Hæstiréttur íslands
Mál nr. 77/2000
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Mánudaginn 28. febrúar 2000. |
|
Nr. 77/2000. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík(Egill Stephensen saksóknari) gegn Guðmundi Inga Þóroddssyni (Hallvarður Einvarðsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að G skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur, en G var grunaður um brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Gunnlaugur Claessen og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. febrúar 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. febrúar 2000, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 31. mars nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.
Fallist verður á með sóknaraðila að sterkur grunur sé fyrir hendi um að varnaraðili hafi gerst sekur um brot gegn 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 64/1974, sem varðað getur allt að tíu ára fangelsi. Brotið, sem honum er gefið að sök, er þess eðlis að telja megi gæsluvarðhald nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Samkvæmt þessu er fullnægt skilyrðum 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 til gæsluvarðhalds yfir varnaraðila. Gæsluvarðhaldinu er markaður hæfilegur tími með hinum kærða úrskurði, sem verður því staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. febrúar 2000.
Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að Guðmundi Inga Þóroddssyni, kt. 290574-4639, Völvufelli 17, Reykjavík, verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi frá lokum gæsluvarðhalds þess er rennur út kl. 16:00 í dag uns dómur gengur í máli hans, þó eigi lengur en til föstudagsins 31. mars nk. kl. 16:00 vegna gruns um að hafa framið brot gegn 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Kærði hefur mótmælt kröfunni og krefst þess að henni verði hafnað.
Í greinargerð lögreglustjórans í Reykjavík kemur fram að Ávana- og fíkniefnadeild lögreglunnar í Reykjavík hafi um nokkurt skeið unnið að rannsókn á innflutningi og dreifingu á e-töflum. Málið snúist að innflutningi og dreifingu á þúsundi e-taflna. Hafi nokkrir aðilar verið undir vegna þessa og verið hnepptir í gæsluvarðhald.
[...]
Brot þau sem ætlað er að kærði hafi framið samkvæmt því sem að framan greinir geta varðað 10 ára fangelsi skv. 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá verður að telja ríka almannahagsmuni fyrir því að komið verði í veg fyrir dreifingu verulegs magns hættulegra fíkniefna. Með vísan til þess verður að telja að hér sé um brot að ræða þess eðlis að varðhald teljist nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Samkvæmt þessu þykja skilyrði 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 vera fyrir því að kærða verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi eins og krafist hefur verið. Þá liggur einnig fyrir að rannsókn málsins er nú á lokastigi og er gert ráð fyrir að tekin verði ákvörðun á næstu vikum um málshöfðun gegn kærða og öðrum sem rannsókn máls þessa hefur beinst að. Samkvæmt þessu verður fallist á kröfuna eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Kærði, Guðmundur Ingi Þóroddsson, sæti áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans, þó eigi lengur en til föstudagsins 31. mars nk. kl. 16:00.