Hæstiréttur íslands

Mál nr. 463/2002


Lykilorð

  • Vinnuslys
  • Skaðabætur
  • Örorka
  • Álag á miskabætur
  • Eigin sök
  • Sératkvæði


Fimmtudaginn 22

 

Fimmtudaginn 22. maí 2003.

Nr. 463/2002.

Orkuveita Reykjavíkur

(Jakob R. Möller hrl.)

gegn

Guðmundi Felix Grétarssyni

(Gísli Baldur Garðarsson hrl.)

og gagnsök

 

Vinnuslys. Skaðabætur. Örorka. Álag á miskabætur. Eigin sök. Sératkvæði.

G slasaðist alvarlega við vinnu sína hjá O er hann fór upp í staur með háspennulínu, sem straumur var á. Deilt var annars vegar um það hvort G ætti sjálfur að bera hluta tjónsins vegna eigin sakar og hins vegar hvort uppfyllt væru skilyrði þágildandi 1. mgr. 4. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 til að ákveða hærri bætur en þær, sem fólust í hinum metna varanlega miska. Fyrir Hæstarétti byggði O á því að sér bæri ekki að bæta tjónið að stærri hluta en 2/3. Fallist var á það með héraðsdómi að ekki væri útilokað að veður- og birtuskilyrði umræddan dag hefði átt sinn þátt í að slysið varð. Þá lá fyrir að ekki hafði verið fylgt ströngum öryggisreglum, sem áttu að fela í sér margþætta vörn gegn því að starfsmenn yrðu fyrir slysum, þegar slysið varð. Þótti óhætt að slá því föstu að slysið hefði ekki orðið hefði þeim verið fylgt. Þá yrði í ljósi stöðu og starfsemi O að gera ríkar kröfur til þess varðandi öryggisráðstafanir. Með vísan til þessa var sök O metin svo yfirgnæfandi í samanburði við það aðgæsluleysi, sem G kynni að hafa sýnt, að ekki þótti ástæða til að leggja hluta sakar á hann. Var því staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að O skyldi bæta tjón G að fullu. Þegar litið væri til miska G, einkum þess, hve háður hann væri aðstoð annarra við helstu athafnir daglegs lífs, var fallist á að hinn metni 90% miski næði ekki að bæta miska hans að fullu. Þótti réttlætanlegt að hækka bætur til hans vegna þessa um 35%.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason, Haraldur Henrysson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Pétur Kr. Hafstein.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 10. október 2002 og krefst sýknu af öllum kröfum gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði 18. desember 2002 og krefst þess að aðaláfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 17.265.441 krónu með 2% ársvöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 12. janúar 1998 til 8. júlí 2000, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí 2001 en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að teknu tilliti til innborgana réttargæslustefnda í héraði, Sjóvá-Almennra trygginga hf., til sín að fjárhæð 7.715.863 krónur 9. október 2002 og 686.546 krónur 11. sama mánaðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði að teknu tilliti til innborgunar að fjárhæð 523.075 krónur og fyrir Hæstarétti.

Í héraðsdómi er greint frá málsatvikum. Ekki er tölulegur ágreiningur með aðilum, hvorki um metna örorku og miska gagnáfrýjanda vegna slyss þess, sem hann varð fyrir 12. janúar 1998 í starfi hjá aðaláfrýjanda, né um útreikning bótafjárhæða. Ágreiningsefni eru annars vegar, hvort gagnáfrýjandi eigi sjálfur að bera hluta tjóns síns vegna eigin sakar, en fyrir Hæstarétti byggir aðaláfrýjandi á því að sér beri ekki að bæta tjónið að stærri hluta en 2/3. Eftir uppsögu héraðsdóms hefur hann greitt gagnáfrýjanda miðað við þessa sakarskiptingu til viðbótar fyrri greiðslum, sem miðuðust við sakarskiptingu að hálfu. Hins vegar deila aðilar um það, hvort uppfyllt séu skilyrði þágildandi 1. mgr. 4. gr. skaðabótalaga til að ákveða hærri bætur en þær, sem felast í hinum metna varanlega miska.

Fyrir liggur og er viðurkennt af hálfu aðaláfrýjanda að af hans hálfu var ekki fylgt reglum, sem fara bar eftir við verk það, sem unnið var að þegar slysið varð. Er hér um að ræða ákvæði í orðsendingu Rafmagnseftirlits ríkisins nr. 1/84 um rekstur, eftirlit og viðhald raforkuvirkja, sem gefnar voru út til nánari skilgreiningar á ákvæðum reglugerðar nr. 264/1971 um raforkuvirki. Eru þessi ákvæði rakin í héraðsdómi en þau fjalla meðal annars um skyldu til að tilnefna öryggisvörð þegar unnið er í eða nálægt háspennuvirki og til að setja upp tálma til viðvörunar gegn spennuhafa virkjahlutum nálægt vinnustað. Umrætt sinn var unnið að viðgerð á Grafarholtslínu, sem ekki var spennuhafa, en línan lá að hluta nálægt Úlfarsfellslínu, sem spenna var á, en það var einmitt staur á þeirri línu, sem gagnáfrýjandi klifraði upp í er hann slasaðist. Telja verður nægilega í ljós leitt að öllum starfsmönnum aðaláfrýjanda hafi verið ljóst að Úlfarsfellslína var með spennu. Hins vegar kemur greinilega fram í gögnum málsins og framburði vitna að hætta var á því að menn gætu ruglast á þessum tveimur línum, einkum þar sem þær mættust norðan Úlfarsár eða Korpu, og lágu síðan samhliða. Er það og mat héraðsdóms, sem skipaður var tveimur sérfróðum meðdómendum.

Í héraðsdómi er gerð grein fyrir framburði vitna fyrir lögreglu og dómi. Enda þótt  af honum megi vera ljóst, að varað hafi verið við hættu af Úlfarsfellslínu, verður engu að síður að fallast á það mat héraðsdóms að aðaláfrýjandi hafi ekki sýnt fram á að verkstjórn og fyrirmæli til starfsmanna hafi verið nægilega nákvæm og markviss. Sá, sem hafði verkstjórn með hendi, var ekki á staðnum. Í ákvæði 10.3 í fyrrgreindri orðsendingu nr. 1/1984 er kveðið á um skyldu verkstjóra til að gefa nákvæmar upplýsingar og fyrirmæli til allra, sem að verki vinna, meðal annars um það, hvað gera skuli, um mörk vinnusvæðis og öryggisráðstafanir, sem gerðar séu. Þar segir og að enginn megi hefja vinnu nálægt spennuhafa háspennuvirki fyrr en verkstjóri hafi tilkynnt að nauðsynlegar öryggisráðstafanir hafi verið gerðar. Fram hefur komið af hálfu verkstjóra umrædds verks, að ætlunin hafi verið að fara eftir Grafarholtslínu allt að aðveitustöðinni Korpu, sem er vestan Vesturlandsvegar, en hins vegar hafi í fyrsta áfanga ekki átt að fara lengra en að ánni og síðan að safnast saman á ný handan Vesturlandsvegar. Þegar litið er í heild til þess, sem fram hefur komið, verður ekki talið að sýnt hafi verið fram á að fyrirmæli um þetta hafi verið glögg og greinileg.

Fallist er á það með héraðsdómi að ekki sé útilokað að veður- og birtuskilyrði umræddan dag hafi átt sinn þátt í að slysið varð. Eins og áður er að vikið gilda strangar öryggisreglur um framkvæmd verka eins og þess, sem hér um ræðir, og eiga þær að fela í sér margþætta vörn gegn því að starfsmenn verði fyrir slysum. Er þeim ekki síst ætlað að tryggja öryggi starfsmanna í störfum við erfiðar aðstæður og þar sem hætta kann að vera á að ruglað sé saman háspennulínum, eins og háttaði til á umræddum slysstað. Af hálfu aðaláfrýjanda voru þessar reglur gróflega brotnar og þykir óhætt að slá því föstu að slysið hefði ekki orðið hefði þeim verið fylgt, eins og felst í niðurstöðu héraðsdóms. Aðaláfrýjandi er opinbert fyrirtæki, sem eðli máls samkvæmt þarf oft að senda starfsmenn sína til verka við erfiðar og hættulegar aðstæður og ríkar kröfur verður að gera til, að því er öryggisráðstafanir varðar. Að þessu athuguðu verður að meta sök aðaláfrýjanda svo yfirgnæfandi í samanburði við það aðgæsluleysi, sem gagnáfrýjandi kann að hafa sýnt, að ekki þykir ástæða til að leggja hluta sakar á hann. Verður því staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að aðaláfrýjandi skuli bæta tjón gagnáfrýjanda að fullu.

Varanlegur miski gagnáfrýjanda er metinn 90%. Í héraðsdómi er greint frá matsgerð, sem lá til grundvallar því mati. Þar segir meðal annars að gagnáfrýjandi þurfi nær alla aðstoð við athafnir daglegs lífs, til dæmis til að klæðast, matast og við salernisferðir. Hann hafi ágæta göngugetu, en sé oft slæmur í baki og brjóstkassa. Við slysið hafi orðið albruni á báðum handleggjum og strax þurft að aflima á miðjum upphandleggjum báðum megin. Griplimaleysið sé að sjálfsögðu það sem hái honum mest. Hann sé með tvo gervilimi í stað handleggja og þurfi hann aðstoð við að taka þá af og setja þá á aftur. Langvarandi veikindi hafi sett mark sitt á líkamlega líðan hans og sé úthald mikið skert. Í vottorði Sigurðar Ólafssonar, sérfræðings í lyflækningum og meltingarsjúkdómum, sem lagt hefur verið fyrir Hæstarétt, segir að vegna lifrarsjúkdóms gagnáfrýjanda í kjölfar slyssins hafi hann þurft á stöðugri lyfjameðferð að halda og oft þurft að leggjast inn á sjúkrahús. Hafi komið að því að læknar hafi talið nauðsynlegt að græða í hann nýja lifur. Slík aðgerð hafi farið fram á Rigshospitalet í Kaupmannahöfn í júní 2002, en fljótlega eftir að hann kom heim aftur hafi hann veikst alvarlega og hafi orðið að gangast undir lifrarígræðslu á ný 22. ágúst 2002. Það hafi gengið vel, en sjúklingar með ígrædda lifur þurfi mikla lyfjameðferð og sé ljóst að gagnáfrýjandi þurfi slíka meðferð ævilangt til að koma í veg fyrir höfnun líkamans á hinni ígræddu lifur. Þurfi hann að vera í stöðugu eftirliti hjá læknum og reglulegum blóðrannsóknum.

Í skýrslu sinni fyrir dómi greindi gagnáfrýjandi meðal annars frá því að slysið hafi haft veruleg áhrif á allt sitt líf og meðal annars leitt til þess að fjölskylda hans hefði leyst upp. Hann þurfi verulega aðstoð við flesta hluti. Hann geti þó ekið bifreið og hafi verið í vinnu hálfan daginn hjá aðaláfrýjanda.

Þegar litið er til þess, sem fram er komið um miska gagnáfrýjanda, einkum þess, hve háður hann er aðstoð annarra við helstu athafnir daglegs lífs, verður að fallast á að hinn metni 90% miski nái ekki að bæta miska hans að fullu. Er réttlætanlegt að hækka bætur til hans vegna þessa og þykir eðlilegt að sú hækkun nemi 35%. Samkvæmt því nema bætur vegna varanlegs miska í heild 5.908.545 krónum, en áður en til málshöfðunar kom hafði aðaláfrýjandi greitt vegna þessa liðar 2.188.350 krónur.

Með hliðsjón af framansögðu ber aðaláfrýjanda að greiða gagnáfrýjanda 16.608.936 krónur með vöxtum eins og í dómsorði greinir, en til frádráttar koma þær fjárhæðir, sem aðaláfrýjandi greiddi eftir uppsögu héraðsdóms og fram koma í kröfugerð gagnáfrýjanda.

Dæma ber aðaláfrýjanda til að greiða gagnáfrýjanda 950.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti til viðbótar greiðslu hans upp í málskostnað í héraði, að fjárhæð 523.075 krónur.

Dómsorð:

Aðaláfrýjandi, Orkuveita Reykjavíkur, greiði gagnáfrýjanda, Guðmundi Felix Grétarssyni, 16.608.936 krónur með 2% ársvöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 12. janúar 1998 til 8. júlí 2000, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum að fjárhæð 7.715.863 krónur 9. október 2002 og 686.546 krónur 11. sama mánaðar.

Aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, 950.000 krónur.

 


Sératkvæði

Garðars Gíslasonar

Af framlögðum teikningum og greinargóðum lýsingum af vettvangi er ljóst, að Grafarholtslínan, sem bilunin var í, og Úlfarsfellslínan, sem var spennuhafa, lágu ekki samhliða á þeim stað sem bilunin var og þeir þrír staurar voru, sem gagnáfrýjandi og samstarfsmaður hans áttu að kanna. Þessir staurar lágu í átt að ánni, en hinum megin árinnar nálguðust línurnar og lágu samhliða og þar fyrst varð ruglingshætta. Þeir samstarfsmenn gagnáfrýjanda sem á staðnum voru hafa allir borið að þeim hafi verið ljóst að þarna megin Vesturlandsvegar væri hættan hinum megin árinnar og að þeir hafi verið varaðir við hættunni og að ekki ætti að fara yfir ána. Í ljós er leitt að engin þörf var að fara yfir ána þar sem einungis átti að skoða staura í línunni þarna megin árinnar og síðan áttu menn að safnast saman og halda áfram og skoða staurana í sömu línu vestan Vesturlandsvegar, en þar lágu línurnar samhliða á kafla í átt að aðveitustöðinni.

Engin rök standa til að draga í efa framburð samstarfsmanna gagnáfrýjanda. Engin ástæða var fyrir gagnáfrýjanda að fara yfir ána og kanna staura þar í framhaldi af þeim þremur staurum sem hann og samstarfsmaður hans könnuðu. Í ljós er leitt að menn voru sérstaklega varaðir við hættunni sem handan árinnar var. Þegar þetta er virt verður að telja, að jafnvel þótt fallist væri á með héraðsdómi að gagnáfrýjandi hefði ekki farið upp í staurinn ef hann hefði verið merktur sérstaklega með viðvörunartálma eða öryggisvörður hefði fylgt honum, er þó á hitt að líta, að gagnáfrýjandi hafði enga ástæðu til þess að fara yfir ána og að þessum staur yfirleitt og hefur enga skýringu getað gefið á því að hann gerði það. Miðað við reynslu hans og þekkingu á staðháttum verður að telja að hann hafi með þessu sýnt af sér aðgæsluleysi. Á því ber gagnáfrýjandi sjálfur ábyrgð og telst bera nokkra eigin sök að þessu leyti.

Þá kemur til kasta hinnar almennu lækkunarreglu 24. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sem er sérstök að því leyti að henni skal einungis beita þegar skaðabótareglur myndu annars leiða til ósanngjarnrar niðurstöðu. Með heimild í 2. mgr. 24. gr. laganna og vísan til 1. mgr. 24. gr. svo og athugasemda með frumvarpi til laganna tel ég að líta megi fram hjá því að gagnáfrýjandi var að nokkru meðvaldur að tjóni. Ég er sammála meirihluta dómenda um að beita skuli hækkunarheimild 4. gr. skaðabótalaga um varanlegan miska, þar sem líkamsspjöll gagnáfrýjanda eru bæði mikil og margvísleg. Leiðir þetta til sömu niðurstöðu um bætur til gagnáfrýjanda og meirihluti kemst að.    

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 12. júlí 2002.

I

          Mál þetta var höfðað 4. janúar 2002 og dómtekið 20. júní 2002.

          Stefnandi er Guðmundur Felix Grétarsson, kt. 250572-3609, Lækjarsmára 4, Reykjavík, en stefndi er Orkuveita Reykjavíkur, kt. 551298-­3029, Suðurlandsbraut 34, 108 Reykjavík.  Sjóvá-Almennum tryggingum hf, kt.701288-1739, Kringlunni 5, 103 Reykjavík er stefnt til réttargæslu.

          Dómkröfur stefnanda eru þær að stefnda, Orkuveitu Reykjavíkur, verði gert að greiða honum skaða- og miskabætur, að fjárhæð 17.265.441 krónur með 2% ársvöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 12. janúar 1998 til 8. júlí 2000, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 með síðari breytingum frá þeim degi til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.  Þá krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu ásamt virðisaukaskatti.

          Dómkröfur stefnda, Orkuveitu Reykjavíkur, eru þær að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda.  Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins.

Ekki eru gerðar kröfur á hendur réttargæslustefnda, Sjóvá-Almennum tryggingum hf.

II

          Stefnandi lenti í vinnuslysi, þann 12. janúar 1998,  þegar hann var að vinna við að festa, eða bensla eins og það er kallað, háspennuvíra við einangrunarkúlur á staurum svokallaðrar Grafarholtslínu, sem liggur að hluta til meðfram Vesturlandsvegi.  Hafði stefnandi ásamt öðrum verið að vinna við að lagfæra bilun í Grafarholtslínu.  Ástæða bilunar var að bensl höfðu losnað af einangrara á einum staur og sláin á staurnum hafði fallið niður og hékk í línunum.  Lagfæringin fólst í því að skipta þurfti um staurinn í línunni og hengja síðan upp línuna.  Þegar viðgerð var lokið ákvað verkstjórinn, Halldór Sigurðsson, að gengið skyldi með línunni og athugað hvort frekari skemmdir hefðu orðið og ef lína hefði slitnað átti að festa hana upp að nýju.  Til að framkvæma þessa athugun þurfti viðgerðarmaður að klifra efst upp í hvern staur.

          Stefnandi var í vinnuflokknum sem kallaður var til viðgerða og samkvæmt tilmælum frá verkstjóra fól flokkstjóri stefnanda og Gunnari Erni Svavarssyni að yfirfara bensl á einangrunum á línunni.  Fór stefnandi upp í fyrsta staurinn, Gunnar í þann næsta og stefnandi síðan í þann þriðja.  Á svæðinu háttaði þannig til að stutt frá Úlfarsá kom Úlfarsfellslína, sem var með 11.000 volta spennu, og stefndi í kröppu horni á Grafarholtslínu, en nokkrum tugum metra áður en línurnar skárust þverbeygði Grafarholtslína til vinstri ef gengið var í vesturátt.  Ef gengið var áfram í stefnu Grafarholtslínunnar lá leiðin undir Úlfarsfellslínuna og í einn staura hennar, en staurar beggja línanna voru tréstaurar af sömu gerð.  Á stuttum kafla lágu báðar þessar raflínur samhliða þar til þær fóru í jarðkapla undir Vesturlandsveginn. 

          Stefnandi fór síðan upp í staur í Úlfarfsfellslínu sem var spennuhafa.  Fékk hann gífurlegt rafmagnslost, féll til jarðar,  brotnaði víða í líkamanum og brenndist mjög alvarlega.

          Lögregla var kvödd á staðinn og kemur fram í frumskýrslu hennar að enginn sjónarvottur hafi verið að slysinu en vinnufélagi stefnanda, Gunnar Örn Svavarsson, hefði orðið hans var í þann mund er slysið varð og hafi hann séð stefnanda stífna og falla niður úr staurnum og virðist sem stefnandi hafi losnað úr klifurskóm og öryggislínu.  Þá kemur fram að veður hafi verið þurrt en hvasst og hiti nálægt frostmarki.  Hafi jörð verið frosin þar sem stefnandi kom niður úr fallinu.

          Í skýrslu lögreglu sem annaðist rannsókn á vettvangi segir í niðurstöðu að það sé mat rannsóknarlögreglu að sjónlína háspennulínu frá síðasta staur Grafarholtslínu, sunnan við Úlfarsá, þar sem línuna beri við staur Úlfarsfellslínu norðan við Úlfarsá, hafi getað valdið því að stefnandi teldi línuna vera Grafarholtslínu og þar með spennulausa.

          Í kjölfar slyssins voru teknar lögregluskýrslur af þeim sem komu að því verki sem stefnandi vann að er hann lenti í slysinu auk þess sem vettvangur var ljósmyndaður.  Ekki þótti þjóna tilgangi að ganga á vettvang við meðferð málsins þar sem upplýst var að aðstæður væru breyttar frá því sem þær voru á slysdegi.

          Miðvikudaginn 14. janúar 1998 fóru starfsmenn Löggildingarstofu á vettvang til að skoða aðstæður og aftur þann 23. janúar 1998.  Kemur fram í skýrslu þeirra að þegar staðið sé við þann staur sem stefnandi hafði síðast verið að vinna í fyrir slysið og horft til tvístæðunnar austan Úlfarsár, beri víra Grafarholtslínu í einangra á burðarstaur Úlfarsfellslínu.

          Vinnueftirlit ríkisins fór á slysstað og kemur fram í skýrslu stofnunarinnar að líklegt sé að stefnandi hafi ekki áttað sig á að hann væri kominn í Úlfarsfellslínuna því staur í henni hafi verið næstum í beinni sjónlínu Grafarholtslínunnar og því hafi hann gengið grunlaus upp í staurinn.   Er það niðurstaða Vinnueftirlits ríkisins að reglur í reglugerð um raforkuvirki, vörslu og viðhald og orðsendingu nr. 1/1984 frá 1. janúar 1984, þar sem fjallað er um vinnu í nálægð spennuhafa háspennuvirkja, hafi verið brotin og sú staðreynd að ekki hafi verið farið að settum öryggisreglum sé orsök slyssins.

          Í stefnu kemur fram að stefnandi hafi ekki áttað sig á því að hann væri kominn að Úlfarsfellslínunni því staur í henni hafi næstum verið í beinni sjónlínu Grafarholtslínunnar og hafi hann því klifrað grunlaus upp í staurinn.  Til að komast efst í staurinn hafi hann þurft að losa um öryggisbelti og koma því upp fyrir V laga festingu efst í staurnum.  Þegar stefnandi hafi losað um beltið virðist sem hann hafi ætlað að halda sér í miðstreng línunnar en þá hafi 11.000 volta spenna hlaupið í stefnanda sem við það féll til jarðar.

          Samkvæmt gögnum málsins varð slysið rétt fyrir kl. 11.00 um morgun.  Lögð hafa verið fram gögn um veður og birtuskilyrði á þeim tíma er slysið varð og má af þeim ráða að  sólris þennan dag hafi verið kl. 11.01 og vindátt kl. 11.00 var 56 gráður og vindhraði 12 m á sek.

          Ekki er deilt um afleiðingar slyssins en stefnandi missti báða handleggi.  Í matsgerð læknanna Guðmundar Björnssonar og Guðmundar Benediktssonar, sem dagsett er 28. desember 1999 og aðilar eru sammála að leggja til grundvallar útreikningi bóta, kemur fram að ekki sé fyllilega útséð, hvernig líkamlegt ástand stefnanda muni þróast en það sé fyrirséð að fötlun hans sé og verði gríðarlega mikil.  Telja matsmenn ólíklegt að stefnandi geti endurhæfst til nokkurra þeirra starfa sem hann hafi verið menntaður til.  Þá telja þeir tímabært að leggja mat á varanlegar afleiðingar slyssins enda sé varanlegur miski og örorka komin í ljós þannig að hægt sé að áætla hana til frambúðar jafnvel þótt endurhæfingu sé ekki fyllilega lokið, en endurhæfingin muni fyrst og fremst miðast við að bæta lífsgæði hans en óvíst sé að færni geti orðið meiri en hún sé þegar orðin.

                Kemur fram í matsgerðinni að við mat á tímabundinni óvinnufærni sé lagt til grundvallar að stefnandi hafi verið óvinnufær frá slysdegi til dagsins í dag.  Við mat á þjáningatímabili sé lagt til grundvallar að stefnandi hafi verið rúmliggjandi frá slysdegi þar til í maí 1999.  Eftir það hafi hann verið veikur án þess að vera rúmliggjandi og matsmenn telja að ekki hafi verið að vænta frekari bata um áramótin 1999-2000.

          Við mat á miskastigi sé lagt til grundvallar aflimun á báðum griplimum og afleiðingar brota víða í líkamanum, alvarlegast í brjósthrygg.  Þá sé stefnandi með bólgusjúkdóm í lifur sem komið hafi í kjölfar slyssins og sé óvíst um horfur á þeim sjúkdómi.  Líkamleg færni stefnanda sé því mjög takmörkuð.

          Við mat á varanlegri örorku sé lagt til grundvallar að matsmenn telji ólíklegt að stefnandi geti endurhæfst til nokkurra þeirra starfa sem hann var menntaður til og óvíst að nám sem hann gæti stundað nýtist honum til tekjuöflunar.  Er það því niðurstaða matsmannanna að tímabundið atvinnutjón teljist vera frá slysdegi til dagsetningar matsgerðar. Tímabil þjáningarbóta teljist vera frá slysdegi til dagsetningar matsgerðarinnar, þar af hafi tjónþoli verið rúmliggjandi frá slysdegi til 1. maí 1999.  Varanlegur miski teljist vera 90% og varanleg örorka 100%.

          Í málinu liggur frammi vottorð Sigurðar Ólafssonar sérfræðings í lyflækningum og meltingarsjúkdómum dagsett 8. maí 2000 varðandi rannsóknir sem fram fóru á stefnanda á gallvegum hans vegna gulu sem hann hafði frá miðjum febrúar 1998.  Kemur fram hjá lækninum að rannsóknir á gallvegum hafi leitt í ljós að þeir séu mjög afbrigðilegir, með verulegum þrengslum, bæði utan lifrar og innan.  Hafi lifrarsýni sýnt gallstíflubreytingar og talsverða örmyndun í lifrinni.  Nokkrar hugsanlegar orsakir liggi að baki vandamálinu.  Í fyrsta lagi sé mögulegt að rafmagnsáverkinn sjálfur hafi valdið æðaskemmdum og blóðþurrð í gallvegum með þessum afleiðingum.  Þá hafi stefnandi þurft vegna afleiðinga slyssins að fá næringu í æð í langan tíma auk margvíslegra lyfja sem einnig geti hafa stuðlað að gallstíflu.  Þrátt fyrir stöðuga meðferð vegna gulu hafi ástandið heldur versnað fremur en hitt.  Hann sé með stöðuga gulu og kláða því fylgjandi sem valdi verulegum óþægindum og meltingartruflunum.

          Stefndi hafði á slysdeginum gilda ábyrgðartryggingu vegna reksturs síns hjá réttargæslustefnda.  Réttargæslustefndi hefur viðurkennt skaðabótaskyldu stefnda vegna afleiðinga slyssins.  Samkomulag varð milli aðila um að leggja ofangreint mat til grundvallar við útreikning á tjóni stefnanda og þann 8. júní 2000 sendi lögmaður stefnanda kröfubréf til réttargæslustefnda.  Réttargæslustefndi svaraði með bréfi 10. júlí 2000 og taldi að stefnandi ætti að bera einn þriðja hluta tjónsins vegna eigin sakar.  Stefnandi sætti sig ekki við það og skaut niðurstöðu réttargæslustefnda til tjónanefndar vátryggingafélaganna og var það álit hennar að eigin sök stefnanda væri að minnsta kosti 1/3.  Álit tjónanefndarinnar var síðan borið undir úrskurðarnefnd vátryggingamála sem komst að því að eftir öllum atvikum væri rétt að stefnandi beri eigin sök að 1/3 hluta.

          Stefnandi óskaði eftir því að gengið yrði frá bótagreiðslu miðað við að tjón væri bótaskylt að tveimur þriðju hlutum og með bréfi réttargæslustefnda 20. október 2000 er fallist á að gera tjón stefnanda upp miðað við niðurstöðu úrskurðarnefndar í vátryggingamálum þó með þeim fyrirvara að ætli stefnandi sér að leita til dómstóla varðandi eftirstöðvar tjónsbóta yrðu þær einungis gerðar upp miðað við að slysið sé bótaskylt að hálfu og tók stefnandi því boði réttargæslustefnda að fá greiðslu á helmingi bóta og ákvað að leita til dómstóla varðandi mismuninn.  Hinn 24. janúar 2001 greiddi réttargæslustefndi stefnanda með fullnaðaruppgjöri 15.390.855 krónur og tók stefnandi við þeirri greiðslu með fyrirvara um frekari bótakröfur.

          Í málinu er fyrst og fremst deilt um hvort stefnandi eigi að bera hluta tjóns síns sjálfur vegna eigin sakar.  Ekki er tölulegur ágreiningur um útreikning tjóns stefnanda en stefndi hafnar því að stefnandi eigi rétt á að fá álag á bætur fyrir varanlegan miska.

          Stefnandi gaf skýrslu fyrir dómi og vitnin Sigurjón Ingvarsson, Sigurður K. Guðmundsson, Halldór Sigurðsson, Gunnar Örn Svavarsson, Ólafur Gröndal og Þorbjörn Tómasson.

III

          Stefnandi telur að við mat á því hvort beitt verði sakarskiptingu verði að líta til háttsemi stefnda sem hafi þverbrotið með vítaverðum hætti lög og reglur í starfsemi sinni.  Ef stefndi hefði fylgt þeim öryggisreglum sem gildi um starfsemi hans þá hefði slysið aldrei orðið og á þeim grunni sé málssókn þessi fyrst og fremst byggð.

          Kemur fram hjá stefnanda að iðnaðarráðuneytið hafi gefið út reglugerð um raforkuvirki nr. 264/1971.  Til nánari skilgreiningar á ákvæðum reglugerðarinnar hafi Rafmagneftirlit ríkisins gefið út orðsendingu nr. 1/84 um rekstur, eftirlit og viðhald raforkuvirkja.  Þá hafi stefndi sjálfur gefið út gæðahandbók og öryggisreglur.

          Þær öryggisreglur sem komi fram í ofangreindum heimildum séu sértækar.  Þær séu skrifaðar fyrir fagmenn en ekki fyrir hinn almenna borgara, sem hafi enga þekkingu á málaflokknum.  Þaðan af síður hinum ýmsu hættum sem séu til í því umhverfi sem stefnandi hafi slasast í.  Megintilgangur öryggisreglnanna sé ekki að fyrirbyggja slys af völdum þekkingarleysis hins almenna borgara, heldur að fyrirbyggja slys á fagmönnum, minnka líkurnar á slysum eða minnka afleiðingar af völdum óheppilegrar atburðarrásar þar sem fagaðilar leiki aðalhlutverk.

          Slysið hafi verið tilkynnt til Vinnueftirlits ríkisins, lögreglu og Löggildingarstofu og hafi allir aðilar skilað skýrslu ásamt ítarlegum rannsóknargögnum.  Í skýrslu vinnueftirlitsins komi fram að orsök slyssins hafi verið sú að ákvæði í reglugerð um raforkuvirki, vörslu og viðhald hafi verið brotin.  Í skýrslu vinnueftirlitsins sé vísað til ákvæða í reglugerð um raforkuvirki nr. 264/1971.  Jafnframt sé vísað í kafla 10 í orðsendingu nr. 1/84 sem fjalli um vinnu nálægt háspennuvirkjum þegar rafstraumur sé á þeim.  Sérstaklega sé tekið fram að orsök slyssins hafi verið að ákvæði 10.5 um öryggisgæslu og 10.6 um tálmanir hafi verið brotin.  Þess beri einnig að geta að hvergi í skýrslu vinnueftirlitsins sé minnst á að eigin sök stefnanda hafi valdið slysinu heldur fullyrt að eina orsök slyssins hafi verið að umrædd öryggisákvæði hafi verið brotin af stefnda.   Þau ákvæði fyrrgreindrar orðsendingar sem vinnueftirlitið telji að hafi verið brotin séu ákvæði 10.5 um öryggisgæslu, en í grein 10.5.1 segi að verkstjóri skuli tilnefna öryggisvörð og gefa honum leiðbeiningar.  Geti verkstjórinn ef svo beri undir verið öryggisvörður en í því tilviki megi hann þó aðeins taka þátt í sjálfri vinnunni að svo miklu leyti sem það samræmist hlutverki hans sem öryggisvarðar.

          Í grein 10.5.2 segi að öryggisvörðurinn skuli fylgjast með framvindu verksins og stöðu mannanna gagnvart spennuhafa virkjahlutum og vara þá við, ef þörf krefji.  Í grein 10.5.3 segi að öryggisvörður megi aðeins hafa á hendi öryggisgæslu með þeim fjölda starfsmanna og svo takmörkuðu vinnusvæði að fullnægjandi öryggi náist.

          Samkvæmt þessu sé greinilegt að það sé skilyrðislaus skylda stefnda að skipa öryggisvörð í öllum tilvikum þegar unnið sé í eða nálægt háspennuvirki.  Að auki sé lögð áhersla á, að ef verkstjóri tilnefni sjálfan sig sem öryggisvörð þurfi hann að taka tillit til þess þar sem hlutverk öryggisvarðar vegi þyngra en önnur hlutverk.  Annars staðar í orðsendingunni sé gengið enn lengra því í grein 10.8.3 komi fram að öryggisvörður megi ekki hafa annað hlutverk en að fylgjast með þeim sem vinni verkið.

          Það liggi ljóst fyrir af gögnum málsins að þann 12. janúar 1998 hafi Halldór Sigurðsson verkstjóri ekki tilnefnt öryggisvörð vegna vinnunnar.  Hann hafi lýst því yfir við yfirheyrslu lögreglu þann 11. mars 1998 að ekki hefði verið skipaður sérstakur öryggisvörður við umrædda vinnu og að það hafi almennt ekki tíðkast hjá stefnda að gera slíkt.  Ekkert bendi heldur til þess að verkstjórinn  Halldór Sigurðsson hafi litið á sig sem öryggisvörð eða hagað störfum sínum á þann veg.  Þegar slysið varð hafi hann verið staddur í bifreið á Reykjanesbrautinni.  Enginn hafi fylgst með framvindu verksins og stöðu stefnanda í nálægð háspennuvirkis sem rafstraumur hafi verið á.  Enginn hafi verið í þeirri stöðu að geta varað stefnanda við þegar þörf hafi verið á.  Telur stefnandi að skipun og nærvera öryggisvarðar hefði komið í veg fyrir slys.

          Í grein 10.6.1 fyrrgreindrar orðsendingar segi að setja skuli upp tálma til viðvörunar gegn spennuhafa virkjahlutum nálægt vinnustaðnum eða flutningsleiðum.  Í grein 10.6.2 segi að tálmar skuli gerðir með köðlum, slám eða þess háttar sem búnar séu gulum viðvörunarskiltum eða veifum, og í vissum tilvikum megi nota gul viðvörunarskilti eða veifur eingöngu.

          Af þessu sé ljóst að það sé skilyrðislaus skylda stefnda að setja upp öryggismerkingar.  Hafi verkstjórinn Halldór Sigurðsson lýst því yfir við yfirheyrslu lögreglu að slíkar öryggismerkingar hefðu ekki verið á slysstað.  Hann hafi einnig fullyrt að það hafi almennt ekki tíðkast hjá stefnda að setja upp slíkar öryggismerkingar.  Framburður Halldórs sé staðfestur í bréfi Haralds A. Haraldssonar 15. maí 2001.  Samt sem áður hafi það komið fram í málinu að slíkar merkingar séu í eigu stefnda en hann kosið að setja þær ekki upp.  Það sé því ljóst að stefndi hafi við verkið ekki fylgt framangreindum reglum og í skýrslu Vinnueftirlits ríkisins sé krafist úrbóta varðandi þessi atriði.  Á skýringarmynd á síðu 34 í orðsendingu 1/84 sjáist vel hvernig haga skuli merkingum.  Telur stefnandi að ef framangreindum reglum hefði verið framfylgt hefði slysið ekki orðið.

          Í lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980 komi fram ýmsar meginreglur um öryggi á vinnustöðum.  Þar komi meðal annars fram að gætt skuli fyllsta öryggis við framkvæmd vinnu og á vinnustaðnum sjálfum.  Til að tryggja öryggi hjá stefnda hafi hann sjálfur sett ítarlegar öryggisreglur sem fram komi í öryggishandbók Rafmagnsveitu Reykjavíkur.  Með því að virða ekki öryggisreglurnar hafi stefndi því einnig þverbrotið gegn lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum en brot gegn lögunum varði sektum.

          Kveður stefnandi að vinna við að bensla hafi hafist fyrr um morguninn og hafi stefnandi og aðrir starfsmenn stefnda verið komnir vel á veg þegar slysið varð.  Telur stefnandi að stefndi hafi látið starfsmenn sína vinna við hættuleg veðurskilyrði.  Þessi veðurskilyrði hafi haft ótvíræð áhrif á atburðarásina.

          Þegar slysið varð hafi verið kalt í veðri, hiti við frostmark, skýjað og hvasst. Samkvæmt vottorði um veður frá Veðurstofu Íslands hafi verið hálfskýjað um morguninn en þykknað síðan upp og orðið skýjað á hádegi.  Þetta skipti máli með tilliti til þeirrar birtu sem verið hafi á slysstað.  Samkvæmt Almanaki Þjóðvinafélagsins hafi birting ekki hafist fyrr en kl. 09.52 og sólarupprás verið kl. 11.01 þennan dag eða eftir að slysið átti sér stað.  Það hafi því ekki verið orðið fullbjart.  Hafi jörðin verið algerlega snjólaus en við þau skilyrði sé birtan minnst á þessum árstíma.  Þá skipti skýjafar einnig máli varðandi birtu.  Sé hægt að fullyrða að birtan sem stefndi hafi látið menn sína vinna við hafi verið svo lítil að óeðlilegt hafi verið að láta starfsmennina vinna svo hættuleg störf án þess að setja upp fullnægjandi birtu.

          Sé rétt að það komi fram að þegar lögregla og aðrir hafi komið á vettvang hafi sólin verið komin upp og því erfitt fyrir rannsóknaraðila að gera sér grein fyrir hvernig birtan hafi verið þegar slysið varð.  Töluverður vindur hafi verið á svæðinu þegar slysið varð og samkvæmt upplýsingum frá sjálfvirkri veðurathugunarstöð við Korpu hafi vindur þegar slysið varð verið 12 m/sek, en samkvæmt vindhraðaflokkun Veðurstofu Íslands flokkist sá vindhraði sem strekkingur og sé lýst þannig að stórar greinar svigni, það hvíni í símalínum og erfitt sé að nota regnhlífar.

          Hafi verið meðalvindur þegar slysið varð og gengið á með hviðum þennan morgun og athyglisvert sé að skoða mestu hviður þegar slysið átti sér stað en samkvæmt. upplýsingum frá Veðurstofu sé einstök hviða vindur sem standi yfir í 3-5 sekúndur.  Samkvæmt upplýsingum frá sjálfvirkri veðurathugunarstöð við Korpu hafi hæstu vindhviður verið 20,9 m/sek þegar slysið varð en samkvæmt vindhraðaflokkun Veðurstofu Íslands flokkist slíkt sem stormur sem lýst sé þannig að um lítils háttar skemmdir á mannvirkjum sé að ræða (þakhellur fari að fjúka) og varla sé hægt að ráða sér á bersvæði.

          Hafi vindáttin verið 56 gráður þegar slysið varð og hafi stefnandi þurft að ganga upp í vindinn við vinnu sína þegar hann hafi gengið á milli staura.  Miðað við hita, vind og styrk vindkviða megi áætla út frá töflu um vindkælingu að kæling á andliti stefnanda hafi verið um -12 C° til -16 C°.

          Að mati stefnanda verði að telja með ólíkindum að í þessu veðri hafi stefndi látið starfsmenn sína klifra upp í um það bil 8 metra háa rafmagnsstaura.  Sérstaklega þegar það sé haft í huga að starfsmenn stefnda hafi þurft að losa af sér öryggisbelti efst í staurnum til að komast upp fyrir V-laga festingu efst á staurnum.  Þegar litið sé til þess gífurlega afls sem hafi verið í vindhviðunum verði að telja mesta mildi að fleiri starfsmenn stefnda hafi ekki slasast við vinnu sína þann 12. janúar 1998.

          Þá telur stefnandi að við mat á eigin sök stefnda verði að líta til þess hvort stefnandi hafi sýnt af sér hegðun sem réttlæti að hann beri hluta tjónsins sjálfur þrátt fyrir vítaverð brot stefnda.  Aðstæðurnar á vettvangi hafi verið þannig að mikil hætta hafi verið á ruglingi þar sem þær voru villandi og hættulegar. Engar öryggismerkingar eða öryggisvörður hafi verið á staðnum til að koma í veg fyrir slys á þessum hættulega stað.  Ofan á þetta bætist ófullnægjandi lýsing og vont veðurfar sem hefði átt að verða til þess að stefndi hefði látið verkamenn sína hætta að vinna.  Það sé ljóst að veðrið og kuldinn hafi að minnsta kosti haft mjög truflandi áhrif á stefnanda þar sem hann hafi farið á milli stauranna.  Þá beri þess að gæta að stefnandi hafði aldrei unnið á þessum stað áður.

          Renni framburður vitna einnig stoðum undir þetta því þar komi fram að ekkert hafi komið mönnum á óvart að stefnandi skyldi misreikna sig, svo augljós hafi hættan á misskilningi verið.  Hafi Halldór Sigurðsson verkstjóri lýst yfir við yfirheyrslu 4. febrúar 1998 að það hafi verið eins og hann hefði fundið á sér að stefnandi hefði farið upp í rangan staur.  Sé greinilegt af framburði Halldórs að hann hafi gert sér fulla grein fyrir hættunni á misskilningi.  Hann hafi strax dregið þá ályktun að það hafi verið starfsmaður sem hann hafi sent á hið hættulega svæði sem hafi slasast.  Þessi huglæga vitneskja starfsmanns stefnda um mögulega slysahættu sé langt fyrir ofan eðlileg gáleysismörk.

          Í framburði Sigurjóns Ingvarssonar flokksstjóra þann 23. janúar 1998 komi eftirfarandi fram: “...þá kemur beygja á línu þá sem við vorum að gera við en í beygjunni er einn burðarstaur á hinni línunni og ekki er ólíklegt að Guðmundur hafi misreiknað sig”.  Það komi greinilega fram að Sigurjóni hafi fundist aðstæður á vettvangi vera villandi.  Hann hafi ítrekað það seinna í skýrslunni að hann teldi eitthvað hafa villt um fyrir stefnanda og hafi hann vísað í afstöðumynd af vettvangi því til stuðnings.  Hinar villandi aðstæður komi einnig fram í vitnisburði Gunnars Arnar Svavarssonar sem hafi horft upp á slysið.  Gunnar Örn segi í yfirheyrslu lögreglu þann 2. febrúar 1998:  “Ég áttaði mig ekki á því í fyrstu að Guðmundur væri kominn upp í hina línuna... “.    Samkvæmt framburði Gunnars sé ljóst að hann hafi ekki áttaði sig á því að stefnandi hafði farið upp í hina línuna fyrr en töluvert eftir að hann hafði séð sjálft slysið verða.  Þegar Gunnar sjái slysið telji hann að stefnandi sé að vinna í sömu línu.  Í raun sé ekki að sjá annað af framburði Gunnars en að hann hafi fyrst áttað sig á hinni línunni þegar hann hafi verið í um það bil 100 metra fjarlægð frá stefnanda.

          Framangreindur framburður um villandi aðstæður fái frekari stoð í skýrslum rannsóknaraðila um slysið.   Í ódagsettri rannsóknarskýrslu Löggildingarstofu komi fram að þegar staðið sé við þann staur sem stefnandi hafi síðast verið að vinna í fyrir slysið og horft til tvístæðunnar austan Úlfarsár, beri víra Grafarholtslínu í einangrara á burðarstaur Úlfarsfellslínu.

          Í rannsóknarskýrslum lögreglunnar í Reykjavík komi fram að frá síðasta staur Grafarholtslínu, rétt sunnan við Úlfarsá, sé sjónlína á línunni þannig að hana beri við línur á einangrara á burðarstaur Úlfarsfellslínu.  

          Í skýrslu Vinnueftirlitsins sé einnig fjallað um villandi aðstæður og segi þar að staur í Úlfarsfellslínunni sé næstum því í beinni sjónlínu Grafarholtslínunnar.  Þetta sé álit sérfræðinga og rannsóknaraðila og ætti ekki að koma neinum á óvart því þessar villandi aðstæður sjáist greinilega á myndum sem teknar hafi verið á vettvangi.

          Hafi stefnda borið að fylgja þeim öryggisreglum sem um starfsemi hans gildi. Þegar hinar villandi aðstæður séu hafðar í huga og við bætist þau veður og birtuskilyrði sem voru á slysstað verði að teljast enn brýnna að farið sé eftir þessum öryggisreglum.  Stefndi hafi hins vegar ákveðið að brjóta þessar sömu reglur með vítaverðum hætti.  Þegar miðað sé við ofangreindar aðstæður og það vinnulag sem yfirmenn stefnanda hafi haft við verkið sé útilokað að líta svo á að reglur um sakarskiptingu geti átt við.

          Varðandi kröfu sína um að hækka eigi bætur vegna varanlegs miska með vísan til niðurlagsákvæðis 1. mgr. 4. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, rökstyður stefnandi með vísan til þeirra gífurlegu áhrifa sem slysið hafi haft á hann.  Hann hafi verið í góðu starfi og við góða heilsu fyrir slysið.  Stöðu hans og högum hafi verið raskað svo um muni.  Hann þurfi hjálp við fjölmargar athafnir daglegs lífs, hann þurfi hjálp við að klæða sig og hátta, komast á baðherbergi og athafna sig þar og við að borða svo dæmi séu tekin.  Möguleikum til að njóta frístunda hafi verið umturnað.  Hann sé oft slæmur í bakinu og brjóstkassanum en handaleysið hái honum mest.  Í kjölfar lyfjameðferðar vegna slyssins hafi stefnandi orðið fyrir lifrarskemmdum sem komi fram sem viðvarandi kláði um allan líkamann og þurfi hann að gangast undir lifrarskipti.  Langvarandi veikindi hafi sett mark á líkamlega líðan hans og sé úthald verulega skert.  Einnig hafi verið mikið andlegt álag á stefnanda og nánustu aðstandendur og hafi hann og barnsmóðir hans slitið samvistum í kjölfar slyssins.

          Stefnandi bendir sérstaklega á dóm Hæstaréttar í máli nr. 395/2000 til stuðnings þessari kröfu sinni.  Sé þess krafist að hækkunin verði 50% sem sé sama hlutfall og mest sé hægt að fara fram úr hámarksmiskabótum samkvæmt fyrrgreindu ákvæði skaðabótalaganna.

          Eftirfarandi kröfur séu gerðar með vísan til matsgerðar, og við það miðað að aðilar hafi komist að samkomulagi um tölulega útreikninga miðað við fullnaðaruppgjör

Dómkröfur stefnanda samtals að fjárhæð 17.265.441 krónur sundurliðist þannig:

1.        Bætur fyrir varanlega örorku skv. 5.-7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.  Samkvæmt uppgjöri 24.01.01 yrðu fullar bætur vegna varanlegrar örorku stefnanda. 31.062.282 krónur, greiddar hafi verið 10.004.075 krónur úr slysatryggingu launþega og séu því eftir 21.058.207 krónur.  Hafi réttargæslustefndi greitt helming þessarar fjárhæðar og standi því eftir 10.529.104 krónur.

2.        Bætur fyrir varanlegan miska skv. 4. gr. skaðabótalaga. Samkvæmt uppgjöri 24.01.01 yrðu fullar bætur vegna varanlegs miska skv. 4. gr. skaðabótalaga 4.376.700 krónur. Stefnandi geri þá kröfu að fjárhæð þessi verði hækkuð um 50% með vísan til niðurlagsákvæðis 1. mgr. 4. gr.  Krafa stefnanda af þessu tilefni nemi því 2.188.350 krónum.  Réttargæslustefndi hafi þegar greitt 2.188.350 krónur þannig að eftir standi vegna þessa liðar. 4.376.700 krónur.

3.        Bætur vegna tímabundins atvinnutjóns skv. 2. gr. skaðabótalaga.  Samkvæmt uppgjöri 24.01.01 yrðu fullar bætur vegna tímabundins atvinnutjóns 4.119.274 krónur. Réttargæslustefndi hafi greitt 2.059.637 krónur þannig að eftir standi vegna þessa liðar 2.059.637 krónur.

4.        Þjáningabætur skv. 3. gr. skaðabótalaga.  Samkvæmt uppgjöri 24.01.01 yrðu fullar bætur vegna tímabundins atvinnutjóns 600.000 krónur.  Réttargæslustefndi hafi þegar greitt 300.000 krónur þannig að eftir standi 300.000 krónur.

         

          Um lagarök að öðru leyti en rakið hefur verið að framan vísar stefnandi varðandi ábyrgð stefnda til sakarreglunnar og reglunnar um ábyrgð vinnuveitenda á tjóni starfsmanna sinna.  Um bótakröfurnar sé auk framangreindrar tilvísunar í skaðabótalög nr. 50/1993 vísað til almennra ólögfestra reglna íslensks skaðabótaréttar. Um dráttarvaxtakröfuna vísar stefnandi til 15. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 og til 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og um málskostnaðarkröfu sína vísar stefnandi til laga um meðferð einkamála nr. 90/1991, einkum 1. mgr. 130. gr. þeirra laga.

IV

          Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að réttargæslustefndi hafi greitt þær bætur, sem stefnandi eigi rétt á samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar og skaðabótalögum.

          Í reglugerð um raforkuvirki nr. 264/1971 og orðsendingu nr. 1/84 til fyllingar reglugerðinni sé kveðið á um það, að tálmar skuli settir upp á spennuhafa virkjahlutum nærri vinnustað og jafnframt að tilnefna skuli öryggisvörð til þess að fylgjast með vinnu í nánd við spennuhafa virkjahluti.  Ljóst sé að stefndi hafði ekki gætt að því að hafa á Úlfarsfellslínu merkingar sem sýndu að línan var spennuhafa, þótt svo bæri að gera þar sem spenna hafði verið tekin af Grafarholtslínu samsíða og ekki hafði heldur verið tilnefndur sérstakur öryggisvörður.  Valdi þetta því að stefndi verði talinn eiga sök á slysinu með því að sniðganga öryggisreglur, sem boðnar séu í reglugerð.  En einnig þurfi að gæta að eigin sök stefnanda.  Megi deila um það, hvort merkingar Úlfarsfellslínu hefðu afstýrt slysinu, en óumdeilanlegt sé, að hefði stefnandi ekki farið upp í staur á rangri línu hefði ekkert slys orðið.  Á milli athafna stefnanda og slyssins sé því ljóst orsakasamhengi.

          Af skýrslum samstarfsmanna stefnanda sé ljóst, að starfsmenn hafi sérstaklega verið varaðir við því, að Úlfarsfellslína væri spennuhafa.  Jafnframt komi fram í skýrslu eins þeirra, Þorbjörns Tómassonar, að stefnandi hafi löngu áður verið sér fyllilega meðvitandi um að línurnar lægju samsíða skamman spöl og að hann hefði talið þetta hættulegt.  Ekki sé vitað hvað hafi valdið því að stefnandi ruglaðist á línu, sem hann hafi vitað að væri spennuhafa og línunni, sem hann hafi átt að vera að vinna við, þótt telja verði sannað að hann hafi vitað af hættu á ruglingi.  Vera megi, eins og fram hafi komið hjá samstarfsmönnum stefnanda, að hann hafi verið annars hugar vegna nýs starfs sem hann hugði á.  Stefnandi sjálfur muni ekkert eftir slysinu eða tímanum næst á undan.

          Kemur fram hjá stefnda að stefnandi sé útlærður iðnaðarmaður með verulega starfsreynslu í störfum hjá stefnda í námunda við spennuhafa orkuvirki.  Honum hafi því verið fullkunnugt um þá miklu hættu, sem stafi af óvarlegri umgengni um slík orkuvirki.  Honum hafi og verið kunnugt um að Úlfarsfellslína hafi ekki verið sérstaklega merkt sem spennuhafa, þótt skylt væri.  Jafnframt hafi honum verið kunnugt um að Úlfarsfellslína væri spennuhafa og að hann hefði ekki átt að vinna við hana, enn fremur hafi honum verið kunnugt um að Grafarholtslína og Úlfarsfellslína lægju samsíða á kafla og að hætta gæti verið á að ruglast á línunum, væri aðgát ekki höfð.  Þrátt fyrir þetta hafi stefnandi ekki gætt að sér og farið upp í staur í rangri línu, sem hann hafi vitað eða átt að vita að væri spennuhafa og stórhættuleg og hann ætti ekki að vinna við.

          Telur stefndi að þetta leiði til þess að verulegur hluti sakar verði lagður á stefnanda.  Eigin sök hans sé alveg skýr, ágreiningur geti aðeins verið um hlutfall hennar.

          Af niðurstöðu tjónanefndar vátryggingafélaganna sé ljóst að tjónanefndin hafi talið sök stefnanda vera að minnsta kosti 1/3, en úrskurðarnefnd í vátryggingamálum talið eftir atvikum öllum rétt að stefnandi bæri eigin sök að 1/3 hluta.  Réttargæslustefndi hafi verið tilbúinn að gera tjónið upp á grundvelli niðurstaðna tjónanefndar og úrskurðarnefndar, en stefnandi hafi krafist þess að ekki yrði litið til eigin sakar hans. Réttargæslustefndi hafi þá talið rétt að láta reyna á sakarskiptinguna sjálfa fyrir dómstólum í stað þess að aðilar semdu um hana og gerði upp helming tjónsins og bauð jafnframt upp á það að stefnandi gerði upp með fyrirvara.

          Hafi verið ljóst að deila stæði nánast eingöngu um sakarskiptingu og því eðlilegt, að báðir aðilar héldu fram kröfum sínum fyrir dómstólum. Stefndi telur því, af ofangreindum ástæðum, að eigin sök stefnanda eigi að nema  ½  hlut.

          Stefndi sé fyrirtæki, sem reki orkudreifingu til almennings og fyrirtækja, og sé alkunna að þá sé hvað mest þörf fyrir skjót viðbrögð viðgerðarhópa, þegar veður séu válynd, sem oft vilji henda á þeim árstíma sem slysið varð.  Þá hafi verið stinningskaldi, 12 metrar á sekúndu, og hitastig við frostmark, eða yfir meðalhita janúarmánaðar.  Öllum almenningi sé gjörkunnugt, að starfsmenn orkuveitna þurfi að sinna bráðnauðsynlegum störfum sínum í þágu almennings við mun lakari veðurskilyrði en þarna hafi verið.  Stefndi telur fásinnu að halda því fram, að stefnandi og samstarfsmenn hans, flestir reyndir menn, hafi unnið vinnu sína við hættuleg veðurskilyrði og þetta geti valdið sérstakri sök stefnda.

          Stefndi kveður að í málinu sé ekki tölulegur ágreiningur nema um bætur vegna varanlegs miska samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga,  þar sem stefnandi krefjist 50% álags á grundvelli 5. málsliðar 1. mgr. 4. gr., eins og hún hafi verið á slysdegi.

          Þótt stefnandi hafi orðið fyrir miklu líkamstjóni og miska, eins og fram komi í örorkumati, verði að gæta að því, að hækkunarheimildin í 1. mgr. 4. gr. sé undantekningarheimild,  eins og þar sé orðað: "Þegar sérstaklega stendur á er heimilt að ákveða hærri bætur, þó ekki meiri en 6.000.000 kr."  Ákvæðinu hafi aðeins einu sinni verið beitt í Hæstaréttarmáli nr. 395/2000, en þar hafi afleiðingar tjóns verið alveg sérstakar.  Sá tjónþoli hafi lamaðist upp að hálsi og verið öðrum háður um allar venjulegar athafnir daglegs lífs.  Verði ekki séð, að tjón þessara tveggja manna sé sambærilegt né heldur að tjón stefnanda þessa máls sé meira en sem nemur þeim 90% miska, sem fram komi í matsgerðinni, svo þungbær sem hann að sjálfsögðu sé. Dómstólum beri að fara mjög varlega við beitingu undantekningarreglna sem þessarar og reglunni eigi alls ekki að beita nema miski sé greinilega þungbærari en ráða megi af miskastigi.  Þetta  telur stefndi að verði örugglega ráðið af lögskýringargögnum.

          Hvað snerti vaxtakröfu stefnanda sem reist sé á 16. gr. skaðabótalaga frá slysdegi til 8. júlí 2000, og kröfu hans um dráttarvexti frá þeim degi, sem sé mánuði eftir kröfubréf, verði að hafa í huga, að stefnanda hafi staðið til boða að tjónið yrði gert upp miðað við að eigin sök hans yrði ekki talin nema 1/3, en hann hafi hafnað því.  Yrði niðurstaða endanlegs dóms sú, að stefnandi bæri eigin sök að 1/3, sé ljóst að dráttarvextir yrðu ekki dæmdir nema frá uppsögu endanlegs dóms og megi um þetta vísa til dóms Hæstaréttar 22. nóvember 2001 í málinu nr. 182/2001.  Falli dómur svo, að stefnandi beri 1/3 hluta sakar eða meira, sé  því sérstaklega mótmælt að dráttarvextir leggist á fyrr en við uppsögu endanlegs dóms. 

          Kröfu sína um málskostnað reisir stefndi á 1. og 3. mgr. 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

V

          Eins og fram er komið í málinu hefur stefndi viðurkennt bótaskyldu í máli þessu á þeim grundvelli að ákvæði reglugerðar um raforkuvirki nr. 264/1971 sbr. orðsending Rafmagnseftirlits ríkisins nr. 1/84 voru brotin.  Ákvæði 10.5 í orðsendingunni fjalla um öryggisgæslu og þar er lögð sú skylda á verkstjóra að tilnefna öryggisvörð og gefa honum leiðbeiningar þegar unnið er í eða nálægt háspennuvirki.  Ekki er deilt um í málinu að þessu  ákvæði var ekki fullnægt umrætt sinn.

          Þá kemur fram í ákvæði fyrrgreindrar orðsendingar 10.5 sem fjallar um tálma að skylt sé að setja upp tálma til viðvörunar gegn spennuhafa virkjahlutum nálægt vinnustað eða flutningsleið.  Þá kemur fram hvers lags þeir tálmar skuli vera.  Ekki er heldur deilt um í málinu að slíkum tálmum var ekki til að dreifa á því svæði sem slysið varð.  Þá er boðið í 13. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustað að atvinnurekandi skuli tryggja, að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta á vinnustað.

          Framangreind háttsemi stefnda að sniðganga þær öryggisreglur sem boðnar eru samkvæmt framansögðu leiðir til þess að hann verður talinn bera sök á því slysi sem stefnandi varð fyrir og eins og rakið hefur verið er ekki ágreiningur um það.  Það sem deilt er um fyrst og fremst er hvort stefnandi þurfi sjálfur að bera hluta tjóns síns vegna eigin sakar.   

          Stefndi heldur því fram að stefnanda hafi verið fullkunnugt um að umræddur staur sem stefnandi féll niður úr væri á línu sem var spennuhafa, allavega hafi hann átt að vita það.  Stefnandi sjálfur man harla lítið eftir því sem gerðist daginn sem slysið varð.  Þeir samstarfsmenn stefnanda sem voru á vettvangi þegar slysið varð hafa gefið skýrslu fyrir dómi auk þess sem þeir gáfu skýrslu hjá lögreglu eftir slysið.  Stefndi byggir á því að þrátt fyrir að ekki hafi verið fylgt framangreindum öryggisreglum hafi stefnandi verið varaður við hættunni sem var á vettvangi auk þess sem stefnanda hafi verið kunnugt um þá hættu áður.  Þetta kveður stefndi að fái stoð í framburði samstarfsmanna stefnanda. 

          Sigurjón Ingvarsson flokkstjóri bar hjá lögreglu 23. janúar 1998 að þegar búið var að skipta út hinum ónýta staur hafi verkstjórinn Halldór Sigurðsson farið þess á leit að menn yfirfæru bensl á einangrunum á þeirri línu sem ónýti staurinn var, en hún var spennulaus. Taldi hann að staurarnir hefðu verið fimm sunnan við Vesturlandsveginn.  Kom fram hjá honum að starfsmönnum hafi verið fullkomlega ljóst að spenna væri á hinni línunni sem lá samhliða þeirri línu sem þeir voru að vinna við.  Stefnandi hafi síðan farið upp í staur sem var á hinni línunni og taldi vitnið ekki ólíklegt að hann hefði misreiknað sig.  Hann kvaðst aðspurður ekki hafa neina skýringu á því hvers vegna stefnandi hefði farið upp í rangan staur en taldi að eitthvað hefði villt fyrir honum.  Hann hafi þó ekki séð neitt óeðlilegt í fari stefnanda þennan dag en vera megi að hann hafi verið eitthvað annars hugar þar sem hann hefði sótt um vinnu á öðrum vinnustað og hafi átt að fá svar þennan sama dag hvort hann fengi þá vinnu.

          Fyrir dómi upplýsti hann að það hafi verið hann sem gefið hefði stefnanda og Gunnari Erni fyrirmæli um verkið og hann hafi sagt þeim að ekki ætti að fara yfir ána.  Hafi allir hlutaðeigandi átt að vera meðvitaðir um hættuna sem þarna var.  Hann var ekki viss um að hann hefði nefnt nafn árinnar, en ekki hafi átt að fara yfir hana.  Sérstaklega aðspurður kvað hann að fyrirhugað hafi verið að yfirfara staura sunnan megin við Vesturlandsveginn og að því loknu hafi átt að hópast saman og halda svo áfram norðan megin við Vesturlandsveginn og halda svo áfram alveg að aðveitustöðinni.  Enginn hafi mátt fara yfir veginn fyrr en eftir að menn hefðu hópast saman áður.  Hann kvaðst hafa gefið fyrirmælin í hóp og taldi að allir hefðu heyrt fyrirmælin.  Ekki kvaðst hann muna hvort hann hafi tiltekið fjölda stauranna sem þeir stefnandi áttu að yfirfara en fyrir liggur að frá þeim staur sem skipt var út voru þrír staurar að ánni.

          Ólafur Gröndal gaf skýrslu hjá lögreglu 23. janúar 1998 og bar þar að mönnum hafi verið ljóst að spenna var á þeirri línu sem lá samsíða þeirri línu sem unnið var við og var spennulaus.  Kemur fram í skýrslu hans að það hafi verið alveg ljóst að öllum hafi átt að vera kunnugt um að spenna væri á línu þeirri sem stefnandi snerti og kvað hann erfitt að segja hvers vegna stefnandi hefði farið upp í staurinn en ekki sé ólíklegt að hann hafi verið djúpt hugsi eftir að hafa verið búinn að sækja um vinnu annars staðar og átt von á svari þennan dag og hafi það líklegast truflað hann.  Hann kvað vinnufyrirmælin hafa verið á hreinu við verkið og ítrekaði að flokksstjórinn Sigurjón hafi skýrt út hvað gera skyldi og enginn hafi átt að vera í vafa um neitt. 

          Fyrir dómi staðfesti hann skýrslu sína hjá lögreglu og kvað þar rétt eftir sér haft.  Hann kvaðst ekki geta fullyrt hvað stefnandi hafi heyrt um þau fyrirmæli sem gefin hafi verið um verkið, hann sjálfur hafi heyrt þau fyrirmæli að fara ætti að ánni.  Hann kvað þó að ekki hafi verið gefin fyrirmæli fyrir allan hópinn í einu.

          Sigurður K. Guðmundsson gaf skýrslu hjá lögreglu 23. janúar 1998.  Kom þar fram að ítrekað hafi verið af flokkstjóra að spenna væri á hinni línunni og þeir skyldu gæta sín, en línan sem unnið var við væri með öllu ótengd.  Hafi síðan stefnandi og Gunnar Örn gengið með staurunum í norð-austur átt.  Hann kvaðst muna að flokkstjórinn Sigurjón hafi tekið Gunnar Örn í sérstaka kennslu við að bensla þar sem hann hafi verið nýr í starfi og hafi þeir verið viðstaddir og hafi verið ítrekuð hættan af hinni línunni.  Kvað hann með öllu óskiljanlegt að stefnandi hafi farið í hinn tengda staur hinum megin við þá línu sem unnið var við.  Hafi stefnandi ekki virst vera annars hugar og verið eins og hann átti að sér. Hann ítrekaði enn og aftur að þau fyrirmæli sem þeir hefðu fengið hefðu verið á hreinu og hafi þeim verið ljóst að spenna væri á hinni línunni. 

          Fyrir dómi staðfesti hann framangreinda lögregluskýrslu og kvað þar rétt eftir sér haft.  Hann kvaðst ekki muna hvort hann hafi heyrt fyrirmæli verkstjóra um  hvernig haga skildi verkinu.  Þá kvaðst hann ekki geta borið um það hvort talað hafi verið um að fara skyldi að ánni.  Hann minnti að allir hlutaðeigandi verið saman komnir milli þeirra tveggja bíla sem voru á staðnum þegar fyrirmælin voru gefin, en verið geti að hann sjálfur hafi verið að taka til bindingar á meðan hinir voru að tala saman.  Hann kvaðst ekki muna þetta fyllilega.  Kvaðst hann ekki geta borið um hvað hefði verið sagt en allir aðilar hafi vitað af hættunni sem þarna var.

          Gunnar Örn Svavarsson gaf skýrslu hjá lögreglu 2. febrúar 2002.  Hann kvað að ákveðið hafi verið að hann og stefnandi skyldu fara í að athuga benslin á öðrum staurum á þeirri línu sem staurinn var á sem þurfti að skipta um.  Hann kvaðst hafa fengið leiðsögn í hvernig hann skyldi bera sig að en stefnandi hafi kunnað til verka og ekki fengið leiðsögn en hann hafi verið viðstaddur.  Hafi verið vitað að spenna væri á hinni línunni.  Hann kvaðst hafa farið niður úr þeim staur sem hann hafði lokið við að bensla og stuttu síðar hafi hann séð blossa frá einum staurnum handan við ána Korpu.  Hann kvaðst ekki hafa áttað sig á því í fyrstu að stefnandi væri kominn upp í hina línuna og hafa haldið í átt til hans þegar hann sá stefnanda stífna upp og hafi hann þá gert sér grein fyrir að stefnandi hefði farið upp í rangan staur.  Hann tók sérstaklega fram að þeir starfsmenn sem voru á vettvangi hafi verið meðvitaðir um að spenna væri á hinni línunni og þeir hafi átt að bensla upp línuna á þeim stað sem hún endar.

          Fyrir dómi staðfesti hann skýrslu sína hjá lögreglu og kvað þar rétt eftir sér haft.  Hann bar fyrir dómi að hann myndi ekki hvernig skilaboðin hafi verið um hvernig standa skyldi að verki þarna og minnir að þeim hafi verið sagt að þeir ættu að fara að ánni.  Þeir hafi fengið skilaboðin í bílnum og einnig þegar þeir voru úti að undirbúa sig fyrir vinnuna.

          Þorbjörn Tómasson gaf skýrslu hjá lögreglu 2. febrúar 1998.  Hafi stefnandi og Gunnar Örn átt að athuga benslin á staurunum á þeirri línu sem staurinn var á sem skipt var út en áður en þeir fóru hafi verið rætt um að spenna væri á hinni línunni og menn beðnir að gæta sín á henni.  Hann kvaðst hafa tekið að sér að leiðbeina Gunnari Erni sem var nýr en stefnandi hafi verið á staðnum en ekki þurft leiðbeiningar.  Hann kvaðst muna eftir því að stefnandi hefði fyrir löngu síðan haft orð á því að vettvangur þessi væri hættulegur þar sem línurnar kæmu að hver annarri og lægju samsíða á smá kafla rétt suðaustan við Korpu.  Hafi alveg verið ljóst að starfsmenn á vettvangi hafi verið meðvitaðir um að spenna væri á Úlfarsfellslínu og hafi þeir fengið sérstaka aðvörun um það.  Það sé því með öllu óskiljanlegt að stefnandi skildi fara upp í staurinn því hann hafi vitað vel um aðstæður. 

          Hann staðfesti skýrslu sína fyrir dómi og kvað þar rétt eftir sér haft.  Þá bar hann að líklega hafi stefnandi verið að bjástra eitthvað í bifreiðinni þegar hann var að sýna Gunnari Erni hvernig bera ætti sig að við verkið.  Hann kvaðst hafa varað þá við línunni þegar þeir fóru af stað en mundi ekki hvort hann nefndi ána. 

          Í framburði stefnanda varðandi það hvort hann hefði áður tjáð vitninu Þorbirni að umræddur vettvangur væri hættusvæði kvaðst hann hafa verið að tala um þann stað þar sem línurnar skerist undir Vesturlandsvegi ekki þann stað sem slysið varð.  Aðspurður um hvort hann teldi að þetta væri rétt hjá stefnanda kvað vitnið Þorbjörn það ekki geta staðist því þeir hefðu umrætt sinn staðið með bakið í þann stað sem stefnandi segist hafa verið að tala um og horft yfir það svæði sem hér er til umfjöllunar.

          Halldór Sigurðsson gaf skýrslu hjá lögreglu 4. febrúar og 11. mars 1998.  Hann var sjálfur ekki á staðnum þegar slysið varð heldur hafði einungis verið í talstöðvarsambandi og gefið fyrirmæli um verkið þannig.  Hann kvað starfsmenn hafa verið fullljóst að spenna væri á Úlfarsfellslínu og að þeir þyrftu að gæta sín vel því línurnar hafi legið samsíða austan við ána Korpu.  Hann kvaðst ekki hafa skýringu á því hvers vegna stefnandi hafi farið upp í rangan staur en taldi að hann hafi gert það í hugsunarleysi.  Hann kvað sér hafa brugðið mikið við að fá fréttirnar af slysinu og hafi verið eins og hann fyndi á sér að stefnandi hafi farið upp í rangan staur.  Fyrir dómi staðfesti hann framangreindar lögregluskýrslur og kvað þar rétt eftir honum haft.  Hann staðfesti sérstaklega aðspurður að ætlunin hafi verið að yfirfara línuna alla leið í Korpu, þe. einnig þar sem Grafarholtslína er samhliða Úlfarsfellslínu sunnan Vesturlandsvegar.

          Gísli Jónsson gaf skýrslu hjá lögreglu 3. febrúar 1998 og kemur fram hjá honum að honum hafi verið ljóst eins og öðrum að Grafarholtslína væri spennulaus og jafnframt hafi þeir verið varaðir við því að spenna væri á Úlfarsfellslínu.  Hann kvaðst ekki geta gert sér grein fyrir hvers vegna stefnandi hafi farið upp í nefndan staur en hann teldi líklegast að staurinn hafi verið í sömu línu og þeir staurar sem hann var að vinna við í Grafarholtslínunni.

          Öllum framangreindum vitnum ber saman um það að þeim hafi verið um það kunnugt að spenna væri á svokallaðri Úlfarsfellslínu og þeim hafi verið ljós hættan af því að fara upp í slíkan staur.  Þá halda vitnin því jafnframt fram að öllum starfsmönnum á staðnum hafi verið þetta ljóst.  Því er heldur ekki haldið fram að stefnandi hafi talið hættulaust að fara upp í staur í spennuhafalínu, enda var hann lærður rafveituvirki og hafði starfað í nokkurn tíma við samskonar verk og þarna voru unnin. 

          Af framangreindum framburðum þykir hins vegar ekki verða dregin önnur ályktun en að þau fyrirmæli sem stefnandi fékk um verkið og hugsanlega hættu hafi ekki verið formlegri en svo að um hafi verið að ræða almenn varnaðarorð.  Einnig ber að taka tillit til þess að verkstjóra ber að gefa nákvæmar upplýsingar og fyrirmæli til allra sem að verkinu vinna sbr. orðsendingu nr. 1/84, ákvæði 10.3, en verkstjóri var ekki á staðnum og fyrirmæli annarra starfsmanna augljóslega handahófskennd og ómarkviss.  Af gögnum málsins verður ráðið að mjög er á reiki hvort fullyrt hafi verið að ekki ætti að fara yfir ána Korpu en ekki er útilokað að nafnið Korpa hafi getað valdið misskilningi því umrædd á er ýmist kölluð Korpa eða Úlfarsá og aðveitustöð hinum megin við ána er einnig kölluð Korpa.  Þykir það því allsendis ósannað að stefnandi hafi verið sérstaklega varaður við að fara upp í staur sem væri hinum megin við ána Korpu. 

          Af gögnum málsins, sérstaklega myndum og uppdráttum af svæðinu þar sem umræddar línur, Úlfarsfellslína og Grafarholtslína liggja samhliða, þykir í ljós leitt að mikil hætta var á að menn gætu ruglast á línum.  Þá fær það stoð í framburði vitnisins Gunnars Arnar sem bar að hann hefði í fyrstu ekki áttað sig á því að stefnandi væri í rangri línu frá þeim stað sem hann stóð, hann hefði ekki áttað sig á því fyrr en hann kom nær.  Þá kemur fram í vitnisburði vitnisins Halldórs Sigurðssonar að honum hefði dottið í hug þegar hann frétti að slys hefði orðið að farið hafi verið upp í ranga línu.  Vitnið Sigurjón Ingvarsson bar að ekki væri ólíklegt að stefnandi hefði misreiknað sig.  Þá er þessa sérstaklega getið í rannsóknarskýrslu Löggildingarstofu þar sem segir að þegar staðið sé við þann staur sem stefnandi var síðast að vinna í fyrir slysið og horft til tvístæðunnar austan Úlfarsár, beri víra Grafarholtslínu í einangrara á burðarstaur Úlfarsfellslínu.  Þá segir í rannsóknarskýrslu lögreglu að frá síðasta staur Grafarholtslinu rétt sunnan við Úlfarsá sé sjónlína á línunni þannig að hana beri við linur á einangrara á burðarstaur Úlfarsfellslinu.     

          Þá liggur fyrir í málinu að hvasst var þennan morgun og hafði stefnandi vindinn í fangið þegar hann gekk að þeim staurum sem hann vann við.   Þá var ekki fullbjart. Er ekki loku fyrir það skotið að þau skilyrði hafi átt einhvern þátt í að stefnandi fór línuvillt þótt ekki verði talið stefndi hafi umrætt sinn látið starfsmenn sína vinna við hættuleg veðurskilyrði.

          Það þykir því ljóst að stefnandi fór upp í staurinn án þess að hafa hugmynd um að hann væri í spennuhafalínu og jafnfram þykir ljóst, miðað við þekkingu hans að það hefði hann ekki gert hefði hann vitað það með vissu að svo væri.  Þykir framburður vitnisins Þorbjörns, um að stefnandi hafi sagt honum löngu áður að umræddur vettvangur væri hættulegur, engu breyta þar um, hvort sem hann átti við þennan vettvang eða annan, enda óumdeilt að ávallt er hætta á ferð þegar unnið er við rafmagn, en við hvaða stað nákvæmlega stefnandi átti, í samtali þeirra Þorbjörns löngu áður en slysið varð, stefndur orð gegn orði. 

          Verður því að telja í ljós leitt að stefnandi hefði ekki farið upp í staurinn ef hann hefði verið merktur sérstaklega eða öryggisvörður fylgt honum eftir.  Vangaveltur vitna í lögregluskýrslu um að líklega hafi stefnandi verið annars hugar vegna starfsumsóknar þykja ekki til þess fallnar að breyta neinu þar um enda allsendis ósannað að stefnandi hafi verið annars hugar við vinnu sína umræddan morgun. 

          Að því virtu sem nú hefur verið rakið er það niðurstaða dómsins að orsök slyssins sé sú að ákvæðum reglugerðar nr. 264/1971 og orðsendingar nr 1/1984 um merkingar, skipunar öryggisvarðar og fullnægjandi upplýsingar og fyrirmæli var ekki framfylgt.  Ber stefnandi sjálfur enga sök á slysinu heldur ber stefndi á því fulla ábyrgð.

          Eins og rakið hefur verið er ekki ágreiningur um útreikning bótafjárhæðar og verður hann því lagður til grundvallar niðurstöðu í máli þessu.  Aðila greinir hins vegar á um hvort skilyrði séu til að bæta álagi á bætur fyrir varanlegan miska sem nemi 50% ofan á bætur fyrir varanlegan miska sem metnar hafa verið samtals 4.376.700 eða 2.188.350 til viðbótar.

          Óumdeild er sú niðurstaða matsgerðarinnar að varanlegur miski stefnanda sé 90%.  Í matsgerð þeirri sem liggur til grundvallar tjónsútreikningi kemur fram að stefnandi þurfi aðstoð við nær allar athafnir daglegs lífs.  Hann þurfi aðstoð við að klæðast, matast og salernisferðir.  Hann hafi hins vegar góða göngugetu.  Þá kemur fram að mikið álag hafi verið á stefnanda og nánustu aðstandendur.  Í niðurstöðum matsgerðarinnar segir síðan að við mat á miskastigi sé lagt til grundvallar aflimun á báðum griplimum og afleiðingar brota víða í líkamanum, alvarlegast í brjósthrygg.  Þá sé stefnandi með bólgusjúkdóm í lifur sem komið hafi í kjölfar slyssins og óvíst um horfur á þeim sjúkdómi og sé líkamleg færni stefnanda því mjög takmörkuð.  Kom fram hjá stefnanda sjálfum fyrir dómi að hann bíður nú eftir því að fara í lifrarskipti.  

          Ljóst er að slys það sem stefnandi lenti í hefur haft mjög alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir stefnanda og hefur hann orðið fyrir mikilli röskun á högum sínum og er miski hans óumdeilanlega mikill enda hefur hann verið metinn 90%.

Í 1. mgr. 4. gr. skaðabótalaga, eins og hún var þegar slysið varð, sagði að við ákvörðun fjárhæðar bóta fyrir varanlegan miska skyldi litið til þess hvers eðlis og hversu miklar afleiðingar tjóns væru frá læknisfræðilegu sjónarmiði, svo og til erfiðleika sem það valdi í lífi tjónþola.  Varanlegur miski skyldi metinn til stiga og miðað skyldi við ástand tjónþola þegar ekki væri að vænta frekari bata.  Síðan sagði að þegar miski væri metinn alger skyldu bætur vera 4.000.000 að teknu tilliti til verðlagsbreytinga sbr. 15. gr. skaðabótalaganna og síðan lækka í réttu hlutfalli við lægra miskastig.  Síðan sagði að þegar sérstaklega stæði á væri heimilt að ákveða hærri bætur, þó ekki hærri en 6.000.000 króna að teknu tilliti til verðlagsbreytinga skv. 15. gr.  Í athugasemdum með frumvarpi til skaðabótalaga sagði að í undantekningartilvikum kynni fjárhæð bóta eftir að fjögurra milljón króna markinu væri náð að þykja ófullnægjandi einkum þegar tjónþoli hefði orðið fyrir margvíslegum líkamsspjöllum, til dæmis bæði orðið fyrir mikilli sköddun á útlimum og misst sjón á báðum augum. Heimildin til að ákveða hærri bætur þegar sérstaklega standi á væri sett í því skyni að unnt yrði að veita hærri bætur í slíkum tilvikum. 

Þessi tilvísun um að heimildinni verði beitt þegar sérstaklega standi á bendir til þess að hvert einstakt tilvik þurfi að skoða sérstaklega og við það miðað að henni verði beitt þegar gera megi ráð fyrir að hinn metni miski tjónþola nái ekki að bæta miska hans að fullu.  Var heimild ákvæðisins til að bæta álagi ofan á bætur fyrir varanlegan miska beitt í dómi Hæstaréttar í máli nr. 395/2000.  Þar voru aðstæður þannig að tjónþoli hafði verið metinn með 90% varanlegan miska.  Tjónþoli í því máli hafði hálsbrotnað og lamast á fótum og að mestu leyti í handleggjum og höndum og var bundinn í hjólastól.  Í því máli féllst Hæstiréttur á að réttlætanlegt væri að hækka bætur hans þar sem hinn metni 90% varanlegi miski næði ekki að bæta miska hans að fullu og voru bæturnar hækkaðar um 35%.  

          Enda þótt stefnandi hafi verið metinn með sama miskastig og tjónþoli í framangreindu Hæstaréttarmáli eru aðstæður hér aðrar en voru í fyrrgreindu máli.  Þrátt fyrir það að miski stefnanda sé verulegur þykja ekki efni til að beita álagi í þessu máli en í matsgerð var hinn varanlegi miski metinn á rökstuddan hátt 90% og er það því niðurstaða dómsins að hinn metni 90% varanlegi miski verði talinn ná að bæta miska stefnanda að fullu.

Samkvæmt framansögðu á stefnandi því rétt á bótum úr hendi stefnda sem nemur fjárhæð 15.077.091 krónu sem sundurliðast svo:

1.        Eftirstöðvar bóta fyrir varanlega örorku                kr.  10.529.104

2.        Eftirstöðvar bóta fyrir varanlegan miska               kr.    2.188.350

3.        Eftirstöðvar bóta vegna tímabundins atvinnutjóns kr.   2.059.637

4.        Eftirstöðvar þjáningarbóta                                      kr.      300.000

Samtals.                                                                     kr. 15.077.091

 

Kröfu stefnanda um ársvexti er ekki mótmælt og verður hún tekin til greina eins og hún er fram sett.  Með vísan til 15. gr. þágildandi vaxtalaga nr. 25/1987 sbr. nú 9. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 verður krafa stefnanda um dráttarvexti tekin til greina eins og nánar greinir í dómsorði.

Eftir atvikum þykir rétt að stefndi greiði stefnanda 1.000.000 krónur í málskostnað.

Af hálfu stefnanda flutti málið Eyvindur Sólnes hdl. en af hálfu stefnda flutti málið Jakob R. Möller hrl. og gætti hann einnig hagsmuna réttargæslustefnda.

Greta Baldursdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan ásamt meðdómsmönnunum Jóni Halldórssyni rafmagnsverkfræðingi og Trausta Gylfasyni rafmagnstæknifræðingi.

D Ó M S O R Ð

Stefndi Orkuveita Reykjavíkur greiði stefnanda Guðmundi Felix Grétarssyni 15.077.091 krónur með 2% ársvöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 12. janúar 1998 til 8. júlí 2000 en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí 2001 en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 1.000.000 krónur í málskostnað.