Hæstiréttur íslands
Mál nr. 288/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Fjármálafyrirtæki
- Slitameðferð
|
|
Miðvikudaginn 6. júní 2012. |
|
Nr. 288/2012.
|
Reykjavíkurborg (Kristbjörg Stephensen hrl.) gegn Landsbanka Íslands hf. (Pétur Örn Sverrisson hrl.) |
Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slitameðferð.
R lýsti kröfu við slit L hf. á grundvelli tiltekinna viðskipta sem R óskaði eftir við L hf. 3. október 2008, á grundvelli samnings aðilanna um eignastýringu, en R taldi að viðskipti þessi hefðu átt að fara fram eigi síðar en 6. sama mánaðar. Um var að ræða viðskipti um innlausn hlutdeildarskírteina í svonefndum peningabréfum L hf. og að andvirði þeirra yrði nýtt til kaupa á svonefndum sparibréfum L hf. Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms þar sem kröfu R var hafnað, einkum með vísan til þess að L hf. hefði upplýst R um fyrirhugaða framkvæmd viðskiptanna án þess að R hreyfði andmælum við því, en viðskiptin komu síðan aldrei til framkvæmda vegna lokunar markaða.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. apríl 2012, sem barst héraðsdómi sama dag og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. apríl 2012, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila við slit varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipt o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og kröfu hans að fjárhæð 1.402.572.940 krónur verði skipað í réttindaröð við slit varnaraðila sem almennri kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Reykjavíkurborg, greiði varnaraðila, Landsbanka Íslands hf., 300.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. apríl 2012.
I
Héraðsdómur Reykjavíkur skipaði varnaraðila slitastjórn 29. apríl 2009. Slitastjórnin gaf út innköllun til kröfuhafa og lauk kröfulýsingarfresti 30. október sama ár. Sóknaraðili lýsti kröfu við slit varnaraðila, alls að fjárhæð 1.402.572.940 krónur, og var krafan færð á kröfuskrá og merkt nr. 1180. Kröfunni var aðallega lýst sem sértökukröfu samkvæmt 109. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, til vara sem forgangskröfu, sbr. 1. og 2. mgr. 112. gr. sömu laga, sbr. og 1. og 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, en til þrautavara sem almennri kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Slitastjórn hafnaði kröfunni alfarið og mótmælti sóknaraðili þeirri afstöðu, en ágreiningur aðila varð ekki jafnaður. Í kjölfarið var ákveðið að vísa ágreiningnum til úrlausnar héraðsdóms samkvæmt 120. gr., sbr. 171. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Var málið þingfest 14. júní 2010.
Í bréfi slitastjórnar til dómsins var tekið fram að auk sóknaraðila og varnaraðila ættu aðild að málinu fjöldi erlendra kröfuhafa sem hefðu mótmælt því að krafan yrði viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991. Lutu mótmæli þeirra þó aðallega að gildi laga nr. 125/2008. Undir rekstri málsins drógu þeir mótmæli sín til baka og féllu um leið frá aðild sinni að málinu. Aðilar málsins eru því þeir sem að ofan greinir.
Með bókun, sem lögð var fram í þinghaldi í málinu 6. mars sl., féll sóknaraðili frá aðal- og varakröfu sinni, en hélt til streitu kröfu sinni um að krafa hans yrði viðurkennd sem almenn krafa við slit varnaraðila. Samkvæmt því krefst hann þess nú að krafa hans að fjárhæð 1.402.572.940 krónur „verði samþykkt sem almenn krafa sbr. 113. gr. laga nr. 21/1991, og að varnaraðili verði dæmdur til að greiða sóknaraðila skaðabætur auk vaxta skv. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 3. október 2008“. Að auki krefst hann málskostnaðar úr hendi varnaraðila, að skaðlausu, samkvæmt mati dómsins.
Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað og að sóknaraðila verði gert að greiða honum málskostnað að skaðlausu.
Málið var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 14. mars sl.
II
Málsatvik eru þau að 3. júní 2008 gerðu aðilar með sér samning um eignastýringu. Með samningnum tók Landsbanki Íslands hf. að sér að veita sóknaraðila ráðgjöf og þjónustu vegna viðskipta með fjármálagerninga, annast vörslu þeirra og eignastýringu. Í því fólst einnig að varnaraðili tók við fjármunum frá sóknaraðila til fjárfestingar í fjármálagerningum fyrir eigin reikning sóknaraðila, stofnaði í því skyni sérstakan reikning á nafni sóknaraðila, vörslureikning, þar sem eign sóknaraðila í fjármálagerningum skyldi varðveitt. Í 2. gr. samningsins segir að sú eignastýring sem bankinn taki að sér skuli vera í samræmi við þá fjárfestingarstefnu sem viðskiptavinur samþykki skriflega á hverjum tíma, og skuli fjárfestingarstefnan teljast hluti samningsins, sem viðauki I. Með því veitti sóknaraðili varnaraðila heimild til að stýra fjármunum sínum innan þeirra frávika sem um gat í fjárfestingarstefnunni. Um leið gaf sóknaraðili varnaraðila umboð til þess að kaupa og selja fjármálagerninga í samræmi við fjárfestingarstefnuna, svo og til þess að gera hverjar þær ráðstafanir sem töldust nauðsynlegar og eðlilegar til þess að ná fram markmiðum samningsins. Í því fólst einnig að varnaraðili hafði heimild til þess að fela öðrum lögaðila að annast einstaka þætti samningsins, svo sem vörslu fjármuna, sbr. 4. gr. samningsins og viðauka II. Fram kemur í 6. gr. að fjármunum viðskiptavinar skuli haldið aðgreindum frá fjármunum Landsbanka Íslands hf. og fjármunum annarra viðskiptavina. Í 17. gr. samningsins er tekið fram að viðskiptavini sé ljós sú áhætta sem felist í viðskiptum með fjármálagerninga, að ávöxtun geti sveiflast frá einum tíma til annars og að eignasafn hans geti rýrnað á samningstímanum.
Föstudaginn 3. október 2008 nam verðbréfaeign sóknaraðila í eignastýringu hjá Landsbanka Íslands hf. alls 4.245.301.929 krónum að markaðsvirði. Annars vegar samanstóð eignin af hlutdeildarskírteinum í Markaðsbréfum Landsbankans, að markaðsvirði 313.825.598 krónur, en hins vegar af hlutdeildarskírteinum í Peningabréfum Landsbankans ISK, að markaðsvirði 3.931.476.331 krónu. Í greinargerð sóknaraðila er markaðsvirði hlutdeildarskírteina í Markaðsbréfum sagt 311.431.955 krónur, en af framlagðri skilagrein vegna sölu þeirra er ljóst að sú fjárhæð er hins vegar innlausnarfjárhæð hlutdeildarskírteinanna.
Að morgni þessa dags, kl. 09.39, hringdi Karl Einarsson, deildarstjóri fjárstýringardeildar sóknaraðila, til Birgis Guðfinnssonar, þáverandi forstöðumanns á eignastýringarsviði Landsbanka Íslands hf., og óskaði eftir því að „flytja [ ] eignastýringuna [...], fjóra milljarðana, yfir í innistæðubréf í Seðlabanka“, svo vísað sé til endurrits af símtali þeirra. Birgir féllst á beiðnina, en spurði Karl um leið hvort ætlunin væri að vera áfram í eignastýringu, og játaði Karl því. Af símtalinu má ráða að Karl hafði nokkrar áhyggjur af þróun fjármálamarkaðarins og vildi hafa fjármuni sóknaraðila í góðu skjóli. Fylgdi hann beiðninni eftir með rafbréfi til Birgis nokkrum mínútum síðar. Stuttu síðar, kl. 10:04, hringdi Birgir í Karl og tjáði honum að innstæðubréf Seðlabankans væru uppseld. Ræddu þeir um aðra kosti í stöðunni og varð að samkomulagi að í stað innstæðubréfanna yrðu keypt Sparibréf Landsbankans, sem var sjóður með ríkisverðbréfum hjá varnaðaraðila. Taldi Birgir að Sparibréfin væru „varfærnislegri“ en aðrir kostir sem ræddir voru, enda væru þau 100% ríkisbréf. Þegar Karl spurði hvort eitthvert „hökt“ gæti komið til vegna þeirra bréfa svaraði Birgir orðrétt þannig: „Nei sko sérstaklega ef að það kemur meiri túrbúlans, einhverjar slæmar fréttir um helgina, eða næstu viku sko, þá er það, þá ertu, þetta er reyndar T plús einn á þessu, þannig að við munum græja kauppöntunina núna og innleysa peningabréfin eftir helgi sko.“ Svaraði Karl þessu þannig: „Já. Einmitt“, og síðar „Já nákvæmlega. Heyrðu græjum þetta.“ Í kjölfarið sendi Karl svohljóðandi rafbréf til Birgis: „Þetta er ljómandi leið við flytjum okkur til í eignastýringunni yfir í sparibréf sem eru ríkisbréf. Öryggið í fyrirrúmi.“
Ekki er um það deilt að við kaup og sölu á Markaðsbréfum Landsbankans, sem og áðurnefndum Sparibréfum Landsbankans, gilti sú uppgjörsregla að uppgjör viðskipta fór fram næsta virkan dag eftir móttöku viðskiptabeiðni (nefnd uppgjörsregla T+1), en í tilviki Peningabréfa Landsbankans ISK fóru viðskipti fram samdægurs, bærist slík ósk fyrir kl. 16:00 (nefnd uppgjörsregla T+0).
Í samræmi við óskir starfsmanns sóknaraðila í áðurnefndu símtali 3. október 2008 voru hlutdeildarskírteini sóknaraðila í Markaðsbréfum Landsbankans innleyst og andvirði þeirra, 311.431.955 krónur, lagt inn á tiltekinn bankareikning sóknaraðila hjá varnaraðila. Á kvittun vegna viðskiptanna, sem send var sóknaraðila 6. október 2008, er viðskiptadagur og tími viðskipta skráður 3.10.2008 kl. 11:10, en uppgjörsdagur 6.10.2008. Sama dag barst sóknaraðila einnig kvittun vegna markaðspöntunar á Sparibréfum Landsbankans, alls að fjárhæð 4.150.000.000 krónur, og kemur þar fram að sú fjárhæð hafi verið tekin út af tilteknum bankareikningi sóknaraðila hjá varnaraðila. Á sama hátt og í fyrri kvittun er viðskiptadagur og tími viðskipta tilgreindur 3.10.2008 kl. 11:10, en uppgjörsdagur 6.10.2008. Daginn eftir, 7. október, barst sóknaraðila kreditnóta vegna viðskipta með Sparibréf Landsbankans. Kemur þar fram að kaup sóknaraðila á bréfunum, svo og sú fjárhæð sem hafði verið tekin út af reikningi hans vegna þeirra viðskipta, hafi verið bakfærð samkvæmt beiðni miðlara.
Í endurriti af símtali Birgis Guðfinnssonar og Karls Einarssonar 6. október 2008 kemur fram að búið sé að loka fyrir viðskipti í sjóðum varnaraðila. Spyr Karl þá Birgi hvort ekkert hafi náðst inn í dag, og svarar Birgir því þannig: „Jú, jú, jú, það [ ] Það sko, peningurinn, uppgjör í dag semsagt verður keyrt í gegn sko. [ ] Þannig að þú ert alveg góður með það.“ Síðar í símtalinu segir Birgir: „Já. Þetta er það. En hérna, en annars, en eins og ég segi, Sparibréfin sko, miðað við þetta, fyrst við gerðum þetta á föstudaginn þá nær það allt í gegn, fjórir komma tveir sko, þannig að þú, þú sofnar vel í kvöld allavega yfir því.“ Við sama tækifæri tekur Birgir fram að „vöktunarpeningurinn“ sé hins vegar læstur inni, og á þá við fjármuni sóknaraðila í peningamarkaðssjóði, sem ekki var hluti af eignastýringarsamningi aðila. Í símtali sömu aðila morguninn eftir, 7. október, fullvissar Birgir Karl enn um að viðskiptin hafi öll náð fram að ganga og þurfi Karl ekki að hafa áhyggjur af Sparibréfunum. Síðar sama dag hringdi Karl í Birgi og fékk Karl þá að vita að viðskiptin hefðu ekki gengið eftir og því hefðu þau verið bakfærð. Skýring Birgis var sú að forsenda kaupa á Sparibréfunum hafi verið að Peningabréfin yrðu innleyst á móti. Þar sem Sparibréfin hafi verið með uppgjörsreglu T+1 hefði þurft að innleysa Peningabréfin fyrir kaupverðinu á mánudeginum 6. október. Af símtalinu má ráða að hefði starfsmaður sóknaraðila ekki óskað eftir kaupum á Sparibréfum hefði ekkert verið því til fyrirstöðu að Peningabréfin yrðu innleyst strax á föstudeginum 3. október. Andvirði þeirra hefði þá verið lagt á bankareikning sóknaraðila.
Meðal gagna málsins er fundargerð stjórnar Landsvaka hf. 6. október 2008, en Landsvaki hf. var dótturfélag Landsbanka Íslands hf. og rekstrarfélag fjárfestingarsjóðanna Markaðsbréf Landsbankans og Peningabréf Landsbankans ISK. Á fundinum var tekin ákvörðun um að loka fyrir viðskipti með hlutdeildarskírteini í fjölda sjóða sem reknir voru af Landsvaka hf., þ. á m. báðum ofangreindum sjóðum, í því skyni að tryggja hagsmuni og jafnræði hlutdeildarskírteinishafa. Af fundargerðinni má sjá að fundurinn hófst kl. 09:30 og lauk kl.10:00. Fjármálaeftirlitinu var tilkynnt um ákvörðunina með tölvupósti kl. 11:04, en tilkynning um ákvörðunina mun hafa birst á ytri vef varnaraðila kl. 12:10 sama dag, að því er fram kemur í greinargerð varnaraðila. Síðar þennan dag ávarpaði forsætisráðherra þjóðina og lýsti þeim vanda sem við blasti og alvarlegri stöðu íslensks efnahagslífs. Boðaði hann setningu laga sem áttu að verja innlendan hluta fjármálastarfsemi og tryggja innlán á Íslandi umfram aðrar kröfur á bankana. Með lögum nr. 125/2008, sem tóku gildi 7. október 2008, oft kölluð neyðarlögð, voru innlán á Íslandi gerð að forgangskröfum við slit innlendra fjármálafyrirtækja. Í greinargerð varnaraðila er fullyrt að engar innlausnir hafi átt sér stað úr Peningabréfum Landsbankans ISK eftir lokun viðskipta föstudaginn 3. október 2008.
Í kjölfar tilmæla Fjármálaeftirlitsins og ákvörðunar stjórnar Landsvaka hf. var fjárfestingarsjóðnum Peningabréf Landsbankans ISK slitið 28. október 2008 og sjóðfélögum greiddar út eignir sínar í formi peninga. Útgreiðsluhlutfall til hvers og eins var 68,8%, miðað við síðasta skráða gengi, 3. október 2008, og var tekið fram að um fullnaðaruppgjör væri að ræða. Samkvæmt því voru sóknaraðila greiddar 2.702.960.234 krónur. Heldur sóknaraðili því fram að enn séu ógreiddar eftirstöðvar eignar hans, miðað við síðasta skráða gengi sjóðsins, samtals 1.228.516.007 krónur, og er það höfuðstóll kröfu hans.
Sjá má af gögnum málsins að sóknaraðili óskaði ítrekað eftir skýringum á því hvers vegna umrædd viðskipti fóru ekki fram, eins og um var beðið í símtölum Karls Einarssonar og Birgis Guðfinnssonar 3. október 2008. Í svarbréfi skilanefndar varnaraðila 9. mars 2009 segir m.a. svo: „Í símtali þann 3. október 2008 milli fulltrúa Reykjavíkurborgar og Landsbanka Íslands hf. óskaði Reykjavíkurborg eftir því að selja eignastýringarsafn sitt og flytja yfir í innistæðubréf Seðlabanka. Sama dag hafði fulltrúi Landsbankans samband við fulltrúa Reykjavíkurborgar símleiðis og tilkynnti að innistæðubréf væru uppseld og því ekki mögulegt að færa safnið í slík bréf. Í símtalinu kemur fram að aðilar sættast á að færa safnið í Sparibréf, þau bréf eru með uppgjörstíma T+1 sem þýðir að þar sem 3. október var föstudagur færi uppgjör fram á mánudaginn eftir eða 6. október 2008. Ennfremur eru aðilar sammála um það að þar sem uppgjör Sparibréfa fari fram á mánudeginum skuli innleysa Peningabréf, sem eru með uppgjörstíma T+0, sama dag og uppgjör Sparibréfa fer fram. Þann 6. október var lokað fyrir viðskipti með umræddan sjóð og ekki var unnt að framkvæma sölupöntunina. Í framhaldi af því að ekki var hægt að innleysa Peningabréfin voru kaup Reykjavíkurborgar á Sparibréfum bakfærð enda var forsenda kaupanna að mögulegt væri að innleysa Peningabréfin.“
Við upphaf aðalmeðferðar gaf Birgir Guðfinnsson, fyrrverandi forstöðumaður á eignastýringarsviði Landsbanka Íslands hf., skýrslu fyrir dóminum. Voru endurrit af símtölum hans og Karls Einarssonar, starfsmanns sóknaraðila, borin undir hann og kvaðst hann ráma í þau. Sérstaklega spurður um samtal þeirra 3. október 2008 sagði Birgir að ætlun þeirra Karls hefði verið að koma fjármunum sóknaraðila í öruggt skjól, og hefðu þeir báðir talið að Sparibréfin væru öruggur kostur. Uppgjörsreglan á Sparibréfunum, þ.e. T+1, hefði hins vegar komið í veg fyrir að hægt væri að kaupa þau bréf 3. október, og hefði hann sagt Karli frá því. Tók Birgir fram að ekkert hefði þó staðið því í vegi að Peningabréfin yrðu innleyst samdægurs og andvirði þeirra lagt á bankareikning, hefði Karl óskað eftir því. Sjálfur kvaðst Birgir hins vegar hafa verið að hugsa um ávöxtun fjárins yfir helgina, og því hefði hann talið það betri kost að bíða með innlausn til mánudagsins, og ganga þá frá sölu Peningabréfanna samhliða kaupum á Sparibréfum. Hafi Karl verið þessu sammála. Kvaðst Birgir ekki hafa leitt hugann að því að í því gæti falist nein áhætta, enda hafi hann hvorki átt von á því að bankinn félli, né hafi hann haft grun um að „neyðarlögin“ myndu gera innstæður að forgangskröfum. Tók hann fram að eftir á að hyggja hefði verið skynsamlegra að innleysa Peningabréfin strax og geyma andvirði þeirra á bankabók fram yfir helgina. Hann hefði hins vegar ekki grunað það sem fór í hönd.
Spurður um samtöl sín og starfsmanns sóknaraðila 6. október 2008, sagði Birgir að hann hefði sjálfur talið að viðskiptin hefðu gengið í gegn strax að morgni þess dags. Ekki kvaðst hann hins vegar hafa skýringu á því að tekist hefði að innleysa Markaðsbréfin, þrátt fyrir að uppgjörsregla þeirra væri T+1.
III
Krafa sóknaraðila byggist á því að starfsmenn varnaraðila hafi með saknæmum og ólögmætum hætti valdið honum tjóni með því að fara ekki að skýrum og ótvíræðum fyrirmælum starfsmanns sóknaraðila um innlausn hlutdeildarskírteina í Peningabréfum Landsbankans ISK 3. október 2008, og nemi tjónið kröfufjárhæðinni. Hafi fyrirmælunum sannanlega verið komið á framfæri áður en lokað hafi verið fyrir innlausn úr sjóðnum. Um leið mótmælir sóknaraðili fullyrðingu varnaraðila um að starfsmaður sóknaraðila hafi samþykkt að fresta innlausn til 6. október sama ár. Telur hann að símtöl starfsmanna aðila 3. október taki af öll tvímæli um að vilji sóknaraðila hafi staðið til þess að innleysa hlutdeildarskírteinin samdægurs. Í því sambandi bendir hann sérstaklega á að varnaraðili hafi þann dag innleyst eign sóknaraðila í Markaðsbréfum Landsbankans, og lagt andvirðið á bankareikning sóknaraðila, þrátt fyrir að uppgjörsregla þeirra bréfa hafi verið T+1. Hið sama hafi að sjálfsögðu einnig átt að gilda um Peningabréfin, en uppgjörsregla þeirra bréfa hafi þó verið T+0, sem þýtt hafi að innlausn átti að fara fram samdægurs.
Ofangreindu til frekari stuðnings vísar sóknaraðili til þess að varnaraðili beri á grundvelli 22. gr. laga nr. 30/2003, um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði, óskipta ábyrgð ásamt rekstrarfélagi sjóðsins, Landsvaka hf., á tjóni hlutdeildarskírteinishafa í sjóðnum. Varnaraðili beri einnig húsbóndaábyrgð á gjörðum sinna starfsmanna, sem og fébótaábyrgð á ákvörðunum þeirra um að fara ekki eftir beinum fyrirmælum sóknaraðila um ráðstöfun fjárins. Þá telur sóknaraðili að starfsmenn varnaraðila hafi brotið gegn viðurkenndri og lögbundinni reglu um góða viðskiptahætti og venjur, með hagsmuni viðskiptavinarins að leiðarljósi, en regla þessi endurspeglist í ýmsum ákvæðum laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti, sbr. m.a. 5. gr., 1. mgr. 8. gr., 2. málslið 1. mgr. 14. gr., 1. mgr. 18. gr. og 1. mgr. 19. gr. þeirra laga. Sama viðhorf komi fram í 19. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, en þar segi að fjármálafyrirtæki skuli starfa í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur á fjármálamarkaði. Megi einnig í þessu samhengi vísa til 45. gr. reglugerðar nr. 995/2007, um fjárfestavernd og viðskiptahætti fjármálafyrirtækja.
Samkvæmt ofanrituðu byggir sóknaraðili á því að starfsmenn varnaraðila hafi, aðallega af ásetningi en til vara af almennu gáleysi, valdið sóknaraðila tjóni sem varnaraðili beri ótvíræða bótaábyrgð á. Grundvallist sú ábyrgð á reglunni um húsbóndaábyrgð.
Verði talið að varnaraðila hafi ekki borið að afgreiða innlausnarbeiðni sóknaraðila föstudaginn 3. október 2008, byggir sóknaraðili á því að varnaraðila hafi þá borið að afgreiða viðskiptafyrirmælin í síðasta lagi strax við opnun sjóðsins kl. 10:00 mánudaginn 6. október 2008. Fullyrðir hann að sjóðurinn hafi verið opinn þann dag, ef ekki allan daginn, þá a.m.k. í rétt rúmar tvær klukkustundir, eða þar til tilkynnt var um lokun hans. Varnaraðila hafi því bæði verið rétt og skylt að verða við innlausnarbeiðni sóknaraðila frá 3. október. Í því sambandi vísar sóknaraðili til þess að í lögum um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði nr. 30/2003, nánar tiltekið 1. mgr. 53. gr. laganna, komi fram sú meginregla að hlutdeildarskírteini fjárfestingarsjóða séu innlausnarskyld og að um innlausn fari samkvæmt reglum sjóðsins. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar skuli frestun innlausnar vera almenn og taka til allra hlutdeildarskírteina, og verði henni einungis beitt mæli sérstakar ástæður með því og hagsmunir hlutdeildarskírteinishafa krefjist þess. Þá skuli frestun þegar tilkynnt Fjármálaeftirlitinu og auglýst opinberlega. Þar sem um undantekningarreglu sé að ræða frá fyrrgreindri meginreglu laganna, byggir sóknaraðili á því að skýra beri þröngt heimildir til að fresta innlausn. Í því tilviki sem hér um ræði hafi tilkynning um frestun innlausna borist Fjármálaeftirlitinu 6. október 2008 kl. 11:04:07. Hvorki í tilvitnuðum lögum, né í lögskýringargögnum með þeim, sé að finna skýringu á því hvað teljist vera opinber auglýsing í þessum efnum. Aftur á móti hafi Úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki talið að birting tilkynningar á ytri vef útgefanda hlutdeildarskírteinanna, þ.e. rekstrarfélags sjóðanna, og á vefsíðu bankans sem annast hafi milligöngu um útgáfu og innlausn skírteinanna, væri nægileg auglýsing í þessum efnum. Í þessu tilviki hafi tilkynning um frestun á innlausn birst á heimasíðu varnaraðila þriðjudaginn 7. október 2008, kl. 10:30, eins og sjá megi af gögnum málsins. Dótturfélag varnaraðila, Landsvaki hf., hafi hins vegar sent tilkynningu um frestun til Kauphallar Íslands 6. október kl. 14:18, og hafi opinber birting tilkynningarinnar farið fram í beinu framhaldi, nánar tiltekið kl. 14:27. Í rafbréfi Kauphallar Íslands frá 18. maí 2010, sem einnig liggi frammi í málinu, sé það staðfest að umræddur sjóður varnaraðila hafi opnað kl. 10:00 mánudaginn 6. október 2008, enda um sjálfkrafa opnunartíma að ræða. Samkvæmt þessu telur sóknaraðili að ekki skipti máli við hvaða tímamark sé miðað mánudaginn 6. október 2008, þ.e. kl. 11:04:07, kl. 12:10:21 eða kl. 14:27, eða kl. 10:30 þriðjudaginn 7. október 2008. Hafi varnaraðila borið að afgreiða innkomna innlausnarbeiðni sóknaraðila, enda hafi sjóðurinn opnað að morgni 6. október 2008 kl. 10:00.
Sóknaraðili áréttar að starfsmaður varnaraðila hafi tekið við viðskiptafyrirmælum að morgni föstudagsins 3. október 2008. Í 1. mgr. 10. gr. reglna fyrir Peningabréf Landsbankans ISK segi að hlutdeildarskírteini sjóðsins skuli innleyst samdægurs að kröfu eigenda á því kaupgengi sem gildi á innlausnardegi, berist umsóknir fyrir kl. 16:00. Umsóknir sem berist síðar séu hins vegar afgreiddar á næsta opnunardegi bankans. Í 2. mgr. sömu greinar sé undantekningarreglan um frestun innlausnar hlutdeildarskírteina, en í 3. mgr. sé tilkynningarskylda bankans áréttuð. Þrátt fyrir þessar skýru starfsreglur, sem séu efnislega samhljóða ákvæði 2. mgr. 53. gr. laga nr. 30/2003, hafi starfsmaður varnaraðila engu að síður ákveðið að bjóða sóknaraðila upp á mun lakari valkost, sem jafnframt hafi verið kynntur sem sá eini. Hafi sá valkostur falist í því að innlausn og útgreiðsla ætti sér stað einum virkum degi síðar. Af hálfu varnaraðila hafi þessi afgreiðsla ekki verið útskýrð, enda hafi legið fyrir frá upphafi að megintilgangur símtals starfsmanns sóknaraðila að morgni 3. október 2008 hafi verið sá að koma fjármunum sóknaraðila með skjótum hætti í öruggt skjól.
Sóknaraðili telur að viðskiptafyrirmæli hans hafi einungis að hluta til verið afgreidd 6. október 2008, og vísar hann þá til kvittunar vegna innlausnar varnaraðila á eign sóknaraðila í Markaðsbréfum Landsbankans 6. október 2008, svo og staðfestingar á kaupum hans á Sparibréfum Landsbankans. Engu að síður hafi sóknaraðila síðla dags 7. október 2008 borist tilkynning frá varnaraðila um að kaupin á Sparibréfum hefðu verið afturkölluð og viðskiptin dregin til baka. Sóknaraðili hafi þó hvorki fengið skýringar á umræddri bakfærslu, né hafi sú breytta framkvæmd á viðskiptafyrirmælunum verið borin undir hann. Samkvæmt góðum starfsháttum og vönduðum vinnubrögðum beri fjármálafyrirtækjum þó ávallt að hafa samband við viðskiptavin sinn og upplýsa hann um breyttar aðstæður, t.d. ef ekki reynist unnt að framkvæma áður fram komin viðskiptafyrirmæli, en jafnframt til þess að fá ný fyrirmæli frá viðskiptavininum. Hefðu slík vinnubrögð verið í samræmi við ákvæði 1. mgr. 14. gr. laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti. Telur sóknaraðili þetta sýna að varnaraðili hafi í umrætt sinn ekki haft hagsmuni sóknaraðila að leiðarljósi. Þvert á móti heldur hann því fram að einhverjir aðrir hagsmunir, óviðkomandi sóknaraðila, hafi ráðið för.
Að endingu byggir sóknaraðili á því að lögskylt óhæði hafi í reynd ekki verið á milli varnaraðila, Landsbanka Íslands hf., og dótturfélagsins, Landsvaka hf., sem rekið hafi fjárfestingarsjóði á vegum varnaraðila, þ. á m. Peningabréf Landsbankans ISK. Því til stuðnings bendir sóknaraðili á að stjórn og varastjórn Landsvaka hf. á árunum 2005 til 2008 hafi eingöngu verið skipuð fyrirsvarsmönnum tiltekinna deilda innan varnaraðila. Frá 28. ágúst 2008 og fram að falli bankans hafi bankastjórar varnaraðila að auki setið í aðalstjórn félagsins. Á sama tíma hafi formaður stjórnar Landsvaka hf. jafnframt gegnt stöðu framkvæmdastjóra Eignastýringarsviðs varnaraðila. Þá hafi starfsmenn varnaraðila átt mikil samskipti við starfsmenn Landsvaka hf. og hafi starfsemin farið fram í sama húsnæði. Fyrri viðskipti aðila staðfesti einnig óljós skil milli varnaraðila og Landsvaka hf. Í ljósi þessa telur sóknaraðili að varnaraðili geti ekki skýlt sér á bak við það að öll ákvarðanataka vegna sjóða Landsvaka hf. hafi legið hjá stjórn þess félags. Gögn málsins sýni hið gagnstæða.
Kröfu sinni lýsir sóknaraðili sem skaðabótakröfu að fjárhæð 1.228.516.097 krónur. Er fjárhæðin mismunur á skráðu innlausnarvirði eignarhlutar sóknaraðila við dagslok 6. október 2008, að markaðsvirði 3.931.476.331 króna, og þeirri fjárhæð sem var goldin fyrir hann eftir slit sjóðsins 28. október 2008, 2.702.960.234 krónum. Að auki krefst sóknaraðili dráttarvaxta af fjárhæðinni samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 3. október 2008 til 22. apríl 2009, og nemur sú fjárhæð 174.056.843 krónum. Samtals er því krafa sóknaraðila að fjárhæð 1.402.572.940 krónur. Áföllnum vöxtum eftir 22. apríl 2009, er lýst sem eftirstæðri kröfu skv. 1. tl. 114. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl.
Um lagarök, kröfunni til stuðnings, er að öðru leyti en að framan greinir vísað til laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., meginreglna kröfuréttarins, almennu skaðabótareglunnar og reglunnar um vinnuveitendaábyrgð. Málskostnaðarkrafan styðst við 1. mgr. 130. gr., sbr. 129. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
IV
Í upphafi leggur varnaraðili áherslu á að sóknaraðili hafi aldrei átt kröfu á hendur varnaraðila á grundvelli hlutdeildar sinnar í Peningabréfum Landsbankans ISK. Hins vegar hafi sóknaraðili, sem hlutdeildarskírteinishafi í þeim sjóði, átt kröfu á hendur sjóðnum samkvæmt hlutdeild sinni, og hafi sú hlutdeild verið vistuð á vörslureikningi sóknaraðila hjá varnaraðila. Við slit sjóðsins 28. október 2008 hafi sóknaraðili fengið greidd 68,8% af hlutdeild sinni í sjóðnum, líkt og allir aðrir sjóðfélagar, og hafi sú greiðsla verið fullnaðargreiðsla. Mótmælir varnaraðili þeirri málsástæðu sóknaraðila að hann beri, ásamt Landsvaka hf., rekstrarfélagi umrædds sjóðs, óskipta ábyrgð á meintu tjóni hlutdeildarskírteinishafa vegna rýrnunar á eignum sjóðsins. Þá telur varnaraðili óumdeilt að innlausn á þeim hlutdeildarskírteinum sóknaraðila sem hér um ræði hafi ekki átt sér stað 3. október 2008, enda hafi sóknaraðili sjálfur samþykkt að innleysa ekki eign sína í umræddum sjóði fyrr en 6. október, samhliða uppgjöri vegna kaupa hans á Sparibréfum Landsbankans. Sú ákvörðun starfsmanns sóknaraðila hafi verið fullkomlega eðlileg á þeim tíma, þar sem engan hafi órað fyrir því sem fór í hönd. Vísar varnaraðili þá til setningar laga nr. 125/2008 („neyðarlaga“), sem tóku gildi 7. október 2008, og fólu í sér að innstæður urðu forgangskröfur við slit fjármálafyrirtækja.
Af hálfu varnaraðila er því hafnað að hann hafi ekki framkvæmt þau fyrirmæli sem fram komu í samtölum starfsmanns sóknaraðila og starfsmanns varnaraðila 3. október 2008 um innlausn á eign sóknaraðila í Peningabréfum Landsbankans ISK, og með því virt að vettugi ýmsar lögbundnar meginreglur um framkvæmd viðskipta á grundvelli laga nr. 108/2007 og laga nr. 30/2003. Þvert á móti byggir varnaraðili á því að samþykkt ákvörðun starfsmanns sóknaraðila hafi legið því til grundvallar að hlutdeildarskírteinin yrðu ekki innleyst fyrr en samhliða uppgjöri á Sparibréfum, sem skyldi fara fram mánudaginn 6. október 2008. Umræddur starfsmaður hafi heldur ekki gert neinar athugasemdir við þá framkvæmd, hvorki föstudaginn 3. október 2008, né þegar honum var ljóst að innlausn Peningabréfanna gat ekki átt sér stað vegna lokunar sjóðsins. Fullyrðingum sóknaraðila um að starfsmenn varnaraðila hafi beitt röngu og afvegaleiðandi verklagi sé því mótmælt.
Varnaraðili hafnar einnig þeirri málsástæðu sóknaraðila að varnaraðila hafi í síðasta lagi borið að innleysa Peningabréfin strax við opnun sjóðsins, kl. 10:00 mánudaginn 6. október 2008, þar sem innlausn hafi ekki náð fram að ganga föstudaginn 3. október 2008. Heldur varnaraðili því fram að sóknaraðili fari með rangfærslur til stuðnings þessari málsástæðu og færi fram staðreyndir sem engu skipti um kröfugerð hans. Hins vegar telur varnaraðili það óumdeilda staðreynd að sjóðurinn Peningabréf Landsbankans ISK hafi aldrei opnað fyrir viðskipti 6. október 2008 og því hafi engin viðskipti átt sér stað með hlutdeildarskírteini í þeim sjóði frá lokun viðskipta 3. október 2008 kl. 16:00. Þessu til stuðnings bendir hann á að stjórn Landsvaka hf. hafi tekið ákvörðun um að loka fyrir viðskipti með hlutdeildarskírteini í sjóðnum fyrir kl. 10:00 að morgni 6. október 2008. Sú ákvörðun hafi verið tekin á grundvelli 53. gr. laga nr. 30/2003 og reglna um Peningabréf Landsbankans ISK, en fyrrnefnt lagaákvæði byggi á því sjónarmiði að tryggja beri jafnræði hlutdeildarskírteinishafa. Frestun innlausna hafi því verið ætlað að tryggja rétt allra hlutdeildarskírteinishafa. Ákvæðið verði ekki skilið öðruvísi en svo að ákvörðun um frestun innlausna taki gildi um leið og ákvörðun stjórnar rekstrarfélags liggi fyrir. Þó gerð sé þar krafa um tilkynningu til Fjármálaeftirlitsins og opinbera auglýsingu, telur varnaraðili að hvorugt þeirra atriða fresti réttaráhrifum ákvörðunarinnar, enda væri slíkt beinlínis í andstöðu við tilgang ákvæðisins. Hins vegar tekur varnaraðili fram að ákvörðun stjórnar Landsvaka hf. um frestun innlausna hafi verið tilkynnt til Fjármálaeftirlitsins 6. október 2008 kl. 11:04, og tilkynning sama efnis birst á heimasíðu varnaraðila kl. 12:10 sama dag.
Varnaraðili mótmælir sem ósönnuðum fullyrðingum sóknaraðila þess efnis að lögskylt óhæði hafi í reynd ekki verið á milli varnaraðila og Landsvaka hf., og að varnaraðili hafi sett eigin hagsmuni framar hagsmunum sóknaraðila. Raunar telur varnaraðili að þessi atriði skipti engu um efnisleg atriði kröfugerðar sóknaraðila, um leið og hann bendir á að sóknaraðili hafi ekki fært nein lagarök fyrir því að varnaraðili beri ábyrgð á ákvörðunum stjórnar Landsvaka hf. Virðist varnaraðila sem sóknaraðili geri hér engan greinarmun á varnaraðila og Landsvaka hf. Hins vegar bendir hann á að varnaraðili hafi sinnt afmörkuðum verkefnum í tenglum við rekstur Landsvaka hf. á verðbréfasjóðum og fjárfestingarsjóðum, þ. á m. Peningabréfum Landsbankans ISK, og vísar í því efni til fyrirliggjandi samnings varnaraðila og Landsvaka hf. um útvistun verkefna frá 23. október 2003.
Af hálfu varnaraðila er því loks alfarið mótmælt að starfsmenn hans hafi, aðallega af ásetningi en til vara af almennu gáleysi, valdið sóknaraðila tjóni. Því til stuðnings bendir hann á að í samningi aðila um eignastýringu sé sérstaklega tekið fram í 11. gr. að varnaraðili beri ekki ábyrgð á tjóni sem sóknaraðili kunni að verða fyrir, nema slíkt leiði af vanefndum sem rekja megi til stórfellds gáleysis eða ásetnings af hálfu starfsmanna varnaraðila. Sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á vanefnd af hálfu varnaraðila, sem rekja megi til stórfellds gáleysis eða ásetnings. Í sama ákvæði komi einnig fram að varnaraðili beri ekki ábyrgð á tjóni sem stafi af óviðráðanlegum orsökum, til að mynda viðskiptabanni eða öðrum álíka tilvikum. Með vísan til þessa telur varnaraðili að heimfæra megi ákvörðun stjórnar Landsvaka hf. um frestun innlausna að morgni 6. október 2008 sem óviðráðanlega orsök þess að ekki reyndist unnt að innleysa Peningabréf sóknaraðila, eins og fyrirhugað hafði verið. Einnig bendir varnaraðili á að sóknaraðili hafi með undirritun sinni á umræddan eignastýringarsamning staðfest að honum væri ljós sú áhætta sem í því gæti falist að fjárfesta í fjármálagerningum, og að eignasafn hans gæti rýrnað á samningstímanum, sbr. 17. gr. samningsins.
Í ljósi framanritaðs telur varnaraðili að hafna beri kröfu sóknaraðila, enda hafi ekki verið sýnt fram á réttmæti hennar. Krafan sé að auki byggð á ósönnuðum fullyrðingum, sem í sumum tilfellum varði aðra en varnaraðila. Ábyrgð geti á þeim grunni ekki verið felld á varnaraðila. Þá byggir varnaraðili á því að meint fjártjón sóknaraðila sé ósannað.
Um lagarök er vísað til laga nr. 30/2003, um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði, laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti, og laga nr. 98/1999, um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta. Málskostnaðarkrafan byggist á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991.
V
Hér að framan eru rakin nokkur efnisatriði úr símtölum starfsmanns sóknaraðila og starfsmanns varnaraðila að morgni 3. október 2008, er þeir ræddu um verðbréfaeign sóknaraðila í eignastýringu hjá varnaraðila, en sú eign var þá í formi hlutdeildarskírteina í Markaðsbréfum Landsbankans og Peningabréfum Landsbankans ISK, samtals að markaðsvirði 4.245.301.929 krónur. Af þeim má ráða að starfsmaður sóknaraðila hafði nokkrar áhyggjur af þróun fjármálamarkaðarins og lýsti því ítrekað að hann vildi koma eign sóknaraðila í öruggt skjól. Fyrir dómi staðfesti starfsmaður varnaraðila og að ætlun þeirra beggja hefði verið að koma fjármununum í öruggt skjól.
Í fyrstu óskaði starfsmaður sóknaraðila eftir því að „flytja eignastýringuna, fjóra milljarðana, yfir í innistæðubréf í Seðlabanka“, en vildi þó áfram vera í eignastýringu hjá varnaraðila. Þegar í ljós kom að innstæðubréf Seðlabankans voru uppseld var um það rætt hvort bíða ætti eftir næstu útgáfu þeirra eða reyna að kaupa þau á eftirmarkaði. Þegar starfsmaður sóknaraðila spurði um aðra kosti í stöðunni nefndi starfsmaður varnaraðila tvo skuldabréfasjóði, annars vegar Sparibréfin, en hins vegar skuldabréfasjóð Landsbankans. Tók hann fram að Sparibréfin væru „svona varfærnislegri“, enda væru aðeins ríkisbréf í þeim sjóði. Þegar starfsmaður varnaraðila spurði starfsmann sóknaraðila hvort þeir ættu að „setja þetta í Sparibréfin“ svaraði sá síðarnefndi „gerum það“. Undir lok samtalsins, og þegar starfsmaður sóknaraðila spyr hvort nokkurt „hökt komi í það eða neitt slíkt“, segir starfsmaður varnaraðila „[...] þetta er reyndar T plús einn á þessu, þannig að við munum græja kauppöntunina núna og innleysa peningabréfin eftir helgi sko.“ Starfsmaður sóknaraðila svaraði þá um hæl „Já. Einmitt“, og síðar „Já nákvæmlega. Heyrðu græjum þetta.“ Í kjölfarið sendi starfsmaður sóknaraðila starfsmanni varnaraðila rafbréf, þar sem hann lýsti ánægju sinni með að eignastýringin yrði færð yfir í Sparibréf.
Meðal gagna málsins er yfirlit yfir verðbréfaeign sóknaraðila í eignastýringu 3. október 2008. Þar er eign sóknaraðila í Peningabréfum Landsbankans ISK skráð sem 3.931.476.331 króna, en engin eign er þar skráð í Markaðsbréfum Landsbankans. Hins vegar er þar tilgreind eign sóknaraðila á innlánsreikningi, 311.431.955 krónur, og er sú fjárhæð andvirði seldra hlutdeildarskírteina sóknaraðila í Markaðsbréfunum. Má af því ætla að eign sóknaraðila í þeim sjóði hafi verið innleyst samdægurs, þrátt fyrir að uppgjörsregla á Markaðsbréfum væri T+1. Neðst á yfirlitið er að vísu skráð „Óafgreitt“, án frekari skýringa. Á uppgjöri vegna sölu á umræddum Markaðsbréfum, sem sóknaraðila barst 6. október 2008, er viðskiptadagur og tími viðskipta skráður 3. október 2008 kl. 11:10. Fram kemur þar einnig að söluandvirði bréfanna, 311.431.955 krónur, hafi verið lagt inn á tiltekinn bankareikning sóknaraðila. Sama dag barst sóknaraðila einnig uppgjör vegna kaupa hans á Sparibréfum Landsbankans, að fjárhæð 4.150.000.000 krónur, og er tími viðskipta þar einnig skráður 3. október kl. 11:10. Er kaupverðið tekið út af sama bankareikningi sóknaraðila. Eins og fram er komið voru síðarnefndu viðskiptin bakfærð 7. október 2008, þar sem ekki tókst að innleysa Peningabréf sóknaraðila.
Bæði áðurnefnd samtöl starfsmanna og framlögð gögn staðfesta að vilji sóknaraðila stóð til þess að fjármunir sóknaraðila yrðu áfram í eignastýringu hjá varnaraðila. Þau staðfesta einnig að starfsmaður sóknaraðila samþykkti að fjármunirnir yrðu færðir yfir í Sparibréfin, þótt honum hafi þá verið kynnt að uppgjör gæti ekki farið fram fyrr en eftir helgi, þar sem uppgjörsregla á þeim viðskiptum væri T+1, þ.e. næsta virka dag eftir móttöku viðskiptabeiðni. Því til samræmis annaðist varnaraðili um sölu á Markaðsbréfunum og útbjó á sama tíma markaðspöntun vegna kaupa á Sparibréfum. Þá kom skýrlega fram í samtölum starfsmanna að Peningabréfin yrðu innleyst eftir helgi, og samþykkti starfsmaður sóknaraðila það. Jafn ljóst er hins vegar að sami starfsmaður óskaði ekki eftir því að Peningabréfin yrðu innleyst 3. október og andvirði þeirra lagt á bankareikning sóknaraðila, eins og sóknaraðili virðist nú telja. Í þessu ljósi verður að hafna þeirri málsástæðu sóknaraðila að varnaraðili hafi ekki farið að skýrum og ótvíræðum fyrirmælum starfsmanns sóknaraðila um ráðstöfun fjármuna sóknaraðila. Um leið er því hafnað að varnaraðili hafi við afgreiðslu viðskiptafyrirmæla sóknaraðila virt að vettugi ýmis ákvæði laga sem mæla fyrir um góða og heilbrigða viðskiptahætti fjármálafyrirtækja, með hagsmuni viðskiptavinar að leiðarljósi, sbr. m.a. 5. gr., 1. mgr. 14. gr., 1. mgr. 18. gr. og 1. mgr. 19. gr. laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti, og 1. mgr. 19. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Þvert á móti er það álit dómsins að varnaraðili hafi í einu og öllu farið að fyrirmælum starfsmanns sóknaraðila, og upplýst hann áður um að uppgjör viðskiptanna færi fram eftir helgi, samhliða innlausn Peningabréfanna. Að því leyti var afgreiðsla varnaraðila á fyrirmælum sóknaraðila í fullu samræmi við síðari málslið 1. mgr. 18. gr. laga nr. 108/2007.
Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. og 1. mgr. 53. gr. laga nr. 30/2003, um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði, eru hlutdeildaskírteini fjárfestingarsjóða innlausnarskyld, og fer um innlausn þeirra samkvæmt reglum fjárfestingarsjóðsins. Í 2. mgr. beggja tilvitnaðra greina segir þó að þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. sé heimilt samkvæmt ákvæðum reglna fjárfestingarsjóðsins að fresta innlausn hlutdeildarskírteina. Skuli frestunin þá vera almenn og taka til allra hlutdeildarskírteina, og verði henni einungis beitt mæli sérstakar ástæður með því og hagsmunir eigenda hlutdeildarskírteina krefjist. Þá segir þar að frestun á innlausn skuli þegar tilkynnt Fjármálaeftirlitinu og jafnframt auglýst opinberlega.
Í 1. mgr. 10. gr. reglna fyrir Peningabréf Landsbankans ISK, sem eru meðal gagna málsins, kemur fram að Landsvaki hf., rekstrarfélag umrædds fjárfestingarsjóðs, sé skuldbundinn til að innleysa hlutdeildarskírteini að kröfu eigenda á því kaupgengi sem gildi á innlausnardegi, í samræmi við ákvæði laga og reglna þar um. Þá segir þar að viðskipti skuli fara fram samdægurs berist ósk um viðskipti fyrir kl. 16:00. Í 2. mgr. sömu greinar er tekið fram að Landsvaka hf. sé þó heimilt undir sérstökum kringumstæðum að fresta innlausn hlutdeildarskírteina. Skuli slík frestun vera almenn og taka til allra hlutdeildarskírteina, og henni einungis beitt mæli sérstakar ástæður og hagsmunir eigenda hlutdeildarskírteina með því. Í dæmaskyni er þar nefnd lokun kauphallar og ef sjóðurinn stendur frammi fyrir svo miklum kröfum um innlausn að ekki sé unnt að mæta þeim nema með sölu eigna, sem geti tekið einhvern tíma. Þá segir þar að komi til frestunar beri þegar að tilkynna slíkt til Fjármálaeftirlitsins og auglýsa hana opinberlega.
Fram er komið að stjórn Landsvaka hf. tók ákvörðun um að loka fyrir viðskipti með hlutdeildarskírteini í peningamarkaðssjóðum félagsins á fundi sínum 6. október 2008. Var ákvörðunin tekin í samræmi við fyrirmæli áðurnefndra reglna, sbr. og 2. mgr. 53. gr. laga nr. 30/2003, um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði, og tók hún þegar gildi. Af fundargerð stjórnar má sjá að fundi lauk kl. 10:00. Óumdeilt er að Fjármálaeftirlitinu var tilkynnt ákvörðunin með rafbréfi kl. 11:04 sama dag. Hins vegar greinir aðila á um hvenær ákvörðunin var birt á heimasíðu varnaraðila, og hvort það hafi áhrif á gildistöku hennar.
Ekkert í gögnum málsins styður þá fullyrðingu sóknaraðila að opið hafi verið fyrir viðskipti með fjármálagerninga í Peningabréfum Landsbankans ISK 6. október 2008, hvorki í upphafi þess dags, né allan þann dag. Þar sem ákvörðun um lokun sjóðsins tók þegar gildi, var gildistaka hennar hvorki bundin því skilyrði að Fjármálaeftirlitinu hefði áður verið tilkynnt hún, né að hún hefði áður verið birt opinberlega, sbr. dóm Hæstaréttar 8. desember 2011 í málinu nr. 152/2011. Eftir það gat sóknaraðili því ekki vænst þess, fremur en aðrir sjóðfélagar, að brugðist yrði við beiðni hans um innlausn. Að sama skapi var varnaraðila hvorki skylt né heimilt að verða við fyrirmælum sóknaraðila um innlausn Peningabréfanna, samhliða fyrirhuguðum kaupum hans á Sparibréfum.
Óljóst er hvernig sú málsástæða sóknaraðila, að lögskylt óhæði hafi í reynd ekki verið á milli varnaraðila og Landsvaka hf., tengist því álitaefni sem hér er til úrlausnar, og hefur sóknaraðili ekki fært fyrir því viðhlítandi rök. Er í því sambandi minnt á að ágreiningur þessa máls lýtur fyrst og síðast að því hvort starfsmaður varnaraðila hafi farið eftir viðskiptafyrirmælum sóknaraðila eða virt þau að vettugi. Hefur dómurinn þegar komist að þeirri niðurstöðu að umræddur starfsmaður hafi í einu og öllu farið að fyrirmælum sóknaraðila. Verður því ekki séð að neinum tilgangi þjóni þótt varnaraðili legði fram upplýsingar um allar innlausnarbeiðnir úr Peningabréfum Landsbankans ISK á tímabilinu frá 3. október 2008 til og með 6. október sama ár, svo og um afdrif þeirra, en áskorun þessa efnis kom fram í greinargerð sóknaraðila og var síðar áréttuð undir rekstri málsins.
Samkvæmt framanrituðu er það álit dómsins að sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á að varnaraðili, eða starfsmaður á hans vegum, hafi með saknæmum og ólögmætum hætti valdið honum tjóni þegar ekki tókst að innleysa margnefnd Peningabréf sóknaraðila fyrir lokun fjárfestingarsjóðsins 6. október 2008. Krafa sóknaraðila verður því hvorki reist á almennu skaðabótareglunni né 22. gr. laga nr. 30/2003, um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði, en samkvæmt því ákvæði verður ábyrgð aðeins felld á vörslufyrirtæki hafi tjóni verið valdið af ásetningi eða gáleysi starfsmanns. Ber því að hafna kröfu sóknaraðila í máli þessu.
Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila málskostnað, sem ákveðst hæfilegur 700.000 krónur.
Ingimundur Einarsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Kröfu sóknaraðila, Reykjavíkurborgar, alls að fjárhæð 1.402.572.940 krónur, sem lýst var við slit varnaraðila, Landsbanka Íslands hf., er hafnað.
Sóknaraðili greiði varnaraðila 700.000 krónur í málskostnað.