Hæstiréttur íslands

Mál nr. 475/2015

Sara Lind Guðbergsdóttir (Jón Magnússon hrl.)
gegn
VR (Björn L. Bergsson hrl.)

Lykilorð

  • Ráðningarsamningur
  • Uppsögn
  • Miskabætur
  • Vinnuveitendaábyrgð
  • Sératkvæði

Reifun

S krafði V um greiðslu miskabóta vegna eineltis sem hún hefði mátt þola af hálfu Ó, formanns V. Hafði Ó komið til starfa á skrifstofu V í kjölfar þess að hafa sigrað fyrrverandi formann í kosningu, en hann var þá sambúðarmaður S. Hélt S því fram að eineltið hefði falist í því að Ó hefði sniðgengið sig með því að koma í veg fyrir að hún sæti fundi, sem snertu hennar ábyrgðarsvið, haldið frá sér upplýsingum og virt að vettugi ítrekaðar óskir hennar fundi um málefni á sínu verksviði. Eineltið hefði síðan náð hámarki með uppsögn S sem hefði bæði verið ólögmæt og framkvæmd með niðurlægjandi hætti. Í dómi Hæstaréttar kom fram að þegar litið væri til skýrslu tveggja sálfræðinga, sem fengnir höfðu verið til að meta réttmæti kvörtunar S um einelti af hálfu Ó, og annarra gagna málsins yrði því slegið föstu að Ó hefði ekki sýnt S eðlilega tillitssemi og háttvísi. Á hinn bóginn yrðu ávirðingarnar í garð Ó ekki taldar svo alvarlegar eða þess eðlis að með þeim hefði miskabótaábyrgð verið felld á V á grundvelli b. liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þá var talið að uppsögn S hefði verið lögmæt og að ekki hefði verið leitt í ljós að hún hefði verið framkvæmd með því móti að S hefði verið niðurlægð. Var V því sýknað af kröfu S.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 20. júlí 2015. Hún krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér skaðabætur að fjárhæð aðallega 2.000.000 krónur en til vara að álitum með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 25. júní 2013 til 7. desember sama ár, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Í báðum tilvikum krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Áfrýjandi höfðaði máli þetta til heimtu miskabóta úr hendi stefnda. Krafan er reist á því að hún hafi í starfi sínu hjá stefnda mátt þola einelti af hálfu Ólafíu Bjarkar B. Rafnsdóttur, formanns stefnda. Kom Ólafía til starfa á skrifstofu stefnda 19. apríl 2013 í kjölfar þess að hafa sigrað fyrrverandi formann í kosningu 15. mars sama ár, en hann var þá sambúðarmaður áfrýjanda. Þetta einelti telur áfrýjandi hafa falist í því að Ólafía hafi sniðgengið sig með því að koma í veg fyrir að hún sæti fundi, sem snertu hennar ábyrgðarsvið, haldið frá sér upplýsingum og virt að vettugi ítrekaðar óskir hennar um fundi um málefni á sínu verksviði. Þess í stað hafi Ólafía ítrekað leitað beint til undirmanns áfrýjanda og gert lítið úr starfshæfni hennar. Eineltið hafi náð hámarki með uppsögn áfrýjanda 25. júní 2013 sem hafi bæði verið ólögmæt og framkvæmd með niðurlægjandi hætti. Þessum málatilbúnaði er lýst nánar í hinum áfrýjaða dómi.

II

Samkvæmt a. lið 3. gr. þágildandi reglugerðar nr. 1000/2004 um aðgerðir gegn einelti á vinnustað var með einelti átt við ámælisverða eða síendurtekna ótilhlýðilega háttsemi, þ.e. athöfn eða hegðun, sem væri til þess fallin að niðurlægja, gera lítið úr, móðga, særa, mismuna eða ógna og valda vanlíðan hjá þeim sem hún beindist að. Þetta náði þó ekki til skoðanaágreinings eða hagsmunaáreksturs sem kynni að rísa á vinnustað milli stjórnanda og starfsmanns eða tveggja eða fleiri starfsmanna, enda leiddi slíkur skoðanaágreiningur eða hagsmunaárekstur ekki til fyrrgreindrar háttsemi. Í b. lið 3. gr. gildandi reglugerðar nr. 1009/2015 um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum segir hins vegar að með einelti sé átt við síendurtekna hegðun sem almennt er til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður, svo sem að gera lítið úr, móðga, særa eða ógna viðkomandi eða að valda honum ótta. Undir þetta falli ekki skoðanaágreiningur eða ágreiningur vegna ólíkra hagsmuna.

Eftir að áfrýjanda hafði verið sagt upp störfum hjá stefnda bar hún fram kvörtun 28. júní 2013 um að hún hefði verið lögð í einelti af formanni stefnda. Jafnframt óskaði hún eftir því að utanaðkomandi sérfræðingi yrði falið að kanna réttmæti kvörtunarinnar. Stefndi féllst á þetta og í samræmi við 7. gr. þágildandi reglugerðar nr. 1000/2004 var utanaðkomandi ráðgjafi fenginn til að meta kvörtunina. Það verk önnuðust tveir sálfræðingar hjá Líf og sál sálfræðistofu ehf., en vinna þeirra fólst meðal annars í því að ræða við þá sem borið gátu um málsatvik. Skiluðu sálfræðingarnir skýrslu sinni 21. október 2013 en niðurstöður hennar eru teknar orðrétt upp í hinum áfrýjaða dómi.

Í skýrslu sálfræðinganna kom fram að við athugun á kvörtun áfrýjanda væri miðað við að einelti væri endurtekin, neikvæð og/eða niðurlægjandi framkoma sem erfitt væri að verjast og leiddi til vanlíðunar hjá þeim er fyrir verður. Til að háttsemi gæti talist einelti þyrfti hún að fullnægja öllum efnisatriðum þessarar skilgreiningar. Afmörkun á einelti í skýrslunni er ekki í öllum atriðum sú sama og var að finna í a. lið 3. gr. þágildandi reglugerðar nr. 1000/2004. Þannig gat háttsemi í skilningi reglugerðarinnar talist einelti þótt hún væri ekki endurtekin, en til samanburðar má benda á að í b. lið 3. gr. gildandi reglugerðar nr. 1009/2015 er miðað við að háttsemi þurfi að vera síendurtekin. Einnig þyrfti framkoman, samkvæmt skýrslu sálfræðinganna, að teljast neikvæð eða niðurlægjandi í þeim skilningi að hún færi í bága við lög eða viðteknar samskiptavenjur. Í þeim efnum nægði ekki að þolandi væri ósáttur við framkomuna. Þessi áskilnaður fellur heldur ekki að útlistun eineltis samkvæmt nefndu reglugerðarákvæði. Af þessum sökum verður skýrslan ekki lögð til grundvallar um hvort áfrýjandi hafi í skilningi eldri reglugerðar sætt einelti í starfi sínum hjá stefnda meðan hún starfaði þar ásamt formanni hans. Aftur á móti hefur skýrslan að geyma ítarlega lýsingu á þeirri framgöngu formannsins sem áfrýjandi telur hafa falið í sér einelti og verður litið til hennar í því tilliti við mat á hvort formaðurinn hafi með framkomu sinni fellt skyldu á stefnda til greiðslu miskabóta.

Í skýrslunni kom fram það álit sálfræðinganna að það teldist ekki neikvæð eða niðurlægjandi framkoma formanns stefnda gagnvart áfrýjanda þótt formaðurinn hefði leitað beint til undirmanns hennar varðandi kjaramál, en sá starfsmaður stefnda mun hafa mikla reynslu á því sviði. Aftur á móti var komist að þeirri niðurstöðu að formaðurinn hefði átt að útskýra þetta fyrir áfrýjanda og ámælisvert væri að verða ekki við óskum áfrýjanda um að ræða stöðu hennar. Einnig var fundið að því að áfrýjandi hefði á fundi með trúnaðarmönnum, trúnaðarráði og starfsfólki félagsins um kjaramál, sem heyrðu undir ábyrgðarsvið áfrýjanda, hvorki haft hlutverk né verið höfð með í ráðum. Þá var talið aðfinnsluvert að formaðurinn hefði án gildrar ástæðu sniðgengið óskir áfrýjanda um frekara samráð, en þessi framkoma gæti ekki talist harkaleg, gróf eða verulega ógnandi, þótt hún hefði verið viðvarandi.

Samkvæmt b. lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 er heimilt að láta þann sem ber ábyrgð á ólögmætri meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu annars manns greiða miskabætur til þess sem misgert er við. Í lögskýringargögnum kemur fram að í skilyrðinu um ólögmæta meingerð felist að um saknæma hegðun sé að ræða. Gáleysi þyrfti þó að vera verulegt til þess að tjónsatvik verði talið ólögmæt meingerð. Í réttarframkvæmd hefur verið við það miðað að lægsta stig gáleysis fullnægi ekki kröfum ákvæðisins.

Þegar litið er til fyrrgreindrar skýrslu sálfræðinganna hjá Líf og sál sálfræðistofu ehf. og annarra gagna málsins verður því slegið föstu að formaður stefnda hafi ekki sýnt áfrýjanda eðlilega tillitsemi og háttvísi. Skiptir þá ekki máli aðdragandinn að samstarfi þeirra sem fólst í því að formaðurinn hafði borið sigurorð af fyrri formanni stefnda í almennri kosningu meðal félagsmanna, en sá síðarnefndi var sambúðarmaður áfrýjanda eins og áður greinir. Gat þetta að réttu lagi ekki haft nokkur áhrif gagnvart áfrýjanda í störfum hennar í þágu stefnda. Þegar á hinn bóginn er litið til ávirðinganna í garð formannsins verða þær ekki taldar svo alvarlegar eða þess eðlis að með þeim verði miskabótaábyrgð felld á stefnda á grundvelli b. liðar 1. mgr. 26. gr. laga nr. 50/1993.

Með vísan til forsendna héraðsdóms verður fallist á þá niðurstöðu að uppsögn áfrýjanda úr starfi hafi verið lögmæt og að ekki hafi verið leitt í ljós að hún hafi verið framkvæmd með því móti að áfrýjandi hafi verið niðurlægð, en þess ber þá að gæta að skipulagsbreyting sú á starfsemi stefnda sem uppsögnin var rökstudd með gekk sannarlega eftir þá um sumarið.

Samkvæmt öllu framansögðu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.

Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er rétt að aðilar beri hvor sinn kostnað af rekstri málsins fyrir Hæstarétti.    

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

Sératkvæði

Ólafs Barkar Þorvaldssonar hæstaréttardómara

                                                   

Um málavexti vísast til atkvæðis meirihluta dómenda með tilheyrandi tilvísun þeirra til héraðsdóms.

Þótt fram sé komið að áfrýjandi hafi rækt starfa sinn hjá stefnda á þann hátt sem af henni varð krafist þá var stefnda heimilt að segja henni upp störfum samkvæmt ráðningarsamningi. 

Ég er sammála meirihluta dómenda um að afmörkun á hugtakinu einelti í skýrslu sálfræðinga 21. október 2013 hafi ekki í öllum atriðum verið sú sama og kveðið var á um í 3. gr. reglugerðar nr. 1000/2004 um aðgerðir gegn einelti á vinnustað, en það ákvæði er rakið í atkvæði meirihlutans. Því verði skýrslan ekki lögð til grundvallar um hvort áfrýjandi hafi sætt einelti í skilningi reglugerðarinnar. Á hinn bóginn verði að líta til skýrslunnar við mat á því hvort formaður stefnda hafi með framkomu sinni fellt skyldu á stefnda til greiðslu miskabóta samkvæmt b. lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Ég er einnig samþykkur þeirri niðurstöðu meirihlutans að þegar litið sé til framangreindrar skýrslu og annarra gagna málsins verði því slegið föstu að formaður stefnda hafi ekki sýnt áfrýjanda eðlilega tillitsemi og háttvísi.

Var framkoma formannsins samkvæmt skýrslu sálfræðinganna, sem var unnin að tilhlutan stefnda, annars vegar metin ámælisverð og hins vegar aðfinnsluverð og viðvarandi. Verður samkvæmt því og gögnum málsins að telja að í þessu sambandi hafi að minnsta kosti verið um að ræða verulegt gáleysi hjá formanni stefnda, sem er stéttarfélag. Féll háttsemin undir ákvæði 3. gr. reglugerðar nr. 1000/2004 sem sett var með stoð í 37. gr., e. lið 38. gr., 65. gr., 65. gr. a og 66. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Í þessu ljósi var háttsemin til þess fallin að valda áfrýjanda miska. 

Tel ég samkvæmt framansögðu að leggja verði til grundvallar að áfrýjandi hafi orðið fyrir miska sem veiti henni rétt til bóta samkvæmt b. lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga. Í samræmi við þetta er einnig rétt að stefndi greiði áfrýjanda málskostnað vegna reksturs málsins í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. maí 2015.

                Mál þetta höfðaði Sara Lind Guðbergsdóttir, Norðurbakka 21a, Hafnarfirði, með stefnu birtri 6. nóvember 2014 á hendur VR, Kringlunni 7, Reykjavík.  Málið var dómtekið að lokinni aðalmeðferð 10. apríl sl. 

                Stefnandi krefst þess að stefnda verði gert að greiða henni 2.000.000 króna í skaðabætur, auk vaxta af þeirri fjárhæð samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 25. júní 2013 til 7. desember 2014, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga af þeirri fjárhæð með áföllnum vöxtum frá 7. desember 2013 til greiðsludags. 

                Til vara krefst stefnandi skaðabóta að álitum, með vöxtum og dráttarvöxtum á sama hátt og í aðalkröfu. 

                Þá krefst stefnandi málskostnaðar að mati dómsins. 

                Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar.  Til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður. 

                Stefnandi hóf störf á skrifstofu stefnda 1. apríl 2012.  Gerður var skriflegur ráðningarsamningur, dags. sama dag.  Hún var ráðin í starf deildarstjóra Ráðgjafa­deildar stefnda.  Í aðilaskýrslu stefnanda kom fram að vinna deildarinnar hafi einkum falist í þremur þáttum, þjónustu við atvinnuleitendur, vinnu varðandi starfsendur­hæfingu og ráðgjöf um kjaramál.  Í því hafi þannig falist vinna að kjarasamningagerð.  Undirbúningsvinna að næsta kjarasamningi hafi átt að hefjast vorið 2013. 

                Þegar stefnandi var ráðin var Stefán Einar Stefánsson formaður félagsins.  Í kosningu 15. mars 2013 var Ólafía Björk Rafnsdóttir kosin formaður.  Venja er að for­maður sé starfsmaður á skrifstofu félagsins og er gerður við hann sérstakur ráðningar­samningur.  Ólafía kom til starfa á skrifstofunni 19. apríl 2013.  Stefnandi og Stefán Einar hófu sambúð á meðan þau störfuðu bæði hjá stefnda. 

                Í stefnu segir að Ólafía hafi strax og hún kom til starfa tekið að leggja stefnanda í einelti.  Í aðilaskýrslu sinni sagði stefnandi að hún hefði beðið um fund með Ólafíu til að ræða málefni deildarinnar.  Hún hafi hins vegar hundsað sig.  Hún hafi ýmist ekki verið boðuð á fundi eða seinna eftir að framkvæmdastjóri gerði athugasemd.  Þá hafi Ólafía leitað beint til undirmanns hennar, án samráðs við hana. 

                Stefnandi sagði að sér hefði ekki liðið vel á þessum tíma.  Sér hafi þótt þetta vera mikil lítilsvirðing við sig.  Það hefði verið eins og Ólafía legði sig fram um að grafa undan henni.  Hún hefði rætt um þetta við framkvæmdastjóra félagsins nokkrum sinnum. 

                Stefnanda var sagt upp störfum þann 25. júní 2013.  Í skýrslu Helgu Árnadóttur framkvæmdastjóra kom fram að hún hefði verið kölluð á fund formanns, varaformanns og ritara.  Þar hefði henni verið sagt að meirihluti stjórnar hygðist breyta skipulaginu hjá stefnda og að þessar breytingar fælu í sér að stefnanda yrði sagt upp störfum.  Helga sagði að hún hefði ekki verið sammála þessari ákvörðun.  Hún kvaðst hafa átt að sjá um starfsmannamál, en Ólafía hefði sagt sér að ef hún vildi ekki segja stefnanda upp störfum, þá myndi hún gera það sjálf.  Kvaðst Helga því hafa kosið að segja henni upp sjálf.  Hún kvaðst ekki hafa áttað sig á þeim skipulags­breytingum sem talað hafi verið um og þær hafi ekki verið komnar til framkvæmda í ágúst sama ár þegar hún hætti sjálf störfum hjá félaginu. 

                Þrátt fyrir þessa andstöðu sína kallaði Helga stefnanda til sín og afhenti henni uppsagnarbréf, sem stefnandi áritaði. 

                Stefnandi óskaði eftir viðtali um starfslokin og ástæður uppsagnarinnar.  Var haldinn fundur með henni þann 3. júlí.  Stefnandi var ósátt við fram komnar skýringar og óskaði eftir skriflegum útskýringum.  Var henni svarað með tölvuskeyti Helgu Árnadóttur framkvæmdastjóra 5. júlí.  Í því segir:  „Eins og fram kom á fundi okkar sl. miðvikudag þá er ástæða uppsagnar áherslu- og skipulagsbreytingar í starfsemi félagsins.  Leggja á meiri áherslu á kjaramál en sá málaflokkur sem verið hefur undir Ráðgjafadeild innan Ráðgjafa- og þjónustusviðs verður gerður að sér sviði í skipuriti.  Ráðgjafadeild mun því ekki starfa áfram í óbreyttri mynd.“ 

                Lögmaður stefnanda gerði athugasemdir við þessar útskýringar með bréfi dags. 8. júlí, en lögmaður stefnda ítrekaði þær með bréfi dags. 18. júlí. 

                Stefnandi kvartaði yfir einelti af hálfu formannsins með tölvuskeyti dags. 28. júní.  Erindið sendi hún Helgu Árnadóttur framkvæmdastjóra.  Segir þar að stefnandi telji sér nauðugan þann kost að leggja fram með formlegum hætti kvörtun vegna fram­komu formanns VR í sinn garð á umliðnum mánuðum.  Framkomuna megi skilgreina sem einelti eins og því sé lýst m.a. í lögum nr. 46/1980 og reglugerð nr. 1000/2004.  Óskaði hún eftir því að félagið setti málið í formlegan farveg og fæli það utanað­komandi sérfræðingi sem tryggt væri að sýndi hlutlægni í mati á kvörtuninni.  Stefnandi hafði áður gert athugasemdir við framkvæmdastjóra stefnda að Ólafía vildi ekki ræða við sig og hafa sig með í ráðum um málefni deildar hennar.  Hún virtist ein­göngu vilja ræða beint við Elías G. Magnússon um kjaramálin. 

                Þegar kvörtun stefnanda var komin fram var Guðmundi B. Ólafssyni hæstaréttarlögmanni falið að skoða það.  Sagði hann í skýrslu fyrir dómi að hann hefði óskað eftir nánari útskýringum hjá stefnanda sem hann hefði fengið.  Síðan hefði hann leitað eftir sérfræðingum til að vinna að málinu og falið það loks Einari Gylfa Jónssyni sálfræðingi.  Hefði Einar unnið skýrslu ásamt Áslaugu Kristinsdóttur sál­fræðingi, en þau starfi á sálfræðistofunni Líf og sál.  Sagði Guðmundur að Einar hefði ekki getað byrjað strax á verkinu, hann hefði verið að fara í frí þegar hann talaði við hann í júlí.  Gerði stefnandi athugasemd um það við Guðmund þann 8. ágúst að ekki hefði enn verið haft samband við hana útaf kvörtuninni.  

                Sálfræðingarnir ræddu við stefnanda og formann stefnda, auk fjögurra annarra starfsmanna á skrifstofunni.  Í skýrslu þeirra, dags. 21. október 2013, eru um­kvörtunarefni stefnanda rakin, en þau eru:

                Útilokun frá fundum og ferðum er vörðuðu hennar starfssvið, upplýsingum hafi verið haldið frá stefnanda og sérfræðiþekking hennar ekki verið virt, skipurit félagsins og boðleiðir ekki virtar og loks að hún hafi verið ásökuð um trúnaðarbrest. 

                Í niðurstöðum skýrslunnar segir m.a.: 

             Undirrituð telja ekki að sú ákvörðun Ólafíu að hafa Elías sér við hlið varðandi kjaramálin sé neikvæð eða niðurlægjandi framkoma í garð Söru Lindar. Það telst hins vegar aðfinnsluvert að hún skyldi ekki gera það í samráði við Söru Lind sem hans næsta yfirmann og ámælisvert að bregðast ekki við ítrekuðum óskum Söru Lindar um aukið samráð. – Þau rök Ólafíu að hún hafi ekki útskýrt fyrir Söru Lind að hún hygðist hafa Elías sér við hlið í kjaramálavinnunni vegna þess að hún hafi ekki verið búin að gera upp við sig hvernig hún vildi hafa skipulagið til framtíðar eru ekki ásættanleg. Það virðist ljóst að frá degi til dags upplifði Sara Lind að það væri fram hjá sér gengið, óskaði ítrekað eftir breytingum og útskýringum en fékk hvorugt. 

             Fullyrðingar Söru Lindar og tveggja viðmælanda um skipulagsbreytingar hafi verið fyrirsláttur, hin raunverulega ástæða uppsagnar hafi verið persónuleg óvild og vantraust Ólafíu í garð Söru Lindar eru studdar vísunum í ónafngreinda stjórnarmenn og er vísað á bug af Ólafíu. Ólafía og tveir aðrir viðmælendur benda á að það hafi verið ljóst í kosningabaráttunni að Ólafía myndi beita sér fyrir breytingum á skipulagi kjaramála næði hún kosningu. Ágreiningur innan stjórnar um hvernig staðið var að uppsögninni og skipulagsbreytingunum getur á sama hátt ekki talist staðfesting á því hvað Ólafíu gekk til með því að beita sér fyrir brottvikningu Söru Lindar. 

             Þau atriði í framkomu Ólafíu sem undirrituð telja aðfinnsluverð (að hafa ekki samráð við Söru Lind varðandi hlutverk Elíasar á fyrstu mánuðum hennar í starfi) flokkast að mati undirritaðra ekki undir neikvæða og/eða niðurlægjandi framkomu. Þau atriði sem undirrituð telja ámælisverð (að bregðast ekki á fullnægjandi hátt við óskum Söru Lindar um samráð) flokkast hins vegar að mati undirritaðra undir neikvæða og /eða niðurlægjandi framkomu. 

             Til að neikvæð og /eða niðurlægjandi framkoma geti talist einelti þarf þremur öðrum skilyrðum að vera fullnægt: endurtekning, erfitt að verjast og vanlíðan þess sem fyrir verður. Að mati undirritaðra leikur enginn vafi á að tveimur síðari skilyrðunum er fullnægt í þessu máli: Sara Lind átti erfitt með að verjast þeim aðstæðum sem ollu henni vanlíðan og óöryggi. Þá er vanlíðan hennar staðfest af vinnufélögum og geðlækni. Varðandi endurtekninguna gegnir öðru máli. Málsaðilar unnu á sama vinnustað í rúma tvo mánuði, Sara Lind greinir frá því að hún hafi byrjað að upplifa vanlíðan um miðjan maí eða fimm síðustu vikurnar af samstarfi þeirra. Þó að hin ámælisverða framkoma (hundsun á óskum Söru Lindar um samráð) hafi verið viðvarandi, þá getur framkoma hennar ekki talist harkaleg, gróf eða verulega ógnandi og því að mati undirritaðra ekki réttmætt vegna hins stutta tímaramma að flokka hina ámælisverðu hegðun Ólafíu undir einelti á vinnustað. 

             Það er því niðurstaða undirritaðra að framkoma Ólafíu B. Rafnsdóttur formanns VR í garð Söru Lindar Guðbergsdóttur fyrrum starfsmanns VR teljist ekki vera einelti á vinnustað, en jafnframt að viðbragðaleysi hennar gagnvart óskum Söru Lindar um samráð sé ámælisvert.

                Stefnandi leitaði til Högna Óskarssonar geðlæknis í lok júní 2013.  Í vottorði læknisins, dags. 9. september 2013, er lýst atvikum og ástæðum vanlíðunar stefnanda eftir lýsingum hennar sjálfrar.  Í vottorðinu segir m.a.:  „Sara Lind fór mjög fljótt að finna til vanlíðunar sem hófst eftir að nýi formaðurinn tók við störfum.  Kvíði magnaðist upp með mikilli innri spennu, sem m.a. kom fram í verulegum svefn­truflunum.  Smám saman brotnaði sjálfstraust hennar niður, hún upplifði sig van­máttuga og lítilsvirta af Ólafíu, ekki síst þar sem hún fékk engin svör eða skýringar á þessari breyttu stöðu sinni.“  Í lok vottorðsins er stefnandi greind með þunglyndi, áfallastreituröskun og almenna kvíðaröskun. 

                Högni Óskarsson staðfesti vottorð sitt fyrir dómi.  Hann sagði einkenni stefnanda vera dæmigerð fyrir þá sem orðið hafi verið einelti.  Stefnandi hefði sýnt öll einkenni þess að hafa orðið fyrir einelti. 

                Stefnandi kvaðst í aðilaskýrslu sinni telja að ekki hefði verið nauðsynlegt vegna skipulagsbreytinganna að segja henni upp störfum.  Sér hefði liðið illa eftir upp­sögnina og það hefði ekki bætt líðan hennar að uppsögnin hafi verið tilkynnt opinberlega. 

                Ólafía Björk Bjarnason Rafnsdóttir sagði í skýrslu sinni fyrir dómi að hún hefði lagt mikla áherslu á kjaramál í kosningabaráttu sinni til formanns.  Sér hefði þótt að skipulag félagsins legði ekki nóga áherslu á þau mál og því hefði hún byrjað á því að endurskoða skipurit félagsins.  Með breytingum þeim sem hún hafi hrint í fram­kvæmd hafi starf stefnanda verið lagt niður, það hafi orðið óþarft.  Hún neitaði því að persónulegir hagsmunir hennar hefðu ráðið því að stefnanda var sagt upp. 

                Ólafía kvaðst hafa leitað mikið til Elíasar G. Magnússonar.  Hann sé búinn að starfa mjög lengi hjá félaginu og hafi mikla þekkingu á kjaramálum.  Hún kvaðst ekki hafa ætlað að ganga fram hjá stefnanda og hafi ekki unnið að því að grafa undan henni. 

                Helga Árnadóttir, sem var framkvæmdastjóri stefnda, sagði fyrir dómi að hún hefði séð að Ólafía vildi ekki boða stefnanda til funda.  Hún hefði reynt að leysa þetta vandamál, en svo hefði komið í ljós að Ólafía treysti stefnanda ekki. 

                Málsástæður og lagarök stefnanda

                Stefnandi kveðst beina skaðabótakröfu sinni samkvæmt sakarreglunni að stefnda sem tjónvaldi, en starfsmenn hans hafi valdið tjóninu.  Tekur hann fram að Ólafía B. Rafnsdóttir sé starfsmaður stefnda samkvæmt sérstökum ráðningarsamningi. 

                Skyldur vinnuveitanda

                Stefnandi kveðst telja það mannréttindi að launþegum líði vel í vinnu sinni og að þeir sæti ekki einelti.  Vísar hún til verndar atvinnuréttinda og atvinnufrelsis samkvæmt 72. og 75. gr. stjórnarskrárinnar og 71. gr. hennar um vernd persónu, æru og friðhelgi einstaklinga.  Stefnda hafi borið að tryggja öruggt og heilsusamlegt starfs­umhverfi fyrir starfsmenn sína, sbr. 1. mgr. 37. gr. og 66. gr. laga nr. 46/1980.  Vinna hafi átt skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustaðnum, sbr. 65. gr. og 65. gr. a í sömu lögum.  Þá hafi stefnda borið að skipuleggja vinnu þannig að dregið væri úr hættu á einelti og láta ekki einelti viðgangast, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 1000/2004.  Þá hafi borið að gera áhættumat vegna eineltis, sbr. 5. gr. sömu reglugerðar. 

                Ámælisverð háttsemi 

                Stefnandi byggir á því að Ólafía B. Rafnsdóttir hafi lagt hana í einelti með ámælisverðri háttsemi og síendurtekinni ótilhlýðilegri háttsemi.  Háttsemin hafi verið til þess fallin að niðurlægja, gera lítið úr, móðga, særa, mimuna og valda óöryggi, kvíða og almennri vanlíðan hjá stefnanda.  Með eineltinu hafi verið grafið undan stjórnunar- og ábyrgðarhlutverki stefnanda og stöðu hennar hjá stefnda.  Stefndi hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt þeim ákvæðum laga nr. 46/1980 og reglugerðar nr. 1000/2004 sem getið er hér að framan.  Þá hafi hann ekki brugðist við ábendingum um einelti, sem hafi náð hámarki með ólögmætri brottvikningu stefnanda úr starfi. 

                Stefnandi vísar til þess stefndi hafi sýnt sinnuleysi með 6 vikna drætti á að koma eineltiskvörtun hennar í ferli.  Sömuleiðis hafi verið vanrækt að móta verk­lýsingu fyrir Líf og sál áður en vinna stofunnar hófst.  Þannig hafi 9 vikur liðið frá því að kvartað var þar til viðtal var tekið við stefnanda.  Hér hafi verið brotið gegn 7. gr. reglugerðar nr. 1000/2004. 

                Stefnandi byggir á því að henni hafi verið sagt upp með ólögmætum hætti, rangar upplýsingar hafi verið gefnar um ástæður uppsagnarinnar, m.a. opinberlega.  Þá hafi ekki verið fylgt ákvæðum kjarasamnings um útskýringar á ástæðum uppsagnar. 

                Einelti

                Stefnandi kveðst vera lögfræðingur og hafa gegnt stöðu deildarstjóra ráðgjafa­deildar VR, en í deildinni starfi um 22 starfsmenn.  Deildin annast m.a. þjónustu við atvinnuleitendur, starfsendurhæfingarráðgjöf og kjaramálaráðgjöf.  Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður stefnda, hafi lagt hana í einelti frá því í síðari hluta apríl 2013 til 25. júní sama ár og hafi stefndi ekki gripið til aðgerða til að varna eineltinu. 

                Stefnandi kveðst m.a. hafa verið útilokuð frá fundum á sínu sviði af for­manninum.  Hún hafi leitað beint til undirmanns hennar, Elíasar G. Magnússonar, og fengið hann með sér á fundi.  Hún hafi aldrei leitað til stefnanda.  Elías hafi þannig sótt deildarfundi í Vestmannaeyjum og á Egilsstöðum í maí 2013.  Stefnandi kveðst hafa ætlað að biðja Elías að mæta á fundina, en þá hafi komið í ljós að formaðurinn hafi verið búin að boða hann, án samráðs við stefnanda. 

                Þá rekur stefnandi fund aðila vinnumarkaðarins til undirbúnings kjara­samningsgerðar og kynningar á norrænni skýrslu um kjaramál þann 21. maí 2013, sem hún hafi séð í sjónvarpsfréttum að formaður hafi mætt á með Elíasi.  Sama eigi við um fund sem haldinn hafi verið 5. júní 2013 til að ræða spurningakönnun um kjaramál sem senda hafi átt félagsmönnum.  Þá hafi stefnandi verið sniðgengin er formaður sótti, ásamt Elíasi, fund um kjaramál meðal norrænna samstarfsaðila stefnda, svo­kallaða höfuðborgarráðstefnu, þann 11.-13. júní 2013.  Stefnandi segir að Ólafía hafi sagt sér frá þessari ráðstefnu, en hún ekki viljað gera athugasemdir við þessa tilhögun.  Þó hafi hún beðið Ólafíu um að taka meira tillit til hennar í framtíðinni. 

                Stefnandi byggir á því að með framangreindri háttsemi hafi starf hennar og hæfni verið lítilsvirt á móðgandi hátt, dregið úr ábyrgð hennar og verkefnum að ástæðulausu.  Jafnframt hafi fagleg samskipti hennar við aðra aðila á hennar ábyrgðar­sviði verið hindruð, sem sé bæði lítilsvirðandi og hafi gert henni erfiðara um vik að sinna starfi sínu.  Vinnuveitandi hafi ekki gripið hér inn í. 

                Stefnandi segir að gengið hafi verið fram hjá sér í tengslum við fræðslu um kjarasamningagerð og kjaramál fyrir stjórnarmenn stefnda þann 11. maí 2013.  Ólafía hafi skipulagt fræðsluna án aðkomu stefnanda, en kallað til undirmann hennar.  Sama eigi við um stjórnarfund stefnda þann 29. maí 2013.  Þá hafi stefnandi verið boðuð sem almennur starfsmaður á fund um kjaramál með trúnaðarmönnum, trúnaðarráði og starfsmönnum stefnda þann 10. júní 2013.  Ólafía hafi ekki rætt við stefnanda um fundinn, en óskað eftir því að Elías héldi erindi á fundinum, án vitneskju stefnanda.  Elías hafi í erindi sínu stuðst við glærur sem stefnandi hefði unnið. 

                Þá nefnir stefnandi fund sem Ólafía hafi óskað eftir með deild stefnanda.  Stefnanda hafi verið gert ljóst að hún hefði ekki hlutverk á fundinum, en vísað hafi verið til Elíasar sem yfirmanns deildarinnar. 

                Loks segir stefnandi að Ólafía hafi ekki viljað þiggja upplýsingar um verkefni Starfs ehf., þótt komið hafi á daginn að hún hefði haft þörf fyrir að kynna sér málefnið sem hún hafi haft litla þekkingu á.  Á sama hátt hafi Ólafía einnig hafnað upplýsinga­gjöf um starfsemi VIRK-starfsendurhæfingarsjóðs án málefnalegrar ástæðu. 

                Stefnandi byggir á því að með þessari háttsemi formanns stefnda hafi ábyrgðarsvið stefnanda verið rýrt, gert lítið úr starfi hennar og hún niðurlægð. 

                Stefnandi byggir á því að upplýsingum hafi verið haldið frá sér og að óskir hennar um fundi hafi verið hundsaðar.  Þáverandi framkvæmdastjóri stefnda hafi og staðfest að Ólafía hafi ekki viljað hafa stefnanda með í ráðum.  Ítrekaðar tilraunir til að fá fund með formanninum hafi ekki borið árangur, þótt fyrirheit hafi verið gefin.  Segir stefnandi að slík háttsemi æðsta starfsmanns stéttarfélags gagnvart deildarstjóra stærstu deildar félagsins sé óeðlileg og niðurlægjandi.  Stefnandi hafi með þessu verið lítilsvirt og vinnuveitandi hafi ekki gripið til viðeigandi ráðstafana. 

                Stefnandi gerir sérstaka athugasemd við niðurstöður í skýrslu Lífs og sálar.  Telur hún að skilgreining á hugtakinu einelti í skýrslunni sé of þröng.  Ekki sé unnt að krefjast þess að einelti standi tiltekinn lágmarkstíma eða að háttsemi sé sérstaklega gróf.  Háttsemi Ólafíu hafi verið einelt samkvæmt lögum og stefnandi hafi ekki notið forsvaranlegrar verndar gegn einelti. 

                Brottvikning vegna óvildar – ólögmæt uppsögn

                Stefnandi byggir á því að henni hafi verið sagt upp vegna óvildar Ólafíu B. Rafnsdóttur í sinn garð.  Engar málefnalegar forsendur með tilliti til starfshæfni eða frammistöðu stefnanda hafi réttlætt uppsögnina. 

                Þá hafi uppsögnina ekki borið að með lögmætum hætti.  Formaður félagsins hafi þvingað framkvæmdastjóra til að segja stefnanda upp störfum.  Uppsögnin hafi verið réttlætt með tilvísun til skipulagsbreytinga, en þær hefðu ekki verið ræddar í stjórn þegar uppsögnin fór fram.  Þarna hafi formaður gripið fram fyrir hendur framkvæmdastjóra um starfsmannamál. 

                Stefnandi byggir á því að jafnvel þótt stjórn stefnda getið gripið fram fyrir hendur framkvæmdastjóra í starfsmannamálum og ákveðið uppsögn, þá þurfi lög­mætan stjórnarfund til þess að taka slíka ákvörðun. 

                Uppsögnin hafi verið ámælisverð háttsemi sem gert hafi lítið úr stefnanda og niðurlægt hana.  Hún hafi gefið ranga mynd af starfshæfni hennar og frammistöðu og mismunað henni gagnvart öðrum starfsmönnum stefnanda.  Uppsögnin hafi skaðað starfsheiður stefnanda og valdið henni verulegri vanlíðan. 

                Þá er því lýst í stefnu að eftir að stefnanda hafi verið afhent uppsagnarbréf hafi henni verið gert að hætta strax störfum.  Lyklar og aðgangskort hafi verið tekin af henni og henni verið fylgt á niðurlægjandi hátt í gegnum skrifstofu stefnda til að sækja veski sitt og síðan út úr húsnæði stefnda. 

                Samantekt

                Stefnandi segir að háttsemi Ólafíu hafi leitt til alvarlegrar vanlíðunar sem birst hafi í þunglyndi, áfallastreituröskun og kvíðaröskun.  Vísar stefnandi hér til vottorðs Högna Óskarssonar geðlæknis.  Þá hafi Líf og sál einnig komist að þeirri niðurstöðu að þær aðstæður sem stefnandi bjó við síðustu vikur hennar í starfi hjá stefnda hafi valdið henni verulegri vanlíðan. 

                Stefnandi vísar til skýrslu Lífs og sálar, auk viðbragða stefnda við erindi hennar, sem sýni að verulegar brotalamir hafi verið í starfsemi stefnda varðandi viðbrögð við einelti.  Í skýrslunni séu einnig nefnd ýmis dæmi um aðfinnsluverða og ámælisverða háttsemi Ólafíu gagnvart stefnanda. 

                Stefnandi byggir á því að skýrslan styðji þá staðhæfingu að hún hafi lögum samkvæmt verið þolandi eineltis.  Sú afstaða að einelti þurfi að standa í ákveðinn lágmarkstíma eða vera sérstaklega gróft sé ekki í samræmi við lög.  Stefnandi telur að í skýrslunni sé lögð til takmörkun á eineltishugtakinu, sem sé þvert á markmið og verndarandlag réttarreglna sem vernda eigi launþega gegn einelti, sérstaklega árásar­einelti yfirmanns.  Önnur niðurstaða myndi leiða til þess að vinnuveitandi gæti losnað undan ábyrgð vegna eineltis með því einu að segja þolanda nógu tímanlega upp störfum. 

                Ólögmæt og niðurlægjandi framkvæmd uppsagnar

                Stefnandi byggir á því að uppsögn hennar hafi verið ólögmæt vegna þess hvernig að henni var staðið og þar sem veittar hafi verið rangar upplýsingar um tildrög og ástæður uppsagnarinnar.  Þá hafi verið brotið gegn rétti hennar til fundar innan ákveðins tíma og varðandi skýringar á einstaklingsbundnum ástæðum uppsagnar. 

                Stefnandi byggir á því að raunveruleg ástæða uppsagnar hafi verið óvild Ólafíu í hennar garð.  Ekki hafi verið búið að ræða neinar skipulagsbreytingar í stjórn þegar stefnanda var sagt upp. 

                Þá hafi hún ekki fengið viðtal um ástæður uppsagnar fyrr en 8 dögum eftir að hún bað um fund, en samkvæmt gr. 12.2.2 eigi að halda slíkan fund innan fjögurra daga. 

                Í samræmi við framangreint telur stefnandi að henni hafi verið veittar rangar upplýsingar um raunverulegar ástæður uppsagnarinnar.  Með því sé einnig brotið gegn gr. 12.2.2, en það sé forsenda að réttar skýringar séu gefnar.  Þá séu skýringarnar svo almennar og óljósar að þær uppfylli ekki skilyrði kjarasamnings.  Þá kveðst stefnandi byggja á því að stefndi hafi með uppgefnum ástæðum uppsagnarinnar látið að því liggja að stefnandi réði ekki við starf sitt.  Það sé rangt, ástæða uppsagnar hafi eins og áður segir verið persónuleg óvild formanns stefnda.  Þá hafi stefndi dreift þessum röngu upplýsingum um ástæður uppsagnar, fyrst á vef stefnda, en þær hafi síðan ratað í fjölmiðla. 

                Stefnandi telur að með þessu hafi verið vegið að persónu, æru og starfsheiðri sínum á óheiðarlegan hátt.  Það sé sérstaklega ámælisvert að stéttarfélag skuli standa þannig að uppsögn. 

                Bótaskylda og fjárhæð bóta

                Eins og rakið hefur verið byggir stefnandi á því að stefndi hafi ekki sinnt skyldum sínum varðandi vinnuvernd og varnir gegn einelti.  Þá hafi Ólafía lagt stefnanda í einelti án þess að hún nyti verndar stefnda.  Þá beri stefndi ábyrgð á ólög­mætri uppsögn stefnanda og á því að ekki var haldinn fundur í tæka tíð um ástæður uppsagnar.  Þá hafi brottför stefnanda af vinnustað verið niðurlægjandi og tilkynning um uppsögnina og opinber umfjöllun hafi aukið á vanlíðan og miska stefnanda. 

                Stefnandi telur að stefndi hefði getað komist hjá því að valda tjóni með því að fylgja lögmæltum vinnuverndarreglum. Þannig hefðu verklagsreglur getað komið í veg fyrir eineltið eða stöðvað það á fyrstu stigum.  Þá hefði framkvæmd áhættumats getað sýnt veikleika í viðbrögðum VR vegna eineltis.  Tilefni hafi verið til að fram­kvæma áhættumat hjá stefnda, m.a. vegna stöðu stefnanda og þeirrar staðreyndar að sambýlismaður hennar hafði verið mótframbjóðandi Ólafíu í formannskjöri. 

                Stefnandi byggir á því að orsakatengsl hafi verið á milli háttsemi stefnda og tjónsins.  Eineltið og uppsögnin hafi leitt bæði til líkamlegrar og andlegrar vanlíðunar.  Hvort tveggja hafi dregið úr starfsþreki og lífsfyllingu stefnanda.  Hún hafi orðið fyrir álitshnekki og starfsheiður hennar skaðast.  Þessi skaði hafi verið magnaður með framkvæmd uppsagnarinnar og röngum upplýsingum um ástæður hennar. 

                Stefnandi vill horfa til þess að miski hennar sé verulegur og tjóni hafi verið valdið af stéttarfélagi hennar, sem hefði átt að veita skjól í stað þess að valda skaða.  Telur hún því 2.000.000 króna hæfilegar bætur.  Bendir hún á í því sambandi að fjár­hæðin sé einungis um 20% af hámarksfjárhæð varanlegs miska miðað við tjónsdag, sbr. 4. gr., sbr. 15. gr. skaðabótalaga.  Þá sé stefndi fjárhagslega sterkur aðili. 

                Stefnandi vitnar til stjórnarskrárinnar, einkum 71., 72. og 75. gr., almennra meginreglna skaðabótaréttar og skaðabótalaga nr. 50/1993, einkum 26. gr., almennra reglna vinnuréttar, laga nr. 46/1980 og reglugerðar nr. 1000/2004. 

                Málsástæður og lagarök stefnda

                Stefndi byggir á því að uppsögn stefnanda hafi verið lögmæt og hann efnt allar skyldur sínar samkvæmt ráðningarsamningi hennar.  Raunar hafi hann greitt henni laun í lengri uppsagnarfresti en honum hafi verið skylt. 

                Stefndi byggir á því að hann hafi við uppsögnina fylgt ákvæðum 12. kafla kjarasamnings.  M.a. hafi stefnanda verið gerð grein fyrir ástæðum uppsagnar.  Ástæðan hafi verið skipulagsbreytingar, sem ekki hafi verið til málamynda.  Starfs­lokakjör stefnanda hafi verið betri en hún hafi átt rétt á.  Uppsögnin hafi því verið framkvæmd með lögmætum hætti. 

                Stefndi segir í greinargerð sinni að hann vilji árétta vegna málatilbúnaðar stefnanda að hann sé stéttarfélag sem ráði málum sínum sjálft að gættum landslögum.  Í því felist að stefnandi eigi ekki lögvarða kröfu til þess að krefja stefnda um gögn og skýringar í samræmi við það sem hún telji fullnægjandi. 

                Stefndi segir það meginreglu á hinum almenna vinnumarkaði að starfsmenn og vinnuveitendur geti sagt upp ráðningarsamningum og það án þess að gefa upp sérstaka ástæðu.  Hins vegar sé það eðlileg kurteisi að gefa skýringar.  Það hafi leitt til þess að í kjarasamning hafi verið tekið ákvæðið í gr. 12.2.2.  Það geri hins vegar ekki neinar kröfur til ástæðna uppsagnar og takmarki því ekki rétt til að segja starfsmönnum upp störfum. 

                Samkvæmt framansögðum mótmælir stefndi því að uppsögn stefnanda hafi verið ólögmæt eða framkvæmd með vanvirðandi hætti eða á einvern annan hátt sem valdi því að hann sé skaðabótaskyldur gagnvart stefnanda.  Stefnanda hafi verið sýndur fullur sómi.  Mótmælir hann því að skilyrðum 26. gr. skaðabótalaga sé full­nægt. 

                Stefndi mótmælir því að stefnandi hafi sætt einelti af hálfu formanns stefnda.  Hún hafi ekki sætt einelti, hvorki samkvæmt almennum skilgreiningum né þeim skil­greiningum sem byggt hafi verið á í skýrslu Lífs og sálar.  Stefndi mótmælir því að komist hafi verið að þeirri niðurstöðu í skýrslunni að framkoma formanns hafi verið ámælisverð.  Framkoma formannsins réttlæti ekki viðurlög eða áminningu af nokkru tagi eða skapi stefnanda rétt til miskabóta. 

                Stefndi byggir á því að stefnanda hafi hvorki verið sýnd meinfýsi né yfir­gangur, hún hafi ekki orðið fyrir kerfisbundinni eða síendurtekinni vanvirðandi hátt­semi í þeim tilgangi að niðurlægja hana, gera lítið úr henni, móðga hana, særa, mismuna eða ógna.  Vísar stefndi hér til 3. gr. reglugerðar nr. 1000/2004. 

                Stefndi segir að þau tilvik sem stefnandi byggi málatilbúnað sinn á falli ekki að skilgreiningum laga á einelti.  Kveðst hann mótmæla sérstaklega fullyrðingum um svokallað árásareinelti.  Það komi hvergi fram í skjölum eða gögnum.  Þá mótmælir stefndi sönnunargildi vottorðs Högna Óskarssonar geðlæknis, en það byggi ekki nema að takmörkuðu leyti á eigin upplifun læknisins. 

                Stefndi lýsir því í greinargerð sinni að núverandi formaður hafi verið kosin um miðjan mars 2013.  Rekur hann verkefni formannsins samkvæmt lögum nr. 80/1938 og lögum félagsins.  Segir hann m.a. að formaður leiði stjórn félagsins sem stýri öllum málefnum félagsins milli aðalfunda og vinni stefnumótun fyrir félagið og að fram­gangi mála.  Formaður félagins sé jafnframt formaður samninganefndar félagsins, sbr. 17. gr. laga stefnda, sbr. einnig 4. mgr. 15. gr. laga nr. 80/1938.  Formaður komi þannig fram fyrir hönd félagsins við gerð kjarasamninga.  Þá sé formaður félagsins einnig formaður trúnaðarráðs sem samkvæmt 17. gr. skuli samþykkkja kröfugerð félagsins áður en hún er lögð fram við kjarasamningagerð.  Segir síðan að það teljist ekki eineltishegðun að stefndi hafi þurft að fara eftir því skipulagi sem lög félagsins og lög ASÍ, sem hann eigi aðild að, geri ráð fyrir um kjarabaráttu. 

                Stefndi kveðst byggja á því að athafnir og framkoma formanns í starfi þá tvo mánuði sem hún starfaði með stefnanda, hafi verið í samræmi við þau verkefni og þær skyldur sem hvíli á formanni.  Segir hann að eðlilegt hafi verið, eins og aðstæðum var háttað, að formaður færi ekki um milliliði í samskiptum sínum við þá starfsmenn sem gerst hafi þekkt til kjarasamningsgerðar.  Bendir stefndi á að stefnanda hafi ekki gefist ráðrúm til að kynna sér þennan þátt í starfi sínu. 

                Stefndi byggir á því að skipulag skrifstofustarfsemi víki ekki til hliðar lög­bundnu skipulagi stefnda sem stéttarfélags.  Stefnandi hafi ekki átt rétt á einhverri sérstakri meðhöndlun í starfi eða virðingarstöðu.  Hún hafi ekki átt að leiða vinnu við kjarasamningagerð samkvæmt lögum félagsins og það feli ekki í sér neina van­virðingu gagnvart henni að fara eftir lögunum. 

                Stefndi segir að stefnandi hafi aldrei haft ráðrúm til að fjalla um þau málefni sem snertu kjarasvið og sótt fáa fundi um þau málefni.  Starfsmaðurinn Elías G. Magnússon hafi leyst þau verkefni sem fyrr.  Formanni hafi ekki verið skylt að hafa fyrst samband við stefnanda sem deildarstjóra áður en hann leitaði fulltingis annarra starfsmanna. 

                Stefndi mótmælir því að stefnandi hafi verið útilokuð frá fundum þannig að það teljist hafa verið einelti.  Hún hafi ekki verið útilokuð frá fundum, en hins vegar ekki boðuð á alla fundi eðli máls samkvæmt.  Þau tilvik sem stefnandi reki eigi sér ýmsar skýringar, en engin þeirra lúti að persónu stefnanda eða afstöðu formanns stefnda til hennar. 

                Stefndi segir að sú staðhæfing í skýrslu Lífs og sálar að stefnandi hafi haft sérfræðiþekkingu á sviði starfsendurhæfingarmála eigi ekki við rök að styðjast.  Stefnandi hafi verið 28 ára gömul er atvik málsins urðu sumarið 2013.  Hún hafi lokið meistaranámi í lögfræði í október 2012, haustið eftir að hún var ráðin til stefnda.  Vinnu hennar hjá Vinnumálastofnun, samhliða námi, verði ekki jafnað til sérfræði­náms eða geti talist vera sérfræðistarf á þessu sviði.  Stefndi vísar til þess að því hafi verið slegið föstu í máli hér fyrir dómi nr. E-1470/2013 að stefnandi hefði búið að tak­markaðri starfsreynslu.  Þessi dómur hafi fullt sönnunargildi samkvæmt 4. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991.  Því verði að gjalda varhug við ályktunum í skýrslunni um að stefnandi hafi verið sérfræðingur á tilteknum sviðum. 

                Stefndi segir að stefnandi hafi ekki nefnt einelti fyrr en eftir að henni hafði verið sagt upp störfum.  Umkvartanir sem hún hafi haft uppi áður séu skyldari baktali en málefnalegum athugasemdum. 

                Stefndi byggir á þvi að það geti ekki kallast einelti þótt nýr formaður hafi ekki fundað sérstaklega með stefnanda um málefni Starfs ehf. á þeim tímapunkti sem stefnandi hafi talið viðeigandi.  Nýkjörinn formaður hafi orðið að forgangsraða verk­efnum sínum.  Þá hafi ekki þurft að kynna formanninum málefni Virks starfsendur­hæfingar, sem hún hafi þekkt gjörla.  Þá hafi öllum starfsmönnum verið fært að taka formanninn tali ef þeir vildu ræða einhver málefni. 

                Stefndi krefst til vara þess að bætur verði ekki dæmdar svo háar sem stefnandi krefjist.  Hann mótmælir því að unnt sé að tengja fjárhæð bóta samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga við 4. gr. sömu laga.  Þá mótmælir hann því að heimilt sé að tengja fjár­hæðina fjárhag stefnda á einhvern hátt.  Refsikenndar skaðabætur sem taki mið af greiðslugetu tjónsvalds eigi sér ekki stoð í íslenskum rétti. 

                Niðurstaða

                Stefnandi vísar til sakarreglunnar til stuðnings kröfu sinni, en reifar ekki fjár­tjón sem hún hafi orðið fyrir.  Hún krefst einungis miskabóta samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga og beinir kröfunni að stefnda á grundvelli reglunnar um húsbónda­ábyrgð. 

                Þótt sakarreglan geti átt við um atvik er hún ekki næg heimild til greiðslu miskabóta samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga.  Stefnandi heldur því ekki fram að hún hafi orðið fyrir varanlegum miska, sbr. 4. gr. laganna, og hefur ekki lagt fram mats­gerð um slíkan miska.  Verður ekki fjallað frekar um sakarregluna. 

                Samkvæmt b-lið 1. mgr. 26. gr. má láta þann sem ber ábyrgð á ólögmætri meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu annars manns greiða miskabætur til þess sem misgert er við.  Ákvæði a-liðar 1. mgr. eða 2. mgr. 26. gr. koma ekki til álita í þessu máli. 

                Sannað er með skýrslu Lífs og sálar og skýrslu Helgu Árnadóttur fyrir dómi að Ólafía B. Rafnsdóttir, þá nýkjörin formaður stefnda, leitaði ekki neitt til stefnanda eftir að hún kom til starfa hjá félaginu.  Byggja verður á því að hún hafi vísvitandi gengið fram hjá stefnanda þegar hún leitaði ítrekað til undirmanns hennar þegar fjalla skyldi um viðfangsefni deildar þeirrar sem stefnandi veitti forstöðu.  Fallast má á það með stefnanda að þetta hafi ekki verið eðlileg vinnubrögð. 

                Málatilbúnaður stefnanda byggist að talsverðu leyti á því að hún hafi sætt einelti með útilokun frá starfsemi félagsins og þeim verkefnum sem átti samkvæmt skipuriti að vinna á kjarasviðinu.  Hún hafi verið útilokuð frá starfinu og með því sýnd lítilsvirðing.  Á þetta verður ekki fallist.  Starfsmaður á almennt ekki kröfu til þess að sinna ákveðnum verkefnum eða að aðrir sinni þeim ekki.  Úrræði starfsmanns gagn­vart slíku eru ekki önnur en riftun ráðningarsamnings.  Þótt vinnubrögð formanns hafi ekki getað talist eðlileg fólst ekki í þessari framgöngu ólögmæt meingerð gegn persónu eða æru stefnanda.  Frekar þarf ekki að leysa úr málsástæðum hennar að þessu leyti, en kröfu hennar um bætur er eins og áður segir einungis hægt að taka til greina ef fullnægt er skilyrðum 26. gr. skaðabótalaga.  Verður því ekki felldur dómur um það hvort framkoma formannsins gagnvart stefnanda teljist vera einelti í skilningi reglugerðar nr. 1000/2004. 

                Stefnandi telur að uppsögn sín hafi verið ólögmæt.  Hún byggir annars ekki sérstakar kröfur á þessu, en telur þetta vera hluta af því einelti sem hún sætti.  Stefnanda var sagt upp af framkvæmdastjóra stefnda, sem óumdeilt er að annast starfsmannamál.  Formaður stefnda gaf framkvæmdastjóranum fyrirmæli um að segja stefnanda upp, en framkvæmdastjórinn sagði henni upp og hafði til þess heimild.  Þarf ekki málefnalegar ástæður til að starfsmanni verði sagt upp störfum.  Uppsögnin var ekki ólögmæt.  Stefnanda voru skýrðar ástæður uppsagnarinnar á fundi og síðan bréflega að hennar kröfu.  Ósannað er að skýringar þær sem gefnar voru séu fyrir­sláttur og hér hefur ekki verið unnin ólögmæt meingerð gegn stefnanda. 

                Stefnandi kvartaði yfir einelti er hún hefði sætt eftir að hún hætti störfum.  Viðbrögð létu að einhverju leyti á sér standa, en það skýrist sennilega að hluta til af sumarleyfum og hugsanlega því að áætlanir hafi ekki verið til hjá stefnda um viðbrögð við ásökunum um einelti.  Þótt viðurkennt yrði að stefndi hefði vanrækt skyldur sínar í því efni, leiðir það ekki til þess að krafa stefnanda um miskabætur yrði tekin til greina.  Verður því ekki fjallað nánar um þessa málsástæðu hennar. 

                Í stefnu er loks fullyrt að þegar stefnanda hafði verið afhent uppsagnarbréf hafi henni verið fylgt í gegnum skrifstofu stefnda á niðurlægjandi hátt.  Þetta er ekki skýrt frekar, hvorki í stefnu, öðrum gögnum málsins né skýrslum fyrir dómi.  Er því ekki unnt að taka þetta atriði til nánari skoðunar.  Þá hefur ekki verið sýnt fram á að frásögn stefnda af uppsögn stefnanda hafi verið meiðandi. 

                Samkvæmt framansögðu er ekki sýnt fram á að stefnandi hafi sætt ólögmætri meingerð gegn æru sinni eða persónu í skilningi 26. gr. skaðabótalaga.  Verður stefndi því sýknaður af öllum kröfum hennar. 

                Rétt er að málskostnaður falli niður. 

                Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan. 

D ó m s o r ð

                Stefndi, VR, er sýknaður af öllum kröfum stefnanda, Söru Lindar Guðbergsdóttur. 

                Málskostnaður fellur niður.