Hæstiréttur íslands
Mál nr. 32/2009
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald
- Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi
|
|
Fimmtudaginn 22. janúar 2009. |
|
Nr. 32/2009. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H. B. Snorrason saksóknari) gegn X (Brynjar Níelsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi.
Felldur var úr gildi úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. janúar 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. janúar 2009, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til 16. febrúar 2009 kl. 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Varnaraðili hefur játað brot það sem honum er gefið að sök og hefur orðið tilefni gæsluvarðhalds hans. Krafa sóknaraðila er byggð á 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, þar sem skilyrði gæsluvarðhalds er að ætla megi það nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Virðist mega ráða af málatilbúnaði sóknaraðila að krafan sé byggð á því að brot varnaraðila hafi verið til þess fallið að valda almannahættu. Ekki eru efni til að fallast á þetta nema talin sé hætta á að varnaraðili sé líklegur til að brjóta af sér á ný með sambærilegum hætti og hann er sakaður um að hafa gert 14. janúar 2008. Sóknaraðili hefur ekki leitast við að færa fram rök fyrir því að svo sé og gögn málsins þykja ekki benda til þess. Af þessum ástæðum verður fallist á kröfu varnaraðila um að fella hinn kærða úrskurð úr gildi.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. janúar 2009.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X kt. [...], til heimilis að [...], Reykjavík, sæti áfram gæsluvarðhaldi allt til 16. febrúar nk. til kl. 16.
Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að 14. janúar kl. 13:05 hafi lögregla verið kvödd til rannsóknar á brennu að Tryggvagötu 10 í Reykjavík. Er komið hafi verið á vettvang hafi slökkviliðið verið að slökkva eld í húsinu og sýnilegt að allmikið tjón væri á húsinu og eldurinn hefði breiðst nokkuð víða.
Samkvæmt framburði A, fyrrum eiginkonu kærða, hafi kærði áreitt hana mikið fyrir brunann. A segist hafa kynnst öðrum manni og hafi kærði frétt það í byrjun desember 2008. Upp frá því hafi hann valdið eignaspjöllum á bifreið hennar tvívegis og á bifreið kærasta hennar þann 12. janúar sl. Hann hafi komið í heimsókn til hennar um kl. 19 að kvöldi 13. janúar og beðið hana um að giftast sér og snúið upp á hönd hennar þegar hún hafi neitað og ekki sleppt takinu fyrr en vinkona hennar hafi komið. Kærði hafi síðan farið þegar A hafi sagt honum að annars myndi hún hringja á lögregluna. Um kl. 21 sama kvöld hafi hún orðið vör við olíulykt og í kjölfarið tekið eftir blaðahrúgu og tveimur olíubrúsum í anddyri hússins. Í kjölfarið hafi vitnið B komið og að hans sögn hafi bensínpollur verið innan við útidyrnar. Er A og B hafi verið stödd á efri hæð hússins hafi þau heyrt hljóð eins og verið væri að opna og loka bréfalúgu á útidyrahurðinni og er B hafi opnað útidyrahurðina hafi kærði staðið fyrir utan með fangið fullt af blöðum.
Lögregla hafi verið með kærða í haldi fyrir utan húsið kl. 1:00 aðfaranótt 14. janúar, og að sögn A hafi hann hringt stöðugt í hana um nóttina og að morgni 14. janúar er hún ráðfærði sig við lögfræðing hjá Alþjóðahúsinu.
Á vettvangi hafi verið C og hafi hún sagst búa ásamt fimm konum á efri hæð hússins. Við skýrslutöku af C hafi hún sagst hafa verið heima hjá sér þann 14. janúar þegar dyrabjöllunni hafi verið hringt. Hún hafi séð mann fyrir utan sem hafi reynt að troða logandi sígarettustubb inn um bréfalúguna. Þegar hún hafi síðan opnað hurðina hafi maðurinn ýtt henni út um hurðina og hafi hann síðan kveikt í húsinu með því að kveikja eld og kasta einhverju á gólfið sem virtist vera bréf. Mikill eldur hafi blossað upp og hafi eldur kviknað í buxum hennar sem hún hafi náð að slökkva.
Kærði hafi verið handtekinn kl. 13:50 þann 14. janúar. Við skýrslutöku af honum 15. janúar hafi hann sagst hafa drukkið vodka og tekið inn þrennskonar lyf, m.a. geðlyf eftir að hann hafi vaknað kl. 6 að morgni 14. janúar. Hann hafi reiðst A eftir að hafa talað við hana og lögmann hennar hjá Alþjóðahúsi og hafi hann þá verið á gangi á Grettisgötu. Hann hafi farið að Tryggvagötu 10 og komist inn á ganginn þar og vitað af bensíni á plastbrúsa á gangi 2. hæðar. Hafi hann hellt bensíni í miðjan stiga upp á aðra hæð, tekið dagblöð í anddyrinu sem þar hafi verið, kveikt í þeim og kastað upp blautan stigann svo eldur hafi orðið af. Kærði hafi sagt að stúlka af asískum uppruna hafi verið á efri hæð hússins og hafi hún yfirgefið húsið af sjálfsdáðum áður en hann kveikti í. Hafi hann sagst hafa gengið úr skugga um að enginn væri á efri hæð hússins þegar hann kveikti í. Þegar eldur hafi orðið nokkur hafi hann lokað aðaldyrum hússins og farið.
Við skýrslutöku af kærða þann 16. janúar hafi hann sagst ekki hafa komið fyrir bensínbrúsa á gangi á 2. hæðar að Tryggvagötu 10 og að hann hefði vitað af brúsanum þar, þar sem hann hefði séð bensín og fleiri vökva standa þar áður er hann hafi dvalist þar.
Sterkur rökstuddur grunur sé fyrir hendi þess efnis að kærði hafi framið brot gegn 1. mgr. 164. gr. sem varði fangelsi ekki skemur en 6 mánuði, eða brot gegn 2. mgr. 164. gr. sem varði ekki lægri refsingu en 2 ára fangelsi.
Verið sé að rannsaka brennu og bendir framburður vitna til þess að kærði hafi haft einbeittan ásetning til verksins þar sem hann hafi reynt að kveikja húsinu í kvöldið áður.
Framburður vitnis gefi til kynna að kærði hafi ekki vitað hvort fólk hafi verið á efri hæðinni og hafi húsið orðið alelda á augabragði að mati vitnisins, svo verknaðurinn hefði getað haft alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir íbúa hússins. Í málinu liggi fyrir myndir sem sýni mjög mikil eignaspjöll á húsnæðinu. Samkvæmt læknisvottorði sem dagsett sé þann 15. janúar hafi kærði átt við geðræn vandamál að stríða og að eigin sögn verið hjá geðlæknum reglulega, lengi. Í vottorðinu ráðleggi læknir að geðrannsókn fari fram á kærða og hafi lögreglustjóri krafist þess. Telji lögreglustjóri brotið vera þess eðlis að áframhaldandi gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna.
Vísað sé til framangreinds, hjálagðra gagna og 2. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.
Kærði hefur játað íkveikju eins og að framan er rakið. Samkvæmt því og með hliðsjón af rannsóknargögnum telur dómurinn kærða vera undir sterkum grun um að hafa framið brot sem varðar við 164. gr. almennra hegningarlaga og getur varðað 16 ára fangelsi. Með hliðsjón af eðli brotsins og þeirri hættu sem telja verður að hafi verið á alvarlegum afleiðingum þess er fallist á að almannahagsmunir standi til þess að kærði gangi ekki laus. Er því fullnægt skilyrðum 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 til að verða við kröfu lögreglustjóra eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til 16. febrúar nk. kl. 16.00.