Hæstiréttur íslands
Mál nr. 137/2009
Lykilorð
- Kaupsamningur
- Einkahlutafélag
- Kröfugerð
- Dráttarvextir
- Frávísun frá héraðsdómi að hluta
- Málsgögn
- Gagnsök
- Sameining mála
- Aðfinnslur
|
|
Fimmtudaginn 14. janúar 2010. |
|
Nr. 137/2009. |
Guðmundur Kristinsson (Sveinn Sveinsson hrl.) gegn Reyni Finndal Grétarssyni (Þórunn Guðmundsdóttir hrl.) og gagnsök |
Kaupsamningur. Einkahlutafélög. Kröfugerð. Dráttarvextir. Frávísun máls að hluta frá héraðsdómi. Málsgögn. Gagnsök. Sameining mála. Aðfinnslur.
Í ágúst 2004 keyptu G og R að jöfnum hlutum einkahlutafélagið T ehf. Fljótlega eftir kaupin stofnuðu þeir dótturfélagið, HP ehf. Í janúar 2006 seldi R, G sinn hlut í T ehf. Vegna kaupanna útbjó R skriflegan kaupsamning sem gilti um kaupin. Samkvæmt samningnum skyldi kaupverðið greitt með þrennum hætti, í fyrsta lagi með 10.000.000 krónum í peningum við undirskrift, í öðru lagi með 10.000.000 krónum í peningum þann 25. apríl 2006 og í þriðja lagi með greiðslu jafnvirðis 25% af hagnaði beggja félaganna á árinu 2006. Þá skyldi verð hlutanna miða við að niðurstaða ársins 2005 hefði verið 5.000.000 krónur í tap. Ef afkoman yrði betri skyldi kaupverð hækka um sem næmi 70% af þeirri upphæð og skyldi slík hækkun þá koma til greiðslu þann 1. apríl 2006. Sömu aðferð skyldi beitt ef tap reyndist meira og skyldi þá kaupverð lækka og sú lækkun dragast af greiðslunni þann 25. apríl 2006. Þá var sérstaklega tiltekið í samningnum að R ætti rétt á að skipa einhvern til að kanna bóhald félaganna til að staðreyna afkomu ársins 2005 og 2006 og skyldi hann hafa fullan aðgang að öllum bókhaldsgögnum félaganna á meðan athugun hans stæði yfir. Í samræmi við kaupsamninginn greiddi G, R fyrstu greiðsluna að fjárhæð 10.000.000 krónur en ekki greiðsluna 25. apríl 2006. Krafði R, G nú aðallega um þá greiðslu en til vara lægri fjárhæðir. Þá krafði G, R um endurgreiðslu á þeim 10.000.000 krónum sem hann hafði nú þegar greitt R samkvæmt samningnum. Deildu þeir um hvaða gögn ætti að leggja til grundvallar útreikningi á kaupverði vegna afkomu félaganna á árinu 2005, hvaða aðferð ætti að nota við ákvörðun viðmunarfjárhæða vegna þess árs, svo og skýringu á ákvæðum kaupsamningsins. Talið var að leggja yrði framlagða ársreikninga T ehf. og HP ehf. til grundvallar við útreikning á kaupverði aðila þrátt fyrir að þeir kynnu að vera háðir annmörkum, þar sem R hafði ekki nýtt sér þann rétt samkvæmt kaupsamningnum að fá einhvern til að kanna bókhald félaganna. Þá þótti R ekki hafa fært sönnur að því að það væri venja í viðskiptum að niðurstöður í ársreikningi ætti að miða við svonefndan EBIDTA hagnað við greiningu á afkomu auk þess sem ekki hafi verið getið um það í kaupsamningi aðila. Með vísan til orðalags kaupsamningsins þótti rétt að skýra ákvæði hans um afkomu ársins 2005 þannig að það ákvæðið tæki til afkomu beggja félaganna. Samanlagt tap félaganna á árinu 2005 var 28.083.533 krónur. Frá því hafði G dregið 5.000.000 krónur sem svaraði til þess hlutafjár HP ehf. sem var afskrifað í reikningum T ehf. á árinu 2005. Þá skyldi einnig samkvæmt ákvæðum kaupsamningsins draga frá 5.000.000 krónur, sem næmi því tapi sem gert var ráð fyrir við samningsgerðina. Eftir stóðu því 18.083.533 krónur en samkvæmt kaupsamningi aðila bæri að lækka kaupverðið um 70% af þeirri fjárhæð eða um 12.658.473 krónur. Þá hafði ákvæði samningsins um að G bæri að greiða 25% af hagnaði beggja félaganna á árinu 2006 ekki áhrif á kaupverðið þar sem tap var á rekstri félaganna á árinu 2006. Var endanlegt kaupverð því 20.000.000 krónur að frádreginni fjárhæð vegna afkomu ársins 2005, 12.658.473 krónur eða 7.341.527 krónur. Hefði R mátt vera það ljóst að til endurgreiðslu gæti komið ef tapið yrði meira en málsaðilar ráðgerðu og var hann því dæmdur til að endurgreiða G 2.658.473 krónur (10.000.000-7.341.527).
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 19. mars 2009. Hann krefst þess að gagnáfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 10.000.000 krónur ,,með dráttarvöxtum skv. lögum nr. 38/2001“ um vexti og verðtryggingu frá 16. janúar 2006 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði fyrir sitt leyti 22. maí 2009. Hann krefst aðallega að aðaláfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 10.000.000 krónur en til vara 6.360.833 krónur, í báðum tilvikum með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 25. apríl 2006 til greiðsludags. Til þrautavara krefst hann staðfestingar hins áfrýjaða dóms en að því frágengnu að aðaláfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 619.731 krónu með sömu dráttarvöxtum og í aðal- og varakröfu. Í öllum tilvikum krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Aðilar keyptu að jöfnum hlutum einkahlutafélagið Task 6. ágúst 2004. Umsamið kaupverð var 12.500.000 krónur, sem greiðast skyldi í þremur hlutum. Upplýst er að málsaðilar greiddu 8.687.500 krónur samtals fyrir hlutina í félaginu. Ekki eru aðrar skýringar á því hvers vegna umsamið kaupverð var ekki greitt að fullu en að birgðir félagsins hafi reynst minni en gert hafi verið ráð fyrir.
Eins og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi gekk rekstur Task ehf. ekki sem skyldi. Málsaðilar stofnuðu fljótlega eftir kaupin einkahlutafélagið HP búðin sem var dótturfélag Task ehf. Þeir ráku félögin til 16. janúar 2006, en ósamræmi er í skýrslum þeirra fyrir dómi um hvor hafi sinnt rekstri þeirra meira. Upplýst er að aðaláfrýjandi var í stjórn Task ehf. þann tíma sem málsaðilar áttu félagið. Síðast greindan dag seldi gagnáfrýjandi aðaláfrýjanda hlut sinn í Task ehf. Vegna kaupanna útbjó gagnáfrýjandi skriflegan kaupsamning sem aðilar eru sammála um að hafi komist á milli þeirra. Meginefni hans er svohljóðandi: ,,Kaupverð skal greitt með eftirfarandi hætti: 1. Kr. 10.000.000 í peningum við undirskrift samnings 2. Kr. 10.000.000 í peningum þann 25. apríl 2006 3. Með greiðslu jafnvirðis 25% af hagnaði beggja félaganna, HP búðarinnar og Task á árinu 2006.
Verð hlutanna er miðað við að niðurstaða ársins 2005 hafi verið kr. 5.000.000 í tap. Reynist afkoman betri skal kaupverðið hækka um sem nemur 70% af þeirri upphæð. Reynist tap t.d. einungis 3.000.000, hækkar kaupverðið um 1.400.000. Skal slík hækkun þá koma til greiðslu þann 1. apríl 2006. Sömu aðferð skal beitt ef tap reynist meira og skal þá kaupverð lækka og sú lækkun dragast af greiðslunni þann 25. apríl 2006.
Reynir skal eiga rétt á að skipa einhvern til að kanna bókhald félaganna til að staðreyna afkomu ársins 2005 og afkomu ársins 2006 þegar þar að kemur. Sá aðili skal hafa fullan aðgang að öllum bókhaldsgögnum félaganna meðan á athugun hans stendur.“
Fyrir liggur að aðaláfrýjandi innti af hendi fyrstu greiðsluna til gagnáfrýjanda, en ekki greiðslu 25. apríl 2006 þótt gagnáfrýjandi krefðist hennar. Gerð ársreikninga Task ehf. og HP búðarinnar ehf. fyrir árið 2005 dróst verulega eða að því er virðist allt fram í desember 2006. Ástæður þess voru einkum að bókhald Task ehf. fyrir árið 2004 var í mikilli óreiðu og hafði ekki verið bætt úr á árinu 2005. Í bréfi endurskoðunarfirmans Deloitte hf. 15. apríl 2008 um gerð reikninganna segir svo: ,,Í tengslum við ársreikninga fyrir Task ehf. og HP búðina ehf. fyrir árið 2005 viljum við undirritaðir gefa eftirfarandi yfirlýsingu: Bókhald félaganna var unnið af starfsmönnum félaganna og með aðstoð bókara frá Fjárstoð ehf. Vinna Deloitte fólst í að stilla upp ársreikningum fyrir félögin og voru þeir byggðir á fjárhæðum úr bókhaldi. Umræddir ársreikningar voru ekki endurskoðaðir og hafa ekki verið áritaðir að öðru leyti af hálfu Deloitte og mun Deloitte því ekki geta staðfest um réttmæti fjárhæða í ársreikningum félaganna fyrir árið 2005.“
Samkvæmt þessum ársreikningum var tap Task ehf. talið 17.665.297 krónur og tap HP búðarinnar ehf. 10.418.236 krónur.
II
Mál þetta höfðaði aðaláfrýjandi til endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar, 10.000.000 krónur, sem hann hafði innt af hendi til gagnáfrýjanda þann dag sem kaupsamningur málsaðila um helmingshlut í Task ehf. var gerður. Gagnáfrýjandi telur á hinn bóginn að honum beri réttur til greiðslunnar, 10.000.000 krónur, sem aðaláfrýjandi skyldi greiða 25. apríl 2006 og höfðaði mál í héraði aðallega til heimtu þeirrar fjárhæðar, en til vara lægri fjárhæða eins og gerð er grein fyrir í hinum áfrýjaða dómi. Voru málin sameinuð 5. júní 2008 með samþykki beggja málsaðila svo sem heimilt er, sbr. 30. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Aðilar deila um hvaða gögn eigi að leggja til grundvallar útreikningi á kaupverði vegna afkomu félaganna á árinu 2005 og hvaða aðferð eigi að nota við ákvörðun viðmiðunarfjárhæðar vegna þess árs. Þá greinir aðila um skýringu á ákvæðum í kaupsamningnum 16. janúar 2006 sem vikið verður að síðar. Röksemdir málsaðila eru raktar í hinum áfrýjaða dómi.
III
Ekki liggja önnur gögn fyrir í málinu um afkomu Tasks ehf. og HP búðarinnar ehf. árið 2005 en framangreindir ársreikningar að því frátöldu að lagt hefur verið fram skjal sem sagt er vera útprentun úr bókhaldi Task ehf. fyrir árið 2005. Samkvæmt kaupsamningi aðila hafði gagnáfrýjandi heimild til þess að skipa einhvern til að kanna bókhald beggja félaganna til að staðreyna afkomu ársins 2005. Ekkert liggur fyrir um að hann hafi nýtt sér þennan rétt. Verður því að miða við að hann sé í lögskiptum aðila bundinn við niðurstöður í ársreikningum þeim, sem um ræðir, þótt þeir kunni að vera háðir annmörkum, en málsaðilum var báðum kunnugt um að óreiða var á bókhaldi Task ehf. Verða ársreikningarnir lagðir til grundvallar við útreikning á kaupverði svo sem síðar greinir.
Gagnáfrýjandi heldur því fram að ekki beri að miða við framangreindar niðurstöður í ársreikningi Task ehf. heldur eigi að miða við svonefndan EBIDTA hagnað við greiningu á afkomu. Þar sé um að ræða rekstrarhagnað án tillits til vaxtagjalda og vaxtabóta, skatta og afskrifta, en sú aðferð sýni raunverulegan hagnað af rekstri félagsins. Kveður hann þessa aðferð almennt notaða við kaup og sölu fyrirtækja enda gefi hún raunhæfasta mynd af rekstri félags og takmarki möguleika stjórnar til að hafa áhrif á tölur. Í kaupsamningi málsaðila er þess ekki getið að nota eigi þessa aðferð við ákvörðun á forsendum útreiknings kaupverðsins. Gagnáfrýjandi hefur heldur ekki leitt sönnur að því að það sé venja í viðskiptum að nota hana við ákvörðun á niðurstöðum rekstrar. Verður ekki fallist á framangreind sjónarmið hans.
Af kaupsamningnum verður ráðið að kaupverð hlutanna er þar ekki endanlega ákveðið og þar er heldur engin tilgreining á lágmarkskaupverði. Segir efnislega að verð hlutanna sé miðað við tiltekna niðurstöðu rekstrar ársins 2005, það er 5.000.000 króna tap. Verði niðurstaðan önnur skuli kaupverðið hækka eða lækka um 70% af mismuninum. Skýra verður kaupsamninginn svo að þetta ákvæði hans taki til afkomu beggja félaganna, enda var HP búðin ehf. dótturfélag Task ehf. og afkoma fyrrnefnda félagsins og fjárhagsstaða hefur því bein áhrif á stöðu hins síðarnefnda. Svo sem áður sagði er þess einnig getið í kaupsamningnum að gagnáfrýjandi geti skipað einhvern til ,,að kanna bókhald félaganna til að staðreyna afkomu ársins 2005 og afkomu ársins 2006 þegar þar að kemur.“ Skírskotun til ,,félaganna“ í þessu sambandi, sem einnig á við um afkomu ársins 2005, styður þá niðurstöðu að leggja beri afkomu þeirra beggja til grundvallar.
Tap á rekstri Task ehf. samkvæmt fyrrgreindum ársreikningi 2005 var 17.665.297 krónur og tap HP búðarinnar ehf. á sama tíma 10.418.236 krónur. Samanlagt tap félaganna á árinu 2005 var því 28.083.533 krónur. Aðaláfrýjandi hefur miðað við að draga beri frá þessari fjárhæð 5.000.000 krónur sem svarar til þess hlutafjár HP búðarinnar ehf. sem var afskrifað í reikningum Task ehf. á árinu 2005. Þá skuli einnig samkvæmt ákvæðum kaupsamningsins draga frá 5.000.000 krónur, sem nemur því tapi sem gert var ráð fyrir. Eftir standi því sem viðmiðunartala 18.083.533 krónur. Hefur þessum útreikningi hans ekki verið andmælt tölulega. Samkvæmt kaupsamningnum ber að lækka kaupverðið um 70% af þessari fjárhæð eða um 12.658.473 krónur. Aðaláfrýjandi skyldi greiða samkvæmt 1. og 2. tölulið samningsins 20.000.000 krónur og hafði hann þegar innt af hendi helming þeirrar upphæðar.
Skýra verður kaupsamninginn svo, að greiðsla samkvæmt 3. tölulið hafi aðeins falið í sér skyldu aðaláfrýjanda til að greiða 25% af hagnaði beggja félaganna á árinu 2006. Ekki er getið um að hugsanlegt tap eða hluti þess á árinu 2006 eigi að leiða til lækkunar kaupverðs. Þar sem fyrir liggur að tap varð á rekstri beggja félaganna 2006 hefur ákvæði þessa töluliðar kaupsamningsins ekki áhrif á endanlegt kaupverð.
Með því að lágmarkskaupverð var ekki ákveðið í samningi málsaðila verður hann samkvæmt framansögðu skýrður svo að endanlegt kaupverð sé 20.000.000 krónur að frádreginni fjárhæð vegna afkomu ársins 2005, 12.658.473 krónur eða 7.341.527 krónur. Aðaláfrýjandi hefur þegar greitt 10.000.000 krónur en sú greiðsla var innt af hendi við gerð samningsins. Líta verður svo á að um hafi verið að ræða innborgun á kaupverðið og að regla kaupsamningsins um hækkun eða lækkun kaupverðs hafi ekki verið bundin við greiðsluna samkvæmt 2. tölulið, enda er það ekki tekið fram. Mátti því gagnáfrýjanda vera ljóst að til endurgreiðslu gæti komið ef tapið yrði meira en málsaðilar ráðgerðu svo sem raunin varð. Verður gagnáfrýjandi dæmdur til að greiða aðaláfrýjanda 2.658.473 krónur (10.000.000 - 7.341.527).
Af framangreindu leiðir að aðaláfrýjandi verður sýknaður af kröfu gagnáfrýjanda í gagnsök.
IV
Aðaláfrýjandi hefur krafist dráttarvaxta ,,samkvæmt lögum nr. 38/2001 frá 16. janúar 2006 til greiðsludags.“ Samkvæmt d. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, eins og það ákvæði hefur verið skýrt í dómaframkvæmd, ber að tilgreina, svo glöggt sem verða má, auk þeirrar fjárhæðar sem vaxta eða dráttarvaxta er krafist af, upphafstíma vaxta og þá vaxtaprósentu sem krafa er gerð um. Í 11. gr. laga nr. 38/2001 er heimilað frávik frá þessu á þann veg að ef mál er höfðað til heimtu peningakröfu og krafist vaxta með tilvísun til 4. eða 8. gr. eða dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. má dæma slíka vexti, enda þótt hundraðshluti þeirra sé ekki tilgreindur í stefnu. Krafa aðaláfrýjanda um dráttarvexti uppfyllir ekki þessi skilyrði og verður henni því vísað frá héraðsdómi.
Gagnáfrýjandi greiði aðaláfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Ágripsgerð í máli þessu er í verulegu ósamræmi við reglur nr. 463/1994 um málsgögn (ágrip) í einkamálum. Samkvæmt 4. gr. þeirra ber aðilum að forðast að leggja fram gögn, sem ekki hafa sjálfstætt gildi í máli. Af sjálfu leiðir að ekki eiga að vera í ágripi fleiri en eitt eintak hvers skjals. Í málsgögnum er fjöldi skjala í tveimur og jafnvel þremur eintökum, auk þess sem þar eru gögn sem enga þýðingu hafa. Þá eru efnisskrár í málsgögnum ekki í samræmi við fyrirmæli 9. gr. reglnanna. Er þetta aðfinnsluvert.
Aðalmeðferð máls þessa fyrir héraðsdómi fór fram 31. október 2008. Dómsuppsaga dróst til 22. desember 2008, en áður höfðu lögmenn aðila tilkynnt með tölvupósti að þeir teldu óþarft að flytja málið að nýju þótt liðinn væri sá fjögurra vikna frestur, sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991. Þessa er ekki getið í héraðsdómi.
Dómsorð:
Gagnáfrýjandi, Reynir Finndal Grétarsson, greiði aðaláfrýjanda, Guðmundi Kristinssyni, 2.658.473 krónur.
Kröfu aðaláfrýjanda um dráttarvexti er vísað frá héraðsdómi.
Aðaláfrýjandi skal vera sýkn af kröfu gagnáfrýjanda í gagnsök.
Gagnáfrýjandi greiði aðaláfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti samtals 800.000 krónur
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 22. desember 2008.
Mál þetta, sem dómtekið var 31. október sl., er höfðað af Guðmundi Kristinssyni, til heimilis að Gerðhömrum 27, Reykjavík, á hendur Reyni Finndal Grétarssyni, til heimilis að Kaldaseli 19, Reykjavík, með stefnu birtri 27. febrúar 2008. Mál nr. 2559/2008 var höfðað af Reyni Finndal Grétarssyni á hendur Guðmundi Kristinssyni, með stefnu birtri 3. apríl sl. en það var sameinað málinu sem hér er til meðferðar á dómþingi 5. júní sl., að ósk lögmanna.
Aðalstefnandi, Guðmundur Kristinsson, krefst þess að aðalstefndi greiði 10.000.000 króna með dráttarvöxtum skv. lögum nr. 38/2001 frá 16. janúar 2006 til greiðsludags. Þá krefst aðalstefnandi málskostnaðar.
Aðalstefndi krefst sýknu af kröfu aðalstefnanda og málskostnaðar, en til vara að stefnukrafa verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.
Gagnstefnandi, Reynir Finndal Grétarsson, krefst þess aðallega að gagnstefndi greiði 10.000.000 króna með dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 25. apríl 2006 til greiðsludags.
Til vara krefst gagnstefnandi að gagnstefndi greiði 6.360.833 krónur með dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 38/2001 frá 25. apríl 2006 til greiðsludags.
Þrautavarakrafa gagnstefnanda er að gagnstefndi greiði 619.731 krónu með dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 38/2001 frá 25. apríl 2006 til greiðsludags.
Þá krefst gagnstefnandi málskostnaðar.
Gagnstefndi krefst sýknu af kröfum gagnstefnanda og málskostnaðar úr hendi hans.
MÁLAVEXTIR
Stefnandi og stefndi keyptu saman allt hlutafé í einkahlutafélaginu Taski ehf. með kaupsamningi 6. ágúst 2004. Varð hvor um sig eigandi 50% í félaginu og greiddu saman 8.687.500 krónur fyrir hlutaféð.
Staða félagsins reyndist vera verri en þeir höfðu gert ráð fyrir við kaupin. Var þá gripið til margvíslegra ráða svo sem að segja upp starfsfólki, ráða nýjan framkvæmdastjóra og reyna að hagræða á ýmsan veg. Lögðu þeir nýtt fé inn í félagið. Ennfremur var ákveðið að Task ehf. myndi stofna nýtt einkahlutafélag sem fengi nafnið HP búðin ehf.
Með kaupsamningi 16. janúar 2006 keypti Guðmundur Reyni út úr Taski ehf. og þar með félögunum báðum, enda átti Task ehf. allt hlutafé í HP búðinni. Í samningnum dagsettum 16. janúar 2006 segir:
„Guðmundur kaupir hlut Reynis í félaginu Task ehf. ... Um er að ræða 50% hlut í félaginu. Task ehf. á félagið HP búðina ehf., ... að fullu og telst því eignarhlutur Reynis í báðum félögunum því eign Guðmundar með efnd þessa samnings.
Kaupverð skal greitt með eftirfarandi hætti:
1. Kr. 10.000.000 í peningum við undirskrift samnings
2. Kr. 10.000.000 í peningum þann 25. apríl 2006
3. Með greiðslu jafnvirðis 25% af hagnaði beggja félaganna, HP búðarinnar og Task á árinu 2006.
Verð hlutanna er miðað við að niðurstaða ársins 2005 hafi verið kr. 5.000.000 í tap. Reynist afkoman betri skal kaupverðið hækka sem nemur 70% af þeirri upphæð. Reynist tap t.d. einungis 3.000.000, hækkar kaupverðið um 1.400.000. Skal slík hækkun þá koma til greiðslu þann 1. apríl 2006. Sömu aðferð skal beitt ef tap reynist meira og skal þá kaupverð lækka og sú lækkun dragast af greiðslunni þann 25. apríl 2006.
Reynir skal eiga rétt á að skipa einhvern til að kanna bókhald félaganna til að staðreyna afkomu ársins 2005 og afkomu ársins 2006 þegar þar að kemur. Sá aðili skal hafa fullan aðgang að öllum bókhaldsgögnum félaganna meðan á athugun hans stendur.“
Aðalstefndi, Reynir, skrifaði kaupsamninginn en aðalstefnandi greiddi skv. 1. tl. samningsins á umsömdum tíma. Annað hefur ekki verið greitt.
Aðalstefnandi telur að tap sem varð á rekstrinum eigi að dragast frá heildarverði, bæði skv. 1. og 2. tl. samningsins, og beri aðalstefnda því að endurgreiða 10.000.000 króna sem aðalstefnandi greiddi skv. 1. tl.
Gagnstefnandi segir stefnu sína snúast um greiðslu skv. 2. tl. Þá greiðslu hafi stefnda borið að inna af hendi 25. apríl 2006.
Samkvæmt ársreikningi fyrir 2004 var 12.515.282 króna tap hjá Taski ehf. það ár.
Aðalstefnandi segir í stefnu sinni að þáverandi framkvæmdastjóri félaganna hafi reynt að lesa stöðuna út úr bókhaldi þeirra þegar samningur var gerður í janúar 2006, en ekkert vitrænt hafi verið hægt að lesa út úr því.
Í málinu liggur frammi útprentun úr bókhaldskerfi Tasks ehf. fyrir tímabilið 1. janúar 2005 til 31. desember 2005. Þar kemur fram hagnaður að fjárhæð 12.852.124 krónur.
Samkvæmt ársreikningum sem aðalstefnandi byggir á, var 17.665.297 króna tap hjá Taski ehf. á árinu 2005 en 10.418.236 króna tap hjá HP búðinni ehf. 2005. Þá var 22.620.706 króna tap hjá Taski ehf. árið 2006 og 15.724.790 króna tap hjá HP búðinni ehf.
Í árslok 2006 var starfsemi HP búðarinnar ehf. hætt og eignir félagsins dugðu ekki fyrir skuldum þess. Rekstur Task ehf. var seldur í maí 2007, og kveðst stefnandi hafa gert upp við kröfuhafa. Hafi skuldir félagsins verið mun hærri en söluverð.
Gagnstefnandi þingfesti mál á hendur Task ehf., 16. nóvember 2006, og krafðist greiðslu láns. Málið var fellt niður þegar það kom í ljós að ekki væru lengur til fjármunir í félaginu og málshöfðunin ekki líkleg til að enda með greiðslu. Þá höfðaði gagnstefnandi mál á hendur gagnstefnda sem var þingfest 30. nóvember 2006. Undir rekstri málsins kom fram að útbúnir hefðu verið ársreikningar fyrir félagið sem sýndu verulegt tap á rekstri þess. Eftir tilraunir til sátta felldi stefnandi málið niður þar sem ársreikningarnir breyttu málsgrundvellinum verulega.
MÁLSÁSTÆÐUR OG LAGARÖK Í AÐALSÖK
Aðalstefnandi byggir á því að sá sem keypti hinn út úr félaginu Task ehf. hafi átt að greiða kaupverð sem tæki mið af tapi og hagnaði HP búðarinnar ehf. og Task ehf. reikningsár félaganna 2005 og 2006.
Átt hafi að greiða 10.000.000 króna inn á kaupverðið við undirskrift. Aðilar hafi trúað því að einhver verðmæti væru í félaginu sem gætu réttlættu þessa greiðslu.
Aðalstefnandi bendir á að í kaupsamningi aðila sé tiltekið í þremur liðum hvað haft skuli til viðmiðunar um kaupverðið. Við undirskrift hafi átt að greiða 10.000.000 króna upp í kaupverðið. Þá hafi átt að greiða 10.000.000 króna 25. apríl 2006 með frekari skýringum 3. mgr. samningsins. Loks hafi átt að greiða upp í kaupverðið 25% af hagnaði beggja félaganna á árinu 2006.
Aðalstefnandi telur að afkoma félaganna hafi átt að ráða því hvert endanlegt kaupverð yrði. Þannig hafi endanlegt verð ekki átt að koma í ljós fyrr en ársreikningar fyrir árin 2005 og 2006 lægju fyrir. Kaupverðið hafi alfarið átt að taka mið af því hvort um hagnað eða tap væri að ræða á félögunum báðum, árin tvö. Vísar aðalstefnandi til tölvupósta frá aðalstefnda sem hann telur sýna þetta.
Vegna ársins 2005 skyldi kaupverðið sem upphaflega var ætlað til bráðabirgða að gæti orðið 10.000.000 króna lækka um 2.658.473 krónur. Á sama hátt skyldi kaupverðið lækka um 9.586.374 krónur vegna ársins 2006.
Aðalstefnandi skýrir útreikning sinn svo að kaupverð skyldi taka mið af hagnaði félaganna eða tapi. Heildarverð hafi verið við að heildartap félaganna beggja á árinu 2005 yrði 5.000.000 króna. Yrði tapið minna skyldi kaupverðið hækka sem næmi 70% af mismuninum á tapinu og 5.000.000. Yrði það meira en 5.000.000 króna skyldi kaupverðið lækka um fjárhæð sem væri 70% af mismuninum á eiginlegu tapi og fimm milljónum.
Þar sem báðir aðilar hafi talið að félögin væru einhvers virði og tap ekki eins mikið og síðar kom í ljós, hafi verið ákveðið að stefnandi greiddi 10.000.000 króna inn á endanlegt kaupverð.
Erfitt hafi verið að vinna bókhald félaganna fyrir 2005. Þegar það hafi loks verið tilbúið í desember 2006 hafi komið í ljós tap sem eigendur hafi ekki órað fyrir. Tap HP búðarinnar ehf. hafi reynst vera 10.418.236 krónur og Task ehf. 17.665.297 krónur. Þegar tekið hafi verið tillit til afskrifaðs hlutafjár að upphæð 5.000.000 króna, sé tapið hjá Taski ehf. 12.665.297 krónur. Aðalstefnandi kveðst styðjast við þá fjárhæð í málinu. Tap hafi því numið samtals 23.083.533 krónum á árinu 2005. Draga beri 5.000.000 frá tapinu, þannig eigi að miða útreikning við 18.083.533 krónur í tap. 70% af þeirri fjárhæð séu 12.658.473 krónur. Tapið sé 2.658.473 krónum hærra en tiltekið sé sem greiðsla í lið 2 og komi sú fjárhæð til frádráttar því sem greitt var í lið 1, eða 10.000.000 króna.
Aðalstefnandi segir að seint á árinu 2007 hafi legið fyrir ársreikningar beggja félaganna fyrir árið 2006. Samkvæmt þeim hafi tap samtals numið 38.345.496 krónum. Skv. 3 lið kaupsamnings hafi kaupverð átt að miðast við 25% af tapi eða hagnaði beggja félaga reikningsárið 2006. Kaupverð hafi því átt að lækka um 25% af 38.345.496, eða um 9.586.374 krónur.
Skv. þessu telur aðalstefnandi að kaupverð verði núll krónur. Vísar hann til þess tapútreikningur til lækkunar fyrir árið 2005 sé 2.658.473 krónur og fyrir árið 2006 9.586.374 krónur. Skv. þessu sé kaupverðið mínus 12.244.847 krónur og þar sem aðalstefndi hafi fengið greiddar 10.000.000 króna verði að teljast eðlilegt að hann endurgreiði þá fjárhæð. Hafi 50% hlutafjár í Task ehf. ekki verið neins virði.
Aðalstefnandi bendir á að fyrsta og eina, heila árið sem aðilar ráku saman Task ehf. hafi verið árið 2005. Tap hafi verið á árinu 2004 og um það hafi aðalstefndi vitað. Hann hafi einnig vitað að það yrði tap á árinu 2005 þegar hann, í ársbyrjun 2006, útbjó og samdi orðalag kaupsamningsins um ráðstöfun á 50% hlut sínum. Aðalstefndi hafi á þeim tíma fengið um það upplýsingar hjá framkvæmdastjóra Task ehf. og HP búðarinnar ehf., Hirti Fr. Vigfússyni, að enginn vegur væri að sjá út úr bókhaldinu vitræna niðurstöðu og skekkjumörk væru mikil. Því hafi verið eðlilegt að verðmæti 50% hlutarins tæki alfarið mið af hagnaði eða tapi félaganna í tvö rekstrarár. Um þetta hafi verið full eining milli aðila.
Aðalstefndi hafi einnig haft fulla vitneskju um ónákvæmni í ársreikningum. Eftir að ársreikningar félaganna fyrir árið 2005 voru tilbúnir hafi löggiltir endurskoðendur beggja aðila, þeir Ómar Bjarnason og Sigurður P. Sigurðsson, farið ítarlega yfir uppgjörin.
Aðalstefnandi bendir á að stefndi sé löglærður og alfarið höfundur kaupsamningsins og þeirra skýringa sem fylgdu í tölvupóstum. Sé sú túlkun sem þar komi fram í samræmi við skoðanir aðalstefnanda á skýringu samningsins.
Aðalstefnandi telur að það sýni vel laka stöðu félaganna, að HP búðinni ehf. var lokað og rekstri hennar hætt í árslok 2006. Starfsemi Tasks ehf. var hins vegar hætt og rekstur fyrirtækisins seldur í maí 2007. Þá hafi það lent á stefnanda að greiða verulega fjárhæð fyrir félögin og til viðskiptabanka Task ehf. eða um 44 milljónir króna sem hann var í persónulegum ábyrgðum fyrir.
Aðalstefnandi byggir einnig á því að framlag stefnda við kaup hans á 50% hlut í félaginu á árinu 2004 hafi verið 4.343.750 krónur. Hafi félagið áfram verið rekið með miklu tapi eftir þau kaup. Þannig hafi 16 tapmánuðir liðið frá því stefndi eignaðist hlut sinn og því hafi verið eðlilegt að miða kaupverðið til hans við stöðu félagsins á rekstrarárunum eftir kaupin.
Þannig hafi farið að félagið var orðið einskis virði þegar aðilar hugðu að kaupum af hvor öðrum á 50% hlut hins. Í ljós hafi komið að aðalstefnandi ofgreiddi fyrir 50% hlutinn miðað við þau viðmið sem aðilar hefðu orðið ásáttir um og eigi hann þannig rétt á endurgreiðslu á þeim 10.000.000 króna sem hann ofgreiddi fyrir 50% hlut stefnda í félaginu Task ehf.
Til stuðnings kröfu sinni vísar aðalstefnandi til meginreglna kröfuréttar og samningalaga. Um málskostnað byggir hann m.a. á 130. gr. einkamálalaga nr. 91/1991.
Aðalstefndi krefst sýknu af kröfu stefnanda.
Sýknukröfu sína styður hann þeim rökum í fyrsta lagi að ekki sé unnt að styðjast við framlagða ársreikninga stefnanda.
Aðalstefndi byggir á því að samkvæmt meginmáli kaupsamnings aðila hafi umsamin greiðsla fyrir hluti hans í Task ehf. verið 20.000.000 króna. Þær breytingar sem hafi átt að eiga sér stað á síðari greiðslunni hafi síðan átt að koma til skoðunar þegar ljóst væri hver afkoma félagsins á árinu 2005 væri. Samkvæmt samningi aðila hafi önnur greiðslan átt að eiga sér stað 25. aprí1 2006, og telur aðalstefndi að þá hefði verið eðlilegt að ársreikningur fyrir árið 2005 lægi fyrir. Ef hagnaður hefði orðið af rekstri Task ehf. og HP búðarinnar ehf. árið 2006 hafi 25% hagnaðarins átt að bætast við kaupverðið.
Ef afkoma félagsins hefði verið lakari en það 5.000.000 króna tap sem miðað var við í kaupsamningnum og greiðsla 25. apríl 2006, skv. 2. lið samnings, skv. því átt að vera lægri, sé það aðalstefnanda að sanna það. Frá því kaupsamningur aðila var undirritaður og þar til önnur greiðsla samkvæmt samningnum skyldi fara fram hafi rekstur Task ehf. verið í höndum stefnanda sem hafi haft bókhald félagsins undir höndum. Standi það því honum nær að sýna fram á að afkoma félagsins hafi í raun verið lakari heldur en 5.000.000 króna.
Aðalstefndi telur að ársreikningar þeir sem stefnandi útbjó fyrir félögin Task ehf. og HP búðina ehf., fyrir árið 2005, hafi ekkert sönnunargildi um raunverulega afkomu félaganna. Ársreikningarnir beri ekki með sér að hafa verið endurskoðaðir eins og skylt sé skv. 102. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga. Þá liggi ekki fyrir áritun endurskoðanda eða skoðunarmanns um að ársreikningarnir hafi verið samdir í samræmi við ákvæði laga og góðar reikningsskilareglur sbr. 104. gr. ársreikningalaga. Reikningunum hafi ekki heldur verið skilað til ársreikningaskrár skv. 109. gr. laganna.
Það hafi staðið aðalstefnanda næst að hlutast til um þetta og þar sem hann hafi lagt fram hina umdeildu ársreikninga sem grundvöll kröfu sinnar verði að gera þá lágmarkskröfu að ársreikningarnir séu endurskoðaðir eins og lög krefjist og að gerð þeirra standist faglega skoðun. Aðalstefnandi verði að bíða hallann af því hvernig ársreikningarnir hafi verið unnir.
Aðalstefndi telur því að það sé með öllu ósannað í máli þessu að afkoma hafi verið svo slæm að stefnandi eigi rétt til endurgreiðslu. Þegar af þeirri ástæðu beri að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í máli þessu.
Þá styður aðalstefndi sýknukröfu sína því að greiðsla skv. 1. tl. kaupsamningsins hafi ekki verið háð afkomu.
Verði stuðst við ársreikningana kveðst aðalstefndi byggja á að greiðsla skv. 1. tl. kaupsamningsins hafi ekki verið afkomutengd. Hann kveðst mótmæla því sem haldið sé fram í stefnu að greiðsla skv. 1. tl. kaupsamnings hafi verið einhvers konar borgun inn á skuld sem kæmi til endurskoðunar síðar.
Því er mótmælt af hálfu aðalstefnda að kaupverðið fyrir hluti stefnda hafi alfarið átt að ráðast af afkomu bæði Task ehf. og HP búðarinnar ehf. árin 2005 og 2006. þetta sé í mótsögn við orðalag samnings aðila og engu samræmi við þau samskipti sem aðilar áttu síðar sín á milli. Greiðslan skv. 1. tl. samnings aðila hafi ekki verið háð afkomu félagsins. Sé litið til orðalags samningsins, megi sjá að 1. tl. víki ekki að neinu leyti að því að tengja eigi greiðsluna afkomu. Um afkomutengingu sé einungis fjallað í 3. mgr. kaupsamningsins, en þar sé fjallað um hvernig afkomutengingin skuli koma til greiðslu. Þar segi í tveimur síðustu málsliðum greinarinnar: „Skal slík hækkun þá koma til greiðslu þann 1. aprí1 2006. Sömu aðferð skal beitt ef tap reynist meira og skal þá kaupverð lækka og sú lækkun dragast af greiðslunni 25. aprí1 2006.“
Aðalstefndi telur að af skýru ákvæði samningsins sé ljóst að einungis greiðslan skv. 2. tl. samningsins skyldi geta lækkað vegna afkomu. Hvergi sé í samningnum getið um, eða einu sinni gefið í skyn, að kaupverðið skyldi alfarið taka mið af afkomu. Breyti þar engu hvernig reynt sé að túlka samninginn en orðalagið hvað þetta varðar sé skýrt. Þá sé slíkan skilning ekki að ráða af orðalagi tölvupósta sem vísað hafi verið til í stefnu. Í öllum tilvikum sé verið að vísa til afkomutengingar sem bundin hafi verið við 2. tl. kaupsamningsins samkvæmt skýru orðalagi hans.
Texti tölvupóstsins gefi á engan hátt til kynna að kaupverðið eigi alfarið að taka mið af afkomu eins og haldið sé fram í stefnu.
Aðalstefndi kveður stefnanda vera þrautreyndan viðskiptamann með mikla reynslu úr atvinnulífinu og því hafi ekki verið um að ræða aðstöðumun á aðilum við samningsgerðina sem skýra skuli stefnda í óhag.
Þar sem greiðsla að upphæð 10.000.000 krónur sem greiddist við undirritun samnings aðila þann 16. janúar 2006 hafi ekki verið tengd afkomu að neinu leyti beri að sýkna stefnda af kröfu stefnanda um endurgreiðslu á þeim hluta kaupverðsins sem hann hafði þegar reitt af hendi.
Aðalstefndi byggir í þriðja lagi á því að forsendur afkomutengingar séu rangt tilgreindar í stefnu. Hann telur að ef byggt verði á ársreikningunum aðalstefnanda og talið að kaupverðið hafi á einhvern hátt verið í heild sinni tengt afkomu, sé stuðst við rangar forsendur í stefnu varðandi afkomutengingu. Rétt miðuð afkomutenging leiði ekki til þess að stefnandi eigi rétt á nokkurri endurgreiðslu.
Varðandi forsendur afkomutengingarinnar telur aðalstefndi í fyrsta lagi, að afkoma ársins 2006 skuli skv. samningnum aðeins geta komið til hækkunar á kaupverði en ekki lækkunar.
Ekki eigi að taka tillit til taps sem fram kunni að hafa komið árinu 2006, enda skyldi afkoma ársins 2006 aðeins vera til hækkunar kaupverði ef um hagnað væri að ræða. Í 3. tl. samningsins sé sérstaklega kveðið á um að um sé að ræða „25% af hagnaði“. Ekki sé þar að finna neina umfjöllun um lækkun kaupverðs vegna afkomu ársins 2006.
Skýrt sé af samningi aðila að afkomutenging sú sem fjallað sé um í 3. mgr. og gat komið til lækkunar jafnt sem hækkunar verðs, átti aðeins við um afkomu ársins 2005. Í 3. mgr. samnings aðila, þar sem kveðið sé á um hvernig afkomutengingin komi til greiðslu segi, í tveimur síðustu málsliðunum: „Skal slík hækkun þá koma til greiðslu þann 1. aprí1 2006. Sömu aðferð skal beitt ef tap reyníst meira og skal þá kaupverð lækka og sú lækkun dragast af greiðslunni þann 25. aprí1 2006.“
Ljóst sé af ofangreindri málsgrein að afkomutengingin skyldi koma til greiðslu strax á árinu 2006, þegar eðlilegt hefði verið að ársreikningar félagsins fyrir árið 2005 lægju fyrir. Ómögulegt hefði verið að taka tillit til afkomu ársins 2006 við þetta tilefni, enda aðeins rétt tæpur þriðjungur ársins liðinn. Þá sé tekið fram í samningnum að miðað sé við tap að upphæð 5.000.000 króna vegna afkomu ársins 2005. Ekkert sé fjallað um afkomu ársins 2006. Af þessu sjáist að 3. mgr. kaupsamningsins, sem sé sú eina sem fjalli um lækkun kaupverðs, taki aðeins til ársins 2005.
Þá telur aðalstefndi jafnframt að verulega óeðlilegt væri ef hann ætti að bera hallann af slæmri afkomu ársins 2006, enda hafi hann selt hlut sinn í ársbyrjun 2006 og ekki komið að rekstri félagsins að nokkru leyti. Stefndi eigi ekki að bera hallann af því að stefnanda hafi misfarist með rekstur félagsins.
Aðalstefndi telur að framlagðir tölvupóstar lýsi þeim skilningi að afkoma ársins 2006 skuli einungis koma til hækkunar kaupverðsins. Í tölvupóstunum vísi stefndi um 2 tl. til afkomu, en þar hafi getað brugðið til beggja vona með kaupverðið. Varðandi kröfu skv. 3. tl. vísi hann aðeins til hagnaðar.
Um forsendur sem miðað er við um afkomutengingu telur aðalstefndi, í öðru lagi, að miða eigi við EBITDA hagnað (e. „earnings before interest, taxes, depreciation & amoralization“) Task ehf. þegar metin er afkomutenging samkvæmt 2. lið kaupsamningsins.
Aðalstefndi kveður EBITDA, rekstrarhagnað, eða hagnað án tillits til vaxtagjalda og vaxtabóta, skatta og afskrifta, vera þá tölu sem sýni hver hagnaður sé af rekstri félags á hverjum tíma. Hún sé einnig almennt notuð við kaup og sölu fyrirtækja, enda gefi hún raunhæfasta mynd af hagnaði félagsins auk þess sem stjórn félagsins geti ekki haft áhrif á töluna með því að hagræða töluliðum í ársreikningi. Þá hafi stefnandi viðurkennt, meðal annars í greinargerð í fyrra dómsmáli, Reynir Grétarsson gegn Task ehf., að við samningsgerð aðila hafi bókhald félagsins sýnt væntanlegan hagnað sem nam 12,8 milljónum króna. Þar sé vísað til útprentana úr bókhaldskerfi Task ehf. þar sem áætlaður hagnaður ársins 2005 var 12.852.124 krónur. Þetta sé EBITDA hagnaður og þar með staðfest af stefnanda sjálfum að miða eigi við slíkan hagnað.
Aðalstefndi telur í þriðja lagi að við mat á afkomu ársins 2005 skv. 2. tl. kaupsamnings skuli aðeins miðað við afkomu Tasks ehf. en ekki dótturfélags Tasks ehf., HP búðarinnar ehf. Sjá megi af gögnum málsins að allar kröfur og fjárhæðir stefnanda á hendur stefnda, áður en lagðir voru fram ársreikningar þeir sem stefnandi vann eða lét vinna, hafi verið miðaðar við afkomu einungis Task ehf., en ekki HP búðarinnar ehf. Þá hafi væntanlegur 12,8 milljóna króna hagnaður sem fyrr er nefndur, aðeins verið hagnaður samkvæmt útprentun úr bókhaldskerfi Task ehf. Ekkert sé minnst á afkomu HP búðarinnar ehf., enda hafi hún þá nýlokið sínu fyrsta heila starfsári og ekki hafi verið fylgt upphaflegri viðskiptahugmynd um beina markaðssetningu.
Sé litið til ofangreindra forsendna sé ljóst að afkoma félagsins Tasis ehf. hafi ekki verið svo slæm að stefnandi ætti rétt á endurgreiðslu. Raunar leiði fyrrgreindar forsendur til þess að afkoma félagsins, samkvæmt ársreikningum, teljist vera 10.198.810 krónur. Aðeins muni 5.198.810 krónum á þeirri fjárhæð og 5.000.000 króna tapinu sem miðað hafi verið við í samningi. 70% þeirrar fjárhæðar séu 3.639.167 krónur og ætti sú fjárhæð því að dragast frá greiðslu skv. 2. tl. samningsins. Raunin sé þá að stefnandi skuldi stefnda 6.360.833 krónur.
Aðalstefndi kveðst í öllum tilvikum byggja á því að hlutur hans hafi ekki verið verðlaus við gerð kaupsamningsins eins og haldið sé fram í stefnu. Við gerð samnings aðila hafi legið fyrir útprentun úr bókhaldi Task ehf. sem sýnt hafi 12,8 milljón króna hagnað. Aðalstefndi hafi þegar lánað félaginu 9.490.620 krónur og ljóst að hann hefði aldrei gert samning þess efnis að verð fyrir hluta hans væri rétt rúmlega það sem hann hefði lánað félaginu.
Verðmæti félagsins við gerð kaupsamnings aðila sjáist hvað best á því að eftir að aðilar gerðu með sér kaupsamning hafi ýmsir aðilar haft hug á að ganga til viðræðna um kaup á félaginu.
Hvað varði það að aðalstefnandi hafi þurft að greiða lán vegna félagsins sem hann hafi gengist í persónulegar ábyrgðir fyrir sé því mótmælt að það komi stefnda við á nokkurn hátt hvernig stefnandi kaus að fjármagna rekstur félagsins eftir að hann hafði selt hlut sinn í því. Þá verði stefndi ekki látinn bera hallann af því að rekstur félagsins hafi gengið illa eftir kaupin, en hann hafi talið ákvörðun stefnanda um að flytja rekstur Tasks ehf. að Brautarholti 14, þar sem HP búðin var þegar til húsa, mjög óæskilega. Þá beri stefnandi jafnframt einn ábyrgð á því að félagið var án framkvæmdastjóra eftir maí 2006. Eftir að aðalstefndi seldi hlut sinn hafi hann ekki haft nokkur tök á því að hafa áhrif á rekstur félagsins og verði honum því ekki um kennt eða hann gerður ábyrgur fyrir því hvernig fór með afkomu þess á árinu 2006.
Með vísan til ofangreindra málsástæðna krefst aðalstefndi þess að hann verði sýknaður af kröfu aðalstefnanda og að aðalstefnanda verði gert að greiða honum málskostnað.
Verði ekki fallist á sýknukröfu er gerð varakrafa um lækkun. Aðalstefndi byggir lækkunarkröfu sína á sömu sjónarmiðum og rakin eru að framan um sýknu.
Um málskostnað vísar aðalstefndi til 1. mgr. 130. gr., sbr. 4. mgr. 129. gr. laga nr. 9111991 um meðferð einkamála. Um lagarök að öðru leyti vísar stefndi til kaflans um málsástæður.
MÁLSÁSTÆÐUR AÐILA OG LAGARÖK Í GAGNSÖK
Gagnstefnandi, Reynir Finndal Grétarsson, krefst þess að gagnstefndi verði dæmdur til að greiða 10.000.000 króna, en til vara 6.360.833 krónur. Til þrautavara krefst hann greiðslu á 619.731 krónu.
Gagnstefnandi kveður aðalkröfu sína byggja á nefndum samningi um kaup gagnstefnda á hlutafé gagnstefnanda í Taski ehf. Kaupsamningurinn hafi kveðið á um að verð fyrir hlutafé gagnstefnanda skyldi vera 10.000.000 króna greiddar við undirskrift og 10.000.000 greiddar með peningum 25. aprí1 2006. Síðari greiðslan skyldi taka breytingum miðað við afkomu félagsins árið 2005, en miðað hafi verið við 5.000.000 króna tap í samningnum. Frávik frá þeirri viðmiðun skyldi hafa áhrif á greiðsluna 25. aprí1 2006, hvort sem væri til hækkunar eða lækkunar.
Gagnstefnandi byggir á því að samkvæmt meginmáli samningsins hafi umsamin greiðsla fyrir hluti hans í Taski ehf. verið 20.000.000 króna. Þær breytingar sem áttu að eiga sér stað á síðari greiðslunni hafi átt að koma til skoðunar þegar ljóst væri um afkomu félagsins á árinu 2005. Samkvæmt samningi aðila hafi greiðslan átt að eiga sér stað 25. aprí1 2006, en þá hefði verið eðlilegt að ársreikningur fyrir árið 2005 lægi fyrir. Gagnstefndi hafi ítrekað neitað að greiða kröfu gagnstefnanda, þótt hann færi jafnvel ekki fram á hærri greiðslu en 10.000.000 króna þar til ársreikningur lægi fyrir.
Neitun gagnstefnda á að greiða kröfu gagnstefnanda byggi á því að afkoma Task ehf. hafi verið svo léleg að engin greiðsla samkvæmt 2. tl. kaupsamningsins hafi átt að fara fram. Gagnstefnandi telur að stefndi beri sönnunarbyrðina fyrir því hafi afkoma félagsins verið lakari en það 5.000.000 króna tap sem miðað var við í kaupsamningi aðila. Frá því að kaupsamningur aðila var undirritaður og þar til önnur greiðsla samkvæmt samningnum skyldi fara fram hafi rekstur Task ehf. verið í höndum gagnstefnda og hann haft bókhald félagsins undir höndum.
Gagnstefnandi heldur því fram svo sem fyrr er greint að ársreikningar þeir sem gagnstefndi útbjó fyrir félögin Task ehf. og HP búðina ehf., fyrir árið 2005, geti ekki haft gildi við mat á því hver raunveruleg afkoma félagsins var. Vísast um þetta til umfjöllunar í aðalsök. Þar sem ekki sé ljóst hver var raunveruleg afkoma félagsins árið 2005 gerir stefnandi kröfu um að kaupsamingur aðila verði efndur hvað varði greiðslu skv. 2. tl. að fjárhæð 10.000.000 króna.
Gagnstefnandi byggir jafnframt á því að útprentun úr bókhaldskerfi Task ehf., fyrir tímabilið 1.1.2005 - 31.12.2005, hafi við samningsgerð aðila sýnt hagnað upp á 12.852.124 krónur. Þær forsendur sem gagnstefnandi studdist við þegar kaupsamningurinn var gerður hafi því gert ráð fyrir að hagnaður yrði á rekstri félagsins og endanleg greiðsla yrði töluvert hærri en 20.000.000 króna. Munurinn á afkomu félagsins eins og bókhaldskerfi félagsins sýndi hana við samningsgerð aðila í janúar 2006 og afkomu félagsins samkvæmt ársreikningunum sem gagnstefnandi hafi unnið sé 30.517.421 króna. Sé litið til afkomu félagsins eins og ársreikningar félagsins sýna hana sé ljóst að forsendur gagnstefnanda við samningsgerðina séu brostnar. Aðilar hafi talið að félagið væri verðmætt, til marks um það megi benda á að stuttu eftir að gagnstefndi keypti hlut gagnstefnanda hafi félagið átt í viðræðum við ýmsa aðila um kaup á því, auk þess sem gagnstefnandi benti stefnda á mögulegan kaupanda sem hafi lýst yfir áhuga á félaginu.
Fyrir liggi að gagnstefnandi hafi þegar verið búinn að lána félaginu 9.490.620 krónur og ljóst sé að hefði honum dottið í hug að tap félagsins gæti verið nálægt því sem haldið sé fram í ársreikningum gagnstefnda, hefði hann aldrei samþykkt að sú eina greiðsla sem hann fengi fyrir hlut sinn í félaginu væri aðeins örlítið hærri fjárhæð en sú sem hann hafði þegar lánað því. Þá vekur gagnstefnandi athygli á því að þótt hann sé löglærður og hafi samið kaupsamninginn, sé stefndi þrautreyndur viðskiptamaður með mikla reynslu úr atvinnulífinu og því ljóst að ekki hafi verið um að ræða aðstöðumun á aðilum við samningsgerðina sem skýra eigi gagnstefnanda í óhag.
Ef stuðst væri við hina óendurskoðuðu, óárituðu, einhliða unnu ársreikninga sem stefndi hafi lagt fram sé ljóst að forsendur aðila fyrir afkomutengingu kaupverðs við samningsgerðina séu með öllu brostnar, enda muni meiru á áætlaðri afkomu félagsins en liðlega fjórðungi af ársveltu þess. Þannig væri bersýnilega ósanngjarnt að líta til afkomutengingar kaupverðs hluta stefnanda og ætti að víkja frá þeim hluta samningsins á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Geri gagnstefnandi því einnig skv. þessu kröfu um að gagnstefndi verði dæmdur til að greiða 10.000.000 krónur samkvæmt samningi aðila.
Gagnstefnandi kveður kröfu um dráttarvexti frá 25. aprí1 byggja á 1. mgr. 5. gr. sbr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verótryggingu, enda hafi verið umsamið að greiðslan skyldi fara fram þann dag. Gagnstefndi hafi haft vörslur bókhaldsins og yfirsýn yfir reksturinn og ljóst sé að skyldan til að leggja fram faglega unna, endurskoðaða, áritaða ársreikninga hvíldi á honum. Gagnstefnandi hafi ítrekað reynt að innheimta kröfu sína og raunar sérstaklega boðið stefnda að greiða 10.000.000 krónur þannig að breytingar á þeirri upphæð yrðu gerðar upp á milli þeirra síðar. Þar sem gagnstefndi vanrækti að láta gera ársreikninga á þeim tíma sem lög bjóði og hafi ítrekað neitað að greiða kröfu gagnstefnanda verði hann að bíða hallann af því og greiða dráttarvexti.
Gagnstefnandi styður varakröfu sína þeim rökum að miða eigi við EBITDA hagnað Task ehf. þegar afkomutenging skv. 2. tl. kaupsamnings sé metin. Líti dómurinn svo á að unnt sé að byggja á ársreikningunum sem lagðir séu fram gerir stefnandi þannig allt að einu kröfu um að stefndi greiði sér 6.360.833 krónur. Vísast um skýringar á EBITDA hagnaði til aðalsakar.
Þá byggir gagnstefnandi varakröfu sína jafnframt á því að við afkomutengingu greiðslu skv. 2. tl. kaupsamnings aðila hafi einungis átt að miða við afkomu Tasks ehf., en ekki dótturfélagsins HP búðarinnar ehf. Allar kröfur og fjárhæðir stefnanda á hendur stefnda, áður en lagðir voru fram ársreikningar þeir sem stefndi vann, hafi miðast miðaðar við afkomu einungis Tasks ehf., en ekki HP búðarinnar ehf. Þá vekur gagnstefnandi jafnframt athygli á að í greinargerð í máli Reynis Grétarssonar gegn Taski ehf., segi að við samningsgerðina hafi legið fyrir að bókhald félagsins hafi sýnt væntanlegan 12,8 milljón króna hagnað. Sé þar einungis um að ræða hagnað samkvæmt útprentun úr bókhaldskerfi Task ehf., en ekkert minnst á afkomu HP búðarinnar ehf., enda hafi hún þá nýlokið sínu fyrsta heila starfsári og ekki hafi verið fylgt upphaflegri viðkiptahugmynd um beina markaðssetningu.
Sé litið til EBITDA hagnaðar Tasks ehf., sé ljóst að tap félagsins hafi verið, samkvæmt ársreikningum, 10.198.810 krónur. Sé tapið að fjárhæð 5.000.000 dregið frá, sem miðað var við í kaupsamningi, sé ljóst munurinn var 5.198.810 krónur. 70% af þeirri upphæð séu 3.639.167 krónur sem ættu þá að dragast frá greiðslunni skv. 2. lið samningsins. Eftir standi þá að gagnstefndi hafi átt að greiða stefnanda 6.360.833 krónur 25. apríl 2006.
Um dráttarvexti á varakröfu vísar gagnstefnandi til umfjöllunar um dráttarvexti í aðalkröfu.
Gagnstefnandi styður þrautavarakröfu sína sömu rökum um EBITDA hagnað. Fallist dómurinn hvorki á að líta beri framhjá framlögðum ársreikningum stefnda né að aðeins ætti að styðjast við afkomu Task ehf. vegna afkomutengingar kaupsamnings aðila gerir stefnandi kröfu um að stefndi greiði honum 619.731 krónu. Þrautavarakrafa stefnanda byggi á sömu sjónarmiðum og varakrafa, hvað varði það að líta skuli til EBITDA hagnaðar við afkomutengingu kaupsamnings.
Sé litið til EBITDA hagnaðar Task ehf. og HP búðarinnar ehf., sé ljóst að samanlagt tap félaganna var, samkvæmt ársreikningum, 18.400.384 krónur. Sé tapið að fjárhæð 5.000.000 króna, sem miðað var við í samningi, dregið frá, sé ljóst að mismunurinn var 13.400.384 krónur. 70% af þeirri upphæð séu 9.380.269 krónur sem ættu þá að dragast frá greiðslunni skv. 2. lið samningsins. Eftir standi þá að greiða hefði átt 619.731 krónu 25. apríl 2005 og geri stefnandi kröfu um að fá það greitt úr hendi stefnda.
Um dráttarvexti á þrautavarakröfu vísar gagnstefnandi til fyrri umfjöllunar um dráttarvexti.
Um lagarök vísar gagnstefnandi til meginreglna samningaréttar og kröfuréttar um skuldbindingargildi samninga og túlkun samningsákvæða. Krafa um dráttarvexti styðst við III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Krafan um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.
Gagnstefndi krefst sýknu af kröfum gagnstefnanda
Gagnstefndi byggir á því að samkomulag hafi orðið milli stefnda og stefnanda þess efnis að sá sem keypti hinn út úr Taski ehf. greiddi verð fyrir hlutinn sem tæki mið af tapi og hagnaði HP búðarinnar ehf. og Tasks ehf. reikningsár félaganna 2005 og 2006.
Gert hafi verið samkomulag um að endanlegt kaupverð yrði við þetta miðað en greiðsla inn á kaupveriðið skyldi samt vera 10.000.000 króna. Komi þetta skýrt fram í kaupsamningi. Hafi þetta verið ákveðið þar sem aðilar hafi ekki séð fyrir hvað var í vændum en trúað því að einhver verðmæti væru í félaginu.
Gagnstefndi telur að fram komi í tölvupóstum gagnstefnanda að afkoman eigi alfarið að ráða því hvert endanlegt kaupverð verði, þetta ráðist því ekki fyrr en niðurstöður í ársreikningum fyrir árin 2005 og 2006 liggi fyrir.
Eins og segi 3. mgr. samningsins skuli þeir þrír liðir sem myndi endanlegt kaupverð hafa til viðmiðunar annars vegar hagnað ársins 2005 og hins vegar tap. Þannig skuli 70% af þeirri afkomu á árinu 2005 sem er fram yfir 5.000.000 krónur í tap hækka kaupverðið. Í lok 3. mgr. er síðan sagt: „Sömu aðferð skal síðan beitt ef tapið reynist meira og skal kaupverðið þá lækka.“
Gagnstefndi byggir á því að alveg sé skýrt að kaupverðið skuli alfarið taka mið af því hvort um sé að ræða hagnað eða tap á félögunum báðum bæði árin og útreikningar á kaupverðinu samkvæmt þar tilgreindum aðferðum miðist við hvort um hagnað eða tap sé að ræða.
Skv. þessum vegna ársins 2005 skuli eins og áður greinir kaupverðið sem upphaflega var ætlað til bráðabirgða að gæti verið 10.000.000 krónur lækka um 2.658.473 krónur. Á sama hátt skyldi kaupverðið lækka um 9.586.374 krónur vegna ársins 2006.
Eins og rakið er í málsástæðum í aðalsök telur gagnstefndi að gagnstefnandi hafi vitað um tapið á félögunum 2004 og getað reiknað með að tap ársins 2005 yrði ekki lægra en tapið á árinu 2004.
Gagnstefndi telur að svo mikil skekkjumörk sem stefnandi vísar til, það er annars vegar til um rúmar 12.000.000 króna í hagnað svo og tap upp á 5.000.000 króna sýni svo ekki verði um villst hvaða trú stefnandi hafði á bókhaldinu og hvers hann gat vænst úr niðurstöðu þess. Gagnstefnandi hafi fengið upplýsingar hjá framkvæmdastjóra Task ehf. og HP búðarinnar ehf., Hirti Fr. Vigfússyni, að enginn vegur væri að sjá út úr bókhaldinu vitræna niðurstöðu og skekkjumörk væru mikil. Því hafi það verið eðlilegt að heildarverðmæti 50% hlutarins tæki alfarið mið af hagnaði eða tapi félaganna í tvö rekstrarár. Um þetta hafi verið full eining milli aðila.
Varðandi ársreikningana sé ekki nokkur vafi á að gagnstefnandi hafi haft fulla vitneskju um þá ónákvæmni sem þar væri að finna. Stefndi vísar til þess að eftir að ársreikningar félaganna fyrir árið 2005 voru tilbúnir hafi löggiltir endurskoðendur beggja aðila, þeir Ómar Bjarnason og Sigurður P. Sigurðsson farið ítarlega yfir uppgjörin.
Gagnstefndi bendir á að stefnandi er löglærður og alfarið höfundur kaupsamningsins og þeirra skýringa sem fylgdu drögum hans, þá hafi komið fram með skýrum hætti hvernig túlka skyldi kaupsamninginn í tölvubréfum hans.
Gagnstefndi vísar til lakrar stöðu félaganna sem hafi sést á að þeim var lokað skömmu eftir kaupin.
Gagnstefndi bendir einnig á að framlag gagnstefnanda við kaup hans á 50% hlutnum í félaginu á árinu 2004 hafi verið 4.343.750 krónur. Hafi félagið áfram verið rekið með miklu tapi eftir þau kaup.
Í ljós hafi komið að gagnstefndi ofgreiddi fyrir 50% hlutinn miðað við þau viðmið sem aðilar hafi orðið ásáttir um og eigi stefndi þannig rétt á endurgreiðslu á þeim 10 milljónum króna sem hann greiddi fyrir 50% hlut gagnstefnanda í félaginu Task ehf.
Gagnstefndi mótmælir aðalkröfu gagnstefnanda með vísan til ofangreinds en leggur að öðru leyti áherslu á að reikningar félaganna fyrir bæði reikningsárin hafi verið unnir af til þess bærum aðilum og þrátt fyrir að þeir hafi ekki verið formlega endurskoðaðir hafi löggiltur endurskoðandi félaganna, Sigurður P. Sigurðsson, farið höndum um reikninganna og starfsmenn á hans vegum, Fjárstoðar ehf., hafa fært bókhaldið. Til þess er vísað af hálfu gagnstefnda að Sigurður undirritaði og endurskoðaði ársreikning Task ehf. fyrir árið 2004.
Varðandi athugasemdir gagnstefnanda um að reikningar séu seint fram komnir vísar gagnstefndi til þess að þegar vinna átti bókhaldið fyrir árið 2005, eina heila hárið sem aðilar ráku félagið saman, hafi verið svo illa fyrir því komið að margir starfsmenn gáfust upp á að vinna það og erfitt hafi verið að fá starfsmenn til að vinna verkið. Þá sé ekki óalgengt að ársreikningar félaga séu ekki tilbúnir fyrr en langt sé liðið á næsta ár.
Ef kalla ætti einhverja til ábyrgðar vegna bókhaldsins bendir gagnstefndi á að báðir aðilar hafi verið einu eigendur félagsins á árinu 2005 og telur gagnstefndi að þeir beri þá jafna ábyrgð, sé hún einhver á óreiðu þess, þá vísar hann til yfirlýsingar frá Deloitte sem liggur frammi. Þá byggir hann á að endurskoðandi gagnstefnanda hafi yfirfarið reikningana og átt viðræður um þá við endurskoðanda gagnstefnda.
Gagnstefnandi vísi til þess að á einhverjum ákveðnum tímapunkti hafi bækur félagsins Task ehf. sýnt hagnað. Bendir gagnstefndi á það að bókhaldið hafi verið í ólestri og endanlegar tölur þess sýnt það tap sem lýst hafi verið hér að framan og eftir því beri að fara.
Að því er varði varakröfu stefnanda kveður gagnstefndi ekki koma til greina að aðilar hafi haft til viðmiðunar EBITDA hagnað. Ekki hafi verið minnst einu orði á að miða ætti afkomu ársreiknings, en ekki taka tillit til vaxtagjalda, vaxtabóta, skatta og afskrifta eins og haldið sé fram.
Gagnstefndi fullyrðir að engin slík umræða hafi farið fram og hann að sjálfsögðu gengið út frá að hefðbundið reikningsuppgjör yrði lagt til grundvallar. Þá sé sú viðmiðun ekki notuð undir þeim kringumstæðum sem hér séu.
Varðandi þá málsástæðu gagnstefnanda að einungis hafi átt að miða við afkomu Task ehf. en ekki við HP búðina ehf. vísar gagnstefndi til þess sem komið hafi fram áður.
Þrautavarakröfu gagnstefnanda er einnig mótmælt. Vísað er til svipaðra sjónarmiða og fram komu vegna varakröfu.
Dráttarvaxtakröfum í aðal-, vara- og þrautavarakröfu gagnstefnanda er mótmælt.
Gagnstefndi vísar til meginreglna kröfuréttar og samningalaga. Varðandi málskostnaðarkröfuna vísar hann m.a. til 130. gr. einkamálalaga nr. 91/1991.
NIÐURSTAÐA
Aðalstefnandi krefst endurgreiðslu á greiðslu sinni skv. 1. tl. samnings aðilanna. Orðalag samningsins þykir skýrt að því leyti að kaupverð skuli lækka ef tap verður meira á árinu 2005 en fimm milljónir, og að sú lækkun skuli hafa áhrif á þá greiðslu skv. samningnum, sem átti að fara fram 25. apríl 2006. Orðalag tölvupósta aðalstefnda þykir vera í samræmi við þetta. Í tölvupósti dagsettum 16. janúar 2006 kemur fram að módelið sem aðalstefndi hafi sett upp til að taka á því ef afkoman er betri, sé þannig að kaupverðið skuli hækka ef afkoman er betri og öfugt. Pósturinn þykir ekki benda til að allar greiðslur skuli háðar afkomu og aðalstefndi vísar ekki til 1. tl. samnings í bréfum sínum. Einnig er ljóst að sá hluti kaupverðs sem tiltekinn er í 3. tl. samnings, á við um greiðslu ef það hefði orðið hagnaður á félögunum 2005 og 2006, en getur ekki frekar en fyrrnefnt ákvæði komið til lækkunar á greiðslu skv. 1. tl. Aðalstefndi samdi samning aðilanna en orðalag samningsins þykir vera skýrt og þá hefur aðalstefnandi reynslu í viðskiptum þannig að ekki telst vera aðstöðumunur á aðilum. Aðalstefndi, Reynir á skv. þessu að vera sýkn af kröfu í aðalsök.
Gagnstefnandi krefst greiðslu skv. 2. tl. nefnds kaupsamnings.
Samkvæmt samkomulagi aðila átti greiðsla skv. 2. tl. samningsins að lækka ef afkoman á árinu 2005 yrði verri en fimm milljóna króna tap.
Fram er komið að bókhald félaganna beggja árið 2005 var í mikilli óreiðu. Það mun hafa verið ljóst þegar gagnstefnandi skrifaði samning aðilanna.
Ragnar Páll Dyer, fyrrverandi stjórnarformaður Task ehf., sagði svo frá fyrir dóminum að hann hefði vitað að það væru einhver vandræði með bókhaldið, og sagði aðspurður að hann hefði talið að allir vissu það sem þarna komu nærri. Að minnsta kosti hefðu allir í stjórninni vitað af þessu. Mun gagnstefndi hafa setið í stjórninni en gagnstefnandi ekki. Kona gagnstefnanda var í stjórn en óvíst er hvort hún hafi tekið þátt í stjórnarstörfum. Hjörtur Freyr Vigfússon kvaðst hafa verið ráðinn framkvæmdastjóri Task ehf. síðla árs 2005. Bókhaldið hefði verið illa fært. Hjörtur kvað 12 til 13 milljóna hagnað, en það er sá hagnaður sem kom fram í útprenti úr bókhaldi þegar samið var milli aðila, eiginlega ekki hafa getað staðist. Kvaðst hann hafa látið eigendur vita að það þyrfti að taka þessum tölum með fyrirvara. Kvaðst hann hafa heyrt í bæði Guðmundi og Reyni í hverri viku og sagði Reyni hafa haft töluverð afskipti af fyrirtækinu. Aðspurður kvaðst hann telja að þeir hefðu verið jafnt upplýstir um stöðu félagsins þegar þeir gerðu samninginn.
Með vísan til framburðar vitnanna þykir vera nægilega sannað að gagnstefnandi hafi vitað um óreiðu þá sem var á bókhaldi félaganna og laka stöðu þeirra. Hann hljóti þannig að hafa gert sér grein fyrir að ekki væri um að ræða 12 milljón króna hagnað á árinu 2005, einnig hafi hann átt auðvelt með að afla upplýsinga, en hann skrifaði samninginn þar sem gert var ráð fyrir að afkoma réði verði að miklu leyti. Þá var það að hans tillögu að miðað var við fimm milljón króna tap í samningnum milli þeirra gagnstefnda, þrátt fyrir nefnda útprentun úr bókhaldi félagsins sem sýndi rúmlega 12 milljón króna hagnað.
Þar sem samið var um að ársreikningar skyldu lagðir til grundvallar, með fullri vitneskju beggja aðila um að þeir kynnu að reynast ófullkomnir, þykir rétt að byggja á þeim.
Með vísan til þess hvernig bókhaldi var háttað þegar samningur var gerður, og að öðru leyti þess sem að framan greinir um vitneskju aðilanna um þetta verður ekki talið að forsendur gagnstefnanda séu brostnar eða að samningurinn sé ósanngjarn svo að víkja eigi honum til hliðar.
Samkvæmt þessu verður að lækka greiðslu gagnstefnda skv. 2. tl. eftir ákvæði 3. mgr. samnings aðilanna, og taka mið af ársreikningunum um það.
Ekki var samið um að notast ætti við EBITDA hagnað félaganna við ákvörðun verðs skv. 2. tl. samnings. Ósannað er að það sé sú tala sem almennt sé notuð og að það eigi af þeim sökum að miða við hana. Sigurður P. Sigurðsson endurskoðandi, kom fyrir dóminn. Hann kvað EBITDA vera millisummu í rekstrarreikningi fyrirtækja. Oft hefði heyrst að miðað væri við EBITDA við kaup. Ýmsar aðferðir væru þó notaðar til að verðleggja fyrirtæki. Ekki er sannað að miða eigi við EBITDA við túlkun samningsins og verður þessi hluti varakröfu gagnstefnanda ekki tekin til greina.
Gagnstefnandi telur í varakröfu að aðeins eigi að miða frádrátt af 2. tl. við tap Tasks en ekki HP búðarinnar. Í tölvupósti gagnstefnanda til gagnstefnda 6. september 2006 er gerð krafa um greiðslu. Þar segir að við ákvörðun kröfunnar verði stuðst við útprentanir úr bókhaldkerfi Tasks og HP búðarinnar frá júní sl. Virðist því á þessu bréfi sem miða hafi átt við bæði félögin. Engin önnur gögn styðja þessa niðurstöðu. Á hinn bóginn er HP búðin ehf. nefnd sérstaklega í 3. tl. samningsins, um hagnað, en sjálfur samningurinn fjallar um kaup á Taski ehf. og virðist þannig frekar sem aðeins eigi að miða frádráttinn við afkomu Tasks ehf. Sem fyrr segir verður 3. tl. samningsins aðeins talinn geta leitt til hækkunar. Verður stefndi skv. þessu dæmdur til að greiða 10.000.000 króna að frádregnu 70% af tapi Tasks ehf. á árinu 2005, sem var umfram 5.000.000, eða að frádregnum 8.865.708 krónum. Gagnstefndi verður skv. þessu dæmdur til að greiða 1.134.292 krónur með vöxtum frá þeim degi er ársreikningur lá fyrir.
Með tilliti til málsúrslita verður stefnandi í aðalsök og stefndi í gagnsök, Guðmundur Kristinsson, dæmdur til að greiða 500.000 krónur í málskostnað.
Allan Vagn Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ
Stefndi í aðalsök, Reynir Finndal Grétarsson, skal sýkn af kröfum stefnanda í aðalsök, Guðmundar Kristinssonar.
Stefndi í gagnsök, Guðmundur Kristinsson, greiði stefnanda í gagnsök, Reyni Finndal Grétarssyni, 1.134.292 krónur með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 15. desember 2006 til greiðsludags.
Stefnandi í aðalsök og stefndi í gagnsök, Guðmundur Kristinsson, greiði stefnanda í aðalsök og stefnda í gagnsök, Reyni Finndal Grétarssyni, 500.000 krónur í málskostnað.