Hæstiréttur íslands
Mál nr. 484/1999
Lykilorð
- Kærumál
- Dánarbússkipti
- Gjöf
- Ógilding
|
|
Föstudaginn 7. janúar 2000. |
|
Nr. 484/1999. |
Dánarbú Jóns Gíslasonar (Ólafur Sigurgeirsson hrl.) gegn Rósu Gísladóttur (Magnús Guðlaugsson hrl.) |
Kærumál. Dánarbússkipti. Gjöf. Ógilding.
Við opinber skipti á dánarbúi J var gerð krafa um ógildingu á þeirri ráðstöfun hans að gefa R, systur sinni, hlutabréf í Eimskipafélagi Íslands hf. hálfu ári fyrir andlát sitt. Talið var, að andlegt og líkamlegt ástand J ásamt verðmæti hlutabréfanna hefði gefið R brýnt tilefni til varfærni um að staðið yrði þannig að verki að ekki yrði réttmæt ástæða til að efast um það síðar að J hefði verið hæfur til að gera þessa ráðstöfun. Yrði R að bera hallann af að hafa látið það hjá líða. Var því fallist á ógildingarkröfu dánarbúsins
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. desember 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. nóvember 1999, þar sem varnaraðili var sýknuð af kröfu sóknaraðila um að ógilt yrði gjöf Jóns Gíslasonar til hennar á hlutabréfum í Hf. Eimskipafélagi Íslands að nafnverði 333.007 krónur. Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess að fyrrnefnd gjöf verði ógilt. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sóknaraðila gert að greiða sér kærumálskostnað.
I.
Samkvæmt gögnum málsins lést Jón Gíslason, sem var síðast til heimilis að Vesturgötu 17a í Reykjavík, hinn 16. nóvember 1998. Dánarbú hans var tekið til opinberra skipta 18. janúar 1999. Munu erfingjar eftir hann vera eftirlifandi systkin og börn látinna systkina, alls átta að tölu. Meðal þeirra er varnaraðili.
Í janúar 1998 mun Jón Gíslason hafa fengið blóðtappa, sem olli heilabilun, og dvalist af þeim sökum til dánardags á Sjúkrahúsi Reykjavíkur að Landakoti. Meðan á dvöl hans þar stóð kveður varnaraðili hann hafa gert svofellda yfirlýsingu, sem lögð hefur verið fram í málinu: „Ég Jón Gíslason nn 50323-4559 gef hér með hlutabréf mín í Eimskipafélagi Íslands systur minni Rósu Gísladóttir nn 130319-2469 heimili Vesturgötu 17a“. Undirritun Jóns á þessu skjali er ekki staðfest af vottum. Yfirlýsingin er ekki dagsett, en varnaraðili segir hana hafa verið gerða um líkt leyti og varnaraðili framvísaði henni á skrifstofu Hf. Eimskipafélags Íslands 25. maí 1998 og fékk skráð á sitt nafn hlutabréf í félaginu, sem tilheyrðu Jóni. Voru þau að nafnverði 333.007 krónur. Fyrrgreind krafa sóknaraðila lýtur að þessari ráðstöfun.
II.
Í úrskurði héraðsdómara er tekið upp í heild meginmál vottorðs læknis, sem annaðist Jón Gíslason á sjúkrahúsi á tímabilinu frá 24. mars til 8. júlí 1998. Svo sem þar greinir nánar var Jón talinn á þessu tímabili vera með heilabilun, svonefnd æðavitglöp, sem hafi einkum einkennst af skerðingu dómgreindar og sjúkdómsinnsæis. Að auki hafi sjón hans verið þannig skert að hann hafi aðeins haft ratsjón. Á nánar tilteknum dögum hafi meðal annars verið fært í sjúkraskrá að Jón gerði sér ekki grein fyrir tíma, að heilabilun truflaði þannig daglegt líf að hann væri ófær um að sjá um sig sjálfur en tæki þó tilsögn og að hann rápaði um. Læknirinn, sem hér um ræðir, bar meðal annars fyrir héraðsdómi að helsta vandamál Jóns á framangreindu tímabili hafi verið blinda. Hann hafi ekki séð skýrlega beint fram fyrir sig, en skynjað birtu og því getað ratað. Hann hafi hins vegar verið „með á nótunum“.
Meðal gagna málsins er yfirlýsing, sem Jón Gíslason undirritaði að viðstöddum tveimur vottum 27. mars 1998, um þann vilja að útför hans yrði bálför. Í skýrslu fyrir héraðsdómi var varnaraðili spurð hvort hún teldi Jóni hafa verið ljóst að hann myndi ekki eiga afturkvæmt af sjúkrahúsi um vorið 1998. Vísaði hún þá til þessarar yfirlýsingar hans og taldi hana sýna að hann hafi órað fyrir því. Hún lýsti því og aðspurð að hún hafi ritað texta fyrrgreindrar yfirlýsingar Jóns um gjöfina til hennar, sem deilt er um í málinu. Vegna sjónskerðingar hafi hann ekki lesið textann sjálfur, heldur hafi hún lesið yfirlýsinguna fyrir hann og hann síðan undirritað hana. Hafi aðrir ekki verið þar viðstaddir.
Eins og málið liggur fyrir er varnaraðili ein til frásagnar um að hún hafi lesið yfirlýsinguna, sem hún reisir rétt sinn til umræddra hlutabréfa á, fyrir Jón Gíslason áður en hann ritaði nafn sitt undir yfirlýsinguna. Af því, sem áður greinir úr framburði varnaraðila, er sýnt að henni var ljóst þegar yfirlýsingin var undirrituð að Jón væri ófær um að lesa ritað mál, svo og að varnaraðili hafi mátt gera sér grein fyrir að Jón ætti ekki langt eftir ólifað. Vegna náinna samskipta við Jón gat ekki farið fram hjá varnaraðila að veikindi hans hafi dregið svo úr andlegri getu hans, sem lýst er í málinu með áðurgreindum læknisfræðilegum gögnum. Ráðið verður af fyrirliggjandi gögnum um efnahag Jóns að verðmæti hlutabréfanna, sem ágreiningur er um, hafi verið þó nokkur hluti heildareigna hans. Öll þessi atriði gáfu varnaraðila brýnt tilefni til sérstakrar varfærni um að staðið yrði þannig að verki að ekki yrði réttmæt ástæða að Jóni látnum til efast um að honum hafi verið ljóst efni yfirlýsingarinnar, að hún hafi ótvírætt verið í samræmi við vilja hans og að hann hafi andlega verið fær um að gera þá ráðstöfun, sem í henni fólst. Varnaraðila var í lófa lagið að afla sér þegar í byrjun nauðsynlegra sannana um öll þessi efni. Verður hún að bera hallann af að hafa látið það hjá líða. Að þessu gættu verður að fallast á þá málsástæðu sóknaraðila að ósannað sé að Jóni hafi verið ljóst efni þeirrar yfirlýsingar, sem varnaraðili leiðir rétt sinn yfir hlutabréfunum af. Verður því tekin til greina krafa sóknaraðila um ógildingu gjafarinnar, sem mælt var fyrir um í yfirlýsingunni.
Eftir þessum úrslitum málsins verður varnaraðili dæmd til að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað, sem er ákveðinn í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Ógilt er gjöf Jóns Gíslasonar til varnaraðila, Rósu Gísladóttur, á hlutabréfum í Hf. Eimskipafélagi Íslands að nafnverði 333.007 krónur.
Varnaraðili greiði sóknaraðila, dánarbúi Jóns Gíslasonar, samtals 300.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. nóvember 1999.
I
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 20. október sl., var þingfest 11. júní sl.
Sóknaraðili, dánarbú Jóns Gíslasonar, kt. 050323-4559, krefst þess að rift verði þeim gjafagerningi, er Jón heitinn Gíslason gaf systur sinni, Rósu Gísladóttur, öll hlutabréf sín í Eimskipafélagi Íslands hf. að nafnverði kr. þrjúhunduðþrjátíuog- þrjúþúsundogsjö (333.007).
Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar að skaðlausu að viðbættum virðisaukaskatti.
Varnaraðili, Rósa Gísladóttir, kt. 130319-2469, krefst þess að verða sýknuð af kröfum sóknaraðila og að með því verði staðfestur eignarréttur hennar að hlutabréfum í Eimskipafélagi Íslands hf., sem hún fékk að gjöf frá bróður sínum, Jóni heitnum Gíslasyni.
Þá krefst varnaraðili málskostnaðar, auk virðisaukaskatts, úr hendi sóknaraðila að skaðlausu efttir mati dómsins.
II
Málsatvik eru þau að Jón heitinn Gíslason gaf systur sinni, varnaraðila, hlutabréf sín í Eimskipafélagi Íslands hf. að nafnvirði kr. 333.007 með ódagsettum gjafagerningi. Mun hann hafa verið gerður í maí 1998, ekki síðar en 25. þess mánaðar, og er svohljóðandi:
,,Ég Jón Gíslason nn 50323-4559 Gef hér með hlutabréf mín í Eimskipafélagi Íslands systur minni Rósu Gísladóttur nn 130319-2469 heimili Vesturgötu 17 a
Jón A Gíslason.”
Óumdeilt er að Rósa, systir Jóns, ritaði gerninginn og Jón undirritaði. Samkvæmt vottorði Björns Einarssonar öldrunarlæknis, sem síðar verður rakið, var Jón sjúklingur hans frá 24. mars til 8. júlí 1998. Jón dvaldi á Sjúkrahúsi Reykjavíkur þegar framangreindur gerningur var ritaður og undirritaður en þar lést Jón 16. nóvember 1998. Dánarbú hans var tekið til opinberra skipta 18. janúar 1999 og skiptastjóri skipaður. Á fyrsta skiptafundi í búinu, 1. febrúar 1999, skýrði lögmaður varnaraðila frá gjafagerningnum, en af hálfu annarra erfingja var gerningurinn þegar vefengdur. Á skiptafundi 30. mars 1999 var þetta mál aftur tekið fyrir og lögð fram gögn um gjafagerninginn og framsal bréfanna frá Jóni til varnaraðila. Reynt var að jafna ágreining um umrædda ráðstöfun, en það tókst ekki og var ágreiningnum vísað til Héraðsdóms Reykjavíkur, sbr. 124. gr. laga nr. 20/1991, með bréfi 8. júní 1999.
Af hálfu sóknaraðila er því haldið fram að andlegt hæfi Jóns hafi verið þannig á þeim tíma er hann gaf systur sinni hlutabréfin að hann hafi verið alls ófær um að gera sér grein fyrir gerðum sínum.
Því er mótmælt af hálfu varnaraðila.
Vottorð Björns Einarssonar öldrunarlæknis, sem fyrr er getið, er dags. 15. mars sl. Það er svohljóðandi:
,,Jón A Gíslason stundaði ég sem sérfræðingur hans frá 24.03.1998 til 08.07.98 en þá fluttist hann af deild L-3 Landakoti á deild K-1 og var sérfræðingur hans Eyjólfur Haraldsson læknir síðari hlutann af legunni en Jón lést 16.11.98.
Jón var með æðavitglöp (vascular dementiu) og var með mjög typiskt einkennamynstur fyrir þann sjúkdóm sem einkennist af ekki svo miklu minnisleysi eins og við Alzheimer sjúkdóm en því meiri skertri dómgreind og skertu sjúkdómsinnsæi. Hann var auk þess með sjónskerðingu en hafði ratsjón og stafaði sú sjónskerðing af blóðtappa í aftari hluta heilans á sjónsvæði. Ég hef nú flett í gegnum hans sjúkraskrá og það sem ég get vottað að sé tekið hárrétt upp úr henni er að 26.02.1998 skrái ég hann vera heilabilaðan með dómgreindarskerðingu. Hann kom af Borgarspítalanum SHR og var tekin tölvusneiðmynd 23.03. og var hann þá með áðurnefndan blóðtappa. 24.03.98 er honum lýst sem ekkert áttuðum í tíma, hélt að væri árið 1940. 20.04.98 gerði ég vistunarmat og þá lýsi ég honum sem þó nokkuð heilabiluðum en í þeirri skilgreiningu felst að heilabilun trufli atferli daglegs lífs og viðkomandi sé ófær um að sjá um sig sjálfur en taki tilsögn. 27.04.98 var gert vitrænt próf minal mental state og kláraði hann 19 stig af 29 sem samrýmist verulegri heilabilun. 04.05.98 sæki ég um vistun fyrir hann á Kumbaravogi og þá segi ég hann m.a. rápa. 10.09.98 skrifar Sæmundur Haraldsson deildarlæknir vottorð um að hann sé ófær um að sjá um skattamál sín og fjármál sjálfur vegna heilabilunar. 05.11.98 var tekin ný tölvusneiðmynd vegna nýs heilablóðfalls en sú tölvusneiðmynd var óbreytt frá því um vorið en þann 10.11.98 sást nýr blóðtappi í heila og það heilablóðfall leiddi hann síðan til dauða 16.11.98. Í viðtali við Eyjólf Haraldsson segir hann Jón hafa verið mjög óraunsæjan síðustu vikurnar eftir síðasta heilablóðfallið.
Þetta vottast hér með.”
Björn Einarsson öldrunarlæknir kom fyrir dóminn og staðfesti vottorð sitt. Hann kvað æðavitglöp aðallega leggjast á persónuleika sjúklingsins. Aðalvandamál Jóns hefði verið blinda sem leiddi af sjúkdóminum. Björn kvað Jón hafa verið með á nótunum þegar hann hafi verið sjúklingur sinn, hann hefði talað um hlutabréfin og vitað hvað hann var að tala um að því er sér hefði fundist. Hann hefði verið með eins og hótanir um að gera þetta og þetta með bréfin og einu sinni talað um þau í reiði. Björn kvaðst ekki hafa sett sig inn í það hvað hann hefði verið að gera með hlutabréfin. Dómgreindarskerðingin hafi aðallega komið fram í því að Jón hafi haft skert sjúkdómsinnsæi, hann hafi viljað útskrifast af sjúkrahúsinu sem þeim læknunum hafi þótt hann alls ekki vera fær um að gera. Það hafi þó endað með því að hann hafi verið útskrifaður til reynslu einhvern tíma þegar hann hafi verið sjúklingur sinn sem ekki hafi gengið. Hæfileiki þeirra sem haldnir séu þessum sjúkdómi til þess að taka afstöðu til manna og málefna skerðist að vissu leyti en það hafi komið fram hjá Jóni að því er varðaði vilja hans til að útskrifast af sjúkrahúsinu. Jón hafi haft ákveðna afstöðu til manna og málefna. Björn sagði að sér hafi fundist Jón vera nokkuð vel með á nótunum þegar hann hafi verið sjúklingur sinn. Björn kvaðst halda, aðspurður af lögmanni sóknaraðila, að Jón hefði getað gert sér grein fyrir því hvort hann væri að skrifa undir ábyrgðaryfirlýsingu á víxli á þessu tímabili.
Sér hefði hins vegar fundist Jón ekki vera með á nótunum lengur þegar hann hafi hitt hann um haustið á deild K 1. Þá hefði sér fundist Jón ekki lengur tala vitrænt og skýrt um sín mál.
Jón hafi verið í nánu sambandi við Rósu systur sína sem alltaf hefði komið á sjúkrahúsið. Aðra ættingja Jóns hefði hann ekki þekkt.
Af hálfu varnaraðila var lögð fram viljayfirlýsing Jóns um bálför undirrituð 27. mars 1998, vottuð af Maríu Tómasdóttur og Jónu Vilborgu Guðmundsdóttur, sem störfuðu sem hjúkrunarfræðingar á þeirri deild Sjúkrahúss Reykjavíkur þar sem Jón dvaldi á þeim tíma. Þær gáfu skýrslu fyrir dóminum og lýstu því að Jón hefði verið með réttu ráði og vitað hvað hann var að biðja um þegar hann undirritaði yfirlýsinguna og beðið þær að votta undirritunina.
Jóna Vilborg sagði að sér hefði fundist Jón vera í nokkuð góðu jafnvægi en mjög upptekinn af ástandi sínu. Hann hefði iðulega rætt við sig um framtíð sína og viljað komast heim til sín. Rósa, systir Jóns, hefði heimsótt hann reglulega og þá oft spjallað við þá hjúkrunarfræðingana. Hún hefði haft áhyggjur af framtíð Jóns eins og eðlilegt hefði verið.
María sagði að Rósa, systir Jóns, hefði heimsótt hann, einhver vinur hans og eitthvað af yngra fólki.
Varnaraðili, Rósa Gísladóttir, kom fyrir dóminn og skýrði frá því að bróðir sinn, Jón, hefði búið með foreldrum sínum fyrir austan þar til móðir þeirra hefði dáið árið 1968. Jón hefði búið áfram fyrir austan eftir það en árið 1972 hefði hann flutt til Reykjavíkur. Þau hefðu verið fimm alsystkinin sem upp komust.
Rósa kvaðst hafa skrifað gjafagerninginn sjálf á sjúkrahúsinu, hún hefði lesið hann fyrir Jón. Var á henni að skilja að það hefði verið rétt fyrir 25. maí en þann dag hefði hún farið á skrifstofu Eimskips og þar hefði verið gengið frá yfirfærslu hlutabréfanna á hennar nafn. Það hafi verið rétt áður að Jón hefði farið að minnast á hlutabréfin við sig. Rósa kvaðst ekki muna eftir því að Jón hefði sagt annað um hlutabréfin en hann ætlaði að gefa henni þau og að hún skyldi hafa nafnaskipti á þeim. Á þessum tíma hefði verið hægt að ræða við Jón eins og heilbrigðan mann. Rósa sagði að Jón hefði ekki rætt um það hvers vegna hann vildi gefa henni bréfin en ekki láta þau eftir sig. Hún hélt helst að það hefði verið vegna þess að eftir andlát foreldra þeirra hefði Jón verið hjá sér og sínu fólki bæði fyrir sunnan og austan, þar sem hún ætti jörð, og í húsinu þar hefði hann haft sérstakt herbergi. Þau hefðu verið langmest tengd af systkinunum. Rósa kvað Jón hafa keypt íbúð á Vesturgötu 17 tveimur árum eftir að hún hefði keypt íbúð sína þar og á milli þeirra hefði verið mikill samgangur. Rétt áður en Jón undirritaði gjafagerninginn hefði hann talað um greiðslu á hússjóðsreikningum sem hún hefði komið í kring fyrir hann og hann þakkað henni fyrir. Rósa kvaðst hafa vitað fyrir þennan tíma að Jón ætti hlutabréf í Eimskip en ekki hve mikið af þeim.
Rósa sagði að hlutabréfin hefðu verið geymd í bankahólfi Jóns og hefði hún haft lykil að því. Þegar hlutabréfin hefðu verið komin á hennar nafn hefði hún sett þau í bankahólf sitt.
Fundur hefði verið haldinn með Jóni um haustið og einhver peningamál hans hefðu komið til tals. Einkum hefði þar verið rætt að Jón vildi komast til Kanaríeyja. Rósa kvaðst hafa verið eini ættingi hans sem verið hefði á fundinum, en kunningi Jóns, Sigþór Pálsson, hefði verið þar.
Sæmundur Haraldsson læknir gaf skýrslu fyrir dóminum. Sæmundur var læknir Jóns, ásamt Eyjólfi Haraldssyni lækni, frá 8. júlí 1998 þar til Jón andaðist. Hann kvaðst minnast þess að haldinn hefði verið fundur með Jóni og fjölskyldu hans þar sem rædd hefðu verið peningamál hans sem honum hefðu verið ofarlega í huga. Þetta hefði líklega verið í ágústbyrjun. Jón hefði þá verið nær blindur en virkað nokkuð eðlilegur í viðræðu. Fullljóst hefði verið að hann hefði ekki haft dómgreind til þess að gera ráðstafanir og dómgreindarskerðingin fólgin t.d. í því að hann hefði viljað fara til Kanaríeyja. Jón hefði verið mjög þægilegur í umgengni yfirleitt.
Sæmundur kvaðst hafa gefið út vottorð það sem getið er um í vottorði Björns Einarssonar læknis um að Jón væri ófær um að sjá um skatta- og fjármál sín sjálfur vegna heilabilunar. Tilefnið hefði verið það að rétt hefði verið talið að aðrir sæju um hans mál. Erfitt væri að segja hversu lengi það ástand hefði verið. Hann hefði fengið blóðtappa í janúar og ástand Jóns hefði tengst því. Það væri svo um heilabilun að hún væri að þróast í dálítinn tíma og æðavitglöp þróuðust í nokkra mánuði.
Rósa, systir hans, hefði heimsótt Jón á sjúkrahúsið, Sigþór vinur hans, og fleiri í fjölskyldunni að því er hann byggist við. Sigurður, frændi hans, hefði heimsótt hann og hefði verið á fundinum út af skattamálunum. Sæmundur sagðist búast við því að kona Sigþórs hefði heimsótt Jón.
Tilefni fjölskyldufundarins hefði verið m.a. það að Jóni hefði fundist að fjölskyldan skaffaði sér ekki næga peninga þótt hann ætti nóga peninga í banka. Jóni hefði líka fundist að það að hann hefði afhent systur sinni einhver bréf í Eimskip væri ekki það sem hann vildi gera í raun og veru. Jón hefði tekið út peninga, keypt sælgæti og ekki alltaf munað eftir því að hann hefði gert það. Fundurinn hefði og verið haldinn í þeim tilgangi að reyna að sætta sjónarmið er snertu peningamál Jóns, en honum hefði fundist að systir hans væri að taka peninga frá honum og sitja fast á þeim. Hluti af þessu hefði verið skortur Jóns á sjúkdómsinnsæi og paranoja. Á fundinum hefði verið ákveðið að Jón fengi 20 þúsund á mánuði frá fjöldskyldunni. Jón hefði verið samþykkur því að Rósa systir hans geymdi hlutabréfin fyrir hann.
Hafdís Alfreðsdóttir, systurdóttir Jóns, kom fyrir dóminn. Hún sagði Jón hafa oft verið á heimili foreldra sinna uppi á Akranesi á sumrin, langan tíma í einu, og oft hafa komið fyrir jólin með rjúpur. Hann hefði oft komið með gjafir eftir Kanaríeyjaferðir sínar. Þá hefði hann oft farið með foreldrum sínum í ferðalög á sumrin. Jón væri mjög sterkur í æskuminningu sinni.
Hafdís sagði móður sína hafa dáið 1995 og hefði hún haldið sambandi við Jón, hringt í hann og heimsótt, bæði á heimili hans og á sjúkrahúsið.
Hafdís kvaðst fyrst hafa heyrt af hlutabréfunum í Eimskip með þeim hætti að Jón hefði reynt að segja sér eitthvað um þau, Rósa hefði látið hann skrifa undir eitthvað og væri hann ósáttur við það. Jón hefði talað um það að Þórey, kona vinar síns, væri að reyna að hjálpa sér í þessum málum. Það hefði sýnilega verið mikið hjartans mál hans að fá hlutabréfin til baka. Satt að segja hefði hún talið þetta vera hálfgert rugl á Jóni. Þetta hefði verið um miðjan september.
Unnur Björgvinsdóttir, bróðurdóttir Jóns, kom fyrir dóminn. Unnur kvað samband þeirra bræðra hafa verið mjög gott og Jón hefði verið heimagangur á heimilinu meðan bróðir hans hefði verið á lífi, en hann hafi dáið 1984.
Þórey Þórarinsdóttir kom fyrir dóminn. Þórey er eiginkona Sigþórs Pálssonar, vinar Jóns. Hún kvaðst ekki vita til þess að Jón hefði nokkuð gert upp á milli ættingja sinna. Þórey taldi að Jón hefði verið mikið veikur þegar hann skrifaði undir gjafagerninginn og hefði síðar vitað að hann hefði ekki átt að gera það og séð eftir því.
Þórey kvað mann sinn hafa farið með Jóni í bankahólf hans til þess að ná í hlutabréfin. Þá hefði komið í ljós að Rósa, systir hans, hafði lykil að hólfinu. Hún hefði farið í Eimskipafélagið og komist að raun um að búið var að skipta um nafn á hlutabréfunum. Þegar hún hefði sagt Jóni það hefði hann alveg verið ,,sjokkeraður”. Læknar á Landakoti hefðu sagt að eftir þessar fréttir hefði heilsa Jóns hríðversnað. Jón hefði beðið sig að heimsækja Rósu til þess að fá lykilinn að bankahólfinu, beðið sig að útvega sér lögfræðing og gera eitthvað til þess að fá hlutabréfin til baka. Rósa hefði sagt sér að hún ætlaði ekki að eiga bréfin heldur að geyma þau og hefði hún fært þau í sitt bankahólf.
Ragnhildur Árnadóttir kom fyrir dóminn. Hún býr í sama húsi og Jón bjó. Hún kvaðst vera formaður húsfélagsins þar og hafa haft samskipti við Jón af þeim sökum. Samband þeirra Jóns og Rósu hefði verið einstaklega gott. Raghildur er sjúkraliði og kvaðst hafa haft samband við Jón á sjúkrahúsinu sumarið 1998. Þau hefðu rætt fjármál húsfélagsins og Jón hefði alveg áttað sig á þeim.
III
Sóknaraðili byggir kröfur sínar á hendur varnaraðila aðallega á því, að gjafagerningurinn sé ógildur og ekki bindandi fyrir dánarbúið, þar sem andlegt hæfi Jóns Gíslasonar á þeim tíma, sem gjöfin var gefin, hafi verið þannig, að Jón hafi verið heilabilaður með dómgreindarskerðingu og alls ófær um að gera sér grein fyrir gerðum sínum. Þetta styðji læknisvottorð Björns Einarssonar öldrunarlæknis. Þegar borin sé saman undirritun Jóns á viljayfirlýsingu hans um bálför og undirritun hans á gjafagerninginn sé ljóst að ástand Jóns hafi verið mun verra þegar hann undirritaði gjafagerninginn en þegar hann undirritaði viljayfirlýsinguna. Allt bendi til þess að heilsa Jóns hafi verið mjög bágborin þegar undirritunin fór fram.
Engir vottar hafi verið að undirritun Jóns á gjafagerninginn og sjón Jóns hafi verið þannig að hann hafi ekki getað lesið hann. Rósa, systir hans, segist hafa lesið gerninginn fyrir Jón en ekkert sé vitað um það hvað hún hafi lesið. Af hálfu sóknaraðila sé því mótmælt að gjafagerningurinn sé gildur.
Hér sé annaðhvort um það að ræða, að stefnda hafi notfært sér bágindi eða einfeldni Jóns heitins til þess að afla sér hagsmuna, eins og segi í 31. gr. samningalaga, og með vísan til 33. gr. sömu laga sé gerningur, sem ella mundi talinn gildur, ógildur gagnvart viðtakanda, ef það sé óheiðarlegt vegna atvika, sem fyrir hendi voru, þegar löggerningurinn kom til vitundar hans. Varnaraðila hafi verið fullkunnugt um hvernig komið hafi verið með andlegt hæfi Jóns heitins á þeim tíma sem gjafagerningurinn hafi verið gerður.
Samskipti Jóns hafi verið góð við alla ættingja hans og ekkert bendi til þess að hann hafi viljað hygla Rósu systur sinni fremur en að arfur eftir hann rynni til lögerfingja. Vilji Jóns hafi staðið til þess að Rósa geymdi hlutabréfin en ekki annars. Vilji hans hafi því ekki staðið til þess að gefa Rósu hlutabréfin. Þetta hafi komið í ljós áður en Jón hafi látist þar sem byrjað hafi verið á því að hans ósk að fá Rósu systur hans til þess að skila hlutabréfunum.
IV
Af hálfu varnaraðila er því haldið fram að milli hennar og Jóns heitins hafi verið mikill systkinakærleikur. Miklu meiri samskipti hafi verið á milli þeirra en milli Jóns og annarra ættingja hans. Varnaraðili eigi jörðina Krossgerði í Berufjarðarhreppi og þar hafi Jón oft búið hjá henni í lengri eða skemmri tíma og haft þar sérstakt herbergi til eigin afnota. Eftir að varnaraðili hafi keypt íbúð sína að Vesturgötu 17 í Reykjavík, hafi orðið úr að Jón hafi keypt árið 1985 íbúð við hlið systur sinnar og búið þar til dauðadags.
Eftir að Jón hafi veikst í mars 1998 hafi hann verið langdvölum á Landakoti. Þangað hafi varnaraðili heimsótt hann og stutt í veikindum. Jón hafi ekki viljað að fjarskyldir erfingjar færu að rífast um eftirlátnar eigur sínar að sér látnum heldur viljað ráðstafa þeim sjálfur í lifanda lífi. Fyrsta ráðstöfun Jóns hafi verið að gefa Krabbameinsfélaginu íbúð sína með erfðaskrá. Síðan hafi hann gefið varnaraðila hlutabréf sín í Eimskipafélaginu og þar hafi verið um eindrægan vilja hans að ræða.
Hann hafi gert sér fulla grein fyrir því hvað hann væri að gera og þýðingu þess. Á þeim tíma er gjafagerningurinn var gerður hafi heilabilun Jóns einungis lýst sér í sjónskerðingu, en ekkert hafi komið fram um það að Jón hafi samt ekki getað lesið. Þótt hugsast geti að Jón hafi á þessum tíma orðið fyrir einhverri heilasköddun sé útilokað að hún hafi verið komin á það hátt stig að hann hafi ekki fyllilega vitað hvað hann var að gera.
Jón hafi um svipað leyti undirritað viljayfirlýsingu um bálför sína og fengið tvo hjúkrunarfræðinga til að votta þá ráðstöfun sína. Sá gjörningur og vottun hjúkrunarfræðinganna hefði varla farið fram ef heilsa hans hefði verið eins og sóknaraðili lýsi henni.
Jón hafi gengið eftir því við varnaraðila að hlutabréfin yrðu færð á nafn hennar, sem hann hefði ekki gert hefði hún einungis átt að geyma þau.
Það sem komið sé fram um það að Jón hafi viljað að gjafagerningurinn gengi til baka hafi gerst skömmu fyrir andlát Jóns og þá hafi hann verið farinn að heilsu.
Það sé rangt sem sóknaraðili haldi fram að varnaraðili hafi notfært sér bágindi eða einfeldni bróður síns til þess að afla sér hagsmuna. Hvorki bágindum né einfeldni hafi verið til að dreifa.
V
Niðurstaða dómsins
Eftir því sem fram er komið í þessu máli verður að byggja á því að sá gjafagerningur sem um er deilt hafi verið gerður skömmu fyrir 25. maí 1998. Niðurstaða málsins veltur fyrst og fremst á því hvort heilsufar Jóns heitins Gíslasonar hafi á þeim tíma verið með þeim hætti að gerninginn beri að ógilda, eins og haldið er fram af sóknaraðila, en málsóknina verður að skilja svo að krafa sóknaraðila sé um það að gerningurinn verði ógiltur með dómi, enda þótt í kröfugerð sé talað um riftun hans.
Þótt Jón kunni síðar, á einhverju stigi og af einhverjum ástæðum, að hafa viljað afturkalla gerninginn, eins og haldið er fram af sóknaraðila og ákveðnar líkur eru leiddar að, leiðir það ekki eitt sér til þess að ógilda beri hann. Í gjafagerningnum er hvorki um að ræða skilyrði né neins konar ákvæði um efndir og var gerningurinn þannig bindandi samkvæmt efni sínu gagnvart Jóni sem og öðrum aðilum.
Í skýrslu Sæmundar Haraldssonar læknis fyrir dóminum kom fram að Jón hafi í janúar 1998 fengið blóðtappa sem leitt hefði til heilabilunar. Sá sjúkdómur dró Jón til dauða 16. nóvember 1998.
Í vottorði Björns Einarssonar öldrunarlæknis kemur fram að 26. febrúar 1998 hafi hann skráð Jón vera heilabilaðan með dómgreindarskerðingu. Jón hafi verið með æðavitglöp en þeim sjúkdómi fylgi ekki eins mikið minnistap og Alzheimer sjúkdómi en dómgreind og sjúkdómsinnsæi skerðist hins vegar meira. Tölvusneiðmynd sem tekin var af Jóni 23. mars hafi sýnt blóðtappa og daginn eftir sé honum lýst sem ekkert áttuðum í tíma. Hinn 20. apríl kveðst Björn hafa gert vistunarmat og þá lýst Jóni sem nokkuð heilabiluðum sem þýði að heilabilunin trufli atferli daglegs lífs og að viðkomandi sé ófær um að sjá um sig sjálfur en taki tilsögn. Hinn 27. apríl hafi verið gert vitrænt próf og hafi Jón klárað 19 stig af 29 sem samrýmist verulegri heilabilun.
Björn segir síðan áfram í vottorði sínu að hinn 10. september skrifi Sæmundur Haraldsson læknir að Jón sé ófær um að sjá um skatta- og fjármál sín vegna heilabilunar.
Eins og fyrr greinir kom fram í vottorði Björns Einarssonar að Jón var sjúklingur hans frá 24. mars til 8. júlí 1998. Björn kom fyrir dóminn og staðfesti vottorð sitt. Hann lýsti því enn fremur að aðalvandamál Jóns hefði verið blinda sem leiddi af sjúkdóminum. Jón hefði hins vegar verið með á nótunum, rætt um hlutabréf sín í Eimskip og vitað hvað hann var að tala um að því er sér hefði fundist. Björn kvaðst ekki hafa sett sig inn í það sem Jón ræddi um hlutabréfin. Dómgreindarskerðing Jóns hefði aðallega komið fram í skertu sjúkdómsinnsæi. Björn taldi að Jón hefði á þessum tíma getað gert sér grein fyrir því til dæmis hvort hann væri að skrifa undir ábyrgðaryfirlýsingu á víxli.
Björn sagði að sér hefði fundist að Jón væri ekki með á nótunum þegar hann hafi hitt hann um haustið á deild K 1.
Hjúkrunarfræðingarnir Jóna Vilborg Guðmundsdótir og María Tómasdóttir, sem vottuðu undirritun Jóns á viljayfirlýsingu hans um bálför hinn 27. mars, lýstu því báðar að Jón hefði gert sér grein fyrir því hvað hann var að biðja um þegar hann undirritaði yfirlýsinguna. Jóna Vilborg sagði að sér hefði fundist Jón vera í nokkuð góðu jafnvægi en mjög upptekinn af ástandi sínu.
Telja verður það almenna reglu að heilsubilun manna, sem hefur í för með sér andlega annmarka á háu stigi, geti leitt til þess að gerningar þeirra, sem gerðir eru undir slíkum kringumstæðum, séu ógildanlegir. Þó verður að telja það skilyrði fyrir ógildingu slíkra gerninga að annmarki sá sem viðkomandi er haldinn hafi haft áhrif á efni gerningsins, þannig að gerningurinn hafi orðið til sökum annmarkans eða beri augljós einkenni hans. Menn eiga rétt á að ráða málum sínum þrátt fyrir bilaða heilsu og því þykir ekki rétt að ógilda ráðstafanir þeirra sem ekki verða taldar óeðlilegar.
Að framan hefur verið rakið það helsta sem fram er komið í máli þessu um heilsufar Jóns heitins Gíslasonar á þeim tíma er gjafagerningurinn var gerður og máli þykir skipta.
Þegar til þess er litið er ljóst að heilsa Jóns hefur verið biluð á þeim tíma er gjafagerningurinn var gerður og líklegt er að heilsu hans hafi hrakað jafnt og þétt frá því að hann fékk blóðtappa í janúar 1998 þar til hann andaðist í nóvember sama ár. Hins vegar þykir sóknaraðila ekki hafa tekist sönnun þess að heilsubilun hans hafi verið á svo háu stigi, þegar gjafagerningurinn var gerður, að hann hafi ekki getað gert sér nægilega grein fyrir eðli og afleiðingum gerningsins eða heilsubilunin hafi ein og sér leitt til þess að hann gerði gjafagerninginn.
Þá þykir sóknaraðili ekki hafa sannað að vilji Jóns hafi staðið til annars en að gefa varnaraðila hlutabréfin þegar gjafagerningurinn var gerður. Samkvæmt því sem fram er komið í málinu virðast þau systkini hafa verið mjög náin. Þótt samskipti Jóns við aðra ættingja sína hafi einnig verið góð er ekki þar með sagt að þessi ráðstöfun hans hafi verið óeðlileg. Verður heldur ekki talið að 31. og 33. grein samningalaga eigi hér við.
Til þess ber að líta að Jón ritaði undir gjafagerninginn og hafa ekki verið bornar brigður á það. Byggja verður á því að varnaraðili hafi lesið gerninginn fyrir Jón við undirritun hans en sóknaraðili hefur ekki sýnt fram á annað. Þá þykir ekki skipta máli að gerningurinn var ekki vottaður en um er að ræða einhliða gjafagerning sem ekki er formbundinn að íslenskum rétti.
Samkvæmt því sem að framan er rakið ber að sýkna varnaraðila af kröfum sóknaraðila. Sú niðurstaða leiðir sjálfkrafa til þess að sá eignarréttur sem varnaraðili öðlaðist á þeim hlutabréfum sem gjafagerningurinn náði til helst óbreyttur.
Rétt þykir að hvor aðili beri sjálfur sinn kostnað af rekstri málsins.
Friðgeir Björnsson dómstjóri kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Varnaraðili, Rósa Gísladóttir, skal vera sýkn af kröfum sóknaraðila, dánarbús Jóns Gíslasonar.
Hvor aðili ber sinn kostnað af rekstri málsins.