Hæstiréttur íslands
Mál nr. 157/2003
Lykilorð
- Skip
- Útgerð
- Vátryggingarsamningur
|
|
Fimmtudaginn 23. október 2003. |
|
Nr. 157/2003. |
Tryggingamiðstöðin hf. (Guðmundur Pétursson hrl.) gegn Útgerðarfélagi Bjarma ehf. (Reinhold Kristjánsson hrl.) |
Skip. Útgerð. Vátryggingarsamningur.
Á árinu 1999 keypti Ú ehf. húftryggingu hjá T hf. vegna fiskiskipsins B. Um vátryggingarsamninginn skyldu gilda tryggingaskilmálar T hf., sem meðal annars kváðu á um að ef eigendaskipti yrðu að skipinu, eða það yrði sett undir aðra útgerðarstjórn, félli vátryggingin niður. Í upphafi árs 2000 seldu D og M allt hlutafé í Ú ehf. til S ehf. og létu jafnframt af trúnaðarstörfum fyrir félagið. Kom fram í samningnum að eina eign félagsins væri fiskiskipið B ásamt búnaði, aflahlutdeild og aflamarki. Skömmu síðar fórst skipið og var deilt um það í málinu hvort vátrygging væri niður fallin vegna breytinga á eignaraðild Ú ehf. Fyrir lá að D hafði stýrt útgerð skipsins fram að gerð kaupsamningsins. Talið var að þar sem samningurinn kvað á um að D léti af öllum trúnaðarstörfum fyrir Ú ehf. hefði falist í honum breyting á útgerðarstjórn skipsins. Þar sem ekki hafði verið aflað samþykkis T hf. fyrir þeirri breytingu taldist vátryggingin fallin niður og var T hf. því sýknað af kröfum Ú ehf. í málinu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason og Pétur Kr. Hafstein.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 2. maí 2003. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að hún verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Samkvæmt gögnum málsins fékk stefndi 30. september 1999 húftryggingu hjá áfrýjanda fyrir fiskiskip sitt Bjarma VE 66 til loka sama árs. Í samriti skírteinis frá áfrýjanda, sem dagsett var 22. október 1999, sagði að vátryggingarverðmæti skipsins væri 37.800.000 krónur, en um húftrygginguna skyldu gilda vátryggingarskilmálar hans nr. 705 fyrir íslensk fiskiskip, sem stærri eru en 100 rúmlestir, auk sérstaks skildaga um tímaskráningu í búnaði skipsins. Eftir að upphaflegu vátryggingartímabili var lokið var húftryggingin endurnýjuð til eins árs í senn.
Hinn 6. febrúar 2002 rituðu Davíð Þór Einarsson og María Pétursdóttir persónulega og sem stjórnarmenn í stefnda ásamt forsvarsmanni Skeglu ehf. undir kaupsamning og afsal, þar sem félagið keypti af þeim Davíð og Maríu allt hlutafé í stefnda að nafnverði 4.000.000 krónur. Sagði í samningi þessum að eina eign stefnda væri skipið Bjarmi ásamt öllum búnaði, sem því fylgdi og nánar var talið upp í meginatriðum, svo og aflahlutdeild og aflamark. Var tekið fram að skipið yrði afhent í Þorlákshöfn 8. sama mánaðar. Tilgreindar voru veðskuldir, sem hvíldu á skipinu, og sagt að seljendur hafi kynnt kaupanda að vanskil væru á þeim. Jafnframt hafi seljendur kynnt ítarlega „aðrar skuldir og vanskil samkvæmt sérstöku blaði“. Kaupandi hafi einnig tekið að sér að greiða söluþóknun fyrir seljendur að fjárhæð 744.000 krónur. Þess var getið að hið stefnda félag hafi verið stofnað 1999 og skilað skattframtali fyrir það ár og árið 2000, en ekki hafi enn verið talið fram fyrir árið 2001 og hétu seljendur að afhenda kaupanda öll bókhaldsgögn. Fyrir hlutaféð í stefnda skyldi kaupandinn greiða 25.536.831 krónu með „yfirtöku veðskulda“ og 9.054.177 krónur með „yfirtöku lausaskulda“, eða samtals 34.591.808 krónur samkvæmt því, sem greindi í samningnum. Í niðurlagi hans sagði síðan eftirfarandi: „Trúnaðarmenn hins nýja eiganda taka við stjórn félagsins frá og með 06. febrúar 2002 og munu senda nauðsynlegar tilkynningar til Hlutafélagaskrár vegna þessa. Fyrri eigendur láta af trúnaðarstörfum hjá félaginu og afsala prókúruumboði. Með því að verð hluta í Útgerðarfélaginu Bjarma ehf. er að fullu greitt, lýsist Skegla ehf. einn og réttur eigandi allra hluta í félaginu.“ Samkvæmt framlagðri útskrift úr hlutafélagaskrá var Björg Þórhallsdóttir kjörin stjórnarmaður í stefnda á fundi 6. febrúar 2002, en Gunnbjörn Ólafsson varamaður. Var þeim síðarnefnda, sem virðist hafa verið forsvarsmaður Skeglu ehf., jafnframt veitt prókúruumboð fyrir stefnda.
Fram er komið að skipið var í Vestmannaeyjum við gerð samningsins 6. febrúar 2002. Það var þar áfram í umsjá Davíðs Þórs Einarssonar uns það lét úr höfn 23. sama mánaðar með fjögurra manna áhöfn, sem ráðin var til starfa af nýjum stjórnendum stefnda. Á leið frá Vestmannaeyjum til Grindavíkur fórst skipið og með því tveir skipverjar.
Í málinu krefur stefndi áfrýjanda um húftryggingarbætur vegna skipsins að fjárhæð 36.539.000 krónur, en óumdeilt er að þetta hafi verið vátryggingarverðmæti þess á árinu 2002 samkvæmt mati fjárhæðanefndar fiskiskipa. Áfrýjandi reisir aðalkröfu sína um sýknu á því að vátryggingarsamningur aðilanna hafi fallið niður vegna áðurgreindra ráðstafana 6. febrúar 2002, en varakrafa hans um lækkun á kröfu stefnda er studd við niðurstöðu matsgerðar dómkvaddra manna frá 9. janúar 2003 um að markaðsverð skipsins hafi numið 19.800.000 krónum þegar það fórst, sbr. 2. mgr. 75. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga.
II.
Til stuðnings því að vátryggingarsamningur aðilanna hafi fallið niður 6. febrúar 2002 ber áfrýjandi fyrir sig svofellt ákvæði í grein 28.1 í fyrrnefndum skilmálum sínum nr. 705 fyrir húftryggingu íslenskra fiskiskipa: „Ef eigandaskipti verða að skipinu eða það er sett undir aðra útgerðarstjórn, fellur vátryggingin úr gildi, með þeirri undantekningu sem getur í 3. mgr. 4. gr.“ Óumdeilt er að síðastnefnd undantekning samkvæmt grein 4.3 í skilmálunum á ekki við í lögskiptum aðilanna.
Gegn mótmælum áfrýjanda hefur stefndi ekki sýnt fram á að leitað hafi verið eftir staðfestingu áfrýjanda á því að fiskiskipið Bjarmi yrði áfram húftryggt hjá honum eftir þær breytingar, sem áðurnefndur samningur frá 6. febrúar 2002 leiddi til, eða að honum hafi annars verið tilkynnt um viðskiptin, sem samningurinn varðaði. Verður því að leggja til grundvallar að áfrýjanda hafi verið ókunnar þessar ráðstafanir þegar skipið fórst 23. sama mánaðar.
Fyrir liggur að Davíð Þór Einarsson stýrði útgerð skipsins fram til þess er samningurinn var gerður 6. febrúar 2002, svo og að hann hafi aflað þeirrar húftryggingar hjá áfrýjanda, sem málið er risið af. Húftryggingin var fengin til að verja hagsmuni stefnda sem atvinnufyrirtækis og stóð ekki lagaskylda til að taka hana. Áfrýjanda var og í sjálfsvald sett hvort hann yrði við ósk stefnda um að húftryggja skipið. Við ákvörðun um hvort stofnað yrði til þeirra viðskipta hlýtur áfrýjandi sem endranær í tilvikum sem þessum að hafa lagt mat á viðsemjanda sinn, þar á meðal með tilliti til áhættu af útgerð fiskiskips undir stjórn hans, enda mátti áfrýjanda ekki standa á sama hver ætti þar hlut að máli. Samkvæmt því, sem beinlínis var tekið fram í samningnum frá 6. febrúar 2002 og getið var hér að framan, lét Davíð Þór Einarsson af „trúnaðarstörfum“ hjá stefnda þann sama dag og tóku aðrir um leið við þeim, svo sem tilkynnt var hlutafélagaskrá eins og áður greinir. Án tillits til þess hvort líta megi þannig á að eigendaskipti hafi orðið að skipinu með samningi þessum, svo sem áfrýjandi heldur aðallega fram, leiddu framangreind atvik til þess að skipið var með þessum ráðstöfunum sett undir aðra útgerðarstjórn í skilningi greinar 28.1 í vátryggingarskilmálunum. Með því að samþykkis áfrýjanda var ekki aflað fyrir því að húftrygging skipsins yrði látin standa óröskuð af þessari breytingu og umrætt ákvæði vátryggingarskilmálanna stangaðist ekki á við ófrávíkjanlega lagareglu, sbr. 3. gr. laga nr. 20/1954, verður að fallast á með áfrýjanda að tryggingin hafi fallið úr gildi 6. febrúar 2002. Samkvæmt þessu verður hann sýknaður af kröfu stefnda.
Stefndi verður dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem er ákveðinn í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Tryggingamiðstöðin hf., er sýkn af kröfu stefnda, Útgerðarfélags Bjarma ehf.
Stefndi greiði áfrýjanda samtals 750.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 29. apríl 2003.
Mál þetta var höfðað 20. júní 2002 og dómtekið 7. þ.m.
Stefnandi er Útgerðarfélag Bjarma ehf., Krummahólum 4, Reykjavík.
Stefndi er Tryggingamiðstöðin hf., Aðalstræti 6-8, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér vátryggingabætur að upphæð 36.539.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 23. febrúar 2002 til greiðsludags og er gerð krafa samkvæmt 12. gr. laga nr. 38/2001 um vaxtavexti sem leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 23. febrúar 2003. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.
Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans en til vara að þær verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður.
Þann 23. febrúar 2002 fórst fiskiskipið Bjarmi VE 66, skipsnúmer 1103, smíðaár 1970, sem var í eigu stefnanda. Áhöfn hafði verið lögskráð á skipið; skipstjóri, stýrimaður, vélstjóri og háseti. Frammi liggja staðfestingar stefnda á tryggingum, dags. 25. febrúar 2002, sem það sendi stefnanda sem tryggingartaka. Húftrygging skipsins mun upphaflega hafa verið tekin 30. september 1999 en síðan endurnýjuð árlega og vátryggingarverðmætið frá 1. janúar 2002 til 31. desember s.á. 36.539.000 króna (skírteinisnúmer 62-2206252). Um húftrygginguna giltu vátryggingarskilmálar stefnda nr. 705 fyrir Fiskiskipatryggingu A. Samkvæmt þeim skyldi stefndi m.a. bæta algert tjón ef skipið færist eða yrði fyrir svo miklum skemmdum að ekki væri unnt að bjarga því eða gera við það.
Stefnufjárhæð málsins nam 39.917.000 krónum en við aðalmeðferð var fallið frá kröfuliðum að upphæðum 2.000.000 króna, tryggingarbætur fyrir afla og veiðarfæri, og 1.378.000 krónur, tryggingarbætur fyrir netaspil o.fl. Stefndi greiddi hina fyrrnefndu kröfu 4. október 2002.
Með bréfi 23. apríl 2002 leitaði stefnandi eftir afstöðu stefnda til greiðslu tryggingabóta og hvernig staðið yrði að þeim. Greiðslu vátryggingabóta var hafnað með svarbréfi stefnda 30. s.m. Meginröksemdin var að tvímælalaust ætti hér við ákvæði í vátryggingarskilmálum stefnda nr. 705 um að tryggingin félli niður yrðu eigendaskipti á hinu vátryggða skipi eða það sett undir aðra útgerðarstjórn. Trygging hafi samkvæmt þessu verið fallin niður þegar skipið fórst 23. febrúar 2002, nýir eigendur hafi ekki tryggt bátinn hjá stefnda og því hafi engin trygging verið í gildi þegar það fórst. Að auki hafi skipið ekki verið löglega mannað og hleðslu þess verið ábótavant en samkvæmt grein 9.4 í skilmálum sé það skilyrði bótagreiðslu að mönnun skips og hleðsla hafi verið í lagi. Krafa stefnanda var ítrekuð með bréfi 6. maí 2002 sem var svarað með bréfi stefnda 14. s.m. þar sem lýst var óbreyttri afstöðu hans.
Hinn 2. apríl 2002 sendi stefndi stefnanda bréf þar sem segir að sú breyting hafi verið gerð á innheimtu matsgjalds á öllum dekkuðum skipum og bátum að tryggingafélag viðkomandi skips skuli sjá um innheimtu árlegs matsgjalds en kostnaður vegna nýrra mata eða endurmats verði innheimtur af Fjárhæðanefnd fiskiskipa beint hjá viðkomandi útgerðarmanni. Hið árlega matsgjald hafi verið ákveðið af Fjárhæðanefnd og sé 5.500 kr. fyrir árið 2002 og fylgi skuldfærsla á viðskiptareikning stefnanda fyrir þeirri fjárhæð en matsgjaldið hafi stefndi þegar greitt Fjárhæðanefnd fiskiskipa. Þá sendi stefndi stefnanda reikningsyfirlit, dags. 28. maí 2002, sem sýnir skuld vegna tryggingaiðgjalda.
Samkvæmt kaupsamningi og afsali 6. febrúar 2002 keypti Skegla ehf. allt hlutafé í Útgerðarfélagi Bjarma ehf. og voru seljendur Davíð Þór Einarsson og María Pétursdóttir. Í skjalinu segir að eina eign félagsins sé skipið Bjarmi VE 66 ásamt öllum búnaði sem skipinu fylgi um borð og í landi. Með því fylgi úthlutun aflahlutdeilda, aflahlutdeildir og aflamark. Fyrir hluti í félaginu var goldið með yfirtöku skulda að upphæð 34.591.808 krónur. Að lokum segir að trúnaðarmenn hins nýja eiganda taki við stjórn félagsins frá og með 6. febrúar 2002 og muni senda nauðsynlegar tilkynningar til Hlutafélagaskrár vegna þessa. Samkvæmt vottorði Hlutafélagaskrár skipa stjórn félagsins samkvæmt fundi 6. febrúar 2002 þau Björg Þórhallsdóttir, stjórnarmaður, og Gunnbjörn Ólafsson, varamaður.
Í greinargerð stefnda segir að honum hafi ekki borist vitneskja um breytt eignarhald á hlutabréfunum fyrr en við heimsókn nefnds Gunnbjörns Ólafssonar á skrifstofur stefnda 25. febrúar 2002. “Fyrri útgerðarmaður”, Davíð Þór Einarsson, hafi einnig komið á skrifstofu stefnda til fundar við forstjóra félagsins þann sama dag og staðfest að umrædd viðskipti með hlutabréfin hefðu átt sér stað.
Kröfur stefnanda eru reistar á því að þegar Bjarmi VE 66 fórst hafi verið í fullu gildi vátryggingarsamningur milli aðila í formi húftryggingar um skipið, afla- og veiðarfæratryggingar og véla- og brunatryggingar um netspil og niðurleggjara. Eigendaskipti á hlutafé í Útgerðarfélagi Bjarma ehf. hafi engin áhrif á gildi vátryggingarsamningsins þar sem ákvæði 28. greinar í skilmálum 705 taki ekki til þess er hlutir í hlutafélögum skipti um eigendur. Ekki hafi verið skipt um útgerðarstjórn á Bjarma VE 66 heldur hafi hún verið áfram í höndum félagsins (stefnanda).
Af hálfu stefnanda er því haldið fram að hafi stefndi ætlað að segja upp vátryggingarsamningum við stefnanda hefði hann þurft að tilkynna það formlega og með hæfilegum fyrirvara.
Stefnandi heldur því einnig fram að eftir að tjón sé orðið geti vátryggingarfélag ekki borið fyrir sig ógildi vátryggingarsamnings á grundvelli atvika sem hafi á engan hátt haft áhrif á tjónsatburðinn.
Stefndi vísar til svohljóðandi ákvæðis 28. greinar í skilmálum stefnda nr. 705 um húftryggingu, sem séu settir með stoð í lögum nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga: “Ef eigandaskipti verða að skipinu eða það er sett undir aðra útgerðarstjórn fellur vátryggingin úr gildi . ..” Samkvæmt þessu hafi tryggingin verið fallin niður áður en skipið hélt í hinstu för sína þar sem það hafi verið eina eign stefnanda, öll hlutabréf hafi skipt um eigendur og þar með hafi orðið eigendaskipti að skipinu. Teljist vafi vera á þessu leiki hins vegar enginn vafi á því að ný og breytt útgerðarstjórn hafi tekið við skipinu með kaupsamningnum þar sem fram sé tekið að trúnaðarmenn nýs eiganda taki við stjórn félagsins frá 6. febrúar 2002.
Varakrafa stefnda byggist á því að vátryggingarfjárhæð í húftryggingarskírteini, 36.539.000 krónur, sé of há og víðsfjarri raunvirði skipsins á tjónsdegi. Um það er vísað til 2. mgr. 75. gr. laga nr. 20/1954.
Höfuðstóll dómkröfu stefnanda nemur húftryggingarverðmæti skipsins Bjarma VE 66 er það fórst.
Eigi verður fallist á aðalkröfu stefnda þegar af þeim ástæðum að stefnandi var áfram eigandi að Bjarma VE 66 þrátt fyrir eigendaskipti 6. febrúar 2002 að hlutum í einkahlutafélaginu og að skipið hafði ekki verið sett undir aðra útgerðarstjórn, eins og hefði t.a.m. verið hefði það verið selt á leigu, heldur laut það eftir sem áður útgerðarstjórn stefnanda þótt stjórn einkahlutafélagsins yrði skipuð öðrum einstaklingum en áður.
Í 2. mgr. 75. gr. laga nr. 20/1954 segir að sé kveðið á um tiltekið verð á skipi þegar vátryggingarsamningur sé gerður (verðsett skírteini) sé sú verðákvörðun skuldbindandi fyrir félagið ef það getur eigi sannað að hið tiltekna verð sé hærra en svo að sanngjarnt sé að telja það vátryggingarverð skipsins.
Á dómþingi 16. október 2002 voru Garðar Garðarsson hæstaréttarlögmaður og löggiltur skipasali og Jón B. Hafsteinsson skipaverkfræðingur dómkvaddir að beiðni stefnda til að meta “Hvert var eðlilegt markaðsverð mb. Bjarma VE 66 án aflaheimilda þegar báturinn fórst þann 23.02.2002.” Matsgerð, sem er dagsett 9. janúar 2003 og Jón B. Hafsteinsson staðfesti fyrir dóminum, er að meginefni svohljóðandi:
“Forsendur:
Verðmæti/raunvirði bátsins má nálgast á tvennan hátt; annars vegar með framreiknuðu en afskrifuðu kostnaðarverði báts og búnaðar og hins vegar með því að mynda sér skoðun á hugsanlegu söluverði bátsins með hliðsjón af söluverði svipaðra báta á þeim tíma er báturinn sökk. Rétt er að gera aðeins grein fyrir þessum tveimur mismunandi nálgunum.
Húftryggingaverð íslenskra fiskiskipa með þilfari var í langa tíð metið af svonefndri Fjárhæðanefnd fiskiskipa. Í nefndinni voru tveir fulltrúar frá LÍÚ og tveir frá tryggingarfélögunum. Nefndin notaði reiknilíkan þar sem metið var svokallað frumverð skips og búnaðar, þ.e. framreiknað kostnaðarverð hinna ýmsu þátta skipsins eins og bols, véla, tækja, búnaðar o.s.frv. Við það mat var stuðst við upplýsingar frá skipasmíðastöðvum, eigendum, umboðsmönnum tækja og búnaðar o.fl. Þessar fárhæðir voru síðan framreiknaðar miðað við almenna verðlagsþróun og jafnframt afskrifaðar. Þar sem hinir ýmsu hlutir og búnaður skips hafa breytilegan endingartíma var beitt mismunandi afskriftarhlutfalli. Þegar ný tæki voru sett í skipið eða skipinu breytt t.d. lengt var framkvæmt endurmat þar sem endurnýjun var metin. Húftryggingarmatið átti þannig að endurspegla nývirði skipsins að teknu tilliti til fyrninga og endurbóta sem gerðar höfðu verið á skipinu. Meginreglan var að sambærileg skip hefðu sambærilegt mat, án tillits til sögulegs kostnaðarverðs eiganda.
Við sölu fiskiskipa var gjarnan litið til húftryggingarmats þeirra og verðið miðað sem hlutfall af því, en margir aðrir þættir komu þar einnig til álita. Má þar nefnda innflutningshömlur, breytingar á veiðum og aflabrögðum, verðlagi á afurðum, aðstæðum á fjármagnsmarkaði, sérstök réttindi í landhelginni sem fylgt geta skipum o.fl. Þar fyrir utan voru svo réttindi skipa til veiða, sem eru ekki gerð að umtalsefni hér, en gátu samt haft áhrif á verðmyndun skipanna sjálfra.
Hér á eftir munu matsmenn leitast við að leggja mat á skipið eftir báðum þessum aðferðum.
Húftryggingarmat og markaðsvirði:
V/B Bjarmi VE 66, skipaskrárnúmer 1103, var smíðaður úr stáli hjá Vélsmiðju Seyðisfjarðar h.f. árið 1970. Báturinn var lengdur um 2,4 m árið 1987 og stýrishús hans endurnýjað árið 1989. Ný aðalvél var sett í bátinn árið 1993 og hjálparvél hafði verið endurnýjuð árið 1987.
[ ..]
Húftryggingarmat Fjárhæðanefndar fiskiskipa, dagsett 02.01.2002, er 36.539.000 krónur miðað við þær vinnureglur sem fjárhæðanefndin vinnur eftir sbr. framangreint. Í útreikningum Fjárhæðanefndar hefur verið tekið tillit til þeirra endurbóta á bátnum sem getið er um hér að ofan. Það sama gildir um þá báta sem notaðir eru til samanburðar og skráðir eru í meðfylgjandi yfirliti.
Af augljósum ástæðum verður ekki komið við skoðun á bátnum en matsmenn hafa reynt að afla sér upplýsinga um bátinn, smíði hans, viðhaldssögu, tækjabúnað o.fl., sem máli skiptir í því sambandi. Í þessum tilgangi hafa matsmenn aflað gagna frá Siglingastofnun Íslands og fleiri opinberum aðilum, rætt við fyrri eiganda sem var jafnframt vélstjóri skipsins, við söluaðila vélbúnaðar og tækja skipsins. Þá hafa matsmenn kynnt sér öll framlögð skjöl í dómsmálinu og endurrit sjóprófa sem haldin voru vegna skiptapans.
Matsmenn hafa að föngum aflað sér upplýsinga um söluverð líkra báta sem seldir voru á svipuðum tíma og V/B Bjarmi fórst. Þá var einnig upplýsinga aflað um húftryggingarmat sömu báta miðað við upphaf árs 2002. Samanburður ofangreindra báta er í meðfylgjandi töflu.
Í töflunni kemur í ljós að þrír fyrstu bátarnir eru systurskip, smíðaðir hjá Vélsmiðju Seyðisfjarðar hf. árin 1968 til 1970. Tryggingarmat V/B Bjarma er um 10 - 14 millj. krónum lægra en systurskipanna enda hefur meiri endurnýjun farið fram í þeim bátum.
Ef hlutfall söluverðs og tryggingarmats er tekið á öllum þeim bátum sem seldir voru á svipuðum tíma og upplýsingar fengust um, kemur í ljós að það liggur frá 0.24 til 0.71. Hér verður bátur nr. 5 tekinn til hliðar vegna aldurs og bátur nr. 4 þar sem um trébát er að ræða. Meðaltal hlutfalls söluverðs og tryggingarmats báta 1-3 nemur 0.54.
V/B Bjarmi var metinn af kaupanda og seljanda í febrúar 2002 á um 34,6 millj. krónur. Inn í þeirri tölu voru fiskveiðiheimildir sem matsmenn telja að verðgildi 7,6 millj. krónur og kör, veiðarfæri og annar búnaður sem ætla má að seljist notað á 1,2 millj. krónur. Eftir standa þá 25,8 millj. krónur, sem er það verð sem aðilar virðast hafa samið um fyrir bátinn í þessum viðskiptum.
Að virtum upplýsingum um söluverð svipaðra báta og teknu tilliti til mismunandi búnaðar þeirra og Bjarma telja matsmenn eðlilegt hlutfall á milli söluverðs og tryggingarmats vera um 0.54
Eðlilegt markaðsverð V/B Bjarma VE 66 án aflaheimilda og veiðarfæra þegar báturinn fórst þann 23.02.2002, telja matsmenn krónur 19.800.000 -nítján milljónir og átta hundruð þúsundir króna.
Þess ber að geta, að verð báta fór sílækkandi eftir því sem leið á árið 2002 og er það framhald á þróun undanfarandi ára.”
Samkvæmt framlögðu yfirliti Skipmiðlunarinnar Bátar & Kvóti, sem annaðist milligöngu um viðskipti Skeglu ehf. og þáverandi eigenda hlutabréfa í stefnanda, var verð á aflahlutdeild og aflamarki metið 6.183.055 krónur og fyrir skip og búnað 28.416.945 krónur. Eggert Jóhannesson, sem sá um söluna, bar fyrir dóminum að hún hefði gengið fljótt enda hafi verið mikil spurn eftir netabátum á þessum tíma vegna þess að vertíð hafi verið góð og kvótaverð hagstætt. Samkvæmt þessu verður trúgildi matsniðurstöðu dregið í efa. Meiru varðar þó fyrir niðurstöðu þessa þáttar málsins að í samræmi við þá meginreglu, sbr. 3. gr. laga nr. 29/1954, að aðilum vátryggingarsamnings er frjálst að semja um efni hans, var húftryggingarverð Bjarma VE 66 í viðskiptum aðila ákveðið samkvæmt mati Fjárhæðanefndar fiskiskipa eins og nánar greinir í matsgerð. Ekki er fram komið að um það hafi verið ágreiningur og iðgjöld voru innheimt á þeim grunni sem þannig var fundinn.
Samkvæmt framangreindu verður ekki fallist á varakröfu stefnda.
Niðurstaða dómsins er samkvæmt framangreindu sú að fallast beri á kröfur stefnanda og dæma stefnda til að greiða stefnanda 36.539.000 krónur með vöxtum eins og greinir í dómsorði og málskostnað sem er ákveðinn 1.000.000 króna.
Mál þetta dæmir Sigurður H. Stefánsson héraðsdómari.
D ó m s o r ð:
Stefndi, Tryggingamiðstöðin hf., greiði stefnanda Útgerðarfélaginu Bjarma ehf. 36.539.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá 23. febrúar 2002 til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 1.000.000 króna í málskostnað.