlut A hf. í tilteknu félagi en þegar lánið var veitt var K stjórnarformaður A hf. Í dómi Hæstaréttar kom fram að ráðstöfunin hefði verið óvenjuleg og mikils háttar í skilningi 2. mgr. 68. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög. Samkvæmt reglum A hf. um framkvæmd starfa stjórnar áttu viðskiptaerindi stjórnarmanna að vera borin undir stjórn félagsins. Ekki var fallist á með K að stjórn A hf. hefði tekið ákvörðun um lántökuna og voru því ekki skilyrði til að krafa K fengi notið stöðu samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991. Var hún viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. sömu laga.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. mars 2013, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. apríl sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. mars 2013, þar sem krafa varnaraðila að fjárhæð 406.433.572 krónur var viðurkennd við slit sóknaraðila með stöðu í réttindaröð samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. sömu laga. Sóknaraðili krefst þess að fyrrgreindri kröfu varnaraðila verði hafnað við slitin. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Eins og nánar er lýst í úrskurði héraðsdóms á ágreiningur aðilanna rætur að rekja til þess að varnaraðili kveðst hafa veitt sóknaraðila lán 18. september 2008 að fjárhæð 300.000.000 krónur og fengið þá um leið tryggingu fyrir endurgreiðslu þess með veðrétti í þriðjungshlut, sem sóknaraðili hafi átt í félagi með heitinu OLC (India) BuyCo ehf. Varnaraðili var á þessum tíma stjórnarformaður sóknaraðila og segir hann lán þetta hafa verið veitt vegna brýnna þarfa sóknaraðila svo að hann gæti staðið skil á skuld við Lánasjóð sveitarfélaga. Af þeim sökum hafi forstjóri og fjármálastjóri sóknaraðila leitað þennan dag til varnaraðila og þeir átt fund með tveimur öðrum mönnum, sem hafi átt sæti í stjórn sóknaraðila, svo og einum manni til viðbótar sem þar hafi verið varamaður. Upphaflega hafi gjalddagi skuldarinnar verið 25. september 2008, en lánið hafi margsinnis verið framlengt og að endingu samið um gjalddaga 15. júlí 2009. Varnaraðili hafi ekki fengið skuldina greidda, en sóknaraðili var 14. júlí 2010 tekinn til slita eftir reglum laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki með síðari breytingum og lýsti varnaraðili kröfu um greiðslu skuldarinnar, sem að meðtöldum dráttarvöxtum til þess dags nam 406.433.572 krónum. Krafðist varnaraðili þess að kröfunni yrði skipað í réttindaröð sem veðkröfu samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991. Í skrá um lýstar kröfur hafnaði slitastjórn sóknaraðila kröfu varnaraðila að öllu leyti, en með því að ekki tókst að leysa ágreining aðilanna um viðurkenningu hennar var honum beint til héraðsdóms, þar sem mál þetta var þingfest af því tilefni 1. mars 2012.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður fallist á að sannað sé að varnaraðili hafi veitt sóknaraðila fyrrgreint lán 18. september 2008. Óumdeilt er að sóknaraðili hefur ekki endurgreitt lán þetta og á varnaraðili því kröfu á þessum grunni við slit sóknaraðila.
Í hinum kærða úrskurði er gerð grein fyrir meginatriðum veðsamnings aðilanna 18. september 2008, en við hann styður varnaraðili kröfu sína um að endurgreiðslu fyrrgreinds láns verði skipað í réttindaröð eftir 111. gr. laga nr. 21/1991. Af hálfu sóknaraðila undirrituðu forstjóri og yfirlögfræðingur hans samninginn. Samkvæmt gögnum málsins tók stjórn sóknaraðila, sem skipuð var sjö aðalmönnum, ekki ákvörðun um þessa ráðstöfun, en varnaraðili vísar á hinn bóginn til þess, sem áður greinir, að auk sín hafi tveir menn, sem áttu sæti sem aðalmenn í stjórninni, og einn varamaður verið staddir á fundi síðastgreindan dag, þar sem ákvörðun hafi meðal annars verið tekin um þessa veðsetningu og samningurinn undirritaður.
Samkvæmt 1. mgr. 68. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög fer stjórn slíks félags með málefni þess og skal sjá til þess að skipulag félagsins og starfsemi sé jafnan í réttu og góðu horfi, en stjórnin og framkvæmdastjóri fara með stjórn félagsins. Í 2. mgr. sömu lagagreinar er mælt svo fyrir að framkvæmdastjóri annist daglegan rekstur félagsins og skuli í þeim efnum fara eftir stefnu og fyrirmælum stjórnar. Hinn daglegi rekstur taki ekki til ráðstafana, sem séu óvenjulegar eða mikils háttar, og þurfi sérstaka heimild til þeirra frá stjórninni nema ófært sé að bíða ákvörðunar hennar vegna verulegs óhagræðis fyrir félagið. Líta verður svo á að veðsetning eignar hlutafélags til að tryggja skuld við stjórnarformann þess hljóti almennt að teljast til óvenjulegrar ráðstöfunar í skilningi síðastnefnds lagaákvæðis. Er þess og að gæta að samkvæmt 1. mgr. 28. gr. reglna sóknaraðila frá 2. mars 2007 um framkvæmd starfa stjórnar og forstjóra, sem hann hefur lagt fyrir Hæstarétt, átti að bera svonefnd viðskiptaerindi stjórnarmanna fyrir félagsstjórnina og var tekið þar fram að með þessu væri leitast við að tryggja að þeir gætu ekki „í krafti stöðu sinnar komið á viðskiptum sem ella hefðu ekki verið samþykkt.“ Í málatilbúnaði sóknaraðila er jafnframt vísað til þess að samkvæmt ársreikningi hans fyrir árið 2008 hafi bókfært verð eignarhlutans í OLC (India) BuyCo ehf., sem veðsamningurinn frá 18. september sama ár tók til, numið 1.096.163.000 krónum. Samkvæmt sama ársreikningi var andvirði eigna sóknaraðila í lok ársins 2007 samtals 34.251.032.000 krónur og í árslok 2008 alls 36.139.626.000 krónur, en eigið fé hans var neikvætt á fyrra tímamarkinu um 848.884.000 krónur og því síðara um 2.499.497.000 krónur. Í þessu ljósi verður að telja veðsetningu þessara verðmæta til mikils háttar ráðstafana í skilningi sama lagaákvæðis. Varnaraðili var einnig vanhæfur til að að fjalla sem formaður stjórnar sóknaraðila um gerð samnings við sjálfan sig, sbr. 72. gr. laga nr. 2/1995, og verður því þegar af þeirri ástæðu ekki litið svo á að meiri hluti stjórnar hafi vitað um og samþykkt þessa ráðstöfun, svo sem varnaraðili heldur fram. Samkvæmt þessu eru ekki skilyrði til að krafa varnaraðila fái notið stöðu í réttindaröð samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991 við slit sóknaraðila og ber því að telja hana þar til almennra krafna.
Eftir þessum úrslitum málsins er rétt að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af því í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Krafa varnaraðila, Karls Emils Wernerssonar, að fjárhæð 406.433.572 krónur er viðurkennd með stöðu í réttindaröð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. við slit sóknaraðila, Askar Capital hf.
Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. mars 2013.
Mál þetta er ágreiningsmál við slitameðferð varnaraðila og var beint til dómsins með bréfi varnaraðila 7. júní 2011, sem móttekið var 10. sama mánaðar. Vísaði varnaraðili um lagagrundvöll til 171. gr., sbr. 2. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Málið var þingfest 1. mars 2012 og tekið til úrskurðar 11. febrúar 2013.
Sóknaraðili er Karl Emil Wernersson, Engihlíð 9, Reykjavík, en varnaraðili er Askar Capital hf., Suðurlandsbraut 12, Reykjavík.
Sóknaraðili krefst þess aðallega að krafa sem hann lýsti fyrir slitastjórn varnaraðila, 11. október 2010, að fjárhæð 406.433.572 krónur verði samþykkt sem veðkrafa samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991, en til vara að krafan verið samþykkt sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. sömu laga. Í báðum tilvikum krefst sóknaraðili málkostnaðar og við munnlegan málflutning krafðist hann þess að varnaraðili yrði að auki úrskurðaður til að greiða álag á málskostnað samkvæmt a. og c. lið 1. mgr., sbr. 2. og 3. mgr., 131. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Varnaraðili krefst þess að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað og honum úrskurðaður málskostnaðar. Mótmælti hann því sérstaklega að efni væru til þess í málinu að beita tilvitnuðum ákvæðum réttarfarslaga til að úrskurða hann til greiðslu álags á málskostnað.
I
Með beiðni sem barst Héraðsdómi Reykjavíkur 13. júlí 2010 óskaði stjórn varnaraðila eftir því að bú félagsins yrði tekið til slitameðferðar, en varnaraðili er fjármálafyrirtæki. Með úrskurði 14. júlí 2010 var fallist á beiðnina með vísan til 101. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og var félaginu skipuð slitastjórn þann sama dag. Markar fyrrnefnda dagsetningin frestdag, en sú síðarnefnda upphaf slitameðferðar varnaraðila. Kröfulýsingarfresti lauk 19. nóvember 2010. Sóknaraðili lýsti þeirri kröfu sem hér er til meðferðar fyrir slitastjórn 11. október 2010, en slitastjórn hafnaði kröfunni með bréfi 4. febrúar 2011. Var sóknaraðila gefinn frestur til 15. febrúar þ.á. til að mótmæla þeirri afstöðu. Gerði sóknaraðili það með tölvubréfi 9. sama mánaðar. Haldnir voru fundir 22. mars 2011 og 6. febrúar 2012 þar sem þess var freistað án árangurs að jafna ágreining aðila Í kjölfarið var málið borið undir dóminn eins og fyrr er komið fram.
Í stuttu máli eru helstu ágreiningsefni aðila hvort sóknaraðili hafi lánað varnaraðila 300.000.000 krónur 18. september 2008 og ef svo er hvort telja megi að réttilega hafi verið stofnað til veðréttar í eignarhlut varnaraðila í einkahlutafélaginu OLC (India) BuyCo til tryggingar þeirri skuld.
II
Sóknaraðili kveður í greinargerð sinni að aðdragandi þess að hann hafi lánað varnaraðila 300.000.000 krónur sé að þann 18. september 2008 hafi Benedikt Árnason, starfandi forstjóri varnaraðila, og Bogi Nils Bogason, fjármálastjóri varnaraðila, komið á fund til sóknaraðila, Jóhannesar Sigurðssonar, Guðmundar Ólasonar og Arnars Guðmundssonar. Sóknaraðili hafi þá verið stjórnarformaður varnaraðila, Jóhannes og Guðmundur stjórnarmenn og Arnar varamaður í stjórn félagsins. Hafi þeir upplýst um að varnaraðili þyrfti að greiða Lánasjóði sveitarfélaga rúmar 300.000.000 krónur þann sama dag til uppgjörs á láni sem hafi verið á gjalddaga. Þar sem varnaraðili hafi verið með fjármuni fasta hjá Icebank og ljóst hafi verið að félagið þarfnaðist lánsfjár þennan sama dag hafi sóknaraðili samþykkt að lána félaginu umrædda fjárhæð. Til tryggingar endurgreiðslu hafi honum verið boðið að félagið myndi veita honum veð í 33,33% eignarhluta varnaraðila í félaginu OLC (India) BuyCo ehf. Yfirlögfræðingur varnaraðila, Davíð Þorláksson, hafi útbúið öll skjöl vegna þessa, þar með talið veðsamning, tilkynningu til stjórnar OLC og tilkynningu til sóknaraðila, auk þess sem hann hafi fært umrætt veð í hlutaskrá OLC.
Þeir menn sem að framan eru nafngreindir gáfu allir skýrslu við aðalmeðferð málsins og fellur framburður þeirra allra að framangreindri lýsingu.
Varnaraðili lýsir málsatvikum ekki sérstaklega en gerir athugasemdir við málsatvikalýsingu sóknaraðila. Telur hann að ekki sé sannað að lán hafi verið veitt til varnaraðila 18. september 2008 enda engin skjöl um lánveitingu undirrituð þann dag. Þá sé heldur ekki sannað að fjármunir hafi borist frá sóknaraðila til varnaraðila. Varnaraðili telur gögn málsins helst gefa til kynna að fjármunir hafi borist frá félaginu Dialog Holdings til að greiða upp lán varnaraðila hjá Lánasjóði sveitarfélaga en ekki verði séð að sóknarðaðili hafi lagt fram fé í þessu skyni.
Í málinu liggja fyrir 12 skjöl um lánveitingu sóknaraðila til varnaraðila. Skjölin lýsa lántöku sem framlengd er 11 sinnum. Skjölin bera öll áletrunina „staðfesting“ efst vinstra megin og undir því orði er tilvísunarnúmer, nafn starfsmanns og dagsetning. Síðastnefnd dagsetning er 7. október 2008 á fyrstu þremur skjölunum. Þá er neðst á skjölunum eftirfarandi texti: „Samkomulag Askar Capital hf. og mótaðila er gert í gegnum síma og samþykkja báðir aðilar að ganga að því á því augnabliki sem símtalið fer fram en símtalið kann að vera tekið upp. Dagurinn sem bindandi samningur kemst á er jafnframt samningsdagur. Vinsamlega hafið samband strax ef misræmi kemur í ljós. [ ] Verði ekki haft samband innan 1 sólarhrings frá því að símtalið hefur átt sér stað hefur komist á bindandi samningur milli aðila, hafi skriflegur samningur ekki verið undirritaður fyrr. Vinsamlega undirritið hér að neðan og sendið staðfestingu á fax [ ] sem fyrst.“
Gildisdagsetning fyrsta skjalsins er 18. september 2008 og gjalddagi er tilgreindur 25. september sama ár. Eru þessi 12 skjöl í samfelldri röð og lýsa því að lánsfjárhæð hækkar vegna reiknaðra vaxta í hverri framlengingu uns kemur að síðasta skjalinu þar sem lánsfjárhæð er orðin 341.218.599,44 krónur. Gildisdagsetning á þeim samningi er 2. júní 2009 en gjalddagi 15. júlí sama ár. Á gjalddaga skyldi greiða 345.803.724,37 krónur að viðbættum fjármagnstekjuskatti að fjárhæð 509.458,33 krónur eða samtals 346.313.179 krónur, en það er fjáræð höfuðstóls lýstrar kröfu sóknaraðila. Fyrstu 10 skjölin eru undirrituð fyrir hönd varnaraðila, fyrstu þrjú af Boga Nils Bogasyni og síðan eru sjö skjöl undirrituð af Benedikt Árnasyni. Í öllum tilvikum eru skjölin einnig undirrituð fyrir hönd varnaraðila af Kristínu Helgadóttur. Síðustu tvö skjölin eru ekki undirrituð af hálfu aðila. Varða þau framlengingu með gildisdagsetningu 2. maí 2009 og framlengingu með gildisdagsetningu 2. júní sama ár en með gjalddaga 15. júlí sama ár.
Í málinu liggur fyrir samningur dagsettur 18. september 2008 milli sóknaraðila og varnaraðila. Samningurinn liggur fyrir dóminum á ensku. Þar sem aðeins er vísað til efnis samningsins um afmarkaða þætti ágreinings aðila og ekki er uppi að því er virðist ágreiningur um efnislegt innihald hans að því leyti neytir dómari heimildar í 3. mgr. 10. gr. laga nr. 91/1991 til að þýða þann hluta skjalsins sem aðilar vísa til.
Samningurinn ber heitið „share pledge agreement“
Í grein 1.1. þar sem koma fram skilgreiningar (definitions) segir: „Shares“ means all shares owned by the Pledgor in OLC (India) BuyCo ehf. registered to the Pledgor and pleadged to the Pledgee. Þetta þýðir: „Hlutir“ þýðir allir hlutir í eigu veðsala í OLC (India) BuyCo ehf. sem veðsali er skráður fyrir og veðsettir eru veðhafa.
Með hliðsjón af skilgreiningunni þýðir fyrirsögn samningsins „veðsamningur um hluti“.
Í inngangi samningsins segir: „The Pledgee and the Pledgor, have on the date of this Agreement entered into a Money Market Loan Agreement pursuant to which the Pledgee is lending the Pledgor money (as amended, supplemented, extended or replaced or otherwise modified from time to time, the „Loan Agreement“).
Í íslenskri þýðingu: Veðhafi og veðsali hafa á þeim degi sem þessi samningur er gerður, gert með sér samning um peningamarkaðslán, þar sem veðhafi lánar veðsala peninga (eins og við lánasamninginn er bætt, aukið við hann, hann framlengdur eða skipt út eða aðlagaður á annan hátt í tímans rás).
Þá segir í 2. gr. samningsins: „As security for the fullfillment of all obligations under the Loan Agreement the Pledgor charges to the Pledgee by way of a first ranking possessory charge (handveð) with full title guarantee of the Shares and all Rights relating to them.“
Þýðing: Sem tryggingu fyrir efndum allra skuldbindinga samkvæmt lánasamningnum veitir veðsali veðhafa handveð með fullum yfirráðum yfir hlutunum og öllum réttindum sem þeim tengjast.
Undir samninginn rita sóknaraðili og fyrir hönd varnaraðila rita undir hann Benedikt Árnason forstjóri og Davíð Þorláksson yfirlögfræðingur.
Fyrir liggur tilkynning um veðsetningu til OLC (India) BuyCo ehf. dagsett 18. september 2008 og er hún undirrituð af Davíð Þorlákssyni yfirlögfræðingi varnaraðila. Er í yfirlýsingunni lýst helstu atriðum í veðsamningi aðila og einnig vísað til að með tilkynningunni fylgi afrit af undirrituðum samningi þar sem veðskuldbindingarnar komi fram. Þá liggur fyrir í málinu tilkynning stjórnar OLC (India) BuyCo ehf. til sóknaraðila dagsett 19. september 2008 um að athugasemd um veðsetninguna hafi verið færð í hlutaskrá félagsins. Fram kemur meðal annars í umræddri tilkynningu að OLC (India) BuyCo ehf. skuldbindi sig til að samþykkja engar viðbótarveðsetningar hluta varnaraðila á meðan lánssamningurinn hafi ekki verið efndur nema að fengnu samþykki bæði varnaraðila og sóknaraðila. Þá kemur einnig fram að félagið skuldbindi sig til að breyta hlutaskrá sinni eftir beiðni veðhafa, í tilefni vanefnda veðsala, á þann hátt að veðhafi (sóknaraðili) verði skráður eigandi hlutanna í hlutaskrá félagsins í stað veðsala (varnaraðila).
Í málinu liggja fyrir undirskriftarreglur varnaraðila dags. 22. nóvember 2007 í íslenskri og enskri útgáfu. Kemur þar fram að reglurnar séu settar af stjórn varnaraðila til þess að veita starfsmönnum bankans heimild til að skrifa undir fyrir hans hönd. Undirritanir f.h. bankans séu aðeins gildar ef þær hafi átt sér stað í samræmi við reglurnar. Í grein 1.1 segir að A heimild hafi forstjóri aðstoðarforstjóri og framkvæmdastjóri fjármálasviðs. Í íslenskri útgáfu greinar 1.2 segir að B heimild hafi framkvæmdastjórar allra sviða bankans, en í enskri útgáfu hennar kemur einnig fram að yfirlögfræðingur (General Counsel) hafi slíka heimild. Í grein 1.3 segir að C heimild hafi aðrir starfsmenn sem tilgreindir séu í undirskriftabók sem starfsmenn með A heimild gefi út sameiginlega og undirriti. Samkvæmt 2. gr. reglnanna er bankinn ávallt bundinn af undirskrift tveggja starfsmanna, annars með A heimild og hins með a.m.k. B heimild. Í 4. gr. segir að undirskrift tveggja starfsmanna, annars með a.m.k. B heimild og hins með a.m.k. C heimild þurfi til lánveitinga og lántöku á millibankamarkaði og varðandi endurhverf viðskipti.
Í málinu liggur fyrir afrit undirskriftabókar sem dagsett er 10. desember 2007 og vísar til fyrrnefndrar samþykktar 22. nóvember 2007. Eru þar taldir upp aðilar með A, B og C heimild ásamt því að sýnishorn undirritunar kemur þar fram. Er hér vert að geta að þar kemur m.a. fram að A heimild hafi Benedikt Árnason aðstoðarforstjóri og Bogi Nils Bogason framkvæmdastjóri fjármálasviðs en B heimild hafi Davíð Þorláksson yfirlögfræðingur, ásamt þremur öðrum mönnum sem ástæðulaust er að nafngreina. Þá kemur fram í skjali sem ber með sér að vera viðbót við undirskriftabók að Kristínu B. Helgadóttur skuli bætt við þann lista manna sem hafi C heimild. Dagsetning viðbótarinnar er 29. júlí 2008.
Í kröfulýsingu sóknaraðila til slitastjórnar varnaraðila krefst hann greiðslu á 346.313.179 krónum ásamt dráttarvöxtum af þeirri fjárhæð frá 15. júlí 2009 til 14. júlí 2010 sem sóknarðaðili telur nema 60.120.393 krónum. Fyrir liggur að 14. júlí 2010 var varnaraðili tekinn til slita með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur.
III
Sóknaraðili kveðst byggja kröfur sínar á því að hann hafi lánað varnaraðila 300.000.000 krónur þann 18. september 2008. Þann sama dag eða degi síðar hafi umræddir fjármunir verið notaðir af hálfu varnaraðila til að greiða skuld varnaraðila við Lánasjóð Sveitarfélaga. Megi sjá sönnun þessa á skriflegum gögnum sem liggi fyrir í málinu, sem og í framurði sóknaraðila og vitna fyrir dómi við aðalmeðferð.
Einnig telji sóknaraðili með vísan til sömu gagna að fullu sannað að til tryggingar lánveitingunni hafi sóknaraðili fengið veð í 33 1/3 hluta í einkahlutafélaginu OLC (India) BuyCo og það veð hafi verið veitt um leið og lánveitingin. Skjalagerð hafi verið í höndum yfirlögfræðings varnaraðila, Davíðs Þorlákssonar, og standi engin rök til annars en að veðið sé gilt og standi til tryggingar kröfu sóknaraðila.
Sóknaraðili kveðst einnig byggja á því að ákvörðun um móttöku umrædds láns hafi verið tekin af forstjóra og fjármálastjóra varnaraðila og hafi þeir hvor um sig og báðir saman haft umboð til að taka slíkar ákvarðanir. Hafi því verið fullar heimildir til lántökunnar til staðar. Hafi varnaraðili sönnunarbyrði um annað. Að auki benda sóknaraðili á að stjórnarmenn varnaraðila hafi verið meðvitaðir og hafi tekið þátt í töku lánsins þrátt fyrir að það hafi ekki verið tekið fyrir á formlegum stjórnarfundi.
Um leið og ákvörðun hafi verið tekin um lánveitingu og veðsetningu hafi yfirlögfræðingur varnaraðila, Davíð Þorláksson, hafist handa við skjalagerðina. Veðsamningurinn sjálfur hafi verið undirritaður af starfandi forstjóra varnaraðila og yfirlögfræðingi. Hafi forstjórinn haft svokallaða A heimild en yfirlögfræðingurinn svokallaða B heimild. Hafi þeir haft umboð frá stjórn varnaraðila til að veita slíka ábyrgð til tryggingar kröfu, sbr. starfsreglur varnaraðila sem liggi fyrir í málinu.
Ákvörðun um veðsetningu hafi verið tekin með fullri vitund og samþykki meirihluta stjórnar varnaraðila. Hafi veðsetningin því verið lögmæt. Því sé alfarið mótmælt að veðsetningin hafi verið óvenjuleg eða mikilsháttar ákvörðun að teknu tilliti til þess hvaða félag hafi átt í hlut, auk þess sem meirihluti stjórnar félagsins hafi gefið óformlegt samþykki sitt fyrir henni.
Þrátt fyrir að samningurinn beri heitið handveðssamningur þá sé nær ómögulegt að taka handveð í hlutum í einkahlutafélagi. Skráning í hlutaskrá einkahlutafélags sé lögformleg sönnun um veðsetningu og eignarhald en ekki hlutabréf eða rafbréf eins og í hlutafélögum. Veðsetning á hlutum í einkahlutafélagi komist því á við tilkynningu til stjórnar líkt og hafi verið gert í tilviki umræddrar lánveitingar og veðsetningar.
Það athugist og að varnaraðili hafi ekki rift veðrétti sóknaraðila og verði því að ætla að varnaraðili telji skilyrði 137. gr. laga nr. 21/1991 ekki fyrir hendi. Þar sem ráðstöfun, er falist hafi í veitingu veðréttar til handa sóknaraðila, hafi ekki verið rift sé veð sóknaraðila án nokkurs vafa til staðar.
Varnaraðili hafi ýjað að því, án nokkurra gagna því til stuðnings, að veðskjöl og tilkynningar hafi ekki verið undirritaðar fyrr en 7. október 2008, þann dag er þrjár kvittanir vegna peningamarkaðslánsins hafi verið prentaðar út. Því sé harðlega mótmælt. Á þeim tíma sem lánið hafi verið veitt hafi fjármálastjóri varnaraðila verið að flytja sig um set í starfi, en hann hafi tekið við stöðu fjármálastjóra Icelandair í septembermánuði 2008. Meðal annars vegna þess rasks er slíkt hafi haft í för með sér hafi kvittun vegna peningamarkaðslánsins og tveggja framlenginga ekki verið prentuð út fyrr en þann 7. október 2008. Veðsamningur og tilkynningar hafi þó verið undirritaðar í framhaldi lánveitingar og veitingu veðábyrgðar. Það hafi að auki verið alvanalegt þegar um peningamarkaðslán hafi verið að ræða að ekki væri gefin út kvittun fyrir lántöku þá þegar viðskiptin áttu sér stað.
Sóknaraðili mótmæli því að breytingar hafi verið gerðar á dagsetningum og telji að sönnunarbyrði fyrir slíku verði að leggja á varnaraðila.
Til stuðnings varakröfu sinni vísar sóknaraðili til alls framangreinds og telur hafið yfir allan vafa að hann hafi lánað varnaraðila 300.000.000 króna þann 18. september 2008 en ekkert sé komið fram í málinu sem sýni fram á annað. Sönnunarbyrði um slíkt sé að minnsta kosti á varnaraðila.
Varðandi kröfu um álag á málskostnað sem sóknaraðili hafði fyrst uppi við aðalmeðferð málsins vísar sóknaraðili einkum til þess að með hliðsjón af gögnum málsins sem og framburði aðila og vitna fyrir dómi megi sjá að málarekstur þessi sé þarflaus og án tilefnis af hálfu sóknaraðila og einnig að í málinu hafi varnaraðili uppi kröfur, staðhæfingar og mótbárur sem hann viti eða megi vita að séu rangar eða haldlausar.
Um lagarök kveðst sóknaraðili einkum vísa til ákvæða laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., laga nr. 138/1994 um einkahlutfélög og laga nr. 75/1997 um samningsveð. Varðandi málskostnað sé vísað til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt á málskostnað. Þá vísar sóknaraðili og til a. og c. liða 1. mgr., sbr. 2. og 3. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991 varðandi kröfu sína um að sóknaraðila verði gert að greiða álag á málskostnað.
IV
Varnaraðili krefst þess að hafnað verði kröfum sóknaraðila um viðurkenningu á kröfu að fjárhæð kr. 406.433.572.- við slit varnaraðila. Mótmælir hann því að krafan geti haft stöðu veðkröfu og einnig að krafan geti talist almenn krafa við slitin.
Varnaraðili kveðst leggja áherslu á að í veðsamningi aðila (,Share Pledge Agreement) sem dagsettur sé 18. september 2008 segi að aðilar hafi þann dag gengið frá peningamarkaðsláni og að veðinu sé ætlað að tryggja endurgreiðslu þess láns. Varnaraðili telji að hafna beri kröfum sóknaraðila þegar af þeirri ástæðu að ekki liggi fyrir gögn um lán frá sóknaraðila til varnaraðila þann dag er veðsamningurinn (Share Pledge Agreement) hafi verið undirritaður. Ósannað sé að sóknaraðili hafi veitt varnaraðila lán þann dag og beri því að hafna kröfum hans í málinu. Beri að minnsta kosti að hafna veðkröfu sóknaraðila þar sem veðinu hafi aðeins verið ætlað að tryggja lán er veitt hafi verið sóknaraðila þann sama dag en ekki lán sem mögulega hafi verið veitt síðar. Sóknaraðili hafi lagt fram gögn sem beri með sér að fjármunir hafi komið frá Dialog Holdings en gögn beri ekki með sér lánveitingu sóknaraðila sjálfs.
Þá telur varnaraðili að ákvörðun um veðsetningu hluta í OLC (India) BuyCo ehf. fyrir 300.000.000 krónur vera óvenjulega og mikils háttar ráðstöfun í skilningi 2. mgr. 68. gr. laga um hlutafélög nr. 2/1995 og því hafi stjórn félagsins ein haft heimild til að taka ákvörðunina. Talið hafi verið að kaup, sala og veðsetning fasteigna félags falli almennt undir það að teljast mikilsháttar ráðstafanir og kveðst varnaraðili byggja á að hið sama eigi við um veðsetningu hlutafjár í félagi sem hafi það hlutverk að eiga og reka fasteignir, ekki síst þegar um veðsetningu upp á 300.000.000 krónur sé að ræða. Sé því ljóst að veðsetningin sé mikils háttar og/eða óvenjuleg ráðstöfun í skilningi 2. mgr. 68. gr. laga nr. 2/1995. Þá sé í þessu sambandi vísað til stærðar ráðstöfunarinnar í hlutfalli við fjárhag félagsins Askar Capital hf. Skv. ársreikningi fyrir árið 2008 hafi eigið fé félagsins verið neikvætt um 1.977.516.000 krónur. Sé því ljóst að veðsetning og lántaka upp á 300.000.000 krónur hafi verið um 15% af þeirri fjárhæð, en lántaka og veðsetning eigna af slíkri stærðargráðu hljóti að teljast mikils háttar í skilningi 2. mgr. 68. gr. laga nr. 2/1995.
Ekki liggi fyrir að stjórn félagsins hafi veitt heimild til veðsetningarinnar og beri því að hafna aðalkröfu sóknaraðila um að krafan verði viðurkennd sem veðkrafa samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991. Óumdeilt sé að stjórn félagsins hafi ekki fjallað um fyrrgreinda veðsetningu hlutafjár. Í greinargerð sóknaraðila sé aðeins vísað til þess að stjórnarmenn varnaraðila hafi verið meðvitaðir um lántöku og veðsetningu enda þótt ekki hafi verið fjallað um það á formlegum stjórnarfundi. Varnaraðili mótmæli þessu sem röngu. Þá telji varnaraðili engu breyta þótt stjórnarmenn hafi verið meðvitaðir um lántöku og veðsetningu þar sem 68. gr. laga 2/1995 geri kröfu um sérstaka heimild frá félagsstjórn til ráðstafana sem séu óvenjulegar eða mikils háttar. Óumdeilt sé að slík heimild hafi ekki legið fyrir. Í þessu sambandi vísi varnaraðili til dóms Hæstaréttar í máli nr. 708/2010, en varnaraðili telji þann dóm vera skýrt fordæmi um úrlausn þessa máls. Varnaraðili telji m.a. með vísan til dómsins að sérstakt formlegt samþykki félagsstjórnar verði að liggja fyrir en óumdeilt sé, eins og áður segi, að svo hafi ekki verið í því máli sem hér sé til úrlausnar. Af þeim sökum beri m.a. að hafna aðalkröfu sóknaraðila.
Þá byggir varnaraðili á því að réttaráhrif þess að 2. mgr. 68. gr. laga nr. 2/19915 sé ekki fylgt séu þau að gerningurinn sé ógildur og að félagið verði óskuldbundið af samningi sem gerður sé með slíkum hætti, sbr. t.d. Hrd. nr. 678/2008 og nr. 708/2010.
Jafnframt byggi varnaraðili á því að veðsetningin sé ógild þar sem að hið ætlaða peningamarkaðslán sem hún hafi átt að tryggja hafi ekki verið veitt þegar veðsamningurinn var undirritaður þann 18. september 2008. Veðsetningin taki a.m.k. ekki til annarra lána en þeirra sem veitt hafi verið þann dag. Enginn samningur hafi verið undirritaður milli aðila um ætlaða lántöku. Þá liggi ekki fyrir að peningarnir hafi verið millifærðir á reikning varnaraðila, hvorki fyrir né eftir að veðsamningurinn hafi verið undirritaður. Fyrir liggi fylgiskjal dags. 7. október 2008 um skilmála peningamarkaðslántöku að fjárhæð 300.000.000 krónur. Samkvæmt því fylgiskjali skyldi lán sóknaraðila greiðast inn á reikning varnaraðila nr. 0515-26-001886. Sú fjárhæð hafi hins vegar ekki verið lögð inn á þann reikning varnaraðila þann 18. september 2008 og ekki síðar og hafi því ekkert lán verið veitt varnaraðila í samræmi við fyrrgreinda skilmála peningamarkaðslántöku og síðari skilmála. Fyrrgreint fylgiskjal sanni ekki kröfu sóknaraðila og beri að gera ríkar kröfur til sóknaraðila, sem aðaleiganda varnaraðila á þessum tíma, um skýrleika í ætluðum viðskiptum. Engin skjöl hafi verið undirrituð þann 18. september 2008 um ætlaða lántöku og ekki heldur fylgiskjal um skilmála peningamarkaðslántöku. Gögn um ætlaða lántöku sóknaraðila hjá Glitni banka hf. þann 19. september 2008 hafi enga þýðingu í máli þessu og varða aðeins viðskipti sóknaraðila og Glitnis banka hf. Sóknaraðili hafi ekki lánað varnaraðila þá fjárhæð sem skilmálar peningamarkaðslántöku beri með sér og ekki þann dag sem þeir skilmálar séu dagsettir.
Þá leggi varnaraðili áherslu á að hvergi í veðsamningnum sé getið um þá fjárhæð sem veðinu sé ætlað að tryggja en það sé í ósamræmi við 1. mgr. 4. gr. laga um samningsveð nr. 75/1997. Umrædd lagaregla (tilgreiningarreglan) gildi um samningsveð en ekki um handveð. Í veðsamningi aðila segi að um handveð sé að ræða en í greinargerð sóknaraðila virðist vera byggt á því að svo sé ekki en þar segir: „Þrátt fyrir að samningurinn beri heitið handveðssamningur þá er nær ómögulegt að taka handveð í hlutum í einkahlutafélagi.“ Varnaraðili krefjist þess að aðalkröfu sóknaraðila verði hafnað þegar af þeirri ástæðu að sóknaraðili hafi ekki tekið vörslur hlutanna, en umráðasvipting hins veðsetta sé skilyrði réttarverndar þegar handveð sé annars vegar. Ekki sé um löglega veðsetningu að ræða. Ef ekki verði fallist á þetta, og niðurstaðan verði sú að um sjálfsvörsluveð sé að ræða, þá sé ljóst skv. framansögðu að tilgreiningarregla 1. mgr. 4. gr. laga nr. 75/1997 sé ekki uppfyllt, sem leiði til þess að enginn gildur veðréttur sé til staðar. Þá kröfu beri að gera til sóknaraðila, sem hafi verið aðaleigandi varnaraðila á þessum tíma, að formreglur sem efnisreglur væru virtar til hins ýtrasta og beri að hafna kröfum sóknaraðila þar sem svo hafi ekki verið gert.
Varakröfu sóknaraðila um að krafa hans verði viðurkennd sem almenn krafa skv. 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. sé jafnframt hafnað. Styðjist sú krafa varnaraðila við sömu röksemdir og fram komi hér á undan. Í fyrsta lagi sé á því byggt að umrædd lántaka teljist óvenjuleg og mikilsháttar ráðstöfun í skilning 2. mgr. 68. gr. laga nr. 2/1995 og því hafi stjórn félagsins ein haft heimild til að taka ákvörðunina. Auk þessa sé byggt á því að sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á að hann eigi kröfu á hendur félaginu. Samkvæmt þeim gögnum sem sóknaraðili hafi lagt fram megi helst ætla að Dialog Holding hafi lagt fram fjármuni í því skyni að greiða upp lán varnaraðila hjá Lánasjóði sveitarfélaga. Sóknaraðili hafi hins vegar ekki sýnt fram á að hann hafi sjálfur persónulega eignast kröfu á hendur varnaraðila og ekkert kröfuframsal liggi fyrir í málinu frá Dialog Holding til sóknaraðila. Byggi varnaraðili í þessu sambandi á 2. mgr. 16. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 en skv. ákvæðinu leiði aðildarskortur til sýknu. Beri samkvæmt þessu að hafna kröfu sóknaraðila á hendur varnaraðila. Þá telji varnaraðili, hvað sem öðru líði að aðal- og varakrafa sóknaraðila séu vanreifaðar og að hafna beri þeim af þeim sökum.
Varnaraðili leggi áherslu á að varnaraðili hafi verið fjármálafyrirtæki samkvæmt lögum nr. 161/2002 og hafi sóknaraðili verið aðaleigandi varnaraðila. Á því sé byggt að ríkar kröfur verði að gera til fjármálafyrirtækja og eigenda þeirra um skýrleika gerninga og sönnun um efni þeirra. Í málinu liggi ekki fyrir gögn er sanni ætlaða lánveitingu sóknaraðila til varnaraðila og beri sóknaraðili halla af skorti á sönnum um efni ætlaðra gerninga, enda hafi það staðið sóknaraðila næst að sjá svo til að samningar væru skýrir og í samræmi við lög og reglur. Af þeim sökum beri að hafna aðal- og varakröfu sóknaraðila, enda ósannað að þær kröfur eigi við rök að styðjast. Þá hafi reglur laga um fjármálafyrirtæki og laga um hlutafélög ekki virtar í ætlaðri lánveitingu og beri að hafna kröfum sóknaraðila af þeim sökum. Þá hafi innanhússreglur varnaraðila jafnframt verið virtar af vettugi og beri af þeim sökum einnig að hafna kröfunum.
Varnaraðili kveðst mótmæla fjárhæð krafna sóknaraðila og m.a. kröfum um dráttarvexti. Þær kröfur séu m.a. vanreifaðar. Einnig skorti lagastoð fyrir kröfu um dráttarvexti.
Þá kveðst varnaraðili sérstaklega mótmæla því að skilyrði séu til að úrskurða hann til að greiða álag á málskostnað eins og sóknaraðili geri kröfu um.
Varnaraðili kveðst vísa til laga nr. 2/1995 um hlutafélög, einkum 2. mgr. 68. gr. Þá vísar varnaraðili til reglna veðréttar, samningaréttar og kröfuréttar. Varnaraðili kveðst og vísa til laga nr. 21/1991 um gjaldrotaskipti o.fl. og laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Þá vísi varnaraðili til laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, einkum 2. mgr. 16. gr. Krafa um málskostnað styðjist við ákvæði XXI. kafla laga nr. 91/1991, sbr. lög nr. 21/1991.
V
Við aðalmeðferð máls þess gáfu skýrslu, Benedikt Árnason, aðstoðarforstjóri varnaraðila (sem var á þeim tíma sem hér skiptir máli starfandi forstjóri) og Bogi Nils Bogason þáverandi framkvæmdastjóri fjármálasviðs varnaraðila. Einnig gáfu skýrslu þáverandi stjórnarmenn varnaraðila Guðmundur Ólason og Jóhannes Sigurðsson, en einnig Arnar Guðmundsson sem þá var varamaður í stjórn varnaraðila. Sóknaraðili gaf einnig skýrslu en hann var á umræddum tíma stjórnarformaður varnaraðila. Allir framangreindir menn lýstu því með sama hætti fyrir dóminum að síðdegis fimmtudaginn 18. september 2008 hafi þeir komið saman á fund þar sem rætt hafi verið að varnaraðili hefði ekki handbært fé til að greiða kröfu Lánasjóðs sveitarfélaga að fjárhæð um 300.000.000 krónur sem féll í gjalddaga þann dag. Þá ber þeim og saman um að sóknaraðili hafi boðist til að lána varnaraðila umrædda fjárhæð gegn veði í eignarhlut varnaraðila í OLC (India) BuyCo ehf. Lýstu framangreindir menn því allir við skýrslugjöf sína að þeir hafi verið þessari ráðagerð sammála. Fyrir liggur og er óumdeilt að umrædd krafa var greidd og hvílir því ekki lengur á varnaraðila. Þá liggja og fyrir dóminum skrifleg gögn sem sýna að sóknaraðili tók umræddan dag lán hjá Glitni banka hf. að fjárhæð 300.000.000 krónur og kemur fram í tölvuskeyti starfsmanns þess banka til yfirmanns síns að hann hafi lánað sóknaraðila umrædda fjárhæð í því skyni að greiða kröfu við Lánasjóð sveitarfélaga fyrir hönd varnaraðila.
Með framburði framangreindra manna sem fær fulla stoð í fyrirliggjandi gögnum er sannað að sóknaraðili lánaði varnaraðila 300.000.000 krónur 18. september 2008. Þá er og sannað með framburði sömu manna að á sama tíma hafi varnaraðili gengist undir að setja sóknaraðila að veði umræddan eignarhlut sinn í OLC (India) BuyCo ehf. eins og veðsamningur dagsettur 18. september 2008 ber með sér. Að þessari ákvörðun komu auk sóknaraðila, tveir aðalstjórnarmenn í varnaraðila og einn varastjórnarmaður. Þá komu einnig að ákvörðuninni tveir af æðstu stjórnendum varnaraðila, báðir með svokallaða A undirritunarheimild. Veðsamningur var útbúinn af Davíð Þorlákssyni yfirlögfræðingi varnaraðila og undirritaður af honum ásamt Benedikt Árnasyni. Ber skýrslum þessara tveggja manna saman um það að Davíð hafi haft B undirritunarheimild og Bogi Nils Bogason staðfesti þetta einnig í skýrslu sinni. Er það mat dómsins að þegar litið er til skýrslna þessara aðila, sem og þess að undirskriftabók varnaraðila ber það sama með sér, að leggja verði til grundvallar að Davíð hafi haft B heimild í samræmi við enskan texta lánareglna þó starfsheitis hans hafi ekki verið getið í íslenskri útgáfu reglnanna. Staðfestingar vegna lántökunnar og ítrekaðra framlenginga hennar eru undirritaðar fyrir hönd varnaraðila af tveimur aðilum, öðrum með A heimild og hinum með C heimild. Verður að hafna röksemdum varnaraðila sem lúta að því að umrædd skjöl bendi til þess að samningur um lántöku hafi ekki átt sér stað 18. september 2008. Fær fullyrðing varnaraðila um þetta ekki stoð í efni skjalanna en það er rakið hér fyrr. Ekki verður að gættu því sem að framan segir talið skipta hér máli þó síðustu tvær staðfestingarnar vegna framlengingar lánsins séu óundirritaðar.
Það er mat dómsins að leggja verði sönnunarbyrði á varnaraðila fyrir því að í framangreindri lántöku og veðsetningu felist mikilsháttar og óvenjuleg rástöfun í skilningi 2. mgr. 68. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög eins og hann heldur fram. Hefur varnaraðili í þessu sambandi vísað til þess að hið veðsetta félag hafi þann tilgang að eiga fasteignaviðskipti og því verði að jafna veðsetningu þess til veðsetninga fasteignar sem venjulega sé talin mikilsháttar ráðstöfun sem ekki sé unnt að framkvæma án atbeina stjórnar félags. Í málinu liggur ekkert fyrir um starfsemi umrædds félags þannig að þegar af þeirri ástæðu er ekki unnt að fallast á röksemdir varnaraðila sem eru á þessu byggðar.
Í annan stað vísar varnaraðili til þess að ráðstafanir þessar, bæði lántakan og veðsetningin, hafi numið um 15% af þeirri fjárhæð sem eigið fé félagsins hafi verið neikvætt um á umræddum tíma. Fyrir þessari málsástæðu skortir að mati dómsins fullnægjandi rök enda var varnaraðili fjármálafyrirtæki og telja verður að þó lausafjárskortur hafi verið fyrir hendi á umræddum tíma að þá beri þau gögn sem fyrir liggja um fjárhagsstöðu félagsins ekki með sér að það hafi verið ógjaldfært eða að umrædd fjárhæð geti talist veruleg miðað við eignastöðu þess. Verður hér að hafa í huga að ekki dugir hér að vísa til þess að fjárhagur félagsins hafi síðar versnað. Þá verður og að hafa í huga að stjórnendur félagsins báru í skýrslum sínum fyrir dómi að þeir hafi ekki talið að umræddar ákvarðanir væru af því umfangi að þær féllu utan þeirra heimilda sem þeir hefðu til að taka ákvarðanir fyrir hönd varnaraðila. Hefur varnaraðili því ekki að mati dómsins fært fram fullnægjandi röksemdir eða gögn sem sýni fram á að umrædd ráðstöfun geti talist mikilsháttar eða óvenjuleg. Þegar af þeim ástæðum sem hér hafa verið raktar er því hafnað að til framangreindra löggerninga, hafi verið stofnað með einhverjum þeim hætti að varnaraðili geti talist óbundinn af þeim, þar sem þær hafi ekki verið bornar formlega undir stjórnarfund.
Óumdeilt er með aðilum að veðsamningurinn er samkvæmt efni sínu um handveðsetningu, en ljóst er að ekki er unnt að taka vörslur hluta í einkahlutafélagi. Var veðsetningin á hinn bóginn skráð í hlutaskrá umrædds félags, sem einnig gaf út yfirlýsingu um að það myndi virða veðsamninginn. Ekki verður talið að 1. mgr. 4. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð geti komið hér til skoðunar þar sem fyrir liggur að fyrrnefndum veðsamningi var ekki ætlað að öðlast réttarvernd við þinglýsingu, en ákvæðið fjallar samkvæmt efni sínu aðeins um slíka veðsamninga. Verður það því ekki talið varða nokkru fyrir úrlausn málsins þó þeirrar fjárhæðar sem veðinu hafi verið ætlað að tryggja hafi ekki verið getið í samningnum. Með hliðsjón af framangreindu er einnig fallist á það með sóknaraðila, að þrátt fyrir að vera kunni að skráning veðréttar sóknaraðila í hlutaskrá félagsins hafi hugsanlega ekki falið í sér fullkomna réttarvernd gagnvart þriðja manni, að samningurinn verði allt að einu að teljast skuldbindandi milli aðila hans. Er því ekki unnt að fallast á með varnaraðila að á samningi aðila um veðrétt til handa sóknaraðila séu þeir annmarkar að hann geti talist óskuldbindandi fyrir hann. Eru ekki efni til að telja að hér geti skipt máli sjónarmið, sem varnaraðili tefldi fram við munnlegan málflutning um að verðmæti hins veðsetta hafi verið langt umfram lánsfjárhæðina, enda stendur verðmæti veðsins til fullnustu kröfunni en það sem eftir stendur rennur til eiganda veðsins.
Fyrir liggur að sóknaraðili var stór hluthafi í Milestone sem aftur var aðaleigandi varnaraðila. Sóknaraðili var einnig stjórnarformaður í varnaraðila þegar umrædd lánveiting og veðsetning átti sér stað. Varnaraðili hefur vísað til þess að þessi tengsl leiði til þess að gera verði strangari kröfur en ella gagnvart löggerningum sem sóknaraðili geri við félagið og telur varnaraðili bresta á að svo hafi verið gert í umræddu tilviki. Á þessi sjónarmið er ekki unnt að fallast enda hefur varnaraðili ekki teflt fram fullnægjandi rökum sem stutt geti það að umrædd lánveiting og veðsetning hafi verið ívilnandi fyrir sóknaraðila með þeim hætti að reynt gæti á vanhæfisreglur. Virðist þvert á móti liggja fyrir að sóknaraðili hafi umfram skyldu látið af hendi verulega fjármuni til reksturs varnaraðila þegar ytri aðstæður voru þannig að erfitt var að fá lánsfé. Kom þetta skýrlega fram í framburði vitna, m.a. Benedikts Árnasonar sem þá starfaði sem forstjóri varnaraðila. Hefur varnaraðili ekki sýnt fram á það hvernig þessi aðgerð var sóknaraðila til hagsbóta á þann hátt að hafna verði kröfu hans af þeim ástæðum. Verður því ekki fallist á með varnaraðila að sjónarmið um vanhæfi geti haft áhrif á niðurstöðu máls þessa.
Þegar af þeim ástæðum sem raktar eru hér að framan er fallist á með sóknaraðila að hann eigi kröfu í slitabú varnaraðila að þeirri fjárhæð sem hann krefst og að krafan skuli njóta rétthæðar samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991. Hefur sóknaraðili að mati dómsins fært fram fullnægjandi rök fyrir kröfufjárhæð sinni, enda mótmæli varnaraðila við henni með öllu órökstudd.
Með hliðsjón af þessum málsúrslitum verður varnaraðili úrskurðaður til að greiða sóknaraðila málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn sú fjárhæð sem nánar greinir í úrskurðarorði og hefur þar verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Þó fallast megi á með sóknaraðila að röksemdir þær sem varnaraðili teflir fram í málinu eigi sér takmarkaða stoð í gögnum málsins og séu um margt í andstöðu við það sem skýrlega kom fram í skýrslum vitna þykja ekki alveg nægileg efni til að úrskurða varnaraðila til að greiða álag á málskostnað á grundvelli a. og c. liðar 1. mgr., sbr. 2. og 3. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991.
Halldór Björnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan að gættu ákvæði 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála en uppkvaðning úrskurðar hefur dregist lítillega vegna embættisanna dómar.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Krafa sóknaraðila, Karls Emils Wernerssonar, að fjárhæð 406.433.572 krónur, sem lýst var við slitameðferð varnaraðila, Aska Capital hf., og hefur númerið 36 í kröfuskrá, er viðurkennd sem veðkrafa samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., við slitameðferðina.
Varnaraðili greiði sóknaraðila 1.004.000 krónur í málskostnað.