Hæstiréttur íslands

Mál nr. 254/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Málskostnaðartrygging


Miðvikudaginn 10

 

Miðvikudaginn 10. júní 2009.

Nr. 254/2009.

ÖJ-Arnarson ehf.

(Þórður H. Sveinsson hdl.)

gegn

Kistuhlíð ehf.

(Skarphéðinn Pétursson hrl.)

 

Kærumál. Málskostnaðartrygging.

Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um að Ö yrði gert að setja málskostnaðartryggingu í máli sem fyrirtækið hafði höfðað gegn K, en fjárhæð tryggingarinnar var lækkuð.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari. 

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. maí 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. apríl 2009, þar sem sóknaraðila var gert að setja, innan þriggja vikna frá uppsögu úrskurðarins, tryggingu í formi bankabókar eða bankatryggingar að fjárhæð 800.000 krónur fyrir greiðslu málskostnaðar í máli sínu gegn varnaraðila. Kæruheimild er í o. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að fjárhæð tryggingar verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði hefur varnaraðili til stuðnings kröfu sinni um málskostnaðartryggingu vísað til árangurslausra fjárnáma sem gerð hafa verið hjá sóknaraðila, þau nýjustu 15. janúar 2009. Sóknaraðila hefur ekki tekist að hnekkja þeim líkum, sem af þessu leiðir fyrir því að hann sé ófær um að greiða málskostnað ef sá kostnaður verður á hann felldur í ofangreindu máli hans gegn varnaraðila. Að þessu virtu og með vísan til b. liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 verður staðfest sú niðurstaða héraðsdómara að varnaraðila beri að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar. Með hliðsjón af gögnum málsins og umfangi þess verður fjárhæð málskostnaðartryggingar ákveðin eins og í dómsorði greinir.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Sóknaraðila, ÖJ-Arnarsyni ehf., ber að leggja fram tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar að fjárhæð 500.000 krónur í því formi, sem greinir í hinum kærða úrskurði, innan þriggja vikna frá uppsögu þessa dóms.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur  22. apríl 2009.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 26. mars sl., er höfðað af ÖJ Arnarsyni ehf. kt. 421203-3180, Flugumýri, Garðabæ, á hendur Kistuhlíð ehf., kt. 411007-0490, Lágmúla 6, Reykjavík.

 Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 13.121.274 króna ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 31. mars 2008 til greiðsludags. Einnig er krafist málskostnaðar.

 Við þingfestingu málsins þann 19. mars sl. krafðist stefndi málskostnaðar­tryggingar úr hendi stefnda með vísan til b-liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála vegna líkinda fyrir ógjaldfærni stefnanda. Málinu var þá frestað til 26. mars til munnlegs málflutnings um þessa kröfu stefnda.

 Stefnandi mótmælir kröfunni.

 Til stuðnings kröfu sinni vísar stefndi til þess að samkvæmt vanskilaskrá hafi stefnandi fengið á sig 27 færslur frá hausti 2008. Þar af hafi verið skráð á hann níu árangurslaus fjárnám þann 15. janúar sl. Af þessu megi draga þá ályktun að stefnandi sé ekki fær um greiðslu málskostnaðar. Í ljósi þess að stefnufjárhæðin sé allhá og málið sé flókið og umfangsmikið og ekki sé loku skotið fyrir það að stefndi þurfi að láta dómkveðja matsmenn þá krefst stefndi þess að tryggingin verði að lágmarki tvær milljónir.

 Stefnandi byggir mótmæli sín við kröfunni á því að málsóknin sé hvorki til­efnis­laus né óþörf. Hún sé vegna reiknings sem hafi upphaflega numið 24. milljónum króna en hafi nú verið lækkaður niður í 13 milljónir króna. Ástæða árangurslausra fjárnáma á hendur stefanda stafi af því að stefndi hafi ekki greitt þann reikning sem stefnandi hafi nú höfðað mál til greiðslu á. Stefnandi vísar sérstaklega til rafpósts frá stefnda þar sem stefndi fallist á mat mælingamanns á umfangi verk sem ágrein­ing­urinn snúist um. Nemi verðmæti þess þáttar um 7 milljónum króna og auk þess hafi stefndi ekki mótmælt þeim lið reikningsins sem nemi 4,4 milljónum króna.

 Vissulega gefi árangurslaus fjárnám tilefni til að ætla að erfitt geti orðið fyrir stefnanda að greiða málskostnað. Enginn hafi þó séð ástæðu til að leggja fram beiðni um gjaldþrotaskipti á búi stefnanda. Þar sem vanskil stefnanda stafi af því að stefndi greiði honum ekki fyrir unnið verk sé verulega ósanngjarnt að stefndi geti síðan krafist þess að stefnandi setji málskostnaðartryggingu í máli sem stefndi hefur vegna vanefnda þvingað hann til að höfða.

 Fallist dómurinn á að stefnanda beri að leggja fram málskostnaðartryggingu þá krefst stefnandi þess að hún verði eins lág og mögulegt sé.

 Samkvæmt b. lið 1. mgr. 133. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, getur stefndi krafist þess við þingfestingu máls að stefnandi setji tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar ef leiða má líkur að því að stefnandi sé ófær um greiðslu málskostnaðar.

 Til stuðnings þeirri fullyrðingu sinni að stefnandi sé ekki fær um greiðslu málskostnaðar vísar stefndi til árangurslausra fjárnáma sem gerð hafi verið hjá stefnanda, þau nýjustu þann 15. janúar 2009. Þegar litið er til þess hversu skammt er síðan umrædd fjárnám fóru fram þykja þau geta gefið mynd af greiðslugetu stefnanda nú. Því er fallist á að skilyrði b. liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 sé fullnægt. Verður því að taka til greina kröfu stefnda um máls­kostnaðartryggingu. Að virtum gögnum málsins þykir fjárhæð tryggingarinnar hæfilega ákveðin 800.000 krónur. Verður stefnanda gert að setja þá tryggingu á þann hátt og innan þess frests, sem í úrskurðar­orði greinir.

 Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

                Stefnanda, ÖJ Arnarson ehf., er gert að setja innan þriggja vikna frá uppsögu þessa úrskurð­ar tryggingu í formi bankabókar eða bankatryggingar að fjárhæð 800.000 krónur fyrir greiðslu málskostnaðar í máli sínu gegn stefnda, Kistuhlíð ehf.