Hæstiréttur íslands

Mál nr. 122/2001


Lykilorð

  • Verksamningur
  • Tómlæti
  • Galli
  • Févíti


Fimmtudaginn 1

 

Fimmtudaginn 1. nóvember 2001.

Nr. 122/2001.

Eykt ehf.

(Sveinn Sveinsson hrl.)

gegn

Ísfelli ehf.

(Kristján Þorbergsson hrl.)

og gagnsök

 

Verksamningur. Tómlæti. Galli. Févíti.

I sf., sem síðar sameinaðist Í ehf., samdi við E ehf. um að reisa skrifstofu- og lagerhús. Í málinu deildu aðilar um uppgjör vegna verksins. E ehf. krafði Í ehf. um greiðslu vegna aukaverka, en Hæstiréttur sýknaði félagið af kröfunni með vísan til tómlætis E ehf., en hálft annað ár leið frá verklokum þar til félagið hafði uppi kröfuna. Í ehf. krafði E ehf. um annars vegar tafabætur og hins vegar skaðabætur vegna galla á verkinu. Af hálfu E ehf. var byggt á því að við ákvörðun tafabóta ætti að taka tillit til breyttrar verktilhögunar og aukaverka sem hefðu seinkað verklokum. Hæstiréttur hafnaði þessari málsástæðu með vísan til þess að E ehf. hefði ekki skriflega tilkynnt I sf. að það teldi sig eiga rétt á framlengingu á verkinu. Hæstiréttur lækkaði aftur á móti tafabæturnar niður í fjórðungs lágmark frá þeim tíma sem E ehf. afhenti húsið til framhaldsframkvæmda. Þá sýknaði Hæstiréttur E ehf. af meginhluta skaðabótakröfunnar með vísan til þess að I sf. hefði ekki gefið E ehf. kost á að bæta úr gallanum áður en félagið gekk til samninga við aðra í því skyni.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 3. apríl 2001. Hann krefst þess að gagnáfrýjanda verði gert að greiða sér 10.620.781 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 4.544.232 krónum frá 25. september 1997 til 14. janúar 1998, af 5.538.287 krónum frá þeim degi til 1. febrúar sama árs, af 7.457.865 krónum frá þeim degi til 15. júlí 1999 og af 10.620.781 krónu frá þeim degi til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. 1aga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun 25. september 1997 að fjárhæð 2.000.000 krónur. Þá krefst aðaláfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 21. júní 2001. Hann krefst þess að aðaláfrýjanda verði gert að greiða sér 9.205.600 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá 15. janúar 1998 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Gagnáfrýjandi krefst jafnframt málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

I.

Aðaláfrýjandi og Innkaupadeildin sf. undirrrituðu 1. nóvember 1996 verksamning um að steypa upp skrifstofu- og lagerhús að Fiskislóð 82 í Reykjavík, svo og að ganga frá burðarbitum fyrir þak þess. Innkaupadeildin sf., sem mun hafa verið dótturfyrirtæki gagnáfrýjanda, sameinaðist móðurfyrirtækinu 1. janúar 1999 undir nafni þess. Ágreiningur aðila varðar viðskipti þeirra vegna framkvæmda aðaláfrýjanda við framangreint hús gagnáfrýjanda. Málsatvikum er lýst í hinum áfrýjaða dómi.

Krafa aðaláfrýjanda varðar annars vegar þrjá liði, sem ekki er efnislegur ágreiningur um. Eru þeir í fyrsta lagi krafa samkvæmt reikningi 25. september 1997 að fjáhæð 4.544.232 krónur að meðtöldum 225.748 krónum í geymslufé og verðbótum að fjárhæð 29.278 krónur, en að frádreginni 2.000.000 króna innborgun. Í öðru lagi krafa að fjárhæð 994.055 krónur reist á ógreiddum reikningi 14. janúar 1998 að meðtöldum 49.383 krónum í geymslufé og verðbótum að fjárhæð 6.405 krónur. Í þriðja lagi er um að ræða kröfu um geymslufé að fjárhæð 1.919.578 krónur að meðtöldum verðbótum, en gagnáfrýjandi mátti samkvæmt verksamningi aðilanna halda eftir 5% geymslufé við greiðslu einstakra reikninga aðaláfrýjanda, sem skyldi greitt mánuði eftir verklok. Samtals nema kröfur samkvæmt þessum þrem liðum 5.457.865 krónum. Gagnáfrýjandi fellst á greiðslu þessarar fjárhæðar, en telur að lækka beri kröfuna í fyrsta liðnum um 225.748 krónur vegna ákvæðis verksamnings aðila um geymslufé og kröfuna í öðrum liðnum um 49.383 krónur af sömu sökum. Á móti beri að hækka geymslufjárkröfuna samkvæmt þriðja liðnum sem þessu nemur eða um 275.131 krónu. Við munnlegan málflutning í Hæstarétti féllst lögmaður aðaláfrýjanda á þetta. Verður niðurstaðan varðandi þessa kröfuliði því í samræmi við það.

Hins vegar krefst aðaláfrýjandi greiðslu vegna aukaverka, en þeirri kröfu hafnar gagnáfrýjandi. Kröfuliður þessi er samkvæmt reikningi 15. júlí 1999 að fjárhæð 3.545.699 krónur. Eru aukaverkin tilgreind í 14 liðum í fylgiskjölum með reikningnum. Fyrir Hæstarétti krefst aðaláfrýjandi greiðslu á 3.162.916 krónum af fjárhæð þessa reiknings. Með bréfi 11. júní 1998, um hálfu ári eftir verklok, óskaði aðaláfrýjandi eftir því að komið yrði á fundi aðila til að ræða lokauppgjör vegna verksins. Í bréfinu tilgreindi hann þá þrjá kröfuliði, sem að framan eru raktir, og taldi að skuld gagnáfrýjanda næmi samanlagðri fjárhæð þeirra. Var kröfu vegna aukaverka í engu getið í bréfi þessu. Sú krafa kom fyrst fram rúmulega ári síðar með framangreindum reikningi vegna aukaverka og var þá liðið um hálft annað ár frá verklokum. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður gagnáfrýjandi sýknaður af þessum kröfulið vegna tómlætis aðaláfrýjanda.

Samkvæmt framangreindu á aðaláfrýjandi ógreiddar úr hendi gagnáfrýjanda samtals 5.457.865 krónur þegar innborgun þess síðarnefnda 25. september 1997 inn á reikning frá sama degi hefur réttilega verið dregin frá heildarfjárhæð hans.

II.

Gagnáfrýjandi hefur sem áður segir uppi gagnkröfu í málinu að fjárhæð 9.205.600 krónur til skuldajafnaðar við fyrrgreinda kröfu aðaláfrýjanda og sjálfstæðs dóms um eftirstöðvar gagnkröfunnar. Gagnkrafa þessi er annars vegar vegna tafabóta og hins vegar galla á verki aðaláfrýjanda.

Samkvæmt verksamningi aðilanna 1. nóvember 1996 skyldi verkinu lokið fyrir 1. apríl 1997. Var þar kveðið á um að tafabætur skyldu vera 30.000 krónur á dag. Með viðbótarverksamningi 4. apríl 1997 var aðaláfrýjanda falið að annast frágang á þaki hússins. Var verklokum þar frestað til 31. maí sama árs og tekið fram að það væri vegna seinkunar á afhendingu lóðar og „stækkunar“ verksins. Þá voru tafabætur hækkaðar í 45.000 krónur á dag. Aðaláfrýjandi telur að miklar tafir hafi orðið á verkinu í ársbyrjun 1997 af ástæðum, sem gagnáfrýjandi beri ábyrgð á. Nefnir hann sérstaklega í því sambandi að lóðin hafi ekki verið tilbúin fyrir byggingu á réttum tíma og verkið tafist í allt að 30 daga af þeim sökum í mars 1997. Þá telur aðaláfrýjandi að efnislega hafi aðilar verið búnir að ná samkomulagi um viðbótarverkið í lok febrúar eða byrjun mars 1997 þótt undirritun viðbótarverksamningsins hafi dregist fram í aprílbyrjun. Verkið hafi því tafist af völdum gagnáfrýjanda eftir að viðbótarverksamningurinn hafi í raun komist á og til þeirra tafa beri að taka tillit við ákvörðun tafabóta. Á það verður ekki fallist. Þótt aðilarnir kunni áður að hafa verið búnir að ná samkomulagi um viðbótarverkið var formlega gengið frá samningi um það með undirritun viðbótarverksamningsins. Við undirritun hans var aðilunum ljós staða verksins og þær tafir, sem á því höfðu orðið til þess tíma. Verður að byggja á því að ákvæði viðbótarsamningsins um frestun verkloka hafi tekið mið af aðstæðum við undirritun hans. Verður því ekki tekið tillit til atvika fyrir 4. apríl 1997 við ákvörðun tafabóta.

Þá telur aðaláfrýjandi að við ákvörðun tafabóta beri að taka tillit til breyttrar verktilhögunar og aukaverka, sem gagnáfrýjandi hafi ákveðið eftir undirritun viðbótarverksamningsins. Í 1. gr. verksamnings aðila var vísað til ÍST-10, ÍST-30 og annarra íslenskra staðla, sem teljast skyldu hluti af samningnum. Samkvæmt ákvæði 24.3 í ÍST-30 skal verktaki tafarlaust tilkynna verkkaupa það skriflega ef hann telur sig eiga rétt á framlengingu á verktíma. Aðaláfrýjandi beindi ekki slíkri tilkynningu til gagnáfrýjanda vegna breyttrar tilhögunar við steypu á botnplötu hússins eða annarra þátta, er hann telur hafa tafið verkið. Verður því ekki litið til þeirra við ákvörðun tafabóta.

Gagnáfrýjandi krefst fullra tafabóta, 45.000 króna á dag, frá 1. júní til 12. september 1997, en hálfra bóta, 22.500 króna á dag, frá þeim tíma til 15. janúar 1998. Fallist er á það með héraðsdómi að tafabætur verði hvorki ákveðnar fyrir þann tíma, sem það tók að bæta úr göllum á gólfum, né þann tíma, sem það tók að koma fyrir nýjum risglugga að ósk gagnáfrýjanda í stað annars, sem aðaláfrýjandi hafði hafið frágang á. Samkvæmt verkstöðusamantekt Hönnunar hf. 17. september 1997 var 95% verksins lokið 12. þess mánaðar. Var það niðurstaða héraðsdóms, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmönnum, að með tilliti til breytinga, sem orðið höfðu á verkinu, hafi 98,8% þess verið lokið síðastnefndan dag. Verður fallist á það með héraðsdómi að í ljósi þessa verði tafabætur ekki dæmdar lengur en til þess dags.

Aðaláfrýjandi telur að um 20. júlí 1997 hafi gagnáfrýjandi fengið húsið afhent þannig að smiðir á hans vegum hafi getað hafið vinnu við að setja í glugga og klæða það að utan. Af gögnum, sem lögð hafa verið fram í Hæstarétti, sést að gluggarnir hafa komið til landsins 22. júlí 1997 og þann 29. þess mánaðar hafa smiðir á vegum gagnáfrýjanda skráð vinnutíma við ísetningu þeirra. Með hliðsjón af ákvæði 24.6.3 í ÍST-30 verður litið svo á að við afhendingu hússins til framhaldsframkvæmda beri að lækka tafabætur og miða í því efni við 29. júlí 1997, er þær framkvæmdir hófust. Er eftir atvikum rétt að lækka tafabæturnar niður í það fjórðungs lágmark, sem kveðið er á um í ákvæði 24.6.4 í ÍST-30. Samkvæmt þessu verður aðaláfrýjandi dæmdur til að greiða gagnáfrýjanda 45.000 króna tafabætur á dag í 59 daga og síðan 11.250 krónur á dag í 45 daga eða samtals 3.161.250 krónur.

Þá krefur gagnáfrýjandi aðaláfrýjanda um bætur vegna galla á verkinu. Er krafa hans reist á niðurstöðu dómkvaddra matsmanna 21. maí 1999, sem nánar er lýst í héraðsdómi. Gagnáfrýjandi sundurliðar þessa kröfu svo að í fyrsta lagi sé krafist 1.612.000 króna vegna galla á flotefni, sem lagt var í gólf. Í öðru lagi 59.000 króna vegna nýs þakglugga í fundarherbergi. Í þriðja lagi 29.000 króna vegna galla á þakglugga á lager og loks í fjórða lagi 13.100 króna vegna kostnaðar af því að steypa í sár á lagergólfi eftir viðgerð á stíflu í lögn undir því. Aðaláfrýjandi krefst sýknu af öllum þessum kröfuliðum. Með því að hann hefur ekki fært fram nein efnisrök gegn þrem síðustu liðunum, samtals að fjárhæð 101.100 krónur, verða þeir teknir til greina.

 Aðaláfrýjandi viðurkennir að gólfílögn sú, sem um ræðir í fyrsta liðnum, hafi verið gölluð, en telur að hafna beri kröfu gagnáfrýjanda þar sem sér hafi ekki verið gefinn kostur á að bæta úr gallanum. Hluti af verki aðaláfrýjanda samkvæmt verklýsingu Hönnunar hf. var að setja svonefnt flotefni á önnur gólf hússins en í vörugeymslu. Skyldi frágangur gólfanna vera þannig að þau væru tilbúin til dúklagningar. Samtals var um að ræða 600 m2 á efri hæð hússins, en rúmlega 400 m2 á neðri hæð. Aðaláfrýjandi fékk Við-reisn ehf. til að annast þennan verkþátt sem undirverktaki. Gallar komu í ljós á flotlögninni kringum 15. október 1997. Gagnáfrýjandi virðist hafa leitað bréflega 20. október 1997 eftir tilboði Gólflagna ehf. í úrbætur vegna gallanna. Meðal gagna málsins er tilboð í verkið, sem Gólflagnir ehf. gerðu af því tilefni 23. þess mánaðar. Í bókun á verkfundi aðilanna 29. október 1997 kom fram að Magnús Jónsson, starfsmaður aðaláfrýjanda, viðurkenndi að flotun gólfa hefði mistekist á svokölluðum smávörulager og á köflum á skrifstofuhluta hússins. Var bókað að hann byði að aðaláfrýjandi myndi endurvinna gólfið á smávörulager á nánar tilgreindan hátt. Síðan var bókað: „Hvað önnur gólf með flotefni snertir hefur hann kynnt sér hvað kostar að styrkja þau með epoxíð grunni og telur það vera um 400 kr/m2. Hann gaf í skyn að þeir tækju slíkan kostnað á sig, en þó skal haft samband við þá til staðfestingar áður en slíkar framkvæmdir hefjast.“ Framburður Magnúsar fyrir héraðsdómi var í samræmi við þessa bókun. Þar kvaðst hann meðal annars ekki hafa haft neinar efasemdir um að gólfið á fyrstu hæðinni væri gallað og hafi hann boðist til að lagfæra það strax. Hvað varðar gólfið á efri hæðinni kvaðst hann hafa boðist til að gera á því bragarbót, en einnig boðið að aðrir mættu vinna það og væri hann tilbúinn að greiða upphæð, sem hann hafi nefnt, enda yrði hann látinn vita áður en framkvæmdir hæfust. Ekki varð strax af viðgerð á gólfunum og telur aðaláfrýjandi að vinna annarra iðnaðarmanna á vegum gagnáfrýjanda hafa staðið því í vegi. Gólflagnir ehf. endurskoðuðu tilboð sitt 10. desember 1997 til hækkunar, enda hefðu nánari athuganir á gólfinu sýnt að frekari viðgerða væri þörf en áður var talið. Gólflagnir ehf. framkvæmdu síðan verkið seinni hluta desember 1997 og fyrri hluta janúar 1998 án þess að gagnáfrýjanda eða undirverktaka hans væri tilkynnt um það.

Almennt á verktaki rétt á að bæta úr göllum, sem reynast vera á verki hans, enda leiði úrbætur af hans hálfu ekki til sérstaks óhagræðis fyrir verkkaupa. Nægilega er leitt í ljós að aðaláfrýjandi bauðst strax eftir að gallar komu fram á gólfinu til að gera sjálfur við hluta þess. Þótt fyrir liggi að hann hafi þá jafnframt gefið í skyn að hann kynni að samþykkja að aðrir yrðu fengnir til að vinna hluta verksins var það gert á forsendum þess að kostnaður yrði innan tiltekinna marka og að honum yrði tilkynnt áður en þær framkvæmdir hæfust. Gagnáfrýjandi samdi við Gólflagnir ehf. um viðgerð á öllu gólfinu án frekara samráðs við aðaláfrýjanda og að því er virðist fyrir meira en fjórum sinnum hærra verð en nam því, sem aðaláfrýjandi hafði gefið til kynna að hann samþykkti að taka á sig. Bar gagnáfrýjanda eins og hér stóð á að hafa frumkvæði að því að gefa aðaláfrýjanda kost á að framkvæma viðgerðina áður en hann gekk til samninga um hana við aðra. Það gerði gagnáfrýjandi ekki. Getur hann því ekki nú krafið aðaláfrýjanda um kostnað vegna þessa verks. Verður kröfu gagnáfrýjanda af þessu tilefni þannig hafnað.

Samkvæmt þessu verður fallist á gagnkröfu gagnáfrýjanda vegna tafabóta, 3.161.250 krónur, og galla á verki aðaláfrýjanda, 101.100 krónur, eða samtals 3.262.350 krónur. Með vísan til ákvæðis 24.6.7 í ÍST-30 verður sú fjárhæð látin koma til skuldajafnaðar við kröfu aðaláfrýjanda, sem eins og áður greinir nemur samtals 5.457.865 krónum. Verður gagnáfrýjandi þannig dæmdur til að greiða aðaláfrýjanda 2.195.515 krónur með dráttarvöxtum eins og í dómsorði greinir.

Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Gagnáfrýjandi, Ísfell ehf., greiði aðaláfrýjanda, Eykt ehf., 2.195.515 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 806 krónum frá 14. febrúar 1998 til 11. júlí sama árs, en af 2.195.515 krónum frá þeim degi til 1. júlí 2001 og samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 24. janúar 2001.

I

Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 22. febrúar 2000 og dómtekið 16. þ.m.

Stefnandi er Eykt ehf., kt. 560192-2319, Borgartúni 21, Reykjavík.

Stefndi er Ísfell ehf., kt. 530390-1449, Fiskislóð 82 (nú 14), Reykjavík, áður Innkaupadeildin sf., kt. 410670-0119.

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til greiðslu skuldar að upphæð 10.620.781 króna með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 25. september 1997 af 4.544.232 krónum, frá 14. janúar 1998 af 5.538.287 krónum, frá 1. febrúar 1998 af 7.457.865 krónum og frá 15. júlí 1999 af 10.620.781 krónu til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun þ. 25. september 1997 að upphæð 2.000.000 króna.  Þess er krafist að dráttarvextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 25. september 1998.  Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.

Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda en til vara að kröfur hans verði stórlega lækkaðar.

Stefndi höfðaði gagnsök með gagnstefnu birtri 23. mars 2000.

Gagnstefnandi krefst þess, til skuldajafnaðar við kröfur gagnstefnda í aðalsök að svo miklu leyti sem með þarf en að öðru leyti til sjálfstæðs dóms, að honum verði gert að greiða sér 9.205.600 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 15. janúar 1998 til greiðsludags.

Í gagnsök krefst stefndi (aðalstefnandi) sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans.

Málið varðar viðskipti aðalstefnanda og Innkaupadeildarinnar sf. sem var dótturfyrirtæki gagnstefnanda en fyrirtækin voru sameinuð 1. janúar 1999 undir nafni gagnstefnanda.

II

Hinn 1. nóvember 1996 undirrituðu aðilar, þ.e aðalstefnandi, sem er byggingaverktakafyrirtæki, sem verktaki og Innkaupadeildin sf. (gagnstefnandi. sbr. framangreint) sem verkkaupi verksamning.  Samkvæmt honum tók verktaki að sér að steypa upp skrifstofu- og lagerhús að Fiskislóð 82, Reykjavík ásamt því að ganga frá burðarbitum úr límtréi fyrir þakið.  Verkið skyldi vinna samkvæmt eftirtöldum gögnum sem töldust hluti af samningnum:  “1) Arkitekta- og lagnateikningar gerðar af Nýju Teiknistofunni hf.  2) Burðarvirkisteikningar og verklýsing gerð af Hönnun hf.  3) Tilboð verktaka, dags. 13. sept. 1996, með viðbótum vegna þakfrágangs ásamt skriflegri áætlun verktaka um verktilhögun.  4) ÍST-10, ÍST-30 og aðrir íslenskir staðlar og reglugerðir eftir því sem við á.”

Auk framangreinds voru helstu samningsákvæði sem hér segir.  Verktaki skyldi leggja til allt efni, áhöld og verkfæri sem þyrfti við framkvæmd verksins, en verkkaupi skyldi leggja til rafmagn og vatn að tengistað innan lóðarmarka. Heildarsamningsupphæð var 29.577.600 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og var hún vísitölubundin.  Reikningum fyrir verkið skyldi framvísa hálfsmánaðarlega eftir framgangi þess og verkkaupi greiða 95% af hverjum reikningi meðan á framkvæmd stæði en 5% skyldi vera geymslufé og greiðast með verðbótum mánuði eftir að verkinu væri að fullu lokið.  Engar breytingar mátti gera á verkinu nema með samþykki verkkaupa og skylt að framkvæma allar þær breytingar sem hann óskaði eftir.  Verkið skyldi hefjast í byrjun nóvember 1996 og því vera lokið fyrir 1. apríl 1997;  að öðrum kosti yrði beitt tafabótum að upphæð 30.000 krónur fyrir hvern byrjaðan almanaksdag sem verktíminn drægist á langinn.  Til tryggingar því að verktaki efndi skyldur sínar samkvæmt samningnum afhenti hann verkkaupa tryggingarvíxil að upphæð 2.957.760 krónur sem skyldi skila tólf mánuðum eftir lokaúttekt.

Aðilar undirrituðu viðbótarverksamning 4. apríl 1997.  Samkvæmt honum tók verktaki að sér, til viðbótar við aðalsamning, að ganga frá þaki hússins að utan með ásum, klæðningum, þakjárni og þakgluggum, ásamt þakköntum og – rennum.  Samningsupphæð vegna viðbótanna og þegar breyttra magntala er sögð nema 16.523.146 krónum sem bættist við samningsupphæð aðalsamnings þannig að heildarsamningsupphæðin nemi samtals 42.573.695 krónum að  virðisaukaskatti meðtöldum.  Vegna seinkunar á afhendingu lóðar og stækkunar (svo) verksins skyldi því að fullu lokið fyrir 31. maí 1997 í stað 1. apríl s.á.  Þá voru tafabætur umsamdar 45.000 krónur á dag í stað 30.000 króna.

Tafir urðu á framkvæmd verksins.  Uppsteypu lauk í seinni hluta júnímánaðar, vinna við þak fór fram í júlí og ágúst og gólfplata var steypt í september. Mænisglugga, sem er yfir lagerhluta hússins, var síðan í endanlegri mynd komið fyrir í síðari hluta desember 1997 og lauk því verki í janúar 1998.

Í gagnstefnu segir að í október 1997 hafi komið í ljós að flotefni, sem lagt hafi verið á gólf húsnæðisins, væri stórlega gallað þannig að ekki hafi verið hægt að notast við það.  Fyrstu viðbrögð aðalstefnanda hafi verið að neita því að nokkuð væri að “flotinu”.  Magnús, verkstjóri aðalstefnanda, hafi síðan viðurkennt á sáttafundi með aðilum þ. 29. október 1997 að flotið hefði misheppnast og boðið að laga það að hluta en talið að gagnstefnandi gæti styrkt aðra fleti með epoxíðgrunni.  Gagnstefnandi hafi talið tillögur aðalstefnanda ófullkomnar og ekkert hafi heyrst frekar frá honum varðandi tilboð um framkvæmdir og hann hafi ekki sýnt neinn áhuga eða vilja til að ráðast í lagfæringu á gólfinu.  Gagnstefnandi kveðst hafa leitað til Gólflagna ehf. og fengið tilboð frá fyrirtækinu í þennan þátt 23. október 1997 en símbréf hafi borist frá því 10. desember 1997 um að fyrirhugaðar endurbætur á gólfinu hafi reynst ófullnægjandi og að ráðast þyrfti í mun dýrari og umfangsmeiri aðgerðir.

Í greinargerð aðalstefnanda í gagnsök setur hann fram það sem hann telur meginatriði um málavexti að því er tekur til gagnsakarinnar, svohljóðandi:

1.  Þegar verksamningur er frágenginn 1. nóv. 1996 eru í gangi viðræður um viðbótarverk.

2.  Viðbótarverksamningur frágenginn í febrúar 1997.

3.  Tafir höfðu orðið miklar á framgangi verksins fram að því eins og lýst er í stefnu.

4.  Því var í febrúar ákveðið að viðbótarsamningur skyldi framlengjast  um 2 mánuði og verklok verða 31. maí 1997.

5.  Viðbótarverksamningur þessi er ekki undirritaður fyrr en 4. apríl 1997 þrátt fyrir ítrekanir verktaka þar um.

6.  Þrátt fyrir að dregist hafi að undirrita samninginn og þrátt fyrir að í febrúar og mars hafi enn orðið tafir var af einhverjum ástæðum verklokum ekki breytt.

7.  Mótor í byggingarkrana brann yfir í apríl í miklu roki og var hann óstarfhæfur í vikutíma.

8.  Þann 22. apríl 1997 gaf gagnstefnandi fyrirmæli um að botnplötu skyldi ekki steypa fyrr en húsið væri komið undir þak og búið væri að loka húsinu.

9.  Við þá ákvörðun breyttist öll aðstaða við að ganga frá þaki hússins.

10.  Við þá ákvörðun breyttist öll aðstaða við að steypa gólf hússins og seinkaði þeim framkvæmdum.

11.  Gagnstefnandi sá sjálfur um að setja glugga og gler í húsnæðið og tók við húsinu í því skyni seinni hluta júlímánaðar 1997.

12.  Ekki var hægt að leggja í gólfin fyrr en búið var að loka húsinu að öllu leyti.

13.  Allar breytingar voru ræddar á verkfundum. 

14.  Þegar gagnstefnandi hafði sett glugga í húsið var lagt í gólfin.

15.  Ílögnin mistókst og bauðst gagnstefndi til að bæta þar úr.

16.  Var ósk um það sett fram á sérstökum fundi.

17.  Síðar var ósk um lagfæringu hafnað og því haldið fram að undirverktaka gagnstefnda væri ekki treystandi til að bæta þar úr.

18.  Þeirri afstöðu var mótmælt bæði af gagnstefnda og undirverktakanum.

Af hálfu gagnstefnanda er gerð grein fyrir þætti Ingvars A. Guðnasonar, verkfræðings hjá Hönnun hf., við byggingu hússins að Fiskislóð 82 eins og hér verður greint.  Ingvar hafi annast um verkfræðihönnun og aðstoðað gagnstefnanda við magnskrá og að leita eftir verðhugmyndum hjá verktökum.  Þá hafi hann annast um að skrifa verklýsingu og verksamning aðila.  Við framvindu verksins hafi hann annast um gerð verkstöðusamantekta og að árita reikninga aðalstefnanda  um að þeir væru í samræmi við verkstöðu og umsamið einingaverð.  Ingvar hafi ekki haft eftirlit með framkvæmdum eða haldið verkfundi, þó með þeirri undantekningu að leitað hafi verið til hans um að finna lausn á framkomnum göllum á gólfi og við að finna flöt á endanlegu uppgjöri milli aðila, án þess að það skilaði árangri.

Reikningar nr. 616 og 668, sem aðalstefnandi krefst greiðslu á í málinu, sbr. síðar, eru áritaðir um samþykki án fyrirvara eða skýringa af Ingvari A. Guðnasyni. Í verklýsingu, sem fylgdi upphaflegum verksamningi aðila, var gert ráð fyrir eftirlitsmanni verkkaupa í samræmi við venju í verktakastarfsemi, sbr. 17. kafla ÍST 30.  Vafalaust verður talið að Ingvar A. Guðnason hafi gegnt hlutverki eftirlitsmanns í skiptum verkkaupa, þ.e.gagnstefnanda, og verktaka, þ.e.aðalstefnanda, að því marki sem gagnstefnandi kaus að halda uppi eftirliti.  

Formlegir, bókaðir verkfundir voru ekki haldnir að því undanskildu að í framlögðum minnispunktum Ingvars A. Guðnasonar, dags. 29. október 1997, um fund hans með Magnúsi, byggingarstjóra aðalstefnanda, segir að Magnús hafi viðurkennt að flotun gólfa hafi mistekist á smávörulager og á köflum á skrifstofuhluta.  Hann hafi boðið að smávörulagergólfið yrði endurunnið og síðan flotað með iðnaðarfloti frá ÍMÚR hf.  Hvað varðar önnur gólf með flotefni hafi hann sagst hafa kynnt sér hvað kostaði að styrkja þau með epoxíð grunni og gefið í skyn að aðalstefnandi tæki þann kostnað á sig.  Um tafabætur segir að ákveðið hafi verið að ræða þær ekki fyrr en kæmi að endanlegu uppgjöri við verklok, þegar þakglugginn yrði kominn upp, og taka þá á öllum öðrum óuppgerðum málum vegna verksins.

Í málinu liggja frammi afrit tveggja bréfa, dags. 15. október 1997, sem Hólmsteinn Björnsson framkvæmdastjóri gagnstefnanda, sendi Hönnun hf./Ingvari A. Guðnasyni og augljóst má telja að hafi verið hvati að framangreindum verkfundi.  Annað bréfið hefur að fyrirsögn “Fiskislóð 82 – flotefni á gólfum.”  Þar er vísað til þess að Magnús, byggingarstjóri aðalstefnanda, hafi sagt að skipt verði um efni á smávörulagernum þar sem ljóst sé að gólfið muni alls ekki þola þá starfsemi sem þar muni verða en vaðandi skrifstofugólfin sé niðurstaðan sú að þau séu tilbúin undir dúkalögn og muni þola þá starfsemi sem þar eigi sér stað.  Hins vegar sé í raun viðurkennt að verkið hafi mistekist með því að viðurkenna  umyrðalaust að efnið á smávörulagernum sé “óbrúkhæft”.  Bent er á að kostnaður við sléttun og flotun þessara gólfa sé 2.015.000 eða álíka mikill og verkliðurinn milliloft, svalir og stigi og telji Hólmsteinn að hægt sé að gera ákaflega miklar kröfur til þessa verkliðar varðandi gæði.  Hann telji nauðsynlegt að fram fari faglegri og hlutlausari úttekt á þessu verki heldur en sú sem framkvæmd sé af verktökunum, þ.e. Eykt og ÍMÚR, og óskar hann eftir tillögu frá Ingvari í því sambandi.  Hitt bréfið hefur að fyrirsögn “Uppgjör við Eykt – tafabætur.”  Þar segir að að rétt sé formsins vegna að aðalstefnanda verði kynnt sú afstaða gagnstefnanda að krafist sé tafabóta í samræmi við efni verksamningsins frá 4. apríl 1997 en varðandi hugsanlegt samkomulag verði eftirfarandi haft í huga.  Við samningsgerðina 4. apríl hafi verið talað um að  hugsanlega mundi ekki nást að ljúka frágangi á þakkanti o.þ.h. fyrir tiltekin tímamörk og hafi Hólmsteinn þá sagt að ólar yrðu ekki eltar við tafabætur varðandi einhverja slíka smámuni enda yrði það ekki til að tefja framgang verksins, þ.e. að hægt væri að hefjast handa við aðra verkhluta.  Í því sambandi sé varla hægt að tala um smámál varðandi þakglugga þar sem húsið standi enn opið að hluta fyrir vatni og vindum og hindri það sannanlega áframhald verksins.  Komi til ágreinings, sem endi með málaferlum, muni  verða haldið fram ítrustu kröfum í þessu sambandi. Verði hins vegar hægt að ljúka uppgjöri með friðsamlegum hætti muni verða litið á steypu á gólfplötu í lagerhluta þannig að hægt væri að loka húsinu, að öðru leyti en hvað varðar þakgluggann, sem einhvern tímapunkt í þessu sambandi. 

Ingvar A. Guðnason óskaði eftir því við Rannsóknastofnun byggingar­iðnaðarins þ. 17. nóvember 1997 að fram færi mat á flotgólfi í umræddu húsi.  Í skýrslu hennar frá  19. s.m. segir að um sé að ræða tvær plötur, þ.e. botnplötu og milliplötu, og hafi verið lagt í þær báðar með flotefni frá ÍMÚR. Samkvæmt skýrslunni var það mat lagt á ílögnina að hún væri almennt ekki nægjanlega sterk til þess að óhætt væri að líma gólfdúk á hana og að hún uppfyllti þar af leiðandi ekki þær kröfur sem eðlilegt sé að gera varðandi styrk gólfílagna.

Í bréfi gagnstefnanda, dags. 10. desember 1997, til Ingvars A. Guðnasonar segir að í ljós hafi komið að ekki hafi reynst unnt að lagfæra “flotið” eins og vonir hafi staðið til og að kostnaður muni verða mun meiri en áður hafi verið reiknað með.  Óhjákvæmilegt sé að grípa strax til þeirra aðgerða, sem taldar séu nauðsynlegar, og verði litið svo á að þessi verkliður sé gagnstefnanda gjörsamlega ónýtur.  Rétt sé að “Eyktar mönnum” verði kynnt þessi nýja staða.

Gagnstefnandi kveður aðalstefnanda ekki hafa haft frekara  samband við sig eða Ingvar um málið.  Á grundvelli tillagna og tilboðs Gólflagna ehf. fól gagn­stefnandi fyrirtækinu að annast um endurbætur á gólfinu.  Hófust þær í síðari hluta desember 1997 og lauk í janúar 1998.  Endurbæturnar tóku til  804 m² af 1007,2 m² gólfi hússins en gagnstefnandi skildi eftir 203 m² á svokölluðum smávörulager til vitnis um ástand lagnarinnar þar til ágreiningur aðila yrði að fullu leystur.

Í bréfi lögmanns aðalstefnanda til gagnstefnanda 11. júní  1998 er óskað eftir fundi til að ræða lokauppgjör milli aðila vegna verksamninga, dags. 1. nóvember 1996 og 4. apríl 1997, um byggingu skrifstofu- og lagerhúss að Fiskislóð 82, Reykjavík.  Þar segir að skuld gagnstefnanda við aðalstefnanda nemi 5.458.216 krónum vegna eftirstöðva reiknings nr. 616, reiknings nr. 668 og inneignar vegna geymslufjár.  Á hinn bóginn hafi af hálfu gagnstefnanda verið hafðar uppi kröfur vegna ætlaðra galla á frágangi gólfa.  Í svarbréfi lögmanns gagnstefnanda 2. júlí 1998 segir að gagnstefnandi telji sig eiga kröfur á hendur aðalstefnanda vegna galla á frágangi gólfa og vegna tafa á verkinu frá umsömdum verklokum 31. maí 1997 til desember 1997.

Eins og nánar verður greint síðar liggja frammi í málinu tveir reikningar aðalstefnanda á hendur gagnstefnanda vegna umrædds verks.  Annars vegar reikningur að upphæð 4.318.484 krónur, dagsettur 25. september 1997, samþykktur af Ingvari A. Guðnasyni sama dag og samdægurs greiddar inn á hann 2.000.000 króna.  Hins vegar reikningur að upphæð 944.672 krónur, dagsettur 14. janúar 1998 og samþykktur af Ingvari A. Guðnasyni sama dag en af reikningsfjárhæðinni hefur ekkert verið greitt.

Í bréfi lögmanns aðalstefnanda til lögmanns gagnstefnanda 18. janúar 1999 greinir frá því að forsvarsmaður VIÐ-REISNAR ehf., sem lagði í gólfin að Fiskislóð 82 sem undirverktaki aðalstefnanda, hafi mótmælt því að hafa ekki fengið að framkvæma lagfæringar á því sem var ekki fullnægjandi þegar hann vann verkið og að hann telji kostnað vegna lagfæringar hafa verið of mikinn.

Hinn 5. mars 1999 voru Freyr Jóhannesson byggingatæknifræðingur og Magnús Guðjónsson húsasmíðameistari dómkvaddir í  Héraðsdómi Reykjavíkur að beiðni gagnstefnanda máls þessa til að meta skil verktaka og galla á fasteigninni Fiskislóð 82, Reykjavík.  Í matsgerð, sem er dagsett 21. maí 1999, segir að á matsfundi hafi lögmaður aðalstefnanda lagt fram samantekt frá matsþola til matsmanna þar sem fram komi í þremur liðum athugasemdir hans vegna matsbeiðni en athugasemdirnar eru sem hér segir:  1)  Í byrjun mars 1997 hafi verkið stöðvast vegna þess að byggingarfulltrúi hafi ekki tekið við úttektarbeiðni þar sem ekki hafi legið fyrir þjöppunarmæling.  Af þeirri ástæðu hafi ekki verið hægt að hefja störf á nýjan leik fyrr en um 20. mars.  2)   Ósk verkkaupa um að  plötur í lagerhúsi yrðu ekki steyptar fyrr en þak væri komið á húsið hafi komið fram 22. apríl með þeirri afleiðingu að heildarverktíminn hafi lengst um fjórar til sex vikur þar sem þurft hafi að steypa í fleiri hlutum og við verri aðstæður.  3)  Vinnutími við þak hafi aukist um þrjár vikur þar sem þurft hafi að slá upp verkpöllum til að hægt væri að ganga frá þakinu en fyrirhugað hafi verið að nota hjólaverkpalla á steyptu gólfi.  Þá segir í matsgerðinni um matsfundinn að Hólmsteinn Björnsson hafi tekið fram að hann mótmælti sérstaklega tímasetningum í athugasemdunum.

Hér verður tilgreint í heild sinni efni niðurstöðukafla matsgerðarinnar sem hefur að geyma þau atriði, sem komu til mats samkvæmt matsbeiðni, og niðurstöður matsmanna:

1.    „Hvaða dag var verkinu í heild að full lokið“; samkvæmt 14. gr. grein viðbótarverksamnings aðila dags. 4.4. 1997, sbr. 8 gr. aðalsamnings dags. 1. 11.1996.“

      Matsmenn fá ekki séð að verkinu í heild sé ennþá að fullu lokið og lokaúttekt hefur ekki farið fram. Þó skal bent á að Ingvar A. Guðnason verkfræðingur hefur með áritun sinni á verkstöðureikninga staðfest að 95% af verkinu hafi verið lokið hinn 12. september 1997 og 14. janúar 1998 staðfestir hann að 97% of verkinu sé lokið.

2.    Að matsmenn meti hlutfallsleg (%) skil matsþola á verkinu til matsbeiðanda á hverjum tíma. Átt er við hlutfall afhentra og fullbúinna rýma af öllu húsinu, en þá er við það miðað að verkinu haft verið skilað í hlutum en ekki í einu lagi við lok verks.“

      Í verksamningi dags. l. nóv. 1996 segir í 8. grein: „Verkið hefst í byrjun nóv. 1996 og skal því lokið fyrir 1. apríl 1997“.

      Heildarupphæð verksamnings var kr. 29.577.600. Þetta eru um það bil 20 vinnu­vikur eða ca. 1.500.000 kr. á vinnuviku. Í viðbótarverksamningi sem undirritaður var 4. apríl 1997 hækkar samningsupphæðin í kr. 42.573.695. Sé miðað við sömu upphæð á viku tæki verkið í heild 28,4 vikur.

      Ingvar A. Guðnason verkfræðingur hjá Hönnun hf. staðfesti með áritun sinni á verkstöðu­reikningi þann 7. mars 1997 að búið sé að framkvæma 8% af verkinu þann 1. mars 1997 (á verkstöðureikningi dags. 9. maí stendur í verkstöðu- og súluriti að 6% haft verið lokið þann 1. mars 1997), en það mun hafa hafist upp úr miðjum janúar 1997.

      Ófyrirséðar tafir urðu á því að verkið gæti hafist á umsömdum tíma aðallega vegna þess að þjöppun fyllingar undir sökklum hússins var ekki fullnægjandi. Ýmsar aðrar ástæður urðu til þess að enn frekari seinkun varð á því að bygging hússins fór ekki í fullan gang fyrr en í mars 1997.

      Þann 25. sept. 1997 staðfesti IAG að 95% sé lokið af verkinu þann 12. sept. og 14. jan. 1998 er það staðfest að 97% af verkinu sé lokið.

      Erfitt er að skýra það ákvæði í verksamningi sem undirritaður var 4. apríl 1997 að verklok yrðu 31. maí 1997 en þann 1. apríl er um það bil 15% búið af verkinu sé miðað við línulegan framgang verksins frá 7. mars til 9. maí 1997.

      Telja verður að þegar 95% af verki af þessari gerð er lokið sé húsið „notkunarhæft“ eða tefji ekki frekari framkvæmdir þó svo nokkrum verkliðum sé ekki ennþá búið að ljúka að fullu. Samkvæmt því sem að framan segir tók verkið, sé tekið tillit til óvæntra tafa í byrjun verks, um það bil 30 vikur að viðbættum síðustu 5% af verkþáttum samnings.

      Segja má að verkið haft farið um það bil einn mánuð fram yfir þann tíma sem „andi“ verksamnings frá 1. nóv. 1996 gerir ráð fyrir og er þá ekki tekið tillit til tafa vegna viðgerða á gólfum. Þessa niðurstöðu byggja matsmenn á áritun og samþykki ráðgjafarverkfræðings á verkstöðureikninga og úttektum byggingarfulltrúa á einstökum verkþáttum á því tímabili er húsið var reist.

      Framvindu verksins verður best lýst með meðfylgjandi línuriti á bls. 7 sem byggt er á verkstöðuyfirliti verktakans sem voru fylgiskjöl reikninga hans og fylgdu með matsbeiðni þessari og eru samþykktir af  IAG sem var verkfræðilegur ráðgjafi verkkaupa. Einnig má vísa til svars við matslið 1 hér að framan og úttekta byggingarfulltrúa á einstökum verkþáttum, sjá fskj. 3.3 hér fyrir aftan.

3.   „Að matsmenn meti galla á flotefni sem lagt var á gólf, þannig:

a)  Að kveðið verði á um orsakir framkominna galla á ílögn.

b)  Að tjón matsbeiðanda vegna þessa galla verði metið, þ.e. hvað hefði kostað að koma gólfunum í umsamið ástand, þ.e. að gera þau tilbúin til dúklagnar, sbr. 1ið 2.2 í verklýsingu.”

a)  Eins og fram kemur í gögnum málsins urðu mistök við ílögn flotmúrs í gólfin hjá undirverktaka sem Eykt ehf. réði til verksins.  Svo virðist sem of mikið vatn hafi verið notað í blöndun flotmúrsins að hluta til og vélbúnaður við blöndun flotmúrsins ekki virkað rétt, þannig að yfirborð ílagnarinnar varð svo lint að hægt var að marka í það djúpar rispur með lykli.

      Þegar matsmenn komu fyrst á vettvang var búið að gera við gólfin í húsinu nema á svæði á 2. hæð sem merkt er „Smávörur“ á teikningu. Könnun matsmanna á því gólfi leiddi einnig í ljós að ílögnin þar var mjög lin og auðvelt að rispa eða skafa hana upp. Engin gögn er upplýsa um tafir vegna viðgerða á gólfum liggja fyrir í matsmáli þessu.

b) Matið miðast við aðstæður áður en viðgerð fór fram og þau máluð eða dúklögð.

      Metinn er kostnaður við að slípa efsta lag flotmúrs, gera við lausa bletti og styrkja með Epoxygrunni og endurflota gólfin.

Er þá viðgerðarkostnaður metinn sem hér segir:

      1007,5 m² x efni   640 kr/ m²  = 644.800

      1007,5 m² x vinna 960 kr/ m²  =967.200

                                                 kr. 1.612.000

3.     Að matsmenn meti galla á eftirfarandi verkliðum þ.e. hvort og með hvaða hætti verk þessi eru gölluð og kostnað við viðgerð þeirra eða tjón matsbeiðanda:

a)  Þakgluggi á fundarherbergi, en hann var brotinn við afhendingu.

b)  Þakgluggi á lager, en frágangi á göflum er ábótavant að mati

matsbeiðanda auk þess sem hann lekur.

c)  Niðurfall á lager, en það var og er stíflað.

d)  Frágangur brunna á skolplögnum.”

      Viðgerð er metin sem hér segir:

a    Nýr þakgluggi á fundarherbergi:

      Efnikr.31.000

      Vinnakr.28.000

      kr.59.000

b)  Þakgluggi á lager,

      skipt um áfellur á göflum og þétta við úthorn:

      Efnikr.10.600

      Vinnakr.18.400

      kr.29.000

c)  Steypa í sár kringum niðurfall á lager:

      Efnikr.4.700

      Vinnakr.8.400

      kr.13.100

      Heildarmatsfjárhæð er krónur 1.713.100 – einmilljónsjöhundruðogþrettánþúsund­ogeitthundrað 00/100.

Matsmennirnir staðfestu matið við aðalmeðferð málsins.

Með bréfi 25. maí 1999 sendi lögmaður gagnstefnanda lögmanni aðalstefnanda matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna. Þar er vísað til þess að gallar á verkinu hafi verið metnir samtals að fjárhæð 1.713.000 krónur, matsmenn telji að 95% verksins hafi verið lokið 12. september 1997, en þá hafi það dregist um 103 daga og lofaðar tafabætur nemi á þeim degi 4.635.000 krónum, og kostnaður matsmanna nemi 249.253 krónum.  Sett er fram krafa um að aðalstefnandi greiði gagnstefnanda samkvæmt þessu 6.597.253 krónur auk vaxta og kostnaðar en frá kröfunni dragist kröfur aðalstefnanda, samtals 5.458.216 krónur, samkvæmt bréfi lögmanns hans dags. 11. júní 1998.

III

Málsástæður aðila í aðalsök.

A

Höfuðstóll dómkröfu stefnanda er þannig sundurliðaður:

1)  Reikningur nr. 616 að upphæð 4.544.232 krónur.  Reikningur þessi, sem er dagsettur 25. september 1997, hljóðar um verkstöðureikning nr. 7 að upphæð 4.514.954 krónur.  Til frádráttar er 5% geymslufé 225.748 krónur en bætt er við verðbótum 29.278 krónum.  Niðurstöðufjárhæð reikningsins er því 4.318.484 krónur.  Hann er áritaður 25/9 1997 um innborgun að upphæð 2.000.000 króna.  Kröfugerðin felur í sér að geymslufé er ekki dregið frá höfuðstól reikningsins.

2)  Reikningur nr. 668 að upphæð 994,000 krónur.  Reikningur þessi, sem er dagsettur 14. janúar 1998, hljóðar um verkstöðureikning nr. 8 að upphæð 987.650 krónur.  Til frádráttar er 5% geymslufé 49.383 krónur en bætt er við verðbótum 6.405 krónum.  Kröfugerðin felur í sér að geymslufé er ekki dregið frá höfuðstól reikningsins.

3)  Geymslufé sem stefndi hefur samkvæmt samkomulagi haldið eftir við greiðslu reikninga dags. 6. mars, 9. maí, 4. júní, 26. júní, 29. júlí og 26. ágúst á árinu 1997.  Samtals nemur geymsluféð 1.865.025 krónum og með verðbótum frá greiðsludögum 1.919.578 krónum.  Á framlögðu skjali, sem hefur að geyma sundurliðun geymslufjár og verðbóta á það, stendur að dráttarvextir reiknist frá 1. mars 1998 til greiðsludags.

4)  Aukaverk samkvæmt reikningi 15. júlí 1999 að upphæð

3.162.916 krónur sem sundurliðast þannig:

“A.  Samkvæmt fylgiskjali 1 á dskj. nr. 6 telur stefnandi að honum beri kr. 910.200 í álagsgreiðslu vegna vetrarframkvæmda við undirstöður, en vegna þess hvað dróst að hægt væri að hefja verkið þurfti að steypa undirstöður og hluta veggja við vetraraðstæður. Ljóst er að vinna við undirstöður eru allt aðrar í nóvember og desember en í janúar og febrúar og metur stefnandi kostnaðaraukninguna við það vera 20% af kostnaðarverði.

B.  Á fylgiskjali nr. 2 á dskj. nr. 6 gerir stefnandi kröfu þess efnis að sér verði greiddur kostnaður við þjöppuprófun sem hann stóð fyrir þegar í ljós kom að fyllingin undir sökklum hafði ekki verið þjöppuprófuð áður en beðið var úttektar á sökkulveggjum. Um er að ræða útlagðan kostnað auk álags og vinnuframlags, samtals að fjárhæð kr. 36.222.

C.  Stefnandi gerir þá kröfu sbr. fylgiskjal 3 á dskj. 6 að sér verði endurgreiddur útlagður kostnaður vegna klakabrots við þjöppuprófun, álag og vinnuframlag stefnanda við klakabrotið og nemur krafan samtals kr. 34.857.

D.  Stefndi óskaði eftir að gerður yrði sérstakur lagnastokkur í grunni hússins sbr. fylgiskjal nr. 4 á dskj. nr. 6. Við uppgjör á því viðbótarverki notaði stefndi einingarverð það sem gilti fyrir sökkla. Þá er um að ræða útlagðan kostnað vegna stálplötu svo og vinnuframlags. Samtals nemur kostnaðurinn kr. 85.360.

E.  Stefnandi sá um að leggja rafmagn í skyggni á húsinu sbr. fylgiskjal 6 á dskj. nr. 6. Stefán Ólafsson rafverktaki annaðist það verk og gerði stefnanda reikning vegna þess. Útlagður kostnaður ásamt álagi og framlagðri vinnu nemur samtals kr. 34.934.

F.  Stefndi óskaði eftir því seinni hluta aprílmánaðar 1997 að botnplatan yrði ekki steypt fyrr en húsinu hefði verið lokað. Aukið álag er vegna plötusteypu við þær aðstæður og nemur aukakostnaður vegna þess kr. 400 pr. fermetra, sbr. fylgiskjal 7 á dskj. 6. Miðað við ca. 1000 fermetra af steyptu gólfi nemur viðbótarkostnaðurinn kr. 400.000.

G.  Stefnandi hefur gert þá kröfu að fá greitt fyrir aukaverk þar sem ekki hafi verið hægt að vinna við þakið af steyptu gólfi með hjólapöllum heldur hafi þurft að reisa sérstaka timburpalla. Aukakostnaður vegna smíði pallsins er kr. 200.000, sbr. fylgiskjal nr. 8 á dskj. nr. 6, sbr. einnig dskj. nr. 15, sem er uppmælingablað vegna smíði pallanna.

H.  Samkvæmt samþykktu tilboði stefnanda í bygginguna að Fiskislóð, sem fram kemur á dskj. nr. 8, var gert ráð fyrir að stefnandi klæddi allt húsið að utan. Hljóðaði samþykkta tilboðið í þann verkhluta upp á kr. 8.480.000 sem var um 24% of heildar tilboðsfjárhæðinni í allt verkið. Í fjárhæð þeirri var þá tekið tillit til þess að þessi verkliður tæki að einhverju leyti þátt í samkostnaðinum við heildarverkið.

Stefndi óskaði síðar eftir því að frestað yrði að verkliðurinn yrði framkvæmdur. Var þessi liður því í upphafi ekki tekinn með inn í verksamninginn en til stóð að ganga frá honum endanlega síðar eins og í upphafi var fyrirhugað með þakið.

Af því varð aldrei og fékk stefndi aðra til að vinna verkið. Þar sem stefnandi hafði í upphafi reiknað með að liðurinn frágangur útveggja tæki að fullu þátt í samkostnaðinum við bygginguna, varð svo ekki þegar stefndi óskaði eftir að losna frá þeim hluta samþykkta tilboðsins. Stefnandi gerir ráð fyrir að 5% af tilboðsverði í utanhússklæðninguna hafi verið vegna samkostnaðar en samþykkta tilboðsverðið nam kr. 8.486.000 og er krafa stefnanda vegna niðurfellingar þessa tilboðsliðar þannig kr. 424.300.

I.  Stefndi hafði afnot af veitukerfi stefnanda, en heimtaug var ekki tekin inn í húsið fyrr en í október 1997. Stefnandi reiknar kostnað vegna þessarar notkunar vera samtals kr. 95.000 sbr. fylgiskjal nr. 10 á dskj. nr .6.

J.  Stefnandi telur að þakgluggi sá sem verið var að setja á þakið og var að mestu uppsettur þegar fyrirmæli komu frá stefnda um að setja aðra tegund af glugga hafi verið fullkomlega í samræmi við útboðslýsingu. Sú tegund sem stefnandi hafði sett upp var of Optilite gerð en sá gluggi sem síðar var beðið var um að settur yrði upp var af Eferlite gerð.

Samkvæmt fylgiskjali 11 á dskj. nr. 6 telur stefnandi aukakostnað vegna gluggaskiptanna hafi numið samtals kr. 705.373. Er sú fjárhæð ítarlega sundurliðuð á fylgiskjali 11.

K.  Stefnandi lagði til litað gólfhersluefni í botnplötu í geymslu að ósk stefnda. Verð á fermeter reiknast vera kr. 90 og gerir stefnandi kröfu um að stefndi greiði sér vegna þess samtals kr. 90.000, sbr. fylgiskjal 12 á dskj. nr. 6.

L.  Stefnandi lagði stefnda til gluggamót ásamt kverklistum sbr. fylgiskjal 13 á dskj. nr. 6. Fyrir þetta ber stefnda að greiða stefnanda samtals kr. 26.670.

M.  Þegar í ljós kom að burðarhæfni fyllingar var í óvissu og verk stöðvaðist var nauðsynlegt fyrir stefnanda að færa til mannafla og búnað. Stefnandi telur kostnað vegna þessa nema kr. 120.000.”­

Stefnandi byggir kröfugerð sína á verksamningum þeim sem hann gerði við stefnda.  Kveður hann ágreining ekki munu vera um fjárhæð reikninganna eða endurgreiðslu geymslufjár.

Að því er varðar kröfur um greiðslur fyrir aukaverk vísar stefnandi til þeirra ákvarðana sem hafi verið teknar sameiginlega á verkfundum aðila.  Greiðslur þessar séu fyllilega í samræmi við það, sem um hafi verið talað milli aðila, og verði að telja allar fjárhæðir sanngjarnar og eðlilegar.

B

Stefndi gerir eftirfarandi athugasemdir við kröfur stefnanda:

1.  Reikningur nr. 616 að fjárhæð 4.514.954 krónur, dags. 25.9.1997.

Til greiðslu hafi verið 4.318.484 krónur.  Þar af hafi stefndi þegar greitt 2.000.000 króna og eftirstöðvar reikningsins því 2.318.484 krónur auk geymslufjár 225.748 króna.  Einnig séu dráttarvextir ofkrafðir þar sem á reikningum stefnanda standi að dráttarvextir af reikningsfjárhæð reiknist fyrst 30 dögum eftir útgáfu reiknings.

2.  Reikningur nr. 668, að fjárhæð 987.650 krónur, dags. 14.1.1998.

Um þennan reikning gerir stefndi sömu athugasemdir og varðandi reikning nr. 616 um meðferð geymslufjár og dráttarvexti.

3.  Geymslufé.

Stefndi telur geymslufé vantalið um 275.131 (225.748 +49.383) krónu og að sama skapi kröfur vegna reikninga nr. 616 og 668 oftaldar um sömu fjárhæð.  Þá sé bæði krafist dráttarvaxta og verðbóta af  geymslufé fyrir febrúar 1998 án þess að skýringar séu gefnar á því.  Samkvæmt 5. gr. verksamnings aðila frá 1. nóvember 1996 sé gjalddagi geymslufjár ekki kominn þar sem stefnandi hafi aldrei að fullu lokið verkinu og ekki hafi farið fram lokaúttekt eða lokauppgjör.

4.  Reikningur vegna aukaverka.

Stefndi hafnar algerlega þessum reikningi sem hafi verið gefinn út af stefnanda sem viðbrögð við niðurstöðum matsmanna og bréfi stefnda frá 25. maí 1999.  Engar kröfur um aukagreiðslur eða greiðslur fyrir meint “aukaverk” hafi komið frá stefnanda fyrir þann tíma, sbr. m.a. kröfubréf lögmanns stefnanda dags. 11. júní 1998.

Stefndi telur óviðeigandi að rökstyðja kröfuna með vísan til “verkfunda” aðila enda hafi slíkir fundir eða samþykktir eða umræður ekki átt sér stað.

Þá byggir stefndi á því að þessa kröfur séu niður fallnar að því leyti sem þær séu ekki innifaldar í heildarverkinu eða séu beinlínis óréttmætar.  Í þessu sambandi bendir stefndi á að í 5. gr. verksamnings aðila segi að reikninga skuli gera fyrir verkið hálfsmánaðarlega eftir framgangi þess. Skuli reikningar þessir vera fullnaðarreikningar fyrir hvern verkþátt og hafi stefnanda borið að gera reikning hverju sinni fyrir öllum þeim kostnaði sem hann taldi fylgja hverjum verkþætti.  Stefndi bendir á ákvæði 7. gr. verksamnings aðila þar sem segi að engar breytingar megi gera á verkinu nema með samþykki verkkaupa.  Nái ákvæði þetta einnig til kostnaðar af framkvæmd verksins.  Hafi stefnandi talið sig eiga rétt til frekari greiðslna fyrir verkið eða talið að umsamið verð væri ófullnægjandi, t.d. vegna vetrarálags  o.fl., hafi honum borið að semja um eða láta reyna á samninga um greiðslur fyrir slíkt við gerð viðbótarsamnings.   Þá byggir stefndi á ákvæðum 16. kafla ÍST 30 um aukaverk en megininntak þeirra er að verktaki skuli kynna allar kröfur vegna aukaverka eða breytinga áður en hann framkvæmir þau og leita samninga við verkkaupa.  Geri verktaki það ekki glati hann rétti til greiðslu fyrir þau verk.  Einnig vísar stefndi til greina 32.6 og 32.8 í ÍST 30.

Sýknukrafa stefnda er reist á því að hann eigi mun hærri kröfur á hendur stefnanda en sem nemur réttmætum kröfum stefnanda á hendur sér en þær hafi hann  þegar greitt með skuldajöfnuði.

Stefndi gerir ekki efnislegar athugasemdir við höfuðstól eftirfarandi krafna stefnanda:

1.  Vegna reikn. 616, eftirstöðvar

2.  Vegna reiknings 668

3.  Geymslufé, eins og reiknað af stefnanda auk kr. 275.131

 kr. 2.318.484

 kr.    944.672

 

 kr.  2.194.709

Samtals

 kr.  5.457.865

 

Stefndi telur sig eiga kröfur á hendur stefnda sem nemi hærri fjárhæðum eða alls 9.205.600 krónum, annars vegar vegna galla á verkinu samkvæmt mati dómkvaddra matsmanna 1.713.100 krónur og hins vegar tafabætur að fjárhæð 7.492.500 krónur.

Stefndi hafi nýtt sér skýran og skilyrðislausan rétt sinn eftir ákvæði 24.6.7 í ÍST 30 til þess að draga gjaldfallnar tafabætur frá kröfu stefnanda samkvæmt reikningum útgefnum 25.9.1997 og 14.1.1998 auk þess sem hann hafi haldið eftir greiðslum vegna kostnaðar af væntanlegri viðgerð samkvæmt grein 20.6 í ÍST 30.  Þá hafi stefnda verið heimilt að halda eftir umsömdu geymslufé þar til stefnandi hefði að fullu lokið við framkvæmdir og uppgjör farið fram.  Stefndi hafi því á hverjum tíma verið skuldlaus við stefnanda vegna hinna umkröfðu reikninga.  Því krefst hann þess að vera sýknaður af kröfum stefnanda auk þess að fá sjálfstæðan dóm um kröfur sínar í gagnsök.  Verði ekki fallist á að stefnda hafi verið heimilt að halda eftir greiðslum vegna vanefnda stefnanda og tafabóta og skuldajafna jafnóðum við kröfur stefnanda er á því byggt að stefnandi hafi með bréfi, dags. 25.5.1999, sannanlega lýst yfir skuldajöfnuði við kröfur stefnanda. 

Kröfum stefnanda um dráttarvexti er sérstaklega mótmælt.   Verði talið að stefnandi eigi kröfur á hendur stefnda telur stefndi að ekki beri að dæma dráttarvexti frá fyrri tíma en uppkvaðningu dóms.

IV

Málsástæður aðila í gagnsök.

A

Stefnandi byggir kröfur sínar á hendur stefnda á verksamningum aðila og almennum reglum kröfuréttar um skaðabætur innan samninga.

Stefnandi styður kröfu sína um tafabætur við ákvæði viðbótarverksamnings, dags. 4. apríl 1997, um að þær skyldu reiknast 45.000 krónur fyrir hvern almanaksdag sem verktími drægist fram yfir umsamin verklok 31. maí 1997. 

Stefnandi hafnar málsástæðum stefnda þess efnis að einhver atvik hafi átt sér stað eftir gerð framangreinds samnings sem hafi leitt til tafa á verkinu.  Samningurinn hafi verið endanlegur og bindandi um framhenginu á verkinu og fjárhæðir vegna þeirra atvika og athafna sem fram hafi komið fyrir þann tíma.  Eftir samningsgerðina hafi aðilar ekki átt frekari kröfur hvor á annan vegna tímabilsins, sem þá var liðinn, hvort sem væri vegna tafa, aukaverka eða annars.  Sjónarmiðum stefnda um að samningur aðila, sem hafi verið gerður og undirritaður 4. apríl 1997, hafi komist á fyrr, er hafnað sem röngum.  Enga þýðingu hafi að stefndi hafi fyrir gerð samningsins skipst á tillögum og hugmyndum um einingaverð að einstökum verkþáttum við Ingvar A. Guðnason.  Jafnvel þótt aðilar hafi fyrr orðið ásáttir um einingaverð, sem þeir hafi verið tilbúnir að ganga til samninga um, hafi samningurinn ekki komist á fyrr en við undirritun þann 4. apríl 1997 enda hafi þeir fram að þeim tíma getað fallið frá því að gera samninginn.

Stefnandi heldur því fram að þegar samið hafi verið um að stefndi tæki að sér smíði þaksins hafi jafnframt verið rætt um að eðlilegra og betra verklag væri að steypa ekki botnplötu og slípa fyrr en eftir að þak væri komið yfir.  Hafnað er sjónarmiðum og kröfum stefnda, sem lúta að því að stefnandi hafi þ. 22. apríl 1997 óskað eftir því 2. apríl að verkinu yrði “breytt” að því er tekur til þessa, þar sem enginn fótur sé fyrir þeim og í öðru lagi vegna þess að hafi stefndi viljað hafa uppi kröfur vegna þessa þáttar hafi honum borið að gera það strax og áður en hafist var handa við verkið.

Stefnandi vísar til niðurstöðu matsmanna um að 95% verksins hafi verið lokið 12. september 1997.  Af sanngirnisástæðum sé krafist 100% tafabóta til þess dags enda hafi stærstu þáttum verksins þá verið lokið þannig að stefnandi hafi getað hafi vinnu innanhúss.  Við úttekt 15. janúar 1998 hafi verið lokið við að setja upp risglugga og endurlagningu flots og frágangi gólfa hafi lokið í janúar 1998.  Krefst stefnandi 50% tafabóta fyrir tímabilið 12. september 1997 til 15. janúar 1998.  Samkvæmt þessu krefst stefnandi tafabóta að upphæð 45.000 krónur á dag í 104 daga og að upphæð 22.500 krónur á dag í 125 daga eða samtals 7.492.500 krónur.

Stefnandi krefst skaðabóta vegna galla á verki stefnda að upphæð 1.713.000 krónur á grundvelli niðurstöðu matsgerðar. 

Varðandi galla á gólfi er tekið fram að þegar stefnandi hafi látið lagfæra hann í síðari hluta desember 1997 og janúar 1998 hafi stefndi ekki enn sýnt tilburði í þá átt að lagfæra hann og ekki hreyft andmælum við því að stefnandi leitaði til annars aðila um lagfæringu á gólfinu þótt honum hafi mátt vera ljóst að mjög miklu varðaði fyrir stefnanda að viðgerð yrði hraðað.  Byggir stefnandi á því að hafi stefndi átt rétt til að annast sjálfur um viðgerð á framkomunum göllum hafi sá réttur fallið niður þar sem hann hafi hvorki nýtt sér hann né tilkynnt stefnanda innan hæfilegra tímamarka að hann krefðist þess.

Stefnandi kveðst hafa nýtt sér skýran og skilyrðislausan rétt sinn eftir ákvæði 24.6 í ÍST 30 til þess að draga gjaldfallnar tafabætur frá kröfum stefnda samkvæmt reikningum útgefnum 25. september 1997 og 14. janúar  1998 auk þess sem hann hafi haldið eftir greiðslum vegna kostnaðar af væntanlegri viðgerð samkvæmt grein 20.6, sbr. einnig grein 30.3, í ÍST 30.

Stefnandi krefst dráttarvaxta frá 15. janúar 1998 en þá hafi skýr gögn legið fyrir um kröfur hans og þær verið þegar gjaldfallnar.

B

Um verklok og dagsektarkröfu vísar stefndi til niðurstöðu matsmanna um að heildartafir hafi numið 30 dögum og að matsmenn telji erfitt að skýra verklokaákvæði viðbótarsamningsins þar sem  aðeins hafi verið unnið 15% af heildarverkinu við undirritun hans.  Viðbótarverksamningurinn hafi verið gerður 11. febrúar 1997 með því að verkkaupi hafi samþykkt tilboð bjóðanda um þau atriði sem tilgreind hafi verið í útboðsgögnum og tilboði.  Hann hafi haft að geyma viðbót að því er varðaði frágang á þakinu og ísetningu glugga og hurða.  Síðar hafi stefnandi tekið sjálfur að sér að setja í glugga og hurðir og hafi sú ákvörðun tafið framgang verksins.  Margt hafi orðið til að breyta því að sú tímasetning stæðist sem ákveðin hafi verið í febrúarmánuði.  Í byrjun mars hafi komið í ljós að embætti byggingarfulltrúa hafi neitað um úttekt nema fram færi burðarþolsprófun á fyllingunni undir húsið sem stefnandi hafi vanrækt.  Við  þetta hafi verkið tafist fram til 7. apríl eða í 34 daga.  Þann 22. apríl  hafi komið fram krafa frá stefnanda um að botnplatan í húsinu yrði ekki steypt fyrr en veggir hefðu verið steyptir.  Af þessu hafi leitt lengingu verktímans við að steypa plötuna allt að 20 dögum.  Þá hafi tekið mun lengri tíma en ella að vinna við gerð þaksins þar sem ekki hafi verið hægt að koma við hreyfanlegum vinnupöllum eins og á steyptu gólfi.  Verkinu hafi seinkað um a.m.k. 5 daga við það að stefnandi hafi gefið fyrirmæli um að rífa niður þakglugga  og setja annan í staðinn.  Stefnandi hafi fengið húsið afhent um 20. júlí þegar smiðir á hans vegum hafi farið að vinna við utanhúsklæðningu og gluggaísetningu en útilokað hafi verið að steypa og leggja í gólf fyrr en búið hafi verið að loka húsinu.

Stefndi færir fram þá málsástæðu varðandi galla í gólfílögn að hann eða  undirverktaki hans hafi ekki átt þess kost að lagfæra gólfið þótt hann hafi boðist til þess og undirverktakinn hafi gert ítrekaðar tilraunir til að fá að lagfæra það en ávallt verið hafnað.  Afstöðu stefnanda hafi verið harðlega mótmælt af stefnda.  Vísar stefndi um rétt sinn til 49. gr. kaupalaga nr. 39/1922 og reglna í ÍST staðli 30.

V

Um kröfuliði aðalstefnanda í aðalsök:

Í samræmi við viðurkenningu gagnstefnanda er fallist á greiðsluskyldu hans samkvæmt reikningi nr. 616 að því undanskildu að fallist er á að frá höfuðstól hans skuli draga 2.000.000 króna sem greiddar voru þegar við útgáfu reikningsins svo og að samkvæmt samningi aðila beri að draga frá höfuðstól reikningsins geymslufé að upphæð 225.748 krónur og skal sú fjárhæð bætast við kröfulið aðalstefnanda vegna geymslufjár.  Rétt fjárhæð verður þannig 2.318.484 krónur.

Í samræmi við viðurkenningu gagnstefnanda er fallist á greiðsluskyldu hans samkvæmt reikningi nr. 668 að því undanskildu að fallist er á að frá höfuðstól hans skuli samkvæmt samningi aðila draga geymslufé að  upphæð 49.383 krónur og skal sú fjárhæð bætast við kröfulið aðalstefnanda vegna geymslufjár.  Rétt fjárhæð verður þannig 944.672 krónur.

Í samræmi við viðurkenningu gagnstefnanda er fallist á greiðsluskyldu hans vegna geymslufjár.  Við kröfuliðinn, sem nemur 1.919.578 krónum, bætast samkvæmt framangreindu 275.131 króna þannig að heildarfjárhæð hans, sem tekin verður til greina, verður 2.194.709 krónur.

Varðandi reikning vegna aukaverka er fallist á sjónarmið gagnstefnanda sem lúta að tómlætisáhrifum. Í kröfubréfi aðalstefnanda 11. júní 1998 er ekki minnst á kröfu vegna aukaverka og er reikningur vegna þeirra dagsettur 15. júlí 1999.  Í ÍST 30, sem var hluti af samningi aðila, eru ákvæði sem þýðingu hafa að þessu leyti eins og hér verður greint.  Í grein 16.2 segir að verktaki eigi rétt á sérstakri greiðslu vegna aukins kostnaðar, sem af breytingu leiðir, ef hann hefur gert kröfu um það áður en byrjað var á vinnu við breytingar.  Í grein 32.2 segir að verktaki skuli skila mánaðarlega skrá yfir hugsanlegar kröfur um greiðslur vegna aukaverks og breytinga og gera rökstudda grein fyrir þeim.  Í grein 32.6 segir að verktaki skuli senda verkkaupa fullnaðarreikning vegna verksins innan tveggja mánaða frá því að hann skilaði verkinu í hendur verkkaupa.  Á reikningi þessum skuli m.a. greina allar kröfur um greiðslur vegna aukaverka og breytinga.  Í grein 32.8 segir að eftir að verktaki hafi lagt fullnaðarreikning fram geti hann ekki haft uppi frekari kröfur.  Niðurstaða dómsins er sú að þegar vegna tómlætis aðalstefnanda, á grundvelli almennrar reglu kröfuréttar um réttaráhrif tómlætis og með vísun til framangreindra samningsákvæða, beri að sýkna gagnstefnanda af þessum kröfulið.

Um kröfur gagnstefnanda; um skuldajöfnuð í greinargerð í aðalsök og um skuldajöfnuð og sjálfstæðan dóm í gagnstefnu:

A.  Krafa varðandi tafabætur.

Gagnstefnandi setti ekki fram kröfu á hendur aðalstefnanda um tafabætur fyrr en með bréfi dags. 25. maí 1999.  Við munnlegan flutning málsins færði lögmaður  aðalstefnanda fram þá nýju málsástæðu varðandi kröfu gagnstefnanda um tafabætur að hún hefði komið of seint fram.  Lögmaður gagnstefnanda mótmælti málsástæðu þessari sem of seint fram kominni.  Fallist er á þau andmæli.

Fram er komið að viðbótarverksamningur hafi verið frágenginn og tilbúinn til undirritunar eigi síðar en um mánaðamótin febrúar/mars 1997.  Engu að síður eru engin rök til að haggað verði því ákvæði samningsins, sem undirritaður var 4. apríl 1997, að verkinu skyldi í heild að fullu lokið fyrir 31. maí 1997 í stað 1. apríl s.á. eins og áður hafði verið um samið.  Af því leiðir að ekki verður litið til atvika sem fyrir þann tíma kunna að hafa valdið ófyrirséðum töfum á verkinu.  Í málinu heldur aðalstefnandi því einnig fram að síðar hafi komið til ýmissa aukaverka og breyttrar verktilhögunar að ósk gagnstefnanda.  Við ákvörðun tafabóta verður ekki tekið tillit til þessa þar sem aðalstefnandi fór ekki í þessu efni að samkvæmt því sem segir í grein 24.3 í ÍST 30:  “Ef verktaki telur sig eiga rétt á framlengingu á fresti skal hann tafarlaust tilkynna verkkaupa það skriflega.  Hann skal, ef þess er krafist, færa sönnur á að töfin hafi hlotist af þeim atvikum sem hann ber fyrir sig.”

Matsgerð hefur ekki þýðingu um það sem í henni segir, þar sem þar er farið út fyrir matsbeiðni:  “Segja má að verkið hafi farið um það bil einn mánuð fram yfir þann tíma sem “andi” verksamnings frá 1. nóv. 1996 gerir ráð fyrir og er þá ekki tekið tillit til tafa vegna viðgerða á gólfum.”

Með vísun  til þess, sem fram kemur á verkstöðureikningi nr. 8, dags. 14. janúar 1998, hafa verkþættir samtals að upphæð 1.109.850 krónur verði felldir brott af umsömdu verki.  Eftir að aðalstefnandi hafði hafið vinnu við uppsetningu á risglugga óskaði gagnstefnandi eftir því að glugga af annarri gerð yrði komið fyrir í stað hins.  Töf á afhendingu verksins af þessari ástæðu ber ekki að telja með þegar fundinn er grundvöllur tafabóta.  Þá ber ekki að telja til tafar á verki aðalstefnanda þann tíma sem tók að gera við galla í gólfum.  Að þessu athuguðu er það niðurstaða hinna sérfróðu meðdómenda að 12. september 1997 hafi 98,8% verksins verið lokið og að 15. janúar 1998 hafi verkinu verið að fullu lokið.  Dómurinn lítur svo á að dagsetningin 12. september verði metin sem lokadagsetning varðandi töf á verkinu.

Fram er komið að gagnstefnandi hafi hafið framhaldsvinnu við húsið, m.a. við gluggaísetningu og klæðningu utanhúss, 20. júlí 1997.  Í því efni vísast til greinar 28.10 í ÍST 30 en þar segir:  “Taki verkkaupi verkið eða hluta þess í notkun án úttektar telst verktaki hafa skilað þeim verkhluta af sér sem verkkaupi tekur í notkun. . . .”  Að þessu athuguðu er það niðurstaða dómsins að rétt sé að fullar tafabætur, 45.000 krónur fyrir hvern dag, verði reiknaðar tímabilið 31. maí 1997 til 20. júlí s.á. eða í 50 daga.  Fjórðungur fullra tafabóta, 11.250 krónur fyrir hvern dag, verði reiknaðar tímabilið 20. júlí 1997 til 12. september s.á. eða í 54 daga, sbr. greinar 24.6.3 og 24.6.4 í ÍST 30.  Samtals nemur fjárhæð tafabóta því 2.857.500 krónum.

B.  Skaðabætur vegna galla.

Gagnstefnandi krefst undir þessum lið 1.713.100 króna á grundvelli mats hinna dómkvöddu matsmanna sem hefur ekki verið hnekkt.  Varðandi mótbárur aðalstefnanda gegn þeim hluta kröfunnar sem lýtur að galla á gólfi er niðurstaða dómsins sem hér verður greint.  Aðalstefnandi hafði ekki frumkvæði að því að sinna viðgerð og ljúka þar með verki sínu.  Kröfur hans í þessu efni voru ekki settar fram nægilega fljótt og ákveðið enda var gagnstefnandi kominn í tímaþröng með aðra verkþætti sem voru háðir því að áður væri gert við gólfið.  Undirverktaki aðalstefnanda setti ekki fram við forsvarsmenn gagnstefnanda kröfu um að framkvæma viðgerð.  Samkvæmt þessu er bótakrafan að fullu tekin til greina.

Samkvæmt framangreindu er niðurstaða málsins sem hér verður greint.

Í aðalsök er fallist á kröfur stefnanda samtals að upphæð 5.457.865 (2.318.484 + 944.672 + 2.194.709) krónur.  Fallist er á skuldajafnaðarkröfu stefnda að upphæð 4.570.600 (2.857.500 + 1.713.100) krónur.  Ber því að dæma stefnda til að greiða stefnanda 887.265 krónur með vöxtum eins og greinir í dómsorði.

Af framangreindu leiðir jafnframt að í gagnsök ber að sýkna stefnda af kröfu stefnanda um sjálfstæðan (aðfararhæfan ) dóm.

Ákveðið er að hvor aðili, aðalsakar og gagnsakar, skuli bera kostnað sinn af rekstri málsins.

Mál þetta dæma Sigurður Hallur Stefánsson héraðsdómari og meðdómendurnir Atli Ólafsson byggingafræðingur og Steingrímur Hauksson tæknifræðingur.

D ó m s o r ð:

Í aðalsök greiði stefndi, Ísfell ehf., stefnanda, Eykt ehf., 887.265 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 11. júlí 1998 til greiðsludags.

Í gagnsök er stefndi sýknaður af kröfu stefnanda um sjálfstæðan dóm.

Málskostnaður fellur niður.