Hæstiréttur íslands

Mál nr. 280/2004


Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Fasteign
  • Líkamstjón
  • Örorka
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 27

 

Fimmtudaginn 27. janúar 2005.

Nr. 280/2004.

Anna Kristín Gunnarsdóttir

(Stefán Geir Þórisson hrl.)

gegn

Gay Pride – Hinsegin dögum og

(Hákon Árnason hrl.)

Reykjavíkurborg

(Ólafur Haraldsson hrl.)

 

Skaðabætur. Fasteign. Líkamstjón. Örorka. Gjafsókn.

R bar skaðabótaábyrgð á tjóni sem A varð fyrir er skyggni, sem R hafði komið fyrir á torgi í miðborg R, féll niður. Hafði G fengið leyfi lögreglu til tónleikahalds á torginu og leyfi R fyrir afnot af því. Skyggnið var úr járngrind og klætt bláu segli og ætlað sem skjól fyrir svið þar fyrir neðan. Unnt var að komast upp á skyggnið með því að klifra upp á þak veitingasölu við torgið og fara síðan út á segldúkinn. Í umrætt skipti höfðu unglingar, sem voru að fylgjast með skemmtiatriðunum, klifrað upp á þakið og þaðan farið út á skyggnið. Lét járngrindin undan þunga þeirra með þeim afleiðingum, að framhlið skyggnisins féll niður. Tugir manna urðu undir skyggninu, þar á meðal A, sem fékk höfuðhögg og skurð á höfuðið, auk þess að togna í hálsi og baki. Talið var að við gerð mannvirkja og annarrar aðstöðu, sem sérstaklega er útbúin fyrir hvers kyns fjöldasamkomur, líkt og umrætt torg, yrði að hafa í huga tilhneigingu barna og ungmenna til að komast eins nærri flytjendum og kostur er og koma sér fyrir þar sem vel sést til þeirra. Auðvelt hafi verið að komast út á umrætt skyggni. Í ljósi þessara aðstæðna hafi verið varhugavert að hafa skyggnið uppi á umræddum stað þegar svið, sem var undir því, var ekki notað við skemmtanahald, heldur annað eða önnur svið. Unnt hafi verið að taka niður skyggnið með óverulegri fyrirhöfn og hafi verið til þess full ástæða í þeim fáu tilvikum þar sem dagskrá á mjög fjölmennum samkomum var flutt af öðru sviði en því, sem var undir skyggninu. Með því að skyggnið var ekki fjarlægt þessu sinni hafi aðstaðan á þessum stað verið hættuleg og hafi sú hætta ekki verið ófyrirsjáanleg. Hafi öryggi manna því ekki verið tryggt svo vel sem ástæða var til. Þótt kenna megi ungmennunum, sem í hlut áttu, um tjón A yrði það einnig rakið til gáleysis R. Samkvæmt því bæri að fella skaðabótaskyldu á R vegna tjóns A. Aftur á móti var G ekki talið bera ábyrgð á tjóni A.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Guðrún Erlendsdóttir og Gunnlaugur Claessen.

Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 1. júlí 2004. Hún krefst þess, að stefndu verði, aðallega in solidum en til vara pro rata, gert að greiða sér 2.877.130 krónur með 4,5% ársvöxtum af 821.210 krónum frá 10. ágúst 2002 til 10. nóvember sama ár og af 2.877.130 krónum frá þeim degi til 16. september 2003 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, en henni hefur verið veitt gjafsókn fyrir báðum dómstigum.

Stefndu krefjast aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.

I.

Samkvæmt gögnum, sem lögð hafa verið fyrir Hæstarétt, er stefndi Gay Pride – Hinsegin dagar skrásett félag, sem stofnað var af öðrum félagssamtökum og starfar samkvæmt samþykktum frá 12. mars 2001. Nýtur félagið þannig hæfis til að eiga aðild að dómsmáli, sbr. 1. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

II.

Eins og fram kemur í héraðsdómi var á vegum stefnda Gay Pride – Hinsegin daga haldin skemmtun í miðborg Reykjavíkur 10. ágúst 2002. Milli 25 og 30 þúsund manns tóku þátt í dagskránni, sem hófst með skrúðgöngu niður Laugaveg og endaði á Ingólfstorgi, þar sem boðið var upp á skemmtiatriði. Hafði stefndi Gay Pride – Hinsegin dagar fengið leyfi frá lögreglustjóranum í Reykjavík til tónleikahalds á torginu og leyfi stefnda Reykjavíkurborgar fyrir afnot af því og látið koma fyrir sviði á torginu framan við Aðalstræti 6, sem sneri í átt að Austurstræti. Nokkru frá því sviði var stórt skyggni fyrir sunnan húsnæði veitingasölunnar Hlöllabáta, sem stendur við Hafnarstræti. Það skyggni var úr járngrind og klætt bláu segli og ætlað sem skjól fyrir svið þar fyrir neðan. Skyggni þetta, sem var í eigu stefnda Reykjavíkurborgar, var haft uppi allt sumarið en tekið niður fyrir veturinn. Unnt var að komast upp á skyggnið með því að klifra upp á þak veitingasölunnar og fara síðan út á segldúkinn. Unglingar, sem voru að fylgjast með skemmtiatriðunum, klifruðu upp á þakið og fóru þaðan út á skyggnið. Lét járngrindin undan þunga þeirra með þeim afleiðingum, að framhlið skyggnisins féll niður. Tugir manna urðu undir skyggninu, þar á meðal áfrýjandi, sem fékk höfuðhögg og skurð á höfuðið, auk þess að togna í hálsi og baki.

Varanlegur miski áfrýjanda vegna slyssins hefur verið metinn 10% og varanleg örorka 5%. Í máli þessu sækir áfrýjandi stefndu til greiðslu skaðabóta vegna slyssins, sem hún telur að rekja megi til gálausrar háttsemi skipuleggjanda hátíðarinnar og/eða eiganda skyggnisins. Stefndi Reykjavíkurborg beri ábyrgð á slysi, sem rekja megi til hættueiginleika skyggnisins, en um hafi verið að ræða galla á byggingu þess. Stefndi Gay Pride – Hinsegin dagar, sem mótshaldari, og stefndi Reykjavíkurborg, sem eigandi skyggnisins, hafi ekki gætt þess, að börn færu ekki upp á það, sem augljóslega hafi skapað mikla hættu bæði fyrir börnin og þá gesti, sem undir voru. Hafi þeim mátt vera ljós hættan á því, að börn færu upp á skyggnið, en það hafi einnig gerst árið áður. Stefndu hafi því borið annaðhvort að fella skyggnið niður eða koma í veg fyrir að börn færu upp á það.

III.

Stefndi Gay Pride – Hinsegin dagar fékk sem fyrr segir leyfi hjá stefnda Reykjavíkurborg til að nota Ingólfstorg undir hátíðahöldin 10. ágúst 2002 og leyfi lögreglustjórans í Reykjavík til tónleikahalds á torginu. Það leyfi var einungis bundið þeim skilyrðum, að fulltrúi frá Umhverfis- og heilbrigðisstofu yrði á staðnum og gætti þess, að hávaði færi aldrei yfir ákveðin mörk, komið yrði í veg fyrir aðgengi að hátölurum og þess gætt, að börn kæmust ekki nær þeim en 25 metra. Eins og fyrr greinir var sviðið undir skyggninu við hús veitingasölunnar ekki notað heldur var sett upp annað svið. Stefndi Gay Pride – Hinsegin dagar var með eigin gæslumenn við það svið. Voru 12 þeirra fyrir framan sviðið og 4-5 fyrir aftan það. Engar kröfur höfðu verið gerðar um það, hvorki af hálfu lögreglu né stefnda Reykjavíkurborgar, að stefndi Gay Pride – Hinsegin dagar héldi uppi sérstakri gæslu á torginu umfram gæsluna við sitt eigið svið. Verður ekki talið, að á þessum stefnda hafi hvílt frekari eftirlitsskylda með fasteignum á torginu, en almennt eftirlit á hátíðinni var á hendi lögreglunnar. Verður því staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu stefnda Gay Pride – Hinsegin daga af kröfu áfrýjanda.

IV.

Stefndi Reykjavíkurborg er eigandi Ingólfstorgs og hefur útbúið það sérstaklega með tilliti til þess að þar séu haldnar samkomur af ýmsum toga. Við skýrslutökur í málinu af nokkrum starfsmönnum stefnda kom fram að fjölmargir viðburðir eru skipulagðir þar á hverju sumri. Meðal þeirra eru skemmtanir, sem mjög margt fólk sækir, svo sem á 17. júní, menningarnótt og árleg hátíð stefnda Gay Pride - Hinsegin daga. Eru sumar samkomur á torginu haldnar á vegum stefnda Reykjavíkurborgar, en í öðrum tilvikum nýta aðrir torgið til samkomuhalds, eins og stefndi Gay Pride – Hinsegin dagar gerði í umrætt sinn með leyfi eigandans.

Eigandi áðurnefndrar veitingasölu gaf skýrslu fyrir dómi. Kvaðst hann ekki hafa verið viðstaddur þegar slysið varð, en hann hafi hins vegar verið í veitingasölunni ári fyrr þegar sams konar hátíð var haldin. Bar hann að þá hafi hann fljótt orðið var við að krakkar hafi klifrað upp á þak hússins, farið þaðan út á skyggnið og jafnvel setið á brún þess. Hafi þeir í engu hlýtt fyrirmælum hans um að hætta þessu athæfi og hann því þurft að kalla til lögreglu til að ná ungmennunum niður. Lýsti hann aðstæðum þarna svo að utan á húsinu væru þverbitar og mjög auðvelt að fara upp á þak, það væri „ekkert mál að labba upp ... þetta er eins og stigi.“ Uppi á skyggninu sjáist vel yfir, rétt eins og að vera í stúkusætum. Unglingar hafi hins vegar ekki sótt út á skyggnið þegar sviðið undir því var í notkun. Einn starfsmanna stefnda Reykjavíkurborgar lýsti þeirri skoðun sinni að það væri barnaleikur að príla upp á þakið á þessu húsi. Í greinargerð stefnda Reykjavíkurborgar fyrir héraðsdómi er atvikum 10. ágúst 2002 lýst á þann veg að tilraunir starfsmanna veitingasölunnar og fleiri manna, sem voru á staðnum, til að reka unglingana af skyggninu hafi ekki borið árangur. Hafi járngrindin loks látið undan þunga þeirra og skyggnið fallið niður.

Ingólfstorg er notað til samkomuhalds, þar sem oft er mikill mannfjöldi. Alþekkt er að við skemmtanir, og ekki síst tónleikahald, reyni margir að komast eins nærri flytjendum og kostur er og koma sér fyrir þar sem vel sést til þeirra. Slíka tilhneigingu barna og ungmenna verður að hafa í huga við gerð mannvirkja og annarrar aðstöðu, sem sérstaklega er útbúin fyrir hvers kyns fjöldasamkomur. Að framan var því lýst að auðvelt var að komast út á skyggnið, sem féll niður á áfrýjanda og fleira fólk. Í ljósi þessara aðstæðna var varhugavert að hafa skyggnið uppi á þessum stað þegar sviðið undir því var ekki notað við skemmtanahald, heldur annað eða önnur svið. Stefndi Reykjavíkurborg ber fyrir sig að ekki hafi verið ástæða til að ætla að fólk færi út á skyggnið, sem augljóslega væri ekki gert til að þola þunga margra manna. Þótt fallast verði á að fullorðnir hafi mátt gera sér grein fyrir þessu er til þess að líta að dómgreind barna og unglinga er ekki sú sama og fullorðinna. Í málinu liggur fyrir að unnt var að taka niður skyggnið með óverulegri fyrirhöfn og var til þess full ástæða í þeim fáu tilvikum þar sem dagskrá á mjög fjölmennum samkomum var flutt af öðru sviði en því, sem var undir skyggninu. Með því að skyggnið var ekki fjarlægt þessu sinni var aðstaðan á þessum stað hættuleg og sú hætta var ekki ófyrirsjáanleg eins og stefndi Reykjavíkurborg ber fyrir sig. Var því ekki séð til þess að öryggi manna væri tryggt svo vel sem ástæða var til. Þótt kenna megi ungmennunum, sem í hlut áttu, um tjón áfrýjanda verður það samkvæmt framansögðu einnig rakið til gáleysis stefnda Reykjavíkurborgar, sem hann verður að bera ábyrgð á. Ber því að fella skaðabótaskyldu á hann vegna tjóns áfrýjanda.

V.

Áfrýjandi reisir kröfu sína um bætur á örorkumati Jónasar Hallgrímssonar læknis 26. ágúst 2003, eins og nánar greinir í héraðsdómi.

Áfrýjandi krefst þess að fá greiddar 200.000 krónur í bætur vegna annars fjártjóns, sbr. 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Um sé að ræða margvíslegan kostnað vegna afleiðinga slyssins, svo sem læknisaðstoð, sjúkraflutning, sjúkraþjálfun, verkjalyf og aksturskostnað. Er krafa þessi að mestu áætluð, en áfrýjandi hefur lagt fram reikninga vegna sjúkrakostnaðar, að fjárhæð 27.532 krónur. Hefur stefndi Reykjavíkurborg fallist á þá fjárhæð, en að öðru leyti eru ekki skilyrði til að verða við þessum kröfulið.

Áfrýjandi krefst bóta vegna tímabundins atvinnutjóns við heimilisstörf, sbr. 1. mgr. 2. gr. og 3. mgr. 1. gr. skaðabótalaga. Vísar hún til örorkumatsins, þar sem segir, að hún hafi verið óvinnufær til heimilisstarfa í einn mánuð vegna afleiðinga slyssins. Er slysið varð var áfrýjandi í sambúð með eitt barn. Hún stundaði ekki launaða vinnu en var í fullu námi í Kennaraháskóla Íslands. Hún sinnti því ekki eingöngu heimilisstörfum, heldur var hún í námi, sem svaraði til fulls starfs utan heimilis. Verður því ekki fallist á, að hún eigi rétt til bóta vegna óvinnufærni til heimilisstarfa.

Áfrýjandi krefst þjáningabóta samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga. Reisir hún þá kröfu á örorkumatinu þar sem þjáningatímabil var talið vera þrír mánuðir. Krefst hún 85.500 króna í bætur vegna þessa. Stefndi Reykjavíkurborg hefur ekki andmælt þessum lið í kröfu áfrýjanda og verður hann því tekinn til greina.

Varanlegur miski áfrýjanda var metinn 10%, og er ekki ágreiningur um það. Krefst áfrýjandi bóta samkvæmt 1. mgr. 4. gr. skaðabótalaga, að fjárhæð 545.500 krónur, og er fallist á, að miski hennar nemi þeirri fjárhæð.

Varanleg örorka áfrýjanda var metin 5%. Krefst hún þess að bætur fyrir örorkuna verði ákveðnar samkvæmt 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, sbr. 6. gr. laga nr. 37/1999. Stefndi Reykjavíkurborg telur, að áfrýjandi falli undir 8. gr. laganna þar sem hún hafi ekki haft neinar vinnutekjur og eigi að miða við 3. mgr. 7. gr. að því er tekjur varðar. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laganna skal við ákvörðun bóta fyrir varanlega örorku miða við árslaun, sem nema meðalatvinnutekjum tjónþola að meðtöldu framlagi vinnuveitanda til lífeyrissjóðs, þrjú síðustu almanaksárin fyrir þann dag er tjón varð, leiðrétt samkvæmt launavísitölu til þess tíma, er upphaf varanlegrar örorku miðast við. Í 2. mgr. 7. gr. segir síðan, að árslaun skuli þó metin sérstaklega, þegar óvenjulegar aðstæður séu fyrir hendi og ætla megi að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur tjónþola. Áfrýjandi hafði haft skertar tekjur síðastliðin þrjú almanaksár fyrir slysið, þar sem hún hafði tekið sér frí frá vinnu og skóla á árunum 1999 til 2001 vegna veikinda barns síns. Fyrir þann tíma hafði hún unnið sem leikskólakennari, auk þess sem hún var við nám í Kennaraháskóla Íslands. Þegar áfrýjandi varð fyrir slysinu var hún langt komin með nám sitt, hafði lokið 60 einingum af 90. Fyrir liggur, að hún lauk námi sínu í júní 2003 og hefur starfað sem kennari síðan. Er því fallist á með áfrýjanda að meta skuli árstekjur hennar sérstaklega, sbr. 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Miðar áfrýjandi kröfu sína við meðaltekjur leikskólakennara hjá Reykjavíkurborg á árinu 2001. Fallist er á, að sú tekjuviðmiðun gefi rétta mynd af framtíðartekjutjóni áfrýjanda og verður krafa hennar um bætur vegna varanlegrar örorku, 1.855.920 krónur, tekin til greina.

Samkvæmt framansögðu verður stefndi Reykjavíkurborg dæmdur til að greiða áfrýjanda 2.514.452 krónur með vöxtum svo sem í dómsorði greinir.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað verða staðfest.

Rétt þykir, að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Stefndi Gay Pride – Hinsegin dagar er sýkn af kröfu áfrýjanda, Önnu Kristínar Gunnarsdóttur.

Stefndi Reykjavíkurborg greiði áfrýjanda 2.514.452 krónur með 4,5% ársvöxtum af 631.000 krónum frá 10. ágúst 2002 til 10. nóvember sama ár, en af 2.514.452 krónum frá þeim degi til 25. september 2003 og með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af síðastgreindri fjárhæð frá þeim degi til greiðsludags.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað eru staðfest.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 300.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 5. apríl 2004.

I

Málið var höfðað  22. og 24. september sl. og dómtekið 26. mars sl.

Stefnandi er  Anna Kristín Gunnarsdóttir, Reykjabraut 18, Þorlákshöfn.

Stefndu eru Reykjavíkurborg og Gay Pride Hinsegin dagar, Laugavegi 3, Reykja­vík.  Til réttargæslu er stefnt Sjóvá-Almennum tryggingum hf., Kringlunni 5, Reykja­vík og Vátryggingafélagi Íslands hf., Ármúla 3, Reykjavík.

Stefnandi krefst þess að stefndu verði aðallega óskipt en til vara hvorum um sig gert að greiða sér 2.877.130 krónur ásamt 4,5% vöxtum af 821.210 krónum frá 10. ágúst 2002 til 10. nóvember s.á. en af stefnufjárhæðinni frá þeim degi til 16. september 2003 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verð­­tryggingu frá þeim degi til greiðsludags.  Þá er krafist málskostnaðar eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.

Stefndu krefjast aðallega sýknu og málskostnaðar, en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður.

Réttargæslustefndu gera engar kröfur, enda engar kröfur gerðar á hendur þeim.

II

Stefnandi kveður málavexti vera þá að 10. ágúst 2002 hafi stefndi, Gay Pride -Hinsegin dagar, haldið skemmtun í Reykjavík sem hafi hafist með skrúðgöngu niður Lauga­veg og endað á Ingólfstorgi.  Á torginu hafi verið fyrirhuguð skemmtidagskrá og af því tilefni hafi svið verið reist á miðju torginu sem sneri í átt að Austurstræti og hafi gestum verið ætlað að standa í Austurstræti, á torginu sjálfu og til hliðar við sviðið.  Stefnandi kveðst hafa verið meðal gesta og, eins og margir aðrir, staðið norðan megin við sviðið sem hafði verið reist á torginu, nánar tiltekið á palli sem al­mennt er notaður sem svið á torginu.  Yfir palli þessum hafi verið járngrind sem klædd var segli.  Stefnandi kveður að skyndilega hafi skyggnið fallið niður og á þá sem þar stóðu, þar á meðal á sig. 

Stefnandi kveðst hafa verið flutt á slysadeild og við skoðun þar kom í ljós að hún hafði tognað í vöðvum í hálsi, herðum og mjóbaki auk þess að hafa skorist á vinstra eyra og höfði.  Stefnandi kveðst hafa verið undir eftirliti heimilislæknis og gengið til sjúkra­þjálfara vegna slyssins sem hún kveður hafa haft slæmar afleiðingar fyrir sig.  Læknir mat afleiðingar slyssins á heilsu stefnanda og samkvæmt niðurstöðu mats­gerðar var varanlegur miski stefnandi 10% og varanleg örorka 5%.

Dómkröfur stefnanda sundurliðast þannig:

1.         Annað fjártjón                                                              kr.           200.000

2.         Tímabundið atvinnutjón                                             kr.           190.210

3.         Þjáningabætur 90 x 950                                               kr.           85.500

4.         Varanlegur miski 10% af 5.455.000                            kr.           545.500

5.         Varanleg örorka 2.303.740 kr.  x 1,06 x

             228,1/212,4 = 2.622.467 x 14,154 x 5%                       kr.           1.855.920

            Samtals                                                                          kr.           2.877.130

Stefnandi krefst bóta fyrir annað fjártjón á grundvelli 1. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og kveðst hafa haft margvíslegan kostnað vegna afleiðinga slyssins.  Hún leggur fram reikninga vegna kostnaðar að fjárhæð 86.006 krónur en áætlar að á að giska 114.000 krónur sé vegna annars kostnaðar, svo sem vegna aksturs og lyfjakaupa en hún hafi þurft að kaupa mikið af lyfjum vegna afleiðinga slyssins. 

Stefnandi krefst bóta fyrir tímabundið atvinnutjón, enda hafi hún, að mati læknis, verið óvinnufær til heimilisstarfa í 1 mánuð vegna afleiðinga slyssins.  Til grundvallar bóta­fjárhæðinni kveðst hún taka mið af meðaltekjum verkamanna og samkvæmt yfir­liti tryggingarstærðfræðings hafi meðaltekjur þeirra á árinu 2001 verið 2.282.528 krónur og samsvari það því 190.210 krónum í mánaðartekjur. 

Krafa stefnanda um þjáningabætur byggir á 3. gr. skaðabótalaga og er tímabil þeirra reiknað frá slysdegi og fram til 10. nóvember 2002 en þá hafi verið settur stöð­ug­leikapunktur með tilliti til þess að ekki hafi verið frekari bata að vænta.  Fyrir hvern dag reiknast 950 krónur eftir að fjárhæðin hafi verið uppfærð miðað við láns­kjara­vísitölu í september 2003.

Krafa um miskabætur er byggð á 4. gr. skaðabótalaganna og mati læknis og taki mið af grunnfjárhæð 4. gr., uppfærðri miðað við láns­kjaravísitölu í september 2003. 

Stefnandi kveðst hafa haft skertar tekjur síðustu 3 almanaksárin fyrir slysið.  Ástæðan hafi einkum verið sú að hún hafi tekið sér frí frá vinnu á árunum 1999 til 2001 vegna veikinda barns en fyrir þann tíma hafi hún unnið sem leikskólakennari auk þess að stunda nám í Kennaraháskólanum.  

Kröfu sína um bætur fyrir varanlega örorku reiknar hún út frá meðaltekjum starfs­manna í Félagi íslenskra leikskólakennara á árinu 2001 sem voru 2.303.740 krónur eða 2.622.467 krónur þegar tekið hafi verið tillit til 6% framlags vinnuveitenda til líf­eyr­issjóðs og uppfærslu miðað við launavísitölu frá miðju ári 2001 til stöð­ug­leika­marks 10. nóvember 2002.   Þannig uppreiknuð árslaun hafa verið margfölduð með upp­gefnum stuðli 6. gr. skaðabótalaganna og örorkuprósentu stefnanda. 

Stefndi, Gay Pride - Hinsegin dagar, bætir við framangreinda málavaxtalýsingu að hann hafi fengið leyfi frá lögreglu og meðstefnda, Reykjavíkurborg, fyrir skemmt­uninni svo og fyrir afnot af Ingólfstorgi á meðan á henni stóð.   Á Ingólfstorgi kveðst stefndi hafa látið reisa svið sem sneri í átt að Austurstræti svo áhorfendur gætu fylgst með skemmtiatriðum, sem þar fóru fram.  Norðan megin við sviðið hafi verið stórt járn­skyggni fyrir ofan skyndibitastað, sem þar er, um hafi verið að ræða járngrind sem klædd hafi verið með bláu segli og ætlað sem skyggni yfir svið sem þar er.  Grindin hafi verið fest við steyptan kant, sem festur hafi verið ofan á sex steyptar súlur og braggalaga þak fest á milli kantsins og húsnæðis skyndibitastaðarins.  Stefndi kveður að samkvæmt upplýsingum frá eiganda skyggnisins, meðstefnda Reykja­víkurborg, hafi segldúkurinn á skyggninu verið hafður uppi allt sumarið þegar svið undir því var í notkun en hann hafi verið tekinn niður fyrir veturinn.  Þegar slysið varð hafi skyggnið fallið skyndilega niður á stefnanda og tugi annarra manna, sem voru þar.  Tildrög slyssins hafi verið þau að fólk hafi klifrað upp á skyggnið með þeim af­leiðingum að járngrindin gaf sig undan þunganum. 

Stefndi kveður réttargæslustefnda, Vátryggingafélag Íslands hf., sem ábyrgðar­tryggjanda stefnda hafa hafnað bótakröfu stefnanda.  Af hálfu stefnda eru ekki gerðar at­hugasemdir við þær niðurstöður matsmanns að varanleg örorka stefnanda sé 5% og var­anlegur miski 10%. 

Af hálfu stefnda, Reykjavíkurborgar, er því haldið fram að hann hafi á engan hátt komið nálægt skipulagningu skemmtunarinnar og enga aðild átt að henni.  Stefndi kveður meðstefnda hafa látið reisa svið á Ingólfstorgi, sem hafi snúið í átt að Austur­stræti, en norðan megin við það svið hafi verið skyggni úr járngrind og klætt með bláu segli og haft uppi yfir sumarið en tekið niður á veturna.  Stefndi kveður orsök slyssins hafa verið þá að áhorfendur hafi klifrað upp á skyggnið og við það hafi járngrindin látið undan þunganum og fallið niður á gesti, þar á meðal stefnanda.

III

Stefnandi byggir á því að slysið megi rekja til galla á byggingu skyggnisins.  Telur hún liggja ljóst fyrir að járngrindin, sem hélt uppi skyggninu, hafi gefið sig undan þunga fólks sem hafi klifrað upp á skyggnið.  Annað hvort hafi skyggnið verið gallað og/eða ekki byggt á forsvaranlegan hátt í ljósi ætlaðra nota og aðstæðna.  Byggir stefnandi á því að stefndi, Reykjavíkurborg, beri ábyrgð á slysinu sem rekja megi til hættueiginleika skyggnisins samkvæmt reglum skaðabótaréttarins um ábyrgð fast­eignaeigenda. 

Stefnandi byggir á því að stefndu hafi borið að gæta þess að fólk færi ekki upp á skyggnið enda ljóst að það þoldi ekki þá byrði.  Bendir stefnandi einnig á að alls ekki hafi verið ætlunin að nota skyggnið við skemmtunina heldur hafi annað svið verið reist á torginu til þess.  Það hafi því verið full ástæða til að taka skyggnið niður eða að tryggja að fólk færi ekki upp á það.  Byggir stefnandi á því að stefndu hafi borið að tryggja öryggi gesta með því að gera annað hvort eða að koma í veg fyrir að gestir fengju að standa undir skýlinu.  Samkvæmt framansögðu byggir stefnandi á því að slysið verði rakið til gálausrar háttsemi skipuleggjenda hátíðarinnar og/eða eiganda skyggn­isins.  Þá bendir hún á að fólk hafi verið hvatt til að sækja skemmtunina, þar á meðal með auglýsingum, og verði að gera ríkar kröfur til þeirra sem standa að slíkum skemmt­unum að gæta öryggis þeirra sem hvattir eru til að sækja þær.  Stefnandi vekur og athygli á því að stefndi, Reykjavíkurborg, var styrktaraðili skemmtunarinnar og því ekki aðeins eigandi skyggnisins heldur beinn aðili að dagskránni.

Kröfur sínar um bætur byggir stefnandi á ákvæðum skaðabótalaganna.  Hún byggir sérstaklega á því að árstekjur hennar verði að meta sérstaklega, sbr. 2. mgr. 7. gr. laganna, enda hafi hún búið við óvenjulegar aðstæður síðustu 3 árin fyrir slysið.  Hún hafi tekið sér frí frá vinnu vegna veikinda barns en þar áður hafi hún unnið sem leik­skólakennari auk þess að vera við nám í Kennaraháskólanum.  Það verði því ekki hægt að byggja á tekjum hennar fyrir slysið heldur verði að meta þær sérstaklega, sbr. áður­nefnt ákvæði.   Byggir stefnandi á því að leggja skuli til grundvallar meðaltekjur leik­skólakennara hjá Reykjavíkurborg á árinu 2001.  Sú tekjuviðmiðun sé eðlileg í ljósi starfa stefnanda fyrir slysið og þeirrar staðreyndar að hún hafi verið langt komin með nám þegar hún slasaðist og gefi því þessi tekjuviðmiðun réttasta mynd af fram­tíð­artekjutjóni hennar.

Sýknukrafa stefnda, Gay Pride - Hinsegin daga, er á því byggð að hann eigi enga sök á slysinu og beri hann því ekki ábyrgð á tjóni stefnanda.  Stefndi kveðst ekki hafa notað sviðið undir skyggninu, sem hrundi, heldur hafi hann sett upp sitt eigið svið annars staðar á torginu.  Þar kveðst stefndi hafa verið með gæslumenn en enginn þeirra hafi tekið eftir því að fólk hafði klifrað upp á skyggnið, enda ekki í þeirra verka­hring að hafa eftirlit eða gæslu þar.  Eftirlit og gæsla á úti­sam­komum sé í hönd­um lögreglunnar.  Ekki verði lagt á stefnda að koma í veg fyrir að fólk fari upp á hús­þök eða önnur mannvirki.  Þá bendir stefndi og á að skyggnið hafi ekki verið hannað eða smíðað til að bera fólk.  Bendir stefndi á að þeir sem hafi klifrað þarna upp á hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi og komið sjálfum sér og þeim, sem stóðu fyrir neðan, í hættu. Á þessu geti stefndi ekki borið ábyrgð.  Stefndi bendir á að hann hafi fengið leyfi hjá meðstefnda til þess að nota Ingólfstorg og hafi hann enga heimild haft eða ástæðu til að fella niður skyggnið sem var í eigu meðstefnda.  Engin hætta hafi heldur stafað af skyggninu sem slíku heldur hafi hættan skapast þegar fólk klifraði upp á það en það hafi stefndi ekki getað séð fyrir.  Þá kveðst stefndi auk þess hafa mátt treysta því, þegar hann fékk afnot af torginu, að ekki leyndust hættur á því. 

Varakröfu sína byggir stefndi á því að tjón stefnanda verði ekki reiknað á þann hátt sem hún gerir.  Stefndi kveðst fallast á greiðslu reikninga vegna sjúkrakostnaðar að fjárhæð 27.532 krónur en telur annað fjártjón vera ósannað.  Þá byggir stefndi á því að samkvæmt 8. gr. skaðabótalaga skuli ákvarða bætur til tjónþola, sem að verulegu leyti nýti vinnugetu sína þannig að þeir hafi engar eða takmarkaðar vinnu­tekjur, á grund­velli örorkustigs samkvæmt 5. gr. laganna.  Stefnandi hafi verið nemi og falli því undir 8. gr.  Þá byggir stefndi á því að miða eigi við 3. mgr. 7. gr. skaða­bóta­lag­anna varðandi viðmiðunartekjur stefnanda en ekki séu skilyrði fyrir hendi til að miða við 1. og 2. mgr. sömu greinar.  Byggir stefndi á því að aðstæður stefnanda hafi ekki verið óvenjulegar, enda geti ekki talist óvenjulegt að fólk sé í námi og með lágar tekjur þess vegna.  Bendir stefndi á að framangreind regla sé undan­tekn­ing­ar­regla sem beri að skýra þröngt.

Stefndi byggir á því að ósannað sé að stefnandi hafi orðið fyrir raunverulegu tíma­bundnu tekjutapi vegna heimilisstarfa.  Bendir hann á að í matsgerðinni sé ekki tekin afstaða til þess að hve miklu leyti stefnandi hafi verið óvinnufær til þeirra starfa.  Verði það hins vegar niðurstaðan að stefnandi eigi rétt á bótum fyrir tímabundið tekju­tap þá byggir stefndi á því að til grundvallar verði að leggja laun leikskólakennara en ekki meðaltekjur verkamanna enda hafi stefnandi ekki unnið við þau störf þegar hún varð fyrir slysinu.

Stefndi,  Reykjavíkurborg, byggir aðalkröfu sína um sýknu á því að tjón stefn­anda verði ekki rakið til atvika sem hann beri ábyrgð á.  Skemmtunin hafi ekki verið á vegum stefnda og hann hafi ekki tekið að sér að annast öryggisgæslu á staðnum. 

Stefndi byggir á því að hann verði ekki gerður ábyrgur fyrir tjóni stefnanda á grund­velli reglna um tjón sem verða vegna hættueiginleika fasteigna.  Skyggnið, sem fólk klifraði upp á, hafi ekki verið sett upp sem áhorfendapallur og það hafi ekki verið hættu­legt í sjálfu sér.  Hættan hafi fyrst skapast þegar fólk klifraði upp á það og það féll niður með framangreindum afleiðingum.  Stefndi verði ekki gerður ábyrgur fyrir tjóni sem rekja megi til þess að þriðji aðili eða þriðju aðilar, sem tengist honum ekki á nokkurn hátt, gerist sekir um ranga meðhöndlun á eign hans.  Stefndi hafi enga ástæðu haft til þess að fyrra bragði að óttast það að fólk tæki upp á því að klifra upp á skyggnið með þessum afleiðingum.    Af þessum sökum hafi hann heldur enga ástæðu haft til þess að fella skyggnið niður áður en skemmtunin hófst. 

Varakröfu sína um lækkun bóta byggir stefndi á því að krafa stefnanda um annað fjár­tjón sé ósönnuð umfram það sem meðstefndi hafi samþykkt.  Þá byggir stefndi enn­ fremur á því að ekki sé réttlætanlegt í þessu máli að beita 2. mgr. 7. gr. skaða­bóta­lag­anna þar sem engar sérstakar eða óvenjulegar aðstæður réttlæti slíkt.  Verði ekki fallist á að miða beri við lágmarkslaun samkvæmt 3. mgr. 7. gr. byggir stefndi á því að miða beri við byrjunarlaun leikskólakennara en ekki meðallaun, þar sem stefnandi hafi enn verið við nám þegar tjónið varð. 

IV

Eins og rakið hefur verið slasaðist stefnandi er hún varð undir skyggni, sem stefndi, Reykjavíkurborg, hafði komið fyrir ofan við svið á Ingólfstorgi norðanverðu. Það er ágreiningslaust að skyggnið féll niður á stefnanda og fleira fólk vegna þess að fólk hafði klifrað upp á þak skyndibitastaðar, en skyggnið gekk út frá þaki hans, og komist þaðan út á skyggnið.  Skyggnið er úr segldúk, er ekki þoldi þungann, og féll niður.  Starfsmaður stefnda, Reykjavíkurborgar, bar að skyggnið hefði verið sett upp á vorin og ekki tekið niður aftur fyrr en að hausti.  Á sviðinu væru haldnir tónleikar og annað þvíumlíkt að sumri til og væri skyggninu ætlað að verja þá, er þar kæmu fram.  Það hafi reynst óþjált í meðförum og þess vegna látið vera uppi allt sumarið.

Þetta svið og skyggnið tengdist þó í engu skemmtun, sem stefndi, Gay Pride - Hinsegin dagar, hélt á torginu daginn sem stefnandi slasaðist, enda hafði hann sett upp eigið svið annars staðar þar sem skemmtiatriði hans fóru fram.  Þrátt fyrir að stefndi hafi fengið leyfi meðstefnda og lögregluyfirvalda til halda skemmtun í borginni, þ.á m. á Ingólfstorgi, auglýst hana og hvatt fólk til að koma þá verður hann ekki af þeim sökum einum gerður ábyrgur fyrir tjóni, er fólk, sem sækir skemmtunina, verður fyrir.  Það verður að vera orsakasamband á milli athafna eða athafnaleysis stefnda og tjónsins.  Slys stefnanda verður á engan hátt rakið til athafna stefnda og ekki var skyggnið eign hans.  Þá hefur ekki verið sýnt fram á að honum hafi borið að hafa eftir­lit með því sem fram fór á torginu, en fram kom við aðalmeðferð að hann hélt uppi gæslu við sitt eigið svið.  Önnur gæsla er lögum samkvæmt á hendi lögreglunnar.  Það er því heldur ekki fallist á að stefndi hafi með athafnaleysi sínu orðið valdur að slysinu.  Stefndi, Gay Pride - Hinsegin dagar, er því sýknaður af kröfu stefnanda.

Það er ágreiningslaust að stefnandi slasaðist við það að fólk klifraði út á skyggnið, sem ekki þoldi þungann og féll niður.  Ekki hefur verið sýnt fram á að skyggnið hafi verið hættulegt þar sem það var haft uppi.  Það er úr segldúk og myndir, sem lagðar hafa verið fram, sýna að ekki hefur verið traustvekjandi að ganga út á það.  Verður ekki fallist á það með stefnanda að stefndi, Reykjavíkurborg, hafi mátt gera ráð fyrir að fólk hætti sér út á það, jafnvel þótt það klifraði upp á þak skyndi­bita­stað­arins.  Það er því ekki hægt að fallast á að skyggnið hafi verið slysagildra og stefnda því borið að fjarlægja það, hvorki vegna skemmtunar meðstefnda né af öðru tilefni.  Sá, sem olli stefnanda tjóni, var einhver eða einhverjir þeirra, sem klifruðu upp á skyggnið og felldu það niður.  Um það verður stefnda ekki kennt og verður hann því einnig sýknaður af kröfu stefnanda.

Málskostnaður skal falla niður.  Gjafsóknarkostnaður stefnanda skal greiddur úr ríkis­sjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Stefáns G. Þórissonar hrl., 481.815 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp dóminn.

Dómsorð

Stefndu, Gay Pride - Hinsegin dagar og Reykjavíkurborg, eru sýknaðir af kröfu stefnanda, Önnu Kristínar Gunnarsdóttur.

Málskostnaður fellur niður en gjafsóknarkostnaður stefnanda skal greiddur úr ríkis­sjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Stefáns G. Þórissonar hrl., 481.815 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.