Hæstiréttur íslands

Mál nr. 77/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjármálafyrirtæki
  • Slit
  • Gjalddagi
  • Afleiður
  • Skuldajöfnuður


Mánudaginn 23. maí 2011.

Nr. 77/2011.

ALMC hf.

(Hörður F. Harðarson hrl.)

gegn

Landsbanka Íslands hf.

(Jóhannes Sigurðsson hrl.)

Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slit. Gjalddagi. Afleiður. Skuldajöfnuður.

A kærði úrskurð héraðsdóms, þar sem leyst var úr ágreiningi um viðurkenningu lýstra krafna L við slit A. Aðila greindi á um gjalddaga sjö peningamarkaðslána sem L veitti A og var niðurstaða héraðsdóms um hverja þessara krafna fyrir sig staðfest með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar. Þá deildu aðilar um hvort A hefði verið heimilt að rifta 25 samningum um afleiðuviðskipti 16. október 2008. Fallist var á með A að þar sem engin ákvæði væru í „Almennum skilmálum B fyrir markaðsviðskipti hjá Landsbanka Íslands hf.“ um heimildir viðskiptamanns til gjaldfellingar eða riftunar afleiðusamninga vegna aðstæðna er vörðuðu L hefðu ákvæði 3. gr. og 9. gr. svonefndra SFF-skilmála gilt um heimild A til riftunar afleiðusamninga milli aðila. Lögð voru fyrir Hæstarétt gögn er sýndu að allmargir viðskiptamenn L hefðu rift samningum sínum við hann eða gjaldfellt þá á tímabilinu 7. til 16. október 2008. Þegar af þessari ástæðu var talið að L hefði verið heimilt á grundvelli ákvæða í SFF-skilmálunum að rifta öllum afleiðusamningum aðila. Var talið að uppgjör afleiðusamninga aðila miðaðist við stöðu samninganna 17. október 2008, degi eftir riftun þeirra af hálfu A, og í samræmi við 4. gr. almennra skilmála L skyldu þeir jafnast hver á móti öðrum. Þá deildu aðilar um rétt A til skuldajöfnuðar við kröfur L. Fallist var á með L að A hefði ekki haft ráðstöfunarrétt yfir skuldabréfum vegna þriggja þeirra krafna sem hann notaði til skuldajöfnuðar, þar sem bréfin hefðu verið veðsett Seðlabanka Íslands og skriflegt leyfi bankans til ráðstöfunar bréfanna hefði ekki legið fyrir. Þá mótmælti L kröfu A um skuldajöfnuð vegna stundarviðskipta aðila með gjaldeyri 3. október 2008. Í staðfestingu L fyrir viðskiptunum var vísað til þess að um viðskiptin giltu almennir skilmálar fyrir markaðsviðskipti hjá L. Samkvæmt skilmálunum skyldu samningar um afleiður jafnast hver á móti öðrum með skuldajöfnuði. Talið var að þar sem hvorki væri í lögum kveðið á um lágmarkstíma sem samningar um afleiður gætu tekið til né hefði L fært fram sönnur í málinu á að viðskiptavenja gilti um slíkan lámarkstíma teldist samningurinn til afleiða, enda hefðu aðilar tekið með honum áhættu á þróun gengis krónu og evru frá viðskiptadegi til uppgjörsdags. Var því fallist á með A að 100. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. ætti ekki við og því hefði honum verið heimilt að skuldajafna kröfu sinni við kröfu L.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson, Gunnlaugur Claessen, Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. janúar 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. febrúar sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. janúar 2011, þar sem leyst var úr ágreiningi um viðurkenningu lýstra krafna varnaraðila við slit sóknaraðila. Hann laut að dráttarvöxtum af svonefndum peningamarkaðslánum sem varnaraðili veitti sóknaraðila, uppgjöri krafna vegna afleiðuviðskipta aðila og kröfu sóknaraðila til skuldajafnaðar. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess í fyrsta lagi að hafnað verði kröfum varnaraðila um dráttarvexti til 22. apríl 2009 af peningamarkaðslánum samkvæmt 2. tölulið lýstrar kröfu hans 17. júlí 2009 við slit sóknaraðila. Í öðru lagi krefst sóknaraðili þess að hafnað verði kröfum varnaraðila vegna afleiðuviðskipta samkvæmt 1. tölulið lýstrar kröfu hans 17. júlí 2009. Í þriðja lagi krefst sóknaraðili þess að viðurkennd verði krafa hans á hendur varnaraðila að fjárhæð 1.527.706.761 króna vegna uppgjörs afleiðuviðskipta aðila. Í fjórða lagi krefst sóknaraðili þess að viðurkenndur verði réttur hans „til að skuldajafna eftirgreindum fjárhæðum á móti kröfum varnaraðila: 7.585.116.303 krónum miðað við 27. janúar 2009, 587.899.958 krónum miðað við 9. febrúar 2009 og 17.019.027.973 krónum miðað við 18. september 2009.“ Loks krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Samkvæmt ákvörðun Hæstaréttar var málið munnlega flutt fyrir réttinum 11. maí 2011.

I

Málavextir eru skipulega raktir í hinum kærða úrskurði sem og málsástæður aðila. Eins og þar greinir lýsti varnaraðili 17. júlí 2009 kröfu í sex liðum í bú sóknaraðila, sem þá hét Straumur-Burðarás Fjárfestingabanki hf. Slitastjórn hafnaði kröfunni sem forgangskröfu og gerði fyrirvara um fjárhæðir lýstra krafna og rétt sóknaraðila til skuldajöfnuðar. Slitastjórn beindi ágreiningi aðila til úrlausnar Héraðsdóms Reykjavíkur 2. september 2009. Ágreiningur aðila er margþættur. Sakarefni málsins var skipt samkvæmt heimild í 1. mgr. 31. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og var fyrst leyst úr ágreiningi aðila um þá kröfu varnaraðila að krafa hans vegna peningamarkaðslána samkvæmt 2. lið kröfulýsingar nyti forgangs samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991. Þeirri kröfu varnaraðila var hafnað með dómi Hæstaréttar 2. júní 2010 í máli nr. 184/2010. Þau ágreiningsefni sem eftir standa eru þríþætt. Í fyrsta lagi greinir aðila á um gjalddaga peningamarkaðslána sem varnaraðili veitti sóknaraðila og þar með upphafstíma dráttarvaxta. Í annan stað lýtur ágreiningurinn að uppgjöri krafna vegna afleiðuviðskipta og loks deila aðilar um rétt sóknaraðila til skuldajöfnuðar við kröfur varnaraðila.

II

Varnaraðili hefur uppi kröfur vegna sjö samninga um peningamarkaðslán sem hann veitti sóknaraðila. Ekki er ágreiningur um fjárhæð krafnanna en aðila greinir á um gjalddaga þeirra. Af gögnum sem lögð hafa verið fyrir Hæstarétt verður ráðið að lán að fjárhæð 1.000.000.000 krónur, sem varnaraðili veitti sóknaraðila 1. október 2008 með gjalddaga 9. sama mánaðar, hafi verið sjálfstætt lán og ekki veitt á grundvelli samnings aðila 30. september 2008, eins og talið var í hinum kærða úrskurði. Þetta breytir þó ekki niðurstöðu málsins að því er þetta lán varðar. Héraðsdómur leysti úr ágreiningi aðila um hverja þessara krafna fyrir sig og verður niðurstaða hans staðfest með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar með framangreindri athugasemd.

Í 2. lið kröfulýsingar varnaraðila 17. júlí 2009 var gerð krafa um ákveðna fjárhæð dráttarvaxta fram til 22. apríl 2009 af höfuðstól krafna vegna peningamarkaðslána í hverri mynt fyrir sig. Þannig var krafist dráttarvaxta að fjárhæð 3.742.680.213 krónur vegna lána í íslenskum krónum, dráttarvaxta að fjárhæð 1.797.551 bandaríkjadalur vegna lána í þeirri mynt og dráttarvaxta að fjárhæð 797.120 kanadadalir vegna lána í þeirri mynt. Fyrir Hæstarétti hafa báðir aðilar lýst yfir að ágreiningslaust sé að ekki skuli dæmdir hærri dráttarvextir af kröfum vegna peningamarkaðslána en nemur þessum fjárhæðum í kröfulýsingunni.

Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að krafa varnaraðila að fjárhæð 45.081.123,29 bresk pund hafi ekki verið fallin í gjalddaga við upphaf slitameðferðar sóknaraðila 22. apríl 2009, en að hún skyldi bera 9,4% ársvexti frá 8. október 2008 til 22. apríl 2009. Í greinargerð sóknaraðila til Hæstaréttar er því haldið fram að varnaraðili hafi ekki haft uppi slíka varakröfu í héraði, en ágreiningslaust sé með aðilum að krafan beri á þessu tímabili LIBOR-vexti til mánaðar í senn að viðbættu 3,95% álagi. Ekki verður séð að varnaraðili hafi haft uppi varakröfu í héraði um 9,4% ársvexti af þessari kröfu og fyrir Hæstarétt hefur verið lagður samningur aðila 5. mars 2011 þar sem meðal annars er kveðið á um að aðilar séu sammála um framangreind vaxtakjör af peningamarkaðslánum í breskum pundum. Verður lagður dómur á þennan þátt málsins því til samræmis, enda stendur 11. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu því ekki í vegi þar sem varnaraðili leitar í málinu viðurkenningardóms um kröfur við slit sóknaraðila.

III

Aðilar áttu í margs konar afleiðviðskiptum og voru 25 samningar af því tagi óuppgerðir við innköllun krafna vegna slita sóknaraðila. Ágreiningur varðandi afleiðusamningana er tvíþættur. Annars vegar greinir aðila á um hvort sóknaraðila hafi verið heimilt að rifta þessum samningum 16. október 2008 og hins vegar hvernig beita skuli þeim skilmálum og réttarreglum sem gilda um uppgjör samninganna. Enginn ágreiningur er um efni þessara samninga og ekki er tölulegur ágreiningur með aðilum.

Þann 23. febrúar 2005 undirrituðu aðilar skjal sem ber heitið: „Almennir skilmálar B fyrir markaðsviðskipti hjá Landsbanka Íslands hf.“ Skilmálarnir eru í tíu greinum. Í 1. gr. er fjallað um gildissvið þeirra og segir þar meðal annars að þeir gildi um afleiðuviðskipti milli Landsbanka Íslands hf. og viðskiptamanns. Fyrirsögn 4. gr. er „Skuldajöfnun (nettun) samninga.“ Þar segir í 1. mgr. að séu skuldbindingar viðskiptamanns gjaldfelldar samkvæmt 7. gr. sé varnaraðila heimilt en ekki skylt að beita skuldajöfnuði milli allra samninga sem undir skilmálana falla þannig að hagnaður og tap hvors aðila sé gert upp í einu lagi. Í 2. mgr. 4. gr. er svohljóðandi ákvæði: „Með undirritun sinni á skilmála þessa samþykkir viðskiptamaður einnig að kominn sé á skriflegur samningur við LÍ í samræmi við III. kafla laga um verðbréfaviðskipti nr. 33/2003 með síðari breytingum, um að skyldur viðskiptavinar og bankans, samkvæmt samningum um afleiður sbr. 17. gr. laga um verðbréfaviðskipti, skuli jafnast hver á móti annarri með skuldajöfnun, við endurnýjun, vanefnd, greiðslustöðvun, nauðasamninga eða gjaldþrotaskipti og að samningurinn skuli halda gildi sínu að fullu, þrátt fyrir ákvæði 91. og 100. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.“ Ákvæði hliðstætt 17. gr. þágildandi laga um verðbréfaviðskipti, sem til er vísað, er nú að finna í 40. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti. Í 7. gr. skilmálanna er fjallað um vanefndir og heimildir varnaraðila til að gjaldfella skuldbindingar viðskiptamanns. Skilmálarnir hafa hins vegar ekki að geyma hliðstæð ákvæði um úrræði viðskiptamanns vegna vanefnda varnaraðila. Loks er í 10. gr. skilmálanna kveðið á um að ákvæði almennra skilmála fyrir framvirk gjaldmiðlaviðskipti og skiptasamninga, sem útgefnir hafi verið í febrúar 1998 af Sambandi íslenskra viðskiptabanka og Sambandi íslenskra sparisjóða, gildi einnig um öll markaðsviðskipti varnaraðila eftir því sem við eigi, þar á meðal vanefndaákvæði. Sé misræmi milli skilmálanna „gilda ákvæði þeirra skilmála sem hér eru undirritaðir.“

Þeir skilmálar sem til er vitnað í 10. gr. almennra skilmála B fyrir markaðsviðskipti varnaraðila eru víða í gögnum málsins nefndir SFF-skilmálar. Efnisskipan SFF-skilmálanna er þannig háttað að annars vegar er kveðið á um almenna skilmála um framvirk gjaldmiðlaviðskipti í sex greinum og hins vegar um almenna skilmála fyrir skiptasamninga í 12 greinum. Ákvæði um vanefndir eru í 3. gr. fyrri þáttar þessara skilmála en í 9. gr. síðari þáttar þeirra og eru ákvæðin efnislega samhljóða. Þar eru í gr. 3.2 í fyrri hlutanum og gr. 9.2 í þeim síðari ákvæði um heimildir vegna vanefnda samningsaðila á öðrum samningum. Samkvæmt því er öðrum samningsaðila heimilt að rifta öllum afleiðusamningum við gagnaðila sem ekki innir af hendi greiðslu samkvæmt einhverjum samningi sem leggur á hann greiðsluskyldu hafi sá samningur verið gjaldfelldur vegna þess eða hafi slíkum samningi verið rift eða hann gjaldfelldur vegna annarra vanefnda. Þá eru í gr. 3.3 og gr. 9.3 ákvæði um heimild til riftunar allra afleiðusamninga milli aðila, meðal annars ef árangurslaust fjárnám er gert hjá öðrum samningsaðila, hann leitar nauðasamninga eða honum er skipt í tvö eða fleiri félög.     

Með bréfi 16. október 2008 lýsti sóknaraðili yfir riftun afleiðusamninga milli aðila. Þar var meðal annars vísað til þess að Fjármáleftirlitið hefði 7. þess mánaðar tekið yfir vald hluthafafundar varnaraðila og vikið félagsstjórn bankans frá störfum. Jafnframt hefði eftirlitið skipað félaginu skilanefnd sem tekið hefði við öllum heimildum stjórnar bankans. Þá hefði með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. sama mánaðar tilteknum eignum, réttindum, skuldum og skuldbindingum varnaraðila verið ráðstafað til Nýja Landsbanka Íslands hf., en með þessu hefði bankanum í raun verið skipt í tvö félög. Samkvæmt upplýsingum sóknaraðila hefðu ýmsir samningar sem legðu greiðsluskyldu á varnaraðila verið felldir í gjalddaga eða þeim rift í kjölfar þessara atvika. Með vísan til alls þessa og samkvæmt heimild í 3. gr. og 9. gr. fyrrnefndra SFF-skilmála og 10. gr. almennra skilmála fyrir markaðsviðskipti hjá varnaraðila væri öllum samningum milli sóknaraðila og varnaraðila um framvirk gjaldmiðlaviðskipti og öllum skiptasamningum milli þeirra rift þegar í stað.

Þar sem engin ákvæði eru í almennum skilmálum B fyrir markaðsviðskipti hjá varnaraðila um heimildir viðskiptamanns til gjaldfellingar eða rifturnar afleiðsamninga vegna aðstæðna er varða varnaraðila er fallist á með sóknaraðila, með vísan til 10. gr. þeirra skilmála, að ákvæði 3. gr. og  9. gr. svonefndra SFF-skilmála hafi gilt um heimild hans til riftunar afleiðusamninga milli aðila. Vegna áskorunar lögmanns sóknaraðila hefur varnaraðili lagt fyrir Hæstarétt gögn er sýna að allmargir viðskiptamenn varnaraðila riftu samningum sínum við hann eða gjaldfelldu þá á tímabilinu 7. til 16. október 2008. Þegar af þessari ástæðu var sóknaraðila heimilt á grundvelli ákvæða gr. 3.2 og gr. 9.2 í SFF-skilmálunum að rifta öllum afleiðusamningum aðila.

Að framan er rakið ákvæði 2. mgr. 4. gr. almennra skilmála B fyrir markaðsviðskipti varnaraðila. Það kveður á um að skyldur viðskiptavinar og varnaraðila vegna afleiðusamninga skuli jafnast hver á móti annarri meðal annars við vanefndir. Eru ekki efni til að túlka þetta ákvæði þrengra en af orðalagi þess leiðir með vísan til 1. mgr. 4. gr. Ákvæðið gengur framar SFF-skilmálunum um þetta efni, sbr. 10. gr. fyrrnefndu skilmálanna, og skiptir þar engu þótt að framan sé komist að þeirri niðurstöðu að sóknaraðila hafi verið heimil riftun á grundvelli ákvæða SFF-skilmálanna. Samkvæmt þessu miðast uppgjör afleiðusamninga aðila við stöðu samninganna 17. október 2008, degi eftir riftun þeirra af hálfu sóknaraðila. Verður varakrafa varnaraðila í þessum þætti málsins að fjárhæð 3.454.166.369 krónur því tekin til greina, en um hana er ekki tölulegur ágreiningur.

IV

 Eins og nánar er rakið í hinum kærða úrskurði lýsti sóknaraðili með þremur yfirlýsingum 27. janúar, 9. febrúar og 18. september 2009 yfir skuldajöfnuði á samtals 25.192.044.234 krónum á móti tilteknum kröfum varnaraðila, sem samtals voru nokkru lægri. Að því er þennan skuldajöfnuð varðar er ágreiningur aðila tvíþættur. Annars vegar telur varnaraðili að sóknaraðili hafi ekki haft ráðstöfunarrétt yfir skuldabréfum vegna þriggja þeirra krafna sem hann notaði til skuldajöfnuðar, samtals að nafnverði 18.550.000.000 krónur. Hins vegar deila aðilar um uppgjör svonefndra stundarviðskipta með gjaldeyri 3. október 2008.

Að því er fyrrnefnda deiluefnið varðar eru atvik þau að með yfirlýsingu 19. mars 2008 veðsetti sóknaraðili Seðlabanka Íslands VS-reikning sinn nr. 61103 við Seðlabanka Íslands ásamt allri þeirri verðbréfaeign sem á hverjum tíma væri skráð á reikninginn, en óumdeilt er að þar voru skráð umrædd þrjú skuldabréf. Í fyrrnefndri yfirlýsingu, sem nánar er lýst í hinum kærða úrskurði, er meðal annars kveðið á um að veðsala sé óheimilt að ráðstafa veðandlaginu með hvaða hætti sem er nema hann hafi áður fengið til þess skriflegt samþykki Seðlabankans. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður staðfest niðurstaða hans um að hafna beri skuldajöfnuði þessara krafna á móti kröfum sóknaraðila. Fær því hvorki breytt skýrsla yfirlögfræðings sóknaraðila fyrir héraðsdómi né bréf Seðlabanka Íslands 10. febrúar 2011, sem lagt hefur verið fyrir Hæstarétt, þar sem staðfest er að sóknaraðili hefði haft heimild til að nýta þessi skuldabréf til skuldajöfnunar móti kröfum varnaraðila gegn því að lögð voru fram önnur sambærileg veð. Hafi skipti á veðum komið til framkvæmda í maí 2010.

Eins og nánar er rakið í hinum kærða úrskurði áttu aðilar í viðskiptum með gjaldeyri 3. október 2008. Samkvæmt staðfestingu varnaraðila fyrir viðskiptum þessum þann dag skyldi varnaraðili 7. sama mánaðar kaupa af sóknaraðila 171.000.000 krónur og selja sóknaraðila á móti 1.000.000 evrur. Í staðfestingu þessari er sérstaklega vísað til þess að um þessi viðskipti gildi almennir skilmálar fyrir markaðsviðskipti hjá varnaraðila, sem aðilar undirrituðu 23. febrúar 2006. Sóknaraðili greiddi varnaraðila umsamda fjárhæð í íslenskum krónum á umsömdum tíma, en varnaraðili greiddi sóknaraðila ekki evrurnar. Í kafla III hér að framan er rakið efni gr. 4.2 í skilmálum þeim sem vísað er til í staðfestingunni. Þar er kveðið á um að á sé kominn með aðilum skriflegur samningur um að skyldur þeirra samkvæmt samningum um afleiður skuli jafnast hver á móti annarri með skuldajöfnuði, sbr. 17. gr. þágildandi laga um verðbréfaviðskipti, nú 40. gr. laga nr. 108/2007, við endurnýjun, vanefnd, greiðslustöðvun, nauðasamninga eða gjaldþrotaskipti og að samningurinn haldi gildi sínu að fullu þrátt fyrir ákvæði 91. gr. og 100. gr. laga nr. 21/1991. Með framangreindum viðskiptum komst á samningur með aðilum þar sem kveðið var á um að uppgjör byggðist á þróun gengis íslenskrar krónu og evru. Í d. lið 2. töluliðar 1. mgr. 2. gr. laga nr. 108/2007 felst að afleiðusamningar séu framvirkir samningar, en hvorki þar né annars staðar í settum lögum er kveðið á um lágmarkstíma sem samningar um afleiður geti tekið til. Sóknaraðili hefur heldur ekki fært fram í málinu sönnur á að viðskiptavenja gildi um slíkan lágmarkstíma. Þótt samningurinn væri til skamms tíma tóku aðilar með honum áhættu á þróun gengis krónu og evru frá viðskiptadegi til uppgjörsdags. Samningurinn telst því til afleiða og  verður með vísan til 40. gr. síðastnefndra laga fallist á með sóknaraðila að 100. gr. laga nr. 21/1991 eigi ekki við og hafi honum því verið heimilt að skuldajafna kröfu sinni við kröfu varnaraðila. Að öðru leyti verða niðurstöður hins kærða úrskurðar um kröfur sóknaraðila um skuldajöfnuð og önnur þau atriði sem um er fjallað í C. kafla úrskurðarins staðfest með vísan til forsendna hans.

Með vísan til 3. mgr. 99. gr. laga nr. 21/1991 skulu kröfur á hendur sóknaraðila í erlendum gjaldmiðli færðar til íslensks gjaldmiðils eftir skráðu sölugengi 22. apríl 2009, þegar sóknaraðili var tekinn til slita.

Ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað verður staðfest. Samkvæmt framansögðu hefur sóknaraðili ekki náð fram nema litlum hluta krafna sinna fyrir Hæstarétti. Sóknaraðili verður því dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Krafa varnaraðila, Landsbanka Íslands hf., við slit sóknaraðila, ALMC hf., er viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. þannig:

Að fjárhæð 40.509.962.122 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 20.062.222.222 krónum frá 9. október 2008 til 6. nóvember sama ár, en af 27.365.762.222 krónum frá þeim degi til 22. apríl 2009.  Þó skulu dráttarvextir að hámarki nema 3.742.680.213 krónum.

Að fjárhæð 45.081.123,29 bresk pund með LIBOR-vöxtum til mánaðar í senn að viðbættu 3,95% álagi fá 8. október 2008 til 22. apríl 2009.

Að fjárhæð 21.100.240 kanadadalir með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 3. nóvember 2008 til 22. apríl 2009. Þó skulu dráttarvextir að hámarki nema 797.120 kanadadölum.

Að fjárhæð 45.226.444,44 bandaríkjadalir með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 20.024.222,22 bandaríkjadölum frá 14. október 2008 til 13. nóvember sama ár en af 45.226.444,44 bandaríkjadölum frá þeim degi til 22. apríl 2009. Þó skulu dráttarvextir að hámarki nema 1.797.551 bandaríkjadal.

Viðurkenndur er réttur sóknaraðila til að skuldajafna 1.039.062.038 krónum og 1.000.000 evrum á móti kröfum varnaraðila. Miðast skuldajöfnuðurinn við 18. september 2009.

Gengi framangreindra erlendra gjaldmiðla miðast við sölugengi þeirra 22. apríl 2009.

 Ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað er staðfest.

Sóknaraðili greiði varnaraðila 2.000.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. janúar 2011.

I

Héraðsdómur Reykjavíkur skipaði Straumi - Burðarási fjárfestingabanka hf. (Straumi) slitastjórn 11. maí 2009 samkvæmt ákvæðum 4. töluliðs 2. mgr. ákvæðis II til bráðabirgða í lögum nr. 44/2009 um breytingu á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Slitastjórn gaf út innköllun til skuldheimtumanna 12. maí 2009 og birtist hún fyrra sinni í Lögbirtingablaði, sem út kom 18. sama mánaðar. Kröfulýsingarfrestur var ákveðinn tveir mánuðir og var því á enda 18. júlí 2009. Sóknaraðili, Landsbanki Íslands hf., lýsti kröfu í bú félagsins og var kröfulýsing hans í sex töluliðum. Hluta kröfunnar var lýst sem forgangskröfu samkvæmt 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991, en að öðru leyti var henni lýst sem almennri kröfu samkvæmt 113. gr. sömu laga. Slitastjórn hafnaði kröfunni sem forgangskröfu og gerði fyrirvara um fjárhæðir krafna og um hugsanlegan rétt til skuldajafnaðar. Þar sem samkomulag náðist ekki um lausn ágreiningsins á kröfuhafafundum, sem haldnir voru 18. og 25. ágúst og 2. september 2009, beindi slitastjórnin ágreiningi aðila til úrlausnar héraðsdóms. Var málið þingfest 16. október 2009. Varnaraðili, Straumur - Burðarás fjárfestingabanki hf., heitir nú ALMC hf.

Í bréfi slitastjórnar varnaraðila til dómsins segir m.a. svo: „Ágreiningurinn er margþættur. Meðal þess sem deilt er um er hvort innlán kröfuhafans hjá Straumi njóti forgangs skv. 112. gr. gjaldþrotalaga, en slitastjórn hefur hafnað því. Þá er deilt um vaxtaútreikning innlánskrafna. Uppgjör afleiðusamninga er umdeilt. Kröfuhafinn hefur ennfremur mótmælt yfirlýsingum Straums um skuldajöfnun í nokkrum tilvikum. Kröfulýsing Landsbanka Íslands hf. er í 6 töluliðum og lýtur ágreiningurinn að töluliðum 1, 2 og 5 auk þess sem deilt er um fjárhæðir gagnkrafna Straums. Kröfuhafinn afturkallaði kröfulið 4 og féllst á afstöðu slitastjórnar til kröfuliðar 6 um samþykki skilyrtrar kröfu að fjárhæð 9.081.000 evrur.“              

Að ósk aðila og með samþykki dómsins var sakarefni málsins skipt samkvæmt heimild í 1. mgr. 31. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, þannig að fyrst var úrskurðað um þá kröfu sóknaraðila að krafa hans vegna peningamarkaðslána samkvæmt 2. tölulið kröfulýsingar hans, alls að fjárhæð 48.530.307.023 krónur, nyti forgangs við slit varnaraðila samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 3. mgr. 102. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002. Var þeirri kröfu hafnað með úrskurði dómsins 1. mars 2010, og var sú niðurstaða staðfest með dómi Hæstaréttar 2. júní 2010, í máli nr. 184/2010. Í þessum þætti málsins er hins vegar til úrlausnar ágreiningur aðila um gjalddaga krafna vegna peningamarkaðslána, uppgjör krafna vegna afleiðuviðskipta og réttur varnaraðila til riftunar og skuldajafnaðar við kröfur sóknaraðila.

II

Samkvæmt sameiginlegri bókun málsaðila, sem lögð var fram við fyrirtöku málsins 28. október 2010, og síðari bókun sóknaraðila, sem lögð var fram í þinghaldi 9. desember 2010, krefst sóknaraðili þess að neðangreindar kröfur verði viðurkenndar sem almennar kröfur við slit varnaraðila, sbr. 113. gr. laga nr. 21/1991:

Aðalkrafa:

-          Krafa að fjárhæð 40.990.255.669 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 20.062.222.222 krónum frá 9. október 2008 til 1. nóvember s.á., af 20.451.951.593 krónum frá 1. nóvember 2008 til 6. nóvember s.á., en af 27.755.491.593 krónum frá þeim degi til 22. apríl 2009.

-          Krafa að fjárhæð 45.226.444,44 Bandaríkjadalir (USD), ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 20.024.222,22 Bandaríkjadölum frá 14. október 2008 til 13. nóvember s.á., en af 45.226.444,44 Bandaríkjadölum frá þeim degi til 22. apríl 2009.

-          Krafa að fjárhæð 45.081.123,29 bresk pund (GBP), ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 8. október 2008 til 22. apríl 2009.

-          Krafa að fjárhæð 21.100.240,00 Kanadadollarar (CAD), ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 3. nóvember 2008 til 22. apríl 2009.

Til vara krefst sóknaraðili þess að neðangreindar kröfur verði viðurkenndar sem almennar kröfur við slit varnaraðila:

-          Krafa að fjárhæð 40.509.962.123 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 20.062.222.222 krónum frá 9. október 2008 til 17. október s.á., af 23.516.388.591 krónu frá þ.d. til 1. nóvember s.á., af 23.906.117.962 krónum frá þ.d. til 6. nóvember s.á., en af 31.209.657.962 krónum frá þeim degi til 22. apríl 2009.

-          Krafa að fjárhæð 45.226.444,44 Bandaríkjadalir (USD), ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 20.024.222,22 Bandaríkjadölum frá 14. október 2008 til 13. nóvember s.á., en af 45.226.444,44 Bandaríkjadölum frá þeim degi til 22. apríl 2009.

-          Krafa að fjárhæð 45.081.123,29 bresk pund (GBP), ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 8. október 2008 til 22. apríl 2009.

-          Krafa að fjárhæð 21.100.240,00 Kanadadollarar (CAD), ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 3. nóvember 2008 til 22. apríl 2009.

Í báðum tilvikum krefst sóknaraðili þess að öllum kröfum varnaraðila verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi varnaraðila að mati dómsins, að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Endanlegar kröfur varnaraðila, samkvæmt bókun sem lögð var fram við upphaf aðalmeðferðar 17. desember sl., eru sem hér segir:

-          Að hafnað verði kröfum sóknaraðila um dráttarvexti til 22. apríl 2009 af peningamarkaðslánum samkvæmt 2. tölulið í kröfulýsingu hans frá 17. júlí 2009 vegna slitameðferðar varnaraðila.

-          Að hafnað verði kröfum sóknaraðila vegna afleiðuviðskipta samkvæmt 1. tölulið í kröfulýsingu hans frá 17. júlí 2009. Þess í stað krefst varnaraðili þess að viðurkennd verði krafa hans á hendur sóknaraðila að fjárhæð 1.527.706.761 króna vegna uppgjörs afleiðuviðskipta málsaðila.

-          Að viðurkenndur verði réttur hans til að skuldajafna eftirgreindum fjárhæðum á móti kröfum sóknaraðila: 7.585.116.303 krónum miðað við 27. janúar 2009, 587.899.958 krónum miðað við 9. febrúar 2009 og 17.019.027.973 krónum miðað við 18. september 2009.

Þá krefst varnaraðili málskostnaðar að skaðlausu samkvæmt mati dómsins, að meðtöldum

kostnaði vegna virðisaukaskatts.

Málið var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 17. desember 2010, en endurupptekið 10. janúar sl. og þá tekið til úrskurðar á ný. Við upphaf aðalmeðferðar gáfu skýrslu fyrir dóminum Stefnir Kristjánsson, viðskiptafræðingur og fyrrverandi starfsmaður sóknaraðila, Birna Hlín Káradóttir, lögfræðingur hjá varnaraðila, og Sigurður Hannesson, stærðfræðingur og fyrrverandi starfsmaður varnaraðila. Verður vikið að framburði þeirra þyki tilefni til.

III

Eins og fyrr greinir er hér til úrlausnar ágreiningur aðila um gjalddaga krafna vegna peningamarkaðslána, uppgjör krafna vegna afleiðuviðskipta og réttur varnaraðila til riftunar og skuldajafnaðar við kröfur sóknaraðila, þ.á m. tvær kröfur samkvæmt skuldabréfum, útgefnum af varnaraðila. Til einföldunar og hægðarauka verður fjallað um hvern lið fyrir sig, málsástæður aðila og lagarök, og að því loknu færð rök fyrir niðurstöðu í hverjum lið.

A.     Gjalddagar peningamarkaðslána

Enginn ágreiningur er með aðilum um fjárhæð krafna sóknaraðila vegna peningamarkaðslána sem hann veitti varnaraðila. Deila aðila lýtur hins vegar að gjalddaga lánssamninganna, alls sjö að tölu, og byggir sóknaraðili á því að gjalddagar þeirra séu sem að neðan greinir. Krafa hans um dráttarvexti til 22. apríl 2009 miðast við þá gjalddaga:

Mynt:

Höfuðstóll:

Gjalddagi:

ISK

7.303.540.000

06.11.2008

ISK

19.059.111.111

09.10.2008

ISK

1.003.111.111

09.10.2008

GBP

45.081.123,29

08.10.2008

CAD

21.100.240,00

03.11.2008

USD

25.202.222,22

03.11.2008

USD

20.024.222,22

14.10.2008

Krafa sóknaraðila er á því reist að miða skuli gjalddaga ofangreindra lánssamninga við þá gjalddaga sem tilgreindir séu á framlögðum staðfestingum aðila um peningamarkaðslán, enda sýni þær staðfestingar síðustu lögskipti aðila á grundvelli hvers lánssamnings um sig. Jafnframt leggur hann áherslu á að um skammtímalánveitingar hafi verið að ræða til varnaraðila og komi skýrlega fram í þeim lánssamningum sem aðilar hafi gert með sér, og liggi fyrir í málinu, að hver lánshluti sem varnaraðili tók innan lánsheimildar skuli teljast sjálfstætt lán. Varnaraðili byggir hins vegar á því að ekkert ofantalinna peningamarkaðslána hafi verið gjaldfallið þegar varnaraðili var tekinn til slitameðferðar, 22. apríl 2009, og beri því að hafna kröfum sóknaraðila um dráttarvexti af fjárhæðunum til þess dags. Jafnframt er á því byggt að þeir samningar sem liggi til grundvallar umræddum lánveitingum til varnaraðila kveði á um gjalddaga krafnanna, og beri fremur að líta til þeirra við ákvörðun gjalddaga umræddra krafna, en til þeirra staðfestinga sem sóknaraðili vísi til. Verður nú gerð grein fyrir hverju láni fyrir sig.

1.       Lán að fjárhæð 7.200.000.000 króna (7.303.540.000 krónur, að meðtöldum vöxtum til 6. nóvember 2008)

Krafa þessi byggist á viðskiptasamningi um reikningslánalínu milli varnaraðila, sem lántaka, og sóknaraðila, sem lánveitanda, dagsettum 30. janúar 2007. Segir þar að bankinn skuli hafa til reiðu fyrir lántaka reikningslánalínu, allt að fjárhæð 7.200.000.000 króna, og að lántaka sé innan þeirra marka heimilt að taka lán hjá bankanum í íslenskum krónum eða erlendum gjaldmiðlum sem bankinn eigi viðskipti með. Fram kemur að hver lánshluti sem lántaki tekur innan lánsheimildar skuli teljast sjálfstætt lán og að hámarkslánstími hvers lánshluta skuli ekki vera lengri en 364 dagar. Í 4. gr. samningsins er mælt fyrir um form á lánsbeiðni frá lántaka og hvað skuli þar koma fram, en einnig um afgreiðslu bankans á slíkri beiðni. Síðan segir orðrétt í grein 4.3.: „Þegar bankinn hefur fengið lánsbeiðni í hendur skal forsvarsmaður banka samdægurs senda lántaka staðfestingu á lántökunni þar sem framangreind atriði koma fram. Lántaki skal gera athugasemdir við staðfestingu banka tafarlaust. Hafi hann engar athugasemdir skal hann undirrita staðfestingu bankans og endursenda með símbréfi og jafnframt senda frumrit í pósti.“ Þá segir í samningnum að heimilt sé að framlengja einstaka lánshluta með sama hætti og gildi um lánsbeiðnir. Auk þessa eru í samningnum ákvæði um vexti af láninu, endurgreiðslu þess, vanefndatilvik o.fl. Af gögnum málsins má sjá að varnaraðili óskaði tvisvar sinnum eftir því að samningurinn yrði framlengdur í 364 daga frá lokadegi framlengingar, í fyrra skiptið frá 28. janúar 2008, en í síðara skiptið frá 27. janúar 2009. Ekki er um það deilt að lánalínan var ekki nýtt af varnaraðila fyrr en 6. október 2008, en þann dag millifærði sóknaraðili 7.200.000.000 króna inn á reikning varnaraðila. Sama dag var staðfesting fyrir lánveitingunni gefin út og kemur þar fram að gjalddagi sé 6. nóvember 2008. Jafnframt eru vextir af láninu þar tilgreindir 16,7%, eða samtals 103.540.000 krónur. Þótt staðfestingin sé aðeins undirrituð af starfsmanni sóknaraðila, en ekki af varnaraðila, hefur varnaraðili ekki mótmælt efni staðfestingarinnar.

Sóknaraðili byggir á því að leggja eigi skilmála í staðfestingu fyrir lánveitingunni til grundvallar, þegar leyst sé úr því hvenær telja skuli gjalddaga lánsins, enda sé það skjal hið síðasta sem varði lögskipti að baki samningi aðila. Um leið bendir hann á að í viðskiptasamningnum komi fram að telja skuli hvern lánshluta sem sjálfstætt lán og að hámarkslánstími hvers lánshluta skuli ekki vera lengri en 364 dagar. Því sé ljóst að lánstími hvers lánshluta geti verið styttri, eins og staðfesting fyrir lánveitingunni frá 6. október 2008 beri glögglega með sér. Þá leggur hann áherslu á að þótt samningurinn hafi verið framlengdur í 364 daga, að ósk varnaraðila, hafi sú framlenging aðeins tekið til heimildar varnaraðila til að draga á reikningslánalínuna, en ekki til lánsins sjálfs, enda hafi lánstími hvers lánshluta verið ákveðinn í staðfestingu á lántökunni, sbr. gr. 4.2. og 4.3. í viðskiptasamningi aðila.

Varnaraðili byggir á því að ofangreindur viðskiptasamningur aðila sé hefðbundinn lánssamningur, sem upphaflega hafi verið gerður til 364 daga, en lánstími síðan framlengdur. Því til staðfestingar vísar hann til fyrirliggjandi beiðni varnaraðila um framlengingu samningsins frá 20. apríl 2007, svo og tölvupóstsamskipta aðila 10. maí sama ár í kjölfar þeirrar beiðni, en í síðargreinda skjalinu megi sjá að sóknaraðili samþykkti beiðni varnaraðila um framlengingu samningsins í 364 daga frá upphaflegum lokadegi. Jafnframt segi þar að nýr lokadagur samningsins sé 27. janúar 2009. Þessu til samræmis hafi varnaraðili á þeim degi sent sóknaraðila yfirlýsingu um skuldajöfnuð kröfunnar við kröfu varnaraðila á hendur sóknaraðila, og hafi krafan þannig verið gerð upp að fullu. Þá bendir varnaraðili á að sóknaraðili hafi aldrei gert reka að því að innheimta kröfuna, og telur hann það skjóta skökku við hafi sóknaraðili talið gjalddaga kröfunnar 6. nóvember 2008, eins og hann byggi nú á. Hið sama eigi raunar við um allar ofangreindar kröfur, sóknaraðili hafi aldrei innheimt þær né tilkynnt varnaraðila á annan hátt að þær væru gjaldfallnar, fyrr en með kröfulýsingu sinni 17. júlí 2009. Í ljósi ofanritaðs, en einnig með hliðsjón af síðari samskiptum aðila, telur varnaraðili að sóknaraðili geti ekki byggt á því að umrætt lán hafi fallið í gjalddaga 6. nóvember 2008. Krafan hafi hins vegar fallið í gjalddaga 27. janúar 2009, og hafi varnaraðili á þeim degi lýst yfir skuldajöfnuði.

----------

Eins og fyrr greinir byggist krafa sóknaraðila á viðskiptasamningi um reikningslánalínu, sem sóknaraðili skuldbatt sig til að hafa til reiðu fyrir varnaraðila, alls að fjárhæð 7.200.000.000 króna. Var varnaraðila innan þeirra marka heimilt að draga á lánalínuna, og var hver lánshluti sem hann tók innan lánsheimildar metinn sem sjálfstætt lán. Samningurinn var undirritaður 30. janúar 2007, og má ráða af gögnum málsins að hann hafi gilt til 28. janúar 2008. Var hann síðar framlengdur til 27. janúar 2009. Með samningnum fylgdi form að lánsbeiðni, sem lántaka bar að fylla út og afhenda sóknaraðila við töku hvers lánshluta, allt í samræmi við gr. 4.2. í samningnum. Meðal þess sem lántaki átti þar að tilgreina var mynt og upphæð láns, en einnig vaxtakjör, vaxtatímabil og gjalddagi. Samkvæmt gr. 4.3. í sama samningi átti sóknaraðili í kjölfar lánsbeiðni að senda lántaka staðfestingu á lántökunni, þar sem fram kæmu þau atriði sem átti að tilgreina í lánsbeiðni. Bar lántaka tafarlaust að gera athugasemdir við staðfestinguna, teldi hann ástæðu til, en ella skyldi hann undirrita hana og senda sóknaraðila. Lánsbeiðni varnaraðila hefur ekki verið lögð fram, en óumdeilt er að varnaraðili nýtti sér fyrst lánsheimildina 6. október 2008, en þann dag millifærði sóknaraðili alla lánsfjárhæðina, 7.200.000.000 króna, inn á reikning varnaraðila. Um leið gaf sóknaraðili út staðfestingu fyrir lántökunni og sendi varnaraðila. Samkvæmt staðfestingunni var gjalddagi lánsins 6. nóvember 2008.

Augljóst þykir að umræddur viðskiptasamningur fól aðeins í sér tímabundna heimild til handa varnaraðila til að taka lán hjá sóknaraðila, allt að fjárhæð 7.200.000.000 króna. Heimildin var upphaflega veitt til 28. janúar 2008, en síðar framlengd til 27. janúar 2009. Varnaraðili nýtti sér heimild sína 6. október 2008 og gaf sóknaraðili þann dag út staðfestingu fyrir lántökunni, þar sem fram kom að gjalddagi lánsins var 6. nóvember 2008. Ekki verður annað ráðið en að gjalddagi hafi verið ákveðinn í samræmi við óskir varnaraðila og samkvæmt lánsbeiðni hans, a.m.k. gerði hann engar athugasemdir við skilmála staðfestingarinnar, eins og honum bar þó að gera samkvæmt gr. 4.3. í viðskiptasamningi aðila. Þótt sóknaraðili hafi ekki gert reka að innheimtu kröfunnar eða mótmælt sérstaklega yfirlýsingu varnaraðila 27. janúar 2009 um skuldajöfnun kröfunnar við kröfu varnaraðila á hendur sóknaraðila, verður ekki séð að slíkt tómlæti sóknaraðila eigi að leiða til þess að hann missi rétt sinn til gjaldfellingar lánsins á umsömdum gjalddaga. Að áliti dómsins mátti enda  varnaraðila vera ljóst að gjalddagi lánsins var 6. nóvember 2008. Verður því fallist á það með sóknaraðila að umrætt lán hafi fallið í gjalddaga á þeim degi.

2.       Lán að fjárhæð 19.000.000.000 króna og 1.000.000.000 króna (19.059.111.111 krónur og 1.003.111.111 krónur, að meðtöldum vöxtum til 9. október 2008)

Aðilar gerðu með sér samning 30. september 2008, þar sem sóknaraðili samþykkti að veita varnaraðila aðgang að þremur lánalínum í 364 daga, 250.000.000 evrum, 80.000.000 evrum og 50.000.000 evrum, eða samtals 380.000.000 evrum. Í skilmálum fyrir fyrstgreindu lánalínunni, að fjárhæð 250.000.000 evrur, segir að varnaraðila sé heimilt að draga á lánalínuna í íslenskum krónum. Í lok samningsins er tekið fram að skilmálum og skilyrðum lánalínanna verði lýst nánar í sérstökum lánssamningi. Slíkur lánssamningur var þó ekki gerður, en óumdeilt er að varnaraðili dró á fyrstgreindu lánalínuna, fyrst 1. október 2008, 1.000.000.000 króna, og síðar 2. október 2008, þá 19.000.000.000 króna, og liggja fyrir staðfestingar þess efnis, undirritaðar af starfsmönnum beggja málsaðila. Gjalddagi er þar í báðum tilvikum tilgreindur 9. október 2008. Fyrir liggur einnig að sóknaraðili synjaði varnaraðila um að draga frekar á lánalínuna.

Sóknaraðili byggir á því að líta verði á hvora staðfestingu fyrir lánveitingu sem sjálfstæðan lánshluta. Staðfestingarnar hafi mælt fyrir um að gjalddagi lánanna væri 9. október 2008 og verði að leggja það til grundvallar. Varnaraðili byggir hins vegar á því að samningur aðila mæli skýrlega fyrir um að lánalínurnar séu til 364 daga. Samkvæmt því hafi gjalddagi lánanna ekki verið fyrr en 30. september 2009. Því til frekari stuðnings bendir hann á að hann hafi í bréfi til sóknaraðila 10. nóvember 2008 lagt á það áherslu að sóknaraðili viðurkenndi og staðfesti fyrri skuldbindingu sína um 364 daga lánalínu, á grundvelli áðurnefnds samnings aðila. Þeirri ósk hafi þó ekki verið svarað.

----------

Þótt ofangreindur samningur aðila frá 30. september 2008 kveði á um 364 daga lánalínur til varnaraðila, telur dómurinn að skýra verði ákvæði hans þannig að með honum hafi varnaraðila aðeins verið heimilað að draga á lánalínurnar þær fjárhæðir sem þar var kveðið á um, og innan þess tíma sem þar segir. Undirritaðar staðfestingar varnaraðila í tilefni af hvorri lánveitingu um sig styrkir eindregið þá skoðun dómsins, enda er þar skýrt tekið fram að gjalddagi hvors láns sé 9. október 2008. Bréf varnaraðila til sóknaraðila frá 10. nóvember 2008 breytir hér engu um, þar eð efni þess verður ekki skilið á annan hátt en þann að varnaraðili sé þar aðeins að árétta að sóknaraðili hafi skuldbundið sig til að heimila varnaraðila að draga á lánalínurnar í 364 daga, en fyrir lá þá að sóknaraðili hafði neitað varnaraðila um að draga frekar á lánalínurnar. Samkvæmt þessu var gjalddagi beggja lánanna 9. október 2008.

3.       Lán að fjárhæð 45.000.000 bresk pund (45.081.123,29 bresk pund, að meðtöldum vöxtum til 8. október 2008)

Krafa þessi á sér stoð í lánssamningi milli varnaraðila og sóknaraðila, dagsettum 1. júní 2008, með gildistíma til 1. júní 2009. Samkvæmt honum skal sóknaraðili hafa til reiðu fyrir varnaraðila reikningslánalínu, allt að fjárhæð 45.000.000 bresk pund. Þá segir þar að hver lánshluti sem lántaki tekur innan lánsheimildar skuli teljast sjálfstætt lán og að hámarkslánstími hvers lánshluta skuli ekki vera lengri en 7 dagar. Önnur ákvæði samningsins eru efnislega samhljóða þeim viðskiptasamningi sem greint var frá hér að framan undir lið 1., þ.á m. um form á lánsbeiðni og staðfestingu bankans á lántöku varnaraðila. Í gr. 4.4. þessa samnings segir þó svo: „Heimilt er að framlengja einstaka lánshluta með sama hætti og gildir um lánsbeiðnir. Hver lánshluti skal framlengjast sjálfkrafa um 7 daga ef ósk um uppgreiðslu lánsins frá lánveitanda hefur ekki borist lántaka 2 dögum fyrir gjalddaga. Þó takmarkast slíkar framlengingar ávallt af gildistíma samnings þessa, sbr. grein 19, þannig að lánstími hvers lánshluta getur aldrei orðið lengri en gildistími samningsins.“

Sóknaraðili byggir sem fyrr á því að við ákvörðun á gjalddaga lánsins eigi að líta til fyrirliggjandi staðfestinga fyrir lánveitingunni, en skilmálar þeirra séu í samræmi við ákvæði lánssamningsins, sbr. gr. 3.2., þar sem fram komi að hámarkslánstími hvers lánshluta skuli ekki vera lengri en 7 dagar. Allar staðfestingarnar geri því ráð fyrir að lánstími lánshlutans sé 7 dagar, þ.á m. síðasta staðfestingin, en þar sé gjalddagi ákveðinn 8. október 2008. Þann dag hafi lánið fallið í gjalddaga, og því beri varnaraðila að greiða dráttarvexti frá þeim degi.

Varnaraðili heldur því fram að umrætt lán hafi ekki fallið í gjalddaga fyrr en við lok lánstímans, þ.e. 1. júní 2009. Því til stuðnings vísar hann til gr. 4.4. í samningi aðila, en þar segi berum orðum að hver lánshluti skuli framlengjast sjálfkrafa um 7 daga, hafi ósk um uppgreiðslu lánsins frá lánveitanda ekki borist lántaka 2 dögum fyrir gjalddaga. Óumdeilt sé að slík ósk hafi aldrei komið frá sóknaraðila fyrir gjalddaga lánsins, og því hafi lánið sjálfkrafa framlengst allt til lokadags gildistíma samningsins. Geti sóknaraðili af þeirri ástæðu ekki reiknað dráttarvexti af láninu, enda hafi það ekki verið fallið í gjalddaga við upphaf slitameðferðar varnaraðila, 22. apríl 2009.

----------

Í málinu liggur frammi fjöldi staðfestinga um lánveitingu sóknaraðila til varnaraðila vegna láns þessa, sú síðasta frá 29. september 2008, og er hún undirrituð af starfsmönnum beggja málsaðila. Þar segir að gjalddagi lánsins sé 8. október 2008. Af þeirri staðfestingu og eldri staðfestingum má sjá að lánstími hefur hverju sinni verið 7 dagar. Í hverri staðfestingu eru vextir tilgreindir, bæði fjárhæð og vaxtaprósenta. Þannig er vaxtaprósenta í síðustu staðfestingunni 9,4%, og vaxtafjárhæðin alls 81.123,29 bresk pund, en um vexti af lánsfjárhæðinni voru fyrirmæli í 5. gr. samnings aðila frá 1. júní 2008. Þrátt fyrir skilmála síðustu staðfestingar, þess efnis að gjalddagi lánsins sé 8. október 2008, verður ekki fram hjá því horft að í gr. 4.4. í samningi aðila er skýrt tekið fram að hver lánshluti skuli framlengjast sjálfkrafa um 7 daga, ef ósk um uppgreiðslu lánsins frá lánveitanda hefur ekki borist lántaka 2 dögum fyrir gjalddaga. Þar sem sóknaraðili óskaði aldrei eftir uppgreiðslu lánsins eftir útgáfu síðustu staðfestingar, verður að fallast á það með varnaraðila að lánið hafi af þeim sökum framlengst sjálfkrafa allt til loka gildistíma samningsins. Af þeirri ástæðu verða dráttarvextir ekki reiknaðir af kröfunni, enda var hún ekki fallin í gjalddaga fyrir upphaf slitameðferðar varnaraðila. Í samræmi við skilmála síðustu staðfestingar bar lánið hins vegar þá vexti sem um hafði samist, þ.e. 9,4%, allan þann tíma sem lánið framlengdist sjálfkrafa.

4.         Lán að fjárhæð 21.000.000 Kanadadollarar og 25.000.000 Bandaríkjadalir                                        (21.100.240,00 Kanadadollarar og 25.202.222,22 Bandaríkjadalir, að meðtöldum                   vöxtum til 3. nóvember 2008)

Ekki er um það ágreiningur að bæði þessi lán eiga rætur að rekja til samkomulags aðila frá árinu 2006, sem gert var í tilefni af fjárfestingarverkefninu „Project Milan“. Samkvæmt samkomulaginu skuldbatt sóknaraðili sig til að lána varnaraðila allt að 92.000.000 Kanadadollara með nánar tilgreindum vöxtum, og átti lánið að skiptast í tvo hluta, annars vegar til 5 ára, en hins vegar til 7 ára. Um nánari útfærslu lánafyrirgreiðslunnar og skiptingu lánsfjárhæðarinnar átti að mæla fyrir um í lánssamningi, sem aldrei var þó gerður. Í 5. gr. samkomulagsins segir að lánið sé veitt í 12 mánuði í senn og að sóknaraðili skuldbindi sig til að framlengja lánið sjálfkrafa að þeim tíma loknum í hlutfalli við stöðu fjárfestingarverkefnisins, en þó að teknu tilliti til fyrrnefnds hámarkslánstíma. Í samræmi við samkomulagið veitti sóknaraðili varnaraðila lán að fjárhæð 47.000.000 Kanadadollara 28. febrúar 2007. Hluta lánsfjárhæðarinnar var hins vegar skipt úr Kanadadollurum í Bandaríkjadali þegar lánið var greitt út.

Meðal gagna málsins er tölvupóstur frá starfsmanni varnaraðila til sóknaraðila 15. ágúst 2008, þar sem vakin er athygli á skuldbindingu sóknaraðila samkvæmt áðurnefndu samkomulagi um fjármögnun verkefnisins „Project Milan“. Síðan segir svo: „Í lok júní lauk 6 mánaða workout á verkefninu og því lán Straums inn í verkefnið breyst töluvert, bæði hefur bankinn sett meiri pening inn í verkefnið sem og það sem við höfðum útistandandi í USD og CAD orðið að CAD eingöngu. Við þurfum því að leiðrétta þessa fjármögnun í takt við bæði samninginn og núverandi lán okkar eftir og rúlla þessu í 12 mánuði. Það er að ég held verið að rúlla þessu á mánaðabasis núna og hefur verið síðustu mánuði.“  Bréfi þessu mun ekki hafa verið svarað af sóknaraðila. Hinu sama gegnir um tölvubréf yfirlögfræðings varnaraðila til þáverandi bankastjóra sóknaraðila frá 10. nóvember 2008, en í því bréfi er óskað eftir því að sóknaraðili héldi áfram að veita varnaraðila fjármögnun í samræmi við skilmála áðurnefnds samkomulags, um leið og minnt var á að sóknaraðili hefði með því samkomulagi skuldbundið sig til að veita varnaraðila veltulán að fjárhæð 92.000.000 Kanadadollara til 12 mánaða í senn í allt að 5-7 ár.

Krafa sóknaraðila vegna beggja þessara lána styðst við staðfestingar á hvorri lánveitingu fyrir sig, annars vegar að fjárhæð 21.000.000 Kanadadollarar, en hins vegar að fjárhæð 25.000.000 Bandaríkjadalir. Samkvæmt skilmálum beggja staðfestinganna er gjalddagi lánanna tilgreindur 3. nóvember 2008, og gerir sóknaraðili kröfu um að viðurkennt verði að gjalddagar lánanna séu þeir sem þar greini. Varnaraðili vísar hins vegar til fyrirliggjandi samkomulags, einkum 5. gr. þess, þar sem fram komi að lánið sé veitt til 12 mánaða í senn og hafi sóknaraðili skuldbundið sig til að framlengja það sjálfkrafa að þeim tíma liðnum. Telur hann ljóst að hvorugt lánið hafi verið fallið í gjalddaga 22. apríl 2009, og eigi sóknaraðili því ekki rétt til dráttarvaxta af kröfunum.

----------

Eins og fram kemur hér að ofan skuldbatt sóknaraðili sig til að lána varnaraðila allt að 92.000.000 Kanadadollara vegna sameiginlegs fjárfestingarverkefnis aðila. Lánið skyldi veitt til 12 mánaða í senn, en sóknaraðila var þó skylt að framlengja lánið sjálfkrafa að þeim tíma loknum í samræmi við stöðu fjárfestingarverkefnisins. Sjá má af staðfestingum vegna lánveitingarinnar að sóknaraðili greiddi hluta lánsfjárhæðarinnar inn á reikning varnaraðila 28. febrúar 2007, annars vegar í Kanadadollurum, en hins vegar í Bandaríkjadölum. Lánstími var ýmist einn, tveir eða þrír mánuðir, en framlengdur að því loknu. Samkvæmt tveimur síðustu staðfestingum, útgefnum 1. september og 1. október 2008, var lánstími einn mánuður. Í síðustu staðfestingunum var gjalddagi tilgreindur 3. nóvember 2008.

Af ofangreindu tölvubréfi starfsmanns varnaraðila til sóknaraðila frá 15. ágúst 2008 er augljóst að varnaraðila var fullkunnugt um að lánstími vegna fjármögnunar sóknaraðila á  umræddu fjárfestingarverkefni var ekki í samræmi við fyrrnefnt samkomulag aðila frá árinu 2006, og undirritaði varnaraðili að auki hverja staðfestinguna á fætur annarri án athugasemda, þar sem lánstími var í öllum tilvikum tilgreindur allt annar en í því samkomulagi. Engar athugasemdir voru heldur gerðar við þær staðfestingar sem gefnar voru út 1. september og 1. október 2008, þ.e. eftir að starfsmaður varnaraðila hafði vakið athygli á því að verið væri að „rúlla“ lánunum mánaðarlega í stað þess að gera það til 12 mánaða í senn. Verður að telja að með því hafi varnaraðili í raun fallist á þann lánstíma sem tilgreindur var í staðfestingunum, þótt hann væri annar en samkomulagið gerði ráð fyrir. Dómurinn fellst því á kröfu sóknaraðila um að gjalddagi lánanna sé sú dagsetning sem tilgreind er í framlögðum staðfestingum, þ.e. 3. nóvember 2008.

5.         Lán að fjárhæð 20.000.000 Bandaríkjadalir (20.024.222,22 Bandaríkjadalir, að                 meðtöldum vöxtum til 14. október 2008)

Engum undirliggjandi gögnum er til að dreifa vegna þessa láns, ef frá eru taldar staðfestingar í tilefni lántökunnar og tölvubréf yfirlögfræðings sóknaraðila til þáverandi bankastjóra sóknaraðila frá 10. nóvember 2008. Í því bréfi segir m.a. svo: „XL Leisure (USD 20 m.): Þegar þessi fjármögnun var veitt í ágúst 2008 gerðu Straumur og Landsbankinn með sér samkomulag um að (a) Straumur myndi formlega lána féð til XL en Landsbankinn myndi veita Straumi „back-to-back“ lán fyrir allri lánsfjárhæðinni, og (b) að útlánaáhættunni vegna XL yrði skipt jafnt á milli bankanna tveggja. Landsbankinn hefur tekið á sig helming útlánaáhættunnar með því að undirrita ábyrgð í þágu Straums. Fjármögnunarskuldbindingin var hins vegar aldrei almennilega skjalfest. Okkar tillaga/ósk: Að skuldbinding Landsbankans um að fjármagna lán Straums til XL Leisure verði skjalfest.“

Sóknaraðili krefst þess að gjalddagi lánsins verði ákveðinn í samræmi við síðustu staðfestingu aðila fyrir lánveitingunni, þ.e. 14. október 2008, og að dráttarvextir reiknist af lánsfjárhæðinni frá þeim degi. Varnaraðili byggir hins vegar á því að sóknaraðila hafi í kjölfar áðurnefnds bréfs frá 10. nóvember 2008 borið að tilkynna varnaraðila um hvort tillögu hans um áframhaldandi fjármögnun væri hafnað, enda hafi varnaraðila þá fyrst gefist kostur á að bregðast við. Telur hann að krafa sóknaraðila um að reikna skuli dráttarvexti frá 14. október 2008 fái vart staðist, þótt ekki væri nema vegna þess hve óljóst var um gjalddaga kröfunnar.

----------

Í málinu liggja fyrir þrjár staðfestingar fyrir umræddu láni sóknaraðila til varnaraðila. Sú fyrsta er dagsett 22. september 2008 en sú síðasta 6. október það ár. Allar eru þær undirritaðar af starfsmönnum beggja aðila. Gjalddagi lánsins samkvæmt síðustu staðfestingu er tilgreindur 14. október 2008. Ljóst er því að varnaraðila var fullkunnugt um gjalddaga lánsins og gat hann þar af leiðandi brugðist við, hafi hann talið ástæðu til að framlengja lánið eða greiða það upp. Lánið var hins vegar fallið í gjalddaga þegar yfirlögfræðingur varnaraðila ritaði sóknaraðila áðurnefnt bréf 10. nóvember 2008, með ósk um að lánið yrði skjalfest. Verður því fallist á kröfu sóknaraðila um að lán þetta hafi fallið í gjalddaga 14. október 2008.

----------

Við munnlegan flutning málsins byggði varnaraðili einnig á því að sóknaraðili hefði aldrei gert neinn reka að innheimtu gjaldfallinna krafna sinna, né hefði hann svarað erindum varnaraðila um lausn ýmissa álitaefna sem tengdust ofangreindum lánveitingum. Sóknaraðili mótmælti þeirri málsástæðu sem of seint fram kominni. Með vísan til 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, er á það fallist að málsástæða þessi sé of seint fram komin og verður ekki á henni byggt við úrlausn málsins, gegn andmælum sóknaraðila.

Niðurstaða

Samkvæmt ofanrituðu er það niðurstaða dómsins í þessum lið málsins að teknar verða til greina kröfur sóknaraðila um gjalddaga þeirra lána sem hér að ofan eru rakin undir töluliðum 1, 2, 4 og 5. Reiknast dráttarvextir frá gjalddaga þeirra til 22. apríl 2009. Hins vegar verður ekki fallist á að lán að fjárhæð 45.000.000 bresk pund, sbr. 3. töluliður hér að ofan, hafi fallið í gjalddaga fyrir upphaf slitameðferðar varnaraðila. Þess í stað bar það lán 9,4% vexti þann tíma sem það framlengdist sjálfkrafa frá 8. október 2008.

B.     Uppgjör krafna vegna afleiðuviðskipta

Aðilar áttu í ýmsum afleiðuviðskiptum og voru 25 samningar óuppgerðir við innköllun krafna vegna slitameðferðar varnaraðila. Af þeim voru 22 skiptasamningar (gjaldeyris- og vaxtaskiptasamningar), en 3 valréttarsamningar. Ágreiningur aðila lýtur að túlkun og gildissviði þeirra réttarreglna sem beita ber við uppgjör slíkra samninga, og hvort varnaraðila hafi verið heimilt að rifta þeim samningum 16. október 2008 í kjölfar ákvarðana Fjármálaeftirlitsins fyrri hluta þess mánaðar um skipun skilanefndar sóknaraðila og ráðstöfun á tilteknum eignum, réttindum og skuldbindingum sóknaraðila til NBI hf. Sóknaraðili gerir í greinargerð sinni stuttlega grein fyrir þeim tegundum afleiðusamninga sem mál þetta fjallar um, en ekki þykir ástæða til að fjalla sérstaklega um samningana þar sem ekki er deilt um efni þeirra. Enginn tölulegur ágreiningur er heldur um fjárhæðir krafna, hvorki kröfur sóknaraðila á hendur varnaraðila né fjárhæð þeirrar kröfu sem varnaraðili krefur sóknaraðila um í kjölfar riftunar hans á afleiðusamningunum.

Aðalkrafa sóknaraðila á hendur varnaraðila vegna afleiðuviðskipta er að fjárhæð 3.934.459.916 krónur, en varakrafa hans að fjárhæð 3.454.166.369 krónur. Kveðst sóknaraðili reikna aðalkröfu sína með þeim hætti að taka alla afleiðusamninga á milli aðila og gjaldfella þá (loka þeim) eins og þeir stóðu 22. apríl 2009, en framkvæma síðan skuldajöfnuð á milli þeirra, allt í samræmi við heimild 40. gr. laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007 og 10. gr. Almennra skilmála Landsbanka Íslands hf. Þeir samningar, sem verið hafi á gjalddaga fyrir 22. apríl 2009, séu dráttarvaxtareiknaðir að þeim degi og þannig notaðir í uppgjörið á milli aðila. Eftir þennan skuldajöfnuð hafi staða varnaraðila verið neikvæð um 3.934.459.916 krónur, þ.e. varnaraðili hafi skuldað sóknaraðila þá fjárhæð. Sé hins vegar á sama hátt miðað við stöðu samninganna 17. október 2008, þ.e. degi eftir yfirlýsingu varnaraðila um riftun á öllum skiptasamningum milli aðila, hafi hún verið neikvæð gagnvart varnaraðila um 3.454.166.369 krónur. Sú fjárhæð sé varakrafa hans. Mismunurinn felist í gengisbreytingum á tímabilinu frá 17. október 2008 til 22. apríl 2009. Þannig miðist hærri fjárhæðin, 3.934.459.916 krónur, við að uppgjör fari fram 22. apríl 2009, og sé sú fjárhæð hluti af aðalkröfu sóknaraðila samkvæmt kröfugerð hans, sbr. lið II hér að framan, en lægri fjárhæðin, 3.454.166.369 krónur, miðist við uppgjör 17. október 2008, og sé sú fjárhæð hluti af varakröfu hans samkvæmt sama lið.

Aðalkrafa sóknaraðila er studd þeim rökum að varnaraðila hafi verið óheimilt að rifta öllum afleiðusamningum aðila með yfirlýsingum 16. október, 31. október og 9. desember 2008, þar sem ekki hafi verið fyrir hendi neitt þeirra skilyrða fyrir riftun sem upp séu talin í 7. gr. Almennra skilmála fyrir markaðsviðskipti fagfjárfesta hjá Landsbanka Íslands hf. (hér eftir nefndir Almennir skilmálar LÍ), en þeir skilmálar gangi framar Almennum skilmálum fyrir framvirk gjaldmiðlaviðskipti og skiptasamninga (hér eftir SFF-skilmálar), sem gefnir hafi verið út af Sambandi íslenskra viðskiptabanka árið 1998. Telur sóknaraðili einnig óljóst á hverju varnaraðili hafi byggt riftun sína, enda hafi hann af því tilefni aðeins vísað almennt til 3. og 9. gr. SFF-skilmálanna og 10. gr. Almennra skilmála LÍ. Og jafnvel þótt dómurinn kæmist að þeirri niðurstöðu að ákvæði SFF-skilmálanna hefðu hér þýðingu, heldur sóknaraðili því fram að yfirlýsingar varnaraðila geti ekki talist gildar eða lögmætar riftunaryfirlýsingar, þar eð hin almenna tilvísun varnaraðila til 3. og 9. gr. SFF-skilmálanna fullnægi ekki þeim skýrleikakröfum sem gera verði til slíkra yfirlýsinga. Í því sambandi bendir hann á að varnaraðili lýsi ekki hinni meintu vanefnd, né heimfæri hana upp á SFF-skilmálana né aðra skilmála sem gilt hafi um samningssamband aðila. Í bréfi varnaraðila 16. október 2008 séu hins vegar reifuð ýmis málsatvik á borð við að varnaraðili hafi upplýsingar um að ýmsum samningum við sóknaraðila hafi verið rift, án þess að útskýrt sé hvaða þýðingu slíkt hafi fyrir réttarsamband aðila eða um hvaða samninga hafi verið að ræða. Þá sé í erindum varnaraðila einnig greint frá því að skilanefnd hafi verið skipuð, sem sóknaraðili telur ekki vera vanefndaatvik, og að sóknaraðila hafi í „raun verið skipt í tvö félög,“ þótt slíkt hafi í raun ekki verið gert, og bendi orðalag varnaraðila í bréfi hans til þess að hann hafi gert sér fulla grein fyrir því.

Sóknaraðili byggir einnig á því að jafnvel þótt erindi varnaraðila fullnægðu þeim skýrleikakröfum sem gera verði til riftunaryfirlýsinga, þá sé engu að síður ekki fullnægt efnislegum skilyrðum SFF-skilmála til að lýsa yfir riftun samninganna. Á varnaraðila hvíli sönnunarbyrði fyrir því að svo sé.

Verði hins vegar talið að efnisleg skilyrði fyrir riftun hafi verið uppfyllt, byggir sóknaraðili á því að riftunaryfirlýsing sú sem varnaraðili sendi sóknaraðila hafi ekki haft þau réttaráhrif sem varnaraðili haldi fram. Þannig segi varnaraðili í bréfi sínu 31. október 2008: „Ekki kemur til greiðslu vegna þeirra samninga þar sem tap Straums hafði myndast“, og geri varnaraðili því kröfu um að sóknaraðili greiði honum út alla þá samninga sem varnaraðili hafi hagnast á. Í fylgiskjali með bréfi varnaraðila 9. desember 2008 segi einnig: „Krafan samanstendur af þeim afleiðum milli Straums og mótaðila sem á uppgjörsdegi höfðu jákvætt núvirði, þ.e.a.s. krafan er núvirði af þeim afleiðum sem eru í skuld við Straum á riftunardegi“. Varnaraðili rökstyðji ekki frekar hví hann taki ekki tillit til samninga sem séu óhagstæðir í hans garð. Sóknaraðili hafi mótmælt þessum skilningi varnaraðila, svo og þeim útreikningi sem varnaraðili hafi lagt fram, og ítrekar hann þau mótmæli.

Fallist dómurinn á að varnaraðili hafi haft heimild samkvæmt SFF-skilmálunum til að rifta öllum gjaldeyris- og vaxtaskiptasamningum milli aðila með tilkynningu til sóknaraðila 16. október, 31. október og 9. desember 2008, byggist varakrafa sóknaraðila á því að engu að síður verði að fara fram uppgjör á öllum samningunum eins og mælt sé fyrir um í SFF-skilmálunum. Í því efni vísar sóknaraðili til 4. gr., en þó einkum gr. 4.2 í Almennum skilmálum fyrir framvirk gjaldmiðlaviðskipi og 10. gr., einkum gr. 10.2 í Almennum skilmálum fyrir skiptasamninga, en SFF-skilmálarnir skiptist í þessa tvo skilmála. Það uppgjör sem eigi að fara fram byggist á því að samningsaðilar efni ekki samninginn samkvæmt efni sínu, heldur sé virði greiðslna sem eigi að ganga á milli aðila metið. Sá sem beri ríkari skyldur, þ.e. þurfi að greiða meira greiði hinum aðilanum mismuninn af þeim greiðslum sem hann eigi að inna af hendi og þeim greiðslum sem hann eigi að fá. Með því móti fari fram „nettun“ eða skuldajöfnuður milli aðila.

Sóknaraðili mótmælir þeim málatilbúnaði varnaraðila að sá síðarnefndi beri ekki greiðsluskyldu á samningum sem báru neikvæða stöðu, þ.e. voru í tapi fyrir varnaraðila. Telur sóknaraðili að afstaða slitastjórnar varnaraðila byggi á alvarlegri mistúlkun á þeim skilmálum sem um afleiðuviðskiptin gildi. Með öllu sé órökrétt að samningar sem þessir falli með öllu niður við samningsbundna riftun. Að auki sé sú túlkun í andstöðu við tilgang skilmálanna, sem sé að mynda skyldu til uppgjörs samninga og skuldajafna þá („netta“). Í því felist ekki einungis að varnaraðili eigi rétt á greiðslu á þeim samningum sem hafi verið í hagnaði fyrir hann, heldur einnig að allir samningar á milli aðila séu gerðir upp, hvort sem þeir séu í tapi eða hagnaði. Slíkt uppgjör feli í sér „nettun“ eða skuldajöfnuð á greiðsluskyldu aðila og sé með því fundin ein nettó staða. Varnaraðili hafi verið með 12 samninga sem hafi verið í nettó neikvæðri stöðu, samtals 4.647.273.121 krónu miðað við 17. október 2008, og 13 samninga sem hafi verið í nettó jákvæðri stöðu, samtals 1.193.106.752 krónur. Neikvæð staða varnaraðila gagnvart sóknaraðila miðað við 17. október 2008 nemi því 3.454.166.369 krónum, og sé það fjárhæð varakröfu sóknaraðila.

Ástæðuna fyrir því að SFF-skilmálarnir mæli fyrir um þessa uppgjörsleið kveður sóknaraðili þá að réttindi og skyldur samkvæmt skiptasamningum séu samofin. Því væri það afar ósanngjarnt fyrir aðila að þurfa að efna skiptasamninga samkvæmt efni sínu ef mótaðili væri í þeirri aðstöðu að efna ekki sínar skyldur. Skylda til að afhenda greiðslur falli því niður, en þess í stað séu greiðslurnar látnar mætast. Oft mæli afleiðusamningar fyrir um skipti á gríðarlega stórum upphæðum og væri það bagalegt ef aðili þyrfti að efna sinn hluta samningsins en eiga einungis almenna kröfu á mótaðilann, sem jafnvel væri ekki unnt að skuldajafna samkvæmt almennum reglum gjaldþrotaréttar ef allt færi á versta veg. Í fjármálaheiminum sé litið á afleiðusamninga sem eina heild, en ekki sem röð einstakra samninga, þar sem samningarnir séu nátengdir og oft hluti af heildaráhættustýringu aðila. Um þetta sé einnig sérstaklega samið í 4. gr. Almennra skilmála LÍ, sem varnaraðili hafi undirritað, en þar segi: „Með undirritun sinni á skilmála þessa samþykkir viðskiptamaður einnig að kominn sé á skriflegur samningur við LÍ í samræmi við III. kafla laga um verðbréfaviðskipti nr. 33/2003 með síðari breytingum, um að skyldur viðskiptavinar og bankans, samkvæmt samningum um afleiður sbr. 17. gr. laga um verðbréfaviðskipti, skuli jafnast hver á móti annarri með skuldajöfnun, við endurnýjun, vanefnd, greiðslustöðvun, nauðasamninga eða gjaldþrotaskipti og að samningurinn skuli halda gildi sínu að fullu þrátt fyrir ákvæði 91. og 100. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.“ Þarna sé því beinlínis samið um það, að ef til atvika komi sem varnaraðili virðist vera að vísa til, skuli allir samningar skuldajafnast á móti hvor öðrum.

Sóknaraðili vekur einnig sérstaka athygli á því að áðurnefndir SFF-skilmálar, sem varnaraðili vísi til, hafi verið gefnir út árið 1998, en árið 2000 hafi verið lögfest skuldajafnaðarheimild sem sé nú að finna í 40. gr. laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti. Ákvæðið mæli fyrir um ríkari rétt til skuldajafnaðar vegna afleiða en gert sé ráð fyrir í almennum skuldajafnaðarmálum í 100. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., en þar sé fellt niður skilyrði 100. gr. laganna um að eigandi kröfunnar þurfi að hafa eignast hana áður en þrír mánuðir voru til frestdags. Enn fremur sé skiptastjóra bannað að nota 91. gr. laganna að því er varði afleiðusamninga, en sú grein heimili skiptastjóra að efna aðeins þá samninga sem hagstætt sé fyrir búið. Skiptastjóri geti því ekki valið hvaða afleiðusamninga hann kjósi að efna, allir hafi þeir sama gildi gagnvart þrotabúinu. Ákvæði þessi eigi aðeins við um afleiðusamninga og sýni því vel sérstöðu þeirra í íslenskum rétti. Bendir sóknaraðili á að í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 99/2000, um breytingu á þágildandi lögum um verðbréfaviðskipti nr. 13/1996 segi m.a. svo um þetta atriði: „Ástæðan fyrir undanþágunni frá 100. gr. er sú að þar er kveðið á um að hver sem skuldar þrotabúi geti dregið það frá sem hann á hjá því ef lánardrottinn hefur eignast kröfuna áður en þrír mánuðir voru til frestdags að fullnægðum frekari skilyrðum. Þessi þriggja mánaða frestur gerir það að verkum að kröfur annars aðilans samkvæmt undirsamningum á grundvelli höfuðsamningsins sem falla til innan þriggja mánaða frestsins verða ekki tækar til skuldajafnaðar. Þetta veldur óviðunandi röskun í samningnum enda eru réttindi og skyldur aðila samkvæmt slíkum samningum samofnar. Tilgangur með undanþágu frá 91. gr. gjaldþrotalaga er að koma í veg fyrir að þrotabú geti gengið inn í þá samninga sem eru hagstæðir fyrir búið en hafnað þeim eru óhagstæðir. Í flestum samningum er það þannig að báðir aðilar hafa gagn af samningnum þegar hann er gerður upp. Í afleiðusamningum er það hins vegar þannig að samningurinn felur í sér tap fyrir annan aðilann og samsvarandi hagnað fyrir hinn við uppgjörið. Þrotabú mundi þannig aðeins velja að ganga inn í þá samninga sem væru hagstæðir fyrir búið (cherry picking).“ Með þessari lagabreytingu segir sóknaraðili að innleitt hafi verið sambærilegt réttarsamband og svokallaðir ISDA-skilmálar mæli fyrir um. Fyrir lagabreytinguna hafi tilgangur Sambands íslenskra viðskiptabanka og Sambands íslenskra sparisjóða verið sá að innleiða þetta lagaumhverfi með SFF-skilmálunum. Þessi uppgjörsleið, sem SFF-skilmálarnir mæli nú fyrir um, svo og Almennir skilmálar LÍ, sé því fengin úr ISDA-samningum, sem séu það útbreiddir og notkun þeirra það almenn að þeir séu viðurkennd markaðsframkvæmd í afleiðuviðskiptum á milli banka í Íslandi. Svo almenn sé notkun þeirra að margar staðfestingar á samningum milli sóknaraðila og varnaraðila vísi í ISDA-skilmálana. Áréttar sóknaraðili að ISDA-samningurinn taki fyrir það með öllu að skuldbindingar eins aðilans falli niður, og að sá aðili sem rifti samningum sé sá aðili sem eigi að fá greitt, en beri enga greiðsluskyldu gagnvart sínum mótaðila. Á ensku hafi þetta verið kallað „cherry picking“. Í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 99/2000 sé vísað til þess að tilgangur lagabreytingarinnar sé beinlínis að koma í veg fyrir slíkt. SFF-skilmálana verði því að skoða í þessu ljósi og túlka með hliðsjón af ofangreindu.

Loks leggur sóknaraðili áherslu á að riftun sú sem varnaraðili lýsti yfir sé ekki hefðbundin riftun í kröfuréttarlegum skilningi, heldur samningsbundin riftun, og þá beri að fara eftir viðkomandi samningi, í þessu tilviki skilmálum sem búið var að semja um og riftunin byggðist á. Þeir skilmálar sem hafi mest gildi milli aðila séu Almennir skilmálar LÍ, og mæli þeir mjög skýrt fyrir um að uppgjör og skuldajöfnuður („nettun“) skuli fara fram við slíka riftun, sbr. 7. gr. þeirra, en einnig gr. 4.2 og 10.2 í SFF-skilmálunum.

Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila vegna afleiðuviðskipta verði hafnað og að dómurinn viðurkenni þess í stað kröfu hans í kjölfar riftunar afleiðusamninga, alls að fjárhæð 1.527.706.761 króna, sem komi til skuldajafnaðar við kröfur sóknaraðila. Byggist krafa hans á því að hann hafi með bréfi 16. október 2008 rift öllum skiptasamningum og samningum milli málsaðila um framvirk gjaldmiðlaviðskipti. Riftunin hafi verið reist á 3. og 9. gr. Almennra skilmála fyrir framvirk gjaldmiðlaviðskipti og skiptasamninga, útgefnum af Sambandi íslenskra viðskiptabanka (SFF-skilmálar), og 10. gr. Almennra skilmála sóknaraðila fyrir markaðsviðskipti. Með vísan til 4. og 10. gr. fyrrnefndu skilmálanna hafi sóknaraðila enn fremur verið tilkynnt að varnaraðili myndi hlutast til um útreikning á greiðsluskyldu sóknaraðila vegna riftunarinnar.

Varnaraðili segir óumdeilt að Almennir skilmálar sóknaraðila hafi tekið til hinna umdeildu afleiðuviðskipta málsaðila. Þeir skilmálar hafi hins vegar ekki að geyma nein ákvæði um áhrif vanefnda sóknaraðila sjálfs. Í 7. gr. skilmálanna sé með nokkuð ítarlegum hætti fjallað um vanefndir viðskiptamanns sóknaraðila, en í engu gert ráð fyrir þeim möguleika að sóknaraðili vanefni samning. Í 10. gr. skilmála sóknaraðila sé að finna svofellt ákvæði: „Ákvæði Almennra skilmála fyrir framvirk gjaldmiðlaviðskipti og skiptasamninga, útgefnir af Samtökum fjármálafyrirtækja, gilda einnig um öll markaðsviðskipti LÍ eftir því sem við á, þar á meðal skilgreiningar, dráttarvaxtaákvæði, vanefndaákvæði, ákvæði um greiðslur við samningsslit og ákvæði um óviðráðanleg atvik (force majeure). Ef misræmi er á milli skilmálanna gilda þeir skilmálar sem hér eru undirritaðir.“ Af þessu sé ljóst að skilmálar SFF taki við þar sem skilmálum sóknaraðila sleppi, þar á meðal vanefndaákvæði fyrrnefndu skilmálanna. Því hafi varnaraðila verið rétt að beita ákvæðum SFF-skilmálanna um riftun afleiðusamninganna og útreikning krafna í kjölfar hennar.

Af hálfu varnaraðila er á því byggt að 3. og 9. gr. SFF-skilmálanna hafi heimilað honum riftun afleiðusamninga milli aðila. Í riftunaryfirlýsingunni hafi verið vísað til upplýsinga sem varnaraðili hafi haft undir höndum um að samningar sem legðu greiðsluskyldu á sóknaraðila hefðu verið gjaldfelldir eða þeim rift vegna þeirra aðgerða sem gripið hefði verið til gagnvart bankanum af hálfu yfirvalda í október 2008. Telur varnaraðili fullyrðingu þessa óumdeilda, og hafi sóknaraðili síðar staðfest hana í sameiginlegri bókun aðila, sem lögð var fram í þinghaldi í málinu 28. október 2010. Sóknaraðili hafi einnig verið í vanskilum við varnaraðila eins og gögn málsins beri með sér. Samkvæmt gr. 3.2 og 9.2 í skilmálunum sé unnt að rifta afleiðusamningum ef samningsaðili vanefnir einhvern samning sem leggur á hann greiðsluskyldu. Fyllilega sé ljóst að sú staða hafi verið uppi 16. október 2008 eftir inngrip Fjármálaeftirlitsins í starfsemi bankans, enda hafi það komið til vegna vangetu sóknaraðila til greiðslu skuldbindinga. Í riftunaryfirlýsingunni hafi jafnframt verið tilgreind sú staðreynd að Landsbanka Íslands hf. hafi samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008 verið skipt upp í tvö félög með færslu eigna frá Landsbanka Íslands hf. til annars lögaðila með aðra kennitölu, nú NBI hf. Eftir hafi staðið tvö félög með sömu eignir og skuldir og áður hafi verið í einu félagi. Þessi aðstaða hafi þannig fallið undir gr. 3.3 og 9.3 í SFF-skilmálunum, um skiptingu samningsaðila upp í tvö félög. Samkvæmt þessu telur varnaraðili rakalausa þá staðhæfingu sóknaraðila að óljóst sé á hverju riftunin byggði. Þvert á móti hafi varnaraðili tiltekið með skýrum hætti hvaða atvik hafi leitt til riftunarinnar og vísað í því samhengi til viðeigandi ákvæða SFF-skilmálanna. Þá beri að geta þess að engar kröfur séu gerðar í þeim skilmálum til forms eða efnis riftunaryfirlýsingar, aðrar en að slík yfirlýsing sé sett fram skriflega. Engin stoð sé því fyrir fullyrðingum sóknaraðila um að svokölluðum skýrleikakröfum hafi ekki verið fullnægt.

Varnaraðili leggur áherslu á að í ákvæðum 4.1 og 10.1 í SFF-skilmálunum sé mælt fyrir um að sá samningsaðili sem vanefni samning skuli bæta þeim samningsaðila sem segi upp eða rifti samningnum allt það tjón sem hann verði fyrir vegna þessa, þar á meðal tap samkvæmt gr. 4.2 og 10.2. Með skýrum hætti sé gerður greinarmunur á uppgjöri við riftun annars vegar og samkvæmt samkomulagi hins vegar, sbr. síðari málsgrein ákvæða 4.1 og 10.1. Falli samningur úr gildi á grundvelli samkomulags aðila skuli reikna út hagnað og tap aðila vegna markaðsaðstæðna og kostnað sem samningsaðilar verði fyrir og mismunur gerður upp vegna þeirra. Falli samningur hins vegar úr gildi vegna vanefndar skuli sá sem vanefnir bæta allt tjón gagnaðila. Sé samningi rift skuli tjón þess sem riftir reiknað út fyrir hvern og einn samning. Í gr. 4.2 og 10.2 sé að finna nánari útlistun á þeim aðferðum sem beita beri við útreikning tjónsins. Þar segi að útreikningur miðist við síðasta gildisdag samnings, þ.e. við riftun, og reiknist sem núvirði mismunarins milli annars vegar þeirra greiðslna sem samningsaðili hefði átt að inna af hendi og hefði átt að fá ef samningurinn hefði haldið gildi sínu, og hins vegar þeirra greiðslna sem samningsaðilinn hefði þurft að greiða einhverjum banka fyrir að ganga inn í samninginn í stað hins samningsaðilans. Á grundvelli þessa hafi varnaraðili reiknað stöðu hvers og eins samnings (greiðslur hvors aðila látnar mætast og mismunur reiknaður). Tjón sóknaraðila hafi samanstaðið af þeim samningum þar sem hagnaður varnaraðila hafði myndast. Þar sem skilja megi umfjöllun í greinargerð sóknaraðila svo að í kröfum varnaraðila felist að greiðsluskylda sóknaraðila í hverjum samningi haldist, en skyldur varnaraðila falli niður, fullyrðir varnaraðili að sú sé ekki reyndin, heldur sé staða hvers samnings reiknuð með tilliti til skyldna beggja samningsaðila. Í skilmálunum sé hins vegar hvergi fjallað um „nettun“ á milli allra afleiðusamninga málsaðila, líkt og sóknaraðili virðist leggja til grundvallar kröfum sínum. Að áliti varnaraðila eru afleiðusamningarnir sjálfstæðir en mynda ekki eina kröfuheild.  

Þar sem varnaraðili rifti öllum samningum á grundvelli SFF-skilmálanna, sem lagðir séu til grundvallar í samningssambandi aðila, er krafa hans á því reist að uppgjör fari fram samkvæmt ákvæðum þeirra. Gagnstætt því sem sóknaraðili haldi fram álíti varnaraðili það rökrétt að sá aðili sem vanefni afleiðusamning þurfi að bera hallann af vanefndinni og bæta hinum samningsaðilanum það tjón sem orðið hafi vegna vanefndanna. Vanefndaákvæði SFF-skilmálanna geri með þessum hætti skýran greinarmun á uppgjöri vegna riftunar annars vegar og vegna samkomulags um lokun samninga hins vegar. Varnaraðili hafi orðið fyrir tjóni vegna þeirra samninga þar sem hagnaður hafði myndast og beri sóknaraðila að bæta honum það tjón. Vegna erfiðleika á fjármálamörkuðum í október 2008 hafi varnaraðili ekki getað takmarkað tjón sitt með gerð samninga við nýja mótaðila. Því verði tjón hans ekki reiknað á grundvelli slíks kostnaðar.

Varnaraðili hafnar því að ákvæði SFF-skilmálanna stangist á við lög nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti. Af orðalagi 40. gr. laganna sé ljóst að ekki sé mælt fyrir um að afleiður skuli jafnast hver á móti annarri, heldur sé þar mælt fyrir um heimild til skriflegs samnings um slíkan skuldajöfnuð, án þess að ákvæði 91. og 100. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., standi því í vegi. Með ákvæðinu sé því einungis verið að fella þessa tegund skuldajafnaðar undan ákvæðum 91. og 100. gr. laga nr. 21/1991, semji aðilar svo um. Ákvæðið breyti hins vegar í engu efni SFF-skilmálanna um afleiðingar vanefndar eða riftunar. Af þeim skilmálum sé ljóst að reikna beri tjón varnaraðila af hverjum og einum samningi. Ekki reyni á skuldajöfnuð af neinum toga, þar sem sóknaraðili eigi enga kröfu á grundvelli samninga sem rift hafi verið á grundvelli vanefnda sóknaraðila.

Vegna tilvísunar sóknaraðila til ISDA-skilmála tekur varnaraðili fram að engir slíkir skilmálar hafi verið í gildi milli málsaðila vegna afleiðuviðskipta. Tilvísun til ákvæða ISDA-samninga hafi því enga þýðingu við úrlausn málsins, enda gildi þeir skilmálar aðeins í þeim tilvikum að samningsaðilar hafi samið sérstaklega um það.

Með vísan til framaritaðs telur varnaraðili að hafna beri kröfum sóknaraðila vegna afleiðusamninga. Krafa hans á hendur sóknaraðila vegna afleiðuviðskipta nemi hins vegar 1.395.926.968 krónum, en 1.527.706.761 krónu með dráttarvöxtum, og hafi þeirri kröfu verið lýst til skuldajafnaðar gagnvart hluta krafna sóknaraðila. Varnaraðili telur í öllu falli ljóst að riftun hans á grundvelli vanefndar sóknaraðila á samningunum geti ekki undir neinum kringumstæðum leitt til greiðsluskyldu varnaraðila á grundvelli sömu samninga.

Niðurstaða

Með bréfi til sóknaraðila 16. október 2008, mótteknu 17. október, lýsti Óttar Pálsson, starfsmaður varnaraðila, yfir riftun allra samninga um framvirk gjaldmiðlaviðskipti og skiptasamninga milli aðila. Í bréfinu segir m.a. svo: „Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins þann 7. október sl. tók eftirlitið yfir vald hluthafafundar Landsbankans og vék félagsstjórn bankans í heild sinni frá störfum. Fjármálaeftirlitið skipaði jafnframt skilanefnd sem tók við öllum heimildum stjórnar bankans. Skilanefndin tók þegar til starfa. Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins þann 9. október sl. var tilteknum eignum, réttindum, skuldum og skuldbindingum Landsbanka Íslands hf. ráðstafað til Nýja Landsbanka Íslands hf. Ákvörðunin tók þegar gildi. Samkvæmt upplýsingum Straums hafa ýmsir samningar sem leggja greiðsluskyldu á Landsbankann verið felldir í gjalddaga eða þeim rift í kjölfar framangreindra atvika. Jafnframt hefur bankanum, með stofnun Nýja Landsbanka Íslands hf. og framsali tiltekinna eigna og skulda Landsbankans til hans, í raun verið skipt í tvö félög. Með vísan til framangreinds og samkvæmt heimild í almennum skilmálum fyrir framvirk gjaldmiðlaviðskipti og skiptasamninga útgefnum af Sambandi íslenskra viðskiptabanka (nú Samtökum fjármálafyrirtækja) (1. útg. 1988) („SFF-skilmálarnir“), sbr. 3. og 9. gr. SFF-skilmálanna og 10. gr. almennra skilmála fyrir markaðsviðskipti hjá Landsbanka Íslands hf., er öllum samningum milli Straums og Landsbankans um framvirk gjaldmiðlaviðskipti og öllum skiptasamningum milli sömu fyrirtækja rift þegar í stað. Straumur mun nú á grundvelli 4. og 10. gr. SFF-skilmálanna hlutast til um útreikning á greiðsluskyldu fyrirtækis yðar vegna samningslitanna. Útreikningar verða sendir fyrirtæki yðar innan fjórtán daga.“ Með bréfi varnaraðila 31. október sama ár var sóknaraðili krafinn um skaðabætur vegna tjóns varnaraðila í tilefni af riftun afleiðusamninganna. Í bréfinu var vísað til 1. og 2. mgr. 4. gr. SFF-skilmálanna. Einnig segir þar svo: „Straumur hefur orðið fyrir tjóni vegna riftunar afleiðusamninga þar sem hagnaður Straums hafði myndast. Ekki kemur til greiðslu vegna þeirra samninga þar sem tap Straums hafði myndast. Samkvæmt útreikningum nemur tjón Straums 796.922.515 íslenskum krónum og ber Landsbankanum að standa Straumi skil á þeirri upphæð. […] Tekið skal fram að vegna markaðsaðstæðna hefur reynst torveldara en ella að leggja mat á tjón Straums. Í ljósi þess er áskilinn réttur til að gera breytingar á framangreindum útreikningum gefist tilefni til og setja fram auknar kröfur um skaðabætur vegna slíkra breytinga.“

Sóknaraðili svaraði síðara bréfi varnaraðili 18. nóvember 2008 og mótmælti riftun hans á afleiðuviðskiptum aðila á grundvelli SFF-skilmálanna. Jafnframt var því mótmælt að varnaraðili tæki að sér útreikning á grundvelli þeirra skilmála og þá með þeim hætti að ekki væri tekið tillit til þeirra samninga sem væru varnaraðila í óhag, en sóknaraðili krafinn um greiðslu á samningum sem væru varnaraðila í hag. Í bréfinu var einnig bent á að um markaðsviðskipti aðila giltu Almennir skilmálar B fyrir markaðsviðskipti hjá Landsbanka Íslands hf., sem varnaraðili hefði móttekið og undirritað 23. febrúar 2005, og í því sambandi vísað til 4. og 7. gr. þeirra skilmála. Með bréfinu fylgdi útreikningur sóknaraðila á afleiðuviðskiptum aðila samkvæmt tilvitnuðum skilmálum. Samkvæmt þeim útreikningum nam nettótapstaða varnaraðila 17. október 2008 alls 3.545.166.369 krónum. Var varnaraðili krafinn um greiðslu þeirrar fjárhæðar að viðlögðum dráttarvöxtum til greiðsludags.

Enn ritaði varnaraðili sóknaraðila bréf 9. desember 2008, þar sem sóknaraðili var krafinn um frekari bætur vegna tjóns varnaraðila í tilefni af riftun umræddra samninga, þá að fjárhæð 599.004.453 krónur.

Af bréfi starfsmanns varnaraðila til sóknaraðila 16. október 2008 verður helst ráðið að varnaraðili hafi talið þau atvik sem þar eru nefnd vanefndir af hálfu sóknaraðila, sem hafi heimilað varnaraðila riftun, enda er í bréfinu beinlínis vísað til 3. og 9. gr. SFF-skilmálanna, sem fjalla um vanefndir samningsaðila og riftun í kjölfar þeirra. Þá vísar varnaraðili einnig til 10. gr. Almennra skilmála LÍ, þar sem segir að ákvæði SFF-skilmála gildi einnig um öll markaðsviðskipti sóknaraðila, eftir því sem við á, þ.á m. skilgreiningar, dráttarvaxtaákvæði, vanefndaákvæði, ákvæði um greiðslur við samningsslit og ákvæði um óviðráðanleg atvik (force majeure). Tekið er fram í lok þessarar greinar að ef misræmi er á milli skilmálanna gildi ákvæði Almennra skilmála LÍ.

Eins og fyrr greinir fjalla 3. og 9. gr. SFF-skilmálanna um vanefndir samningsaðila. Í fyrra ákvæðinu er fjallað um vanefndir samningsaðila samkvæmt samningi um framvirk gjaldmiðlaviðskipti, en í síðara ákvæðinu um vanefndir samkvæmt skiptasamningi. Að öðru leyti eru ákvæðin samhljóða. Samkvæmt gr. 3.2 og 9.2 er samningsaðila unnt að rifta öllum afleiðusamningum milli aðila vanefni gagnaðili einhvern samning sem leggur á hann greiðsluskyldu og hafi sá samningur verið gjaldfelldur vegna þess, eða vanefni hann annað ákvæði slíks samnings og samningnum hafi af þeim sökum verið rift eða hann gjaldfelldur. Í gr. 3.3 og 9.3 segir síðan að heimilt sé að rifta samningum hafi árangurslaust fjárnám verið gert hjá samningsaðila, hann leitað nauðasamninga eða óskað sjálfur eftir gjaldþrotaskiptum á búi sínu, hann sameinast öðru félagi með yfirtöku eða samruna eða verið skipt í tvö eða fleiri félög. Loks kemur fram í gr. 3.4 og 9.4 að allir afleiðusamningar milli aðila falli í gjalddaga við gjaldþrot samningsaðila.

Tekið er undir það með sóknaraðila að engar þær ástæður sem nefndar eru í yfirlýsingu varnaraðila geta talist til vanefnda samkvæmt ofangreindum ákvæðum, þannig að varnaraðila hafi af þeim sökum verið heimilt að rifta öllum afleiðusamningum þeirra í milli. Í tilvitnuðum ákvæðum er þannig ekkert fjallað um afskipti eða inngrip Fjármálaeftirlitsins í starfsemi samningsaðila, og verður með engu móti fallist á að þeim aðgerðum verði jafnað við þau atvik sem sérstaklega eru talin þar upp. Ekki verður heldur fallist á að ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008 um að ráðstafa tilteknum eignum og skuldum Landsbanka Íslands hf. til Nýja Landsbanka Íslands hf. hafi jafngilt því að sóknaraðila hafi í raun verið skipt í tvö félög. Loks hefur varnaraðili ekki fært sönnur á þá staðhæfingu sína að hann hefði upplýsingar um að „ýmsir samningar sem leggja greiðsluskyldu á Landsbankann [hafi] verið felldir í gjalddaga eða þeim rift í kjölfar framangreindra atvika,“ eins og segir í oftnefndri riftunaryfirlýsingu hans. Yfirlýsing sóknaraðila í sameiginlegri bókun aðila, sem lögð var fram í þinghaldi í máli þessu 28. október 2010, breytir engu í þessu efni, enda segir þar aðeins að óumdeilt sé að sóknaraðili hafi þegar vanefnt samninga sem lögðu á hann greiðsluskyldu þegar varnaraðili lýsti yfir riftun 16. október 2008. Ekkert segir þar hins vegar um að samningar hafi þá verið gjaldfelldir eða þeim rift, eins og skilyrði er samkvæmt gr. 3.2 og 9.2 í SFF-skilmálunum, og hefur varnaraðili ekki lagt fram nein gögn sem staðfest gætu slíkt. Í ljósi þessa var varnaraðila óheimilt að rifta afleiðusamningum milli aðila 16. október 2008.

Varnaraðili hefur lýst því yfir að óumdeilt sé að Almennir skilmálar sóknaraðila hafi gilt um afleiðuviðskipti aðila, þótt hann haldi því jafnframt fram að þeir skilmálar geymi ekki ákvæði um áhrif vanefnda sóknaraðila sjálfs. Þar sem dómurinn hefur þegar komist að þeirri niðurstöðu að sóknaraðili hafi ekki vanefnt umrædda samninga þegar riftunaryfirlýsingu var beint til hans 16. október 2008 verður við uppgjör samninganna stuðst við ákvæði Almennra skilmála LÍ, en fram er komið að varnaraðili undirritaði þá skilmála 23. febrúar 2005. Í 4. gr. þeirra er mælt fyrir um skuldajöfnun („nettun“) samninga, en samkvæmt 2. mgr. sömu greinar samþykkir viðskiptamaður að „kominn sé á skriflegur samningur við LÍ í samræmi við III. kafla laga um verðbréfaviðskipti nr. 33/2003 með síðari breytingum, um að skyldur viðskiptavinar og bankans, samkvæmt samningum um afleiður sbr. 17. gr. laga um verðbréfaviðskipti, skuli jafnast hver á móti annarri með skuldajöfnun, við endurnýjun, vanefnd, greiðslustöðvun, nauðasamninga eða gjaldþrotaskipti og að samningurinn skuli halda gildi sínu að fullu þrátt fyrir ákvæði 91. og 100. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.“, eins og þar segir. Núgildandi lög um verðbréfaviðskipti eru nr. 108/2007 og er V. kafli þeirra laga, sem ber yfirskriftina „Samningsbundið uppgjör afleiðna“, að öllu leyti samhljóða III. kafla eldri laga, nr. 33/2003, og 40. gr. núgildandi laga því samhljóða 17. gr. eldri laga.

Ofangreint ákvæði 2. mgr. 4. gr. Almennra skilmála LÍ þykir taka af tvímæli um að við þær aðstæður sem hér greinir skuli uppgjör fara fram á þann að hátt að skyldur hvors aðila samkvæmt afleiðusamningum skuli jafnast hver á móti annarri með skuldajöfnuði. Þar sem ekki er ágreiningur um útreikning aðalkröfu sóknaraðila, sem miðast við stöðu samninganna á upphafsdegi slitameðferðar beggja málsaðila, 22. apríl 2009, verður krafa hans tekin til greina, alls að fjárhæð 3.934.459.916 krónur. Að sama skapi verður kröfu varnaraðila hafnað, enda felst í útreikningi á aðalkröfu sóknaraðila að hann hafi þegar dregið frá heildarfjárhæðinni þá samninga sem varnaraðila voru hagstæðir á uppgjörsdegi. 

C.     Krafa sóknaraðila vegna tveggja skuldabréfa (STRB 04 3 og STRB 08 7) og kröfur                              varnaraðila um skuldajöfnuð

Sóknaraðili gerir kröfu um að við slit varnaraðila verði viðurkenndar tvær kröfur hans á grundvelli skuldabréfa, sem gefin voru út af varnaraðila. Annað skuldabréfið ber heitið STRB 04 3, að nafnverði 4.300.304.160 krónur, en 4.477.922.420 krónur að meðtöldum vöxtum til 22. apríl 2009, en hitt ber heitið STRB 08 7, að nafnverði 5.000.000.000 króna, en 5.212.111.111 krónur með vöxtum til 22. apríl 2009. Kröfur þessar eru hluti af heildarfjárhæð aðalkröfu sóknaraðila í íslenskum krónum. Enginn ágreiningur er um fjárhæðir krafnanna. 

Varnaraðili krefst þess að viðurkenndur verði réttur hans til að skuldajafna eftirgreindum fjárhæðum við kröfur sóknaraðila: 7.585.116.303 krónum miðað við 27. janúar 2009, 587.899.958 krónum miðað við 9. febrúar 2009 og 17.019.027.973 krónum miðað við 18. september 2009. Samtals hefur varnaraðili því lýst yfir skuldajöfnuði á 25.192.044.234 krónum á móti kröfum sóknaraðila, sem sundurliðast nánar þannig:

1.     Varnaraðili gjaldfelldi 27. janúar 2009 skuldabréf, útgefið af sóknaraðila í júní 2006, á lokagjalddaga 1. júní 2011, (LAIS 06 4, ISIN IS0000013043), að nafnverði 8.950.000.000 króna. Hluti fjárhæðarinnar var greiddur með skuldajöfnuði við kröfu sóknaraðila á hendur varnaraðila samkvæmt skuldabréfi að fjárhæð 7.200.000.000 króna á gjalddaga 27. janúar 2009. Fjárhæð til greiðslu á gjalddaga var 7.585.116.303 krónur.

2.     Vaxtagreiðslum varnaraðila samkvæmt tveimur skuldabréfum í eigu sóknaraðila (STRB 04 3 og STRB 08 7), samtals að fjárhæð 587.899.958 krónum, var skuldajafnað 9. febrúar 2009 upp í kröfu varnaraðila samkvæmt ofangreindu skuldabréfi, LAIS 06 4, ISIN IS0000013043. Vaxtagreiðsla vegna STRB 04 3 á gjalddaga 1. nóvember 2008 nam 129.774.958 krónum, en vaxtagreiðsla vegna STRB 08 7 á gjalddaga 3. nóvember 2008 nam 216.722.222 krónum og 241.402.778 krónum á gjalddaga 2. febrúar 2009.

3.     Varnaraðili gjaldfelldi 18. september 2009 skuldabréf, útgefið af sóknaraðila 11. apríl 2006, á lokagjalddaga 11. apríl 2011, (LAIS 06 3, ISIN IS0000012490), að nafnverði 5.600.000.000 króna. Sóknaraðili stóð ekki skil á greiðslu afborgunar 11. apríl 2009. Gjaldfelldri fjárhæð, 4.700.333.027 krónum, var skuldajafnað á móti kröfum sóknaraðila á hendur varnaraðila.

4.     Varnaraðili gjaldfelldi 18. september 2009 skuldabréf, útgefið af sóknaraðila 7. maí 2008, á lokagjalddaga 3. maí 2010, (LAIS 10 0503 ISIN IS0000017945), að nafnverði 5.000.000.000 króna. Sóknaraðili greiddi ekki afborganir 3. nóvember 2008 og 2. febrúar 2009. Gjaldfelldri fjárhæð, 5.708.034.121 krónu, var skuldajafnað á móti kröfum sóknaraðila á hendur varnaraðila.

5.     Eftirstöðvum skuldabréfs, nefnt LAIS 06 4, ISIN IS0000013043, að teknu tilliti til skuldajafnaðar samkvæmt 1. og 2. tölulið hér að ofan, eða alls 3.866.987.654 krónum, var skuldajafnað 18. september 2009 á móti kröfum sóknaraðila á hendur varnaraðila.

6.     Varnaraðili var eigandi að skuldabréfi sem gefið var út af sóknaraðila 21. mars 2005 undir heitinu „Euro Medium Term Note Programme“ ISIN XS0215360248, að nafnverði 3.800.000 evrur. Sóknaraðili stóð ekki skil á vaxtagreiðslum á gjalddögum. Gjaldfelldi varnaraðili skuldabréfið 18. september 2009 og lýsti yfir skuldajöfnuði á gjaldfallinni fjárhæð, 673.750.967 krónum, á móti kröfum sóknaraðila.

7.     Aðilar áttu í „stundarviðskiptum“ með gjaldeyri 3. október 2008 sem fólust í því að sóknaraðili skuldbatt sig til að afhenda varnaraðila 1.000.000 evra 7. október 2008, en varnaraðili að afhenda sóknaraðila á sama degi 171.000.000 króna. Varnaraðili greiddi sóknaraðila samningsfjárhæðina á umsömdum degi, en sóknaraðili greiddi ekki evrur á móti. Með bréfi 18. september 2009 lýsti varnaraðili yfir skuldajöfnuði á kröfunni, þá að fjárhæð 176.904.372 krónur 18. september 2009, upp í kröfur sóknaraðila.

8.     Varnaraðili tilkynnti sóknaraðila 1. september 2008 að hann hygðist nýta sér sölurétt á hlutum í AB Capital ehf. samkvæmt samningi aðila 26. febrúar 2007. Tekið var fram að sölurétturinn tæki til 18.045.200 hluta fyrir 300.000.000 króna og átti sóknaraðili að greiða kaupverðið inn á reikning varnaraðila 30. september 2008. Það var þó ekki gert. Í bréfi varnaraðila 18. september 2009 lýsti hann yfir skuldajöfnuði fjárhæðarinnar, þá 341.979.167 krónum, upp í kröfur sóknaraðila.

9.     Í títtnefndu bréfi varnaraðila frá 18. september 2009, lýsti hann einnig yfir skuldajöfnuði á kröfu sinni vegna afleiðuviðskipta, sbr. umfjöllun hér að ofan undir lið B. Eins og þar kemur fram nam fjárhæðin 1.395.926.968 krónum, en 1.527.706.761 krónu með dráttarvöxtum.

10.   Í sama bréfi, 18. september 2009, lýsti varnaraðili loks yfir skuldajöfnuði á kröfu sinni á hendur sóknaraðila vegna fjármagnstekjuskatts að fjárhæð 23.331.904 krónur, sem sóknaraðila bar að endurgreiða varnaraðila í tilefni af skiptingu og samruna félaganna Straums og Burðaráss. Gjalddagi reiknings var 18. desember 2007, en eindagi 28. sama mánaðar.

         Samtala fjárhæða samkvæmt töluliðum 3 til 10 hér að ofan nemur 17.019.027.973 krónum.

         Hvorki er ágreiningur með aðilum um fjárhæðir krafna sóknaraðila samkvæmt þessum lið né fjárhæðir krafna varnaraðila um skuldajöfnun.

Sóknaraðili krefst þess að kröfum varnaraðila um skuldajöfnuð verði hafnað, enda hafi varnaraðili ekki haft ráðstöfunarrétt yfir kröfunum, þar sem þær hafi á sama tíma verið veðsettar Seðlabanka Íslands. Því til stuðnings vísar hann til tilkynningar frá Seðlabanka Íslands til slitastjórnar sóknaraðila frá 30. október 2009, þar sem fram komi að varnaraðili hafi á árinu 2008 veðsett Seðlabankanum eftirtalin skuldabréf, útgefin af sóknaraðila: LAIS 06 3, að nafnverði 5.600.000.0000 króna, LAIS 06 4, að nafnverði 8.950.000.000 króna og LAIS 10 0503, að nafnverði 5.000.000.000 króna. Á grundvelli þessara skuldabréfa hafi Seðlabanki Íslands jafnframt lýst kröfu sinni við slitameðferð sóknaraðila. Jafnframt vísar sóknaraðili til fyrirliggjandi yfirlýsingar varnaraðila til Seðlabanka Íslands 19. mars 2008, þar sem varnaraðili setur Seðlabankanum að veði VS-reikning sinn við bankann, ásamt allri þeirri verðbréfaeign sem á hverjum tíma sé skráð á reikninginn. Í yfirlýsingunni segi berum orðum að veðsala sé óheimilt að ráðstafa veðandlaginu með hvaða hætti sem er, nema hann hafi áður fengið til þess skriflegt leyfi Seðlabankans. Þar sem ekkert slíkt leyfi hafi legið fyrir byggir sóknaraðili á því að varnaraðila hafi verið óheimilt að ráðstafa skuldabréfunum með skuldajöfnuði. Vísar sóknaraðili hér einnig til 11. gr. laga um samningsveð nr. 75/1997.

Sóknaraðili byggir einnig á því að varnaraðili hafi ekki afhent umrædd skuldabréf samhliða því sem lýst var yfir skuldajöfnuði. Þar sem skuldabréfin voru handhafabréf, telur sóknaraðili að varnaraðila hafi borið skylda til að afhenda þau um leið og lýst var yfir skuldajöfnuði, enda hafi sóknaraðili ekki fyrr getað gengið úr skugga um eignarhald varnaraðila á þeim. Bendir sóknaraðili á að varnaraðili hafi ekki afhent bréfin fyrr en í maí árið 2010, og þá í kjölfar áskorunar sóknaraðila þess efnis í marsmánuði sama ár.

Sóknaraðili mótmælir sérstaklega kröfu varnaraðila um skuldajöfnuð að fjárhæð 176.904.372 krónur vegna „stundarviðskipta“ aðila, sbr. 7. tölulið hér að ofan. Bendir hann á að sóknaraðili sé í slitameðferð, og gildi því ýmsar reglur laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., um sóknaraðila, þ.m.t. reglur um meðferð krafna á hendur fjármálafyrirtæki í slitameðferð. Þannig taki 100. gr. þeirra laga fyrir að sá sem eigi kröfu á fjármálafyrirtæki í slitameðferð geti skuldajafnað henni, ef hann hefur eignast kröfuna eftir að þrír mánuðir eru til frestdags. Umrædd viðskipti með gjaldeyri hafi verið ákveðin 3. október 2008, en varnaraðili eignast kröfuna á sóknaraðila 7. október sama ár, þ.e. þegar hann afhenti krónur, en fékk ekki afhentar evrur. Frestdagur sóknaraðila sé 15. nóvember 2008, og telur sóknaraðili því augljóst að 100. gr. laga nr. 21/1991 komi í veg fyrir að varnaraðili geti notað kröfuna til skuldajöfnunar.

Varnaraðili hafnar alfarið kröfum og sjónarmiðum sóknaraðila og byggir á því að honum hafi verið heimilt að lögum að skuldajafna kröfum sínum á hendur sóknaraðila, enda hafi öll skilyrði skuldajafnaðar verið uppfyllt þegar skuldajöfnuði var lýst yfir af hans hálfu.

Þannig hafi kröfur málsaðila í fyrsta lagi verið sambærilegar, en í því felist að sú greiðsla sem gagnkrafan hljóðar um (krafa varnaraðila) sé eftir tegund sinni nothæf til réttra efnda á aðalkröfunni (kröfu sóknaraðila). Þar sem allar kröfur málsaðila séu um greiðslu peninga megi ljóst vera að þessu skilyrði sé fullnægt.

Í öðru lagi hafi kröfur aðila verið hæfar til að mætast. Í þessu skilyrði felist að sá tími þurfi að vera kominn að krefjast megi greiðslu á kröfunni sem nota eigi til skuldajafnaðar og að þá kröfu megi greiða, er ljúka eigi með skuldajöfnuði. Með öðrum orðum þurfi kröfur beggja aðila að vera fallnar í gjalddaga. Byggir varnaraðili á því að sú hafi verið raunin í þessu máli og gerir grein fyrir tilefni gjaldfellingar hverrar kröfu fyrir sig. Sem frekari rökstuðning fyrir heimild sinni til gjaldfellingar skuldabréfa samkvæmt 1. til 6. tölulið hér að framan, svo og vegna skuldajafnaðar á kröfu vegna gjaldeyrisviðskipta, sbr. 7. tölulið hér framan, leggur varnaraðili áherslu á eftirfarandi:

Í skráningarlýsingu LAIS 06 4 komi fram undir kaflanum „Viðtökudráttur og vanskil“, að heimilt sé að fella alla skuldina samkvæmt bréfinu í gjalddaga fyrirvaralaust og án uppsagnar leiti skuldari nauðasamninga eða sé bú hans tekið til gjaldþrotaskipta. Telur varnaraðili að þegar skuldajöfnuði var lýst yfir af hans hálfu, 27. janúar 2009, hafi skilyrði sem jafna megi til gjaldþrots verið fyrir hendi. Á grundvelli þeirra aðgerða sem gripið hafi verið til af hálfu stjórnvalda gagnvart sóknaraðila, sbr. einkum ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 7. október 2008, um skipan skilanefndar fyrir sóknaraðila, telur varnaraðili ljóst að sóknaraðili hafi þá verið orðinn ógjaldfær. Einnig er á því byggt að varnaraðila hafi verið heimilt að gjaldfella skuldabréfið á grundvelli almennra reglna kröfuréttar um fyrirsjáanlega vanefnd. Almennt sé viðurkennt að greiðsluþrot skuldara feli í sér sérstakt tilvik af fyrirsjáanlegri vanefnd, sem veitt geti kröfuhafa heimild til riftunar. Samkvæmt framangreindu telji varnaraðili óumdeilt að frá og með 7. október 2008 hafi verið fyrirsjáanlegt að sóknaraðili gæti ekki staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt skuldabréfinu. Nefnir hann einnig að meðal skilyrða fyrir skipan skilanefndar hafi verið að líkur væru á að sóknaraðili gæti ekki staðið við skuldbindingar sínar gagnvart viðskiptavinum og kröfuhöfum, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., sbr. núgildandi VI. ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.

Í skráningarlýsingu LAIS 06 3 komi fram undir kaflanum „Viðtökudráttur og vanskil“ að hafi greiðsla ekki verið innt af hendi 14 dögum eftir gjalddaga sé skuldabréfaeiganda heimilt að fella skuldina í gjalddaga fyrirvaralaust og án uppsagnar. Þar sem sóknaraðili hafi ekki staðið skil á afborgun á gjalddaga bréfsins 11. apríl 2009 telur varnaraðili að sér hafi verið heimilt að gjaldfella skuldabréfið 18. september 2009. Jafnframt byggir hann á því að gjaldfelling hafi verið heimil að grundvelli hinnar almennu reglu kröfuréttar um fyrirsjáanlega vanefnd.  

Í skráningalýsingu LAIS 10 0503 komi fram undir kaflanum „Event of default and enforcement“ að sé ekki staðið í skilum á höfuðstól eða vaxtagreiðslum falli bréfið án tafar í gjalddaga. Þar sem sóknaraðili stóð ekki skil á vaxtagreiðslum á vaxtagjalddögum bréfsins 3. nóvember 2008 og 2. febrúar 2009 telur varnaraðili að sér hafi verið heimilt að gjaldfella skuldabréfið 18. september 2009. Jafnframt er á því byggt að gjaldfelling hafi verið heimil á grundvelli hinnar almennu reglu kröfuréttar um fyrirsjáanlega vanefnd. 

Í skráningarlýsingu skuldabréfs „Euro Medium Term Note Programme,“ ISIN XS0215360248, komi fram undir kaflanum „Events of default Relating to Capital Notes“ að hafi greiðsla afborgana ekki verið innt af hendi þremur dögum eftir gjalddaga, eða hafi greiðsla vaxta ekki verið innt af hendi sjö dögum eftir gjalddaga, falli bréfið í gjalddaga. Þar sem sóknaraðili hafi ekki staðið skil á vaxtagreiðslum á vaxtagjalddögum bréfsins telur varnaraðili að heimilt hafi verið að gjaldfella skuldabréfið 18. september 2009. Að auki er á því byggt að inngrip Fjármálaeftirlitsins í starfsemi sóknaraðila teljist vanefnd samkvæmt fyrrgreindum kafla skráningarlýsingarinnar, og þar með grundvöllur gjaldfellingar. Sem fyrr byggir varnaraðili einnig á því að gjaldfelling hafi verið heimil á grundvelli hinnar almennu reglu kröfuréttar um fyrirsjáanlega vanefnd.

Varnaraðili byggir á því að allar kröfur hans samkvæmt töluliðum 1 til 10 hér að framan hafi verið fallnar í gjalddaga þegar skuldajöfnuði var lýst yfir. Þar af leiðandi hafi þær verið hæfar til að mætast og því skilyrði þannig fullnægt. Öðrum skilyrðum skuldajafnaðar hafi einnig verið fullnægt. Kröfurnar hafi þannig verið gagnkvæmar, þær hafi verið skýrar, ótvíræðar og gildar, en einnig frjálsar varnaraðila til ráðstöfunar. Að því er varðar síðastgreinda atriðið mótmælir varnaraðili þeirri málsástæðu sóknaraðila að varnaraðili hafi ekki haft fullan ráðstöfunarrétt yfir kröfunum. Enn fremur kveðst varnaraðili ósammála þeirri ályktun sóknaraðila að þar sem kröfurnar hafi verið veðsettar Seðlabanka Íslands hafi hvorki verið fullnægt skilyrðinu um að kröfur varnaraðila hafi verið gildar né hæfar til að mætast, enda hafi hugsanleg veðsetning krafna engin áhrif á umrædd skilyrði skuldajafnaðar. Um það vísar hann nánar til þess sem áður hefur verið rakið um skilyrðin tvö.

Vegna mótmæla sóknaraðila á kröfu varnaraðila um skuldajöfnuð á 176.904.372 krónum á móti kröfum sóknaraðila, sbr. 7. tölulið hér að framan, áréttar varnaraðili að hann telji öllum skilyrðum skuldajafnaðar fullnægt. Einnig byggir hann á því að um afleiðuviðskipti hafi verið að ræða og bendir í því sambandi á að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum telji sóknaraðili viðskiptin falla í flokk afleiðuviðskipta. Aðilar deili því sýnilega ekki um það atriði. Af því leiði að um viðskiptin hafi gilt Almennir skilmálar sóknaraðila fyrir markaðsviðskipti frá 23. febrúar 2005. Í 4. gr. þeirra komi fram að „með undirritun sinni á [hina Almennu skilmála sóknaraðila] samþykkir viðskiptamaður [varnaraðili] einnig að kominn sé á skriflegur samningur við [sóknaraðila] í samræmi við III. kafla laga um verðbréfaviðskipti nr. 33/2003 með síðari breytingum [nú V. kafli laga nr. 108/2007], um að skyldur viðskiptavinar [varnaraðila] og bankans [sóknaraðila], samkvæmt samningum um afleiður, sbr. 17. gr. [eldri] laga um verðbréfaviðskipti, skuli jafnast hver á móti annarri með skuldajöfnun, við endurnýjun, vanefnd, greiðslustöðvun, nauðasamninga eða gjaldþrotaskipti og að samningurinn skuli halda gildi sínu að fullu þrátt fyrir ákvæði 91. og 100. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.“ Telur varnaraðili að af þessu leiði að 100. gr. gjaldþrotaskiptalaga eigi ekki við í málinu, og hafi varnaraðila því verið heimilt að skuldajafna kröfu sinni við vanefnd sóknaraðila á samningi aðila um stundarviðskiptin. Kröfu sinni til áréttingar vísar varnaraðili einnig til 40. gr. laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti.

Verði hins vegar talið, gegn væntingum varnaraðila, að ekki hafi verið um afleiðuviðskipti að ræða telur varnaraðili eftir sem áður að skuldajöfnuður sé tækur. Samkvæmt samkomulagi aðila hafi gagnkvæmur gjalddagi krafna vegna gjaldeyrisviðskiptanna verið 7. október 2008. Á þeim degi hafi varnaraðili greitt sóknaraðila 171.000.000 krónur. Að sama skapi hafi sóknaraðila borið að greiða varnaraðila 1.000.000 evra. Það hafi hann hins vegar ekki gert. Af þeirri ástæðu hafi varnaraðili með bréfi 18. september 2009 skuldajafnað þessari kröfu upp í hluta krafna sóknaraðila.

Í þessu sambandi bendir varnaraðili einnig á að í íslenskum kröfurétti sé réttur til gagnkvæms skuldajafnaðar viðurkenndur þegar kröfur séu samrættar. Almennt sé talið að réttur til skuldajafnaðar sé rýmri en ella þegar um samrættar kröfur sé að ræða. Í 100. gr. laga nr. 21/1991 sé að finna sérreglur um skuldajöfnuð sem taki til tilvika þar sem kröfur hafi ekki stofnast á sama tíma. Viðurkenndur sé mjög víðtækur skuldajafnaðarréttur skuldunautar gagnvart þrotabúi í slíkum tilvikum og sæti hann því aðeins takmörkunum að gagnaðili þrotabúsins hafi eignast kröfu sína á afmörkuðum tíma skömmu fyrir það tímamark sem telst vera frestdagur við skipti á viðkomandi þrotabúi. Telur varnaraðili að í umræddri lagareglu felist ekki takmörkun á skuldajafnaðarrétti þegar til réttinda og skyldna stofnast á sama tíma. Slík niðurstaða leiddi til þeirrar óeðlilegu niðurstöðu að búið hagnaðist á kostnað einstakra kröfuhafa. Sá hafi ekki verið tilgangur ákvæðisins heldur hafi því verið ætlað að koma í veg fyrir að einstakir kröfuhafar gætu eignast gagnkröfur til skuldajafnaðar skömmu fyrir frestdag, gagnvart skuldum sem viðkomandi kröfuhafar höfðu stofnað til áður.

Niðurstaða

Með yfirlýsingu 19. mars 2008 veðsetti varnaraðili Seðlabanka Íslands VS-reikning sinn, ásamt allri þeirri verðbréfaeign sem á hverjum tíma var skráð á reikninginn. Veðið var sett til tryggingar öllum fjárskuldbindingum sem varnaraðili tókst á hendur gagnvart Seðlabankanum. Í yfirlýsingunni segir m.a. svo: „Veðsali lýsir því yfir og ábyrgist að verðbréf þau sem vistuð eru á VS-reikningnum eru að öllu leyti kvaðalaus og á þeim hvíla engin veðbönd eða fyrirvarar um eignarrétt veðsala eða annarra.“ Einnig segir þar: „Veðsala er óheimilt að ráðstafa veðandlaginu með hvað hætti sem er nema hann hafi áður fengið til þess skriflegt leyfi Seðlabankans …“  Fram kemur einnig í yfirlýsingunni að veðsetning þessi sé tilkynnt Verðbréfaskráningu Íslands hf., þar sem fram komi að Seðlabanki Íslands sé skráður rétthafi VS-reikningsins og þeirrar verðbréfaeignar sem á hverjum tíma sé skráð á reikninginn. Meðal gagna málsins er einnig tilkynning frá Seðlabanka Íslands til slitastjórnar sóknaraðila, dagsett 30. október 2009, þar sem viðtakanda er greint frá því að Seðlabanka Íslands hafi verið veðsett verðbréf, útgefin af sóknaraðila á árinu 2008 í veð- og daglánaviðskiptum bankans við fjármálastofnanir. Tekið er fram að sá hluti veð- og daglána Seðlabankans, sem tryggður sé með verðbréfum þessum, hafi verið framseldur Ríkissjóði Íslands með samkomulagi 12. janúar 2009, og hafi yfirtaka krafnanna miðast við 31. desember 2008. Jafnframt segir þar að Seðlabankinn fari með umsýslu þessara krafna fyrir hönd Ríkissjóðs. Í tilkynningunni eru loks talin upp þau verðbréf sem veðsett voru, svo og nafnverð þeirra. Þeirra á meðal eru eftirtalin skuldabréf, sem veðsett voru af varnaraðila:

LAIS 06 3

Nafnverð ISK 5.600.000.000

LAIS 06 4

Nafnverð ISK 8.950.000.000

LAIS 10 0503

Nafnverð ISK 5.000.000.000

Af hálfu varnaraðila er því ekki mótmælt að Seðlabanki Íslands hafi á grundvelli þessara skuldabréfa lýst kröfu við slitameðferð sóknaraðila.

Tilkynning Seðlabanka Íslands til slitastjórnar sóknaraðila er dagsett 30. október 2009, og því löngu eftir að varnaraðili gjaldfelldi tvö síðastnefndu skuldabréfin og lýsti yfir skuldajöfnuði þeirra við kröfur sóknaraðila, þ.e. 27. janúar 2009, en rúmum mánuði eftir að varnaraðili gjaldfelldi fyrsta skuldabréfið, 18. september 2009, og lýsti yfir skuldajöfnuði þess við kröfur sóknaraðila. Ljóst er því að varnaraðili hafði ekki ráðstöfunarrétt yfir skuldabréfunum á þeim tíma sem lýst var yfir skuldajöfnuði þeirra gagnvart kröfum sóknaraðila. Samkvæmt skýru ákvæði í áðurnefndri yfirlýsingu varnaraðila til Seðlabanka Íslands um veðsetningu VS-reiknings hans hjá Seðlabankanum, en einnig með vísan til 11. gr. laga nr. 75/1997, um samningsveð, var honum óheimilt að ráðstafa veðandlaginu án skriflegs leyfis Seðlabankans. Þar sem ekkert slíkt leyfi lá fyrir, verður á það fallist með sóknaraðila að hafna beri kröfum varnaraðila um skuldajöfnuð þessara krafna á móti kröfum sóknaraðila, sbr. töluliði 1 til 5 hér að ofan.

Ágreiningslaust er að sóknaraðili stóð ekki skil á vaxtagreiðslum á gjalddögum skuldabréfs  sem nefnt er „Euro Medium Term Note Programme“  ISIN XS0215360248, að nafnverði 3.800.000 evrur. Samkvæmt heimild í skráningarlýsingu skuldabréfsins gjaldfelldi varnaraðili skuldabréfið vegna vanefnda 18. september 2009 og lýsti sama dag yfir skuldajöfnuði gagnvart kröfum sóknaraðila. Um heimild til gjaldfellingar var einnig vísað til afskipta Fjármálaeftirlitsins af starfsemi sóknaraðila.

Af tilvitnaðri skráningarlýsingu þykir ljóst að varnaraðila var heimilt að gjaldfella alla skuldina samkvæmt skuldabréfi þessu vegna greiðslufalls sóknaraðila á vöxtum og afborgunum, og síðar í tilefni af töku sóknaraðila til slitameðferðar 22. apríl 2009, sbr. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 21/1991 og 1. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, með áorðnum breytingum. Á grundvelli 1. mgr. 100. gr. laga nr. 21/1991 var honum og heimilt að skuldajafna gjaldfallinni fjárhæð, 673.750.967 krónum, á móti kröfum sóknaraðila. Verður því krafa varnaraðila samkvæmt 6. tölulið hér að framan tekin til greina.

Í 7. tölulið er greint frá því að aðilar hafi átt í „stundarviðskiptum“ með gjaldeyri 3. október 2008. Samkvæmt staðfestingu fyrir viðskiptum þessum, sem liggur frammi í málinu, átti sóknaraðili 7. október 2008 að kaupa af varnaraðila 171.000.000 króna, en selja varnaraðila á móti 1.000.000 evra á sama degi. Varnaraðili greiddi sóknaraðila fjárhæðina á umsömdum degi, en sóknaraðili afhenti ekki evrur á móti.

Varnaraðili telur að fullnægt sé öllum skilyrðum skuldajafnaðar vegna kröfu þessarar, en byggir einnig á því að viðskipti þessi hafi verið afleiðuviðskipti, og að um uppgjör þeirra eigi að fara samkvæmt fyrirmælum í Almennum skilmálum sóknaraðila fyrir markaðsviðskipti. Sóknaraðili hafnar því hins vegar að krafa þessi sé tæk til skuldajafnaðar þar sem varnaraðili hafi ekki eignast kröfuna fyrr en 7. október 2008, og því innan þeirra tímamarka sem 1. mgr. 100. gr. laga nr. 21/1991 heimili ekki að kröfum verði skuldajafnað.

Í áðurnefndri staðfestingu fyrir „stundarviðskiptum“ kemur fram að um viðskiptin gildi  Almennir skilmálar sóknaraðila um markaðsviðskipti, sem varnaraðili undirritaði 23. febrúar 2005. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. þeirra samþykkti viðskiptamaður að kominn væri á skriflegur samningur við sóknaraðila í samræmi við ákvæði III. kafla laga um verðbréfaviðskipti nr. 33/2003 [nú V. kafla laga nr. 108/2007] um að skyldur viðskiptavinar og bankans samkvæmt samningum um afleiður, sbr. 17. gr. laga um verðbréfaviðskipti [nú 40. gr. laga nr. 108/2007], skyldu jafnast hver á móti annarri með skuldajöfnun, við endurnýjun, vanefnd, greiðslustöðvun, nauðasamninga eða gjaldþrotaskipti og að samningurinn skyldi halda gildi sínu að fullu, þrátt fyrir ákvæði 91. og 100. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Með því telur varnaraðili að 100. gr. gjaldþrotaskiptalaga eigi ekki við í málinu, og hafi honum því verið heimilt að skuldajafna kröfu sinni við kröfu sóknaraðila.

Þrátt fyrir að í staðfestingu fyrir umræddum viðskiptum sé vísað til Almennra skilmála sóknaraðila, getur dómurinn ekki fallist á að viðskiptin falli í flokk þeirra afleiðusamninga sem taldir eru upp í d. – h. liðum 2. tl. 1. mgr. 2. gr. laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007. Af því leiðir að ákvæði 40. gr. sömu laga, sbr. og 39. gr. þeirra, veitir ekki heimild til frávika frá því skilyrði 1. mgr. 100. gr. laga nr. 21/1991 að skuldajöfnuði verði aðeins beitt hafi lánardrottinn eignast kröfuna áður en þrír mánuðir voru til frestdags. Þar sem frestdagur sóknaraðila var 15. nóvember 2008, en varnaraðili eignaðist kröfuna 7. október sama ár, verður fallist á það með sóknaraðila að 1. mgr. 100. gr. laga nr. 21/1991 komi í veg fyrir að varnaraðili geti notað kröfu þessa til skuldajafnaðar gagnvart kröfum sóknaraðila.

Sóknaraðili hefur ekki fært rök fyrir mótmælum sínum gegn kröfum varnaraðila um skuldajöfnuð samkvæmt 8. og 10. tölulið hér að framan. Annars vegar krefst varnaraðili skuldajafnaðar fyrir 341.979.167 krónum vegna söluréttar varnaraðila á hlutum í AB Capital ehf., en hins vegar fyrir 23.331.904 krónum vegna vangoldins fjármagnstekjuskatts sóknaraðila. Í báðum tilvikum var skuldajöfnuði lýst yfir 18. september 2009. Þar sem ekki verður séð að neitt standi því í vegi að kröfum þessum verði skuldajafnað á móti kröfum sóknaraðila verður fallist á þá kröfu varnaraðila.

Í 9. tölulið hér að framan gerir varnaraðili grein fyrir kröfu sinni um skuldajöfnuð vegna afleiðuviðskipta aðila, alls að fjárhæð 1.527.706.761 króna. Dómurinn hefur þegar fjallað um kröfu þessa undir lið B hér að ofan. Fram kom þar að hafna bæri kröfu varnaraðila og að við uppgjör afleiðuviðskiptanna hefði sóknaraðili dregið frá heildarfjárhæð sinni þá samninga sem varnaraðila voru hagstæðir á uppgjörsdegi. Skuldajöfnuði er því hafnað.

Samkvæmt því sem að framan greinir er það niðurstaða dómsins í þessum lið málsins að viðurkenndar verða kröfur sóknaraðila á hendur varnaraðila vegna tveggja skuldabréfa, útgefnum af varnaraðila og nefnd STRB 04 3 og STRB 08 7, samtals að fjárhæð 9.690.033.531 króna (5.212.111.111 + 4.477.922.420). Í samantekt, sem fylgdi bókun sóknaraðila um endanlega kröfugerð hans, 9. desember sl., er gjalddagi beggja krafnanna sagður 22. apríl 2009, og hafa þær því verið vaxtareiknaðar til þess dags. Viðurkenndur er einnig réttur varnaraðila til að skuldajafna 1.039.062.038 krónum (673.750.967 + 341.979.167 + 23.331.904) við kröfur sóknaraðila á hendur varnaraðila.

IV

Hér að framan hefur verið leyst úr öllum ágreiningsatriðum þessa máls. Er niðurstaðan sú að við slit varnaraðila beri að viðurkenna kröfu sóknaraðila sem almenna kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991, eins og nánar greinir í dómsorði. Jafnframt er viðurkenndur réttur varnaraðila til að skuldajafna 1.039.062.038 krónum á móti kröfum sóknaraðila, og miðast skuldajöfnuður við 18. september 2009.

Þar sem varnaraðili hefur í öllu verulegu tapað máli þessu verður hann úrskurðaður til greiðslu málskostnaðar, sbr. 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, og þykir hann hæfilega ákveðinn 2.500.000 krónur.

Ingimundur Einarsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Krafa sóknaraðila, Landsbanka Íslands hf., við slit varnaraðila, Straums – Burðaráss fjárfestingabanka hf., nú ALMC hf., er viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991, þannig:

Að fjárhæð 40.990.255.669 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 20.062.222.222 krónum frá 9. október 2008 til 6. nóvember s.á., en af 27.365.762.222 krónum frá þeim degi til 22. apríl 2009.

Að fjárhæð 45.081.123,29 bresk pund, ásamt 9,4% ársvöxtum frá 8. október 2008 til 22.               apríl 2009.

Að fjárhæð 21.100.240,00 Kanadadollarar, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 3. nóvember 2008 til 22. apríl 2009.

Að fjárhæð 45.226.444,44 Bandaríkjadalir, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 20.024.222,22 Bandaríkjadölum frá 14. október 2008 til 13. nóvember s.á., en af 45.226.444,44 Bandaríkjadölum frá þeim degi til 22. apríl 2009.

Viðurkenndur er réttur varnaraðila til að skuldajafna 1.039.062.038 krónum á móti kröfum sóknaraðila, og miðast skuldajöfnuður við 18. september 2009.

Varnaraðili greiði sóknaraðila 2.500.000 krónur í málskostnað.