Hæstiréttur íslands

Mál nr. 271/2017

VPO ehf. (Björn L. Bergsson lögmaður)
gegn
Skaganum hf. (Árni Ármann Árnason lögmaður)
og gagnsök

Lykilorð

  • Verksamningur
  • Riftun
  • Efndir in natura

Reifun

P, fyrirsvarsmaður og eigandi V ehf., og S hf. gerðu með sér samning í apríl 2011 og laut samningurinn að vinnuframlagi P í verktöku í þágu S hf. S hf. innti af hendi greiðslur eftir samningnum fyrir mánuðina apríl til og með október 2011. S hf. rifti samningnum með bréfi í lok nóvember 2011 og hafnaði sama dag frekara vinnuframlagi P og vísaði honum á brott af vinnustaðnum. V ehf. mótmælti riftun samningsins og krafðist greiðslu á tveimur reikningum, annars vegar vegna vinnu í nóvember 2011 og hins vegar fyrir tímabilið desember sama ár til og með mars 2012. Hæstiréttur féllst á hluta krafna V ehf. vegna vinnu P í nóvember 2011 og var S hf. dæmt til að greiða V ehf. nánar tilgreindra fjárhæð. Að því er varðaði kröfu fyrir tímabilið desember 2011 til og með mars 2012 var ekki fallist á að vanefndir V ehf. á samningnum yrðu taldar svo verulegar að S hf. hefði verið heimil riftun. Þrátt fyrir það hefði S hf. verið kleift, eftir þeim reglum sem giltu um verksamninga, að hafna efndum af hálfu P, eins og S hf. gerði með því að vísa honum af brott af vinnustaðnum í lok nóvember 2011. Með því hefði fallið niður skylda beggja aðila til að efna samninginn eftir aðalefni sínu, en eftir atvikum hefði getað stofnast skaðabótakrafa á hendur S hf. eftir almennum reglum, sem fælu meðal annars í sér að P bæri eftir mætti að takmarka tjón sitt. V ehf. hefði hins vegar ekki teflt fram kröfu sinni á þessum grunni heldur hefði hann krafist efnda á reikningi fyrir umrætt tímabil rétt eins og P hefði staðið skil á vinnuframlagi sínu eftir samningnum. Var því staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um að sýkna S hf. af kröfu eftir þessum reikningi.

Dómar Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Benedikt Bogason og Ragnhildur Helgadóttir prófessor.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 3. maí 2017. Hann krefst þess að gagnáfrýjanda verði gert að greiða sér 6.275.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 7. desember 2011 til greiðsludags. Þá krefst hann aðallega málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að málskostnaður verði látinn niður falla.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 12. júlí 2017. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu aðaláfrýjanda, til vara staðfestingar hins áfrýjaða dóms að öðru leyti en að því er varðar málskostnað, en að því frágengnu að kröfur aðaláfrýjanda verði lækkaðar verulega. Í öllum tilvikum krefst gagnáfrýjandi málskostnaðar úr hendi aðaláfrýjanda í héraði og fyrir Hæstarétti.

Eftir að hinn áfrýjaði dómur gekk fékk aðaláfrýjandi aftur nafnið VPO ehf.

I

Svo rakið er í hinum áfrýjaða dómi gerði Pálmar S. Ólafsson, fyrirsvarsmaður og eigandi aðaláfrýjanda, samning við gagnáfrýjanda 8. apríl 2011. Samningurinn laut að vinnuframlagi Pálmars við markaðs- og sölustörf á framleiðsluvörum gagnáfrýjanda, en tekið var fram að vinnan væri unnin í verktöku og hafði Pálmar heimild til að innheimta greiðslu samkvæmt samningnum „í gegnum rekstarfélag á hans vegum.“ Í samningnum sagði að Pálmar skyldi gegna starfi sínu annars vegar á starfsstöð gagnáfrýjanda og hins vegar á vettvangi hjá erlendum viðskiptavinum hans. Um vinnutíma kom fram að hann ætti að jafnaði að vera að minnsta kosti átta stundir á virkum dögum, þegar Pálmar væri ekki erlendis, en vinnutíminn væri sveigjanlegur frá klukkan 7 til 18 og mældur með stimpilklukku. Jafnframt sagði að matartími skyldi vera 30 til 60 mínútur hvern vinnudag og átti að taka hann á tímabilinu frá klukkan 12 til 14.15, en sá tími teldist ekki til vinnutíma. Þá var tekið fram að Pálmar sinnti starfi sínu heima hjá sér þegar hann væri ekki í vinnuferðum erlendis eða á starfstöð gagnáfrýjanda. Fyrir vinnuna átti Pálmar að fá greiddar 1.000.000 krónur á mánuði auk virðisaukaskatts. Átti að inna greiðsluna af hendi eftir á gegn framvísun reiknings. Samningurinn var uppsegjanlegur frá og með desember 2011 með þriggja mánaða fyrirvara miðað við mánaðamót.

Gagnáfrýjandi innti af hendi greiðslur eftir samningnum fyrir mánuðina apríl til og með október 2011. Með bréfi 30. nóvember það ár rifti gagnáfrýjandi samningnum og hafnaði sama dag frekara vinnuframlagi Pálmars með því að vísa honum brott af vinnustað. Þetta var reist á því að hann hefði verulega vanefnt að skila vinnuframlagi sínu eins og áskilið væri í samningnum. Til stuðnings þessu var í bréfinu bent á að í október hefði hann unnið 147,44 klukkustundir í stað 168 stunda. Því hefðu átt að dragast 122.381 króna frá reikningi vegna þess mánaðar. Jafnframt hefðu vinnustundir hans í nóvember verið 90 í stað 184 og því ætti greiðsla fyrir þann mánuð að nema 489.130 krónum. Var þess farið á leit að reikningur vegna þessa mánaðar tæki mið af þessu og yrði 366.749 krónur auk virðisaukaskatts.

Með bréfi aðaláfrýjanda 8. desember 2011 var riftun samningsins mótmælt. Einnig var krafist greiðslu á tveimur reikningum aðaláfrýjanda á hendur gagnáfrýjanda samtals að fjárhæð 6.275.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Annars vegar var um að ræða reikning að fjárhæð 1.255.000 krónur vegna vinnu í nóvember 2011 og hins vegar reikning að fjárhæð 5.020.000 krónur fyrir tímabilið desember sama ár til og með mars 2012. Báðir reikningarnir voru með gjalddaga 30. nóvember 2011 en eindaga 7. desember það ár. Aðaláfrýjandi höfðaði málið til heimtu þessara reikninga.

II

Með skírskotun til forsendna héraðsdóms verður fallist á þá niðurstöðu að gagnáfrýjandi verði ekki sýknaður af kröfum aðaláfrýjanda vegna aðildarskorts.

Gagnáfrýjandi reisir kröfu sína um sýknu jafnframt á því að honum hafi verið heimilt að rifta verksamningnum frá 8. apríl 2011 um störf Pálmars í sína þágu vegna verulegra vanefnda hans á að skila vinnuframlaginu. Heldur gagnáfrýjandi því fram að Pálmar hafi allt frá því að samningurinn komst á vanefnt skyldur sínar að þessu leyti. Til stuðnings þessu vísar gagnáfrýjandi til samantektar um viðveru Pálmars á starfstöð gagnáfrýjanda.

Eins og áður greinir var gert ráð fyrir að vinnutími Pálmars á starfstöð gagnáfrýjanda ætti að jafnaði ekki að vera skemmri en átta klukkustundir. Þó átti hann að fara í vinnuferðir til útlanda, auk þess sem gert var ráð fyrir að hann sinnti starfinu á heimili sínu. Í málinu hefur komið fram að störf Pálmars á heimili hans hafi helgast af því að samskipti við helsta viðskiptavin í Bandaríkjunum þurftu að fara fram síðdegis eða að kvöldlagi vegna tímamismunar milli landanna. Að þessu gættu var ekki einhlít mæling á vinnuframlagi Pálmars með stimpilklukku á starfstöð gagnáfrýjanda.

Af því sem komið hefur fram í málinu verður ekki ráðið að gagnáfrýjandi hafi gert athugasemdir við vinnuframlag Pálmars fyrr en með bréfi 30. nóvember 2011 þegar samningnum við hann var rift. Leggja verður til grundvallar að frá upphafi samningssambandsins og fram að riftuninni hafi gagnáfrýjandi liðið þessa tilhögun vinnunnar eða í öllu falli ekki gefið aðaláfrýjanda tilefni til að ætla annað en að hann sætti sig við hana. Að virtum þeim aðdraganda og með hliðsjón af gagnkvæmri tillitsskyldu samningsaðila, í skuldarsambandi af þessu tagi, bar gagnáfrýjanda að hreyfa athugasemdum við störf Pálmars, ef hann taldi þau í ósamræmi við samninginn, og gera kröfu um að úr því yrði bætt. Þegar þetta er haft í huga fer því fjarri að vanefndir aðaláfrýjanda á samningnum verði taldar svo verulegar að gagnáfrýjanda hafi verið heimil riftun. Þessi málsástæða fyrir kröfu gagnáfrýjanda um sýknu verður því heldur ekki tekin til greina.

Gagnáfrýjandi stóð aðaláfrýjanda skil á greiðslum vegna vinnu Pálmars fyrir tímabilið frá apríl til og með október 2011. Þessar greiðslur innti gagnáfrýjandi af hendi eftir reikningum aðaláfrýjanda og gerði enga fyrirvara við réttmæti þeirra. Til þess hafði hann þó beint tilefni miðað við eigin málatilbúnað um ófullnægjandi vinnuframlag Pálmars allt frá því að hann hóf störf hjá gagnáfrýjanda. Jafnframt er þess að gæta að um var að ræða endurgjald fyrir vinnu í þágu gagnáfrýjanda, þótt samningurinn væri í búningi verksamnings. Af þeim sökum var enn meiri ástæða til að gera athugasemdir við reikningana, enda ríkir hagsmunir fyrir móttakanda slíkrar greiðslu að uppgjörið væri að öðrum kosti endanlegt. Að þessu gættu verður ekki talið að gagnáfrýjandi geti borið fyrir sig gegn kröfu aðaláfrýjanda að endurgjald fyrir umrætt tímabil hafi falið í sér ofgreiðslu úr hans hendi.

Í málinu liggur fyrir að Pálmar tók átta frídaga í nóvember 2011, en samningur hans við gagnáfrýjanda gerði ekki ráð fyrir að hann ætti slíkan rétt á kostnað gagnáfrýjanda. Verður krafa um endurgjald vegna þess mánaðar því lækkuð sem því nemur, en virkir dagar í þeim mánuði voru 23. Aftur á móti verður ekki fallist á það með gagnáfrýjanda að taka eigi daglega mið af 30 mínútna matartíma, enda verður samningurinn ekki skilinn þannig að Pálmari hafi borið að gera hlé á störfum hvort sem hann kaus að taka matartíma eða ekki. Samkvæmt þessu verður reikningur vegna þessa mánaðar tekinn til greina með 818.478 krónum að meðtöldum virðisaukaskatti, ásamt dráttarvöxtum eftir kröfu aðaláfrýjanda.

Þótt gagnáfrýjanda hafi verið óheimilt að rifta samningi sínum við Pálmar var honum kleift, eftir þeim reglum sem gilda um verksamninga, að hafna efndum af hálfu Pálmars, eins og gagnáfrýjandi gerði með því að vísa honum á dyr 30. nóvember 2011. Með því féll niður skylda beggja aðila til að efna samninginn eftir aðalefni sínu, en eftir atvikum gat stofnast skaðabótakrafa á hendur gagnáfrýjanda eftir almennum reglum, sem fela meðal annars í sér að Pálmari bar eftir mætti að takmarka tjón sitt. Aðaláfrýjandi hefur ekki teflt fram kröfu sinni á þessum grunni heldur krefst hann efnda á reikningi vegna tímabilsins frá desember 2011 til og með mars 2012, rétt eins og Pálmar hefði staðið skil á vinnuframlagi sínu eftir samningnum. Þá kröfu gat hann ekki haft uppi samkvæmt því sem hér hefur verið rakið og verður því staðfest niðurstaða héraðsdóms um að sýkna gagnáfrýjanda af kröfu eftir þessum reikningi.

Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af rekstri málsins á báðum dómstigum. 

Dómsorð:

Gagnáfrýjandi, Skaginn hf., greiði aðaláfrýjanda, VPO ehf., 818.478 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 7. desember 2011 til greiðsludags.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

      

 

Dómur Héraðsdóms Vesturlands 17. febrúar 2017

I.

Mál þetta, sem dómtekið var 20. janúar sl., er höfðað af VPO ehf., Hamarsteigi 9, Mosfellsbæ, á hendur Skaganum hf., Bakkatúni 26, Akranesi, með stefnu birtri 28. ágúst 2015.

 

Stefnandi krefst þess að stefndi greiði honum skuld samtals að fjárhæð 6.275.000 krónur, ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 7. desember 2011 til greiðsludags. Jafnframt krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu að mati réttarins.

Stefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda, en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Í öllum tilfellum krefst stefndi málskostnaðar með hliðsjón af framlögðum málskostnaðarreikningi.

Upplýst var undir rekstri málsins að nafni stefnanda, VPO ehf., hefur verið breytt og heitir fyrirtækið nú The Beer Snack Company ehf.

II.

Mál þetta á rót sína að rekja til samnings með yfirskriftinni „Markaðs- og sölusamningur Unninn í verktöku“ sem eigandi og forsvarsmaður stefnanda, Pálmar S. Ólafsson, gerði við stefnda hinn 8. apríl 2011. Í gr. 1.1 í samningnum var tekið fram að samningurinn væri gerður í samstarfi við bandaríska fyrirtækið FoodCraft Equipment Co. Inc., sem væri fullgildur aðili að honum. Aldrei mun þó hafa verið ritað undir samninginn af hálfu þess félags. Í greininni sagði enn fremur að verktakinn Pálmar hefði „heimild til að innheimta greiðslu samkvæmt samningi þessum í gegnum rekstrarfélag á hans vegum“. Í gr. 4.1 var svo um samið að Pálmar fengi „fastar mánaðargreiðslur krónur 1.000.000,- auk vsk.“ fyrir vinnuframlag sitt samkvæmt samningnum og skyldu þær eftir gr. 4.3 „greiddar eftir á gegn framvísun reiknings“. Þá kom fram í gr. 6 að ferðakostnaður Pálmars í vinnuferðum erlendis yrði greiddur annars vegar af stefnda og hins vegar af FoodCraft eftir því sem við ætti. Í gr. 10.1 var að finna svohljóðandi ákvæði: „Gagnkvæmur uppsagnarfrestur þessa ráðningarsamnings er þrír mánuðir og skal uppsögn miðast við mánaðamót. Fyrsta mögulega uppsögn er þó í desember 2011. Allir aðilar samningsins geta sagt samningnum einhliða upp.“

Í samræmi við áðurgreinda heimild í samningnum gaf stefnandi út reikning mánaðarlega fyrir endurgjaldi á grundvelli samningsins að fjárhæð 1.000.000 króna, auk virðisaukaskatts, og greiddi stefndi þá reikninga fram eftir árinu 2011.

Með bréfi, dags. 30. nóvember 2011, tilkynnti stefndi Pálmari að hann hefði rift samningnum frá 8. apríl sama ár og væri ástæðan sú að verulegar vanefndir væru af hálfu Pálmars „á að uppfylla vinnutímaskyldu“ sína samkvæmt samningnum. Í bréfinu kom fram að útgefinn reikningur vegna októbermánaðar 2011 hefði verið greiddur að fullu, en frá reikningsfjárhæðinni ætti að draga tiltekna upphæð vegna vanefnda í þeim mánuði, sem yrði látin ganga upp í reikning vegna nóvembermánaðar sama ár. Var sá reikningur endursendur og þess krafist að gefinn yrði út nýr reikningur vegna nóvembermánaðar að fjárhæð 366.749 krónur, auk virðisaukaskatts, vegna vanefnda Pálmars á vinnuskyldu sinni í október og nóvember.

Pálmar leit ekki svo á að hann hefði vanefnt samning aðila og því væri riftun stefnda á honum ólögmæt. Af þeim sökum taldi hann sig eiga rétt á endurgjaldi í fjóra mánuði til viðbótar, frá 1. desember 2011 til 31. mars 2012, þar sem ekki væri unnt að segja samningnum upp fyrr en í fyrsta lagi í desember 2011 og uppsagnarfrestur væri þrír mánuðir miðað við mánaðamót. Í samræmi við það var í kjölfar tilkynningar stefnda um riftun gefinn út reikningur af stefnanda vegna uppgjörs samningsins að fjárhæð 4.000.000 króna, auk virðisaukaskatts. Eindagi þess reiknings var 7. desember 2011, sá sami og reikningsins vegna nóvembermánaðar sama ár. Með bréfi lögmanns Pálmars til stefnda, dags. 8. desember 2011, var þess krafist að umræddir tveir reikningar yrðu greiddir innan tíu daga en þeirri kröfu var hafnað með bréfi lögmanns stefnda, dags. 6. janúar 2012.

Pálmar S. Ólafsson höfðaði upphaflega mál á hendur stefnda vegna framangreindra lögskipta með stefnu birtri 12. janúar 2012. Gekk efnisdómur um ágreining aðila í héraði hinn 30. maí 2013, en með dómi Hæstaréttar í málinu nr. 570/2013, uppkveðnum 23. janúar 2014, var málinu vísað frá héraðsdómi. Byggðist það í fyrsta lagi á því að ekki yrði ráðið af stefnunni hvers vegna Pálmar teldi sig, en ekki VPO ehf., réttan aðila til að gera kröfu á hendur stefnda til greiðslu endurgjaldsins vegna nóvembermánaðar 2011. Í annan stað væri krafa stefnda um skaðabætur svo vanreifuð að ekki samrýmdist áskilnaði e- og f-liða 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála um að í stefnu skuli greina svo glöggt sem verða má þær málsástæður og lagarök sem málsókn sé byggð á. Var talið að slíkir annmarkar væru á málatilbúnaðinum við þingfestingu málsins í héraði að úr þeim yrði ekki bætt undir rekstri þess.

Að dómi Hæstaréttar gengnum efndi Pálmar á ný til málssóknar fyrir héraðsdómi en niðurstaða hans var á þann veg að málinu skyldi vísað frá dómi með vísan til óljóss og vanreifaðs málatilbúnaðar.

Loks var mál þetta höfðað í nafni stefnanda með stefnu birtri 28. ágúst 2015, eins og áður greinir.

Við aðalmeðferð málsins voru teknar aðilaskýrslur af Pálmari S. Ólafssyni, forsvarsmanni stefnanda, og Ingólfi Árnasyni, framkvæmdastjóra stefnda. Jafnframt voru teknar vitnaskýrslur af starfsmönnum stefnda, þeim Einari Brandssyni, Sigurði Skúlasyni og Valdimar Smára Axelssyni.

III.

Stefnandi kveðst byggja aðild sína að málinu á þeirri heimild sem Pálmari S. Ólafssyni, fyrirsvarsmanni stefnanda, sé veitt í gr. 1.1 í markaðs- og sölusamningi aðilanna til að framselja rétt sinn til greiðslna samkvæmt samningnum til rekstrarfélags á hans vegum. Pálmar hafi nýtt sér þessa heimild strax við útgáfu fyrsta reikningsins vegna þessa, en sá reikningur hafi verið gefinn út af stefnanda. Þann reikning hafi stefndi greitt athugasemdalaust og þar með staðfest í verki heimild Pálmars til að framselja þennan rétt.

Á því sé byggt að greiðsluskylda stefnda leiði af skuldbindingargildi markaðs- og sölusamnings aðila og að stefnda beri að greiða mánaðarlega 1.000.000 króna, auk virðisaukaskatts, sbr. gr. 4.1. Pálmar hafi efnt samninginn réttilega og í samræmi við efnisákvæði hans allan gildistímann frá 1. apríl 2011 og þar til stefndi hafi afþakkað vinnuframlag hans 30. nóvember 2011. Hafi engar athugasemdir komið fram af hálfu stefnda um vanefndir Pálmars á samningsskuldbindingum fyrr en með bréfi stefnda hinn 30. nóvember sama ár. Þegar stefndi hafi komið bréfi sínu á framfæri þann dag hafi hins vegar ekki verið til staðar skilyrði til uppsagnar samningsins, enda stefndi bundinn af ákvæði í gr. 10.1 um að samningnum yrði ekki sagt upp fyrr en í fyrsta lagi í desember 2011, að gagnkvæmur uppsagnarfrestur væri þrír mánuðir og að uppsögn skyldi miðast við mánaðamót. Hafi stefndi því verið bundinn við það að uppsagnarfrestur gæti ekki byrjað að líða fyrr en frá og með 1. janúar 2012 og spannaði janúar, febrúar og mars það ár.

Það sé mat stefnanda að engin rök standi til fyrirvaralausrar riftunar stefnda á samningi aðila. Á því sé byggt að uppgefin ástæða fyrir riftun, er lúti að vanefndum Pálmars á ákvæði samningsins um viðveru Pálmars á starfsstöð, sé í raun tylliástæða sem ekki eigi við rök að styðjast. Sú staðreynd blasi við að stefndi hafi af ókunnum ástæðum viljað ljúka samningssambandi aðila fyrir árslok 2011 án þess að hafa til þess samningsbundna heimild. Megi glöggt ráða þessa afstöðu af bréfi stefnda til Pálmars, dags. 28. september 2011, en þar sé uppgefin sú ástæða að FoodDraft „treysti sér ekki lengur til að vera aðili samningsins“. Sé í þessu sambandi rétt að ítreka að félagið FoodCraft hafi hvorki verið aðili að umræddum samningi né hafi aðild þess að honum, eða viðskiptasamband þess félags og stefnda, verið gert að skilyrði fyrir gildi hans. Hefði slíkt þó verið vel mögulegt þar sem stefndi hafi séð um gerð samningsins. Þvert á móti sé skýrt af samningnum að starf Pálmars hafi falist í almennum markaðs- og sölustörfum fyrir viðskiptavini stefnda. Séu þar tilgreindir „erlendir viðskiptavinir“ og félagið FoodCraft nefnt í dæmaskyni í þeim efnum. Því sé og mótmælt sem röngu að það félag hafi slitið viðskiptasambandi sínu við stefnda.

Því sé og mótmælt sem röngu og ósönnuðu að stefndi hafi í fyrra uppsagnarbréfi sínu hinn 28. september 2011, eða í annan tíma, minnst á skort á viðveru Pálmars á starfsstöð stefnda, hvað þá að honum hafi verið veitt áminning af því tilefni. Sé ósannað að Pálmar hafi á nokkurn hátt vanefnt samning aðila, hvað þá að slíkar vanefndir hafi verið það verulegar að þær réttlæti riftun samnings á grundvelli meginreglna kröfuréttar um riftun samninga. Hvíli sönnunarbyrði þar um á stefnda. Skuli í því sambandi bent á að umsamið hafi verið að Pálmar sinnti störfum óháð dvöl á starfsstöð stefnda. Hafi honum þannig verið ætlað að vinna allt að þriðjungi hvers mánaðar erlendis, sbr. ákv. 2.1, og einnig heima hjá sér, sbr. ákv. 3.4. Hafi slíkur starfi á heimili Pálmars enda verið nauðsynlegur þar sem samskipti við erlenda viðskiptavini vestanhafs hafi að takmörkuðu leyti getað farið fram í dagvinnu vegna tímamismunar. Hafi Pálmar haldið utan um allan sinn starfstíma samviskusamlega og innt af hendi alla þá vinnu sem um hafi verið samið og til hafi verið ætlast af hálfu stefnda.

Stefnandi byggi og á því að stefndi hafi í raun viðurkennt í verki greiðsluskyldu vegna nóvember 2011. Þannig komi fram í fyrrgreindu bréfi stefnda, dags. 30. nóvember 2011, umfjöllun um það hver greiðslan eigi að vera og sé því ekki borið þar við að ekki eigi að greiða vegna nóvembermánaðar. Sé stefndi af þessari viðurkenningu bundinn og beri honum því að greiða umsamið gjald vegna þess mánaðar.

Stefndi hafi útbúið samning aðila sem þjónustusamning í verktöku. Verkefni Pálmars samkvæmt samningnum hafi falist í að annast um sölustarfsemi og söluráðgjöf til erlendra viðskiptavina fyrst og fremst. Því starfi hafi hann sinnt án nokkurra athugasemda af hálfu stefnda. Einu athugasemdir stefnda hafi borist samhliða riftun stefnda á samningnum hinn 30. nóvember 2011 og hafi fjallað um viðveru á starfsstöð stefnda. Sýnist ljóst að slíkar athugasemdir geti ekki átt rétt á sér þegar til þess sé horft að vinnustundafjöldi samkvæmt ákvæði 3.1 í samningnum skyldi vera að jafnaði sem svari til að minnsta kosti átta vinnustundum, en samkvæmt samningnum hafi einungis verið áskilið á einum af þremur þeirra staða þar sem Pálmar skyldi inna þjónustu sína af hendi að nýta ætti stimpilklukku. Augljóst sé að slík framkvæmd hafi aldrei gefið fullnægjandi mynd af þeirri vinnu sem innt hafi verið af hendi. Sé enda næsta mótsagnarkennt að mæla eigi nákvæmlega viðveru á starfsstöð stefnda, að viðlagðri fyrirvaralausri riftun, en horfa svo ekkert til þeirra vinnustunda sem Pálmar hafi innt af hendi utan vinnutíma og erlendis við mat á viðveru hans við vinnu. Þá gefi það stefnda engan rétt til riftunar að Pálmar hafi unnið sér þannig í haginn að hann kæmist frá í frí um stundarsakir. Samningur aðila hafi einungis kveðið á um eina tilgreinda fjárhæð sem mánaðargreiðslu án tillits til aukavinnuframlags. Þar sem kveðið hafi verið á um að vinnustundafjöldi væri að jafnaði átta klukkustundir séu engar forsendur til að líta svo á að Pálmari hafi verið skylt að vinna umfram þennan skilgreinda vinnustundafjölda. Skuli áréttað að Pálmar hafi sinnt störfum á starfstímanum sem hafi numið nánast níu vinnustundum alla virka daga á starfstímanum og hafi þá verið gert ráð fyrir þeim dögum sem hann hafi ekki verið við störf. Sé að mati stefnanda ótvírætt að stefndi hafi ekki verið hlunnfarinn með sviknu vinnuframlagi og því standi engin rök til þess að fallast á málatilbúnað stefnda.

Um lagarök vísar stefnandi til meginreglna samningaréttar um skyldu til að efna samninga og rétt stefnanda til endurgjalds fyrir veitta þjónustu. Þá styður hann kröfu sína um dráttarvexti við III. kafla laga nr. 38/2001.

IV.

Stefndi byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að um aðildarskort sé að ræða af hálfu stefnanda. Sé hvað það varði vísað til eftirfarandi yfirlýsingar sem fram komi í stefnu Pálmars S. Ólafssonar, forsvarsmanns stefnanda, í fyrra máli nr. E-40/2014, sem hann hafi höfðað vegna sömu lögskipta: „Þannig gaf VPO ehf. út reikninga vegna vinnu stefanda í nóvember 2011, og greiðslna sem stefnandi gerir kröfu um á uppsagnarfresti samningsins, desember 2011 til mars 2012. Það skal upplýst að VPO ehf. hefur fallið frá umræddum kröfum og stefnandi tekið við þeim.“ Sé hér um að ræða yfirlýsingu sem gefin sé fyrir dómi af hálfu framkvæmdastjóra, stjórnarmanns, prókúruhafa og 100% eiganda stefnanda og varði sömu kröfur og fjallað sé um í máli þessu. Við þessa yfirlýsingu um ráðstöfun á sakarefninu sé stefnandi því bundinn, sbr. 45. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þar sem stefnandi sé ekki lengur eigandi þeirra krafna sem hann krefur stefnda um greiðslu á hafi hann ekki lögvarða hagsmuni af málarekstrinum og eigi ekki aðild að málinu í skilningi 16. gr. laga nr. 91/1991.

Stefndi byggir sýknukröfu sína í öðru lagi á því að honum beri ekki skylda til að greiða kröfu stefnanda á grundvelli framlagðra reikninga þar sem riftun hans á verksamningnum við Pálmar hafi verið lögmæt. Pálmar hafi vanefnt verulega skyldur sínar samkvæmt samningnum og því hafi stefndi verið í fullum rétti til að rifta samningnum. Framlag Pálmars samkvæmt samningnum hafi verið vinna við markaðs- og sölumál hjá stefnda. Vegna eðlis starfa Pálmars hafi ekki verið hægt að meta vinnuframlag hans með öðrum hætti en í unnum klukkustundum. Hafi því verið kveðið á um það í 3. gr. samningsins að Pálmar skyldi skila ákveðnum lágmarksfjölda tíma á virkum vinnudögum, auk þess sem hann skyldi sinna tilteknum viðskiptaerindum erlendis. Þá sé í greinum 3.4 og 3.5 kveðið á um skyldu hans til ferða erlendis og til að þurfa jafnvel að sinna starfinu heima hjá sér, utan venjulegs vinnutíma. Pálmar hafi hins vegar vanefnt þessa skyldu sína verulega. Meginskylda hans hafi verið að inna af hendi a.m.k. 8 klst. vinnu á virkum dögum við markaðs- og sölustörf á starfsstöð stefnda. Hafi tímaramminn verið sveigjanlegur að því leyti að Pálmar hafi haft aðgang að starfsstöð stefnda á tímabilinu frá kl. 7:00 til kl. 18:00 á hverjum virkum degi til að inna framlag sitt af hendi. Stefnda hafi hins vegar verið ljóst í september 2011 að Pálmar hefði ekki verið að inna af hendi vinnuskyldu sína á starfsstöð stefnda í samræmi við ákvæði samningsins. Hafi framkvæmdastjóri stefnda farið ítrekað yfir þetta á fundum með Pálmari á tímabilinu frá september til nóvember 2011 og óskað eftir úrbótum. Þar sem Pálmar hafi í engu sinnt þessum athugasemdum stefnda hafi farið svo að stefndi rifti samningnum hinn 30. nóvember það ár.

Í málinu liggi fyrir yfirlit stefnda yfir unnar vinnustundir Pálmars á starfsstöð stefnda frá apríl til loka nóvember 2011. Yfirlit þetta sé unnið út frá skráðum vinnustundum Pálmars, á grundvelli yfirlits sem stefnandi hafi sjálfur lagt fram í málinu, og miðist við þær forsendur að Pálmar hafi tekið/átt matartíma hvern virkan vinnudag, sem hafi verið frá morgni fram að eftirmiðdegi eða fram á kvöld, sbr. gr. 3.3 í samningi aðila. Einnig sjáist á yfirliti stefnda hvaða daga Pálmar hafi uppfyllt lágmarksvinnuskyldu sína skv. gr. 3.1 í samningi aðila. Sé í útreikningum stefnda ekki tekið tillit til daga sem Pálmar skrái sem „frí“ heldur sé litið svo á að vinnustundir í starfsstöð stefnda séu 0 klst. þá daga. Þá liggi fyrir í málinu samantekt á unnum vinnudögum Pálmars á starfsstöð stefnda. Af því megi ráða að einungis í 33% tilvika á öllu samningstímabilinu hafi Pálmar fylgt ákvæðum samningsins og verið í vinnu á starfsstöð stefnda í a.m.k. 8 klst. á dag, þá virka daga sem hann hafi ekki verið í vinnuferðum erlendis. Komi þar og fram að Pálmar hafi aldrei náð 8 vinnustundum á dag í starfsstöð stefnda í einum og sama mánuðinum á meðan verksamningurinn hafi verið í gildi. Með hliðsjón af öllu framangreindu telji stefndi ljóst að Pálmar hafi vanefnt samning aðila verulega strax frá upphafi. Riftun samningsins hafi því verið lögmæt og falli því greiðslur niður frá og með riftunardegi.

Verði ekki fallist á framangreint sé á því byggt að kröfur stefnanda séu allt of háar og að stefndi eigi jafnframt gagnkröfu á stefnanda til skuldajafnaðar og/eða afsláttar af reikningum. Þannig sé því í fyrsta lagi mótmælt að stefnandi geti krafist greiðslu á tveimur reikningum, dags. 30. nóvember 2011, þegar forsvarsmaður stefnanda hafi lýst því yfir í máli nr. E-40/2014 að stefnandi hafi fallið frá kröfum á grundvelli þessara reikninga, eins og fyrr sé rakið.

Verði ekki fallist á framangreinda málsástæðu sé því mótmælt að almennt sé hægt að krefjast fullrar greiðslu vegna vinnu Pálmars í nóvember 2011, enda telji stefndi að Pálmar hafi ekki uppfyllt verkskyldu sína í þeim mánuði. Stefndi hafi mótmælt reikningi stefnanda vegna þessa mánaðar með bréfi, dags. 30. nóvember 2011, en ágreiningslaust sé að Pálmar hafi skráð á sig 8 „frídaga“ í þeim mánuði. Pálmar hafi ekki verið launþegi heldur verktaki og í verksamningum sé almennt ekki gert ráð fyrir að verktaki taki sér frídaga á kostnað verkkaupa. Þar sem virkir dagar í nóvember 2011 hafi verið alls 22 sé ljóst að stefndi eigi rétt á a.m.k. 36% afslætti (8/22=0,3636) af reikningi vegna nóvember 2011. Eftir stæði þá krafa að fjárhæð 636.364 krónur, auk virðisaukaskatts, og telji stefndi að það sé hæsta mögulega krafa sem hægt væri að krefja hann um vegna vinnu Pálmars í þessum mánuði.

Stefndi mótmæli því jafnframt að stefnandi geti krafist efnda á grundvelli samningsskuldbindingar á uppsagnarfresti. Stefnandi virðist byggja kröfu sína á meginreglum samningaréttar án þess að rökstyðja það frekar. Þetta standist ekki enda hafi verið um að ræða gagnkvæman verksamning og hvorki Pálmar né stefnandi hafi innt af hendi sína greiðslu samkvæmt honum og geti því ekki krafist efnda vegna þess. Ekki sé um það að ræða í verksamningum að greiðsluskylda stofnist fyrir óunnið verk. Sé í þessu sambandi rétt að benda á að samkvæmt ársreikningi stefnanda fyrir árið 2012 hafi stefnandi ekki orðið fyrir neinum kostnaði vegna verksamningsins á árinu 2012, en þá hafi fallið niður allar launagreiðslur frá félaginu til Pálmars sem hafi þá verið búinn að ráða sig í vinnu annars staðar. Jafnframt hafi kostnaður fyrirtækisins lækkað verulega eftir að verksamningnum hafi verið rift, eða úr 4.493.405 krónum á árinu 2011 í 18.700 krónur á árinu 2012.

Verði ekki á framangreint fallist telji stefndi að lækka eigi kröfur stefnanda þar sem stefndi eigi gagnkröfu á stefnanda til skuldajafnaðar að fjárhæð 4.690.000 krónur. Grundvallist gagnkrafa þessi á því að stefndi eigi rétt á afslætti, sem nemi framangreindri fjárhæð, af þeim reikningum sem krafa stefnanda byggist á. Vísi stefndi í því sambandi til þess að Pálmar hafi ekki uppfyllt skyldur sínar á grundvelli verksamningsins við stefnda og að þær vanefndir hafi staðið frá upphafstíma samningsins, eins og áður hafi verið rakið. Hafi stefnandi því brotið gegn ákv. 3.1 í samningnum allan gildistíma samningsins. Þar sem Pálmar hafi einungis í 33% tilvika náð að skila 8 vinnustunda degi á starfsstöð stefnda þá virku daga sem hann hafi ekki verið staddur erlendis í vinnuferðum telji stefndi sig eiga rétt á 67% afslætti af verki Pálmars frá maí til nóvember 2011, er nemi 4.690.000 krónum, utan virðisaukaskatts, (1.000.000 króna *7 mánuðir*67%). Verði ekki á þessa útreikninga fallist sé þess krafist að afsláttur verði dæmdur að álitum. Gagnkrafa stefnda sé gjaldfallin og því séu skilyrði skuldajafnaðar fyrir hendi, sbr. 1. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991.

Stefndi mótmælir dráttarvaxtakröfu stefnanda m.a. með vísan til 7. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, enda sé í máli þessu dæmt um uppgjör á verksamningi þar sem stefndi hafi uppi ýmis mótmæli og gagnkröfur vegna umfangsmikilla vanefnda Pálmars S. Ólafssonar, framkvæmdastjóra, stjórnarmanns og 100% eiganda stefnanda.

Um lagarök kveðst stefndi vísa til laga um lausafjárkaup nr. 50/2000, einkum 38. gr. þeirra laga, meginreglna kröfuréttar, samningaréttar og verktakaréttar. Jafnframt vísar hann til ákv. 16., 28. og 45. gr. laga nr. 9171991 um meðferð einkamála.

V.

Niðurstaða

Eins og fyrr er rakið byggist krafa stefnanda á tveimur reikningum sem fyrirtækið gaf út hinn 30. nóvember 2011 á grundvelli ákv. í gr. 4.3, sbr. og ákv. í gr. 1.1, í verktakasamningi milli Pálmars S. Ólafssonar, eiganda og forsvarsmanns stefnanda, og stefnda í máli þessu vegna endurgjalds Pálmars samkvæmt samningnum. Stefndi krefst þess í fyrsta lagi að hann verði sýknaður af kröfu stefnanda á grundvelli aðildarskorts stefnanda, enda hafi fyrrgreindur Pálmar lýst því yfir í stefnu sinni í fyrra dómsmáli vegna sömu lögskipta, málinu nr. E-40/2014, að stefnandi máls þessa hefði fallið frá þeim kröfum á hendur stefnda sem ágreiningur máls þessa lýtur að, en Pálmar sjálfur tekið við þeim. Við þessa yfirlýsingu væri stefnandi bundinn í máli þessu, sbr. 45. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Eins og fyrr segir kom framangreind yfirlýsing fram í stefnu Pálmars í fyrra máli vegna sömu lögskipta við stefnda. Í skýrslu sem forsvarsmaðurinn gaf í máli þessu lýsti hann því hins vegar yfir að stefnandi væri nú eigandi þessara reikninga. Samkvæmt því, og þar sem ekkert annað liggur fyrir en að stefnandi sé nú réttur eigandi og umráðamaður umræddra reikninga, sem gefnir voru út af stefnanda sjálfum, verður hann talinn réttur aðili að máli þessu. Verður sýknukröfu stefnda á þessum forsendum því hafnað.

Stefndi byggir og á því að stefndi hafi rift umræddum samningi aðila hinn 30. nóvember 2011 á þeirri forsendu að verktakinn Pálmar hafi vanefnt verulega vinnuskyldur sínar samkvæmt verksamningnum við stefnda. Vísar stefndi í því sambandi til þess að Pálmar hafi á starfstímanum ekki innt af hendi vinnuskyldu sína á starfsstöð stefnda í samræmi við ákvæði samningsins. Er hvað það varðar meðal annars vísað til þess að hann hafi ekki á tímabilinu tekið sér matartíma í hádegi, eins og honum hafi verið skylt, sbr. gr. 3.3, og að Pálmar hafi farið í nokkurra daga frí án heimildar, bæði í júlí og lok nóvember 2011. Hafi hann þrátt fyrir þetta reikningsfært stefnda að fullu fyrir vinnu sína allt starfstímabilið til loka nóvembermánaðar.           Samkvæmt gr. 2.1 í umræddum samningi var starfsstaður Pálmars annars vegar í starfsstöð stefnda og hins vegar á vettvangi hjá erlendum viðskiptavinum stefnda, aðallega á vegum FoodCraft í Bandaríkjunum. Þá kemur fram í gr. 3.1 að vinnutími í starfsstöð stefnda skuli vera „að jafnaði sem svarar a.m.k. 8 vinnustundum á virkum vinnudögum, þegar hann sé ekki í vinnuferðum erlendis, á vegum FoodCraft eða Skagans“. Daglegur  vinnutími sé sveigjanlegur á tímabilinu kl. 7.00 – 18.00. Þá segir í gr. 3.3 að matartími „skal vera hvern vinnudag 30 - 60 mínútur á tímabilinu 12.00-14.15 og telst hann ekki til vinnutíma“. Loks segir í gr. 3.4 að þegar Pálmar sé ekki í vinnuferðum erlendis eða í starfsstöð stefnda þá sinni hann starfinu heima hjá sér.

Í samræmi við gr. 3.2 í samningi aðila liggur fyrir að Pálmar stimplaði sig inn og út þegar hann var við störf í starfsstöð stefnda á Akranesi. Hefur stefndi lagt fram í málinu gögn, þar á meðal yfirlit úr stimpilklukku starfsstöðvar stefnda yfir unnar vinnustundir Pálmars í starfsstöðinni á tímabilinu 1. apríl til 1. nóvember 2011. Gátu forsvarsmenn stefnda, meðal annars á grundvelli fyrrgreindrar tímaskráningar, fylgst með því allt framangreint starfstímabil verktakans hvernig hann innti sína vinnuskyldu af hendi þar með hliðsjón af framangreindum ákvæðum verksamningsins um vinnutíma verktakans. Þannig eru skráðir í þessum tímaskráningargögnum þeir frídagar sem stefndi vísar til að stefnandi hafi tekið í júlí- og nóvembermánuði 2011.  Þrátt fyrir að þessi gögn væru stefnda aðgengileg allt fyrrgreint tímabil liggur ekkert fyrir í málinu um að hann hafi gert athugasemdir við að vinnuframlag verktakans samræmdist ekki umræddum samningi aðila fyrr en í riftunartilkynningu stefnda, dags. 30. nóvember 2011. Ingólfur Árnason, framkvæmdastjóri stefnda, kvaðst í skýrslu sinni fyrir dómi að vísu hafa brýnt fyrir Pálmari á fundi þeirra í septemberbyrjun þetta ár að reikningar skyldu gerðir í samræmi við tímaskráningar, en minntist þó ekki á að tilteknar athugasemdir hefðu þá verið gerðar vegna hennar. Þá kvaðst hann ekki hafa talið ástæðu til þess að gera athugasemd við Pálmar út af fríi hans í júlí það ár, þrátt fyrir að hafa haft vitneskju um það.

Eins og áður greinir kemur fram í gr. 3.1 í umræddum verktakasamningi að vinnutími Pálmars í starfsstöð stefnda skuli að jafnaði vera sem svarar a.m.k. 8 vinnustundum á virkum vinnudögum þegar hann sé ekki í vinnuferðum erlendis á vegum FoodCraft eða stefnda. Hefur stefnandi ekki haldið því fram að túlka ætti ákvæði þetta á annan veg en þann að þá daga sem Pálmar mætti til vinnu í starfsstöð stefnda hafi honum borið að skila a.m.k. 8 vinnustundum á staðnum. Stefnandi telur hins vegar að Pálmar hafi að fullu staðið við þetta ákvæði, en við mat á því verði jafnframt til þess að líta að hann hafi ávallt sinnt hluta af starfi sínu heima, eins og kveðið sé á um í gr. 3.4 í samningnum. Það er mat dómsins að við mat á vinnuskyldu Pálmars samkvæmt samningnum verði ekki á þetta sjónarmið stefnanda fallist heldur beri að fallast á það með stefnda að skýra verði fyrrgreint samningsákvæði sjálfstætt og án tillits til þess að Pálmar hafi eftir atvikum þurft, sbr. gr. 3.4, að sinna tilfallandi vinnuskyldum á heimili sínu, m.a. vegna samskipta við FoodCraft og tímamunar gagnvart Bandaríkjunum. Þá verður og á það fallist með stefnda að skýra verði gr. 3.3 í samningi aðilanna á þann veg að Pálmari hafi borið skylda til að taka 30 mínútna matarhlé á tilgreindu tímabili vinnudagsins í starfsstöð stefnda og að sá tími teljist því ekki til vinnutímans þann daginn, jafnvel þótt hann hafi ekki stimplað sig út og þá eftir atvikum sinnt vinnu sinni á þeim tíma.

Með hliðsjón af framangreindu, og þeim tímaskráningarskýrslum sem fyrir liggja vegna vinnuframlags Pálmars hjá stefnda, er það niðurstaða dómsins að Pálmar hafi ekki uppfyllt í hvívetna vinnuskyldu sína gagnvart stefnda í samræmi við verktakasamning aðilanna. Við þá niðurstöðu er og til þess horft að ekkert liggur fyrir um það að Pálmar hafi fengið samþykki stefnda fyrir því að hann gæti tekið sér frí frá vinnu án þess að það kæmi til frádráttar umsömdu endurgjaldi hans eða yrði bætt upp með auknu vinnuframlagi. Þegar hins vegar til þess er litið að ekkert liggur fyrir um það, eins og áður hefur verið rakið, að stefndi hafi gert athugasemdir vegna þessara galla á framlagi Pálmars á samningi aðila, sbr. 32. gr. laga um lausafjárkaup nr. 50/2000, fyrr en með riftunarbréfi sínu, dags. 30. nóvember 2011, verður að líta svo á að stefndi hafi glatað rétti til að bera þá fyrir sig fyrir eldra tímabil en október 2011. Að þessu virtu verður á það fallist með stefnda að hann eigi rétt á afslætti, sbr. 38. gr. laga nr. 50/2000. Þykir afsláttur vegna reiknings stefnanda fyrir októbermánuð hæfilega ákveðinn 132.976 krónur, að viðbættum virðisaukaskatti, og vegna reiknings fyrir nóvembermánuð 421.012 krónur, að viðbættum virðisaukaskatti. Hefur þá verið tekið tillit til þess að umrædda tvo mánuði þurfti Pálmar ekki að fara í vinnuferðir á vegum stefnda heldur sinnti einungis starfsskyldum í starfsstöð hans á Akranesi. Verður því fallist á það með stefnda að hann eigi gagnkröfu til skuldajafnaðar við kröfu stefnanda og nemi hún 553.988 krónum, að viðbættum virðisaukaskatti, eða samtals 686.945 krónum. Hins vegar verður hafnað þeirri málsástæðu stefnda að framangreindar vanefndir Pálmars á samningi aðilanna hafi verið svo verulegar að riftun á samningi aðilanna hafi verið honum heimil, sbr. 1. mgr. 39. gr. laga nr. 50/2000.

Eins og áður er fram komið byggist krafa stefnanda annars vegar á reikningi vegna endurgjalds hans samkvæmt umræddum samningi í nóvember 2011 og hins vegar á reikningi vegna þess endurgjalds sem hann telur sig eiga rétt á fyrir mánuðina desember 2011 og janúar og febrúar og mars 2012 með tilliti til uppsagnarákvæðis verksamningsins í gr. 10.1. Með því að verktakinn Pálmar hefur innt af hendi sína skyldu samkvæmt samningnum vegna nóvembermánaðar, að því þó undanskildu sem að framan er rakið, verður fallist á kröfu stefnanda samkvæmt reikningi hans vegna þess tímabils, að frádregnum ofangreindum afslætti vegna reikninga fyrir október og nóvember að fjárhæð 686.945 krónur, eða alls 568.055 krónur.

Samkvæmt fyrrgreindu ákvæði verksamningsins í gr. 10.1 skyldi gagnkvæmur uppsagnarfrestur samningsins vera þrír mánuðir og uppsögnin miðast við mánaðamót, en fyrsta mögulega uppsögn hans skyldi þó vera í desember 2011. Telja verður að uppsagnarbréf stefnda, dags. 30. nóvember 2011, uppfylli ekki framangreind skilyrði, bæði varðandi tímasetningu uppsagnarinnar og það sem fram kom í umræddu bréfi að ekki yrði um frekari greiðslur að ræða samkvæmt samningnum. Sýnist og augljóslega hafa verið út frá því gengið að uppsögnin kæmi þegar til framkvæmda og ljóst að það hefur verið skilningur beggja aðila verksamningsins. Liggur þannig fyrir að verktakinn Pálmar kvaðst í skýrslu sinni fyrir dómi ekki hafa sinnt neinni vinnu í þágu stefnda eftir að framangreind uppsögn kom til, enda hefðu forsvarsmenn stefnda gert honum grein fyrir því að ekki væri óskað eftir því að hann sinnti frekari vinnuskyldum í þágu stefnda samkvæmt samningnum. Með því að verktakinn Pálmar hefur ekki af framangreindum ástæðum innt af hendi þá vinnu sem samningur aðilanna kvað á um verður ekki talið að hann eigi rétt til þess að stefndi greiði gagngjald sitt til loka samningstímans, miðað við að samningnum hefði verið réttilega sagt upp, sbr. tilvitnað ákvæði verksamnings í gr. 10.1. Það útilokar hins vegar ekki að stefndi hafi bakað sér skaðabótaskyldu vegna ólögmætrar uppsagnar samningsins, að fullnægðum öðrum skilyrðum slíkrar ábyrgðar. Þar sem telja verður að slík krafa verði einungis sett fram af verktakanum sjálfum, þ.e. Pálmari S. Ólafssyni, verður stefndi sýknaður af kröfu stefnanda vegna reiknings stefnanda að fjárhæð 5.020.000 krónur vegna uppgjörs samningsins fyrir desember 2011 og janúar, febrúar og mars 2012.

Samkvæmt öllu framangreindu er það niðurstaða dómsins að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 568.055 krónur ásamt dráttarvöxtum frá eindaga reiknings skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, eins og nánar greinir í dómsorði.

Rétt þykir að málskostnaður milli aðila falli niður með vísan til ákv. 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Ásgeir Magnússon dómstjóri kveður upp dóm þennan.      

Dómsorð:

Stefndi, Skaginn hf., greiði stefnanda, The Beer Snack Company ehf., 568.055 krónur, ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 7. desember 2011 til greiðsludags.

Málskostnaður fellur niður.