Hæstiréttur íslands

Mál nr. 59/2003


Lykilorð

  • Kærumál
  • Kæruheimild
  • Frávísun frá Hæstarétti


Miðvikudaginn 19

 

Miðvikudaginn 19. febrúar 2003.

Nr. 59/2003.

Ákæruvaldið

(Ásta Stefánsdóttir fulltrúi)

gegn

Erni Arnarssyni

(Guðmundur Ó. Björgvinsson hdl.)

 

Kærumál. Kæruheimild. Frávísun máls frá Hæstarétti.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu Ö um að máli ákæruvaldsins á hendur honum yrði vísað frá dómi. Var málinu vísað sjálfkrafa frá Hæstarétti þar sem heimild brast til kæru úrskurðarins.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. febrúar 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 6. febrúar 2003, þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að máli ákæruvaldsins á hendur honum yrði vísað frá dómi. Um kæruheimild vísar varnaraðili til j. liðar 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að málinu verði vísað frá héraðsdómi og sér dæmdur kærumálskostnaður.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.

Samkvæmt i. lið 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 sætir úrskurður héraðsdómara, þar sem synjað er um frávísun opinbers máls, ekki kæru til Hæstaréttar. Brestur þannig heimild til kæru úrskurðarins og verður málinu því sjálfkrafa vísað frá Hæstarétti.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 6. febrúar 2003.

I.

Með ákæru, útgefinni 13. desember 2001, höfðaði Lögreglustjórinn á Selfossi opinbert mál á hendur Erni Arnarsyni „fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 24. ágúst 2002 ekið bifreiðinni SM 370 undir áhrifum áfengis (vínandamagn í blóði 2,17 ‰) austur Eyraveg á Selfossi og um Ölfusárbrú, þar sem lögregla stöðvaði akstur ákærða.“

Ákæruvaldið heldur fram að ákærði hafi sýnt af sér háttsemi er varði við 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987, sbr. 1. mgr. 100. gr. nefndra umferðarlaga.

    Ákæruvaldið krefst þess að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttar samkvæmt 101. og 102. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987, sbr. lög nr. 44/1993, lög nr. 57/1997 og lög nr. 23/1998.  

Af hálfu ákærða er þess krafist að málinu verði vísað frá dómi. Þá krefst verjandi ákærða þóknunar úr ríkissjóði að mati dómsins. Af hálfu ákæruvaldsins er framkominni kröfu hafnað. Krafa ákærða var tekin til úrskurðar við þingfestingu málsins hinn 4. þessa mánaðar, að loknum munnlegum málflutningi.

Kröfu sína um frávísun málsins reisir ákærði á þeim grunni að sektargerð sem hann gekkst undir hjá Lögreglustjóranum í Hafnarfirði þann 25. október sl., vegna aksturs undir áhrifum áfengis aðfaranótt laugardagsins 24. ágúst 2002 á Selfossi, feli í sér lok máls þessa. Seinni tíma niðurfelling Ríkissaksóknara á sektargerðinni standist ekki lög. Af hálfu ákærða er sérstaklega skírskotað til ákvæða 113. gr., 115. gr., 137. gr. og 138. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála.

Af hálfu ákæruvalds er framkominni frávísunarkröfu mótmælt með vísan til þess að Ríkissaksóknara hafi verið heimilt að fella áðurnefnda sektargerð úr gildi samkvæmt 5. mgr. 115. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, enda hafi sektargerðin grundvallast á röngum gögnum og málalok samkvæmt henni hafi verið fjarstæð.

II.

Samkvæmt framlögðum gögnum hófst rannsókn máls þessa hjá lögreglunni á Selfossi aðfaranótt laugardagsins 24. ágúst 2002 er ákærði var handtekinn grunaður um ölvun við akstur. Lögreglustjórinn á Selfossi sendi Lögreglustjóranum í Hafnarfirði málið til afgreiðslu með bréfi dags. 8. október 2002. Með bréfi Lögreglustjórans á Selfossi til Lögreglustjórans í Hafnarfirði, dags. 12. nóvember 2002, sendi Lögreglustjórinn á Selfossi niðurstöðu alkóhólrannsóknar á blóðsýni lögreglunnar á Selfossi nr. 033-2002-118, sem hann segir að tilheyrt hafi máli því sem hér er til meðferðar. Þá hafði Lögreglustjórinn í Hafnarfirði þegar lokið málinu með sektargerð þann 25. október 2002, með því að ákærði gekkst undir 50.000 króna sektargreiðslu og til að sæta sviptingu ökuréttar í 4 mánuði. Fram kemur í bréfi Lögreglustjórans á Selfossi að með bréfi hans frá 8. október 2002 hafi fyrir mistök fylgt niðurstaða blóðrannsóknar í öðru máli sem verið hafi til rannsóknar hjá lögreglunni á Selfossi. Afrit bréfs þessa var sent Ríkissaksóknara. Með ákvörðun Ríkissaksóknara frá 25. nóvember 2002 var felld úr gildi umrædd sektargerð frá 25. október 2002. Var Lögreglustjóranum í Hafnarfirði falið að birta ákærða ákvörðun um niðurfellingu sektargerðarinnar og var það gert 3. desember 2002.

Afgreiðsla málsins samkvæmt sektargerðinni frá 25. október 2002 byggðist á niðurstöðu alkóhólrannsóknar sem fylgdi með málinu frá Lögreglustjóranum á Selfossi um að alkóhólmagn í blóði ákærða hafi verið 0,74‰ er ákærði á að hafa ekið bifreiðinni og var háttsemi ákærða heimfærð undir 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Ríkissaksóknari byggði ógildingu sína á sektargerðinni á því að niðurstaða alkóhólrannsóknar á blóði ákærða hafi í umrætt skipti verið 2,17 ‰. Akstur bifreiðar undir slíkum áfengisáhrifum varði við 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr. umferðarlaga og samkvæmt 2. mgr. 102. gr. nefndra umferðarlaga skuli svipting ökuréttar ekki vera skemur en eitt ár. Þá hafi Hæstiréttur Íslands talið refsingu fyrir slík brot hæfileg 130.000 króna sekt, sbr. dóm Hæstaréttar frá 30. maí 2002 í málinu nr. 138/2002 og dóm Hæstaréttar frá 14. nóvember 2002 í málinu nr. 314/2002.

III.

Samkvæmt reglum um skipan ákæruvalds, samanber ákvæði  25. gr. og 27. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, hefur Ríkissaksóknari, sem æðsti handhafi ákæruvalds, eftirlitsskyldur með lögreglustjórum um afgreiðslu einstakra mála, þar á meðal mála eins og þess sem hér um ræðir, sbr. 3. mgr. 115. gr. sömu laga.

Í 5. mgr. 115. gr. laganna er mælt fyrir um heimild Ríkissaksóknara að fella úr gildi sektargerð sem gerð hefur verið samkvæmt 115. gr. laganna, ef saklaus maður hefur verið látinn gangast undir viðurlög samkvæmt þeirri grein eða að málalok hafi verið fjarstæð að öðru leyti. Samkvæmt ákvæðinu verður Ríkissaksóknari að fella sektargerð úr gildi innan mánaðar frá því að honum barst vitneskja um hana, þó að því tilskildu að ekki sé liðið meira en eitt ár frá málalokum. 

Samkvæmt framangreindu verður að telja að ákvæðið geri ráð fyrir að Ríkissaksóknari geti fellt niður sektargerð lögreglustjóra, einnig í þeim tilvikum ef viðurlög eru ákvörðuð vægari en Ríkissaksóknari telur rétt. Skilyrði ógildingar á sektargerð er þó að niðurstaðan sé fjarstæð. Verður að una við mat Ríkissaksóknara um það atriði, en dómari mun síðar taka afstöðu til refsingar og refsikenndra viðurlaga á hendur ákærða, komi til þess að hann verði sakfelldur í málinu. Kröfu ákærða um að máli þessu verði vísað frá dómi er því hafnað.

Rétt er að ákvörðun um málskostnað bíði efnisúrlausnar málsins.

Ólafur Börkur Þorvaldsson, dómstjóri, kveður upp þennan úrskurð.

Úrskurðarorð:

Kröfu ákærða um að máli þessu verði vísað frá dómi er hafnað.

Málskostnaður úrskurðast ekki.